Hæstiréttur íslands

Mál nr. 14/2010


Lykilorð

  • Bifreið
  • Vöruflutningar


                                                        

Fimmtudaginn 3. júní 2010.

Nr. 14/2010.

Ákæruvaldið

(Daði Kristjánsson saksóknari)

gegn

Atla Má Guðjónssyni

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

Bifreiðir. Vöruflutningar.

A var ákærður fyrir umferðarlagabrot með því að hafa sem ökumaður vörubifreiðar margoft brotið gegn reglum um aksturs- og hvíldartíma ökumanna. A var sakfelldur samkvæmt ákæru og dæmdur í þiggja mánaða skilorðsbundið fangelsi.  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. janúar 2010 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að kröfu ákærða um frávísun málsins frá héraðsdómi verði hafnað, staðfest verði niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða og að refsing hans verði þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara krefst hann sýknu. Að því frágengnu krefst hann þess að ákvörðun um refsingu ákærða verði frestað eða hún milduð og höfð skilorðsbundin. 

I

Fyrir Hæstarétt hefur ákæruvaldið lagt fram ný gögn meðal annars veðurkort sótt í gagnagrunn Veðurstofu Íslands og upplýsingar um rafræna ökurita.

Eins og rakið er í héraðsdómi er ákærða gefið að sök að hafa sem ökumaður vörubifreiðarinnar MU 555 á tímabilinu frá 3. ágúst 2007 til 14. janúar 2008 margoft brotið gegn 1. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 662/2006 um aksturs- og hvíldartíma ökumanna, sbr. 44. gr. a. og b. umferðarlaga nr. 50/1087. Krafist er refsingar ákærða samkvæmt 100. gr. umferðarlaga. Fram kemur í ákæru að brot hans hafi komið í ljós við athugun eftirlitsmanna Vegagerðarinnar eftir að gögn úr ökurita bifreiðarinnar voru haldlögð 25. apríl 2008.

Ákærði tiltekur í löngu máli fjölmörg atriði til stuðnings aðalkröfu sinni um frávísun málsins frá héraðsdómi. Hann nefnir til að mynda að á skorti að atvikum máls sé lýst í ákæru en hvorki sé tiltekið hvar hvert og eitt brot eigi að hafa verið framið né hver farmur bifreiðarinnar hafi verið; að heimfærsla í ákæru til refsiákvæða sé röng þar sem ekki sé vísað til ákvæðis 14. gr. reglugerðar nr. 662/2006; að ákæran samræmist ekki ákvæðum 75. gr. stjórnarskrár um atvinnufrelsi, jafnræðisreglu í 65. gr. og 1. mgr. 69. gr. hennar um skýrleika refsiheimildar; að lögregla hafi ekki rannsakað málið sjálfstætt samkvæmt VII. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála en einvörðungu stuðst við ófullnægjandi gögn Vegagerðarinnar; að Vegagerðin hafi farið út fyrir valdsvið sitt og ekki gætt að stjórnsýslureglum, svo sem um rannsókn máls, andmælarétt og meðalhóf; að ráðherra hafi ekki uppfyllt skyldu sína um að setja reglur í samræmi við fyrirmæli 6. mgr. 68. gr. umferðarlaga um hæfi og þjálfun eftirlitsmanna Vegagerðarinnar; að leiðbeiningar með þeim ökurita sem um ræðir hafi verið ófullnægjandi; að málið sé órannsakað að því leyti að meðal annars hafi ekki verið kallað eftir nauðsynlegum gögnum frá vinnuveitanda ákærða um ferðir bifreiðarinnar og farm hennar í hverri ökuferð fyrir sig eða gögnum frá Veðurstofu um veðurfar og gögnum um færð á vegum, en þessi gögn gætu hafa sýnt fram á að undantekningarákvæði reglna um akstur hafi átt við um ferðir ákærða; að rannsókn hafi tekið langan tíma. Var þessari kröfu hans hafnað með úrskurði héraðsdóms 24. nóvember 2009.

Grunur um umferðarlagabrot ákærða kom upp 25. apríl 2008 við lögbundna skoðun eftirlitsmanna Vegagerðarinnar samkvæmt ákvæðum 68. gr. umferðarlaga, sbr. reglugerð nr. 777/2006 um eftirlit með aksturs- og hvíldartíma ökumanna, notkun ökurita o.fl. Vegna bilunar í prentara var ekki unnt að prenta á staðnum hefðbundna vettvangsskýrslu. Eftir athugun Vegagerðarinnar á rafrænum gögnum úr ökurita bifreiðarinnar var málið sent sýslumanni á Selfossi 4. júní 2008 til rannsóknar. Lögregla tók skýrslu af ákærða 3. febrúar 2009 og bar undir hann sakaratriði. Að mati lögreglu gaf framburður hans ekki tilefni til frekari rannsóknar. Við svo búið taldi hún fram komin nauðsynleg gögn til að saksækja ákærða. Frá upphafi rannsóknar málsins hafði ákærði alla möguleika á að upplýsa, leggja fram eða vísa til gagna um akstur sinn á því tímabili er ákæran tekur til. Meðferð málsins fyrir dómi var með hefðbundnum hætti þar sem lögð voru fram gögn eftir því sem tilefni var til og þau borin undir ákærða og eftir atvikum vitni. Það athugast að samhliða 100. gr. umferðarlaga hefði einnig mátt geta ákvæðis 14. gr. reglugerðar nr. 662/2006 í ákæru, sbr. c. lið 1 mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008, en það kemur ekki að sök við niðurstöðu málsins. Verður því ekki fallist á með ákærða að ákæru hafi verið áfátt um atriði sem nauðsynlegt er að greina í henni samkvæmt a. til e. liðum 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Að þessu virtu eru engir þeir annmarkar á rannsókn og meðferð málsins, sem valdið geta frávísun þess frá héraðsdómi.

II

Ákærði hefur til stuðnings sýknukröfu meðal annars vísað til þess að ákvæði framangreindra reglugerða séu ekki fullnægjandi refsiheimild og feli í sér brot á jafnræðisreglum 65. gr. stjórnarskrár. Þá hefur hann eins og áður segir vísað til þess að undanþáguákvæði reglugerðar nr. 662/2006, einkum 4., 9. og 13. gr., kunni að hafa átt við um akstur hans í einstökum tilvikum sem um ræðir í ákæru eða þeim öllum.

Reglugerðir þær, sem um ræðir í málinu, eru settar með viðhlítandi stoð í lögum og taka almennt og í eðlilegu samhengi upp þráðinn þar sem fyrirmæli í settum lögum þrýtur. Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 661/2006 um ökurita og notkun hans, sbr. 1. og 2. mgr. 44. gr. a. umferðarlaga bera flytjandi og ökumaður ábyrgð á því að ökuriti vinni rétt og skrái hverju sinni réttar upplýsingar um aksturs- og hvíldartíma ökumanns og upplýsingar er sýni hraða bifreiðarinnar og fleira, á skífu í skífuökurita eða í rafrænan ökurita eða á rafrænt ökumannskort. Eins og greinir í héraðsdómi hefur ákærði ekki lagt fram gögn til stuðnings framangreindum fullyrðingum sínum um að undanþáguákvæði reglugerðanna eigi við í máli þessu. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða.

Ákærði hefur unnið sér til refsingar samkvæmt 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga, sbr. og 14. gr. reglugerðar nr. 662/2006. Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann ekki áður gerst sekur um aðra refsiverða háttsemi en þau brot sem hér um ræðir. Þegar litið er til þess að ákærði er nú sakfelldur fyrir fjölmörg brot sem varða umferðaröryggi verður refsing hans ákveðin fangelsi í þrjá mánuði, skilorðsbundið á þann hátt sem greinir í dómsorði. 

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákærði, Atli Már Guðjónsson, sæti fangelsi í þrjá mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins samtals 436.159 krónur þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Steingríms Þormóðssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur.

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 21. desember 2009.

Mál þetta, sem þingfest var þann 10. september 2009 og dómtekið 18. desember sl., var höfðað með ákæru lögreglustjórans á Selfossi, dagsettri 1. júlí 2009, á hendur Atla Má Guðjónssyni, kt. [..],

fyrir umferðarlagabrot

með því að hafa, sem ökumaður vörubifreiðarinnar MU-555 brotið gegn reglum um aksturs- og hvíldartíma ökumanna eins og að neðan greinir, en brot ákærða komu í ljós við skoðun eftirlitsmanna Vegagerðarinnar eftir að gögn úr ökurita bifreiðarinnar voru haldlögð þann 25. apríl 2008.

a.        á akstursdegi er hófst kl. 12:58 þann 3. ágúst 2007 og stóð til kl. 21:55 sama dag, ekið nefndri vörubifreið án lögboðins hlés í 7:30 klukkustundir eða 66,6% yfir leyfðum aksturstíma.

b.       á akstursdegi er hófst kl. 08:04 þann 3. ágúst 2007 ekið nefndri vörubifreið í 11:10 klukkustundir eða 11,6% yfir leyfðum daglegum aksturstíma.

c.        á akstursdegi er hófst kl. 09:33 þann 24. september 2007 og stóð til kl. 18:33 sama dag, ekið nefndri vörubifreið án lögboðins hlés í 8 klukkustundir eða 77,7% yfir leyfðum daglegum aksturstíma.

d.       á akstursdegi er hófst kl. 07:32 þann 25. september 2007 og stóð til kl. 19:00 sama dag, ekið nefndri vörubifreið án lögboðins hlés í 10:17 klukkustundir eða 128,1% yfir leyfðum daglegum aksturstíma.

e.        á akstursdegi er hófst kl. 07:23 þann 12. nóvember 2007 og stóð til kl. 18:31 sama dag, ekið nefndri vörubifreið án lögboðins hlés í 10:13 klukkustundir eða 127,0% yfir leyfðum daglegum aksturstíma.

f.         á akstursdegi er hófst kl. 07:11 þann 13. nóvember 2007 og stóð til kl. 18:18 sama dag, ekið nefndri vörubifreið án lögboðins hlés í 10:23 klukkustundir eða 130,7% yfir leyfðum daglegum aksturstíma.

g.       á akstursdegi er hófst kl. 12:40 þann 15. nóvember 2007 og stóð til kl. 18:35 sama dag, ekið nefndri vörubifreið án lögboðins hlés í 5:48 klukkustundir eða 28,9% yfir leyfðum daglegum aksturstíma.

h.       á akstursdegi er hófst kl. 07:42 þann 19. nóvember 2007 og stóð til kl. 18:30 sama dag, ekið nefndri vörubifreið án lögboðins hlés í 9:56 klukkustundir eða 120,7% yfir leyfðum daglegum aksturstíma.

i.         á akstursdegi er hófst kl. 12:54 þann 20. nóvember 2007 og stóð til kl. 18:59 sama dag, ekið nefndri vörubifreið án lögboðins hlés í 5:32 klukkustundir eða 22,9% yfir leyfðum daglegum aksturstíma.

j.         á akstursdegi er hófst kl. 06:37 þann 20. nóvember 2007 ekið nefndri vörubifreið í 11:06 klukkustundir eða 11,0% yfir leyfðum daglegum aksturstíma.

k.        á akstursdegi er hófst kl. 06:29 þann 21. nóvember 2007 og stóð til kl. 18:45 sama dag, ekið nefndri vörubifreið án lögboðins hlés í 11:08 klukkustundir eða 147,4% yfir leyfðum daglegum aksturstíma.

l.         á akstursdegi er hófst kl. 06:37 þann 21. nóvember 2007 ekið nefndri vörubifreið í 11:08 klukkustundir eða 11,3% yfir leyfðum daglegum aksturstíma.

m.      á akstursdegi er hófst kl. 07:30 þann 9. janúar 2008 og stóð til kl. 17:58 sama dag, ekið nefndri vörubifreið án lögboðins hlés í 8:56 klukkustundir eða 98,5% yfir leyfðum daglegum aksturstíma.

n.       á akstursdegi er hófst kl. 06:48 þann 10. janúar 2008 og stóð til kl. 15:17 sama dag, ekið nefndri vörubifreið án lögboðins hlés í 7:11 klukkustundir eða 59,6% yfir leyfðum daglegum aksturstíma.

o.       á akstursdegi er hófst kl. 10:52 þann 14. janúar 2008 og stóð til kl. 17:44 sama dag, ekið nefndri vörubifreið án lögboðins hlés í 6:16 klukkustundir eða 39,3% yfir leyfðum daglegum aksturstíma.

Teljast brot ákærða samkvæmt ákæruliðum a, c-i, k, m-o varða við 1. mgr. 7. gr. reglugerðar um aksturs- og hvíldartíma ökumanna, nr. 662, 2006, sbr. 1. mgr. 7. gr. EBE reglugerðar nr. 3820, 85, og brot samkvæmt ákæruliðum b, j og l teljast varða við 1. mgr. 6. gr. reglugerðar um aksturs- og hvíldartíma ökumanna, nr. 662, 2006, sbr. 1. mgr. 6. gr. EBE reglugerðar nr. 3820, 85, allt sbr. 44. gr. a. og b., sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987 með síðari breytingum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu sakarkostnaðar.“  

Við þingfestingu málsins, þann 3. september sl., krafðist ákærði aðallega að málinu yrði vísað frá dómi þar sem rannsókn þess væri ábótavant og ekki væri tilgreint í ákæru vettvangur brotanna né hvað ákærði hefði verið að flytja í hvert sinn. Var frávísunrakröfu ákærða hafnað með úrskurði þann 24. nóvember sl. Fór aðalmeðferð fram þann 8. desember sl. og var málið dómtekið að henni lokinni. Ákærði krefst sýknu en til vara að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa. Þá krefst verjandi ákærða málsvarnarlauna og að þau verði greidd úr ríkissjóði ásamt virðisaukaskatti.

I.

Upphaf máls þessa er að þann 25. apríl 2008 höfðu vegaeftirlitsmenn Vegagerðarinnar afskipti af ákærða í hefðbundnu eftirliti á Óseyrarbraut í Þorlákshöfn. Voru gögn af rafrænu ökumannskorti tekin til nánari skoðunar. Kemur fram í vettvangsskýrslu að vegna bilunar í prentara hafi ekki verið hægt að prenta skýrslu út á staðnum og ökumanni því verið sent afrit í pósti. Með bréfi þann 4. júní 2008 sendi Vegagerðin kæru til lögreglunnar á Selfossi vegna brota á reglugerð nr. 662/2006 um aksturs- og hvíldartíma ökumanna. Þann 3. febrúar 2009 kom ákærði á lögreglustöðina á Selfossi og voru kæruatriðin borin undir ákærða. Ákærði var þar spurður hver brotavettvangur hefði verið í hverjum ákærulið og kvað ákærði hann vera hér og þar. Ákærði kvaðst vera með festivagn sem á væri fluttur jarðvegur og ýmis farmur en umræddan dag hefði hann verið að flytja áburð frá Þorlákshöfn að Hvolsvelli. Kvaðst ákærði skipuleggja vinnu sína sjálfur. Ákærði kvaðst fyrir lögreglu ekki hafa verið vanur ökuritanum, sem hafi verið nýlegur, en hann hefði oft gleymt að setja stillingu á hvíld og þá kæmi það út eins og hann hefði ekki tekið sér hvíld. Spurður um einstaka kæruliði kvað ákærði yfirleitt að hann hefði sennilega gleymt að stilla ökuritann á hvíld.

II.

Skýrslur fyrir dómi.

Ákærði gaf skýrslu fyrir dóminum og kvað það líklegt að hann hefði ekið bifreiðinni MU-555 á því tímabili sem ákært er fyrir en hann gæti ekki fullyrt það. Kvað hann það líklegt að á haustmánuðum 2007 hefði hann verið að keyra sláturlömb og þá hefði ekki verið möguleiki að fullnægja kröfum um hvíldartíma. Aðrir hefðu einnig ekið bifreiðinni á þessum tíma. Kvað hann ökuritakortin hafa þá verið ný. Hann hefði ekki alltaf tekið ökuritakortið sitt úr ökuritanum og þá hefði jafnvel einhver annar ökumaður hoppað upp í bílinn morguninn eftir og ekið honum. Ákærði kvaðst hafa keypt vörubifreiðina fyrri hluta ársins 2007 og ökuritinn hefði komið með bifreiðinni. Ákærði kvaðst hafa tekið meirapróf árið 2002 og ekið vörubifreiðum með eldri gerð af ökuritum. Eldri ökuritarnir hefðu farið sjálfkrafa á hvíld þegar bifreiðin var stöðvuð en með nýju ökuritunum þyrfti að stilla sérstaklega á hvíld. Aðspurður um það hvað hann hefði verið að flytja samkvæmt ákæruliðum a-l kvaðst hann líklega hafa verið að flytja sláturlömb og þá eflaust gleymt að stilla ökuritann á hvíld. Aðspurður um það hvort hann hefði verið í öðrum flutningum kvað ákærði svo vera, hann hefði verið að flytja möl, jarðveg, steypu og allt sem til hefði fallið. Ákærði kvaðst aðspurður kannast við eitthvað af þeim reglum sem sneru að undanþágu á lögboðnum hvíldartíma. Aðspurður kvað ákærði rafræna ökuritann ekki gefa möguleika á að hann væri stilltur sérstaklega þegar undanþágur ættu við en hægt hefði verið að skrifa á skífurnar á gömlu ökuritunum. Ákærði kvað enga lögreglurannsókn hafa farið fram og lögreglan hefði ekki innt hann eftir dagbók sem ákærði kvaðst eflaust hafa haldið á þeim tíma. Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa fengið íslenskar leiðbeiningar með ökuritanum þegar hann keypti bifreiðina. Ákærði kvað sig hafa þurft að sækja um ökumannskort til Umferðarstofu og þar hefði hann gefið upplýsingar um sjálfan sig. 

Randver Sigurðsson, kt. […], umferðareftirlitsmaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið í hefðbundnu eftirliti þegar höfð voru afskipti af ákærða. Bifreið ákærða hefði verið stöðvuð og afrit tekið af ökumannskorti ákærða. Skýrsla væri yfirleitt gerð á vettvangi en í þessu tilfelli hefði prentari í bifreiðinni verið bilaður þannig að ekki hefði verið hægt að prenta vettvangsskýrslu á staðnum. Í framhaldi hefðu gögn ökumannskortsins verið skoðuð og þá komið í ljós umrædd brot. Útilokað væri að skoða gögnin sem væru á ökumannskortinu á staðnum þar sem það tæki svo langan tíma. Því væru gögnin skoðuð síðar. Á ökumannskortinu væri skráður allur akstur viðkomandi ökumanns. Aðspurður um þá skýringu ákærða að hann hefði gleymt að stilla ökuritann á hvíld, kvað Randver það sjást á ritanum hvort bifreiðin væri í akstri, hvort hún væri stöðvuð en í gangi eða hvort hún væri í hvíld. Til að stilla ökuritann á hvíld þyrfti að nota sérstakan takka. Í gögnum ökuritans skráist akstur sem rauð stöplarit, og gleymist að stilla á hvíld en bifreiðin stöðvuð þá skráist sá tími með bláum lit í stöplaritið. Ýti ökumaður á hvíld kemur það fram með grænum lit í stöplaritinu. Aki ökumaður umfram lögbundinn hvíldartíma þá kemur það fram með svörtum lit í stöplaritinu. Kvað Randver ökumenn þó njóta vafans hvað það varðar að stilla á hvíld, sem sé þó lögbundið, þannig að ef það skráist í ökuritann að bifreiðin sé ekki í akstri, þá hefur það verið túlkað sem hvíld. Kvað hann ekki möguleika á að akstur bifreiðarinnar skráðist á ökumannskort annars bifreiðastjóra en þess sem æki henni. Sérhver ökumaður væri með sérstakt númer á sínu ökumannskorti og það merkt sérstaklega ökumanninum. Aðspurður um undanþágur samkvæmt reglugerðinni frá lögbundnum hvíldartíma, þá kvað hann ökumanninn skyldan til að hafa samt sem áður ökumannskortið í ökuritanum, og þá væri ökuritinn stilltur á undanþáguna sem væri sérstakur takki á ökuritanum. Í lok aksturs ætti ökumaður að skrá slíkan akstur sérstaklega. Slíkur akstur skráist í ökuritann og er skoðaður sérstaklega þegar það á við. Randver kvað ökurita yfirleitt vera staðsetta í mælaborði bifreiðanna eða fyrir ofan það og væru þeir vel sjáanlegir og aðgengilegir. Kvað Randver að þau stopp sem fram kæmu í stöplaritinu væru ekki reiknuð sem akstur bifreiðarinnar en þau væru heldur ekki reiknuð sem hvíld nema þegar stoppin væru það löng að þau uppfylltu ákvæðin um hvíldartíma. Því væru stöðvanir á gatnamótum, umferðarljósum eða í öðrum tilvikum, ekki reiknuð inn í akstur í viðkomandi ferð. Aðspurður kvað Randver það vera vana að prenta út vettvangsskýrslu á staðnum og láta viðkomandi ökumann rita undir skýrsluna en í þessu tilviki hefði prentarinn verið bilaður. Hins vegar hefðu tækin sem tækju afrit af ökumannskortinu verið í lagi en það gæti tekið margar klukkustundir að lesa þau á vettvangi og væri aldrei gert. Ökumanni væri tilkynnt um það. Randver kvað námskeið hafa verið haldin fyrir umferðareftirlitsmenn í meðferð ökurita og lestri gagna úr þeim en honum væri ekki kunnugt um það hvort námskeið væru haldin fyrir ökumenn sérstaklega.

Sævar Ingi Jónsson, kt. […], deildarstjóri umferðareftirlits Vegagerðarinnar, gaf símaskýrslu fyrir dóminum og kvað afskipti sín hafa verið þau að hann hefði fengið gögn málsins send, yfirfarið þau og síðan vísað málinu til sýslumannsins á Selfossi. Stafrænir ökuritar hefðu verið lögbundnir í nýjum bílum haustið 2006. Þeir væru einfaldir í notkun og væri hægt að velja aðgerð á þeim. Ekki væri hægt að breyta upplýsingum sem skráðust í ökumannskort heldur eingöngu skoða þau. Ef ökumaður teldi sig eiga að aka á undanþágu frá hvíldartíma þá ættu menn að stilla ökuritann á það. Ef skilyrði til undanþágu sköpuðust fyrirvaralaust ætti ökumaður að prenta út borða úr ökuritanum um aksturinn og skrá þar sérstaklega skýringar. Aðspurður kvað Sævar Vegagerðina hafa haldið námskeið um notkun ökurita, þar sem óskað hafi verið eftir þeim, og hefðu mörg stærri fyrirtæki nýtt sér það. Þá væru íslenskar leiðbeiningar til með rafrænum ökuritum. Kvað Sævar ökuritana vera löggilta af þar til bærum aðilum áður en þeir væru settir í bifreiðar. Þá sé sérstakt eftirlit með þeim þegar bifreiðar fara í árlega bifreiðaskoðun. Útskýrði Sævar Ingi fyrir dóminum hvernig ætti að stilla ökuritann á akstur með undanþágu og kvað það vera mjög einfallt. Þá kvað hann margar tegundir af ökuritum vera framleidda og í boði en þeir væru allir með sömu upplýsingum. Aðspurður um það hvernig upplýsingar um ökumann á ökumannskorti færu inn á kortið sjálft, kvað hann ökumann sækja um ökumannskort hjá Umferðarstofu sem sæi um það að láta framleiða kortið fyrir viðkomandi ökumann og setja hans persónulegu upplýsingar í kortið.

Iðunn Dögg Gylfadóttir, kt. […], umferðareftirlitsmaður hjá Vegagerðinni, gaf símaskýrslu fyrir dóminum og kvaðst ekki muna eftir þessu sérstaka tilviki. Kvað hún við venjulegt eftirlit ökumannskort vera tekið og sett í tæki sem væri í eftirlitsbifreiðinni sem svo læsi upplýsingarnar af kortinu. Síðan væru þessar upplýsingar lesnar með sérstöku tæki síðar.

III.

Niðurstöður.

Ákærði krafðist sýknu m.a. af því að engin rannsókn hefði farið fram hjá Vegagerðinni eða lögreglunni en lögreglan hefði ekki rannsakað sérstaklega hvaða farm hann hefði verið að flytja né akstursleiðir og akstursskilyrði og þannig sinnt rannsóknarskyldu sinni sem leiða mætti í ljós sekt eða sýknu. Eingöngu hefði verið horft á þá þætti sem gætu leitt til sektar ákærða. Því væri málið ekki dómtækt til sakfellingar. Kvað hann vegaeftirlitsmenn vera stjórnsýslustig og reglugerð um hæfi eftirlitsmanna, sbr. 6. mgr. 68. gr. umferðarlaga, ekki hafa verið setta. Því væri það ekki fullnægjandi rannsókn. Þá væri vettvangsskýrslan eingöngu undirrituð af Randver en ekki ákærða. Þá hefði rannsóknarreglan verið brotin og brotið á andmælarétti ákærða. Því væri málið ekki dómtækt.         

Meðal rannsóknargagna eru gögn frá Vegagerðinni sem Randver Sigurðsson staðfesti að hann hefði unnið upp úr ökumannskorti ákærða. Hafa þau gögn ekki verið véfengd eða sýnt fram á að ekki væri hægt að byggja á þeim. Þá er meðal rannsóknargagna skýrsla tekin af ákærða hjá lögreglu þar sem hann er spurður um brotavettvang og kvað ákærði hann hafa verið hér og þar. Hann hefði verið með festivagn sem á væri fluttur jarðvegur og ýmis farmur en umræddan dag sem Vegagerðin hefði haft afskipti af honum hefði hann verið að flytja áburð. Fyrir dóminum kvaðst ákærði eflaust hafa haldið dagbók um akstur sinn á þeim tíma en lögreglan ekki spurt um það. Þá kvað ákærði fyrir dóminum sig líklega hafa verið í fjárflutningum um haustið 2007. Var ákærða í lófa lagið við skýrslutökur hjá lögreglunni að óska eftir því að leggja fram dagbók, ef hún var þá haldin, til að sýna fram á að um akstur hans hefðu gilt sérstakar undanþágur með hvíldartíma. Það gerði ákærði ekki. Verður því að telja að lögreglan hafi rannsakað þennan þátt málsins nægjanlega, enda bar ákærði sönnunarbyrðina fyrir því að undanþágur hefðu átt við hann á þeim tíma. Verður málinu hvorki vísað frá dómi vegna ófullnægjandi rannsóknar á málinu, né ákærði sýknaður á þeim forsendum að málið sé ekki dómtækt.

Ákærði bar því einnig við fyrir dóminum að hann hefði ekki kunnað að stilla ökuritann á hvíld þar sem honum hefðu ekki fylgt íslenskar leiðbeiningar þegar hann fékk hann afhentan með bifreiðinni um vorið 2007. Fyrir lögreglu taldi ákærði, varðandi þennan þátt, sig mögulega hafa gleymt að stilla ökuritann á hvíld. Ákærði kvaðst hafa fengið meirapróf þegar hann var átján ára eða árið 2002 og keyrt vörubifreiðar meira og minna frá þeim tíma. Þá kvaðst hann hafa ekið með gömlu tegundina af ökuritum þar sem notaðar voru skífur og hefðu þær verið auðveldari í notkun. Ljóst er að sá sem stjórnar bifreið ber ábyrgð á akstri sínum nema lögbundnar refsileysisástæður eigi við um aksturinn. Svo er ekki í þessu tilviki. Ákærði er með aukin ökumannsréttindi og á því að vera fullkunnugt um að honum ber að kynna sér umferðarlög og aðrar reglur samkvæmt þeim. Þekkingarleysi á útbúnaði bifreiðar, sem ökumaður stjórnar, eða á lögum og reglum sem um akstur gilda á hverjum tíma, eru ekki refsileysisástæður. Bar því ákærði alla ábyrgð á því að nota ökuritann eins og reglur buðu honum og bar honum einnig að kynna sér þær reglur. Verður ákærði því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Er háttsemin réttilega heimfærð til refsiákvæða.

Við ákvörðun refsingar verður litið til þess að ákærði hefur ítrekað ekið þungaflutningabifreið dögum saman án þess að taka sér lögboðna hvíld. Með þessari háttsemi sinni hefur ákærði aukið á þá hættu sem stór og þung flutningatæki skapa á vegum úti með því að aka allt upp í rúmlega ellefu klukkustundir samfleytt, sbr. ákæruliður k, án þess að taka sér nokkra hvíld. Rétt þykir þó, þar sem ákærða hefur ekki verið gerð refsing áður, að gera ákærða sektarrefsingu sem þykir hæfilega ákveðin 2.130.000 krónur sem ákærða ber að greiða til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa en sæta ella fangelsi í sextíu daga.

Með vísan til 1. mgr. 218. gr. sakamálalaga nr. 88/2008 ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar sem eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Þormóðs Skorra Steingrímssonar héraðsdómslögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin 186.750 krónur, og 20.976 krónur í ferðakostnað, allt að meðtöldum virðisaukaskatti.

Mál þetta sótti Jónína Guðmundsdóttir, fulltrúi sýslumannsins á Selfossi.

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Ákærði, Atli Már Guðjónsson, greiði 2.130.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa en sæti ella fangelsi í sextíu daga.

Ákærði greiði allan sakarkostnaðar, sem eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Þormóðs Skorra Steingrímssonar hdl., 186.750 krónur, og 20.976 krónur í ferðakostnað, allt að meðtöldum virðisaukaskatti.