Hæstiréttur íslands
Mál nr. 589/2010
Lykilorð
- Brenna
|
|
Þriðjudaginn 21. júní 2011. |
|
Nr. 589/2010. |
Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir settur saksóknari) gegn Auðuni Þorgrími Þorgrímssyni(Brynjar Níelsson hrl.) |
Brenna.
A var gefið að sök brot gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa hellt bensíni inn í stigagang og á gólf á jarðhæð í húsi að T, kveikt í bensíninu og valdið þannig eldsvoða, sem hefði haft í för með sér almannahættu. A játaði að hafa kveikt í húsinu en andmælti því að sá verknaður varðaði við 2. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga. Talið var að líta yrði svo á að eldsvoði í húsinu að T hefði einn og sér haft í för með sér augljósa hættu á yfirgripsmikilli eyðingu á eignum annarra í skilningi 2. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga. Útilokað væri annað en að A hlyti að hafa séð fram á þetta og var verknaður hans því talinn varða við það lagaákvæði. Var refsing hans ákveðin fangelsi í tvö ár.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 7. október 2010 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um annað en refsingu ákærða, sem verði þyngd.
Ákærði krefst að refsing verði milduð.
Eins og greinir í héraðsdómi er ákærða gefið að sök brot gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa 14. janúar 2009 hellt bensíni inn í stigagang og á gólf á jarðhæð í húsi að [...] 10 í Reykjavík, kveikt í bensíninu og valdið þannig eldsvoða, sem hafi haft í för með sér almannahættu. Í ákæru segir að nafngreindur íbúi í húsinu hafi komist þaðan út áður en eldurinn kviknaði, en hann hafi breiðst hratt út og húsið orðið alelda. Ákærði hafi með þessu valdið eignatjóni á báðum hæðum hússins, svo og hættu á frekara tjóni hefði ekki tekist að slökkva eldinn fljótlega. Í málinu játar ákærði að hafa kveikt í húsinu eins og í ákæru greinir, en andmælir því á hinn bóginn að sá verknaður varði við 2. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga.
Samkvæmt gögnum málsins var nafngreindur byggingaverkfræðingur dómkvaddur í Héraðsdómi Reykjavíkur 19. janúar 2009 til að meta að beiðni lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hvort fyrrgreind háttsemi ákærða hafi valdið almannahættu og verið þess eðlis að mönnum hafi bersýnilega verið búinn lífsháski eða getað haft í för með sér augljósa hættu á yfirgripsmikilli eyðingu á eigum annarra manna. Í hinum áfrýjaða dómi er greint frá helstu niðurstöðum matsgerðar, sem lokið var 14. apríl 2010. Þar kom meðal annars fram að matsmaðurinn teldi öruggt að „íkveikjan myndi þróast á þann veg að yfirtendrun yrði í stigahúsinu, húsið yrði alelda og yfirgripsmikil eyðilegging yrði á húsinu á báðum hæðum og því er til staðar almannahætta vegna eigna.“ Á hinn bóginn hafi húsið verið mannlaust og engum því verið búinn bersýnilegur lífsháski með þessu. Þá hafi af nánar greindum ástæðum ekki verið hætta á að eldurinn bærist í önnur hús. Þótt ekki verði litið svo á að matsmanninum hafi verið rétt að taka afstöðu til spurningar matsbeiðanda um hvort mönnum hafi bersýnilega verið búinn lífsháski af háttsemi ákærða með því einu að vísa til þess að húsið hafi reynst vera mannlaust verður að gæta að því að eftir hljóðan ákæru er ákærða ekki gefið að sök að hafa stofnað lífi annarra í hættu. Þá er ekkert fram komið í málinu til að hrinda þeirri niðurstöðu í matsgerðinni að ekki hafi verið hætta á að eldurinn bærist í önnur hús. Á hinn bóginn verður að líta svo á að eldsvoði í húsinu að [...] 10 hafi einn og sér haft í för með sér augljósa hættu á yfirgripsmikilli eyðingu á eignum annarra í skilningi 2. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga. Útilokað er annað en að ákærði hljóti að hafa séð fram á þetta og varðar því verknaður hans við það lagaákvæði. Að því virtu verður niðurstaða héraðsdóms staðfest.
Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Aðfinnsluvert er að lögregla hafi látið viðgangast að dómkvaddur maður hafi varið nærri fimmtán mánuðum til að ljúka matsgerð og tafið með því einu ákvörðun um saksókn í málinu.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Auðunn Þorgrímur Þorgrímsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 347.540 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. september 2010.
Málið er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 4. júní sl. á hendur ákærða, Auðuni Þorgrími Þorgrímssyni, kt. 230257-4699, Leifsgötu 22, Reykjavík, „fyrir brennu, með því að hafa miðvikudaginn 14. janúar 2009 hellt bensíni úr plastbrúsa inn í stigagang húsnæðisins og á gólf á jarðhæð að [...] 10 í Reykjavík, kveikt í bensíninu og valdið með því eldsvoða sem hafði í för með sér almannahættu. Íbúi hússins, A, komst út um útidyrahurðina áður en eldurinn kviknaði, en hann breiddist út með þeim afleiðingum að húsið varð alelda og með þessu olli ákærði eignatjóni á báðum hæðum hússins og hættu á frekara eignatjóni hefði eldurinn ekki verið slökktur fljótlega.
Telst þetta varða við 1. mgr, sbr. 2. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Málavextir
Miðvikudaginn 14. janúar 2009 kom stúlka að nafni A, f. [...], hlaupandi inn á veitingastofuna [...] við [...] í Reykjavík og sagði frá því að kveikt hefði verið í húsinu nr. 10 þar við götuna. Tveir lögreglumenn voru þar inni á veitingastaðnum og fóru að huga að þessu. Var þá logandi eldur fyrir innan útidyr hússins og á annarri hæð hússins. Reyk lagði einnig um húsið og frá því. Hús þetta var að hluta til ónotað en þó voru þar nokkur íbúðarherbergi sem leigð voru út, þar á meðal [...] fólki. Húsið var mannlaust þegar í því kviknaði en þó er þess getið að maður hafi verið staddur í stóru samliggjandi rými á jarðhæð sem snýr út að [...]. Hann mun þó hafa komist út án vandkvæða þegar honum var sagt af eldinum. Slökkvilið kom á vettvang og slökkti eldinn fljótlega. Grunur beindist að ákærða í máli þessu og var hann handtekinn heima hjá sér skömmu seinna.
Í staðfestri álitsgerð B byggingaverkfræðings er húsinu lýst svo:
„Um er að ræða bruna í húseigninni [...] 10, Reykjavík sem er tvílyft steinhús (grásteinn) á horni [...] og [...], sambyggt með húsum við báðar þessar götur. Áfast húsinu til austurs er [...] 12 sem er járnklætt hús, hæð og ris á steyptum kjallara og er eldvarnarveggur milli húsanna. Áfast húsinu til suðurs, á sama húsnúmeri, er einnar hæðar bygging, sem er einn salur, og er innangengt á milli húshlutanna en frágangur er ekki eldtraustur.
Byggingarmáti hússins er með þeim hætti að útveggir eru úr steini en milligólf og þak er úr timbri. Gólfbitarnir hvíla á stálbitum og stálsúlum í miðju húsinu og útveggjum. Á húsinu er lágt ris og eru timburhæðarskil að risinu. Lítill hleri liggur upp í risið úr því rými sem hýsti eldhúsið á 2. hæð.
Á húsinu er inngangur frá götu að norðanverðu inn á 1. hæð en á vesturhlið eru tvær hurðir inn á 1. hæðina og á milli þeirra inngangur inn í forstofu að snúnum stiga upp á 2. hæð. Stiginn er úr timbri en forskallaður að neðan sem hefur hlíft honum gegn bruna neðanfrá. 1. hæð hússins er að mestu einn salur. Þegar komið er upp stigann upp á efri hæðina er komið inn á stuttan gang þaðan sem gengið er í öll rými á hæðinni. Fyrst til vinstri er gengið inn í litla skrifstofu með glugga til vesturs og er skrifstofan m.a yfir stiganum og anddyrinu niðri. Fyrir gangendanum til vinstri er íbúðarherbergi og einnig meðfram norðurveggnum að baðherberginu sem einnig er með glugga til norðurs og austast að norðan er eldhús. Úr eldhúsinu er lítill hleri upp í risið sem er ónotað, lofthæð þar er ekki full. Brunamótstaða hlerans er óveruleg. Til suðurs úr ganginum er einnig gengið inn í íbúðarherbergi og hafa þau glugga til suðurs yfir þaksvalir á einnar hæðar byggingunni. Útgangur er á svalirnar úr austasta herberginu. Öll þessi íbúðarherbergi voru í útleigu og voru íbúar sex talsins samkvæmt lögregluskýrslu. Uppbygging hæðarskila er með þeim hætti að neðst er pússning á reyr, síðan borðaklæðning, langbönd og aftur borðaklæðning þar ofan á og loks gólfefnið. Ekki varð vart við brunaþolna einangrun í þessum gólfum. Hæðarskilin að risinu voru með sama hætti en í þeim mátti sjá að sag og hefilspænir hafa verið notaðir til hitaeinangrunar. Langveggur í miðju húsinu (liggur í austur/vestur) er steyptur en milliveggir milli herbergjanna eru flestir úr timbri með óskilgreindri brunamótstöðu eins og milligólfið. Ekki kemur fram í lögregluskýrslu að hurðir inn í herbergin hafi verið með sérstakri brunamótstöðu og sést á myndamöppu tæknideildar lögreglunnar, mynd nr. 15, að hurðin inn í herbergið gengt stigauppgöngunni er mikið undin sem bendir til óverulegrar brunamótstöðu.“
Um sjálfan brunann í húsinu segir ennfremur í skýrslunni:
„Þegar brunavettvangur var skoðaður þann 3. mars 2010 var að mestu búið að rífa innveggina innan úr húsinu á báðum hæðum og neðan úr lofti efri hæðar, en sjá mátti helstu verksummerki eftir útbreiðslu brunans á útveggjum m.a. bruna og sótferla sem og á þeim innveggjum sem ennþá stóðu uppi.
Á 1. hæðinni sjást merki um bruna í lofti hússins strax til vinstri við útihurðina fyrir miðri norðurhliðinni og hefur sá eldur verið búinn að brenna sig í gegnum loftaklæðninguna og upp í borðaklæðninguna ofan á gólfbitunum. Áframhaldandi bruni á þessum stað hefði brennt sig á milli hæðanna og inn í milligólfið.
Á 1. hæð hefur verið talsverður eldur í kompu undir stiganum upp á 2. hæð og þar hefur verið allmikill bruni. Forskallingin á stigabakinu hefur haldið í brunanum. Að öðru leyti er ekki mikið um beinar eldskemmdir á hæðinni en allir opnir vegg- og einkum loftfletir eru mikið skemmdir af reyk. Óvarðar stálrörasúlur sem eru undir gólfbitum sem halda uppi hæðarskilunum hafa ekki gefið sig í brunanum sem bendir til þess að hitastigið við þær hefur ekki verið yfir ca. 450°C nema þá í mjög skamman tíma.
[ ]
Til að kanna hvort eldurinn hefði getað þróast upp í að teljast vera eldsvoði þá þarf að kanna möguleika hans til að magnast upp og breiðast út frá upphafsstað sínum til annarra brennanlegra hluta í húsinu og síðan vaxtamöguleika hans upp í yfirtendrun. Hér er það hvort bruninn í stiganum hefði náð að magnast upp og breiðast til annarra hluta hússins.
Þegar brunar verða í húsum er það aðallega tvennt sem ræður því hvernig bruninn þróast í byrjun en það er aðgangur hans að súrefni og eiginleikar þess efnis sem er að brenna en einnig spila inn í byggingarmáti hússins og stærð þess. Aðgangurinn að súrefni, umfram þess sem er í rýminu, ræðst af flatarmáli glugga og hurða, og stýrir það því hversu hratt bruninn vex og hversu heitur hann verður. Fram að því að gluggar brotna ræðst aðstreymi súrefnis af ýmsum óþéttleikum í rýminu og opnum gluggum og hurðum. Eiginleikar efnisins sem er að brenna stýrir einnig þessum þáttum alveg í byrjun en magn efnisins ræður því hversu lengi brennur í húsinu. Við mat á almannahættu vegna eigna skiptir yfirtendrunin þó ekki höfuðmáli þar sem allt sem er í viðkomandi rými af almennum hlutum er orðið ónýtt áður en yfirtendrun verður.“
Þá segir svo um afstöðu eldsins til annarra húsa:
„Athugun á staðnum sýnir að húsið er hornhús á horni [...] og [...], stendur áfast [...] 12 til austurs og nær liðlega 40 m upp með [...]. Að [...] 12 er eldvarnarveggur en sjá mátti á veggnum að innanverðu að hann er allmikið sprunginn en ekki er talið að það hafi verið í þeim mæli að veggurinn héldi ekki. Fjarlægðir hússins að [...], sem stendur vestan [...], mælast um 7 m en önnur hús eru lengra í burtu m.a. eru um 28 m yfir [...] til norðurs að húsinu nr. 9 sem eru svokallaðar [...].“
Loks segir svo í skýrslunni:
„Með áframhaldandi bruna í húsinu hefði eldur og reykur borist um allt húsið og það orðið alelda á báðum hæðum. Að [...] 12 er eldvarnarveggur úr steini sem er allmikið sprunginn bæði í eldhúsinu og í austasta herberginu að sunnan en sprungurnar eru lokaðar og ekki talið líklegt að það myndi brenna í gegnum þær. [...] 8 stendur vestan [...] og er fjarlægðin í það hús um 7 m, mælt á loftmynd. Útreiknuð hitageislun á húsið frá eldi í [...] 10 verði það alelda, og geislun sé út um alla glugga á efri hæðinni, reiknast að vera um 4.6 5.0 kW/m2 sem er allmikið undir þeim gildum sem þarf til að kveikja í timbri á húsinu en almennt er talið að timbur þoli um 12.5 kW/m2 nokkra stund án þess að í því kvikni.
Þau hús önnur sem eru í nágrenni við [...] 10 eru öll utan þeirra fjarlægða sem byggingarreglugerð setur sem lágmarksfjarlægð milli húsa og utan þeirra marka sem útreiknuð hitageislun veldur hættu. Með þessum fjarlægðum á að nást ásættanlegt öryggi gegn því að eldur geti breiðst út milli bygginga en alltaf er hætta á að reyk frá bruna leggi yfir næstu hús sem gæti valdið skemmdum þar.
Ekki hefur því verið hætta á að eldur bærist í næstu hús vegna þessa bruna og því hefur ekki verið hætta á að hagsmunir, hvorki fjárhagsmunir né líf manna og limir, sem voru utan [...] 10 færu forgörðum eða spilltust og engum hefur þar verið bersýnilegur lífsháski búinn af eldsvoðanum.
Niðurstaða:
Með vísan til ofanritaðs má telja öruggt að um sé að ræða eldsvoða í skilningi 164. gr. almennra hegningarlaga. Íkveikjan myndi þróast á þann veg að yfirtendrun yrði í stigahúsinu, húsið yrði alelda og yfirgripsmikil eyðilegging yrði á húsinu á báðum hæðum og því er til staðar almannahætta vegna eigna. Þar sem húsið var mannlaust hefur engum verið bersýnilegur lífsháski búinn vegna íkveikjunnar í húsinu og því ekki til staðar almannahætta gagnvart því.
Vegna aðskilnaðar [...] 10 með eldvarnarvegg að [...] 12 og fjarlægða að [...] 8 hefur ekki verið hætta á að eldur bærist í þau og því ekki verið um hættu á að fjárhagsmunir, eða líf manna og limir, sem voru utan [...] 10, færu forgörðum eða spilltust. Því hefur ekki verið til staðar almannahætta við íkveikjuna utan hússins [...] 10 hvorki fyrir menn né eignir.“
Ákærði hefur játað sök í málinu. Hann kveðst hafa komist að því að fyrrum eiginkona hans, sem þarna átti heima, hefði verið í tygjum við tvo aðra karlmenn sem hún hefði einnig haft fé af. Þennan morgun dag hefði hún hringt og vakið hann, hálf geggjuð, eins og hann orðar það. Sjálfur hefði hann verið búinn að vera á nokkurra daga fylliríi þegar þetta gerðist og eftir símtalið hafi hann haldið áfram að drekka. Hann hafi þá í reiði tekið „þá skyndiákvörðun að loka þessu greni“ með því að kveikja í því. Hafi hann komið því strax í verk með því að fara þangað og hella þar bensíni úr plastbrúsa sem hann vissi að var í baðherbergi á efri hæð hússins ásamt öðrum eldfimum efnum tilheyrandi [...] veitingastað í nálægu húsi. Hann kveðst hafa verið með eldspýtur á sér enda hafi hann reykt á þessum tíma. Hann segir útidyrnar hafa verið ólæstar, enda læsingin ónýt. Hafi hann tekið bensínbrúsann þarna inni og rekið út stúlku sem þarna var inni. Þá hafi hann gætt að því hvort fleiri væru í húsinu með því að líta inn í íbúðarherbergin. Hann hafi svo hellt bensíninu yfir stigann og kveikt í. Að þessu loknu hafi hann farið heim til sín. Fyrir utan leiguherbergin segir hann að hafi margs konar starfsemi viðgengist í þessu húsi, svo sem vændi, kjötiðnaður fyrir [...] veitingastað, fíkniefnasala, viagra-dreifing, inn- og útflutningsverslun og fleira. Hann kveðst hafa heyrt að til stæði að rífa húsið og byggja nýtt á lóðinni.
A hefur skýrt frá því að hún hafi verið nývöknuð hafi hún heyrt skrölt í póstlúgunni og þegar hún fór niður að aðgæta með þetta hafi hún séð að einhver tróð sígarettu inn um lúguna. Hafi hún opnað dyrnar og spurt hvað væri á seyði en maðurinn þá ýtt henni frá og út úr húsinu. Hann hafi svo kveikt í bensíni en hún hlaupið út á veitingastofuna [...]. Hún segist aðspurð ekki hafa orðið vör við það að maðurinn aðgætti hvort fólk væri þarna áður en hann kveikti í. Hún segist hafa fundið bensínþef í húsinu kvöldið áður en kveðst aðspurð ekki vita hvernig á því stóð.
Niðurstaða
Með játningu ákærða sem er studd öðrum gögnum málsins telst sannað að ákærði hafi lagt eld í húsið nr. 10 við [...] eins og rakið hefur verið hér að framan. Hús þetta er tvílyft hús, sem meðal annars var notað til íbúðar, sambyggt timburhúsi og stendur nálægt öðru timburhúsi og í þéttri byggð annarra húsa. Íkveikja í slíku húsi veldur almannahættu í skilningi 1. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði kveðst hafa aðgætt það að fólk væri ekki í húsinu áður en hann kveikti í því en þetta er í andstöðu við frásögn vitnisins A. Dómurinn lítur einnig svo á að ákærða hafi ekki verið unnt að ganga úr skugga um þetta á skammri stundu og eins og háttar til í húsinu. Verður því að hafna þessari viðbáru hans. Þá hlaut hann einnig að verða að gera ráð fyrir því að húsið myndi allt brenna að innan og loks að eldurinn gæti borist úr því í næstu hús. Ber þannig að sakfella hann fyrir brot gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga.
Refsing og sakarkostnaður
Meðal gagna í málinu er vottorð C sérfræðings í heila- og taugalækningum um heilsufar ákærða. Þar kemur fram að hann hafi orðið fyrir höggi framan á andlit og enni í ágúst 2007 og hafi eftir það átt við að stríða höfuðverk, svefnleysi og einbeitingarskort. Segir þar einnig að líkur séu á því að ákærði hafi fengið framheilaskaða af þessu höggi. Einkenni um slíkan áverka geti verið lélegt innsæi, hvatvísi og dómgreindarskerðing. Þrátt fyrir þetta álítur dómurinn að ekki séu efni til þess að efast um að ákærði sé fyllilega sakhæfur.
Refsingu ákærða ber með vísan til ákvæðis 2. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga að ákveða fangelsi í 2 ár.
Dæma ber ákærða til þess að greiða verjanda sínum, Brynjari Níelssyni hrl., 250.000 krónur í málsvarnarlaun á rannsóknarstigi málsins og fyrir dómi. Dæmast launin með virðisaukaskatti.
Annan sakarkostnað, 173.664 krónur, ber að dæma ákærða til þess að greiða.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærði, Auðunn Þorgrímur Þorgrímsson, sæti fangelsi í 2 ár.
Ákærði greiði verjanda sínum, Brynjari Níelssyni hrl., 250.000 krónur í málsvarnarlaun og 173.664 krónur í annan sakarkostnað.