Hæstiréttur íslands
Mál nr. 23/2003
Lykilorð
- Líkamstjón
- Örorka
- Skaðabætur
- Læknir
- Læknaráð
- Matsgerð
- Sönnunarbyrði
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 2. október 2003. |
|
Nr. 23/2003. |
Íslenska ríkið(Óskar Thorarensen hrl.) gegn Ingibjörgu Pálsdóttur (Karl Axelsson hrl.) og gagnsök |
Líkamstjón. Örorka. Skaðabætur. Læknar. Læknaráð. Matsgerð. Sönnunarbyrði. Gjafsókn.
I varð fyrir vinnuslysi 14. júní 1991. Í kjölfar meðferðar sem hún gekkst undir vegna slyssins á L fékk hún sýkingu í hælbein. Gekkst I undir frekari aðgerðir og var læknismeðferð ekki lokið fyrr en í mars 1992. Í júlí 1994 voru enn framkvæmdar aðgerðir á hæl I og mun hún ekki hafa verið gróin sára sinna fyrr en í mars eða apríl 1995. Kom fram í dómi að héraðsdómur, sem skipaður hafi verið sérfróðum meðdómendum, hafi með ítarlegum rökstuðningi komist að sömu meginniðurstöðu og dómkvaddir matsmenn um að mistök hafi verið gerð við meðferð I á L með vangreiningu sýkingar. Dráttur á greiningu sem talinn var vera um 1 ½ til 2 ½ mánuður hafi aukið örorku I og því hafi ekki við læknismeðferðina verið sýnd slík aðgæsla sem með réttu varð krafist. Taldist I hafa sýnt nægilega fram á 10% varanlega örorku sína með matsgerð og R hefði því sönnunarbyrði fyrir því að I hefði allt að einu orðið fyrir þessari örorku, að einhverju leyti eða öllu, ef engin mistök hefðu verið gerð við læknismeðferðina. Hafði R ekki aflað gagna sem sýndu fram á þetta og var því dæmt bótaskylt að fullu. Ekki var fallist á með I að bótaskylda vegna tímabundins atvinnutjóns næði einnig til læknismeðferðar á árinu 1994, þar sem ekki hafði verið rökstutt af hennar hálfu hvernig sú læknismeðferð tengdist mistökum þeim sem gerð hafi verið 1991 og 1992.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. janúar 2003. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa hennar verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 20. mars 2003. Hún krefst þess að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 7.336.790 krónur með nánar tilteknum ársvöxtum frá 14. júní 1991 til 7. mars 2000, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 og samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum.
I.
Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi varð gagnáfrýjandi fyrir vinnuslysi 14. júní 1991 að Brautarholti á Kjalarnesi þegar hún féll fram af þaki húss. Kom gagnáfrýjandi standandi niður úr fallinu, sem mun hafa verið um 5,7 m, og brotnuðu við það hælbein á báðum fótum hennar. Hún var flutt í framhaldi af þessu á Borgarspítalann í Reykjavík og þaðan á Landspítalann, þar sem gert var að áverkum hennar. Lá hún þar inni frá slysdegi til 2. júlí 1991, en þó með tveggja daga hléi. Eftir það var hún til eftirlits á göngudeild síðarnefnda sjúkrahússins, þar sem þess var meðal annars getið í gögnum um fjórðu komu hennar á deildina 12. september 1991 að drep væri komið á vinstri hæl sökum beinenda, sem virtist skaga aðeins niður. Af þessum sökum var gagnáfrýjandi aftur lögð inn á Landspítalann 17. september 1991, þar sem lýtalæknir gerði aðgerð á hæl hennar næsta dag. Var þá sár á hælnum hreinsað og dautt bein fjarlægt, en síðan grædd húð yfir sárið. Þrátt fyrir þetta greri sárið ekki og gekkst gagnáfrýjandi aftur undir aðgerð 2. október 1991, þar sem leitast var við að loka því. Þótti sú aðgerð hafa tekist betur en sú fyrri og var gagnáfrýjandi útskrifuð af sjúkrahúsinu 19. sama mánaðar. Meðan á þeirri dvöl hennar stóð mun hún hafa fengið sýklalyf, sem hún tók í um tíu daga, en rannsókn hafði þó ekki gefið til kynna að sýking væri í sárinu. Eftir þetta var gagnáfrýjandi aftur undir reglulegu eftirliti á göngudeild, þar sem meðal annars var skipt um umbúðir á sárinu. Í aðilaskýrslu fyrir héraðsdómi kvaðst hún fljótlega á þessu tímabili hafa farið að finna fyrir verulegri vanlíðan með hita og slætti í hælnum, en mikið hafi vessað úr sárinu og vond lykt verið af því. Sýni voru tekin úr sárinu til greiningar 2., 12. og 27. desember 1991, sem leiddu í ljós sýkingu. Síðastnefndan dag var gagnáfrýjandi aftur lögð inn á Landspítalann og henni gefin sýklalyf. Ráðgert var að hún gengist þar 16. janúar 1992 undir aðgerð til að fjarlægja dauðan vef úr sárinu, en ekki varð af því sökum þess að daginn áður var hún útskrifuð af Landspítalanum að eigin ósk. Fór hún þaðan á Borgarspítalann, þar sem hún var lögð inn og gekkst undir aðgerðir 20. og 27. janúar 1992. Voru þá fjarlægð úr hælnum dauð bein og fékk gagnáfrýjandi sýklalyf í æð og síðar í töflum um nokkurra vikna skeið, en ekki mun hafa verið reynt að loka sárinu. Gagnáfrýjandi var útskrifuð frá Borgarspítalanum í mars 1992, en sárið á hælnum greri að hennar sögn ekki að fullu fyrr en í júní á því ári.
Samkvæmt fyrirliggjandi vottorði 20. apríl 1998 frá yfirlækni við bæklunarlækningadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur gekkst gagnáfrýjandi undir aðgerð hjá honum í júlí 1994 til að fjarlægja beinhrygg af hælbeini á vinstri fæti. Segir í vottorðinu að sýking hafi ekki virst vera til staðar, en sárið eftir aðgerðina hafi ekki gróið og gagnáfrýjandi því þurft að gangast undir nokkrar aðgerðir í viðbót, þar á meðal til húðflutninga. Mun sárið fyrst hafa verið gróið að fullu í mars eða apríl 1995, en eftir það munu ekki hafa myndast sár á hælnum.
Gagnáfrýjandi telur að mistök hafi verið gerð við þá meðferð, sem henni var veitt á Landspítalanum frá því í september 1991 til janúar 1992 og áður er getið um í meginatriðum. Þess hafi ekki verið gætt í tengslum við fyrstu aðgerðirnar að gefa henni sýklalyf til að draga úr hættu á sýkingu í sárinu á vinstri hæl. Hafi heldur ekki verið brugðist tímanlega við vísbendingum um sýkingu í sárinu með rannsókn og lyfjagjöf, auk þess sem meðferð hafi verið ábótavant þegar sýking hafði verið staðreynd. Telur gagnáfrýjandi þessi mistök hafa aukið við þá örorku og þann miska, sem hún varð fyrir vegna slyssins 14. júní 1991, en í málinu sækir hún aðaláfrýjanda til greiðslu skaðabóta vegna þessa. Í hinum áfrýjaða dómi er gerð grein fyrir ýmsum læknisfræðilegum gögnum varðandi þetta, sem liggja fyrir í málinu, þar á meðal matsgerð dómkvaddra manna frá 20. nóvember 1999 og umsögn Læknaráðs 14. desember 2001.
II.
Í áðurnefndri matsgerð dómkvaddra manna, þeirra Atla Þórs Ólasonar sérfræðings í bæklunarskurðlækningum og Guðmundar Más Stefánssonar sérfræðings í lýtalækningum, var meðal annars komist að þeirri niðurstöðu að áverkinn, sem gagnáfrýjandi hlaut á vinstri hæl í slysinu 14. júní 1991, hafi valdið það miklum skemmdum á húðþekju hælbeinsins að húðin hafi skemmst varanlega og smám saman komið fram drep í henni. Hafi mátt standa betur að þeirri meðferð, sem gagnáfrýjandi fékk á Landspítalanum, með því að taka sýni til bakteríurannsóknar og gefa henni strax sýklalyf eftir að dauð og þurr sárskorpa var fjarlægð af hælnum í september 1991, því að sár á húð yfir beinbroti auki verulega hættu á beinsýkingu. Hafi þetta sérstaklega átt við í tilviki gagnáfrýjanda, þar sem hælbeinið hafi mölbrotnað. Í slíku broti megi búast við röskun á blóðflæði, en eðlileg blóðrás sé forsenda fyrir því að brot grói örugglega og dragi hún jafnframt úr hættu á sýkingu. Einnig sé aðfinnsluvert að gagnáfrýjandi hafi ekki fengið sýklalyf eftir fyrstu aðgerðina í september 1991 og reyndar ekki fyrr en viku eftir aðra aðgerðina í október á sama ári, en af þessu hafi hlotist þrálát beinsýking með beineyðingu. Kröftug sýklalyfjameðferð hafi fyrst byrjað í lok desember 1991, sem gæti hafa verið 21/2 til 31/2 mánuði seinna en efni voru til. Mjög erfitt sé að segja til með vissu um hversu mikið meira beintap hafi orðið vegna sýkingar í beininu, enda brotið svo alvarlegt í byrjun að búast hafi mátt við beineyðingu af þeim sökum einum. Sýkingin hafi þó lengt sjúkdómstímann verulega og líklega valdið meiri varanlegum skemmdum en annars hefðu orðið.
Héraðsdómur, sem var skipaður sérfróðum meðdómsmönnum, hefur með ítarlegum rökstuðningi komist að sömu meginniðurstöðu og dómkvaddir matsmenn um að mistök hafi verið gerð við meðferð gagnáfrýjanda á Landspítalanum með vangreiningu sýkingar í beini á vinstri hæl. Dráttur á greiningu og meðferð sýkingarinnar, sem dómendurnir töldu hafa verið á bilinu frá 11/2 mánuði til 21/2 mánaðar, hafi aukið örorku gagnáfrýjanda vegna slyssins 14. júní 1991. Af þessum sökum hafi ekki verið sýnd við læknismeðferðina slík aðgæsla, sem með réttu varð krafist.
Umsögn Læknaráðs, sem lá fyrir í héraði, getur ekki hnekkt þessari samdóma niðurstöðu dómkvaddra matsmanna og hins fjölskipaða héraðsdóms. Fyrir Hæstarétti hefur aðaláfrýjandi ekki aflað frekari gagna til að fá henni hrundið. Verður því staðfest sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að aðaláfrýjandi beri skaðabótaskyldu vegna afleiðinga þeirra mistaka, sem gerð voru á Landspítalanum við meðferð áverka á vinstri hæl gagnáfrýjanda.
III.
Eins og greinir í héraðsdómi komust dómkvaddir matsmenn að þeirri niðurstöðu að sýkingin í vinstra hælbeini gagnáfrýjanda hafi leitt til þess að hluti þess var fjarlægður. Sýkingin hafi þannig minnkað beinmassa hælbeinsins, mjúkvefir umhverfis það hafi að auki skaddast vegna hennar og stirðleiki orðið meiri í aðlægum liðum á sýkingarsvæðinu. Taldist gagnáfrýjandi hafa orðið fyrir 10% varanlegri örorku, sem tengja mætti afleiðingum sýkingarinnar, auk tímabundinnar örorku, sem nánar greinir hér síðar. Málatilbúnaður aðaláfrýjanda verður ekki skilinn svo að ágreiningur sé út af fyrir sig um þessa niðurstöðu hinna dómkvöddu manna.
Auk þess, sem að framan greinir, leitaði gagnáfrýjandi sérstaklega í matsbeiðni eftir áliti hinna dómkvöddu manna á því hversu mikið meiri örorka hennar, bæði tímabundin og varanleg, hafi orðið vegna þess að ekki hafi verið beitt fullnægjandi sýklalyfjameðferð frá fyrsta hugsanlegu tímamarki. Matsmennirnir töldu sem áður segir að grípa hefði átt til kröftugrar sýklalyfjameðferðar, sem þeir kölluðu svo, 21/2 til 31/2 mánuði fyrr en raun varð á. Lýstu þeir því áliti að örorka gagnáfrýjanda vegna þessara tafa gæti ekki verið meiri en sú, sem yrði rakin í heild til sýkingarinnar í vinstri hæl hennar og getið var hér að framan. Niðurstaða matsmannanna um þetta atriði var að öðru leyti eftirfarandi: „Tímabundin og varanleg örorka vegna seinkunar á fullnægjandi sýklalyfjameðferð er því jafnt og en þó líklega mun minni en tímabundin og varanleg örorka af völdum sýkingarinnar. Matsmenn treysta sér ekki til að greina nánar þar á milli. Matsmenn telja að ekki sé ósanngjarnt að helmingur af tímabundinni og varanlegri örorku vegna sýkingar mætti rekja til seinkunar á sýklalyfjameðferð. Matsmenn vilja þó taka skýrt fram að hér er einungis um ágiskun að ræða sem erfitt er að færa frekari sönnur á.“
Hér að framan hefur verið staðfest sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að aðaláfrýjandi beri skaðabótaskyldu vegna mistaka, sem urðu við meðferð áverka á vinstri hæl gagnáfrýjanda. Hún hefur ekki haldið því fram í málinu að sýking hafi komist í hæl hennar vegna þessara mistaka, heldur hafi þau falist í því að ekki hafi verið gripið tímanlega til markvissra ráðstafana til að stöðva sýkinguna. Með fyrrgreindu áliti dómkvaddra matsmanna hefur gagnáfrýjandi sýnt nægilega fram á að sýkingin sem slík hafi leitt af sér 10% varanlega örorku ásamt tímabundinni örorku. Hvílir þannig sönnunarbyrði á aðaláfrýjanda fyrir því að gagnáfrýjandi hefði allt að einu orðið fyrir þessari örorku að einhverju tilteknu leyti eða öllu ef engin mistök hefðu verið gerð við læknismeðferð á henni. Aðaláfrýjandi hefur ekki sjálfur aflað neinna gagna til að axla þá sönnunarbyrði. Þótt framangreind ummæli í matsgerð dómkvaddra manna hnígi að því að „líklega“ sé örorka gagnáfrýjanda, sem rakin verði til seinkunar á fullnægjandi læknismeðferð, mun minni en örorka hennar af völdum sýkingarinnar í heild, hefur aðaláfrýjandi ekki sýnt fram á hver örorka gagnáfrýjanda af fyrrnefndu orsökunum ætti þá nánar að teljast vera. Ekki er fært að láta gagnáfrýjanda gjalda fyrir ófullnægjandi sönnunarfærslu aðaláfrýjanda um þetta efni með því að skerða skaðabætur handa henni með ákvörðun þeirra eftir álitum. Samkvæmt þessu verður að fella á aðaláfrýjanda skaðabótaskyldu vegna alls þess tjóns, sem umrædd sýking í vinstra hælbeini hefur valdið gagnáfrýjanda.
IV.
Gagnáfrýjandi sundurliðar kröfu sína á hendur aðaláfrýjanda þannig að 1.401.300 krónur séu skaðabætur vegna tímabundinnar örorku og 5.141.100 krónur vegna varanlegrar örorku, sem skerðist þó um 10% eða 514.110 krónur vegna hagræði af eingreiðslu og skattfrelsi þeirra bóta. Þessir liðir í dómkröfu gagnáfrýjandi eru reistir á niðurstöðu dómkvaddra matsmanna um tímabundna og varanlega örorku hennar, svo og útreikningi tryggingarfræðings á því tjóni hennar, en þeim útreikningi hefur aðaláfrýjandi ekki mótmælt. Auk þessa krefst gagnáfrýjandi skaðabóta að fjárhæð 308.500 krónur vegna tapaðra lífeyrisréttinda, svo og 1.000.000 króna í miskabætur.
Krafa gagnáfrýjanda um skaðabætur vegna tímabundinnar örorku er reist á því að dómkvöddu matsmennirnir hafi samtals talið hana óvinnufæra í 13 mánuði, svo rakið verði til mistaka við læknismeðferð á henni. Nánar tiltekið var hún í matsgerð talin hafa verið algerlega óvinnufær frá slysdegi 14. júní 1991 til 31. ágúst 1992, en af því tímabili mætti rekja sex mánaða óvinnufærni til seinkunar á bata vegna sýkingar í vinstra hælbeini. Þá töldu matsmenn gagnáfrýjanda einnig hafa verið tímabundið óvinnufæra frá júlí 1994 þegar hún gekkst undir fyrrnefnda aðgerð til að fjarlægja beinhrygg af hælbeininu. Um þetta segir nánar í matsgerð: „Sýking kom á aðgerðarsvæði og var hún í níu mánuði frá vinnu af þessum sökum. Matsmenn áætla að sýking á hælsvæði hafi seinkað bata um sjö mánuði.“ Um þetta er til þess að líta að í héraðsdómsstefnu sagði varðandi þessa aðgerð að „engin sýking virðist hins vegar hafa verið fyrir hendi“. Verður ekki ráðið af öðrum gögnum málsins að sýking hafi komið upp í tengslum við aðgerðina. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti var fyrrgreind staðhæfing í matsgerð skýrð með því að matsmenn kunni að hafa aflað gagna í tengslum við störf sín, sem leitt hafi í ljós að gagnáfrýjandi hafi aftur fengið sýkingu í hælbeinið eftir aðgerðina í júlí 1994. Ekki hefur verið rökstutt hvernig slík sýking gæti hafa tengst þeim mistökum við læknismeðferð á gagnáfrýjanda á árunum 1991 og 1992, sem aðaláfrýjandi ber skaðabótaábyrgð á. Þá hefur heldur ekki verið skýrt á viðhlítandi hátt hvers vegna óvinnufærni gagnáfrýjanda á árinu 1994 gæti af öðrum sökum hafa orðið meiri en ella vegna sýkingarinnar, sem hún átti við að etja á fyrri stigum. Að þessu gættu verður að hafna kröfu gagnáfrýjanda um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón 1994. Verður að öðru leyti fallist á kröfu hennar um bætur fyrir tímabundna örorku á árinu 1992 með 646.700 krónum.
Bætur handa gagnáfrýjanda vegna varanlegrar örorku eru að teknu tilliti til hagræðis hennar af eingreiðslu og skattfrelsi þeirra hæfilega ákveðnar 4.100.000 krónur. Ekki eru efni til annars en að taka að fullu til greina kröfu gagnáfrýjanda að fjárhæð 308.500 krónur um bætur vegna tapaðra lífeyrisréttinda. Við ákvörðun miskabóta handa henni verður að taka tillit til þeirra þjáninga, lýta og óþæginda, sem rekja má til sýkingarinnar í vinstra hælbeini hennar, svo og aldurs hennar og þeirrar röskunar, sem líkamstjón þetta hefur leitt af sér. Að því virtu eru miskabætur hæfilega ákveðnar 800.000 krónur.
Samkvæmt framansögðu verður aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda samtals 5.855.200 krónur. Verða henni dæmdir vextir af þeirri fjárhæð í samræmi við dómkröfu frá 1. janúar 1992 að telja, en ekki verður séð að aðaláfrýjandi hafi andmælt kröfu um vexti á grundvelli fyrningar þeirra að hluta fyrr en við meðferð málsins fyrir Hæstarétti og eru þau andmæli því of seint fram komin.
Gagnáfrýjandi hefur sem fyrr segir notið gjafsóknar vegna málsins á báðum dómstigum. Er því ekki ástæða til að dæma aðaláfrýjanda til greiðslu málskostnaðar í héraði eða fyrir Hæstarétti, en um gjafsóknarkostnað gagnáfrýjanda fer samkvæmt því, sem í dómsorði segir.
Dómsorð:
Aðaláfrýjandi, íslenska ríkið, greiði gagnáfrýjanda, Ingibjörgu Pálsdóttur, 5.855.200 krónur með ársvöxtum sem hér segir: 3% frá 1. janúar 1992 til 1. febrúar sama ár, 2,5% frá þeim degi til 11. sama mánaðar, 2% frá þeim degi til 21. mars sama ár, 1,25% frá þeim degi til 1. maí sama ár, 1% frá þeim degi til 11. ágúst 1993, 1,25% frá þeim degi til 11. nóvember sama ár, 0,5% frá þeim degi til 1. júní 1995, 0,65% frá þeim degi til 1. október 1996, 0,75% frá þeim degi til 21. janúar 1997, 0,9% frá þeim degi til 1. maí sama ár, 1% frá þeim degi til 1. apríl 1998, 0,7% frá þeim degi til 21. október sama ár og 0,6 % frá þeim degi til 7. mars 2000. Frá þeim degi greiði aðaláfrýjandi dráttarvexti samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Allur gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar á báðum dómstigum, samtals 1.300.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. október 2003.
Mál þetta var höfðað 31. mars 2000 og dómtekið 18. f.m.
Stefnandi er Ingibjörg Pálsdóttir, [kt.], Brautarholti 1, Kjalarnesi.
Stefndi er íslenska ríkið
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaða- og miskabóta að fjárhæð 7.336.790 krónur með 6% vöxtum frá 14. júní 1991 til 1. ágúst 1991 en með 7% vöxtum frá þeim degi til 11. október 1991 en með 4% vöxtum frá þeim degi til 1. nóvember 1991 en með 3,75% vöxtum frá þeim degi til 21. nóvember 1991 en með 3,5% vöxtum frá þeim degi til 1. desember 1991, en með 3% vöxtum frá þeim degi til 1. febrúar 1992, en með 2,5% vöxtum frá þeim degi til 11. febrúar 1992, en með 2% vöxtum frá þeim degi til 21. mars 1992, en með 1,25% vöxtum frá þeim degi til 1. maí 1992, en með 1% vöxtum frá þeim degi til 11. ágúst 1993, en með 1,25% vöxtum frá þeim degi til 11. nóvember 1993, en með 0,5% vöxtum frá þeim degi til 1. júní 1995, en með 0,65% vöxtum frá þeim degi til 1. október 1996, en með 0,75% vöxtum frá þeim degi til 21. janúar 1997, en með 0,9% vöxtum frá þeim degi til 1. maí 1997, en með 1% vöxtum frá þeim degi til 1. apríl 1998, en með 0,7% vöxtum frá þeim degi til 21. október 1998, en með 0,6% vöxtum frá þeim degi til 7. mars 2000 og höfuðstólfærast þeir vextir árlega í fyrsta skipti 14. júní 1992. Fjárhæðin beri síðan dráttarvexti samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 7. mars 2000 til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál en stefnanda var veitt gjafsóknarleyfi 5. júní 2000.
Af hálfu stefnda er aðallega krafist sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hennar en til vara er krafist lækkunar á kröfum stefnanda og að málskostnaður verði látinn falla niður.
I
Þann 14. júní 1991 var stefnandi að mála þak á graskögglaverksmiðju á Kjalarnesi þegar málningarfata fór um. Stefnandi rann til í málningunni, féll af þakinu um 5,70 metra og kom standandi niður.
Stefnandi var fyrst flutt á slysadeild Borgarspítalans en í framhaldinu til meðferðar á bæklunardeild Landspítalans. Við röntgenskoðun 18. júní 1991 sást kurlað brot í hægra hælbeini sem var mölbrotið og niðurklesst og samfallsbrot í hægra bátsbeini. Vinstra megin sást samfallsbrot í hælbeininu sem var mölbrotið og aflagað, nánast eins og leirkaka sem þrýst er niður og einnig aftur og upp á við fyrir aftan völubeinið.
Á Landspítalanum var stefnandi meðhöndluð með teygjubindi og hálegu en síðar í ístaðaspelkum þannig að hún gat gengið á hækjum án álags á hælbein. Stefnandi var útskrifuð til reynslu 25. júní 1991 en síðan lögð inn aftur 27. júní s.á. vegna verkja og fékk þá verkjastillandi meðferð, var útskrifuð að nýju 2. júlí 1991 og var áætlað að hún yrði í spelkum án álags á hælbein næstu þrjá mánuði. Stefnandi kom í eftirlit á göngudeild 11. júlí og hafði þá allt gengið vel. Hún var með drepblett á vinstra fæti og var hann þurr og hreinn. Ákveðið var að fylgjast með honum áfram og við endurkomu 15. ágúst s.á hafði blettur á hæl lagast og bólga í fótum minnkað. Óbreyttri meðferð var haldið áfram. Við röntgenrannsókn (vegna eftirlits á göngudeild) þann 12. september 1991 sáust óskýrari brotalínur í báðum hælum sem þótti benda til að brotin væru að gróa. Í sama sinn var hugað að drepi á hæl og kom í ljós að um var að ræða djúpt drep. Stefnandi var því lögð inn á lýtalækningadeild til aðgerðar á sárinu og var leitað til Árna Björnssonar lýtalæknis vegna þessa. Árni tók dautt skinn af vinstri hæl. Var mar undir og í ljós kom sár 1x1 sm í þvermál. Stefnandi hafði ekki fundið fyrir þessu. Enginn þroti, roði eða eymsl voru í kringum sárið en skoðun sýndi að það náði inn að beini. Ákveðið var því að leggja stefnanda inn til aðgerðar á þessu sári og lá hún inni á Landspítala frá 17. september til 19. október 1991.
Í bréfi Höskuldar Baldurssonar bæklunarskurðlæknis til Ólafs Ólafssonar landlæknis, dags. 24. september 1991, kemur fram að hann hafi litið á stefnanda að ósk Ólafs. Þegar hann hafi skoðað hana hafi hún verið með þurrt drep (necrosu) neðan á öðrum hælnum og þetta hafi verið algjörlega hreint og sýkingarlaust. Því hafi lýtalæknar verið kallaðir til og að þeirra ráði hafi verið gerðar ráðstafanir til að stefnandi færi í aðgerð þar sem drepið í húðinni yrði hreinsað upp og trúlega sett skinnbót þar yfir. Í aðgerðarlýsingu Árna Björnssonar kemur fram að hann hafi þann 18. september 1991 tekið húð framan af vinstra læri og grætt á sárið undir vinstri hælnum eftir að hafa hreinsað þaðan drep og dautt bein úr botni sársins. Í aðgerðarlýsingu sama læknis frá 2. október 1991 kemur fram að húðin, sem grædd hafi verið í sárið, hafi ekki tekið (þ.e. gróið-innskot dómsins) og að ákveðið hafi verið að freista annarrar aðgerðar. Tekin hafi verið staðbundinn vöðvaflipi og lagður yfir beinið og húð, sem tekin var úr sitjandafellingu hægra megin, síðan grædd yfir. Í læknabréfi kemur fram að húðin hafi tekið að mestu leyti og að stefnandi hafi verið útskrifuð við ágæta líðan.
Í sjúkraskrá Landspítala vegna innlagnar þann 27. desember 1991 kemur fram að stefnandi hafi verið í eftirliti á göngudeild og að við eftirlit síðasta föstudag (dagsetning ekki tekin fram) hafi verið kominn mikill roði yfir hliðlægu ökklabunguna og mikill gröftur lekið frá skurðsárinu. Innlögn hafi því verið ákveðin, strok tekið frá sárinu og hafin meðferð með sýklalyfinu orbenin í bláæð, eitt gramm fjórum sinnum á dag. Í læknabréfi vegna legunnar kemur fram að til hafi staðið að stefnandi gengist undir aðgerð þann 16. janúar 1991 en að ekki hafi orðið af því þar sem hún hafi útskrifað sig sjálf daginn áður og ákveðið að leita annað.
Við skýrslugjöf fyrir dómi lýsti stefnandi þrálátri útferð eftir aðgerðir Árna Björnssonar, en sárið hafi ekki lokast, útferðin hafi farið vaxandi með vondri lykt og fylgt hafi sláttur o.fl. sem fylgi sýkingu. Hún kvaðst hafa verið hrædd við þessa miklu útferð. Hún tiltók að sér væri minnisstætt að vessinn hefði verið afar og einkennilega illa lyktandi í 2. og 3. viku nóvember 1991 og að Árni Björnsson hafi sagt í endaðan nóvember eða byrjun desember að engin sýking væri til staðar, vöðvarnir væru að hreinsa sig. Hún kvaðst hafa útskrifað sig af Landspítalanum vegna þess að Árni hafi alltaf sagt að ekki væri um beinsýkingu að ræða. Faðir hennar hefði talað við Harald Briem sem hafi sagt að örugglega væri um mikla beinsýkingu að ræða og best væri að bæklunarlæknir og smitsjúkdómalæknir ynnu að þessu. Árni hafi hins vegar ætlað að framkvæma fyrirhugaða aðgerð einn og hefði ekki kallað neinn annan til.
Í vottorði Brynjólfs Mogensen, yfirlæknis á Sjúkrahúsi Reykjavíkur, dags. 20. apríl 1998, segir :”. . . Ingibjörg var með króniska beinsýkingu í hælbeini vinstri fótar. Enginn kostur góður í stöðunni þar sem hælbeinið og húðin þar yfir var mjög illa farið fyrir utan sjálft sýkingarvandamálið. Gekkst Ingibjörg undir tvær aðgerðir 1992 og virtist það duga til að lækna sýkinguna ásamt kröftugri sýklalyfjameðferð. Fæturnir voru þó aldrei góðir til ástigs, sér í lagi vinstri fóturinn.
Þar sem Ingibjörg var alltaf mjög óánægð með ástigið á vinstri fæti vegna verkja og siggmyndunar á ástigsfletinum var tekinn beinhryggur af hælbeininu í júlí 1994. Þá virtist ekki vera sýking til staðar. Sárið greri ekki og þurfti að gera nokkrar aðgerðir í viðbót, þar með talið húðflutningar á vinstri hæl til þess að þekja sárið. Þetta gekk eftir og hefur Ingibjörg nú verið án sýkingarlyfja og, að því er virðist, laus við sýkingu um nokkurra ára skeið. . .
Við skoðun í mars 1998 þreyttist Ingibjörg mjög í hægri fæti. . . Vinstri fótur hefur hins vegar haldið áfram að versna. Hún er með breiðan, mjög skakkan og flatan fót, skerta tilfinningu neðan á fætinum og myndað klótær á vinstri fæti sem eru til mikils ama. Er áætlað að gera inngrip til þess að reyna að minnka táóþægindin en láta fótinn að öðru leyti vera þar sem ekki er hægt að laga hælbeinshlutann með neinum tiltækum ráðum. Hún er einnig með verulega skerta getu og breytt útlit á hægri fæti vegna afleiðinga hælbrotsins þeim megin. . . ”
Í matsgerð Atla Þórs Ólasonar og Guðmundar Más Stefánssonar (sjá síðar) segir að eftir framangreinda aðgerð í júlí 1994 hafi sárið ekki gróið og hafi stefnandi þurft að undirgangast nokkrar litlar aðgerðir og húðflutning á vinstri hæl til lokunar sársins. “Rafn A. Ragnarsson lýtalæknir mun hafa komið að því máli en að sögn Ingibjargar mun hælsárið á vinstra fæti ekki hafa verið að fullu gróið fyrr en í mars eða aprílmánuði 1995. Frá þeim tíma hefur ekki borið á sármyndun á hælnum. Hún hefur þó haft töluvert mikla verki og hefur að eigin sögn aldrei getað tyllt almennilega niður í hælinn sökum þessa. Sem afleiðing af slysinu og sökum rangs ástigs á vinstra fót var hún með klótær á II., III., IV. og V. tá vinstri fótar. Þetta ranga ástig olli henni vaxandi verkjum við gang, sérstaklega síðastliðið ár og var því gerð aðgerð í júlímánuði 1998 á lýtalækningadeild Landspítalans þar sem Rafn Ragnarsson yfirlæknir lagfærði klótær á vinstra fæti. Síðan þá hefur ástig verið allt annað og mun betra en áður og henni finnst eins og að hún geti nú betur tyllt niður í fótinn þó ennþá sé langt í frá að hún sé laus við verkina.” Í matinu kemur m.a. einnig fram að göngufærni stefnanda sé verulega skert og að hún eigi mjög erfitt með að setjast á hækjur sér og tylla þunga í vinstra hæl sökum verkja.
Í stefnu segir að stefnandi hafi alla tíð búið í foreldrahúsum að Brautarholti á Kjalarnesi. Hún hafi orðið stúdent 1989 og stundað síðan nám í lögfræði og síðar viðskiptafræði við Háskóla Íslands en horfið frá námi í báðum tilvikum. Með námi hverju sinni hafi stefnandi unnið við graskögglaverksmiðjuna Brautarholti sem faðir hennar rekur, þó eðlilega með löngum hléum í kjölfar umrædds slyss. Á árunum 1993-1997 hafi stefnandi stundað nám í gullsmíði á Ítalíu. Eftir það hafi hún að mestu starfað við umrædda verksmiðju en stefni að því að öðlast löggildingu til gullsmíðastarfa hér á landi enda sé geta hennar til allra starfa, sem útheimti líkamlega burði, mjög skert.
II
Heildarörorka stefnanda var metin 40% af Stefáni Bogasyni lækni 31. maí 1993.
Í bréfi lögmanns stefnanda til landlæknis 12. október 1993 segir að hugsanlegt sé að rekja megi alvarlega sýkingu í vinstri fæti stefnanda til mistaka við læknismeðferð og var óskað könnunar af hálfu landlæknisembættisins. Áður, eða með bréfum dags. 23. febrúar 1993, hafði landlæknir óskað eftir því við Árna Björnsson yfirlækni/lýtalækni að fá sent afrit af sjúkraskrá stefnanda og óskað eftir umsögnum Sigurðar B. Þorsteinssonar, sérfræðings í lyflækningum og smitsjúkdómum á lyflækningadeild Landspítalans, um meðferð þá er stefnandi fékk á skurðlækningadeild Landspítalans 1991 og Haraldar Briem, yfirlæknis smitsjúkdómadeildar Borgarspítala, um þá meðferð er stefnandi fékk á skurðlækningadeild Borgarspítalans.
Í svarbréfi Sigurðar B. Þorsteinssonar, sérfræðings í lyflækningum og smitsjúkdómum á lyflækningadeild Landspítalans, dagsettu 8. mars 1993, tekur Sigurður fram að hann hafi lítillega komið að meðferð Ingibjargar og kunni því að vera að hann sé ekki heppilegur umsagnaraðili. Með þeim fyrirvara tók hann fram að það virtust einkum vera þrjár spurningar varðandi umrædda meðferð sem rétt væri að velta nánar fyrir sér:
1) Tók það óeðlilega langan tíma að greina beinsýkingu þá er Ingibjörg reyndist með?
2) Voru skurðaðgerðir þær sem gerðar voru eftir að sýkingin kom fram réttlætanlegar?
3) Var meðferð sýkingarinnar sjálfrar rétt?
Varðandi spurningu nr. 1 var mat hans að þessi sýking hefði átt að greinast fyrr eða í lok september. Hins vegar taldi hann allt annað mál hvort þessi töf skýrði erfiðleikanna við meðferð sýkingarinnar, því vafalaust hefði hún verið komin með sýkingu í beinið (chroniskan osteomyelitis) þá þegar.
Hann svarar spurningu nr. 2 með því að hann telji sig ekki hafa nægar upplýsingar eða þekkingu á skurðlæknismeðferð til að svara þessari spurningu á fullnægjandi hátt, en telur þó líklegt sé að aðgerðin hafi ekki verið nógu róttæk m.t.t. þess að fjarlægja sýkt bein, enda hafi á þeim tíma ekki verið ljóst að sýking væri á ferðinni.
Spurningu nr. 3 svarar hann með því að harla lítil von sé til lækningar með sýklalyfjum einum án þess að farlægja sýkt bein. Telur hann mjög ólíklegt að tekist hefði að lækna þá sýkingu með lyfjum einum saman þótt virk and-staphylococcameðferð hefði verið hafin þegar í september 1991. Hann segir þau lyf sem valin hafi verið við greiningu sýkingarinnar í sjálfu sér hafa verið eðlileg, þótt ýmis önnur lyf hefðu komið til greina.
Í svarbréfi Haraldar Briem, yfirlæknis smitsjúkdómadeildar Borgarspítala, dagsettu 10. nóvember 1994, kemur fram að Ingibjörg hafi verið lögð inn á lyflækningadeild Borgarspítalans 14. janúar 1992 í samráði við sig og að beiðni föður hennar. Innlagnarástæða var grunur um beinsýkingu (osteomyelitis) í vinstra hælbeini. Fram kemur að fljótlega eftir slysið í júlí 1991 hafi verið tekið eftir húðdökkva neðst á vinstri hæl, sem hafi orðið að hörðum, þurrum skildi. Í september 1991 muni hafa komið graftarútferð meðfram skildinum. Í framhaldi af því hafi hún verið lögð inn á lýtalækningadeild Landspítalans þar sem gerðar hafi verið staðbundnar húðflutningsaðgerðir án árangurs. Ýmiss konar sýklalyfjameðferð muni hafa verið beitt á næstu vikum og mánuðum, alltaf stuttan tíma í senn. Hálfum mánuði fyrir komu á Borgarspítalann hafi verið dreginn út gröftur úr fljótandi fyrirferð aftan á hælnum og úr þessu hafi ræktast staphylococcus aureus. Hafi þá verið hafin sýklalyfjameðferð og eitthvað muni hafa dregið úr graftargangi eftir það. Í bréfinu er ástandi Ingibjargar við komu á spítalann lýst þannig að lítils háttar roði hafi verið í kringum graftarop á neðanverðum vinstri hæl og lítils háttar eymsli þar í kring og húðin þunn og léleg. Tölvusneiðmynd sýndi verulega þrýstingsbrotið hælbein vinstra megin með herslisbreytingum. Var beinið í mörgum pörtum, mismunandi vel samgrónum. Beingerð var afbrigðileg með grófum bjálkum og inn á milli eyðum. Hægra hælbein reyndist einnig brotið en gróið. Þann 20. janúar 1992 framkvæmdi Brynjólfur Mogensen bæklunarskurðlæknir aðgerð á mjúkvefjum. Lá graftargangurinn frá opi á yfirborði aftur á hælbein. Nokkuð var hreinsað út af beini. Í aðgerð viku síðar var skafið burt það bein er til náðist og virtist það vera sýkt. Ráðgerð var sex vikna sýklalyfjameðferð í æð og síðan á töfluformi. Var meðferðinni beitt fram í maí 1992. Í göngudeildarnótu Sigurðar Guðmundssonar þann 18. nóvember 1992 kemur fram að sár undir vinstri hæl hafi gróið smám saman og verið alveg heilt frá því í júní 1992. Var beinsýkingin því talin læknuð.
Haraldur kveðst ekki geta gefið umsögn um meðferð þá er Ingibjörg hlaut á árinu 1991 á Landspítalanum. Hann tekur þó fram að samkvæmt þeim upplýsingum sem gefnar hafi verið við komu á Borgarspítalann 14. janúar 1992 hafi meðferð á lýtalækningadeild Landspítalans beinst að húðflutningsaðgerðum og að ætla megi að sýklalyfjameðferð hafi verið í ófullnægjandi skömmtum og í of skamman tíma í senn. Hann bendir á að mikilvægt sé að farið sé vandlega yfir gögn lýtalækningadeildar Landspítalans ef veita eigi fullnægjandi umsögn um þá meðferð sem þar var gefin.
Lögmaður stefnanda ritaði Ríkisspítölum bréf þann 28. desember 1994 og óskaði eftir afstöðu til bótaskyldu. Erindið var framsent embætti ríkislögmanns sem kallaði eftir umsögn meðferðarlækna á Landspítala.
Í greinargerð Árna Björnssonar, dags. 6. apríl 1995, kemur fram sú niðurstaða hans að um hafi verið að ræða mjög flókinn áverka, sem eðlis síns vegna hafi hlotið að leiða til varanlegrar örorku og það hafi gert hann enn flóknari að mjúkpartaskaði hafi opnað leið beinsýkingar inn á hælbeinið. Hann segir það matsatriði í tilvikum sem þessum hvenær grípa eigi til sýklalyfja og hvenær aðgerða sé þörf. Sýking seinki því alltaf að sár grói. Ekki sé hægt að fullyrða hvort lyfjameðferð fyrr eða önnur hefði breytt gangi mála né hvort aðrar aðgerðir hefðu komið til greina, jafnvel þótt allar aðstæður væru kunnar. Ekki sé heldur hægt að fullyrða um hvort eða hversu mikil áhrif sýkingin hafi haft á óhjákvæmilega örorku. Loks megi velta fyrir sér hvort sú ákvörðun sjúklings að breyta um meðferðaraðila hafi lengt eða stytt sjúkdómsferlið.
Í greinargerð Rafns A. Ragnarssonar, yfirlæknis lýtalækningadeildar Landspítalans, til Jónasar Magnússonar prófessors, handlækningadeild Landspítalans, dagsettri 18. júní 1995, kemur fram að Rafn hafi stundað Ingibjörgu með Brynjólfi Mogensen frá slysadeild Borgarspítalans í um það bil eitt ár. Hann segir að hún hafi hlotið óvenju slæman áverka á báða hæla, en sér í lagi þann vinstri þar sem um sé að ræða mölbrot á hælbeini og vefjadrep á hælpúðanum frá beini og út í gegnum húð. Hann segir þennan vef alveg sérstakan og aldrei hægt að endurskapa hann þannig að vel líki. Þegar þessar staðreyndir séu hafðar í huga sé það tilfinning sín að reyna ætti íhaldssama (conservativa) meðferð í lengstu lög, þar sem svo mikið væri af dauðum og illa blóðræstum vef, bæði mjúkum og hörðum. Þetta ástand hafi því verið mjög viðkvæmt með tilliti til sýkingarhættu, eins og afleiðingarnar hafi leitt í ljós.
Rafn segir það álit sitt að sárahreinsanir hefðu mátt bíða ögn lengur og vera róttækari þegar þær voru gerðar. Ennfremur hefði átt að notast við fúkkalyf í fyrirbyggjandi tilgangi um leið og sárskorpan hafi verið rofin.
Ríkislögmaður hafnaði bótaskyldu í málinu með bréfi dags. 4. september 1995.
Stefnandi leitaði álits nefndar um ágreiningsmál samkvæmt lögum nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu. Í forsendum fyrir niðurstöðu nefndarinnar segir að miðað við áverkann og ástand hans, er stefnandi gekkst undir aðgerð á lýtalækningadeild Landspítalans 18. september 1991, telji nefndin að rétt hefði verið að gefa fyrirbyggjandi sýklalyf bæði fyrir og eftir aðgerðina. Niðurstaða: “Nefndin telur að þrátt fyrir að mistök hafi verið gerð við læknismeðferð álitsbeiðanda þá verði ekki sýnt fram á eins og málið liggi fyrir að þessi mistök hafi leitt til frekara tjóns og örorku fyrir álitsbeiðanda en þegar var orðið. Af þessum sökum verði Ríkisspítalarnir ekki taldir skaðabótaskyldir.”
Að beiðni lögmanns stefnanda voru dómkvaddir matsmenn 2. september í Héraðsdómi Reykjavíkur, þeir Atli Þór Ólason bæklunarlæknir og Guðmundur Már Stefánsson lýtalæknir. Í niðurstöðukafla matsgerðar, dags. 20. nóvember 1999, sem hér verður tilgreindur í heild sinni, koma fram þær spurningar, sem fyrir matsmenn voru lagðar, jafnhliða svörum þeirra:
“1. spurning:
Hver er heildarörorka Ingibjargar, tímabundin og varanleg af völdum slyss þann 14 júní 1991? Séu þá bæði teknar með beinar og óbeinar afleiðingar.
Svar:
Við slysið 14.06.1991 hlaut Ingibjörg alvarlega áverka á báðar fætur, einkum hælbein, og sýkingu í vinstra hælbein.
Tímabundin örorka er sem hér segir:
Frá 14.06.1991 til 31.08.1992: 100%
Á þessum tíma var Ingibjörg til rannsókna og meðferðar vegna hælbeinsbrota svo og vegna sýkingar í vinstra hælbeini sem var fyrst að fullu læknað og sár gróin í júnímánuði 1992. Bata seinkaði vegna sýkingar, áætlað að mati undirritaðra að um sex mánuði.
Frá júlí 1994 í níu mánuði: 100%
Ingibjörg gekkst undir aðgerð í júlímánuði 1994 er beinspori á vinstra hælbeini var fjarlægður. Sýking kom á aðgerðarsvæði og var hún í níu mánuði frá vinnu af þessum sökum. Matsmenn áætla að sýking á hælsvæði hafi seinkað bata um sjö mánuði
Frá júní 1998 í einn mánuð: 100%
Ingibjörg gekkst undir aðgerð í júnímánuði 1998 á Landspítala þar sem klótær á vinstra fæti voru lagfærðar. Ekki kom upp sýking í kjölfar þessarar aðgerðar. Því er ekki um að ræða lengingu á óvinnufærnistíma af völdum sýkingar.
Við mat á varanlegri örorku er örorka hvors fótar um sig metin.
Við mat á varanlegri örorku af völdum áverka á hægra fæti Ingibjargar er miðað við brot á hælbeini, sköddun á neðri ökklalið og síðan þörf á staurliðsaðgerð og lækkun á langboga fótarins. Varanleg örorka vegna hægri fótar er í heild metin 15%.
Við mat á varanlegri örorku af völdum áverka á vinstri fót er litið til sömu atriða og nefnd voru vegna hægri fótar að því viðbættu að hælbeinið flattist mun meira út, langbogi fótarins lækkaði enn frekar, hælpúði skaddaðist enn meira, taugatruflun varð á taugum til iljar og klótær mynduðust á vinstra fæti. Varanleg örorka vinstri fótar er í heild metin 25%.
Matsmenn telja að sýking í vinstra hælbeini hafi leitt til þess að hluti af hælbeini dó og var fjarlægt þannig að sýking minnkaði beinmassa hælbeins og mjúkvefir umhverfis hæl, einkum hælpúði, skaddaðist að auki vegna sýkingar og aukinn stirðleiki hefur komið fram í aðlægum liðum sýkingarsvæðisins. Matsmenn telja að 10% af metinni örorku megi tengja afleiðingu sýkingarinnar.
2. spurning:
Hversu miklu meiri er örorka Ingibjargar, tímabundin og varanleg, vegna þess að sýking kom upp í vinstra fæti hennar?
Svar:
Tímabundin örorka á árinu 1992:
Sex mánuðir: 100%
Á árinu 1994:
Sjö mánuðir: 100%
Varanleg örorka: 10%
3. spurning:
Hversu miklu meiri er örorka Ingibjargar, tímabundin og varanleg vegna þess að ekki var beitt fullnægjandi sýklameðferð frá fyrsta mögulega tímamarki?
Svar:
Fyrsta mögulega tímamark að greina sýkingu í vinstri hæl Ingibjargar gæti hafa verið um miðjan september eða miðjan október 1991. Í aðgerð Árna Björnssonar þann 18.09.1991 var fjarlægður stór, dauður beinbiti úr vinstra hælbeini. Ekki var beinbiti eða sýni úr sári sent í ræktun. Sýklalyfjameðferð hófst með penicillin-gjöf þann 09.10.1991. Fyrsta sýklalyfjameðferð hefst því um það bil mánuði eftir að grunur gæti hafa vaknað um beinsýkingu. Meðferð var stopul. Beinsýking var staðfest í lok desember 1991 og var þá hafin penicillin-meðferð í æð. Seinkun á kröftugri sýklalyfjameðferð gæti því hafa verið á bilinu 2½ til 3½ mánuður.
Matsmenn telja ákaflega erfitt að meta þá viðbótar tímabundnu og varanlegu örorku er Ingibjörg kynni að hafa hlotið af völdum seinkunar á kröftugri sýklalyfjameðferð. Almennt má segja að sú tímabundna og varanlega örorka er Ingibjörg hlaut vegna þessa þáttar geti ekki verið meiri í heild en sem nemur þeirri tímabundu og varanlegu örorku er matsmenn telja að Ingibjörg hafi hlotið af völdum sýkingarinnar í heild, eins og sjá má í svari við 2. spurningu. Tímabundin og varanleg örorka vegna seinkunar á fullnægjandi sýklalyfjameðferð er því jafnt og en þó líklega mun minni en tímabundin og varanleg örorka af völdum sýkingarinnar. Matsmenn treysta sér ekki til að greina nánar þar á milli. Matsmenn telja að ekki sé ósanngjarnt að helmingur af tímabundinni og varanlegri örorku vegna sýkingar mætti rekja til seinkunar á sýklalyfjameðferð. Matsmenn vilja þó taka skýrt fram að hér er einungis um ágiskun að ræða sem erfitt er að færa frekari sönnur á.”
(Það athugast að um 2. og 3. matsatriði varð við fyrirtöku matsmáls 2. september 1998 samkomulag um orðalagið: Hvort og þá hversu miklu meiri . . .)
Matsmennirnir komu fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins, staðfestu matið og gáfu á því nokkrar skýringar.
Með bréfi 14. janúar 2000 óskaði lögmaður stefnanda eftir hefðbundnum útreikningi Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings miðað við metna örorku: ”100% tímabundna örorku í sex mánuði á árinu 1992, 100% í sjö mánuði á árinu 1994 og 10% varanlega læknisfræðilega örorku.” Óskað var eftir því að tjónsútreikningur miðaðist við meðaltekjur þar sem raunveruleg tekjuöflun stefnanda væri ekki raunhæft viðmið við útreikning bóta vegna aldurs, náms og annarra aðstæðna.
Í niðurstöðu tryggingafræðingsins, dags. 18. janúar 2000, segir að gengið sé út frá að 100% örorka hefjist í ársbyrjun 1992 og aftur í ársbyrjun 1994 og að örorka sé 10% frá slysdegi og alltaf þegar örorka er ekki 100%. Frá og með 26. aldursári er gengið út frá meðaltekjum iðnaðarmanna. Höfuðstólsverðmæti tekjutaps á slysdegi reiknast: Vegna 100% örorku 1.401.300 krónur og vegna 10% örorku 5.151.100 krónur eða samtals 6.542.400 krónur. Verðmæti tapaðra lífeyrisréttinda eru áætlaðar 6% af höfuðstólsverðmæti taps af 10% örorku, þ.e. 308.500 krónur. Við útreikning höfuðstólsverðmætis voru fram að útreikningsdegi 18/1 2000 notaðir vextir og vaxtavextir af almennum sparisjóðsbókum í Landsbanka Íslands en eftir útreikningsdag 4,5% vextir og vaxtavextir.
Með bréfi lögmanns stefnanda 17. febrúar 2000 voru hafðar uppi kröfur á hendur stefnda, samtals 8.884.360 krónur að meðtöldum vöxtum til 7. febrúar 2000, útlögðum kostnaði og lögmannsþóknun.
Undir rekstri málsins, 20. nóvember 2000, var kveðinn upp úrskurður um að óskað væri umsagnar Læknaráðs um tiltekin atriði sem tekin eru upp í svohljóðandi tillögu siðamáladeildar að svörum Læknaráðs:
1. Var meðhöndlun Ingibjargar Ólafar Pálsdóttur á Landspítalanum haustið 1991
forsvaranleg og eðlileg miðað við áverka þann er hún hlaut 14. júní 1991? Ef ekki, hverju var þá ábótavant?
Svar: Já, læknaráð telur að meðferð hafi verið forsvaranleg og eðlileg.
2. Hefði verið hægt að greina sýkinguna sem kom upp í vinstra fæti Ingibjargar Ólafar fyrr en gert var, þ.e. í desember 1991?
Svar: Hugsanlegt er að sýking í sárinu á vinstri hæl hafi byrjað áður en hún var greind í desember 1991. Þarna var um óvenjulega erfitt brot að ræða og alls óvíst er að útkoman hefði orðið betri þótt sýking hefði greinst fyrr og meðferð hefði verið hagað öðruvísi. Um það verður ekkert sagt með vissu. Hins vegar er ekkert í fyrirliggjandi gögnum sem bendir til þess að einkenni um sýkingu hafi farið fram hjá þeim sem höfðu Ingibjörgu Pálsdóttur til meðferðar fyrir þann tíma.
3. Fellst Læknaráð á niðurstöðu matsgerðar Atla Þórs Ólasonar og Guðmundar Stefánssonar, bæði að því er varðar tímabundna og varanlega örorku og einnig þau tímabil sem þeir nefna?
Svar: Læknaráð fellst á þá niðurstöðu matsgerðar Atla Þórs Ólasonar og Guðmundar Stefánssonar að varanleg örorka af völdum áverka á hægri fæti Ingibjargar er metin 15% og varanleg örorka af völdum áverka á vinstri fæti 25%. Ráðið fellst hins vegar ekki á þá niðurstöðu í matsgerðinni að hluti þeirrar örorku verði rakinn til þess að dráttur hafi orðið á greiningu sýkingar, sbr. svar við spurningu nr. 2 hér að ofan. Læknaráð fellst á mat á 100% tímabundinni örorku frá 14. júní 1991 til 31. ágúst 1992, en ekki á þá tímabundnu örorku sem metin er í matsgerðinni fram yfir það. Ráðið telur að þann 31. ágúst 1992 hafi stöðugleikapunkti verið náð og að varanleg örorka gildi frá þeim tíma, þannig að tímabundin örorka eftir það, í tengslum við aðgerðir sem þegar hafa verið framkvæmdar og aðgerðir sem kunna að verða framkvæmdar í framtíðinni, teljist hluti af varanlegu örorkunni vegna áverkanna.
4. Fellst Læknaráð á forsendur og niðurstöður álitsgerðar nefndar um ágreiningsmál samkvæmt lögum nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu?
Svar: Læknaráð fellst ekki á þá niðurstöðu nefndar um ágreiningsmál samkvæmt lögum nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu að mistök hafi verið gerð við læknismeðferð Ingibjargar.
Samkvæmt bréfi Sigurðar Guðmundssonar, forseta Læknaráðs, frá 18. desember 2000 féllst ráðið á niðurstöður siðamáladeildar og gerði þær að sínum
Undir álit siðamáladeildar ritar Sigurður Thorlacius og gaf hann skýrslu fyrir dóminum. Aðspurður af lögmanni stefnanda kvað hann Sigurbjörn Sveinsson og Gunnlaug Geirsson hafa skipað deildina auk sín. Enginn þeirra hefði sérfræðimenntun á sviði bæklunarlækninga, lýtalækninga eða í sýkingum. Hann kvað þá ekki hafa leitað formlega utanaðkomandi ráðgjafar, sbr. 4. gr. laga um Læknaráð. Þeir hefðu byggt á þeim gögnum sem fyrir lágu og hafi umsögn Halldórs Jónssonar, forstöðulæknis bæklunarskurðdeildar Landspítala háskólasjúkrahúss, haft mikið vægi. Um er að ræða álitsgerð, dags. 27. maí 2000, sem hefur einkum að geyma athugasemdir við framangreinda matsgerð. Fjórir aðrir bæklunarlæknar á Landspítala lýsa sig sammála athugasemdum og niðurstöðum með undirskrift sinni. Ekki eru efni til að rekja álitsgerðina fremur en viðbót hinna dómkvöddu matsmanna frá 16. mars 2002 við matsgerð þeirra en hún hefur að geyma andsvör við framangreindri álitsgerð Halldórs Jónssonar og tjáir óbreytta afstöðu til matsefnis.
III
Dómkrafa stefnanda er þannig sundurliðuð:
1. Örorkutjón
1.1 Tímabundin örorka kr. 1.401.300
1.2 Varanleg örorka kr. 5.141.100
- frádr. v/skattahagr., ein-
greiðslu hagr. og fl(10%) Kr. 514.110 kr. 4.626.990
1.3 Töpuð lífeyrisréttindi kr. 308.500
2. Miskabætur kr. 1.000.000
kr. 7.336.790. Um tölulegar forsendur er vísað til útreiknings Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings. Þá er vísað til þess að stefnandi hafi liðið afar stórfelldar og langvarandi þjáningar, röskun á stöðu og högum og önnur óþægindi, líkamleg og andleg, vegna þrálátra og varanlegra afleiðinga þeirrar sýkingar sem upp kom. Þessar afleiðingar hafi bæst við þá miklu röskun, sem slysið hafi eðlilega valdið eitt og sér, og setji stefnanda veruleg takmörk við ýmsar athafnir daglegs lífs, við leik og störf.
Kröfur sínar reisir stefnandi á þeirri forsendu að hún hafi orðið fyrir tímabundinni og varanlegri örorku sem og miska vegna bótaskyldra mistaka starfsmanna Landspítalans haustið 1991. Fullyrt er með vísun til læknisfræðilegra gagna að sýking sú, sem upp kom í vinstri fæti, hafi hvorki verið greind né meðhöndluð á réttan og forsvaranlegan hátt. Á þessum ólögmætu og saknæmu mistökum beri stefndi ábyrgð samkvæmt reglunni um vinnuveitandaábyrgð.
Af hálfu stefnda er því hafnað að um mistök hafi verið að ræða í greiningu eða meðhöndlun stefnanda. Ekkert hafi bent til sýkingar hjá stefnanda þegar hún hafi verið undir læknishendi haustið og fram að áramótum 1991/1992 og því hafi engin nauðsyn verið á að kalla til smitsjúkdómalækni. Læknismeðferðin hafi verið fagleg og eðlileg og á hverjum tíma í samræmi við þá vitneskju sem fyrir lá um ástand stefnanda. Ekkert hafi bent til sýkingar hjá stefnanda fyrr en undir áramót 1991/1992 og ekki verið þörf á annarri sýklalyfjameðferð en þeirri sem hún fékk og hafði fyrirbyggjandi tilgang. Þá er af hálfu stefnda haldið fram að ekkert hafi komið fram sem bendi til þess að afleiðingar sýkingar í hælnum hafi haft í för með sér aukna örorku umfram það sem vænta mátti vegna hins alvarlega áverka.
Andmæli stefnda að öðru leyti gegn kröfugerð stefnanda beinast að því að örorkustig sé of hátt og sá tími, er stefnanda var metin örorka, of langur. Samkvæmt dómvenju sé 10% fádráttur vegna skattfrelsis og eingreiðsluhagræðis of lágur og miskabótakrafa of há. Þá er vaxtakröfu andmælt og því haldið fram að meta verði stefnanda til eigin sakar að hafa útskrifað sig sjálf af Landspítalanum því að óhjákvæmilega hafi það leitt til dráttar á meðferð.
IV
Engin gögn eru um að tekin hafi verið sýni til ræktunar frá hæl stefnanda fyrr en 8. október 1991 þegar sýni var tekið til ræktunar frá sári. Stefnanda var gefið dikloxacillin (StakloxÒ) 500 mg í hylkjaformi fjórum sinnum á dag frá 9. til 15 október 1991 (dikloxacillin er sýklalyf með virkni gegn húðbakteríum eins og staphylococcus aureus). Í nótum hjúkrunarfræðings er haft eftir lækni, sem stýrði meðhöndlun, að honum litist “bærilega á” (handritaðar umsagnir hjúkrunarfræðings frá 16. 10. 1991).
Þann 21. október 1991 kemur stefnandi á göngudeild Landspítalans. Lýst er gati á “endann” sem er merkt 1cm x 1 cm x 1 cm. Læknir, sem meðhöndlar stefnanda (ÁB), klippir upp úr sári og dregur sárbarmana saman. Í skoðun 29. s.m. segir að hægt gangi og þann 31. s.m. er sárbotni lýst sem “dökkur”.
Þann 4. nóvember 1991 er klippt burt fita. Þann 25. s.m. er eftirfarandi lýsing á sári; “... illa lyktandi útferð + fitudrulla klippt og hreinsað sárið dýpra og eins og opnist göng fram í átt að tánum ÁB ætlar að sjá á miðv dag”. Það var mat meðferðaraðila að sár líti heldur betur út næstu daga þó því sé lýst sem illa lyktandi.
Þann 2. desember 1991 kvartaði stefnandi um aukna verki í “beininu”, illa lyktandi gul útferð frá sári er lýst í gögnum. Tekið var strok á bómullarpinna úr sári til ræktunar. Stefnandi var meðhöndluð með sáraskiptingum næstu daga. Fékk sýklalyf í nokkra daga (líklega sama og áður). Þann 12. desember er aftur tekið ræktunarsýni úr sári. Í göngudeildarskrifum þann 16. desember sama ár segir: “ Strok svar: Staf aur ++ ekki sett á lyf. “ (Staf aur = staphylococcus aureus er algeng baktería sem vex á húð og er algengur orsakavaldur húðsýkinga auk sýkinga í beinum og víðar). Stefnandi kom á göngudeild 24. desember s. á. og sagt er í gögnum göngudeildar að umbúðir sem reyndar hafi verið hafi gefist illa.
Þann 27. desember 1991 er stefnandi lögð á sjúkradeild 13A (lýtalækningadeild) Landspítalans eftir að hafa komið á göngudeild vegna sársins; “aukin útferð pus + roði á utanverðum ökkla tekin ræktun innlögð” (útferð táknar að gröftur (pus) rennur úr sári, roði á utanverðum ökkla bendir til útbreiddrar sýkingar).
Af fyrirliggjandi gögnum verður ekki annað séð en að sár, sem opnaðist í september, lokaðist ekki þrátt fyrir tvær aðgerðir, tvo skráða sýklalyfjakúra og margra mánaða umönnun á göngudeild Landspítalans.
Lýsing stefnanda fyrir dómi á því að í 2. eða 3. viku nóvember 1991 hafi ástand sárs versnað til muna, sárvökvi hafi aukist og orðið illa lyktandi kemur ágætlega heim og saman við skráð gögn sjúkrahússins varðandi ástand sárs stefnanda.
Það er engum vafa undirorpið að við innlögn á sjúkrahús þann 27. desember 1991 þjáðist stefnandi af langvinnri (chronic) beinsýkingu (osteomyelitis). Af gögnum málsins verður hins vegar ekki fullyrt að vi. hæll stefnanda hafi verið sýktur í september 1991 þegar hreyft var við drepbletti á húð á vi. hæl. Það má þó ljóst vera að á tímabilinu frá u.þ.b. 15. september 1991 til upphafs desember sama ár hefur sýking borist í vi. hæl sjúklings. Niðurstaða ræktunar frá sári á vi. hæl dags. 2. desember 1991 sýndi staphylococcus aureus. Í kjölfar sýnatöku voru stefnanda gefin sýklalyf (sömu og áður en tímalengd er óviss, líklega vika til 10 dagar). Þann 16. desember s.á. var aftur tekið sýni frá sári sem sýndi sömu bakteríu.
Af framansögðu verður að telja fullvíst að stefnandi hafi verið komin með sýkingu í hælbein vinstri fótar um miðjan nóvember 1991. Þegar í september 1991, er húð var rofin og sárdrep fjarlægt, sköpuðust forsendur fyrir sýklun (það að sýklar af húð sjúklings hafi komist í sár sem er yfirleitt undanfari sýkingar eins og hér um ræðir) hælsárs á vinstri fæti sem leiddi til sýkingar á hælbeinsbrotum þá eða síðar. Líkur eru einnig fyrir því að aðgerðir í september sama ár í þeim tilgangi að loka sári hafi ekki lánast sem skyldi vegna sýkingar. Þannig má lesa úr gögnum hjúkrunarfræðinga síðustu tvo daga fyrir útskrift (um miðjan október) af sjúkradeild 13A að “talsvert” hafi verið í umbúðum við sáraskiptingar. Áður var sáraskiptingum lýst sem “ekkert sérstakt”. Sú staðreynd að stefnanda var gefið hefðbundið sýklalyf gegn sárasýkingu bendir eindregið til þess að sá grunur hafi vaknað meðal meðhöndlandi lækna að ekki væri allt með felldu er varðaði sár stefnanda.
Fullvíst verður talið að stefnandi hafi haft beinsýkingu frá miðjum nóvember 1991 og að öllum líkum frá miðjum október sama ár. Það leið því a.m.k. einn og hálfur mánuður frá því að sýking var sannanlega (miður nóvember) til staðar og tveir og hálfur mánuður frá því veruleg líkindi voru fyrir því að svo væri komið ( miður október) uns viðeigandi sýklalyfjameðferð var beitt með sýklalyfjagjöf í æð. Fyrirhuguð skurðaðgerð 16. janúar 1992 hefði átt að vera fyrr (á milli jóla og nýárs) enda mátti ljóst vera að stefnandi hefði langvinna beinsýkingu og að lykilatriði lækningatilrauna væru fólgin í skurðaðgerð.
Þótt afsakanlegt megi telja að óvissa hafi verið um sýkingu í október 1991 verður fullyrt að bregðast hefði átt við breytingum á sári og einkennum stefnanda um miðjan nóvember sama ár, sem gáfu beinsýkingu til kynna, mun fyrr en raunin varð. Áform um aðgerð þegar sjúkdómsgreining lá loks fyrir drógu lækningu enn frekar á langinn. Telja verður að viðbótaráverki hafi hlotist af langvinnri beinsýkingu sem stefnandi hafði sannanlega á þriðja degi jóla 1991. Hann jók á örorku stefnanda og lengdi sjúkdómsferilinn sem nam þeim tíma sem stefnandi glímdi við sýkinguna.
Niðurstaða dómsins er samkvæmt framangreindu að mistök hafi átt sér stað við meðferð stefnanda, sem lúta að vangreiningu sýkingar í beinum á vinstri hæl hennar, og að dráttur, sem varð á greiningu og meðferð sýkingarinnar, hafi aukið á örorku stefnanda vegna þess slyss sem hún varð fyrir 14. júní 1991. Við læknismeðferðina var þannig ekki sýnd slík aðgæsla sem með réttu varð krafist. Á afleiðingum tímabundinnar og varanlegrar örorku stefnanda vegna þessa sem og miska ber stefndi fébótaábyrgð samkvæmt reglu skaðabótaréttar um vinnuveitandaábyrgð.
Eftir því sem fram er komið verður engan veginn fallist á það með stefnda að meta verði stefnanda til eigin sakar að hafa útskrifað sig sjálf af Landspítalanum. Hins vegar er fallist á að samkvæmt dómvenju sé 10% frádráttur vegna skattfrelsis bóta og eingreiðsluhagræðis of lágur og miskabótakrafa of há. Ekki eru efni til að tjáð verði nánari niðurstaða dómsins að þessu leyti svo sem fram kemur af eftirfarandi.
Kröfugerð stefnanda er reist á matsgerð læknanna Atla Þórs Ólasonar og Guðmundar Más Stefánssonar og útreikningi tryggingafræðings sem sætir ekki andmælum. Dómurinn fellst á niðurstöður matsins sem hefur ekki verið hrakin með yfirmati en áður er fram komið um afstöðu Læknaráðs.
Kröfugerð stefnanda víkur frá matinu að því leyti að hún miðast við alla þá örorku, tímabundna og varanlega, sem metin var vegna þess að sýking kom upp í vinstri fæti stefnanda. Niðurstaða matsins að þessu leyti var hins vegar sú að ekki væri ósanngjarnt að helmingur af tímabundinni og varanlegri örorku vegna sýkingar mætti rekja til seinkunar á sýklalyfjameðferð. Matsmenn tóku jafnframt fram að hér væri einungis um ágiskun að ræða sem erfitt væri að færa frekari sönnur á.
Vegna þess örðuga úrlausnarefnis og hinnar óljósu matsniðurstöðu sem hér um ræðir verða stefnanda dæmdar bætur að álitum fyrir örorkutjón og miska. Hæfilegt þykir að stefndi greiði stefnanda 3.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 14. júní 1991 til 31. mars 2000 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til 1. júlí 2001 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði; útlagður kostnaður 361.779 krónur og laun lögmanns hennar, Karls Axelssonar hrl, sem eru ákveðin 400.000 krónur. Vegna þessa eru ekki efni til að kveða á um greiðslu málskostnaðar sem eftir úrslitum málsins bæri að dæma úr hendi stefnda nyti ekki við gjafsóknar og kemur því í sama stað niður.
Mál þetta dæma Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari og meðdómendurnir Már Kristjánsson smitsjúkdómalæknir og Stefán Carlsson bæklunarlæknir.
D ó m s o r ð:
Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Ingibjörgu Pálsdóttur, 3.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. janúar 1992 til 31. mars 2000 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til 1. júlí 2001 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, samtals 761.779 krónur, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin laun lögmanns hennar, Karls Axelssonar hæstaréttarlögmanns, 400.000 krónur.