Hæstiréttur íslands

Mál nr. 152/2011


Lykilorð

  • Fjármálafyrirtæki
  • Skaðabætur
  • Innlausn
  • Verðbréfaviðskipti


                                     

Fimmtudaginn 8. desember 2011.

Nr. 152/2011.

Snæbjörn Konráðsson

(Erlendur Þór Gunnarsson hrl.)

gegn

Landsvaka hf.

(Stefán Geir Þórisson hrl.)

Fjármálafyrirtæki. Skaðabætur. Innlausn. Verðbréfaviðskipti.

S átti hlutdeildarskírteini í fjárfestingarsjóði sem L hf. annaðist rekstur á en LÍ hf. hafði vörslur og umsjón með eignum sjóðsins. Að kvöldi 5. október 2008 sendi S verðbréfamiðlara sínum í LÍ hf. fyrirmæli með tölvupósti um innlausn allra hlutdeildarskírteina sinna í sjóðnum en þegar líða tók á 6. október bárust S upplýsingar um að það hefði ekki verið gert. Sama dag tók L hf. þá ákvörðun að fresta innlausn hlutdeildarskírteina í öllum sjóðum félagsins. S byggði málatilbúnað sinn á því að hann hefði gefið fyrirmæli um innlausn hlutdeildarskírteinanna áður en ákvörðun L hf. um að fresta innlausn varð bindandi. Taldi Hæstiréttur að gildistaka ákvörðunar um frestun innlausnar hlutdeildarskírteina væri ekki bundin undanfarandi kynningu. Þá var ekki talið að sá dráttur hafi orðið á að ákvörðunin væri tilkynnt Fjármálaeftirlitinu og auglýst að það gæti haft áhrif á gildi hennar. L hf. hafi því ekki verið skylt að innleysa skírteinin 6. október 2008. Samkvæmt þessu var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu L hf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. mars 2011. Hann krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða sér 7.561.527 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. apríl 2009 til greiðsludags. Til vara krefst áfrýjandi þess að stefnda verði gert að greiða sér aðra lægri fjárhæð. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Stefndi annaðist rekstur fjárfestingarsjóðs sem nefndur var Peningabréf Landsbankans ISK. Landsbanki Íslands hf. hafði vörslur og umsjón með eignum sjóðsins á grundvelli samnings frá 23. október 2003 sem gerður var á grundvelli heimildar í 18. gr. laga nr. 30/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði. Stefndi var því rekstrarfélag og Landsbanki Íslands hf. vörslufélag í skilningi 3. og 4. töluliðar 2. gr. laganna.

Áfrýjandi átti hlutdeildarskírteini í sjóðnum að andvirði 24.235.664 krónur miðað við kaupgengi föstudaginn 3. október 2008. Að kvöldi sunnudagsins 5. þess mánaðar sendi áfrýjandi verðbréfamiðlara sínum í Landsbanka Íslands hf. í Luxemborg fyrirmæli með tölvupósti um innlausn allra hlutdeildarskírteina sinna í sjóðnum. Næsta morgun 6. október kl. 7.37 svaraði miðlarinn og sagðist ætla að sjá til þess að skírteinin yrðu innleyst. Áfrýjandi spurðist síðan fyrir með tölvupósti kl. 10.24 sama dag hvort innlausnin hefði farið fram og því svaraði miðlarinn skömmu síðar eða kl. 11.15 með þessum orðum: „Við bara rétt sluppum“. Þegar líða tók á dag bárust áfrýjanda upplýsingar um að hlutdeildarskírteini hans hefðu ekki verið innleyst.

Samkvæmt útboðslýsingu sjóðsins frá júlí 2008, sem gefin var út í samræmi við 47. gr. laga nr. 30/2003, var opið fyrir viðskipti í sjóðnum virka daga frá kl. 10 til 16. Að morgni 6. október 2008 kom stjórn stefnda saman til fundar og var sú ákvörðun tekin á tíunda tímanum, áður en opnað var fyrir viðskipti þann dag, að fresta innlausn hlutdeildarskírteina í öllum sjóðum félagsins. Í kjölfarið sama dag var ákvörðunin tilkynnt Fjármálaeftirlitinu með tölvupósti, sem sendur var kl. 11.04, auk þess sem hún var kynnt opinberlega á vefmiðlinum mbl.is kl. 14.03 og á visir.is kl. 14.17.

Í samræmi við tilmæli Fjármálaeftirlitsins 17. október 2008 tók stefndi þá ákvörðun að slíta peningamarkaðssjóðum. Við slit á þeim sjóði sem áfrýjandi hafði fjárfest í höfðu eignir sjóðsins lækkað í verði og fékk áfrýjandi 16.674.136 krónur við innlausn hlutdeildarskírteina 28. október 2008, en það svarar til 68,8% af kaupgengi þann dag sem síðast var opið hjá stefnda fyrir viðskipti með skírteini í sjóðnum 3. sama mánaðar.

Áfrýjandi reisir málatilbúnað sinn á því að hann hafi gefið fyrirmæli um innlausn hlutdeildarskírteina áður en ákvörðun stefnda 6. október 2008 um að fresta innlausn varð bindandi. Því hafi stefnda borið að innleysa skírteinin og þar sem það hafi ekki verið gert hafi stefndi bakað sér bótaskyldu gagnvart áfrýjanda. Aðalkrafa áfrýjanda svarar til mismunar á eign hans í sjóðnum miðað við kaupgengi 3. október 2008 og innlausn 28. sama mánaðar. Stefndi telur aftur á móti að ákvörðun um að fresta innlausn hafi öðlast gildi um leið og hún var tekin og verið bindandi gagnvart áfrýjanda þótt ekki hafi hún samtímis verið tilkynnt Fjármálaeftirlitinu og auglýst opinberlega. Málsástæðum aðila er að öðru leyti lýst í héraðsdómi.

II

 Samkvæmt 1. mgr. 53. gr. laga nr. 30/2003 eru hlutdeildarskírteini fjárfestingarsjóðs innlausnarskyld eftir reglum viðkomandi sjóðs. Samkvæmt þeim reglum er þó heimilt að fresta innlausn hlutdeildarskírteina. Sú ráðstöfun skal vera almenn og taka til allra skírteina og verður henni einungis beitt mæli sérstakar ástæður með því og hagsmunir eigenda krefji. Skal ráðstöfunin þegar tilkynnt Fjármálaeftirlitinu og jafnframt auglýst opinberlega, sbr. 2. mgr. sömu greinar.

Hinn 23. júlí 2008 samþykkti stjórn stefnda reglur fyrir Peningabréf Landsbankans ISK en í þeim sjóði fjárfesti áfrýjandi svo sem áður getur. Samkvæmt 10. grein þeirra reglna var stefnda skylt að innleysa hlutdeildarskírteini að kröfu eigenda á því kaupgengi sem gilti á innlausnardegi í samræmi við ákvæði laga og reglna þar að lútandi. Áttu viðskiptin að fara fram samdægurs bærist ósk um þau fyrir kl. 16. Í sömu grein er síðan að finna heimild til að fresta innlausn hlutdeildarskírteina undir sérstökum kringumstæðum en ákvæðið er að öðru leyti efnislega samhljóða 2. mgr. 53. gr. laga nr. 30/2003. Í dæmaskyni um tilvik sem heimila frestun innlausnar er nefnd lokun kauphallar, þar sem verulegur hluti eigna sjóðsins er skráður þannig að ekki reynist unnt að staðreyna innlausnarvirði, eða sjóðurinn standi frammi fyrir svo miklum kröfum um innlausn að ekki sé unnt að mæta þeim nema með sölu eigna sem gæti tekið einhvern tíma. Þá segir að frestun skuli tilkynnt Fjármálaeftirliti og auglýst opinberlega.

Að morgni 6. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið þá ákvörðun að stöðva tímabundið viðskipti með fjármálagerninga sem gefnir höfðu verið út af öllum helstu fjármálafyrirtækjum landsins og teknir höfðu verið til viðskipta á skipulögðum markaði. Kom fram í tilkynningu eftirlitins að það teldi óvissu koma í veg fyrir eðlilega verðmyndun verðbréfa auk þess sem verðmótandi upplýsingar væru orðnar of dreifðar til að unnt væri að tryggja trúnað þeirra og þar með jafnræði fjárfesta. Fyrir liggur að verulegur hluti eigna sjóðsins sem áfrýjandi fjárfesti í voru verðbréf útgefin af þeim fjármálafyrirtækjum sem framangreind ákvörðun Fjármálaeftirlitsins tók til. Er ágreiningslaust með aðilum að fyrir hendi hafi verið sérstakar aðstæður á fjármálamarkaði sem heimiluðu stefnda að fresta innlausn hlutdeildarskírteina. Aftur á móti deila aðilar um hvort ákvörðun þar að lútandi hafi orðið bindandi áður en hún var tilkynnt Fjármálaeftirlitinu og birt opinberlega.

Í 2. mgr. 53. gr. laga nr. 30/2003 og 10. grein reglna fyrir sjóðinn segir að ákvörðun um að fresta innlausn hlutdeildarskírteina skuli þegar tilkynnt Fjármálaeftirlitinu og auglýst opinberlega. Af þessu leiðir að gildistaka slíkrar ákvörðunar er ekki bundin undanfarandi kynningu af því tagi, sbr. og dómur Hæstaréttar frá 24. maí 2011 í máli nr. 219/2011. Þá verður ekki talið að sá dráttur hafi orðið á að ákvörðunin væri tilkynnt Fjármálaeftirlitinu og auglýst að það geti haft áhrif á gildi hennar. Þar sem fyrirmæli áfrýjanda um innlausn sunnudaginn 5. október 2008 gat fyrst komið til afgreiðslu daginn eftir, það er sama dag og tekin var ákvörðun um frestun innlausnar, er hann bundinn af henni. Því var stefnda ekki skylt að innleysa skírteinin 6. október 2008 miðað við kaupgengi 3. sama mánaðar. Samkvæmt þessu verður staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að stefndi skuli sýkn af kröfum áfrýjanda.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Stefndi, Landsvaki hf., er sýkn af kröfum áfrýjanda, Snæbjörns Konráðssonar.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. janúar 2011.

Mál þetta, sem dómtekið var 14. desember 2010, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Snæbirni Konráðssyni, kt. 260376-3149, Kirkjusandi 3, Reykjavík, gegn Landsvaka hf., kt. 700594-2549, Hafnarstræti 5, Reykjavík, með stefnu sem birt var 18. nóvember  2009.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 7.561.527 kr. með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 3. apríl 2009 til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda í samræmi við framlagðan málskostnaðarreikning.  Einnig er krafist virðisaukaskatts á málskostnað þar sem stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur aðili.

Dómkröfur stefnda eru að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar stefnda að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.

Stutt yfirlit um atvik að baki máli og ágreiningsefni í því:  Stefnandi átti hlutdeildarskírteini í fjárfestingarsjóði að nafni Peningabréf Landsbanka ISK er rekinn var af stefnda, Landsvaka hf.  Stefnandi telur að 3. október 2008 hafi hlutdeildarskírteini hans í fjárfestingarsjóðnum verið að virði 24.235.664 kr.  Upplýst er að stjórn Landsvaka hf. ákvað 6. október 2008 að fresta innlausn hlutdeildarskírteina í sjóðnum.  Daginn eftir tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar Landsbanka Íslands hf. og vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd með heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008.

Í kjölfar tilmæla Fjármálaeftirlitsins, hinn 17. október 2008, ákvað stjórn Landsvaka hf. að slíta peningamarkaðssjóðum félagsins og gera upp eignir þeirra.  Í framhaldi af því fékk stefnandi í lok mánaðarins 16.674.137 kr. greiddar, þ.e. 68,8% af 24.235.664 kr.  Deilt er um hvort stefndi hafi með þessu valdið stefnanda tjóni er stefndi beri skaðabótaábyrgð á eða ekki.

Helstu málsástæður stefnanda og réttarheimildir er hann byggir á:  Byggt er á því að Landsvaki hf. sé rekstrarfélag í skilningi 2. gr. laga nr. 30/2003 og hafi starfað á grundvelli þeirra laga.  Þá hafi fjárfestingarsjóðurinn Peningabréf Landsbanka ISK verið fjárfestingarsjóður í skilningi III. kafla A sömu laga.  Samkvæmt 1. mgr. 53. gr. laga nr. 30/2003 sé meginreglan sú að hlutdeildarskírteini fjárfestingarsjóða eru innlausnarskyld og um innlausn fjárfestingarsjóða fari samkvæmt reglum sjóðanna.

Vísað er til þess að í 1. mgr. 10 gr. reglugerðar fyrir Peningabréf Landsbankans ISK segir:

Fyrir endanlegan gjalddaga hlutdeildarskírteina er Landsvaki hf. skuldbundinn til að innleysa hlutdeildarskírteini að kröfu eiganda á því kaupgengi, sem gildir á innlausnardegi í samræmi við ákvæði laga og reglna þar um.  Viðskipti með hlutdeildarskírteini í Peningabréfum Landsbankans ISK fara fram samdægurs berist ósk um viðskipti fyrir kl 16:00.

Þá er vísað til þess að í 2. mgr. 53. gr. laga nr. 30/2003 sé fjallað um heimild til frestunar innlausnar sem sé undantekning frá meginreglunni um innlausnarskyldu, en þar segir m.a.:

Frestun skal vera almenn og taka til allra hlutdeildarskírteina og verður einungis beitt mæli sérstakar ástæður með því og hagsmunir eigenda hlutdeildarskírteina krefjist.  Frestun á innlausn skal þegar tilkynnt Fjármálaeftirlitinu.  Jafnframt skal frestun auglýst opinberlega.

Einnig er vísað til þess sem segir í 2. og 3. mgr. 10. gr. reglugerðar fyrir peningabréf Landsbankans ISK:

Landsvaka hf. er þó heimilt undir sérstökum kringumstæðum að fresta innlausn hlutdeildarskírteina.  Slík frestun skal vera almenn og taka til allra hlutdeildarskírteina og verði einungis beitt mæli sérstakar ástæður og hagsmunir eigenda hlutdeildarskírteina með því.  Sem dæmi um slík tilvik má nefna lokun kauphallar þar sem verulegur hluti eigna sjóðsins er skráður þannig að ekki reynist unnt að staðreyna innlausnarvirði eða sjóðurinn standi frammi fyrir svo miklum kröfum um innlausn að ekki er unnt að mæta þeim nema með sölu eigna sem gæti tekið einhvern tíma.

Frestun skv. 2. mgr. skal þegar tilkynnt Fjármálaeftirliti og eftirlitsaðilum annarra ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins þar sem hlutdeildarskírteini sjóðsins hafa verið sett á markað.  Slík frestun skal enn fremur auglýst opinberlega.

Stefnandi byggir á því að ljóst sé að ákvæði um tilkynningu frestunar innlausnar sé til þess að vernda hagsmuni eigenda hlutdeildarskírteina og tryggja jafnræði þeirra.  Samkvæmt 2. mgr. 53. gr. laga nr. 30/2003 sé forsenda þess að rekstrarfélag geti frestað innlausn hlutdeildarskírteina í fyrsta laga sú að tilkynning hafi sannanlega borist til Fjármálaeftirlitsins og í öðru lagi að frestunin hafi verið auglýst opinberlega.

Stefnandi vísar til þess að hafa sent fyrirmæli um innlausn skírteinanna að kvöldi 5. október 2008, fyrirmæli, er hafi verið móttekin af starfsmanni Landsbankans í Lúxemborg daginn eftir kl. 07.37 og send til afgreiðslu í bakvinnslu bankans.  Ákvörðun um frestun innlausnar hafi verið tekin af stjórn Landsvaka hf. á fundi, sem haldinn var mánudaginn 6. október 2008 milli kl. 09.30 og 10.  Ákvörðunin hafi ekki verið tilkynnt Fjármálaeftirlitinu fyrr en kl. 11.04 og ekki auglýst opinberlega fyrr en kl. 14.03 sama dag.  Samkvæmt þessu hafi frestun innlausnar á hlutdeildarskírteinum ekki tekið gildi þegar fyrirmæli stefnanda um innlausn barst starfsmanni Landsbankans.  Og þar sem tilkynning um frestun innlausnar barst ekki Fjármálaeftirlitinu fyrr en kl. 11.04 verði að líta svo á að sjóðurinn hafi að minnsta kosti verið opin til kl. 11.04 hinn 6. október 2008.  Landsvaka hf. hafi því borið að fara að fyrirmælum stefnanda um innlausn, sbr. 1. mgr. 53. gr. laga nr. 30/2003 og 1. mgr. 10. gr. reglna fjárfestingarsjóðsins.  Þessi vanræksla hafi valdið umdeildri kröfu stefnanda.  Tölulega sé kröfufjárhæðin reist á mismun á gengi peningabréfa 6. október 2008 annars vegar og á gengi útgreiðslu bréfanna við slit sjóðsins 28. október 2008 hins vegar.

Um réttarheimildir vísar stefnandi til ákvæða laga nr. 30/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, einkum ákvæða III. kafla A og II kafla A-D og H.  Þá er einnig vísað til ákvæða laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, reglugerðar nr. 792/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði og reglugerðar nr. 995/2007 um fjárfestavernd.  Enn fremur vísar stefnandi til hinnar almennu sakarreglu og meginreglu um vinnuveitendaábyrgð og kröfuréttindi.  Varðandi kröfu um málskostnað vísar stefnandi til 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.  Um varnarþing vísar hann til 33. gr. laga um meðferð einkamála og um aðild til 17. gr. sömu laga.  Um virðisaukaskatt er vísað til laga nr. 50/1988.

Helstu málsástæður stefnda og réttarheimildir er hann byggir á:  Stefndi mótmælir túlkun stefnanda á ákvæði 2. mgr. 53. gr. laga nr. 30/2003, en í 1. mgr. og 2. mgr. 53. gr. segir:

Hlutdeildarskírteini fjárfestingarsjóða samkvæmt þessum kafla [III. kafla] eru innlausnarskyld.  Um innlausn fjárfestingarsjóða fer samkvæmt reglum sjóðs.  Rekstrarfélagi er skylt að vekja sérstaka athygli viðskiptavinar á þeim reglum sem gilda um innlausnarskyldu sjóðs.

Þrátt fyrir 1. mgr. er fjárfestingarsjóðum heimilt samkvæmt ákvæðum reglna sjóðsins að fresta innlausn hlutdeildarskírteina.  Frestun skal vera almenn og taka til allra hlutdeildarskírteina og verður einungis beitt mæli sérstakar ástæður með því og hagsmunir eigenda hlutdeildarskírteina krefjist.  Frestun á innlausn skal þegar tilkynnt Fjármálaeftirlitinu.  Jafnframt skal frestun auglýst opinberlega.

Stefndi vísar til þess að eftir orðanna hljóðan eigi að tilkynna um frestun þegar ákvörðun um hana hefur verið tekin en ekki áður eins og stefnandi heldur fram.  Þá eigi sér hvorki stoð í orðunum Jafnframt skal frestun auglýst opinberlega né í lögskýringargögnum að gildisskilyrði ákvörðunar um frestun sé að hún hafi áður verið auglýst opinberlega svo sem stefnandi heldur fram.

Stefndi byggir á því að ákvörðun um frestun innlausnar skv. 2. mgr. 53. gr. laga nr. 30/2003 taki gildi um leið og ákvörðunin er tekin á lögmætan hátt skv. reglum þess sjóðs sem í hlut á hverju sinni.  Sjóðnum beri síðan skylda til að tilkynna Fjármálaeftirlitinu þessa ákvörðun og auglýsa hana opinberlega.  Ákvörðun um frestun innlausnar í þessu tilviki hafi verið tekin á fundi Landsvaka hf. milli klukkan 9.30 og 10 hinn 6. október 2008.  Klukkan 11.04 sama dag hafi Fjármálaeftirlitinu verið tilkynnt um ákvörðunina og frestur innlausnar verið auglýstur opinberlega klukkan 14.03 sama dag.

Vísað er til þess að fyrir liggi að skilaboð stefnanda með fyrirmælum um innlausn skírteina hans voru fyrst móttekin af starfsmanni Landsbankans í Lúxemborg klukkan 07.37 6. október 2008.  Frá þeim tíma höfðu einungis tæpar 2 klukkustundir liðið þar til ákvörðun um frestun innlausnar var tekin, en í 1. mgr. 53. gr. laga nr. 30/2003 segi m.a.:

Hlutdeildarskírteini fjárfestingarsjóða samkvæmt þessum kafla eru innlausnarskyld. Um innlausn fjárfestingarsjóða fer samkvæmt reglum sjóðs.

Samkvæmt framangreindu telur stefndi ljóst að undir venjulegum kringumstæðum hafi Landsvaka hf. verið skylt að innleysa hlutdeildarskírteini að kröfu stefnanda.  Hins vegar sé þarna ekki nákvæmlega kveðið á um tímamark, heldur aðeins vísað til þess að um innlausn fjárfestingarsjóða fari samkvæmt reglum viðkomandi sjóðs, en í 1. mgr. 10. gr. reglna fyrir Peningabréf Landsbankans ISK segi:

Fyrir endanlegan gjalddaga hlutdeildarskírteina er Landsvaki hf. skuldbundinn til að innleysa hlutdeildarskírteini að kröfu eiganda á því kaupgengi, sem gildir á innlausnardegi í samræmi við ákvæði laga og reglna þar um.  Viðskipti með hlutdeildarskírteini í Peningabréfum Landsbankans ISK fara fram samdægurs berist ósk um viðskipti fyrir kl 16:00.

Ósk stefnanda um innlausn hafi borist starfsmanni stefnda klukkan 7.37 hinn 6. október 2008.  Stefndi hefði því innleyst hlutdeildarskírteini stefnanda að kröfu hans 6. október 2008 ef opnað hefði verið fyrir viðskipti þann dag, en það hefði ekki verið gert.

Helgina 4. til 5. október 2008 hefðu átt sér stað viðræður milli ríkisstjórnarinnar, Fjármálaeftirlitsins, Seðlabankans, viðskiptabankanna, aðila vinnumarkaðarins, lífeyrisjóða og fleiri aðila.  Mikil ókyrrð hefði ríkt á fjármálamörkuðum.  Stjórn Landsvaka hf. hefði því að morgni 6. október 2008 ákveðið að loka fyrir innlausnir í öllum sjóðum félagsins með hagsmuni sjóðfélaga í huga, en regla hefði verið, samkvæmt útboðslýsingu Peningabréfa Landsbankans ISK, að opið væri fyrir viðskipti í sjóðnum virka daga frá klukkan 10 til 16 árið um kring og uppgjör á kaupum og sölu í sjóðnum, sem bærust á opnunartíma, yrðu afgreidd.  Ekki hafi borist beiðni frá stefnanda um sölu í sjóðnum á opnunartíma sjóðsins.

Stefndi byggir á því að félagið hafi ekki valdið stefnanda tjóni með saknæmum hætt.  Þá sé tjón stefnanda bæði ósannað og algerlega vanreifað.  Hann hafi hvorki greint frá því hvað hann greiddi fyrir hlutdeildarskírteini í Peningabréfum Landsbanka ISK né hvenær.  Þá hafi stefnandi ekki sýnt fram á orsakasamband milli ætlaðs tjóns síns og ætlaðs saknæmis og ólögmæts atferlis stefnda, Landsvaka hf.

Um réttarheimildir vísar stefndi til laga nr. 30/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 og laga um meðferð einkamála nr. 991/1991.  Þá vísar stefndi til stjórnvaldsfyrirmæla byggðum á lögum, einkum stjórnvaldsfyrirmæla og ákvarðana sem teknar voru af Fjármálaeftirlitinu.

Stefnandi Snæbjörn Konráðsson bar fyrir rétti m.a. að hann starfi í veðdeild hjá Landsbankanum og starf hans felist í því að sjá til þess að vefur og innra net Landsbankans og vefir dótturfyrirtækja séu í takt við það sem viðskiptavinir óska eftir hverju sinni.

Ingvar Karlsson, sjóðstjóri í skuldabréfasjóði stefnda, bar fyrir rétti m.a. að peningamarkaðssjóður, sem hér um ræðir, væri opnaður klukkan 10 á morgnana.  Viðskipti í þessum sjóði færu fram á ákveðnu gengi sem væri það sama yfir allan daginn.  Almennt væri gengi dagsins tilbúið síðustu 10 til 15 mínútur fyrir opnun og gefið út á kerfin.  Mánudaginn 6. október 2008 hefði ekkert gengi verið ákveðið og ekkert gengi farið inn í kerfin.

Ingvar sagði að um leið og búið væri að gefa út gengið og staðfesta það, fari það inn í kerfin og þá væri unnt að eiga viðskipti á því gengi.  Ekki hefði verið opnað fyrir viðskipti 6. október 2008.

Vísað var til dskj. nr. 51, útdrátta úr útboðslýsingu, þar sem segir m.a. á bls. 7: „Uppgjör á kaupum og sölu í sjóðnum, sem berast á opnunartíma, eru afgreidd T+0.“  Ingvar sagði að þetta þýddi samdægurs; T stæði fyrir viðskiptin, viðskiptadag, þannig að þetta væri sama dag og viðskiptin færu fram.

Ingvar kvaðst ekki vita til þess að neinar pantanir hefðu verið afgreiddar mánudaginn 6. október 2008, enda hefði ekkert gengi verið ákveðið fyrir þann dag.  Hann kvaðst ekki vita til að pantanir, sem mótteknar hefðu verið föstudaginn 3. október 2008 en ekki afgreiddar þann dag, hefðu verið afgreiddar síðar á gengi föstudagsins 3. október.

Niðurstaða:  Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér skaðabætur að fjárhæð 7.561.527 kr. með tilgreindum dráttarvöxtum og málskostnaði.  Fram kemur að fjárhæðin er miðuð við að gera stefnanda eins settan við slit Peningabréfa Landsbanka ISK og ef greitt hefði verið úr sjóðnum eftir dagsgengi hlutdeildarskírteina, sem síðast gilti áður en lokað var fyrir innlausn þeirra 6. október 2008.  Stefnandi hefur hins vegar hvorki sýnt fram á hvernig þetta innlausnarverð hefði átt að geta haldist óbreytt eftir 6. október 2008 né sannað að stefndi hafi með saknæmum eða gáleysislegum hætti lokað fyrir innlausn þeirra.

Af öllu framangreindu, og með vísun til röksemda og lagasjónarmiða stefnda að öðru leyti, verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda.

Rétt þykir að stefnandi greiði stefnda 500.000 kr. í málskostnað.

Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Stefndi, Landsvaki hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Snæbjörns Konráðssonar.

Stefnandi greiði stefnda 500.000 krónur í málskostnað.