Hæstiréttur íslands
Mál nr. 456/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Húsleit
- Kæruheimild
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Mánudaginn 22. nóvember 1999. |
|
Nr. 456/1999. |
Sýslumaðurinn á Akureyri (Guðjón J. Björnsson fulltrúi) gegn Helenu Ósk Harðardóttur (sjálf) |
Kærumál. Húsleit. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.
H kærði úrskurð héraðsdóms sem heimilaði leit í húsakynnum hennar. Þar sem húsleitin hafði þegar farið fram þegar H kærði úrskurðinn brast heimild til kærunnar. Var málinu vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. nóvember 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 12. nóvember 1999, þar sem sóknaraðila var veitt heimild til leitar í húsakynnum varnaraðila að Vestursíðu 32 á Akureyri. Um kæruheimild vísar varnaraðili til 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Ætla verður að varnaraðili kæri úrskurð héraðsdómara til að fá hann felldan úr gildi.
Sóknaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Samkvæmt gögnum málsins fór umrædd húsleit fram áður en úrskurður héraðsdómara var kærður. Með vísan til 3. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 brestur af þeim sökum heimild til kæru úrskurðarins. Verður málinu því vísað frá Hæstarétti.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 12. nóvember 1999.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar nú í dag er tilkomið vegna kröfu lögreglunnar á Akureyri um að húsleit fari fram í húsakynnum Helenu Óskar Harðardóttur, kt. 251277-4009, Vestursíðu 32, Akureyri, þar sem lögreglan hafi rökstuddan grun um að Helena Ósk geymi fíkniefni ásamt tækjum og tólum til fíkniefnaneyslu á heimili sínu.
Er vísað til framlagðra gagna málsins og eru lagarök reifuð hér að framan, við fyrirtöku.
Með vísan til gagna málsins svo og til 1. mgr. 89. gr., sbr. 1. mgr. 90. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála fellst dómurinn á húsleitarkröfuna.
Úrskurð þennan kvað upp Ásgeir Pétur Ásgeirsson, héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Lögreglunni á Akureyri er heimiluð leit að Vestursíðu 32, Akureyri, þ.e.a.s. íbúð, geymslustöðum og öðrum hirslum í eigu Helenu Óskar Harðardóttur, kt. 251277-4009.