Hæstiréttur íslands

Mál nr. 386/2015

Slysavarnarfélagið Landsbjörg (Guðjón Ármannsson hrl.)
gegn
Baldri Sigurðarsyni (Steingrímur Þormóðsson hrl.)
og gagnsök

Lykilorð

  • Skaðabótamál
  • Viðurkenningarkrafa
  • Skaðsemisábyrgð
  • Sakarskipting
  • Stórkostlegt gáleysi

Reifun

B höfðaði mál gegn L og krafðist þess að viðurkennd yrði skaðabótaskylda L á líkamstjóni sem B varð fyrir þegar hluti skottertu sem hann kveikti í skaust í andlit hans með þeim afleiðingum að hann missti sjón á hægra auga. Hélt B því fram að L, sem teldist framleiðandi tertunnar og jafnframt dreifingaraðili hennar, bæri hlutlæga ábyrgð vegna þess tjóns sem rakið yrði til ágalla á tertunni, sbr. 6. gr. laga nr. 25/1991 um skaðsemisábyrgð. Í dómi Hæstaréttar kom fram að allar leiðbeiningar á tertunni hefðu samrýmst þeim kröfum sem gerðar væru til leiðbeininga í reglugerð nr. 952/2003 um skotelda að því undanskildu að ekki voru leiðbeiningar um að öryggisfjarlægð væri 25 metrar. Þar sem leiðbeiningarnar hefðu ekki verið jafn ítarlegar og ákvæði reglugerðarinnar mæltu fyrir um var talið að ágalli hefði verið á tertunni í skilningi 1. mgr. 5. gr. laga nr. 25/1991 og að á þeim ágalla bæri L ábyrgð. Á hinn bóginn yrði ráðið af framburði vitna að B hefði ekki farið eftir þeim leiðbeiningum sem voru á tertunni og hann kvaðst hafa lesið áður en hann kveikti í henni en þær hefðu gefið honum tilefni til ríkrar aðgæslu meðal annars um að víkja vel frá tertunni. Þess í stað hefði hann staðið yfir tertunni og fært hana til eftir að hann kveikti í henni. Með þeirri háttsemi hefði hann sýnt af sér stórkostlegt gáleysi og yrði því talinn meðábyrgur að slysinu. Var því talið rétt að hann bæri tjón sitt að hálfu, sbr. 9. gr. laga nr. 25/1991.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Hjördís Hákonardóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. júní 2015. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að skaðabótaskylda hans verði einungis viðurkennd að hluta og málskostnaður felldur niður.

Gagnáfrýjandi skaut málinu fyrir sitt leyti til Hæstaréttar 30. júlí 2015. Hann krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda aðaláfrýjanda á líkamstjóni sem hann varð fyrir 1. janúar 2013, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.

I

Ágreiningur máls þessa lýtur að skaðabótaábyrgð vegna slyss er gagnáfrýjandi varð fyrir þegar hluti skottertu sem hann kveikti í aðfaranótt 1. janúar 2013 skaust í andlit hans með þeim afleiðingum að hann missti sjón á hægra auga. Byggir gagnáfrýjandi á því að aðaláfrýjandi, sem teljist framleiðandi tertunnar og jafnframt dreifingaraðili hennar, beri hlutlæga ábyrgð vegna þess tjóns sem rakið verði til ágalla á skottertunni, sbr. 6. gr. laga nr. 25/1991 um skaðsemisábyrgð. Af hálfu aðaláfrýjanda er á því byggt að tjón gagnáfrýjanda sé einvörðungu að rekja til stórfellds gáleysis hans sjálfs er hann kveikti í tertunni.

Aðaláfrýjandi hafði samkvæmt leyfisbréfi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 1. desember 2011 fengið endurnýjað leyfi til að flytja inn og versla með skotelda í atvinnuskyni samkvæmt heimild í 5. og 7. gr. vopnalaga nr. 16/1998, sbr. reglugerð nr. 952/2003 um skotelda. Skotterta, samsvarandi þeirri er gagnáfrýjandi rekur tjón sitt til, bar heitið „Kaka ársins 2012“. Um var að ræða 190 skota blævængstertu, með lóðréttum og hallandi skothólkum. Kakan var 24 kg að þyngd og er ágreiningslaust að allir hólkar í tertunni voru undir tveimur tommum, en ágreiningur stendur um hvort hún hafi haft einn kveikiþráð eða fleiri. Á límmiða utan á kassa hennar voru öryggisleiðbeiningar, sem báru yfirskriftina: „Leiðbeiningar fyrir risatertur“. Þar kom fram að tertuna mætti aðeins nota utandyra og skyldi hún standa á þurrum og sléttum fleti í hæfilegri fjarlægð frá húsum og bílum. Þá voru leiðbeiningar um að opna skyldi kassann sem var utan um tertuna, en ekki taka hana úr honum. Skera skyldi flipana af kassanum og taka kveikiþráðinn út fyrir, fjarlægja rauðu öryggishettuna af kveikiþræðinum, kveikja á tertunni og víkja vel frá. Aldrei skyldi halla sér yfir skottertuna. Á áberandi stað fyrir neðan þessar leiðbeiningar var svohljóðandi rauðlitaður texti: „Öflugir skoteldar. Hætta!“ Þar fyrir neðan stóð: ,,Eingöngu til notkunar utandyra á stórum opnum svæðum. Bannað að selja til yngri en 16 ára. Sýnið varkárni, notið hlífðargleraugu og hanska. Geymist á öruggum stað.“ Ofan á sjálfri kökunni lá kveikiþráður hennar og kom hann í ljós þegar kassinn var opnaður. Við hlið kveikiþráðarins var límmiði með svohljóðandi leiðbeiningum: ,,Blævængsterta - þarf mikið rými - Þessi óvenjulega terta skýtur bæði upp og til hliðar og því þarf að gefa henni mikið rými.“

II

Í reglugerð nr. 952/2003 segir um flokkunarkerfi skotelda að þeir skuli merktir með flokkanúmeri eftir því sem við verði komið. Þeim sé skipt í flokka 1 til 3 sem seldir séu til almennings og flokk 4 sem eingöngu sérfræðingum sé heimilt að meðhöndla. Um skotelda í flokki 3, sem aðaláfrýjandi felldi tertu þá sem hér er til umfjöllunar undir, segir meðal annars að þeir henti til notkunar á stórum opnum svæðum. Um sé að ræða skotelda sem skapi nokkra hættu og megi eingöngu nota utandyra á vel opnum svæðum. Þegar þessir skoteldar séu notaðir samkvæmt leiðbeiningum eigi þeir ekki að valda meiðslum á fólki sem standi í 25 metra fjarlægð eða meira. Samkvæmt töflu 3D í viðauka reglugerðarinnar falla undir þann flokk skoteldar sem samsettir eru úr samtengdum hólkum, sem kveikt er í á jörðu. Í athugasemdadálki reglugerðarinnar við flokk 3D segir að sala sé bönnuð til almennings á skotkökum með meiri hólkvídd en tvær tommur að innanmáli og yfir 25 kg að þyngd. Bannað sé að selja skotkökur sem hafi enga aðra virkni en sprengingar, eða hafi tvo eða fleiri kveikiþræði.

Í kafla reglugerðarinnar er ber yfirskriftina ,,Merkingar eftir flokkum“ segir um flokk 3 að allir skoteldar og sölueiningar, sem falli undir þann flokk, skuli merktir með eftirfarandi texta: „Öflugir skoteldar“. Þá skuli vera á þeim viðvörun um hættu og að skoteldarnir séu eingöngu til notkunar utandyra á stórum opnum svæðum og bannað sé að selja þá til yngri en 16 ára.

Í þeim kafla reglugerðarinnar er ber yfirskriftina ,,Aðrar merkingar á skoteldum“ segir í töflu 5 að þær skotkökur sem falli undir flokk 3D og 3X skuli merktar með eftirfarandi hætti: „Aðvörun-Skotkassi/Risaskotkaka. Kassinn standi utandyra á þurrum og sléttum fleti á rúmgóðu opnu svæði. Öryggisfjarlægð 25 metrar. Tendrið kveikinn og víkið strax frá áður en eldkúlur og neistaregn skjótast upp. Aðeins fyrir fullorðna, 18 ára og eldri. Geymist á öruggum stað.“

III

Undir meðferð málsins í héraði aflaði gagnáfrýjandi matsgerðar Þorsteins Vilhjálmssonar eðlisfræðings og Sigurjóns Norberg Ólafssonar efnafræðings. Í matsgerðinni, sem dagsett er 12. júní 2014, var þeim falið að meta og skoða samsvarandi skottertu og tjón gagnáfrýjanda er rakið til ,,með tilliti til hættueiginleika hennar og nauðsynlegs öryggis við gerð hennar og umbúnað.“ Í matsgerðinni kom fram að matsmenn hafi fengið fjórar tertur til rannsóknar. Skotterta, sambærileg þeirri sem mál þetta á rætur að rekja til, sé samsett úr mörgum hólkum. Innanmál hólkanna sé 30 mm og utanmál 37 mm, en innanmál hólks megi ekki vera meira en 50 mm til að kaka teljist til skotelda í flokki 3 samkvæmt reglugerð nr. 952/2003. Þá sagði í matsgerðinni að kveikiþráðakerfi tertunnar væri nokkuð flókið. Var því lýst að í fyrsta lagi lægi sver grænleitur þráður í stuttum spottum milli nærliggjandi hólka og tengdi alla hólkana saman í röð. Þessi þráður brynni nokkuð hratt. Í öðru lagi lægi mjór grænn þráður sums staðar langar leiðir í pakkanum. Hann brynni hægt og kynni að vera gerður til öryggis til að leiða bruna framhjá svæðum í pakkanum ef ekki kviknaði í þeim og einnig til að skapa hlé á sprengingum. Í þriðja lagi væri svo sver grár þráður sem lægi langt og bæri eldinn hratt. Þetta flókna þráðakerfi gegndi sjálfsagt því hlutverki meðal annars að stýra framvindu mála þegar tertan væri sprengd. Þannig yrði stundum hlé milli skota. Um virkni skottertunnar sagði í matsgerð: ,,Kveikiþráðurinn brennur upp á um það bil 10 sekúndum frá því kveikt er á enda hans. Á þeim tíma er auðvelt að ganga til dæmis 10 metra burt frá skottertunni.“ Um kveikiþráðinn sagði að ekkert hafi verið athugavert við hann á þeim fjórum tertum sem matsmenn hafi skoðað. Hann brynni á eðlilegum hraða og gæfi viðstöddum nægilegan tíma til að færa sig til dæmis 10 metra frá tertunni, en ,,ekki miklu lengra nema menn hlaupi“.  Hins vegar væru annars konar kveikiþræðir að hluta inni í tertunni og brynnu sumir þeirra fljótar en aðalþráðurinn sem stýri byrjuninni á skotunum.

  Um leiðbeiningar um notkun tertunnar sagði að merkingar sem voru á henni hafi að áliti matsmanna ekki fullnægt þeim kröfum sem gerðar séu til merkinga á sambærilegum skottertum, til dæmis skorti á að tilgreina 25 metra ,,öryggisfjarlægð“. Auk þess væri ekki alls kostar auðvelt að fullnægja í reynd þeirri öryggiskröfu, en til að komast örugglega 25 metra frá tertunni á þeim 10 sekúndum sem bruni kveikiþráðarins tæki dygði til dæmis ekki að ganga heldur þyrftu menn að hlaupa á um það bil tvöföldum gönguhraða.

IV

Áður en til aðalmeðferðar málsins kom fyrir héraðsdómi gáfu gagnáfrýjandi og nokkur vitni skýrslu fyrir dómi í sérstöku vitnamáli 25. mars 2013, en einnig voru teknar skýrslur fyrir dómi við aðalmeðferð málsins. Í skýrslugjöf sinni fyrir héraðsdómi lýsti gagnáfrýjandi því að hann hafi farið með skottertuna á baklóð hússins að Aratúni 36 í Garðabæ og stillt henni upp um tíu metrum frá húsinu. Hann hafi kveikt í henni eftir að hafa losað kveikiþráð hennar og beygt hann út fyrir kassabörðin. Kviknað hafi ,,í þræðinum“, og gagnáfrýjandi byrjað ,,að snúa frá.“ Hafi þá tertan sprungið eins og það hefði „opnast blóm“ og farið að skjóta í allar áttir og hann fengið skot í hlífðargleraugu sín og orðið fyrir áverkum á auga. Hann kvaðst ekki hafa lesið viðvaranir á tertunni, en lesið ,,leiðbeiningar“ með henni. Jafnframt kvaðst hann ekki myndu hafa skotið umræddri tertu upp í bakgarðinum hefði verið á henni aðvörun um 25 metra öryggisfjarlægð.

Vitnið Stefán Ágúst Sigurðsson kvaðst hafa séð þegar gagnáfrýjandi hafi kveikt í skottertunni, beygt sig yfir hana, stigið frá henni, stigið aftur að henni, ýtt við henni þrisvar með hægri fæti, bakkað frá og stigið aftur að henni, en þá hafi tertan sprungið í andlitið á gagnáfrýjanda. Hann hafi staðið á þaki Aratúns 34 og þaðan sé bein sjónlína þangað sem slysið varð. Hann kvaðst ekki hafa séð neitt óeðlilegt við skottertuna.

Vitnið Ragnar Stefán Halldórsson kvaðst hafa verið staddur í garðinum með gagnáfrýjanda, sambúðarkonu sinni, vitninu Ýrr Baldursdóttur, og börnum þeirra allra. Hann hafi fylgst með gagnáfrýjanda kveikja í kökunni og eftir það hafi hann verið ,,eitthvað að athafna sig í kringum kökuna eftir að hann kveikti á henni og ég kallaði á hann þarna og bað hann um að drulla sér í burtu og þá sprakk fyrsta skotið“. Spurður um hvers vegna hann hafi kallað á gagnáfrýjanda kvað hann það hafa verið vegna þess að gagnáfrýjandi hafi staðið yfir kökunni eftir að hann var búinn að kveikja í henni.  Atburðarásin hafi verið sú að ,,þegar hann var búinn að kveikja í kökunni þá fer hann að færa kökuna til og það er þá sem hún byrjar að skjóta.“ Hann kvaðst hafa dregið gagnáfrýjanda frá, en kvaðst sjálfur ekki hafa fengið skot í sig úr tertunni, þótt hann hefði farið upp að henni til að ná í gagnáfrýjanda. Vitnið sagði að hvorki hann né börnin hafi orðið fyrir skotum úr tertunni og húsið hafi ekki borið þess merki að skot úr henni hafi farið í það. Kakan hafi ekki sprungið, heldur skotist upp. Nánar spurður sagði hann gagnáfrýjanda hafa hagrætt tertunni eftir að hann kveikti í henni og þá hafi fyrsta skotið komið úr henni. Hann bar að sér hafi þótt athæfi gagnáfrýjanda ,,glæfralegt, ég hefði ekki þorað að standa sjálfur svona lengi yfir henni eftir að búið var að kveikja.“ Hann kvað lögreglumann hafa skoðað umrædda skottertu er hann kom á vettvang síðar um kvöldið. Þá hafi verið glóð í skottertunni og hún ekki verið brunnin til ösku, heldur hafi verið „tertulag“ á henni.

Vitnið Ólafur Tryggvason lögreglumaður kvaðst hafa komið á vettvang þegar verið var að flytja gagnáfrýjanda á brott með sjúkrabíl. Hann kvaðst hafa skoðað tertuna og hafi mótað fyrir hólkum hennar, eins og hún væri ,,uppskotin en ekki brunnin til grunna“ og hefðu hólkarnir verið óbrunnir.

Vitnið Ýrr Baldursdóttir kvaðst ekki hafa séð ,,beint þegar hann tendrar“ tertuna. Spurð hvort hún hafi orðið vör við þegar hann fékk skotið í augað svaraði hún ,,já bara eiginlega strax eftirá“ en ekki þegar það gerðist. Hún kvað skotin úr tertunni hafa farið út um allt, eins og ,,útsprungið blóm í allar áttir“.  Hafi það ekki verið alveg eðlilegt. Þá kvað hún tertuna hafa brunnið upp og í henni hafi logað. Hún gat ekki svarað því hvar gagnáfrýjandi var er hann fékk skotið í sig úr tertunni og tók fram að hún hefði verið að ,,horfa upp í himininn“.

Vitnið Þorsteinn Vilhjálmsson, annar matsmanna, skýrði svo frá að tertur sambærilegar þeirri sem um ræðir í málinu séu 24 kg. Aftur á móti séu hólkarnir mikilvægastir við skipun tertunnar í flokk samkvæmt reglugerð nr. 952/2003, en þeir hafi verið 3 cm á umræddri tertu, en ekki 5 cm, sem séu efri mörk flokks 3D. Spurður um kveikiþræði tertunnar og hvort þeir samrýmdust reglugerðarákvæði um flokk 3D, þar sem kveðið sé á um að ef kveikiþræðir séu fleiri en einn, sé óheimilt að selja tertuna til almennings, kvað hann marga kveikiþræði vera í henni og að þeir væru ,,inni í kökunni, alls staðar milli hólkanna. Þetta eru 190 hólkar. Þannig að það getur ekki verið það sem er átt við þarna. Það hlýtur að vera átt við það hvort hún hafi fleiri en tvo ytri kveikiþræði, sem sagt sem flytja eld inn í hana. Og það hefur hún ekki ... þetta er bara einn þráður sem þú þarft að kveikja.“  

Hinn matsmaðurinn, vitnið Sigurjón Norberg Ólafsson, var einnig spurður að því fyrir héraðsdómi hversu marga kveikiþræði tertan hefði haft. Kvað hann þetta „byrja bara með einum þræði en hann greinist og hann er að fara margar brautir. Þannig að ef þú vilt stýra röðun á því hvernig þessi rúmlega 100 skot fara ... ertu kominn með slatta ... af kveikjum.“

V

Ágreiningslaust er að terta sú sem gagnáfrýjandi rekur tjón sitt til var léttari en 25 kg og með hólkvídd minni en tvær tommur. Ágreiningur stendur hins vegar um hvort hún hafi haft einn kveikiþráð og falli þar með undir töflu 3, skotköku í flokki 3 af gerð 3D, samkvæmt reglugerð nr. 952/2003. Af ljósmyndum af tertu, sambærilegri þeirri sem málið á rætur að rekja til, verður ráðið að á henni er aðeins einn ytri kveikiþráður. Jafnframt verður ráðið af framburði gagnáfrýjanda að hann hafi aðeins kveikt í einum kveikiþræði.

Með hinum áfrýjaða dómi var því slegið föstu að tertan hafi haft þrjá kveikiþræði og virðist sú niðurstaða helgast af því sem rakið var í matsgerð dómkvaddra manna um kveikiþráðakerfi hennar. Sú ályktun verður hins vegar ekki dregin af því sem fram kom í matsgerðinni, en matsmenn báru fyrir dómi að kveikiþráðakerfið væri flókið og að tertan hefði marga innri kveikiþræði, sem gegndu meðal annars því hlutverki að stýra framvindu mála þegar hún væri sprengd,  þannig að stundum yrði hlé milli skota. Annar matsmannanna var afdráttarlaus um það að tertan hefði aðeins einn ytri kveikiþráð, sem flytti eld inn í hana. Samkvæmt framangreindu verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að umrædd skotterta hafi einungis haft einn ytri kveikiþráð og að með ytri kveikiþræði sé átt við þá kveikiþræði sem vísað er til um skotelda að gerð 3D í reglugerð nr. 952/2003. Samrýmist sú túlkun á orðinu kveikiþráður í þessu tilliti breytingu sem gerð var með reglugerð nr. 1114/2015 um breytingu á reglugerð nr. 952/2003, sem tók gildi 2. desember 2015, þar sem á eftir orðunum ,,eða hafa tvo eða fleiri“ í ofangreindri töflu 3D kom orðið „ytri“.

Eiginleikar tertunnar samrýmdust því að öllu leyti því sem fram kemur um skotelda í flokki 3, gerð 3D samkvæmt reglugerð nr. 952/2003.

VI

Gagnáfrýjandi heldur því meðal annars fram að leiðbeiningum á umræddri skottertu hafi verið ábótavant. Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 25/1991 segir að vara sé haldin ágalla þegar hún er ekki svo örugg sem með réttu mátti vænta eftir öllum aðstæðum, einkum atriðum sem síðan eru tilgreind í þremur töluliðum. Í hinum fyrsta þeirra segir: ,,Hvernig hún var boðin og kynnt“. Eins og að framan er rakið voru á tertunni leiðbeiningar sem báru yfirskriftina: ,,Leiðbeiningar fyrir risatertur“. Allar leiðbeiningar á tertunni samrýmdust þeim kröfum sem gerðar eru til leiðbeininga á skoteldum sem falla undir flokk 3D samkvæmt reglugerð nr. 952/2003, að því frátöldu að á tertunni, sem taldist til risatertu að mati aðaláfrýjanda, voru ekki leiðbeiningar um að öryggisfjarlægð væri 25 metrar, eins og vera ber þegar um merkingar á risaskotköku er að ræða samkvæmt töflu 5 í reglugerð nr. 952/2003. Gagnáfrýjandi kvaðst hafa lesið leiðbeiningar á tertunni, en ekki aðvaranir á henni. Hann bar því við að hann hefði ekki tendrað tertuna í bakgarði hefði kakan verið merkt með þeim hætti að öryggisfjarlægð væri 25 metrar.

Samkvæmt framansögðu voru leiðbeiningar á skottertunni ekki jafn ítarlegar og ákvæði í áðurnefndri reglugerð mæltu fyrir um. Verður því lagt til grundvallar að ágalli hafi verið á henni í merkingu 1. mgr. 5. gr. laga nr. 25/1991, en á þeim ágalla ber aðaláfrýjandi ábyrgð. Af því sem ráðið verður af framburði vitna fyrir héraðsdómi hefur gagnáfrýjandi á hinn bóginn ekki fært sönnur á að á tertunni hafi verið aðrir ágallar.

VII

 Samkvæmt 9. gr. laga nr. 25/1991 er heimilt að lækka eða fella niður bætur ef tjónþoli er meðvaldur að tjóni af ásetningi eða gáleysi.

Þær leiðbeiningar sem voru á umræddri skottertu, sem gagnáfrýjandi kvaðst hafa lesið áður en hann kveikti í henni, gáfu honum tilefni til ríkrar aðgæslu, meðal annars að víkja vel frá eftir að hafa kveikt í tertunni. Verður ráðið af framburði vitna að gagnáfrýjandi fór ekki eftir þeim leiðbeiningum, heldur stóð hann yfir skottertunni og færði hana til eftir að hafa kveikt í henni. Með þessari háttsemi sýndi hann af sér stórfellt gáleysi og verður því talinn meðábyrgur að slysinu. Samkvæmt því er rétt að hann beri tjón sitt að hálfu.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður en um gjafsóknarkostnað gagnáfrýjanda fer eins og í dómsorði greinir.  

Dómsorð:

Viðurkennd er bótaábyrgð aðaláfrýjanda, Slysavarnafélagsins Landsbjargar, á helmingi þess líkamstjóns sem gagnáfrýjandi, Baldur Sigurðarson, hlaut 1. janúar 2013.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 800.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. mars 2015.

                                                                                      I.

Mál þetta var höfðað þann 2. september 2013 og dómtekið 10. febrúar 2015 að loknum munnlegum málflutningi.

                Stefnandi er Baldur Sigurðarson, til heimilis að Aratúni 38, Garðabæ, en stefndu eru Slysavarnafélagið Landsbjörg og Sjóvá-Almennar tryggingar hf. til réttargæslu.

                Stefnandi krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda Slysavarnafélagsins Landsbjargar á líkamstjóni, er stefnandi var fyrir þann 1. janúar 2013. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

                Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda, auk málskostnaðar, en til vara að hann verði einungis dæmdur skaðabótaskyldur að hluta og málskostnaður verði felldur niður.

                Réttargæslustefndi gerir ekki kröfur í málinu en styður málatilbúnað og málsástæður stefnda.

                                                                                        II.

Í máli þessu er deilt um skaðabótaskyldu stefnda, vegna augnskaða sem stefnandi varð fyrir þann 1. janúar 2013, þegar hann tendraði í skottertu í bakgarði við Aratún 36 í Garðabæ, sem hafði þær afleiðingar í för með sér að hann að hann missti sjón á hægra auganu.

                Umrædd terta var seld af stefnda, Slysavarnafélaginu Landsbjörgu fyrir áramótin 2012 og bar heitið „Kaka ársins 2012“. Er félagið með ábyrgðartryggingu hjá réttargæslustefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf., vegna líkamstjóns af völdum flugelda.

                Með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 11. apríl 2013, var óskað eftir afstöðu réttargæslustefnda til bótaskyldu vegna líkamstjóns stefnanda. Með bréfi, dags. 10. maí 2013, var bótaskyldu hafnað úr ábyrgðartryggingu stefnda Landsbjargar hjá réttargæslustefnda, þar sem ekki hefði verið sýnt fram á að umrætt slys væri að rekja til ágalla á tertunni eða skaðvænlegra eiginleika hennar að öðru leyti. Vísaði stefndi í svari sínu til frumskýrslu lögreglu og framburðar tjónþola sjálfs í vitnamálinu V-8/2013 og þess að talsvert bæri á milli frásagnar tjónþola og sjónarvotta að slysinu. Stefnandi kærði niðurstöðu réttargæslustefnda, Sjóvár Almennra-trygginga hf. til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum. Samkvæmt úrskurði nefndarinnar, dags. 14. ágúst 2013, var talið ósannað að flugeldatertan hefði verið haldin ágalla í skilningi 5. gr. laga nr. 25/1991, um skaðsemisábyrgð og því væri ekki grundvöllur fyrir bótaábyrgð stefnanda, sbr. 6. gr. sömu laga.

                Óumdeilt er að leiðbeiningar voru á umbúðum utan um flugeldatertuna þar sem eftirfarandi kom fram:

Leiðbeiningar fyrir risatertur

1. Notist aðeins utandyra.

2. Látið standa á þurrum sléttum fleti í hæfilegri fjarlægð frá húsum og bílum.

3. Opnið kassann en alls ekki taka skottertuna úr honum.

4. Skerið flipana af kassanum og tekið kveikiþráðinn út fyrir.

5. fjarlægið rauðu öryggishettuna af kveikiþræðinum og kveikið.

6. Víkið vel frá.

Ath. Hallið ykkur aldrei yfir skotttertuna.

ÖFLUGIR SKOTELDAR. Hætta! Eingöngu til notkunar utandyra á stórum opnum svæðum. Bannað að selja til yngri en 16 ára. Sýnið varkárni, notið hlífðargleraugu og hanska. Geymist á öruggum stað.

                Þegar pappakassi utan um tertuna er opnaður kemur í ljós miði með leiðbeiningum þar sem á stendur Blævangsterta- þarf mikið rými – Þessi óvenjulega terta skýtur bæði upp og til hliðar og því þarf að gefa henni mikið rými. Er um það deilt í máli þessu hvort slíkur miði hafi verið í hinni umdeildu skottertu.

                Þorsteinn Vilhjálmsson eðlisfræðingur og Sigurjón Norberg Ólafsson efnafræðingur voru dómkvaddir til að meta og skoða flugeldatertuna „Köku ársins 2012“ með tilliti til hættueiginleika hennar og nauðsynlegs öryggis við gerð hennar og umbúnað. Í matsgerð þeirra, dags. 12. júní 2014, kemur fram á bls. 7, undir kafla 3.2 um rannsókn á skottertu að kveikiþráðakerfi tertunnar sé nokkuð flókið. Sver grænleitur þráður liggi í stuttum spottum milli nærliggjandi hólka og tengi alla hólkana saman í röð. Þessi þráður brenni nokkuð hratt. Mjór grænn þráður liggi sums staðar langar leiðir í pakkanum. Hann brenni hægt og kunni að vera gerður til öryggis til að leiða bruna fram hjá svæðum í pakkanum ef ekki kviknar á þeim, og einnig til að skapa hlé í sprengingunum. Í þriðja lagi sé svo grár þráður sem liggi langt og beri eldinn hratt. Telja matsmenn að þetta flókna þráðakerfi gegni þeim tilgangi meðal annars, að stýra framvindu mála þegar tertan sé sett af stað.

                Lagðar voru spurningar í 12 stafliðum fyrir matsmennina. Meðal annars var lagt fyrir þá að skoða Hvernig [væri] eðlileg virkni skotelds/skottertu eins og „köku ársins 2012“ frá því að eldur er borinn að kveikiþræði og þar til kakan/tertan hefur skotið öllum skotum? Í svari matsmanna kemur fram að kveikiþráðurinn sem komi skotkökunni af stað brenni upp á um það bil 10 sekúndum frá því að kveikt sé á enda hans. Á þeim tíma sé auðvelt að ganga til dæmis 10 metra burt frá skottertunni. Eftir að þráðurinn sé brunninn byrji skotin að koma úr hólkunum hvert af öðru.

                Matsmenn voru spurðir hvort kveikiþráðurinn á umræddri tertu/köku [væri]nægjanlega öruggur í þeim skilningi að hann brenni ekki upp hraðar en ætlast er til? … Hvað [geti] valdið því að kveikiþráðurinn brenni hraðar en ætlast sé til og hvort mögulegt [sé]að hann brenni hraðar en ætlast er til? Í svari matsmanna kemur fram að þeir sjái ekkert athugavert við kveikiþráðinn á þeim fjórum tertum sem þeir hafi skoðað. Hann brenni á eðlilegum tíma og gefi viðstöddum nægilegan tíma til að færa sig t.d. 10 metra frá tertunni, en ekki miklu lengra nema menn hlaupi.

                Um matsspurninguna hver [væri] hólkvíddin á þeim hólkum sem finna [mætti] í „köku ársins 2012“ vísa matsmenn til töflu frá framleiðanda. Samkvæmt henni sé innanmál hólkanna 30 mm og utanmál 37 mm. Eigin mælingar matsmanna staðfesti þessar tölur.

                Um umbúðir skottertunnar og hvort þær hafi verið nægjanlega tryggar telja matsmenn að allar umbúðir vörunnar séu að flestu leyti eins heppilegar og hægt sé að hugsa sér. Pappahólkarnir utan um púðrið og önnur efni sem tertan sendi frá sér séu sterkir, beinir og þokkalega langir þannig að þeir beini efninu vel í þá stefnu sem því sé ætlað að fara. Þeir séu vandlega límdir saman í búnt með minnst 30 hólkum í hverju og búntin fest saman með vírum og límböndum. Þetta tryggi að hólkarnir haggist óverulega við skotin, en annars geti stefna þeirra riðlast eftir að skotin byrji.

                Um þá matsspurningu hvort leiðbeiningar sem fylgdu kökunni/tertunni hafi verið nægilegar að mati matsmanna til að tryggja öryggi notenda telja matsmenn að leiðbeiningar með umræddri tertu hafi ekki veri fullnægjandi og auk þess að hluta til illa staðsettar.

                Í skýrslu sem tekin var af stefnanda þann 25. mars 2013, í vitnamáli nr. V-8/2013, lýsir hann því hvernig hann hafi borið sig að við að tendra á skotkökunni. Hann kveðst hafa stillt tertunni upp um 10 metra frá húsinu. Hann hafi notað kveikjara til þess að kveikja í henni. Það hafi kviknað í þræðinum eins og vera beri, hann hafi bakkað frá tertunni og verið í þann mund að snúa frá henni. Hann hafi verið með sérstyrkt öryggisgleraugu. Tertan hafi sprungið eins og blóm og farið að skjóta. Hún hafi fyrst skotið beint í gleraugun og síðan farið að skjóta í allar áttir. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa lesið viðvaranir sem fram komi á tertunni, en hann hafi lesið leiðbeiningar. Stefnandi gaf aðilaskýrslu fyrir dóminum við aðalmeðferð málsins. Staðfesti hann þann framburð sem hann gaf fyrir dóminum 25. mars 2013. Tók hann fram að hann hefði ekki séð neinar aðvaranir inni í tertunni, engan miða. Hann hafi bara séð leiðbeiningar sem voru utan á tertunni. Lýsti hann því fyrir dóminum hvernig hann hefði borið sig að við að tendra á tertunni. Hann hafi kveikt í henni, bakkað og snúið sér frá henni. Tók hann fram að það væri fráleitt að hann hefði beygt sig yfir tertuna.

                Ýr Baldursdóttir, eigandi skottertunnar, sem einnig var viðstödd þegar kveikt var í skottertunni gaf skýrslu í greindu vitnamáli nr. V-8/2013, þann 25. mars 2013. Lýsir hún því að skotin úr tertunni hafi farið út um allt og einnig í húsið og að þetta hafi ekki verið eðlilegt. Staðfesti hún framburð sinn fyrir dómi við aðalmeðferð málsins og tók þá einnig fram að vitnið Ragnar Stefán Halldórsson, hefði fyrst kallað á stefnanda um að forða sér frá skottertunni eftir að hún var byrjuð að skjóta

                Ragnar Stefán Halldórsson, sem einnig var viðstaddur þegar tendrað var á skottertunni, gaf vitnaskýrslu í fyrrgreindu vitnamáli. Hann sagði tertuna hafa sprungið, en að hann hafi aðeins séð fyrsta skotið. Hann hafi verið að fylgjast með stefnanda skjóta upp tertunni. Stefnandi hafi verið eitthvað að athafna sig í kringum kökuna eftir að hann kveikti í henni. Hann hafi kallað á hann og beðið hann um að koma sér í burtu og þá hafi fyrsta skotið sprungið. Hann hafi þá hlaupið strax til stefnanda og dregið hann í burtu. Tók hann fram að hann hefði aðeins séð fyrsta skotið þar sem hann hefði verið að aðstoða stefnanda. Þá kvaðst vitnið ekki hafa fengið skot í sig þó að hann hefði farið upp að tertunni og tekið í stefnanda. Þá kom fram hjá vitninu að honum hafi fundist stefnandi bera sig „glæfralega“ að og að hann hefði ekki þorað sjálfur að standa svo lengi yfir tertunni eftir að búið var að kveikja í henni.

                Í lögregluskýrslu, dags. 15. janúar 2013, sem rituð er af Ólafi Aroni Tryggvasyni lögreglumanni, er kom á vettvang eftir slysið, er haft eftir fyrrgreindu vitni, Ragnari Stefáni Halldórssyni, að stefnandi hafi kveikt í kveikjuþræðinum á tertunni og síðan farið að færa hana til eftir það. Þá hafi tertan farið af stað og stefnandi fengið skot í vinstra augað. Vitnið Ragnar Stefán Halldórsson gaf einnig skýrslu við aðalmeðferð málsins þar sem hann staðfesti fyrrgreinda atburðarrás. Hann lýsti því að enn hefði verið tertulag á tertunni eftir að hún hafi verið búin að skjóta. Þá tók hann fram að hún hefði ekki sprungið og að hún hefði skotið með eðlilegum hætti. Þegar stefnandi hafi verið búinn að kveikja í kökunni hafi stefnandi fært hana til. Kakan hafi farið af stað á meðan stefnandi færði hana til.

                Stefán Ágúst Sigurðsson, gaf símaskýrslu hjá lögreglu þann 15. janúar 2013, vitnaskýrslu í vitnamáli V-8/2013, auk þess sem hann gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Í lögregluskýrslunni kemur fram að vitnið hafi staðið á þaki hússins að Aratúni 38 (á að vera 34) þegar slysið varð. Kveður hann stefnanda hafa kveikt á tertunni, „tók tvö skref afturábak, fór svo aftur að henni og sparkaði 2-3 sinnum í hana og bakkaði svo aftur frá en kom fljótlega aftur að og beygði sig yfir hana um leið og 1-2 skot skutust uppúr tertunni og hæfði amk. annað þeirra hann í andlitið“. Þennan framburð staðfesti vitnið í greindu vitnamáli og við aðalmeðferð málsins. Tók hann fram í vitnamálinu að tertan hefði ekki verið óeðlileg.

                Eiríkur Stefánsson gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Kvaðst hann hafa verið staddur á göngustíg sem liggur fyrir neðan húsgarðinn að Aratúni 36. Hann hafi verið staddur í um 15 metra fjarlægð frá garðinum. Hann hafi tekið eftir því að tertan sprakk óeðlilega. Hún hafi farið í allar áttir og tekið fljótt af. Hann hafi séð að ekki væri allt með felldu og að það hafi orðið uppi fótur og fit. Hann hafi síðar frétt af málinu í blöðunum.

                Þá gáfu skýrslu fyrir dómi matsmennirnir Þorsteinn Vilhjálmsson og Sigurjón Norberg Ólafsson. Einnig kom fyrir dóminn Jón Ingi Sigvaldason, sölu- og markaðsstjóri hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu. Þá gaf Sigurður Ásgrímsson, sprengjusérfræðingur hjá Landhelgisgæslu Íslands símaskýrslu.

                                                                                     III.

1. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir dómkröfur sínar aðallega á lögum nr. 25/1991, um skaðsemisábyrgð. Hann hafi viðhaft eðlilegt verklag, þegar hann kveikti á tertunni, farið eftir leiðbeiningum þegar hann kveikti á henni, en galli á tertunni hafi valdið honum varanlegu líkamstjóni. Byggir stefnandi á því að stefndi Slysavarnafélagið Landsbjörg teljist framleiðandi tertunnar samkvæmt 1. og 2. mgr. 4. gr. laga nr. 25/1991. Þá geti félagið einnig talist dreifingaraðili, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Samkvæmt 6. gr. beri framleiðandi hlutlæga ábyrgð vegna tjóns, sem rakið verði til ágalla á vöru, sem hann hafi framleitt eða dreift.

                Stefnandi byggir á því að varan hafi veri haldin ágalla þar sem hún hafi ekki verið boðin og kynnt í samræmi við opinberar reglur um öryggi. Leiðbeiningar og aðvaranir, sem fylgt hafi tertunni hafi ekki fullnægt lögum og reglugerðum né verið fullnægjandi út frá sjónarmiðum um neytendavernd. Hafi stefnda verið skylt að hafa ítarlegri og betri aðvaranir á tertunni og haga þeim þannig að hægt væri að sjá þær með skýrum hætti, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 952/2003 og viðauka I með reglugerðinni. Leiðbeiningar á tertunni hafi ekki allar verið í sama ramma á merkimiða eða sýnilegar saman, eins og mælt væri fyrir um í viðauka I. Þá hafi upplýsingar um það hvernig tertan skjóti ekki verið sýnilegar, fyrr en búið væri að opna kassann utan um tertuna. Það sé ólíklegt að neytandi sjái þessar leiðbeiningar í myrkri. Þá staðhæfi stefnandi enn fremur að hann hafi ekki séð leiðbeiningarnar og telur að slíkur miði hafi ekki verið á umræddri tertu. 

                Þá tekur stefnandi fram að ekki sé á færi almennra neytenda að átta sig á inntaki orðsins blævangur, auk þess sem ekki hafi komið fram í leiðbeiningum hversu margar gráður tertan skjóti til hliðar. Þá bendir stefnandi á að í töflu 5 í viðauka I með reglugerð nr. 952/2003, um „aðrar merkingar á skoteldum“ komi fram að á skottertum eins og þeirri sem um er fjallað í máli þessu skuli standa „Öryggisfjarlægð 25 metrar“. Slíkur texti hafi ekki verið á tertunni. Enn fremur byggir stefnandi á því að umrædd terta hafi í raun verið hættuleg sprengja og þar með vopn í skilningi 1. gr. vopnalaga nr. 16/1998 og reglugerðar um sprengiefni nr. 684/1999. Þá vísar stefnandi til 8. gr. og 2. mgr. 9. gr. laga nr. 134/1995, um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu. Telur stefnandi að stefndi hafi ekki prófað vöruna nægjanlega, áður en hún var seld á almennum markaði.

                Þá er því byggt að tertan hafi ekki verið eins örugg og með réttu hafi mátt vænta út frá notkun þeirri sem með sanngirni hafi mátt gera ráð fyrir. Byggir stefnandi á því að tertan hafi ekki virkað með eðlilegum hætti. Hún hafi skotið óreglulega og í allar áttir í einu. Þá hafi kveikjuþráðurinn brunnið upp fljótar en við mátti búast, sem hafi leitt til þess að stefnandi náði ekki að koma sér undan í tæka tíð. Varan hafi því ekki verið eins örugg og með réttu hafi mátt vænta. Telur stefnandi sannað að flugeldatertan hafi haft skaðlega eiginleika, hún hafi verið haldin framleiðslugalla, sem hafi gert hana hættulegri en ella.

                Stefnandi telur að sýnt hafi verið fram á líkamstjón hans, vegna hinna skaðlegu eiginleika vörunnar, en stefnandi hafi t.d. ekki vitað að tertan myndi skjóta skotum sínum að einhverju leyti skáhallt upp í loftið. Byggir stefnandi á því að stefnda hafi staðið nær að afsanna ágallann á grundvelli 7. gr. laga nr. 25/1991, um skaðsemisábyrgð. Þá byggir stefnandi á því að erfitt geti verið fyrir neytanda að sanna galla á skoteldi. Stefnandi hafi sýnt fram á orsakatengsl milli sprengingar í kökunni og líkamstjóns, sem hann hafi beðið af kökunni og því hvíli á stefnda að tryggja sér sönnun um að varan hafi ekki verið haldin ágalla.

                Samkvæmt framansögðu telur stefnandi að umrædd flugeldakaka „Kaka ársins 2012“ sem hafi valdið stefnanda tjóni, hafi verið haldin ágalla í skilningi 1. mgr. 5. gr. laga nr. 25/1991 um skaðsemisábyrgð. Bendir stefnandi á vanbúnað við meðhöndlun, hættueiginleika og ófullnægjandi leiðbeiningar vörunnar miðað við hættueiginleika hennar. Auk þess hafi flugeldurinn ekki virkað eins og við hafi mátt búast, sem hafi leitt til þess að stefnandi náði ekki að koma sér undan henni í tæka tíð. Beri stefndi alla ábyrgð sem framleiðandi, innflytjandi og dreifingar- og söluaðili kökunnar. Samkvæmt 6. gr. sömu laga sé um að ræða hlutlæga ábyrgð.

2. Helstu málsástæður og lagarök stefndu

Aðalkröfu um sýknu byggir stefndi á því að ekki séu uppfyllt skilyrði þess að stefndi beri skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda, hvorki á grundvelli reglna um skaðsemisábyrgð né annarra skaðabótareglna. Tjón stefnanda sé eingöngu að rekja til stórfellds gáleysis stefnanda sjálfs og verði stefnandi af þeim ástæðum að bera tjón sitt að fullu sjálfur. Stefndi mótmælir því að allan vafa um málsatvik beri að leggja á stefnda, enda engar þær aðstæður uppi í málinu sem valdi því að slíkt skuli gert. Þvert á móti beri stefnanda að sanna að málsatvik hafi verið með einhverjum þeim hætti að leiði til bótaskyldu stefnda í málinu, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 25/1991, um skaðsemisábyrgð.

                Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að skotkakan hafi ekki verið haldin ágalla í skilningi laga nr. 25/1991 og hafi stefnandi ekki fært sönnur á annað.

                Á umbúðum skotkökunnar hafi verið allar þær leiðbeiningar og viðvaranir sem krafist sé á umræddri skotköku. Um sé að ræða skotköku sem falli undir flokk 3D í skilningi reglugerðar nr. 952/2003, um skotelda og hafi merkingar á skotkökunni uppfyllt allar þær kröfur sem reglugerðin mæli fyrir um.

                Stefndi mótmælir því að orðið blævangsterta sé illskiljanlegt, auk þess sem engin orsakatengsl séu á milli þess að um blævangstertu sé að ræða og slyss stefnanda þar sem fyrstu skotin í kökunni hafi komið beint upp úr miðju hennar en stefnandi hafi orðið fyrir fyrsta skotinu úr tertunni en ekki skoti sem hafi farið á ská. Því séu engin orsakatengsl milli þessarar gerðar skotkökunnar eða merkinga á henni og slyss stefnanda. Þá mótmælir stefndi því að skylt hafi verið samkvæmt reglugerð um skotelda að merkja þessa skotköku með orðunum „öryggisfjarlægð 25 metrar“.

                Stefndi beri sönnunarbyrði um að flugeldurinn hafi verið haldinn ágalla, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 25/1991. Leggja verði til grundvallar framburð vitnanna Stefáns Ágústs, Ragnars Stefáns og Ólafs Tryggvasonar því til staðfestu að skotkakan hafi sprungið á eðlilegan hátt og að eftir að henni hafi verið skotið upp hafi kassinn verið óbrunninn að mestu og skothólkarnir heilir en tómir. Er því sérstaklega mótmælt að skothólkur hafi skotist upp úr tertunni og í andlit stefnanda, eins og haldið sé fram í stefnu. Þá sé ósannað að kakan hafi verið gölluð, að hún hafi hagað sér óvenjulega eftir að kveikjuþráður hennar hafi verið tendraður, að kveðjuþráðurinn hafi brunnið óvenju hratt, hún hafi bilað eða verið rangt samansett í upphafi og þannig verið gölluð.

                Stefndi mótmælir því að umrædd skotkaka falli undir skilgreiningu á skotvopni í skilningi vopnalaga nr. 16/1998 eða reglugerðir um sprengiefni nr. 684/1999. Þá er mótmælt tilvísun stefnanda til laga nr. 134/1995, um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu sem þýðingarlausri. Samkvæmt 4. mgr. 1. gr. laganna taki ákvæði 8. og 9. gr. laganna ekki til vöru sem um gildi sérstök lög eða reglur um öryggi vöru. Um skotelda gildi lög nr. 16/1998 og sett hafi verið sérstök reglugerð um skotelda.

                Samkvæmt framansögðu er því mótmælt sem röngu að skotkakan hafi ekki uppfyllt öryggiskröfur, nægjanlegar öryggisprófanir hafi ekki verið gerðar eða að stefnda hafi mátt vera það ljóst. Telur stefndi ljóst að skotkakan hafi ekki verið haldin ágalla í skilningi 5. gr. laga nr. 25/1991, stefnandi hafi ekki sýnt fram á að stefndi bæri skaðabótaábyrgð á tjóni hans og því beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

                Ástæða slyss stefnanda hafi verið sú að stefndi hafi sýnt af sér vítavert gáleysi þegar hann vék ekki strax í burtu eftir að hafa kveikt í kveikjuþræði skotkökunnar og þess í stað farið að ýta með fætinum við kökunni sem hann hafði tendrað í og jafnvel beygt sig yfir hana.

                Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að stefndi beri skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda byggir stefndi á því að fella beri bætur niður að fullu vegna eigin sakar stefnanda, sbr. 9. gr. laga nr. 25/1991 og almennar reglur um eigin sök tjónþola.

                                                                                    IV.

                                                                              Niðurstaða:

Dómkröfur stefnanda eru aðallega á því reistar að hann hafi haft eðlilegt verklag þegar hann kveikti á umræddri skotköku „Köku ársins 2012“. Hann hafi farið eftir leiðbeiningum, en skotkakan hafi verið haldin ágalla, í skilningi 1. mgr. 5. gr. laga nr. 25/1991, um skaðsemisábyrgð, þar sem leiðbeiningar og aðvaranir sem fylgt hafi skottkökunni hafi verið ófullnægjandi, þ. á m. að skort hafi upplýsingar um að öryggisfjarlægð skuli vera 25 metrar þegar kveikt er í slíkum skotkökum. Þá telur stefnandi að skotkakan hafi ekki virkað með eðlilegum hætti. Hún hafi m.a. skotið óreglulega og í allar áttir í einu. Stefnandi byggir enn fremur á því að það standi stefnda nær að afsanna gallana. Byggir stefnandi á því að stefndi teljist framleiðandi skotkökunnar, sbr. 1. og 2. mgr. 4. gr. laga nr. 25/1991, eða dreifingaraðili, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Þá er á því byggt að stefndi beri hlutlæga ábyrgð vegna tjóns stefnda, sbr. 6. gr. laganna.

                Stefndi hafnar því að skotkakan hafi verið haldin ágalla í skilningi laga nr. 25/1991. Á umbúðum hennar hafi verið allar leiðbeiningar og viðvaranir sem krafist væri. Mótmælir stefndi því að skylt hafi verið að merkja skotköku þessa með orðunum „öryggisfjarlægð 25 metrar“. Byggir stefndi á því að stefnandi hafi sýnt af sér vítavert gáleysi þegar hann vék ekki strax í burtu eftir að hafa kveikt á kveikjuþræði skotkökunnar. Telur stefndi að verði hann talinn bera skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda, byggi stefndi á því að fella beri niður bætur að fullu vegna eigin sakar stefnanda, sbr. 9. gr. laga nr. 25/1991 og almennar reglur um eigin sök. Þá beri stefnandi sönnunarbyrði um að skottertan hafi verið haldin ágalla, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 25/1991.

                Víkur fyrst að þeirri málsástæðu stefnanda að skotkakan hafi verið haldin ágalla í skilningi laga nr. 25/1991.

                Samkvæmt 5. gr. laga nr. 25/1991, telst vara haldin ágalla þegar hún er ekki eins örugg og með réttu mátti vænta eftir öllum aðstæðum, einkum eftirfarandi:

                 „1. Hvernig hún var boðin og kynnt. 2. Notkun þeirri sem með sanngirni mátti gera ráð fyrir. 3. Hvenær vöru var dreift.“ Samkvæmt ákvæði þessu má kaupandi vöru vænta þess, að vara hafi verið framleidd og hún boðin og kynnt í samræmi við opinberar reglur um öryggi og önnur atriði. Hann má einnig vænta þess, að vöru fylgi þær upplýsingar og leiðbeiningar, sem hafa verulega þýðingu fyrir skaðlausa notkun hennar. Samkvæmt þessu ber við mat á ágalla í skilningi ákvæðisins að líta til þess hvernig vara er boðin og kynnt, svo sem með leiðbeiningum á umbúðum eða öðrum stöðum og aðvarana sem lúta að eiginleikum vörunnar og notkun hennar.

                Mælt er fyrir um meðferð skotelda í vopnalögum nr. 16/1998. Samkvæmt 1. málslið 2. mgr. 33. gr. laganna setur ráðherra ákvæði í reglugerð um sölu og meðferð skotelda, þar á meðal getur hann sett reglur um að ekki megi selja almenningi ýmsar skaðlegar tegundir skotelda. Í gildi er reglugerð nr. 952/2003 um skotelda með síðari breytingum nr. 1040/2006, 163/2007, 848/2007 og 6/2009.

                Í 1. gr. reglugerðarinnar nr. 952/2003 um skotelda þar sem mælt er fyrir um gildissvið, segir að undir hugtakið skoteldar falli, m.a. flugeldar, blys, reyk-, lit, lyktar- og hvellsprengjur og ýmiss konar skrauteldar.

                Í 3. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar er því lýst að í viðauka I með reglugerðinni, sé nánar fjallað um flokkun skotelda í fjóra flokka og leyfilega notkun hvers flokks fyrir sig. Samkvæmt ákvæðinu falla undir 1. flokk skoteldar sem skapa litla hættu og eru án aldurstakmarkana notenda, undir 2. flokk falla skoteldar sem henta til notkunar utanhúss í húsagörðum eða á minni svæðum, undir 3. flokk falla skoteldar sem henta til notkunar á stórum opnum svæðum og undir 4. flokk skoteldar sem ekki eru fullgerðir og/eða ekki eru ætlaðir til sölu til almennings.

                Samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar skulu skoteldar vera með álímdum eða áprentuðum leiðbeiningum á íslensku þar sem fram kemur stutt lýsing á eiginleikum þeirra og hvernig beri að nota þá þannig að sem minnst hætta stafi af. Heimilt er að víkja frá þessari reglu þegar um smáa og hættulitla skotelda er að ræða, enda séu þeir seldir nokkrir saman í merktri pakkningu.

                Í fyrrgreindum viðauka I með reglugerðinni er einnig mælt fyrir um flokkunarkerfi skotelda. Þar segir að skoteldar skuli merktir með flokkunarnúmeri eftir því sem við verður komið. Þeim sé skipt í flokka 1-3 sem seldir séu til almennings og flokk 4 sem eingöngu sérfræðingum sé heimilt að meðhöndla.

                Óumdeilt er að umrædd skotkaka „Kaka ársins 2012“ var felld undir skotelda í flokki 3 og fékk flokkunarnúmerið 3D. Samkvæmt viðaukanum falla undir skotelda í flokki 3, „Skoteldar sem henta til notkunar á stórum opnum svæðum. Um er að ræða skotelda sem skapa nokkra hættu og má eingöngu nota utandyra á vel opnum svæðum. […] Þegar þessir skoteldar eru notaðir samkvæmt leiðbeiningum ættu þeir ekki að valda meiðslum á fólki sem stendur í 25 m fjarlægð eða meira. […].“ Í töflu 3 í viðaukanum er síðan að finna nánari flokkun og lýsingu á skoteldum sem teljast til skotelda í flokki 3. Um skotelda af gerðinni 3D er að finna eftirfarandi lýsingu, meginverkun og sérstakar athugasemdir:

                 „Samtengdir hólkar sem kveikt er í á jörðu. Hver hólkur inniheldur eina eða fleiri knýhleðslur og skoteldseiningar. Skoteldseiningarnar skjótast upp, dreifast mikið, og mynda eldkúlur, eldglæringar og/eða hávaða. Sala bönnuð til almennings á skotkökum með hólkvídd  meira en 2" að innanmáli, og yfir 25 kg að þyngd. Bannað er að selja skotkökur sem hafa enga aðra virkni en sprengingar eða hafa tvo eða fleiri kveikjuþræði.“ 

                Þá eru sérstök ákvæði um merkingar á skoteldum eftir flokkum. Um flokk 3 segir eftirfarandi í viðaukanum:

                 „Allir skoteldar og sölueiningar sem innihalda aðeins skotelda í flokki 3 skulu merkt með eftirfarandi texta: „ÖFLUGIR SKOTELDAR“. Á skoteldum í flokki 3 skal vera eftirfarandi viðvörun: „Hætta – eingöngu til notkunar utandyra á stórum opnum svæðum“, „Bannað að selja til yngri en 16 ára“.

                Samkvæmt matsgerð dómkvaddra matsmanna eru þrír kveikiþræðir í umræddri skotköku. Kemur fram að sver grænleitur þráður liggi í stuttum spottum milli nærliggjandi hólka og tengi alla hólkana saman í röð. Þessi þráður brenni nokkuð hratt. Mjór grænn þráður liggi sums staðar langar leiðir í pakkanum. Hann brenni hægt og kunni að vera gerður til öryggis til að leiða bruna fram hjá svæðum í pakkanum ef ekki kviknar á þeim, og einnig til að skapa hlé í sprengingunum. Í þriðja lagi sé svo grár þráður sem liggi langt og beri eldinn hratt. Telja matsmenn að þetta flókna þráðakerfi gegni þeim tilgangi meðal annars, að stýra framvindu mála þegar tertan sé sprengd.

                Það er því ljóst að umrædd skotkaka hefur að geyma þrjá kveikiþræði, auk kveiks, þar sem kveikt er í skotkökunni, og liggur kveikjan ofan á umbúðunum. Eins og áður greinir er sala til almennings bönnuð á skotkökum þar sem hólkvídd er meiri en 2" að innanmáli, og yfir 25 kg að þyngd. Enn fremur er bannað að selja almenningi skotkökur sem hafa enga aðra virkni en sprengingar eða hafa tvo eða fleiri kveikjuþræði.

                Í viðauka II með reglugerð nr. 163/2007, um breytingu á reglugerð nr. 952/2003, með síðari breytingum, er að finna eftirfarandi lýsingu á kveikiþræði:

                 „Hlutur sem samanstendur af tauþræði sem hefur verið húðaður með svörtu púðri, eða öðru slíku skoteldaefni sem brennur hratt, og sveigjanlegri hlífðarkápu, eða hlutur sem samanstendur af kjarna úr svörtu púðri sem er umlukinn sveigjanlegu ofnu efni. Þráðurinn brennur með framrás eftir lengd sinni með utanáloga og er notaður til að senda kveikingu frá búnaði yfir í hleðslu.“

                Dómurinn telur að eftir því sem kveikjuþræðir eru fleiri, aukist hættueiginleikar skoteldsins. Það lýsir sér einkum í því að fleira getur farið úrskeiðis þegar skoteldurinn er tendraður, en þegar um er að ræða einn kveikiþráð. Ástæðan er m.a. sú að kveikiþræðirnir geta brunnið upp mishratt eða öðruvísi en ætlað er. Þá getur aukin hætta skapast ef einn kveikiþráður stöðvast, en skotkakan fer síðan af stað aftur vegna tenginga við aðra kveikiþræði.

                Samkvæmt matsgerðinni er innanmál hólkanna í umræddri skotköku 30 mm og utanmál 37 mm og þyngd hennar 24 kg. Fullnægir hún að því leyti þeim kröfum sem gerðar er til skottertu sem fellur undir flokk 3 í viðauka I í reglugerð nr. 952/2003. Á hinn bóginn er ljóst að skotkakan hefur þrjá kveikjuþræði, og því er bannað að selja hana almenningi.

                Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða dómsins að umrædd skotkaka hafi ekki uppfyllti skilyrði til þess að falla undir skotelda í flokki 3 samkvæmt reglugerð nr. 952/2003 um skotelda með síðari breytingum. Hefði sala hennar samkvæmt því átt að vera bönnuð til almennings, eins og reglugerðin mælir fyrir um. Hefði með réttu átt að fella hana undir skotelda í flokki 4, með tilheyrandi aðvörunum og merkingum. Það er því niðurstaða dómsins að skotkakan hafi verið haldin ágalla í skilningi 1. tölul. 5. gr. laga nr. 25/1991, og að stefndi sem dreifingaraðili vörunnar beri þar með ábyrgð á tjóni sem rakið verður til þess ágalla, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 25/1991.

                Kemur þá næst til skoðunar hvort tjón stefnanda verði rakið til fyrrgreinds ágalla á vörunni um ófullnægjandi merkingar hennar eða vegna annars ágalla hennar.

                Í matsgerð dómkvaddra matsmanna kemur fram að þeir hafi ekki fundið neitt athugavert við þá kveikiþræði á þeim fjórum tertum sem þeir hafi skoðað. Þeir hafi brunnið á eðlilegum tíma og gefið viðstöddum nógan tíma til þess að færa sig t.d. 10 metra frá tertunni áður en fyrsta skotið kom úr henni.

                Í framburði vitnanna Stefáns Ágústs Sigurðssonar og Ragnars Stefáns Halldórssonar kemur fram að stefnandi hafi ekki forðað sér strax frá skotkökunni eftir að hann tendraði í kveik hennar og að hann hafi fært hana til eftir að hafa kveikt í henni. Þá töldu þessi vitni að skotkakan hefði skotið með eðlilegum hætti.

                Vitnin Ýr Baldursdóttir og Eiríkur Stefánsson, hafa á hinn bóginn lýst því að tertan hafi sprungið óeðlilega og að hún hafi skotist í allar áttir.

                Að virtu framansögðu og gögnum málsins, er það mat dómsins að ósannað sé að skottertan hafi verið haldin sérstökum ágalla umfram það sem áður greinir um ófullnægjandi merkingar hennar. Á hinn bóginn verður að líta til þess að um var að ræða skoteld sem alls ekki mátti selja almenningi vegna hættueiginleika hans. Miðað við málsatvik má ganga út frá því að stefnandi hafi verið grandlaus um þau atriði. Verður að líta svo á að þessir hættueiginleikar hafi með einum eða öðrum hætti orðið að veruleika umrætt sinn og séu aðalorsök þess tjóns sem stefnandi hlaut.

                Þó telur dómurinn að stefnanda hafi mátt vera ljóst að um hættulegan skoteld væri að ræða, með vísan til þeirra leiðbeininga sem voru utan á umbúðunum, einkum um að víkja bæri vel frá eftir að tendrað hefði verið í kveik skottertunnar, og þeirrar viðvörunar að um öflugan skoteld væri að ræða sem eingöngu væri til notkunar á stórum opnum svæðum. Þykir nægjanlega sannað í málinu að stefnandi sneri ekki frá skoteldinum strax og tilefni var til eftir tendrun hans. Af þessum sökum telur dómurinn að skipta beri sök á milli aðila og er rétt að stefnandi beri 1/3 hluta tjóns síns sjálfur af þessum ástæðum.

                Samkvæmt framansögðu er viðurkennt að stefndi Slysavarnafélagið Landsbjörg beri skaðabótaskyldu vegna 2/3 hluta þess líkamstjóns sem stefnandi varð fyrir þann 1. janúar 2013.

                Stefnandi nýtur gjafsóknar í málinu. Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnda gert að greiða málskostnað sem rennur í ríkissjóð, samtals 2.660.000 krónur. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Steingríms Þormóðssonar hrl., sem þykir í ljósi umfangs og eðlis málsins vera hæfilega ákveðin 2.300.000 krónur.

                Dóm þennan kveða upp Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari sem dómsformaður og meðdómsmennirnir Hermann Sigurðsson verkfræðingur og Þór Tómasson efnaverkfræðingur.

                                                                              DÓMSORÐ:

Viðurkennd er skaðabótaskylda, stefnda Slysavarnafélagsins Landsbjargar vegna 2/3 hluta þess líkamstjóns sem stefnandi, Baldur Sigurðarson, varð fyrir þann 1. janúar 2013.

                Stefndi greiði 2.660.000 krónur í málskostnað sem rennur í ríkissjóð.

                Allur málskostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Steingríms Þormóðssonar hrl., 2.300.000 krónur.