Hæstiréttur íslands

Mál nr. 11/2017

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Matsgerð
  • Skýrslugjöf

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem tekin var til greina krafa Á um að yfirmatsmennirnir A og B gæfu skýrslu fyrir dómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. janúar 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 5. janúar 2017, þar sem tekin var til greina krafa sóknaraðila um að yfirmatsmennirnir A og B gefi skýrslu fyrir dómi. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. janúar 2017.

Með beiðni, dags. 15. desember 2016, sem barst Héraðsdómi Reykjaness 16. desember 2016, er þess krafist af ríkissaksóknara, að skýrslutaka fari fram fyrir dómi af yfirmatsmönnum í matsmáli Héraðsdóms Reykjaness, nr. [...], þeim A og B, í samræmi við 132. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Sóknaraðili er ríkissaksóknari, kt. [...], Suðurlandsbraut 4, 108 Reykjavík. Varnaraðili er X, kt. [...],[...].

Af hálfu varnaraðila er framkominni beiðni mótmælt og þess krafist að henni verði hafnað.  Fór fram munnlegur málflutningur 5. janúar sl. um ágreining aðila.

I

Með yfirmatsbeiðni, dags. 13. október 2015, krafðist sóknaraðili þess að Héraðsdómur Reykjaness myndi dómkveðja tvo matsmenn í því skyni að leggja mat á hver hafi verið líklegust dánarorsök drengsins C kt. [...], sem lést 4. maí 2001. Fékk málið málsnúmer [...]. Voru þeir A, [...] og B, [...], að tillögu málsaðila, skipaðir þann 13. janúar 2016, til að framkvæma hið umbeðna mat.

Bókað var í þingbók málsins [...], að yfirmatsmenn ættu að tilkynna aðilum með sannanlegum hætti og hæfilegum fyrirvara hvenær skoðunar- og yfirmatsgerð færi fram, og að gefa þeim kost á að gæta hagsmuna sinna, og að þeir ættu að semja skriflega og rökstudda yfirmatsgerð og vera til þess reiðubúnir að staðfesta hana fyrir dómi. Þá ættu yfirmatsmenn að afhenda yfirmatsbeiðanda yfirmatsgerðina gegn greiðslu hæfilegrar þóknunar og áréttað var að það væri í höndum yfirmatsbeiðanda að tilkynna yfirmatsmönnum um dómkvaðninguna og láta þeim í té endurrit af bókun um hana ásamt þeim gögnum málsins, sem þeir þurftu til afnota við yfirmatið. Var gert ráð fyrir því að matinu yrði lokið hið allra fyrsta og eigi síðar en 29. febrúar 2016. Reyndist sá tími þegar til kom allt of skammur.

Með bréfi sóknaraðila dags. 24. nóvember 2016, var Héraðsdómi Reykjaness með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, send matsgerð málsins ásamt þýðingu.

II

Sóknaraðili vísar kröfu sinni til stuðnings til 1. mgr. 132. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, um að matsmönnum beri að koma fyrir dóm til að gefa skýrslu til skýringar og staðfestingar á matsgerð og um atriði sem tengjast henni, sé þess krafist af aðila málsins.

Taldi sóknaraðili að engin lagaskylda væri fyrir því að matsmenn ynnu matið í sameiningu. Hafi sóknaraðili ekki talið þörf á að halda matsfund og ekki gert kröfu um það. Hefðu matsmennirnir unnið matið á grundvelli sömu gagna og undirmatsmaður gerði, og ekki verið að þörf á því að leggja fyrir þá frekari gögn. Ef  verjandi hefði talið þörf á því að koma að frekari gögnum til matsmanna hefði hann átt að óska eftir því. Ljóst væri að sóknaraðili og annar matsmanna hefðu ekki fengið afrit af þeim pósti sem varnaraðili vísi til frá 16. ágúst 2016 og í þeim pósti hafi ekki falist krafa um að halda matsfund.

Þá taldi sóknaraðili að matsspurningarnar hafi verið alveg skýrar og ljóst hvað matsmennirnir þurftu að gera. Skýrsla fyrir dómi nú af matsmönnum væri einnig til þess fallin að bæta úr þeim göllum sem varnaraðili teldi vera á málinu. Matsgerðin og skýrslur matsmanna yrði síðan lagðar fyrir Hæstarétt til efnislegrar úrslausnar í máli Hæstaréttar nr. [...].

III

Varnaraðili mótmælti því að fram færi skýrslutaka af yfirmatsmönnum á þeim forsendum að slíkir formgallar væru á yfirmatinu að það væri ekki tækt sem sönnunargagn í skilningi XIX. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þannig hafi, þrátt fyrir ótvíræða lagaskyldu ekki verið haldinn matsfundur með aðilum matsmálsins þar sem varnaraðila hafi gefist kostur á því að koma að sjónarmiðum sínum og hnykkja á þeim atriðum sem hann teldi skipta máli varðandi matsspurningarnar.

Yfirmatsmenn málsins hefðu ekkert samráð haft sín á milli og engin tilraun hafi verið gerð til þess að komast að sameiginlegri niðurstöðu en eðli málsins samkvæmt hefði verið gengið út frá því að þeir ynnu matið í sameiningu. Í XIX. kafla laga nr. 88/2008, sbr. IX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, væri gengið út frá því að yfirmatsmenn væru fleiri en einn og tilgangurinn að fleiri væru um niðurstöðuna en í undirmati og sé því ekki um eiginlegt yfirmat að ræða. Þá hafi varnaraðili beint þeirri ábendingu til annars af yfirmatsmatmönnum þann 16. ágúst 2016, að yfirmatsmenn ættu að komast að sameiginlegri niðurstöðu annars vegar og hins vegar að þeir ættu að halda matsfund með sækjanda og verjanda.

Varnaraðili telur að með því að heimila skýrslutöku fyrir dómi skv. 132. gr. laga nr. 88/2008, væri þar með verið að samþykkja að matsgerðin hafi verið gerð án þess að gætt hafi verið þeirra málsmeðferðareglna sem um öflun slíkra sönnunargagna gilda. Jafn alvarlegt brot á málsmeðferðareglum og um ræði leiði til þess að ekki sé um sönnunargagn að ræða í skilningi XIX. kafla laga nr. 88/2008. Hafi varnaraðili vegna þessa formgalla lagt fram beiðni til Héraðsdóms Reykjaness, dags. 5. janúar 2017, um dómkvaðningu nýrra yfirmatsmanna í máli Hæstaréttar nr. [...].

IV

Í 138. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála segir m.a. að óski aðili eftir að fá matsmann kvaddan fyrir öðrum dómi en þar sem mál er rekið skuli hann leggja skriflega beiðni um það fyrir dómara í málinu. Samkvæmt 1. mgr. 140. gr. sömu laga er m.a. tekið fram að fara skuli eftir ákvæðum II. og XVIII.-XX. kafla laganna eftir því sem við getur átt. Loks segir í 1. mgr. 141. gr. sömu laga að ákvæðum 140. gr. skuli beitt þegar sönnunargagna er aflað í héraði í tengslum við rekstur máls fyrir Hæstarétti.

Skipun matsmanna í matsmáli [...] var skv. framangreindri heimild og fór framkvæmd matsins fram skv. XIX. kafla laga nr. 88/2008. Bókað var í þingbók þess máls, í samræmi við 5. mgr. 128. gr. laganna hvað meta ætti, hvenær mati ætti að vera lokið og hverjum ætti að gefa kost á því að gæta hagsmuna við framkvæmd þess. Liggur því ekki annað fyrir en að gætt hafi verið að öllum formreglum við þá skipun.

Sóknaraðili krefst þess með vísan til 1. mgr. 132. gr. laga nr. 88/2008, að matsmennirnir komi fyrir dóm og gefi skýrslu. Í greinargerð með 132. gr., er kveðið á um skyldu matsmanns til þess að koma fyrir dóm og gera grein fyrir því mati sem hann hefur gert. Í lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála er ekki gerð nein undantekning frá þeirri ótvíræðu skyldu. Meintir formgallar sem varnaraðili telur hafa verið á vinnu matsmanna geta ekki, með vísan til framangreinds, haft þau áhrif að skýrslutaka skuli ekki fara fram yfir matsmönnun, enda er tilgangur þeirrar skýrslutöku ekki síst sá að fá fram skýringar um atriði sem tengjast matsgerðinni, svo sem um þau atriði sem varnaraðili telur að valdi því að matsgerðin sé ekki tæk sem sönnunargagn fyrir Hæstarétti.

Með vísan til framangreinds er fallist á beiðni sóknaraðila um skýrslutöku af yfirmatsmönnum í máli þessu og að mati dómsins felst ekki í þeirri skýrslutöku nein afstaða til þess hvort rétt hafi verið að matinu staðið af hálfu matsmanna.

Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Krafa sóknaraðila, ríkissaksóknara, um að matsmennirnir A og B gefi skýrslu fyrir Héraðsdómi Reykjaness, er tekin til greina.