Hæstiréttur íslands
Mál nr. 234/2000
Lykilorð
- Vinnusamningur
- Kjarasamningur
- Fyrning
|
|
Fimmtudaginn 7. desember 2000. |
|
Nr. 234/2000. |
Haukur Konráðsson (Björn L. Bergsson hrl.) gegn Útgerðarfélagi Akureyringa hf. (Árni Pálsson hrl.) |
Vinnusamningur. Kjarasamningur. Fyrning.
H var næturvaktmaður í skipum Ú á árunum 1990-1997. Ágreiningur reis milli hans og Ú um túlkun kjarasamnings, en H áleit að greiðslur, sem hann þáði fyrir yfirvinnu, hefðu ekki verið í samræmi við ákvæði hans. Héraðsdómur féllst á að bæta skyldi 80% álagi á dagvinnukaup vegna vinnustunda H, sem fóru fram yfir 173,33 stundir á mánuði, en taldi hluta af kröfum H fyrndan. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms með þeirri athugasemd að H hefði ekki tekist að sýna fram á að Ú hefði á einhverju stigi viðurkennt, að H ætti rétt til frekari launagreiðslna í samræmi við skýringar sínar á kjarasamningnum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. júní 2000. Hann krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða sér 2.108.269 krónur, en til vara 398.314 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af nánar tilteknum fjárhæðum frá 1. janúar 1995 til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eftir uppsögu héraðsdóms aflaði áfrýjandi skýrslna fyrir dómi af Birni Snæbjörnssyni, formanni verkalýðsfélagsins Einingar-Iðju á Akureyri, Guðbrandi Sigurðssyni, framkvæmdastjóra stefnda, og Gunnari Larsen, framleiðslustjóra stefnda. Hann hefur og lagt önnur ný gögn fyrir Hæstarétt. Þessi gögn fá ekki hnekkt þeirri niðurstöðu héraðsdómara að áfrýjandi hafi ekki sýnt fram á að stefndi hafi á einhverju stigi viðurkennt að áfrýjandi ætti rétt til frekari launagreiðslna í samræmi við skýringar sínar á kjarasamningum. Þau renna heldur ekki stoðum undir kröfu hans að öðru leyti. Með þessum athugasemdum verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans.
Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 16. mars 2000.
Mál þetta, sem dómtekið var þann 9. febrúar s.l., hefur Haukur Konráðsson, kt. 280733-3189, Skarðshlíð 26f, Akureyri, höfðað hér fyrir dómi gegn Útgerðarfélagi Akureyringa h.f., kt. 670269-4429, Fiskitanga, Akureyri, með stefnu birtri þann 28. október 1999.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:
Aðalkrafa: Að greitt verði 80% yfirvinnuálag á alla unna vaktavinnutíma umfram 173,33 á mánuði og 60% álag verði greitt þegar um samfelldar vaktir er að ræða frá og með 8. vakt þar til hvíld fæst frá 1. janúar 1994 til 31. ágúst 1997 að fjárhæð kr. 2.108.269,- með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga af kr. 752.895,- frá 1. janúar 1995 til 1. janúar 1996 en af kr. 1.417.792,- frá þeim degi til 1. janúar 1997 en af kr. 2.044.480,- frá þeim degi til 1. september 1998 en af kr. 2.108.269,- frá þeim degi til greiðsludags.
Varakrafa: Að greitt verði 80% yfirvinnuálag á alla unna vaktavinnutíma umfram 173,33 á mánuði frá 1. janúar 1994 til 31. ágúst 1997 að fjárhæð kr. 1.527.597,- með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga af kr. 530.535,- frá 1. janúar 1995 til 1. janúar 1996 en af kr. 997.158,- frá þeim degi til 1. janúar 1997 en af kr. 1.463.808,- frá þeim degi til 1. september 1997 en af kr. 1.527.597,- frá þeim degi til greiðsludags.
Þrautavarakrafa: Að greitt verði 80% yfirvinnuálag á alla tíma umfram 173,33 miðað við dagvinnutaxta og 60% álag verði greitt þegar um samfelldar vaktir er að ræða frá og með 8. vakt þar til hvíld fæst frá 1. janúar 1994 til 31. ágúst 1997 að fjárhæð kr. 1.033.803,- með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga af kr. 385.352,- frá 1. janúar 1995 til 1. janúar 1996 en af kr. 726.853,- frá þeim degi til 1. janúar 1997 en af kr. 1.013.621,- frá þeim degi til 1. september 1997 en af kr. 1.033.803,- frá þeim degi til greiðsludags.
Þrautaþrautavarakrafa: Að greitt verði 60% álag þegar um samfelldar vaktir er að ræða frá og með 8. vakt þar til hvíld fæst frá 1. janúar 1994 til 31. ágúst 1997 að fjárhæð kr. 437.658,- með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga af kr. 201.774,- frá 1. janúar 1995 til 1. janúar 1996 en af kr. 323.500,- frá þeim degi til 1. janúar 1997 en af kr. 439.396,- frá þeim degi til 1. september 1997 en af kr. 439.396,- að frádregnum kr. 1.738,- frá þeim degi til greiðsludags.
Þrautaþrautaþrautavarakrafa: Að greitt verði 80% yfirvinnuálag á alla unna tíma umfram 173,33 á mánuði miðað við dagvinnutaxta frá 1. janúar 1994 til 31. ágúst 1997 að fjárhæð kr. 398.314,- með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga af kr. 145.137,- frá 1. janúar 1995 til 1. janúar 1996 en af kr. 250.284,- frá þeim degi til 1. janúar 1997 en af kr. 378.132,- frá þeim degi til 1. september 1997 en af kr. 398.314,- frá þeim degi til greiðsludags.
Þá gerir stefnandi kröfu um að stefnda verði dæmt til greiðslu málskostnaðar að mati dómsins auk álags er nemi 24,5% virðisaukaskatti.
Stefnda gerir þær dómkröfur aðallega, að það verði sýknað af öllum kröfum stefnanda, en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Í báðum tilvikum gerir stefnda kröfu um málskostnað samkvæmt mati dómsins.
Málsatvik munu vera þau, að stefnandi var ráðinn til starfa þann 23. júní 1990, sem næturvaktmaður í skipum stefnda. Var störfum stefnanda þannig hagað, að hann stóð 12 tíma vaktir frá kl. 19:00 á kvöldin til kl. 7:00 morgnana, þegar skip stefnda voru í landi. Á 7 ára starfstíma stefnanda hjá stefnda átti stefnda ísfisktogarana Kaldbak, Harðbak, Hrímbak og Svalbak og frystitogarana Sléttbak og Sólbak. Það var því algengt að stefnandi vaktaði 2-3 skip í einu og heldur stefnandi því fram að hann hafi oftar en ekki unnið í striklotu í hálfan mánuð til þrjár vikur án hvíldardags og fyrir hafi komið að hann hafi unnið í heilan mánuð án frívaktar.
Launaseðlar stefnanda á nefndu starfstímabili hans báru með sér, að ef samfelld vinnulota hans fór fram yfir sjö nætur fékk hann sex nætur á vaktakaupi skv. grein 20.10.1. en 7. nóttina með 60 % álagi skv. grein 20.10.2. Ef um áframhaldandi vinnu var að ræða fékk hann 8. til 14. nóttina á vaktakaupi án álags samkvæmt ákvæði 20.10.1. en 15. nóttina á 60 % álagi samkvæmt ákvæði 20.10.2. o.s.frv. Þá fékk stefnandi aldrei greidda yfirvinnu á þær stundir sem hann vann fram yfir 173,33 stundir á mánuði.
Veturinn 1994-1995 kveður stefnandi athygli sína hafa verið vakta á því, að hugsanlega væru laun hans ekki samkvæmt aðalkjarasamningi Vinnuveitendasambands Íslands og Verkamannasambands Íslands. Kveðst stefnandi í framhaldinu hafa haft samband við stefnda og gert athugasemdir við launaútreikning þess. Kveður stefnandi stefnda hafa lofað að kanna launaútreikninginn, en stefnda kveðst hins vegar ekki kannast við athugasemdir þess efnis sem stefnandi lýsir, heldur hafi athugasemdir stefnanda snúið að launakjörunum sjálfum en ekki útreikningi launanna. Engar breytingar voru gerðar í kjölfar nefndra athugasemda stefnanda á útreikningi launa hans. Heldur stefnandi því fram, að hann hafi haldið málinu vakandi og spurt af og til veturinn 1995-1996 um ástæður þess að hann væri ráðinn á önnur launakjör en þeir næturvaktmenn, sem hann þekkti til.
Í janúar 1997 óskaði Sigurgísli Sveinbjörnsson næturvaktmaður á skipum Samherja hf. f.h. stefnanda eftir lögfræðiáliti á ákvæðum í kafla 20.10. í kjarasamningnum. Meðan beðið var þess álits réð stefnda nýjan framkvæmdastjóra og fór stefnandi á hans fund í febrúar 1997 ásamt nefndum Sigurgísla og fór fram á að laun sín yrðu leiðrétt aftur í tíman vegna mistaka sem stefnda hefði gert í launaútreikningi allt frá árinu 1990. Tók framkvæmdastjórinn vel í að athuga mál stefnanda.
Þann 26. febrúar 1997 var stefnanda birt uppsagnarbréf og var í framhaldinu gerður við hann starfslokasamningur og hætti stefnandi störfum 1. mars 1997, en fékk laun til 1. september 1997 samkvæmt grein 12.4. í títtnefndum kjarasamningi, sem kvað á um 6 mánaða uppsagnarfrest honum til handa.
Í kjölfar lögfræðiálits Björns L. Bergssonar hdl. leitaði stefnandi eftir leiðréttingu á launum sínum og var honum að lokinni skoðun stefnda á kröfum stefnanda boðin greiðsla miðað við forsendur stefnanda, en einungis 6 mánuði aftur í tímann. Boði þessu hafnaði stefnandi. Bréfaskipti milli aðila héldu áfram og í ágúst 1997 barst lögmanni stefnanda bréf lögmanns Vinnuveitendasambands Íslands þar sem gerður var ágreiningur um túlkun á grein 20.10. í áðurgreindum kjarasamningi og öllum kröfum stefnanda hafnað. Þrátt fyrir áframhaldandi viðræður aðila tókst þeim ekki að ljúka málinu með samkomulagi og því höfðaði stefnandi mál þetta.
Stefnandi kveðst byggja á því, að grein 20.10.2. í aðalkjarasamningi skuli skilja svo, að 60 % álag, sem greitt sé vegna sjöundu nætur í vinnulotu, verði að greiða áfram ef unnið sé á næturvöktum viðstöðulaust frá sjöundu nóttinni án hvíldar og allt þar til hvíldardagur fæst. Stefnandi kveður umrætt ákvæði eiga sér langa sögu í kjarasamningum og vera frá þeim tíma, sem álag hafi verið hugsað sem refsing vinnuveitanda en umbun starfsmanns, ef ekki var unnt að tryggja honum hvíldardag.
Framangreinda túlkun kveður stefnandi einnig eiga sér stoð í grein 20.3.3. í hinum almenna kafla kjarasamningsins um vaktmenn. Þar segi að álag vegna vakta, sem staðnar séu allan sólarhringinn, alla daga vikunnar, skuli vera 33 % og 42 % jafnaðarálag á unna stund ef vaktir séu staðnar frá kl. 16:00 til 8:00 svo og á laugar- og sunnudögum. Auk þessa sé sérstaklega umbunað samkvæmt grein 20.4.1. með aukafrídögum, ef vaktir hafa verið gengnar alla daga ársins.
Þá vísar stefnandi til þess, að samkvæmt 1. gr. laga nr. 55, 1980 séu ákvæði kjarasamninga lágmarkskjör og að ekki sé hægt að semja um lakari kjör en þeir kveði á um og að lakari kjör sé hægt að ógilda.
Stefnandi byggir einnig á, að samkvæmt lögum nr. 88, 1971 um 40 stunda vinnuviku skuli vinnuvikan ekki innihalda fleiri en 40 dagvinnustundir. Samkvæmt ákvæðum kjarasamninga skuli greiða yfirvinnu þegar vinnustundir hafi náð 173,33 dagvinnustundum á mánuði. Í grein 20.3.6. í kaflanum um vaktmenn segi, að vaktir sem starfsmenn taki að sér utan vaktskrár, en hún svari til 173,33 stunda á mánuði, skuli greiðast sem yfirvinna.
Kveðst stefnandi ekki hafa verið með fastar vaktir samkvæmt vaktskrá heldur hafi hann staðið vaktir þegar skip stefnda hafi verið í landi. Stefnandi kveður stefnda hafa borið þrátt fyrir þetta, í samræmi við lög og kjarasamninga, að greiða honum yfirvinnukaup þegar unnar stundir hans hafi verið orðnar 173,33 á mánuði í samræmi við lög og kjarasamninga.
Kröfur sínar byggir stefnandi jafnframt á, að stefnda hafi þegar viðurkennt bótaskyldu sína með ítrekuðum boðum um greiðslu gegn því að stefnandi félli frá frekari kröfum. Boð stefnda hafi hins vegar ekki nægt til að bæta stefnanda það tjón sem hann hafi orðið fyrir, sbr. útreikning stefnda á vanefndum fyrir síðasta starfsár stefnanda. Stefnandi kveður ljóst mega vera, að með aukinni frystitogaraútgerð síðustu árin hafi löndunum og þar með legu togara stefnda fækkað. Starf stefnanda hafi því verið yfirgripsmeira áður fyrr, vaktirnar fleiri og fríin færri og þar með hafi vanefndir stefnda verið meiri.
Stefnandi bendir á að stefnda hafi sem vinnuveitandi hans verið í hinni sterku stöðu, það hafi reiknað út launin og hafi stefnandi mátt treysta, að athugun stefnda leiddi hið rétta í ljós. Yfirlýsing stefnda þess efnis, að ekkert hafi verið athugavert 1994-1995 baki stefnda því bótaábyrgð gagnvart stefnanda.
Stefnda kveður stefnanda hafa fengið laun sín greidd vikulega og því sé ljóst að verulegur hluti krafna hans sé fyrndur, sbr. 2. tl. 3. gr. laga nr. 14, 1905, en kröfur stefnanda um vangreidd laun fyrnist á fjórum árum frá gjalddaga. Hins vegar sé sundurliðun stefnanda á kröfunum þannig, að ekki sé mögulegt að átta sig á hversu stór hluti þeirra sé fyrndur, en þó sé ljóst að verulegur hluti krafnanna og vextir af þeim sé fyrndur. Ágreining aðila kveður stefnda hafa verið lagðan fyrir Félagsdóm og hafi því máli lokið með frávísunarúrskurði dómsins þann 1. febrúar 1999. Stefnda telur að stefnandi hafi ekki slitið fyrningu gagnvart stefnda með höfðun fyrrgreinds máls fyrir Félagsdómi, sbr. 11. gr. fyrningarlaga nr. 14, 1905. Það mál hafi ekki verið höfðað til heimtu fjárkröfunnar heldur aðeins til að fá álit dómsins um túlkun á kjarasamningi, sem lagður hafi verið fram í málinu. Stefnda telur því tæplega verða litið svo á, að greind málshöfðun hafi slitið fyrningu. Ef dómurinn telji hins vegar að fyrningu hafi verið slitið með höfðun málsins fyrir Félagsdómi þá kveðst stefnda byggja á því, að liðinn hafi verið 6 mánaða frestur 1. mgr. 11. gr. i.f. fyrningarlaga og hafi fyrningu því ekki verið slitið með málshöfðuninni fyrir Félagsdómi.
Kröfur stefnanda samkvæmt stefnu kveður stefnda vera allt frá árinu 1994, en hann hafi fyrst gert ahugasemd við útreikning launa fyrrihluta árs 1997. Fram að þeim tíma hafi stefnandi veitt launum sínum viðtöku án athugasemda. Stefnda kveður þetta tómlæti stefnanda hljóta að hafa áhrif á rétt hans til að krefjast leiðréttingar á launum og eigi það að leiða til þess að stefnda verði sýknað af kröfum stefnanda. Stefnda mótmælir þeirri fullyrðingu stefnanda, að hann hafi gert athugasemd við útreikning launa veturinn 1994-1995. Stefnandi hafi þann vetur einungis viðrað þá skoðun sína við stefnda, að laun hans væru of lág miðað við laun þeirra manna sem unnu við löndun á kvöldin.
Stefnda heldur því einnig fram, að gert hafi verið upp við stefnanda samkvæmt starfslokasamningi hans við stefnda og verði ekki annað ráðið af stefnu málsins en stefnandi sé bundinn af nefndum samningi.
Í grein 20.10.1. umrædds kjarasamnings kveður stefnda að finna reglu um hvernig reikna eigi laun stefnanda út og komi þar fram, að þau séu sett saman úr dagvinnu yfirvinnu og helgidagavinnu. Telur stefnda að ekki eigi að greiða yfirvinnukaup ef unnið sé umfram 173,33 tíma eins og stefnandi krefst, því ekki sé gert ráð fyrir því í kjarasamningum sem kveða á um jafnaðarkaup, sem ekki sé andstætt lögum nr. 55, 1988. Bendir stefnda í þessu sambandi á grein 20.10.2.1. í kjarasamningnum, en þar segi að greiða eigi 80 % álag á vaktakaupið á stórhátíðum. Á stórhátíðum sé greidd yfirvinna með álagi og sé það almenn regla að því er virðst samkvæmt kjarasamningum allra stétta. Kveður stefnda ekki að finna í þeim hluta kjarasamningsins, sem lagður sé fram, nein önnur ákvæði um að greiða eigi fyrir yfirvinnu eins stefnandi geri kröfu um. Með gagnályktun frá þessu verði samningurinn því ekki skilinn öðruvísi en svo, að stefnda hafi greitt stefnanda í samræmi kjarasamninginn, enda hafi greindur háttur verið hafður á í fjölda ára án þess að gerðar hafi verið við það athugasemdir.
Stefnda kveður í stefnu ekki vera að finna rökstuðning fyrir því hvers vegna greiða eigi yfirvinnuálag á vaktavinnutímakaupið. Samkvæmt fyrirliggjandi kjarasamningi þá sé ekki að finna neitt sem styðji nefnda kröfu stefnanda. Stefnandi hafi verið lausráðinn og gildi því um hann kafli 20.10. og í þeim kafla sé ekki að finna stoð fyrir kröfum hans. Kveður stefnda almennu regluna vera þá, að ef greiða eigi fyrir yfirvinnu þá eigi að greiða hana með sérstöku álagi á dagvinnukaup, sbr. t.d. grein 20.3.5. í kjarasamningnum. Eina undantekningin frá þessu sé grein 20.10.2.1. sem fjallar um svokallaða stórhátíðardaga.
Kröfu stefnanda um 60 % álag á allar samfelldar vaktir umfram 7. vakt kveður stefnda enga stoð eiga í framlögðum kjarasamningi. Kveður stefnda orðalag greinar 20.10.2. í kjarasamningnum hins vegar benda eindregið til að það sé einungis 7. hverja vakt, sem greiða eigi með nefndu álagi.
Þá kveðst stefnda mótmæla kröfu stefnanda um dráttarvexti og vísar stefnda um rökstuðning til umfjöllunar hér að framan um fyrningu. Einnig vísar stefnda til þess, að stefnanda hafi verið boðin greiðsla á fyrrihluta ársins 1997 þegar hann hafi sett fram athugasemdir sínar án þess að gera beinar fjárkröfur. Um lagarök varðandi framangreint vísar stefnda til 13. gr., sbr. 2. og 3. mgr. 9. gr. laga nr. 25, 1987.
Skýrslur fyrir dómi gáfu auk stefnanda Sigurgísli Sveinbjörnsson vaktmaður, Jón Hallur Pétursson fjármálastjóri stefnda, Hallgrímur Gíslason starfsmaður stefnda og Björgólfur Jóhannsson fyrrverandi framkvæmdastjóri stefnda.
Í kjarasamningi Verkamannasambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands, sem gilti frá 21. febrúar 1995 til 23. mars 1997 segir, að fyrir 7. vakt greiðist 60 % álag á vaktakaupið. Víðtækari greiðsluskylda launagreiðanda verður ekki leidd af öðrum ákvæðum kafla 20.10. í samningnum, sem fjallar um lausráðna vaktmenn í skipum. Þá verður ekki séð að greinar 20.3.3. og 20.4.1. samningsins, sem stefnandi vísar til, leiði til annarrar niðurstöðu. Verður því að hafna kröfu stefnanda um að greitt verði 60 % álag á vaktakaupið frá og með 8. vakt þar til hvíldardagur fékkst.
Þrátt fyrir þá staðreynd, að stefnandi hafði ekki fastar vaktir samkvæmt vaktskrá, verður að telja, að regla greinar 20.3.6. í kjarasamningnum hafi gilt um hann, enda á nefnd grein sér nokkra stoð í lögum nr. 88, 1971 um 40 stunda vinnuviku. Í grein 20.3.6. er kveðið á um það, að vaktir, sem starfsmenn taki að sér utan vaktskrár, sem svari til 173,33 stunda á mánuði, greiðist sem yfirvinna. Grein 20.10.1., sem kveður á um hvernig meta skuli 12 tíma vaktir lausráðinna vaktmanna í skipum til dagvinnueininga, verður því að túlka með hliðsjón af reglu greinar 20.3.6. Verður því að telja, að vinnustundir stefnanda umfram 173,33 stundir á mánuði eigi að greiða með 80 % yfirvinnuálagi, að slepptum þeim stundum sem hann fékk betur greiddar samkvæmt öðrum ákvæðum samningsins, sbr. grein 20.10.2.
Samkvæmt grein 20.3.5 í umræddum kjarasamningi greiðist yfirvinna með 80 % álagi á dagvinnutímakaup. Stefnandi hefur ekki rökstutt með fullnægjandi hætti kröfu sína um að ofangreint 80 % álag skuli greiða ofan á vaktakaupið. Verður því að dæma stefnda til að greiða stefnanda 80 % álag ofan á dagvinnutímakaupið vegna þeirra vinnustunda sem fóru fram yfir 173,33, sbr. meginreglu greinar 20.3.5., hafi þær stundir ekki verið betur greiddar með öðrum hætti líkt og áður var getið.
Ekki er þörf á að fjalla sérstaklega um, hvort stefnandi hafi slitið fyrningu krafna sinna með málshöfðun fyrir Félagsdómi, þar sem fyrir liggur, að hann höfðaði mál þetta ekki innan þess 6 mánaða frests, sem kveðið er á um í 11. gr. i.f. fyrningarlaga nr. 14, 1905, en sá frestur tók að líða með frávísunarúrskurði dómsins uppkveðnum þann 1. febrúar 1999. Miða verður því við að fyrningarfrestur krafna stefnanda hafi ekki verið rofinn fyrr en með birtingu stefnu í máli þessu þann 28. október 1999. Þær kröfur stefnanda, sem gjaldkræfar urðu fyrir 28. október 1995, eru því fyrndar, sbr. 1. tl. 3. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr. fyrningarlaga.
Ekki verður fallist á það með stefnda, að stefnandi hafi afsalað sér rétti til vangreiddra launa með gerð starfslokasamnings dags. 5. mars 1997. Engin ákvæði eru um vangreidd laun eða kröfur vegna þeirra í nefndum samningi og er því á engan hátt hægt að túlka samninginn með þeim hætti, að í honum felist afsal krafna vegna vangreiddra launa.
Stefnandi bar einn fyrir dómi, að stefnda hafi veturinn 1994-1995 tekið til skoðunar að ábendingu stefnanda, hvort laun hans væru rétt út reiknuð samkvæmt ákvæðum kjarasamnings. Stefnda hefur við rekstur málsins mótmælt þessari fullyrðingu stefnanda og haldið því fram, að athugasemdir stefnanda hafi varðað launakjör stefnanda en ekki það hvort launin væru réttilega út reiknuð. Þar sem ekkert í gögnum málsins styður greinda fullyrðingu stefnanda nægilega verður að telja ósannað að stefnda, eða starfsmenn þess, hafi nefndan vetur lýst því yfir, að ekkert væri athugavert við útreikning launa stefnanda. Þegar af þeirri ástæðu verður greiðsluskylda stefnda ekki reist á slíkri viðurkenningu.
Með vísan til ofangreinds verður, gegn mótmælum stefnda, ekki miðað við að stefnda hafi verið ljóst, að stefnandi teldi laun sín ranglega útreiknuð, fyrr en í febrúar 1997. Það verður á hinn bóginn ekki metið stefnanda til tómlætis, að hafa ekki gert athugasemd við launaútreikning stefnda fyrr en í nefndum mánuði. Það var stefnda sem sá um útreikning launanna og hafði stefnda því mun betri aðstöðu en stefnandi til að gera sér grein fyrir, að eitthvað gæti verið athugavert við útreikning þeirra.
Stefnandi sjálfur og vitnið Sigurgísli Sveinbjörnsson báru báðir fyrir dómi, að þeir hafi skilið framkomu framkvæmdastjóra stefnda Guðbrands Sigurðssonar á fundi, sem þeir áttu með Guðbrandi og Gunnari Larsen starfsmanni stefnda í febrúar 1997, á þann hátt, að hann viðurkenndi réttmæti kröfu stefnanda. Jón Hallur Pétursson fjármálastjóri stefnda bar fyrir dómi, að stefnda hefði aldrei sér vitandi viðurkennt kröfu stefnanda. Hann kannaðist þó við að í kjölfar nefnds fundar með stefnanda hefði verið tekið til skoðunar hvort stefnandi fengi réttilega greidd laun samkvæmt kjarasamningi. Boð stefnda um greiðslu til handa stefnanda hafi hins vegar ekki byggst á skyldu heldur hafi stefnda ekki viljað standa í deilum við fyrrverandi starfsmann sinn og því viljað ljúka málinu. Vitnið Hallgrímur Gíslason, sem sá um útreikning launa starfsmanna hjá stefnda á umræddu tímabili, bar fyrir dómi, að því hafi verið falið að framkvæma ákveðinn útreikning grundvallaðan á framkominni fyrirspurn um hvort laun stefnanda væru rétt út reiknuð. Kvað vitnið þetta hafa verið gert snemma árs 1997 og hafi einungis verið um að ræða útreikning á framkomnum kröfum en ekki „viðurkenningu á einu eða öðru“. Verður með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og eindreginna mótmæla stefnda, að telja ósannað að Guðbrandur Sigurðsson framkvæmdastjóri stefnda hafi á nefndum fundi viðurkennt réttmæti kröfu stefnanda, enda bera gögn málsins það með sér að krafa stefnanda hafi á þessum tíma verið ómótuð.
Samkvæmt sundurliðun stefnanda var tímakaup hans á árinu 1995 eftirfarandi; dagvinnukaup kr. 320,05, vaktakaup kr. 454,47 og yfirvinnukaup kr. 576,09. Á árunum 1996 og 1997 var tímakaup hans hins vegar eftirfarandi; dagvinnukaup kr. 335,63, vaktakaup kr. 476,59 og yfirvinnukaup kr. 604,13. Orlofslaun á greindu tímabili voru samkvæmt kröfugerð stefnanda 10,17 % af öllum launum, sbr. grein 4.1 í títtnefndum kjarasamningi. Stefnda hefur ekki mótmælt greindum tölum sérstaklega og verður því við þær að miða.
Eins og rakið var hér að framan eru kröfur stefnanda, sem gjaldkræfar urðu fyrir 28. október 1995, fyrndar. Stefnandi fékk laun sín greidd vikulega og verður því samkvæmt almennum reglum að miða við, að kröfur vegna vinnu fram til sunnudagsins 22. október 1995 séu fyrndar. Það sem eftir var ársins 1995 skilaði stefnandi 648 vinnustundum í starfi sínu hjá stefnda. Vinnuskylda hans á umræddu tímabili samkvæmt framansögðu var hins vegar 173,33 x 2,5, þ.e. 433,33 stundir. Stefnandi vann því 214,67 stundir umfram vinnuskyldu á tímabilinu. Hann fékk 72 stundir greiddar með 60 % álagi á vaktakaupið vegna 7. næturinnar og 24 stundir með 80 % álagi ofan á vaktakaupið vegna vinnu á stórhátíðum. Að þeim stundum frádregnum standa eftir 118,67 og fékk hann þær greiddar á vaktakaupi, 118,67 x 454,47 þ.e. kr. 53.932,-. Stefnandi átti hins vegar samkvæmt framangreindri niðurstöðu að fá fyrir þessar stundir 118,67 x 576,09 þ.e. kr. 68.365,-. Mismunur þeirra launagreiðslna sem stefnandi fékk og þeirra sem hann átti að fá er því kr. 14.433,- að vibættu 10,17 % orlofi. Vangreidd laun stefnanda vegna ársins 1995 eru því kr. 15.901,-.
Árið 1996 skilaði stefnandi 3340 vinnustundum í starfi sínu hjá stefnda. Vinnuskylda hans á árinu samkvæmt framansögðu var hins vegar 173,33 x 12, þ.e. 2079,96 stundir. Stefnandi vann því 1260,04 stundir umfram vinnuskyldu á árinu. Hann fékk 276 stundir greiddar með 60 % álagi á vaktakaupið vegna 7. næturinnar og 48 stundir greiddar með 80 % álagi ofan á vaktakaupið vegna vinnu á stórhátíðum. Að þeim stundum frádregnum standa eftir 936,04. Af þeim fékk stefnandi 100 greiddar á dagvinnukaupi, en 836,04 á vaktakaupi. Greiðslur vegna dagvinnu voru því 100 x 335,63 þ.e. kr. 33.563,-, en vegna vaktavinnu 836,04 x 476,59 þ.e. kr. 398.448,-. Samanlagðar greiðslur vegna hinna 936,04 stunda voru því kr. 432.011,-. Stefnandi átti hins vegar samkvæmt framangreindri niðurstöðu að fá fyrir þessar stundir 936,04 x 604,13 þ.e. kr. 565.490,-. Mismunur þeirra launagreiðslna sem stefnandi fékk og þeirra sem hann átti að fá er því kr. 133.482,- að viðbættu 10,17 % orlofi. Vangreidd laun stefnanda vegna ársins 1996 eru því kr. 147.057,-.
Árið 1997 skilaði stefnandi 516 vinnustundum í starfi sínu hjá stefnda. Þar sem stefnandi starfaði einungis hjá stefnda í 9 vikur á árinu var vinnuskylda hans á því samkvæmt framansögðu 173,33 x 2,25, þ.e. 390 stundir. Stefnandi vann því 126 stundir umfram vinnuskyldu á nefndu tímabili. Hann fékk 48 stundir greiddar með 60 % álagi á vaktakaupið vegna 7. næturinnar og að þeim stundum frádregnum standa eftir 78. Af þeim fékk stefnandi 12 greiddar á dagvinnukaupi, en 66 á vaktakaupi. Greiðslur vegna dagvinnu voru 12 x 335,63 þ.e. kr. 4.028,-, en vegna vaktavinnu 66 x 476,59 þ.e. kr. 31.455,-. Samanlagðar greiðslur vegna hinna 78 stunda voru því kr. 35.483,-. Stefnandi átti hins vegar samkvæmt framangreindri niðurstöðu að fá fyrir þessar stundir 78 x 604,13 þ.e. kr. 47.122,-. Mismunur þeirra launagreiðslna sem stefnandi fékk og þeirra sem hann átti að fá er því kr. 11.639,- að viðbættu 10,17 % orlofi. Vangreidd laun stefnanda vegna ársins 1997 eru því kr. 12.823,-.
Með vísan til alls þess sem hér hefur verið rakið dæmist stefnda til að greiða stefnanda vegna vangoldinna launa kr. 175.781,- ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 frá 28. október 1999 til greiðsludags.
Eftir framangreindum úrslitum þykir rétt að dæma stefnda til greiðslu málskostnaðar sem þykir hæfilegur krónur 95.000,- og er þá virðisaukaskattur á málflutningsþóknun meðtalinn.
Dóm þennan kveður upp Freyr Ófeigsson, dómstjóri.
DÓMSORÐ :
Stefnda, Útgerðarfélag Akureyringa h.f., greiði stefnanda, Hauki Konráðssyni, kr. 175.781,- ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 frá 28. október 1999 til greiðsludags og kr. 95.000,- í málskostnað.