Hæstiréttur íslands
Mál nr. 349/2005
Lykilorð
- Eignarréttur
- Endurheimturéttur
|
|
Fimmtudaginn 26. janúar 2006. |
|
Nr. 349/2005. |
Ragnhildur Jóhannsdóttir(Steingrímur Þormóðsson hrl.) gegn Tryggva Leóssyni (Sveinn Sveinsson hrl.) |
Eignarréttur. Endurheimturéttur.
R og T deildu um eignarrétt að húsgögnum í vörslum T og bar þeim ekki saman um ástæðu þess að húsgögnin voru afhent honum. Í héraðsdómi, sem staðfestur var með vísan til forsendna hans, var talið að R hefði ekki sýnt fram á ótvíræðan eignarrétt sinn að umræddum húsgögnum og að hún yrði að bera hallann af þeim sönnunarskorti. Með hliðsjón af því, misræmi í fullyrðingum R um tilurð þess að T fékk húsgögnin afhent og tómlæti R við að halda fram meintum rétti sínum var T sýknaður af kröfum hennar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. ágúst 2005. Hún krefst þess að dæmt verði að hún geti brigðað frá stefnda tilteknum sex stólum, tveimur armstólum, borðstofuborði Oval, borðstofuskáp, glerskáp, sófaborði Oval, innskotsborði og spegli. Til vara krefst hún að stefnda verði gert að greiða sér 2.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. nóvember 2004 til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Ragnhildur Jóhannsdóttir, greiði stefnda, Tryggva Leóssyni, 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. maí 2005.
I
Mál þetta var höfðað 16. nóvember 2004 en dómtekið 20. apríl 2005. Stefnandi er Ragnhildur Jóhannsdóttir, kt. 170937-4229, Hátúni 4, Reykjavík en stefndi er Tryggvi Leósson, kt. 130755-5779, Köldulind 8, Kópavogi.
Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega að viðurkennt verði með dómi, að stefnandi geti brigðað frá stefnda eftirfarandi húsmunum: 6 stólum nr. 217, 2 armstólum nr. 217, borðstofuborði Oval, borðstofuskáp, glerskáp, sófaborði Oval, innskotsborði og spegli. Til vara gerir stefnandi þær kröfur að stefnda verði gert að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 2.500.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt lögum nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 25. nóvember 2004 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndi gerir þær dómkröfur að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað.
II
Aðilum máls þessa ber ekki allskostar saman um málavexti en óumdeilt er í málinu að húsgögn þau sem stefnandi krefur stefnda um eru í hans vörslum. Aðila greinir hins vegar á um eignarrétt yfir þeim. Samkvæmt gögnum málsins voru umrædd húsgögn afhent stefnda á árinu 1996. Þá liggja fyrir gögn um að stefnandi og eiginmaður hennar keyptu umrædd húsgögn á sínum tíma af Herði Péturssyni og að ósk stefnanda útbjó sá aðili reikning dagsettan 28. janúar 2000 þar sem tilgreint er að verð húsgagnanna sem hér um ræðir sé ca. 2.230.000 krónur. Þá liggur fyrir yfirlýsing Guðmundar Axelssonar 26. nóvember 2003 þar sem hann lýsir því yfir að hann hafi ca. 8 árum áður metið húsgögnin til verðs og hafi það verið ca. 2.500.000 krónur.Stefnandi leitaði til lögmanns til að gera kröfu fyrir sína hönd um afhendingu umræddra húsgagna og ritaði lögmaður hennar bréf til stefnda 16. febrúar 2000. Í bréfi lögmannsins kemur fram að stefnandi haldi því fram að stefndi hafi í apríl 1996 tekið húsgögnin hennar til geymslu vegna búferlaflutninga hennar.
Í bréfi lögmanns stefnanda til stefnda 12. mars 2004 er vísað til fyrra bréfs og fullyrt að stefnda hafi margítrekað verið send bréf. Kemur meðal annars fram í þessu bréfi að stefnandi hafi upplýst að tengdadóttir hennar hafi átt íbúð sem stefndi hafi ætlað að kaupa. Hafi stefndi ætlað að greiða uppboðsbeiðanda íbúðarinnar, Íslandsbanka hf., og hafi hann átt að fá umrædd húsgögn í staðinn. Hafi stefndi hins vegar aldrei greitt þá greiðslu og var þess krafist að hann skilaði húsgögnunum.
Lögmaður stefnda ritaði lögmanni stefnanda bréf 30. apríl 2004 og mótmælti því að stefndi hefði tekið við umræddum húsgögnum til varðveislu eða geymslu. Þá var því mótmælt að stefndi hefði margítrekað fengið kröfubréf vegna málsins. Þá er rakið í bréfinu að umrædd húsgögn hefðu verið greiðsla upp í vanskil á samningi um jarðhæð fasteignarinnar Frakkastígs 8, Reykjavík.
Í stefnu er því haldið fram að stefndi hafi á árinu 1996 ætlað að kaupa íbúð að Hverfisgötu 62, Reykjavík af tengdadóttur stefnanda. Á þeim tíma hafi stefnandi dvalið í þeirri íbúð og hafi íbúðin verið í uppboðsmeðferð vegna veðkröfu Íslandsbanka hf. Hafi stefndi tekið að sér að greiða Íslandsbanka hf. og hafi hann í staðinn átt að fá í umrædd húsgögn. Hafi stefndi fengið húsgögnin en aldrei innt umrædda greiðslu af hendi.
Við aðalmeðferð málsins kom fram hjá stefnanda að hún hefði ætlað að kaupa umrædda íbúð tengdadóttur sinnar að Hverfisgötu 62, Reykjavík. Hafi stefndi tekið að sér að hafa milligöngu um að semja við Íslandsbanka hf. og fengið umrædd húsgögn í því skyni og hafi verðmæti þeirra verið 2.500.000 krónur.
Stefndi lýsir málavöxtum hins vegar þannig að Víkurstál hf., sem stefndi hafi átt með öðrum, hafi með kaupsamningi 8. apríl 1994 keypt jarðhæð að Frakkastíg 8, Reykjavík, af Íslandsbanka hf., Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda og Frjálsa lífeyrissjóðnum. Í húsnæðinu hafi verið rekinn veitingastaðurinn, Tveir vinir, sem Vökvi hf., félag í eigu stefnanda og eiginmanns hennar, hafi rekið á þeim tíma. Þann 15. apríl 1994 gerðu Víkurstál hf. og Vökvi hf. svo kaupleigusamning um fasteignina þar sem Vökvi hf. skyldi, gegn nánar tilgreindum greiðslum og yfirtöku áhvílandi lána, eignast fasteignina. Kveður stefndi að fyrstu afborganir samkvæmt kaupleigusamningnum hafi verið greiddar en fljótlega hafi greiðslurnar farið í vanskil og hafi Vökvi hf. verið úrskurðað gjaldþrota. Til að halda samningnum gangandi kveður stefndi að Víkurstál hf. hafi samþykkt að taka sem hluta af greiðslu upp í samninginn umdeild húsgögn sem samkomulag hafi verið um að yrðu metin á 900.000 krónur. Stefndi hafi svo keypt umrædd húsgögn af Víkurstáli hf. á sama verði.
III
Stefnandi byggir kröfur sínar á því að hún sé réttur og löglegur eigandi umræddra húsgagna. Húsgögnin hafi verið sannanlega afhent stefnda og séu þau í hans vörslu. Beri honum að afhenda umræddar eignir sem séu einstaklega ákveðnir munir. Ekki komi til greina að stefndi hafi hefðað munina enda þurfi til þess 10 ára hefðunartíma.
Byggi stefnandi á því að hún eigi brigðarétt á hendur stefnda. Verði henni hins vegar ekki mögulegt að brigða húsgögnunum eigi hún skaðabótarétt á hendur stefnda.
Um lagarök vísar stefnandi til reglna eignarréttar, reglna hlutaréttar og brigðareglna. Málskostnaðarkrafan sé reist á 130. gr. laga nr. 91/1991.
IV
Stefndi mótmælir kröfum stefnanda og kveðst aldrei hafa gert við hana samkomulag. Hann kannist ekki við þá íbúð sem tilgreind sé í stefnu og hann hafi átt að reyna að kaupa fyrir stefnanda frá Íslandsbanka hf. Því síður kannist hann við að hafa átt að leggja út peninga fyrir stefnanda til greiðslu til Íslandsbanka hf. gegn því að fá húsgögnin sem endurgreiðslu.
Heldur stefndi því fram að hvorki viðskipti né vinskapur milli aðila hafi verið þess eðlis að stefndi hafi staðið í einhverjum viðskiptum fyrir stefnanda. Hafi samskipti aðila einungis falist í því að reyna að leysa skulda- og kröfumál Víkurstáls hf. og Vökva hf.
Hafi Víkurstál hf. tekið umdeild húsgögn til sín sem greiðslu til lækkunar skulda Vökva hf. fyrir rúmlega 900.000 krónur. Stefndi hafi síðan keypt umrædd húsgögn af Víkurstáli hf. á sama verði.
Hafi stefndi aldrei persónulega átt nein viðskipti sjálfur við stefnanda heldur hafi Víkurstál hf. átt í viðskipti við Vökva hf., félag í eigu stefnanda og eiginmanns hennar. Sé því verið að stefna röngum aðila sem leiða eigi til sýknu.
Þá kveðst stefndi vísa til þess að allar kröfur milli hans og stefnanda séu fyrndar verði komist að þeirri niðurstöðu að aðilar hafi átt viðskipti með húsgögn.
Um lagarök vísar stefndi til kröfuréttar og samningalaga. Um málskostnað vísar hann til 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991.
V
Eins og rakið hefur verið er í máli þessu deilt um eignarrétt að húsgögnum sem eru í vörslum stefnda. Ber aðilum ekki saman um hver hafi verið ástæða þess að umrædd húsgögn fóru í vörslur stefnda og stendur orð gegn orði þar um. Þar sem ekki er deilt um að umrædd húsgögn eru í vörslum stefnda er hann réttur aðili að máli þessu og verður ekki sýknaður á grundvelli aðildarskorts.Málatilbúnaður stefnanda er misvísandi um það hvernig hafi staðið á því að umrædd húsgögn fóru í vörslur stefnda. Eins og rakið hefur verið var því í upphafi haldið fram af stefnanda að stefndi hefði tekið húsgögnin í geymslu fyrir stefnanda vegna búferlaflutninga hennar. Síðar kom fram hjá stefnanda, bæði í innheimtubréfi lögmanns hennar til stefnda 12. mars 2004 og í stefnu að stefndi hafi ætlað að kaupa íbúð tengdadóttur stefnanda sem var í uppboðsmeðferð vegna kröfu Íslandsbanka. Hafi hann tekið við umræddum húsgögnum sem greiðslu vegna þeirra kaupa og hafi hann í staðinn átt að greiða Íslandsbanka en það hafi hann ekki gert. Við aðalmeðferð málsins kom svo fram hjá stefnanda að hún hafi ætlað að kaupa umrædda íbúð af tengdadóttur sinni en stefndi tekið að sér að semja við uppboðsbeiðanda og fengið húsgögnin í því skyni. Framangreint misræmi í málatilbúnaði stefnanda er til þess fallinn að draga úr trúverðugleika hennar.Af gögnum málsins verður ráðið að stefnandi gerir ekki reka að því að krefjast afhendingar umræddra húsgagna fyrr en með bréfi lögmanns hennar tæpum fjórum árum eftir afhendingu þeirra til stefnda. Þá liðu tæp níu ár frá afhendingu húsgagnanna þar til stefnandi höfðaði mál þetta. Er því ljóst að stefnandi hefur sýnt af sér verulegt tómlæti til að leita meints réttar síns sem leiðir til þess að erfiðara er um vik að sýna fram á staðreyndir máls og verður stefnandi að bera hallann af því.Stefndi kveðst hafa keypt umrædd húsgögn af Víkurstáli hf. sem hafi fengið þau sem greiðslu upp í vanskil Vökva hf. á samningi þeirra félaga um kaup þess síðarnefnda á jarðhæð fasteignarinnar Frakkastígs 8, Reykjavík, en samkvæmt samningnum átti Vökvi hf. að eignast húsnæðið eftir að hafa greitt nánar tilgreindar afborganir. Fyrir liggur að bú Vökva hf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness uppkveðnum 17. maí 1995. Samkvæmt umræddum samningi var síðasta afborgun hans 15. ágúst 1995, um þremur mánuðum eftir að bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta. Þá er ljóst að Vökvi hf. varð ekki eigandi fasteignarinnar heldur Símon Ólason og styður það fullyrðingar stefnda að Vökvi hf. hafi fengið umræddan Símon í lið með sér og hafi hann tekið yfir kaupleigusamninginn með greiðslu upp í vanskil Vökva hf. Er ljóst af framangreindu að Vökvi hf. var í vanskilum vegna ofangreindra kaupa og er alls ekki loku fyrir það skotið að Víkurstál hf. hafi tekið umdeild húsgögn upp í þau vanskil. Þá bera gögn málsins með sér, þrátt fyrir neitun stefnanda, að stefnandi var í fyrirsvari fyrir Vökva hf., sbr. undirritun hennar á umræddan kaupleigusamning.Til að hægt sé að fallast á að stefnandi eigi rétt á að brigða umræddar eignir frá stefnda verður hún að sýna fram á ótvíræðan eignarrétt sinn yfir þeim. Stefnandi hefur að mati dómsins ekki lagt fram haldbær gögn sem sýna fram á það svo ekki verði um villst að hún eigi umræddar eignir og verður hún að bera hallann af þeim sönnunarskorti. Með hliðsjón af þessu svo og því sem að framan er rakið, um misræmi í fullyrðingum stefnanda um tilurð þess að stefndi fékk húsgögnin og tómlæti hennar við að halda fram meintum rétti sínum, verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda um að viðurkennt verði með dómi að hún geti brigðað umræddum húsgögnum frá stefnda. Með sömu rökum verður ekki fallist á að stefnandi eigi kröfu á hendur stefnda um greiðslu skaðabóta sem nemur matsverði umdeildra húsgagna, enda er sú krafa órökstudd með öllu.Eftir þessum málsúrslitum verður stefnandi dæmd til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 200.000 krónur.Af hálfu stefnanda flutti málið Steingrímur Þormóðsson hrl. en af hálfu stefnda flutti málið Sveinn Sveinsson hrl.Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Tryggvi Leósson, er sýknaður af öllum kröfum stefnanda, Ragnhildar Jóhannsdóttur.
Stefnandi greiði stefnda 200.000 krónur í málskostnað.