Hæstiréttur íslands
Mál nr. 371/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Kæruheimild
- Frávísun frá Hæstarétti
- Aðfinnslur
|
|
Miðvikudaginn 3. júní 2015. |
|
Nr. 371/2015.
|
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Einar Laxness aðstoðarsaksóknari) gegn X (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.) |
Kærumál. Kæruheimild. Frávísun frá Hæstarétti. Aðfinnslur.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu L um heimild til að taka munnvatnssýni úr X á grundvelli 5. gr. laga nr. 88/2001 um erfðaefnaskrá lögreglu. Þar sem heimild brast til kæru úrskurðarins var málinu vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. maí 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. maí 2015, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um heimild til að taka munnvatnssýni úr varnaraðila. Um kæruheimild er vísað til h. liðar 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að framangreindri kröfu sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Samkvæmt h. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 sætir kæru til Hæstaréttar úrskurður héraðsdóms um heimild til leitar og annarra aðgerða samkvæmt X. kafla laganna, svo og framkvæmd þeirra aðgerða. Kröfur varnaraðila lúta á hinn bóginn að lögmæti lífsýnatöku að gengnum fullnaðardómi á grundvelli 5. gr. laga nr. 88/2001 um erfðaefnaskrá lögreglu og fellur slík sýnataka ekki undir gildissvið X. kafla laga nr. 88/2008 sem er bundinn við slík úrræði undir rannsókn sakamáls. Úrskurður þess efnis sætir því ekki kæru eftir fyrrgreindri heimild h. liðar eða öðrum stafliðum 1. mgr. 192. gr. laganna. Kæruheimild er því ekki fyrir hendi og verður málinu vísað frá Hæstarétti.
Það athugist að heimild 5. gr. laga nr. 88/2001 til lífsýnatöku við þær aðstæður, sem þar eru tilgreindar, á sér sjálfstæða og fullnægjandi lagastoð, sbr. niðurlag 1. málsliðar 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrár. Lagaskilyrði stóðu því ekki til þess að héraðsdómur felldi úrskurð á málið.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. maí 2015.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að leitarþoli hafi verið sakfelldur þann 22. janúar sl. sbr. dómi Hæstaréttar nr. 508/2014, fyrir brot gegn 1. mgr. 226. gr., 233. gr., 1. mgr. 217. gr., 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 106. gr., allt almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þar sem leitarþoli hafi verið sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 194. gr. fyrrgreindra hegningarlaga hafi lögreglumenn farið á Litla-Hraun í þeim tilgangi að fá frá honum munnvatnssýni til skráningar í erfðaefnisskrá lögreglu sem og honum hafi verið skylt að hlíta skv. 2. mgr. 5. gr., sbr. a- og c-liði 4. gr. laga um erfðaefnisskrá lögreglu nr. 88/2001.
Í greinargerðinni kemur fram að leitarþoli hafi ekki viljað gefa samþykki sitt fyrir sýnatökunni en að mati lögreglu beri honum skýlaus lagaskylda til að heimila sýnatöku, sbr. orðalag í nefndum ákvæðum, þannig að lögregla geti fullnægt skyldum sínum samkvæmt 1. gr. nefndra laga um erfðaefnisskrá lögreglu og því krefjist lögregla þess að munnvatnssýnatakan fari fram þrátt fyrir neitun leitarþola enda sé um öryggisráðstöfun að ræða sem lögreglu beri skylda til að fullnægja, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga um meðferð sakamála (sml.) og aftur 1. gr. nefndra laga um erfðaefnisskrá.
Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og 1. gr., 5. gr., sbr. 4. gr. laga um erfðaefnisskrá lögreglu nr. 88/2001, 2. mgr. 1. gr. og 1. mgr. 77. gr. , sbr. 2. mgr. 78. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og 14. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Niðurstaða
Samkvæmt þeim upplýsingum og gögnum sem lögregla hefur lagt fyrir dóminn hefur X hlotið refsidóm fyrir brot gegn 1. mgr. 226. gr., 233. gr., 1. mgr. 217. gr., 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 106. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þar sem þessi brot eru meðal þeirra sem getið er um í a- 4. gr. laga um erfðaefnisskrá lögreglu nr. 88/2001, sbr. c-lið sömu greinar, er heimilt samkvæmt 5. gr. sömu laga að taka úr dómfellda lífsýni, enda eru ekki liðnir sex mánuðir frá því að fullnaðardómur gekk í máli hans, og dómfellda er skylt að hlíta þeirri meðferð sem talin er nauðsynleg vegna töku lífsýnis, sbr. 2. mgr. 5. gr. sömu laga.
Framangreindar lagaheimildir eru í gildi og verður ekki fallist á röksemdir verjanda um að þeim verði ekki beitt af þeim ástæðum sem hann tilgreinir, að þeim hafi ekki verið beitt reglulega frá upphafi, sem ekki liggja fyrir upplýsingar um, eða að þær gangi lengra en mannréttindaákvæði stjórnarskrár heimili.
Þar sem dómfelldi hefur neitað að láta lífsýni í té er fallist á að lögreglu sé þörf á að leita dómsúrskurðar á grundvelli 2. mgr. 78. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 1. mgr. 77. gr., fyrir þeirri ráðstöfun að taka lífsýni úr dómfellda, sbr. og 2. mgr. 1. gr. sakamálalaga og verður því fallist á kröfuna.
Þóknun verjanda dómfellda, 52.000 krónur, verður dómfellda gert að greiða.
Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
ÚRSKURÐARORÐ:
Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu er heimilt að að láta framkvæma líkamsrannsókn með töku munnvatnssýnis úr X, kt. [...], leitarþola, sem afplánar nú dóm á Litla-Hrauni.
Leitarþoli, dómfelldi X, greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hrl., 52.000 krónur.