Hæstiréttur íslands
Mál nr. 811/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Opinber skipti
- Óvígð sambúð
- Kærumálsgögn
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
|
|
Mánudaginn 25. janúar 2016. |
|
Nr. 811/2015.
|
K (Sigurður G. Guðjónsson hrl.) gegn M (Arnar Þór Stefánsson hrl.) |
Kærumál. Opinber skipti. Óvígð sambúð. Kærumálsgögn. Frávísun frá héraðsdómi að hluta.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem leyst var úr nánar tilteknum ágreiningi M og K í tengslum við opinber skipti til fjárslita milli þeirra vegna slita á óvígðri sambúð. Í dómi Hæstaréttar kom fram að sambúð M og K hefði staðið í um 24 ár og að nánast allar eignir þeirra hefðu orðið til á sambúðartímanum með framlagi þeirra beggja. Var með vísan til þess og forsendna hins kærða úrskurðar staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að skipt yrði að jöfnu þeim eignum sem aðilar höfðu átt við sambúðarslit, óháð því hvernig skráningu einstakra eigna var háttað. Þá var jafnframt staðfest með vísan til forsendna héraðsdóms að miða skyldi sambúðarslit M og K við 8. júlí 2013 og að hafna skyldi séreignarkröfum M. Þá taldi Hæstiréttur að aðrar kröfur sem M og K deildu um hefðu ekki samkvæmt bréfi skiptastjóra til héraðsdóms, þar sem ágreiningi við opinber skipti til fjárslita aðila var vísað til dómsins, sætt þeirri meðferð sem mælt er fyrir um í 112. gr. laga nr. 20/1991 né hefði verið skýrlega getið um þær kröfur í bréfi skiptastjóra skv. 122. gr. sömu laga. Var því öðrum kröfum M og K vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Helgi I. Jónsson og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. nóvember 2015, en kærumálsgögn bárust réttinum 9. desember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. nóvember 2015, þar sem leyst var úr nánar tilteknum ágreiningi aðilanna í tengslum við opinber skipti til fjárslita milli þeirra vegna slita á óvígðri sambúð. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að þeirri niðurstöðu héraðsdóms verði hafnað að við lok óvígðrar sambúðar sóknaraðila og varnaraðila skuli miðað við að skipt verði að jöfnu þeim eignum sem aðilar áttu við sambúðarslit, óháð því hvernig skráningu einstakra eigna var háttað, og að viðmiðunardagur sambúðarslita skuli miðast við 8. júlí 2013. Í öðru lagi gerir sóknaraðili þá kröfu að hrundið verði þeirri niðurstöðu héraðsdóms „að við helmingaskipti milli sóknaraðila og varnaraðila verði ekki litið svo á að varnaraðili hafi þegar fengið greiddar 200.000.000 krónur með skuldarviðurkenningu útgefinni af [...] ehf. kt. [...], til sóknaraðila 5. desember 2007 að viðbættum 11% ársvöxtum frá þeim degi til 31. desember 2010.“ Í þriðja lagi gerir sóknaraðili þá kröfu að hrundið verði þeirri niðurstöðu héraðsdóms „að ekki komi til skipta að jöfnu greiðslur sem varnaraðili átti rétt til á grundvelli þriggja samninga frá 1. janúar 2012 um handritsvinnu, leikstjórn og leik við [...] ehf.“ Þá krefst sóknaraðili þess að varnaraðila og lögmanni hans verði gerð réttarfarssekt fyrir ósæmileg ummæli og aðdróttanir í garð sóknaraðila í greinargerð til héraðsdóms. Loks krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 7. desember 2015. Hann krefst þess að kæru sóknaraðila verði vísað frá Hæstarétti. Þá krefst hann þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur um annað en málskostnað í héraði og séreignarkröfur sínar. Varnaraðili krefst þess ,,að séreign hans skuli teljast þær tekjur sem til falla eftir 8. júlí 2013 á grundvelli höfundarréttarsamnings ... dags. 31. ágúst 2011, en til vara að séreign hans skuli teljast þær tekjur sem til falla á þessum grundvelli eftir 1. janúar 2014.“ Einnig krefst hann þess „að séreign hans skuli teljast þær tekjur sem til falla eftir 8. júlí 2013 á grundvelli samnings við [...] um skiptingu tekna af tónlist frá árinu 2004.“ Enn fremur krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Loks gerir varnaraðili þá kröfu að lögmaður sóknaraðila verði víttur en til vara gert að sæta aðfinnslum ,,fyrir vítaverð og stórlega ámælisverð brot á reglum um kærumálsgögn í einkamálum.“
I
Málsatvikum er lýst í hinum kærða úrskurði. Eins og þar kemur fram voru aðilar í óvígðri sambúð frá árinu 1989, en við upphaf hennar var sóknaraðili 18 ára en varnaraðili 24 ára. Sambúðinni lauk á árinu 2013, en ágreiningur er um hvenær ársins það gerðist. Á sambúðartímanum eignuðust þau tvö börn, hið eldra 1996 og hið yngra 1999. Á skattframtali varnaraðila 1989 fyrir tekjuárið 1988 kemur fram að 31. desember það ár hafi hann átt bifreið af gerðinni Mercedes Benz árgerð 1980, en hana hafi hann keypt á því ári og greitt að tæpum helmingi með skuldabréfi. Aðrar eignir eru þar ekki tilgreindar. Ekki liggur annað fyrir en sóknaraðili hafi verið eignalaus við upphaf sambúðarinnar. Við sambúðarlok á árinu 2013 áttu aðilar umtalsverðar eignir svo sem greinir í hinum kærða úrskurði og er í samræmi við framansagt ágreiningslaust að þær hafi, að frátöldum eignarhluta varnaraðila í ofangreindri bifreið, orðið til á sambúðartímanum. Þau höfðu allan tímann sameiginlegan fjárhag og töldu sameiginlega fram til skatts öll sambúðarárin að frátöldum tveimur árum, en í þeim tilvikum tóku þau sérstaka ákvörðun um að gera það ekki, án þess að það hafi þýðingu við úrlausn málsins. Þau greinir á um hlut hvors þeirra um sig við tekjuöflun. Fyrir liggur þó að varnaraðili aflaði mun meiri launatekna en sóknaraðili, auk þess sem hann heldur því fram að hann hafi átt hugmynd að sköpun [...], sem hafi verið grundvöllur að tekjuöflun þeirra. Sóknaraðili kveðst hafa aflað verulegra tekna með vinnu sinni við sameiginlegan rekstur þeirra, þótt launatekjur hennar hafi verið lægri en varnaraðila. Hún hafi stýrt rekstri [...] ehf. um langt skeið og með framlagi sínu tryggt að reksturinn skilaði þeim tekjum sem raun ber vitni. Hún bendir einnig á að hún hafi aflað mun meiri fjármagnstekna en varnaraðili. Þá hafi hún haldið heimili fyrir þau bæði og hugsað um það og börn þeirra, en til þess hafi varnaraðili ekki gefið sér tíma. Hún hafi þannig með framlagi sínu gert honum kleift að hafa svigrúm til að afla meiri launatekna en hún hafi átt kost á.
Við sambúðarslit var sóknaraðili þinglesinn eigandi fasteignarinnar [...] á [...], sem þau munu hafa keypt í september 1991. Þá eru þau hvort um sig skráð sem eigendur að nokkrum ökutækjum, auk þess sem þau eiga innbú, hlutabréf, hluti í öðrum félögum og verðbréf. Fyrir liggur að sóknaraðili er skráður eigandi meirihluta eigna þeirra.
II
Krafa varnaraðila um frávísun málsins frá Hæstarétti er reist á því að sóknaraðili hafi við gerð kærumálsgagna brotið gegn reglum nr. 677/2015 um kærumálsgögn í einkamálum. Sóknaraðili hafi eingöngu lagt fram þau gögn í málinu sem henni hafi þótt vera sínum málstað til framdráttar en sleppt öðrum sem varnaraðili telji vera lykilgögn málsins. Kærumálsgögn sóknaraðila gefi því ekki rétta mynd af málinu og meðal þeirra séu ekki gögn sem nauðsynleg séu til úrlausnar á ágreiningi aðila fyrir Hæstarétti, sbr. 3. gr. reglnanna. Þá hafi sóknaraðili einungis lagt fram endurrit skýrslna tveggja af þeim nítján sem gáfu skýrslu fyrir héraðsdómi. Lögmaður sóknaraðila hafi ekki haft samráð við lögmann varnaraðila svo sem honum hafi borið að gera og ekki sinnt kröfum þess lögmanns um að bæta við kærumálsgögn tilteknum skjölum, sem lögð voru fram í héraði. Við þessu hafi varnaraðili þurft að bregðast með gerð kærumálsgagna af sinni hálfu, sem geymi öll þau lykilgögn og endurrit skýrslna fyrir héraðsdómi, sem vantað hafi hjá sóknaraðila.
Sóknaraðili hafnar því að ekki séu öll þau skjöl og endurrit meðal kærumálsgagna er hann afhenti Hæstarétti, sem þörf sé á við úrlausn málsins hér fyrir dómi.
Samkvæmt 3. mgr. 147. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skal sá, sem kærir úrskurð eða dómsathöfn til Hæstaréttar, senda réttinum innan tveggja vikna frá því að kæra hans barst héraðsdómi, þau gögn málsins í fjórriti sem hann telur sérstaklega þörf á til úrlausnar um kæruefnið. Hann skal þá einnig, ef hann kýs, afhenda Hæstarétti skriflega greinargerð er geymi kröfur hans og málsástæður sem byggt er á.
Í reglum nr. 677/2015, sem settar voru með stoð í 6. mgr. 147. gr. laga nr. 91/1991, er mælt fyrir um í hvaða búningi þau gögn eiga að vera, sem sá er kærir úrskurð eða dómsathöfn héraðsdóms til Hæstaréttar, á að skila til réttarins samkvæmt 3. mgr. greinarinnar. Jafnframt er kveðið á um í 1. mgr. 2. gr. reglnanna að hann skuli, sé þess kostur, hafa samráð við varnaraðila um hvaða skjöl málsins skuli vera meðal kærumálsgagna. Samkvæmt 2. mgr. 149. gr. laganna getur Hæstiréttur, sé kæra eða málatilbúnaður að öðru leyti ófullkominn, lagt fyrir kæranda að bæta úr því sem er ábótavant innan tiltekins frests. Verði kærandi ekki við því getur Hæstiréttur vísað kærunni frá sér.
Þegar sóknaraðili málsins hafði afhent Hæstarétti kærumálsgögn ásamt greinargerð sinni var honum bent á að efnisskrá kærumálsgagna væri ekki eins og meðal annars er boðið í 4. gr. reglna nr. 677/2015. Úr því var þegar bætt af hálfu sóknaraðila.
Fallist er á með varnaraðila að á hafi skort að meðal kærumálsgagna væru ýmis skjöl, sem lögð voru fram í héraði, og nauðsynleg eru til þess að leyst verði úr ágreiningi aðila fyrir Hæstarétti. Er þar einkum átt við skattframtöl aðila á sambúðartímanum frá 1989 til 2013, en meðal kærumálsgagna sóknaraðila voru einungis skattframtöl áranna 2012 til 2014. Auk þess bar sóknaraðila að hafa meðal kærumálsgagna bréf skiptastjóra 10. nóvember 2014 til Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem fram kom beiðni um úrlausn á ágreiningi aðila, sem risið hafði við skiptin. Þessi gögn hefur varnaraðili afhent Hæstarétti, sbr. 148. gr. laga nr. 91/1991, sbr. og 8. gr. reglna nr. 677/2015. Á hinn bóginn var engin ástæða til þess að leggja fyrir Hæstarétt fjölda utanréttarvottorða, sem eru meðal þeirra gagna sem varnaraðili hefur afhent réttinum og ljósrit fjölmiðlaumfjöllunar um varnaraðila frá 1995. Þá var ekki ástæða til að rita upp og afhenda Hæstarétti endurrit allra skýrslna sem gefnar voru við meðferð málsins í héraði og ekki voru meðal kærumálsgagna sóknaraðila. Unnt var að takmarka verulega þau endurrit.
Samkvæmt þessu verður ekki fallist á að vísa beri málinu frá Hæstarétti með stoð í 2. mgr. 149. gr. laga nr. 91/1991.
III
Eins og fram er komið stóð sambúð aðila í um 24 ár og áttu þau saman tvö börn á sambúðartímanum. Þau höfðu allan tímann sameiginlegan fjárhag og töldu sameiginlega fram til skatts öll árin með tveimur undantekningum. Nánast allar eignir þeirra urðu til á sambúðartímanum með framlagi þeirra beggja. Framlög þeirra til öflunar launatekna, annarra tekna og uppeldis barna og heimilishalds verða ekki metin svo að á annað halli að marki í þeim samanburði. Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna verður staðfest sú niðurstaða hins kærða úrskurðar að skipt verði að jöfnu þeim eignum sem aðilar áttu við sambúðarslit, óháð því hvernig skráningu einstakra eigna er háttað.
Jafnframt verður staðfest með vísan til forsendna sú niðurstaða héraðsdóms að miða skuli sambúðarslit við 8. júlí 2013.
IV
Í bréfi skiptastjóra til Héraðsdóms Reykjavíkur 10. nóvember 2014, sem er grundvöllur máls þessa, var ágreiningi við opinber skipti til fjárslita milli aðila vísað til dómsins, sbr. 122. gr. laga nr. 20/1991. Í bréfinu eru í upphafi rakin atvik máls og eftir það ágreiningsefni og kröfur aðila. Kemur þar fram að ágreiningur sé um hvenær sambúðarslit hafi orðið og hvort skipta skuli eignum í tilteknum hlutföllum án tillits til skráningar á eignarhaldi eða hvort hún skuli ráða skiptingu eignanna. Í bréfinu er vísað til bókana á tveimur skiptafundum um þennan ágreining og að varnaraðili sem hafi krafist þess að eignum þeirra yrði skipt að jöfnu óháð skráningu hafi gert þann ,,fyrirvara að Nytjaleyfissamningur upphaflega dags. 19.12.1997 með síðari breytingum, sbr. tekjuhlutdeildarsamning dags. 14.10.2010 auk tekna vegna samnings um tónlist frá 2004 verði haldið utan skipta sem eign mannsins með vísan til grunnviðmiðs 3. tl. 1. mgr. 102. gr. l. 31/1993 sbr. og 30. gr. laga 72/1973.“ Í framhaldi af þessu er því lýst að lögmenn aðila áskilji sér rétt til að hafa uppi kröfur um tiltekin atriði. Þá sagði í bréfi skiptastjóra: ,,Í hnotskurn snýst ágreiningur aðila þannig um ... tímamark til viðmiðunar um skipti og um kröfu mannsins til viðurkenningar á helmings hlutdeild í eignum sem konan er skráð fyrir enda verði hún á móti talin eigandi helmings þeirra eigna sem maðurinn er skráður fyrir utan hugverkaréttinda en af hálfu mannsins er á því byggt að í öllum tilvikum sé um eignir að ræða sem orðið hafi til í sambúð aðila málsins auk þeirra fyrirvara sem gerðir voru á skiptafundi og lýst er að ofan. Skiptastjóra hefur ekki tekist að jafna ágreining aðila um þetta vegna eignaskiptanna og er honum vísað til úrlausnar Héraðsdóms í samræmi við bókun skiptafundar 29.10.2014“ sem síðan var rakin. Í lok bréfsins voru svo ágreiningsefnin tiltekin í samræmi við framangreint og þeim skotið til héraðsdóms.
Samkvæmt framansögðu var héraðsdómi rétt að taka til úrlausnar ágreining aðila um kröfu varnaraðila um að séreign hans skuli ,,þó vera tekjur sem til falla eftir 30. júní 2013 á grundvelli höfundarréttarsamnings ... dags. 31. ágúst 2011 og samnings við ... um skiptingu tekna af tónlist frá árinu 2004.“ Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest sú niðurstaða hans að hafna þessari kröfu varnaraðila.
Aðrar kröfur, sem aðilar höfðu uppi fyrir héraðsdómi og deila einnig um hér fyrir dómi, hafa samkvæmt framangreindu bréfi skiptastjóra ekki sætt þeirri meðferð sem mælt er fyrir um í 112. gr. laga nr. 20/1991 og var heldur ekki skýrlega getið í bréfi skiptastjóra samkvæmt 122. gr. sömu laga, en samkvæmt 3. tölulið 1. mgr. greinarinnar skal skiptastjóri tilgreina í bréfinu um hvað ágreiningur standi og hvaða kröfur hafi komið fram í því sambandi. Þar sem bréf hans bar ekki með sér önnur ágreiningsefni en að framan greinir, sem honum hafði ekki tekist að sætta, verður öðrum kröfum málsaðila vísað frá héraðsdómi, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 8. maí 2002 í máli nr. 146/2002, sem birtur er á blaðsíðu 1718 í dómasafni réttarins það ár.
V
Með vísan til forsendna héraðsdóms er staðfest sú niðurstaða hans að hafna kröfu sóknaraðila um að varnaraðili og lögmaður hans sæti réttarfarssektum vegna tiltekinna ummæla um sóknaraðila í greinargerð til héraðsdóms.
Fyrir Hæstarétti krefst varnaraðili þess að lögmaður sóknaraðila verði víttur eða sæti aðfinnslum ,,fyrir vítaverð og stórlega ámælisverð brot á reglum um kærumálsgögn í einkamálum“. Er bæði vísað til skorts á samráði við lögmann varnaraðila við gerð kærumálsgagna og þess að þeim hafi verið áfátt í verulegum atriðum.
Lögmanni sóknaraðila bar, svo sem boðið er í 1. mgr. 2. gr. reglna nr. 677/2015, að hafa samráð við lögmann varnaraðila um hvaða gögn, sem lögð höfðu verið fram í héraði, skyldu talin til kærumálsgagna og afhent með greinargerð hans til Hæstaréttar. Er ekki fram komið að hann hafi ekki haft svigrúm til slíks samráðs, þótt frestir hafi verið skammir. Lögmanninum bar að taka sanngjarnt tillit til óska lögmanns varnaraðila um hvaða gögn skyldu tekin með í kærumálsgögn. Er þessi regla í samræmi við meginregluna í 25. gr. siðareglna lögmanna sem lýtur að innbyrðis samskiptum þeirra. Verður að átelja lögmann sóknaraðila fyrir að hafa ekki sinnt þessari skyldu.
Samkvæmt öllu framansögðu verður staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að við skipti til fjárslita við lok óvígðrar sambúðar aðila verði miðað við að skipt skuli að jöfnu þeim eignum sem þau áttu við sambúðarslit, sem miða skal við 8. júlí 2013, óháð því hvernig skráningu einstakra eigna er háttað. Þá er staðfest sú niðurstaða að hafna kröfu varnaraðila um að til séreignar hans skuli telja tekjur sem falla til eftir 8. júlí 2013 á grundvelli þeirra höfundaréttarsamninga sem greinir í héraðsdómi og samnings um skiptingu tekna af tónlist frá 2004. Að öðru leyti er kröfum aðila vísað frá héraðsdómi.
Málskostnaðarákvæði héraðsdóms verður staðfest.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um að við sambúðarslit sóknaraðila, K, og varnaraðila, M, skuli eignum þeirra skipt til helminga, óháð skráningu eignanna, og að sambúðarslitin skuli miðast við 8. júlí 2013, svo og að hafnað skuli kröfu varnaraðila um að til séreignar hans skuli telja tekjur sem falla til eftir þann dag á grundvelli tilgreindra höfundarréttarsamninga og samnings um skiptingu tekna af tónlist frá 2004.
Öðrum kröfum málsaðila er vísað frá héraðsdómi.
Málskostnaðarákvæði héraðsdóms er staðfest.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. nóvember 2015.
I
Mál þetta, sem barst dóminum 13. nóvember 2014 með bréfi skiptastjóra vegna fjárslita milli málsaðila í tengslum við sambúðarslit þeirra, var tekið til úrskurðar 2. nóvember 2015. Sóknaraðili er M, [...], Reykjavík en varnaraðili er K, [...], [...].
Af hálfu sóknaraðila er þess krafist að við skipti til fjárslita við lok óvígðrar sambúðar með honum og varnaraðila verði miðað við að skipt verði að jöfnu þeim eignum sem aðilar áttu við sambúðarslit 30. júní 2013 óháð því hvernig skráningu einstakra eigna er háttað. Þó er þess krafist að „séreign sóknaraðila skulu þó vera tekjur sem til falla eftir 30. júní 2013 á grundvelli höfundarréttarsamnings (e. royalty agreement), dags. 31. ágúst 2011, og samnings við [...] um skiptingu tekna af tónlist frá árinu 2004“. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar að skaðlausu.
Af varnaraðila eru gerðar eftirfarandi kröfur:
„Varnaraðili gerir þá kröfu í fyrsta lagi, að hann verði sýknaður af kröfum sóknaraðila um að við lok óvígðrar sambúðar aðila verði miðað við að skipt verði að jöfnu þeim eignum sem aðilar áttu við sambúðarslit 30. júní 2013 óháð því hvernig skráningu einstakra eigna er háttað og að sóknaraðili haldi óskertum tekjum sem fallið hafa eftir 30. júní 2013 á grundvelli höfundarréttarsamnings frá 31. ágúst 2011 annars vegar og samnings við [...] um skiptingu tekna af tónlist frá árinu 2004.
Varnaraðili gerir þá kröfu í öðru lagi að, ef krafa sóknaraðila um helmingaskipti eigna verði tekin til greina, verði með dómi viðurkennt að sóknaraðili hafi þegar fengið greiddar kr. 200.000.000 með skuldaviðurkenningu útgefnu af [...] ehf. kt. [...], til varnaraðila 5. desember 2007 að viðbættum 11% ársvöxtum frá þeim degi til 31. desember 2010.
Varnaraðili gerir þá kröfu í þriðja lagi að, ef krafa sóknaraðila um helmingaskipti eigna verður tekin til greina, verði með dómi viðurkennt að allar greiðslur sem sóknaraðili átti rétt til að fá á grundvelli þriggja samninga, um handritsvinnu, leikstjón og leik við [...] ehf. frá 1. janúar 2012 komi til skipta að jöfnu með aðilum, ásamt 10% hlutdeild sóknaraðila í tekjum af tónlist [...] samkvæmt ódagsettum samningi við [...] frá árinu 2004 og ,,Royalty Agreement“ dagsettu 31. ágúst 2011 milli [...] ehf. og [...] ehf.
Varnaraðili gerir þá kröfu í fjórða lagi að, ef krafa sóknaraðila um helmingaskipti eigna verður tekin til greina, að sóknaraðili verði dæmdur til að greiða varnaraðila kr. 20.000.000 vegna fjármagnstekjuskatts sem varnaraðili greiddi 4. október 2010 vegna sölu á hlutum í [...] ehf., með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 4. október 2010 til greiðsludags.
Varnaraðili krefst þess að sóknaraðili og lögmaður hans verði sektaðir fyrir ósæmileg ummæli og aðdróttanir í garð varnaraðila í greinargerð.
Varnaraðili krefst þess sóknaraðili verði dæmdur til að greiða málskostnað samkvæmt gjaldskrá Draupnis lögmannsþjónustu auk virðisaukaskatts.“
II
Málvextir
Málsaðilar voru í óvígðri sambúð um áratugaskeið en þau skráðu sig í sambúð hjá þjóðskrá 12. júní 1989. Þá var sóknaraðili 24 ára en varnaraðili 18 ára. Meðan á sambúðinni stóð eignuðust þau tvö börn, fædd 1996 og 1999. Sambúðinni lauk á árinu 2013 en ágreiningur er um hvort það hafi verið um mitt árið eða í lok þess. Með úrskurði dómsins upp kveðnum 18. ágúst 2014 var fallist á kröfu sóknaraðila um opinber skipti til fjárslita milli aðila vegna sambúðarslitanna og skiptastjóri skipaður. Með bréfi skiptastjóra til dómsins mótteknu 13. nóvember 2014 var ágreiningi um skiptingu eigna vísað til dómsins, sbr. 122. gr. laga nr. 21/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.
Samkvæmt málsgögnum námu samanlagðar eignir aðila við sambúðarslitin um [...] milljónum króna. Er varnaraðili skráð fyrir meirihluta eignanna. Um er að ræða fasteign, innbú, mörg ökutæki, bankainnistæður, hlutabréf og verðbréf. Er aðilar hófu sambúð sína áttu þau takmarkaða eignir. Sóknaraðili var skv. skattframtali fyrir árið 1988 skráður fyrir bifreiðinni [...]. Samkvæmt fyrsta sameiginlega framtali þeirra árið eftir höfðu þau fest kaup á bifreiðinni [...]. Var tekið fram að varnaraðili væri skráð fyrir bifreiðinni en sóknaraðili hafi notað bifreiðina í þágu atvinnustarfsemi sinnar.
Með kaupsamningi dagsettum 26. september 1991 festu aðilar kaup á húseigninni [...] við [...] á [...] á 6.600.000 krónur. Voru 2.635.000 krónur greiddar út í peningum en 3.965.000 greiddar með fasteignaveðbréfi. Var sóknaraðili skráður fyrir 30% en varnaraðili fyrir 70% eignarhluta fasteignarinnar. Húsið var óíbúðarhæft og tók nokkur ár að gera það upp. Með kaupsamningi 14. október 1994 keypti varnaraðili 30% eignarhluta sóknaraðila í fasteigninni. Umsamið kaupverð, 464.058 krónur, er sagt greitt að fullu en engin gögn liggja fyrir því til staðfestingar. Skuldskeyting, á þeim hluta áhvílandi lána sem sóknaraðili var skuldari að, fór ekki fram. Ekki liggur fyrir mat á verðmæti fasteignarinnar í dag en skv. skattframtali 2013 var fasteignamat hennar 56.800.000 krónur.
Á fyrstu sambúðarárum aðila starfaði sóknaraðili sem [...] og [...]. Þá tók hann að að sér fyrirlestrahald o.fl. Starfaði hann um langt skeið hjá nafngreindri [...] en 1994 stofnaði hann í félagi við annan mann sameignarfélagið [...] sem rak [...], en reksturinn var síðar færður í einkahlutafélag 1996. Ekki liggur fyrir hvenær rekstri félagsins var hætt en af gögnum að dæma virðist það hafa verið skömmu síðar. Varnaraðili var fyrstu sambúðarárin í skóla en hóf síðan störf sem [...]. Hún kom enn fremur að framangreindum rekstri [...] án þess að fá laun fyrir.
Sóknaraðili átti hugmyndina að sköpun [...] en um er að ræða hugverk með heilsutengdu ívafi sem markaðssett er fyrir börn. Þannig hefur sóknaraðili m.a. ritað bækur, leikrit og sjónvarpsþætti fyrir [...]. Sóknaraðili lék aðalpersónu [...], [...], í um 20 ár. Í tengslum við þessa hugmynd stofnaði sóknaraðili einkahlutafélagið [...] í ágúst 1996 en tilgangur félagsins var sagður listastarfsemi hvers konar, uppsetning leiksýninga og rekstur þeirra. Áður mun hann hafi unnið í nokkur ár að undirbúningi fyrirtækisins með þróun hugmyndarinnar um [...].
Sóknaraðili var í upphafi skráður fyrir öllu hlutafé í [...] ehf. Samkvæmt kaupsamningi frá 15. janúar 1998 seldi hann varnaraðila allt hlutaféð, ásamt höfundarrétti að tilteknum ritverkum, á 3.000.000 króna. Engin gögn liggja fyrir um greiðslu kaupverðsins, sem í samningum er sagt greitt að fullu. Hins vegar virðist sem að fljótlega eftir það hafi aðilar gengið út frá því að þau ættu félagið að jöfnu, sbr. að árið 1999 er þau í samningum við fjárfestingarfélagið [...] ehf., sögð eigendur félagsins að jöfnu. Nefnt fjárfestingarfélag keypti þá hluti af sóknar- og varnaraðilum í [...] ehf., auk þess sem það keypti aukningarhluti í félaginu.
Hinn 19. desember 1997 gerði sóknaraðili nytjaleyfissamning við [...] ehf. þar sem hann framseldi félaginu ótakmarkaðan rétt til afnota hugverksins [...] og allan rétt til fjárhagslegra nota af hugverkinu. Skyldi [...] ehf. greiða sóknaraðila 10% af brúttóveltu sinni. Var tekið fram að sóknaraðili væri áfram einn eigandi að öllum greinum hugverka og höfundarréttar sem tengist [...]. Við nytjaleyfissamninginn voru síðar gerðir fjórir viðaukar.
Í júlí 2000 stofnuðu aðilar saman einkahlutafélagið [...] en tilgangur þess var sagður hinn sami og [...] ehf., þ.e. listastarfsemi hvers konar, uppsetning leiksýninga og rekstur þeirra. Voru tekjur vegna starfa sóknaraðila, aðrar en launatekjur, og síðar tekjur skv. framangreindum nytjaleyfissamningi, innheimtar í nafni félagsins.
Með samningi dagsettum 1. janúar 2003 framseldi sóknaraðili [...] ehf., allan rétt samkvæmt nytjaleyfissamningnum frá 19. desember 1997. Framsalið var án gagngjalds og skyldi gilda meðan höfundaréttur sóknaraðila að [...] gilti að lögum. Sóknaraðila var þó heimilað að segja framsalssamningnum upp með skriflegri tilkynningu.
Árið 2004 gerðu sóknaraðili og [...], sem samdi tónlist við leikrit og sjónvarpsþættina um [...] í samvinnu og samráði við sóknaraðila, með sér samning um skiptingu tekna af tónlist. Í samningnum var kveðið á um að [...] héldi 90% af höfundarréttartekjunum en sóknaraðili 10%.
Í lok árs 2007 seldi varnaraðili fjárfestingafélaginu [...] ehf. hluta af hlutum sínum í [...] ehf. eða 11,291% hluti. Um þau kaup voru gerðir tveir kaupsamningar 5. desember 2007. Annars vegar samningur um 1.350.000 hluti sem [...] ehf. greiddi fyrir 337.500.000 krónur í reiðufé. Hins vegar samningur um 1.050.000 hluti. Fyrir þann hlut voru greiddar 62.500.000 krónur í reiðufé og 200.000.000 króna með skuldabréfi. Skuldabréfið átti að greiðast með einni greiðslu, skv. þar skilgreindum „kaupdegi“ sem tengdist væntanlegri sölu [...] ehf. á hlutum í félaginu sem skyldi vera eigi síðar en 1. desember 2010. Óumdeilt er að varnaraðili afhenti sóknaraðila skuldabréfið um mitt ár 2008 í því skyni að hann gæti sett það til tryggingar efndum á láni sem einkahlutafélag í hans eigu, [...] (nú [...]), 2008 hjá Sparisjóði Mýrasýslu að fjárhæð 200.000.000 króna. [...] ehf. endurlánaði [...] ehf. sömu fjárhæð sem greiðast átti með einni greiðslu 1. desember 2010. Hefur ekki annað komið fram í málinu en að skuldabréfið sé enn ógreitt en [...] ehf. rataði í greiðsluerfiðleika í kjölfar efnahagshrunsins í október 2008. Varnaraðili átti áfram hluti í [...] ehf. eftir söluna til [...] ehf.
Í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu [...] ehf. árið 2010 framseldi sóknaraðili og [...] ehf. [...] ehf. allan hugverka- og höfundarrétt sem tengdist hugverkinu [...] með framsalssamningi dagsettum 14. maí 2010. Samhliða framsalssamningnum var gerður tekjuhlutdeildarsamningur milli [...] ehf. og sóknaraðila [...] ehf. þar sem fram kemur að [...] ehf. greiði [...] ehf. 2% af brúttóveltu [...] ehf. af hugverkaréttindum sóknaraðila í samræmi við nytjaleyfissamninginn frá 19. desember 1997 í stað 10% áður. Jafnframt var kveðið á um að umræddur nytjaleyfissamningur skyldi falla niður og öll hugverkaréttindi hverju nafni sem nefnast tengd [...] ganga til [...] ehf. Í framhaldi af þessu var [...] ehf. skipt upp og [...] ehf. eignaðist réttindi sem [...] ehf. hafði átt. Hluthafar [...] ehf. fengu í staðin hluti í [...] ehf. sem skiptust að jöfnu á milli málsaðila þannig að hvort um sig var skráð fyrir hlutum að nafnvirði 248.048.449 krónur eða sem svaraði til 24,57726% í [...] ehf. Við endurskipulagninguna eignuðust lánardrottnar [...] ehf. enn fremur hlut í félaginu.
Með samningi dags. 31. ágúst 2011 seldu málsaðilar [...] ehf. alla hluti sína í [...] ehf. en um var að ræða samtals 463.189.135 hluti sem svöruðu til 41,71% alls hlutafjár í félaginu. Af því voru hlutir varnaraðila taldir 231.562.348 en hlutir sóknaraðila 231.662.787. Samningurinn fól í sér kvöð um endurfjárfestingu í félaginu [...] ehf. Keypti varnaraðili hluti fyrir 1.811.083 USD en sóknaraðili fyrir 2.269.002 USD. Sama dag og aðilar seldu hlutina í [...] ehf. gerði sóknaraðili ráðningarsamning við félagið. Er ábyrgð hans og hlutverk skilgreint í samningnum. Ráðningin var tímabundin og óuppsegjanleg til þriggja ára. Eftir það tímamark gat hvor aðili sagt samningnum upp með sex mánaða fyrirvara.
Samhliða sölunni til [...] ehf. gerði [...] ehf. og [...] ehf. með sér samning (e. royalty agreement) hvað varðar hugverkið [...]. Þar kom m.a. fram að [...] ehf. og sóknaraðili hefðu afsalað sér öllum réttindum sjónvarpsþáttana um [...] til [...] ehf. með samningi frá 14. maí 2010. Þá samþykkti [...] ehf. að greiða [...] ehf. vegna notkunar hugverksins. Voru greiðslurnar ákveðnar með hliðsjón af veltu og markaður tími. Tengt sama samningi (e. royalty agreement) lýsti sóknaraðili því yfir í sérstakri yfirlýsingu (e:declaration) í sínu nafni og fyrir hönd [...] ehf. að hann hefði afsalað öllum hugverkarétti tengdum [...] til [...] ehf. 14. maí 2010. Innifalið í því væri hugverkaréttur í eigu [...] ehf. sem væri alfarið í eigu sóknaraðila og varnaraðila.
Í málinu er að finna fjölda gagna tengd rekstri [...] ehf. og þá hafa komið fyrir dóminn vitni sem komu að málefnum félagins og gert grein fyrir rekstri þess og vinnu aðila fyrir félagið. Af þessum gögnum og framburði verður ráðið að aðilar hafi báðir komið að rekstri og stjórn félagsins. Þá voru þau bæði launþegar hjá félaginu. Varnaraðili lét hins vegar af daglegum störfum fyrir félagið 2008 en sat áfram í stjórn þess. Þá hefur komið fram að varnaraðili hafi á upphafsárum félagsins aðstoðað sóknaraðila við uppbygginu þess án þess að þiggja laun fyrir. Fékk hún fyrst laun fyrir störf sín árið 1999 er gerður var við hana skriflegur ráðningarsamningur.
Málsaðilar töldu saman til skatts öll sambúðarár sín, að undandskildum tveimur árum. Samkvæmt skattframtölum var sóknaraðili með margfalt hærri launatekjur en varnaraðili en eins og áður var rakið var hún í skóla fyrstu sambúðarár þeirra og hún aðstoðaði sóknaraðila við rekstur fyrirtækja hans án þess að þiggja laun fyrir. Eins og áður var getið lét hún af daglegum störfum fyrir [...] ehf. 2008, þ.e. fimm árum áður en sambúðinni lauk. Enn fremur er óumdeilt að ábyrgð á heimilishaldi hafi svo til alfarið hvílt á herðum varnaraðila.
Varnaraðili stofnaði einkahlutafélagið [...] ehf. í ársbyrjun 2012. Samkvæmt gögnum málsins keypti félagið í lok árs 2011 skemmu við [...] í [...], þar sem geymdir eru bílar o.fl. í eigu aðila og [...] ehf. Á sama tíma keypti sóknaraðili lausafé og leikmuni sem voru í skemmunni sem hún seldi strax til [...] ehf.
Á aðila er skráður fjöldi bifreiða. Þannig er sóknaraðili skráður fyrir fjórum bifreiðum en varnaraðili níu. Enn fremur eru bifreiðar skráðar á [...] ehf. Þá eru skráð á aðila bátar, bifhjól o.fl.
Í málinu er að finna óundirrituð skjöl þar sem að meginstefnu til er gengið út frá því að við sambúðarslit skuli eignir aðila skiptast til helminga.
III
Málsástæður sóknaraðila
Af hálfu sóknaraðila er vísað til þess að sambúð aðila hafi varað í 24 ár. Þau hafi verið með sameiginlegan fjárhag og talið fram sameiginlega til skatts. Verkaskipting milli þeirra hafi verið skýr. Sóknaraðili hafi aflað 70-80% tekna heimilisins, með því að vinna langa vinnudaga, framkvæma, sjá um öll kaup og sölur og skapa. Varnaraðili hafi séð um heimilið, öll fjármál, bókhald, skjalagerð og skjalavörslu. Varnaraðili hafi annast um skráningar eigna en sóknaraðili hafi ekki komið að slíku. Þau hafi verið trúlofuð og átt tvö börn saman, og hafi verið skráð með sameiginlegt lögheimili allan tímann.
Sóknaraðili byggir á því að hann hafi staðið undir meginþunga þeirrar eignamyndunar sem orðið hafi til á sambúðartíma málsaðila. Hann hafi í lok sambúðar gert varnaraðila munnlegt tilboð um að skipta öllum eignum, sem hefðu orðið til í sambúðinni, að jöfnu þeirra í milli, án tillits til þess hvernig einstakar eignir væru skráðar. Þessu hafi varnaraðili ítrekað hafnað og telur sóknaraðili að hún ætli að hagnýta sér skráningu eigna, sem henni hafi verið treyst fyrir, í þeirri viðleitni að knýja í gegn skiptingu sem aldrei fái staðist. Við lok sambúðar hafi þannig mikill meirihluti eigna, sem sé að langmestu leyti afrakstur tekjuöflunar sóknaraðila, verið skráður á varnaraðila. Ástæða þess fyrirkomulags á skráningu hafi verið sú í byrjun sambúðar að sóknaraðili átti barn frá því áður en málsaðilar kynntust. Hafi varnaraðili því haft miklar áhyggjur að móðir barnsins myndi, fyrir hönd barnsins, gera kröfur á þau ef sóknaraðili félli snemma frá.
Sóknaraðili telur að það blasi við að á löngum sambúðartíma hafi verið náin fjárhagsleg samstaða með aðilum, fullkomlega hliðstæð því að um hjúskap hafi verið að ræða. Líta verði á málið heildstætt og í því sambandi sé nærtækt, vegna mjög langs sambúðartíma og sameiginlegrar eignamyndunar, að horfa til helmingaskiptareglna hjúskaparlaga nr. 31/1993
Sóknaraðili byggir á því að sambúðarslit hafi orðið um mitt ár 2013. Því til sönnunar vísar hann m.a. til þess að hann hafi gert húsaleigusamning 18. júlí 2013, þar sem hann hafi tekið á leigu hús í [...]
Sóknaraðili bendir á að hvorugur aðila hafi átt umtalsverðar eignir þegar sambúð hófst. Þá hafi sóknaraðili við upphaf sambúðar verið í tveimur vinnum sem [...] og [...] á kvöldin en varnaraðili í skóla. Nærfellt allar eignir aðila hafi orðið til á sambúðartímabilinu. Frá upphafi skráðrar sambúðar hafi málsaðilar kosið að telja sameiginlega fram eignir og tekjur til skatts. Hafi þau talið sameiginlega fram 22 sinnum á 24 ára sambúðartíma. Varnaraðili hafi annast samskipti sambúðaraðila við skattyfirvöld. Þá hafi hún lagt til skattkort sitt eftir að hún lét af daglegum störfum fyrir [...] ehf., þannig að persónuafsláttur hennar nýttist í launauppgjöri sóknaraðila.
Sóknaraðili vísar til þess að á sambúðartímanum hafi verkaskipting þeirra í milli verið sú að sóknaraðili aflaði meginhluta teknanna en varnaraðili annaðist fjárreiður heimilisins, alla fjármálaumsýslu, skjalagerð og skjalafrágang og naut til þess fyllsta trausts sóknaraðila. Hafi sóknaraðili litið svo á að með þeim væri sameiginlegt fjárfélag þannig að eignamyndun í sambúðinni skiptist að jöfnu, ef til sambúðarslita kæmi og hafi sá skilningur raunar verið festur í samning þeirra í milli. Við sambúðarslit hafi sóknaraðili goldið þess að hafa ekki aðgang að gögnum um fjármál sambúðaraðilanna sem varnaraðili hefur að stærstum hluta varðveitt vegna þeirrar verkaskiptingar sem að framan er rakin. Þannig hafi sóknaraðila reynst ókleift að leggja fram undirritað eintak samnings um jöfn eignaskipti í tilviki sambúðarslita, sem málsaðilar hafi gert með sér 10. nóvember 1999. Samningurinn hafi verið gerður að fyrirlagi beggja málsaðila af lögmanni. Sé undirbúningur samnings þessa og gerð hans því til staðfestu að málsaðilar miðuðu við að með þeim væri helmingaskiptafélag.
Sóknaraðili vísar til þess að aðilar hafi haft sameiginleg not af bankareikningi. Þá hafi varnaraðili annast fjárreiður málsaðila, m.a. annast nánast allar greiðslur af hinum sameiginlega bankareikningi. Útgjöld heimilis málsaðila hafi verið greidd af þessum reikningi og inn á hann hafi gengið tekjur aðila.
Sóknaraðili vísar til þess að samkvæmt skattframtölum málsaðila hafi launatekjur hans á tímabilinu 1988 til 2012 verið þrefalt hærri en varnaraðila. Þá hafi hann til viðbótar haft tekjur af sjálfstæðri atvinnustarfsemi. Árið 2000 hafi hann stofnað ásamt varnaraðila félagið [...] ehf. sem hafi haft það hlutverk eitt að vera lagaleg umgjörð um viðtöku tekna af atvinnustarfsemi sóknaraðila og greiða gjöld sem þeirri starfsemi tilheyrðu. Forsenda sóknaraðila á eignarhaldi hennar að félaginu sé sambúð aðila og það helmingaskiptafélag um eignir sem sóknaraðili hafi alla tíð gengið út frá kæmi til sambúðarslita aðila. Tekjur þess félags á tímabilinu 2000 til 2012 hafi numið 178 milljónum króna en hagnaður 75,6 milljónum króna. Telur sóknaraðili að sé miðað við brúttótekjur sem hann hafi skapað í formi launa og framangreindra tekna af atvinnustarfsemi hafi hann lagt til 86% af samanlögðum tekjum málsaðila.
Sóknaraðili vísar til þess að tekjur hans stafi af þrotlausri vinnu í þágu heimilisins allan sambúðartímann, störfum fyrir [...], fyrirlestrahaldi, vinnu sem l[...], íþróttamaður, skemmtikraftur o.fl. Hann hafi starfað sem [...] frá 17 ára aldri og þar til [...] ehf. hafi verið stofnaður 1996. Að íbúðarhúsinu frátöldu stafi eignamyndun í sambúð málsaðila nærfellt einvörðungu af verðmætum sem orðið hafa til fyrir sköpun sóknaraðila á hugverkinu [...], sem og þrotlausa vinnu hans um margra ára skeið hvað vöxt og viðgang þess hugverks varðar.
Sóknaraðili kveðst ekki vefengja að varnaraðili hafi unnið margháttuð störf sem miðuðu að því að treysta tekjuöflun heimilisins áður en hún hóf að marki störf utan heimilis. Síðar hafi hún unnið launað starf hjá [...] ehf., m.a. sem skrifstofustjóri, og séð um dagleg fjármál félagsins þar til umsvif þess jukust að marki á árinu 2005 og annar hafi tekið við því hlutverki. Sóknaraðila sé ekki kunnugt um að varnaraðili hafi gegnt ólaunuðum störfum fyrir félagið ef frá er talin eðlileg aðstoð maka við innheimtur og umsýslu á frumbýlisárum félagsins. Hitt standi óhaggað að varnaraðili hafi ekkert lagt til hugmyndavinnu í þágu [...]; það sköpunarverk sé í grunninn sóknaraðila. Að mati sóknaraðila ofmetur varnaraðili verulega hlut sinn í rekstri [...] ehf. á árunum 1999 til 2008 þegar hún gegndi þar launuðu starfi.
Sóknaraðili byggir kröfu sína um jafna skiptingu eigna, þ.m.t. þeirra sem stafa af söluverðmæti hluta í [...] ehf., sem skráðir voru á varnaraðila, til [...] ehf. í fyrsta lagi á því, sem að framan sé rakið, að skráningu aðila á eignum hafi þau að engu haft innbyrðis í sambúðinni, enda fullkomin fjármálaleg samstaða með þeim í 24 ár. Í öðru lagi sé ljóst, líkt og að framan greini, að umræddir hlutir, og verðmæti þeirra, hafi alfarið verið frá sóknaraðila komnir og varnaraðili hafi ekki greitt fyrir þá, hvorki sannvirði né aðra fjárhæð. Af þeim ástæðum sé annað ótækt en fallast á kröfu sóknaraðila um að þessum eignum, sem öðrum, beri að skipta að jöfnu. Fráleitt sé, að varnaraðili fái að velja úr þær eignir úr búinu sem henni henti, og að þær skuli renna óskipt til hennar. Sóknaraðili vísar í þessu samhengi til þess að aðilar hafi staðið saman að sölunni til [...] ehf. en af markaðsástæðum hafi ekki þótt heppilegt að sóknaraðili seldi sína hluti enda persóna hans samgróin ímynd [...] ehf.
Hvað varðar kröfu sóknaraðila um að það sem eftir lifir af hugverkaréttindagreiðslum til framtíðar, frá sambúðarslitum að telja, vegna [...], skuli falla honum í skaut sem hans séreign, þá vísar sóknaraðili til þess að höfundarréttur, og tekjur af honum séu réttindi persónulegs eðlis, og lúti öðrum lögmálum en aðrar eignir, að rétt sé að höfundurinn, sem óumdeilt sé að er sóknaraðili, njóti þess litla sem eftir lifir af greiðslum vegna hans til framtíðar. Vísar sóknaraðili til grunnraka þeirra sem fram koma í 30. gr. höfundalaga nr. 73/1972 og 3. tl. 1. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993.
Málsástæður varnaraðila
Af hálfu varnaraðila er á því byggt að í samræmi við dómaframkvæmd Hæstaréttar skuli við fjárslit við lok óvígðrar sambúðar líta svo á að hvorum aðila tilheyri sínar eignir og komi þær ekki til skipta. Því taki hvort þeirra þær eignir, sem tilheyrðu því við upphaf sambúðar eða það eignaðist meðan á sambúðinni stóð. Hafi Hæstiréttur sagt, að eftir almennum reglum fjármunaréttar gildi sú meginregla við fjárslit að opinberlega skráð eignarheimild veiti líkindi fyrir eignarrétti. Þess vegna verði sá sem haldi því fram að í slíkri heimild felist ekki réttar upplýsingar um eignarrétt, að bera sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu.
Varnaraðili vísar til þess að allan sambúðartíma aðila hafi eignir verið skráðar á nafn sóknaraðila og varnaraðila. Aðeins einu sinni hafi aðilar verið skráðir sameigendur í tilteknum hundraðshlutum að [....], [...]. Aðilar séu og hafi verið skráðir fyrir ýmiss konar ökutækjum og eins hafi ökutæki verið skráð á [...] ehf. Verðbréf og bankainnistæður hafa verið skráð á nöfn og aðilar notað einn bankareikning saman til heimilishalds. Eignaheimildir aðila að framangreindum eignum séu og hafi því ávallt verið skýrar.
Varnaraðili bendir á að eignirnar hafi orðið til fyrir vinnu þeirra beggja, en að mestu fjármuni þriðja manns. Vinna varnaraðila hafi, frá árinu 1997, snúist um að gera [...] ehf. mögulegt að afla fjár til rekstrarins í gegnum fleiri en eina fjárhagslega endurskipulagningu, samtímis því að tryggja hagsmuni sóknaraðila og varnaraðila. Afrakstur þeirrar vinnu hafi skilað sér til [...] ehf., [...] ehf. og [...] ehf. og að lokum í hlutum í [...] ehf. Sóknaraðila hafi ekki tekist að sanna að við fjárslit aðila vegna loka á óvígðri sambúð þeirra skuli vikið frá þeirri meginreglu að hvor aðili taki það sem hann átti eða eignaðist á sambúðartímanum. Ekkert fjárfélag um eignir hafi myndast með aðilum á sambúðartíma þeirra. Sóknaraðili eigi sína bíla og hluti [...] ehf. og [....] ehf. Sóknaraðili eigi hins vegar ekkert í [...] ehf., enda sé félagið og eignir þess keypt fyrir söluverð hluta varnaraðila í [...] ehf. árið 2007. Þá hafi sóknaraðili ákveðið að fjárfesta frekar í [...] ehf. og slá til þess lán í nafni [...] ehf. félags sem hann átti einn. Varnaraðili geti ekki að lögum borið neina ábyrgð á þeirri ráðstöfun sóknaraðila og því að hún fór í vaskinn. Það tjón verður sóknaraðili einn að bera. Sóknaraðili hafi ekki lagt á sambúðartímanum neitt meira af mörkum en varnaraðili við sköpun [...] ehf. og þess sem félagið framleiddi. Það að varnaraðili hafi unnið án launa fyrir sóknaraðila persónulega og í [...] ehf. í 10 ár skapi sóknaraðila ekki meiri rétt við fjárslitin. Sóknaraðili hafi ekki sannað að hann hafi lagt meira af mörkum í sambúð þeirra en varnaraðili, sem réttlætt gæti að vikið væri frá þeirri grunnreglu fjárslita vegna sambúðarslita að hvor sambúðaraðili taki það sem honum tilheyrir. Sóknaraðili hafi ekki gengið með börn þeirra og ekki komið sérlega mikið að uppeldi þeirra. Það hafi verið hlutverk varnaraðila. Telur varnaraðili að það væri einkennilegt jafnræði, ef sá aðili sem sinnt hefði fjölskyldunni og hefði af þeim sökum haft lægri launatekjur ætti að þurfa að láta af hendi hluta eigna við sambúðaslit vegna þess að eignir sambýlings hafi að hluta til farið forgörðum þegar hann hafi ætlaði að taka aukna áhættu með nýjum fjárfestum.
Varnaraðili kveðst ekki vefengja að sóknaraðili hafi stofnaði [...] ehf. 1996. Varnaraðili hafi þá verið með ungt barna þeirra heima og hafi sóknaraðili því ráðið aðstoðarkonu til starfa um sex mánaða skeið hjá félaginu. Þegar aðstoðarkonan hafi látið af störfum hafi varnaraðili orðið að taka við og vinna þá vinnu sem hafi þurfti til að koma sóknaraðila á framfæri og tryggja að hann fengi greitt, auk þess að vera aðstoðarmaður hans þegar hann kom fram. Hafi varnaraðili verið án launa fyrst um sinn. [...] ehf. hafi síðan gert skriflegan ráðningarsamning við hana 17. maí 1999 en í samningnum sé tekið fram að varnaraðili hafi hafið fullt starf hjá félaginu 1997. Samningurinn átti að gilda frá 1997, nema launaliður hans sem hafi tekið gildi við undirritun. Launagreiðslur til varnaraðila samkvæmt samningnum hafi verið hinar fyrstu eftir liðlega 10 ára starf, fyrst í þágu sóknaraðila persónulega og síðan [...] ehf. frá 1997.
Varnaraðili vísar til þess að launagreiðslur félagsins til hennar hafi runnið inn á sameiginlegan bankareikning aðila. Þetta sé væntanlega byggt á þeirri hugmyndafræði, sem sóknaraðili haldi þar fram, að gilt hafi í sambúð þeirra, að laun frá [...] ehf. skyldu fara í rekstur heimilis aðila, tekjur af aukavinnu sóknaraðila hafi mátt fara í nr. 1, sparnað, ferðalög og fatakaup og nr. 2 bílakaup. Sóknaraðili hafi varið miklu fé til fatakaupa á sig. Á sóknaraðila séu og hafi ávallt verið skráðar bifreiðar, sem varnaraðili gerir ekkert tilkall til við skiptin. Varnaraðili byggir á því að hún hafi búið við sama frelsi og sóknaraðili um ráðstöfun annarra tekna sinna. Þar muni mest um tekjur af sölu hluta hennar í [...] ehf. 5. desember 2007 til [...] ehf. Við söluna hafi eignarhlutur varnaraðila í [...] hf. minnkað. Sóknaraðili hafi hins vegar haldið hlutum sínum í félaginu óskertum. Sóknaraðili vilji því nú fá hlutdeild í þeim verðmætum, sem varnaraðili hafi eignast fyrir andvirði þeirra hluta sinna í [...] ehf., sem hún seldi. Varnaraðili kveðst hafa notað fé það sem kom í hennar hlut við söluna m.a. til að stofna [...] ehf. og eigi sóknaraðili því engan rétt til helmings hlutafjár í [...] ehf. eða verðmæta sem það félag eigi.
Varnaraðili vísar til þess að á starfstíma sínum hjá [...] ehf. hafi hún verið ábyrg fyrir gerð allra samninga á vegum félagsins og ásamt sóknaraðila verið aðalframleiðandi alls sjónvarpsefnis um [...]. Telur varnaraðili að sóknaraðili geri lítið úr störfum hennar í þágu [...] ehf. Sóknaraðili geri sér sennilega ekki enn grein fyrir því hvað það skipti [...] ehf. og [...] ehf. miklu máli að varnaraðili hafi ávallt starfað að heilindum fyrir þessi félög og tryggt að ekki væru neinir lausir endar á samningum sem þau gerðu og aðilar áttu lengst af jafn stóra hluti í. Varnaraðili hafi verið kallaður til þegar gerðar voru áreiðanleikakannanir á [...] ehf. Þá verði að líta til þess að [...] sem hugverk hafi ekki verið sköpun sóknaraðila eins heldur fjölda einstaklinga.
Varnaraðili kveðst hafa, vegna erfiðleika í sambúð aðila, viljað slíta sambúðinni og losa sig við hlut sinn í [...] ehf. Hafi varnaraðili því samþykkt að selja hluta af hlutum sínum í félaginu til [...] ehf. árið 2007.Sóknaraðili hafi hins vegar ekki viljað selja sinn hlut. Hann hafi tekið lán í nafni einkahlutafélagsins [...] (þá [...] ehf.) hjá Sparisjóði Mýrasýslu að fjárhæð 200.000.000 króna í júní 2008. Til tryggingar réttum efndum hafi sóknaraðili fengið að láni hjá varnaraðila skuldaviðurkenningu að sömu fjárhæð sem kaupandi hlutabréfanna hafi gefið út til varnaraðila í tengslum við kaupin.
Varnaraðili vísar til þess að forsvarsmenn [...] ehf. hafi síðar talið sig hafa keypt köttinn í sekknum þegar þeir fjárfestu í [...] ehf. og krafist þess að sóknaraðili bætti þeim skaðann af fjárfestingunni, sem hafði falist í að kaupa upp hluti fyrri hluthafa, hluta af hlutum varnaraðila og leggja félaginu til nýtt fé. Varnaraðili hafi vitað af ágreiningnum. Þann 16. júní 2009 hafi sóknaraðili látið varnaraðila fá í hendur skjal þar sem hann hafi lofað að halda henni skaðlausri af hugsanlegum fjárkröfum kaupanda.
Varnaraðili bendir á að í tengslum við framangreinda sölu til [...] ehf. hafi endurskoðandi komist að þeirri niðurstöðu að varnaraðila hefði borið að greiða fjármagnstekjuskatt af 262.500.000 krónum strax við uppgjör tekna ársins 2007. Varnaraðili hafi því leitað leiðréttingar á skattaframtali þó að hún hefði þá verið búin að framselja [...] ehf. skuldabréfið, sem mikill vafi var auk þess um að greitt yrði vegna bágrar fjárhagsstöðu [...]. Hvorki sóknaraðili sjálfur né [...] ehf. hafi greitt varnaraðila einn eyri fyrir skuldabréfið á hendur [...]. Telur varnaraðili að komi til álita að víkja frá dómaframkvæmd Hæstaréttar verði að líta svo á að sóknaraðili hafi þegar fengið 200.000.000 króna í hendur og skuldi varnaraðila að auki 20.000.000 króna auk dráttarvaxta vegna þess fjármagnstekjuskatts sem hún varð að greiða 4. október 2010. Enn fremur vísar varnaraðili til þess að með samningi dagsettum 23. júní 2010 hafi bótakrafa [...] á hendur sóknaraðila verið færð niður í 3% en af fyrirliggjandi samningum megi ráða að það hafi getað verið á ábyrgð sóknaraðila eða varnaraðila að afhenda [...] 3% í [...] ehf. Milli aðila hafi skyldan þó öll hvílt á sóknaraðila vegna skaðleysisyfirlýsingar sóknaraðila gagnvart varnaraðila frá 16. júní 2009.
Varnaraðili mótmælir þeirri staðhæfingu sóknaraðila að sambúðarslit aðila hafi orðið í lok júní/byrjun júlí 2013. Varnaraðili kannast við að hafa rekið sóknaraðila af sameiginlegu heimili vegna trúnaðarbrots hans. Hins vegar liggi fyrir að aðilar hafi tekið upp sambúð að nýju en sóknaraðili hafi ítrekað dvalið að [...] haustið 2013. Þá liggi fyrir að sóknaraðili hafi haustið 2013 viljað kveða niður orðróm um að snurða hefði hlaupið þráðinn í sambúð aðila, sbr. samskipti aðila við nafngreint tímarit. Telur varnaraðili að miða beri sambúðarslit við lok árs 2013.
Hvað varðar kröfu sóknaraðila um að til séreignar hans við fjárslit aðila skuli vera tekjur sem falla til eftir sambúðarslit á grundvelli höfundarréttarsamnings sem dagsettur er 31. ágúst 2011 þá vísar varnaraðili til þess að aðilar hafi stofnað [...] ehf. saman. Félagið sé rétthafi greiðslna samkvæmt ,,Royalty Agreement“ við [...] ehf. 31. ágúst 2011. Krafa sóknaraðila um að hann eignist við fjárslit milli aðila tekjur, sem falla til á grundvelli höfundarréttarsamnings dags. 31. ágúst 2011, verði ekki tekin til umfjöllunar og úrlausnar í máli þessu. Aðilar samningsins séu tvö einkahlutafélög, [...] og [...]. Ber því þegar af þeirri ástæðu að sýkna varnaraðila af kröfu þessari vegna aðildarskorts sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Þá telur varnaraðili að sóknaraðili geti hvorki byggt kröfur um að þóknanatekjur samkvæmt höfundarréttarsamningi frá 31. ágúst 2011 eigi til frambúðar að vera séreign hans á 30. gr. höfundalaga nr. 73/1972 né 3. töluliðar 1. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Varnaraðili vísar til sömu sjónarmiða vegna kröfu sóknaraðila um hvað varðar samning við [...] frá árinu 2004. Telur varnaraðili að allur réttur samkvæmt þessum samningi liggi annaðhvort hjá [...] ehf. eða hjá [...] ehf. og því verði að sýkna varnaraðila af þessari kröfu.
Varnaraðili byggir kröfu sína um að sóknaraðili og lögmaður hans verði sektaðir fyrir ósæmileg ummæli og aðdróttanir í garð varnaraðila á e-lið 1. mgr. og 2. mgr. 135. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Í greinargerð sóknaraðila sé ýjað að því á bls. 3, að krafa varnaraðila um að hvor aðili haldi því sem hann er skráður fyrir byggi á því einu að varnaraðili sé að reyna að hagnýta sér skráningu eigna, ,,sem henni var treyst fyrir í þeirri viðleitni að knýja í gegn skiptingu sem aldrei getur fengist staðist“. Síðar á sömu blaðsíðu segi um varnaraðila: ,,Má ætla að varnaraðili hafi í reynd haft sjúklega áráttu í þá veru að skrá eignir á sig en ekki sóknaraðila.“ Á bls. 5 segi svo ,,Er ljóst að varnaraðili bjó svo um hnúta að eintök yrðu ekki varðveitt t.t. hjá lögmanni þeirra, [...] hdl. Hefur nú komið í ljós hvers vegna það var, þ.e. ef til sambúðarslita kæmi væri hún með skjölin undir höndum. Sóknaraðila hefur því reynst ókleift að leggja fram undirritað einstak samnings um jöfn eignaskipti í tilviki sambúðarslita, sem málsaðilar gerðu með sér 10. nóvember 1999, en varnaraðili synjar nú um tilvist á.“ Varnaraðili telur að ummælin feli bæði í sér aðdróttun um refsiverða háttsemi varnaraðila sbr. 2. mgr. 162. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og að varnaraðili sé sjúkur sem felur í sér brot gegn 235. gr. sömu laga. Undirritað skjal um helmingaskipti milli sóknaraðila og varnaraðila við sambúðarslit sé ekki til og hafi aldrei verið til. Sóknaraðili og lögmaður hans láta ekki við það sitja að ráðast að æru varnaraðila í upphafi greinargerðarinnar, heldur sé vegið í sama knérunn í X. kafla hennar, sem beri heitið ,,Fáein orð um trúverðugleika varnaraðila“. Í kafla þessum sé varnaraðili enn og aftur sakaður um margháttuð lögbrot og reynt að draga upp þá mynd af henni að hún sé óheiðarlegur og ótrúverðugur einstaklingur. Þannig sé varnaraðila borið á brýn að hafa staðið fyrir eyðileggingu eða undanskoti sönnunargagna til þess að halla eða fyrirgera rétti sóknaraðila. Þá sé því haldið fram að varnaraðili hafi tæmt bankareikninga í heimildarleysi.
IV
Niðurstaða:
Í máli þessu sem rekið er fyrir dóminum í tengslum við fjárslit milli málsaðila vegna sambúðarslita þeirra er ágreiningur um viðmiðunardag skipta, kröfu sóknaraðila um helmingaskipti eigna aðila og höfundarréttartekjur. Varnaraðili mótmælir kröfu sóknaraðila um helmingaskipti og byggir á því að hvor aðili um sig eigi að halda þeim eignum sem viðkomandi hafi verið skráður fyrir við upphaf skiptameðferðar. Verði fallist á kröfur sóknaraðila hefur varnaraðili upp sjálfstæðar kröfur í málinu er varða m.a. sölu á hlutum hennar í sameiginlegu einkahlutafélagið aðila í lok árs 2007.
Hvað varðar viðmiðunardag skipta þá er til þess að líta að samkvæmt gögnum málsins bað varnaraðili sóknaraðila um að flytja út af sameiginlegu heimili aðila að [...], [...], hinn 8. júlí 2013 og skipti sama dag um skrá á útidyrahurð fasteignarinnar. Tók sóknaraðili á leigu hús í [...] 18. sama mánaðar. Þótt sóknaraðili hafi eftir það dvalið að [...] um skemmri tíma og gefið varnaraðila til kynna að hann vildi endurvekja sambúðina, þá leiðir það ekki til þess að líta megi svo á að aðilar hafi tekið upp sambúð að nýju. Verður því að miða við að sambúð aðila hafi lokið 8. júlí 2013.
Leysa verður úr ágreiningi máls þessa eftir þeim óskráðu reglum sem gilda um slit sambúðar og Hæstiréttur hefur staðfest í dómaframkvæmd sinni. Hefur rétturinn á undaförnum árum ítrekað sagt að á grundvelli dómvenju hafi skapast sú regla að við slit sambúðar beri að líta á sambúðarfólk sem tvo sjálfstæða einstaklinga og sú meginregla gildi þá að hvor aðili taki sínar eignir og beri ábyrgð á sínum skuldum. Opinber skráning eigna og þinglýstar eignarheimildir verði lagðar til grundvallar um eignarráðin. Þrátt fyrir framangreint hefur í dómaframkvæmd Hæstaréttar verið viðurkennt að sambúðarmaki geti átt tilkall til hlutdeildar í eignum hins, hvernig sem háttað er skráningu og þinglýsingu eignarheimilda, sýni sá sambúðarmaki fram á að eignamyndun hafi orðið á sambúðartíma þegar báðir aðilar hafi lagt sitt af mörkum. Er þannig litið fram hjá nafnskráningu eigna til þess að komast að sanngjarni niðurstöðu um skiptingu þeirra. Í þeim efnum verður m.a. að taka tillit til lengdar sambúðar, fjárhagslegrar samstöðu aðila, sameiginlegra nota af eign og til tekna aðila. Í samræmi við þetta hvílir á sóknaraðila sönnunarbyrði fyrir því að hann hafi innt af hendi bein og óbein framlög til eignamyndunar á sambúðartímanum og er sönnun í þeim efnum forsenda þess að fallist verði á kröfu hans um að skipta beri þeim eignum sem skráðar eru á nafn varnaraðila til jafns milli aðila.
Sambúð aðila stóð í 24 ár og eignuðust þau tvö börn á sambúðartímanum. Héldu þau sameiginlegt heimili allan tímann. Þau nýttu heimild sína til að telja fram saman til skatts öll árin að undaskildum tveimur skiptum. Sóknaraðili vann utan heimilisins allan tímann og voru launatekjur hans margfalt hærri en varnaraðila á sambúðartímanum. Í upphafi sambúðar þeirra vann varnaraðili fyrir sóknaraðila í tengslum við fyrirtækjarekstur hans án þess að þiggja laun fyrir. Varnaraðili var í námi fyrstu sambúðarárin, og tekjulaus, en starfaði utan heimilis eftir það, m.a. í fyrirtækinu [...] ehf. sem aðilar áttu jafna hluti í mestan sambúðartímann. Óumdeilt er að hún bar hitann og þungann af heimilishaldi og sá um fjármál aðila. Á árinu 2008 lét hún af störfum sem launþegi í [...] ehf. en sat áfram í stjórn félagsins. Eftir að hún lét af daglegum störfum fyrir [...] ehf. var persónuafsláttur hennar notaður í launauppgjöri sóknaraðila til skattyfirvalda allt þar til aðilar slitu sambúð. Auk launatekna fengu aðilar fjármagnstekjur, m.a. arðgreiðslur frá einkahlutafélaginu [...] ehf. sem þau áttu saman. Óumdeilt er að til félagsins runnu tekjur sóknaraðila, aðrar en launatekjur og tekjur af nytjaleyfissamningi vegna hugverksins [...]. Aðilar voru með sameiginlegan bankareikning sem laun þeirra voru lögð inn á og var reikningurinn notaður til reksturs heimilisins.
Í málavaxtakafla er að finna umfjöllun um helstu eignir aðila sem urðu til á sambúðartímanum. Aðilar áttu litlar eignir er sambúðin hófst en umtalsverðar eignir er henni lauk og er varnaraðili skráð fyrir meirihluta eignanna. Þeirri staðhæfingu sóknaraðila að verðmæti eignanna hafi numið [...] milljónum króna við sambúðarslitin, og að varnaraðili hafi verið skráð fyrir um 75% eignanna, hefur ekki verið mótmælt af hálfu varnaraðila. Það er því dómsins að meta, í samræmi við þau viðmið sem sett hafa verið fram í dómaframkvæmd, hvort sanngjarnt sé að sóknaraðili fái í sinn hlut um 25% eignanna en varnaraðili um 75% eignanna þegar horft er til þess sem aðilar lögðu að mörkum í eignamyndun á sambúðartímanum.
Sóknaraðili átt í upphafi sambúðarinnar bifreið en varnaraðili var ekki skráð fyrir neinum eignum. Á framtali 1991 er varnaraðili skráð sem eigandi verðbréfa að fjárhæð 700.000 krónur. Hefur varnaraðili vísað til þess að ættingi hafi gefið henni bréfin til að nýta í fasteignakaupum en árið 1991 keyptu aðilar fasteignina [...], [...], sem er einbýlishús. Var sóknaraðili skráður fyrir 30% en varnaraðili fyrir 70% eignarhluta fasteignarinnar. Kaupverð fasteignarinnar var 6.600.000 krónur og voru 2.635.000 krónur greiddar út í peningum en 3.965.000 greiddar með fasteignaveðbréfi. Húsið var óíbúðarhæft er aðilar festu kaup á því og tók nokkur ár að gera það upp. Þótt aðilar deili um hve mikið af mörkum þau hafi lagt til kaupa og uppbyggingar fasteignarinnar er óumdeilt að sóknaraðili, sem er menntaður [...], vann í félagi við aðra að því að endurbyggja húsið. Samkvæmt fyrirliggjandi kaupsamningi frá 14. október 1994 seldi sóknaraðili varnaraðila sinn hluta í fasteigninni og hefur eignin alfarið verið skráð á varnaraðila síðan. Umsamið kaupverð, 464.058 krónur, er sagt greitt að fullu en engin gögn liggja fyrir því til staðfestingar. Ekki fór fram skuldskeyting vegna áhvílandi lána við Íbúðarlánasjóð, sem þau voru bæði skráð fyrir, og var sameiginlegur bankareikningur aðila notaður til að greiða afborganir af lánum sem hvíldu á fasteigninni þar til þau voru greidd upp 17. október 2008. Aðilar skráðu lögheimili sitt að [...] hinn 1. nóvember 1992 en gögn málsins gefa til kynna að þau hafi flutt þangað síðar. Bjuggu þar saman þar til sambúðinni lauk 2013. Með hliðsjón af framangreindu, og því að varnaraðili var tekjulaus fyrstu sambúðarárin, verður því ekki annað ráðið en að sóknaraðili hafi lagt töluvert af mörkum til fjármögnunar og uppbyggingar fasteignarinnar þrátt fyrir að hún hafi verið skráð að mestu og síðan að öllu á varnaraðila eina. Ekki liggur fyrir mat á verðmæti fasteignarinnar í dag en skv. skattframtali 2013 var fasteignamat hennar 56.800.000 krónur. Að mati dómsins hefur sóknaraðila þannig tekist að sýna fram á að hann hafi lagt umtalsvert af mörkum í eignamyndun aðila á sambúðartímanum hvað umrædda fasteign varðar.
Eins og fram kemur í málavaxtakafla áttu aðilar lengst af saman einkahlutafélagið [...] ehf. sem sóknaraðili stofnaði 1996 en rekstur þess snerist um hugverk sóknaraðila, [...]. Með árunum óx rekstur félagsins ásmegin. Var fyrirtækið með fjölda manns í vinnu og á vegum þess voru framleiddir sjónvarpsþættir um [...] sem sýndir eru heima og erlendis. Er ekki óvarlegt að slá því föstu að eignir sem málsaðilar voru skráðir fyrir við lok sambúðarinnar, aðrar en fasteignin við [...], megi að mestu rekja til umrædds hugverks. Þannig fengu þau launatekjur frá [...]ehf. og nutu hagnaðs af sölu hluta í félaginu. Enn fremur fengu þau arð frá einkahlutafélaginu [...] ehf., sem þau áttu í sameiningu, en inn í það félag runnu m.a. tekjur af hugverkinu skv. samningi sóknaraðila við [...] ehf. frá 19. desember 1997 um notkun hugverksins. Hafði sóknaraðili með samningi dagsettum 1. janúar 2003 framselt [...] ehf., án endurgjalds allan rétt samkvæmt nytjaleyfissamningnum. Í tengslum við fjárhagslega skipulagningu [...] ehf. árið 2010 framseldi sóknaraðili og [...] ehf. [...] ehf. allan hugverka- og höfundarrétt sem tengdist hugverkinu [...] með framsalssamningi dagsettum 14. maí 2010. Hækkaði hlutafé í hinu síðarnefnda félagi vegna þess. Var því hlutafé skipt jafnt á milli aðila. Aðilar seldu [...] ehf. hluti sína í [...] ehf. árið 2011. Samhliða sölunni skuldbatt sóknaraðili sig til að starfa áfram í [...] ehf. í a.m.k. þrjú ár. Að mati dómsins er ótvírætt að sóknaraðili hefur, með hugverki sínu um [...] og starfa í þágu [...] ehf., lagt mjög mikið af mörkum í eignamyndun aðila á sambúðartímanum og er því ósanngjarnt að miða við að hann njóti minna en helmings þeirra eignamyndunar.
Þegar horft er til alls framangreinds er það mat dómsins að með sóknaraðila og varnaraðila hafi verið svo rík fjárhagsleg samstaða að líta verði á allar eigur þeirra, sem mynduðust allar á sambúðartímanum sem stóð í 24 ár, sem eina heild í sameign þeirra beggja. Ber því að fallast á kröfu sóknaraðila um að við skiptin með honum og varnaraðila verði miðað við að skipt verði að jöfnu þeim eignum sem aðilar áttu við sambúðarslit óháð því hvernig skráningu einstakra eigna er háttað.
Sóknaraðili gerir kröfu til þess að að „séreign“ hans skuli vera tekjur sem til falla eftir sambúðarslit, annars vegar á grundvelli höfundarréttarsamnings (e. royalty agreement), dags. 31. ágúst 2011 og hins vegar samnings við [...] um skiptingu tekna af tónlist frá árinu 2004. Skv. gögnum málsins verður ekki betur ráðið en að einkahlutafélagið [...] sé rétthafi umræddra tekna skv. samningum frá 31. ágúst 2011, en það félag er eins og áður greinir í eigu beggja málsaðila. Þá virðist sama félag hafa innheimt tekjur skv. samningum frá 2004. Sóknaraðili vísar kröfu sinni til stuðnings til grunnraka sem fram koma í 30. gr. höfundalaga nr. 73/1972 og 3. tl. 1. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Samkvæmt 30. gr. laga nr. 73/1972 skulu tekjur af höfundarrétti og endurgjald fyrir framsal hans verða hjúskapareign og þarf kaupmála til að kveða á um annan veg. Hvað sem líður forsendum til að beita þessum lagaákvæðum við fjárslit milli aðila þá er til þess að horfa að ekki verður séð að vilji sóknaraðila hafi staðið til þess að umæddar tekjur skyldu vera „séreign“ heldur þvert á móti samþykkti hann að þær rynnu inn í framangreint félag í eigu beggja málsaðila. Þá verður 3. tl. 1. mgr. 102. gr. laga nr. 31/1993 ekki heldur beitt í málinu, enda vísar ákvæðið til verðmæta sem ekki er hægt að afhenda eða eru persónulegs eðlis en það á ekki við um höfundarrétt.
Varnaraðili krefst þess að viðurkennt verði að sóknaraðili hafi þegar fengið greiddar 200.000.000 króna með skuldaviðurkenningu útgefinni af [...] ehf. til varnaraðila 5. desember 2007 að viðbættum vöxtum. Umrætt skuldabréf er tilkomið vegna sölu varnaraðila á hlutum af hlutum hennar í [...] ehf. til [...] ehf. árið 2007, þ.e. sex árum áður en sambúðarslit urðu. Skuldabréfið fékk sóknaraðili síðan afhent frá varnaraðila um mitt ár 2008 til að nota til tryggingar láni sem einkahlutafélag í eigu sóknaraðila tók fyrir 200.000.000 króna sem hann endurlánaði síðan [...] ehf. Af málatilbúnaði aðila má ráða að óumdeilt sé að bréfið sé verðlaust þar sem [...] ehf. hefur ekki fjárhagslega burði til að greiða það en gjalddagi lánsins er löngu liðinn. Er því óljóst hvaða tjóni varnaraðili hefur orðið fyrir vegna afhendingar skuldabréfsins til sóknaraðila. Með hliðsjón af framangreindu og því grundvallaratriði að með aðilum var full fjárhagsleg samstaða, sem leiðir til þess að allar eignir þeirra við sambúðarslitin eru metin sem ein heild í sameign þeirra beggja, standa ekki rök til að fallast á þessa kröfu varnaraðila.
Varnaraðili krefst þess að greiðslur sem sóknaraðili átti rétt á að fá á grundvelli þriggja samninga, um handritsvinnu, leikstjórn og leik við [...] ehf. frá 1. janúar 2012 komi til skipta að jöfnu með aðilum, ásamt 10% hlutdeild sóknaraðila í tekjum af tónlist [...] samkvæmt ódagsettum samningi við [...] frá árinu 2004 og ,,Royalty Agreement“ dagsettum 31. ágúst 2011 milli [...] ehf. og [...] ehf. Í málatilbúnaði varnaraðila er í engu vikið að samningunum frá 1. janúar 2012 og er því óljóst á hverju sú krafa byggist. Krafan er, hvað hina tvo samningana varðar, ekki studd neinum málsástæðum. Verður því að hafna kröfunni.
Varnaraðili krefst þess að sóknaraðili verði dæmdur til að greiða henni 20.000.000 króna vegna fjármagnstekjuskatts sem varnaraðili greiddi 4. október 2010 vegna sölu á hlutum í [...] ehf., ásamt dráttarvöxtum. Við opinber skipti, sem fara eftir ákvæðum XIV. kafla laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., verður krafa á slíkum grunni eingöngu höfð uppi sem endurgjaldskrafa, enda sé unnt að fá henni fullnægt eftir fyrirmælum 3. málsliðar 4. mgr. 109. gr. sömu laga eða samkomulagi aðila um annað. Varnaraðili hefur ekki borið upp kröfu sína í slíku horfi, heldur krefst hún þess að sóknaraðili verði skyldaður með dómi til að greiða sér tiltekna fjárhæð. Í máli, sem rekið er fyrir dómi eftir 5. þætti laga nr. 20/1991, verður slík krafa ekki gerð nema þannig standi á sem um ræðir í 2. mgr. 124. gr. sömu laga. Svo er ekki hér og verður því að vísa frá dóminum þessari kröfu varnaraðila, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 304/2014.
Varnaraðili krefst þess að sóknaraðili og lögmaður hans verði sektaðir fyrir ósæmileg ummæli og aðdróttanir í garð varnaraðila í greinargerð til dómsins. Við mat á þeirri kröfu er óhjákvæmilegt að horfa til þess að báðir aðilar ganga, í greinargerðum sínum mjög langt í ávirðingum hvor í annars garð. Verður ekki séð að sóknaraðili standi þar framar varnaraðila. Dómurinn fellst á það með varnaraðila að sú staðhæfing sóknaraðila að varnaraðili hafi haft „sjúklega áráttu“ í þá veru að skrá eignir á sig en ekki sóknaraðila, sé ósmekkleg og aðfinnsluverð. Hins vegar eru, með hliðsjón af öllum málavöxtum og því rúma tjáningarfrelsi sem lögmenn njóta þegar þeir tala máli umbjóðenda sinna og gæta hagsmuna þeirra fyrir dómi, ekki efni til að gera sóknaraðila eða lögmanni hans að greiða sekt vegna þessara ummæla eða annarra í málinu. Verður kröfu varnaraðila um réttarfarssekt því hafnað.
Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Vísað er frá dómi kröfu varnaraðila, K, um að sóknaraðili, M verði dæmdur til að greiða varnaraðila 20.000.000 króna vegna fjármagnstekjuskatts sem varnaraðili greiddi 4. október 2010 vegna sölu á hlutum í[...] ehf., ásamt dráttarvöxtum.
Fallist er á kröfu sóknaraðila um að við skipti til fjárslita við lok óvígðrar sambúðar með honum og varnaraðila verði miðað við að skipt verði að jöfnu þeim eignum sem aðilar áttu við sambúðarslit óháð því hvernig skráningu einstakra eigna er háttað, þó þannig að viðmiðunardagur sambúðarslita skal miðast við 8. júlí 2013.
Öðrum kröfum málsaðila er hafnað.
Málskostnaður fellur niður.