Hæstiréttur íslands

Mál nr. 680/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann


Mánudaginn 22

 

Mánudaginn 22. desember 2008.

Nr. 680/2008.

Ríkissaksóknari

(Daði Kristjánsson, saksóknari)

gegn

X

(enginn)

 

Kærumál. Farbann.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta farbanni samkvæmt b. lið 1. mgr. 103. gr. og 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur, en farbanninu markaður skemmri tími.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. desember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2008, þar sem varnaraðila var bönnuð för frá Íslandi meðan mál hans er til meðferðar hjá ákæruvaldinu og fyrir héraðsdómi, þó eigi lengur en til föstudagsins 23. janúar 2009 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Litið verður svo á að varnaraðili hafi kært úrskurðinn í því skyni að hann verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðila var með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 28. nóvember 2008 gert að sæta farbanni til 19. desember 2008. Í forsendum úrskurðarins kemur fram að lögreglurannsókn hafi þá verið lokið og málið verði sent til ríkissaksóknara. Gögn málsins sýna að 6. nóvember 2008 höfðu verið teknar lögregluskýrslur af tiltækum vitnum að einu undanskyldu sem ekki fannst. Eina rannsóknarskjalið eftir þann dag er læknisvottorð 20. nóvember 2008. Í beiðni sóknaraðila til héraðsdóms nú um framlengingu farbanns kemur fram að kallað hafi verið eftir viðbótar læknisvottorði um áverka árásarþola og þess óskað að afgreiðslu þess yrði flýtt. Ekki er neinar frekari upplýsingar að finna um þetta í gögnum málsins. Verður ekki betur séð en taka megi  ákvörðun um hvort sækja beri varnaraðila til saka á grundvelli þeirra gagna sem þegar liggja fyrir í málinu.

Svo sem fram hefur komið í dómum Hæstaréttar er sérstaklega brýnt að meðferð opinberra mála sé hraðað ef frelsi þeirra sem rannsókn beinist að er takmarkað í þágu rannsóknar máls og áframhaldandi meðferðar þess, sbr. t.d. dóm réttarins 29. október 2007 í máli nr. 561/2007.

Samkvæmt því sem að framan segir eru ekki efni til að framlengja farbann yfir varnaraðila lengur en í dómsorði greinir, enda verður að telja að sá tími dugi til að taka ákvörðun um hvort höfðað verði opinbert mál á hendur honum.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, er bönnuð för frá Íslandi allt til þriðjudagsins 30. desember 2008 kl. 16.

 

 

Úrskurður  Héraðsdóms Reykjavíkur árið 2008, föstudaginn 19. desember.

Ár 2008, föstudaginn 19. desember, er á dómþingi Héraðsdóms Reykja­víkur sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Sigríði Ólafsdóttur héraðsdómara kveðinn upp svo­felldur úrskurður.

Ríkissaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úr­skurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áfram farbanni meðan mál hans er til meðferðar hjá ákæruvaldinu og fyrir Héraðsdómi, þó eigi lengur en til föstudagsins 23. janúar nk. kl. 16:00.

Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að þann 24. október sl. hafi lögreglu verið tilkynnt um slasaðan mann í íbúð að Y í Reykjavík. Þegar lögregla hafi komið á vettvang hafi mátt sjá kæranda, A, þar sem hann hafi setið í stól í íbúðinni. Hafi hann verið með stungusár á hægra handarbaki og náði stungan í gegnum höndina. Kærandi hafi sagt frá því að kærði, sem sé vinnufélagi hans, hafi stungið hann með hníf í gegnum höndina þannig að hnífurinn hafi staðið fastur í hurð sem kærandi hafði lagt höndina upp við.

Í skýrslutöku af kærða hafi hann kannast við að hafa verið í íbúðinni á umræddum tíma en neiti að hafa stungið kæranda. Vitnið B hafi borið hjá lögreglu að kærði og kærandi hafi farið saman að reykja. Hann hafi svo heyrt mikið öskur og kannað hvað væri að gerast og þá komið að kæranda með höndina upp við hurð og hafi hnífur staðið í gegnum höndina og inn í hurðina. Kærði hafi þá verið horfinn á braut.

Málið hafi verið sent ríkissaksóknara þar sem sú háttsemi sem kærða sé gefin að sök sé talin varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Ríkissaksóknari hafi kallað eftir viðbótar læknisvottorði frá bæklunardeild LSH en þangað hafi kærandi leitað vegna áverka sinna. Hafi þess verið óskað að útgáfu vottorðins yrði flýtt eins og kostur sé.

Kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa gerst sekur um sérstaklega hættulega líkamsárás og verði ákæra á hendur honum gefin út innan skamms. Kærði sé pólskur ríkisborgari. Til að tryggja nærveru varnaraðila þyki nauðsynlegt að honum verði bönnuð för frá Íslandi á meðan mál hans sé til meðferðar hjá ákæruvaldi og Héraðsdómi.

Kærði er undir rökstuddum grun um brot sem varðað getur refsingu samkvæmt 2. mgr. 218. gr almennra hegningarlaga. Kærði hefur takmörkuð tengsl við landið, þó að hann hafi ráðið sig til vinnu og eigi að hefja störf í janúar. Verður honum með vísan til b liðar 1. mgr. 103. gr., sbr. 110. gr. laga nr. 1991 gert að sæta farbanni allt til föstudagsins 23. janúar 2009 kl. 16:00

Úrskurðarorð:

Kærða, X, kt. [...], er áfram bönnuð för frá Íslandi meðan mál hans er til meðferðar hjá ákæruvaldinu og fyrir Héraðsdómi, þó eigi lengur en til föstudagsins 23. janúar nk. kl. 16:00.