Hæstiréttur íslands
Mál nr. 494/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaðartrygging
|
|
Miðvikudaginn 5. janúar 2000. |
|
Nr. 494/1999. |
Rafmagnsveitur ríkisins (Lárus L. Blöndal hrl.) gegn Norræna sjóeldinu hf. (Garðar Briem hrl.) |
R stefndi N til greiðslu skuldar og gagnstefndi N R. Krafðist R þess að N yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar við þingfestingu gagnsakarinnar. Talið var að þar sem R hefði höfðað málið á hendur N hefði heimild til þess að krefjast málskostnaðartryggingar legið hjá N, en lagarök voru ekki talin til þess að heimildin færðist til R þó N höfðaði gagnsök á móti honum. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um að hafna kröfu R.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. desember 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 23. nóvember 1999, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að setja málskostnaðartryggingu vegna gagnstefnu varnaraðila í máli, sem sóknaraðili höfðaði gegn varnaraðila. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar við þingfestingu gagnsakar í málinu og að tryggingin nemi eigi lægri fjárhæð en 25.000.000 krónum. Til vara er þess krafist að tryggingin nemi lægri fjárhæð. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar og málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar, en til vara að varnaraðila verði gert að leggja fram lægri málskostnaðartryggingu og að málkostnaður verði felldur niður.
Í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 er stefnda í héraði heimilað að krefjast þess við þingfestingu máls að stefnandi setji tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar. Sóknaraðili höfðaði málið í héraði á hendur varnaraðila og hefði heimild til þess að krefjast tryggingar fyrir greiðslu málskostnaðar því legið hjá varnaraðila, að uppfylltum tilgreindum skilyrðum. Eru ekki lagarök til þess að heimildin færist til sóknaraðila við það að varnaraðili höfði gagnsök á hendur honum. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki tekin til greina krafa þess fyrrnefnda um að sá síðarnefndi leggi fram tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í gagnsök í málinu. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Rafmagnsveitur ríkisins, greiði varnaraðila, Norræna sjóeldinu hf., 50.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 23. nóvember 1999.
I.
Stefnandi í aðalsök og sóknaraðili í þessum þætti málsins eru Rafmagnsveitur ríkisins, kt. 520269-2669, Rauðarárstíg 10, Reykjavík
Stefndi í aðalsök og varnaraðili í þessum þætti málsins er Norræna sjóeldið hf. kt. 690894-2709, Lambanesreykjum, Fljótum, Skagafirði
Málið er höfðað með stefnu sóknaraðila þingfestri 28. september sl. Í þinghaldi þann 9. nóvember sl. skilaði varnaraðili greinargerð í málinu. Samhliða greinargerð sinni lagði varnaraðili fram gagnstefnu. Í framhaldi af gagnstefnu varnaraðila krafðist sóknaraðili þess að varnaraðila yrði gert að setja tryggingu fyrir málskostnaði.
Í þinghaldi 16. þ.m. tjáðu lögmenn aðila sig um fram komna kröfu um málskostnaðartryggingu og að því loknu var krafan tekin til úrskurðar.
Dómkröfur í aðalsök eru þær að stefnda verði gert aðgreiða skuld að fjárhæð 3.836.926 krónur með nánar tilgreindum dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga frá 3. janúar 1996 til greiðsludags. Jafnframt er krafist málskostnaðar.
Aðalstefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum aðalstefnanda á grundvelli skuldajafnaðar en til vara krefst hann þess að honum verði ekki gert að greiða hærri fjárhæð en 2.368.848 krónur. Hann krefst og málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Dómkröfur í gagnsök eru þær aðallega að gagnstefnda verði gert að greiða gagnstefnanda 617.113.645 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 31. ágúst 1995 til greiðsludags. Til var er þess krafist að gagnstefnda verði gert að greiða 429.740.318 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 31. ágúst 1995 til greiðsludags. Til þrautavara er þess krafist, að gagnstefnda verði gert að greiða aðra lægri upphæð að mati dómsins með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 31. ágúst 1995 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar skv. mati réttarins eða skv. framlögðum málskostnaðarreikningi.
II.
Sóknaraðili krefst þess, að varnaraðila verði gert að setja tryggingu fyrir málskostnaði í héraði að fjárhæð 25.078.421 króna. Þessa fjárhæð reiknar hann út skv. gjaldskrá Almennu lögfræðistofunnar hf., miðað við ýtrustu kröfur varnaraðila í gagnstefnu hans.
Varnaraðili krefst þess aðallega, að kröfu sóknaraðila um málskostnaðartryggingu verði hafnað. Til vara er þess krafist að honum verði gert að leggja fram mun lægri fjárhæð en þá sem krafist er. Loks krefst hann málskostnaðar að mati dómsins í þessum þætti málsins og þess er jafnframt krafist að ákvörðun um fjárhæð málskostnaðar verði ekki frestað.
III.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila.
Sóknaraðili heldur því fram að ekki sé vitað til þess að varnaraðili hafi verið með rekstur síðastliðin ár og í gagnstefnu sé viðurkennt að félagið sé hætt starfsemi. Þá séu engir stjórnarmenn félagsins búsettir hér á landi og ógjörningur hafi verið fyrir sóknaraðila að birta greiðsluáskoranir vegna kröfu sinnar hér á landi. Stefnu í aðalsök hafi orðið að þýði yfir á norsku og láta birta hana fyrir norskum stjórnarmanni í Noregi.
Sóknaraðili staðhæfir að félagið sé eignalaust og í raun löngu komið í greiðsluþrot þótt formleg gjaldþrotaskiptameðferð á búinu hafi ekki hafist.
Sóknaraðili kveðst hafa reynt að athuga hjá embætti Ríkisskattstjóra hvernig ársreikningar varnaraðila væru með tilliti til eigna og skulda en þá hafi komið í ljós að hann hafi aldrei skilað Ríkisskattstjóra ársreikningum sínum. Slík háttsemi sé skýlaust brot á 69. gr. laga nr. 144/1994 um ársreikninga, sbr.. 4. tl. 1. mgr. 107. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög.
Sóknaraðili heldur því fram að öll skilyrði séu til þess að taka bú varnaraðila til gjaldþrotaskipta án afskipta kröfuhafa eða stjórnar félagsins. Samkvæmt vottorði Hlutafélagaskrár hafi engar tilkynningar borist um stjórn félagsins, framkvæmdastjórn eða aðra þá sem tilgreindir eru í 2. mgr. 149. gr. nefndra hlutafélagalaga, frá stofnun félagsins ár árinu 1994 og sé það, ásamt vanrækslu sem áður hefur verið nefnt varðandi skil á ársreikningum, skýlaust brot á 1. mgr. 107. gr. hlutafélagalaga og slík félög beri að taka til gjaldþrotaskipta skv. því lagaákvæði.
Sóknaraðili bendir einnig, máli sínu til frekari stuðnings, á bréf sýslumannsins á Sauðárkróki til Ríkisendurskoðunar frá 18. febrúar 1998. Í því bréfi komi fram að varnaraðili skuldi opinber gjöld og hafi gert það í mörg ár en allar innheimtutilraunir sýslumanns hafi reynst árangurslausar og hann meti þær vonlausar.
Sóknaraðili heldur því fram, með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið, að varnaraðili sé löngu aflagt og eignarlaust hlutafélag.
Sóknaraðili bendir á að höfuðstóll dómkröfu varnaraðila sé yfir 617.000.000 króna og með vöxtum sé krafan orðin um einn milljarður króna. Að mati sóknaraðila verður öll gagnaöflun og meðferð málsins í héraði mjög umfangsmikil. Þegar tekið sé tillit til umfangs málsins og hagsmuni í því þá sé ljóst að dæmdur málskostnaður, sem falli á varnaraðila tapi hann málinu, muni nema umtalsverðum fjárhæðum. Með vísan til þess að varnaraðili sé eignalaust félag sé ljóst að hann geti ekki staðið skil á greiðslu dæmds málskostnaðar.
Sóknaraðili byggir kröfu sínar á 133. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Við munnlegan flutning kröfu þessarar upplýsti hann að krafan væri reist á 1. og 2. mgr. nefndrar 133. gr.
Málsástæður og lagarök varnaraðila.
Varnaraðili byggir á því að hann sé ekki erlent félag heldur íslenskt og þar með geti 1. mgr. 133.gr. laga um meðferð einkamála ekki átt við hér. Í þessu sambandi skipti engu máli þó forsvarsmenn félagsins séu búsettir erlendis.
Hvað varði 2. mgr. 133. gr. þá séu fullyrðingar sóknaraðila um bága fjárhagsstöðu varnaraðila ósannaðar. Sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að árangurslaus aðför hafi verið gerð hjá varnaraðila og raunar hafi ekki verið lögð fram nein gögn sem bendi til að aðför hafi yfir höfuð verið reynd hjá honum.
Varnaraðili segir bréf sýslumannsins á Sauðárkróki ekki hafa nein áhrif hér en bendir á að handhöfn sóknaraðila á því bréfi sé brot á 5. gr. upplýsingarlaga. Í bréfinu komi ekki annað fram en sýslumaðurinn á Sauðárkróki hafi ekki reynt að innheimta kröfur sínar eins og lög gera ráð fyrir. Hins vegar sé að finna í bréfinu órökstuddar fullyrðingar um bága fjárhagsstöðu varnaraðila. Í bréfinu komi fram að innheimtutilraunir hafi reynst árangurslausar en þeim ekki lýst nánar. Sennilega hafi sýslumanni verið kunnugt að rekstur varnaraðila gekk ekki vel og honum hafi verið ljóst að við rétt skattskil hefði skattálagning á varnaraðila orði mjög lítil og því hafi honum ekki þótt ástæða til að eltast við varnaraðila. Raunar sé líklegasta skýringin á bréfinu sú að sýslumaður hafi viljað losna við þetta af borði sínu.
Varnaraðili kveður óeðlilegt að opinbert fyrirtæki sem olli svo miklu tjóni hjá honum að hann varð að hætta starfsemi geti með hárri kröfu um málskostnaðartryggingu komið í veg fyrir að hann nái fram rétti sínum. Opinberir aðilar verði að hreinsa sig af ásökunum sem þessum fyrir dómi en þeir eigi ekki að komast upp með að losna við málaferli með óhóflögum kröfum um tryggingu fyrir málskostnaði sérstaklega þegar horft er til þess að sóknaraðili er í raun hefjandi máls þessa með ósanngjörnum innheimtutilraunum sínum. Raunar sé mjög undarlegt hversu seint þær tilraunir eru hafnar.
Varnaraðili bendir á að þó forsvarsmenn félagsins séu búsettir í Noregi þá geri það innheimtu ekki til muna erfiðari. Vissulega þurfi að láta þýða kröfubréf yfir á norsku og birting þurfi að fara fram í Noregi. Þetta eitt hafi jú tafir í för með sér en standi því alls ekki í vegi að hægt sé að innheimta hjá félaginu.
Varnaraðili mótmælir málatilbúnaði sóknaraðila í þá átt að það eitt að skila ekki ársreikningum segi eitthvað um fjárhag hans. Samkvæmt tilvitnuðum lagaákvæðum þá beri að taka fyrirtæki til gjaldþrotaskipta ef það skilar ekki ársreikningum en fjárhagsstaða þess skipti engu máli. Hvað tilkynningar til Hlutafélagaskrár varðar þá hafi engar breytingar orðið hjá félaginu sem gefa tilefni til slíkrar tilkynningar og hugleiðingar sóknaraðila um að þar hafi varnaraðili sýnt af sér einhverja vanrækslu séu því út í hött.
Varnaraðili byggir á því að sóknaraðila hafi ekki tekist að sanna eða gera sennilegt að hann geti ekki staðið skil á málskostnaði komi til þess að honum verði gert að greiða hann að efnismeðferð málsins lokinni.
Hvað varakröfu í þessum þætti málsins varðar byggir varnaraðili á því, að málskostnaðarkrafa sóknaraðila sé hærri en nokkru sinni hafi verið dæmd á Íslandi og þar með fjærri öllum raunveruleika. Þá bendir hann á að nú þegar liggi fyrir mikið af rannsóknum sem varpað geta ljósi á kröfur varnaraðila í gagnsökinni og því sé ekkert sem bendi til þess að mál þetta eigi eftir að verða svo umfangsmikið sem sóknaraðili heldur fram.
IV.
Niðurstaða.
Fallast ber á með varnaraðila að 1. mgr. 133.gr. laga um meðferð einkamála eigi ekki við í þessu máli enda liggur fyrir að félagið er íslenskt þó forráðamenn þess séu norðmenn og búsettir í Noregi.
Sóknaraðili hefur ekki sýnt fram á með neinum gögnum að innheimtutilraunir hafi verið gerðar hjá varnaraðila. Bréf sýslumannsins á Sauðárkróki ber ekki með sér hvaða aðgerðum hann hafi beitt til að innheimta hin vangoldnu opinberu gjöld. Eins og sjá má af stefnu máls þessa tókst á auðveldan máta að birta hana fyrir forsvarsmanni félagsins. Ætla má að sýslumanninum á Sauðárkróki hefði tekist á sama hátt að láta birta kröfur sínar fyrir forsvarsmanni varnaraðila. Fallast verður á það sjónarmið varnaraðila að norskum yfirvöldum beri ekki að aðstoða við innheimtu opinberra gjalda hjá íslensku félagi þó svo sé háttað um þjóðerni forsvarsmanna þess eins og áður er getið. Raunar er ekki tekið fram í nefndu bréfi sýslumanns hvað gert hefur verið til að innheimta gjöldin einungis sagt að allt hafi verið reynt. Hafi sýslumaður farið þær leiðir sem lög gera ráð fyrir við innheimtu gjaldanna en án árangurs þá skortir inn í mál þetta gögn þar um og telst því ósannað að svo hafi verið.
Fallast má á með sóknaraðila að skilyrði geti verið til þess að taka bú varnaraðila til gjaldþrotaskipta þar sem hann hafi ekki skilað ársreikningum til Ríkisskattstjóra eins og honum bar. Hins vegar verður fallist á með varnaraðila að slík vanskil segi ein og sér ekkert um fjárhag þess sem vanrækir að skila ársreikningum.
Með vísan til þess sem að framan er rakið verður að telja að sóknaraðila hafi ekki tekist að leiða nægar líkur að því að varnaraðili sé ófær um greiðslu málskostnaðar og verður kröfu hans í þessum þætti málsins því hafnað.
Rétt þykir að ákvörðun málskostnaðar í þessum þætti málsins bíði efnisúrlausnar.
Halldór Halldórsson dómstjóri kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kröfu sóknaraðila, Rafmagnsveitna ríkisins, um að varnaraðila, Norræna sjóeldinu hf., verði gert að setja málskostnaðartryggingu í máli þessu, er hafnað.
Ákvörðun málskostnaðar bíður efnisdóms í málinu.