Hæstiréttur íslands

Mál nr. 762/2009


Lykilorð

  • Ávana- og fíkniefni
  • Ítrekun
  • Upptaka


                                                        

Miðvikudaginn 12. maí 2010.

Nr. 762/2009.

Ákæruvaldið

(Valtýr Sigurðsson

ríkissaksóknari)

gegn

Gunnari Viðari Árnasyni

(Björgvin Þorsteinsson hrl.)

Ávana- og fíkniefni. Ítrekun. Upptaka.

G var gefið að sök stórfellt fíkniefnabrot með því að hafa staðið að innflutningi frá Hollandi til Íslands í apríl 2009 á 6.149,48 grömmum af amfetamíni, sem ætlað hafi verið til söludreifingar í ágóðaskyni, en G hafi lagt á ráðin um innflutninginn og verið í samráði við menn í Hollandi um tilhögun á sendingu fíkniefnanna hingað til lands. G neitaði sök. Meðal gagna málsins voru gögn sem hollenska lögreglan aflaði í tengslum við sendingu fíkniefnanna til Íslands, auk endurrita af símtölum D við íslenska símanúmerið 6613138. Af þeim var talið fullljóst að D var meðal þeirra sem stóðu að sendingu fíkniefnanna til Íslands, svo og að íslenski viðmælandinn hans í símanúmerinu 6613138 lagði á ráðin um innflutninginn og var í samráði við þá sem efnin sendu frá Hollandi. Þá lágu fyrir í málinu upptökur af samtölum G við Á í heimsóknarherbergjum á Litla-Hrauni. Talið var að þegar ummæli G í samtölum á Litla-Hrauni voru borin saman við upptökur af símtölum D við símanúmerið 6613138 væri hafið yfir skynsamlegan vafa að G hefði verið viðmælandi D og að hann hefði í þessum símtölum lagt á ráðin um innflutning fíkniefnanna. Þetta styddu auk þess önnur gögn í málinu. Var G því sakfelldur og var brot hans talið varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá var G jafnframt sakaður um að hafa í maí 2009 haft í vörslum sínum 5,55 grömm af kannabisefnum. G játaði það brot og var sú háttsemi hans talin varða við 2. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að G braut nú ítrekað gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga. Þá laut brot G að innflutningi í ágóðaskyni á miklu magni sterkra fíkniefna. Hann var talinn hafa sýnt einbeittan ásetning og haft samvinnu um brot sitt við menn, sem erlend yfirvöld telja tengjast alþjóðlegri glæpastarfsemi. G ætti sér engar málsbætur.  Þótti refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í fimm ár.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson og Helgi I. Jónsson dómstjóri.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 21. desember 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærða, en að refsing hans verði þyngd.

          Ákærði krefst sýknu af I. kafla ákæru og að honum verði gert að greiða sekt vegna brots samkvæmt II. kafla hennar.

I

Á árinu 2008 bárust lögreglu upplýsingar um að í undirbúningi væri innflutningur hingað til lands á fíkniefnum frá Hollandi. Af þessu tilefni hóf lögreglan söfnun upplýsinga og gagna og beitti við það meðal annars símhlerunum og herbergishlustunum og fylgdist með ferðum manna án þeirra vitneskju. Hafði lögregla í þessum efnum samvinnu við erlend lögregluyfirvöld. Við þetta vaknaði meðal annars grunur um að menn hér á landi ættu þátt í stórfelldum innflutningi fíkniefna til Evrópu frá Suður-Ameríku í samvinnu við erlend glæpasamtök. Upplýsingar um komur erlendra manna, sem grunaðir voru um aðild að ætluðum innflutningi fíkniefna, til landsins á síðari hluta ársins 2008 og fyrri hluta árs 2009 og upptökur af samtölum í heimsóknarherbergjum á Litla-Hrauni á þessu tímabili, sem voru afrakstur þessara eftirgrennslana, eru meðal gagna málsins og verður síðar vikið nánar að einstökum atriðum er þessi gögn varða. Lögreglu bárust síðan 20. apríl 2009 upplýsingar frá hollenskum yfirvöldum um að væntanleg væri til landsins sending með flutningafyrirtækinu UPS, sem hefði að geyma ólögleg fíkniefni, og kom hún daginn eftir. Um var að ræða kassa og var sendandi hans skráður fyrirtækið World Wood bv. með nánar tilgreint heimilisfang í Hollandi, en viðtakandi Flugger ehf., Stórhöfða í Reykjavík. Kassinn átti samkvæmt farmskrá UPS að geyma sýnishorn. Hann var opnaður af íslenskun yfirvöldum og reyndust vera í honum sex áldósir, þar sem fundust samtals 6.149,58 grömm af amfetamíni. Samkvæmt álitsgerð Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði 11. maí 2009 var styrkur amfetamínbasa 27% í efnagreindu sýni, sem samsvarar 37% af amfetamínsúlfati. Í framburði Jakobs Kristinssonar dósents fyrir héraðsdómi kom fram að þetta væri í flokki með sterkari sýnum sem rannsóknastofan hefði fengið til rannsóknar, en meðalstyrkur undanfarinna ára væri 17,2%.

 Fyrrnefndar áldósir voru fjarlægðar úr kassanum við komuna til landsins og í þeirra stað komið fyrir málningardósum ásamt upptöku- og eftirfararbúnaði. Kassinn var að því búnu sendur viðtakanda, en eftirgrennslan lögreglu í tengslum við móttöku hans skilaði ekki árangri. Í kjölfar sendingarinnar til Íslands bárust lögregluyfirvöldum hér á landi upplýsingar frá hollensku lögreglunni er tengdust sendingunni og aflað hafði verið meðal annars með símhlerunum og eftirför. Taldi hollenska lögreglan mann að nafni John Dielissen, fullu nafni Johannes Hubertus Wilhelmus Maria Dielissen, hafa sent pakkann til Íslands, hugsanlega að beiðni Ronny Verwoerd, en þessir menn voru, ásamt fleirum sem koma sumir við sögu í þessu máli og verður síðar getið, undir eftirliti vegna rannsóknar, sem beindist að alþjóðlegum samtökum er smygluðu kókaíni og tilbúnum fíkniefnum. Við rannsókn ytra hafi komið fram að í tengslum við sendingu pakkans til Íslands hafi Dielissen haft samband við mann að nafni Roelof Knopper, sem var talinn hafa komið við hjá þeim fyrrnefnda 18. apríl 2009. Síðan hafi Knopper haft símsamband við flutningafyrirtækið UPS 19. og 20. sama mánaðar, en í símtali um klukkan 8 að morgni síðastnefnds dags hafi hann sagt starfsmanni UPS að hann þyrfti að senda til Íslands um það bil 8 kg af harðviðarolíu og spurt hvað það myndi kosta. Þegar starfsmaður UPS spurði um ummál pakkans hafi Knopper ekki vitað það en sagst mundu hringja aftur með þær upplýsingar. Sex mínútum síðar hafi Knopper hringt í Dielissen og spurt um málin á „litlu vélinni“ auk þess að láta Dielissen vita um sendingarkostnaðinn. Dielissen hafi gefið upp tiltekið ummál og þremur mínútum síðar hafi Knopper hringt aftur í UPS og gefið starfsmanni félagsins upp sama ummál á pakkanum. Um hádegisbil sama dag hafi síðan lögregla fylgst með því þegar Knopper hafi afhent starfsmanni UPS pakka til sendingar, en pakkann hafi hann tekið úr farangursgeymslu bifreiðar sem skráð var í eigu Dielissen. Ljósmyndir af afhendingu pakkans eru meðal gagna málsins. Við eftirgrennslan hafi komið í ljós að senda átti pakkann til Íslands og vöruðu hollensk lögregluyfirvöld að því búnu lögreglu hér á landi við eins og að framan er rakið.

Við símhleranir hollensku lögreglunnar kom í ljós að samband hafði verið milli síma Dielissen og íslenskra símanúmera dagana fyrir sendingu margnefnds pakka. Tvö þessara símtala Dielissen voru við mann að nafni Gunnar Ingi Gunnarsson, en þrjú við símanúmerið 354 6613138, sem lögregla ætlar að ákærði hafi notað. Fyrir liggur að það símanúmer var fyrst notað 15. apríl 2009 og síðast 19. sama mánaðar, en á þeim tíma fóru aðeins fjögur símtöl um það. Um fyrsta símtalið, sem fram fór 15. apríl, eru ekki fyrirliggjandi upplýsingar, en hollenska lögreglan, sem hleraði símtölin, hefur látið íslenskum yfirvöldum í té upptökur og endurrit hinna þriggja og liggja þau gögn fyrir í málinu. Símtöl þessi fóru fram á ensku. Það fyrsta hófst klukkan 19.22.41 föstudaginn 16. apríl 2009 og stóð í eina mínútu og 15 sekúndur. Eftir kveðjur spurði íslenski viðmælandinn Dielissen hvað hafi farið úrskeiðis. Dielissen spurði á móti hvað hann ætti við og viðmælandinn svaraði að hann hafi rætt við Ron á föstudag og hann ætlað að framkvæma hlutinn á þriðjudag. Viðmælandinn hafi síðan hringt í Ron á mánudegi en hann þá ekki svarað. Kvaðst íslenski viðmælandinn vona að Dielissen hefði ekki þegar sent það. Dielissen sagðist ekki hafa sent það, en sent viðmælandanum tölvupóst þennan dag, sem hann bað viðmælandann í íslenska númerinu að lesa. Dielissen kvaðst hafa átt annríkt daginn áður, lent í mikilli umferð og ekki komið heim fyrr en klukkan sex. Sá í íslenska númerinu féllst á að þeir myndu fresta þessu fram á mánudag og eftir að hafa fullvissað sig um að hann gæti náð í Dielissen í sama símanúmeri sleit hann samtalinu. Næsta símtal í númerinu 6613138 fór fram sunnudaginn 19. apríl, en það hófst klukkan 21.47.20 og stóð í eina mínútu og 12 sekúndur. Í símtali þessu sagði Dielissen að það færi af stað á morgun. Samtalið var að öðru leyti um margt óljóst, en þar var þó meðal annars rætt um tölvupóstsamskipti. Síðasta símtalið um þetta númer fór fram innan við mínútu eftir að því síðastnefnda lauk og stóð í 42 sekúndur. Íslenski viðmælandinn spurði Dielissen hvort hann gæti sett lýsinguna og allt með. Dielissen skildi ekki hvað hann ætti við og viðmælandinn bað Dielissen þá að setja allar upplýsingar í tölvupóst svo að þeir myndu vita hvernig þetta liti út. Dielissen sagðist hafa sett allt með en ekki getað sent mynd vegna þess að það hafi ekki virkað.

Meðal gagna málsins eru upptökur af samtölum ákærða við refsifangann Ársæl Snorrason, sem ákærði heimsótti á Litla-Hraun 26. apríl og 8. maí 2009, nokkru eftir að lögregla hafði lagt hald á fíkniefnin. Upptökurnar eru um sumt ógreinilegar, en eins og nánar kemur fram í hinum áfrýjaða dómi unnu fleiri en einn lögreglumaður að því meðal annars með aðstoð tæknibúnaðar að greina hvað þar var sagt. Báru tveir þeirra fyrir héraðsdómi að þeir væru ekki í vafa um að fyrirliggjandi endurrit samtalanna væru rétt. Samkvæmt endurriti af fyrra samtalinu voru eftirfarandi ummæli meðal annarra skráð eftir ákærða: „Einu gögnin sem þeir hafa er símanúmerið sem ég keypti fimm dögum áður en ég notaði það. Ég er ekki búinn að sofa skilurðu ég er búinn að bíða eftir því þegar ég ligg upp í rúmi á kvöldin og horfi á hurðina og bíð eftir því að þeir sparki henni upp. Þið getið skoðað allt sem ég gerði það var fullkomið ég var með slökkt á þangað til ég ætlaði að hringja í ... og áður en hann var búinn að senda lýsingu ... lýsingu á netinu ... Ég er focked.“ Stuttu eftir þetta hafi ákærði sagt: „Ég henti símanúmerinu og öllu“ og „engin tenging við mig skilurðu svo 6,4 kíló og ég Siggi sagði (óskýrt) hámark 4 kíló ha nei“. Aðeins síðar hafi svo ákærði sagt: „Þetta er hrikalegt. Þetta er það versta sem ég hef nokkurn tímann getað lent í ég gæti verið handtekinn út af einhverju bulli í tölvunni skilurðu hmmm. Hvernig útskýri ég þetta skilurðu ... þeir sjá hver keypti símann...“ og „eitthvað númer á kassa hvers konar vitleysingar eru þetta þó Ronny sjái um þetta þá fer hann til útlanda og segir hinum að gera þetta fyrir sig ekki sköllótta heldur hinum stóra þarna. Segir honum að gera þetta fyrir sig og segir honum að taka þetta ekki létt hann var í útlöndum skilurðu. Lofar að svara mér á mánudaginn og sendir á þriðjudag. Þetta er svo ömurleg framkoma svo þetta fréttin daginn áður pakka upp á sex rúmlega sex ha og þeir ætluðu núna, það er allavega eitt jákvætt við það gaurinn sem að sendi þetta lét ekki sjá sig í fyrirtækinu sem þeir redduðu. Kerlingin hans ég hringdi í hana ég hringdi úr þessu sama númeri í símann hennar spáðu í því. Konan hans er skráð fyrir símanum þá hugsa ég hvernig er hægt að vera svona heimskur. Hann vissi það hringdi í mig til baka úr þessu númeri.“ Undir lok samtalsins hafi svo ákærði sagt eftirfarandi: „Nei ég segi bara að ég keypti símann fór á fyllerí, alveg eins og hann sagði, fór á fyllerí um kvöldið og var að bulla í einhverjum kerlingum og svo bara týndi ég símanum. Hvað er það það er ekki hægt að sanna neitt. Það er ekki hægt að finna eina örðu af sönnunargögnum í þessu öllu“.

Í tengslum við það að ákærði hafi sagt í framangreindu samtali orðin: „Kerlingin hans ég hringdi í hana“, er þess að geta að í hljóðrituðu símtali, sem John Dielissen átti við Gunnar Inga Gunnarsson 16. apríl 2009, þar sem þeir ræða bifreiðaviðskipti, kom fram að Dielissen hafi reynt að hringja í Gunnar Inga daginn áður vegna þess að kona þess fyrrnefnda hafi sagt að „Gunnar from Iceland“ hafi hringt.

 Í seinna samtali ákærða við Ársæl 8. maí 2009 voru eftirfarandi ummæli meðal annarra skráð eftir ákærða: „Og slökkti á símanum þá sér hinn um þetta fyrir hann samskiptin og hann segir honum að gera þetta svona auðvitað mun ég aldrei viðurkenna það að þú hafir beðið mig um að fá þetta númer. ... Það veit enginn af númerinu. ... Þeir fara í Vodafone og sjá það að ég keypti þennan síma á þessum tíma ... þeir bara skoða þessi númer og hún er pottþétt skráð fyrir númerinu kerlingin hans. Býst ég við þannig að þetta er ekki bara slæmt fyrri mig þetta er slæmt fyrir þau líka örugglega bara verra fyrir þau, hvað ætla þeir að gera? Koma heim til mín og handtaka mig fyrir innflutning?“

Fyrir liggur í málinu að þrír erlendir menn komu til landsins 15. maí 2009, þeir Ronny Verwoerd, hollenskur ríkisborgari, sá hinn sami og hollensk lögregluyfirvöld grunuðu um að hafa staðið að sendingu fíkniefnanna til Íslands mánuði áður í samvinnu við Dielissen, Erez Zizov og Esra Abadi, sem munu báðir vera ísraelskir ríkisborgarar. Allir þessir menn voru meðal þeirra sem áðurnefnd rannsókn hollensku lögreglunnar beindist að vegna gruns um þátttöku í alþjóðlegum glæpasamtökum um fíkniefnasmygl. Allir munu þeir hafa komið nokkrum sinnum til Íslands á síðari hluta ársins 2008 og fyrri hluta 2009 og verið þá undir eftirliti lögreglu. Þá liggur fyrir að Dielissen hafi komið til landsins tvisvar á þessu tímabili og voru þremenningarnir allir með honum í för í síðara skiptið, 19. mars 2009, en þeir Verwoerd og Zizov í hið fyrra, 6. desember 2008. Samkvæmt gögnum málsins sótti ákærði þremenningana út á flugvöll 15. maí 2009, snæddi með þeim á veitingahúsi og lét þeim í té bifreið til afnota. Ákærði átti jafnframt ýmis samskipti við þessa menn næstu daga, en 18. sama mánaðar hitti hann þá í verslunarmiðstöð í Smáralind og hélt með þeim út á bifreiðastæði, þar sem hann afhenti Zizov þykkt umslag, en myndir af samskiptum þeirra eru meðal gagna málsins. Ákærði skýrði þetta síðar í skýrslu hjá lögreglu og fyrir dómi á þann hátt að hann hafi tekið að sér að skipta 1.700.000 íslenskum krónum í evrur fyrir þremenningana og tekið við peningaseðlum í því skyni, en honum hafi hins vegar reynst örðugt að skipta svo hárri fjárhæð og hafi hann á bifreiðastæðinu afhent þeim félögum til baka 600.000 íslenskar krónur í seðlum, sem honum hafi ekki tekist að skipta. Fyrir liggur að þremenningarnir héldu úr landi 19. maí 2009 og voru handteknir við komu til Hollands, en þá reynst meðal annars hafa í fórum sínum um 50.000 evrur.

Ákærði var handtekinn 22. maí 2009, en við leit á heimili hans var meðal annars lagt hald á 5,55 grömm af kannabisefnum. Hann hefur frá þeim degi sætt gæsluvarðhaldi.

Eins og að framan greinir var það ætlan lögreglu að ákærði hafi verið notandi símanúmersins 6613138. Af því tilefni aflaði hún skýrslu frá rannsóknarstofu um símagögn hjá bandarísku alríkislögreglunni, þar sem borin var saman annars vegar rödd ákærða í símtölum, sem hann sannanlega hafði átt, og hins vegar rödd hins íslenska viðmælanda Dielissen úr fyrrgreindu númeri í símtölunum þremur. Niðurstaða skýrslunnar var sú að hlustun og litrófsritun leiddu í ljós sameiginleg einkenni raddar ákærða og samanburðarsýna óþekktra radda í símtölunum þremur, sem sennilega tengdust sama einstaklingi. Nokkru nánari grein er gerð fyrir þessum niðurstöðum í hinum áfrýjaða dómi. Þar er einnig gerð ítarleg grein fyrir greinargerð lögreglu um líkurnar á því að notandi símanúmersins 6613138 væri hinn sami og eigandi síma, sem ákærði notaði um líkt leyti og símtölin þrjú í fyrrgreinda símann fóru fram. Við þessa könnun var stuðst við nálægð þeirra farsímamastra sem símtöl í þessum tveimur númerum fóru um. Niðurstaða greinargerðarinnar var sú að líkurnar á því að einstaklingur ótengdur símanúmerinu 6613138 væri jafn langt frá eða nær  símanum með því númeri en sími ákærða hafði verið í þau þrjú skipti, sem fyrrnefnda númerið hafði verið notað, væru 0,0557%. Fyrir Hæstarétt hafa verið lögð gögn er varða þessar greinargerðir, þar á meðal umsögn forstöðumanns tölfræðimiðstöðvar Háskóla Íslands. Niðurstaða hennar er sú að ekki sé rétt að draga framangreinda ályktun, sem komi fram í greinargerð lögreglu, þar sem skort hafi gögn og upplýsingar um aðferðafræði, auk þess sem beitt væri forsendum sem ekki stæðust og slæmum reikniaðferðum.

II

 Í I. kafla ákæru er ákærða gefið að sök stórfellt fíkniefnabrot með því hafa staðið að innflutningi frá Hollandi til Íslands 21. apríl 2009 á 6.149,48 grömmum af amfetamíni, sem ætlað hafi verið til söludreifingar í ágóðaskyni, en ákærði hafi lagt á ráðin um innflutninginn og verið í samráði við menn í Hollandi um tilhögun á sendingu fíkniefnanna hingað til lands. Ákærði neitar sem fyrr segir sök varðandi þennan kafla ákæru. Að framan eru rakin þau gögn, sem hollenska lögreglan aflaði í tengslum við sendingu fíkniefnanna til Íslands og um samskipti milli Dielessen og Knopper og þess síðarnefnda við hraðsendingarfyrirtækið UPS, auk endurrita af símtölum Dielissen við íslensk símanúmer, einkum símanúmerið 6613138. Af þeim gögnum er fullljóst að John Dielissen var meðal þeirra sem stóðu að sendingu fíkniefnanna til Íslands, svo og að íslenski viðmælandinn hans í síma 6613138 lagði á ráðin um innflutninginn og var í samráði við þá sem efnin sendu frá Hollandi.

 Í fyrstu skýrslu hjá lögreglu 22. maí 2009 var ákærði spurður um hvort hann kannaðist við símanúmerið 6613138 og neitaði hann því. Hann var þá spurður hvort hann hafi notað svokölluð frelsisnúmer á árunum 2008 og 2009 og gekkst hann við því, en kvaðst hafa notað slíkt númer „til að bulla í kerlingum“ sem hann vildi ekki að konan sín vissi af. Þegar honum var síðan kynnt að lögreglan hefði rökstuddan grun um að hann væri notandi að símanúmerinu 6613138 kvað ákærði það vel geta verið, en hann kannaðist ekki við númerið. Við næstu skýrslutöku hjá lögreglu 26. maí 2009 var ákærði spurður nánar um notkun þessa símanúmers og kvaðst þá ekki þora að útiloka að hann væri notandi númersins, sem hann hafi nýtt „til að bulla í stelpum“ sem hann kynntist á einkamálavef í tölvu. Í lögregluskýrslu 7. júní 2009 kvaðst ákærði aðspurður ekki muna eftir að hann hafi notað símanúmer þetta til að tala við erlenda menn og þegar honum var kynnt að númerið hefði verið hlerað kvaðst hann engu vilja breyta eða bæta við sinn fyrri framburð. Í skýrslutöku hjá lögreglu 25. júní 2009 var síðan spiluð fyrir ákærða framangreind upptaka af símtali í margnefnt númer 16. apríl sama ár og taldi ákærði sig ekki vera viðmælanda Dielissen. Fyrir dómi voru framangreind þrjú símtöl í síma 6613138 spiluð fyrir ákærða. Hann kvaðst hvorki þekkja John Dielissen né fyrrgreint símanúmer og ekki kannast við sína rödd í upptökunum.

Upptökur af samtölum ákærða við Ársæl Snorrason 26. apríl og 8. maí 2009 á Litla-Hrauni, sem að framan voru rakin, voru spilaðar fyrir ákærða við skýrslutöku hjá lögreglu 25. júní og 16. júlí sama ár og hann spurður um einstök atriði í ummælum sínum. Þessi samtöl voru enn borin undir ákærða við skýrslutöku fyrir dómi. Ekki verður séð að ákærði hafi við þessar skýrslutökur borið brigður á að rétt væri eftir honum haft, að öðru leyti en því að hann taldi sig í samtalinu 26. apríl hafa talað um 6,4 milljónir og 4 milljónir en ekki 6,4 kíló og 4 kíló. Dómendur Hæstaréttar hafa hlýtt á upptökur af þessum samtölum. Þótt þær séu ekki eins skýrar og skyldi og utanaðkomandi hljóð blandist inn í viðræður ákærða og Ársæls er það mat dómenda að engin efni séu til að bera brigður á nákvæmni endurrita af þessum samtölum. Meðal annars fer ekki milli mála að ákærði talar um kíló en ekki milljónir í fyrra samtalinu. Fjölskipaður héraðsdómur mat skýringar ákærða fyrir dómi á ummælum sínum með þeim hætti að á þær yrði ekki lagður trúnaður, en sumu viki hann sér undan að svara og svör sem fengust hafi verið með miklum ólíkindablæ. Fallist er á með héraðsdómi að skýringar ákærða á ummælum sínum séu fjarstæðukenndar. Þegar áðurgreind ummæli ákærða í samtölunum á Litla-Hrauni eru borin saman við upptökur af símtölunum við símanúmerið 6613138, sem eru rakin hér að framan, er hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi verið notandi þessa símanúmers í samtölunum þremur við Dielissen og að hann hafi í þessum símtölum lagt á ráðin um innflutning fíkniefnanna á þann hátt sem í ákæru greinir. Þetta styðja og tilvísanir í samtölunum á Litla-Hrauni til annarra gagna sem fyrir liggja í málinu, svo sem um magn efna og símtal við eiginkonu Dielissen. Þá styður framangreind skýrsla bandarísku alríkislögreglunnar einnig þessa niðurstöðu. Samkvæmt öllu framansögðu verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða fyrir það sem honum er gefið að sök í I kafla ákæru.

Í II. kafla ákæru er ákærði sakaður um að hafa 22. maí 2009 haft í vörslum sínum 5,55 grömm af kannabisefnum. Ákærði hefur játað það brot og verður niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu samkvæmt þeim kafla því einnig staðfest. Brot ákærða eru réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Við ákvörðun refsingar verður að líta til þess að ákærði brýtur nú ítrekað gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en hann var dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir brot gegn því ákvæði með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júlí 2005. Honum var veitt reynslulausn 18. september 2006 í tvö ár af 300 daga eftirstöðvum refsingar. Brot ákærða í I. kafla ákærunnar lýtur að innflutningi í ágóðaskyni á miklu magni sterkra fíkniefna. Hann hefur sýnt einbeittan ásetning og hafði samvinnu um brot sitt við menn, sem erlend yfirvöld telja tengjast alþjóðlegri glæpastarfsemi. Ákærði á sér engar málsbætur. Er refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í fimm ár, en frá þeirri refsingu dregst gæsluvarðhald, sem hann hefur sætt frá 22. maí 2009.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku fíkniefna og sakarkostnað verða staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Gunnar Viðar Árnason, sæti fangelsi í fimm ár. Frá þeirri refsingu dregst gæsluvarðhald hans frá 22. maí 2009.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku fíkniefna og sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 754.206 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 627.500 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 25. nóvember 2009.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 30. október sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 13. ágúst 2009 á hendur Gunnari Viðari Árnasyni, kennitala 290682-5769,  Klukkuholti 15, Álftanesi, fyrir eftirfarandi fíkniefnabrot ,,framin á árinu 2009:

Í fyrsta lagi stórfellt fíkniefnalagabrot, með því að hafa staðið að innflutningi á samtals 6.149,58 g af amfetamíni frá Hollandi til Íslands, ætluðu til söludreifingar í ágóðaskyni, en fíkniefnin sem voru flutt til landsins með hraðsendingarfyrirtækinu UPS þann 21. apríl, fundust við leit tollgæslu og lögreglu þann sama dag í húsnæði UPS á Keflavíkurflugvelli og lagði lögregla hald á efnin. Ákærði lagði á ráðin um innflutninginn og var í samráði við aðila í Hollandi varðandi tilhögun sendingar fíkniefnanna til Íslands.

Telst þessi háttsemi ákærða varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1.gr.  laga nr. 64/1974 og 1. gr. laga nr. 32/2001.

Í öðru lagi, að hafa föstudaginn 22. maí, á heimili sínu að Klukkuholti 15, Álftanesi, haft í vörslum sínum 5,55 g af kannabisefnum.

Telst þessi háttsemi ákærða varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001 og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er þess krafist að 6.149,58 g af amfetamíni og 5,55 g af maríhúana verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana og fíkniefni nr. 65/1974, 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni.“

Ákærði hefur játað fyrir dóminum að vera sekur um þá háttsemi sem hann er sakaður um í seinni lið ákæru en neitað að vera sekur um þá háttsemi sem hann er sakaður um í fyrri lið ákæru.

Verjandi ákærða krefst aðallega sýknu af öllum kröfum ákæruvalds í fyrri lið ákæru í málinu en til vara vægustu refsingar sem lög frekast leyfa og refsingin verði skilorðsbundin að öllu leyti eða að stærstum hluta og að gæsluvarhaldsvist ákærða verði dregin frá refsivist og að ákærði verði sýknaður af kröfu um greiðslu sakarkostnaðar. Hvað varðar seinni lið í ákæru þá gerir verjandi kröfu um að fyrir þær sakir verði ákærða dæmd lág sektargreiðsla. Þá krefst verjandi málsvarnarlauna fyrir flutning málsins og vinnu sína á rannsóknarstigi.

Málsatvik.

Þann 20. apríl 2009 bárust upplýsingar til íslenskra lögregluyfirvalda þess efnis að von væri á sendingu til Íslands sem innihéldi fíkniefni. Um væri að ræða pakka sem yrði sendur með hraðflutningafyrirtækinu UPS og barst pakkinn til landsins þann 21. apríl sl. og reyndist við rannsókn innihalda 6.149,58 g af amfetamíni. Efnin voru í áldósum sem ætlaðar voru undir viðarolíu.

Lögreglu bárust einnig upplýsingar frá hollenskum lögregluyfirvöldum um að hollenskur karlmaður hafi verið í sambandi við símanúmerið 661-3138 sem er óskráð.  Þar hafi verið rætt um skipulag á sendingu á ólöglegum fíkniefnum, líklega falin í málningar- eða viðarolíufötum.  Samtölin sem voru hleruð áttu sér stað 16. og 19. apríl sl.  Var talið að notandi símanúmersins 661-3138 hafi verið ákærði Gunnar Viðar Árnason. Var þetta símanúmer tekið í notkun þann 15. apríl 2009 og þann dag er einu sinni hringt og þrívegis send SMS skilaboð i símanúmerið 31-650747135 sem er sími hjá John Dielissen. Þann 16. s.m. er hringt einu sinni úr 661-3138 í sama símanúmer og einu sinni hringt í 661-3138 úr númerinu 31-650449055 sem er einnig sími sem John Dielissen hefur. Þann 19. s.m. er síðan hringt tvívegis úr 661-3138 í 31-650449055. Nefndur John Dielissen heitir samkvæmt upplýsingum lögreglu í Hollandi réttu nafni Johannes Hubertus Wilhelmus Maria Dielissen en notar að því er virðist að jafnaði nafnið John Dielissen. Hefur sönnunarfærsla sækjanda beinst mjög að því að sanna að enginn annar en ákærði hafi getað haft afnot af símanum 661-3138 þessa daga sem um ræðir í málinu. Hefur í þessum tilgangi verið aflað raddgreiningar hjá bandarísku alríkislögreglunni FBI sem beindist að því hversu sterkar líkur væru fyrir því að ákærði væri annar þeirra sem töluðu saman í símann þann 16. og 19. apríl 2009. Þá var unnin staðsetningagreining hjá Upplýsinga- og áætlanadeild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til þess að staðreyna líkur á því að einhver einstaklingur ótengdur símanum 661-3138 hafi getað verið jafnlangt frá eða nær símanum 821-9812 í þau þrjú skipti sem talað er úr 661-3138 en síminn 821-9812 er sími sem ákærði kannast við að nota. Höfðu hollensk lögregluyfirvöld heimild til þess að hlera síma John Dielissen á þessum tíma. Þann 16. apríl hringir John í Gunnar Inga Gunnarsson og segir að konan sín hafi sagt honum þegar hann kom heim að ,,Gunnar from Iceland“ hafi hringt. Við rannsókn málsins kemur fram í hleruðu samtali milli ákærða Gunnars og Ársæls Snorrasonar þann 26. apríl 2009 að ákærði segir ,,Kerlingin hans, ég hringdi í hana ég hringdi úr þessu sama númeri í símann hennar, spáðu í því. Konan hans er skráð fyrir símanum þá hugsa ég hvernig er hægt að vera svona heimskur. Hann vissi það hringdi í mig til baka úr þessu númeri“. Því hefur verið haldið á lofti að símasamskipti þessi hafi snúist um að útvega til Hollands bíla á góðu verði til þess að selja með ágóða ytra. Hefur Gunnar Ingi Gunnarsson, sem áður er nefndur, lýst samskiptum sínum við John Dielissen með þeim hætti. Þann 16. apríl 2009 eru símasamskipti milli 661-3138 og síma hjá John Dielissen. Í þessu samtali spyr karlmaður hvað hefði farið úrskeiðis og segir að hann muni tala við Ron (Ronny Verwoerd) í næstu viku. Karlmaðurinn spyr John hvort hann hafi nokkuð sent þetta. John neitar því og segist ekki vera búinn að senda þetta. Þann 19. s.m. eru aftur samskipti milli 661-3138 og John Dielissen. Í fyrra samtalinu segir John ,,Tomorrow is gone“. Karlmaður sem talar við John segir það vera ,,OK“ Í seinna samtalinu þennan dag kemur m.a fram að John eigi að senda í tölvupósti lýsingu á pakkanum og að John gat ekki sent mynd þar sem það var ekki í lagi. Þann 20. s.m. hringir Roelof Knoppers í UPS hraðsendingarþjónustu í Hollandi og spyr hvað það kosti að senda pakka með 8 kg af harðviðarolíu til Íslands. Aðspurður gat hann ekki sagt til um stærð pakkans. Roelof Knoppers hringir þá í  John Dielissen og fær uppgefna stærð pakkans. Knoppers hefur þá aftur samband við UPS og gefur þeim málin á pakkanum og segir að pakkinn eigi að fara til Íslands. Þennan sama dag fer Roelof Knopper með pakkann og afhendir starfsmönnum UPS hann. Roelof Knopper var á Audi bifreið  sem skráð var á John Dielissen. Erlend lögregluyfirvöld fylgdust með atburðarásinni og tóku ljósmyndir af Roelof Knopper þegar hann afhenti starfsmönnum UPS pakkann. Þann 21. s.m. kemur þessi pakki til landsins og var haldlagður í tollafgreiðslu á Keflavíkurflugvelli og reyndist hann við rannsókn innihalda um 6,1 kg af amfetamíni. Lögreglan á Suðurnesjum aðstoðaði við rannsóknina og fékk heimild til þess að áframsenda pakkann með gerviefnum á áfangastað í þeim tilgangi að fylgjast með því hvort einhver kæmi til þess að sækja hann sem ekki reyndist raunin en pakkinn var stílaður á Flugger ehf. á Stórhöfða í Reykjavík.

Þann 18. maí sl. sáu lögreglumenn sem fylgdust með ferðum ákærða hann hitta þrjá menn í Smáralind. Hafi hann gengið með þeim að bifreið sinni við verslunarmiðstöðina og afhent þeim þykkt umslag, sem lögreglumenn töldu að innihéldi peninga. Þremenningarnir voru þeir Erez Zizof sem ákærði afhenti umslagið, Ronny Verwoerd og Esra Abadi og koma þeir allir við sögu í máli þessu.  Mennirnir sem Gunnar Viðar hitti við Smáralind eru allir útlendingar, en þeir voru handteknir við komu til Hollands frá Íslandi, þar sem þeir eru grunaðir um þátt í stórfelldum fíkniefnabrotum. 

Í skýrslutöku hjá lögreglu hefur ákærði borið að hann hafi sótt þrjá menn, alla útlendinga, út á Keflavíkurflugvöll þann 15. maí sl., og að þessir menn séu kunningjar hans. Kvaðst hann hafa lánað þeim bifreið sína er þeir dvöldu hér á landi og tekið að sér að skipta 1.700.000 íslenskum krónum fyrir þá í evrur.  Sagðist ákærði hafa hitt þá við Smáralind vegna þessara peningaviðskipta.

Þann 22. maí sl. var ákærði handtekinn á heimili sínu að Klukkuholti 15 á Álftanesi.  Við leit á heimilinu fannst lítilræði af ætluðu marihuana og 1.200.000 krónur í peningum. Á vinnustað ákærða, Litlu Hokkýbúðinni við Suðurlandsbraut  voru haldlagðar 695.000 krónur í peningum, sem fundust í íláti uppi á hillu baka til í versluninni. Þennan sama dag var ákærði hnepptur í gæsluvarðhald sem hann hefur setið í síðan.

Við rannsókn málsins kom í ljós að símanúmerið 661-3831 hefur ekki verið notað síðan 1. maí 2009. Rannsóknarlögreglumenn í ávana- og fíkniefnadeild lögreglunnar hafa margsinnis hlustað á þau samtöl úr og í símanúmerið 661-3138 og gert um það skýrslur þar sem þeir staðfesta að ákærði Gunnar sé viðmælandi í þessum samtölum og nánar verður vikið að síðar.

Þegar ákærði Gunnar var að því spurður í yfirheyrslu þann 26. maí 2009 hvort hann væri notandi símans 661-3138 sagðist hann ekki vilja fullyrða það en ef svo væri þá væri hann að nota það númer til þess að bulla í kerlingum. Athyglisvert er í þessu sambandi að hafa í huga það að fram kemur í herbergjahlustun þann 26. júní  á Litla Hrauni í samtali ákærða við Ársæl Snorrason. Þegar ákærði hafði sagt ,,Kerlingin hans, ég hringdi í hana ég hringdi úr þessu sama númeri í símann hennar, spáðu í því. Konan hans er skráð fyrir símanum þá hugsa ég hvernig er hægt að vera svona heimskur. Hann vissi það hringdi í mig til baka úr þessu númeri.“

Þá segir Ársæll ,,þú segir bara að einhver útlendingur hefði verið að biðja þig að kaupa þennan síma.“ Ákærði svarar því þá til að hann segi bara að hann hafi keypt símann, farið á fyllerí og verið að bulla í einhverjum kerlingum, og svo hafi hann bara týnt símanum og ekkert sé hægt að sanna.

Ákærði hefur sagt við yfirheyrslur að hann kannist ekki John eða Johannes Dielissen og hafi aldrei verið í samskiptum við mann með þessu nafni og að sömu sögu sé að segja um kynni hans af Roelof Knopper.

                                                                                           II.

Í skýrslu ákærða fyrir dóminum kvaðst hann ekki hafa lagt á ráðin um neina fíkniefnasendingu til landsins. Við sönnunarfærslu í málinu hefur sækjandi stuðst mjög mikið við það sem fram kom við hlerun á símum og hlerun samtala á Litla Hrauni. Sú hlerun sem nú verður rakin snýst um samtal milli ákærða og vitnisins Ársæls Snorrasonar á Litla Hrauni 26. apríl 2009 og getur að líta á málsskjölum 1.5 bls. 133 og 134. Aðspurður kvaðst ákærði kannast við þetta samtal og er hann í framhaldi af því spurður um hvað þeir félagarnir hafi verið að tala. Svarar hann því til að þeir hafi verið að tala um tvo hluti. Í fyrsta lagi tengist samtalið fasteignaviðskiptum nánar tilekið eign sem hann ætlaði að kaupa við Depluhóla en þegar hann svo hætti við kaupin þá hafi það leitt til mikilla illdeilna og honum verið hótað með Munda morðingja út af þessu. Segir ákærði þetta skýra hvers vegna sé talað um ,,6.4 milljónir en ekki 4 milljónir“. Í öðru lagi voru þeir að ræða um síma sem Ársæll bað hann um að kaupa fyrir sig og lyf sem Ársæll bað hann um að útvega sér vegna þess að hann fékk ekki réttu lyfin á Litla Hrauni. Kvaðst ákærði í fyrstu hafa útvegað símann og lyfin og komið þeim til Ársæls inn á Litla Hraun en sagði síðar að hann hefði fengið kunningja sinn til þess að sjá um þennan innflutning eins og hann orðaði það. Sagði ákærði að John, sem nefndur er á  málsskjali 1.5 bls. 134, sé John Engelsman, æskuvinur Ársæls,  sem hann hafi ætlað að hringja í vegna Depluhólanna en tengist ekki fíkniefnum eða viðskiptum með þau á nokkurn hátt. Þá sagði ákærði að í þessu samtali hafi aldrei verið talað um kíló, Sigga eða Trausta. Hann hafi sjálfur marghlustað á samtalið og segir að það hafi ekki tengst fíkniefnum á neinn hátt. Aðspurður um hvað hann eigi við þegar hann talar um sönnunargögn sagðist ákærði hafa verið að tala um símann sem hann keypti fyrir Ársæl vegna þess að hann hafi tekið þátt í að smygla síma og lyfjum inn á Litla Hraun. Þegar borið var undir ákærða hvað hann væri að tala um þegar hann segir ,,þið getið skoðað allt sem ég gerði það var allt fullkomið ég var með slökkt á þangað til ég ætlaði að hringja í“ sagði hann að hann hafi verið að tala um símann hans Ársæls og þetta hafi allt snúist um pakkann sem var settur inn á Litla Hraun en hann viti ekki hvaða símanúmer síminn hafði. Sagði ákærði að hann hafi átt í samskiptum við Ársæl á veraldarvefnum en hann hafi hent kortinu sem var utan um símanúmerið og þegar hann segir ,,eins og Halli sagði ef þeir kæra þig þá er ég focked ef þeir sjá myndina og þetta númer þá hefði ég alveg eins bara sett þetta inn í herbergi“ kveðst ákærði hafa verið að tala um símann og pakkann sem hann var í og tók fram að hann hafi verið mjög hræddur út af þessu máli. Ákærði kannast ekki við að hafa sagt ,,engin tenging við mig skilurðu svo 6.4 kíló og ég Siggi sagði hámark 4 kíló“ og þegar hann segir ég vil ekki sjá þessa menn og ég vil ekki tala við þá einu sinni kvaðst ákærði hafa átt við menn sem tengdust Depluhólunum. Sagðist ákærði hafa haft miklar áhyggjur af því að kæmi til þess að síminn yrði haldlagður á Litla Hrauni þá væri hægt að sjá á mynd þegar hann keypti hann. Borið var undir ákærða hvað hann sé að tala um þegar hann segir ,,Lofar að svara mér á mánudaginn og sendir á þriðjudag. Þetta er svo ömurleg framkoma svo þetta fréttin daginn áður pakka upp á sex sex rúmlega 6 ha og þeir ætluðu núna, það er allavega eitt jákvætt við það gaurinn sem sendi þetta lét ekki sjá sig hjá fyrirtækinu sem þeir redduðu“ kveðst ákærði hafa verið að tala um það að hann hafi frétt daginn áður að hann ætti að borga pakka upp á sex milljónir og þetta hafi gerst á svipuðum tíma og við sendum pakkann á Litla Hraun og fyrirtækið sé fyrirtæki sem Pétur Axel, sem ákærði hafði beðið um að sjá um fyrir sig að koma símanum og lyfjunum til Ársæls, hefði farið í. Ákærði er nú inntur eftir því um hvað hann sé að tala þegar hann segir ,,Kerlingin hans ég hringdi í hana úr þessu sama númeri í símann hennar spáðu í því. Konan hans er skráð fyrir símanum þá hugsa ég hvernig er hægt að vera svona heimskur. Hann vissi það hringdi í mig til baka úr þessu númeri“ sagði ákærði að hann sé að tala um kærustuna hans Péturs Axels sem hann hafi hringt í úr sínum eigin síma. Telur dómurinn ekki ástæðu til þess að  rekja lengur spurningar og svör varðandi þetta samtal en af því sem nú hefur verið rakið má ljóst vera að skýringar ákærða á ummælum sínum í samtalinu eru með þeim hætti að á þau verður ekki lagður trúnaður. Ýmist víkur ákærði sér undan að svara nema að hluta til því sem undir hann er borið og þau svör sem fást eru með miklum ólíkindablæ.

Vitnið Ársæll Snorrason sagði að ekkert væri rétt í uppritun lögreglunnar af samtali sem fór fram milli hans og ákærða þann 26. apríl 2009, hann þekki þessa uppritun og þar sé nánast allt tóm lygi og orðin  slitin úr samhengi. Vitnið kvaðst ekki muna hvað þeir voru að tala um þennan dag. Segir vitnið að í samtali hans og ákærða þann 5. mars sl. séu þeir m.a. að tala um John Engelsman enda þekki hann engan annan John í Hollandi. Kveðst vitnið ekki kannast við John Dielissen þegar honum er sýnd mynd af honum. Var vitnið nú spurt af verjanda ákærða um efni áðurgreinds samtals og svaraði hann nú á þá leið að hann hafi verið að biðja Gunnar um að aðstoða sig m.a vegna veikinda sinna vegna þess að hann hafi ekki fengið viðeigandi læknisþjónustu á Litla Hrauni. Sagði vitnið að í samtali þeirra á milli hafi Gunnar sagt að hann langaði að fara í glæpastarfsemi en þyrði það ekki af því að hann langaði ekki að fara í fangelsi. Spurningu verjandans um það hvort Gunnar hafi sagt honum sérstaklega að hann væri ekki í neinum brotum svaraði vitnið játandi. Aðspurt sagði vitnið að ákærði hafi reynt að kaupa fyrir sig síma sem ekki komst í hendur hans og skildist honum að hann hefði verið haldlagður. Þá sagði vitnið að í samtalinu frá 26. apríl hafi hann beðið ákærða að koma til sín fíkniefnum þó að hann sé ekki alveg viss um að það hafi verið einmitt þá.

III.

Fyrir dóminn var lögð greinargerð um líkurnar fyrir því að annar en sá sem tengdur er númerinu 661-3138 sé jafn langt frá eða nær þeim síma en 821-9812 í þau þrjú skipti sem 661-3138 er notaður. Undir rannsókn málsins var talið að ákærði Gunnar Viðar Árnason, sem var eigandi símanúmersins 821-9812, væri einnig eigandi og/eða notandi símanúmersins 661-3138. Ítarleg rannsókn fór fram á notkunarmynstri símanúmeranna á tímabilinu 15. til 19. apríl 2009. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru þessar: Símarnir eru á þessu tímabilinu alltaf í notkun á svipuðum stöðum. Við greiningu á staðsetningu símanna kom í ljós að þeir voru aldrei í notkun það langt hvor frá öðrum á sama tíma að ekki geti verið að um einn og sama notanda væri að ræða. Vitnið Jón Óttar Ólason, sérfræðingur í upplýsinga- og áætlanadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu,  vann ofangreinda rannsókn ásamt fleirum. Fyrir liggur ítarleg skýrsla og greinargerð um þetta. Jón Óttar kom fyrir dóm sem vitni og skýrði og staðfesti skýrslu sína og rannsóknarvinnu.

Fram kemur í greinargerðinni lýsing á markmiðum greiningarinnar og þeirri aðferðarfræði  og gögnum sem hún er byggð á. Í greinargerðinni er þetta orðað svo;

,,Markmið greiningar:

Gunnar Viðar Árnason er eigandi símanúmersins 821-9812 og hefur verið að nota það. Símanúmerið 661-3138 er óskráð og er það tilgáta lögreglu að það númer sé einnig í notkun Gunnars Viðars. Í greinargerð dagsetri 12. ágúst 2009 komst upplýsinga– og áætlanadeild LRH að þeirri niðurstöðu að Gunnar Viðar var alltaf staðsettur mjög nálægt þeim stað sem 661-3138 var notað og því ályktað að ólíklegt væri að einhver annar en hann væri að nota 661-3138. Ekki reyndist mögulegt út frá þeim gögnum sem þá voru fyrirliggjandi að leggja neitt mat á hversu ólíklegt það væri.

Markmið þessarar greiningar upplýsinga– og áætlanadeildar LRH er að leggja mat á hversu líklegt það er að sami maðurinn (Gunnar Viðar) sé alltaf í nágrenni við 661-3138 þegar hann er notaður ef hann tengist því númeri ekki neitt.

Aðferðafræði og gögn:

Notaðar voru niðurstöður fyrri greiningar upplýsinga– og áætlanadeildar LRH dagsettri 12. ágúst þar sem búið var að setja á kort staðsetningu 661-3138 í öll þau skipti sem sá sími er notaður og einnig staðsetningu á því símtali 821-9812 sem næst er 661-3138 í tíma og rúmi.

Ákveðið var að reikna út hverjar væru líkurnar á því að einstaklingur sem væri ótengdur 661-3138 væri jafn langt frá eða nær 661-3138 en 821-9812 í þau þrjú skipti sem 661-3138 er notaður.

Þann 15. og 19. apríl er um eina staðsetningu að ræða hjá 661-3138 og var búinn til hringur sem hefur fjarlægð milli 661-3138 og 821-9812 og 661-3138 sem miðpunkt. Þann 16. apríl er um að ræða tvær staðsetningar á 661-3138 og eina hjá 821-9812 og var búinn til hringur sem þeir þrír punktar falla fyrir innan.

Til að fá upplýsingar um notkun innan og utan hringanna  á þessum þremur dögum var haft samband við Símann hf. og fengnar upplýsingar um staðsetningar á endurvörpum ásamt hlutfallslegri notkun hvers endurvarpa fyrir sig á fimmtán mínútna bili í kringum þessi þrjú atvik. (821-9812 er símanúmer Símans og er númerið sem er til skoðunar og því voru fengnar upplýsingar frá Símanum hf.).

Niðurstaða greiningarinnar:

15. apríl 2009 eru 38,68% símtala í kerfi Símanns (á tímabilinu 20:45 til 21:00) á því svæði sem fellur innan hrings (sjá fylgiskjal 1).

16. apríl 2009 eru 2,19% símtala í kerfi Símanns (á tímabilinu 17:15 til 17:30) á því svæði sem fellur innan hrings (sjá fylgiskjal 2).

19. apríl 2009 eru 6,57% símtala í kerfi Símanns (á tímabilinu 19:45 til 20:00) á því svæði sem fellur innan hrings (sjá fylgiskjal 3).

Líkurnar á því að einstaklingur ótengdur 661-3138 sé jafn langt frá eða nær 661-3138 en 821-9812 í þau þrjú skipti sem 661-3138 er notaður eru því 0,3868x0,0219x0,0657 = 0,000557 eða 0,0557%.“ 

Greiningu þessari fylgja þrjár skýringarmyndir og texti þar sem sýndir eru hringir sem hafa fjarlægðina milli símanna 661-3138 og 821-9812 við notkun í rannsóknartilvikunum sem radíus. Vitnið Jón Óttar sagði í þessu sambandi að til þess að  dæmið gengi upp þyrfti notandi símanna að aka á 100 km hraða á klukkustund. Af þessu tilefni hafi meðalhraði bifreiða á sömu leið verið mældur og reyndist hann vera um 100 km á klukkustund.

Þannig að það eru yfir 99,5% líkur á því að sá sem notar síman 821-9812 geti verið tengdur númerinu 661-3138 í rannsóknartilvikinu.

IV.

Vitnið Halldór Snorrason, aðstoðarframkvæmdastjóri hjá Flugger ehf., sagði að þennan umrædda dag hafi hraðsendingarþjónustan komið með pakka sem starfsmaður fyrirtækisins tók við og setti inn á lager. Þar lá pakkinn í einn eða tvo tíma óopnaður og vegna þess að starfsmaðurinn kannaðist ekki við sendandann þá kom hann með pakkann upp til vitnisins sem kannaðist heldur ekki við sendandann. Ákváðu þeir að opna pakkann en á honum stóð að í honum væru sýnishorn af viðarolíu, en í þann mund er þeir voru að opna pakkann þá fylltist húsið af lögreglumönnum. Kvaðst vitnið ekki kannast við neitt frekar í sambandi við sendinguna eða að fyrirtækið hafi pantað eitthvað frá Hollandi. Sagði vitnið að fyrir lagernum sem er við hliðina á búð fyrirtækisins sé hurð sem oftast er opin og ekki óalgengt að viðskiptavinir rambi inn á lager í fylgd starfmanna eða jafnvel einir. Sagði vitnið að 29 manns hafi unnið hjá Flugger á þessum tíma.

Vitnið Gunnar Ingi Gunnarsson, kveðst ekki þekkja Jóhannes eða John Dielissen en þegar honum er sýnd mynd af honum þá staðfestir hann að hann þekki hann  og hafi þessi maður verið að leita eftir kaupum á bílum og vélum hér á landi. Aðspurður um það hvort hann kannist við símanúmerið 661-3138 svarar hann því neitandi. Leikið er fyrir vitnið símtal við John Dielissen í síma 661-3138 þann 16. apríl 2009 og kannast vitnið ekkert við þetta símtal. Vitnið kveðst ekki þekkja ákærða Gunnar Viðar Árnason. Sagði vitnið að hann hafi einu sinni hringt til John Dielissen til þess að gefa honum upplýsingar um bíla.

Vitnið Kjartan Ægir Kristinsson, kvaðst hafa komið að rannsókn þessa máls sem varðar sendingu á pakka með UPS til Íslands frá Hollandi sem anga af stærri rannsókn. Kom í ljós er hljóðritanir af samtölum bárust að utan beindist grunur að ákærða Gunnari vegna þess að þeir sem unnu að málinu könnuðust við rödd Gunnars í sambandi við annað stærra mál þar sem samtöl höfðu verið hlustuð og rödd Gunnars kom við sögu m.a. í viðtölum hans við Ársæl Snorrason. Vöknuðu grunsemdir vegna þess að í þessum símtölum var talað um að senda lýsingu á hlut eða pakka auk þess sem ákærði hafi í samtölum við Ársæl Snorrason á Litla Hrauni talað um pakka upp á sex. Sagði vitnið aðspurt um hljóðritun á samtali milli ákærða og Ársæls Snorrasonar þann 26. apríl að hann hafi ásamt a.m.k. tveimur öðrum hlustað á það mörgum sinnum og hafi verið notaður til þess sérstakur búnaður sem gefur möguleika á að teygja á röddum og hækka og lækka innbyrðis. Unnu þeir þetta mest saman tveir, hann og Eiríkur Ragnarsson, og síðan hafi komið að þessu aðrir tveir meðan þeir voru að skrifa niður tiltekinn hluta af samtalinu en það hafi verið þeir Jens Gunnarsson og annað hvort Bjarni eða Þorgeir. Staðfesti vitnið að það sem skráð sé á málsskjali 1.5 bls. 133 og 134 sé uppritað samkvæmt bestu vitund og samvisku. Annað samtal sem á sér stað 8. maí á skjali 1.5 148 og 149 er uppritað að viðhöfðum sömu vinnubrögðum. Segir vitið að ef skrifað er kíló í upprituninni þá megi treysta því að sagt hafi verið kíló. Vitnið segir að staðfest sé á fyrirliggjandi ljósmyndum þegar Roelof Knopper afhenti pakkann til UPS hraðflutninga og að Knopper hafi þá verið á bifreið Johns Dielissen. Vísar vitnið til þess að ákærði hafi er hann hitti útlendingana við Smáralind afhent þeim þykkt umslag sem mátti álykta að innihéldi peninga. Sagði vitnið, aðspurt af verjanda, að einn viðmælanda Johns Dielissen í símtali þann 16. apríl 2009  sé ekki ákærði sem hins vegar talar við John Dielissen í símann 661-3138 sama dag.

Vitnið Eiríkur Ragnarsson lögreglumaður kvaðst hafa unnið mikið í tengslum við hlustanir sem beitt var mikið við rannsókn málsins. Grunur lögreglu hafi beinst að ákærða þegar símahleranir bárust frá Hollandi. Í símtölum sem fram fóru þann 16. og 19. apríl var talið að ákærði og John Dielissen væru að ræðast við. Um herbergishlustun þann 26. apríl og 8. maí 2009 segir vitnið að hlustunin frá 8. maí hafi verið mjög skýr en þurft hafi  þrjá til fjóra menn til að hlusta margsinnis á hina fyrri til þess að ná þeirri uppritun sem fyrir liggur í málinu m.a. hafi umhverfishljóð verið síuð frá. Sérstaklega aðspurt er vitnið ekki í vafa um að sagt er kíló þar sem það er ritað í upprituninni enda einungis upprituð þau orð sem heyrast en ef orð heyrast ekki er sett innan sviga ,,óskýrt eða óskiljanlegt“. Sagði vitnið að þegar ákærði hitti erlendu þremenningana við Smáralind hafi ákærði að eigin sögn afhent þeim umslag með peningum. Voru vitninu sýndar þær skýrslur sem hann hefur unnið að vegna málsins og staðfestir hann efni þeirra rétt eftir bestu vitund að undanskildum skýrslum um tenginúmer á pakkanum sem þegar hafa verið leiðréttar vegna misskilnings sem upp kom. Sagði vitnið aðspurt af verjanda ákærða að Ronny Verwoerd sem ákærði var oft í sambandi við hafi komið að minnsta kosti tvívegis með John Dielissen til Íslands fyrst í desember sl. og síðan í mars sl. og hafi verið greinilegt að þeir voru viðskiptafélagar. Þá segir vitnið að ljóst hafi verið að John Dielissen þekkti Reloef Knopper sem eins og áður segir er upplýst að hafi hringt til John Dielissen til þess að fá upplýsingar um stærðina á ,,tækinu“ þegar hann var á bíl Johns að koma pakkanum til UPS hraðsendingarþjónustunnar.

Vitnið Jens Gunnarsson rannsóknarlögreglumaður kvaðst hafa komið að rannsókn málsins og unnið mikið við hlustanir og þess háttar. Um hlustunina frá 26. apríl sagði vitnið að þeir hafi reynt að einangra raddir sem best og þagga niður í umhverfishljóðum og hlustað margoft á upptökuna. Segir vitnið ekki inni í myndinni að annað sé skrifað en það sem hann og félagar hans töldu sig heyra.

Meðal gagna málsins er matsgerð Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði, sem dagsett er 11. maí 2009. Rannsakað var efnissýni merkt 15624, nr. 6 af ætluðu amfetamíni að beiðni tæknideildar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Segir í matsgerð að við komu hafi þyngd sýnis verið 0,666 g en eftir þurrkun var hún 0,449 g.

Reyndist sýnið innihalda amfetamín og koffín og reyndist styrkur amfetamínbasa í sýninu vera 27% sem samsvarar 37% af amfetamínsúlfati sem verði að teljast nokkuð sterkt en miðgildi undanfarinna ára reyndist 17,2% en svokallað miðgildi til notkunar hefur reynst. 9.2% svo efnið er í flokki með sterkari efnum sem komið hafa til rannsóknar undanfarin 2 ár. Þau íblöndunarefni sem hafa áhrif á þyngd eru vatn og leysiefni og hafa engin áhrif á styrk efnisins

Niðurstaða.

Umfjöllun um fyrri lið ákæru.

Ljóst er að mál þetta á í raun rót sína að rekja til rannsóknar umfangsmeira máls sem var hafin rannsókn á á síðasta ári í samvinnu við hollensk yfirvöld. Hófu lögregluyfirvöld hérlendis í framhaldi af þessu að fylgjast með ferðum m.a. Ronny Verwoerd og John Dielissen sem voru grunaðir um að tengjast þessum innflutningi. Grunur lögreglu beindist m.a. að ákærða þegar Ronny Verwoerd fór að hitta hann hér á landi. Voru símtöl og öll samskipti eftir því sem við var komið hleruð og tekin upp og tengdist sú umræða sem lögregla komst yfir með þessum hætti mjög fíkniefnum, framleiðslu þeirra og peningaskuldum.

Þann 20. apríl 2009 bárust upplýsingar frá hollenskum lögregluyfirvöldum um að hugsanlega væri í uppsiglingu flutningur fíkniefna frá Hollandi til Íslands. Hefði hollenska lögreglan hlerað símtöl í og úr síma Johns Dielissen við íslenskan karlmann í símanúmerið 661-3138 og telur sækjandi að viðmælandi Johns Dielissen í þessum símtölum sé ákærði og að þessi sími sé á hans vegum þrátt fyrir að hann harðneiti því. Telur sækjandi að í þessum símtölum sé verið að leggja á ráðin og skipuleggja sendingu umræddra rúmlega 6 kg af fíkniefnum frá Hollandi til Íslands. Var þetta símanúmer 661-3138 tekið í notkun þann 15. apríl 2009 og þann dag er einu sinni hringt og þrívegis send SMS skilaboð i símanúmerið 31-650747135 sem er sími hjá John Dielissen. Þann 16. s.m. er hringt einu sinni úr 661-3138 í sama símanúmer og einu sinni hringt í 661-3138 úr númerinu 31-650449055 sem er einnig sími sem John Dielissen hefur. Þann 19. s.m. er síðan hringt tvívegis úr 661-3138 í 31-650449055. Hefur sönnunarfærsla sækjanda beinst mjög að því að sanna að enginn annar en ákærði hafi getað haft afnot af símanum 661-3138 þessa daga sem um ræðir í málinu. Hefur í þessum tilgangi var aflað raddgreiningar hjá alríkislögreglunni bandarísku FBI sem beindist að því að upplýsa hvort það væru sterkar líkur fyrir því að ákærði væri annar þeirra sem töluðu saman í símann þann 16. og 19. apríl 2009. Vegna reglna sem gilda um slíkar rannsóknir ytra hafði rannsakandinn ekki tök á því að staðfesta niðurstöðu sína hér fyrir dómi og voru niðurstöðurnar sendar til lögreglu á höfuðborgarsvæðinu í símbréfi. Segir í niðurstöðu rannsóknarinnar ,,Hlustun og litrófsritun leiddu í ljós sameiginleg einkenni þekktrar raddar Gunnars Viðars Árnasonar (ákærða) skv. sýnum Q1.1. til og með Q1.7. og tilgreindra óþekktra radda skv. sýnum Q1.8. til og með Q1.10, sem tengjast sennilega (probable) sama einstaklingi. Til rannsóknar voru send 7 sýni Q1.1 til Q1.7. með rödd Gunnars og Q1.8. til og með Q1.10 með rödd sem talar í símann 661-3138 og grunur lék á að væri rödd Gunnars. Kemur fram í gögnum sem Horatio Nakasone, yfirmaður hljóðtæknisviðs FBI sendi sækjanda að um er að ræða næst hæsta stig við mat á samsvörun radda af sjö stigum. Kemur þessi niðurstaða heim og saman við mat lögreglu hér en þegar þessi sömu hljóðrituðu samtöl sem fylgdu sem sýnishorn Q1.9 til Q1.10 bárust frá Hollandi beindist grunur að ákærða Gunnari vegna þess að þeir sem unnu að málinu könnuðust við rödd Gunnars í sambandi við annað stærra mál þar sem samtöl höfðu verið hlustuð og rödd Gunnars kom við sögu m.a. viðtöl hans við Ársæl Snorrason. Dómarar hlustuðu á umrædd þrjú símtöl og voru ekki í vafa um að í þeim mætti kenna rödd ákærða. Því má bæta við að í skýrslu sem ákærði gaf 26. maí 2009 og hann var spurður hvort hann væri notandi að símanúmerinu 661-3138 sagðist hann ekki vilja fullyrða það en ef svo væri þá væri hann að nota það til að bulla í kerlingum. Af því sem nú hefur verið rakið er því slegið föstu af dóminum að hafið sé yfir allan vafa að ákærði er viðmælandi þess sem talar við hann í umrædd þrjú skipti úr símum sem eru á vegum Johns Dielissen í Hollandi. Fær þessi ályktun einnig styrka stoð í niðurstöðu greiningar sem gerð er grein fyrir í III. kafla dómsins.

Í framhaldinu verður farið yfir það sem ráða má af þessum símtölum og því sem þar er sagt. Þá er höfð hliðsjón af því sem fram kom í hlerunum á samtölum kærða einkum við Ársæl Snorrason og símtölum milli John Dielissen og Roelof Knopper þegar Roelof er að koma umræddum pakka til sendingar hjá hraðsendingarþjónustunni UPS. Óumdeilt er að pakkinn var sendur með umræddu flugi og reyndist við komu til Íslands innihalda þau fíkniefni sem greinir í ákæru. Af sjálfu leiðir að í nefndum símtölum þann 16. og 19. apríl er þess gætt að minnast ekki á fíkniefni. Í hljóðritun hollensku lögreglunar á símtali þann 16. apríl 2009 kl. 19:22:41 spyr NN (ákærði Gunnar) John Dielissen m.a. hvað hafi farið úrskeiðis, því hann ætlaði að tala við Ron á föstudegi, og þá mundu þeir gera þetta á þriðjudegi. Hann vonar að hann sé ekki búinn að senda þetta. Nei segir John. John er ekki búinn að senda þetta. Í næsta símtali, þann 19. apríl kl. 21:47:20, þar sem John Dielissen ræðir við NN (ákærða) í 661-3138 segi John ,,þetta fer af stað á morgun“. Þá segir ákærði OK, OK og þeir hafa fengið þetta ,,mein (á hann við mail“) og hafa sent til baka til þín. Í þriðja samtalinu kl. 21:49:15 ræðir John Dielessen við ákærða sem spyr hvort John ætli að láta lýsinguna og allt fylgja. John skilur ákærða ekki. Ákærði spyr, ætlar þú að láta allar upplýsingarnar fylgja svo við vitum hvernig það lítur út. John segist ekki skilja. Ákærði segir, sendu allar upplýsingar með tölvupósti, svo við vitum hvernig þetta lítur út. Þá segir John: já, já, já, ég er búinn að láta allt fylgja. En ég gat ekki látið taka myndir því það virkar ekki. Þá segir ákærði já, hann var búinn að segja mér það.

Borið var undir ákærða í dóminum hvað hann og Ársæll Snorrason hefðu verið að ræða um þann 2. apríl 2009 en þá var hlerað samtal milli þeirra. Gunnar segir ,,reykja smá hass“ og ,,Jú núna eftir 10 daga veistu hvað hann sagði mér að finna efni sem ég get blandað í svo ég geti örugglega borgað þeim þú veist 20.000 evrur ég bara ha. Þá vildu þeir það að ég myndi blanda einum á móti einum. Ég sagði við skulum skoða þetta svo kemur þetta og ég segi bara ég er ekkert að fara að gera þetta ef allir hinir eru með gott efni og ég kem með eitthvað lélegt skilurðu ætlið aldrei að fá peninginn. Skiptir svo rosalega miklu máli gátu ekki lækkað sig um 10.000 evrur með þetta ég bara skil þetta ekki“ og ákærði heldur áfram ,,Við erum búnir að tala saman þeir eru alltaf að halda sig við þessar 20 ég bauð þeim 12.000 evrur bauð þeim það vildu það ekki. Bauð þeim 12.000 og ég sel þetta fyrir ykkur strax en hann ætlar ekki. Núna er evran náttúrulega að hækka. Við erum að borga 3.600 kall Ási í dag fyrir kílóið af ónýtu spítti“ og ákærði segir síðar ,,Kom hass til landsins um daginn og það var verið að selja bútinn á 4.500 kall. Þú getur selt kílóið á 3000 krónur. Svör ákærða voru á þá leið að þetta komi þessu máli ekkert við og að alls ekki sé verið að tala um fíkniefni eða innflutning á þeim.

Telur dómurinn að ekki verði fram hjá því litið að allt tal ákærða, um það sem hann kallar innflutning á síma og lyfjum inn á Litla Hraun sé fjarstæðukennt. Og að í þeirri atburðarás sem hann lýsir sé að finna skýringar. Eins og á því að hann sagði að það eina jákvæða við það að svo fór sem fór með sendingu fíkniefnapakkans til landsins hafi verið að gaurinn sem sendi þetta lét ekki sjá sig í fyrirtækinu sem þeir ,,redduðu“. Þegar ákærði var spurður hvaða fyrirtæki væri verið að tala um var helst á honum að skilja að það væri fyrirtæki sem kunningi hans hafi leitað til vegna þessa svokallaða innflutnings á Litla Hraun. Verður ekki hjá því komist að meta þessa skýringu sem fánýtan fyrirslátt og að engu hafandi. Sjálfur sagðist hann fyrst hafa komið símanum og lyfjunum til Ársæls en síðan nefnir hann til leiks einhvern Pétur Axel sem átti að sjá um framkvæmdina og að það hafi átt að vera kærasta hans sem hann hafi verið að hringja í þegar hann er að árétta heimsku sína og segir ,,Kerlingin hans ég hringdi í hana úr þessu sama númeri í símann hennar spáðu í því. Konan hans er skráð fyrir símanum þá hugsa ég hvernig er hægt að vera svona heimskur. Hann vissi það hringdi í mig til baka úr þessu númeri“. Sagði ákærði að hann sé að tala um kærustuna hans Péturs Axels sem hann hafi hringt í úr sínum eigin síma. Virðist svo sem þessi frá sögn um flutninga Péturs Axels eigi einnig að skýra ,,Lofar að svara mér á mánudaginn og sendir á þriðjudag. Þetta er svo ömurleg framkoma“. Hér er allt á sömu bókina lært og svör ákærða og skýringar út í hött en hann segir þetta allt tengjast símainnflutningnum inn á Litla Hraun. Ekkert er komið fram sem styður þessa síðbúnu frásögn ákærða það eina sem leitt er í ljós um þetta atriði er að Ársæll segist einhvertímann hafa beðið ákærða að útvega sér síma og fíkniefni en úr því hafi aldrei orðið. Ákærði hefur haldið því fram að þegar hann er að tala um fjárhæðir í dómskjölum þá sé það tal ekki í tengslum við fíkniefnaviðskipti heldur fasteignaviðskipti sem hann hafi hætt við og með því komið sér í mikla hættu. Engin tilraun hefur verið gerð af hálfu ákærða eða verjanda hans til þess að færa fram gögn eða vitni sem stutt geta þessa frásögn sem þeim átti, ef frásögnin var sönn, að vera í lófa lagt. Verður því ekki komist hjá líta á þessar skýringar sem léttvægan fyrirslátt. Sama er að segja um þann rökstuðning fyrir sýknu að frásögn Ársæls Snorrasonar, vinar ákærða, þess efnis að ákærði hafi sagt honum í trúnaði eftir að meint brotastarfsemi hófst að hann væri ekki í neinum afbrotum þrátt fyrir mikla löngun til þess af ótta við að lenda í fangelsi, sanni sakleysi ákærða. Hefur vitnið Ársæll svarað í dóminum þeim spurningum sem hann kærði sig um að svara en öðrum brást hann við með því að segja að dóminum komi það ekki við og er því framburður hans ekki trúverðugur og greinilega litaður af vinskap hans við ákærða.

Af því sem nú hefur verið rakið þykir hafa verið í ljós leitt með framburðum vitna og að öðrum gögnum málsins virtum, að ákærði hafi í það minnsta verið í símasambandi við aðila í Hollandi í þeim tilgangi að standa í samráði við þá að innflutningi á pakka sem í voru 6.149,58 g af amfetamíni frá Hollandi til Íslands í þeim tilgangi sem í ákæru greinir. Verður því talið að sækjanda hafi tekist að sýna fram á það gegn eindreginni neitun ákærða að yfir allan skynsamlegan vafa sé hafið að hann hafi framið brot það sem honum er gefið að sök í fyrri lið ákæru. Samkvæmt þessu og áðurnefndri játningu ákærða á sakargiftum samkvæmt síðari lið ákæru er hann sakfelldur fyrir alla þá háttsemi sem hann er sakaður um í ákæruskjali.

Jakob Kristinsson dósent kom fyrir dóminn og staðfesti matsgerð sína. Í matsgerðinni kemur fram að styrkur amfetamínsbasa (27%) og amfetamínsúlfats (37%) var hátt yfir meðaltali og meðalgildi sýna sem rannsökuð hafa verið undanfarin og að sýnið hafi lést umtalsvert eftir þurrkun þ.e. úr 0,666 g í 0,449 g. Kvað Jakob meðalstyrk í sýnum undafarinna ára vera 17,2% sem er hátt yfir því sem hann kallar miðgildi sem 9,2%.

Við ákvörðun refsingar er auk annars litið til upplýsinga Jakobs bæði hvað varðar rakastig og styrks fíkniefnanna miðað við meðaltal.

Ákærði á sér engar málsbætur. Brot sitt samkvæmt fyrra lið ákæru framdi hann í samvinnu við aðra sem horfir til þyngingar við refsiákvörðun, sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá brýtur ákærði nú ítrekað gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga en hann var dæmdur þann 15. júlí 2005 í fangelsi í tvö ár og sex mánuði fyrir brot gegn þeirri sömu lagagrein og var veitt reynslulausn 18. september 2006 í tvö ár 300 daga eftirstöðvum refsingar. Annar sakarferill ákærða skiptir hér ekki máli. Ákærði hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 22. maí 2009. Að öllu virtu þykir refsing hans hæfilega ákvörðuð þriggja og hálfs árs fangelsi. Skilorðbinding dómsins kemur ekki til greina vegna alvarleika brotsins.

Með vísan til 76. gr. almennra hegningarlaga skal gæsluvarðhaldsvist koma til frádráttar refsivist eins og segir í dómsorði.

Með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 um ávana og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni eru efni þau sem lögregla haldlagði við rannsókn málsins dæmd upptæk eins og nánar greinir í dómsorði.

Eftir þessari niðurstöðu ber samkvæmt 208. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 að dæma ákærða til greiðslu sakarkostnaðar.

Fyrir dóminn hefur verið lagt yfirlit saksóknara um sakarkostnað sem nemur 1.464.486 krónum. Af þeirri fjárhæð þykir rétt að dæma ákærða til þess að greiða kostnað vegna rannsókna á efnasýnum 77.836 krónur og 1/6 hluta kostnaðar vegna hlerana 148.983 krónur vegna þess að þar eiga 5 aðrir hlut að máli. Þá skal ákærði greiða málflutningsþóknun verjanda síns fyrir rekstur málsins fyrir dómi og á rannsóknarstigi samtals 1.842.600 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk aksturskostnaðar 99.360 krónur.

Hulda María Stefánsdóttir fulltrúi ríkissaksóknara sótti málið af hálfu ákæruvalds.

Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp dóminn ásamt samdómendunum, Arnfríði Einarsdóttur og Finnboga H. Alexanderssyni, héraðsdómurum

Dómsorð:

Ákærði, Gunnar Viðar Árnason, skal sæta fangelsi í þrjú og hálft ár. Frá refsingunni skal draga gæsluvarðhald ákærða frá 22. maí 2009 með fullri dagatölu.

Ákærði greiði 2.168.799 krónur í sakarkostnað þ.m.t. málflutningsþóknun skipaðs verjanda síns, Jóns Egilssonar héraðsdómslögmanns, 1.842.600 krónur og aksturskostnað hans 99.360 krónur

Dæmd eru upptæk 6.149,58 g af amfetamíni og 5,55 g af maríhúana sem hald var lagt á við rannsókn málsins.