Hæstiréttur íslands

Mál nr. 171/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


         

Mánudaginn 31. mars 2008.

Nr. 171/2008.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason, saksóknari)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103 gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen og Hjördís Hákonardóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. mars 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 26. mars 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 14. apríl 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að beitt verði farbanni í stað gæsluvarðhalds, en að því frágengnu að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna úrskurðar héraðsdóms verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 26. mars 2008.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess í dag fyrir Héraðsdómi Reykjaness með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála að X, [kt. og heimilisfang], verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 14. apríl 2008 kl. 16.00.

Kærði mótmælir kröfunni og krefst þess til vara að beitt verði farbanni og til þrautavara að henni verði markaður skemmri tími.

Krafan er reist á því að kærði sé undir rökstuddum grun um brot gegn 231.gr. og  2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í greinargerð lögreglustjórans kemur m.a. fram að síðdegis laugardaginn 22. mars s.l. hafi lögreglu borist tilkynning um slagsmál í íbúð í A í Reykjavík. Sjúkrabifreið var send á vettvang þar sem að fyrir lágu upplýsingar um að menn á vettvangi væru alvarlega slasaðir.

Íbúi hússins greindi lögreglu frá því á vettvangi að hann hefði séð um 10-12 karlmenn koma á tveimur bifreiðum. Mennirnir hefðu verið vopnaðir járnrörum, slaghömrum og sleggju og farið inn í A. Í kjölfarið hefðu heyrst mikil læti og sagðist vitnið svo hafa séð hvar maður sem var blóðugur í andliti kom hlaupandi af vettvangi. Mennirnir hafi svo ekið á brott og tekið vopnin með sér.

Vitnið greindi lögreglu frá útliti bifreiða mannanna og númeri annarrar þeirra (...). Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði sama dag bifreið sem kom heim og saman við lýsinguna en í bifreiðinni voru fjórir karlmenn en í henni fundust einnig nokkur vopn og barefli, sleggja, blóðugt steypustyrkjarjárn, rörbútur og tveir hnífar. Mennirnir voru í kjölfarið úrskurðaðir í þriggja vikna gæsluvarðhald í héraðsdómi Reykjavíkur, þ.e. til mánudagsins 14. apríl nk. Úrskurðirnir hafi nú verið staðfestir af Hæstarétti Íslands.

Í íbúðinni í A voru tíu menn og voru sjö þeirra með mikla áverka, m.a opin beinbrot og með áverka á höfði. Brotaþolar eru allir Pólverjar og er ástand eins mannanna talið alvarlegt. Hefur einn brotaþola greint lögreglu frá því að hópur manna hafi ruðst inn íbúðina vopnaðir ýmsum vopnum og bareflum og umsvifalaust ráðist að mönnunum. Árásarmennirnir séu búsettir í B.

Ljóst er að enn eru nokkrir árásarmannanna ófundnir. Fjórir menn sitja nú í gæsluvarðhaldi og lýst hefur verið eftir fimmta manninum, en einn brotaþoli hefur nefnt að sá hafi verið í hópi árásarmannanna.

Í framburði eins brotaþolans kemur fram að kærði hafi verið í hópi árásarmanna og hafi verið fremstur í flokki þeirra þar sem að þeir gengu inn í húsið. Í framburði brotaþolans kemur fram að kærði hafi slegið hann með einhverju hörðu í öxlina. Brotaþolinn segist þekkja kærða þar sem að þeir hafi unnið saman í fyrirtækinu C og gefur á honum greinargóða lýsingu, sem kemur heim og saman við útlit kærða.

Þá sé kærði skráður fyrir bifreið þeirri sem að mennirnir fjórir voru í sem að handteknir voru strax sama dag. Í ljósi þess að kærði hefur sérstaklega verið nefndur sem einn árásarmannanna af manni sem þekkir kærða og er þar að auki skráður eigandi ofangreindrar bifreiðar, þar sem að blóðug vopn fundust, þykir lögreglu sem að fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi ásamt mönnunum fjórum, sem nú þegar sæta gæsluvarðhaldi, framið brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga sem varðar allt að 16 ára fangelsisrefsingu.

Í frumskýrslu lögreglu komi fram lýsing á áverkum árásarþolanna auk þess sem ljósmyndir hafi verið teknar af þeim. Miklir áverkar voru á höfði nokkurra þeirra og sumir höfðu hlotið opin beinbrot. Sjáanleg voru djúp för eftir gaddakylfur á líkama þeirra. Þrír þeirra voru tafarlaust fluttir á sjúkrahús með sjúkrabifreið. Ljóst er að árásin var heiftúðleg og renna fjölmörg vopn og barefli sem fundust í bíl mannnanna stoðum undir það sem og alvarlegir áverkar brotaþola.

Kærði var handtekinn í gærkvöldi við [...] í Reykjanesbæ. Hann kvaðst þá að fyrra bragði hafa selt bifreið sína. Aðspurður um hvar hann hefði verið laugardaginn 22. mars síðastliðinn sagðist hann hafa varið deginum í að þvo þvott og horfa á myndir í tölvu. Borið var undir hann að vitni væri að því að hann hefði verið í A í hópi árásarmanna en hann neitaði því. Hann sagðist svo hafa verið sofandi á laugardagskvöld á Hótel D. Hann hefði verið einsamall þá um kvöldið og verið í partýi en gat þó ekki greint frá því hvar það hefði verið haldið, þar sem að hann hefði staðið utandyra allan tímann og að hann myndi ekki hver hefði verið með honum. Það er mat lögreglu að frásögn kærða sé afar ótrúverðug enda hefur hann ýmist sagst hafa verið sofandi heima sl. laugardagskvöld eða í partýi sem hann viti ekki hvar var haldið.

Fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi ásamt meðkærðu framið brot gegn 2. mgr. 218. gr. sem getur varðað allt að 16 ára fangelsisrefsingu.

Rannsókn málsins standi nú yfir. Rannsóknarhagsmunir krefjast þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Ljóst er að enn eru nokkrir árásarmannanna ófundnir og ástæða til að ætla að kærði muni torvelda rannsókn gangi hann laus, til að mynda með því að vera í sambandi við aðra sakborninga. Málið sé alvarlegt og rannsókn málsins er viðamikil og enn á viðkvæmu stigi og brýnt sé að lögregla fái svigrúm til að sinna henni.

Ætluð brot teljast varða við 231. gr. og 2. mgr 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og a- liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, er þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Af öllu framangreindu virtu, sem og gögnum málsins að öðru leyti, verður fallist á það með lögreglustjóra að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að kærði hafi átt aðild að fólskulegri árás. Getur háttsemin varðað allt að 16 ára fangelsi. Rannsókn málsins er á frumstigi. Haldi kærði frelsi sínu gæti hann torveldað rannsókn málsins, haft áhrif á framburð vitna og meðsekra og komið undan sönnunargögnum. Verður talið að uppfyllt sé skilyrði a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála til að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Krafa lögreglustjórans verður því tekin til greina eins og hún er fram sett og kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 14. apríl 2008, kl. 16.00.

Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 14. apríl 2008 kl. 16.00.