Hæstiréttur íslands
Mál nr. 566/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi
|
|
Miðvikudaginn 1. nóvember 2006. |
|
Nr. 566/2006. |
Ákæruvaldið(Alda Hrönn Jóhannsdóttir fulltrúi) gegn X (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi.
Ekki var fallist á kröfu um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir X á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, þar sem dráttur hafði orðið á meðferð málsins eftir útgáfu ákæru.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. október 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. október 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 24. nóvember 2006 kl. 15. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Varnaraðili hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 2. október 2006 á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Með dómi Hæstaréttar 11. október 2006 í máli nr. 533/2006 var fallist á að skilyrðum framangreinds ákvæðis væri fullnægt og var úrskurður Héraðsdóms Reykjaness staðfestur um að varnaraðili skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi þar til dómur gengi í máli hans, en þó ekki lengur en til föstudagsins 27. október 2006 kl. 16. Hafði þá verið gefin út ákæra á hendur varnaraðila 9. október 2006. Málið var hins vegar ekki þingfest fyrr en 27. október sama ár eða sama dag og gæsluvarðhaldi varnaraðila átti að ljúka samkvæmt ofangreindum dómi Hæstaréttar. Við þingfestinguna var ákveðið að aðalmeðferð málsins færi fram 16. nóvember næstkomandi. Í greinargerð sóknaraðila kemur fram að ekki hafi verið unnt að þingfesta málið fyrr vegna anna hjá Héraðsdómi Reykjaness.
Samkvæmt 1. mgr. 120. gr. laga nr. 19/1991 með áorðnum breytingum skal dómari svo fljótt sem verða má, og eigi síðar en þremur vikum eftir að hann fær í hendur ákæru, gefa út fyrirkall á hendur ákærða, sem greini stað og stund þingfestingar ásamt áskorun til hans um að sækja þing. Þó að dómari hafi lögbundinn hámarksfrest til að gefa út fyrirkall eftir útgáfu ákæru hvílir eðli málsins samkvæmt sú skylda á honum að hraða þingfestingu og meðferð máls þegar ákærði sætir gæsluvarðhaldi. Í þeim tilvikum kann ennfremur að vera nærtækt að nýta þá heimild sem felst í 2. málslið 1. mgr. 122. gr. laganna að þingfesta málið þótt fyrirkall hafi ekki verið gefið út enda sæki ákærði þing. Framkomnar skýringar á áðurnefndum drætti eru ekki fullnægjandi. Í ljósi þess sem að framan greinir verður að hafna kröfu sóknaraðila um framlengingu gæsluvarðhaldsins og fella hinn kærða úrskurð úr gildi.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. október 2006.
Lögreglustjórinn í Hafnarfirði hefur í dag krafist þess að ákærði, X, [kt. og heimilisfang], sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi á meðan málum hans er ólokið og dómur hefur gengið í málum hans eða allt til kl. 15:00 föstudaginn 24. nóvember 2006.
Ákærði hefur mótmælt gæsluvarðhaldskröfunni.
Með ákæru dagsettri 9. október sl. en þingfestri í dag var X ákærður fyrir allmörg brot sem flest varða við 244. gr. og 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í dag var einnig þingfest á hendur honum ákæra sem er dagsett 18. október sl. en þar er hann ákærður fyrir gripdeild og umferðarlagabrot. Málin voru sameinuð.
Ákærði var úrskurðaður í gæsluvarðhald með úrskurðum Héraðsdóms Reykjaness þann 2. október og 9. október sl., en síðarnefndi úrskurðurinn var staðfestur af Hæstarétti, sbr. dóm hans nr. 533/2006, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga um opinberra mála nr. 19/1991, þ.e. með vísan til þess að hætta sé á að kærði haldi áfram brotum á meðan málum hans er ekki lokið. Er þess nú krafist að ákærði verði úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 allt þar til dómur gengur í málum hans.
Í greinargerð lögreglu er því lýst að ákærði hafi viðurkennt, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi við fyrirtöku gæsluvarðhaldskröfu þann 2. október sl., að hafa gerst sekur um mörg þau ákæruatriði sem talin eru upp í ákæruskjali gefnu út þann 9. október sl.
Af hálfu lögreglustjóra er vísað til þess að brot þau sem ákærði er grunaður um að hafa framið, varði flest við ákvæði 244. gr, 245. gr. og 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk ákvæða umferðarlaga. Ákærði hafi viðurkennt fyrir dóminum við fyrirtöku gæsluvarðhaldskröfu þann 2. október sl. að vera fíkniefnaneytandi í töluverðri neyslu og að hafa fjármagnað neyslu sína með afbrotum. Sé það mat lögreglustjóra að þegar hafi sýnt sig að brýn hætta sé á að ákærði haldi áfram afbrotum meðan málum hans er ólokið fyrir dómi.
Með vísan til framangreinds, hjálagðra gagna, þess að ákærði er mikill fíkniefnaneytandi og fyrst og fremst til þeirrar hættu sem fyrir hendi er á áframhaldandi auðgunarbrotum, sem og þeirra almanna- og einstaklingsbundnu hagsmuna sem fyrir hendi eru og með vísan c-liðar 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, fer lögreglustjóri þess farið á leit að fallist verði á framkomna kröfu.
Í sakavottorði ákærða frá 22. ágúst sl. kemur fram að kærði var dæmdur í 4 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir brot gegn 1. mgr. 257. gr., 244., 259., 231.,1. mgr. 254., 1. mgr. 155. hgl. og árið 2006 hlaut hann 12 mánaða fangelsi skilorðsbundið til 3 ára þar sem síðastnefndur dómur var dæmdur með. Var hann dæmdur fyrir brot gegn 2. mgr. 257. gr.og 244. gr. hgl. og fíkniefnalöggjöfinni. Þá fékk hann þrívegis sekt fyrir brot gen fíkniefnalöggjöfinni á árinu 2006, síðast þann 7. júní.
Að öllu því virtu sem að framan hefur verið rakið um háttsemi ákærða nú og í úrskurðum 2. og 9. október sl., sem og með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum, þykir ljóst að fyrir hendi sé augljós hætta á því að ákærði haldi áfram brotastarfsemi gangi hann laus. Nú liggur fyrir að aðalmeðferð í málum ákærða fyrir dóminum fer fram fimmtudaginn 16. nóvember nk. og er dóms að vænta í næstu viku á eftir. Verður því fallist á kröfu lögreglustjóra í Hafnarfirði um að ákærði sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli c-liðar 103. gr. laga um meðferð opinberra mála á meðan málum hans er ólokið fyrir dóminum og dómur hefur gengið í málum hans eða allt til kl. 15:00 föstudaginn 24. nóvember 2006.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákærði, X, [kt.], sæti gæsluvarðhaldi á meðan málum hans er ólokið og dómur hefur gengið í málum hans þar til dómur gengur í málum hans eða allt til kl. 15:00 föstudaginn 24. nóvember 2006.