Hæstiréttur íslands

Mál nr. 294/2000


Lykilorð

  • Sjómaður
  • Ráðningarsamningur
  • Skiprúmssamningur


Fimmtudaginn 1

 

Fimmtudaginn 1. febrúar 2001.

Nr. 294/2000.

Úlfar Hauksson

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

gegn

Samherja hf.

(Benedikt Ólafsson hdl.)

                                                   

Sjómenn. Ráðningarsamningur. Skiprúmssamningur.

Ú var ráðinn til vélstjórastarfa hjá útgerðarfélaginu S í maí 1998. Þann 1. júní varð Ú fyrir slysi um borð í skipinu A og varð óvinnufær til 16. júlí það ár. Ú fékk greidd laun til 16. júlí en krafðist staðgengilslauna til 4. ágúst, en þann dag lauk veiðiferð þess skips sem hann hafði verið á þegar slysið varð. Ú hélt því fram að þar sem hann hefði verið ráðinn á skipið A ætti hann rétt til launa á meðan fjarvera skipsins hamlaði því að hann hæfi störf á því, sbr. 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. S hélt því hins vegar fram að Ú hefði verið ráðinn til starfa hjá útgerð þess en ekki á tiltekið skip. Talið var að gegn andmælum áfrýjanda hefði ekki verið leitt í ljós að við ráðningu Ú hefið verið samið um að hann gegndi afleysingastörfum á skipum útgerðarinnar almennt. S var talið þurfa að bera hallann af sönnunarskorti um inntak ráðningarsamningsins, enda hafði það ekki hlutast til um gerð skriflegs ráðningarsamnings svo sem skylt var samkvæmt 6. gr. sjómannalaga. Var því lagt til grundvallar að Ú hefði verið ráðinn í skipsrúm á skipinu A. Með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í dómasafni 1983, bls. 1707 var Ú hins vegar talinn hafa fyrirgert rétti til staðgengilslauna á umræddu tímabili með því að hafna starfi vélstjóra á öðru skipi S.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Árni Kolbeinsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. júlí 2000. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 406.994 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 15. september 1998 til greiðsludags og að viðurkenndur verði sjóveðréttur fyrir kröfu þessari í Akureyrinni EA 110, skipaskrárnúmer 1369. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Af gögnum málsins má ráða að áfrýjandi, sem er með réttindi vélstjóra, réði sig á árunum 1994, 1995 og 1996 til sumarstarfa á skip stefnda. Er af upplýsingum um lögskráningu áfrýjanda ljóst að hann var lögskráður á fleiri en eitt skip á hverju sumri þessi þrjú ár.

Í maímánuði 1998 var áfrýjandi enn ráðinn til vélstjórastarfa hjá stefnda. Var hann ráðinn símleiðis 21. maí skömmu áður en frystitogarinn Akureyrin fór í veiðiferð. Ekki var gerður skriflegur samningur um ráðningu hans. Bar áfrýjandi fyrir héraðsdómi að Kristján Vilhelmsson, sem annaðist ráðningu hans af hálfu stefnda, hafi sagt að hann gæti ekki fullyrt neitt um hvernig framhaldið yrði.

Áfrýjandi varð fyrir slysi um borð í skipinu 1. júní 1998. Hann var sendur um borð í annað skip, sem var á landleið, og kom það til hafnar 3. júní. Samkvæmt læknisvottorði var áfrýjandi talinn óvinnufær vegna meiðsla af völdum slyssins til 16. júlí 1998. Fékk áfrýjandi greidd staðgengilslaun frá slysdegi til þess dags. Akureyrin virðist hafa lokið veiðiferðinni 6. júní 1998. Næsta veiðiferð skipsins sýnist hafa staðið frá 11. júní til 2. júlí og sú þriðja frá 6. júlí til 4. ágúst.

Þegar leið að lokum þess tíma, sem áfrýjandi var óvinnufær samkvæmt framangreindu vottorði, virðist hafa komið til tals að hann sinnti störfum í vélsmiðju stefnda þar til Akureyrin kæmi til hafnar. Í héraðsdómsstefnu er því lýst að áfrýjanda hafi verið boðin vinna í smiðju stefnda 14. eða 15. júlí 1998 og þar til Akureyrin kæmi aftur til hafnar, en af því hafi ekki orðið vegna þess að forsvarsmenn stefnda töldu betra að hann tæki stöðu 2. vélstjóra á Víði EA 910. Samkvæmt gögnum málsins hélt það skip á veiðar 18. júlí. Þessu hafnaði áfrýjandi. Bar hann í héraðsdómi að hann hafi ekki treyst sér til að fara til sjós. Af héraðsdómsstefnu er ljóst að áfrýjandi leitaði á þessum tíma til stéttarfélags síns og fékk þær upplýsingar að hann ætti rétt á launum til loka yfirstandandi veiðiferðar Akureyrinnar og að honum væri óskylt að sinna störfum á öðrum skipum stefnda eða í landi á þessu tímabili. Kunngerði hann forsvarsmönnum stefnda þessa afstöðu.

II.

Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 skal skipverji sem verður óvinnufær vegna sjúkdóms eða meiðsla, er hann verður fyrir meðan á ráðningartíma stendur, einskis missa af launum sínum svo lengi sem hann er óvinnufær af framangreindum ástæðum, þó eigi lengur en tvo mánuði. Í máli þessu er deilt um hvort áfrýjandi eigi rétt til staðgengilslauna vegna tímabilsins 16. júlí til 4. ágúst 1998 á grundvelli þessa ákvæðis. Ákvæði þetta hefur verið þannig skýrt að skipverji skuli halda launum sínum, innan framangreindra tímamarka, þar til hann á þess kost og er reiðubúinn að sækja starf sitt á ný, þar á meðal á meðan fjarvera skips þess, sem hann er ráðinn á, veldur því að hann getur ekki hafið störf eftir að hann er orðinn vinnufær.

Í máli þessu er deilt um hvort áfrýjandi hafi verið ráðinn til vélstjórastarfa á Akureyrinni í veiðferð þeirri, sem skipið var í, þegar stefndi varð vinnufær á ný 16. júlí 1998, en sú veiðiferð stóð frá 6. júlí til 4. ágúst. Greinir aðila á um hvað falist hafi í ráðningu áfrýjanda í maímánuði 1998. Heldur áfrýjandi því fram að hann hafi verið ráðinn til vélstjórastarfa á Akureyrinni frá 21. maí til hausts, en þá hugði hann á framhaldsnám erlendis. Stefndi heldur því hins vegar fram að áfrýjandi hafi umrætt sumar verið ráðinn sem afleysingamaður hjá útgerð stefnda en ekki á tiltekið skip. Hafi ráðning hans í starf 2. vélstjóra á Akureyrinni verið bundin við eina veiðiferð. Vísar stefndi meðal annars til fyrri sumarafleysingastarfa áfrýjanda í þágu stefnda og óumdeildra ummæla starfsmanns stefnda við ráðningu áfrýjanda um að ekki væri hægt að fullyrða neitt um framhaldið.

Í sjómannalögum er út frá því gengið að sjómenn séu ráðnir í tiltekið skiprúm. Hefur sá, sem heldur því fram að ráðning sjómanns hafi verið miðuð við störf á ótilgreindum skipum útgerðar, sönnunarbyrði fyrir því. Gegn andmælum áfrýjanda er ekki í ljós leitt að við ráðningu hans í maí 1998 hafi verið samið um að hann gegndi afleysingastörfum á skipum útgerðarinnar almennt. Stefndi ber hallann af sönnunarskorti um ráðningarkjör, þar með talið ráðningartíma áfrýjanda, enda hlutaðist hann ekki til um gerð skriflegs ráðningarsamnings svo sem skylt er samkvæmt 6. gr. sjómannalaga. Verður því að leggja til grundvallar að áfrýjandi hafi verið ráðinn í skiprúm á Akureyrinni er hann varð vinnufær 16. júlí 1998.

Aðila greinir einnig á um hvort áfrýjandi hafi fyrirgert rétti sínum til launa á umræddu tímabili með því að hafna öðrum störfum í þágu stefnda. Eins og að framan er rakið kom til tals um miðjan júlí 1998 að áfrýjandi hæfi störf í smiðju stefnda. Með þeim gögnum, sem liggja fyrir um þetta, er ekki í ljós leitt að stefndi hafi boðið áfrýjanda starf í smiðjunni. Það er hins vegar óumdeilt að áfrýjanda var boðið starf 2. vélstjóra á skipi stefnda Víði 14. eða 15. júlí 1998, en hann hafði áður gegnt vélstjórastarfi á því skipi. Skipið hélt til veiða 18. júlí, eftir að áfrýjandi varð aftur vinnufær. Jafnframt liggur fyrir að hann hafnaði þessu starfi. Af héraðsdómsstefnu er ljóst að hann byggði þá synjun á því áliti lögfræðings stéttarfélags hans að honum væri almennt óskylt að sinna öðrum störfum í þágu stefnda á umræddu tímabili en um borð í Akureyrinni. Áfrýjandi reisti málatilbúnað sinn í héraði ekki á öðrum málsástæðum að þessu leyti. Fyrir Hæstarétti hefur stefndi mótmælt sem of seint fram komnum málsástæðum áfrýjanda um að skiprúm á Víði sé ekki sambærilegt skiprúmi á Akureyrinni. Verður að telja að með þessari synjun og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í dómasafni 1983, bls. 1707 hafi hann fyrirgert rétti til staðgengilslauna á tímabilinu, enda byggðist synjunin ekki á því mati að starf eða aðbúnaður um borð væri með þeim hætti að það gæfi áfrýjanda sérstakar forsendur til að hafna því. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur.

Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 25. apríl 2000.

Mál þetta, sem dómtekið var 28. f.m. hefur Friðrik Á. Hermannsson hdl. höfðað með stefnu útgefinni á Seltjarnarnesi 19. mars 1999, birtri 25. s.m. og þingfestri 8. apríl 1999 fyrir hönd Úlfars Haukssonar, kt. 090166-3019, Skarðshlíð 26 F, Akureyri, dveljandi að Slacthuslaan 12, 3000 Leuven, Belgíu, nema í Evrópskum stjórnsýslufræðum, á hendur Samherja h.f., kt. 610297-3079, Glerárgötu 30, Akureyri, til heimtu kaupkröfu, auk dráttarvaxta og málskostnaðar.

Lögmaður stefnanda er Friðrik Á. Hermannsson hdl. og lögmaður stefnda Benedikt Ólafsson hdl.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð kr. 406.994, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 frá 15.09.1998 til greiðsludags.  Krafist er sjóveðréttar fyrir framangreindum kröfum í b/v Akureyrinni EA-110, skipaskrárnúmer 1369, samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 197. gr. siglingarlaga nr. 34, 1985.  Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu að teknu tilliti til virðisaukaskatts að mati dómsins.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans að mati réttarins.

Stefnandi rekur málsatvik svo að þann 21. maí 1998 hafi hann verið ráðinn sem 2. vélstjóri á b/v Akureyrina EA-110, eign stefnda.  Hafi hann ráðið sig fram á haustið þetta sama ár, eða til ágústloka, enda hugðist hann þá hefja framhaldsnám erlendis, en 1. júní 1998 hafi hann fengið skurðarskífu í handarbakið er hann vann við að saga í sundur rör með slípirokki.   Sagarblaðið brotnaði og skarst inn í hönd hans.  Skipið hafi þá verið á veiðum á Reykjaneshrygg.  Meiðsli hans voru það mikil að hann var sendur um borð í nærstatt skip, b/v Þerney RE, sem var á heimleið.  Þann 3. júní hafi b/v Þerney komið til hafnar í Reykjavík og hafi hann þá þegar verið fluttur á Sjúkrahús Reykjavíkur. 

Samkvæmt læknisvottorðum hafi hann verið metinn óvinnufær frá 3. júní til 16. júlí 1998, sbr. dskj. nr. 3 og 4. 

B/v Akureyrin EA-110 kom til Reykjavíkurhafnar þann 6. júní og lét aftur úr höfn 11. s.m.  Veiðiferðin stóð yfir í u.þ.b. 3 vikur og hafi stefnandi fengið greidd staðgengilslaun í slysaforföllum sínum, samkvæmt 36. gr. sjómannalaga nr. 35, 1985 fyrir þá veiðiferð alla.  Næsta veiðiferð skipsins hófst 6. júlí og lauk 4. ágúst 1998.  Af þeirri veiðiferð var stefnandi samkvæmt læknisvottorðum óvinnufær í 19 daga, þ.e.a.s. frá 17. júlí til 4. ágúst að báðum dögum meðtöldum.  Stefndi greiddi stefnanda laun fram til 16. júlí, en ekki tímabilið 17. júlí til 4. ágúst, þar sem stefndi taldi stefnanda ekki uppfylla skilyrði 36. gr. sjómannalaga um laun í slysaforföllum, hann hafi verið vinnufær þetta tímabil. 

Stefndi hafi haft samband við stefnanda 14. eða 15. júlí þ.á. og boðið honum vinnu í smiðju sinni þar til b/v Akureyrin EA-110 kæmi aftur til hafnar.  Af því varð ekki þar sem forsvarsmenn stefnda töldu betra að hann tæki stöðu 2. vélstjóra á b/v Víði EA, sem einnig er togari í eigu stefnda.  Á þeirri stundu treysti stefnandi sér hins vegar ekki til að hefja vélstjórastörf að nýju sökum meiðsla sinna. 

Hafði hann þá samband við stéttarfélag sitt, Vélstjórafélag Íslands og kannaði réttarstöðu sína.  Var honum tjáð af lögfræðingi félagsins að hann ætti rétt til launa út yfirstandandi veiðiferð ef útgerðarmaðurinn kæmi honum ekki til sinna fyrri skipsstarfa.  Hann væri ráðinn á þetta tiltekna skip og þyrfti þ.a.l. hvorki að sinna störfum á öðrum skipum í eigu þessarar sömu útgerðar, né heldur að sinna störfum í þágu útgerðarinnar í landi á þessu tímabili. 

Þessa túlkun hafi stefnandi kynnt stefnda sem ekki hafi fallist á slík málalok.  Því hafi lögmaður stefnanda ritað stefnda bréf þann 28. júlí 1998, sbr. dskj. nr. 5 og 14. október s.á., sbr. dskj. nr. 6 þar sem þessi túlkun hafi verið ítrekuð.

Með bréfi dagsettu 15. október þ.á., sbr., dskj. nr. 7 var launakröfum stefnanda alfarið hafnað.  Af þessum sökum sé málsókn stefnanda nauðsynleg.

Málsástæður stefnanda.

Samkvæmt 6. gr. sjómannalaga beri útgerðarmanni að sjá um að gerður sé skriflegur ráðningarsamningur, skipsrúmsamningur, við skipverja.  Í samningnum skal m.a. greina þá ferð eða tímabil sem skipverjinn er ráðinn til, hvar ráðningu skuli slitið og uppsagnarfrest, sé um það samið. 

Við ráðningu stefnanda í skipsrúm á b/v Akureyrina EA-110 var umræddur skipsrúmsamningur ekki gerður, þrátt fyrir skýlausa lagaskyldu stefnda þess efnis.  Skilningur stefnanda við ráðningu hans við skipsrúmið var sá að hann væri ráðinn út ágústmánuð 1998, þ.e.a.s. til þess tíma er hann færi til framhaldsnáms í Belgíu.  Kristján Vilhelmsson, einn forsvarsmanna stefnda, réði stefnanda í skipsrúmið í maí 1998 og í samtali við stefnanda lét hann þau orð falla að hann gæti ekki fullyrt um lengd ráðningartímans, enda væru ráðningar á skip stefnda yfirleitt ekki í hans höndum.  Meðal annars vegna fyrri reynslu sinnar sem vélstjóri hjá stefnda taldi stefnandi ljóst að hann væri ráðinn á skipið út sumarið.  Þar sem hér virðist greina á verði að miða við skilning stefnanda á ráðningarsambandi hans við stefnda, sbr. 6. gr. sjómannalaga nr. 35, 1985 og grein 1.21. í kjarasamningi aðilja, en þar segir m.a. við ráðningu í skipsrúm, að þar skuli notað staðlað samningsform og að heimilt sé að ákveða ráðningartíma vélstjóra við ráðningu, enda sé það tekið fram þegar lögskráð er.  Enginn slíkur fyrirvari hafi verið gerður við lögskráningu stefnanda í skipsrúm sbr. dskj. nr. 11.  Þá ber einnig að líta til þess að hið stefnda félag taldi hann vera í ráðningarsambandi þegar hann öðlaðist vinnufærni sína á ný rétt eftir miðjan júlímánuð, enda var honum ýmist boðið að vinna í landi eða taka stöðu á öðru skipi í eigu stefnda, í stað vélstjórastöðu sinnar á b/v Akureyrinni EA-110.

Samkvæmt 36. gr. sjómannalaga nr. 35, 1985 skal skipverji sem verður óvinnufær vegna sjúkdóms eða meiðsla á meðan á ráðningartíma stendur eigi missa neins af launum sínum í hverju sem þau eru greidd svo lengi sem hann er óvinnufær af framangreindum ástæðum, þó ekki lengur en 2 mánuði.

Stefnandi slasaðist 1. júní 1998 og kom til Reykjavíkurhafnar 3. s.m.  Við útreikning tveggja mánaða staðgengilslaunareglunnar skuli miða við sem fyrsta dag daginn eftir að skipverji kemur til hafnar.  Því næst er miðað við sama dag í næsta almanaksmánuði.  Telst stefnandi því eiga rétt til launa í slysaforföllum sínum frá 4. júní til 4. ágúst 1998 að báðum dögum meðtöldum.  Nú þegar hafi honum verið greidd laun frá 4. júní til 16. júlí og vanti þá upp á að hann fái uppgert fyrir 17. júlí til 4. ágúst 1998 að báðum dögum meðtöldum.  Við útreikning staðgengilslauna skal miða við allar skattskyldar tekjur sem staðgengill hins slasaða hafði í forföllum, hér má t.a.m. nefna hlífðarfatapeninga og fæðispeninga. 

Samkvæmt 2. mgr. 27. gr. sjómannalaga taki skipverji kaup til þess dags og að honum meðtöldum er ráðningu hans lýkur samkvæmt ráðningar- eða kjarasamningi og skipti þá ekki máli þótt hann hafi áður verið afskráður. 

Teljist 36. gr. sjómannalaga ekki eiga við um launarétt stefnanda tímabilið 17. júlí til 4. ágúst 1998 verði launaréttur hans þó alltaf viðurkenndur á grundvelli áðurnefnds ákvæðis 27. gr. sjómannalaga.

Stefnandi var enn í ráðningarsambandi við stefnda umrætt tímabil, en komst ekki til að sinna fyrri starfa vegna fjarveru b/v Akureyrinnar EA-110.

Samkvæmt 32. gr. sjómannalaga skal skipverja látið mánaðarlega í té sundurliðað launauppgjör nema kjarasamningur mæli fyrir um skemmri uppgjörsfrest.

Í gr. 1.14. í kjarasamningi um kaup og kjör yfirvélstjóra, vélstjóra og vélavarða o.fl. á fiskiskipum milli Vinnuveitendasambands Íslands vegna aðildarfélaga LÍÚ annars vegar og Vélstjórafélags Íslands, Vélstjórafélags Suðurnesja og Vélstjórafélaga Vestmannaeyja hins vegar, sbr. dskj. nr. 8, sé kveðið á um að útgerðarmanni sé skylt innan 15 daga frá lokum hvers kauptryggingartímabils að láta vélstjórum í té reikningsuppgjör, þ.e. sundurliðaðan reikning fyrir fastakaupi og aflaverð með tilgreindu verði hverrar fisktegundar og þyngd svo og önnur hlunnindi og viðskipti.

Í 2. mgr. gr. 1.15. í sama samningi segi að útgerðarmaður skuli hafa lokið launauppgjöri og launagreiðslu til vélstjóra/vélavarða eigi síðar en 15 dögum eftir lok kauptryggingartímabils.

Stefnda bar samkvæmt þessu að greiða stefnanda laun fyrir júlí 1998 eigi síðar en 15. ágúst s.á. og fyrir ágúst eigi síðar en 15. september s.á. 

Dráttarvextir vegna uppsagnarlauna stefnanda miðast við síðara tímabilið, þ.e.a.s. 15. september.

Í launaseðli stefnanda dagsettum 7. september 1998, sbr. dskj. nr. 9, sem útgefinn var af stefnda, eru ekki gefin upp heildarlaun skipverja fyrir veiðiferðina sem stóð yfir frá 3. júlí til 4. ágúst 1998, einungis sé gert upp við stefnanda í hlutfalli við heildarafla skipsins á tímabilinu, þ.e. frá 3. júlí til 16. júlí 1998.  Af þeim sökum verði að áætla út frá þeim tölum hversu há laun stefnandi á rétt á fyrir veiðiferðina alla. 

Samkvæmt útreikningi starfsmanns Vélstjórafélags Íslands, sbr. dskj. nr. 10, er krafa stefnanda kr. 406.994, sem er mismunur á uppgerðum launum og óuppgerðum.  Fjárhæðin er fundin þannig út að aflahlutur stefnanda samkvæmt launaseðli sé kr. 263.564, en hafi átt að vera kr. 583.606, álag á aflahlut hafi verið kr. 26.356, en hafi átt að vera kr. 58.361, fastakaup hafi verið kr. 1.059, en hafi með réttu átt að vera kr. 2.484, engir fatapeningar voru greiddir en þeir hafi átt að nema kr. 2.333, fæðispeningagreiðslur hafi numið kr. 11.298 í stað kr. 25.017 og orlof hafi verið kr. 30.752 í stað kr. 68.322.  Samkvæmt launaseðli hefði stefnandi því einungis fengið greiddar kr. 333.129 fyrir umrædda veiðiferð, en rétt launauppgjör hefði átt að hljóða upp á kr. 740.123.  Mismunurinn er því kr. 406.994 sem er stefnukrafa málsins.  Telji stefndi útreikninga þessa ranga er skorað á hann að leggja fram rétta launaseðla vegna veiðiferðarinnar.

Lagarök. 

Stefnandi byggir kröfur sínar á 5., 6., 27., 28. og 36. gr. sjómannalaga nr. 35, 1985, kjarasamningi um kaup og kjör yfirvélastjóra, vélstjóra, vélavarða o.fl. á fiskiskipum milli Vinnuveitendasambands Íslands vegna aðildarfélaga LÍÚ annars vegar og Vélstjórafélags Íslands, Vélstjórafélags Suðurnesja og Vélstjórafélags Vestmannaeyja hins vegar, aðallega á greinum 1.14., 1.15., 1.16., 1.17., 1.18. og 1.21., en um dráttarvexti er vísað til III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987.

Lögveðkrafan byggist á ákvæði 1. tl. 1. mgr. 197. gr. og 201. gr. siglingalaga nr. 34, 1985.

Málskostnaðarkrafan er byggð á lögum nr. 91, 1991 og um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er vísað til laga um virðisaukaskatt.

Stefndi rekur málsástæður og önnur atvik svo, að mál þetta sé sprottið út af ágreiningi stefnanda og stefnda um það hvort stefnandi hafi verið fastráðinn vélstjóri í skipsrúm á b/v Akureyrinni EA-110 tiltekinn tíma þ.e.a.s. frá 21. maí 1998 til loka ágústmánaðar s.á. eða hvort stefnandi hafi aðeins verið ráðinn sem sumarafleysingamaður hjá stefnda ótímabundið og ekki í skipsrúm á tiltekið skip.

Málsástæður stefnda fyrir sýknukröfu sinni eru eftirfarandi:  Í fyrsta lagi hafi stefnandi ekki verið fastráðinn á b/v Akureyrina EA-110 frá 21. maí 1998 til ágústloka s.á.  Í öðru lagi hafi stefnandi þegar fengið greidd laun fyrir þann tíma sem hann var óvinnufær samkvæmt læknisvottorði og hafi einskis misst af launum sínum á því tímabili.  Í þriðja lagi hafi stefnanda verið boðin vinna við sambærileg störf eftir að hann varð vinnufær að nýju.

Varðandi fyrstu málsástæðuna að stefnandi hafi ekki verið fastráðinn þá segir að stefndi hafi ekki gert skriflega ráðningarsamninga við sjómenn er starfi hjá stefnda, þrátt fyrir fortakslaust ákvæði 6. gr. sjómannalaga.  Hafi þetta háttalag viðgengist átölulaust frá upphafi rekstrar félagsins árið 1972,  þetta sé ekki einsdæmi og hafi fleiri útgerðarfélög farið eins að.  Megi þar nefna Útgerðarfélag Akureyringa h.f., sem er eitt stærsta útgerðarfélag landsins, þar hafa heldur ekki verið gerðir skriflegir samningar við sjómenn samkvæmt 6. gr. sjómannlaganna til þessa.  Stefndi telur því hugsanlegt að líta svo á að lagaákvæði þetta sé niður fallið vegna desvetudo, þ.e.a.s. notkunarleysis. 

Stefnandi hafi haft samband við stefnda um miðjan maí 1998 og óskað eftir skipsplássi í afleysingum sem vélstjóri.  Stefnandi hafði nokkrum sinnum verið ráðinn sem vélstjóri í afleysingum á skipum stefnda, sbr. útskrift um lögskráningu sjómanna á dskj. nr. 19. 

Stefndi hafði samband við stefnanda með mjög skömmum fyrirvara og tilkynnti honum að hann kæmist næsta túr sem 2. vélstjóri á b/v Akureyrinni EA-110 sem léti úr höfn 21. maí 1998.

Stefnanda hafi verið ljóst að ekki var um áframhaldandi starf að ræða á þessu tiltekna skipi, enda honum fullkunnugt um það að 4 vélstjórar skipsins skiptast á þremur vélstjórastöðum á skipinu, þannig að 3 róa og 1 er í fríi.  Þegar fleiri vilja taka sér frí séu teknir menn til afleysinga.  Þessi háttur sé viðhafður á öllum skipum stefnda og tíðkist víða. 

Stefnandi sem hafði tekið þátt í afleysingum áður á skipum stefnda vissi fyllilega um þetta fyrirkomulag og er í því sambandi vísað til dskj. nr. 19, en þar komi fram að stefnandi réri sem vélstjóri hjá stefnda sumarið 1995 og var þá aldrei á sama skipinu.  Með vísan til þessa er sérlega mótmælt fullyrðingum í stefnu þar sem segi að skilningur stefnanda við ráðningu hans í skipsrúm hafi verið sá að hann væri ráðinn út ágústmánuð 1998 og síðar þar sem því sé haldið fram að m.a. vegna fyrri reynslu sinnar sem vélstjóri hjá stefnda hafi stefnandi talið ljóst að hann væri ráðinn á skipið út sumarið.

Varðandi aðra málsástæðuna, þá hafi stefnandi þegar fengið greidd laun fyrir þann tíma sem hann var óvinnufær samkvæmt læknisvottorðum og hefur einskis misst af launum sínum á því tímabili.  Hafi það verið fyrirtækjastefna stefnda frá upphafi að taka ekki slasaða sjómenn af launaskrá þann tíma sem þeir hafa verið óvinnufærir að mati lækna og hafi þeir óskað eftir að komast í skipsrúm aftur eða fá vinnu í landi þegar óvinnufærninni ljúki þá hafi slíkt verið reynt, þrátt fyrir að ekki hafi verið um fastráðningu að ræða.  Það sé því röng fullyrðing sem fram komi í stefnu, þar sem stefnandi haldi því fram að stefndi hafi talið stefnanda vera í ráðningarsambandi við útgerðina þegar hann öðlaðist vinnufærni á ný með því að bjóða honum vinnu í landi eða pláss á b/v Víði EA-910. 

Samkvæmt læknisvottorðum lauk óvinnufærni stefnanda hinn 16. júlí 1998.  Stefndi hafi greitt honum laun frá lögskráningardegi til þess dags eins og hann hefði verið í skipsrúmi á því skipi sem hann var lögskráður á þegar slysið varð.  Það sé eina raunhæfa viðmiðunin sem stefndi hafði en beri ekki að túlka þannig að stefndi viðurkenni með því að stefnandi hafi átt að gegna vélstjórastarfi á b/v Akureyrinni EA-110 þennan tíma. 

Þeirri staðhæfingu stefnanda er mótmælt sem fram komi í stefnu að samkvæmt læknisvottorðum hafi stefnandi verið óvinnufær eftir 16. júlí.  Engum vottorðum hafi verið framvísað við stefnda um slíkt.

Þriðja málsástæða stefnda er að stefnanda var boðin vinna við sambærileg störf eftir að hann varð vinnufær að nýju, en hann hafi verið talinn vinnufær að mati lækna þann 16. júlí 1998, var stefnda kunnugt um það.  Í ljósi áðurgreindrar starfsmannastefnu stefnda var stefnanda boðin vinna hvort heldur hann vildi í landi eða sem vélstjóri á b/v Víði EA-910, en stefnandi hafi afþakkað.  Sé þetta ágreiningslaust. 

Stefndi ítrekar að stefnanda hafi verið ljóst að hann var einvörðungu ráðinn til að leysa af fastráðna vélstjóra um sumarið ef og þegar á þyrfti að halda og á því skipi sem pláss losnaði á hverju sinni.  Sé þetta algerlega í samræmi við það sem almennt tíðkast og það fyrirkomulag sem verið hafði á vinnusamningum málsaðilja áður, en stefnandi hafi verið tímabundið í skipsrúmi hjá stefnda árin 1994, 1995, 1996 og 1998 og réri þá aldrei fleiri en eina veiðiferð á sama skipi, sbr. dskj. nr. 19. 

Stefndi bendir auk þess á að ekki hafi verið um að ræða neinar breytingar á starfsviði stefnanda við að starfa sem vélstjóri á b/v Víði EA-910 í stað b/v Akureyrinnar EA-110.  Haft hafi verið samband við stefnanda eftir að hann varð vinnufær og honum boðið að taka sama starf og hann hafði gengt fyrir slysið við sömu aðstæður á sams konar skipi í eigu sama aðilja, en hann neitað.

Þá er á það bent að þó að stefndi hefði viljað koma stefnanda í skipsrúm á b/v Akureyrinni EA-110 þann 16. júlí 1998 þá hafi það verið honum ómögulegt þar sem skipið var þá í veiðiferð.  B/v Víðir EA-910 hafi farið í veiðiferð þann 18. júlí 1998 og hafi stefnanda staðið þar skipsrúm til boða.  Stefndi hafi að fullu greitt stefnanda laun fyrir þann tíma sem hann var óvinnufær vegna slyssins.  Hafi stefnandi verið boðaður til vinnu þegar óvinnufærni hans lauk, en hann neitað.  Samkvæmt vinnurétti sé meginskylda starfsmanns vinnuskyldan, þ.e.a.s. að inna af hendi þau verk sem hann hefur skuldbundið sig til.  Vinnuskylda vinnuveitanda er að greiða starfsmanni umsamin laun fyrir umsamið starf.  Skuldbinding hvors aðilja falli niður við vanefndir hins.  Stefnandi hafi ekki mætt til vinnu þegar óskað var eftir og eigi hann þ.a.l. ekki rétt til launa.

Stefndi geri í sjálfu sér ekki athugasemdir við útreikning á stefnukröfu en bendir á að í gildi sé samningur milli stefnda og vélstjóra um að stefndi leggi þeim til hlífðarfatnað og láti hreinsa hann, en greiðsla vegna fatapeninga samkvæmt kjarasamningi falli niður.  Hafi stefnandi verið aðilji að þessum samningi. 

Til réttarheimilda vísar stefnda til meginreglna vinnuréttar og þeirrar grundvallarreglu sem gildandi er um starfskyldu launþega, sbr. Hrd. 1983 bls. 1707, til laga nr. 91, 1991 um málskostnað.

Stefnandi, Úlfar Hauksson, bar að hann hafi verið ráðinn símleiðis af Kristjáni Vilhelmssyni, hafi Kristján tjáð honum að hann gæti ekki fullyrt um hvernig framhaldið yrði, hafi hann verið ráðinn á b/v Akureyrina og er um borð kom hafi komið í ljós að það vantaði vélstjóra um sumarið.  Hafi hann gert ráð fyrir því að hann yrði um borð um sumarið eða fram á haust þar til hann færi til framhaldsnáms erlendis.  Eftir nokkra daga hafi hefði komið fram í samtali við yfirvélstjóra að stefnandi myndi ekki fara í aðra veiðiferð skipsins, en færi í þriðju veiðiferð.  Síðan hafi vélstjóri forfallast og hafi hann þá séð fram á að hann yrði á skipinu allt sumarið, en upphaflega hafi hann ætlað að taka sér frí í annarri veiðiferð.  Í sambandi við útgerðina í landi þá hafi það verið alveg klárt að hann færi í þriðju veiðiferð.  Þorsteinn Már Baldvinsson, framkvæmdastjóri stefnda, hafi boðið honum pláss á nótaskipi en þá hafi hann verið óvinnufær, 14. eða 15. júlí hafi hann boðið honum pláss á b/v Víði en þá  hafi hann ekki treyst sér til vinnu.  Hann kvaðst hafa talað við Jóhönnu á skrifstofu stefnda, alltaf hafi verið talað um að hann færi þriðju veiðiferðina á b/v Akureyrinni.  Jóhanna hafi sagt honum að stefndi greiddi eingöngu eftir vottorðum, stundum fái menn allan túrinn borgaðan ef þeir vinni í landi.  Aldrei hafi komið til að hann ynni í landi hjá stefnda. 

Varðandi fyrri störf hjá stefnda þá kvaðst hann hafa verið ráðinn á m/s Oddeyrina 1994 símleiðis um kvöld og farinn morguninn eftir og verið á henni einn túr.  Árið 1995 hafi hann farið einn túr á b/v Akureyrina, síðan á b/v Hjalteyrina tvo túra og þegar hann var að fara í þriðja túrinn hafi Þorsteinn Már Baldvinsson beðið hann að fara á b/v Víði sem var að fara til veiða utan landhelgi og vantaði réttindamann og hafi hann gengist inn á það í greiðaskyni.  Árið 1996 hafi hann verið ráðinn á b/v Hjalteyrina, síðan hafi hann farið yfir á b/v Akrabergið sem var undir færeysku flaggi og ætlað eina veiðiferð þar, þar sem skipið var á leið í leigu til Þýskalands eftir túrinn.  Í miðjum túr þá bjóði Þorsteinn Már Baldvinsson honum pláss á m/s Oddeyrinni út sumarið á loðnu en stefndi hafi verið að kaupa það skip.  Hafi hann búið sig undir að fara á það skip, tveir Færeyingar og tveir Þjóðverjar hafi átt að vera vélstjórar á b/v Akraberginu, en annar Færeyingurinn forfallast og Þorsteinn Már Baldvinsson beðið hann að fara annað túr á b/v Akraberginu og hafi hann gert það og síðan farið á m/s Oddeyrina að því loknu og verið á því skipi fram á haust.  Árið 1998 fari hann svo á b/v Akureyrina þessa örlagaríku veiðiferð og hefði ætlað að vera á því skipi til hausts.  Hafi Þorsteinn Már Baldvinsson alltaf séð um ráðningar nema Kristján Vilhelmsson í þetta skipti.  Kristján hafi sagst ekki geta sagt til um framhaldið, staðgengill komi inn fyrir hann í annarri veiðiferð og Jóhanna á skrifstofu stefnda geri ráð fyrir því að hann færi í þriðju veiðiferðina. 

Álit dómsins:

Þegar litið er yfir ráðningarsamband aðila þá hefur stefnandi verið ráðinn til vélstjórastarfa á ýmsum skipum stefnda, sbr. framburð stefnanda svo og dskj. 19 sem er útskrift af lögskráningu stefnanda árin 1994, 1995, 1996 og 1998.  Í ljósi þessa og gegn eindreginni neitun stefnda verður að teljast ósannað að stefnandi hafi verið fastráðinn á b/v Akureyrina EA-110 til ágústloka 1998.  Þó svo að stefndi hafi ekki gert skriflegan ráðningarsamning við stefnanda skv. 6. gr. sjómannalaga nr. 35, 1985, sbr. tl. 1.21. í áður tilvitnuðum kjarasamningi aðila, sem gilti frá 27. mars 1998, sbr. dskj. nr. 8, þá getur dómurinn alls ekki fallist á að tilvitnað ákvæði 6. gr. sé niður fallið vegna notkunarleysis eða desvetuto eins og lögmaður stefnda ýjar að og hefur lögmaður stefnanda nefnt ótalmörg dómafordæmi þessu til stuðnings.  Þó svo að stefndi hafi ekki tíðkað að gera skriflega skipsrúmsamninga er það ekki til fyrirmyndar og getur leitt til réttaróvissu og óþarfa deilna og misklíðar. 

Samkvæmt gögnum málsins, sbr. dskj. nr. 20 hóf b/v Víðir EA-910 veiðiferð 18. júlí 1998.  Stefnanda var af stefnda boðið skipsrúm í þeirri veiðiferð, sem hann ekki þáði.  Með þeirri neitun sinni hefur stefnandi firrt sig frekari rétti til launa hjá stefnda, sbr. dóm Hæstaréttar í dómasafni 1983, bls. 1707, en stefndi greiddi stefnanda sannanlega laun meðan hann var óvinufær til 16. júlí 1998, sbr. 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga, sem mælir svo fyrir að skipverji sem verður óvinnufær vegna sjúkdóms eða meiðsla sem hann verður fyrir meðan á ráðningartíma stendur, skuli eigi missa neins af launum sínum svo lengi sem hann er óvinnufær af framangreindum ástæðum, þó ekki lengur en 2 mánuði. 

Samkvæmt þessu verður að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda. 

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður, þ.e.a.s. að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu. 

Dóm þennan kvað upp Ásgeir Pétur Ásgeirsson héraðsdómari. 

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Samherji h.f., er sýknaður af öllum kröfum stefnanda, Úlfars Haukssonar.

Málskostnaður fellur niður.