Hæstiréttur íslands
Mál nr. 563/2015
Lykilorð
- Niðurfelling máls
- Málskostnaður
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. ágúst 2015. Með bréfi til réttarins 12. febrúar 2016 tilkynnti áfrýjandi að hann félli frá áfrýjun málsins. Af hálfu stefnda er gerð krafa um málskostnað fyrir Hæstarétti.
Með vísan til c. liðar 1. mgr. 105. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður málið fellt niður fyrir Hæstarétti.
Samkvæmt 2. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 verður áfrýjanda gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Mál þetta er fellt niður.
Áfrýjandi, þrotabú Leiguvéla ehf., greiði stefnda, Lýsingu hf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. maí 2015.
Má þetta sem dómtekið var 22. maí 2015 var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, 25. nóvember 2013, af Lýsingu hf., Ármúla 3, Reykjavík, á hendur Leiguvélum ehf., Járnhálsi 2, Reykjavík.
Kröfur aðila
Stefnandi krefst þess að stefnda verði með dómi gert að rita undir beiðni til MP banka hf. um að öll innstæða bankareiknings stefnda nr. 0701-15-190055 verði greidd inn á bankareikning stefnanda nr. 0313-26-12420, að viðlögðum dagsektum að fjárhæð 250.000 krónur, er renni til stefnanda og verði fullnægingarfrestur skyldunnar 15 dagar frá uppkvaðningu dóms. Þá gerir stefnandi kröfu um að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, en verði slíkur reikningur ekki lagður fram þá samkvæmt mati dómsins.
Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af dómkröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi, sem lagður verði fram komi til aðalmeðferðar málsins.
Atvik máls
Stefnandi máls þessa er eignaleigufyrirtæki í merkingu 3. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Stefndi er félag sem á undanförnum árum hefur stundað útleigu og sölu á vinnuvélum til fyrirtækja í atvinnurekstri. Á tímabilinu 2002 til 2010 gerðu aðilar máls þessa með sér u. þ. b. 200 fjármögnunarleigusamninga um ýmsar vinnuvélar sem stefndi leigði og eftir atvikum seldi viðskiptamönnum sínum. Stefndi mun snemma árs 2012 hafa óskað eftir því við stefnanda að fá afsalað til sín vinnuvélum, sem voru andlög 29 gengistryggðra fjármögnunarleigusamninga aðila en stefndi hafði í hyggju að selja vélarnar til viðskiptamanna sinna. Á þessum tíma var uppi ágreiningur um lögmæti gengistryggingar fjármögnunarleigusamninga stefnanda en hinn 1. desember 2011 hafði fallið dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í málinu nr. E-5216/2010, Smákranar ehf. gegn Lýsingu hf., þar sem tiltekinn gengistryggður fjármögnunarleigusamningur stefnanda var talinn vera lánssamningur en ekki leigusamningur og því talið að gengistryggingarákvæði hans brytu í bága við ákvæði 13. gr., sbr. 14. gr. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og væru því ólögmæt. Dómi héraðsdóms var skotið til Hæstaréttar, 6. desember 2011, og fékk málið þar málsnúmerið 652/2011. Þá var ennfremur á þessum tíma talið óljóst hvort dómur Hæstaréttar í málinu nr. 600/2011, Sigurður Hreinn Sigurðsson og María Elvira Pinedo gegn Frjálsa Fjárfestingarbankanum hf., gæti haft áhrif á uppgreiðsluverð fjármögnunarleigusamninga aðila, ef svo færi að Hæstiréttur staðfesti framangreindan dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 1. desember 2011. Með hliðsjón af þessari réttar-óvissu og þá einkum um lögmæti gengistryggingar umræddra 29 fjármögnunarleigu-samninga aðila og efasemda sem stefndi hafði að sögn um fjárhagslega stöðu stefnanda, ef til þess kæmi að dómur í málinu nr. 652/2011 félli stefnanda í óhag, gerðu aðilar með sér, 16. mars 2012, handveðssamning þann sem um er deilt í máli þessu. Var tilgangur hans m. a. að gera stefnda kleift að selja framangreindar vinnuvélar til viðskiptamanna sinna að undangenginni eignayfirfærslu frá stefnanda, án þess að uppgreiðsluverð skv. fjármögnunarleigusamningunum rynni til stefnanda, fyrr en framangreindri réttaróvissu varðandi gengistrygginguna hefði verið eytt. Með handveðssamningnum, 16. mars 2011, setti stefndi stefnanda að handveði alla innstæðu á tilgreindum bankareikningi stefnda í MP banka hf. eins og hún yrði á hverjum tíma en við undirritun samningsins var innstæðan 136.517.000 krónur. Var innstæðan sett að handveði til tryggingar fullnaðargreiðslu á þeim 29 fjármögnunarleigusamningum sem áður er vísað til og tilgreindir eru í veð-samningnum með samningsnúmerum. Með viðaukasamningi við handveðs-samninginn, 16. maí 2012, heimilaði stefnandi stefnda að selja eina vinnuvél til viðbótar, samkvæmt tilgreindum fjármögnunarleigusamningi, gegn greiðslu inn á hinn veðsetta bankareikning að fjárhæð 5.300.000 krónur. Samhliða framangreindri handveðsetningu afsalaði stefnandi til stefnda öllum þeim vinnuvélum sem voru andlag framangreindra 30 fjármögnunarleigusamninga.
Nánari grein verður gerð fyrir efni umrædds handveðssamnings í niðurstöðukafla dóms þessa.
Hinn 24. maí 2012 kvað Hæstiréttur Íslands upp dóm í málinu nr. 652/2011. Var niðurstaðan sú að hinn umdeildi fjármögnunarleigusamningur stefnanda og Smákrana ehf. væri leigusamningur en ekki lánssamningur og bryti gengistryggingarákvæði hans því ekki gegn ákvæðum 13. gr., sbr. 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Hinn 1. júní 2012 fór stefnandi þess á leit við stefnda, með vísan til framangreinds dóms Hæstaréttar í málinu nr. 652/2011, að stefndi ritaði undir beiðni til MP banka hf. um að öll innstæða á hinum handveðsetta bankareikningi stefnda hjá bankanum yrði greidd inn á tilgreindan reikning stefnanda. Með bréfi 11. apríl 2013 skoraði lögmaður stefnanda á stefnda að rita undir úttektarbeiðnina. Með bréfi 16. apríl 2013 hafnaði stefndi beiðninni með þeim rökum að dómur Hæstaréttar í málinu nr. 652/2011 hefði ekki eytt þeirri óvissu hvort fjármögnunarleigusamningar stefnanda og stefnda fælu í sér ólögmæta gengistryggingu og hefði stefndi í undirbúningi málshöfðun á hendur stefnanda til að eyða þeirri óvissu.
Í máli þessu greinir aðila á um túlkun handveðssamningsins frá 16. mars 2012. Af hálfu stefnanda er á því byggt að skilyrði samningsins fyrir útgreiðslu til stefnanda hafi komið fram með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 652/2011 en í honum hafi Hæstiréttur staðfest að tiltekinn fjármögnunarleigusamningur stefnanda, sem sé í öllum grundvallaratriðum sama efnis og þeir 30 fjármögnunarleigusamningar, sem falli undir veðsamninginn frá 16. mars 2012 séu leigusamningar en ekki lánssamningar og gengistryggingarákvæði þeirra því gild. Af hálfu stefnda er hins vegar á því byggt að umræddur dómur Hæstaréttar í málinu nr. 652/2011 hafi ekki fordæmisgildi varðandi ágreining stefnanda og stefnda um gengistryggingu samninganna og því eigi stefnandi ekki kröfu til greiðslu hinnar handveðsettu innstæðu nema að undangengnu samþykki stefnda, sem ekki hafi verið veitt.
Málsástæður stefnanda og tilvísun til réttarheimilda
Stefnandi byggir á því að þar sem niðurstaða dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 652/2011 hafi verið sú að gengistrygging fjármögnunarleigusamninga stefnanda væri lögleg hafi ákvæði 5. gr. a. í handveðssamningi aðila orðið virk og að í samræmi við 5. gr. a og lokamálslið 5. gr. handveðssamningsins eigi stefnandi rétt á að öll innstæða á tilgreindum bankareikningi stefnda hjá MP banka verði greidd til stefnanda. Í handveðssamningi aðila í 5. gr. a. segi:
„Ef endanlega niðurstaða Hæstaréttar Íslands í því dómsmáli sem vikið er að í gr. 4. a. í samningi þessum verður á þann veg að gengistrygging fjármögnunarleigusamninga veðhafa sé lögmæt skal veðhafa vera heimilt að krefjast þess gagnvart vörsluaðila að öll innstæða á hinum handveðssetta reikningi verði greidd inn á bankareikning veðhafa nr. 313-226-12420, að meðtöldum áföllnum vöxtum.“
Í lokamálslið 5. gr. handveðssamningsins segi:
„Í samræmi við framangreind skilyrði munu samningsaðilar óska eftir útgreiðslu með undirritaðri beiðni beggja aðila þar um sem send er vörsluaðila. Það er skilyrði fyrir útborgun að vörsluaðili fái senda framangreinda undirritaða beiðni. Sé ágreiningur á milli samningsaðila að öðru leyti vegna fyrirhugaðrar útgreiðslu skuldbinda þeir sig til þess að jafna þann ágreining, en takist það ekki, skal samningsaðilum vera heimilt að skjóta ágreiningi sínum til Héraðsdóms Reykjavíkur sbr. 8. gr. samnings þessa.“
Stefnandi byggi á því að í handveðssamningi aðila sé skýrt kveðið á um það hvernig fara eigi með útgreiðslu af hinum handveðssetta reikningi falli dómur Hæstaréttar í máli nr. 652/2011 á þá leið að gengistrygging skv. fjármögnunarleigusamningi stefnanda sé lögmæt. Stefnandi telji því öll skilyrðin í hinum handveðssetta samningi uppfyllt, og að mótrök stefnda í áðurnefndu bréfi, dags. 16. apríl 2013, eigi ekki við þar sem handveðssamningurinn sé skýr um það hvenær stefnda beri skylda til þess að undirrita úttektarbeiðni. Telji stefnandi því ákvæði 5. gr. handveðssamningsins vera orðið virkt og að fallast beri á dómkröfu stefnanda um að stefnda verði gert að þola dóm um að rita undir beiðni til MP banka hf. um að öll innstæða nánar tilgreinds bankareiknings stefnda verði greidd inn á bankareikning stefnanda, að viðlögðum dagsektum, er renni til stefnanda og verði fullnægingarfrestur skyldunnar 15 dagar frá uppkvaðningu dóms.
Um rétt stefnanda vísist til almennra reglna kröfu-, veð- og samningaréttar. Um varnarþing vísist til 1. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um dagsektir sé byggð á heimild í 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og styðjist fjárhæð dagsekta við dómafordæmi, sem reifuð verði við aðalmeðferð, komi til hennar. Krafa um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður stefnda og tilvísun til réttarheimilda
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að skilyrði greinar 5.a. í samningi aðila um handveð, eins og þá grein beri að túlka, séu ekki uppfyllt í málinu. Ekki sé búið að eyða þeirri réttaróvissu sem verið hafi ástæða þess að samningurinn um handveð hafi verið gerður og vikið sé að í grein 5.a.. Beri því að hafna kröfum stefnanda. Kröfur stefnanda byggist á umræddri grein 5.a., en þar segi:
„Ef endanleg niðurstaða Hæstaréttar Íslands í því dómsmáli sem vikið er að í gr. 4.a. verður á þann veg að gengistrygging fjármögnunarleigusamninga veðhafa sé lögmæt skal veðhafa vera heimilt að krefjast þess gagnvart vörsluaðila að öll innstæða á hinum handveðsetta reikningi verði greidd inn á bankareikning veðhafa [...]“
Stefndi byggi á því að allir fjármögnunarleigusamningar stefnanda og stefnda, sem heyri undir samning aðila um handveð frá 16. mars 2012 og viðaukasamning frá 16. maí 2012 séu í reynd lánssamningar í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Samkvæmt VI. kafla þeirra laga, einkum 13. og 14. gr., og dómafordæmum Hæstaréttar sé ólögmætt að gengistryggja lánsfjárhæðir og séu samningsákvæði af þeim toga óskuldbindandi fyrir lántaka. Til stuðnings því að fjármögnunarleigusamningar máls þessa séu lánssamningar sem óheimilt sé að gengistryggja samkvæmt framangreindu, sé vísað til eftirfarandi atriða:
1. Stefndi vísi til dóma Hæstaréttar í málum nr. 282/2011, nr. 652/2011, auk fleiri dóma sem lagðir verði fram við aðalmeðferð málsins. Af téðum dómum megi ráða að við úrlausn málsins þurfi að greina á milli kaupleigusamninga annars vegar og fjármögnunarleigusamninga hins vegar, en niðurstaða þeirrar aðgreiningar ráði því hvort heimilt sé að gengistryggja endurgreiðslur samkvæmt samningi eða ekki. Hæstiréttur hafi tilgreint að munurinn á þessum tveimur tegundum samninga sé sá, að með kaupleigusamningi eignist leigutaki samningsandlagið við lok samningstíma eða eignist kauprétt að honum, en við lok fjármögnunarleigusamninga verði leigutaki ekki eigandi hlutarins án þess að til frekari samninga komi. Samkvæmt dómum Hæstaréttar í málum nr. 153/2010 og nr. 92/2010 liggi fyrir að óheimilt sé að gengistryggja greiðslur samkvæmt kaupleigusamningum þar sem líta beri á slíka samninga sem lánssamninga sem heyri undir VI. kafla laga nr. 38/2001.
2. Ákvörðun þess hvort um sé að ræða lánssamning sem óheimilt sé að gengistryggja skv. ákvæðum VI. kafla laga nr. 38/2001 ráðist af því hvort stefnandi og stefndi hafi samið þannig að stefndi myndi í lok grunnleigutíma annað hvort eignast hið leigða eða öðlast kauprétt að því. Telji stefndi ótvírætt að svo hafi verið.
3. Ákvæði fyrirliggjandi fjármögnunarleigusamninga renni mörg hver stoðum undir það að um lánssamning sé að ræða frekar en leigusamning. Sem dæmi megi nefna að með ákvæðum 16., 17., 19., 20., 23., 26. og 30. gr. hafi stefndi undirgengist skyldur og ábyrgðir sem öllu jöfnu hvíli á lántakendum (eigendum lausafjár) en ekki á leigutökum. Samningarnir hafi verið einhliða samdir af hálfu stefnanda og með vísan til andskýringarreglu samningaréttarins beri að túlka samning aðila, að því leyti sem hann kunni að þykja óljós, stefnda í hag.
4. Þegar um leigusamninga sé að ræða þurfi ekki að tilgreina höfuðstól en slíkt þurfi eðli málsins samkvæmt að gera í lánssamningum. Í samningum máls þessa sé ávallt í 2. gr. tilgreindur „leigugrunnur“ sem sé í raun samningsfjárhæðin eða höfuðstóllinn. Þá sé höfuðstóllinn sérstaklega tilgreindur í reglulegum yfirlitum yfir stöðu samninganna sem stefnandi hafi sendt stefnda.
5. Að sama skapi bendi fyrirkomulag vaxtaákvörðunar og afborgana, sbr. 5. og 10. gr. samningana, til þess að um lánssamning sé að ræða, en leigugreiðslur beri almennt ekki vexti. Með hverjum samningi hafi fylgt greiðsluyfirlit þar sem greiðslum stefnda hafi verið skipt upp í vexti, afborgunarhluta og eftirstöðvar hverju sinni. Ávallt hafi verið tiltekið sérstaklega hið umsamda lokaverð sem verið hafi lokagreiðsla fyrir hvern samning á síðasta gjalddaga grunnleigutímans.
6. Lokagreiðslan hafi ekki verið valkvæð fyrir stefnda né hafi sérstakt samþykki stefnanda þurft til, heldur hafi þvert á móti verið um skyldubundna greiðslu að ræða sem stefnda hafi borið að inna af hendi. Lokagreiðslan hafi jafngilt markaðsverðmæti hlutaðeigandi vélar á þeim tíma og fráleitt að ætla að stefnandi myndi halda vélinni í sinni eigu eftir lok grunnleigutíma þrátt fyrir að stefndi hefði endurgreitt að fullu þá lánveitingu sem fjármögnun stefnanda hafi falið í sér.
7. Umsamdar greiðslur stefnda til stefnanda hafi eingöngu tekið mið af upphaflegum leigugrunni (höfðuðstól) að viðbættum samningsvöxtum og vaxtaálagi. Þetta fyrirkomulag svari til endurgreiðslu á láni, en ekki leigu þar sem leigugreiðslur miðist almennt við raunverulegt verðmæti hins leigða og markaðsaðstæður hverju sinni.
8. Í fyrirliggjandi tölvupóstum aðila sé að finna dæmi til stuðnings því að um lánsviðskipti hafi verið að ræða fremur en leiguviðskipti, og að stefndi hafi sannarlega átt rétt á því að eignast hlutaðeigandi vél gegn uppgreiðslu samnings eða í lok grunnleigutíma.
9. Líta verði til þess um hvað raunverulega hafi verið samið en ekki eingöngu til orðalags hinna stöðluðu samningsforma sem notuð hafi verið. Viðskiptasaga og samskipti aðila árum saman, sýni fram á að stefndi hafi bæði átt rétt og skyldu til að greiða eftirstöðvar samninganna í síðasta laga í lok grunnleigutíma, og að það hafi ávallt verið raunin án þess að það hafi nokkru sinni sætt athugasemdum af hálfu stefnanda fyrr en árinu 2012.
10. Regluleg yfirlit stefnanda til stefnda um stöðu óuppgerðra fjármögnunarleigu-samninga tilgreini höfuðstól og eftirstöðvar samnings, en lokagjald sé tiltekið kr. 0. Sýni það fram á að stefndi hafi ekki þurft að semja sérstaklega við stefnanda um rétt til að eignast „hið leigða“ heldur hafi beinlínis verið gert ráð fyrir því í samningi aðila að eftirstöðvar samnings hverju sinni fælu í sér fullnaðargreiðslu.
11. Til stuðnings því að kaupskylda stefnda hafi verið til staðar á hlutaðeigandi tæki, sé enn fremur vísað til þess að stefnandi hafi stundum farið fram á ábyrgðaryfirlýsingu frá erlendum framleiðendum hlutaðeigandi véla þar sem þeir ábyrgðust að kaupa vélarnar af stefnanda í lok grunnleigutíma á sama verði og stefndi hafði skuldbundið sig til að gera, ef stefndi hefði af einhverjum ástæðum ekki fjárhagslegt bolmagn til að gera það.
12. Stefndi vísi til skýrslna sem starfsmenn stefnanda hafi gefið í máli nr. E-3286/2012 hjá Héraðsdómi Reykjavíkur, að því leyti sem þær eigi við, um eðli fjármögnunarleigusamninga stefnanda. Þar hafi fjölmargir starfsmenn stefnanda staðfest, þar á meðal þrír fyrrverandi framkvæmdastjórar félagsins, að við lok grunnleigutíma fjármögnunarleigusamninga stefnanda, hafi leigutakar átt rétt á því að eignast hið leigða gegn greiðslu fyrirfram ákveðinnar fjárhæðar. Jafnframt vísist til umfjöllunar í sama dómi þar sem því sé slegið föstu að á heimasíðu stefnanda á árunum 2006, 2008, 2009 og 2010 hefði komið fram að leigutakar samkvæmt fjármögnunarleigusamningum ættu þess kost í lok grunnleigutíma að kaupa hið leigða á fyrirfram ákveðnu verði. Þessi texti hafi nú verið fjarlægður af heimasíðu stefnanda.
13. Í samræmi við kaupskyldu stefnda í lok grunnleigutíma hafi hann eignfært hið leigða í bókhaldi sínu og ársreikningum. Í fyrirliggjandi ársreikningum stefnda sjáist hvernig vélar sem heyri undir fjármögnunarleigusamninga, þar á meðal samninga máls þessa, hafi ávallt verið tilgreindar sem eignir (fjárfestingaeignir). Ársreikningarnir hafi árum saman verið kynntir og afhentir stefnanda sem hafi aldrei gert athugasemdir við þessa eignfærslu stefnda. Þá vísi stefndi til ársreikninga stefnanda þar sem útlán og kröfur samkvæmt fjármögnunarleigusamningum séu færð til eignar hjá stefnanda, en vélarnar sjálfar, þ.e. andlag samninganna, ekki verið eignfærðar. Þetta bendi til þess að formleg skráning eignarhalds hjá stefnanda skv. 15. gr. samninganna hafi aðeins verið til tryggingar á réttum efndum, en að raunverulegt eignarhald hafi verið hjá stefnda. Í ljósi alls framangreinds telji stefndi sannað að aðilar hafi samið þannig, að við gerð fjármögnunarleigusamninga aðila að stefndi hafi átt að eignast hið leigða við lok grunnleigutíma á fyrirfram umsömdu lokaverði. Með hliðsjón af dómum Hæstaréttar í málum nr. 92/2010, nr. 153/2010, nr. 282/2011 og nr. 652/2011 teljist því fjármögnunarleigusamningar máls þessa lánssamningar í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001 sem óheimilt hafi verið að gengistryggja.
14. Lög nr. 38/2001 heimili ekki að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla. Ákvæði 13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laganna, séu ófrávíkjanleg og því óheimilt að semja um grundvöll verðtryggingar sem ekki sé stoð fyrir í lögum. Verðtryggingarákvæði samninganna skv. gengi erlendra gjaldmiðla séu því óskuldbindandi fyrir stefnda. Í ljósi framangreindra dómafordæma Hæstaréttar liggi fyrir að samningar máls þessa feli í sér skuldbindingu í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla. Sérstaklega sé tekið fram á forsíðu samninganna að þeir séu „gengistryggðir“. Höfuðstóll eða „leigugrunnur“ sé tilgreindur í 2. gr. í íslenskum krónum en síðan sé sundurliðað í nánar tilgreindum hlutföllum hvernig krónufjárhæðin sé bundin við gengi viðeigandi erlends gjaldmiðils. Þá vísist enn fremur til 14. gr. samninganna til stuðnings því að um gengistryggða samninga sé að ræða.
Samkvæmt framangreindu telji stefndi ljóst að fjármögnunarleigusamningar stefnanda og stefnda, sem heyri undir samning þeirra um handveð og viðaukasamning, feli í sér ólögmæta gengistryggingu og enn fremur að niðurstaða dóms Hæstaréttar í málinu nr. 652/2011 hafi ekki fordæmisgildi gagnvart umræddum fjármögnunarleigusamningum. Ef heimfæra eigi niðurstöðu Hæstaréttar yfir á samningssamband stefnanda og stefnda sé rökréttast að gagnálykta af niðurstöðunni með þeim hætti að fjármögnunarleigusamningar aðila verði taldir lánssamningar með ólögmætri gengistryggingu, enda hafi verið samið þann veg að stefndi myndi eignast hið leigða við lok grunnleigutíma á fyrirfram ákveðnu verði. Þar sem grein 5.a. í samningi um handveð um það hvenær stefnandi geti krafist útgreiðslu, byggist alfarið á þeirri forsendu að lögmætt hafi verið að gengistryggja fjármögnunarleigusamninga stefnanda og stefnda, sé ekki unnt að telja skilyrði þeirrar greinar uppfyllt. Túlka verði ákvæði greinar 5.a. í samræmi við tilgang samningsins í heild sinni og önnur ákvæði hans, einkum 4. grein. Í 4. grein segi að samningurinn sé gerður „vegna tvenns konar réttaróvissu“ sbr. grein 4.a. og 4.b. Nánar tiltekið lúti réttaróvissan að því hvort fjármögnunarleigusamningar stefnanda og stefnda feli í sér ólögmæta gengistryggingu, og ef svo sé hvaða reglur gildi um endurútreikning á skuldastöðu aðila. Samkvæmt framansögðu sé ekki búið að eyða þeirri réttaróvissu sem verið hafi grundvöllur samnings aðila um handveð. Dómur Hæstaréttar í málinu nr. 652/2011 svari ekki endanlega þeirri spurningu hvort heimilt hafi verið að gengistryggja fjármögnunarleigusamninga stefnanda og stefnda, heldur einungis þann samning sem til umfjöllunar hafi verið í því máli. Tilvísun í grein 5.a. til dóms Hæstaréttar í máli nr. 652/2011 hafi vitaskuld verið háð þeirri forsendu að sá dómur myndi hafa afdráttarlaust og ótvírætt fordæmisgildi gagnvart fjármögnunarleigusamningum stefnanda og stefnda. Niðurstaða Hæstaréttar í umræddu máli hafi hins vegar verið þannig að fordæmisgildið gagnvart stefnanda sé ekkert, nema með gagnályktun stefnda í vil. Af forsendum dómsins sé ljóst að málsatvik hafi ekki verið með sama hætti og tilteknar forsendur verið lagðar til grundvallar dómsniðurstöðunni sem eigi alls ekki við um samningssamband stefnanda og stefnda. Til að mynda telji stefndi ótvírætt að í öllum fjármögnunarleigusamningum hans og stefnanda hafi verið um það samið að stefndi myndi eignast hið leigða gegn fyrirfram ákveðinni greiðslu, öfugt við það sem Hæstiréttur hafi talið í máli nr. 652/2011. Nauðsynlegt sé að afla sjálfstæðs dóms um það hvort fjármögnunarleigusamningar stefnanda og stefnda fela í sér ólögmæta gengistryggingu, enda svari dómur Hæstaréttar í máli nr. 652/2011 ekki þeirri spurningu. Þar til slíkur dómur liggi fyrir sé útilokað að fallast á kröfur stefnanda um útgreiðslu af hinum handveðsetta reikningi. Samkvæmt lokamálslið 5. gr. samnings um handveð hafi aðilar heimild til að afla sjálfstæðs dóms um ágreining í tengslum við útgreiðslu af hinum handveðsetta reikningi. Undir þessa heimild hljóti að falla ágreiningur um hvort dómur í málinu nr. 652/2011 hafi fordæmisgildi gagnvart stefnda og hvort fjármögnunarleigusamningarnir feli í sér ólögmæta gengistryggingu. Samkvæmt grein 4.c. í samningnum um handveð sé tekið fram að stefnandi (veðhafi) geti neitað útgreiðslu af handveðsreikningnum ef dómur í máli nr. 652/2011 væri að hans mati ekki fordæmisgefandi fyrir aðra fjármögnunarleigusamninga félagsins og að ágreiningur þess efnis skyldi lagður fyrir dómstóla til úrlausnar. Hvergi segi að stefndi hafi ekki þennan sama rétt og væri í reynd ósanngjarnt og óeðlilegt með öllu að veita öðrum samningsaðilanum umfram hinn rétt til að bera réttmætan og eðlilegan ágreining undir dómstóla. Samningurinn um handveð hafi verið saminn af stefnanda sem sé sérfræðingur á sviði fjármögnunar- og lánastarfsemi, og því beri að túlka ákvæði samningsins, að því leyti sem þau þyki óskýr, stefnda í hag. Af hálfu stefnda hafi ávallt verið litið svo á að hann hefði sama rétt og stefnandi til að leita sjálfstæðs dóms um lögmæti gengistryggingar fjármögnunarleigusamninga félagsins, sem endurspeglist sem fyrr segi í lokamálslið 5. gr. samnings um handveð. Samkvæmt öllu framangreindu telji stefndi að túlka eigi grein 5.a. í samningnum um handveð í samræmi við megintilgang samningsins um að útgreiðsla fari ekki fram fyrr en réttaróvissu um lögmæti gengistryggingar fjármögnunarleigusamninga stefnanda og stefnda hafi verið eytt. Þar sem þeirri óvissu hafi ekki verið eytt, og verði ekki gert fyrr en með sjálfstæðum dómi þess efnis, þá verði að sýkna stefnda af kröfum stefnanda þar sem skilyrði til útgreiðslu af hinum handveðsetta reikningi samkvæmt samningi aðili séu ekki til staðar. Til viðbótar við framangreind lagarök sé vísað til meginreglna samninga-, kröfu- og veðréttar. Þá sé vísað til sjónarmiða um andskýringarreglu samningaréttarins og sjónarmiða að baki samræmisskýringu. Krafa stefnda um málskostnað grundvallist á 130. gr. og 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Forsendur og niðurstaða
Í máli þessu greinir aðila á um túlkun á samningi þeirra um handveð, dags. 16. mars 2012. Lýtur ágreiningurinn að því hvort stefnda sé með vísan til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 652/2011, skylt að ljá atbeina sinn til þess að innstæða á tilgreindum veðsettum bankareikningi stefnda hjá MP banka verði greidd inn á tilgreindan reikning stefnanda hjá sama banka.
Stefnandi byggir á því að þar sem niðurstaða dóms Hæstaréttar í málinu nr. 652/2011 hafi verið að gengistrygging fjármögnunarleigusamninga stefnanda sé lögleg, hafi ákvæði 5. gr. a. í handveðssamningi aðila orðið virkt og eigi stefnandi í samræmi við ákvæðið og lokamálslið 5. gr. samningsins rétt á að öll innstæða á hinum veðsetta reikningi stefnda hjá MP banka verði greidd til stefnanda.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að skilyrði 5. gr.a. í handveðssamningi aðila, fyrir greiðslu hinnar veðsettu innstæðu til stefnanda, eins og þá grein beri að túlka, séu ekki uppfyllt. Ekki sé búið að eyða þeirri réttaróvissu sem verið hafi ástæða þess að samningurinn um handveð hafi verið gerður og vikið sé að í grein 5.a.. Beri því að hafna kröfum stefnanda. Stefndi byggi á því að allir þeir fjármögnunarleigusamningar stefnanda og stefnda, sem heyri undir umræddan handveðssamning, séu í reynd lánssamningar í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Samkvæmt ákvæðum kaflans, sbr. einkum 13. og 14. gr. og dómafordæmum Hæstaréttar sé ólögmætt að gengistryggja lánsfjárhæðir og séu samningsákvæði af þeim toga óskuldbindandi fyrir lántaka. Ágreiningi aðila um lögmæti gengistryggingarinnar hafi ekki verið eytt með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 652/2011 og því séu skilyrði fyrir útgreiðslu skv. tilvitnuðum handveðssamningi ekki til staðar.
Eins og áður hefur verið rakið var handveðssamningur aðila, dags. 16. mars 2012, gerður í tilefni af þeirri réttaróvissu sem aðilar töldu að upp væri komin í framhaldi af dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, 1. desember 2011, í málinu nr. E- 5216/2010, Smákranar ehf. gegn Lýsingu hf.. Í dómnum var komist að þeirri niðurstöðu að tiltekinn fjármögnunarleigusamningur Lýsingar hf. og Smákrana ehf., sem í veigamiklum atriðum var sama efnis og þeir fjármögnunarleigusamningar aðila sem upp eru taldir í handveðssamningnum væri skv. efni sínu lánssamningur en ekki leigusamningur og gengistryggingarákvæði hans af þeirri ástæðu ógilt. Tilvitnuðum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur hafði, þegar handveðssamningurinn var gerður, verið áfrýjað til Hæstaréttar og hafði hann fengið málsnúmerið 652/2011.
Ákvæði 4. gr. handveðssamningsins endurspeglar framangreint en í ákvæðinu segir:
„Handveðssamningur þessi er gerður vegna tvenns konar réttaróvissu:
a. Annars vegar er uppi réttarágreiningur um það hvort gengistrygging fjármögnunarleigusamninga veðhafa sé heimil og er mál rekið fyrir Hæstarétti Íslands um álitaefnið, nánar tiltekið mál 652/2011 (Lýsing hf. gegn Smákrönum ehf.).
b. Hins vegar er enn óljóst hvort dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 600/2011 (Sigurður Hreinn Sigurðsson og María Elvira Mendez Pinedo gegn Frjálsa Fjárfestingarbanknaum hf.) hafi áhrif á mögulegan endurútreikning veðhafa á fjármögnunarleigusamningum aðila fari svo að Hæstiréttur Íslands staðfesti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli 652/2011 sem getið er um í a. lið hér að ofan. Hafa aðilar samnings þessa komist að samkomulagi um það hvernig veðsali geti innt af hendi til veðhafa greiðslur vegna uppgjöra á ofangreindum fjármögnunar-leigusamningum aðila, þar til endanlega hefur fengist úr því skorið hvort endurreikna þurfi fjármögnunarleigusamninga veðhafa og hvort áðurgreindur dómur í máli nr. 600/2011 muni hafa áhrif á slíkan endurútreikning. Þar sem veðsali hefur óskað eftir því að fá að selja leigumunina sem eru andlag þeirra fjármögnunarleigusamninga sem tilgreindir eru í 2. gr. samnings þessa, þá hafa aðilar samið um að veðsali leggi kr. 136. 517.000 af söluverðinu inn á handveðsettan reikning sem tilgreindur er í 1. gr. samnings þessa gegn því að veðhafi gefi út eigendaskipti á umræddum leigumunum til veðsala. Samkomulag er um að ekki verði gert uppgjör á umræddum fjármögnunarleigusamningum við eigendaskiptin heldur skuli samningarnir bera vexti í samræmi við efni þeirra. Að öðru leyti standa þeir óhreyfðir í bókum veðhafa á meðan handveðssamningur þessi er í gildi. Áðurgreind innstæða á handveðsreikningi skal standa til tryggingar kröfum veðhafa í stað leigumuna, þar til skorið hefur verið úr áðurgreindum réttarágreiningi um samningana eins og nánar er tilgreint í 5. gr. samnings þessa.“
Í gr. 5.a. í handveðssamningnum segir:
„Ef endanleg niðurstaða Hæstaréttar Íslands í því dómsmáli sem vikið er að í gr. 4. a. í samningi þessum verður á þann veg að gengistrygging fjármögnunarleigusamninga veðhafa sé lögmæt skal veðhafa vera heimilt að krefjast þess gagnvart vörsluaðila að öll innstæða á hinum handveðssetta reikningi verði greidd inn á bankareikning veðhafa nr. 313-26-12420, að meðtöldum áföllnum vöxtum. Í framhaldi af því mun veðhafi framkvæma uppgjör á þeim fjármögnunarleigusamningum sem tilgreindir eru í 2. gr. samnings þessa miðað við stöðu þeirra á þeim degi, gefa út reikninga með virðisaukaskatti og ráðstafa fjármunum inn á þá uppgjörsreikninga.“
Í gr. 5. c er svofellt ákvæði:
„Ef endanleg niðurstaða í dómsmáli því sem fjallað er um í 4. gr. a. í samningi þessum er að mati veðhafa ekki fordæmisgefandi fyrir aðra fjármögnunarleigusamninga félagsins getur veðhafi neitað því að peningar verði greiddir út af handveðsreikningnum til veðsala og skal þá vörsluaðili verða við þeirri ósk. Skulu þá aðilar samnings þessa reyna að leysa málið sín á milli en takist það ekki geta aðilar lagt málið fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur til að fá úr því skorið og fer um þá niðurstöðu skv. dómi réttarins nema málinu verði áfrýjað til Hæstaréttar Íslands.“
Í neðanmálsgrein við framangreint ákvæði segir til skýringa:
„Ástæða þess að veðhafi setur fyrirvara þennan í handveðssamninginn er sú að möguleiki er á að niðurstaðan verði ekki fordæmisgefandi varðandi aðra fjármögnunarleigusamninga veðhafa, t.d. ef um formgalla á málinu er að ræða eða að niðurstaðan ræðst af því að ákveðin sönnunargögn hafi ekki verið lögð fram af Lýsingu sem auðvelt er að koma að síðar í öðru máli.“
Þá segir í 5. gr. d.:
„Ef áður greint dómsmál nr. 652/2011 sem rekið er fyrir Hæstarétti Íslands, verður af einhverjum sökum fellt niður af aðilum þess, skulu aðilar handveðssamnings þessa semja sín á milli um framhald og breytingu á samningi þessum en takist þeim það ekki fellur samningurinn niður með skriflegri yfirlýsingu annars aðila samningsins um það. Falli samningurinn niður af þessum sökum skulu aðilar reyna að ná samkomulagi um það hvað verður um fjármuni sem þegar hafi verið greiddir inn á hinn handveðsetta reikning á grundvelli samningsins en takist þeim það ekki geta aðilar lagt ágreining sinn fyrir dómstóla á sama hátt og vikið er að í c. lið 5. gr. sbr. 8. gr. samnings þessa.
Í lokamálsgrein 5. gr. segir:
„Í samræmi við framangreind skilyrði munu samningsaðilar óska eftir útgreiðslu með undirritaðri beiðni beggja aðila þar um sem send er vörsluaðila. Það er skilyrði fyrir útborgun að vörsluaðili fái senda framangreinda undirritaða beiðni. Sé ágreiningur á milli samningsaðila að öðru leyti vegna fyrirhugaðrar útgreiðslu skuldbinda þeir sig til þess að jafna þann ágreining, en takist það ekki, skal samningsaðilum vera heimilt að skjóta ágreiningi sínum til Héraðsdóms Reykjavíkur sbr. 8. gr. samnings þessa.“
Núverandi og fyrrverandi fyrirsvarsmenn stefnda, þeir Gunnar Viðar Bjarnason og Stefán Bragi Bjarnason gáfu skýrslur við aðalmeðferð málsins. Í skýrslum beggja kom fram að stefndi hefði átt frumkvæði að gerð handveðssamningsins frá 16. mars 2012. Stefndi hefði viljað selja leigumuni skv. þeim 30 fjármögnunarleigusamningum sem tilgreindir séu í handveðssamningnum frá 16. mars 2012 og viðbótarsamningi aðila frá 16. maí 2012 en jafnframt tryggja að uppgreiðsluverð samninganna rynni ekki til stefnanda fyrr en niðurstaða væri fengin í Hæstaréttarmálinu nr. 652/2011 en þess hefði verið vænst að niðurstaða í því máli gæti orðið fordæmi varðandi gengistryggingu þeirra samninga sem undir handveðssamninginn féllu. Í skýrslu Stefáns Braga kom fram að frumtexti handveðssamningsins hefði verið saminn einhliða af stefnanda en drög síðan gengið á milli aðila í tölvupósti. Kvað hann stefnda hafa gert ákveðnar kröfur hvað efni samningsins varðaði t.d. að stefndi hefði aðgang að hinum veðsettu fjármunum ef stefnandi tapaði „Smákranamálinu“ en þyrfti ekki að sækja þá til stefnanda. Stefnandi hafi hins vegar sett fram marga einhliða fyrirvara. Þannig hafi hann m.a. áskilið sér að geta metið fordæmisgildi „Smákranadómsins“. Stefnandi hafi hins vegar haft fyrirvara á að stefndi gæti fengið hina veðsettu fjármuni. Þannig hafi meiri fyrirvarar verið á því að stefndi fengi peningana en stefnandi. Horfa yrði á veðsamninginn í því ljósi að stefndi hafi verið búinn að vera í samskiptum við stefnanda frá 2001 og átt afskaplega góð samskipti við félagið í gegnum tíðina. Hafi stefndi því ekki haft ástæðu til að vefengja að ef „Smákranamálið“ leysti þetta ekki yrði farið í að finna út úr málum stefnda og stefnanda og væri stefndi búin að vera að reyna það. Aðspurður kvaðst hann ekki þora að fullyrða að stefndi hefði notið utanaðkomandi lögfræðiaðstoðar við gerð handveðssamningsins en stefnandi hefði verið stærri aðilinn í þessum samningi. Samningurinn hefði hins vegar fullnægt því skilyrði stefnda að peningarnir væru í skjóli þar til aðilar væru búnir að leysa sín mál. Aðspurður kvaðst Stefán Bragi vera lögfræðimenntaður en hann hefði ekki unnið almenn lögfræðistörf eftir að embættisprófi lauk heldur starfað á sviði viðskipta.
Ákvæði 5. gr. a. í veðsamningi aðila hefur þegar verið rakið. Þar kemur fram að verði niðurstaða Hæstaréttar í málinu nr. 652/2011 á þann veg að gengistrygging fjármögnunarleigusamninga stefnanda verði dæmd lögmæt geti stefnandi krafist þess að innstæðan á hinum handveðsetta bankareikningi stefnda verði greidd inn á tilgreindan bankareikning stefnanda. Bendir orðalagið per se til þess að réttur stefnanda til innstæðunnar sé ekki háður öðru skilyrði en að niðurstaða Hæstaréttar verði með framangreindum hætti. Fyrir liggur að málið fór á þann veg.
Eins og áður er rakið er mælt svo fyrir í handveðssamningnum, sbr. gr. 5 c., að stefnandi geti, ef endanleg niðurstaða Hæstaréttar í málinu nr. 562/2011 verði að hans mati ekki fordæmisgefandi m.a. fyrir fjármögnunarleigusamninga stefnanda og stefnda, hafnað því að hin veðsetta innstæða verði greidd stefnda og væri vörsluaðilanum, MP banka, skylt að virða þá afstöðu hans. Í skýringu með ákvæðinu er eins og áður er rakið undirstrikað að mat í þessum efnum liggi alfarið hjá stefnanda. Þessi áskilnaður stefnanda, sem stefndi samþykkti með undirskrift sinni undir veðsamninginn, var með öllu óþarfur ef skilja ber ákvæði 5. gr. a. á þann veg að báðir aðilar geti, ef þeir telji dóm Hæstaréttar í málinu nr. 652/2011, sbr. ákvæði 4 a., ekki hafa fordæmisgildi og því af þeirri ástæðu hafnað útgreiðslu hinnar handveðsettu innstæðu. Það styður þessa ályktun að forsvarsmaður stefnda sagði í framangreindri skýrslu sinni fyrir dómi að stefnandi hefði hvað þetta atriði varðar, í krafti stöðu sinnar, áskilið sér meiri rétt en stefndi hafi átt.
Í málinu liggur fyrir, á dómskjali nr. 41, ódagsett bréf frá stefnda til stefnanda, sem ritað var í aðdraganda handveðssamningsins frá 16. mars 2012. Í því segir m.a.:
„Þegar niðurstaða fæst í Hæstarétti um niðurstöðu hins áfrýjaða dóms gerist eftirfarandi:
1. Ef Lýsing vinnur málið í Hæstarétti standa samningar við Leiguvélar eins og gert er ráð fyrir þegar innborganir eiga sér stað á geymslureikninginn, þ.e. skv. upprunalegum samningsskilmálum. Lýsing á þá rétt á að fá andvirðið greitt til sín vegna lokauppgjörs samninganna. Lýsing gefur þá út reikning með virðisaukaskatti sem Leiguvélar fá til innskatts í sínu bókhaldi. Leiguvélar gerir upp við Lýsingu virðisaukaskattinn, auk mismunar ef einhver er þegar virðisaukaskattur er endurgreiddur frá skattyfirvöldum.“
Þá liggur fyrir í málinu, á dómskjali nr. 42, tölvupóstur frá Stefáni Braga Bjarnasyni, sem var stjórnarformaður stefnda, þegar handveðssamningurinn var undirritaður og meðundirritaði hann, til starfsmanns stefnanda, dags. 14. mars 2012. Í tölvupóstinum segir m.a.:
„Ég hef engar athugasemdir við efni þessa Samnings um handveð.“
Þá segir ennfremur í póstinum:
„Hef alveg skilning á fyrirvaranum neðst á blaðsíðu 5 og tel ekki að hann þurfi að vera hluti handveðssamningsins.“
Ekki verður annað ráðið en Stefán Bjarni sé með tilvísun til fyrirvarans að vísa til neðanmálstilvísunarinnar á bls. 5 í veðsamningi aðila en í henni er eins og áður er rakið gerð grein fyrir ástæðum þess að stefnandi áskilur sér í gr. 5.c. rétt til að neita útgreiðslu, ef hann telji dóm Hæstaréttar í máli nr. 652/2011 ekki fordæmisgefandi fyrir aðra fjármögnunarleigusamninga stefnanda en þann sem beinlínis sé deilt um í málinu nr. 652/2011.
Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða dómsins að ákvæði 5.a. í handveðssamningi aðila frá 16. mars 2012 verði ekki skilið á annan veg en þann að stefnandi geti krafist útgreiðslu á hinni veðsettu bankainnstæðu verði niðurstaða Hæstaréttar í málinu nr. 652/2011 á þann veg að gengistrygging þess samnings sem um var deilt í málinu væri lögmæt. Er framangreind niðurstaða í bestu samræmi við orðalag ákvæðisins í 5. gr. a. Þá þykir rétt að gagnálykta frá ákvæðinu í 5. gr. c í þá veru að ekki hafi verið samið um samsvarandi rétt stefnda til handa og stefnandi á samkvæmt ákvæðinu. Þá styður tilvitnað ákvæði í orðsendingu stefnda til stefnanda í aðdraganda veðsamningsins ótvírætt framangreinda niðurstöðu svo og tilvitnuð ummæli fyrirsvarsmanns stefnda í tölvupóstinum frá 14. mars 2012. Ekki verður talið að lokaákvæði 5. gr. handveðssamningsins breyti framangreindi niðurstöðu enda verður efni þess, með samanburði við ákvæðin í 5.a. og 5.c., ekki skýrt á annan veg en þann að komi til ágreinings, sem reistur sé á öðru en formdæmisgildi dóms í málinu nr. 652/2011, geti aðilar farið þá leið sem ákvæðið heimilar.
Í máli þessu er eins og rakið hefur verið tekist á um túlkun handveðssamnings aðila frá 16. mars 2012 og rétt stefnanda til útgreiðslu af hinum veðsetta bankareikningi stefnda. Ekki er við lausn þess ágreinings þörf á að taka afstöðu til fjölmargra málsástæðna stefnda, sem miða að því að sanna að þeir fjármögnunarleigusamningar stefnda og stefnanda, sem til er vitnað í handveðssamningnum, séu leigu- eða lánssamningar.
Með vísan til alls framanritaðs verður stefndi dæmdur til að rita undir beiðni til MP banka hf. um að öll innstæða bankareiknings stefnda nr. 0701-15-190055 verði greidd inn á bankareikning stefnanda nr. 0313-26-12420, að viðlögðum dagsektum að fjárhæð 250.000 krónur, eins og áfrýjandi krefst, samkvæmt heimild í 2. málslið 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem falli á að liðnum 15 dögum frá uppkvaðningu dóms þessa hafi framangreindri skyldu stefnda ekki verið fullnægt fyrir þann tíma.
Með vísan til framangreindrar niðurstöðu og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 1.100.000 krónur.
Þórður S. Gunnarsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð
Stefnda, Leiguvélum ehf., er gert að rita undir beiðni til MP banka hf. um að öll innstæða bankareiknings stefnda nr. 0701-15-190055 verði greidd inn á bankareikning stefnanda nr. 0313-26-12420, að viðlögðum dagsektum að fjárhæð 250.000 krónur,- er falli á að liðnum 15 dögum frá uppkvaðningu dóms þessa, hafi framangreindri skyldu stefnda ekki verið fullnægt fyrir þann tíma. Stefndi greiði stefnanda 1.100.000 krónur í málskostnað.