Hæstiréttur íslands

Mál nr. 310/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
  • Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi


Þriðjudaginn 12

 

Þriðjudaginn 12. júlí 2005.

Nr. 310/2005.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Herdís Hallmarsdóttir hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi.

 

Felldur var úr gildi úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála þar sem ekki var talið að sóknaraðili hefði fært fram haldbær rök fyrir því að skilyrði lagaákvæðisins fyrir gæsluvarðhaldi væru uppfyllt .

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. júlí 2005. Kærumálsgögn bárust réttinum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. júlí 2005, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 15. júlí 2005 klukkan 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Sóknaraðili reisir kröfu um gæsluvarðhald á a. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Til stuðnings því að fullnægt sé skilyrðum ákvæðisins vísar hann til þess að rannsókn málsins sé á frumstigi og mikil rannsóknarvinna sé fyrir höndum. Um sé að ræða ætluð kynferðisbrot gagnvart tveimur ungum stúlkum, fyrrum stjúpdóttur varnaraðila og vinkonu hennar, og nauðsynlegt sé að koma í veg fyrir að varnaraðili torveldi rannsókn málsins, t.d. með því að hafa áhrif á vitni.

Fram er komið að önnur stúlkan hafi gefið skýrslu fyrir dómi sama dag og hinn kærði úrskurður var kveðinn upp, en hin muni gera það á 13. júlí 2005. Ætluð brot varnaraðila eru sögð hafa verið framin fyrir alllöngu síðan, eða meðan hann var kvæntur móður annarrar stúlkunnar. Sóknaraðili hefur ekki fært fram haldbær rök fyrir að uppfyllt séu skilyrði a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 fyrir gæsluvarðhaldi yfir varnaraðila. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. júlí 2005.

Ár 2005, föstudaginn 8. júlí, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Arngrími Ísberg héraðsdómara kveðinn upp svo­felldur úrskurður.

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur lagt fram kröfu þess efnis að X, [kt. og heimilisfagn], verði á grundvelli a- liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 úrskurðaður til að sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 15. júlí 2005 til kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að lögreglan í Reykjavík hafi nú til rannsóknar tvær kærur á hendur kærða fyrir kynferðisofbeldi gagnvart ungum stúlkum. Liggur hann undir grun um að hafa margsinnis haft kynferðismök við fyrrum stjúpdóttur sína og frænku hennar, en báðar eru fæddar 1994. Móðir frænkunnar lagði fram kæru á hendur kærða sl. miðvikudag og kvað stúlkuna hafa greint sér frá því að kærði hafi haft við hana kynferðismök nokkrum sinnum á síðasta ári. Í dag  lagði móðir fyrrum stjúpdóttur fram kæru á hendur kærða fyrir að hafa haft kynferðismök við stúlkuna frá júní 2000 til október 2004. Í dag hafi verið tekin skýrsla af frænkunni fyrir Héraðsdómi og hafi hún borið að stjúpdóttirin hafi sagt henni að kærði hafi ítrekað haft kynferðismök við hana meðan hann bjó á heimili hennar. Þá hafi frænkan borið í skýrslutökunni að kærði hafi a.m.k. sex sinnum haft kynferðismök við hana í september á síðasta ári. Frænkan hafi verið skoðuð á neyðarmóttöku í gær og þykir skýrsla um þá skoðun styrkja grunsemdir um að kærði hafi brotið gegn stúlkunni.

Lögreglan kveður rannsókn framangreindra mála vera á frumstigi og ljóst að mikil rannsóknarvinna sé fyrir höndum. Lögreglan hafi gert ráðstafanir til að stjúpdóttirin verði skoðuð á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis síðar í dag og sé stefnt að því að taka skýrslu af henni fyrir Héraðsdómi í byrjun næstu viku. Þá sé ljóst að yfirheyra þarf kærða frekar svo og önnur vitni.

Lögreglan byggir á því að kærði liggi undir rökstuddum grun um alvarleg kynferðisbrot gagnvart tveimur ungum stúlkum, samanber XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Haldi kærði frelsi sínu hafi hann tök á að torvelda rannsókn málsins, t.d. með því að hafa áhrif á vitni. Að mati lögreglu beri því brýna nauðsyn til að hann sæti gæsluvarðhaldi meðan á rannsókn málsins stendur.  Vísar lögreglan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 máli sínu til stuðnings.

Kærði hefur neitað sök hér fyrir dómi.  Með vísun til þess að sem fram kemur í rannsóknargögnum málsins og þess sem að framan er rakið úr greinargerð lögreglu er fallist á það að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið verknað sem varðað getur hann fangelsisvist og að skilyrði a-liðar 1. mgr. 103 gr. laga nr. 19/1991 séu fyrir hendi í málinu. Verður krafa lögreglustjóra um gæsluvarðhald yfir kærða tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 15. júlí 2005 til kl. 16.00.