Hæstiréttur íslands

Mál nr. 411/2002


Lykilorð

  • Líkamstjón
  • Örorka
  • Skaðabætur
  • Uppgjör
  • Ógilding samnings


Fimmtudaginn 27

 

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003.

Nr. 411/2002.

Helga Víglundsdóttir

(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.)

gegn

Jóhanni Alexanderssyni og

Vátryggingafélagi Íslands hf.

(Hákon Árnason hrl.)

 

Líkamstjón. Örorka. Skaðabætur. Uppgjör. Ógilding samnings.

H stefndi J og V hf. til greiðslu bóta í tilefni af umferðarslysi sem hún lenti í á árinu 1992. Hafði varanleg læknisfræðileg örorka H verið metin 15% í kjölfar slyssins og hún gengið til samninga á grundvelli matsins. Samkvæmt kvittun þáverandi lögmanns hennar var um lokauppgjör að ræða fyrir allt tjón vegna meiðsla hennar. Eftir þetta taldi H heilsu sinni hraka og að afleiðingar slyssins hafi orðið meiri en lagt var til grundvallar við bótauppgjörið. Fékk H dómkvadda matsmenn sem mátu varanlega læknisfræðilega örorku hennar vegna slyssins 20%. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að bera verði saman heildarörorkuna, sem bótauppgjör H var reist á, og þá örorku, sem slysið var síðar talið hafa leitt til. Sé hækkun á örorku H ekki veruleg og henni því ekki heimilt á þeim grundvelli að hafa uppi frekari kröfu án tillits til fyrirvaralauss samkomulags um lokauppgjör bótanna. Þá hafi bótauppgjörið ekki verið ósanngjarnt þannig að það yrði ógilt á grundvelli 36. gr. samningalaga nr. 7/1936. Voru J og V hf. því sýknuð af kröfu H.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. september 2002. Hún krefst þess að stefndu verði dæmdir til að greiða sér óskipt aðallega 5.234.720 krónur, til vara 3.331.700 krónur og til þrautavara 2.162.100 krónur, í öllum tilvikum með nánar tilteknum ársvöxtum frá 2. nóvember 1994 til 18. apríl 1999, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 og samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og þeim dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

I.

Svo sem greinir í héraðsdómi ók stefndi Jóhann bifreið sinni 11. september 1992 aftan á bifreið áfrýjanda, þar sem hún var kyrrstæð við gatnamót. Slasaðist áfrýjandi í árekstrinum og er óumdeilt að stefndu bera óskipta ábyrgð á tjóni hennar. Samkvæmt mati Sigurjóns Sigurðssonar læknis 27. ágúst 1994 var tímabundin örorka áfrýjanda af völdum slyssins 100% í tólf mánuði og varanleg læknisfræðileg örorka 15%. Gengu áfrýjandi og hið stefnda vátryggingafélag til samninga um bótauppgjör á grundvelli matsins og samkvæmt kvittun þáverandi lögmanns áfrýjanda 3. nóvember 1994 var um lokauppgjör að ræða fyrir allt tjón vegna meiðsla hennar. Samkomulagi aðilanna er nánar lýst í héraðsdómi.

Eftir þetta taldi áfrýjandi heilsu sinni hraka og að afleiðingar slyssins hafi orðið meiri en lagt var til grundvallar við bótauppgjörið. Er í héraðsdómi greint frá þeim læknisfræðilegu gögnum, sem gerð voru um áfrýjanda, en meðal þeirra voru annað örorkumat Sigurjóns Sigurðssonar 18. nóvember 1997, örorkumat læknanna Yngva Ólafssonar og Leifs N. Dungal 12. maí 1998 og matsgerð dómkvaddra lækna, Stefáns Carlssonar og Torfa Magnússonar, 14. september 2000. Í örorkumati Yngva og Leifs kom meðal annars fram að áfrýjandi hafi fyrir umrætt slys leitað að minnsta kosti þrisvar til lækna í Vestmannaeyjum vegna bakóþæginda og töldu þeir tímabundna og varanlega örorku áfrýjanda vera hina sömu og Sigurjón Sigurðsson hafði upphaflega komist að niðurstöðu um. Mætti að mestu rekja óþægindi hennar í hálsi til slyssins, en óþægindi í mjóbaki bæri fyrst og fremst að líta á sem aukningu fyrri einkenna. Dómkvöddu matsmennirnir töldu hins vegar varanlega læknisfræðilega örorku áfrýjanda vera 25%. Teldust 3/5 hlutar örorkunnar stafa frá einkennum í hálsi og ofanverðum líkamanum, sem væru að öllu leyti til komin vegna slyssins, en 2/5 hlutar hennar væru vegna einkenna frá mjóbaki og neðri hluta líkamans. Helming þessa hluta örorkunnar mætti rekja til slyssins, en helming til fyrri einkenna. Varanlega læknisfræðilega örorku áfrýjanda vegna slyssins mátu þeir samkvæmt því 20%. Tímabundna örorku áfrýjanda mátu sömu matsmenn 100% í samtals 58 vikur.

Með málsókn sinni leitar áfrýjandi eftir frekari bótum úr hendi stefndu en þeim, sem henni voru greiddar 1994. Telur hún samkomulagið, sem þá var gert, ekki standa kröfu hennar í vegi. Málsatvik og málsástæður aðilanna eru nánar raktar í héraðsdómi.

II.

Áfrýjandi heldur fram að í örorkumati 1994 hafi láðst að taka tillit til fyrri einkenna, sem þá hafi einnig verið til staðar, og hafi nú verið metin til 5% varanlegrar örorku. Hafi örorka áfrýjanda vegna slyssins samkvæmt þessu verið metin þá 10%, en sé nú 20%. Um sé að ræða verulega aukningu örorkunnar, sem sé nú tvöföld sú sem áður hafi komið fram. Þá séu verkir útbreiddari en áður og einkennin því ekki hin sömu. Mat dómkvaddra manna sé fullgild sönnun fyrir því að örorkan hafi aukist og verði sönnunargildi mats þeirra Yngva Ólafssonar og Leifs N. Dungal ekki lagt að jöfnu við mat dómkvaddra manna, eins og ráða megi að héraðsdómur hafi gert.

Engin efni eru til að vefengja þá niðurstöðu dómkvaddra manna að örorka áfrýjanda af völdum slyssins sé 20% og að 5% örorka því til viðbótar stafi af áður til kominni bilun í stoðkerfi hennar. Hefur áfrýjandi fært rök að því að örorka vegna slyssins hafi hækkað úr 10% í 20% og að sú aukning stafi öll af einkennum í hálsi og efri hluta líkamans. Það fær þó ekki breytt því að við bótauppgjörið 1994 var gengið út frá að 15% metin örorka áfrýjanda væri öll til komin vegna slyssins og bætur við það miðaðar. Við úrlausn um það hvort örorka hafi aukist verulega eða ekki verður að bera saman annars vegar heildarörorkuna, sem bótauppgjör var reist á, og hins vegar þá örorku, sem slysið var síðar talið hafa leitt til. Hvernig einstakir þættir í metinni örorku kunna að hafa breyst skiptir þá ekki máli. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sú niðurstaða hans að hækkun á örorku áfrýjanda geti ekki talist veruleg og að henni sé ekki heimilt á þeim grundvelli að hafa uppi frekari kröfu án tillits til fyrirvaralauss samkomulags um lokauppgjör bóta.

Áfrýjandi reisir kröfu sína jafnframt á því að víkja beri nefndu uppgjöri til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga með áorðnum breytingum, enda verði að telja uppgjörið afar ósanngjarnt. Tjón áfrýjanda varð fyrir gildistöku skaðabótalaga nr. 50/1993 og fór um bótarétt hennar eftir eldri reglum. Við samningsgerðina 1994 naut áfrýjandi aðstoðar lögmanns og greiddi hið stefnda vátryggingafélag henni þá 650.000 krónur í skaðabætur. Gaf starfsmaður félagsins, sem samdi við lögmanninn um uppgjör bótanna, skýrslu fyrir héraðsdómi, og eru skýringar hans á einstökum liðum, sem lágu að baki samkomulagsins, raktar í hinum áfrýjaða dómi. Kemur þar meðal annars fram að tjón áfrýjanda vegna varanlegrar örorku hafi verið gert upp á grundvelli útreiknings fyrir tapaðar tekjur vegna heimilisstarfa, en sú aðferð hafi verið henni hagfelld þar eð tekjur hennar síðustu árin fyrir slysið voru mjög lágar. Óumdeilt er að ekkert var greitt fyrir tímabundna örorku og er það meðal þess, sem gagnrýni áfrýjanda beinist að. Áfrýjandi hefur ekki sýnt fram á að hún hafi stundað launaða vinnu á slysdegi og er óhrakin sú skýring stefnda Vátryggingafélags Íslands hf. að við uppgjör bóta fyrir tímabundið tjón hafi almennt á þessum tíma einungis verið bætt sannanlegt tekjutap. Óverulegar tekjur áfrýjanda á árinu 1991 geta engu máli skipt um þennan þátt. Áfrýjandi bendir jafnframt á að greiðsla fyrir miska, 150.000 krónur, hafi verið lág. Á það má fallast, en miðað við örorkustig mun sú fjárhæð ekki vera fjarri því sem þá tíðkaðist almennt í bótauppgjörum fyrir líkamstjón. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sýknu stefndu af kröfu áfrýjanda, svo og um málskostnað.

Rétt er að hver aðilanna beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júní 2002.

         Mál þetta, sem dómtekið var  10. maí síðastliðinn, er höfðað 27. júní 2001 af Helgu Víglundsdóttur, Hlíðarvegi 28, Kópavogi, gegn Jóhanni Alexanderssyni, Miðtúni 8, Keflavík, og Vátryggingafélag Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík.

         Stefnandi krefst þess, að stefndu verði gert að greiða stefnanda óskipt 5.234.720 krónur ­með 0,5% ársvöxtum frá 2. nóvember 1994 til 1. júní 1995, 0,65% ársvöxtum frá þeim degi til 1. október 1996, 0,75% ársvöxtum frá þeim degi til 21. janúar 1997, 0,9% ársvöxtum frá þeim degi til 1. maí 1997, 1,0% ársvöxtum frá þeim degi til 1. apríl 1998, 0,7% ársvöxtum frá þeim degi til 18. apríl 1999, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags.

         Til vara er þess krafist, að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda 3.331.700 krónur með 0,5% ársvöxtum frá 2. nóvember 1994 til 1. júní 1995, 0,65% ársvöxtum frá þeim degi til 1. október 1996, 0,75% ársvöxtum frá þeim degi til 21. janúar 1997, 0,9% ársvöxtum frá þeim degi til 1. maí 1997, 1,0% ársvöxtum frá þeim degi til 1. apríl 1998, 0,7% ársvöxtum frá þeim degi til 18. apríl 1999, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags.

         Til þrautavara er þess krafist, að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda 2.162.100 krónur með 0,5% ársvöxtum frá 2. nóvember 1994 til 1. júní 1995, 0,65% ársvöxtum frá þeim degi til 1. október 1996, 0,75% ársvöxtum frá þeim degi til 21. janúar 1997, 0,9% ársvöxtum frá þeim degi til 1. maí 1997, 1,0% ársvöxtum frá þeim degi til 1. apríl 1998, 0,7% ársvöxtum frá þeim degi til 18. apríl 1999, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags.

         Þá er krafist málskostnaðar.

         Dómkröfur stefndu eru þær aðallega, að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og þeim tildæmdur málskostnaður úr hendi hennar að mati dómsins, en til vara að stefnukröfur verði stórlækkaðar og málskostnaður felldur niður.

I.

         Þann 11. september 1992 var stefnandi ökumaður kyrrstæðrar bifreiðar á umferðarljósum, er stefndi, Jóhann Alexandersson, ók bifreið sinni, VG 644, aftan á bifreið stefnanda. Við áreksturinn hlaut stefnandi slink á mjóbak og háls. Fann hún strax fyrir verkjum í hálsi og baki og leitaði til læknis daginn eftir. Á slysadeild var hún greind með hálshnykk og fékk þar hálskraga og bólgueyðandi lyf.

         Sigurjón Sigurðsson, læknir, mat tímabundna örorku stefnanda vegna slyssins 100% í 12 mánuði eftir slysið og varanlega örorku hennar 15% samkvæmt matsgerð,  dagsettri 27. ágúst 1994. Bótauppgjör vegna slyssins fór fram 3. nóvember 1994 með því að stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiddi stefnanda 661.180 krónur, auk vaxta og lögmannsþóknunar, og ritaði lögmaður stefnanda undir kvittun fyrir greiðslunni án fyrirvara.

         Áðurnefndur læknir mat örorku stefnanda á ný 18. nóvember 1997 og taldi varanlega örorku hennar nú vera 25% auk þess sem hann mat henni tímabundna 100% viðbótarörorku í 6 mánuði vegna brjósklosaðgerðar. Segir í matinu, að eftir að læknirinn gerði fyrra örorkumat sitt hafi [heilsu] stefnanda farið versnandi og hún meðal annars gengist undir brjósklosaðgerð. Telji Kristinn Guðmundsson, heila- og taugalæknir, sem meðhöndlað hafi stefnanda, að einkenni hennar ,,í dag” séu aðallega L.T. taugarótareinkenni hægra megin. Jafnframt hafi einkenni frá hálsi vaxið og megi segja, að hér hafi verið um nokkra versnun að ræða á afleiðingum slyssins 11. september 1992.

         Stefndu töldu þetta mat læknisins ekki fá staðist og sammæltust málsaðiljar um að fá Yngva Ólafsson, bæklunarlækni, og Leif N. Dungal, heimilislækni, til að meta fjárhagslega og læknisfræðilega örorku stefnanda af völdum umrædds slyss og hvort önnur slys eða sjúkdómar ættu þátt í örorku hennar. Samkvæmt matgerð læknanna, dagsettri 12. maí 1998, mátu þeir örorku stefnanda af völdum slyssins þá sömu og metin var í upphaflegu mati Sigurjóns Sigurðssonar, læknis. Töldu matsmennirnir, að hálsóþægindi stefnanda yrðu að mestu leyti rakin til slyssins og að óþægindin frá mjóbaki væru fyrst og fremst versnun fyrri veikleika í baki. Er þar tekið fram, að stefnandi hafi haft nokkur einkenni frá mjóbaki fyrir slysið í september 1992 og sé vafasamt að líta á mjóbaksóþægindi hennar alfarið sem afleiðingu slyssins. Þá hafi ekkert brjósklos komið í ljós við aðgerð og hafi mat Kristins Guðmundssonar, læknis, þess efnis, að brjósklos gæti átt þátt í einkennum stefnanda, ekkert haft með raunverulegar breytingar að gera, sem rekja mætti með vissu til slyssins. Telji matsmenn því í hæsta máta vafasamt að réttlæta hækkun örorkumats á grundvelli þeirrar aðgerðar.

         Stefnandi var ósátt við þetta og óskaði eftir læknisvottorði frá heimilislækni sínum, Sigurði Inga Sigurðssyni, vegna fyrirhugaðrar endurupptöku skaðabóta-málsins. Í vottorði læknisins frá 21. apríl 1999 kemur meðal annars fram, að stefnandi hafi á árunum fyrir bílslysið 1992 og í byrjun slyssársins leitað til hans vegna verkja frá hægri mjöðm og fengið sprautur í festur í mjöðminni, en stefnandi hafi verið talin hafa lærahnútabólgu. Einkenni eftir slysið frá hálsi, öxl og handlegg virðist nú fara versnandi og einkenni frá mjöðm og mjóbaki séu viðvarandi.

         Þá óskaði stefnandi umsagnar Árna Tómasar Ragnarssonar, gigtarlæknis, um örorku sína af sama tilefni. Segir meðal annars í vottorði Árna, dagsettu 23. september 1999, að hann hafi séð stefnanda á stofu 17. mars og 22. september 1999. Hafi hálseinkennin verið verst við síðari komuna, en bakið eitthvað skárra. Magnist einkennin upp við álag og séu mjög sveiflukennd. Ágreiningur hafi verið um að hve miklu leyti eigi að túlka einkenni stefnanda í mjóbaki eingöngu út frá slysinu, eins og Sigurjón [Sigurðsson] virðist gera, eða sem eðlilegt framhald fyrri bakeinkenna. Telji gigtarlæknirinn það meginhlutverk sitt að leggja mat á það mál. Segir hann síðan í vottorðinu, að á árunum 1975 - 1986, þegar stefnandi hafi ítrekað kvartað undan einkennum í mjóbaki, hafi röntgenmyndir af mjóbaki verið eðlilegar og stefnandi verið vinnufær á þessum tíma í fremur erfiðu starfi í fiskvinnslu. Því sé varla hægt að segja, að bakvandamál hennar á þeim tíma hafi verið mjög alvarlegs eðlis. Er niðurstaða læknisins sú, að segja megi að öllu samanlögðu, að stefnandi hafi mikil hálseinkenni eftir slysið, sem metin verði til 15% örorku. Stefnandi hafi einnig mikil einkenni frá mjóbaki og sýnist lækninum þau vera talsvert meiri en eðlilegt megi teljast sé litið til fyrri baksögu stefnanda. Sýnist lækninum því sanngjarnt að álykta, að þau einkenni megi að hálfu rekja til slyssins. Sé gert ráð fyrir því, að heildarörorka vegna baksins sé 10%, teljist 5% þeirrar örorku vera afleiðing slyssins 1992. Var það álit læknisins, að varanleg heildarörorka stefnanda, sem rekja megi til slyssins, teljist hæfilega metin 20%.

         Af hálfu stefndu var ekki talið, að grundvöllur væri til endurupptöku málsins í ljósi fyrirliggjandi gagna. Beiddist stefnandi þá dómkvaðningar matsmanna til mats á því, hvort varanleg örorka stefnanda hefði aukist frá því fyrra örorkumat Sigurjóns Sigurðssonar, læknis, var gert eða hvort afleiðingar slyssins væru meiri en þar var gert ráð fyrir og hver væri tímabundin og varanleg læknisfræðileg örorka stefnanda vegna slyss þess, sem mál þetta á rætur að rekja til. Til verksins voru dómkvaddir Torfi Magnússon, heila- og taugaskurðlæknir, og Stefán Carlsson, bæklunarlæknir. Segir í matsgerð þeirra, dagsettri 14. sept 2000, að matsmenn telji heildarörorku stefnanda vera 25%. Megi rekja 3/5 þeirrar örorku til einkenna frá hálsi og ofanverðum líkama og séu þau einkenni alfarið tilkomin vegna umferðarslyssins. Séu 2/5 hlutar heildarörokunnar tilkomnir vegna einkenna frá mjóbaki og neðanverðum líkama og megi rekja helming þeirrar örorku til afleiðinga umferðarslyssins og helming til fyrri einkenna. Telji matsmenn því, að varanleg læknisfræðileg örorka stefnanda vegna afleiðinga umferðarslyssins sé 20%.

         Stefnandi setti fram nýjar bótakröfur á grundvelli þessa örorkumats með bréfi 20. október 2000, en stefndu töldu sem fyrr ekki skilyrði til endurupptöku málsins og er það tilefni málshöfðunar þessarar.

II.

         Stefnandi byggir dómkröfur sínar einkum á því, örorka hennar sé að miklum mun meiri en hún var þegar uppgjör slysamáls hennar fór fram árið 1994 og afleiðingar slyssins mun alvarlegri en ráð var fyrir gert. Forsendur fyrir uppgjörinu séu því algjörlega brostnar og beri stefnanda að fá greiddar auknar bætur. Beri stefnda,  Vátryggingafélagi Íslands hf., að bæta stefnanda allt það tjón, sem hún hafi orðið fyrir í fyrrnefndu umferðarslysi, en aðeins lítill hluti þess hafi verið bættur.

         Stefnandi styður kröfur sínar við matsgerð Stefáns Carlssonar, bæklunarlæknis, og Torfa Magnússonar, taugalæknis, dagsetta 14. september 2000, endurmat Sigurjóns Sigurðssonar, dagsett 18. nóvember 1997, auk annarra þeirra vottorða, sem fyrir liggja. Matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna sé vel rökstudd og ítarleg  læknisfræðileg rök færð fyrir niðurstöðu hennar. Með matsgerðinni og öðrum vottorðum hafi stefnandi sýnt fram á, að heilsufari hennar hafi hrakað mjög af völdum umferðarslyssins 1990 og varanleg læknis­fræðileg örorka hennar aukist. Þessi mikli munur réttlæti, að málið sé endurupptekið og stefnandi fái skaðabætur vegna hinnar auknu örorku sinnar. Þá sé ljóst, þegar bótauppgjörið frá 2. nóvember 1994 er skoðað, að það sé í engu samræmi við þágildandi reglur um skaðabætur fyrir líkamstjón, en þær hafi byggst á skýrri og almennt viðurkenndri dómvenju. Virðist stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., hafa náð að knýja fram einhvers konar geðþóttaákvörðun sína í málinu með því að neita greiðslu ef fyrirvari væri gerður við uppgjörið. Vísar stefnandi að þessu leyti til almennra reglna skaðabótaréttar um endurupptöku skaðabótamála vegna líkamstjóns, sem að nokkru eigi rót sína að rekja til almennra reglna kröfuréttar um brostnar forsendur.

         Þá byggir stefnandi á 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og sjónarmiðum að baki henni, þar sem telja verði, að uppgjör stefnanda hafi verið henni afar ósanngjarnt og fjarri því að veita henni fullar bætur vegna þess líkamstjóns, sem sannanlega sé afleiðing slyss hennar árið 1992. Sé því sanngjarnt og eðlilegt, að því verði vikið til hliðar þannig að rétt uppgjör á líkamstjóni stefnanda geti átt sér stað.

         Við ákvörðun bótafjárhæðarinnar vegna skaðabótaábyrgðar stefndu beri að líta til ólögfestra reglna íslensks skaðabótaréttar um mat á fjárhæðum skaðabóta fyrir líkamstjón, enda hafi slys stefnanda átt sér stað fyrir gildistöku skaðabótalaga nr. 50/1993. Þessar reglur séu skýrar og byggðar á áralangri dómvenju í íslenskum skaðabóta­rétti og uppgjörum vátryggingafélaganna, byggðum á þeirri dómvenju.

         Stefnandi geri aðallega kröfu um greiðslu skaðabóta vegna þess tjóns, sem ekki hafi þegar verið bætt, þ.e. fjárhæð heildartjóns stefnanda af slysinu l. september 1992, að frádregnum þeim bótum, sem þegar hafi verið greiddar við uppgjörið 2. nóvember 1994. Á grundvelli matsgerðar dómkvaddra matsmanna hafi Jón Erlingur Þorláks­son, tryggingafræðingur, reiknað út tekjutap stefnanda af völdum 20% varanlegrar örorku, sbr. bréf hans 2. október 2000. Samkvæmt því sundurliðist krafa stefnanda á eftirfarandi hátt:

1.      Tímabundið tekjutap frá 15.11.1993 til

         11.09.1997 vegna vinnu utan heimilis....    450.000 kr.

­         Tímabundið tekjutap í 6 vikur eftir

         aðgerð 1997............................................            67.500 kr.

2.      Höfuðstólsverðmæti tekjutaps vegna

         vinnu utan heimilis.................................      2.502.300 kr.­

3.      Höfuðstólsverðamæti tekjutaps vegna

         heimilisstarfa .........................................       2.326.000 kr.

4.      Töpuð lífeyrisréttindi.............................      150.100 kr.

5.      Miskabætur ............................................      400.000 kr.­

                Samtals                                                                     5.895.900 kr.

         Hinn 2. nóvember 1994 hafi stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greitt stefnanda 661.180 krónur, sem komi til frádráttar kröfunni. Samkvæmt því sé fjárhæð aðalkröfunnar 5.234.720 krónur.

         Um l. tölulið.

         Þegar umferðarslysið átti sér stað hafi stefnandi verið búin að ráða sig í tæplega hálfs dags starf á hárgreiðslustofu í Kópavogi og hafið þar vinnu 1. nóvember 1992. Fljótlega hafi  komið í ljós, að hún hafi verið ófær til þessarar vinnu vegna mikilla verkja bæði í herðum og baki og hún þá hætt störfum. Sé útreikningur á tímabundnu tekjutapi  byggður á umsömdum launum Helgu á hárgreiðslustofunni, 45.000 krónur á mánuði.

         Um 2. tölulið.

         Hér vísist til útreiknings Jóns Erlings Þorlákssonar, tryggingafræðings, sem byggi á framangreindum launum stefnanda í hálfu starfi á hárgreiðslustofunni, 45.000 krónum á mánuði.

         Um 3. tölulið.

         Hér vísist til útreiknings Jóns Erlings Þorlákssonar, tryggingafræðings, sem byggi á dómvenju um laun húsmæðra.

         Um 4. tölulið.

         Hér vísist til útreiknings Jóns Erlings Þorlákssonar, en samkvæmt honum sé verðmæti tapaðra lífeyrisréttinda vegna slyssins áætlað 6% af höfuðstólsverðmæti taps af varanlegri örorku. 

         Um 5. tölulið

         Miskabótakrafan sé byggð á dómvenju í íslenskum skaðabótarétti og sett fram með stoð í þágildandi 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Eftir slysið hafi stefnandi þjáðst af stöðugum verkjum í hálsi, sem leiði út í herðar, niður á milli herðablaða og út í hægri öxl. Þoli hún hvorki álag né kyrrstöður, hún sé með stöðuga verki í baki, sem leiði út í hægra mjaðmarsvæði, fram í nára og rasskinn og niður í hægri fót.

         Forsendur varakröfu stefnanda séu þær, að dómurinn komist að þeirri niðurstöðu, að stefnandi eigi ekki rétt til bóta fyrir heildartjón sitt að frádregnum þegar greiddum skaðabótum. Byggi varakrafan á því, að stefnandi eigi ávallt rétt á bótum fyrir uppgjör á þeirri 10% viðbótarörorku, sem matsgerð dómkvaddra matsmanna vitni um. Hafi þeir metið hana 25%, en Sigurjón Sigurðsson 15% í fyrra örorkumati sínu. Munurinn á mötunum sé 10%, en Sigurjón taki ekki tillit til þess, að helmingur einkenna frá mjóbaki hafi verið til kominn fyrir umferðarslysið 11. september 1992. Hafi Sigurjón ekki haft undir höndum nein gögn um fyrra heilsufar stefnanda. Þessa 15% örorku telji Sigurjón aðallega í mjóbaki, en einnig í hálsi. Megi gera ráð fyrir, að þessi 15% skiptist í 10% vegna mjóbaks og 5% vegna háls. Hinir dómkvöddu matsmenn hafi haft aðgang að upplýsingum um fyrra heilsufar stefnanda og séu sammála niðurstöðu Sigurjóns um, að örorka hennar frá mjóbaki sé 10%, þar af helmingur vegna fyrri einkenna, sbr. niðurstöðukafla matsgerðar þeirra. Þeir meti einkenni frá hálsi og herðasvæði til 15% varanlegrar örorku, þ.e. 10% umfram fyrra mat Sigurjóns. Þau 10% séu algjörlega óbætt og þau eigi stefnandi rétt á að fá bætt, hvað sem líði endurupptöku skaðabótamálsins í heild. Sé þetta er í fullu samræmi við endurmat Sigurjóns sjálfs frá 18. nóvember 1997 þar sem hann telji heildarörorku stefnanda 25%, þ.e. 10% meiri en í fyrra mati hans, sem lagt hafi verið til grundvallar við uppgjörið 1994. Með sama hætti styðji vottorð Árna Tómas Ragnarssonar, læknis, dagsett 23. september 1999, þessa niðurstöðu. Samkvæmt framansögðu byggi varakrafan á rétti stefnanda til uppgjörs á 10% viðbótarörorku og sundurliðist krafan með eftirfarandi hætti:

1.      Tímabundið tekjutap frá 15.11.1993 til

                11.09.1997 vegna vinnu utan heimilis.......              450.000 kr.­

         Tímabundið tekjutap í 6 vikur eftir

         aðgerð 1997................................................                               67.500 kr.

2.      Höfuðstólsverðmæti tekjutaps vegna

         vinnu utan heimilis..................................                            1.251.150 kr.­

3.      Höfuðstólsverðmæti tekjutaps vegna

         heimilisstarfa ..........................................                             1.163.000 kr.

4.      Töpuð lífeyrisréttindi...............................                                75.050 kr.

         Miskabætur .............................................                               400.000 kr.

         Samtals                                                                                  3.331.700 kr.

         Forsendur þrautavarakröfu stefnanda séu þær, að hvorki verði fallist á aðalkröfu né varakröfu stefnanda. Byggi varakrafan á því, að stefnandi eigi ávallt rétt á bótum fyrir þann 5% mun, sem sé á niðurstöðu dómkvaddra matsmanna um 20% örorku stefnanda vegna afleiðinga slyssins, og fyrri niðurstöðu Sigurjóns um 15% örorku vegna afleiðinga þess í örorkumati 27. ágúst 1994, en síðarnefnda matið hafi legið til grundvallar uppgjörinu 2. nóvember 1994. Samkvæmt því byggi þrautavarakrafan á rétti stefnanda til uppgjörs á 5% viðbótarörorku og sundurliðist krafan svo:

1.      Tímabundið tekjutap frá 15.11.1993 til

         11.09.1997 vegna vinnu utan heimilis......                            450.000 kr.­

         Tímabundið tekjutap í 6 vikur eftir

         aðgerð 1997...............................................                                67.500 kr.

2.      Höfuðstólsverðmæti tekjutaps vegna

                vinnu utan heimilis....................................                  625.575 kr.­

3.      Höfuðstólsverðmæti tekjutaps vegna

                heimilisstarfa ............................................                    581.500 kr.

4.      Töpuð lífeyrisréttindi................................                               37.525 kr.

                Miskabætur ..............................................             400.000 kr.

         Samtals                                                                                  2.162.100 kr.­

         Vaxtakrafa sé byggð á vaxtalögum nr. 25/1987, sbr. lög nr. 67/1989, einkum 7. og 15. gr. fyrrnefndra laga. Krafist sé almennra sparisjóðsvaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá 2. nóvember 1994, eða þeim degi, er uppgjör fór fram, en dráttar­vaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 18. apríl 1999, er liðinn hafi verið einn mánuður frá því, að lögmaður stefnanda sendi stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. kröfu um endurupptöku málsins. Hafi þá legið fyrir öll gögn, sem nauðsynleg hafi verið, til að meta tjónsatvik og fjárhæð kröfu stefnanda, sbr. meginreglu 15. gr. vaxtalaga. Hafi innborgun stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., á málið og greiðsla vaxta frá slysdegi til 2. nóvember 1994 rofið fyrningu vaxta.

         Af hálfu stefndu er á því byggt, að frumskilyrði réttar til viðbótarbóta ofan á áður umsamdar og greiddar fullnaðar­bætur fyrir líkamsslys sé, að heilsufarsfarslegar afleiðingar slyssins hafi í verulegum mæli orðið aðrar og meiri en ráð var fyrir gert, þegar samið var um bæturnar, en fyrr teljist forsendur bótauppgjörs ekki brostnar. Er sýknukrafa stefndu á því byggð, að þetta frumskilyrði sé ekki fyrir hendi í tilviki stefnanda og hún sé bundin við fyrirvaralausa kvittun og yfirlýsingu lögmanns síns 3. nóvember 1994 um endanlegt uppgjör skaðabóta á slysinu og afsal á öllum frekari kröfum á hendur stefndu út af því. Ekki séu heldur skilyrði til þess að víkja bótauppgjörinu til hliðar á grundvelli 36. gr. sml. nr. 7/1936.

         Ljóst sé af fyrirliggjandi læknisvottorðum í málinu, 15% örorkumati Sigurjóns Sigurðs­­sonar, læknis, frá 27. ágúst 1994 og samanburði á 15% örorkumati læknanna Leifs N. Dungal og Yngva Ólafssonar og 20% örorkumati læknanna Stefáns Carlssonar og Torfa Magnússonar, að einkenni stefnanda eftir bílslysið 11. september 1992 hafi alltaf verið þau sömu, þ.e. frá hálsi og mjóbaki. Hafi þessi einkenni verið grundvöllur örorkubóta við skaðabótauppgjörið 3. nóvember 1994, sbr. 15% örorkumat Sigurjóns, sem uppgjörið hafi byggst á. Engar nýjar eða aðrar afleiðingar slyssins hafi komið fram síðar, eða eftir að uppgjörið fór fram. Geri matsmenn í báðum tveggja lækna örorkumötunum líka ráð fyrir því, að þessi háls- og mjóbakseinkenni sé að rekja til slyssins, en í mismunandi miklum mæli. Telji þeir Leifur og Yngvi, að hálsóþægindin megi að mestu leyti rekja til slyssins, en vafasamt sé að líta á mjóbaksóþægindin alfarið sem afleiðingu þess og beri fremur að líta á þau sem versnun fyrri veikleika í bakinu. Stefán og Torfi líti hins vegar svo á, að helming örorku vegna mjóbakseinkennanna megi rekja til slyssins og meti þeir samanlagða örorku vegna háls- og mjóbakseinkenna 20%, eða lítillega hærri en Leifur og Yngvi mátu og Sigurjón mat í upphafi. Sé þannig ekki tilfellið, að nýjar eða ófyrirsjánlegar breytingar hafi orðið á heilsu stefnanda, eftir að bótauppgjörið fór fram, eða að örorka hennar sé orðin verulega hærri en þá hafi verið talið. Sé aðeins um það eitt að ræða, að matslæknarnir leggi svolítið mismunandi mat á sömu einkenni sjúklings. Sé þannig alveg ósannað, að nokkur raunveruleg versnun á heilsufari stefnanda hafi átt sér stað frá því bótauppgjörið fór fram. Þá séu örorkumöt ekki nein nákvæmnisvísindi og geti munur á mötum um 5 örorkustig aldrei talist veruleg hækkun á örorku. Ekki verði heldur séð, að örorkumat Stefáns og Torfa sé eitthvað réttara en örorkumat Leifs og Yngva.

         Ekki séu heldur skilyrði til að víkja bótauppgjörinu 3. nóvember 1994 til hliðar á grundvelli 36. gr. samningalaga nr. 7/1936. Skilyrði þess að svo megi gera sé, að það sé ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera bótauppgjörið fyrir sig. Því sé ekki að heilsa í tilviki stefnanda. Fyrir það fyrsta hafi stefnandi notið lögmannsaðstoðar við bótauppgjörið. Í annan stað hafi bótauppgjörið verið hefðbundið og í takt við uppgjörsvenjur síns tíma, en það hafi verið byggt á örorkumati læknis og höfð hliðsjón af tjónsútreikningi tryggingafræðings, sem stefnandi hafi útvegað. Vinnutekjutap vegna tímabundinnar örorku hafi ekkert verið og þar því ekki um neinar bætur að ræða. Þá hafi verið samkomulag um það við ákvörðun bóta vegna varanlegrar örorku að hafa eingöngu til hliðsjónar útreikning tekjutaps vegna heimilisstarfa miðað við fullt starf á heimili, enda útivinnutekjur stefnanda óverulegar og ekki unnt að vera í fullu starfi bæði innan og utan heimilis. Þá hafi verið samkomulag um að virða til lækkunar útreiknuðu tjóni, auk lækkunar vegna skattfrelsis og eingreiðsluhagræðis, að ekki lá fyrir að stefnandi hefði í reynd orðið fyrir eða myndi verða fyrir nokkru vinnutekjutapi af völdum varanlegrar örorku. Til hækkunar hafi komið miski. Eftir þessum nótum hafi ákveðist samkomulags­bætur fyrir miska og varanlega örorku í einu lagi. Hafi þetta allt verið í fullu samræmi við uppgjörsvenjur þess tíma. Sé því fjarri lagi, að bótauppgjörið hafi ekki verið í neinu samræmi við þágildandi reglur um skaðabætur fyrir líkamstjón, eða að stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., hafi náð fram einhverri geðþóttaákvörðun um bæturnar. Sé og rangt og ósannað, að stefndi hafi neitað greiðslu, ef fyrirvari væri gerður við uppgjörið. Hafi ekkert komið til umræðu eða álita að gera einhvern fyrirvara við samkomulagsuppgjörið. Sé bótauppgjörið þannig fjarri því að vera ósanngjarnt gagnvart stefnanda eða að það hafi ekki verið í samræmi við góðar viðskiptavenjur.

         Að framangreindu sé ljóst að sýkna beri stefndu af öllum kröfum stefnanda.

         Varakrafa stefndu sé byggð á því að hafna beri með öllu aðalkröfu og varakröfu stefnanda, sem mótmælt sé sem röngum og allt of háum, og stórlækka þrauta­vara­­kröfu, eigi hún við rök að styðjast, en því sé mótmælt.

         Aðalkrafa stefnanda eigi engan rétt á sér. Sé krafan sett fram eins og varanleg örorka stefnanda af völdum slyssins hafi alltaf verið 20%, en ekki fyrst verið 15%, og síðan aukist í 20%, sem stefnandi byggi þó allan málatilbúnað sinn á og réttlæti með viðbótarkröfur sínar. Verði hér ekki bæði sleppt og haldið. Þá sé við kröfugerð þessa gengið fram hjá þeirri staðreynd, að búið sé að bæta allt tjón stefnanda vegna 15% varanlegrar örorku hennar og verði þær bætur ekki teknar sem innborgun upp í tjón vegna 20% varanlegrar örorku. Sé hið eina rétta að krefjast viðbótarbóta vegna 5% viðbótarörorku með því að málssóknin sé á því byggð.

         Um varakröfu stefnanda gildi hið sama. Sé hún miðuð við, að varanleg örorka stefnanda af völdum slysins sé 25% og sé að öðru leyti sett fram með sömu annmörkum og aðalkrafan. Skorti sönnun þess, að varanleg örorka stefnanda af völdum slyssins sé 25% eða hafi aukist um 10%, en endurmati Sigurjóns um hækkun örorkunnar úr 15% í 25% hafi verið hrundið með báðum tveggja lækna mötunum. Hafi dómkvaddir matsmenn metið varanlega örorku stefnanda af völdum slyssins  20%, en ekki 25%, og Leifur og Yngvi talið örorkuna aðeins vera 15%. Sé því enginn grundvöllur fyrir varakröfunni.

         Þrautavarakrafa stefnanda sé byggð á því, að stefnandi hafi hlotið 5% varanlega viðbótar­örorku af völdum slyssins frá því bótauppgjörið fór fram við stefndu í nóvember 1994. Sé ósannað, að varanleg örorka stefnanda hafi í raun aukist frá því uppgjörið fór fram, en fyrirliggjandi örorkumöt beri það ekki með sér, utan endurmat Sigurjóns, sem hrundið hafi verið með tveggja lækna mötunum. Þau möt taki hins vegar enga afstöðu til þess, hvort varanlega örorka stefnanda hafi aukist frá því sem var eða ekki, heldur fjalli aðeins um, hve mikið af einkennum stefnanda sé að rekja til slyssins eða ekki. Sé því í raun engin grundvöllur undir varakröfunni heldur.

         Við einstaka kröfuliði í aðalkröfu, varakröfu og þrautavarakröfu er svo þetta að athuga:

         1. Kröfu um tímabundið tekjutap (kr. 450.000 + 67.500) beri alfarið að hafna. Bæði sé, að tjón sé ósannað og einnig hitt, að við bótauppgjörið hafi af hálfu stefnanda verið fallið frá öllum frekari kröfum á hendur stefndu en þá voru bættar.  Sé ekkert nú, sem afsaki, að krafan hafi ekki verið höfð uppi í öndverðu, ef um raunverulegt tekjutap var að ræða.

         2-3. Kröfum um örorkutjónsbætur, sem eru bæði vegna starfa utan heimilis miðað við fullt starf og störf á heimili miðað við fullt starf, beri að hafna, en enginn geti samtímis verið í tveimur fullum störfum og átt rétt til bóta á þeim grundvelli samkvæmt dómvenju. Sé nærtækast að miða við störf á heimili eingöngu, enda hafi stefnandi unnið aðeins óverulega utan heimilis. Þá sé eftir að virða til lækkunar hagræði af eingreiðslu og skattfrelsi bóta.

         4. Kröfu um töpuð lífeyrissjóðsréttindi beri alfarið að hafna, en ósannað sé, að stefnandi hafi tapað nokkrum lífeyrissjóðsréttindum.

         5.  Miskabótakröfu verði að mótmæla sem allt of hárri og í hróplegu ósamræmi við dómvenju, en hæfilegar miskabætur vegna 5% viðbótaröroku séu um 50.000 krónur.

         Loks verði að mótmæla vaxtakröfum stefnanda, en eldri vextir en 4 ára frá stefnubirtingu séu fyrndir og dráttarvextir eigi ekki rétt á sér fyrr en frá dómsuppsögudegi eins og kröfugerð stefnanda sé háttað. Beri og að taka tillit til þess við ákvörðun málskostnaðar.

III.

Svo sem áður greinir lenti stefnandi í umferðarslysi 11. september 1992, er bifreið var ekið aftan á kyrrstæða bifreið hennar. Við það hlaut stefnandi hálshnykk og tognun á mjóbaki með verkjum í hálsi og mjóbaki. Á árinu 1994 var stefnandi metin af Sigurjóni  Sigurðssyni,  lækni, til 100% tímabundinnar örorku í eitt ár og 15% varanlegrar örorku. Bótauppgjör milli aðila fór fram 3. nóvember 1994 á grundvelli þessa örorkumats. Heldur stefnandi því fram, að eftir uppgjörið hafi  veruleg og ófyrirsjáanleg breyting orðið  á heilsu hennar. Sé því heimilt að lögum að endurupptaka málið og beri að bæta stefnanda tjónið á grundvelli örorkumats dómkvaddra matsmanna.

         Í málinu liggja fyrir nýjar matsgjörðir  og  vottorð  lækna. Þyngst vegur þar mat Yngva  Ólafssonar,  bæklunarskurðlæknis, og Leifs N. Dungals, heimilislæknis, frá  12. maí  1998, en þeir mátu stefnanda til 100% örorku í eitt ár og 15% varanlegrar örorku, og mat dómkvaddra matsmanna, þeirra Torfa Magnússonar, heila- og  taugalæknis,  og  Stefáns  Carlssonar,  bæklunarskurðlæknis, frá 14. september 2000. Töldu þeir örorku stefnanda vera 100% í 58 vikur, nánar tiltekið 100% í 52 vikur í beinu framhaldi slyssins og síðan 6 vikur eftir brjósklosaðgerð, sem framkvæmd var af  Kristni Guðmundssyni, heila- og taugaskurðlækni, 19. mars 1997, en aðgerðin var talin tengjast afleiðingum slyssins 1992. Þá töldu þeir varanlega örorku vera 20%.

         Þegar litið er til læknisfræðilegra gagna, sem fyrir liggja í máli þessu, og skýrslna stefnanda og ofangreindra lækna við aðalmeðferð málsins er það álit hinna sérfróðu meðdómenda, að engin veruleg og ófyrirsjáanleg breyting hafi orðið á heilsufari stefnanda vegna afleiðinga slyssins frá því áðurnefnt bótauppgjör fór fram. Eru kvartanir stefnanda eftir það í stórum dráttum þær sömu og áður, en um er að ræða verk í hálsi, milli herðablaða og út í hægri griplim og verk í baki, á hægra mjaðmasvæði og hægri ganglim. Fyrir óþægindum eftir hálshnykk og tognun í mjóbaki geta menn fundið í misjafnlega ríkum mæli og ástandið verið mjög  breytilegt frá einum degi til annars. Hjá stefnanda bætast svo við þekkt stoðkerfisvandamál, bæði fyrir og eftir slysið. Engin rótareinkenni hafa fundist og ekki heldur merki um brjósklos, hvorki í hálsi né mjóbaki. Er því ekki unnt að líta á brjósklosskurðaðgerðina í mars 1997 sem afleiðingu umferðarslyssins.

         Sérfróðir meðdómendur telja, að bæði mat læknanna Yngva Ólafssonar og Leifs H. Dungal, svonefnt ,,tveggja lækna mat”, sem samkomulag var milli aðila að biðja um, og mat dómkvaddra matsmanna séu studd gildum rökum. Að vísu er 5% munur milli matanna á varanlegri örorku, en að mati hinna sérfróðu meðdómenda ræður þar mestu huglæg afstaða matsmanna. Verður að telja mismuninn innan þess ramma, er gera má ráð fyrir við slíkar aðstæður, sem hér er um að ræða. Er það því skoðun dómsins, að þó svo að mat hinna dómkvöddu matsmanna sé lagt til grundvallar varanlegri örorku stefnanda hafi ekki orðið nein ófyrirsjáanleg og veruleg breyting á heilsufari hennar frá því upphaflegt örorkumat fór fram.

         Samkvæmt því, sem rakið hefur verið, þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á, að forsendur séu brostnar fyrir tjónsuppgjöri því, sem fram fór 3. nóvember 1994.

         Á því er einnig byggt af hálfu stefnanda, að sanngjarnt sé og eðlilegt að víkja umræddu uppgjöri til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og sjónarmiðum að baki hennar, þar sem telja verði, að uppgjörið hafi verið henni afar ósanngjarnt og fjarri því að veita henni fullar bætur vegna afleiðinga slyss þess, sem mál þetta á rætur að rekja til.

         Við bótauppgjörið naut stefnandi aðstoðar lögmanns, sem hafði mikla reynslu á því sviði. Áður en uppgjörið fór fram var aflað örorkumats og útreiknings tryggingafræðings, svo sem hefðbundið var á þeim tíma. Samkvæmt skattframtölum stefnanda námu tekjur hennar 145.294 krónum árið 1988, 30.162. krónum 1989, en stefnandi var tekjulaus árið 1990. Miðað við þessar forsendur reiknaðist höfuðstólsverðmæti tekjutaps stefnanda vegna varanlegrar örorku 427.400 krónur. Þá var verðmæti tapaðra lífeyrisréttinda vegna slyssins áætlað 6% af höfuðstólsverðmæti taps á varanlegri örorku, eða 25.600 krónur. Tekjutap stefnanda var einnig reiknað út á hefðbundinn hátt á grundvelli tapaðra tekna vegna heimilisstarfa og samkvæmt þeim útreikningi nam höfuðstólsverðmæti tekjutaps vegna varanlegrar örorku 925.400 krónum á slysdegi. Þykir ljóst af uppgjörinu, að síðari kosturinn hefur orðið fyrir valinu við uppgjörið, en hann var hagstæðari stefnanda, þar sem tekjur hennar síðustu þrjú árin fyrir slysið voru svo lágar, sem raun ber vitni. Til frádráttar ofangreindum 925.400 krónum komu bætur frá Tryggingastofnun ríkisins, að fjárhæð 305.649 krónur, en við bættust miskabætur. Við uppgjörið sýnist hafa samist svo um með aðilum, að tímabundið tekjutap væri ekkert. Stefnandi fékk greiddar 650.000 krónur í bætur. Samkvæmt framansögðu og að teknu hæfilegu tilliti til skattfrelsis bóta og hagræðis af eingreiðslu þeirra verður ekki fallist á með stefnanda, að uppgjörið hafi verið bersýnilega ósanngjarnt í skilningi 36. gr. laga nr. 7/1936 þannig að efni séu til að víkja því til hliðar.

         Með vísan til framanritaðs ber að sýkna stefndu af kröfum stefnanda í máli þessu, en eftir atvikum þykir mega ákveða, að málskostnaður falli niður.

         Dóminn kváðu upp Helgi I. Jónsson héraðsdómari, Ásgeir B. Ellertsson, sérfræðingur í heila- og taugasjúkdómum og Ríkarður Sigfússon, sérfræðingur í bæklunarlækningum.

Dómsorð:

         Stefndu, Jóhann Alexandersson og Vátryggingafélag Íslands hf., eru sýknir af kröfum stefnanda, Helgu Víglundsdóttur, í máli þessu.

         Málskostnaður fellur niður.