Hæstiréttur íslands

Mál nr. 65/2009


Lykilorð

  • Vinnuslys
  • Líkamstjón


Fimmtudaginn 8

 

Fimmtudaginn 8. október 2009.

Nr. 65/2009.

Björgvin Pálmar Jónsson

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Samskipum hf.

(Lilja Jónasdóttir hrl.)

 

Vinnuslys. Líkamstjón.

B krafði S hf. um bætur vegna slyss sem hann hafði orðið fyrir er hann vann sem umsjónarmaður á bílaþvottastöð S hf. Var B við vinnu sína er dæla, sem sá um að dæla olíuhreinsivökva úr tanki fyrir utan þvottastöðina og inn á þvottavél, stóð á sér. Til þess að koma dælunni af stað og tæma loft sem þar myndaðist tók B slönguna í sundur og tók að sjúga vökvann upp til að koma henni í gang aftur. Er dælan tók við sér hætti B að sjúga en var ekki nægilega fljótur að skrúfa slönguna saman aftur og spýttist olíuhreinsivökvinn yfir hann og fór talsvert magn ofan í B sem varð fyrir varanlegum skaða vegna þessa. Talið var að B hefði að eigin frumkvæði tekið ákvörðun um að taka slönguna í sundur og sjúga vökvann upp. Yrði slysið ekki rekið til skyndilegrar bilunar í dælunni heldur til vinnulags hans. Hefði B, sem áður hafði unnið á vélaverkstæði S hf. í um 6 ár, mátt gera sér grein fyrir þeirri áhættu sem hann tók í umrætt sinn. Yrði slysið því rakið til óaðgæslu af hans hálfu en ekki til atvika er vörðuðu S hf. Var S hf. því sýknað af kröfu B.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson. 

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. febrúar 2009. Hann krefst aðallega ómerkingar héraðsdóms og heimvísunar málsins, en til vara að stefnda verði gert að greiða sér 3.955.066 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 10. ágúst 2005 til 26. júní 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. 

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Við meðferð málsins í héraði var gætt ákvæðis 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Ekki verður fallist á með áfrýjanda að mál þetta sé þess eðlis að héraðsdómara hafi borið að kveðja sérfróða meðdómsmenn til setu í dómi samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991. Verður ómerkingarkröfu áfrýjanda því hafnað. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Björgvin Pálmar Jónsson, greiði stefnda, Samskipum hf., 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 2008.

                Mál þetta, sem dómtekið var 14. október sl., er höfðað 15. júní 2007.

                Stefnandi er Björgvin Pálmar Jónsson, Álfkonuhvarfi 21, Kópavogi

Stefndi er Samskip hf., Holtavegi við Holtabakka, Reykjavík.

Dómkröfur

Stefnandi gerir þær dómkröfur aðallega að hið stefnda félag verði dæmt til að greiða stefnanda 3.955.066 krónur ásamt 4,5% ársvöxtum frá 10. ágúst 2005 til 26. júní 2007 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags.

Þá er gerð krafa um málskostnað að skaðlausu, þar sem hliðsjón verði höfð af því að stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur og þeim kostnaði sem stefnandi hefur orðið fyrir vegna málsins.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins. Til vara er þess krafist að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega, að bótaábyrgð verði skipt milli málsaðila og að málskostnaður verði felldur niður.

Málavextir

Stefnandi, sem var starfsmaður stefnda, hafði umsjón með bílaþvottastöð stefnda og var eini starfsmaður hennar. Hinn 10. ágúst 2005 varð hann fyrir slysi við vinnu sína. Aðstæður voru þannig að dæla, sem sá um að dæla olíuhreinsivökva úr tanki fyrir utan þvottastöðina og inn á þvottavélina, stóð á sér. Til þess að koma dælunni af stað og tæma loft sem þar hafði myndast tók stefnandi slöngu sem lá að dælunni í sundur og tók að sjúga vökvann upp til að koma dælunni í gang. Er dælan tók við sér hætti stefnandi að sjúga og skrúfaði slönguna saman aftur. Þurfti hann að hafa hraðann á til þess að vökvinn spýttist ekki út. Í umrætt sinn var stefnandi ekki nægilega fljótur að skrúfa slönguna saman og spýttist olíuhreinsivökvinn yfir hann. Fór talsvert magn ofan í stefnanda og kveðst hann strax haf fundið fyrir miklum óþægindum. Hann hafi því beðið félaga sinn að aka sér á slysadeild í Fossvogi.

Í vottorði slysadeildar frá 7. júlí 2006 segir að greining deildarinnar hafi verið aspirations pneumonit, sem er lungnabólga í kjölfar þess að hafa fengið ofan í öndunarveginn og lungun ertandi efni. Við síðasta skráða eftirlit á slysadeild var skráð að hann væri með viðvarandi einkenni eftir að hafa fengið ofan í sig olíuhreinsilög frá ágúst 2005, væri með væga teppu og þyrfti innúðastera og berkjuvíkkandi lyf til að halda einkennunum niðri. Öndunarpróf sýndi 90% af forspárgildi sem hafi verið hans bestu gildi fram að því. Þá segir að stefnandi virðist vera með varanlega skerðingu á lungnarúmmálum og öndunarpróf minnkað um 10% miðað við forspárgildi fyrir aldur og hæð.

Í niðurstöðu vottorðs Magna Jónssonar, sérfræðings í lungnasjúkdómum, dags. 23. apríl 2007, segir að stefnandi hafi, í kjölfar slyssins, fengið bráða bólgusvörun í bæði lungu með miklum lungnaeinkennum og almennum einkennum fyrstu vikuna. Er áfram með viðvarandi hósta og viðkvæmni í öndunarveginum og greinist í kjölfarið með vægan viðvarandi astma. Breytingar í lungnavef á háskerpuskanna sjáist tveimur mánuðum eftir slysið og tveimur árum síðar séu enn vægar breytingar og auk þess veggbreytingar í lungnapípum sem samrýmist varanlegum skemmdum í lungnapípum. Ekki sé að vænta frekari bata þar sem þetta langur tími hafi liðið frá slysinu.

Samkvæmt matsgerð Sigurðar Sigurjónssonar læknis og Björns Daníelssonar lögfræðings, sem unnin var að beiðni stefnanda, er tímabundið atvinnutjón hans metið 100% frá 10. ágúst 2005 til 17. ágúst s.á. Þjáningabætur eru miðaðar við tímabilið 10. ágúst 2005 til 12. ágúst s.á með rúmlegu, en tímabilið 13. ágúst 2005 til 16. nóvember s.á. án rúmlegu. Varanlegur miski er metinn 12% og varanleg örorka 10%.

Starfsmaður stefnda tilkynnti Vinnueftirliti ríkisins um slysið með tölvupósti þann 22. ágúst 2005. Ástæða þess að ekki var tilkynnt um slysið fyrr kveður stefndi að rekja til þess að forsvarsmönnum stefnda hafi ekki verið kunnugt um að það hefði átt sér stað fyrr en þann dag. Hafi stefnandi ekki tilkynnt forsvarsmönnum stefnda um slysið fyrr en 22. ágúst 2005.

Á grundvelli ofangreindrar matsgerðar setti stefnandi fram bótakröfu á hendur stefnda með bréfi, dags. 11. júní 2007. Af hálfu stefnda var bótakröfu hafnað.

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi byggir kröfur sínar í málinu á því að það hafi ekki verið sök stefnanda að dælan var biluð og að ekki var gert við hana. Hafi það verið sök vinnuveitanda hans.

Stefnandi byggir bótakröfu sína á því að höfuðorsök slyssins sé bilun í tæki/vanbúnaður í tæki eða vél. Hefði slík sjálfsögð varúðarráðstöfun verið sýnd að hafa þessa hluti í lagi og undir eðlilegu eftirliti, hefði slysið ekki orðið.

Stefnandi byggir á því að stefndi beri ótvíræða bótaábyrgð á vinnuslysi stefnanda. Sú ábyrgð grundvallist á almennu skaðabótareglunni og reglunni um húsbóndaábyrgð, sem og reglum um aukna ábyrgð atvinnurekanda vegna ófullnægjandi aðbúnaðar á vinnustað, þar sem unnið hafi verið með hættuleg efni.

Á því er byggt að aðbúnaður stefnanda hafi verið óforsvaranlegur og stefndi hafi vanrækt að tryggja stefnanda öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi, eins og kveðið sé á um í lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Byggir stefnandi á því að það hafi verið óforsvaranlegt af stefnda að hafa dæluna svo vanbúna, þar sem hún hafi dælt hættulegum eiturefnum. Þrátt fyrir kvartanir um hættuna, hafi engar úrbætur verið gerðar, eins og stefnda hafi borið skylda til samkvæmt t.d. 4. og 5. gr. reglugerðar um notkun tækja nr. 431/1997. Stefnda hafi og borið skylda til, samkvæmt I. viðauka reglugerðarinnar, ákvæði 2.5 og 2.17, að sjá til þess að notkun vélarinnar ylli ekki starfsmönnum slysahættu. Stefnda hafi borið að gera ráðstafanir til að gera við eða í það minnsta gera eitthvað til að afstýra tjóni. Þessi vanræksla hafi almennt verið til þess fallin að skapa slysahættu og hafi forsvarsmönnum stefnda mátt vera það ljóst og þá sérstaklega með tilliti til þess, að enginn hafi í raun vitað hvað dælan var fljót að taka við sér, sem hafi verið upp á von og óvon. Stefnandi byggir á því að slysið sé afleiðing af saknæmu gáleysi, en vinnuveitandi beri bótaábyrgð á tjóni sem starfsmenn valda með ólögmætum og saknæmum hætti. Stefnda hafi borið sú lágmarksskylda samkvæmt 46. gr. laga nr. 46/1980 og reglugerð nr. 431/1997 að sjá svo um að dælubúnaðurinn væri þannig úr garði gerður að gætt væri fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Með því að láta hjá líða að gera við dæluna eða gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir slysahættu, hafi stefndi gerst sekur um vítavert gáleysi sem hann beri bótaábyrgð á.

Stefnandi byggir einnig á því að hann hafi unnið á vinnustað þar sem fram hafi farið meðhöndlun hættulegra eiturefna og því hafi vinnuveitandi hans átt að hafa sérstakar varúðarráðstafanir í heiðri varðandi vinnu með þessi efni, eins og skylda hans hafi verið samkvæmt 10. og 12. gr. laga nr. 52/1988 um eiturefni og hættuleg efni, sbr. og ákvæði reglugerðar nr. 236/1990 um meðferð eiturefna, sbr. 5. grein þessarar reglugerðar. Byggir stefnandi á því að ekki hafi verið farið eftir þessum reglum. Allt slíkt eftirlit hafi skort og beiðnir stefnanda um úrbætur hafi verið að engu hafðar. Hann hafi hins vegar ekki þorað annað en að reyna að standa sig í starfi og halda þessari rekstrareiningu gangandi með eins litlum tilkostnaði og unnt væri, en að honum hafi verið lagt um það. Hann hafi því hlýðnast yfirboðurum sínum og haldið starfinu áfram við þessar aðstæður og greinilega verið óþarflega þolinmóður eftir úrbótum.

Stefnandi byggir einnig á því að ekki hafi verið farið eftir ákvæðum 1. mgr. 79. greinar laga nr. 46/1980, með síðari breytingum, þegar stefnandi slasaðist. Stefnandi hafi verið lagður inna á LSH í þrjá daga fyrst eftir slysið og strax hafi verið ljóst að um verulegt heilsutjón hans væri að ræða. Allan vafa í máli þessu beri því að skýra stefnanda í hag.

 Töluleg útlistun á kröfum stefnanda sé eftirfarandi:

1. Miskabætur: 6.522.000 x 12 stig

kr. 717.3602 kr.

2. Bætur fyrir varanlega örorku:

4.150.000 x 12.813 x 10%                               

 

kr. 5.317.400

3. Þjáningabætur                                           

kr. 107.820

5. Annað fjártjón, sjúkrakostnaður            

kr. 30.000

Samtals stefnufjárhæð                                 

kr. 6.237.884

               

Séu kröfur þessar nánar rökstuddar með eftirfarandi hætti:

Miskabætur: Höfuðstóll 4.000.000 hækkaður skv. lánskjaravísitölu m.v. stöðugleikapunkt 16. nóvember 2005, þannig: 4.000.000x4.905 vst. nóv. 2005/3282=5.978.000. 5.978.000x12% eða 717.360 krónur.

Bætur fyrir varanlega örorku: Laun árið 2002 kr. 3.021.418xlaunavst. á stöðugleikapunkti, 5.901/launavst. 1.1.2003, stig 4.989=3.573.739. Laun árið 2003 kr. 3.228.937x5901/launavst. 1.1.2004 stig 5.264=3.619.672. Laun árið 2004 kr. 3.156.739x5901/launavst. 1.1.2005, stig 5.550=3.356.381. Meðallaun 3.516.597xhækkun um líf.gr. atvinnurekanda 106%=3.727.593. Miðað er við stuðul 7. greinar og aldur stefnanda á stöðugleikapunkti, en þá var stefnandi 30 ára, 12.813.

Þannig reiknað 3.727.593x12,813x10%=4.776.164 krónur.

Þjáningabætur: 700x4905/3282=1.046x89=93.094.1.300x4905/3282=1.940x3=5.820. Samtals 98.914 krónur.

Samtals bótakrafa: 717.360+4.776.164+98.914=5.592.438-(685.589, bætur úr launþegatr.+bætur frá Tr. 951.783)=3.955.066 krónur.

Stefnandi vísar til reglna um öryggi á vinnustöðum og almennu skaðabótareglunnar, sem og reglunnar um húsbóndaábyrgð. Þá vísar stefnandi til 13. gr., 37. gr. og 46. gr. laga nr. 46/19890. Einnig er vísað til 5. gr. reglugerðar nr. 367/2006, áður 431/1997 um notkun tækja er hljóði svo:

„Atvinnurekandi skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að tæki sem starfsmönnum er ætlað að nota innan fyrirtækisins hæfi verkinu sem inna skal af hendi eða sé hæfilega lagað að verkinu, þannig að starfsmenn geti notað tækið án þess aõ öryggi þeirra eða heilsu sé hætta búin.

Við val á tæki skal atvinnurekandi hafa til hliðsjónar þau sérstöku vinnuskilyrði, aðstæður og áhættu sem fyrir hendi er innan vinnustaðar, þar á meðal áhættu á vinnusvæði og þá áhættu sem notkun viðkomandi tækis hefur í för með sér.

Þegar ekki er að fullu unnt að tryggja að starfsmenn geti notað tæki án þess að öryggi og heilsu þeirra sé hætta búin, skal atvinnurekandi gera nauðsynlegar ráðstafanir til að draga úr áhættunni eins og kostur er.“

Einnig þyki rétt að vísa til 3. gr. sömu reglugerðar er hljóði svo:

„Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

a. tæki: vél eða vélbúnaður, áhöld, verkfæri eða þess háttar búnaður sem notaður er á vinnustöðum;

b. notkun tækja: hvers konar athafnir sem tengjast tækjum, svo sem að ræsa þau eða stöðva, beiting þeirra, flutningur, viðgerðir, breytingar, viðhald og umhirða, þar með talin þrif;

c. hættusvæði: öll svæði umhverfis tækin eða innan þeirra þar sem heilsu eða öryggi starfsmanns er                hætta búin;

d. starfsmanni sem er hætta búin: hver sá starfsmaður sem er á hættusvæði;

e. stjórnandi: starfsmaður eða starfsmenn sem falið er að nota tækin;.“

Auk þess vísar stefnandi til ofangreindra ákvæða skaðabótalaga varðandi tölulega uppbyggingu skaðabótakröfunnar.

Þá vísar stefnandi til laga nr. 52/1988 um eiturefni, til reglugerðar nr. 236/1990, reglugerðar nr. 602/1999 og reglugerðar nr. 765/2001.

Málsástæður stefnda og lagarök

Sýknukrafa stefnda er í fyrsta lagi reist á því að ósannað sé að tjónið megi rekja til atvika sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á að lögum eða til saknæmrar háttsemi hans. Í öðru lagi er á því byggt að stefnandi verði að bera tjón sitt að fullu sjálfur vegna eigin sakar. Í þriðja lagi að óhappið hafi ekki verið tilkynnt vinnuveitanda á réttum tíma og í fjórða lagi á því að stefnandi hafi ekki lagt fram fullnægjandi gögn til stuðnings meintu tjóni sínu.

Af gögnum málsins megi ráða að orsök tjóns stefnanda hafi verið óhappatilvik og/eða óaðgæsla hans sjálfs.

 

1. Ósannað að tjónið megi rekja til atvika sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á að lögum

Stefndi byggir kröfu sína um sýknu í fyrsta lagi á því að um óhappatilvik hafi verið að ræða og verði það ekki rakið til atvika né háttsemi sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á. Það sé ljóst að umrætt tjón stefnanda sé ekki hægt að rekja til óeðlilegrar háttsemi stefnda. Skilyrðum sakarreglunnar sé ekki fullnægt og geti stefndi með engu móti orðið bótaskyldur og sé bótaábyrgð alfarið hafnað.

Fyrir liggi að stefnandi var eini starfsmaður þvottastöðvarinnar þegar hið meinta slys átti sér stað og sá alfarið um rekstur hennar. Stefnandi hafi einnig alfarið haft umsjón með öllum tækjabúnaði stöðvarinnar. Í starfi hans hafi falist að veita leiðbeiningar um umgengni og notkun tækja stöðvarinnar og fylgjast með því að öll tæki væru i lagi og hafa umsjón með viðgerðum tækja og búnaðar þvottastöðvarinnar. Stefnandi hafi haft margra ára reynslu á þessu sviði enda hafi hann áður unnið við viðgerðir á vélaverkstæði stefnda til margra ára og hann því sá eini sem hafi verið bær til að meta það ef viðgerðar hafi verið þörf á búnaðinum.

Þau vinnubrögð stefnanda að opna olíuhreinsilögnina og sjúga upp olíuhreinsiefnið hafi alfarið verið á ábyrgð stefnanda sjálfs og alls ekki samkvæmt leiðbeiningum né fyrirmælum frá stefnda. Það liggi fyrir, samkvæmt frásögn stefnanda sjálfs, að honum hafi verði ljóst að dælan hafi ekki verið í lagi. Allar lagnir til og frá viðkomandi dælu hafi verið og séu án leka og ekki á nokkurn hátt hættulegar. Það hafi verið stefnandi, sem að sínu frumkvæði, hafi tekið lögnina í sundur og hafi þannig, með sínu eigin hátterni og vinnubrögðum, skapað þá hættu sem raun varð á. Ljóst sé að það hafi verið hlutverk stefnanda, sem eina starfsmanns þvottastöðvarinnar, að kalla til viðgerðaraðila þegar honum varð ljóst að búnaðurinn virkaði ekki. Það séu skýr tilmæli frá stefnanda til starfsmanna sinna að ekki sé notaður tækjabúnaður sem ekki sé í lagi og sé fráleitt að halda því fram sú aðferð sem stefnandi notaði í umrætt sinn geti með nokkrum hætti varpað bótaábyrgð á stefnda. Í þvottastöðinni séu jafnframt þrjár handvirkar hreinsidælur sem unnt sé að nota í sama tilgangi og hafi þær verið í fullkomnu lagi á þeim tíma er umræddur atburður átti sér stað. Hefði stefnandi eðlilega átt að nota þær frekar en að nota þá hættulegu aðferð sem hann kaus að nota til reyna að koma bilaðri hreinsidælu í gang.

Samkvæmt þessu mótmælir stefndi harðlega að umdeildar aðstæður á slysstað hafi verið óforsvaranlegar og hættulegar.

Stefndi mótmælir einnig, með sömu rökum og gerð sé grein fyrir hér að framan, að skyldur laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglna nr. 367/2006 áður 431/1997 um notkun tækja hafi verið brotnar, sbr. einnig ákvæði laga nr. 52/1988 um eiturefni og hættuleg efni sbr. reglugerð nr. 236/1990 um meðferð eiturefna.

 

2.Eigin sök stefnanda

Verði ekki fallist á sýknu stefnda á grundvelli þess að um óhappatilvik hafi verið að ræða, reisir stefndi að auki sýknukröfu sína á því að stefnandi verði sjálfur að bera fulla ábyrgð á tjóni sínu vegna eigin sakar. Sé þessi málsástæða stefnda m.a. reist á skýrum reglum laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sbr. einkum ákvæði 20.-23. gr. laganna, þar sem kveðið sé á um skyldur verkstjóra. Þar sem stefnandi hafi verið eini starfsmaður þvottastöðvar og séð um rekstur hennar megi segja að hann hafi verið verkstjóri enda beri starfsskyldur hans, sem útlistaðar hafi verið hér að framan, það einnig klárlega með sér.

Ljóst sé samkvæmt þessu að stefnandi hafi borið ríkar skyldur samkvæmt lögum nr. 46/1980 er lúta að öryggismálum og aðbúnaðinum á vinnustaðnum. Í þeim efnum megi nefna að í 21. gr. laganna segi að verkstjóri sé fulltrúi atvinnurekanda og sjái um að búnaður allur sé góður og öruggt skipulag sé ríkjandi á þeim vinnustöðum sem hann hafi umsjón með. Þessari skyldu er síðan fylgt eftir í 1. mgr. 23. gr. þar sem kveðið sé á um að verkstjóri skuli beita sér fyrir, að starfsskilyrði innan þess starfssviðs, sem hann stjórni, séu fullnægjandi að því er varðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi. Hann skuli sjá um, að þeim ráðstöfunum, sem gerðar séu til þess að auka öryggi og bæta aðbúnað og hollustuhætti, sé framfy1gt. Það sé því ljóst að stefnanda hafi, sem verkstjóra, borið að sjá til þess að aðbúnaður væri fullnægjandi og það hafi verið í hans verkahring að leggja mat á hvort nauðsynlegt væri að kalla til viðgerðarmann þegar hann tók eftir því að búnaðurinn var bilaður, sbr. 2. mgr. 23. gr. sömu laga.

Stefndi byggir jafnframt á því að stefnanda hafi verið í lófa lagið að gera athugasemdir við starfshætti og aðbúnað á vinnustaðnum ef hann taldi að einhverju væri þar ábótavant. Auk þess hafi honum, sem verkstjóra og umsjónarmanni, borið að gera slíkar athugasemdir, sbr. 21.-23. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Stefnandi hafi aldrei tilkynnt forsvarsmönnum stefnda að um vanbúnað hjá stefnda væri að ræða.

Stefndi vísar einnig til sömu raka og fram koma í lið 1 hér að ofan til fyllingar málsástæðu liðar 2.

 

3. Óhappið ekki tilkynnt vinnuveitanda

Í málatilbúnaði stefnanda komi fram að þar sem stefndi hafi ekki tilkynnt slysið til Vinnueftirlits ríkisins þá beri hann hallann af því sem óljóst megi telja í málinu. Þessari staðhæfingu stefnanda er harðlega mótmælt og í þeim efnum vilji stefndi vekja sérstaka athygli á því að stefnandi hafi ekki haft samband við stefnda strax eftir að slysið átti sér stað. Bergvin Þórðarson, öryggisstjóri stefnda, kveðst hafa fengið vitneskju um slysið 22. ágúst 2005 og tilkynnt það strax til Vinnueftirlits ríkisins með tölvupósti, eftir samtal við stefnanda. Vegna þessa seinagangs hafi ekki verið gerð fullnægjandi rannsókn á slysstað. Meta verði vanrækslu stefnanda honum sjálfum í óhag.

 

4. Gögn um meint tjón stefnanda eru ófullnægjandi

Í 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 9. gr. laga nr. 37/1999, sé fjallað um mat á örorku hjá örorkunefnd. Þar komi fram í 1. mgr. að heimilt sé að óska álits örorkunefndar um ákvörðun örorku og/eða miskastigs, án þess að fyrir liggi sérfræðilegt álit, ef málsaðilar standi sameiginlega að slíkri beiðni. Með matsbeiðni, dags. 22. september 2006, hafi lögmaður stefnanda einhliða óskað eftir mati og hafi engan reka gert að því að lagfæra það, þrátt fyrir að fram hafi komið í bréfi lögmanns stefnda, dags. 6. október 2006, að stefndi myndi ekki standa að beiðninni með stefnanda.

Stefndi mótmæli sönnunargildi matsgerðar, dags. 4. júní 2007, þar sem þessa mats hafi verið aflað einhliða af stefnanda eins og áður segi og hafi matsmenn ekki verið dómkvaddir til starfans í samræmi við IX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sé matsgerðin því ófullnægjandi til sönnunar á tjóni stefnanda.

Varakrafa stefnda um verulega lækkun kröfufjárhæðar sé reist á eftirfarandi atriðum:

Stefndi byggir á því að bætur beri að lækka verulega vegna eigin sakar stefnanda. Hafi röksemdir því til stuðnings verið raktar hér að framan og vísist til þeirra.

Niðurstöðu matsgerðar sé mótmælt sem of hárri. Beri því að lækka einstaka liði í kröfugerð stefnanda eftir því sem við á.

Útreikningum stefnanda á fjárhæð stefnukröfu er mótmælt þar sem þeir séu ekki í samræmi við ákvæði skaðabótalaga nr. 50/1993 sbr. lög 37/1999. Skorað er á stefnanda að upplýsa um aðrar greiðslur frá þriðja manni er eiga að koma til frádráttar skaðabótum með vísan til 2. mgr. 3. gr., 4. mgr. 4. gr. og 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999.

Upphafsdegi dráttarvaxta er mótmælt. Stefnandi hafi ekki enn lagt fram þær upplýsingar sem þörf hafi verið á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Um lagarök til stuðnings sýknukröfu sinni vísar stefndi einkum til reglna skaðabótaréttar um sönnun tjóns og sönnunarbyrði, óhappatilvik, gáleysi og eigin sök tjónþola, auk skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999. Þá vísar stefndi til laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum til stuðnings varakröfu. Til stuðnings málskostnaðarkröfu sinni vísar stefndi til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Niðurstaða

                Í þinghaldi 13. maí sl. lagði stefnandi fram endanlega kröfugerð sína í málinu. Lögmaður stefnda óskaði eftir fresti til að gera athugasemdir við breytta kröfugerð stefnanda. Ekki hafa neinar athugasemdir komið fram af hálfu stefnda og er því litið svo á að ekki sé tölulegur ágreiningur í málinu. Hins vegar er fram komið að stefndi vefengir sönnunargildi framlagðar matsgerðar þar sem henni var einhliða aflað af stefnanda.

                Fyrir dómi bar stefnandi að hann hefði verið við vinnu sína í þvottastöðinni er slysið varð. Kvaðst hann hafa verið eini starfsmaður þvottastöðvarinnar og hafi hann séð um rekstur hennar. Var um nýtt starf að ræða hjá stefnda og hafði stefnandi verið í þessu starfi frá því í maí 2005, en hafði áður unnið á verkstæði stefnda. Fólst í starfi hans að sjá um viðhald tækja og skrá bifreiðar sem þangað komu. Olíuhreinsivökva, sem notaður var við þrif á bifreiðunum, var dælt úr tanki sem stóð utan við þvottastöðina í þvottavélina og í handbyssu. Stefnandi bar að fljótlega eftir að stöðin var tekin í notkun hafi farið að bera á því að olíudælan virkaði ekki sem skyldi. Ef þvottavélin hafði ekki verið notuð í nokkra klukkutíma missti hún niður olíuhreinsinn. Þegar slysið varð hafi það gerst að dælan stíflaðist. Hann hafi því losað slönguna frá dælunni til að lofttæma hana svo hún kæmist í gang aftur. Hafi hann gert það með því að sjúga slönguna þannig að vökvinn færi af stað upp í slönguna. Hafi hann sett slönguna á aftur til að herða en hafi ekki verið nógu fljótur og hafi hann fengið vökvann framan í sig. Hann hafi reynt að hreinsa sig í framan. Síðan hafi hann hringt í vinnufélaga sinn og beðið hann að keyra sig upp á spítala.

                Stefnandi kveðst hafa kvartað yfir dælunni við yfirmann sinn, Inga S. Ólafsson. Viðgerðarmaður hafi komið frá Olíudreifingu til að gera við en viðgerð hafi ekki borið árangur.

                Ingi Stefán Ólafsson, rekstrarstjóri og yfirmaður stefnanda á umræddum tíma, bar fyrir dómi að hlutverk stefnanda hefði verið sjá um daglegan rekstur þvottastöðvarinnar. Hafi hann haft með höndum umsjón og eftirlit og annast viðhald á tækjum.

Lýsti hann því að þvottastöðin sé opin allan sólarhringinn og hafi menn aðgang að henni með því að hringja í ákveðin símanúmer. Ekið sé inn í stöðina og bílar þvegnir eftir óskum hvers og eins. Bílstjórarnir annist þvottinn sjálfir og velji tegund þvotta á vélinni. Geti þeir einnig notað handbyssu við þvottinn.

Ingi bar að umræddur búnaður hefði ekki verið áreiðanlegur og hafi hann verið búinn að vera í sambandi við Olíufélagið, sem var seljandi búnaðarins, og óskað eftir að hann yrði lagfærður og bætt yrði úr. Hefði Olíufélagið haft samband við Olíudreifingu sem annaðist viðgerðir. Kvað Ingi þá Björgvin hafa verið búna að velta þessu vandamáli fyrir sér áður og eiga orðaskipti um það. Hafi þeir velt því fyrir sér hvernig ætti að leysa málið til framtíðar og hefðu verið með ábendingar þar að lútandi.

                Kom fram hjá Inga að olíudælan hefði ekki þurft að vera í gangi til að þvottastöðin gæti virkað eðlilega. Það væri val hvers og eins við þvottinn hvort hann veldi olíuhreinsi eða ekki. Þá væri minni þörf á að nota olíuhreinsi yfir sumarmánuðina.

                Birgir Pétursson, þjónustustjóri hjá Olíudreifingu, bar fyrir dómi að hann hefði komið fjórum til fimm sinnum fyrir slysið til þess að sinna viðgerð á dælunni.

Rúnar Sigurðsson, forstöðumaður gámavalladeildar stefnda, bar að hann hefði á umræddum tíma verið yfirmaður Inga Stefáns Ólafssonar. Hann bar að hann hefði ekki haft hugmynd um hvernig stefnandi bar sig að þegar dælan virkaði ekki og hefði ekki leyft það ef honum hefði verið kunnugt um það. Ný dæla hefði verið keypt og hefði verið búið að vinna í því um nokkurn tíma. Hefði það verið á ábyrgð Olíufélagsins að koma búnaðinum í lag.

Samkvæmt framlagðri starfslýsingu stefnanda, sem ekki hefur verið mótmælt af hálfu stefnanda, var það m.a. hlutverk hans að sjá um rekstur húseigna og tækja þvottastöðvar, þ.e. aðföng viðhald og endurbætur. Sjá um viðhald og rekstur á þvottavél og búnaði þvottastöðvar. Leiðbeina tækjanotendum um notkun stöðvar og umgengni. Var stefnandi eini starfsmaður þvottastöðvarinnar. Liggur ekki fyrir að hann hafi lotið verkstjórn neins á sínu vinnusvæði. Samkvæmt því sem fram hefur komið bar honum að tilkynna um bilanir í tækjum eða sjá til þess að útvega viðgerðarmenn. Fyrir liggur að stefnandi hafði kvartað yfir því að umrædd dæla ynni ekki með eðlilegum hætti og hafði verið brugðist við kvörtunum hans af hálfu yfirmanna og vandamálið rætt og unnið var að því að bæta úr þessari bilun í dælunni. Þjónustustjóri hjá Olíudreifingu hafði komið í nokkur skipti til þess að reyna að gera við dæluna.

Fram hefur komið að þvottavélin virkaði þótt ekki væri hægt að nota olíuhreinsinn. Var þá notað vatn og sápa. Þá kom fram í framburði Inga Stefáns Ólafssonar að á þeim tíma sem slysið varð, eða yfir sumartímann, væri yfirleitt ekki mikil þörf á að nota olíuhreinsinn við þvott á bílunum. Þá hefur komið fram að þrátt fyrir bilun í olíudælunni virkaði þvottavélin þannig að unnt var að þvo bifreiðarnar en þá einungis með vatni og sápu.

Hefur ekki verið sýnt fram á annað en að stefnandi hafi, að eigin frumkvæði, tekið ákvörðun um að taka slönguna með olíuhreinsivökvanum í sundur og sjúga vökvann upp. Liggur ekkert fyrir um það í málinu að honum hafi, af hálfu yfirmanna stefnda, verið uppálagt að gera slíkt, enda sá hann alfarið um rekstur stöðvarinnar, eins og áður segir. Þá hefur ekki verið sýnt fram á að knýjandi þörf hafi verið á slíkum aðgerðum af hálfu stefnanda. Er slysið ekki að rekja til skyndilegrar bilunar í dælunni heldur til vinnulags stefnanda. Stefnandi hefur ekki sýnt fram á að tækjabúnaður hafi verið óforsvaranlegur eða að hætta hafi falist í notkun þeirra tækja sem hann hafði umsjón með eða í umhverfi hans ef eðlilega var að verki staðið. Hætta stafaði hinsvegar af þeirri aðferð sem hann beitti í umrætt sinn til þess að koma dælunni af stað. Telja verður að stefnandi, sem hafði unnið á vélaverkstæði stefnda í um það bil 6 ár áður en hann hóf störf á þvottastöðinni, hafi mátt gera sér grein fyrir þeirri áhættu sem hann tók í umrætt sinn. Telst slysið verða rakið til óaðgæslu stefnanda sjálfs en verður ekki rakið til atvika er varða stefnda.

Fyrir liggur að slysið var ekki tilkynnt til Vinnueftirlits fyrr en 22. ágúst 2005. Hefur stefndi borið fyrir sig að yfirmönnum hafi ekki verið tilkynnt um slysið fyrr en nokkrum dögum eftir það. Þessi staðreynd þykir ekki skipta máli varðandi sönnun um atvik enda vitni engin að slysinu og eingöngu byggt á frásögn stefnanda af málsatvikum og teljast þau upplýst.

Samkvæmt framansögðu er ekki sýnt fram á það í málinu að slysið verði rakið til atvika er stefndi ber bótaábyrgð á. Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður milli aðila.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Samskip hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Björgvins Pálmars Jónssonar.

Málskostnaður fellur niður.