Hæstiréttur íslands
Mál nr. 390/2012
Lykilorð
- Vátryggingarsamningur
- Ábyrgðartrygging
|
|
Fimmtudaginn 14. febrúar 2013. |
|
Nr. 390/2012.
|
Glitnir hf. (Ólafur Haraldsson hrl.) gegn Tryggingamiðstöðinni hf. (Viðar Lúðvíksson hrl.) |
Vátryggingarsamningur. Ábyrgðartrygging.
Málsaðilar deildu um hvort G hf. hefði við lok gildistíma ábyrgðartryggingar stjórnarmanna og yfirmanna 1. maí 2009 öðlast rétt til að kaupa viðbótar tilkynningarfrest eða hvort tryggingin hefði fallið niður með öllu. Eftir að samningur aðilanna gekk úr gildi tilkynnti G hf. T hf. um fjölmörg tjónstilvik, sem orðið hefðu á vátryggingartímanum. Talið var að samkvæmt orðalagi vátryggingarsamnings aðilanna gæti ekki reynt á rétt vátryggðs til kaupa á viðbótar tilkynningarfresti nema vátryggjandi hefði áður neitað að bjóða endurnýjun samningsins. Vísað var til þess að fjárhagsleg staða G hf. við lok gildistíma samningsins hefði vegna bankahruns verið gjörbreytt frá því sem var við gerð hans ári fyrr og að T hf. hefði átt rétt til að fá upplýsingar um hag G hf. í tilefni af ósk félagsins um endurnýjun tryggingarinnar. T hf. hefði margsinnis leitað eftir upplýsingum um stöðu G hf. sem félagið hefði ekki sinnt, án þess að gefa á því haldbæra skýringu hví það gat ekki veitt neinar upplýsingar. Vegna háttsemi G hf. var T hf. talið hafa verið gert ókleift að gera tilboð í endurnýjun samningsins. Loks var vísað til þess að ef G hf. taldi að T hf. hefði synjað um endurnýjun samningsins, án þess að því félagi væri það ljóst, hefði G hf. borið að upplýsa T hf. um þá afstöðu sína og bjóða fram greiðslu iðgjalds. Voru því ekki talin uppfyllt skilyrði þess að G hf. gæti krafist þess að fá að kaupa viðbótar tilkynningarfrest og var T hf. sýknað af kröfu G hf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. júní 2012. Hann krefst þess að viðurkennt verði að uppfyllt séu skilyrði greina A.3 og A.4 í III. kafla skilmála svonefndrar ábyrgðartryggingar stjórnarmanna og yfirmanna (e. Directors and Officers Liability Insurance), frumtryggingar nr. WB 103750X og aukatrygginga nr. WB 103751X og WB 103752X, með gildistíma frá 1. maí 2008 til 1. maí 2009, til kaupa á 36 mánaða viðbótar tilkynningarfresti. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Fjármálaeftirlitið neytti 7. október 2008 heimildar samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í Glitni banka hf., sem nú ber nafn áfrýjanda, víkja stjórn hans frá og setja yfir hann skilanefnd. Á grundvelli laga nr. 44/2009, sem einnig breyttu ákvæðum laga nr. 161/2002, var áfrýjandi tekinn til slita.
Áfrýjandi kveður upphaf ágreinings málsaðila það að til þess að afla sér heildstæðrar vátryggingarverndar hafi hann tekið fjórar vátryggingar af stefnda, sem allar hafi gilt fyrir tímabilið frá 1. maí 2008 til jafnlengdar 2009. Einn liðurinn í þessari samsettu vátryggingu hafi verið svonefnd ábyrgðartrygging stjórnarmanna og yfirmanna, sem samanstóð af frumtryggingu og tveimur viðbótartryggingum. Í samriti vátryggingarskírteina fyrir síðastnefndu trygginguna sé tekið fram að um hana gildi tilteknir erlendir skilmálar. Ágreiningur málsaðila er sprottinn af þessum þætti í samningum áfrýjanda um töku á vátryggingum hjá stefnda.
Í áðurnefndum skilmálum ábyrgðartryggingar stjórnarmanna og yfirmanna kemur fram í upphafi að vátryggingin gildi um kröfur sem gerðar eru á vátryggingartíma. Ennfremur segir að hún taki til tjóns sem verði vegna tiltekinna óréttmætra athafna stjórnenda, en tryggingin mun ná til tjónstilvika af völdum þessara starfsmanna áfrýjanda hvort heldur þau bitna á honum eða þriðja manni. Þriðji kafli skilmálanna fjallar um viðbót við vátryggingarvernd og ber A-hluti kaflans fyrirsögnina „tilkynningarfrestur.“ Hann hefur að geyma átta liði en fjórir þeirra skipta hér einkum máli. Þeir hljóða svo:
„A.1. 30 daga tilkynningarfrestur bætist sjálfkrafa við VÁTRYGGINGARTÍMA án viðbótariðgjalds ef vátryggingin er ekki endurnýjuð og FÉLAGIÐ og STJÓRNARMENN OG YFIRMENN nýta ekki réttinn til að kaupa tilkynningarfrest í samræmi við eftirfarandi ákvæði.
A.3. Ef vátryggjandi neitar að bjóða endurnýjun skilmála og skilyrða eftir að vátryggingin rennur úr gildi skal FÉLAGIÐ og STJÓRNARMENN OG YFIRMENN eiga rétt á að kaupa 12, 24 eða 36 mánaða tilkynningarfrest að eigin vali.
A.4. Það er skilyrði fyrir kaupum á tilkynningarfresti að skrifleg tilkynning um kaupin berist innan 30 daga frá lokum VÁTRYGGINGARTÍMA og skal þá greiða viðbótariðgjald eins og hér segir:
(i) 12 mánuðir: 25 prósent af árlegu iðgjaldi skv. vátryggingarsamningi þessum
(ii) 24 mánuðir: 50 prósent af árlegu iðgjaldi skv. vátryggingarsamningi þessum
(iii) 36 mánuðir: 75 prósent af árlegu iðgjaldi skv. vátryggingarsamningi þessum.
A.7. Þótt VÁTRYGGJANDI bjóði nýja skilmála, skilyrði, takmörkun ábyrgðar og/eða iðgjöld sem eru frábrugðin því sem kveðið er á um í þeirri vátryggingu sem er að renna út, þá jafngildir það ekki því að VÁTRYGGJANDI hafi neitað að bjóða endurnýjun skilmála.“
Áður er komið fram að vátryggingin rann út 1. maí 2009 og ekki var í samningi aðila kveðið á um sjálfkrafa framlengingu hans. Degi áður sendi áfrýjandi stefnda bréf þar sem óskað var eftir „framlengingarskilmálum frá tryggjendum til að framlengja ábyrgðartryggingu stjórnarmanna og yfirmanna næstu 12 mánuði hið minnsta. Ef endurtryggjendurnir geta ekki boðið upp á slíka endurnýjunarskilmála þá óskar bankinn eftir því að virkja 36 mánaða tilkynningarfrestinn samkvæmt skilmálum og skilyrðum tryggingarinnar.“ Með þessu upphófust bréfaskipti og símtöl milli aðila um þetta erindi áfrýjanda, sem stóðu allt til 8. júlí 2009 og eru nánar rakin í héraðsdómi. Af einstökum bréfum ber helst að nefna að 6. maí 2009 tjáði stefndi áfrýjanda að endurtryggjendur myndu hugsanlega gera tilboð í endurnýjun samnings, en áfrýjandi þyrfti að senda stefnda útfyllta og undirritaða umsókn á eyðublaði, sem fylgdi bréfinu, auk ársreiknings eða annarra upplýsinga um efnahag þess fyrrnefnda. Þann 8. sama mánaðar bauð stefndi fram aðstoð sína ef áfrýjandi hefði spurningar fram að færa um umsóknina eða önnur atriði. Aftur sendi stefndi bréf 12. sama mánaðar, þar sem sagði að fyrirvari væri gerður um það hvort tilboð um endurnýjun samnings yrði gert, en upplýsingar frá áfrýjanda myndu skera úr um það. Stefndi sendi næst bréf 21. maí 2009 og kvað engin gögn hafa enn borist frá áfrýjanda og spurði hvort unnið væri að því að safna saman umbeðnum upplýsingum. Áfrýjandi svaraði samdægurs og sagðist gera sitt besta „til þess að ná utan um þetta“. Þá óskaði hann eftir að áfrýjandi sendi honum afrit af síðustu umsókn áfrýjanda um samning, afrit af vátryggingarsamningnum og öllum tilkynningum sem sendar hafi verið stefnda eftir fall áfrýjanda í október 2008, en þetta myndi flýta fyrir. Stefndi sendi áfrýjanda umbeðin gögn degi síðar. Þann 25. sama mánaðar sendi stefndi fyrirspurn um hvort áfrýjandi hygðist leggja fram þær upplýsingar, sem óskað hafði verið eftir, eða í það minnsta upplýsingar sem unnt væri að veita á því stigi. Stefndi sendi áfrýjanda enn bréf 29. maí 2009 um að hann gæti hugsanlega fengið tilboð í endurnýjun vátryggingarinnar, en einungis gegn því að umbeðnar upplýsingar yrði veittar. Þann 5. júní 2009 áréttaði stefndi enn að hann þyrfti að fá gögn frá áfrýjanda og 9. sama mánaðar bauð hann fram aðstoð við gerð umsóknar. Þann 18. júní 2009 minnti stefndi á að hann hefði engin gögn fengið og spurði hvort málið væri enn í vinnslu. Degi síðar ítrekaði hann ósk sína um fjárhagslegar upplýsingar og fyrirspurn um hvort áfrýjandi hygðist senda umsókn. Ekki væri unnt að taka afstöðu til beiðni áfrýjanda um endurnýjun vátryggingarinnar eða framlengingu á tilkynningarfresti vegna óvissu og skorts á upplýsingum frá honum. Í bréfi stefnda 30. júní 2009 kom fram að honum væri kunnugt um að áfrýjandi hafi fengið tilboð frá erlendum vátryggingamiðlara í ábyrgðartryggingu fyrir stjórnendur. Áfrýjandi tilkynnti stefnda síðan 8. júlí 2009 að hann hafi ákveðið að taka hinu erlenda tilboði. Tími til að taka ákvörðun hefði verið skammur og „þar sem við höfðum ekki fengið svar frá fyrri vátryggjanda okkar var ákveðið að taka þessu tilboði.“ Stefndi svaraði samdægurs þar sem meðal annars var ítrekað að helsti endurtryggjandi hans hafi verið tilbúinn til að íhuga endurnýjun vátryggingarinnar að því gefnu að áfrýjandi sendi umsókn um hana og veitti upplýsingar um vátryggingaráhættu og fjárhag sinn.
Áfrýjandi sendi stefnda nokkrar tilkynningar á árinu 2010 um tjón, sem hann taldi falla undir skilmála áðurnefndrar vátryggingar hjá honum. Þá sendi lögmaður áfrýjanda stefnda bréf 12. nóvember 2010 þar sem kom fram að áfrýjandi teldi sig í fullum rétti til að tilkynna vátryggingaratburði sem orðið hefðu á gildistíma tryggingarinnar. Þess var krafist að stefndi staðfesti rétt áfrýjanda til kaupa á viðbótar tilkynningarfresti á grundvelli skilmála hinnar útrunnu vátryggingar. Var jafnframt boðin fram greiðsla iðgjalds og óskað upplýsinga um fjárhæð þess og greiðslustað. Þessu var svarað með bréfi lögmanns stefnda 30. desember 2010 þar sem hafnað var allri ábyrgð samkvæmt tryggingunni þar sem hún væri niður fallin.
II
Vátryggingin, sem um ræðir í málinu, er svokölluð kröfugerðartrygging, en í því felst að tilkynna verður um tjónsatvik á meðan vátryggingin er enn í gildi, en eftir það tímamark innan tilkynningarfrests samkvæmt skilmálum hennar. Samkvæmt ákvæði A.1 í III. kafla skilmálanna njóta þær kröfur einar vátryggingarverndar sem tilkynntar eru á gildistímanum eða innan 30 daga frá því tryggingin féll úr gildi. Ákvæði A.3 og A.4 í sama kafla fjalla síðan um endurnýjun tryggingar eða kaup á viðbótar tilkynningarfresti. Samkvæmt fyrrnefnda ákvæðinu á vátryggður rétt á að kaupa 12, 24 eða 36 mánaða tilkynningarfrest að eigin vali hafi vátryggjandi neitað að bjóða endurnýjun samnings eftir að vátrygging rann úr gildi. Síðarnefnda ákvæðið hefur að geyma frekari skilyrði fyrir framlengdum fresti, en þau eru að skrifleg tilkynning um kaup hafi borist innan 30 daga og að iðgjald sé greitt. Ágreiningur aðilanna snýst einkum um það hvort stefndi hafi neitað að bjóða áfrýjanda að endurnýja vátrygginguna og um leið hvort sá síðarnefndi eigi rétt til að kaupa lengri tilkynningarfrest á tjónsatvikum samkvæmt skilmálum hinnar útrunnu vátryggingar eins og krafa hans í málinu lýtur að. Af hálfu áfrýjanda er fram komið að hann hafi eftir að vátryggingin gekk úr gildi tilkynnt stefnda um fjölmörg tjónstilvik, sem orðið hafi á vátryggingartímanum, á þeim grundvelli að skilyrði fyrir framlengdum fresti séu uppfyllt.
Áfrýjandi telur að skýra verði orðin „ef vátryggjandi neitar að bjóða endurnýjun skilmála ...“ í ákvæði A.3 skilmálanna svo að stefnda hafi verið skylt að taka afstöðu til fram kominnar beiðni 30. apríl 2009 um endurnýjun vátryggingarinnar innan þeirra tímamarka sem greinir í ákvæði A.4. Að öðrum kosti hefði stefndi haft í hendi sér að láta hjá líða að taka afstöðu til beiðninnar þar til frestur áfrýjanda til að kaupa aukinn tilkynningarfrest rann út. Með því yrði réttur áfrýjanda samkvæmt ákvæði A.4 í raun gerður að engu, en það sé í andstöðu við almenn sjónarmið um skýringu samningsákvæða, gagnkvæma tillitsskyldu og sanngirnissjónarmið. Stefndi geti þannig ekki hamlað framgangi þessara samningsákvæða með því að tefja að vild að taka afstöðu til beiðni um endurnýjun tryggingar, eins og hann hafi í raun gert. Það hafi fyrst verið með áðurnefndu bréfi 30. desember 2010 sem stefndi hafi með beinum hætti svarað beiðni áfrýjanda um kaup á lengri fresti. Á því sé byggt að tregða stefnda á því að gefa upp afstöðu til beiðninnar feli í sér neitun í skilningi ákvæðis A.3 skilmálanna og réttur áfrýjanda til að kaupa lengri frest sé þar með fyrir hendi. Þá mótmælir áfrýjandi að stefnda hafi ekki verið unnt að taka afstöðu til beiðninnar þar eð áfrýjandi hafi ekki útfyllt og sent inn umsókn eða afhent sérstök gögn um fjárhag sinn. Meðan viðræður stóðu yfir vorið 2009 hafi stefnda verið greint frá því að áfrýjanda væri ókleift að senda þær upplýsingar sem stefndi óskaði eftir. Hvorki hafi verið gerður ársreikningur áfrýjanda fyrir árið 2008 né reikningur fyrir 3. og 4. hluta þess árs. Þannig hafi umbeðnar fjárhagsupplýsingar ekki legið fyrir og ekki hafi heldur verið unnt að svara tilteknum liðum á umsóknareyðublaði með neinni vissu, enda miklar breytingar orðið á stöðu áfrýjanda og málefni hans háð mikilli óvissu. Líta verði svo á að stefndi hafi búið yfir sömu upplýsingum um fjárhag áfrýjanda og hann sjálfur en með því er vísað til þess ársreiknings, sem síðast var gerður fyrir hann. Því hafi ekki verið um neinn skort á upplýsingum að ræða. Áðurnefnd samskipti aðila telur áfrýjandi bera með sér að stefndi hafi hvorki ætlað sér að endurnýja trygginguna né gera áfrýjanda kleift að nýta rétt sinn til að kaupa lengri tilkynningarfrest.
Stefndi kveðst vorið 2009 hafa ítrekað óskað eftir útfylltri umsókn og fjárhagsupplýsingum frá áfrýjanda svo unnt væri að meta beiðni hans um endurnýjun tryggingarinnar. Þessar upplýsingar hafi verið honum nauðsynlegar til að geta metið þá áhættu, sem samningsgerð fylgdi, en miklar breytingar hafi orðið á fjárhagsstöðu áfrýjanda á þeim tíma meðan tryggingin var enn í gildi. Áfrýjandi hafi svarað því til að hann væri að vinna í málinu, en þegar upp var staðið hafi engar umbeðnar upplýsingar verið veittar. Engar skýringar hafi heldur verið gefnar á þessu athafnaleysi. Þá mótmælir stefndi skýringum fyrirsvarsmanns áfrýjanda fyrir dómi þess efnis að hann hafi á þessum tíma greint stefnda frá því að „algjörlega ómögulegt“ væri fyrir áfrýjanda að veita umbeðnar upplýsingar eða að þær væru ekki tiltækar og að stefndi yrði þar með að taka ákvörðun um endurnýjun samnings í slíkri stöðu. Þessi framganga áfrýjanda hafi í reynd gert stefnda ókleift með öllu, uns úr hefði verið bætt, að taka ákvörðun um hvort og þá með hvaða kjörum hann væri tilbúinn að bjóða áfrýjanda að endurnýja trygginguna. Þá hafi sú háttsemi áfrýjanda að tilkynna stefnda ítrekað að hann ynni að öflun umbeðinna gagna, en afhenda síðan engar upplýsingar eða gögn, falið í sér gróft brot á tillitsskyldu áfrýjanda við stefnda. Málatilbúnaður áfrýjanda þess efnis að stefndi hafi tafið málið fari gegn því sem gerðist í raun í samskiptum þeirra. Loks sé því mótmælt að áfrýjanda hafi ekki verið unnt að veita neinar upplýsingar, svo sem nú sé haldið fram. Það hafi hann örugglega getað gert, svo sem með því að kanna bókhald sitt eða vísa á endurskoðendur sína um upplýsingar. Framganga áfrýjanda vorið 2009 verði ekki skilin á annan veg en þann að hann hafi í raun ekki haft áhuga á því að endurnýja trygginguna, heldur hafi vakað fyrir honum að fá framlengdan tilkynningarfrest á tjónstilvikum og hann talið sig ná fram þeim rétti með þessu. Stefndi hafi á hinn bóginn talið skárri kost felast í því fyrir sig að endurnýja trygginguna heldur en að áfrýjandi fengi framlengdan tilkynningarfrest. Þessari viðleitni stefnda hafi hins vegar lokið 8. júlí 2009 þegar áfrýjandi tilkynnti að hann hafi samið við annan um kaup á ábyrgðartryggingu stjórnenda.
III
Við lok gildistíma vátryggingarsamningsins 1. maí 2009 var fjárhagsleg staða áfrýjanda gjörbreytt frá því sem verið hafði við gerð hans ári fyrr vegna bankahruns í byrjun október 2008. Vegna beiðni um endurnýjun tryggingarinnar átti stefndi rétt á að fá upplýsingar um hag áfrýjanda svo unnt væri að leggja mat á það sem þurfti, svo sem áhættu sem slíkri endurnýjun fylgdi og fjárhæð iðgjalds. Er haldlaus sú viðbára áfrýjanda að til þess hafi stefnda dugað gögn, sem birt höfðu verið fyrir bankahrunið, svo sem ársreikningur áfrýjanda. Um þetta verður jafnframt að gæta að ákvæði A.7 í III. kafla skilmálanna, en samkvæmt því var vátryggjanda heimilt að bjóða nýja skilmála, skilyrði, takmörkun ábyrgðar og iðgjöld, sem væru frábrugðin því sem kveðið var á um í hinni útrunnu vátryggingu án þess að það jafngilti því að vátryggjandi hafi neitað að bjóða endurnýjun skilmálanna.
Í kafla I að framan er rakið að stefndi leitaði margsinnis eftir upplýsingum frá áfrýjanda, auk þess sem útfyllt yrði umsóknareyðublað eins og áfrýjandi hafði gert ári fyrr. Hann bauðst jafnframt til að aðstoða áfrýjanda við gerð umsóknar eða önnur atriði. Þegar á leið óskaði stefndi eftir því að áfrýjandi sendi í það minnsta upplýsingar sem unnt væri að veita á því stigi. Þrátt fyrir þetta bárust engin gögn eða upplýsingar frá áfrýjanda, jafnvel þótt hann hafi lýst yfir í maí og júní 2009 að unnið væri að því að afla þeirra. Áfrýjandi hefur enga haldbæra skýringu gefið á því hvers vegna hann taldi sig ekki geta gefið neinar upplýsingar um stöðu sína, svo sem úr bókhaldi, eða útfyllt umsóknareyðublað með fyrirvara um atriði sem hann teldi óvissu háð. Samkvæmt þessu verður ekki fallist á með áfrýjanda að stefndi hafi leitast við að þæfa málið. Gögn málsins benda þvert á móti skýrlega til þess að rekja megi til háttsemi áfrýjanda sjálfs að stefnda var gert ókleift að gera tilboð í endurnýjun fyrri vátryggingarsamnings. Þannig stóðu enn sakir þegar áfrýjandi tilkynnti stefnda 8. júlí 2009 að hann hefði tekið ábyrgðartryggingu fyrir stjórnendur hjá öðrum og samningsumleitunum málsaðila var hætt. Stefndi hafði ekki neitað að endurnýja trygginguna og getur engu breytt þótt áfrýjandi hafi nú í málatilbúnaði sínum borið við að hin nýja ábyrgðartrygging sé ekki sams konar eða framhald þeirrar, sem hann tók áður hjá stefnda. Orðalag ákvæðis A.3 í III. kafla skilmálanna er ótvírætt um að ekki getur reynt á rétt vátryggðs til að kaupa viðbótar tilkynningarfrest nema vátryggjandi hafi áður neitað að bjóða endurnýjun fyrri samnings. Loks verður ekki litið framhjá því að hafi áfrýjandi talið 8. júlí 2009, án þess að stefnda væri það ljóst, að sá síðarnefndi hafi neitað að endurnýja trygginguna og áfrýjandi ætti þar með rétt á framlengdum fresti, bar honum að gera stefnda kunna þá afstöðu sína og bjóða fram greiðslu iðgjalds. Skilyrði voru samkvæmt öllu framanröktu ekki uppfyllt til að áfrýjandi gæti krafist þess að fá að kaupa viðbótar tilkynningarfrest. Samkvæmt því og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Glitnir hf., greiði stefnda, Tryggingamiðstöðinni hf., 1.500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. mars 2012.
I
Mál þetta, sem var dómtekið 9. febrúar sl., er höfðað af Glitni banka hf., (nú Glitni hf.), Sóltúni 26, Reykjavík, á hendur Tryggingamiðstöðinni hf., Síðumúla 24, Reykjavík, með stefnu birtri 6. maí 2011.
Stefnukröfur stefnanda eru aðallega þær að viðurkennt verði að stefnda sé skylt að selja honum 36 mánaða tilkynningafrest í samræmi við greinar A3 og A4 í kafla 3 í vátryggingarskilmálum tryggingar stefnanda, sem ber heitið Directors and Officers Liability Insurance (frumtrygging nr. WB 103750X og aukatryggingar nr. WB 103751X og WB 103752X), með gildistíma frá 1. maí 2008 til 1. maí 2009, gegn greiðslu á iðgjaldi í samræmi við grein A4 í kafla 3 í vátryggingarskilmálunum. Til vara gerir stefnandi þá kröfu að viðurkennt verði að stefnda sé skylt að selja stefnanda allt að 72 mánaða tilkynningafrest í samræmi við grein A8 í kafla 3 í vátryggingarskilmálum tryggingar stefnanda, sem ber heitið Directors and Officers Liability Insurance (frumtrygging nr. WB 103750X og aukatryggingar nr. WB 103751X og WB 103752X), með gildistíma frá 1. maí 2008 til 1. maí 2009, gegn greiðslu á iðgjaldi í samræmi við grein A8 í kafla 3 í vátryggingarskilmálunum. Þá krefst stefnandi þess að honum verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnda.
Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að honum verði dæmdur málskostnaður.
Stefnandi keypti svokallaða stjórnendatryggingu (enska: Directors & Officers Liability Insurance) af stefnda árið 2008. Gildistími tryggingarinnar var frá 1. maí 2008 til 1. maí 2009. Samkvæmt grein A.1 í kafla 3 vátryggingasamningsins er vátryggingartaka sjálfkrafa veittur 30 daga tilkynningafrestur án viðbótarkostnaðar sé vátryggingin ekki endurnýjuð. Þá á vátryggður, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, rétt á að kaupa viðbótartilkynningafrest í samræmi við skilmála tryggingarinnar. Umrædd trygging var ekki endurnýjuð. Hefur stefndi neitað að selja stefnanda viðbótartilkynningafrest. Byggir hann sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi gróflega brotið gegn upplýsingaskyldu við töku tryggingarinnar, auk þess sem hann hafi ekki sýnt fram á að skilyrði slíkrar skyldu séu uppfyllt.
Að ósk stefnda tók dómurinn þá ákvörðun, hinn 6. janúar sl., samkvæmt heimild í 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að skipta sakarefni málsins þannig að fyrst yrði dæmt um þann ágreining málsaðila hvort skilyrði sem sett eru í greinum III.A.3 og III.A.4 í skilmálum hinnar umdeildu stjórnendatryggingar séu uppfyllt. Kemur því ekki til skoðunar í þessum þætti málsins hvort brotið hafi verið gegn upplýsingaskyldu við töku tryggingarinnar.
Í þessum þætti málsins krefst stefnandi þess aðallega að viðurkennt verði að skilyrði greina A.3 og A.4 í III. kafla vátryggingarskilmála stefnanda sem ber heitið Directors and Officers Liability Insurance (frumtrygging nr. WB 103750X og aukatryggingar nr. WB 103751X og WB 103752X), með gildistíma frá 1. maí 2008 til 1. maí 2009, til kaupa á 36 mánaða viðbótartilkynningafresti, séu uppfyllt. Til vara krefst hann þess, að viðurkennt verði að skilyrði greinar A.2 í III. kafla vátryggingarskilmála stefnanda, sem ber heitið Directors and Officers Liability Insurance (frumtrygging nr. WB 103750X og aukatryggingar nr. WB 103751X og WB 103752X), með gildistíma frá 1. maí 2008 til 1. maí 2009, til kaupa á 12 mánaða viðbótarfresti séu uppfyllt.
Stefndi krefst, í þessum þætti málsins, sýknu af aðalkröfu stefnanda. Þá krefst stefndi þess að varakröfu stefnanda verði vísað frá dómi ellegar að hann verði sýknaður af henni. Enn fremur krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnanda.
II
Málavextir
Málsatvik eru nánar tiltekið þau að stefnandi keypti árið 2008 svokallaða stjórnendatryggingu (e: Directors & Officers Liability Insurance) af stefnda. Gildistími tryggingarinnar var frá 1. maí 2008 til 1. maí 2009. Fram kemur í vátryggingarskírteinum að tryggingin nái til stefnanda, svo og dótturfélaga sem séu að minnsta kosti í helmings eigu stefnanda við upphaf tryggingarinnar eða sem stofnuð séu eftir að tryggingin tekur gildi. Samkvæmt kafla 1 í vátryggingarskilmálum tók stefndi meðal annars að sér að greiða, fyrir hönd stjórnarmanna og yfirmanna, tjón vegna óréttmætra athafna þeirra í skilningi tryggingarinnar, hvort sem er gagnvart þriðja manni eða bankanum sjálfum, svo og að greiða fyrir hönd stefnanda tjón vegna óréttmætra athafna ef bankanum væri heimilt eða skylt að halda stjórnarmönnum eða yfirmönnum skaðlausum. Var tryggingin á því byggð að eingöngu kröfur sem væru tilkynntar, í samræmi við kafla 6 í vátryggingarskilmálum, innan 30 daga frá því að tryggingin rynni úr gildi nytu vátryggingarverndar. Þannig nýtur krafa ekki verndar þó að vátryggingaratburður hafi átt sér stað á vátryggingartíma ef tilkynning berst ekki. Hins vegar væri mögulegt að kaupa viðbótartilkynningafrest í samræmi við kafla 3 í vátryggingarskilmálum og hefur vátryggingartaki þá lengri tilkynningafrest.
Þessi þáttur málsins varðar ákvæði III.A.3, III.A.4 (aðalkrafa) og III.A.2 (varakrafa) vátryggingarskilmálanna sem eru svohljóðandi í íslenskri þýðingu.
Ákvæði III.A.3: Ef vátryggjandi neitar að bjóða endurnýjun skilmála og skilyrða eftir að vátryggingin rennur úr gildi skal FÉLAGIÐ og STJÓRNARMENN OG YFIRMENN eiga rétt á að kaupa 12, 24 eða 36 mánaða tilkynningarfrest að eigin vali.
Ákvæði III.A.4: Það er skilyrði fyrir kaupum á tilkynningarfresti að skrifleg tilkynning um kaupin berist innan 30 daga frá lokum VÁTRYGGINGARTÍMA og skal þá greiða viðbótariðgjald eins og hér segir:
(i) 12 mánuðir: 25 prósent af árlegu iðgjaldi skv. vátryggingarsamningi þessum
(ii) 24 mánuðir: 50 prósent af árlegu iðgjaldi skv. vátryggingarsamningi þessum
(iii) 36 mánuðir: 75 prósent af árlegu iðgjaldi skv. vátryggingarsamningi þessum
Ákvæði III.A.2: EF FÉLAGIÐ og STJÓRNARMENN neita boði um að endurnýja vátrygginguna skulu þeir eiga rétt á að kaupa 12 mánaða tilkynningarfrest eftir að VÁTRYGGINGATÍMA lýkur.
Stefnandi segir að kaup hans á Directors & Officers vátryggingunni hafi verið liður í kaupum á heildstæðri vátryggingarvernd af stefnda. Stefnandi hafi jafnframt keypt þrjár aðrar vátryggingar sem höfðu sama gildistíma, þ.e. svokallaða Bankers Blanket Bond tryggingu, Computer Crime tryggingu og Professional Indemnity tryggingu sem saman hafi myndað samsetta bankavátryggingu. Þann 6. maí 2008 hafi vátryggingamiðlunin Howden Insurance Brokers Ltd. sem séð hafði um samskipti stefnda við endurtryggjendur, gefið út yfirlýsingu um hvers eðlis sú vátryggingarvernd sem stefnandi naut væri.
Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, þann 7. október 2008, nýtti eftirlitið sér heimild laga nr. 125/2008 um sérstakar aðstæður á fjármálamarkaði til að skipa stefnanda skilanefnd. Skilanefndin tók við öllum heimildum stjórnar bankans samkvæmt ákvæðum laga nr. 2/1995 um hlutafélög og var falið að fara með öll málefni bankans, þar á meðal að hafa umsjón með allri meðferð eigna bankans, svo og að annast annan rekstur hans. Þann 15. sama mánaðar tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun um að flytja hluta af starfsemi stefnanda til nýs banka sem var í kjölfarið stofnaður með heitið Nýi Glitnir banki hf. Í ákvörðuninni fólst meðal annars að nýi bankinn tók yfir allar innstæðuskuldbindingar í bankanum á Íslandi og hluta þeirra eigna sem tengst höfðu starfsemi stefnanda hér á landi. Þann 24. nóvember 2008 veitti Héraðsdómur Reykjavíkur stefnanda heimild til greiðslustöðvunar í samræmi við beiðni skilanefndar bankans. Var sú heimild framlengd þrisvar. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 44/2009 um breytingu á lögum nr. 161/2002 skipaði dómurinn bankanum slitastjórn þann 12. maí 2009.
Fyrir liggur að stefnandi hefur sent stefnda tilkynningar vegna tjónsatburða sem hann telur að fallið gætu undir vátryggingavernd tryggingarinnar, þá fyrstu þann 30. október 2008.
Með bréfi, dags. 19. mars 2009, sendi stefndi stefnanda bréf þar sem m.a. kemur fram sú afstaða stefnda að óljóst væri hvaða áhrif atburðarás sú sem hafi hafist í október 2008 hefði á gildi Directors & Officers vátrygginguna.
Þann 30. apríl 2009 sendi Páll Eiríksson hdl., f.h. stefnanda, bréf til stefnda sem er svohljóðandi í íslenskri þýðingu: Glitni Banka hefur verið talið trú um að vafi leiki á um ábyrgðartryggingu stjórnarmanna og yfirmann af endurtryggjendum vegna skiptameðferðar bankans. Glitnir Banki telur að ábyrgðartrygging stjórnarmanna og yfirmanna sé enn í gildi þar sem engin af skilyrðum undir Samruna/yfirtöku ákvæðisins séu orðin virk, gjaldþrotaskipti eru ekki hafin og slíkar aðgerðir ólíklegar í náinni framtíð. Þar af leiðandi óskar bankinn eftir framlengingarskilmálum frá vátryggjendum til að framlengja ábyrgðartryggingu stjórnarmanna og yfirmanna næstu 12 mánuði hið minnsta. Ef endurtryggjendur geta ekki boðið upp á slíka endurnýjunarskilmála þá óskar bankinn eftir því að virkja 36 mánaða tilkynningafrestinn samkvæmt skilmálum og skilyrðum tryggingarinnar. Bankinn áskilur sér allan rétt varðandi ofangreint.
Þóroddur Sigfússon, starfsmaður stefnda, staðfesti móttöku bréfsins með tölvupósti samdægurs. Í kjölfar þessa voru samskipti milli starfsmanna stefnanda og starfsmanns stefnda varðandi trygginguna. M.a. sendi Þóroddur stefnanda tölvubréf, 6. maí 2009, þar sem fram kemur að hann hefði haft samband við starfsmann Howden Insurance Brokers tryggingamiðlunina sem fengið hefði fyrstu viðbrögð endurtryggjenda við beiðni stefnanda um endurnýjun tryggingarinnar. Síðan segir svo: Til þess að endurtryggjendur vilji yfir höfuð gera Glitni tilboð í endurnýjun á ábyrgðartryggingu stjórnenda þá þurfa að hans mati eftirfarandi upplýsingar að liggja fyrir: i) útfyllt og undirrituð umsókn (viðhengi. ii) ársreikingur eða aðrar upplýsingar um efnahag Glitnis (á ensku). Að lokum vil ég taka það fram að gildistími vátryggingarinnar er liðinn eins og ykkur er væntanlega kunnugt um. Ég mæli með því að þið bregðist við eins fljótt og ykkur er unnt.
Þóroddur sendi stefnanda nokkra tölvupósta í maí og júní 2009 þar sem m.a. kom fram að hann væri að bíða eftir gögnum frá stefnanda. Með tölvupósti stefnanda til stefnda 8. júlí sama ár upplýst stefnandi að hann hefði tekið tilboði í umrædda tryggingu frá United Insurance Brokers.
Þann 9. ágúst 2010 sendi LEX lögmannsstofa bréf til stefnda þar sem hann var upplýstur um að LEX hefði verið falið að fara yfir réttarstöðu stefnanda að lögum á grundvelli þeirra vátrygginga sem stefnandi hafði keypt af stefnda. Með bréfi stefnanda, dags. 12. nóvember 2010, var formlega boðin fram greiðsla iðgjalds vegna kaupa á viðbótartilkynningafresti. Var í bréfinu bent á fram komna beiðni stefnanda um kaup á tilkynningafresti og vilja bankans til að greiða iðgjald í samræmi við vátryggingarskilmála. Í samræmi við það var óskað upplýsinga um fjárhæð iðgjaldsins og greiðslustað. Stefnandi kveður stefnda ekki enn hafa brugðist við þessari beiðni. Með bréfi stefnanda, dags. 30. desember 2010, hafnaði stefndi því að veita staðfestingu á viðbótartilkynningafresti.
Skýrslu fyrir dóminum gáfu Páll Eiríksson og Þóroddur Sigfússon.
III
Málsástæður stefnanda
Aðalkrafa stefnanda er á því byggð að stefnda hafi borið að selja stefnanda 36 mánaða viðbótartilkynningafrest, í samræmi við beiðni stefnanda þar að lútandi, gegn greiðslu iðgjalds í samræmi við vátryggingarskilmálana. Stefnandi hafi með bréfi til stefnda, dags. 30. apríl 2009, óskað eftir endurnýjun á tryggingunni. Jafnframt hafi verið tekið fram að ef ekki yrði fallist á endurnýjun tryggingarinnar krefðist hann þess að fá keyptan 36 mánaða viðbótartilkynningafrest í samræmi við ákvæði vátryggingarskilmálanna, sbr. ákvæði A3 og A4 í kafla 3. Samkvæmt orðalagi ákvæðis sé það skýlaus réttur vátryggðs, að geta keypt eftir atvikum 12, 24 eða 36 mánaða viðbótartilkynningafrest í þeim tilvikum þegar vátryggjandi neiti að bjóða endurnýjun vátryggingar eftir að hún renni úr gildi. Jafnframt komi fram í ákvæði A4 hver skilyrði fyrir kaupum á viðbótartilkynningafresti séu, en samkvæmt ákvæðinu þurfi skrifleg tilkynning um kaupin að berast innan 30 daga frá lokum vátryggingartíma og greiðsla þurfi að hafa verið innt af hendi samkvæmt liðum (i)-(iii) sömu greinar. Það hafi verið ljóst af bréfi Páls Eiríkssonar hdl. frá 30. apríl 2009 að stefnandi ætlaði sér að nýta rétt sinn til kaupa á viðbótartilkynningafresti, ef tryggingin fengist ekki endurnýjuð. Hafi stefnda því borið skylda til þess að taka afstöðu til beiðni stefnanda um endurnýjun á tryggingunni áður en frestur til þess að kaupa viðbótartilkynningafrest hafi runnið út, sbr. ákvæði A4.
Stefnandi byggir á því að þegar ákvæði A3 og A4 séu lesin saman sé það ljóst að ákvæði A3 leggi þá skyldu á herðar vátryggjanda, stefnda í máli þessu, að taka afstöðu til fram kominnar beiðni um endurnýjun vátryggingar innan þeirra tímamarka sem tilgreind séu í ákvæði A4. Annar skýringarkostur gæti leitt til þess að stefndi drægi að taka afstöðu til fram kominnar beiðni um endurnýjun vátryggingar, allt fram til þess tíma að réttur vátryggðs til að óska eftir kaupum á viðbótartilkynningafresti sé fallinn niður. Slík skýring gangi ekki upp með tilliti til sanngirnissjónarmiða og gagnkvæmrar tillitsskyldu í samningssambandi aðilanna. Stefnandi byggir á því að tilkynning um nýtingu réttar til kaupa á viðbótartilkynningafresti, sem send hafi verið 30. apríl 2009, hafi réttaráhrif samkvæmt efni sínu þar sem stefndi hafði ekki tekið afstöðu til beiðni stefnanda um endurnýjun vátryggingarinnar innan 30 daga frá lokum vátryggingartíma. Stefnda sé skylt að selja stefnanda 36 mánaða viðbótar- tilkynningafrest í samræmi við vátryggingarskilmálana þar sem ljóst sé að beiðni stefnanda um endurnýjun tryggingarinnar hafi í raun verið hafnað af stefnda. Stefnandi telur að skilja verði viðbrögð stefnda, eða skort þar á, sem „neitun“ á því að bjóða endurnýjunarskilmála í skilningi greinar A3 í kafla 3 í vátryggingarskilmálum.
Hvað varðar fyrirmæli ákvæðisins um að iðgjaldið hafi verið greitt vísar stefnandi til þess að ómögulegt hafi verið að inna iðgjaldið af hendi þar sem stefndi hafi ekki staðfest rétt stefnanda til þess að kaupa umræddan frest. Enginn reikningur hafi verið sendur fyrir iðgjaldinu eða nokkrar upplýsingar veittar um fjárhæð þess. Þar sem umrædd Directors & Officers trygging hafi aðeins verið einn hluti hinnar samsettu bankavátryggingar hafi stefnanda ekki verið kleift að beita reiknireglu (iii) liðar greinar A4 í kafla 3 í vátryggingarskilmálunum þar sem ekki hafi verið sundurliðað sérstaklega hvert iðgjaldið hafi verið fyrir Directors & Officers hluta vátryggingarinnar. Hafi verið eftir því leitað að stefndi veitti upplýsingar um fjárhæð iðgjaldsins, greiðslustað og hvert stefnandi gæti beint greiðslu svo unnt væri að inna greiðsluna af hendi, sbr. m.a. bréf lögmanns stefndanda, dags. 12. nóvember 2010.
Til stuðnings varakröfu sinni vísar stefnandi til þess að samkvæmt grein A2 í kafla III eigi hann rétt á að kaupa 12 mánaða tilkynningarfrest eftir að vátryggingartíma ljúki ef hann hafi neitað boði stefnda að endurnýja vátrygginguna. Telur hann skilyrði ákvæðisins uppfyllt. Réttur samkvæmt ákvæðinu verði virkur er vátryggingartaki einfaldlega ákveði að endurnýja ekki trygginguna.
Stefndi mótmælir kröfu stefnda um að varakröfunni verði vísað frá. Telur hann varakröfuna rúmast innan aðalkröfu. Þá sé ekki um nýja málsástæðu að ræða þar sem að hún byggist á vörnum stefnda.
Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga og meginreglna vátryggingaréttar, þar á meðal um túlkun vátryggingarsamninga. Þá vísar hann til meginreglna samningaréttar um skuldbindingargildi samninga. Um heimild til þess að höfða viðurkenningarmál er vísað til 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafa hans um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður stefnda
Af hálfu stefnda er á því byggt að stefnandi eigi ekki rétt á að kaupa viðbótartilkynningafrest þar eð þau skilyrði, sem sett eru fyrir slíkum kaupum í greinum III.A.3 og III.A.4 í skilmálum stjórnendatryggingarinnar séu ekki uppfyllt.
Stefndi hafi aldrei neitað að bjóða endurnýjun á skilmálum og skilyrðum stjórnendatryggingar stefnanda, en slík neitun sé ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir því að réttur stofnist til handa stefnanda til að kaupa viðbótartilkynningafrest samkvæmt ákvæðum gr. III.A.3. Er stefnandi hafi óskað eftir endurnýjun stjórnendatryggingarinnar hafi stefndi, venju og eðli máls samkvæmt, óskað eftir tilteknum upplýsingum frá stefnanda. Þannig hafi hann óskað eftir útfylltri og undirritaðri umsókn stefnanda og ársreikningi eða öðrum upplýsingum um efnahag stefnanda, sbr. tölvupóst dags. 6. maí 2009. Hinar umbeðnu upplýsingar séu nauðsynlegar, en þó ekki tæmandi, þáttur við mat vátryggjenda á hugsanlegri endurnýjun tryggingar sem þessarar. Í ljósi þeirra gríðarlegu breytinga sem höfðu orðið á aðstæðum stefnanda hefði honum mátt vera ljóst að stefndi gæti ekki með nokkru móti tekið ákvörðun um hvort veita ætti tryggingu nema með slíkar upplýsingar undir höndum. Stefnandi hafi hins vegar aldrei sent umbeðin gögn til stefnda. Þess í stað hafi hann haldið að sér höndum og unnið í því að kaupa tryggingu annars staðar. Með tölvupósti stefnanda, dags. 8. júlí 2009, hafi hann tilkynnt stefnda fyrirvaralaust að hann hefði ákveðið að kaupa tryggingu hjá öðrum vátryggjanda. Það hafi því verið stefnandi sjálfur sem hafi ákveðið að hætta endurnýjunarferlinu.
Stefndi byggir á því að bréf stefnanda til hans, dags. 30. apríl 2009, hafi ekki falið í sér fyrirvaralausa tilkynningu um kaup á viðbótartilkynningafresti, svo sem gerð sé krafa um í skilmálum stjórnendatryggingarinnar. Þvert á móti hafi það einungis falið í sér í sér beiðni um endurnýjun, en með fyrirvara ef stefndi gæti ekki boðið upp á endurnýjun. Þetta bréf uppfylli ekki skilyrði gr. III.A.4 í skilmálunum um fyrirvaralausa beiðni um kaup á tilkynningafresti. Í bréfinu lýsi stefnandi einungis vilja sínum varðandi 36 mánaða tilkynningafrest „ef endurtryggjendur geta ekki boðið upp á slíka endurnýjunarskilmála“. Þetta skilyrði, sem stefnandi hafi sjálfur sett fyrir því að vilja yfirleitt virkja 36 mánaða tilkynningafrest, hafi ekki verið uppfyllt, en stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir því.
Stefndi vísar til þess að stefnandi hafi aldrei greitt viðbótariðgjald fyrir viðbótartilkynningafrest, svo sem gert sé að skilyrði í gr. III.A.4 í skilmálum stjórnendatryggingarinnar fyrir kaupum á slíkum fresti og engin kaup hafi farið fram. Bendir stefndi á skyldu samningsaðila í gagnkvæmu samningssambandi til að eiga fumlaus og afdráttarlaus samskipti, þar sem ákvæðum samnings sé fylgt til hins ýtrasta og tillitsskylda aðila virt. Það hafi stefnandi ekki gert, og verði hann að bera hallann af því óskiptan. Stefnandi átti samkvæmt framangreindu skilmálaákvæði og eðli máls að greiða viðbótariðgjaldið strax. Með því að gera það ekki hafi hann tekið þá ákvörðun að hann hygðist ekki kaupa viðbótartilkynningafrest. Stefnandi geti ekki öðlast betri rétt en ella með þeirri háttsemi sinni að senda loðna beiðni til stefnda, bundna fyrirvörum, og halda síðan að sér höndum með greiðslu iðgjalds þar til í ljós komi hvort stefnandi þurfi á tryggingunni að halda.
Stefndi mótmælir sem rangri þeirri fullyrðingu stefnanda að stefnanda hafi verið „ómögulegt“ að inna greiðslu viðbótariðgjalds af hendi. Hefði stefnandi í raun viljað kaupa viðbótartilkynningafrest, og talið sig eiga rétt á því, þá hefði hann vitaskuld á sínum tíma sent stefnda afdráttarlausa tilkynningu þar um ásamt greiðslu á grundvelli gr. III.A.4 í skilmálum stjórnendatryggingarinnar. Stefnandi hafi haft tiltækar fullnægjandi upplýsingar um fjárhæð viðbótariðgjaldsins.
Stefndi mótmælir varakröfu stefnanda í þessum þætti málsins sem of seint fram kominni. Verði ekki fallist á frávísun hennar byggir stefndi á því að sýkna beri stefnda að kröfunni þar sem ekki séu uppfyllt skilyrði til þess að stefnandi fái keyptan umræddan viðbótarfrest.
IV
Niðurstaða
Í máli þessu deila aðilar um hvort stefnandi eigi rétt til að kaupa viðbótartilkynningafrest af stefnda vegna stjórnendatryggingar (e: Directors & Officers Liability Insurance) sem stefnandi hafði hjá stefnda. Umrædd trygging var keypt í apríl 2008. Tryggingin var hluti af svokallaðri bankatryggingu, en aðrir hluta hennar voru Bankers Blanket Bond trygging, Computer Crime trygging og Professional Indemnity trygging. Gildistími tryggingarinnar var frá 1. maí 2008 til 1. maí 2009. Áður en tryggingin rann út nýtti Fjármálaeftirlitið sér heimild í lögum nr. 125/2008 um sérstakar aðstæður á fjármálamarkaði til að skipa stefnanda skilanefnd. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 44/2009 um breytingu á lögum nr. 161/2002 skipaði Héraðsdómur Reykjavíkur bankanum slitastjórn þann 12. maí 2009.
Aðalkrafa stefnanda byggist á greinum A.3 og A.4 í III. kafla vátryggingarskilmála stefnda vegna umræddrar tryggingar. Í ákvæði III.A.3 er kveðið á um að ef vátryggjandi neiti að bjóða endurnýjun skilmála og skilyrða eftir að vátryggingin renni úr gildi skuli félagið, stjórnarmenn og yfirmenn eiga rétt á að kaupa 12, 24 eða 36 mánaða tilkynningafrest að eigin vali. Í ákvæði III.A.4 er það enn fremur gert að skilyrði fyrir kaupum á tilkynningafresti að skrifleg tilkynning um kaupin berist innan 30 daga frá lokum vátryggingartíma og skal vátryggingartaki þá greiða viðbótariðgjald sem reiknað er sem ákveðið hlutfall af árlegu iðgjaldi vátryggingarsamningsins. Sýknukrafa stefnda er á því reist að skilyrði framangreindra ákvæða séu ekki uppfyllt. Þannig hafi stefndi aldrei neitað að bjóða endurnýjun skilmála, stefnandi hafi ekki sent skriflega tilkynningu um kaupin og þá hafi hann ekki greitt viðbótariðgjald.
Fyrir liggur að starfsmaður stefnanda, Páll Eiríksson, sendi hinn 30. apríl 2009, stefnda bréf þar sem hann óskaði eftir tilboði í endurnýjun umræddrar tryggingar til a.m.k. næstu 12 mánaða. Þá kom fram í bréfinu að ef stefndi gæti ekki gert tilboð í endurnýjun vátryggingarinnar hygðist stefnandi nýta sér rétt sinn til að kaupa 36 mánaða viðbótartilkynningafrest í samræmi við vátryggingarskilmálana. Þóroddur Sigfússon, starfsmaður stefnda, staðfesti móttöku bréfsins samdægurs með tölvupósti og kom fram að hann hefði framsent bréf stefnanda til Howden Insurance Brokers tryggingamiðlunarinnar. Hinn 6. maí 2009 sendi Þóroddur starfsmanni stefnanda tölvupóst þar sem fram kom að til þess að endurtryggjendur gætu gert stefnanda tilboð í endurnýjun tryggingarinnar þyrfti að liggja fyrir útfyllt og undirrituð umsókn og ársreikningur eða aðrar upplýsingar um efnahag stefnanda. Sendi Þóroddur umsóknina sem viðhengi með tölvupóstinum. Í málinu liggja jafnframt frammi fleiri tölvupóstar Þórodds til starfsmanna stefnda varðandi endurnýjun tryggingarinnar árið 2009. Í tölvupósti, dagsettum 8. maí, kemur fram að Þóroddur geri ráð fyrir að þeir séu að vinna í þessum málum og biður um að haft verði samband séu einhverjar spurningar varðandi umsóknina eða annað. Í tölvupósti 21. maí, kemur fram að Þóroddur hafi ekki tekið við neinum gögnum frá stefnanda og spyr hvort enn sé verið að vinna í að safna saman umbeðnum upplýsingum. Í svarpósti Páls síðar sama dag, kemur fram að hann sé að gera sitt besta til að ná utan um þetta. Óskar hann jafnframt eftir afriti af síðustu umsókn stefnanda o.fl. Voru stefnanda send umbeðin gögn. Í tölvupósti 25. maí kemur fram að starfsmaður Howden tryggingamiðlunarinnar hafi beðið Þórodd um að kanna hvort stefnandi hygðist leggja fram þær upplýsingar sem óskað hefði verið eftir, a.m.k. þær upplýsingar sem stefnandi gæti veitt á þessu stigi. Í tölvupósti Þórodds 29. sama mánaðar kemur m.a. fram að enn sé staða málsins óljós. Fram hafi komið að leiðandi endurtryggjendur hafi gefið til kynna að þeir myndu mögulega hugleiða að gera tilboð í endurnýjun en það yrði einungis gegn því að stefnandi veitti upplýsingar til þess. Stefnda hefðu ekki borist slíkar upplýsingar og þ.a.l. hefði ekki verið tekin frekari afstaða til málsins. Í tölvupósti til Páls 9. júní ítrekar Þóroddur að Páll hefði ætlað að vera í sambandi við hann vegna umsóknareyðublaðsins og hvetur hann til að hafa samband séu einhverjar spurningar. Í tölvupóstum til Páls frá 18. júní spyr Þóroddur hvort málið sé enn í vinnslu hjá stefnanda. Í tölvupósti til Páls daginn eftir spyr Þóroddur hvort málið sé enn á dagskrá, þ.e. hvort stefnandi hygðist skila inn umsókn og fjárhagsupplýsingum. Frekari samskipti áttu sér stað milli aðila í júní og júlí 2009 varðandi trygginguna. Í tölvupósti sem Þóroddur sendi Páli 30. júní spyr hann hvort stefnandi sé búinn að taka afstöðu til „tilboðs/indication í D & O tryggingu frá erlendu brokerunum sem þú nefndir við mig í síma í síðustu viku?“. Þóroddur kveðst hafa nefnt þetta við starfsmann Howden tryggingamiðlunarinnar sem taldi sig mögulega geta boðið hagstæðari kjör. Hinn 7. júlí sendir Þóroddur Páli tölvupóst þar sem hann spyr hvort Páll hafi íhugað skilaboð hans frá síðustu viku. Páll svarar Þórhalli daginn eftir með tölvupósti þar sem fram kemur að stefnandi hefði ákveðið að taka tilboði frá United Insurance Brokers. Nánar tiltekið segir í bréfi Páls: The Resolution Committe decided to accept the offer set-forth by UIB. The window for decison was short and since we had not had a response from our previous insurer it was decided to go with this proposal.
Þegar horft er til framangreindra samskipta málsaðila verður að fallast á það með stefnda að ekki sé uppfyllt það skilyrði ákvæðis A.3 í III. kafla vátryggingarskilmálanna að stefndi hafi neitað að bjóða endurnýjun á skilmálum og skilyrðum stjórnendatryggingar stefnanda. Ekki er unnt að fallast á þá málsástæðu stefnanda að þegar ákvæði A3 og A4, séu lesin saman sé ljóst að ákvæði A3 leggi þá skyldu á herðar vátryggjanda að taka afstöðu til fram kominnar beiðni um endurnýjun vátryggingar innan þeirra tímamarka sem tilgreind séu í ákvæði A4 eða að beiðni stefnanda um endurnýjun tryggingarinnar hafi í raun verið hafnað af stefnda. Að mati dómsins hefði stefnanda verið í lófa lagið að senda stefnda umsókn um trygginguna og önnur gögn, eftir því sem við átti, til þess að stefnda væri fært að taka afstöðu til beiðni stefnanda um endurnýjun tryggingarinnar. Það gerði stefnandi ekki og verður hann að bera hallann af því. Þótt stefnandi væri í slitameðferð verður ekki séð að það geti afsakað að hann afhenti stefnda ekki umsókn eða upplýsingar um fjárhag sinn, eins og stefndi óskaði eftir, eftir því sem stefnanda var unnt, enda bar stefnandi aldrei fyrir sig í samskiptum aðila vegna endurnýjunar tryggingarinnar vorið 2009 að honum væri það ómögulegt. Þá virðist sem stefnandi hafi unnið að því að kaupa tryggingu annars staðar á sama tíma og málsaðilar voru í samskiptum. Þar sem neitun stefnda á að bjóða stefnanda endurnýjun er ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir því að réttur stofnist til handa stefnanda til að kaupa viðbótartilkynningafrest verður að sýkna stefnda af aðalkröfu stefnanda.
Stefnandi gerir, í þessum þætti málsins, til vara þá kröfu að viðurkennt verði að skilyrði greinar A.2 í III. kafla vátryggingarskilmála stefnanda, sem ber heitið Directors and Officers Liability Insurance til kaupa á 12 mánaða viðbótarfresti séu uppfyllt. Í ákvæðinu er kveðið á um það að ef félagið og stjórnarmenn og yfirmenn neiti boði um að endurnýja vátrygginguna skuli þeir eiga rétt á að kaupa 12 mánaða tilkynningafrest eftir að vátryggingartíma lýkur. Varakröfu þessa setti stefnandi fyrst fram í þinghaldi hinn 1. febrúar sl. vegna skiptingar sakarefnisins. Stefndi mótmælir varakröfunni og krefst þess aðallega að henni verði vísað frá dómi. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að varakrafan rúmist innan aðalkröfu hans. Dómurinn getur ekki fallist á það. Þótt tími viðbótartilkynningafrests sé styttri en í aðalkröfu þá byggist varakrafan á annarri málsástæðu en aðalkrafan. Verður því ekki séð að hún rúmist innan aðalkröfunnar. Þvert á móti hefur stefnandi mótað nýja kröfu í málinu. Hefði stefnanda mögulega verið unnt, teldi hann greinargerð stefnda, sem lögð var fram 22. september 2011, gefa tilefni til þess, að auka við kröfur sínar með framhaldsstefnu, sbr. 29. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en það gerði hann ekki. Er varakröfu stefnanda því vísað frá dómi.
Í samræmi við þessa niðurstöðu, og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 2.000.000 kr., þ.m.t. virðisaukaskattur.
Dóminn kvað upp Kolbrún Sævarsdóttir, héraðsdómari.
D Ó M S O R Ð
Varakröfu stefnanda, Glitnis hf., er vísað frá dómi.
Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., er sýknaður af aðalkröfu stefnanda.
Stefnandi greiði stefnda 2.000.000 kr. í málskostnað.