Hæstiréttur íslands
Mál nr. 747/2009
Lykilorð
- Fasteign
- Brostnar forsendur
- Óvígð sambúð
|
|
Fimmtudaginn 6. maí 2010. |
|
Nr. 747/2009. |
Kristrún Anna Skarphéðinsdóttir (Magnús Guðlaugsson hrl.) gegn Friðriki Má Ólafssyni (Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.) |
Fasteign. Brostnar forsendur. Óvígð sambúð.
F og K voru samkvæmt þjóðskrá í óvígðri sambúð í tæpt ár. Árið 2002 keyptu þau íbúð á neðri hæð í tvíbýlishúsi og bjuggu í henni á sambúðartímanum. F lagði til þá fjarmuni sem varið var í útborgun en að öðru leyti var kaupverðið greitt með lánum. Skráður eignarhlutur F og K var jafn og afsali þinglýst í því horfi. Í kjölfar sambúðarslita þeirra deildu þau um eignina. Eignin var að lokum seld og eftirstöðvar kaupverðsins skipt að jöfnu í samræmi við þinglýstar eignarheimildir. F höfðaði síðar mál til heimtu þeirrar fjarhæðar sem kom í hlut K við sambúðarslitin. Byggði F málsókn sína á því að hin selda eign hefði í raun verið óskipt séreign hans þrátt fyrir skráðar eignarheimildir. Í málinu var talið óumdeilt að F hefði einn lagt til fjármuni í útborgun eignarinnar og K því á þeim tíma ekki átt rétt til eignarhlutar á grundvelli beins fjárframlags til kaupanna. Þá benti ekkert til þess að F hefði viljað tryggja stöðu K sérstaklega án tillits til framlags frá henni. Talið var að skráð eignarhlutdeild F og K í fyrrgreindri eign hefði helgast af því að þau hefðu á þeim tíma er kaupin voru gerð ætlað að hefja sambúð til frambúðar og að með tímanum myndu þau leggja jafnt af mörkunum til fjármögnunar á kaupunum. Á þeim tíma er aðilar bjuggu saman greiddi F afborgarnir af eigninni að mestu leyti og ekki var talið að kostnaður vegna heimilishalds hefði frekar fallið á K. Með vísan til þeirrar stöðu sem uppi var við slit á sambúð aðila, svo skömmu eftir að til hennar var stofnað, var fallist á með F að forsendur fyrir jafnri eignarhlutdeild þeirra í eigninni hefðu brostið og í reynd hefði K ekki öðlast þann eignarrétt að húseigninni sem þinglýstar eignarheimildir kváðu á um. Var K gert að greiða F umkrafða fjárhæð að frádregnu áætluðu framlagi hennar til eignarmyndunar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Helgi I. Jónsson dómstjóri.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. desember 2009. Hún krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara að fjárhæð hennar verði lækkuð og vextir ekki dæmdir fyrr en við uppkvaðningu dóms Hæstaréttar. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Málavextir og málsástæður aðila eru raktar í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram voru aðilar í skráðri sambúð frá 17. október 2002 til 1. júní 2003, en samband þeirra hafði varað lengur. Þau eignuðust barn á sambúðartímanum og keyptu fasteign. Aðilar deildu um eignarrétt að fasteigninni eftir sambúðarslitin, en samkomulag hafði ekki náðst þegar hún var seld 4. júlí 2006. Með bréfi 16. október 2006 krafði stefndi áfrýjanda um endurgreiðslu þess hluta söluverðs eignarinnar sem kom í hennar hlut við söluna samkvæmt skráðum eignarhlutföllum. Í því bréfi segir að höfðað verði dómsmál til innheimtu kröfunnar verði hún ekki greidd innan 30 daga. Hvorki eru í málinu gögn um frekari samskipti aðila fyrr en stefna er birt áfrýjanda 17. apríl 2009, né hafa komið fram skýringar á þeim langa tíma sem þarna líður. Héraðsdómur dæmdi áfrýjanda til að greiða kröfuna að frádregnu framlagi hennar til eignamyndunarinnar, sem ákveðið var að álitum 200.000 krónur. Við þá niðurstöðu unir stefndi.
Með vísan til framangreinds og forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur, þó þannig að rétt þykir að dráttarvextir greiðist frá því að málið var höfðað, sbr. 2. gr. i.f. og 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Áfrýjandi verður dæmd til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Kristrún Anna Skarphéðinsdóttir, greiði stefnda, Friðriki Má Ólafssyni, 880.233 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 17. apríl 2009 til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.
Áfrýjandi greiði stefnda 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 25. nóvember 2009.
Mál þetta, sem var dómtekið 28. f.m., er höfðað 17. apríl 2009 af Friðriki Má Ólafssyni, Digranesvegi 80 í Kópavogi, á hendur Kristrúnu Önnu Skarphéðinsdóttur, Þórustíg 5 í Reykjanesbæ.
Stefnandi gerir þá dómkröfu að stefnda verði dæmd til að greiða honum 1.080.233 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. nóvember 2006 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.
Stefnda krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda, en til vara verulegrar lækkunar á þeim. Þá krefst stefnda málskostnaðar úr hendi stefnanda.
I
Samkvæmt skráningu þjóðskrár voru málsaðilar í óvígðri sambúð frá 17. október 2002 til 1. júní 2003. Heldur stefnda því fram í málinu að sambúðin hafi staðið lengur, eða í tæp tvö ár, frá miðju ári 2001 og allt þar til aðilar slitu samvistum í júní 2003. Þau eiga saman dóttur, fædda 4. desember 2002. Með kaupsamningi 11. september 2002 keyptu þau íbúð á neðri hæð í tvíbýlishúsinu að Faxabraut 3 í Reykjanesbæ fyrir 6.400.000 krónur og bjuggu í henni á sambúðartímanum. Nam útborgun 1.920.000 krónum, en að öðru leyti fólst greiðsla kaupverðsins í yfirtöku áhvílandi veðskulda að fjárhæð 3.210.749 krónur og útgáfu fasteignaveðbréfs að fjárhæð 1.269.251 króna. Er óumdeilt að stefnandi lagði til þá fjármuni sem varið var í útborgun og greiddi afborganir og vexti af lánum, að tveimur afborgunum undanskildum sem stefnda stóð skil á. Málsaðilar voru hins vegar báðir skráðir sem kaupendur í fasteignaviðskiptunum. Var eignarhlutur þeirra jafn og var afsali síðar þinglýst í því horfi. Heldur stefnandi því fram að stefnda og faðir hennar hafi lagt að honum að þannig yrði um hnútana búið og hann fallist á það, enda hafi það verið ætlun hans þá að búa með stefndu til framtíðar. Stefnda staðhæfir á hinn bóginn að fasteignasalinn sem hafði milligöngu um kaup þeirra hafi átt frumkvæðið að því að þessi háttur var hafður á. Þegar upp úr sambandi málsaðila slitnaði krafðist stefnandi þess að stefnda afsalaði skráðum eignarhlut sínum í íbúðinni til hans. Taldi stefnandi að hann væri einn eigandi íbúðarinnar þar sem hann hafi greitt framangreinda útborgun og staðið skil á afborgunum af áhvílandi lánum. Þessu hafnaði stefnda. Er í stefnu og greinargerð lýst tilraunum aðila og lögmanna fyrir þeirra hönd til að leiða þennan ágreining til lykta. Þær tilraunir skiluðu ekki árangri. Með kaupsamningi og afsali 4. júlí 2006 var íbúðin seld fyrir 7.500.000 krónur. Að frádregnum kostnaði við söluna og að teknu tilliti til uppgjörs vegna yfirtöku kaupanda á áhvílandi lánum námu eftirstöðvar kaupverðs 2.160.446 krónum. Í samræmi við þinglýstar eignarheimildir var þeirri fjárhæð skipt að jöfnu á milli málsaðila og komu þannig 1.080.223 krónur í hlut hvors þeirra. Heldur stefnandi því fram að hann hafi fallist á að þessi fjárhæð rynni til stefndu þar sem hún hafi að öðrum kosti neitað að undirrita kaupsamning og afsal. Með þessu hafi hann hins vegar ekki fallið frá þeirri afstöðu sinni að hann ætti fjárkröfu á hendur stefndu á þeim grunni að honum hafi borið réttur til framangreindrar kaupsamningsgreiðslu í heild sinni. Hefur stefnandi höfðað málið til heimtu þeirrar fjárhæðar sem kom í hlut stefndu samkvæmt framansögðu, en hún hefur jafnan hafnað því að hann eigi þessa kröfu á hendur henni.
II
Stefnandi byggir málsókn sína á því að hin selda húseign að Faxabraut 3 í Reykjanesbæ hafi verið óskipt séreign hans þrátt fyrir að stefnda hafi verið skráður eigandi að helmingshlut í henni. Stefnda hafi því ekki átt rétt á þeirri greiðslu af söluandvirði íbúðarinnar sem til hennar rann og beri því að endurgreiða stefnanda hana.
Stefnandi hafi, svo sem áður er rakið, einn greitt útborgun kaupverðs að fjárhæð 1.920.000 krónur sem verið hafi stærsti hluti eignarmyndunar í íbúðinni. Þá hafi hann greitt allar afborganir af lánum sem tekin voru vegna kaupanna, þó að tveimur afborgunum undanskildum. Þá hafi stefnandi jafnframt greitt allan kostnað sem stofnað var til vegna húsnæðisins, þar með talinn kostnað vegna lagfæringa og endurbóta á því og öll gjöld til opinberra aðila. Þar að auki hafi stefnandi lagt til vinnu við lagfæringar á húsnæðinu sem hafi aukið verðmæti þess. Íbúðin hafi því í reynd verið óskipt eign stefnanda. Sú staðreynd að stefnda var skráður eigandi að helmingshlut í henni haggi þessu ekki. Meginforsenda þess að stefnandi hafi fallist á þá tilhögun að kröfu stefndu og föður hennar hafi verið sú að aðilar myndu búa saman til framtíðar. Með tíð og tíma myndu þau leggja jafnt af mörkum til fjármögnunar á kaupunum. Sú varð ekki raunin. Sambúðin hafi staðið í mjög skamman tíma, eða í rúma 7 mánuði, en auk þess hafi framlag stefndu til kaupanna verið óverulegt. Forsenda stefnanda fyrir að skrá stefndu fyrir helmingshlut í íbúðinni hafi því algjörlega brostið og ekki leitt til eignarmyndunar stefndu til handa.
Stefnandi bendir á að stefnda geti ekki byggt rétt sinn til hlutdeildar í eigninni á dómvenju um hlutdeild í eignamyndun á sambúðartíma, enda hafi sambúðin varað stutt og fjárhagsleg samstaða ekki myndast með málsaðilum. Hlutdeild stefndu í greiðslu kaupverðs hafi að auki verið óveruleg. Þá hafi kaupin verið gerð fyrir upphaf skráðrar sambúðar og að mestu fyrir fé sem stefnandi hafði þá þegar eignast. Útborgunin, sem var megin uppistaða eignarmyndunar í íbúðinni, hafi þess utan verið hluti skaðabóta sem stefnandi fékk greiddar vegna varanlegs líkamstjóns sem hann varð fyrir. Slíkar bætur séu séreign þess sem þær fær greiddar, sbr. í þeim efnum ákvæði 102. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Stefnda hafi ekki getað eignast hlutdeild í þeim.
Framangreindum málsástæðum sínum til frekari stuðnings vísar stefnandi til dóms Hæstaréttar frá 13. desember 2001 í máli nr. 211/2001, en hann er birtur í dómasafni réttarins það ár á bls. 4551.
Stefnandi byggir kröfu sína á almennum óskráðum reglum fjármuna- og kröfuréttar um endurheimt (endurgreiðslu) ofgreidds fjár. Jafnframt byggir stefnandi á því að með því að taka við greiðslunni og neita að endurgreiða stefnanda hana hafi stefnda auðgast á óréttmætan og ósanngjarnan hátt á kostnað stefnanda. Stefnandi eigi á þeim forsendum og samkvæmt óskráðum reglum fjármuna- og kröfuréttar um óréttmæta auðgun rétt til greiðslu stefnukröfu úr hendi stefndu. Fyrir liggi að stefnda hafi ekkert átt í íbúðinni en engu að síður tekið við hinni umdeildu greiðslu í skjóli þess að hún var skráður eigandi að hluta hennar. Stefnda hafi verið grandsöm um að hún ætti ekki rétt til greiðslunnar, það er hún hafi vitað eða mátt vita að hún ætti ekki slíkan rétt. Þá hafi stefnda haft um það vitneskju að allt fé til kaupanna kæmi frá stefnanda og að þar væri að hluta til um að ræða skaðabætur sem honum voru greiddar vegna varanlegs líkamstjóns. Stefndu hafi einnig verið ljóst að með því að samþykkja að skrá íbúðina að hluta til á hana hafi ekki falist í því gjöf frá honum til hennar. Stefndu hafi verið um það kunnugt að þessi skráning væri gerð á þeirri forsendu að sambúð þeirra myndi standa til framtíðar og stefnda myndi með tíð og tíma leggja jafnt til kaupanna og stefnandi og að fjárhagsleg samstaða yrði með þeim til framtíðar. Af því varð hins vegar ekki og forsendur skráningarinnar því brostið við sambúðarslitin.
Stefnandi vísar til þess að stefndu hafi jafnan verið ljós afstaða hans til kröfu hennar um hlutdeild í verðmæti íbúðarinnar, enda hefðu aðilar deilt um þetta áður en til sölunnar kom. Hafi stefnandi ávallt hafnað kröfum stefndu. Frá þeim tíma sem stefnda tók við greiðslunni hafi henni mátt vera ljóst að stefnandi myndi krefjast endurgreiðslu. Augljóst sé einnig að hefði helmingur íbúðarinnar ekki verið skráður á stefndu við kaupin hefði hún ekki geta krafið stefnanda um greiðslu á hluta söluandvirðis íbúðarinnar þar sem hún hafi lagt óverulegt fé til kaupanna, sambúðartími verið stuttur og fjárhagsleg samstaða ekki tekist með þeim á sambúðartímanum. Verði kröfu stefnanda hafnað muni stefnda á ósanngjarnan hátt hagnast á kostnað hans.
III
Stefnda byggir aðalkröfu sína um sýknu á því að hin selda íbúð hafi verið sameign málsaðila samkvæmt þinglýstum kaupsamningi og að þau hafi hvort um sig átt helmingshlut í henni. Stefndi hafi því átt fullan rétt til þeirrar greiðslu sem hún móttóku við sölu á eigninni. Sé það í fullu samræmi við þá meginreglu að við fjárslit sambúðarfólks komi eign í hlut þess aðila sem er skráður fyrir henni. Þá hafnar stefnda því sem ósönnuðu að hún eða faðir hennar hafi lagt að stefnanda að skrá eignina á þau bæði.
Stefnda hafnar því að stefnandi hafi greitt allan kostnað sem tengdist rekstri húseignarinnar og framkvæmdum við hana. Þannig hafi hún greitt tæplega 40.000 krónur í afborganir af lánum sem tekin voru vegna kaupa á eigninni. Þá hafi faðir stefndu lagt parket á hluta íbúðarinnar, lagað ofna og miðstöð vegna hitavandamála og að auki útvegað aðstoð vegna viðgerðar á glugga í þvottahúsi. Stefnda hafi einnig tekið þátt í að mála íbúðina. Er hafnað þeim fullyrðingum stefnanda að vinna við lagfæringar og endurbætur á íbúðinni, sem aukið hafi verðgildi hennar, hafi alfarið verið á vegum stefnanda. Sé og til þess að líta að íbúðin hafi samkvæmt fasteignamati verið metin á 8.695.000 krónur, en söluverð hennar í júlí 2006 hafi einungis numið 7.500.000 krónum. Hafi þetta lága söluverð stafað af slæmri umgengni stefnanda um íbúðina frá því að aðilar slitum samvistum. Við þetta bætist síðan að stefnda hafi fest kaup á innanstokksmunum og eldhúsáhöldum fyrir heimilið. Þá hafi hún keypt föt á barn hennar og stefnanda og aðrar nauðsynjavörur í þágu þess. Ennfremur hafi hún með öðrum hætti tekið þátt í að greiða kostnað af sameiginlegum heimilisrekstri. Við sambúðarslit hafi stefnandi þrátt fyrir þessi fjárútlát stefndu haldið eftir stærstum hluta þeirra lausafjármuna sem hér um ræðir og hafi stefndu einungis haft á brott með sér hluti sem hún og barn þeirra gátu ekki verið án.
Stefnda hafnar því ennfremur að ekki hafi verið um fjárhagslega samstöðu á milli stefndu og stefnanda að ræða. Aðilar hafi byrjað að búa saman sumarið 2001 er stefnandi flutti inn til stefndu og foreldra hennar. Í þessum efnum sé ekki tækt að miða einungis við hina formlegu skráningu óvígðrar sambúðar í þjóðskrá, heldur verði að taka mið af því hvenær raunveruleg sambúð hófst. Sambúð aðila hafi samkvæmt þessu staðið í tæp tvö ár. Stefnandi hafi ekki greitt leigu til foreldra stefndu meðan hann bjó á heimili þeirra og hafi stefnda á þann hátt bætt aðstöðu stefnanda til tekjuöflunar verulega. Hafnar stefnda því að hlutdeild hennar í greiðslu kaupverðs umræddrar húseignar hafi verið óveruleg með hliðsjón af þeim ávinningi sem stefnandi hafi haft af því að búa endurgjaldslaust á heimili foreldra hennar. Þá vísar stefnda til þess að hún hafi verið heimavinnandi og sinnt barni hennar og stefnanda frá byrjun desember 2002 og þar til í lok maí 2003, en það hafi bætt aðstöðu stefnanda til tekjuöflunar til muna. Telur stefnda að líta verði til þessa framlags hennar við úrlausn málsins. Þá telur stefnda að ákvæði 100. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. renni stoðum undir þann skilning hennar að um fjárhagslega samstöðu á milli aðila hafi verið að ræða, en með því að þau hafi eignast barn saman sé óhjákvæmilegt að líta svo á að slík samstaða hafi myndast.
Með vísan til þess sem að framan er rakið um upphaf sambúðar aðila fellst stefnda ekki á þann skilning stefnanda að við það eigi að miða að stefnanda hafi áskotnast þeir fjármunir, sem varið var í útborgunargreiðsla við kaup á íbúðinni að Faxabraut 3, áður en til sambúðar var stofnað. Þá hafnar stefnda því að þær skaðabætur sem hér um ræðir geti talist séreign stefnanda, enda hafi þær runnið saman við aðra fjármuni búsins og verið notaðar í þágu þess.
Framangreindum málsástæðum sínum til frekari stuðnings vísar stefnda til dóms Hæstaréttar frá 17. mars 2005 í máli nr. 363/2004 og dóms frá 19. október 2006 í máli nr. 52/2006. Þá hafnar stefnda því að sá dómur sem stefnandi hefur sérstaklega vísað til í málatilbúnaði sínum geti haft þýðingu við úrlausn málsins.
Stefnda hafnar því að með því að taka við greiðslunni og neita að endurgreiða stefnanda hana hafi hún á óréttmætan og ósanngjarnan hátt auðgast á kostnað stefnanda. Fyrir liggi að stefnda var skráður eigandi að hluta íbúðarinnar og hafði greitt afborganir af áhvílandi lánum, tekið þátt í að greiða gjöld af henni og kostað rekstur hennar og endurbætur á henni.
Stefnda byggir varakröfu sína á óskráðum reglum um hlutdeild í eignamyndun og eignaaukningu á sambúðartíma og vísar þar um til ofangreindra röksemda.
Stefnda byggir varakröfu sína einnig á almennum óskráðum reglum fjármuna- og kröfuréttar um endurheimtu ofgreiddra fjármuna og óréttmæta auðgun stefnanda vegna greiðslu afborgana stefndu af lánum sem tekin voru til að fjármagna kaup á íbúðinni og margvíslegra útgjalda sem henni tengdust með einum eða öðrum hætti. Eigi stefnda á þessum forsendum og samkvæmt óskráðum reglum fjármuna- og kröfuréttar um óréttmæta auðgun, meginreglu laga og eðli máls rétt til þess að dómkrafa stefnanda sæti lækkun. Stefnanda hafi verið það ljóst að greiðslur afborgana af íbúðinni hafi verið greiddar á þeirri forsendu að sambúð aðila myndi standa til framtíðar og með tíð og tíma yrði fjárhagsleg samstaða á milli þeirra. Forsendur fyrir greiðslu afborgananna hafi því brostið við sambúðarslitin. Auk þessa krefst stefnda þess að endurgreiðslukrafa verði lækkuð um 193.231 krónu, en sú fjárhæð svari til ósamþykktrar veðsetningar af hálfu stefnanda.
IV
Í málflutningi var því haldið fram af hálfu lögmanns stefndu að með því að sameiginleg lán aðila vegna íbúðarkaupanna hafi numið samtals 4.480.000 krónum beri að líta svo á að stefnda hafi aflað fjár til kaupanna sem nemi helmingi lánsfjárhæðarinnar, eða 2.240.000 krónum. Sú upphæð sé 35% af kaupverði íbúðarinnar. Renni þetta frekari stoðum undir réttmæti þeirrar eignarskiptingar sem fram komi í kaupsamningi og styðji í öllu falli kröfu um verulega lækkun á dómkröfu stefnanda. Þessari málsástæðu mómælti lögmaður stefnanda sem of seint fram kominni, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Verður fallist á sjónarmið stefnanda um þetta og kemur þessi málsástæða því ekki til úrlausnar í málinu.
V
Samkvæmt kaupsamningi 11. september 2002 um neðri hæð tvíbýlishússins að Faxabraut 3 í Reykjanesbæ var eignarhlutur kaupenda, aðila þessa máls, skráður jafn og í afsali var með sama hætti tilgreint að hvor aðila ætti helmingshlut í húseigninni. Þessi tilgreining eignarréttar í heimildarskjölum og þinglýsing þeirra leiðir ekki þegar til þeirrar niðurstöðu að stefnda hafi í reynd átt hlut í húseigninni. Hún veitir hins vegar líkur fyrir því og að um helmingshlut hafi verið að ræða. Verður stefnandi, sem heldur öðru fram, því að hnekkja þeim líkindum sem hin þinglýsta eignarheimild veitir samkvæmt þessu. Ber honum þannig að sanna að framlög aðila til eignarmyndunar eigi hér að leiða til annarrar niðurstöðu. Má um þetta meðal annars vísa til dóms Hæstaréttar frá 13. desember 2001 í máli nr. 211/2001, sem birtur er í dómasafni réttarins það ár á bls. 4551. Húseignin hefur nú verið seld og gerir stefnandi í því ljósi kröfu til þess að stefnda endurgreiði honum þá fjármuni sem í samræmi við framangreind eignarhlutföll komu í hennar hlut við söluna.
Í málinu háttar svo til að óumdeilt er að útborgunarhluti kaupverðs, sem nam 1.920.000 krónum, var greiddur með fjármunum sem stefnandi lagði til, en um var að ræða skaðabætur vegna líkamstjóns sem hann hlaut í bílslysi árið 2000. Að öðru leyti var kaupverðið, 6.400.000 krónur, greitt með yfirtöku áhvílandi lána að fjárhæð 3.210.749 krónur og nýju láni að fjárhæð 1.269.251 króna. Liggur fyrir samkvæmt þessu að þá er kaupsamningur var undirritaður átti stefnda ekki rétt til eignarhlutar á grundvelli beins fjárframlags til kaupanna, enda eru ekki efni til að fallist á það með henni að hún hafi með einum eða öðrum hætti öðlast hlutdeild í þeim fjármunum sem stefnandi ráðstafaði samkvæmt þessu til kaupa á eigninni. Bendir heldur ekkert til þess að fjárhagsleg samstaða hafi verið á milli aðila á þessum tíma. Þá er ekkert komið fram um að stefnandi hafi viljað tryggja stöðu stefndu sérstaklega án tillits til framlags frá henni. Verður við það að miða, svo sem stefnandi heldur fram, að framangreind skipting hafi helgast af því að þau væru að hefja sambúð til frambúðar og að þau legðu með tímanum jafnt af mörkum til fjármögnunar á kaupunum. Sambúð aðila eftir að þau fluttu inn í íbúðina stóð í mjög skamman tíma, eða í um það bil átta mánuði. Liggur ekki annað fyrir en að stefnandi hafi séð um að greiða afborganir og vexti af lánum á þeim tíma og reyndar allt fram til þess að þau seldu eignina um mitt ár 2006, þó að undanskildum tveimur afborgunum sem stefnda stóð skil á í október 2002 og janúar 2003, samtals að fjárhæð 38.378 krónur. Er og til þess að líta að ekki verður séð að kostnaður af sameiginlegu heimilishaldi á stuttum sambúðartíma hafi frekar fallið á stefndu en stefnanda. Með vísan til framanritaðs og þeirrar stöðu sem samkvæmt þessu var uppi við slit á sambúð aðila svo skömmu eftir að til hennar var stofnað verður að fallast á það með stefnanda að forsendur fyrir jafnri eignarhlutdeild þeirra í húseigninni hafi brostið. Öðlaðist stefnda þannig í reynd ekki þann eignarrétt að húseigninni sem þinglýstar eignarheimildir kváðu á um. Standa samkvæmt þessu engin rök til þess að taka megi sýknukröfu stefndu til greina og er henni því hafnað.
Stendur þá eftir að taka afstöðu til varakröfu stefndu um lækkun á dómkröfu stefnanda.
Aðilar eignuðust barn 4. desember 2002. Af þeim sökum var stefnda að mestu frá vinnu meðan á sambúð þeirra stóð. Við það verður engu að síður að miða að á þessum tíma, það er frá 1. október 2002 til 1. júní 2003, hafi stefnda til jafns við stefnanda greitt kostnað af sameiginlegu heimilishaldi þeirra og að þau hafi skipt á milli sín kostnaði sem beinlínis féll til vegna húseignarinnar, svo sem fasteignagjöldum og tryggingariðgjöldum. Þá innti stefnda af hendi á þessum tíma þær tvær afborganir af áhvílandi lánum sem áður er getið. Loks er ekki ágreiningur um það að faðir stefndu hafði veg og vanda af tveimur afmörkuðum verkum sem lutu að endurbótum og viðgerðum á eigninni, en þau fólust í því að hann annaðist viðgerð á hitalögn og lagði parket á gólf í einu herbergi. Að öðru leyti verður ekki gerður greinarmunur á framlögum aðila að þessu leyti. Að þessu og atvikum að öðru leyti virtum og þrátt fyrir það að eiginleg sambúð aðilanna hafi staðið í mjög skamman tíma og forsendur fyrir jafnri eignarhlutdeild þeirra í húseigninni að Faxabraut 3 hafi brostið þykir mega fallast á það með stefndu að ekki standi efni til þess að henni verði að fullu gert að endurgreiða stefnanda þá fjárhæð sem kom í hennar hlut við sölu þeirra á húseigninni í júlí 2006. Verður endurgreiðslukrafa stefnanda því lækkuð að álitum. Þykir sú lækkun hæfilega ákveðin 200.000 krónur.
Samkvæmt framansögðu verður krafa stefnanda á hendur stefndu tekin til greina með 880.233 krónum. Dráttarvaxtakröfu stefnanda hefur ekki verið andmælt sérstaklega. Um vexti fer því svo sem í dómsorði greinir.
Eftir framangreindum málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefndu gert að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 300.000 krónur.
Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari dæmir mál þetta.
D ó m s o r ð :
Stefnda, Kristrún Anna Skarphéðinsdóttir, greiði stefnanda, Friðriki Má Ólafssyni, 880.233 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. nóvember 2006 til greiðsludags.
Stefnda greiði stefnanda 300.000 krónur í málskostnað.