Hæstiréttur íslands
Mál nr. 750/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Sakarefni
- Málamyndagerningur
- Kröfugerð
- Aðild
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Fimmtudaginn 3. desember 2015. |
|
Nr. 750/2015.
|
A B C og D (Reimar Pétursson hrl.) gegn E (Magnús Björn Brynjólfsson hrl.) |
Kærumál. Sakarefni. Málamyndagerningur. Kröfugerð. Aðild. Vanreifun. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli A o.fl. var vísað frá dómi. Í úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að með kröfu sinni væru A o.fl. að leita atbeina dómstóla til að koma fram eða fylgja eftir ráðstöfunum sem þau sjálf teldu refsiverðar, en slíkt væri í andstöðu við 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í dómi Hæstaréttar var litið svo á að málsókn A o.fl. miðaði ekki að því að skjóta fasteignum undan aðför skuldheimtumanna, heldur að gerningum, sem þau töldu vera til málamynda, yrði hrundið. Taldi Hæstiréttur að A o.fl. hefðu lögvarða hagsmuni af því að hafa uppi slíkar kröfur. Þá var ekki fallist á að málatilbúnaður A o.fl. væri svo óskýr að vísa bæri málinu frá dómi. Loks var ekki talin standa réttarfarsnauðsyn til þess, eins og kröfugerð A o.fl. væri úr garði gerð, að gefa öðrum sameigendum tækifæri til að láta málið til sín taka. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið fyrir að nýju.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Karl Axelsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 30. október 2015 en kærumálsgögn bárust réttinum 12. nóvember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. október 2015, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefjast þau kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Mál þetta höfðuðu sóknaraðilar á hendur varnaraðila á grundvelli 3. mgr. 68. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. og 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991. Þau krefjast viðurkenningar á eignarrétti dánarbús F að jörðinni [...], [...], landnúmer [...], með þeim hlunnindum sem henni fylgja. Jafnframt gera þau kröfu um viðurkenningu á eignarrétti að tilgreindum landskikum þar í sveit. Með hinum kærða úrskurði var málinu vísað frá dómi. Taldi héraðsdómur að með kröfu sóknaraðila varðandi jörðina væri verið að leita atbeina dómstóla til að koma fram eða fylgja eftir ráðstöfunum sem þau sjálf teldu refsiverðar, en slíkt væri í andstöðu við 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991. Til stuðnings niðurstöðu sinni vísaði héraðsdómur jafnframt til dóms Hæstaréttar 18. febrúar 2010 í máli nr. 355/2009.
Ekki er fallist á að sá dómur Hæstaréttar hafi þýðingu við úrlausn þessa máls. Er þá litið til þess að málsókn sóknaraðila miðar ekki að því að fylgja eftir ráðagerðum um að fasteignirnar sem að framan greinir verði skotið undan aðför skuldheimtumanna heldur að viðurkenndur verði eignarréttur dánarbús F að þeim. Er málatilbúnaður sóknaraðila á því reistur að gerningarnir, sem þau byggja á að séu til málamynda, hafi ekki gildi samkvæmt efni sínu. Samkvæmt þessu hafa sóknaraðilar lögvarða hagsmuni af því að krefjast þess að gerningunum verði hrundið, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 19. desember 2012 í máli nr. 308/2012.
Þá beinist krafa sóknaraðila einungis að eignarhlut varnaraðila í framangreindri jörð en ekki annarra sameigenda hennar. Þrátt fyrir að stefna í héraði sé lengri en nauðsyn ber til telst málatilbúnaður sóknaraðila ekki svo óskýr að vísa beri málinu frá dómi af þeim sökum. Loks stendur ekki réttarfarsnauðsyn til þess, eins og kröfugerð sóknaraðila er úr garði gerð, að gefa öðrum sameigendum tækifæri til að láta málið til sín taka, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 8. desember 2006 í máli nr. 603/2006.
Samkvæmt framansögðu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið fyrir að nýju.
Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið fyrir að nýju.
Varnaraðili greiði sóknaraðilum hverjum fyrir sig 100.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. október 2015.
Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 13. október sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af A, [...], [...], B, [...], C, [...], [...] og D, [...], [...] á hendur E, [...], [...], til hagsbóta dánarbúi F, síðast til heimilis að [...], [...], með stefnu birtri 15. maí 2015.
Stefnendur gera eftirfarandi dómkröfur:
Að viðurkenndur verði beinn eignarréttur dánarbúsins að jörðinni [...], [...], landnúmer [...] sem er [...] hektara ræktað land, með öllum þeim hlunnindum sem jarðarhlutanum fylgja og fylgja ber, þ.m.t. [...] hlutdeild í óskiptu fjörulandi, [...], [...], landnúmer [...], fnr. [...] ([...]) og fnr. [...] ([...]).
Að viðurkenndur verði beinn eignarréttur dánarbúsins að landskika sem ber heitið [...], [...], landnúmer [...] sem er [...] hektara sumarbústaðarland, ásamt öllu því sem honum fylgir og fylgja ber.
Að viðurkenndur verði beinn eignarréttur dánarbúsins að landskika sem ber heitið [...], [...], landnúmer [...] sem er [...] hektara sumarbústaðarland, ásamt öllu því sem honum fylgir og fylgja ber.
Þá krefjast stefnendur málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefndu. Stefnda gerir eftirfarandi dómkröfur.
Aðallega að máli þessu verði vísað frá að öllu leyti eða hluta. Til vara er krafist sýknu af öllum kröfum stefnenda. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnenda.
Í þessum þætti málsins er krafa stefndu um frávísun málsins tekin til úrskurðar. Stefnendur hafna frávísunarkröfu stefndu og krefjast málskostnaðar.
I
Mál þetta varðar ágreining vegna opinberra skipta á dánarbúi F. Stefnendur eru sonur F, A og þrjú barnabörn hans, börn látinnar dóttur F, G. Stefnda er dóttir F.
Ágreiningur málsins lýtur einungis að jörðinni [...] í [...], landnúmer [...] sem er [...] hektara ræktað land, með öllum þeim hlunnindum sem jarðarhlutanum fylgja og fylgja ber, þ.m.t. [...] hlutdeild í óskiptu fjörulandi, [...], [...], landnúmer [...], fnr. [...] ([...]) og fnr. [...]. Kröfurnar ná líka til tveggja landskika sem bera heitin [...], (landnúmer [...] sem er [...] hektara sumarbústaðarland) og [...], (landnúmer [...] sem er [...] hektara sumarbústaðarland) báðum í [...].
F erfði jörðina ásamt systkinum sínum og varð eigandi að 25% eignarhlut í [...] og [...] með skiptayfirlýsingu dags. [...] 1976. F hafði einnig einn erft jörðina [...] frá H, föðurbróður sínum. Hinn [...] 1979 gerðu bræðurnir F og I samning um makaskipti á eignarhlutum sínum í [...] og [...]. Þannig eignaðist F 25% eignarhlut I í [...] og I fékk 25% eignarhlut F í [...]. Í makaskiptasamningnum var sérstaklega tiltekið að forsenda fyrir gildi samningsins væri að kaup J (systurdóttir F) á allri jörðinni að [...] gengi eftir. Með afsali dagsettu [...] 1980 varð J eigandi að allri jörðinni [...]. Þar með var forsenda fyrir gildi makaskiptasamningsins komin fram og er ágreiningslaust að F varð þar með réttmætur eigandi að 50% eignarhlut í [...] sem mál þetta snýst um.
II
Í málinu liggja fyrir tvö afsöl til stefndu vegna jarðarinnar. Annars vegar afsal dags. [...] 1982 þar sem F afsalar stefndu eignarhluta sínum ¼ hluta [...], en eignarhlutinn var í óskiptri sameign á móti systkinum F. Í afsalinu kemur fram að eignarhlutinn sé að fullu greiddur með því að stefnda taki að sér skuld við Samvinnubanka Íslands samkvæmt veðbréfi dags. [...] 1982 áhvílandi á 3. veðrétti að fjárhæð 95.000 kr. Síðan segir að öll lögskil af eigninni miðist við afhendingardag eignarinnar sem var [...] 1982.
Hinum fjórðungi eignarinnar var einnig afsalað til stefndu og gerðist það hinn [...] 1997. Var það föðurbróður stefndu, I, sem gerði það. Í yfirlýsingu I frá 23. júní 2015 kemur fram, að hann og F hafi gert makaskiptasamning hinn [...] 1979 um skipti á ¼ hluta úr landi [...] (eignarhluti F) og ¼ hluta úr landi [...] (eignarhluta I). Kveður I að makaskiptasamningur þessi hafi verið gerður vegna samskiptaerfiðleika milli kaupenda [...] og F. Afsal hafi verið gefið út vegna þessa. Sonur F hafi þurft að fá afsölin vegna byggingarframkvæmda hans á landinu, en týnt þeim báðum. Þar sem bæði afsölin hafi verið týnd hafi nýtt afsal verið útbúið og að beiðni F hafi hann afsalað stefndu jarðarhlutanum. Þar með var búið að afsala til stefndu 50% jarðarinnar. Þetta er ágreiningslaust en stefnendur halda því fram að eignafærslur þessar hafi verið gerðar til málamynda.
III
Stefnendur krefjast viðurkenningardóms um beinan eignarrétt dánarbúsins að jarðarhlutanum. Byggja þeir á því að um málamyndagerninga sé að ræða, það er afsölin hafi verið gefin út til málamynda og að stefnda geti ekki byggt rétt sinn á þeim. Stefnendur halda því fram að bæði á árunum 1981-1982 sem og á árunum 1996-1997 hafi F verið í fjárhagsvandræðum og hafi því ráðstafað eignum sínum til nákominna, þar með töldum eignarhluta sínum í [...] til stefndu. Í 14 tölulið í stefnu segir svo: „Til að koma í veg fyrir að kröfuhafar gengu að eignum sínum hófst [F] handa við að afsala þeim til nákominna til málamynda á árunum 1981-1982.“ Í 17 tölulið í stefnu segir: „Það var síðan á árunum í kringum 1996-1997 að [F] var enn á ný kominn í fjárhagsvandræði.“ Síðan er lýst tildrögum þess að stefnda fékk afsal vegna seinni fjórðungs landsins.
Af framansögðu er ljóst að stefnendur byggja málsókn sína á ráðstöfunum sem þau segja gerðar í því skyni að skjóta jörðinni undan aðför skuldheimtumanna F. Slík háttsemi er refsiverð, sbr. 4. tl. 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hér skiptir hvorki máli að F sé nú látinn, en verið er að skipta eignum dánarbús hans, né að bú hans hafi ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta í lifandi lífi hans. Það verður ekki leitað atbeina dómstóla til að koma fram eða fylgja eftir ráðagerðum af þessu tagi, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Leiðir þetta til þess að kröfum stefnanda verður vísað frá dómi, og er hér til hliðsjónar litið til dóms Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 355/2009.
Samkvæmt þessari niðurstöðu og með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála ber stefnendum að greiða stefndu málskostnað svo sem greinir í úrskurðarorði.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ
Málinu er vísað frá dómi.
Stefnendur, A, B, C og D greiði stefndu, E samtals 600.000 kr. í málskostnað.