Hæstiréttur íslands

Mál nr. 80/2007


Lykilorð

  • Verksamningur
  • Uppgjör
  • Tómlæti
  • Gagnkrafa
  • Dráttarvextir


Fimmtudaginn 20

 

Fimmtudaginn 20. desember 2007.

Nr. 80/2007.

Arnarfell ehf.

(Erla S. Árnadóttir hrl.)

gegn

Íslenska gámafélaginu ehf.

(Þorsteinn Einarsson hrl.)

og gagnsök

 

Verksamningur. Uppgjör. Tómlæti. Gagnkröfur. Dráttarvextir.

G ehf. var undirverktaki A ehf. við hafnargerð í Reyðarfirði og krafðist greiðslu eftirstöðva verklauna samkvæmt nokkrum reikningum. Undir rekstri málsins fyrir Hæstarétti tók Í ehf. við aðild málsins af G ehf. A ehf. hélt því fram að Í ehf. ætti ekki kröfu um þóknun fyrir verkþætti sem A ehf. hafði þurft að taka yfir meðan á framkvæmdum stóð. Fallist var á niðurstöðu héraðsdóms um að A ehf. hefði orðið að láta við það sitja að krefjast greiðslu fyrir þessa verkþætti samkvæmt ákvæði í verksamningi þar sem mælt var fyrir um tímagjald fyrir þjónustu sem aðilar létu hvor öðrum í té við framkvæmd verksins. Hefði A ehf. ekki gert fullnægjandi grein fyrir kröfunni þannig að fallast mætti á að hún kæmi til skuldajafnaðar gegn kröfu Í ehf. Sýknukrafa A ehf. var ennfremur reist á bótaskyldu Í ehf. vegna tafa á framgangi verksins, vegna kostnaðar sem hlotist hefði af aðstoð við G ehf. út af óhappi á verktímanum og annarra atriða. Ekki var fallist á þessar málsástæður ýmist vegna tómlætis A ehf. eða vanreifunar. Þá var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að A ehf. hefði ekki haft heimild til að beita undirverktaka dagsektum og að hafna bæri kröfu félagsins sem á því væri reist. Í héraði var stefnukrafan lækkuð með hliðsjón af 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 og undi Í ehf. við þá niðurstöðu. Niðurstaða héraðsdóms, þar sem fallist var á kröfuna með þessari breytingu, var staðfest.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. febrúar 2007. Hann krefst sýknu af kröfu gagnáfrýjanda auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 20. apríl 2007. Hann krefst þess nú að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um annað en málskostnað. Krefst hann málskostnaðar í héraði að fjárhæð 3.795.035 krónur auk málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Íslenska gámafélagið ehf. hefur tekið yfir Gáma- og tækjaleigu Austurlands ehf. og breytist aðild málsins samsvarandi.

Gagnáfrýjandi tók að sér sem undirverktaki hjá aðaláfrýjanda tiltekna verkhluta í verki sem nefnt var „Stóriðjuhöfn við Mjóeyri“ og aðaláfrýjandi hafði tekið að sér með verksamningi við hafnarsjóð Fjarðabyggðar eftir útboð í apríl 2004. Skriflegur verksamningur málsaðila var gerður 1. nóvember 2004 en gagnáfrýjandi hafði þá þegar unnið við verkið um nokkurn tíma. Meginefni samnings þessa er lýst í héraðsdómi. Í málinu krefst gagnáfrýjandi greiðslu á eftirstöðvum þeirra reikninga sem hann gerði á hendur aðaláfrýjanda vegna verksins. Voru kröfur hans teknar til greina í héraði eftir að gerð hafði verið leiðrétting á einum reikninganna til lækkunar, án þess þó að aðaláfrýjandi hefði gert kröfu um hana. Unir gagnáfrýjandi þessari niðurstöðu en krefst hækkunar á málskostnaði sem honum var dæmdur í héraði.

Aðaláfrýjandi byggir sýknukröfu sína annars vegar á því að hann hafi sjálfur yfirtekið tiltekna verkþætti sem féllu undir verksamning aðila og gagnáfrýjandi gerði reikning fyrir. Hins vegar hefur hann haft uppi til skuldajafnaðar gegn kröfu gagnáfrýjanda skaðabótakröfu í fimm liðum sem hann telur sig eiga á hendur honum aðallega vegna tafa sem orðið hafi á því að gagnáfrýjandi lyki verki sínu. Gagnáfrýjandi hefur mótmælt þessari kröfu. Málavöxtum og ágreiningsefnum aðila  eru gerð greinargóð skil í hinum áfrýjaða dómi.

Í héraðsdómi er komist að þeirri niðurstöðu, að því er varðar þá verkhluta sem aðaláfrýjandi vann sjálfur í verkinu, að hann verði að láta við það sitja að krefja gagnáfrýjanda um greiðslu vegna þeirra á grundvelli 5. gr. verksamnings málsaðila. Þar var gert ráð fyrir að samningsaðilar kynnu að láta hvor öðrum í té þjónustu við framkvæmd verksins og mælt fyrir um tímagjald vegna slíkrar þjónustu, mismunandi eftir þjónustuliðum. Aðaláfrýjandi hefur ekki fært sönnur á að þetta ákvæði samningsins hafi verið bundið við smávægilega þjónustu og gildi ekki um þá verkþætti sem hann vann. Er með vísan til forsendna héraðsdóms fallist á að aðaláfrýjandi hafi ekki gert fullnægjandi grein fyrir kröfu af þessu tilefni á grundvelli 5. gr. verksamningsins, og sé því ekki unnt í þessu máli að taka til greina slíka kröfu til skuldajafnaðar gegn kröfu gagnáfrýjanda.

Fyrstu þrír liðir skaðabótakröfu aðaláfrýjanda byggjast á því að gagnáfrýjandi sé bótaskyldur honum vegna tafa sem orðið hafi á framgangi verksins og skilum þess. Gagnáfrýjandi mótmælir þessu og telur að tafir á skilum verksins megi rekja til magnaukningar og fleiri þátta sem hann beri ekki ábyrgð á. Í aðalverksamningi var kveðið á um að ljúka skyldi verkinu eigi síðar en 1. júlí 2005. Aðilar eru samála um að sá skiladagur hafi gilt í lögskiptum þeirra. Fyrir liggur að aðaláfrýjandi fékk hjá aðalverkkaupa framlengingu á skilatíma um fjórar vikur eða til 28. júlí 2005. Lauk verkinu síðan um mánaðarmót ágúst/september 2005 og mun lokaúttekt á því hafa farið fram í kjölfarið. Meðal gagna málsins eru tölvupóstsamskipti milli fyrirsvarsmanns aðaláfrýjanda og aðalverkkaupa í lok ágúst 2005 þar sem sá fyrrnefndi heldur því fram með margvíslegum rökum að verkkaupinn beri ábyrgð á töfum á skilum verksins. Liggur fyrir að aðaláfrýjandi þurfti ekki að svara til tafabóta gagnvart aðalverkkaupa.

Í 3. gr. verksamnings aðila segir að lögð sé rík áhersla á að haldið sé verkáætlun og brugðist við með öllum tiltækum ráðum til að vinna upp tíma sem kunni að tapast. Þessu til stuðnings verði haldnir verkfundir viku- eða hálfsmánaðarlega eftir atvikum milli aðalverktaka og undirverktaka. Skuli fundargerðir hvers fundar vera skriflegar og undirritaðar. Af göngum málsins og málflutningi aðila er ljóst að sérstakir verkfundir um verk gagnáfrýjanda samkvæmt samningnum við aðaláfrýjanda voru aldrei haldnir. Er því ekki að finna bókaðan áskilnað af hálfu aðaláfrýjanda um slíkar kröfur í verkfundagerðum. Engin gögn eru um að slíkur áskilnaður hafi verið gerður á annan hátt meðan á verkinu stóð. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður fallist á að aðaláfrýjanda hafi borið skylda til að tilkynna gagnáfrýjanda strax með skýrum hætti að hann teldi sig eiga gagnkröfur á hendur honum vegna tafa á verkinu og að aðaláfrýjandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi gert þetta. Verður því staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að hafna þremur fyrstu kröfuliðum aðaláfrýjanda.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um að hafna fjórða og fimmta kröfulið aðaláfrýjanda. Hið sama gildir um afgreiðslu dómsins á þeirri málsástæðu sem aðaláfrýjandi hefur haft uppi til vara að gagnáfrýjanda sé skylt að svara honum dagsektum.

Aðaláfrýjandi hefur ekki sérstaklega mótmælt úrlausn hins áfrýjaða dóms um upphafstíma dráttarvaxta að öðru leyti en því að hann mótmælir því að lokareikningurinn 1. desember 2005 eigi að bera dráttarvexti frá 20. desember 2005. Ber aðaláfrýjandi því við að samkvæmt verksamningi aðila eigi að greiða reikninga eigi síðar en 20 dögum eftir að þeir séu samþykktir af verkkaupa. Hann hafi aldrei samþykkt þennan reikning og sé hann því ekki tekinn að bera dráttarvexti. Að minnsta kosti ættu þeir ekki að dæmast fyrr en frá síðari degi, dómsuppkvaðningu eða málssókn. Með dómi þessum er fallist á réttmæti þessa reiknings og verður ekki talið að greint samningsákvæði leiði til þess að fjárhæð hans taki ekki á sig dráttarvexti þó að aðaláfrýjandi hafi ekki lýst samþykki við honum. Verður niðurstaða héraðsdóms um dráttarvexti því staðfest.

Ekki eru efni til að taka til greina kröfu gagnáfrýjanda um hækkun málskostnaðar vegna reksturs málsins í héraði. Samkvæmt öllu framangreindu verður héraðsdómur því staðfestur.

Aðaláfrýjanda verður gert að greiða gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er óraskaður.

Aðaláfrýjandi, Arnarfell ehf., greiði gagnáfrýjanda, Íslenska gámafélaginu ehf., 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. desember 2006.

Mál þetta er höfðað með stefnu birtri 20. febrúar 2006 og dómtekið 4. desember sl. Stefnandi er Gáma- og tækjaleiga Austurlands ehf., Búðareyri 15, Reyðarfirði. Stefndi er Arnarfell ehf., Sjafnarvegi 2-4, Akureyri.

Endanlegar kröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til greiðslu 49.045.482 króna með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 af 33.585.208 krónum frá 10. júlí 2005 til 29. júlí 2005, af 31.085.208 krónum frá þeim degi til 3. ágúst 2005, af 36.742.283 krónum frá þeim degi til 4. ágúst 2005, af 41.651.403 krónum frá þeim degi til 12. ágúst 2005, af 36.651.403 krónum frá þeim degi til 11. september 2005, af 44.419.583 krónum frá þeim degi til 20. desember 2005, en af 61.675.889 krónum frá þeim degi til 26. maí 2006, en af 49.045.482 krónum til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar.

Stefndi krefst aðallega sýknu, en til vara að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar. Hann krefst einnig málskostnaðar.

I

Málsatvik

Atvik málsins eru í veigamiklum atriðum umdeild.

Hinn 1. nóvember 2004 gerðu aðilar með sér verksamning þar sem stefnandi, sem undirverktaki, tók að sér að vinna ákveðna hluta verksins „Stóriðjuhöfn við Mjóeyri“ sem stefndi fór með sem aðalverktaki samkvæmt útboði Siglingastofnunar í apríl 2004. Í útboðslýsingu var helstu þáttum verksins í heild lýst svo: a.  Fylla skal í fyllingarpúða fyrir framan þil; b.  Dýpka fyrir framan þilið og losa dýpkunarefni innan þils; c.  Fylla bak við þil og í hafnarsvæði með efni er kemur úr grunni Fjarðaáls; d.  Uppúrtekt og klapparsprengingar.  Koma efni fyrir í hafnarsvæði; e.  Reka niður 383 tvöfaldar stálþilsplötur; f.  Bolta 449 m langan stagbita við þil; g.  Koma fyrir 183 stögum og akkerisplötum; h.  Steypa 449 m kant með pollum, þybbum og stigum. Verk það er stefnandi tók að sér sem undirverktaki fólst í stuttu máli í flutningi efnis í stálþilið frá Reyðarfjarðarhöfn að verkstað við höfnina á Mjóeyri, sanddælingu og fyllingu með efni er féll til við þær, niðurrekstri stálþilsins, stögun þess, steypu á kantbita og uppsetningu dekkjarúlla utan á kantinn og þybbubita.  Stefndi annaðist hins vegar sjálfur klapparsprengingar og fyllingar úr sprengdu efni frá landi.  Samkvæmt 2. gr. samnings aðila fólst verk stefnanda nánar tiltekið í eftirfarandi:

Stóriðjuhöfn við Mjóeyri, liðir 2.2.1 (að hluta) 2.2.2, 2.2.3, 2.2.5 (fylling IV), 2.2.8, 2.2.9 og 2.2.10 í samræmi við samning þennan, meðfylgjandi sundurliðun á einingaverðum verktaka, útboðsgögnum gefin út af Hafnarsjóði Fjarðarbyggðar og Siglingastofnun, fyrirliggjandi verkáætlun. Auk þess er “Almennir útboðs- og samningaskilmálar, ÍST 30:1997 með sérskilmálum Flugmálastjórnar, Siglingastofnunar og Vegagerðarinnar” hluti samnings. [/] Gerður er fyrirvari um að liður 2.2.10 “Steyptur kantur, pollar, stigar og þybbur” geti fallið út úr samningnum þar sem ekki hefur verið kynnt fyrir verkkaupa að undirverktaki annist hann.

 

Í 3. gr. samningsins var lögð áhersla á að verkáætlun væri haldið og brugðist væri við með öllum tiltækum ráðum til að vinna upp tíma sem kynni að hafa tapast. Þá sagði í greininni að þessu til stuðnings yrðu haldnir verkfundir viku- eða hálfsmánaðarlega, eftir atvikum milli aðalverktaka og undirverktaka og skyldu fundargerðir hvers fundar vera skriflega og undirritaðar. Samkvæmt 4. gr. samningsins skyldi stefndi greiða stefnanda 169.775.960 krónur fyrir verkið og skyldi stefnandi leggja fram tryggingu fyrir 10% af samningsupphæð. Ekki er um það deilt að umsamið verð skyldi taka mið af einingaverðum og endanlegum magntölum samkvæmt tilboðsskrá. Þá var kveðið á um það í 4. gr. samningsins að stefnda bæri að greiða reikninga stefnanda í samræmi við framvindu verksins og að reikninga skyldi greiða eigi síðar en 20 dögum eftir að þeir hefðu verið samþykktir af verkkaupa. Í 5. gr. samnings aðila sagði að meðfylgjandi gjaldskrá væri lögð til grundvallar vegna þjónustu fyrirtækjanna hvors til annars vegna tímavinnu manna og tækja, uppihalds, o.s.frv. Í málinu liggur ennfremur fyrir endurrit verkáætlunar sem unnin var af starfsmönnum  stefnda á þeim tíma sem samningurinn var undirritaður.

A

Samkvæmt því sem fram kemur í stefnu hóf stefnandi vinnu við verkið í ágúst 2004 og lauk formlega verkinu, þ.á m. aukaverkum, 28. september 2005, en þann dag hafi eftirlitsaðili með verkinu lýst því yfir að verkinu væri að fullu lokið. Af hálfu stefnanda hefur fullyrðingum um drátt á verkinu verið mótmælt og vísað til þess að tafir hafi helgast af breytingum á verkinu, magnaukningum og öðrum atvikum sem hafi ekki verið á ábyrgð stefnanda.

Í greinargerð stefndu er hins vegar ítarlega lýst framgangi verksins og ýmsum töfum á verkinu af hálfu stefnanda. Er þar fyrst vikið að því stefnandi hafi ekki lagt fram verktryggingu fyrr en með símbréfi hinn 20. september 2005, þ.e. eftir að verktíma var lokið.  Afrit staðfestingar verktryggingar hafi borist síðar og sé dagsett 13. október s.á.  Hafi því engin verktrygging af hálfu stefnanda verið í gildi fram til 20. september 2005. Þá hafi orðið dráttur á framkvæmdum stefnanda þegar í upphafi. Stefnandi hafi lofað stefnda að hefja sanddælingar í júní 2004 og byrja þilrekstur í júlíbyrjun en sanddælingar ekki hafist fyrr en í ágúst. Gert hafi verið ráð fyrir að sanddælingar tækju um þrjá og hálfan mánuð en hafi tekið þrettán mánuði. Verulegar magnaukningar hafi orðið í verkinu en þó hafi meðalafköst í dælingu verið tæplega helmingur af því sem reiknað hafði verið með. Þegar búið hafi verið að gera hluta svæðisins tilbúinn undir þilreksturinn hafi liðið tvær til þrjár vikur áður en tæki og búnaður sem nota átti við verkið hafi komið á verkstað, en tækin hafi þá verið í þannig ástandi að byrja þurfti að gera við þau. Niðurrekstur hafi átt að hefjast í byrjun ágúst en hafi hafist í lok september.  Gert hafi verið ráð fyrir að þilrekstur tæki um þrjá og hálfan mánuð en hafi tekið um sex og hálfan mánuð. Við upphaf þilreksturs hafi orðið það óhapp að sjávarbakki gaf sig og þilið sökk. Verkkaupi hafi borið ábyrgð á töf er af þessu hlaust, u.þ.b. ein og hálf til tvær vikur. Að öðru leyti hafi töf á þilrekstri alfarið verið á ábyrgð stefnanda. Þilrekstri hafi lokið rétt fyrir páska 2005, nokkrum mánuðum á eftir áætlun. Þessi seinkun hafi tafið verulega framvindu þeirra verkþátta sem stefndi hafi séð um sjálfur, en það var að fylla á bak við þilið.

Stefndi vísar til þess að stögun þils þurfi að eiga sér stað sem næst jafnóðum og þilið er rekið niður. Í ljós hafi komið að stefnandi hafði ekki mannafla til að vinna samtímis að niðurrekstri og stögun. Þar sem verkið hafi verið orðið mörgum vikum á eftir áætlun hafi stefndi gripið til þess ráðs að setja eigin mannskap og tæki í verkið og stefnandi hafi ekki gert stefnda reikning vegna þeirra verkliða sem hér um ræðir (2.2.9.3 og 2.2.9.4). Steypa kantbita hafi hafist eftir páska 2005, nokkrum mánuðum of seint. Stefnandi hafi gefið til kynna að bætt yrði við mannskap til að vinna þennan verkþátt en ekkert orðið af því.  Stefndi hafi aflað steypu til verksins þótt samningur gerði ráð fyrir að stefnandi legði til steypuna. Þessi verkþáttur hafi staðist tímaáætlun en ekki hafist fyrr en um tveimur mánuðum of seint. Uppsetningu kanttrés og stiga hafi átt að ljúka seinnihluta júní 2005 en ekki lokið fyrr en í lok ágúst.  Fljótlega eftir að byrjað var að steypa kantbitann hafi átt að setja saman um 1800 vörubíladekk keðjuð saman, sex stykki í búnt (dekkjaþybbur), og hengja framan á stálþilið ásamt gúmmíþybbum sem keyptar voru erlendis frá og koma átti fyrir  framan á steypta kantinum. Þar sem stefnandi hafi ekki haft burði til að framkvæma þessi verk hafi stefndi gripið til þess ráðs að vinna verkþáttinn sjálfur.

Stefndi upplýsir að hann hafi fengið verktímann framlengdan um fjórar vikur þ.e. til 28. júlí 2005. Þegar verkinu hafi ekki verið lokið í ágúst 2005 hafi verkkaupi varað við beitingu dagsekta með orðsendingu, en ekki komið til þess að dagsektum yrði beitt. Verkinu hafi síðan lokið í ágúst 2005, um tveimur mánuðum eftir umsamin verklok. Stefndi vísar til þess að ítrekað hafi verið bókað um athugasemdir við framvindu verks í verkfundargerðum og vísar til tiltekinna verkfundagerða í því sambandi.

Eftir að úttekt á verkinu var lokið héldu aðilar tvo uppgjörsfundi, hinn fyrri 2. október 2005 og þann síðari 11. sama mánaðar. Ekki tókst samkomulag með aðilum á þessum fundum. Í framhaldinu hófust innheimtutilraunir stefnanda með aðstoð lög­manns sem ekki er ástæða til að rekja sérstaklega.

B

Í stefnu kemur fram að heildarfjárhæð útgefinna reikninga stefnanda á hendur stefnda nemi 198.283.414 krónum. Skýrist hækkun frá samningi aðila af magnaukningu og aukaverkum er stefnanda hafi verið falið að vinna. Er í stefnu gefið yfirlit yfir alla útgefna reikninga stefnanda á hendur stefnda. Með hliðsjón af því að í málinu er ekki deilt um þá heildarfjárhæð sem stefnanda bar fyrir verkið er ekki ástæða til að rekja frekar málatilbúnað stefnanda að þessu leyti. Þá er því lýst að stefndi hafi greitt alls 136.607.525 krónur. Stefndi hafi þannig greitt að fullu reikninga stefnanda útgefna á tímabilinu 31. júlí 2004 til 26. maí 2005. Reikningar stefnanda útgefnir á því tímabili séu því óumdeildir. Stefndi hafi frá 26. maí 2005 aðeins greitt inn á reikninga stefnanda útgefna frá þeim tíma, en stefnanda séu ekki ljósar ástæður þessa. Krafa stefnanda í málinu sé því um greiðslu skuldar stefnda við stefnanda samkvæmt eftirfarandi fimm reikningum samtals að höfuðstól 69.175.889 krónur:

 

Reikningur dags. 26. maí 2005            kr. 33.585.208 

Reikningur dags. 29. júní 2005            kr. 5.657.075   

Reikningur dags. 14. júlí 2005                         kr. 4.909.120   

Reikningur dags. 2. ágúst 2005                      kr. 7.768.180 

Reikningur dags. 1. desember 2005                   kr. 17.256.306

 

Ágreiningslaust er stefndi hefur greitt inn á ofangreinda kröfu stefnanda 2.500.000 krónur 29. júlí 2005 og 5.000.000 krónur 12. ágúst 2005. Samtals hefur stefnandi því greitt 136.607.525 krónur sem fyrr segir. Þá greiddi stefndi stefnanda 12.630.407 krónur 26. maí 2006 eftir framlagningu greinargerðar sinnar í héraði. Hefur verið tekið tillit til þeirrar innborgunar í endanlegri kröfugerð stefnanda. Höfuðstóll kröfu stefnanda að teknu tilliti til innborgana stefnda er því 61.675.889 krónur. Að frádreginni síðustu innborgun stefnda að fjárhæð 12.630.407 krónur nemur höfuð­stóllinn 49.045.482 krónum sem er endanleg stefnufjárhæð sem fyrr segir.

C

Við aðalmeðferð málsins komu gáfu aðilaskýrslu Óskar Alfreð Beck, fram­kvæmdastjóri stefnanda, Sigurbergur Konráðsson, framkvæmdastjóri stefnda og Þór Konráðsson, stjórnarformaður stefnda. Þá komu fyrir dóminn sem vitni Sigurður Áss Grétarsson, starfsmaður Siglingastofnunar, Jörgen Rúnar Hrafnkelsson, fyrrverandi starfsmaður stefnda og verkefnisstjóri við umrætt verk og loks Geir Sigurpáll Hlöðversson, sem sinnti eftirliti við verkið fyrir verkkaupa. Ekki er ástæða til að rekja skýrslur þessara manna sérstaklega.

II

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir á framangreindum fimm reikningum og vísar til reglna samninga- og verktakaréttar, þ. á m. ÍST 30, til stuðnings kröfu sinni. Þá vísar hann til reglna kröfuréttar um þýðingu tómlætis stefnda. Hann áréttar að honum sé ókunnugt um ástæður þess að stefndi hefur ekki greitt fyrrgreinda reikninga vegna verksins og telur stefnandi reikninga þessa vera óumdeilda. Stefnandi áréttar að krafa hans byggi á verksamningi aðila og leggur áherslu á að stefndi hafi ekki mótmælt reikningum stefnanda. Teljist þeir því samþykktir af stefnda, sbr. ákvæði ÍST 30, grein 31.13.1. Krafa stefnanda samkvæmt fyrrgreindum reikningum byggi á úttekt á verkstöðu á hverjum tíma og séu upplýsingar á yfirlitsblöðum um stöðu verksins óumdeildar. Stefndi hafi a.m.k. ekki mótmælt þeim upplýsingum um stöðu verksins á hverjum tíma. Stefnandi bendir á að fyrrgreindir reikningar hans og yfirlitsblöð um verkstöðu byggi á viðurkenndri verkstöðu samkvæmt samningi stefnda og aðalverkkaupa um heildarverkið. Samkvæmt samningi aðila hafi stefnandi tekið að sér að sér undirverktöku við verkið, þ.e. að framkvæma hluta þess verks, sem stefndi samdi við aðalverkkaupa um að vinna, og sé óumdeilt að stefnandi hafi unnið þau verk sem greini í yfirlitsblöðum um verkstöðu sem fylgi reikningum. Í stefnu er sundurliðun hvers einstaks reiknings ítarlega lýst. Meðal annars kemur þar fram að hvaða marki reikningarnir eru gerðir fyrir verkhluta auðkennda 2.2.10.9 og 2.2.10.10 sem stefndi telur sig hafa tekið yfir eins og síðar greinir. Með hliðsjón af því að ekki er ágreiningur um fjárhæðir þessara reikninga og einstakra liða þeirra er ekki ástæða til að rekja efni þeirra frekar.

Endanleg dráttarvaxtakrafa stefnanda miðast við að gjalddagi sé 20 dögum eftir samþykki reiknings af hálfu verkkaupa. Hefur stefnandi í endanlegri kröfugerð sinni tekið til greina athugasemdir stefnda við gjalddaga reikninga.

Stefnandi vísar að öðru leyti til þess að kröfur hans byggi á verksamningi aðila og séu kröfur byggðar á upplýsingum frá aðalverktaka um magntölur sem samþykktar hafi verið á verkfundum. Skorar stefnandi á stefnda að leggja fram aðrar upplýsingar frá verkkaupa, ef dregnar eru í efa upplýsingar um magntölur.

III

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir málatilbúnað sinn á því að stefnandi hafi vanefnt samning aðila með stórfelldum hætti með þeim drætti er varð á framkvæmd verksins svo og skorti á mannafla og getu til að framkvæma verkið. Hann vísar til þess að hann hafi haft heimild til að rifta samningnum samkvæmt grein 25.5 í ÍST 30:2003. Stefndi hafi kosið að gera það ekki en látið þess í stað stefnanda vinna verkið að svo miklu leyti sem unnt var jafnframt því að hann vann sjálfur verkliði 2.2.10.9 og 2.2.10.10. Hafi stefnandi samþykkt þessa tilhögun. Við uppgjör aðila beri að hafa hliðsjón eftir því sem unnt er af ákvæðum í 25. kafla ÍST 30:1997 sem sé samhljóða sambærilegum ákvæðum ÍST 30:2003. Stefndi mótmælir þannig í heild sinni þeim hluta ógreiddra reikninga er varða verkliði 2.2.10.9 og 2.2.10.10 með vísan til þess að stefnandi hafi ekki unnið þennan hluta verksins heldur stefndi, en samtals nemi þessir liðir 44.137.000 krónum.

Stefndi vísar til þess að 29. júlí og 12. ágúst 2005 hafi hann greitt samtals 7.500.000 krónur inn á reikning dagsettan 26. maí 2005 sem svari til fjárhæða annarra verkliða en 2.2.10.9 og 2.2.10.10. Að svo miklu leyti sem stefndi hafi ekki þegar greitt stefnanda fyrir fullunnin verk hafi stefndi, samkvæmt grein 25.7.3 í ÍST:30, eigi hann rétt til að halda eftir greiðslu til mæta kröfum sínum til bóta vegna vanefnda á grundvelli greina 25.7.4 og 25.7.5. Að auki kunni stefnandi að eiga rétt til greiðslu fyrir ónotað efni sem hann hafi flutt á vinnustað, en þar hafi verið um að ræða efni í þybbubita (fendera).

Stefndi telur sig einnig eiga skaðabótakröfu vegna þess tjóns sem hann varð fyrir vegna tafa á verkinu og vegna þess að stefnandi afhenti honum ekki alla verkliði, sbr. greinar 25.6.10, og 25.7.4 og 25.7.5 ÍST 30 og almennar reglur skaðabóta- og verktakaréttar. Einnig hafi stefndi innt af hendi þjónustu til stefnanda sem sé óuppgerð milli aðila.  Samkvæmt framansögðu beri að fara svo með uppgjör aðila:

 

Samanlögð fjárhæð samþykktra liða á reikningum stefnanda                        kr.                        25.038.889

Greiðsla stefnda fyrir ónotað efni (dekkjarúllur)                        kr.                        3.043.777

Greiðsla stefnda fyrir ónotað efni (fenderar)                        kr.                        25.296.263

Samtals til stefnanda                        kr.                        53.378.929

Skaðabótakrafa til skuldajafnaðar                         kr.                          (40.748.522)

Mismunur                        kr.                        12.630.407

 

Eins og áður greinir greiddi stefndi stefnanda umræddan mismun, þ.e. 12.630.407 krónur, 26. maí 2006. Er tekið tillit til þessarar greiðslu í endanlegri kröfugerð stefnanda. Í endanlegri kröfugerð sinni miðar stefnandi einnig við gjalddaga í samræmi við athugsemdir stefnda. Er ekki ástæða til að rekja sérstaklega athugsemdir stefnda um þetta atriði að öðru leyti en því að hann telur að umræddir reikningar geti ekki hafa fallið í gjalddaga fyrr en stefnandi afhenti staðfestingu verktryggingar 20. september 2005. Þá telur stefndi einnig að gagnkröfur hans hafi stofnast mun fyrr en kröfur stefnanda og komi því ekki til greina að dæma dráttarvexti hvernig sem málið fer. Samkvæmt framangreindu telur stefndi þannig að hann hafi greitt stefnanda fulla greiðslu samkvæmt samningi aðila. Verður nú vikið nánar að gagnkröfu stefnda.

Skaðabótakrafa stefnda að fjárhæð 40.748.522 krónur er í fimm liðum. Sundurliðar stefnandi hana með eftirfarandi hætti:

 

1. Skaðabótakrafa v. kostnaðarauka við      yfirtöku stefnda og frkv. á verkliðum 2.2.10.9 og 2.2.10.10.

1.1.    dekk

kr.        400.000

 

 

1.2.    suðuvír

kr.        115.189

 

 

1.3.   kostn.verð útseldrar vinnu og tækja

kr.        8.636.626

 

 

1.4.    sala á fæði og gistingu

kr.        814.500

kr.  9.966.315

 

 

2.             Krafa um skaðabætur vegna kostnaðar af aðstöðu  í tvo mánuði     

2.1.       launakostnaður ráðskonu

kr.        705.809

 

 

2.2.       kostnaður vegna viðhalds húsnæðis

kr.        33.474

 

 

2.3.       aðföng vegna fæðis

kr.        397.047

 

 

Samtals vegna reksturs vinnubúða

kr.        1.136.330

 

 

2.4.       leiga á rafstöð

kr.        818.400

 

 

2.5.       olía á rafstöð

kr.        944.681

 

 

2.6.       afskrift vinnubúða

kr.        360.000

 

 

2.7.       umsjón 5%

kr.        1.414.800

kr.  3.923.993

 

 

3.  Krafa um skaðabætur vegna tapaðs rekstrarframlags tækja stefnda                        

3.1.       Tapað rekstrarframlag

kr.        24.889.933

kr.  24.889.933

 

 

4.  Krafa skv. reikningum vegna þjónustu stefnda við stefnanda

4.1.       reikningar vegna járnalykkja í þilkant          

kr.        202.487

 

 

4.2.       aðstoð við flutning á kranabómu

kr.        90.000

 

 

4.3.       vinna við að ýta upp görðum

kr.        785.000

kr.  1.077.488

 

 

Krafa um endurgreiðslu vegna sigs í fyllingu    

                  

5.1.       Ofgreitt vegna sigs í fyllingu

kr.        890.793

kr.        890.793

 

Samtals gagnkröfur

 

kr.   40.748.522

 

 

Fyrsta kröfulið sinn rökstyður stefnandi þannig að hann hafi alfarið unnið verklið 2.2.10.10. Kostnaðarauki hans vegna yfirtöku á þessum verklið hafi falist annars vegar í efnisöflun og hins vegar í kostnaði við framkvæmd verksins, en stefndi hafi gert ráð fyrir því að nýta tæki sín og mannafla í öðrum verkum á þeim tíma sem um ræðir.  Að því er varðar liði 1.1 og 1.2 vísar stefndi til þess að hann hafi lagt til tvo vagna fulla af dekkjarúllum, en áætla megi að í hvorum vagni hafi rúmast um 100-120 dekk og sé verð dekkjanna metið 400.000 krónur. Stefndi hafi keypt suðuvír fyrir 115.189 krónur samkvæmt nótum sem lagðar hafi verið fram í málinu. Að því er varðar liði 1.3 og 1.4 vísar stefndi til þess að hann hafi unnið alls 2174 vinnustundir við þennan verklið.  Vinnustundir séu teknar saman á skjali sem lagt hafi verið fram í málinu. Sundurliðar stefndi vinnustundir manna og véla sem samtals geri 10.752.600 króna. Að frátöldum virðisaukaskatti, en að meðtöldu 15% álagi fyrir verkstjórn fáist kostnaðarverð útseldrar vinnu og tækja sem sé 8.636.626 krónur.  Einnig sé krafið um greiðslu fyrir fæði og gistingu, kr. 4.500 fyrir hvern dag í 181 manndag (miðað við 12 klst. vinnudag) en það sé samkvæmt samningi aðila.  Krafa vegna uppihalds nemi 814.500 krónum. Samkvæmt þessu nemi samanlögð krafa vegna kostnaðarauka af framkvæmd verkliða 2.2.10.9 og 2.2.10.10 alls 9.966.315 krónum. Stefndi segir kröfuna styðjast við grein 25.6.10 og 25.7.4 í ÍST 1997:30 og reglur kröfuréttar og verktakaréttar um skaðabætur vegna vanefnda í verksamningum.

Stefndi tekur fram að ef, af einhverjum ástæðum, verði fallist á kröfu stefnanda um greiðslu reikninga fyrir verkliði 2.2.10.9 og 2.2.10.10 sé í stað ofangreindrar kröfu að fjárhæð kr. 8.636.626 gerð krafa um þóknun fyrir verkið samkvæmt útseldum taxta að viðbættri 15% þóknun fyrir verkstjórn, en samanlögð krafa um þóknun að meðtöldum virðisaukaskatti nemi 12.365.490 króna.  Í báðum tilfellum sé notaður taxti samkvæmt samningi við verkkaupa enda hafi taxti samkvæmt verksamningi aðila verið hugsaður fyrir minniháttar aðstoð stefnda við stefnanda en ekki vinnu er vinna þyrfti óvænt við heila verkliði.  Er krafan í þessu tilviki byggð á því að eigi stefnandi rétt til þóknunar fyrir verk sem stefndi vann, hljóti stefndi á grundvelli þess hvernig samningur aðila var framkvæmdur, að eiga rétt til greiðslu fyrir vinnu er hann seldi stefnanda.

Að því er varðar kröfulið 2 vísar stefndi til þess að verkið hafi tafist vegna atvika, er stefnandi bar alfarið ábyrgð á, í tvo mánuði.  Stefndi hafi af þeim sökum þurft að halda úti aðstöðu á verkstað til loka ágúst í stað júníloka sem hafi verið umsaminn tími verkloka.  Beri stefnandi skaðabótaábyrgð gagnvart stefnda sem nemi kostnaði við þetta.  Um lið 2.1 er vísað til launakostnaðar fyrir ráðskonu samkvæmt framlögðum launaseðlum. Um lið 2.2 er vísað til viðhalds húsnæðis samkvæmt framlögðum reikningum. Um lið 2.3 er vísað til kostnaðar stefnda við aðföng vegna fæðis í júlí og ágúst samkvæmt framlögðum reikningum. Um liði 2.4 og 2.5 er vísað til þess að stefndi þurfti að keyra rafstöðu aukalega í 62 daga, þ.e. júlí og ágúst, vegna tafa á verkinu af völdum stefnanda. Afnot af rafstöðinni séu metin á 550 krónur á klst. eða samtals 818.400 krónur. Miðað við meðalverð olíu í júlí og ágústmánuði 2005 nemi kostnaður vegna olíunotkunar 944.681 krónu sem sé tjón stefnda. Um lið 2.6 er vísað til þess að núvirði hverrar vinnubúðaeiningar stefnda sé 1.200.000 krónur og miðað við að 10% afskrift á ári sé kostnaður sem bundinn er í vinnubúðunum 120.000 krónur á ári eða 10.000 krónur á mánuði. Notaðar hafi verið 18 vinnubúðaeiningar í tvo mánuði og nemi því krafa stefnda vegna þessa 360.000 krónum. Um lið 2.7 er vísað til þess að við tilboðsgerð til verkkaupa reiknaði stefndi sér 5% samnings­fjárhæðar fyrir yfirstjórn, svo sem rekstur skrifstofu, samskipti við verkkaupa (verk­fundir, bréfasamskipti, magntaka, reikningagerð) samskipti og samræmingu við aðra verktaka og hagsmunaaðila, fjármagnskostnað, öryggismál, merkingu vinnusvæðis og ferðakostnað starfsmanna. Stefndi hafi þurft að sinna yfirstjórn í júlí og ágúst sem hafi verið umfram umsaminn verktíma. Hann hafi því orðið fyrir tjóni sem þessu nemi. Stefndi kveðst hafa takmarkað kröfu sína við 5% samningsfjárhæðar við stefnanda en ekki við verkkaupa. Þessi kostnaðarliður fyrir tveggja mánaða tímabil nemi því 5% af 169.775.960 krónum deilt með 12 x 2 eða 1.414.800 krónum. Samanlögð krafa um skaðabætur vegna kostnaðar af aðstöðu í tvo mánuði nemi þannig 3.923.993 krónum. Krafan er sögð styðjast við reglur kröfuréttar og verktakaréttar um skaðabætur vegna vanefnda í verksamningum, m.a. gr. 25.7.4 og 25.7.5 í ÍST 30.

Að því er varðar kröfulið 3 vísar stefndi til þess að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna vannýtts tækjaflota sem var bundinn í verkinu. Hann hafi tekið saman úr dagbókarfærslum þann tíma sem tókst að nýta tækin og dregið frá þeim tíma er samsvarar eðlilegri nýtingu þeirra miðað við að virkir dagar í mánuði séu 22 og virkur véltími níu klukkustundir þegar tekið hafi verið tillit til olíuáfyllinga, smurtíma og annarrar minni háttar þjónustu. Vísar stefndi til þess að endurskoðandi hans hafi staðfest þá útreikninga um þetta sem lagðir hafa verið fram í málinu. Í raun hefðu þó sum tækin verið í meiri notkun en kröfugerðin geri ráð fyrir, þar sem við verk stefnda í Ufsarveitu hafi verið unnið á vöktum. Krafan er studd við reglur kröfuréttar og verktakaréttar um skaðabætur vegna vanefnda í verksamningum, m.a. gr. 25.7.4 og 25.7.5 ÍST 30.

Að því er varðar kröfulið 4 vísar stefndi til þess að hann hafi aðstoðað stefnda við að ná bómu af krana sem lenti í óhappi og hafi hann gert stefnda reikninga vegna aðstoðarinnar á þeim taxta er greini í samningi og skyldi gilda um minni háttar aðstoð milli aðila.  Um sé að ræða framlagðan reikning að fjárhæð 90.000 krónur vegna aðstoðar við flutning á kranabómu (liður 4.2) og framlagðan reikning að fjárhæð 785.000 krónur vegna vinnu við að ýta upp görðum (liður 4.3).  Einnig hafi stefndi aðstoðað stefnanda við öflun járnalykkja í þilkant sem hafi verið verkþáttur er tilheyrði stefnanda (liður 4.1), en reikningur að fjárhæð 202.487 sé vegna útlagðs kostnaðar við efnið. Kröfur þessar nemi samtals 1.279.975 krónum og styðjist við reglur samningaréttar um að samninga skuli halda.

Að því er varðar kröfulið 5 vísar stefndi til þess að stefnandi hafi tekið að sér verklið 2.2.3.1, dýpkun, en hann hafi falist í sanddælingum og fyllingu.  Að auki hafi stefnandi aflað aðflutts efnis í fyllinguna. Ljóst sé að töluvert sig hafi orðið bæði í botni á svæðinu og einnig í fyllingu. Áætlað hafi verið að sig botnsins myndi að mestu koma fram á byggingartímanum og það gæti orðið um 10 sm á þeim hluta svæðisins þar sem notaður væri siltríkur sandur, en óverulegt á þeim hluta svæðisins þar sem notuð væri möl.  Í verkfundargerðum komi fram niðurstaða mælinga á sigi við þrjú sigrör er sett hafi verið niður. Í fundargerðum komi fram að í vestari landvegg og í kringum þilplötu 280 megi sjá sig af stærðargráðunni 20 – 25 sm. Samkvæmt samningi aðila hafi sig í undirlagi og í fyllingu verið á áhættu stefnanda. Hafi stefndi reiknað meðalsig í verkinu 184 mm en það leiði til aukinnar efnisöflunar sem nemi 4.892 rúmmetrum. Hlutfall stefnanda í aukinni efnisöflun miðað við hlutfall hvors aðila um sig í efnisöflun inn í verkið sé 0.51, aukið efnismagn er stefnanda beri að taka á sig vegna þessa sé 2.509 rúmmetrar sem verðleggist samkvæmt umsömdu einingaverði á 355 krónur. Hafi stefndi því ofgreitt stefnanda 890.793 krónur.

Verði af einhverjum ástæðum ekki fallist á að stefndi eigi kröfu til skaðabóta samkvæmt liðum 1 til 3 eða að fjárhæð skaðabóta yrði talin 23.768.640 krónur eða lægri gerir stefndi kröfu til þess að stefnandi greiði honum tafabætur. Vísar hann til 2. gr. verksamnings þessu til stuðnings þar sem vísað hafi verið til verksamnings í heild sinni. Í grein 1.12 þess samnings sé kveðið á um tafabætur er nemi 0,2% af samningsfjárhæð fyrir hvern almanaksdag sem dragist að skila verki eftir að samningsbundinn skilafrestur er útrunninn.  Stefndi hafi átt að skila verkinu eigi síðar en 1. júlí 2005 en lokaúttekt hafi ekki farið fram fyrr en 10. september það ár og eigi tafabætur að reiknast til þess dags er lokaúttekt fór fram. Samkvæmt þessu beri stefnanda að greiða stefnda tafabætur fyrir 70 daga eða 23.768.640 krónur.

                                IV

Niðurstaða

Í máli þessu gerir stefnandi efnislega þá kröfu að stefndi greiði fimm reikninga sem útgefnir voru á tímabilinu 26. maí 2005 til 1. desember sama árs, en eins og áður greinir voru þessir fimm reikningar síðastir í röðinni af alls 21 reikningi sem stefnandi gaf út vegna undirverktöku fyrir stefnda við byggingu stóriðjuhafnar við Mjóeyri. Aðilar deila ekki um magntölur í reikningum stefnanda eða um þá heildarfjárhæð sem stefnanda bar samkvæmt samningi aðila dagsettum 1. nóvember 2004. Endanleg kröfu­gerð stefnanda tekur og tillit til innborgana stefnda 29. júlí 2005 að fjárhæð 2.500.000 króna, 12. ágúst sama árs að fjárhæð 5.000.000 króna og 26. maí 2006 að fjárhæð 12.630.407 króna. Þá hefur í endanlegri kröfugerð stefnanda verið fallist á mótmæli stefnda við gjalddögum umræddra reikninga. Er því ekki lengur deilt um upphafsdaga dráttarvaxta að þessu leyti, ef fallist verður á kröfu stefnanda samkvæmt umræddum reikningum.

Eins og fram kemur í samningi aðila dagsettum 1. nóvember 2004 skyldi stefndi greiða stefnanda samkvæmt reikningi í samræmi við framvindu verksins. Samkvæmt reikningi 26. maí 2005 (verkstaða 13) nam fjárhæð þess verks, sem stefnandi hafði þá lokið við að vinna, alls 117.716.885 krónum, en áður hafði verið greitt 110.205.976 krónur samkvæmt verkstöðu. Var fjárhæð reikningsins mismunur þessara tveggja talna, þ.e. 7.510.909 krónur. Fjárhæð næsta reiknings, sem einnig er útgefinn 26. maí 2005 (verkstaða 21), er 33.585.208 krónur og kemur þá fram í meðfylgjandi sundurliðun að búið sé að vinna verkið fyrir 146.679.185 krónur. Í þessum reikningi er hins vegar ranglega miðað við að áður hafi verið gerður reikningur fyrir aðeins 113.093.976 krónur í stað 117.716.885 króna. Miðað við forsendur fyrri reikningsins hefði fjárhæð þessa reiknings aðeins átt að vera aðeins 28.962.300 krónur. Þetta ósamræmi í gögnum stefnanda hefur ekki verið skýrt þrátt fyrir fyrirspurnir dómara til fyrirsvarsmanns stefnanda og lögmanns hans við aðalmeðferð málsins. Enda þótt stefndi hafi ekki andmælt kröfu stefnanda á þessum grundvelli er það álit dómsins að málið verði ekki dæmt samkvæmt málatilbúnaði stefnanda að því leyti sem ósamrýmanlegt er framkomnum gögnum málsins, sbr. til hliðsjónar síðari málslið 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt framangreindu verður að lagt til grundvallar að rétt fjárhæð umrædds reiknings sé 28.962.300 krónur og heildarkrafa stefnanda lækki í samræmi við það.

A

Ágreiningur aðila málsins er tvenns konar. Annars vegar mótmælir stefndi tilteknum liðum í reikningum stefnanda. Hins vegar telur stefndi sig eiga rétt til skaðabóta úr hendi stefnanda vegna vanefnda hans á samningi aðila

Líkt og áður greinir byggir stefndi mótmæli sín við reikningum stefnanda á því að stefndi hafi tekið yfir verkhluta auðkennda 2.2.10.9 og 2.2.10.10 í útboðs- og verklýsingu Siglingastofnunar frá apríl 2004, en stefnandi hafi ekki innt af hendi neina vinnu við þessa verkliði. Þeir liðir í reikningum stefnanda sem lúta að þessum verkhlutum nema samanlagt 40.748.522 krónum. Telur stefndi að reikningar stefnanda eigi að sæta lækkun sem þessu nemur, þó þannig að tekið sé tillit til kostnaðar stefnanda, við að útvega efni frá þriðja aðila, að fjárhæð 28.340.040 krónur. Í málinu er því ekki haldið fram af hálfu stefnda að stefnandi hafi tekið yfir þessa hluta verksins á grundvelli sérstaks samkomulags við stefnda eða hann hafi með öðrum hætti samþykkt breytta tilhögun á framkvæmd verksins. Verður að skilja málatilbúnað stefnda á þá leið að hann hafi talið sér heimilt að rifta einhliða samningi sínum við stefnanda að hluta, sbr. 25 kafla ÍST 30:1997 þannig að stefnandi sinnti ekki lengur umræddum verkhlutum, án þess þó að samningi aðila að öðru leyti væri rift.

Í málatilbúnaði stefnda sér þess ekki stað að stefndi hafi tilkynnt stefnanda um umrædda riftun að hluta með nokkrum hætti, eins og þó er skýrlega áskilið í þeim ákvæðum ÍST 30:1997 sem stefndi vísar til. Án tillits til þess hvort skilyrði til riftunar voru fyrir hendi, svo og þess hvort heimilt var að rifta eingöngu tilteknum hluta samningsins, er af þessum sökum ekki unnt að fallast á að stefndi hafi rift samningi sínum við stefnanda með gildum hætti. Samkvæmt þessu verður þessum andmælum stefnda við reikningum stefnanda hafnað og lagt til grundvallar að samningur aðila dagsettur 1. nóvember 2004 hafi gilt um lögskipti aðila, þar á meðal verkhluta auðkennda 2.2.10.9 og 2.2.10.10.

Í málinu er óumdeilt að stefndi innti af hendi vinnu og útvegaði vélar og tæki vegna vinnu við umrædda verkhluta. Var því lýst yfir í munnlegum málflutningi af hálfu stefnanda að upplýsingum stefnda um tímafjölda starfsmanna og véla væri ekki mótmælt. Samkvæmt 5. gr. samnings aðila skyldi gjaldskrá, sem fylgdi samningnum, gilda um þjónustu málsaðila hvors til annars vegna tímavinnu manna og tækja, uppihalds o.s.frv. Samkvæmt öllu framangreindu er ljóst að stefndi á rétt á greiðslu frá stefnanda vegna framlags til umræddra verkhluta. Hins vegar hefur stefndi hvorki gefið út reikninga samkvæmt 5. gr. samnings aðila vegna þessa framlags, né sundur­liðað þessa kröfu fyrir dómi í þeim tilgangi og með þeim hætti að henni verði skuldajafnað. Þótt ekki sé ágreiningur um tímafjölda manna og véla sem stefndi ráðstafaði í verkhluta 2.2.10.9 og 2.2.10.10 liggja því ekki fyrir fullnægjandi upplýsingar í málinu til þess að unnt sé að slá fastri þeirri fjárhæð sem stefndi á rétt á samkvæmt framansögðu. Samkvæmt þessu er í máli þessu ekki unnt að draga frá kröfu stefnanda ákveðna fjárhæð vegna framlags stefnda til verkhluta 2.2.10.9 og 2.2.10.10.

Í málinu hafa verið lagðir fram af hálfu stefnda alls 11 matarreikningar. Er sá fyrsti dagsettur 31. maí 2005, en sá síðasti 3. september sama árs. Af hálfu stefnda er ekki höfð uppi töluleg krafa til skuldajafnaðar vegna umræddra reikninga. Þá liggur ekkert fyrir í málinu um hvort og þá hvernig umræddir reikningar kunni að hafa verið greiddir af stefnda, að hluta eða í heild, svo sem stefnandi heldur fram. Eins og kröfugerð stefnda er háttað, og málið liggur fyrir dóminum að öðru leyti, er ekki unnt að taka afstöðu til hugsanlegrar kröfu stefnda á hendur stefnda vegna umræddra matarreikninga. Verður því ekki frekar um þá fjallað.

B

Fyrrgreind skaðabótakrafa stefnda, sem hann hefur uppi til skuldajafnaðar, er í fimm liðum. Fyrstu þrír liðirnir eru grundvallaðir á því að dráttur hafi orðið á verki stefnanda sem hafi valdið stefnda tjóni sem stefnandi beri ábyrgð á. Eru nánari fjárhæðir kröfuliða grundvallaðar á þeim kostnaði sem stefndi telur sig hafa haft af því að vinna tiltekna verkhluta, sem stefnandi átti að sjá um sjálfur, svo og þeim beina og óbeina kostnaði sem hlaust af því að halda mönnum, tækjum og aðstöðu vegna þessarar ráðstöfunar.

Í verkfundagerðum sem lagðar hafa verið fram í málinu er að því vikið á fleiri stöðum að tilteknir verkhlutar séu á eftir áætlun, þar á meðal verkhlutar sem stefnandi framkvæmdi. Slík ályktun verður einnig dregin af þeirri verkáætlun sem fylgdi samningi aðila dagsettum 1. nóvember 2004 og fyrirliggjandi upplýsingum um framgang verksins. Í verkfundagerðum sér þess hins vegar hvergi stað að stefndi hafi gert kröfu um bætur vegna efndadráttar, tafabætur eða með öðrum hætti áskilið sér rétt vegna tafa á verkinu. Þá er upplýst í málinu að ekki voru haldnir sérstakir verkfundir aðalverktaka og undirverktaka, þar sem slíkar kröfur hefðu komið fram eða áskilnaður um slíkar kröfur kynni að hafa verið gerður. Gegn mótmælum stefnanda verður því talið ósannað að stefndi hafi tilkynnt stefnanda með einhverjum hætti að hann teldi sig eiga rétt á skaðabótum vegna efndadráttar áður en lokaúttekt verksins hófst 10. september 2005.

Samkvæmt gögnum málsins fékk stefndi, sem aðalverktaki umrædds verks, framlengdan frest til að ljúka verkinu til 28. júlí 2005. Í munnlegum skýrslum við aðalmeðferð málsins kom jafnframt fram, að af hálfu verkkaupa, hefði verið látið athugasemdalaust þótt verkskil hefðu dregist einhverjar vikur umfram þennan fram­lengda frest. Fá þessir framburðir einnig stoð í orðsendingu eftirlitsmanns verkkaupa til Jörgens Hrafnkelssonar, verkefnisstjóra stefnda, 29. ágúst 2005, þar sem skorað er á stefnda að hraða verkinu eins og kostur væri og minnt á rétt verkkaupa til að innheimta dagsektir. Í rafskeyti, sem nefndur Jörgen sendi eftirlitsmanni 30. ágúst 2005 í tilefni af framangreindri orðsendingu, kemur hins vegar fram sú afstaða stefnda að tafir á verkinu hafi orsakast af ýmsum atriðum sem séu á ábyrgð verkkaupa, meðal annars vegna magnbreytinga, breytinga á hönnun og ýmissa ófyrirsjáanlegra atvika. Verður ekki önnur ályktun dregin af skeytinu, svo og skýrslum fyrir dómi, en að dráttur á verkhluta stefnanda kunni, a.m.k. að einhverju leyti, hafa verið talinn afsakanlegur af hálfu stefnda og orsakast af atvikum á ábyrgð verkkaupa. Ekki verður því á það fallist að við lok verksins hafi með einhverjum hætti legið fyrir að stefndi teldi sig eiga rétt til bóta úr hendi stefnanda vegna tafa á verkinu.

Ýmislegt í gögnum málsins gefur til kynna óánægju stefnda með þann drátt sem varð á verki stefnanda. Á svonefndum uppgjörsfundi sem haldinn var 2. október 2005 kemur þannig fram að starfsmaður stefnda hafi vakið athygli fyrirsvarsmanns stefnanda á því að ekki hafi verið „reikningsfærð vinna við að verja seinagang G&t gagnvart verkkaupa og af hverju væri ekki unnið samkvæmt verkáætlunum, af hverju væri ekki bætt við mannskap og jafnvel settar vaktir eins og G&t hafði lofað til að halda tímaáætlun o.s.frv.“ Hvorki á þessum fundi né á öðrum uppgjörsfundi, sem haldinn var 11. október 2005, mun þó hafa verið höfð uppi krafa um skaðabætur af hálfu stefnda eða áskilnaður gerður um slíka kröfu. Að öllu virtu verður að leggja til grundvallar í málinu að slík krafa hafi ekki komið fram fyrr en með greinargerð stefnda fyrir héraðsdómi 27. apríl 2006.

Samkvæmt almennum reglum kröfuréttar bar stefnda að tilkynna stefnanda um að hann hygðist bera fyrir sig efndadrátt hans innan hæfilegs tíma. Á þetta því frekar við að stefndi er fyrirtæki sem sérhæfir sig bygginga- og mannvirkjagerð í atvinnuskyni. Eins og áður greinir fór lokaúttekt verksins fram í september 2005 án þess að séð verði að stefndi hafi á þeim tíma haft uppi áskilnað um bætur vegna efndadráttar stefnanda. Samkvæmt þessu liðu meira en sjö mánuði frá lokaúttekt verksins, þar til stefndi hafði uppi kröfu um bætur. Samkvæmt málatilbúnaði stefnda sjálfs mun fyrsta tilefni til þess að hafa uppi kröfu um efndabætur þó hafa risið löngu fyrir lokaúttekt eða um vorið 2005. Staðhæfingar stefnda um að áskilnaður hafi verið hafður uppi munnlega um skaðabætur eru ósannaðar gegn mótmælum stefnanda.

Samkvæmt öllu framangreindu er það álit dómsins að stefndi hafi sýnt slíkt tómlæti að réttur hans til bóta vegna hugsanlegs efndadráttar stefnanda sé fallinn niður. Þegar af þessari ástæðu verður fyrstu þremur liðunum í gagnkröfu stefnanda hafnað. Gerist þess því ekki þörf að fjallað sé um hvort og þá að hvaða marki stefndi hafi fært sönnur á tjón sitt samkvæmt umræddum kröfuliðum.

                  C

Fjórði liðurinn í skaðabótakröfu stefnda er grundvallaður á kostnaði sem stefndi telur sig hafa haft af því að aðstoða stefnanda við að ná bómu af krana sem lenti í óhappi og flytja hana auk þess að aðstoða hann við að afla efnis í þilkant. Um kröfuliðinn er vísað til tveggja reikninga sem gefnir voru út 26. apríl 2006, svo og tveggja reikninga Steypustöðvarinnar ehf. 20. apríl 2005 og 10. maí 2005 að samanlagðri fjárhæð 202.487. Af hálfu stefnanda hefur þessum reikningum verið mótmælt, bæði að því er varðar greiðsluskyldu og fjárhæðir.

Hafa ber í huga að þótt umræddur kröfuliður stefnda sé að hluta til byggður á útgefnum reikningum stefnda er hér um að ræða skaðabótakröfu vegna tjóns sem stefndi telur sig hafa orðið fyrir vegna vanefnda stefnanda. Athugast að stefndi lítur ekki svo á að hér sé um að ræða þjónustu við stefnanda sem rúmist innan 5. gr. samnings aðila dagsetts 1. nóvember 2004, enda væru einingaverð í reikningunum ósamrýmanleg þeirri afstöðu. Hvergi í málatilbúnaði stefnda er að finna reifun á bótagrundvelli eða bótafjárhæð vegna umræddra atvika. Jafnvel þótt talið yrði að umrædd krafa um skaðabætur væri nægilega snemma fram komin er hún því svo vanreifuð að dóminum er ómögulegt að taka efnislega afstöðu til hennar. Er óhjákvæmilegt að hafna kröfuliðnum þegar af þessari ástæðu.

 Fimmti liður skaðabótakröfu stefnda lýtur að rýrnun efnis í fyllingu botns. Telur stefndi að þetta hafi leitt til aukinnar efnisöflunar og beri stefnandi ábyrgð á 2.509 rúmmetrum af efni sem svari til 890.793 króna. Ekki verður séð að stefndi hafi haft uppi umrædda kröfu eða áskilnað um hana á verkfundum. Gera verður ráð fyrir að mælingum og yfirferðum á því magni efnis sem fór í botn sé löngu lokið án þess að fram hafi komið athugsemdir af hálfu stefnda. Þá ber að hafa í huga að lokaúttekt verksins fór fram í september 2005 án þess að þá væri höfð uppi krafa eða áskilnaður um kröfu vegna umrædds magns efnis. Er það álit dómsins að hugsanleg krafa stefnanda vegna rýrnunar efnis í botnfyllingu sé fallin niður fyrir tómlæti stefnda. Víkur þá að varakröfu stefnda um að honum sé heimilt að skuldajafna kröfu um samningsákveðnar tafabætur eða dagsektir við stefnukröfu.

D

Í 2. gr. samnings aðila dagsetts 1. nóvember 2004 er að finna tilvísun til samnings stefnda við verkkaupa og þeirra gagna sem þar var vísað til, m.a. útboðsgagna og ÍST 30:1997 með sérskilmálum Flugmálastjórnar, Siglingastofnunar og Vegagerðarinnar. Umrædda tilvísun verður að skilja svo að stefnanda, sem undirverktaka, hafi borið að vinna þá verkhluta sem vísað var til í samningnum í samræmi við tiltekna skilmála í samningi stefnda, sem aðalverktaka, við verkkaupa. Hins vegar verður tilvísunin ekki skilin á þá leið að heimildir verkkaupa í þeim samningi, til að beita stefnda dagsektum, hafi með þessu átt við um lögskipti stefnda og stefnanda máls þessa. Hvergi í samningi aðila dagsettum 1. nóvember 2004 er að finna heimild til handa stefnda  til að beita dagsektum. Þegar af þessum ástæðum verður að hafna umræddri kröfu stefnda um slíkar bætur. Gerist þess því ekki þörf að fjallað sé um nánari skilyrði beitingar dagsekta samkvæmt 25. kafla ÍST 30:1997.

E

Samkvæmt framangreindu verður málsástæðum og gagnkröfum stefnda hafnað. Verða kröfur stefnanda teknar til greina með þeirri lækkun sem áður er gerð grein fyrir.

Af gögnum málsins verður ekki ráðið að stefndi hafi haldið greiðslum eða áskilið sér rétt til vanefndaúrræða sökum þess að verktrygging lá ekki fyrir fyrr en 20. september 2005. Þegar af þessari ástæðu verður ekki á það fallist með stefnda að stefnanda sé óheimilt að reikna dráttarvexti á reikninga sína fyrir þennan tíma. Eins og áður greinir er ekki lengur ágreiningur um gjalddaga reikninga stefnanda samkvæmt samningi aðila. Verður krafa stefnanda um dráttarvexti því tekin til greina eins og nánar greinir í dómsorði.

Eftir úrslitum og umfangi málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem ákveðst hæfilegur 1.100.000 krónur. Hefur þá ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Af hálfu stefnanda flutti málið Þorsteinn Einarsson hrl.

Af hálfu stefnda flutti málið Erla S. Árnadóttir hrl.

Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan ásamt meðdóms­mönnunum Jónasi Elíassyni byggingarverkfræðingi og Ólafi Gíslasyni byggingar­verk­fræðingi.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Arnarfell ehf., greiði stefnanda, Gáma- og tækjaleigu Austurlands ehf., 44.422.573 krónur ásamt dráttarvöxtum af 28.962.299 krónum frá 10. júlí 2005 til 29. júlí 2005, af 26.462.299 krónum frá þeim degi til 3. ágúst 2005, af 32.119.374 krónum frá þeim degi til 4. ágúst 2005, af 37.028.494 krónum frá þeim degi til 12. ágúst 2005, af 32.028.494 krónum frá þeim degi til 11. september 2005, af 39.796.674 krónum frá þeim degi til 20. desember 2005, en af 57.052.980 krónum frá þeim degi til 26. maí 2006, en af 44.422.573 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 1.100.000 krónur í málskostnað.