Hæstiréttur íslands
Mál nr. 408/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Gagn
- Framlagning skjals
- Vitni
- Trúnaðarskylda
|
|
Þriðjudaginn 8. október 2013. |
|
Nr. 408/2013. |
Ákæruvaldið (Arnþrúður Þórarinsdóttir saksóknari) gegn X (Grímur Sigurðsson hrl.) Y (Reimar Pétursson hrl.) Z og (Karl Axelsson hrl.) Þ (Arnar Þór Stefánsson hrl.) |
Kærumál. Gögn. Framlagning skjals. Vitni. Trúnaðarskylda.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar ákæruvaldinu var í sakamáli á hendur X o.fl. heimilað að leggja fram hluta skjalaskrár og leiða A fyrir dóm sem vitni. Skjölin sem um var að ræða voru tilkynning Seðlabanka Íslands til Fjármálaeftirlitsins, svar bankans við beiðni ákæruvaldsins, afrit af tölvupóstsamskiptum X o.fl. við A og skýrsla hennar hjá lögreglu. Í málinu reyndi á hvort ákæruvaldinu væri óheimilt að leggja fram fyrrgreind skjöl á grundvelli 4. mgr. 134. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 2. mgr. 119. gr. sömu laga. Í dómi Hæstaréttar var talið að líta yrði svo á að undir b. lið síðastgreindrar málsgreinar gætu fallið einka-, fjárhags- og viðskiptamálefni einstaklinga jafnt sem lögpersóna, að því tilskyldu að þeim sérfræðingum sem heyrðu undir ákvæðið hefði verið trúað fyrir slíkum upplýsingum í starfi þeirra. Af síðastefndu leiddi að ákvæðið ætti ekki við væri manni trúað fyrir upplýsingum utan starfs hans sem sérfræðings, til dæmis af vini eða vandamanni. Þá var í dómi réttarins meðal annars vísað til þess að við skýringu ákvæðisins, sem fæli í sér undantekningu frá vitnaskyldu, yrði að líta til þess að því sé ætlað að vernda trúnaðarsamband sérfræðings og skjólstæðings sem til hans leitar þannig að skjólstæðingurinn geti almennt treyst því að upplýsingar, sem hann láti sérfræðingnum í té um einkamálefni sín, verði ekki síðar notaðar gegn honum í sakamáli án hans vilja. Talið var að tilkynning Seðlabanka Íslands til Fjármálaeftirlitsins og svar bankans við beiðni ákæruvaldsins fælu ekki í sér trúnaðarupplýsingar í merkingu b. liðar 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008. Þá yrði ekki talið að X o.fl. hefðu leitað ráðgjafar hjá A sem lögmanni, heldur sem lögfræðingi með sérþekkingu á reglum um gjaldeyrisviðskipti. Litið var svo á að tölvupóstsamskipti X o.fl. við A og skýrsla hennar hjá lögreglu heyrðu undir undanþágu frá vitnaskyldu með vísan til eðlis og umfangs þeirrar ráðgjafar er A hefði veitt X o.fl., enda hefðu þeir eins og atvikum málsins var háttað mátt líta svo á með réttu að viðlíka trúnaðarskylda fylgdi samskiptum þeirra við A og um væri að ræða samskipti við lögmann, þannig að þeir gætu almennt treyst því að upplýsingarnar sem þeir trúðu A fyrir yrðu ekki síðar notaðar gegn þeim í sakamáli án vilja þeirra. Ekki yrði séð að tölvupóstsamskipti X o.fl. við A og skýrsla hennar hjá lögreglu gætu skipt sköpum um niðurstöðu málsins og því var ákæruvaldinu synjað um að leggja fram þau skjöl. Loks var talið að A yrði ekki leidd sem vitni án leyfis X o.fl. sökum fyrirmæla b. liðar 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Árni Kolbeinsson, Eiríkur Tómasson og Ingibjörg Benediktsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 13. júní 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er sá hluti úrskurðar Héraðsdóms Reykjaness 11. júní 2013, þar sem sóknaraðila var heimilað að leggja fram skjöl, nánar tiltekið tilkynningu Seðlabanka Íslands 11. nóvember 2009 til Fjármálaeftirlitsins, svar bankans 5. september 2012 við beiðni sóknaraðila, afrit af tölvupóstsamskiptum varnaraðila við A og skýrslu hennar hjá lögreglu, svo og að leiða hana sem vitni fyrir dóm. Kæruheimild er í n. og p. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðilar krefjast þess að sóknaraðila verði synjað um að leggja fram fyrrnefnd skjöl og að leiða áðurgreint vitni fyrir dóm.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
I
Varnaraðilarnir Y, Z og Þ störfuðu á sviði gjaldeyrisviðskipta hjá B hf. framan af árinu 2009. Á sama tíma starfaði þar A, lögfræðingur, sem hafði öðlast réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi og sinnti almennum lögfræðistörfum í þágu félagsins. Með bréfi Lögmannafélags Íslands 7. júlí 2008 var A veitt undanþága frá skyldum samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn á grundvelli 1. töluliðar 2. mgr. þeirrar lagagreinar vegna starfa sinna í þágu B hf. Samkvæmt því mátti hún ekki veita öðrum lögmannsþjónustu en vinnuveitanda sínum og var henni ekki skylt að hafa skrifstofu opna almenningi, sérstakan vörslufjárreikning í viðurkenndri bankastofnun og gilda starfsábyrgðartryggingu, sbr. 19. gr., 23. gr. og 25. gr. laganna.
Í fyrrgreindri skýrslu A hjá lögreglu kom meðal annars fram að hún hafi starfað hjá B hf. frá 1. apríl 2008 til 12. júní 2009. Eitt af því, sem hafi fallið undir verksvið hennar, hafi verið að túlka reglur um gjaldeyrisviðskipti, þar á meðal að veita vinnuveitanda sínum lögfræðilega ráðgjöf í sambandi við reglur um gjaldeyrishöft. Eftir að hún hætti þar störfum hafi hún hafið störf sem lögfræðingur hjá Seðlabanka Íslands. Hún hafi strax byrjað að fást við gjaldeyrismál og 18. september 2009 hafi hún orðið [...] bankans.
Varnaraðilar segjast hafa leitað ráðgjafar A um ýmis atriði, tengd gjaldeyrisviðskiptum, sem þeir fengust við með aðkomu sænsks félags, C AB, sem mun hafa verið í eigu varnaraðilans X. Þetta hafi að minnsta kosti átt sér stað á tímabilinu 9. mars 2009 til 22. maí sama ár. Varnaraðilum og A ber ekki saman um í hverju ráðgjöf hennar hafi verið fólgin, en hún kannaðist þó við að hún hafi svarað einstökum fyrirspurnum varnaraðila um gjaldeyrisviðskipti. Hins vegar liggja fyrir afrit af áðurnefndum tölvupóstsamskiptum milli þeirra á tímabilinu 24. mars 2009 til 22. maí sama ár. Í tölvubréfi 24. mars 2009, sem bar yfirskriftina „spurning til lögfræðings“, sendi varnaraðilinn Z A skýringarmynd sem sýndi viðskiptahugmynd. Spurði hann meðal annars hvort þessi fyrirhuguðu viðskipti væru háð einhverjum starfsleyfum í Bretlandi eða Svíþjóð og þá hverjum. Í svari A 27. mars 2009 lét hún í té nöfn á tveimur sænskum lögfræðingum sem hún sagði að hefðu að einhverju leyti komið að vinnu fyrir B hf. Sama dag sendi Z henni tölvubréf með afritum til varnaraðilanna Þ og Y og fylgdu bréfinu drög að samningi sem sagt var að C AB vildi gera við annað félag. Var A beðin um að lesa drögin yfir, meðal annars með tilliti til breytinga sem varnaraðilar vildu gera á samningsdrögunum. Undir lok tölvubréfsins sagði: „Takk fyrir hjálpina, A, þú færð þitt.“ Í tölvubréfi A 30. mars 2009 var að finna svar hennar og þar sagði meðal annars: „Sjá meðfylgjandi samninginn með mínum athugasemdum. LESIÐ YFIR SAMNINGINN OG EFTIRFARANDI ATHUGASEMDIR“. Síðan fylgdu skýringar hennar á þeim breytingum sem hún lagði til að gerðar yrðu á samningsdrögunum. Frekari tölvupóstsamskipti áttu sér stað þennan dag þar sem A svaraði nokkrum spurningum Z varðandi hinn fyrirhugaða samning. Daginn eftir, 31. mars 2009, sendi Y í tölvupósti til annarra varnaraðila og A tölvubréf frá íslenskum lögmanni, þar sem fjallað var um umræddan samning. Hinn 1. apríl sama ár barst henni afrit af tölvubréfi frá varnaraðilanum X með nokkrum atriðum sem hann taldi að þyrfti að skoða áður en gengið yrði frá samningnum. Hinn 4. apríl 2009 sendi varnaraðilinn Y A tölvubréf þar sem stóð í upphafi: „Varstu búinn að kíkja á samningsmál við þriðja aðila fyrir okkur.“ Í framhaldinu skiptust þau 6. apríl sama ár á tölvubréfum um tiltekið atriði og í lok þeirra samskipta sendi hann henni drög að samningi milli íslensks einkahlutafélags og C AB. Hinn 22. apríl og 4. maí 2009 áttu sér stað tölvupóstsamskipti milli varnaraðilanna og A þar sem hún veitti þeim lögfræðilega ráðgjöf um afmörkuð atriði. Hinn 8. maí 2009 sendi Þ A tölvubréf með samskiptum ráðgjafa C AB við fjármálaeftirlitið í Svíþjóð og sagði hún álit sitt á viðbrögðum þess í tölvubréfi til Þ 22. maí sama ár. Samdægurs lét hún í tölvubréfi til Þ í ljós skoðun sína á drögum að skjali sem bar yfirskriftina „Proposal for Corporate & Administration Services“. Við skýrslutöku hjá lögreglu neitaði A því að varnaraðilar hefðu fengið sig til að leiðbeina þeim og ráðleggja um hvort og hvernig viðskipti þeirra gætu átt sér stað. Hún hafi svarað einstökum spurningum frá þeim og hafi það verið vinargreiði. Hún kvaðst ekki hafa þegið neinar greiðslur frá varnaraðilum og aldrei haft heildaryfirsýn yfir það sem þeir voru að gera. Í lok skýrslutökunnar var A spurð hvort hún væri tilbúin til að afhenda lögreglu ofangreind tölvupóstsamskipti og svaraði hún því játandi. Í kjölfarið afhenti hún lögreglu afrit af þeim.
Ákæra var gefin út á hendur varnaraðilum 22. mars 2013 þar sem þeim eru gefin að sök brot gegn lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál og reglum samkvæmt þeim, svo og almennum hegningarlögum nr. 19/1940. Brotin hafi þeir framið „með því að hafa í sameiningu á tímabilinu 25. mars 2009 til 2. nóvember 2009 haft milligöngu um gjaldeyrisviðskipti hér á landi án lögmætrar heimildar eða leyfis frá Seðlabanka Íslands og um leið staðið að ólögmætum gjaldeyrisviðskiptum vegna fjármagnshreyfinga á milli landa með úttektum af reikningum í íslenskum krónum í fjármálafyrirtækjum hér á landi“. Háttsemi varnaraðila hafi nánar tiltekið falist „í milligöngu um gjaldeyrisviðskipti með íslenskar krónur gegn erlendum gjaldeyri og fjármagnsflutningum á íslenskum krónum til Íslands tengdum þeim gjaldeyrisviðskiptum.“ Þessi starfsemi hafi verið „rekin í nafni sænska félagsins C AB“ sem varnaraðilar hafi ráðið yfir.
II
Samkvæmt 4. mgr. 134. gr. laga nr. 88/2008 er óheimilt að leggja fram skjöl eða annars konar gögn í sakamáli ef þau hafa að geyma upplýsingar sem 2. mgr. 119. gr. laganna tekur til. Það ákvæði síðarnefndu málsgreinarinnar, sem einkum reynir á við úrlausn þessa máls, er b. liður hennar. Eftir þeim staflið er vitni óheimilt án leyfis þess sem í hlut á að svara spurningum um „einkahagi manns sem því hefur verið trúað fyrir í starfi sem endurskoðandi, félagsráðgjafi, lögmaður, læknir, prestur, forstöðumaður trúfélags eða sálfræðingur ellegar í öðru starfi sem viðlíka trúnaðarskylda fylgir“. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 88/2008 sagði meðal annars um þetta ákvæði að hugsanlega gætu lögfræðingar, aðrir en lögmenn, fallið undir það á grundvelli hinnar almennu tilvísunar í niðurlagi þess á sama hátt og aðrir sem gegna störfum er rík trúnaðarskylda fylgir.
Orðin „einkahagi manns“ í upphafi b. liðar 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008 eru ekki skýrð í lögskýringargögnum, en í fyrrgreindum athugasemdum kemur fram að fyrirmynd þeirra er sótt til b. liðar 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þar sem sama orðalag er að finna. Þótt orðið „einkahagir“ vísi í almennri málvitund fyrst og fremst til persónulegra einkamálefna einstaklinga mælir ýmislegt á móti því að skýra það svo þröngt í því samhengi sem hér um ræðir. Í fyrsta lagi tekur ákvæðið meðal annarra til endurskoðenda sem bendir til að fjárhagsmálefni geti talist einkahagir í merkingu þess. Í öðru lagi er áþekkt orð, „einkahagsmunir“, notað í 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 sem samheiti á einka- og fjárhagsmálefnum einstaklinga og reyndar einnig fjárhags- og viðskiptahagsmunum fyrirtækja og annarra lögaðila. Síðast en ekki síst hafa mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar, þar á meðal 70. gr. og 71. gr. hennar þar sem mælt er fyrir um réttláta málsmeðferð fyrir dómi og friðhelgi einkalífs, verið skýrð á þann veg að lögpersónur á borð við hlutafélög njóti verndar þeirra og undir þá vernd geti eftir atvikum fallið hagsmunir af fjárhags- eða viðskiptalegum toga. Er þetta í samræmi við skýringu Mannréttindadómstóls Evrópu á ákvæðum 6. gr. og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.
Að öllu þessu virtu verður að líta svo á að undir b. lið 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008 geti fallið einka-, fjárhags- og viðskiptamálefni einstaklinga jafnt sem lögpersóna, að því tilskildu að þeim sérfræðingum, sem taldir eru upp í ákvæðinu eða gegna öðrum störfum er jafn rík trúnaðarskylda fylgir, hafi verið trúað fyrir slíkum upplýsingum í starfi þeirra. Af síðastnefnda skilyrðinu leiðir að ákvæðið á ekki við sé manni trúað fyrir upplýsingum utan starfs hans sem sérfræðings, til dæmis af vini eða vandamanni. Við skýringu á þessu ákvæði, sem felur í sér undantekningu frá vitnaskyldu, verður að líta til þess að því er ætlað að vernda trúnaðarsamband sérfræðings og skjólstæðings, sem til hans leitar, þannig að skjólstæðingurinn geti almennt treyst því að upplýsingar, sem hann lætur sérfræðingnum í té um einkahagi sína, verði ekki síðar notaðar gegn honum í sakamáli án hans vilja.
III
Samkvæmt 4. mgr. 134. gr. laga nr. 88/2008 er sem fyrr greinir óheimilt að leggja fram skjöl eða annars konar gögn í sakamáli ef þau hafa að geyma upplýsingar sem 2. mgr. 119. gr. laganna tekur til. Samkvæmt orðanna hljóðan er bannið við framlagningu gagna bundið því skilyrði að í þeim sé að finna þvílíkar upplýsingar, þar á meðal trúnaðarupplýsingar sem falla undir b. lið málsgreinarinnar. Skiptir ekki máli í þessu sambandi þótt gögnin séu afrakstur ráðgjafar sem sérfræðingur hefur veitt skjólstæðingi sínum ef þar koma ekki fyrir upplýsingar sem honum hefur verið trúað fyrir. Þar sem þetta á hvorki við tilkynningu Seðlabanka Íslands 11. nóvember 2009 til Fjármálaeftirlitsins, sem er að finna á bls. 3-11 í skjalaskrá lögreglu, né svar bankans 5. september 2012 við beiðni sóknaraðila, á bls. 408 í skjalaskránni, verður þegar af þeirri ástæðu hafnað kröfu varnaraðila um að sóknaraðila verði synjað um að leggja þau skjöl fram í máli því sem höfðað hefur verið gegn varnaraðilum.
Eins og áður er rakið starfaði A hjá B hf. þegar samskipti hennar og varnaraðila, sem mál þetta snýst um, áttu sér stað. Á þeim tíma var leyfi A til að starfa sem lögmaður bundið því skilyrði að hún mætti ekki veita öðrum lögmannsþjónustu en vinnuveitanda sínum. Af þeim sökum verður ekki talið að varnaraðilar hafi leitað ráðgjafar hjá henni sem lögmanni, heldur sem lögfræðingi með sérþekkingu á reglum um gjaldeyrisviðskipti.
Að virtu því, sem segir í kafla II að framan, kemur þessu næst til skoðunar hvort þær upplýsingar, sem varnaraðilar veittu A sem lögfræðingi um gjaldeyrisviðskipti á vegum félags er þeir tengdust, hafi engu að síður verið trúnaðarupplýsingar í skilningi b. liðar 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008. Þótt hún hafi gegnt fullu starfi hjá B hf. útilokar það ekki að hún hafi samhliða því sinnt starfi sem lögfræðilegur ráðgjafi þannig að það starf geti fallið undir ákvæðið að öðrum skilyrðum uppfylltum. Sé litið til eðlis og umfangs ráðgjafarinnar, sem A lét varnaraðilum í té og gerð hefur verið grein fyrir, er ekki unnt að fallast á að einungis hafi verið um að ræða vinargreiða af hennar hálfu, enda þótt þrír varnaraðilar af fjórum hafi um tíma verið samstarfsmenn hennar. Eins og aðstæðum var háttað máttu varnaraðilar líta svo á með réttu að viðlíka trúnaðarskylda fylgdi samskiptum þeirra við A og um væri að ræða samskipti við lögmann þannig að þeir gætu almennt treyst því að upplýsingarnar, sem þeir trúðu henni fyrir, yrðu ekki síðar notaðar gegn þeim í sakamáli án vilja þeirra. Samkvæmt því falla þær trúnaðarupplýsingar, sem fram koma í tölvupóstsamskiptum varnaraðila við A og skýrslu hennar hjá lögreglu, undir umrædda undanþágu frá vitnaskyldu.
Í 3. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008 segir að telji dómari að vitnisburður geti ráðið úrslitum um niðurstöðu máls geti hann þrátt fyrir fyrirmæli 1. og 2. mgr. ákveðið að vitni skuli svara spurningum um tiltekin atriði, enda séu ríkari hagsmunir af því að spurningunum verði svarað en trúnaði haldið. Samkvæmt þessu er það frumskilyrði fyrir því að dómari geti vikið til hliðar fyrrgreindri undanþágu frá vitnaskyldu að framburður vitnis kunni, að hans áliti, að ráða úrslitum um niðurstöðu máls. Það er fyrst að fenginni þeirri niðurstöðu að honum er ætlað að meta hvorir hagsmunirnir vegi þyngra að vitnið svari spurningum um tiltekin atriði eða að trúnaði sé haldið.
Þegar virt er það, sem fram kemur í tölvupóstsamskiptum varnaraðila við A á tímabilinu 24. mars 2009 til 22. maí sama ár, sem er að finna á bls. 6792-6843 í skjalaskrá lögreglu, og skýrslu hennar hjá lögreglu, á bls. 6776-6784 í skjalaskránni, verður ekki séð að efni þeirra skjala geti skipt sköpum um niðurstöðu máls þess sem höfðað hefur verið gegn varnaraðilum. Þegar af þeirri ástæðu eru ekki efni til þess gegn andmælum varnaraðila að aflétta þeim trúnaði sem hvílir samkvæmt framansögðu á þeim upplýsingum er þar koma fram. Þar sem skilja verður málatilbúnað sóknaraðila svo að tilgangurinn með því að leiða A sem vitni fyrir dóm sé að spyrja hana um fyrrgreind samskipti varnaraðila við hana verður það heldur ekki gert án leyfis þeirra sökum fyrirmæla b. liðar 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008.
Með vísan til þess, sem að framan greinir, verður fallist á kröfu varnaraðila um að sóknaraðila verði synjað um að leggja fram þau tvö skjöl sem síðast var fjallað um og að leiða áðurgreint vitni fyrir dóm.
Dómsorð:
Sóknaraðila er synjað um að leggja fram skjöl á blaðsíðum 6776-6784 og 6792-6843 í skjalaskrá lögreglu, merktri 006-2009-1514, og að leiða fyrir dóm sem vitni A í sakamáli því sem höfðað hefur verið gegn varnaraðilum, X, Y, Z og Þ. Sóknaraðila er heimilt að leggja fram í sama máli skjöl á blaðsíðum 3-11 og 408 í skjalaskránni.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. júní 2013.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 28. maí 2013, er höfðað með ákæru útgefinni af sérstökum saksóknara 22. mars 2013, á hendur X, kt. [...], [...], Y, kt. [...],[...], Z, kt. [...],[...], og Þ, kt. [...],[...], „fyrir brot gegn lögum og reglum um gjaldeyrismál og almennum hegningarlögum með því að hafa í sameiningu á tímabilinu 25. mars 2009 til 2. nóvember 2009 haft milligöngu um gjaldeyrisviðskipti hér á landi án lögmætrar heimildar eða leyfis frá Seðlabanka Íslands og um leið staðið að ólögmætum gjaldeyrisviðskiptum vegna fjármagnshreyfinga á milli landa með úttektum af reikningum í íslenskum krónum í fjármálafyrirtækjum hér á landi, hvort tveggja með þeim hætti sem hér er nánar lýst:
Háttsemi ákærðu fólst í milligöngu um gjaldeyrisviðskipti með íslenskar krónur gegn erlendum gjaldeyri og fjármagnsflutningum á íslenskum krónum til Íslands tengdum þeim gjaldeyrisviðskiptum. Ákærðu áttu allir þátt í að skipuleggja og hrinda í framkvæmd þeirri starfsemi og var hún rekin í nafni sænska félagsins C AB sem ákærðu réðu yfir.
Ákærðu sömdu við mótaðila í gjaldeyrisviðskiptum hverju sinni um að ákærðu skiptu erlendum gjaldeyri í eigu mótaðila í íslenskar krónur sem ákærðu skyldu greiða inn á bankareikning mótaðila á Íslandi. Jafnframt sömdu ákærðu og mótaðilinn um kjör í slíkum gjaldeyrisviðskiptum, það er sölugengi á íslenskum krónum af hálfu ákærðu gegn greiðslu í erlendum gjaldeyri af hálfu mótaðila. Tóku þau kjör mið af svonefndu aflandsgengi íslensku krónunnar á hverjum tíma sem ávallt var lægra en skráð gengi íslensku krónunnar á opinberum gjaldeyrismarkaði á Íslandi.
Ákærðu létu mótaðila greiða erlenda gjaldeyrinn inn á gjaldeyrisreikning C AB hjá D í Svíþjóð fyrir viðkomandi mynt. Á framangreindu tímabili tóku ákærðu við samtals 771 innborgun frá samtals 84 mótaðilum í gjaldeyrisviðskiptum. Nánar tiltekið var um að ræða 59 innborganir í bandaríkjadölum, samtals að fjárhæð 10.766.999 bandaríkjadalir, 243 innborganir í sterlingspundum, samtals að fjárhæð 14.529.032 sterlingspund, 412 innborganir í evrum, samtals að fjárhæð 35.467.568 evrur, 2 innborganir í kanadadölum, samtals að fjárhæð 1.032.000 kanadadalir, 9 innborganir í norskum krónum, samtals að fjárhæð 55.000.113 norskar krónur, 8 innborganir í sænskum krónum, samtals að fjárhæð 862.301 sænsk króna og 38 innborganir í dönskum krónum, samtals að fjárhæð 17.747.690 danskar krónur.
Með hinum erlenda gjaldeyri sem ákærðu söfnuðu þannig inn á fyrrgreinda gjaldeyrisreikninga C AB keyptu þeir reglulega íslenskar krónur af erlendum fjármálafyrirtækjum, frá tugum og upp í hundruð milljónir króna hverju sinni, að langstærstum hluta af D og bandaríska fjárfestingasjóðnum E LLC. Samhliða slíkum magnkaupum á íslenskum krónum gáfu ákærðu erlendu fjármálafyrirtækjunum fyrirmæli um að flytja íslensku krónurnar til Íslands, nánar tiltekið í tilviki D inn á bankareikning C AB nr. [...] hjá F hf. en í tilviki E LLC inn á bankareikning C AB nr. [...] hjá G hf. Hver og ein slík fjármagnshreyfing sem ákærðu létu framkvæma erlendis frá inn á bankareikning C AB á Íslandi leiddi af sér úttekt af bankareikningi í íslenskum krónum, svonefndum VOSTRO-reikningi, sem erlenda fjármálafyrirtækið er framkvæmdi peningasendinguna átti hjá fjármálafyrirtæki á Íslandi. D átti slíkan reikning hjá F hf. og E LLC hjá G hf.
Eftir að íslensku krónurnar höfðu borist inn á bankareikninga C AB hjá F hf. og G hf. gerðu ákærðu upp hver einstök gjaldeyrisviðskipti við mótaðila sína með því að millifæra í alls 748 skipti inn á bankareikninga þeirra á Íslandi fjárhæð eða fjárhæðir í íslenskum krónum sem svöruðu til tiltekinnar innborgunar eða innborgana mótaðila í erlendum gjaldeyri hverju sinni. Samtals námu þær útgreiðslur ákærðu 14.345.875.280 krónum á framangreindu tímabili og voru útgreiðslur til hvers og eins af hinum 84 mótaðilum á bilinu 1 til 105 talsins. Ákærðu framkvæmdu í langflestum tilvikum slíkar útgreiðslur með því að millifæra fyrst af bankareikningi C AB hjá F hf. yfir á bankareikning C AB hjá G hf. en greiða þaðan út til mótaðila.
Endurgjald ákærðu af milligöngu sinni um gjaldeyrisviðskiptin fólst í gengismuninum milli annars vegar sölugengis á íslenskum krónum til mótaðila í einstökum gjaldeyrisviðskiptum og hins vegar hagstæðara kaupgengis á íslenskum krónum sem ákærðu nutu í færri og stærri magnkaupum á íslenskum krónum af erlendum fjármálafyrirtækjum. Meðaltal þess gengismunar í öllum framangreindum gjaldeyrisviðskiptum ákærðu var að minnsta kosti 4,3 prósent og heildarágóði ákærðu samkvæmt því að minnsta kosti rúmar 656 milljónir króna.
Framangreind brot ákærðu teljast varða við eftirfarandi refsiákvæði:
Milliganga ákærðu um gjaldeyrisviðskipti hér á landi án leyfis Seðlabanka Íslands eða lögmætrar heimildar varðar á tímabilinu 25. mars 2009 til og með 13. júlí 2009 við 1. mgr. 8. gr. laga um gjaldeyrismál nr. 87/1992, sbr. 1. mgr. 186. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en frá og með 14. júlí 2009 til og með 2. nóvember 2009 við 1. mgr. 8. gr. laga um gjaldeyrismál nr. 87/1992, sbr. 3. tölulið 16. gr. laga um gjaldeyrismál nr. 87/1992, sbr. 3. gr. laga nr. 73/2009.
Ólögmæt gjaldeyrisviðskipti vegna fjármagnshreyfinga milli landa með úttektum af reikningum í íslenskum krónum í fjármálafyrirtækjum hér á landi, sem ákærðu stóðu fyrir, vörðuðu á tímabilinu 25. mars 2009 til og með 30. október 2009 við 4. mgr. 1. gr., sbr. 13. gr., reglna um gjaldeyrismál nr. 1130/2008, sbr. 1. mgr., sbr. 5. mgr., bráðabirgðaákvæðis I og 16. gr. laga um gjaldeyrismál nr. 87/1992, en á tímabilinu 31. október 2009 til og með 2. nóvember 2009 við 2. og 3. gr., sbr. 16. gr., reglna um gjaldeyrismál nr. 880/2009, sbr. 1. mgr., sbr. 5. mgr., bráðabirgðaákvæðis I og 16. gr. laga um gjaldeyrismál nr. 87/1992. Sama háttsemi varðar nú við 13. gr. b og 13. gr. c laga um gjaldeyrismál nr. 87/1992, sbr. 4. tölulið 16. gr. sömu laga, sbr. b- og c-lið 3. gr. og 5. gr. laga nr. 127/2011.“
Í ákæru er þess krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Einnig er krafist upptöku á tilteknum eignum ákærðu með vísan til 2. mgr. 16. gr. a í lögum um gjaldeyrismál nr. 87/1992, sbr. 3. gr. laga nr. 134/2008, og 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum. Þá eru í ákæru raktar þær röksemdir sem málsóknin er byggð á, sbr. d-lið 1. mgr. 152. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, en ekki er ástæða til að rekja þær í þessum þætti málsins.
Af hálfu ákærðu er þess krafist að synjað verði um framlagningu tiltekinna gagna sem ákæruvaldið vill leggja fram í málinu og fór fram munnlegur málflutningur um þennan þátt málsins hinn 15. maí 2013. Málið var tekið fyrir á ný 28. maí 2013, með vísan til 168. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, og gögn lögð fram. Málið var svo tekið til úrskurðar. Sameiginlegar kröfur ákærðu eru í sjö liðum.
1. Með vísan til 4. mgr. 134. gr., sbr. b-lið 2. mgr. 119. gr., laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 22. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og 30. gr. laga nr. 79/2008 um endurskoðendur, er þess krafist að ákæruvaldinu verði synjað um að leggja fram samskipti sakborninga í málinu við lögfræðinga, lögmenn og endurskoðendur þeirra og afsprengi slíkra samskipta, sbr. m.a. tölvupóstsamskipti sakborninga við A sem síðar varð [...] Seðlabanka Íslands (bls. 6792-6843), tilkynningu Seðlabanka Íslands ásamt greinargerð (bls. 3-11) og svar Seðlabanka Íslands við beiðni sérstaks saksóknara um gögn (bls. 408), sem hvort tveggja sé afsprengi þessara fyrri samskipta sakborninga við A, sem og samskipti sakborninga við H og I (bls. 3935-3955, 3957-3985, 3996-4031, 4035-4040 og 4128).
Niðurstaða:
Samkvæmt 1. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er meginreglan sú að það er fyrst og fremst ákæruvaldið sem aflar sönnunargagna. Helgast þetta af því að það er ákæruvaldið sem ber sönnunarbyrði fyrir sekt ákærða, sbr. 108. gr., og því ber að vinna að því að hið sanna og rétta komi í ljós, sbr. 3. mgr. 18. gr. Ákærði getur þó sjálfur aflað sönnunargagna telji hann ástæðu til, sbr. 1. mgr. 110. gr., og dómari getur samkvæmt 2. mgr. 110. gr. beint því til ákæranda að afla gagna. Einnig getur dómari, telji hann bersýnilegt að atriði sem aðili vill sanna skipti ekki máli, eða að gagn sé tilgangslaust til sönnunar, meinað aðila um sönnunarfærslu.
Í 134. gr. laga nr. 88/2008 er að finna ákvæði um framlagningu skjala og annarra sönnunargagna. Samkvæmt 2. mgr. 134. gr. leggur ákærandi fram þau skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn sem aflað hefur verið við rannsókn og sönnunargildi hafa að hans mati. Þannig er það almennt á forræði ákæruvaldsins hvaða gögn það leggur fram. Frá þessu er hins vegar að finna undantekningu í 4. mgr. 134. gr., en þar segir að óheimilt sé að leggja fram skjöl eða annars konar gögn ef þau hafa að geyma upplýsingar um það sem sakborningi og verjanda hans hefur farið á milli, svo og upplýsingar sem 2. mgr. 119. gr. tekur til.
Í 2. mgr. 119. gr. segir m.a., í b-lið, að vitni sé óheimilt án leyfis þess sem í hlut á að svara spurningum um einkahagi manns sem því hefur verið trúað fyrir í starfi sem endurskoðandi, félagsráðgjafi, lögmaður, læknir, prestur, forstöðumaður trúfélags eða sálfræðingur ellegar í öðru starfi sem viðlíka trúnaðarskylda fylgir. Samkvæmt 3. mgr. 119. gr. getur dómari hins vegar ákveðið að vitni skuli svara spurningum um tiltekin atriði, enda séu ríkari hagsmunir af því að spurningunum verði svarað en trúnaði haldið. Þetta á þó ekki við um verjanda, prest eða forstöðumann trúfélags.
Samkvæmt því sem fram kemur í skýrslu rannsakenda unnu allir ákærðu í upphafi árs 2009 hjá B hf., á sviði gjaldeyrisviðskipta. Umrædd A starfaði þá einnig hjá B, við almenn lögfræðistörf, m.a. varðandi gjaldeyrishöft. Við rannsókn máls þessa hjá lögreglu var tekin vitnaskýrsla af henni, hinn 18. febrúar 2010, og kvaðst hún hafa svarað einstökum spurningum frá ákærðu varðandi vangaveltur þeirra um stofnun fyrirtækis, þ.e. C AB. A sagði jafnframt hjá lögreglu að um hafi verið að ræða vinargreiða, hún hafi aldrei fengið neitt greitt fyrir þetta og ekki haft heildaryfirsýn yfir það sem þeir hafi verið að gera. Umrædd A hóf svo störf hjá Seðlabanka Íslands og varð hún [...] bankans. Með bréfi Seðlabanka Íslands, dags. 11. nóvember 2009, sem A undirritaði, var Fjármálaeftirlitinu tilkynnt, sbr. 15. gr. a laga um gjaldeyrismál nr. 87/1992, um meint brot C AB. Fjármálaeftirlitið sendi svo hinn 19. nóvember 2009 kæru til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, með vísan til 1. mgr., sbr. 2. mgr., 16. gr. b laga nr. 87/1992.
Ákærðu halda því fram að A hafi veitt þeim lögmannsaðstoð og að hún hafi ekki átt að koma að málinu í störfum sínum hjá Seðlabanka Íslands, en með því hafi hún brotið alvarlega gegn starfsskyldum sínum sem lögmaður. Það verði því að synja ákæruvaldinu um að leggja fram samskipti hennar við ákærðu í skjalaskrá lögreglu, tilkynningu Seðlabanka Íslands til Fjármálaeftirlitsins og svar bankans við beiðni sérstaks saksóknara um gögn sem undirmaður A hafi undirritað, en þar sé um að ræða „afsprengi“ af samskiptum ákærðu við A. Jafnframt beri að synja ákæruvaldinu um að leggja fram gögn um samskipti ákærðu við endurskoðandann H og lögmanninn I. Ákæruvaldið mótmælir því að um lögmannsaðstoð hafi verið að ræða hvað varðar A, en hafi svo verið þá beri að aflétta trúnaði á grundvelli 3. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008. Þá beri að beita téðu ákvæði hvað varðar H og I.
Lögð hafa verið fram gögn um að A fékk á árinu 2008 leyfi til að vera héraðsdómslögmaður og hún var með undanþágu frá skyldum skv. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn vegna starfa sinna fyrir B. Í staðfestingu Lögmannafélags Íslands, vegna undanþágunnar, segir að í umsókn hennar staðfesti hún að hún muni ekki hagnýta sér lögmannsréttindi í ríkara mæli en í störfum sínum hjá B. Ávirðingar ákærðu um að A hafi brotið gegn starfsháttum eða trúnaðarskyldum sínum sem lögmaður geta ekki leitt til þess að ákæruvaldinu verði synjað um að leggja fram umrædd gögn. Eins og rakið hefur verið getur dómari samkvæmt 3. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008 aflétt trúnaði. Við mat þess hvort beita skuli því ákvæði ber að líta til þess að ákærðu eru gefin að sök umfangsmikil brot og fram kemur í áðurnefndri tilkynningu Seðlabanka Íslands til Fjármálaeftirlitsins að meint brot ákærðu hafi haft gríðarleg áhrif á gengi íslensku krónunnar og þar með hamlað gengisstyrkingu hennar verulega, tafið stýrivaxtalækkunarferli Seðlabankans sem og efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar. Að þessu virtu og með hliðsjón af þeirri þýðingu sem umrædd gögn geta haft fyrir málið er ákæruvaldinu heimilt að leggja þau fram.
2. Þá er þess krafist af hálfu ákærðu að ákæruvaldinu verði synjað um að leggja fram skjal sem heitir „skýrsla rannsakenda“, enda fari hún og efni hennar í bága við 1. mgr. 56. gr. laga nr. 88/2008. Skýrslan sé mun yfirgripsmeiri en heimilt sé, feli í sér skriflegan málflutning og fari langt út fyrir þann ramma sem lagaákvæðið setji skýrslu sem þessari. Þannig séu í skýrslunni raktir í löngu máli málavextir, og starfsemi ákærðu, eins og ákæruvaldið byggir á að hún hafi verið. Hins vegar geri lagaákvæðið ekki ráð fyrir slíku, enda skuli samkvæmt því geta „einstakra rannsóknaraðgerða og niðurstöðu þeirra“ í skýrslunni, og aðeins eftir því sem við á megi koma þar fram það sem sakborningar og vitni bera við skýrslutöku, athuganir lögreglu sjálfrar og niðurstaða skoðunar og rannsóknar „sérfróðra manna“. Ekki sé því gert ráð fyrir að ákæruvaldið nýti skýrsluna til að útskýra með nákvæmum og tæmandi hætti „heimsmynd“ málsins eins og hún horfir við ákæruvaldinu, líkt og gert sé í fyrirliggjandi skýrslu.
Verði ekki fallist á að synjað sé um framlagningu skýrslunnar er þess til vara krafist undir þessum lið að strikað verði út úr henni það sem þar kemur fram og reist er á samskiptum sakborninga við lögmenn, lögfræðinga og endurskoðendur sína.
Niðurstaða:
Samkvæmt 1. mgr. 56. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála tekur lögregla saman skýrslu um rannsókn sína í hverju máli um sig þar sem getið skal einstakra rannsóknaraðgerða og niðurstöðu þeirra. Eftir því sem við á skal þar meðal annars koma fram það sem sakborningur og vitni bera við skýrslutöku, sbr. 64. og 65. gr., athugun lögreglu sjálfrar og niðurstaða skoðunar og rannsóknar sérfróðra manna.
Við munnlegan flutning málsins kom fram að athugasemdir ákærðu lúta aðeins að kafla 3 sem ber yfirskriftina málsatvik. Mál þetta er mjög umfangsmikið en þau gögn sem ákæruvaldið hyggst leggja fram á þessu stigi málsins eru rúmlega 7.000 blaðsíður. Lýsing rannsakenda á málsatvikum í umræddri skýrslu er byggð á því sem fram hefur komið við rannsókn málsins og er hún fyrst og fremst reist á því sem fram kemur í gögnum sem ákæruvaldið hyggst leggja fram. Þessi kafli skýrslunnar getur verið gagnlegur í málinu, ekki síst fyrir sakborninga málsins, og verður ekki séð að hann sé í andstöðu við 56. gr. laga nr. 88/2008.
Með vísan til niðurstöðu í 1. kröfulið er varakröfu ákærðu hafnað.
3. Enn fremur er þess krafist að ákæruvaldinu verði synjað um að leggja fram skýrslur þeirra vitna hjá lögreglu sem ekki er ætlunin að gefi skýrslu fyrir dómi, sbr. 2. mgr. 134. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt fylgibréfi ákæruvalds með ákæru sem send var héraðsdómi sé ætlun ákæruvaldsins að leiða fyrir dóm eftirtalin vitni til skýrslugjafar við aðalmeðferð: [...]. Af þeim sökum er þess krafist að synjað verði um framlagningu skýrslna eftirtalinna vitna sem gáfu skýrslu hjá lögreglu, en ekki er ætlunin að leiða fyrir dóm: A (bls. 6776-6784), J (bls. 6954-6974) og K (bls. 6975-6981).
Niðurstaða:
Í bréfi 25. mars 2013, sem ákæruvaldið sendi dóminum skv. 154. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, eru talin upp tiltekin vitni sem ákæruvaldið hefur í huga að leiða fyrir dóm við aðalmeðferð málsins. Vitnin A, J og K voru ekki þar á meðal. Við þingfestingu málsins 26. apríl 2013 lýsti ákæruvaldið því hins vegar yfir að það ætli að leiða þessi vitni fyrir dóm. Af hálfu ákærðu var þá fallið frá mótmælum vegna J og K, en eftir stendur ágreiningur um vitnið A. Það leiðir af niðurstöðu hér að framan um 1. kröfulið að ákæruvaldinu er heimilt að leggja fram skýrslu sem A gaf hjá lögreglu og leiða hana fyrir dóm sem vitni.
4. Þá er þess krafist að ákæruvaldinu verði synjað um að leggja fram það sem ákæruvaldið kallar „upplýsingaskýrslu L sérfræðings vegna símaviðtals“ við M og N (bls. 5669-5672). Skýrslutökur þessar hafi í engu farið eftir ákvæðum VIII. kafla laga nr. 88/2008 sem mæli fyrir um hvernig haga skuli skýrslutöku af hálfu lögreglu og fyrir dómi vegna rannsóknar máls. Skýrslugjafir þessar og gerð „upplýsingaskýrslna“ á grundvelli þeirra séu því löglausar með öllu og beri að synja um framlagningu þeirra. Auk þess séu þessi gögn, til viðbótar og sjálfstætt, þýðingarlaus sem sönnunargögn í málinu, sbr. 3. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008 og beri þegar af þeirri ástæðu að synja um framlagningu þeirra.
Niðurstaða:
Ekki verður fallist á með ákærðu að umræddar skýrslur séu þýðingarlausar í málinu og að synja beri um framlagningu þeirra á grundvelli 3. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Í VIII. kafla laga nr. 88/2008 er að finna ákvæði um það hvernig staðið skuli að skýrslutöku við rannsókn mála. Af hálfu ákærðu er því haldið fram að skýrslutakan af M og N hafi brotið gegn ýmsum ákvæðum, m.a. hafi ekki komið skýrt fram hvort þeir gæfu skýrslur sem vitni eða grunaðir menn og ekki hafi verið kallaður til túlkur. Meintir annmarkar á skýrslutökunni geta ekki leitt til þess að ákæruvaldinu verði synjað um að leggja skýrslurnar fram heldur koma þeir til skoðunar við mat á sönnunargildi skýrslnanna, við aðalmeðferð málsins. Aftur á móti ber að líta til þess að samkvæmt 2. mgr. 134. gr. laga nr. 88/2008 er einungis heimilt að leggja fram skýrslur sem vitni hafa gefið hjá lögreglu ef ætlunin er að leiða þau fyrir dóm eða ekki er kostur á að fá þau fyrir dóm til að gefa skýrslu. Umrædd vitni eru ekki á lista ákæruvaldsins yfir þau vitni sem það hyggst leiða fyrir dóm. Frekari gagnaframlagning á eftir að fara fram og væntanlega verða greinargerðir lagðar fram af hálfu ákærðu um varnir þeirra. Þannig liggur ekki fyrir endanlegur vitnalisti. Með vísan til alls framangreinds ber að synja ákæruvaldinu að svo stöddu að leggja fram umræddar skýrslur, á bls. 5669-5672.
5. Einnig er þess krafist að synjað verði um framlagningu þess sem ákæruvald kallar „upplýsingaskýrslur“, „sérfræðiskýrslur“ og „skýrslur“ lögreglu um einstök atriði í rannsókn málsins, m.a. sérfræðileg atriði, og samantektir sem lögregla gerði um viðskipti sakborninga og meintan afrakstur þeirra, þ.e. excel-skjöl, bls. 5531-5538, 5539, 5669-5677, 6136-6151, 6199-6200, og varðandi excel-skjölin, sbr. fylgiskjal með framlagðri bókun í málinu. Ákærðu telja að þessi skýrslugerð hafi ekki stoð í lögum nr. 88/2008. Í 86. gr. laganna sé mælt fyrir um að lögregla leiti til „sérfróðra manna“ þegar þörf sé á sérfræðilegri skoðun eða rannsókn til að upplýsa mál. Samkvæmt texta þessa ákvæðis og frumvarpsathugasemdum sé hér átt við utanaðkomandi sérfræðinga sem skuli fá þóknun fyrir starfann, en ekki lögreglumenn sjálfa.
Niðurstaða:
Samkvæmt 86. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er lögreglu heimilt í þágu rannsóknar að leita til sérfróðra manna þegar þörf er á sérfræðilegri skoðun eða rannsókn til að upplýsa mál, s.s. læknisskoðun, efnafræðilegri rannsókn, rithandarrannsókn eða bókhaldsrannsókn. Upptalning þessi á sérfræðingum er þannig ekki tæmandi og ekki verður gagnályktað frá þessu ákvæði að lögreglu sé ekki heimilt að nota eigin starfsmenn sem hafa sérfræðiþekkingu. Þá er það ekki andstætt lögum að lögregla vinni úr rannsóknargögnum málsins, s.s. hvað varðar ætlaðan ávinning af meintum brotum eða taki saman yfirlit um tiltekin viðskipti, eins og í máli þessu.
Hvað varðar tilvísun ákærðu til einstakra skjala í málinu þá er á bls. 5531-5538 um að ræða skýrslu lögreglufulltrúa um eftirlit sem lögregla hafði með sakborningum vegna gruns um að þeir hafi í raun búið og starfað hér á landi. Er ákæruvaldinu heimilt að leggja þessi gögn fram. Skjal á bls. 5539 er skýrsla um afhendingu gagna á grundvelli dómsúrskurðar og eru ekki rök til að synja ákæruvaldinu um framlagningu þess. Skjöl á bls. 5669-5672 eru skýrslur sem teknar voru af M og N og fjallað var um í 4. kröfulið. Líta verður svo á að ákæruvaldinu sé ekki aðeins heimilt heldur skylt að leggja fram þessar skýrslur, standi til að leiða þá fyrir dóm sem vitni. Það liggur hins vegar ekki fyrir hvort svo verði gert og hefur dómurinn synjað um framlagningu skjalanna, að svo stöddu, sbr. 4. kröfulið. Skjöl á bls. 6136-6165 eru um rannsókn lögreglu á símanotkun sakborninga, til að leiða í ljós hversu lengi þeir dvöldu erlendis á tímabilinu frá 25. mars 2009 til og með 4. mars 2010. Téð skjöl varða þannig tiltekna rannsóknaraðgerð og standa engin rök til þess að synja um framlagningu þeirra. Það sama á við um skjöl á bls. 6199-6200, sem er skýrsla saksóknarfulltrúa vegna réttarbeiðni til bandaríska sendiráðsins í Kaupmannahöfn um að útvega tölvupóst sakborninga.
6. Þá er þess krafist að synjað verði um framlagningu lögfræðiálits, á bls. 6785-6788. Ákærðu telja augljóst að það skjal sé þýðingarlaust sem sönnunargagn í málinu, sbr. 3. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008, enda muni dómendur í málinu, í héraði og eftir atvikum fyrir Hæstarétti, leysa úr hinum lögfræðilegu þáttum málsins. Um fordæmi fyrir því að synja beri um framlagningu þessa skjals er vísað til dóma Hæstaréttar 15. september 1994 í máli nr. 327/1994 og 12. september 1996 í máli nr. 337/1996.
Niðurstaða:
Krafa ákærðu í þessum lið snýr að framlagningu lögfræðiálits sem Seðlabanki Íslands bað lögmannsstofu að vinna. Nánar tiltekið var óskað eftir áliti um það hvort 8. gr. laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál næði yfir tiltekna háttsemi. Í umræddu lögfræðiáliti, dags. 12. október 2009, eru rakin tiltekin ákvæði í lögum nr. 97/1992 og ákvæði almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um refsilögsögu og komist að þeirri niðurstöðu að 8. gr. laga nr. 87/1992 ætti við.
Framangreint skjal hefur ekki þýðingu í málinu sem sönnunargagn heldur varðar túlkun á lagareglum. Samkvæmt 2. mgr. 127. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála leggur dómari sjálfur mat á atriði sem krefjast almennrar þekkingar og menntunar eða lagaþekkingar. Verður ákæruvaldinu því synjað um að leggja skjalið fram.
7. Að lokum er þess krafist að ákæruvaldinu verði synjað um að leggja fram í málinu kæru Fjármálaeftirlitsins til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, ásamt fylgiskjölum (bls. 1-443), með vísan til 3. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 5. mgr. 6. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, meginreglu sakamálaréttarfars um hlutlægnisskyldu og 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.
Krafan er reist á því að einn ábyrgðarmanna kæru Fjármálaeftirlitsins, O, hafi verið vanhæfur til að starfa að rannsókn málsins hjá Fjármálaeftirlitinu, sbr. 5. mgr. 6. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, sbr. einnig 4. mgr. 15. gr. e laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál útgáfa 138a. Samkvæmt nefndri hæfisreglu skuli starfsmenn ekki taka þátt í meðferð máls er varðar viðskipti þeirra sjálfra eða fyrirtækja sem þeir eiga hlut í, eru fyrirsvarsmenn fyrir eða eiga að öðru leyti verulegra hagsmuna að gæta í og snerta hina eftirlitsskyldu aðila. Á því tímabili sem kæra Fjármálaeftirlitsins taki til og ákært sé fyrir, hafi O þegið, í gegnum félagið P slf., sem hann hafi verið aðaleigandi að, greiðslur fyrir öflun viðskipta í þágu C AB. Þar af leiðandi sé augljóst að O hafi verið vanhæfur til að taka þátt í meðferð málsins.
Með aðkomu O að rannsókn málsins hafi verið brotið gróflega gegn hlutlægnisskyldu rannsakenda, enda ástæða til að ætla að við rannsóknina hafi ekki verið gætt jafnt að þeim atriðum sem horfi bæði til sýknu og sektar, sbr. 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008, sbr. einnig 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Skjal sem unnið sé með þeim hætti geti ekki orðið grundvöllur sakfellis í sakamáli. Því sé ljóst að skjalið sé tilgangslaust til sönnunar og beri dómara af þeirri ástæðu að synja um framlagningu þess.
Verði ekki fallist á að synjað verði um framlagningu kæru Fjármálaeftirlitsins ásamt fylgiskjölum er þess krafist til vara að ákæruvaldinu verði synjað um að leggja fram kæru Fjármálaeftirlitsins eina og sér með sömu rökum og eiga við um aðalkröfu.
Niðurstaða:
Að mati dómsins getur meint vanhæfi O ekki leitt til þess að kæra Fjármálaeftirlitsins og fylgigögn með henni séu tilgangslaus í málinu eða þess að synjað verði um framlagningu þessara skjala, m.a. í ljósi þess að í kærunni er hann tilgreindur sem einn af fjórum ábyrgðarmönnum sem hafi unnið að málinu hjá Fjármálaeftirlitinu. Enn fremur ber að horfa til þess að ákæra í málinu er grundvölluð á sjálfstæðri rannsókn lögreglu. Auk þess getur meint brot á hlutlægnisskyldu rannsakenda, hvort sem er á stjórnsýslustigi eða hjá lögreglu, ekki leitt til þess að synja beri um framlagningu gagna, heldur gæti það eftir atvikum haft áhrif á sönnunarmat í málinu. Með vísan til alls framangreinds er kröfum ákærðu í þessum kröfulið hafnað.
Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Ákæruvaldinu er heimilt að leggja fram skjalaskrá lögreglu merkta 006-2009-1514, að undanskildum bls. 6785-6788 og að svo stöddu einnig bls. 5669-5672. Þá er ákæruvaldinu heimilt að leiða fyrir dóm vitnið A.