Hæstiréttur íslands

Mál nr. 123/2012


Lykilorð

  • Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna
  • Ökuréttarsvipting
  • Ítrekun


                                     

Fimmtudaginn 8. nóvember 2012.

Nr. 123/2012.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari)

gegn

Andra Smárasyni

(Páll Arnór Pálsson hrl.)

Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Ökuréttarsvipting. Ítrekun.

A var sakfelldur fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna, fyrir að vera ekki með ökuskírteini sitt meðferðis og fyrir að vera með fíkniefni í vörslum sínum. Var brotið meðal annars talið varða við 45. gr. a umferðarlaga nr. 50/1987. Fyrir Hæstarétti kom einkum til skoðunar hvort sektargerðir lögreglustjóra vegna fyrri brota gegn 45. gr. a umferðarlaga hefðu ítrekunaráhrif á tímalengd ökuréttarsviptingar A. Hæstiréttur vísaði til þess að í 6. mgr. 102. gr. umferðarlaga væri mælt fyrir um áhrif ítrekunar brots hvað þetta varðaði. Samkvæmt því ákvæði hefðu sektargerðirnar ítrekunaráhrif og breytti engu þar um þótt A hefði ekki áður verið sviptur ökurétti. Var A gert að greiða 225.000 krónur í sekt og hann sviptur ökurétti í tvö ár.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. febrúar 2012 af hálfu ákæruvaldsins að fengnu áfrýjunarleyfi. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um sakfellingu ákærða og upptöku fíkniefna, en að refsing hans verði þyngd og hann sviptur ökurétti til lengri tíma.

Ákærði krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms.

Í héraði var málið dæmt að ákærða fjarstöddum samkvæmt heimild í 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um sakfellingu ákærða og heimfærslu háttseminnar til refsilaga.

Svo sem greinir í héraðsdómi var ákærða gert að greiða fésekt með sektargerð lögreglustjóra 12. ágúst 2010 fyrir brot framið 20. júní sama ár gegn 45. gr. a umferðarlaga nr. 50/1987. Ákærða var aftur gert að greiða fésekt með sektargerð lögreglustjóra 18. nóvember 2010 meðal annars fyrir sams konar brot framið 1. október sama ár. Í hvorugt sinn var ákærða gert að sæta sviptingu ökuréttar en ávana- og fíkniefni mældust ekki í blóði hans heldur fannst tedrahýdrókannabínólsýra í þvagi. Brot þau sem ákærði er sakfelldur fyrir í þessu máli voru framin 22. júlí 2011.

Í 100. gr. umferðarlaga er ekki kveðið á um ítrekunaráhrif að því er varðar refsingu. Í samræmi við dómvenju hafa fyrri brot ákærða áhrif við ákvörðun refsingar en hún verður ákveðin 225.000 króna sekt og komi 16 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa.

Í 6. mgr. 102. gr. umferðarlaga er aftur á móti mælt fyrir um áhrif ítrekunar brots á tímalengd sviptingar ökuréttar. Samkvæmt því ákvæði hafa þær sektargerðir lögreglustjóra sem ákærði gekkst undir ítrekunaráhrif og breytir engu í því tilliti þótt ákærði hafi ekki áður verið sviptur ökurétti. Samkvæmt þessu verður ákærði sviptur ökurétti í tvö ár frá uppkvaðningu dómsins. Til frádráttar kemur þriggja mánaða svipting sem ákærði hefur þegar sætt samkvæmt héraðsdómi.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.

Með þessari dómsniðurstöðu er leiðrétt ákvörðun hins áfrýjaða dóms um refsingu og ökuréttarsviptingu og er því rétt að greiddur verði úr ríkissjóði áfrýjunarkostnaður málsins, að meðtöldum málsvarnarlaunum verjanda ákærða sem ákveðinn eru með virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.  

Dómsorð:

Ákærði, Andri Smárason, greiði 225.000 króna sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa en sæti ella fangelsi í 16 daga.

Ákærði er sviptur ökurétti í tvö ár frá uppkvaðningu dómsins. Til frádráttar kemur þriggja mánaða svipting ökuréttar sem ákærði hefur þegar sætt.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 22. nóvember 2011.

Mál þetta, sem var dómtekið í dag, höfðaði sýslumaðurinn á Akureyri hér fyrir dómi þann 8. nóvember sl., með ákæru á hendur Andra Smárasyni, kt. 211089-3189, Lækjargötu 14, Akureyri,

„fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa föstudagskvöldið 22. júlí 2011, ekið bifreiðinni SX-836, undir áhrifum fíkniefna (í þvagi mældist tetrahýdrókanna­bínólsýra), norður Aðaldalsveg með allt að 132 kílómetra hraða miðað við klukku­stund, eftir vegarkafla á móts við Aðaldalsflugvöll, en þar er leyfilegur hámarshraði 90 kílómetrar og vera ekki með ökuskírteini sitt meðferðis við aksturinn og fyrir að vera með í vörslum sínum í bifreiðinni, þar sem lögreglan stöðvaði akstur hans 0,14 grömm af maríhúana.

Telst þetta varða við 2. mgr. 37. gr., 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. A og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. lög nr. 66, 2006 og 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni, nr. 65, 1974, með síðari breytingum og 2. gr. sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233, 2001, með síðari breytingum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakar­kostnaðar, til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. og 102. gr. nefndra um­ferðarlaga, sbr. 18. gr. laga nr. 66, 2006 og til að sæta upptöku á efnum þeim, sem lögreglan lagði hald á og tilgreind eru í efnaskrá nr. 20.801, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233, 2001.“

Ákærði sótti ekki þing, þrátt fyrir að hafa verið birt fyrirkall.  Þar var þess getið að málið kynni að verða dæmt að honum fjarstöddum, sbr. 1. mgr. 155. gr. laga nr. 88/2008.  Er því heimilt samkvæmt 1. mgr. 161. gr. sömu laga að leggja dóm á málið að ákærða fjarverandi, enda varðar meint brot ekki þyngri viðurlögum en þar er áskilið í a-lið og framlögð gögn verða talin nægjanleg til sakfellingar.  Verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar er rétt heimfærð til laga.

Samkvæmt sakavottorði sætti ákærði 108.000 króna sekt þann 18. nóvember 2010, samkvæmt sátt við sýslumanninn á Akureyri, fyrir brot framið 1. október 2010 gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga og 2. mgr., sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 65/1974.  Ákærði sætti ekki sviptingu ökuréttar samkvæmt þessari sátt.  Þá hefur verið lagt fyrir dóminn ljósrit sektargerðar frá 12. ágúst 2010, þar sem ákærði sættist á greiðslu 70.000 króna sektar fyrir brot gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. um­ferðarlaga.  Hann var ekki sviptur ökurétti samkvæmt sáttinni.  Ekki er annað vitað en að málalok í báðum tilvikum hafi orðið endanleg, sbr. til hliðsjónar ákvæði 4. mgr. 149. gr. laga nr. 88/2008.

Í 102. gr. umferðarlaga með áorðnum breytingum er að finna fyrirmæli um þyngri viðurlög en ella, að því er varðar sviptingu ökuréttar, hafi sakborningur áður brotið gegn ákvæðum 45. gr. a. umferðarlaga.  Samkvæmt 1. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 skal ekki beita slíkum ákvæðum, nema sökunautur hafi, áður en hann framdi síðara brotið, verið dæmdur sekur um brot eða gengist undir refsingu hér á landi fyrir brot, sem ítrekunaráhrif hefur á síðara brotið.  Ákærði hefur að vísu gengist undir refsingu í formi sektar, en honum hafa ekki verið áður verið gerð þau viðurlög, sem 102. gr. umferðarlaga tekur til.  Að þessu athuguðu og samkvæmt reglum 8. mgr. 100. gr. umferðarlaga með áorðnum breytingum og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 verður ákærði dæmdur til að greiða 190.000 krónur í sekt, að viðlagðri vararefsingu eins og greinir í dómsorði, og sviptur ökurétti í þrjá mánuði frá birtingu dómsins að telja.  Þá ber að dæma hann til greiðslu sakarkostnaðar sam­kvæmt framlögðu yfirliti, sem nemur 76.546 krónum.

Gera ber efni upptækt eins og krafist er í ákæru og nánar er rakið í dómsorði.

Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð :

Ákærði, Andri Smárason, greiði 190.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu þessa dóms að telja, en sæti ella fangelsi í 14 daga.

Ákærði er sviptur ökurétti í þrjá mánuði frá birtingu dómsins að telja.

Ákærði greiði 76.546 krónur í sakarkostnað.

Gerð eru upptæk 0,14 grömm af maríhúana, með nr. 20.801 í efnaskrá lögreglu.