Hæstiréttur íslands

Mál nr. 446/2002


Lykilorð

  • Börn
  • Forsjá
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 20

 

Fimmtudaginn 20. febrúar 2003.

Nr. 446/2002.

K

(Valborg Þ. Snævarr hrl.)

gegn

M

(Dögg Pálsdóttir hrl.)

 

Börn. Forsjá. Gjafsókn.

K og M, sem áttu saman dreng og stúlku, deildu um forsjá drengsins. Fallist var á með K, sem hafði forsjá stúlkunnar, að það væri almennt séð æskilegt að systkinin myndu búa og alast upp saman jafnframt sem sá eindregni vilji drengsins til að búa hjá föður, sem lýst væri í héraðsdómi, væri samkvæmt viðbótar sálfræðimati ekki eins sterkur og þar mætti ætla. Hitt væri víst að drengurinn vildi ógjarnan gera upp á milli foreldra sinna. Þegar litið væri til tengslaprófs þess sem í héraðsdómi greindi sæist að drengurinn hefði sterk jákvæð tengsl við föður sinn. Ekki væri annað leitt í ljós en að faðirinn hefði tíma og svigrúm til þess að annast son sinn, þeir væru góðir félagar með sameiginleg áhugamál og liði vel saman. Þegar þetta væri virt, svo og hitt, að aldursmunur væri á systkinunum, þótti verða að fallast á með héraðsdómi að ekki ætti að vega þyngra í málinu að systkinin yrðu ekki aðskilin, enda væri jafnframt litið til þeirra rúmu umgengni sem þau myndu hafa og þyrftu að hafa hvert við annað og foreldra sína. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um að M hefði forsjá drengsins.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. september 2002 og krefst þess að sér verði falin forsjá sonar málsaðila, X.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms.

Báðir aðilar krefjast málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar.

Fjöldi nýrra skjala hefur verið lagður fyrir Hæstarétt.

I.

Málsatvikum er lýst í héraðsdómi. Svo sem þar greinir hófu aðilar sambúð 1992 og gengu í hjónaband 1996, en slitu samvistir í desember 2001 og fluttist áfrýjandi með börn hjónanna til annars manns í janúar 2002 og hefur búið með honum síðan. Fæddi hún dóttur þeirra [...] nóvember 2002, fékk lögskilnað á sama tíma og gengu þau í hjónaband [...] janúar 2003. Í máli þessu deila aðilar um forsjá sonar síns, en áfrýjanda var dæmd forsjá dóttur þeirra og féllst stefndi á þá kröfu undir rekstri málsins í héraði. Í héraðsdómi er lýst matsgerð Einars Inga Magnússonar sálfræðings, sem óskað hafði verið eftir á grundvelli 3. mgr. 60. gr. barnalaga nr. 20/1992. Í henni má fá greinargóða lýsingu á hjónunum, sambúð þeirra og deilum eftir sambúðarslitin.

II.

Eftir uppsögu héraðsdóms fór áfrýjandi þess á leit að dómkvaddur yrði matsmaður til þess að meta tiltekin atriði varðandi hagi sonar síns. Stefndi mótmælti matsbeiðninni og var úrskurður kveðinn upp í héraðsdómi 15. nóvember 2002 um að dómkvaðningin skyldi fram fara. Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar, sem staðfesti hann 11. desember 2002. Dómkvaðning fór fram í héraðsdómi daginn eftir og var sálfræðingur sá, sem skilað hafði mati í héraði, kvaddur til að meta eftirfarandi atriði:

„1.   Hvort drengurinn hafi orðið fyrir miklum og kerfisbundnum þrýstingi af hálfu foreldra sinna til að lýsa vilja til búsetu á öðrum hvorum staðnum, hvort sem er fyrir uppsögu héraðsdóms eða eftir áfrýjun.

2.      Hvort viljayfirlýsingar drengsins við meðferð málsins í héraði geti fremur hafa mótast af vorkunn eða samúð gagnvart öðru foreldra sinna frekar en eigin vilja.

3.      Hvort annað hvort foreldra hafi gert drenginn að virkum þátttakanda í forsjárdeilunni meðan á rekstri málsins stóð í héraði og þá með hvaða hætti.

4.      Hvort drengurinn hafi gert sér grein fyrir afleiðingum þess að lýsa vilja til skólagöngu í A-skóla, þ.e. hvort hann hafi haft yfirsýn yfir að það feli í sér flutning af heimili móður og hvað flutningur frá móður sinni og systur hafi í för með sér.

5.      Hvort drengurinn hafi gert sér grein fyrir að fyrirkomulag umgengni breytist flytjist hann til föður, þ.e. að einungis verði um reglulega helgarumgengni að ræða þar sem móðir hans telur núverandi fyrirkomulag óæskilegt. Hvort það hafi áhrif á aðstöðu hans.

6.      Hver afstaða drengsins sé nú, eftir að héraðsdómur gekk í málinu og honum ljósari afleiðingar afstöðu sinnar varðandi búsetu hjá föður og umgengni við heimili móður.

7.        Hvort eðlilegt sé að leggja til grundvallar vilja svo ungs barns eins og málum er háttað og hvort það sé heppilegt með tilliti til hagsmuna drengsins.“

Matsmaðurinn ræddi við foreldrana hvort í sínu lagi, drenginn sjálfan tvisvar sinnum svo og kennara hans úr þeim tveimur skólum sem hann hefur sótt á skólaárinu. Hann skilaði mati sínu 16. janúar 2003 og hefur það verið lagt fyrir Hæstarétt. Í niðurstöðu sinni tekur hann fram að torvelt sé í matsatriðunum að rökstyðja svör, sem skírskoti til beinna staðreynda. Áhöld séu milli málsaðila um alla veigamestu þættina og staðhæfingar um vilja einstaklinga, athafnir þeirra og atburðarás í málinu stangist á. Á hinn bóginn megi bera saman viðbrögð móður, föður og drengsins varðandi sömu atriðin og varpa skýrara ljósi á samræmi eða misræmi í svörum þeirra og leggja frekara mat á þau svör í stærra samhengi.

Um fyrsta atriðið sem áfrýjandi spurði um var niðurstaðan sú, að drengurinn hafi orðið fyrir þrýstingi frá báðum foreldrunum en að þrýstingurinn af hálfu föður hafi staðið lengur og verið fjölþættari en hjá móður.

Um annað atriðið segir að ekkert sérstakt bendi til þessa, en þetta hafi fremur beinst að föður en móður.

Um þriðju spurninguna segir að þetta atriði sé skylt fyrsta matsatriði og gildi sömu svör að nokkru leyti hér og gefin voru þar. Ekki sé vafa undirorpið að drengurinn hafi verið virkur þátttakandi í forsjárdeilunni, bæði meðan á málarekstri í héraði stóð og eftir það. Trúnaðartogstreita hans gagnvart föður annars vegar og móður hins vegar sé meðal annars tilkomin af þeim sökum.

Um fjórðu, fimmtu og sjöttu spurningu segir í niðurstöðu að þessi atriði séu skyld og svörin við þeim samofin og séu þau því reifuð saman. Lýst er skoðunum foreldranna á þessum atriðum. Í fyrra viðtalinu við drenginn hafi komið fram eindregin afstaða hans föður og A-skóla í vil en í því seinna móður og B-skóla í vil. Drengurinn hafi að eigin sögn ekki gert sér grein fyrir því hvernig hlutirnir myndu breytast eftir uppkvaðningu héraðsdóms.

Um sjöundu og síðustu spurninguna segir sálfræðingurinn í niðurstöðu sinni, að afstaða hans sé, að eðlilegt megi teljast að afla gagna um tilfinningatengsl barns við foreldra sína, vina-, tómstunda– og skólatengsl á heimaslóðum og vilja þess í forsjármáli. Slíkt geti þó einungis talist einn þáttur af mörgum. Í þessu samhengi skipti miklu máli að vilji barnsins sé virtur í heildarsamhengi en ekki tekinn út sem gefin stærð annars hvors foreldrisins í upphafi málsins eða að vilji barnsins sé notaður sem vopn í baráttu við hitt foreldrið.

Matsmaðurinn staðfesti mat sitt í héraðsdómi. Lögmenn aðila hafa auk þess lagt fram gögn um samskipti aðila, barna þeirra og fjölskyldna, eftir að héraðsdómur gekk.

Aðilar fengu lögskilnað með bréfi sýslumannsins í Reykjavík [...]. nóvember 2002. Þar er kveðið á um forsjá barnanna í samræmi við dóm héraðsdóms. Þar kemur og fram að ágreiningur sé um meðlag með syninum og að málið sé þar til úrlausnar, og að ágreiningur sé einnig um fjárskipti hjónanna og að bú þeirra hafi verið tekið til opinberra skipta 27. september 2002.

Áfrýjandi hefur lagt fram skjöl um mótmæli hennar við flutningi stefnda á lögheimili drengsins til sín eftir uppkvaðningu héraðsdóms. Deildu aðilar um þetta fram eftir hausti og lauk þeirri deilu með bréfi Hagstofu Íslands 28. október 2002, þar sem áfrýjanda var tilkynnt að ekki þætti rétt að breyta lögheimili drengsins í þjóðskrá meðan forsjármál hans væri til meðferðar í Hæstarétti. Sé þá sérstaklega litið til hagsmuna drengsins og þess að högum hans verði ekki raskað frekar en orðið sé. Aðilar deildu þá áfram um hvar drengurinn skyldi ganga í skóla. Flutti stefndi drenginn úr B-skóla í A-skóla, og hóf hann þar nám [...] nóvember 2002. Stefndi hefur lagt fram miðsvetrareinkunnir hans þar frá janúar 2003, sem eru mjög góðar.

Stefndi hefur lagt fram bréf móður sinnar 4. nóvember 2002 varðandi samskiptin við áfrýjanda og barnabörnin og athugasemdir foreldra sinna 3. febrúar 2003 vegna sálfræðilegs viðbótarmats. Af þessu tilefni lagði lögmaður áfrýjanda fram yfirlýsingu núverandi eiginmanns áfrýjanda 5. sama mánaðar.

III.

Fram er komið að báðir foreldrarnir séu hæfir uppalendur og hafi aðstöðu til að hafa drenginn hjá sér. Héraðsdómur, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum með mikla reynslu á sviði uppeldismála, féllst á það með hinum dómkvadda matsmanni, að allar forsendur væru fyrir því að drengnum þyki mjög vænt um báða foreldra sína. Í viðtali dómenda í héraði við drenginn kom að þeirra mati fram einarður vilji hans að búa hjá föður sínum. Héraðsdómi þótti ekkert fram komið, hvorki í matsgerð sálfræðingsins né í framburði hans fyrir dómi, sem mælti gegn því að systkinin alist upp sitt á hvoru heimilinu. Mat héraðsdóms var að það væri drengnum fyrir bestu að faðir hans fengi forsjá hans.

Áfrýjandi hefur fengið tækifæri til þess að afla viðbótarmats sama sálfræðings, eins og greint var hér að framan. Niðurstöður hans sýna að báðir aðilar hafa leitast við að hafa sín áhrif á drenginn og vilja hans. Niðurstöðurnar sýna einnig það sem við mátti búast og byggt var á í héraðsdómi, að drengnum þykir vænt um báða foreldra sína og vill vera hjá þeim báðum.

Deila málsaðila virðist sprottin af samvistarslitum þeirra, þegar áfrýjandi sagði skilið við stefnda og tók upp sambúð með öðrum manni. Þetta virðist hafa borið brátt að og ráðrúm ekki gefist til að lægja þær öldur sem af þessu risu og gefa stefnda og börnum þeirra kost á að átta sig á breyttum aðstæðum. Við skilnað foreldra þurfa börn tíma til aðlögunar, bæði að því að foreldrar þeirra búi ekki lengur saman og einnig að því þegar nýr einstaklingur kemur í annars stað. Úr því sem komið er verður í máli þessu aðeins skorið úr deilu aðila um forsjá sonarins með því að velja annan af tveimur kostum, að forsjá drengsins verði hjá stefnda eins og héraðsdómur ákvað, eða að áfrýjandi fái forsjá hans eins og hún krefst. Um þriðja kostinn, sameiginlega forsjá, sem báðir aðilar virðast í fyrstu hafa viljað, sýnist ekki lengur að ræða.

Ljóst er að deilan hefur sett mark sitt á drenginn á þann hátt að hann vill ekki gera upp á milli foreldra sinna þar sem slíkt yrði túlkað sem innlegg í deilu þeirra. Á þennan hátt hafa aðilar gert drenginn að þátttakanda í deilunni, þvert á skyldur þeirra sem foreldra.

Frumskylda foreldra er að sýna barni sínu umhyggju og nærfærni og gegna forsjár- og uppeldisskyldum sínum svo sem best hentar hag barns og þörfum, sbr. 29. gr. barnalaga. Gildir þetta jafnt í hjúskap sem við hjúskaparslit. Aðilar eru á svipuðum aldri, bæði við góða heilsu og hæf til að hafa forsjá, og ættu því bæði að geta sinnt þörfum barnanna, meðal annars með því að virða umgengisrétt þeirra við það foreldri sem ekki fær forsjá. Af gögnum málsins má ráða að samkomulag hafi verið um rúman umgengnisrétt frá fimmtudegi til þriðjudags aðra hverja viku, og að syni þeirra sé um þetta kunnugt. Er þess að vænta að þessi réttur verði virtur af þeim eftir uppsögu dóms þessa. Áfrýjandi býr í góðu húsnæði og er von til þess að stefndi komi sér einnig upp góðu húsnæði til þess að geta boðið börnum sínum góða aðstöðu. Hann stefnir að því að kaupa helming áfrýjanda í íbúð þeirra að [...], sem foreldrar hans seldu þeim í upphafi sambúðar, en þar hefur hann búið undanfarið.

IV.

Áfrýjandi bendir á að eðlilegt sé að systkinin búi saman og alist upp saman, og að hún hafi aðstöðu til þess fremur en stefndi. Fallast ber á með áfrýjanda að þetta sé almennt séð hið æskilega. Einnig er fallist á með áfrýjanda að sá eindregni vilji drengsins til að búa hjá föður, sem lýst er í héraðsdómi, sé samkvæmt viðbótar sálfræðimati ekki eins sterkur og þar mætti ætla. Hitt er víst að drengurinn vill ógjarnan gera upp á milli foreldra sinna. Þegar litið er til tengslaprófs þess er í héraðsdómi greinir sést að drengurinn hefur sterk jákvæð tengsl við föður sinn. Ekki er annað leitt í ljós en að faðir hafi tíma og svigrúm til þess að annast son sinn, þeir séu góðir félagar með sameiginleg áhugamál og líði vel saman. Þegar þetta er virt, svo og hitt, að aldursmunur er á systkinunum, þykir verða að fallast á með héraðsdómi að ekki eigi að vega þyngra í máli þessu að systkinin verði ekki aðskilin, enda er jafnframt litið til þeirrar rúmu umgengni sem þau munu hafa og þurfa að hafa hvert við annað og foreldra sína.

Framlögð gögn sýna umhyggju föðurforeldra fyrir barnabörnum sínum og er þess að vænta að sú umhyggja verði þeim stuðningur. Einnig má vænta þess að eiginmaður áfrýjanda og móðurforeldrar sýni börnunum umhyggju og stuðning. Aðilar og fjölskyldur þeirra þurfa allir að koma sér saman um velferð barnanna.

 Að þessu athuguðu og með vísan til forsendna héraðsdóms að öðru leyti verður staðfest niðurstaða hans um að stefndi hafi forsjá sonar aðila.

Eftir atvikum er rétt að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Gjafsóknarkostnaður aðila fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður aðila, þar með talin málflutningsþóknun lögmanna þeirra, 400.000 krónur til hvors um sig, greiðist úr ríkissjóði.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. september 2002.

 

             Mál þetta var höfðað 21. mars 2002.

             Stefnandi er K.

             Stefndi er M.

Dómkröfur

             Stefnandi gerir þá kröfu að henni verði með dómi falin forsjá barnanna X og Y.

             Þá er að auki krafist málskostnaður úr hendi stefnda að skaðlausu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

             Dómkröfur stefnda eru þær að hafnað verði kröfu stefnanda um forsjá drengsins X og að honum verði falin forsjá hans til 18 ára aldurs.  Þá er þess krafist að stefnandi verði dæmd til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi og að við ákvörðun málskostnaðar verði tillit tekið til skyldu lögmanns varnaraðila til innheimtu 24,5% virðisaukaskatts af þóknun sinni.

Málavextir                                                              

             Málsaðilar kynntust á árinu 1990 og hófu sambúð á árinu 1992.  Voru þau bæði í námi í Háskóla Íslands.  Sonurinn X fæddist [...] 1993.  Þau gengu í hjónaband [...] 1996 og héldu til Q vegna náms stefnda og voru þar fram á sumar 1997.  Dóttirin Y fæddist [...] 1998.  Í september 2000 fóru málsaðilar aftur til Q ásamt börnum sínum einnig til námsdvalar.  Þau bjuggu í Q fram í desember 2001 er þau ákváðu að slíta samvistum en stefnandi hafði þá stofnað til sambands við annan mann, Z.

             Stefnandi flutti í janúar 2002 til Z með börnin en stefndi hafði umgengni við börnin.  Málsaðilar reyndu að ná samkomulagi um forsjá og umgengni við börnin en tókst ekki.

             Með beiðni til Héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 26. mars 2002, krafðist stefndi úrskurðar þess efnis að honum yrði falin forsjá barnanna til bráðabirgða.  Sátt varð með aðilum 9. apríl 2002 í því máli.  Urðu málsaðilar sammála um sameiginlega forsjá X en að stefnandi færi með forsjá Y til bráðabirgða meðan á forsjárdeilu stæði.

             Eftir að sátt náðist var formlega frá því gengið að drengurinn dveldi viku og viku hjá hvoru foreldri.  Áður en fjölskyldan flutti til Q stundaði X nám í A-skóla en stundar nú nám í B-skóla.

Málsástæður stefnanda og lagarök

             Stefnandi byggir kröfu sína á 34. gr. laga 20/1992.  Byggir stefnandi fyrst og fremst á því að börnin hafi ávallt verið í hennar umsjá og hagsmunir þeirra krefjist þess að svo verði áfram.  Séu börnin af þessum sökum afar tengd henni tilfinningalega og öryggi sitt finni þau hjá henni.  Feli slík skipan jafnframt í sér minnsta röskun á högum barnanna enda hafa þau verið búsett hjá stefnanda frá samvistarslitunum í desembermánuði 2001.  Sóknaraðili telur sig hæfari í alla staði til að hafa forsjánna á hendi enda hafi hún alla tíð verið aðalumönnunaraðili barnanna og þau búsett hjá henni alveg frá fæðingu.

             Aðstæður stefnanda til að hafa forsjá barnanna séu góðar.  Hún sé komin í sambúð með Z og búi hún og börnin í rúmgóðri íbúð hans [...].  Eigi börnin þar sérherbergi og sé aðbúnaður þeirra mjög góður.  Drengurinn stundi nám í B-skóla og hafi hann aðlagast þar vel.  Stefnandi telur afar mikilvægt að börnin alist upp saman og hafnar því hugmyndum stefnda um að skilja börnin að, sérstaklega eftir að samskipti aðilanna hafi mjög versnað meðan á deilu þeirra um forsjá og heimili barnanna hefur staðið.

             Stefnandi hafi stuðlað að góðri umgengni barnanna við föður þeirra frá samvistarslitum og muni gera það áfram fái hún forsjá þeirra.  Sé hún reiðubúin að ganga til skriflegs samnings verði eftir því óskað af hálfu varnaraðila.

             Málskostnaðarkrafa sóknaraðila byggir á XXI. kafla laga 91/1991, sérstaklega 130. gr., en krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun byggir á lögum 50/1988, þar sem lögmönnum sé gert að innheimta virðisaukaskatt vegna þjónustu sinnar.  Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyld og sé henni því nauðsyn að fá skattinn tildæmdan úr hendi varnaraðila.

Málsástæður stefnda og lagarök

             Stefndi byggir kröfur sínar á 34. gr. barnalaga nr. 20/1992.  Hann búi við öruggar aðstæður [...].  Í því húsnæði sem hann sé í nú hafi börnin sérherbergi.

             Umönnun barnanna hafi jöfnum höndum hvílt á báðum foreldrum.  Stefndi telji því fráleitt að halda fram, eins og stefnandi geri, að hún hafi verið aðalumönnunaraðili barnanna frá fæðingu.  Stefndi hafi verið virkur umönnunaraðili barna sinna frá fæðingu þeirra.  Framlögð gögn frá heilsugæslu, dagmömmu og leikskóla staðfesti þetta.  Þátttaka stefnda í umönnun dótturinnar hafi jafnvel verið meiri en stefnanda.  Stefndi hafi starfað hjá [...] og hafi haft sveigjanlegan vinnutíma á þeim tíma.  Meðan málsaðilar bjuggu í Q í síðara skiptið hafi þau mest verið heima við.  Hafi stefndi því tekið fullan þátt í heimilishaldi og umönnun barnanna ásamt stefnanda.

             Stefndi telur að það sé drengnum X fyrir bestu að hann dvelji hjá sér.  Hann telur sig betur í stakk búinn að veita honum það uppeldislega öryggi sem hann þurfi á að halda.  Nú búi hann í íbúð sem foreldrar hans eigi steinsnar [...] þar sem fjölskyldan átti íbúð og bjó áður.  Stefni stefndi að því að flytjast í það húsnæði.  Með forsjá drengsins í hans höndum verði því lítil röskun á daglegu umhverfi drengsins sem hann þekkti frá þeim tíma áður en þau fluttu til [...].  Þar sé drengurinn á heimavelli og hafi hann lýst ítrekuðum vilja til að sækja A-skóla.  [...] sé hans heimahagar og þar eigi hann fjölmarga vini og hafi hann verið í skólastarfi [...].

             Ekkert mæli gegn því að skipta forsjá systkinanna.  Samvistir þeirra megi tryggja með ríflegri umgengni.  Þá hafi komið í ljós í samtali drengsins við dómara í bráðabirgðarforsjármáli að hann kunni vel að meta að vera einn með pabba sínum og njóta óskiptrar athygli hans, þótt fyrir liggi að gott samband sé á milli systkinanna, að teknu tilliti til aldursmunar þeirra.

             Lítil reynsla sé komin á sambúð stefnanda og núverandi sambýlismanns hennar.  Tengsl hans og barnanna séu óljós og sé stefnandi háð honum húsnæðislega.  Stefndi telur því áhættuminnst að fela honum forsjá drengsins.

             Málskostnaðarkrafa byggir á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991, sbr. aðallega 130. gr.  Krafa um virðisaukaskatt byggir á lögum nr. 50/1988.  Stefndi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og honum því nauðsynlegt að fá skattinn tildæmdan úr hendi stefnanda.

Niðurstaða

             Í máli þessu liggur fyrir sálfræðileg matsgerð Einars Inga Magnússonar sálfræðings, en honum var falið af dómara undir rekstri málsins að gera sálfræðilega álitsgerð varðandi ágreining málsaðila um forsjá.  Var honum falið að kanna forsjárhæfni foreldra, aðstæður foreldra og barna þeirra svo og tengsl barnanna við foreldra sína. 

             Í samantekt og ályktunum um forsjá barnanna í matsgerð sálfræðingsins segir m.a. að niðurstöður sálfræðilegra prófana og matsgagna sýni að [...]

             Báðir foreldrarnir gefi jákvæða og raunhæfa mynd af þroska og líðan barna sinna en mat föður á þroska Y (á Íslenska þroskalistanum) sé nokkuð áþekkara mati undirritaðs (á greindarprófinu) en hjá móður.

             Af öðrum matslistum þar sem foreldrahlutverkið og tengsl við börnin séu reifuð verði ekki annað ráðið en að báðir foreldrarnir hafi traustar forsendur sem uppalendur, þau hafi ákveðnar hugmyndir um uppeldismarkmið og aðferðir og reynslu af slíkri mótun.  Þau greini hins vegar á hvar börnunum sé best að eiga heimili en séu sammála um að umgengni barnanna við báða foreldra og ættingja eigi að vera allmikil hvar sem forsjáin liggi.  Einnig sé ágreiningur um hvort forsjá barnanna geti verið skipt, annars vegar hjá föður og hins vegar móður.

             Í viðtölum undirritaðs við drenginn X komi skýrt fram að hann kýs að búa hjá föður sínum.  Aðspurður um ástæður kemur fram að athygli föður, tengsl við vini, skóla og íþróttafélag séu helstu þættirnir.  Þegar hann sé spurður nánar og aðstæður föður og móður séu bornar saman halli það mikið á móður og niðurstaðan sé föður svo mikið í hag að það sé fremur ósannfærandi.  Allar forsendur séu fyrir því að drengnum þyki mjög vænt um bæði föður sinn og móður en hann eigi erfitt með að tjá það, því viðbrögð hans beri þess sterk merki að hann taki deiluna nærri sér og sé virkur þátttakandi í henni og haldi með öðrum aðilanum á móti hinum.

             Niðurstöður sálfræðimatsins bendi til þess að drengurinn sé vel greindur, með miðlungs sterka sjálfsmynd og meðvitaða fjölskyldumynd, sem hann túlki á persónulegan hátt.  Hann svari einnig tengslaprófunum á meðvitaðan hátt þar sem hann taki afstöðu að mati undirritaðs að nokkru leyti í hita leiksins, þótt ekki sé efast um rík tengsl við föður.  Hann setji hins vegar föður sinn hátt á stall og finni ekkert að hjá honum en flest sé ómögulegt og neikvætt hjá móður hans og á hennar heimili, þótt hann geti ekki bent á neitt sérstakt því til staðfestingar.  Aðlögun hans að nýju heimili og að nýjum sambýlismanni móður, sem hafi verið látið ganga hratt fyrir sig, skipti máli í þessu samhengi.  Drengurinn hafi alls ekki haft tíma og nægar forsendur til þess að laga sig tilfinningalega að nýju foreldri, því Z gegni því hlutverki á heimilinu ekki síður en K, þótt hann beiti sér síður að sinni. Drengurinn standi mjög sennilega í þeim sporum að honum finnist hann svíkja föður sinn, sem honum finnist afar vænt um, ef hann láti ekki í ljós óskir um að búa hjá honum auk þess sem honum skiljist að ef systir hans búi hjá móður og hann sjálfur hjá föður, þá hittist þau systkinin mjög ört.  Slíkar áætlanir hafi verið margræddar í þessu máli meðal foreldra hans og fleiri og drengnum sé líklega fullkunnugt um það.  Það sé jafnframt mat undirritaðs að börn í miðbernsku fram unglingsár nái vel saman vegna sameiginlegra áhugamála og búi yfir miklum aðlögunarmöguleikum.  Þannig sé tilfinningaleg binding félagahópa á þessum aldri drengsins afar ólík tilfinningalegum tengslum unglingsáranna og börn með óskertan félagsþroska eignast marga félaga í tengslum við skólanám og áhugamál.  Mat undirritaðs er að umgengni stálpaðra barna við tiltekna vini og ákveðið íþróttafélag sé ekki hægt að jafna við tilfinningatengsl við foreldra sína og þau skipti höfuðmáli.  Hins vegar verði að horfa til þess að ákveðinn stöðugleiki, þegar umrót sé til staðar í lífi barna, sé kostur.  Sá stöðugleiki í búsetu, vinatengslum og félagstarfsemi hafi hins vegar ekki verið fyrir hendi í lífi drengsins undanfarin misseri, hann hefur búið erlendis, á heimili systur K með foreldrum sínum, hjá móðurafa sínum og ömmu og verið í dvölum á heimilum föður og móður á víxl.  Fjölskyldan flutti úr [...] haustið 2000 og hafi ekki flutt þangað aftur sem heild.

             Mat undirritaðs sé að báðir foreldrarnir séu hæfir sem uppalendur og geti báðir búið börnum sínum jákvæðar og hvetjandi uppeldisaðstæður.  Í niðurstöðum persónuleikamatsins komi fram að K hafi til að bera sveigjanleika og ríkt innsæi umfram M og verði ekki hjá því litið að það séu heppilegir kostir í barnauppeldi.

             Börnin hafa mismikil og misgóð tengsl við foreldra sína en það komi einnig skýrt fram að tengsl þeirra á milli séu sterk og engar forsendur til þess að þau alist upp á sitt hvoru heimilinu.

             Fyrir liggur samkvæmt framansögðu að báðir málsaðilar eru vel hæf til þess að fara með forsjá X, en nú er einungis deilt um forsjá hans, þar sem stefndi féll frá kröfu um forsjá Y við munnlegan flutning málsins.  Þá liggur ekki annað fyrir en þau bæði hafi í sameiningu, þar til þau skildu, annast þarfir og uppeldi barna sinna.  Aðstæður foreldra eru góðar þótt ólíkar séu.  Faðir býr einn og starfar sem [...].  Er vinnutími hans sveigjanlegur og getur hann unnið hvort sem er heima eða á skrifstofu sinni.  Móðir hefur meira á sinni könnu.  Hún mun fara með forsjá Y.  Þá hefur hún hafið sambúð með nýjum manni og á von á barni með honum von bráðar.  Bar þessa nýju sambúð brátt að og fengu börnin lítið svigrúm til þess að aðlagast þessum breyttu aðstæðum.

             Samkvæmt tengslaprófi hefur X sterkust jákvæð tengsl við föður sinn.  Tengsl hans við móður eru einnig sterk en neikvæðari, sem gætu lýst reiði og vonbrigðum með móður vegna þessara snöggu umskipta.

             Drengurinn hefur ítrekað lýst þeim vilja sínum að búa hjá föður sínum og ganga í A-skóla.

             Í viðtali Einars Inga sálfræðings við drenginn kemur fram að feðgarnir eru mikið saman og að faðir hefur áhuga á því sem X er að gera og leikur við hann.  Þá virðast báðir hafa mikinn áhuga á fótbolta.  Lýsti drengurinn því að hann óttaðist það, byggi hann hjá móður sinni, að hann hitti föður sinn ekki nóg og hann myndi sakna hans mjög.  Hann sagðist ekki myndu sakna móður sinnar eins, byggi hann hjá föður.  Þá kom fram að hann sagðist mun tengdari vinum sínum í [...] en í [...].  Hann sagðist sakna þeirra þegar hann væri hjá móður sinni en ekki vinanna í [...] þegar hann dveldi hjá föður. 

             Eins og áður greinir telur Einar Ingi sálfræðingur í niðurstöðum sínum að þegar aðstæður föður og móður séu bornar saman í viðtali við X halli það mikið á móður og niðurstaðan sé föður svo mikið í hag að það sé ósannfærandi.

             Dómurinn fellst á það með sálfræðingnum að allar forsendur séu fyrir því að drengnum þyki mjög vænt um báða foreldra sína.  Í viðtali dómenda við X kom fram einarður vilji hans að búa hjá föður.  Var drengurinn yfirvegaður og virtist afstaða hans mótuð og byggð á eðlilegum forsendum og af þeirri skynsemi sem 9 ára barni er gefin.  Lýsir hann því að hjá föður finni hann ró og þar líði honum vel.  Ekkert þykir fram komið um að vilji hans sé þvingaður fram eða fenginn með óeðlilegum hætti.  Tengsl hans við foreldrana eru innileg og heilbrigð og auðvelda honum þetta val.  Þykir ekkert óeðlilegt við það að hann finni til samúðar með föður í þessari stöðu án þess að það hafi afgerandi áhrif á afstöðu hans.  Einnig er skiljanlegt að drengurinn reyni við þessar aðstæður að undirstrika val sitt með því að skerpa þann mismun sem hann greinir hjá foreldrum sínum.  Þá býr faðir í umhverfi sem X þekkir frá fyrri tíð og þar á hann vini og áhugamál.

             Í lokaorðum í matsgerð Einars Inga Magnússonar segir að tengsl milli systkinanna séu sterk og engar forsendur til þess að þau alist upp á sitt hvoru heimilinu.  Er þetta ekki rökstutt frekar í matsgerðinni.  Fyrir dómi bar Einar Ingi að hann liti svo á að eðlilegt sé að systkini alist upp saman og það þarfnist sérstaks rökstuðnings ef börn eigi að alast upp sitt í hvoru lagi.  Þá sé aldursmunur ekki mikill og tengsl þeirra sterk.  Hins vegar þykir ekkert fram komið, hvorki í matsgerð Einars Inga né í framburði hans fyrir dómi, sem mælir gegn því að systkinin alist upp á sitt hvoru heimilinu.

             Fram hefur komið að af hálfu föður virðist hafa gætt vissrar stífni í garð móður sem getur haft slæm áhrif á drenginn.  Þykir fram komið að við skilnaðinn, sem bar brátt að, hafi stefndi orðið fyrir áfalli sem hann er að vinna úr og hefur hann leitað sér ráðgjafar.  Stefndi virðir hins vegar umgengni.  Virðist helst vera um tímabundið ástand að ræða sem tengist áfallinu við skilnaðinn og átökum sem í kjölfarið fylgdu.  Þykir því ekkert benda til annars en að báðir foreldrar muni stuðla að eðlilegum samskiptum og góðri umgengni við börnin.

             Þegar framanritað er virt, svo og annað sem fram hefur komið í málinu, er það niðurstaða dómsins að það sé X fyrir bestu fái faðir hans forsjá hans.  Aðstæður föður eru góðar og hann hefur tíma og svigrúm til þess að annast drenginn.  Þeir feðgar virðast góðir félagar, eiga sameiginlegt áhugamál og líður vel saman.  Tengsl X við föður eru, samkvæmt tengslaprófi, mjög sterk.  Þá þykir ekki verða litið fram hjá eindregnum vilja drengsins að vera hjá föður sínum og stunda sitt nám í A-skóla.  Ekkert þykir fram komið í málinu sem mælir gegn því að skipta forsjá systkinanna með þessum hætti og hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að systkinin séu sérstaklega háð hvort öðru.  Er þá litið til þeirrar rúmu umgengni sem systkinin munu hafa hvort við annað með þessu fyrirkomulagi en eins og áður segir þykir ekki ástæða til að ætla annað en foreldrar muni stuðla að eðlilegri og góðri umgengni.

             Ber því, með vísan til 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 20/1992, að taka til greina þá kröfu stefnda að hann fái forsjá drengsins X.  Krafa stefnanda um forsjá Y er tekin til greina.   

             Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af máli þessu.

             Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.e. málflutningsþóknun lögmanns hennar, Valborgar Þ. Snævarr hrl., 300.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

             Gjafsóknarkostnaður stefnda, þ.e. málflutningsþóknun lögmanns hans, Daggar Pálsdóttur hrl., 300.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.

             Við ákvörðun málflutningsþóknunar er ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.

             Dóminn kvað upp Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari ásamt meðdómendunum Sæmundi Hafsteinssyni sálfræðingi og Þorgeiri Magnússyni sálfræðingi.

D Ó M S O R Ð

             Stefnandi, K, skal fara með forsjá telpunnar Y [...].

             Stefndi, M, skal fara með forsjá drengsins X [...].

             Málskostnaður fellur niður.

             Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.e. málflutningsþóknun lögmanns hennar, Valborgar Þ. Snævarr hrl., 300.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

             Gjafsóknarkostnaður stefnda, þ.e. málflutningsþóknun lögmanns hans, Daggar Pálsdóttur hrl., 300.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.