Hæstiréttur íslands
Mál nr. 230/2001
Lykilorð
- Vanreifun
- Dómur
- Ómerking héraðsdóms
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Fimmtudaginn 24. janúar 2002. |
|
Nr. 230/2001. |
Sigurður Ingi Guðmundsson(Sigurður Sigurjónsson hrl.) gegn Baldri Heimissyni (Karl Axelsson hrl.) og gagnsök |
Vanreifun. Dómur. Ómerking héraðsdóms. Frávísun máls frá héraðsdómi.
Talið var að mál S gegn B hefði engan veginn verið hæft til efnisdóms þegar það var dómtekið í héraði. Í stað þess að vísa því frá dómi, svo sem rétt hefði verið, kvað héraðsdómari upp efnisdóm, en eins og hann var úr garði gerður var í verulegum atriðum brotið gegn ákvæðum 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991. Héraðsdómur var því ómerktur og málinu vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Aðaláfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 30. apríl 2001. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 13. júní 2001 og áfrýjaði þá aðaláfrýjandi öðru sinni 21. sama mánaðar með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 7. gr. laga nr. 38/1994. Hann krefst þess að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér aðallega 550.650 krónur, en til vara aðra lægri fjárhæð, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. janúar 2000 til greiðsludags. Þá krefst aðaláfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 23. ágúst 2001. Hann krefst sýknu af kröfu aðaláfrýjanda, svo og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
I.
Aðaláfrýjandi höfðaði þetta mál með stefnu 23. ágúst 2000, þar sem hann krafðist þess að gagnáfrýjanda yrði gert að greiða sér 550.650 krónur með vöxtum eins og að framan greinir, auk málskostnaðar. Í stefnunni var greint þannig frá atvikum málsins að krafa aðaláfrýjanda væri reist á tveimur reikningum, með nánar tilteknum númerum og útgáfudegi, vegna vinnu í þágu gagnáfrýjanda. Var gerð grein fyrir einstökum liðum í hvorum reikningi án þess þó að fram kæmi nein teljandi skýring á efni þeirra umfram það, sem ráðið verður af texta þeirra. Þá kom þar fram að aðaláfrýjandi hafi krafið gagnáfrýjanda um greiðslu þessara reikninga. Hafi gagnáfrýjandi færst undan greiðslu, en þó ekki á þeirri forsendu að aðaláfrýjandi hafi ekki innt af hendi umrædda vinnu, heldur að hann hafi gert þetta af greiðasemi við gagnáfrýjanda. Sá síðastnefndi hafi þó boðist til að greiða nánar tiltekinn lið í öðrum reikningi aðaláfrýjanda. Um málsástæður aðaláfrýjanda kom fram í héraðsdómsstefnu að gagnáfrýjandi hafi neitað að greiða aðaláfrýjanda fyrir þau verk, sem hann hafi unnið, og væri hann því knúinn til að höfða mál á grundvelli reikninga sinna. Teldi aðaláfrýjandi að fjárskortur gagnáfrýjanda væri eina ástæðan fyrir því að hann hafi ekki greitt umrædda reikninga. Að öðru leyti var greint í þessum hluta stefnunnar lítillega frá atvikum, sem tekið var þó sérstaklega fram að vörðuðu í engu kröfu aðaláfrýjanda samkvæmt reikningunum.
Í greinargerð lögmannsins, sem fór með málið af hálfu gagnáfrýjanda fyrir héraðsdómi, var atvikum að baki málinu lýst að nokkru marki. Meðal annars kom þar fram að aðaláfrýjandi hafi um árabil átt og búið á jörðinni Saurbæ í Húnaþingi vestra, þar til hann seldi hana Jarðasjóði ríkisins 19. apríl 1999. Hafi aðaláfrýjandi átt að afhenda jörðina 20. júní sama árs. Kaupandinn hafi auglýst hana lausa til ábúðar, sem gagnáfrýjandi hafi sóst eftir og fengið frá 1. ágúst 1999 að telja. Aðaláfrýjandi hafi um þær mundir margsinnis tjáð gagnáfrýjanda að hann vildi taka þátt í heyskap þetta sumar og tekið sérstaklega fram að hann áskildi sér ekki endurgjald fyrir þá vinnu. Sláttur hafi byrjað á jörðinni 18. júlí 1999, en gagnáfrýjandi hafi flutt á hana með fjölskyldu sinni um miðjan næsta mánuð. Fram kom í atvikalýsingu í greinargerðinni að gagnáfrýjandi hafi samið við aðaláfrýjanda um að kaupa af honum nánar tiltekna heyvinnuvél, en sá fyrrnefndi hafi að öðru leyti átt kost á að fá lánaðan hjá nafngreindum aðstandendum sínum vélakost til að sinna heyskap þetta sumar. Aðaláfrýjandi hafi á hinn bóginn krafist þess að fá að taka þátt í heyskapnum og sinnt honum óumbeðinn, að því er virtist af greiðasemi við gagnáfrýjanda. Þá var í atvikalýsingunni fundið að nokkrum nánar tilgreindum liðum í reikningum aðaláfrýjanda. Í þeim kafla greinargerðarinnar, þar sem málsástæður gagnáfrýjanda voru raktar, kom fram að aðalkrafa hans í málinu um sýknu væri í fyrsta lagi reist á því að samið hafi verið berum orðum um að aðaláfrýjandi fengi ekki annað endurgjald fyrir vinnu sína í þágu gagnáfrýjanda en að fá að njóta ýmissa fríðinda og hlunninda á jörðinni eftir að sá síðarnefndi hefði tekið við henni. Í öðru lagi að samningur hafi að minnsta kosti aldrei komist á um að aðaláfrýjanda bæri endurgjald fyrir störf sín, en í þriðja lagi að gagnáfrýjandi væri ekki réttur aðili að málinu, þar sem mest öll vinna þess fyrrnefnda hefði verið leyst af hendi áður en sá síðarnefndi tók við jörðinni. Varakrafa gagnáfrýjanda um lækkun á kröfu aðaláfrýjanda væri studd þeim rökum að reikningar hans væru í nánar tilteknum atriðum rangir og í engu samræmi við það, sem aðilarnir sömdu um, auk þess að vera bersýnilega ósanngjarnir.
II.
Eins og ráðið verður af því, sem áður segir um efni héraðsdómsstefnu, kom hvergi þar fram af hendi aðaláfrýjanda hvernig hann teldi réttarsamband hafa komist á með aðilunum, hvort verksamningur hafi verið gerður milli þeirra eða hann hafi ráðið sig til vinnu hjá gagnáfrýjanda, hvort eða hvernig samið hafi verið um það endurgjald, sem aðaláfrýjandi áskildi sér með reikningum sínum, og þá hvers efnis sá samningur hafi verið eða hvar verk hans eða vinna var leyst af hendi. Úr þessum verulegu annmörkum á reifun málsins var að nokkru bætt með því, sem fram kom af hendi gagnáfrýjanda í greinargerð fyrir héraðsdómi, en eftir sem áður skorti með öllu afstöðu aðaláfrýjanda til þeirra atriða, sem hér á undan var getið. Þrátt fyrir þetta hefur héraðsdómari talið fært að láta málið koma til efnismeðferðar. Ekki er tilefni til að hreyfa við því mati, enda var ekki útilokað að skýrslugjöf aðila og vitna fyrir dómi ásamt munnlegum flutningi málsins gæti varpað nægu ljósi á ágreiningsefni þess til að fella mætti á það efnisdóm. Eins og málið liggur fyrir í Hæstarétti verður í engu ráðið af hinum áfrýjaða dómi eða öðrum gögnum þess hvort munnlegur málflutningur í héraði hafi komið þannig að haldi. Þá verður ekki annað séð en að munnlegar skýrslur aðilanna hafi ef eitthvað er gert málið óskýrara en fyrr, enda virðist frásögn þeirra fyrir dómi, einkum aðaláfrýjanda, í ýmsum atriðum hafa stangast á við annan málatilbúnað þeirra eða verið óákveðin. Með aðilaskýrslunum og að nokkru með framburði vitna mátti að auki verða ljóst að verulega meiri ágreiningur var uppi en ráðið varð af málatilbúnaði aðilanna fram að því um það hvaða vinnu aðaláfrýjandi hafi í reynd leyst af hendi í þágu gagnáfrýjanda og hvert hæfilegt endurgjald fyrir hana kynni að geta verið. Málið var því engan veginn hæft til efnisdóms þegar það var dómtekið í héraði.
Í stað þess að vísa málinu frá dómi, svo sem rétt hefði verið, kvað héraðsdómari upp hinn áfrýjaða dóm. Í honum er ekki önnur greinargerð um atvik málsins en frásögn um sölu aðaláfrýjanda á jörðinni Saurbæ, deilur hans við kaupandann um riftun kaupanna, sem reyndar koma þessu máli ekki við, og byggingu jarðarinnar til gagnáfrýjanda, en þar að auki er tekið fram að krafa aðaláfrýjanda eigi rætur að rekja til tveggja nánar tiltekinna reikninga fyrir vinnu og vélanotkun við heyskap að Saurbæ í júlí og ágúst 1999, fjárhæð reikninganna er greind og dagsetning. Að frágenginni þessari ófullkomnu lýsingu atvika er rakið í löngu máli og að ófyrirsynju meginefni skýrslna aðilanna og vitna fyrir dómi, án þess að nokkuð komi fram um það hvernig þau atriði, sem þar er getið, varði sakarefni málsins. Að reifun á málsástæðum aðaláfrýjanda í hinum áfrýjaða dómi verður á engan hátt fundið, en verulega skortir á að viðhlítandi grein sé þar gerð fyrir málsástæðum gagnáfrýjanda. Í dóminum er svo loks komist að niðurstöðu um að ósannað sé að aðaláfrýjandi hafi fyrir fram gert gagnáfrýjanda greint fyrir því að hann myndi áskilja sér endurgjald fyrir vinnu sína og jafnframt að aðaláfrýjandi hafi yfirleitt ætlað sér slíkt endurgjald. Í stað þess að láta niðurstöðu þar með ráðast, vísaði héraðsdómari til þess að ljóst væri að aðaláfrýjandi hafi haft nokkurn kostnað vegna aðstoðar sinnar og dæmdi honum „fjárhæð að álitum“, sem ekki verður þó séð að eigi sér stoð í málsástæðum hans. Var þessi fjárhæð að auki ákveðin sem 125.000 krónur „að viðbættum virðisaukaskatti“. Eins og hinn áfrýjaði dómur var hér úr garði gerður var í verulegum atriðum brotið gegn ákvæðum 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991.
Að gættu því, sem að framan greinir, verður að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi.
Aðaláfrýjandi verður dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Aðaláfrýjandi, Sigurður Ingi Guðmundsson, greiði gagnáfrýjanda, Baldri Heimissyni, samtals 250.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur héraðsdóms Norðurlands vegra 31. janúar 2001.
I.
Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum flutningi 11. desember sl., er höfðað af Sigurði Inga Guðmundsson, kt. 100545-5249, Saurbæ, Húnaþingi vestra á hendur Heimi Baldurssyni, kt. 200771-5249, Saurbæ, Húnaþingi vestra með stefnu þingfestri 6. september sl.
Dómkröfur stefnanda.
Stefnandi krefst þess, að stefnda verði gert að greiða honum 550.650 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. janúar 2000 til greiðsludags. Jafnframt krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Dómkröfur stefnda.
Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og að í því tilfelli verði stefnandi dæmdur til að greiða málskostnað að mati dómsins.
Til vara krefst stefndi þess, að stefnukröfur verði lækkaðar verulega og að þá verði málskostnaður látinn niður falla.
II.
Málavextir.
Með kaupsamningi dagsettum 19. apríl 1999 seldi stefnandi Jarðasjóði ríkisins jörðina Saurbæ í Húnaþingi vestra og skyldi afhending fara fram 20. júní 1999. Svo virðist sem stefnanda hafi snúist hugur og höfðaði hann mál á hendur ríkinu til riftunar á kaupunum en þeirri kröfu var hafnað með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þann 11. júní 2000.
Með bréfi landbúnaðarráðuneytis dagsettu 14. júní 1999 til stefnda var honum tilkynnt að ráðuneytið hafi ákveðið að byggja honum jörðina Saurbæ frá og með 1. ágúst 1999. Stefnandi dvaldi á jörðinni fram eftir ágústmánuði 1999 en þann 15. ágúst flutti stefndi með fjölskyldu sína á jörðina.
Krafa stefnanda er reist á tveimur reikningum sem upphaflega voru dagsettir í september 1999 en með sérstöku bréfi var dagsetning þeirra leiðrétt og þeir dagsettir 1. janúar 2000. Stefnandi segir reikning nr. 116 að fjárhæð 414.730 krónur er vegna vinnu hans í þágu stefnda sem og vegna véla er hann lagði til við vinnuna. Reikning nr. 117 segir hann til kominn með sama hætti þó önnur tæki hafi verið notuð við þá vinnu. Reikningarnir eru báðir fyrst og fremst tilkomnir vegna heyskapar að Saurbæ í júlí og ágúst 1999.
Framburður fyrir dómi.
Fyrir dómi bar stefnandi að annar reikningur hans, nr. 116, ætti að vera vegna tímabilsins júlí til ágúst en ekki júní til júlí. Þá lýsti hann þeirri vinnu sem hann innti af hendi og gerði grein fyrir því gjaldi sem kröfur hans miðast við. Stefnandi kveðst hafa haldið utan um verk þau sem hann vann fyrir stefnda og hvaða tæki voru notuð hverju sinni svo og þann fjölda klukkustunda sem tók að vinna verkið. Stefnandi bar að reikningur nr. 117 sé fyrir tímabilið júní til ágúst. Hann skýrði reikninginn út og gerði grein fyrir þeim tækjum sem hann notaði og þeirri vinnu sem unnin var og þá taxta sem hann miðaði við.
Stefnandi segir að reikningarnir eigi að vera dagsettir í janúar en hann hafi alltaf vonast eftir að greiðsla kæmi frá stefnda og því hafi dagsetningunni verið breytt vegna tímabils virðisaukaskatts. Stefnandi kveðst ekki hafa rukkað stefnda fyrr en hann sendi reikningana því hann hafi vonast til að stefndi biði fram greiðslu en það hafi hann ekki gert. Stefnandi kveðst ekki geta gefið skýringu á því hvers vegna lögmanni stefnda bárust ekki reikningarnir fyrr en í byrjun mars árið 2000.
Stefnandi kannast ekki við að hafa gert samkomulag við stefnda um að hann ætlaði að vinna fyrir stefnda án endurgjalds. Ítrekað aðspurður hvort hann hafi gert samkomulag við stefnda þess efnis að hann tæki ekkert fyrir vinnu sína segist hann telja það rangt. Hann kveðst ekki hafa sagt við stefnda að hann ætlaði að gera þetta fyrir ekki neitt en hann hafi sagt að hann ætlaði að hjálpa þeim eins og hann gæti. Í hans huga hafi alla tíð verið ljóst að hann ynni ekki án endurgjalds en hann yrði a.m.k. að fá fyrir kostnaði. Þá kannaðist stefnandi ekki við að stefndu hafi aðstoðað hann við nein verk eða að þau hafi veitt honum einhver fríðindi í staðinn. Stefnandi kveðst alltaf hafa rætt við stefnda um þau verk sem unnin voru hverju sinni.
Stefnandi segir að rúllaðar hafi verið u.þ.b. 300 rúllur á Saurbæ þetta sumar fyrir utan hána. Hann kveðst ekki hafa unnið við að pakka rúllum en það hafi mágur hans gert en þeir séu með vinnuskipti sín í milli. Stefnandi kannast ekki við að dráttarvél föður stefnda hafi verið notuð við að rúlla nálægt 100 rúllum. Stefnandi kannast við að mágur hans hafi rúllað eitthvað með dráttarvél sem hann átti. Hann hafi sjálfur ekki unnið neitt að pökkun. Stefnandi kannast við að maður og vél frá Þorgrímsstöðum hafi rúllað 30 rúllur á Saurbæ en hann hafi unnið fyrir þann mann á móti. Stefnandi kannast ekki við að faðir stefnda hafi rúllað 30 rúllur á Saurbæ þetta sumar.
Að sögn stefnanda er túnið á Saurbæ alls 14 hektarar og kvaðst hann hafa slegið nokkuð mikið af því en stefndi hafi slegið nokkuð sjálfur. Stefnandi ber að mjög fari eftir því hvernig tæki séu notuð ef segja eigi til um hversu langan tíma taki að slá einn hektara en telur að með þeim tækjum sem hann noti taki það tvo til tvo og hálfan klukkutíma. Stefnandi kveðst hafa rifjað mikið en stefndi hafi rifjað svolítið sjálfur. Stefnandi segir að mjög misjafnt sé hversu oft rifjað sé það fari eftir því hversu þurrt heyið eigi að vera. Stefnandi segist hafa rifjað túnið oftar en tvisvar sinnum en hann kveðst ekki geta sagt til um hversu langan tíma taki að rifja einn hektara. Stefnandi kveðst ekki vita hversu mörgum rúllum hann ók af túnunum og heim að bæ. Hann hafi tekið allar rúllurnar af heimatúninu en nokkuð hafi hann og stefndi keyrt heim saman. Hann ber að ekki sé hægt að segja til um hversu langan tíma taki að fara eina ferð en vagninn sem hann notaði taki átta rúllur í hverri ferð.
Stefnandi segir stefnda ekki hafa boðist til að afhenda honum heyið með þeim rökum að stefndi ætti ekki að taka við jörðinni fyrr en fyrsta ágúst. Stefnandi kveðst hafa haldið að stefndi væri búinn að taka við jörðinni fyrir þann tíma en síðar hafi komið í ljós að ábúðarsamningur hafi ekki verið gerður við stefnda.
Stefnandi kveður markaðsverð á heyi mjög misjafnt en oft sé sagt að rúlla 1.20 x 1.20 að stærð kosti um 3.000 krónur. Rúllurnar sem hann rúllaði á Saurbæ hafi verið af þessari stærð og ætla megi að þær hafi verið 400 til 500 kíló. Hann kveðst hafa heyrt að kíló af heyi geti kostað allt að 17 krónum.
Stefnandi segist hafa samið við stefnda um að stefndi keypti af honum rúlluvél á 600.000 krónur án virðisaukaskatts en af þeim kaupum hafi ekki orðið. Hann segir stefnda hafa gefið sér kost á að gefa ekki út reikning fyrir vélinni fyrr en fyrsta febrúar 2000. Stefnandi kannast við að hafa boðið stefnda pökkunarvél, sem hann á að einum þriðja hluta, til afnota en ekki endurgjaldslaust. Stefnandi kveðst hafa vitað til þess að stefndi ætlaði að fá lánað pökkunarvél hjá frænda sínum en telur að stefndi hafi ekki haft tök á að fá lánaðar þær vélar sem hann þurfti til að sinna heyskapnum.
Fyrir dóminum bar stefndi að hann og eiginkona hans hafi sótt um ábúð á Saurbæ þegar jörðin var auglýst laus til ábúðar og strax þá hafi stefnandi farið að tala um að hann vildi hjálpa þeim við heyskap og annað, ,, koma þeim á koppinn” eins og hann hafi orðað það. Ítrekað aðspurður um þetta atrið bar stefndi að stefnandi hafi lýst því yfir að hann hafi ekki ætlað sér að taka endurgjald fyrir vinnu sína þó hann hafi ekki gert það berum orðum en af þeim sökum hafi aðstoð stefnanda verið þegin.
Stefndi bar að það hafi verið í júlímánuði 1999 sem hann fékk upplýsingar frá ráðuneytinu um að þau hjónin hafi fengið jörðina til ábúðar. Í framhaldi af því hafi hann rætt við stefnanda um að fá að byrja heyskap enda hafi stefnandi þá enn verið á jörðinni. Stefnandi hafi þá viljað hjálpa til og slegið fyrsta hringinn á öllum túnunum og haldið svo áfram. Daginn eftir hafi þeir rifjað og svo rúllað. Áður hafi þeir samið svo um að hann keypti rúlluvél af stefnanda fyrir 650.000 krónur að viðbættum virðisaukaskatti auk þess hafi hann falast eftir múgavél og fjölfætlu frá stefnanda en hann hafi sagt að hann vildi ekkert fá fyrir þau tæki. Stefnandi hafi boðið honum afnot af pökkunarvél sinni og sagt að stefndi gæti fengið slíka vél fyrir lægra verð að heyskap loknum og því væri óþarfi fyrir hann að kaupa slíka vél strax. Gamla túnið hafi stefnandi rúllað en hann sjálfur pakkað og notað dráttarvél frá Krossanesi. Bóndinn í Krossanesi hafi rakað í garða.
Stefndi kveðst hafa farið til Reykjavíkur að vinna og þá hafi stefnandi hringt til hans og spurt hvort hann mætti ekki halda heyskapnum áfram og heyja slétturnar og það hafi verði þegið með þökkum. Hann hafi síðan komið norður og slegið ákveðin tún en samtals hafi hann slegið fjóra og hálfan hektara. Í framhaldi af því hafi heyskap verið lokið með aðstoð frá stefnanda og öðrum. Stefndi kveðst alfarið ásamt fjölskyldu sinni hafi séð um hána en afrakstur af henni hafi verið 30 rúllur en samtals hafi taðan af túnunum í Saurbæ þetta sumar verið nálægt 300 rúllum. Stefndi segir við pökkun á 170 rúllum hafi verið notuð dráttarvél frá Krossanesi en á 100 rúllur hafi verið notuð dráttarvél í eigu föður hans. Pökkunarvélina hafi stefnandi átt en hann hafi sérstaklega boðið endurgjaldslaus afnot af henni. Stefndi kveðst hafa unnið fyrir fólkið í Krossanesi sem endurgjald fyrir þeirra aðstoð án þess að um það hafi verið gerður sérstakur samningur. Stefndi kveðst vera u.þ.b. klukkustund að slá einn hektara. Hann kveðst vera hálfa klukkustund að rifja einn hektara. Stefndi segist hafa ekið 130 rúllum heim af túnunum. Hann hafi verið með vagn sem tók 8 rúllur og hver ferð hafi tekið hálfa klukkustund að meðaltali. Stefndi segir að túnin á Saurbæ séu 14 hektarar að stærð og ætla megi að samtals hafi tekið 67 klukkustundir að slá, rifja, raka, binda og pakka hey af þeim að meðtalinni 5 hektara há.
Stefndi segir að ef stefnandi hefði strax gert reikning vegna vinnu sinnar hefði hann ekki látið hann vinna meira. Stefndi ber að hann hefði alla möguleika haft á því að fá lánaðar vélar hjá fólki honum nákomnum sem býr í nágrenninu ef fyrir hefði legið að stefnandi ætlaði að heimta gjald fyrir vinnu sína. Einnig hafi þetta fólk boðið fram aðstoð við heyskapinn. Að sögn stefnda kostar 450 til 500 krónur að láta pakka og rúlla eina rúllu.
Stefndi segist hafa aðstoðað stefnanda við ýmis verk um haustið m.a. við að koma fé á bíl til slátrunar.
Stefndi segir að reikningar þeir sem um er deilt í málinu hafi borist honum 20. mars 2000. Stefndi heldur því fram að hann eigi heyið sem mál þetta varðar en telur að hann hafi ekki átt að greiða fyrir flutning á áburði heim að Saurbæ því í bréfi frá landbúnaðarráðuneytinu segi að hann skuli kaupa áburð af fráfaranda.
Olga Lind Geirsdóttir, eiginkona stefnda gaf skýrslu fyrir dóminum. Hún sagði að stefndi hafi lýst því yfir að stefnandi hefði oft boðist til að aðstoða þau og gefið í skyn að hann hygðist ekki taka neitt fyrir vinnu sína. Hann hafi notað þau orð að hann vildi koma þeim á koppinn. Þeirra skilningur hafi verið sá að stefnandi hygðist ekki krefja þau um endurgjald en hann hafi viljað fá að dvelja á Saurbæ fram yfir réttir. Annar framburður hennar var einnig í samræmi við framburð stefnda um þau atriði sem hún var innt eftir.
Vitnið Hersteinn Heimir Ágústsson, bóndi er faðir stefnda. Hann bar fyrir dóminum að hann hefði haft nægan tíma, tæki og tól til að sjá alfarið um heyskapinn á Saurbæ og hann hafi boðið stefnda aðstoð sína. Stefndi hafi ekki þegið mikla aðstoð þar sem stefnandi hafi boðist til að hjálpa honum. Vitnið kvaðst hafa skilið stefnda svo að stefnandi hygðist veita aðstoð sína án endurgjalds. Vitnið segir að dráttarvél í hans eigu hafi verið notuð nokkuð við heyskap á Saurbæ.
Að sögn vitnisins kostaði rúlla af heyi nálægt 2.000 krónum án virðisaukaskatts síðasta sumar og hefði legið fyrir að reikningar yrðu gerðir með þeim hætti sem raun varð á hefði verið ódýrara fyrir stefnda að kaupa heyið. Vitnið kveðst vita til þess að menn taki 450 krónur fyrir að rúlla og pakka eina rúllu. Að sögn vitnisins má, samkvæmt upplýsingum fá bútæknideild á Hvanneyri, slá rúman hektara á einni klukkustund, með góðum tækjum megi rifja 3 til 4 hektara á sama tíma. Vitnið telur að á Saurbæ megi fara tvær ferðir á klukkustund með rúllur ef notaðir eru tveir traktorar og tveir menn.
Vitnið Ársæll Geir Magnússon, tengdafaðir stefnda segir að upphaflega hafi hann haft hug á að taka við ábúð á Saurbæ. Síðar hafi stefndi og dóttir hans komið að málinu. Vitnið segir stefnanda hafa verið ánægðan með að stefndi tæki við jörðinni. Vitnið kveðst hafa hitt stefnanda við heyskap á Saurbæ og þá hafi stefnandi lýst því yfir að hann ætlaði ekki að krefja um endurgjald fyrir sína vinnu enda hafi hann ætlað að vera á Saurbæ fram yfir að hann léti féð um haustið en þá hygðist hann flytja suður. Vitnið segir stefnanda hafa oftar en einu sinni lýst því yfir að hann ætlaði að aðstoða stefnda og konu hans án endurgjalds. Hann hafi einnig ætlað að gefa þeim nokkuð af hlutum og tækjum.
Vitnið Sigríður Ellen Konráðsdóttir kvað stefnanda hafa verið í fæði og húsnæði hjá henni í sumarhúsi síðasta sumar og á þeim tíma hafi hann verið við heyskap að Saurbæ.
III
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi byggir kröfur sínar á því að stefndi hafi neitað að greiða fyrir vinnu sem innt var af hendi í hans þágu. Telur stefnandi að lausafjárskortur stefnda valdi því að hann hafi ekki greitt reikningana. Þá byggir stefnandi og á því að ágreiningur sé með aðilum um rétt stefnda til að búa á jörðinni Saurbæ sem stefnandi hafi átt og búið á um áratuga skeið. Stefndi hafi lagt jörðina undir sig og hluta af eignum stefnanda. Þessi ágreiningur varði þó ekki rétt stefnanda til að fá greitt fyrir vinnu sína.
Stefnandi vísar til meginreglna kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga, en sú regla fá m.a. stoð í 5., 6. og 28. gr. laga um lausafjárkaup nr. 39/1922. Hvað gjalddaga kröfunnar varðar er vísað til meginreglu 12. gr. sömu laga. Krafa um dráttarvexti er byggð á III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987. Hvað varðar kröfu um málskostnað úr hendi stefnda vísar stefnandi til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að aðilar hafi gert munnlegt samkomulag um að stefnandi aðstoðaði stefnda án endurgjalds við heyskap haustið 1999. Stefnandi hafi viljað vera með annan fótinn á jörðinni fram yfir réttir. Í samræmi við þetta samkomulag hafi stefnandi notið ýmissa fríðinda og hlunninda á jörðinni og þá hafi stefndi og fjölskylda hans aðstoðað stefnanda við smölun á sauðfé og að koma sauðfé til slátrunar. Af þessum sökum beri stefnandi sönnunarbyrði fyrir því að annað endurgjald hafi átt að koma fyrir vinnuframlag hans.
Stefndi byggir einnig á því að aldrei hafi komist á samningur um að endurgjald skyldi koma fyrir vinnuframlag stefnanda. Þvert á móti hafi stefnandi sjálfur með orðum og athöfnum komið þannig fram við stefnda og konu hans að þau hafi ekki getað haldið annað en það væri stefnanda sjálfum mikilvægt að aðstoða þau við heyskapinn. Þessu til stuðnings bendir stefnandi á að reikningar vegna þessarar vinnu voru ekki gefnir út fyrr en í mars 2000 eða rúmum átta mánuðum eftir að rétt hefði verið að gefa út fyrsta reikning vegna vinnunnar. Þetta athafnaleysi stefnanda hafi styrkt stefnda í þeirri trú að stefnandi áskildi sér ekki endurgjald fyrir vinnuna.
IV.
Niðurstaða.
Fyrir liggur að stefnandi gerði stefnda ekki reikning fyrir vinnu sína eftir því sem hann innti hana af hendi. Þá verður ekki séð að hann hafi gert reka að því að fá greiðslu fyrr en með gerð reikninga þeirra sem mál þetta snýst um. Þeir eru dagsettir 1. janúar 2000 en stefnandi gat ekki svarað því hvenær þeir voru sendir stefnda sem heldur því fram að þeir hafi borist honum í mars á síðasta ári. Af framburði stefnanda verður ekki ráðið að hann hafi í upphafi áskilið sér þóknun fyrir starfa sinn í þágu stefnda. Stefndi hefur haldið því fram að stefnandi hafi ekki ætlað sér neina þóknun og fær hans framburður nokkra stoð í framburði föður og tengdaföður hans en þeirra framburð verður þó að skoða í ljósi tengsla þeirra við stefnda. Af framburð stefnda og vitna verður ekki annað ráðið en að stefndi hafi haft öll tök á að verða sér úti um öll þau tæki sem hann þurfti við heyskapinn án endurgjalds og verður að telja líklegt að hann hefði valið þann kostinn ef stefnandi hefði gert honum grein fyrir gjaldskrá þeirri sem fram kemur á reikningum hans. Aftur á móti má telja eðlilegt að stefndi hefði gengið eftir skýrri yfirlýsingu stefnanda þess efnis að hann ætlaði ekki að taka neitt endurgjald fyrir framlag sitt á tækjum og vinnu í þágu stefnda.
Stefnandi og stefndi lýstu því báðir að tekist hafði samkomulag á milli þeirra um að stefndi keypti rúllubindivél af stefnanda en greiðsla átti ekki að fara fram fyrr en eftir áramót og var því eðlilegt af hálfu stefnda að líta svo á að verið væri að vinna með vél í hans eigu. Þá liggur og fyrir að annað fólk en stefnandi kom að heyskapnum á Saurbæ þetta sumar og gerði stefnandi stefnda enga grein fyrir því að það fólk væri að vinna á hans vegum og því bæri stefnda að greiða fyrir vinnuframlag þess. Hvað þetta varðar bar stefnandi að sjálfur hafi hann ekki pakkað neinum rúllum heldur hafi mágur hans gert það. Einnig kvað stefnandi mág sinn hafi rúllað eitthvað með vél sem hann átti.
Stefnandi kannaðist og við að maður frá Þorgrímsstöðum hafi rúllað 30 rúllur á Saurbæ en hann sagðist hafa unnið fyrir þann mann á móti. Stefnandi kvað stefnda hafa slegið eitthvað af túnum, einnig hafi hann rifjað svolítið og ekið nokkru af rúllum heim af túnunum. Stefndi bar og að aðrir hafi unnið að heyskapnum en stefnandi. Þannig hafi hann sjálfur slegið, rifjað, pakkað og ekið heyi heim og einnig hafi aðrir veitt aðstoð og lánað tæki.
Aðilar hafa ekki lagt fyrir dóminn gögn sem sýna hversu langan tíma tekur, undir venjulegum kringumstæðum, að slá, rifja, raka, rúlla og pakka hey af einum hektara en nokkuð mikið bar á milli í framburði stefnanda annarsvegar og framburði stefnda og föður hans hins vegar. Stefndi hefur ekki gert reka að því að leggja fram gögn sem sýni fram á að gjaldskrá sú sem stefnandi miðar við sé óeðlilega há.
Þegar allt framangreint er virt í heild telst ósannað að stefnandi hafi gert stefnda nægilega grein fyrir því að hann myndi áskilja sér þóknun fyrir vinnu sína með þeim hætti sem hann hefur gert og jafnframt ósannað að stefnandi hafi ekki ætlað sér neitt endurgjald, en ljóst má vera að hann varð fyrir nokkrum kostnaði vegna aðstoðar sinnar, og verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda fjárhæð að álitum sem þykir hæfilega ákveðin 125.000 krónur að viðbættum virðisaukaskatti.
Með hliðsjón af málavöxtum og niðurstöðu málsins skal hvor aðili bera sinn kostnað af málinu.
Halldór Halldórsson, dómstjóri kveður upp dóm þennan. Dómsuppsaga hefur dregist vegna annarra embættisstarfa dómarans en sakflytjendur hafi lýst því yfir að þeir telji ekki þörf á að endurflytja málið.
DÓMSORÐ.
Stefndi, Baldur Heimisson, greiði stefnanda Sigurði Inga Guðmundssyni 125.000 krónur að viðbættum virðisaukaskatti.
Málskostnaður fellur niður.