Print

Mál nr. 23/2007

Lykilorð
  • Þjóðlenda
  • Eignarréttur
  • Fasteign
  • Afréttur
  • Gjafsókn

         

Fimmtudaginn 14. júní 2007.

Nr. 23/2007.   

Sigurjón Sveinbjörnsson

Sæmundur Sveinbjörnsson

Guðrún Sveinbjörnsdóttir

Guðbjörg Sveinbjörnsdóttir

Sigurbjörn Sveinbjörnsson

Gísli Sveinbjörnsson

Ásta Sveinbjörnsdóttir

Ólafur Pálmi Baldursson

Gunnheiður G. Þorsteinsdóttir

Sigríður Björnsdóttir og

Baldur Björnsson

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

 

Þjóðlenda. Eignarréttur. Fasteign. Afréttur. Gjafsókn.

Með úrskurði 10. desember 2004, þar sem fjallað var um mörk þjóðlendna og eignarlanda á Eyjafjallasvæði og Þórsmörk í Rangárþingi eystra, komst óbyggðanefnd að þeirri niðurstöðu að landsvæðið Steinsholt væri þjóðlenda. S o.fl., sem töldu til réttinda yfir landsvæðinu sem eigendur jarðanna Mið-Merkur, Fitja og Fitjamýra, kröfðust þess aðallega að úrskurður nefndarinnar yrði að þessu leyti felldur úr gildi. Til vara kröfðust þau viðurkenningar á fullkomnum afnotarétti sínum á hvers kyns gögnum og gæðum á afréttarlandinu. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að samkvæmt landamerkjabréfi Mið-Merkur frá 1890 ætti jörðin ,,afréttina Steinsholt ... hlutfallslega“ með ótilgreindum sameigendum. Þá kæmi fram í merkjalýsingu fyrir Steinsholt frá 1892 að það tilheyrði jörðunum Mið-Mörk, Fitjum og Fitjamýri. Að því er varðar heimildargildi þessara skjala var litið til þess að í landamerkjabréfinu var ekki getið um hverjir aðrir kölluðu til réttinda yfir svæðinu, sem þar var nefnt afréttur. Þá varð ekki ráðið af gögnum málsins að eigendur jarðanna þriggja, sem hér áttu í hlut, hefðu staðið að merkjalýsingunni þar sem hermt var að Steinsholt tilheyrði þeim. Af þessum sökum var ekki talið að skjölin fælu í sér haldbæra heimild fyrir sameiginlegum beinum eignarrétti S o.fl. að landsvæðinu, en fyrir slíkum réttindum voru heldur engar eldri heimildir. Þá lá ekkert fyrir um að umráðamenn jarðanna hefðu nokkru sinni haft önnur not af landsvæðinu en hefðbundin afréttarnot til sumarbeitar fyrir búfénað. Í úrskurði óbyggðanefndar hafði því verið slegið föstu að Steinsholt væri afréttareign eigenda þessara þriggja jarða og var ekki talið að S o.fl. hefðu reifað hver þau frekari réttindi gætu verið sem varakrafa þeirra tók til. Var Í því sýknað af kröfum S o.fl.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason, Hjördís Hákonardóttir, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 11. janúar 2007 og krefjast þess aðallega að úrskurður óbyggðanefndar 10. desember 2004 í máli nr. 5/2003, Eyjafjallasvæði og Þórsmörk í Rangárþingi eystra, verði felldur úr gildi að því leyti sem þar var ákveðið að landsvæðið Steinsholt sé þjóðlenda og viðurkennt að þau eigi í óskiptri sameign eignarrétt að landinu með tilteknum merkjum, sem hafi mörk gagnvart þjóðlendu í Eyjafjallajökli eins og jaðar hans er á hverjum tíma. Til vara krefjast áfrýjendur viðurkenningar á „fullkomnum afnotarétti áfrýjenda á hvers kyns gögnum og gæðum á afréttarlandinu að engum afnotum undanskildum.“ Í báðum tilvikum krefjast áfrýjendur málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem þeim hefur verið veitt.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Óbyggðanefnd, sem starfar samkvæmt ákvæðum laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, gaf út tilkynningu 12. október 2000 um að hún hefði ákveðið að taka til meðferðar svæði, sem afmarkað var að vestan af Þjórsá og að austan af vesturmörkum jarðarinnar Núpsstaðar í Fljótshverfi. Að sunnan náði svæðið til hafs, en að norðan að línu, sem samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendis Íslands mun hafa notað við vinnu sína. Að fram komnum kröfum stefnda um þjóðlendur á þessu svæði og kröfum þeirra, sem töldu þar til eignarréttinda, ákvað óbyggðanefnd í janúar 2003 að fjalla um það í níu málum. Eitt þeirra, sem varð nr. 5/2003, tók til Eyjafjallasvæðis og Þórsmerkur í Rangárþingi eystra. Þetta svæði náði nánar tiltekið að vestan og norðan frá fyrrum mörkum Vestur-Eyjafjallahrepps annars vegar og Austur-Landeyjahrepps, Fljótshlíðarhrepps og Hvolhrepps hins vegar. Til austurs náði svæðið að fyrrum mörkum Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu og til suðurs að hafi. Innan þess féll jafnframt allur Eyjafjallajökull, svo og hluti Mýrdalsjökuls eftir nánar tilgreindum línum á honum.

Fyrir óbyggðanefnd krafðist stefndi þess að mörk þjóðlendu og eignarlanda á framangreindu svæði yrðu dregin á nánar tiltekinn hátt úr vestri frá punkti utan marka fyrrum Vestur-Eyjafjallahrepps í Fremra Kanastaðagili suður um Öldustein að þeim stað, sem Steinsholtsá rennur út á Markarfljótsaura. Frá þeim hornpunkti fylgdi krafa stefnda línu suðvestur með Eyjafjallajökli gegnum land jarðanna Stóru-Merkur, Mið-Merkur, Syðstu-Merkur, Eyvindarholts, Dalskots, Stóra-Dals, Mið-Dals og Neðri-Dals, þar til komið var þar í punkt í fjallinu Stórhöfða. Frá honum réðst krafa stefnda af línu sunnan við Eyjafjallajökul til austurs gegnum land jarðanna Núps, Ysta-Skála og Mið-Skála, svokallaðra Ásólfsskálajarða og Holtshverfisjarða, og jarðanna Núpakots, Þorvaldseyrar, Seljavalla, Selkots, Raufarfells og Rauðafells, svo og landsvæðin Hólatungur og Borgartungur. Þaðan dró stefndi kröfu sína um mörkin áfram til austurs gegnum land jarðanna Hrútafells, Skarðshlíðar, Drangshlíðar, Drangshlíðardals, Ytri-Skóga og Eystri-Skóga, þar sem komið var að austurmörkum svæðisins í punkti neðan við Skógafjall á mörkum fyrrum Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu. Í þessari kröfugerð stefnda fólst meðal annars í meginatriðum að landsvæðin Steinsholt, Stakkholt, Merkurtungur, Goðaland, Múlatungur, Teigstungur, Þórsmörk og Almenningar teldust til þjóðlendna ásamt Eyjafjallajökli og þeim hluta Mýrdalsjökuls, sem málið tók til. Eigendur jarðanna, sem hér var getið, svo og þeir, sem kölluðu til réttinda yfir öðrum þessum landsvæðum, andmæltu kröfu stefnda um þjóðlendumörk, sem þeir töldu að fylgja ættu jaðri Mýrdalsjökuls og Eyjafjallajökuls eins og hann yrði á hverjum tíma, en að öðru leyti yrðu engar þjóðlendur á svæðinu.

Í úrskurði óbyggðanefndar 10. desember 2004 var komist að þeirri niðurstöðu að mörk þjóðlendna og eignarlanda á þessu svæði yrðu dregin eftir jaðri Mýrdalsjökuls og Eyjafjallajökuls, eins og hann var 1. júlí 1998 við gildistöku laga nr. 58/1998, og væru jöklarnir innan þessara marka þjóðlendur. Að auki töldust til þjóðlendna landsvæðin Steinsholt, Stakkholt, Merkurtungur, Goðaland, Múlatungur, Teigstungur, Þórsmörk og Almenningar norðan Eyjafjallajökuls og vestan Mýrdalsjökuls, fyrrnefndar Borgartungur og Hólatungur sunnan Eyjafjallajökuls og Skógafjall sunnan Mýrdalsjökuls með nánar tilgreindum merkjum ásamt tilteknu landsvæði norðvestan Entujökuls í Mýrdalsjökli. Útdráttur úr þessum úrskurði var birtur í Lögbirtingablaði 15. mars 2005. Áfrýjendur, sem kveðast vera eigendur Mið-Merkur, Fitja og Fitjamýra, vildu ekki una niðurstöðu hans varðandi Steinsholt og höfðuðu mál þetta 14. september sama ár. Jafnframt eru rekin fyrir Hæstarétti mál nr. 22, 25, 26 og 28/2007, sem höfðuð voru á hendur stefnda til að fá hnekkt niðurstöðum óbyggðanefndar um að landsvæðin Þórsmörk og Goðaland, Almenningar, Merkurtungur og Stakkholt teldust þjóðlendur.

II.

Landsvæðið Steinsholt er í dómkröfum áfrýjenda afmarkað að austan frá þeim stað, þar sem Steinsholtsá rennur undan Eyjafjallajökli og eftir henni niður í Markarfljót, en þaðan er fljótinu fylgt þar til Jökulsá fellur í það og síðan Jökulsá að upptökum hennar í Eyjafjallajökli. Þaðan fylgir línan jaðri Eyjafjallajökuls að upptökum Steinsholtsár. Rani úr jöklinum, Gígjökull, liggur til norðurs og skilur að Steinsholt að vestan og jörðina Stóru-Mörk, en Jökulsá rennur úr lóni við norðurenda hans. Handan Markarfljóts til norðurs er afréttur Fljótshlíðinga, sem kallast Grænafjall. Steinsholt er vestast af sex svokölluðum smáafréttum, sem liggja í röð frá því til austurs með norðurbrún Eyjafjallajökuls og Fimmvörðuhálsi inn að vesturhlíðum Mýrdalsjökuls sunnan Krossár, en hinir eru Stakkholt, Merkurtungur, Goðaland, Múlatungur og Teigstungur.

Í úrskurði óbyggðanefndar voru þessi merki Steinsholts lögð til grundvallar og er ekki ágreiningur um þau í máli þessu. Með áðurgreindri kröfugerð fyrir óbyggðanefnd dró stefndi línuna, sem hann taldi eiga að ráða mörkum eignarlanda og þjóðlendna, þvert gegnum þetta landsvæði til austnorðausturs frá jaðri Gígjökuls að punkti í merkjum þess við Stakkholt, en þaðan norður að Öldusteini. Með þeirri niðurstöðu að telja Steinsholt allt til þjóðlendna fór óbyggðanefnd samkvæmt þessu út fyrir þær kröfur, sem stefndi hafði þar uppi. Áfrýjendur hafa ekki borið þetta fyrir sig í málinu eða krafist sérstaklega að mörkum þjóðlendu verði breytt af þessum sökum. Kemur þetta því ekki frekar til álita við úrlausn málsins.

III.

Samkvæmt Landnámabók námu nafngreindir landnámsmenn land frá Jökulsá á Sólheimasandi sunnan Mýrdalsjökuls vestur og norður fyrir Eyjafjallajökul allt að Markarfljóti. Ásgerður Asksdóttir var sögð hafa numið land milli Seljalandsmúla og Markarfljóts og Langanes allt upp til Jöldusteins og búið í Katanesi. Einnig var getið um tvo bræður, Ásbjörn og Steinfinn Reyrketilssyni, sem hafi numið land „fyrir ofan Krossá ok fyrir austan Fljót“. Ásbjörn hafi helgað landnám sitt Þór og kallað Þórsmörk, en ekki er vitað hvar bær hans kann að hafa verið. Steinfinnur var sagður hafa búið á Steinfinnsstöðum, en ekki er heldur vitað hvar þeir voru. Í Landnámu segir og að bjór, sem svo var nefndur, hafi legið ónuminn fyrir austan Fljót milli Krossár og Jöldusteins. Það land hafi Jörundur goði Hrafnsson farið eldi og lagt til hofs. Ekki er vitað nánar um landnám þetta.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1710 var ekki getið um sameiginlega afrétti Eyfellinga, en einstaka jarðir sagðar eiga afrétt. Í rituðum heimildum virðist Steinsholts fyrst getið í lýsingu Einars Sighvatssonar, hreppstjóra á Ysta-Skála, á Þórsmörk og nálægum afréttum frá því um miðja 19. öld, en þó aðeins með því að greint var frá merkjum svæðisins. Í landamerkjabréfi Mið-Merkur 17. maí 1890, sem þinglesið var 23. sama mánaðar, sagði meðal annars að „afréttina Steinsholt á jörðin hlutfallslega við aðra sameigendur“ og var merkjum þess einnig lýst. Sérstök merkjalýsing var síðan gerð fyrir Steinsholt 14. maí 1892, sem var þinglesin 21. sama mánaðar og skráð í landamerkjabók, svohljóðandi: „Skrásetning yfir takmörk Steinsholts. Steinsholt, sem tilheyrir jörðunum Miðmörk, Fitjarmýri og Fit í Vestur-Eyjafjallahreppi, hefir þessi takmörk: á innri hlið, á móti Stakkholti, Steinsholtsá allt frá upptökum hennar á jöklinum niður í Markarfljót, þartil Jökulsá fellur í það; enn að framanverðu í móts við Langanes (Stórumerkurland) Jökulsá frá upptökum hennar úr jöklinum niður í Markarfljót.“

Í 66. gr. fjallskilareglugerðar fyrir Rangárvallasýslu nr. 58/1894 og yngri reglugerðum um sama efni allt til ársins 1943 voru sérstök ákvæði um svokallaða smáafrétti, en mælt var fyrir um að hreppsnefnd Vestur-Eyjafjallahrepps skyldi annast fjallskil, réttahöld og grenjaleitir meðal annars á Steinsholti. Í gerðabók fasteignamatsnefndar 1916 sagði að Fit, Fitjamýri og Mið-Mörk ættu „rétt til uppreksturs“ á Steinsholti.

IV.

Fyrrnefndir sex smáafréttir, sem svo eru kallaðir, mynda samkvæmt gögnum málsins nokkuð samfellt landsvæði, þar sem ár í djúpum giljum aðskilja þá og gefa þeim náttúruleg mörk. Steinsholti er lýst svo að það sé bratt og sundurskorið fjalllendi í 200 til 900 metra hæð, en við fjallsrætur taki við takmarkað flatlendi á aurum að Markarfljóti nyrst á landsvæðinu. Jarðirnar Mið-Mörk, Fit og Fitjamýri liggja ekki að Steinsholti og eru um 13 km frá bæjarstæði á fyrstnefndu jörðinni að merkjum Steinsholts við jaðar Gígjökuls, en nærri 20 km frá hinum jörðunum tveimur.

Samkvæmt fyrrnefndu landamerkjabréfi Mið-Merkur frá 17. maí 1890 átti sú jörð „afréttina Steinsholt ... hlutfallslega“ með öðrum ótilgreindum sameigendum. Bréf þetta var áritað um samþykki af umráðamönnum næstu jarða til vesturs og austurs, Syðstu-Merkur og Stóru-Merkur, en síðastnefnda jörðin átti jafnframt merki að Steinsholti. Í merkjalýsingu fyrir Steinsholt 14. maí 1892 kom sem fyrr segir fram að það tilheyrði jörðunum Mið-Mörk, Fitjum og Fitjamýri. Að skjali þessu stóð þáverandi prestur í Holtsprestakalli og var það áritað um samþykki af umráðamönnum jarðanna Fitjamýrar og Stóru-Merkur, svo og af tveimur nafngreindum mönnum „fyrir afréttinn Stakkholt“ án þess að nánar væri skýrt í hvers þágu það væri gert. Um heimildargildi þessara skjala er til þess að líta að í landamerkjabréfi Mið-Merkur er ekki getið um hverjir aðrir kalli til réttinda yfir Steinsholti, sem þar er nefnt afréttur. Ekki verður ráðið af gögnum málsins að eigendur allra jarðanna þriggja, sem hér eiga í hlut, hafi staðið að merkjalýsingunni 14. maí 1892, þar sem hermt var að Steinsholt tilheyrði þeim. Af þessum sökum verður ekki séð að þessi skjöl feli í sér haldbæra heimild um sameiginlegan beinan eignarrétt áfrýjenda að Steinsholti og fyrir slíkum réttindum eru engar eldri heimildir í gögnum málsins. Ekkert liggur fyrir um að umráðamenn Mið-Merkur, Fitja og Fitjamýrar hafi nokkru sinni haft önnur not af þessu landsvæði en hefðbundin afréttarnot til sumarbeitar fyrir búfénað. Í úrskurði óbyggðanefndar var því slegið föstu að Steinsholt væri afréttareign eigenda þessara þriggja jarða og hafa áfrýjendur ekki reifað hver þau frekari réttindi geti verið, sem varakrafa þeirra tekur til. Eru því ekki efni til að hnekkja úrskurði óbyggðanefndar um þetta landsvæði og verður stefndi sýknaður af kröfum áfrýjenda.

Rétt er að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður, en um gjafsóknarkostnað áfrýjenda á báðum dómstigum fer samkvæmt því, sem í dómsorði segir.

Dómsorð:

Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum áfrýjenda, Sigurjóns Sveinbjörnssonar, Sæmundar Sveinbjörnssonar, Guðrúnar Sveinbjörnsdóttur, Guðbjargar Sveinbjörnsdóttur, Sigurbjörns Sveinbjörnssonar, Gísla Sveinbjörnssonar, Ástu Sveinbjörnsdóttur, Ólafs Pálma Baldurssonar, Gunnheiðar G. Þorsteinsdóttur, Sigríðar Björnsdóttur og Baldurs Björnssonar.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjenda í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra á báðum dómstigum, samtals 500.000 krónur.

                                                                                                        

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 17. október 2006.

          Mál þetta, sem dómtekið var 24. ágúst s.l., er höfðað með stefnu birtri 14. september 2005.

          Stefnendur eru Sigurjón Sveinbjörnsson, Sæmundur Sveinbjörnsson, Guðrún Sveinbjörnsdóttir, Guðbjörg Sveinbjörnsdóttir, Sigurbjörn Sveinbjörnsson, Gísli Sveinbjörnsson og Ásta Sveinbjörnsdóttir, eigendur Mið-Merkur, Ólafur Pálmi Baldursson og Gunnheiður G. Þorsteinsdóttir, eigendur Fitja, Sigríður Björnsdóttir og Baldur Björnsson, eigendur Fitjarmýra. 

          Stefndi er íslenska ríkið og fyrir hönd þess er fjármálaráðherra stefnt.

          Dómkröfur stefnenda eru eftirfarandi: Að felld verði úr gildi sú niðurstaða  óbyggðanefndar í málinu nr. 5/2003: um Eyjafjallasvæði og Þórsmörk í Rangárþingi eystra í úrskurði frá 10. desember 2004, að afréttarlandið Steinsholt í Rangárþingi eystra teljist þjóðlenda.  Jafnframt er þess krafist að stefnendur sem eigendur tilgreindra jarða eigi í óskiptri sameign beinan eignarrétt að afréttarlandi þessu, sem afmarkast þannig:

Frá þeim stað þar sem Steinholtsá rennur undan Steinholtsjökli í Eyjafjallajökli og niður í Markarfljót.  Þaðan er Markarfljóti fylgt þar til Jökulsá fellur í það og síðan Jökulsá að upptökum hennar í Eyjafjallajökli. Á milli upptaka Steinholstár og Jökulsár í jökli ræður jaðar Eyjafjallajökuls eins og hann er á hverjum tíma.

          Verði talið að afrétturinn teljist þjóðlenda er krafist viðurkenningar á fullkomnum afnotarétti stefnenda til hvers kyns gagna og gæða á afréttarlandinu að engum afnotum undanskildum.  Stefnendur krefjast þess að þeim verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnda samkvæmt mati dómsins eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en stefnendur fengu gjafsókn í máli þessu með leyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytis dagsettu 20. júní 2005.

          Dómkröfur stefnda eru þær að staðfestur verði úrskurður óbyggðanefndar frá 10. desember 2004 í máli nr. 5/2003 hvað varðar eignarréttarlega stöðu Steinsholts sem þjóðlendu og stefndi þannig sýknaður af kröfum stefnenda.  Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu.  Ekki eru af hálfu stefnda gerðar athugasemdir við aðild málsins.

Málavextir.

          Með bréfi dagettu 12. október 2000 var fjármálaráðherra tilkynnt með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998 að óbyggðanefnd hefði á fundi ákveðið að taka til meðferðar sem svæði 3 landsvæðið vestan sveitarfélagsins Hornafjarðar.  Þetta svæði afmarkaðist til austurs af austurmörkum jarðarinnar Núpsstaðar í Fljótshverfi og að sunnan afmarkaðist svæðið af hafinu, til norðurs í samræmi við tillögu starfshóps um stjórnsýslumörk á miðhálendinu frá 1996, en á Vatnajökli við línu þá sem samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendis Íslands hefur notað við vinnu sína.  Til vesturs náði kröfusvæðið að kröfusvæði 1, Árnessýslu.  Fjármálaráðherra var veittur frestur til að lýsa kröfum sínum um þjóðlendur á svæðinu og eftir að kröfulýsingum hafði verið skilað var landeigendum og öðrum rétthöfum veittur frestur til að skila inn kröfugerðum.  Stefnendur í máli þessu sendu inn kröfur til óbyggðanefndar um höfnun þjóðlendukrafna ríkisins og gerðu kröfu um beinan eignarrétt að Steinsholti.  Stefnendur tóku þátt í málarekstri fyrir óbyggðanefnd, en sérstakt mál var rekið um þjóðlendur á Eyjafjallasvæði og Þórsmörk sem mál nr. 5/2003.  

          Í úrskurði óbyggðanefndar er greint frá elstu ritheimildum um landnám á hinu umdeilda svæði og síðan rakin í stórum dráttum saga afmörkunar, ráðstafana að eignarrétti og nýtingar á svæðinu frá öndverðu til uppkvaðningar úrskurðar.  Kemst nefndin að þeirri niðurstöðu að af frásögn Landnámu megi ráða að landnám á Eyjafjallasvæðinu hafi náð frá Jökulsá í austri að Markarfljóti í vestri og norðaustur með því.  Hafi land undir Eyjafjöllum að öðru leyti verið afmarkað af Eyjafjallajökli, Mýrdalsjökli og hafinu.  Norðan Eyjafjallajökuls og norðvestan Mýrdalsjökuls sé land fjalllent, mjög skorið giljum og víða all bratt, þá einna helst norðan undir jöklunum.  Undirlendi og flatlendi svæðisins sé að finna með fram Markarfljóti og Krossá.    Nefndin telur vafalaust að við upphaf landnáms hafi gróðurþekja á svæðinu verið mun meiri að víðáttu og grósku en nú sé og jöklar minni. 

          Merkjum Steinsholts er lýst í landamerkjabréfi sem gert var 14. maí 1892, en það mun undirritað af eigendum, prestinum í Holtsprestakalli, eigendum Stóru-Merkur og eigendum Stakkholts.  Landamerkjabréfið var þinglesið á manntalsþingi Kverkarhellis 21. maí 1892 og ritað í landamerkjabók Rangárvallasýslu. Afréttarins mun getið í afréttarskrá fyrir Rangárvallasýslu og þá honum lýst í skrifum Einars Sighvatssonar, hreppstjóra, frá miðri 19. öld.   Steinsholts er einnig getið í landamerkjabréfi Mið-Merkur frá 1890 og í gerðabók fasteignamatsnefndar frá 1916.

          Fram kemur í úrskurði óbyggðanefndar að í kjölfar þess að landamerkjalög taka gildi 1882 sé gert landamerkjabréf fyrir Steinsholt og telur nefndin að fyrirliggjandi gögn bendi til þess að landamerkjum svæðisins sé þar rétt lýst svo langt sem sú lýsing nær. Óbyggðanefnd telur jafnframt að líta verði til þess að landsvæði þetta sé skýrt afmarkað af jöklum, ám og árgiljum. Umrætt landamerkjabréf sé undirritað af Kjartani Einarssyni, oddvita og presti í Holti og áritað af hálfu Fitjamýrar, Stóru-Merkur og Stakkholts, það þinglesið, fært í landamerkjabók og á því byggt síðan um merki svæðisins án þess að séð verði að komið hafi fram athugasemdir yfirvalda eða ágreiningur við fyrirsvarsmenn aðliggjandi landsvæða. Þetta bendi allt til þess að lýsing merkja hafi verið í samræmi við það sem almennt hafi verið talið gilda. Jafnframt sé ljóst að rétthafar Steinsholts hafi um langa hríð haft réttmætar ástæður til að vænta þess að merkjum landsvæðisins væri þar rétt lýst. 

          Í úrskurðinum er hinu umdeilda landsvæði lýst svo að það sé að mestu í 200-900 m hæð yfir sjávarmáli, það sé bratt og sundurskorið fjalllendi einkenni stóran hluta þess.  Að sunnanverðu, milli Gígjökuls og Steinholtsjökuls, sé landslag sundurskorið af djúpum giljum. Þar standi Fremstihaus, Helluhaus, Mosahaus Kirkjuhaus og austast Innstihaus, í 700-800 m hæð. Norðar skagi út úr fjalllendinu hryggur, er nefnist Hoftorfa, í um 300 m hæð. Flatlendi sé takmarkað, aðallega nyrst á áraurum jökulárinnar Markarfljóts.

 Talið sé að um landnám hafi skógur teygt sig upp í hlíðar hamrabeltis Eyjafjallasvæðisins, þar sem ekki voru of brattar og lausar skriður, og heiðarnar ofan byggðar hafi verið vaxnar skógi og kjarri upp undir 300-400 m hæð. Ofan skógarmarkanna hafi fjalllendið verið þakið nokkuð samfelldum lággróðri. Í fjalllendinu neðanverðu hafi verið þykkur, þurr og öskublandinn jarðvegur sem grynntist er ofar dró.

 Í úrskurði nefndarinnar segir svo orðrétt: 

Um Steinsholt er fyrst getið í lýsingu Einars Sighvatssonar, hreppstjóra á Ysta-Skála, á Þórsmörk og nálægum afréttum frá því um miðja 19. öld. Árið 1890 er gert landamerkjabréf fyrir jörðina Mið-Mörk og þar segir svo: „Afréttina Steinsholt á jörðin hlutfallslega við aðra sameigendur; takmörk þess eru þessi ...“ Tveimur árum síðar er gert sérstakt landamerkjabréf fyrir Steinsholt. Þar segir svo: „Steinsholt, sem tilheyrir jörðunum Mið-Mörk, Fitjamýri og Fit í Vestur-Eyjafjallahreppi, hefir þessi takmörk: ...“ Ekkert liggur nánar fyrir um hvenær eða hvernig stofnað hafi verið til þessara réttinda jarðanna Mið-Merkur, Fitjar og Fitjamýrar.

Þegar fjallað er um Steinsholt í öðrum heimildum eru það áfram nefnt afréttur, sbr. fjallskilareglugerðir fyrir Rangárvallasýslu frá 1894 og síðar og athugasemd í gerðabók fasteignamatsnefndar 1916. Í hinni síðastnefndu segir að á Steinsholt eigi „rétt til uppreksturs“ Fit, Fitjamýri og Mið-Mörk. Hið sama kemur fram í afréttaskrá fyrir Rangárvallasýslu frá 1979.

Heimildir benda þannig til þess að eigendur jarðanna Fitjar, Fitjamýrar og Mið-Merkur hafi haft af Steinsholti afréttarnot. Ekki verður annað séð en að það fyrirkomulag hafi verið ágreinings- og athugasemdalaust. Ekkert liggur fyrir um að Steinsholt hafi, fram til 1989, nokkurn tíma verið nýtt til annars en sumarbeitar fyrir búfé og ef til vill annarra takmarkaðra nota. Þá benda fyrirliggjandi gögn, þ. á m. landamerkjabréf Steinsholts 1892 og Mið-Merkur 1890, fremur til afréttareignar jarðanna en beins eignarréttar. Enda þótt svæðið hafi ekki verið nýtt til beitar um árabil vegna friðunar Þórsmerkursvæðisins liggur ekkert fyrir um það að eigendur framangreindra jarða hafi afsalað sér umrædddum rétti.

Engin gögn liggja fyrir um það hvernig eigendur framangreindra jarða eru komnir að rétti sínum til þess landsvæðis sem hér er til umfjöllunar. Óbyggðanefnd telur ekki hægt að útiloka að Steinsholt sé innan upphaflegs landnáms á þessu svæðinu eða hafi á annan hátt orðið undirorpið beinum eignarrétti. Ekkert liggur hins vegar fyrir um afmörkun eða yfirfærslu þeirra beinu eignarréttinda sem þar kann að hafa verið stofnað til í öndverðu. Í því efni brestur því sönnun, samhengi eignarréttar og sögu liggur ekki fyrir.

Að öllu framangreindu virtu hefur ekki verið sýnt fram á það af hálfu eigenda Fitja, Fitjamýrar og Mið-Merkur að landsvæði það sem hér er til umfjöllunar, sé eignarland, hvorki fyrir nám, löggerninga né með öðrum hætti. Eins og notkun landsins hefur verið háttað hefur ekki heldur verið sýnt fram á að eignarhefð hafi verið unnin á því. Rannsókn óbyggðanefndar leiðir einnig til þeirrar niðurstöðu að þar sé þjóðlenda.

Heimildir benda hins vegar til þess að jarðirnar Fit, Fitjamýri og Mið-Mörk hafi átt upprekstrarrétt í Steinsholti.

Það er því niðurstaða óbyggðanefndar að landsvæði það sem nefnt er Steinsholt, svo sem það er afmarkað hér á eftir, teljist til þjóðlendu í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998.

Frá þeim stað þar sem Steinsholtsá rennur undan Steinholtsjökli í Eyjafjallajökli og niður í Markarfljót. Þaðan er Markarfljóti fylgt þar til Jökulsá fellur í það og síðan Jökulsá að upptökum hennar í Eyjafjallajökli. Á milli upptaka Steinholtsár og Jökulsár í jökli ræður jaðar Eyjafjallajökuls, miðað við stöðu jökuls eins og hann var við gildistöku þjóðlendulaga 1. júlí 1998, sbr. 22. gr. þjóðll.

Sama landsvæði er í afréttareign eigenda jarðanna Fitja, Fitjamýrar og Mið-Merkur, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga.

Óbyggðanefnd telur ljóst að ákvarða þurfi mörk þess svæðis sem samkvæmt framangreindu er í afréttareign framangreindra jarða, að því leyti sem það liggur að jökli, til frambúðar, sbr. b-lið 7. gr. l. nr. 58/1998. Með hliðsjón af því að hér er um einhliða ákvörðun afréttarmarka að ræða en ekki mörk tveggja afrétta eða afréttar og eignarlands telur óbyggðanefnd þó fullnægjandi að miða einfaldlega og án hnitasetningar við jaðar jökulsins eins og hann var við gildistöku laga nr. 58/1998, sbr. 3. mgr. 1. gr. laganna. Ekki verður séð að frekari rannsókn á þessu atriði hafi hagnýta þýðingu í þessu sambandi enda er eingöngu um beitarréttindi að ræða sem ráðast af gróðurfari og hefur ekki þýðingu í öðru sambandi.“

          Stefnendur undu ekki þessari niðurstöðu óbyggðanefndar og krefjast því ógildingar úrskurðarins að því er hið umdeilda landsvæði varðar.

          Útdráttur úr úrskurði óbyggðanefndar í málinu nr. 5/2003 sem kveðinn var upp 10. desember 2004, var birtur í Lögbirtingablaðinu 15. mars 2005, svo sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 58/1998. og er málshöfðun þessi því í samræmi við ákvæði 19. gr. sömu laga.        

Málsástæður og lagarök stefnenda.

           Stefnendur benda á að hið umdeilda landsvæði hafi verið kostaríkt af skógum og beitiland bæði til sumar- og vetrarbeitar.  Skógur hafi teygt sig upp í hlíðar hamrabeltisins á Eyjafjallasvæðinu og heiðarnar ofan byggðar hafi verið vaxnar skógi og kjarri upp í a.m.k. 400 m hæð.  Ofan skógarmarka hafi landið verið þakið samfelldum lággróðri.

          Stefnendur vísa til landamerkjabréfs sem gert var um Steinsholt 14. maí 1892, en það mun undirritað af eigendum, prestinum í Holtsprestakalli, eigendum Stóru-Merkur og eigendum Stakkholts.  Landamerkjabréfið hafi verið þinglesið á manntalsþingi Kverkarhellis 21. maí 1892 og ritað í landamerkjabók Rangárvallasýslu. Afréttarins mun getið í afréttarskrá fyrir Rangárvallasýslu og þá sé honum lýst í skrifum Einars Sighvatssonar, hreppstjóra, frá miðri 19. öld. Steinsholts sé einnig getið í landamerkjabréfi Mið-Merkur frá 1890 og í gerðabók fasteignamatsnefndar frá 1916.

 Stefnendur byggja á því að land í Steinsholti hafi verið numið í öndverðu og háð beinum eignarrétti.  Sá eignarréttur hafi ekki fallið niður síðan og sé afrétturinn nú í óskiptri sameign stefnenda.  Þeir hafi frá 1892 þinglýsta fyrirvaralausa eignarheimild að landinu, þar sem merkjum þess sé lýst.  Þinglýsing eignarréttar og landamerkja hafi verið þeim heimil af því að þeir hafi átt beinan eignarrétt að afréttinum og hafi fulltrúi ríkisvaldsins gengið úr skugga um að svo væri og staðfest með skráningu í landamerkjabók og þinglýsingu.  Hvorki hafi hinn beini eignarréttur byggðarmanna né landamerki afréttarins verið vefengd og hafi íslenska ríkið með margvíslegum hætti löghelgað og viðurkennt hinn beina eignarrétt.  Hafi stefndi sönnunarbyrðina um að hin lögformlega eignarheimild sé röng og að upphaflegur eignarréttur hafi fallið niður.  Stefndu geti að vísu ekki sýnt fram á óslitna röð framsalsgerninga frá landnámi til þessa dags en það sé ekki kleift um neina fasteign hér á landi.

          Stefnendur og forverar þeirra hafi ekki haft neina ástæðu til að ætla að beinn eignarréttur þeirra að landinu yrði vefengdur af einkaaðilum eða opinberum aðilum og þeir hafi haft réttmætar væntingar um lögverndaðan eignarrétt sinn að landinu.  Beinn eignarréttur að landinu hafi verið forsenda þess að unnt væri að reka kvikfjárbúskap um aldir á jörðum stefnenda.  Samkvæmt fornum rétti hafi afréttir verið háðir beinum eignarrétti byggðarmanna í hverri byggð.  Hugtakið afréttur merki land í óskiptri sameign tveggja eða fleiri manna, sem nýtt sé með ýmsum hætti, svo sem til skógarnytja, kvikfjárbeitar sumar og vetur, dýraveiða og fiskveiða í vötnum og ám á landinu, svo og til allra annarra mögulegra nota, að engum notum undanskildum, allt eftir aðstæðum á hverjum afrétti og aðstæðum hvers tíma.  Minnt er á að óheimilt sé að lögum að gera tiltekin afnot eða tíðni afnota að skilyrði eignarréttar.  Enginn „grunneignarréttur“ eða yfireignarréttur hafi verið eftirlátinn öðrum.  Engar heimildir finnist í íslenskum rétti um að afréttur merki annað en landsvæði.  Þess séu engin dæmi að það hugtak hafi verið notað um annað, svo sem rétt til að reka sauðfé á fjarlæga staði.  Þá séu þess engin dæmi í íslenskum, germönskum eða rómverskum rétti að unnt sé að stofna til takmarkaðra réttinda í einskis manns landi.  Ekki sé vefengt af stefnda að hvorki hafi hann né aðrir en viðkomandi byggðarmenn hingað til átt neitt tilkall til réttar yfir afréttarlöndum.  Á því sé byggt að stefndi geti ekki í nafni fullveldisréttar íslenska ríkisins án stjórnarskrárbreytingar svipt eigendur bótalaust þeim beina eignarrétti yfir afréttinum, sem hann hafi sýnt fram á, að tilheyri honum.               Stefnendur byggja á því að fulltrúar ríkisvalds hér á landi hafi um aldir viðurkennt eignarrétt byggðarmanna að afréttum landsins og engin sú breyting hafi orðið á gildandi rétti að leiði til brottfalls þeirrar afstöðu.  Verði ekki fallist á að þær eignarheimildir sem stefnendur hafi sýnt fram á séu fullnægjandi, sé verið að mismuna eigendum afrétta með því að gera aðrar kröfur til þeirra um sönnun en annarra eigenda lands hér á landi.  Jafngildi sú íþyngjandi sönnunarbyrði bótalausri sviptingu eignarréttar. 

          Stefnendur vísa auk fyrrgreindra sönnunargagna um eignarrétt þeirra að afréttinum til hefðar almennt og sérstaklega til ómunahefðar, sem sé viðbótarsönnun um eignarrétt stefnenda að afréttinum og hvernig til hans hafi verið stofnað.  Hafi hefðarreglur verið í gildi í íslenskum rétti um aldir.  Landið hafi verið í vörslum byggðarmanna og aðrir, þar með stefndi, hafi virt eignarrétt þeirra og verndað hann með því að koma í veg fyrir að aðrir nýttu land þeirra heimildarlaust.  Þá styðjist eignarréttur stefnenda við venjurétt.  Sé óheimilt að líkja landsgæðum nú við landsgæði fyrstu aldir Íslandsbyggðar þegar afréttirnir urðu til. 

          Þá byggja stefnendur á því að unnt að hafi verið nema land eftir gildistöku Jónsbókar 1281 og fallast ekki á þann skilning að lagt hafi verið bann við frekara landnámi.  Hins vegar hafi ekki verið unnt að nema afrétti, sem þegar hafi verið fyrir hendi, vegna þess að þeir hafi verið háðir beinum eignarrétti.  Stefnendur segjast viðurkenna almennar takmarkanir á eignarrétti eða landi sem eigi sér stoð í lögum sem samræmast stjórnarskrá.

          Stefnendur benda á að það hafi verið afstaða ríkisvaldsins fyrir tvö hundruð árum að afrétturinn Þórsmörk væri háður beinum eignarrétti og að byggðarmenn væru eigendur afréttarins.  Því hafi bóndi nokkur, sem sótt hafi um leyfi árið 1801 til að stofna nýbýli í Þórsmörk skv. nýbýlatilskipuninni frá 1776, ekki getað eignast býli á afréttinum þrátt fyrir ákvæði tilskipunarinnar, en hann hefði getað orðið leiguliði byggðarmanna.  Telja stefnendur að ríkisvaldið á þessum tíma hafi litið svo á að héraðsmenn eða byggðarmenn ættu beinan eignarrétt að afréttunum og haldi stefndi öðru fram hafi hann sönnunarbyrðina um það.

          Stefnendur telja óbyggðanefnd hafa metið sönnunargögn málsins ranglega og ekki beitt lögum um réttarágreininginn með réttum hætti. Beri því að ógilda úrskurð nefndarinnar.  Jafnframt hafi stefnendur sýnt fram á að þeir eigi beinan eignarrétt að afréttinum en stefndi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi með réttum lögum í samræmi við stjórnarskrá eignast landið.  Það eitt að kveða á um í dómsorði að afrétturinn sé þjóðlenda fullnægi ekki skilyrðum réttarfarslaga um skýrleika í dómsniðurstöðum, þar sem með öllu sé óljóst hver réttur stefnda og stefnenda sé, verði þeim aðeins dæmur réttur til sumarbeitar fyrir sauðfé og önnur takmörkuð afnot.  Verði því ekki unnt að fullnusta dóminn lögum samkvæmt.

          Stefnendur vísa um lagarök til réttarreglna um stofnun eignarréttar, hefð, réttarvenju og tómlæti, svo og þjóðlendulaga, landamerkjalaga, stjórnsýslulaga, ákvæða stjórnarskrár um vernd eignarréttar, réttláta málsmeðferð og jafnræði borgaranna.  Þá er vísað í lög um Mannréttindasáttmála Evrópu, sáttmálann sjálfan og viðauka, um réttláta málsmeðferð, jafnræði og vernd eignarréttinda og í alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi um sama.  Þá vísa stefnendur til réttarreglna um stofnun nýbýla og um sönnun og sönnunarbyrði er vísað til laga um meðferð einkamála.

          Stefnendur byggja málskostnaðarkröfu á XXI. kafla laga nr. 91/1991 og vísa til gjafsóknarleyfis dóms- og kirkjumálaráðuneytis frá 20. júní 2005.

Málsástæður og lagarök stefnda.

           Stefndi byggir á því að samkvæmt afréttarskrá Rangárvallasýslu sé Steinsholt afréttur tiltekinna jarða, en afréttur í íslensku lagamáli hafi frá því fyrst sé vitað merkt beitarrétt í landi utan eignarlanda.  Megi af ýmsum ákvæðum fornlaga sjá að afréttir séu í flokki með almenningum og þannig öndverðir við jörð manns, sem hafi verið beinum eignarrétti undirorpin fyrir nám.  Sérstakar nýtingarreglur hafi gilt um afrétti sem tveir áttu saman, bæði í Grágás og Jónsbók en slíkar reglur hefðu ekki þurft að gilda ef rétturinn var á einni hendi.   Eignarrétturinn hafi verið óbeinn, fyrst beitarréttur, en með nýrri löggjöf hafi hann færst til veiði vatnafiska. 

          Stefndi telur nokkuð skýra dómvenju komna fyrir því að líta til heimilda um fjallskil við mat á inntaki eignarréttar.  Eignarlöndin hafi verið smöluð af eiganda, en skipulag afréttarsmölunar hafi snúið að fjallskilastjórnum sveitarfélaga.   Samkvæmt heimildum hafi Steinsholt ekki verið smalað sem eignarland, en það hafi þótt slæmur afréttur.

          Stefndi segir að upplýsingar liggi fyrir um að hluti af landinu hafi verið helgaður með eldi og lagður til hofs, en líklegt sé að séreignir hofa hafi fallið niður við kristnitökuna árið 1000.  Engar heimildir liggi fyrir um framsal umrædds lands sem eignarlands og ekki sé vitað um búsetu á því.  Allar síðari heimildir um Steinsholt lúti að afréttarnotum og liggi ekkert heimildarskjal fyrir um eignarrétt og enginn sé þinglýstur eigandi. Ekki sé vitað til þes að landið hafi verið nýtt til búskapar frá þeim jörðum sem nú geri eignartilkall.  Þar sem ekki sé um jörð að ræða hvíli sönnunarbyrðin um að landið sé undirorpið beinum eignarrétti á þeim sem heldur því fram.

           Stefndi byggir á því að eftir gildistöku þjóðlendulaga sé land annað hvort þjóðlenda eða eignarland og geti inntak landsréttinda ekki tekið breytingum eftir því hvort land sé hulið jökli eða ekki.  Beri  því að hafna kröfu um breytileg þjóðlendumörk.

          Stefndi vísar til þjóðlendulaga nr. 58/1998, laga um afréttarmálefni og fjallskil nr. 6/1986 og landamerkjalaga nr. 41/1919 og eldri laga frá 1882.  Þá er vísað til ákvæða lögbókanna Grágásar og Jónsbókar sem fjalla um afréttarmál.

Niðurstaða.

           Með lögum nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, sem tóku gildi 1. júlí 1998, var sérstakri stjórnsýslunefnd, óbyggðanefnd, falið að kanna og skera úr um hvaða landsvæði innan íslenska ríkisins teljist til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda, skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur og úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna, sbr. 7. gr. laganna.  Með bréfi dagsettu 12. október 2000 tilkynnti nefndin fjármálaráðherra að tekin yrðu til meðferðar nánar tilgreind landsvæði í Vestur-Skaftafellssýslu og Rangárvallasýslu, þ.e.a.s. vestan sveitarfélagsins Hornafjarðar og austan Þjórsár, sbr. 8. gr. og 1. mgr. 10. gr. laganna, en þetta svæði var hið þriðja sem til meðferðar kom hjá nefndinni.  Að fengnum kröfulýsingum fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins gerðu stefnendur í máli þessu þá kröfu fyrir nefndinni að viðurkenndur yrði beinn eignarréttur þeirra að Steinsholti. Mál, sem varðaði Eyjafjallasvæði og Þórsmörk í Rangárþingi eystra, var rekið sem mál nr. 5/2003 hjá nefndinni og var úrskurður kveðinn upp 10. desember 2004.  Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að sá hluti svæðisins, sem til meðferðar var í málinu, þ.e.a.s. Steinsholt, teldist þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laganna.  Er nánari grein gerð fyrir afmörkun þessa landsvæðis í úrskurðarorði.  Þá var komist að þeirri niðurstöðu að sama landsvæði væri afréttareign tiltekinna jarða, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. laganna.

   Útdráttur úr úrskurði óbyggðanefndar í málinu nr. 5/2003 var birtur í Lögbirtingablaðinu 15. mars 2005, og er mál þetta því höfðað innan lögmælts málshöfðunarfrests, sbr. 19. gr. þjóðlendulaga.

          Samkvæmt framansögðu hefur óbyggðanefnd komist að þeirri niðurstöðu að Steinsholt sé þjóðlenda í afréttareign tiltekinna jarða í skilningi c-liðar 7. gr. laganna.  Stefnendur krefjast þess að viðurkenndur verði beinn eignarréttur þeirra að afréttarlandinu en verði ekki á það fallist er krafist viðurkenningar á fullkomnum afnotarétti stefnenda til hvers kyns gagna og gæða á afréttarlandinu að engum afnotum undanskildum.   Af  hálfu stefnda er krafist staðfestingar á úrskurði óbyggðanefndar.  Ekki virðist ágreiningur um mörk hins umdeilda svæðis.  Dómarinn fór á vettvang ásamt lögmönnum aðila og kynnti sér aðstæður. 

          Í 1. gr. þjóðlendulaga er eignarland þannig skilgreint að um sé að ræða landsvæði sem háð sé eignarrétti þannig að eigandi landsins fari með öll venjuleg eignarráð þess innan þeirra marka sem lög segi til um á hverjum tíma.  Þá er þjóðlenda þannig skilgreind að um sé að ræða landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingar eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi.  Afréttur er skilgreindur sem landsvæði utan byggðar sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé.  Eins og að framan er rakið skal hlutverk óbyggðanefndar vera m.a. að skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur, sbr. b-lið 7. gr. laganna og jafnframt að úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna, sbr. c-lið 7. gr. laganna.  Í úrskurðum óbyggðanefndar, sem gengið hafa fram að þessu, kemur fram að úrskurður um afrétt jarða í tilteknu sveitarfélagi byggi á b-lið 7. gr. laganna en þegar úrskurður er byggður á c-lið 7. gr. laganna er rætt um afréttareign tiltekinna jarða.  Eins og áður er vikið að komst nefndin að þeirri niðurstöðu að um hið umdeilda landsvæði giltu ákvæði c-liðar 7. gr. laganna.

           Í dómi Hæstaréttar 21. október 2004 í máli nr. 48/2004, tók rétturinn almenna afstöðu til mats á gildi landamerkjabréfa og því hvert væri inntak eignarréttar á svæði, sem í þeim væri lýst. Var þar sagt að almennt skipti máli hvort um væri að ræða jörð eða annað landsvæði, en þekkt væri að landamerkjabréf hafi ekki eingöngu verið gerð fyrir jarðir, heldur einnig til dæmis afrétti, sem ekki tengist sérstaklega tiltekinni jörð. Var þar sagt að landamerkjabréf fyrir jörð fæli almennt í sér ríkari sönnun fyrir því að um eignarland væri að ræða þótt jafnframt yrði að meta gildi hvers bréfs sérstaklega. Þá var talið að það yki almennt gildi landamerkjabréfs væri það áritað um samþykki eigenda aðliggjandi jarða. Hins vegar yrði ekki litið fram hjá þeirri staðreynd að fyrir gildistöku laga nr. 58/1998 var engum til að dreifa sem gat sem handhafi beins eignarréttar gert samninga um mörk þess lands sem nú kallast þjóðlenda. Jafnframt var sagt að þess yrði að gæta að með því að gera landamerkjabréf gátu menn ekki einhliða aukið við land sitt eða annan rétt umfram það. Verði til þess að líta hvort til séu eldri heimildir sem fallið geti að lýsingu í landamerkjabréfi, enda stangist sú lýsing heldur ekki á við staðhætti, gróðurfar og upplýsingar um nýtingu lands.

          Í greinargerð með þjóðlendulögunum er að því vikið að með afrétti sé almennt átt við tiltekið, afmarkað landsvæði, en skiptar skoðanir séu um hvort einungis geti verið um beitarrétt eða annan afnotarétt að ræða, þ.e. hvort slíkt landsvæði geti ýmist verið undirorpið beinum eða óbeinum eignarrétti.  Samkvæmt athugasemdum við 1. gr. laganna er hugtakið afréttur skilgreint út frá beitarnotum fyrir búfé og ráðast mörk afréttar þannig af því landsvæði sem sannanlega hafi verið nýtt til sumarbeitar fyrir búpening.

           Samkvæmt landamerkjabréfi því sem gert var um Steinsholt 1892 tilheyrir það jörðunum Mið-Mörk, Fitjamýri og Fit í Vestur-Eyjafjallahreppi, en engin gögn hafa verið lögð fram um það hvernig stofnað var til þessara réttinda jarðanna.  Þegar  Steinholts er getið í öðrum skriflegum heimildum er það tengt upprekstri og afréttarnotum, sbr. fjallskilareglugerðir fyrir Rangárvallasýslu frá 1894 og síðar, gerðabók fasteignamatsnefndar frá 1916 og afréttarskrá fyrir Rangárvallasýslu frá 1979.

          Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi að lögum nr. 58/1998, var tekið fram að ekki verði að lögum settar sérstakar sönnunarreglur eða lagaskilyrði fyrir því að land teljist eignarland í merkingu laganna, heldur ráðist það af almennum sönnunarreglum og réttarheimildum sem færðar eru fram í einstöku tilviki. Gildir sú regla því sem endranær að sá sem telur til eignarréttinda yfir landi verður að færa fram heimildir fyrir eignartilkalli sínu sé það dregið í efa.

           Þær heimildir sem hér hafa verið raktar og varða eignarréttarlega stöðu Steinsholts, verða að mati dómsins ekki túlkaðar á annan veg en þann en að þær lúti að afréttareign fremur en beinum eignarrétti jarðanna.  Að mati dómsins kemur hvergi fram í þeim heimildum sem fyrir liggja í máli þessu að svo hafi verið litið á að svæðið hafi verið undirorpið beinum eignarrétti jarðanna.

          Fallast ber á þá niðurstöðu óbyggðanefndar að líkur bendi til þess að Steinsholt hafi verið innan upphaflegs landnáms á umræddu svæði.  Engin gögn hafa hins vegar verið lögð fram í málinu um það með hvaða hætti sá eignarréttur, er þá kann að hafa stofnast, yfirfærðist til stefnenda.  Þegar virtar eru heimildir um nýtingu hins umdeilda svæðis, gróðurfar og staðhættir að öðru leyti, þykir verða að líta svo á með hliðsjón af öllu framansögðu og sérstaklega með vísan til fordæma Hæstaréttar Íslands í sambærilegum málum að stefnendum hafi ekki tekist að sanna að Steinsholt sé eignarland þeirra.  Þá verður ekki talið að eignarhefð hafi unnist á svæðinu eins og notkun þess hefur verið háttað.  Verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnenda í máli þessu og úrskurður óbyggðanefndar frá 10. desember 2004 í ofangreindu máli um að hið umdeilda svæði sé þjóðlenda staðfestur.  Með vísan til fordæma Hæstaréttar í sambærilegum málum ber að miða við stöðu jökuls eins og hann var við gildistöku þjóðlendulaga 1. júlí 1998. Jafnframt er staðfestur sá úrskurður nefndarinnar að sama landsvæði sé í afréttareign eigenda tiltekinna jarða eins og nánar greinir í dómsorði, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. laga nr. 58/1998 

          Málskostnaður fellur niður.

          Allur gjafsóknarkostnaður stefnenda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns þeirra, Ragnars Aðalsteinssonar, hrl., 200.000 krónur.  Samkvæmt yfirliti lögmannsins nam útlagður kostnaður hans 24.285 krónum.

          Hjörtur O. Aðalsteinsson, dómstjóri, kvað upp dóminn.  Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir lögbundinn frest vegna mikilla embættisanna dómarans, en lögmenn aðila töldu endurflutning óþarfan.

DÓMSORÐ:

          Úrskurður óbyggðanefndar í máli nr. 5/2003 frá 10. desember 2004 að því er varðar þjóðlendu á landsvæði því sem nefnt er Steinsholt í Rangárþingi eystra er staðfestur og viðurkennt að svæði innan neðangreindra marka sé  þjóðlenda: 

 Frá þeim stað þar sem Steinsholtsá rennur undan Steinholtsjökli í Eyjafjallajökli og niður í Markarfljót. Þaðan er Markarfljóti fylgt þar til Jökulsá fellur í það og síðan Jökulsá að upptökum hennar í Eyjafjallajökli. Á milli upptaka Steinholtsár og Jökulsár í jökli ræður jaðar Eyjafjallajökuls, miðað við stöðu jökuls eins og hann var við gildistöku þjóðlendulaga 1. júlí 1998, sbr. 22. gr. þjóðll.

          Þá er staðfest sú niðurstaða nefndarinnar að sama landsvæði sé í afréttareign eigenda jarðanna Fitja, Fitjamýrar og Mið-Merkur.

          Málskostnaður fellur niður.

          Allur gjafsóknarkostnaður stefnenda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns þeirra, Ragnars Aðalsteinssonar, hrl., 200.000 krónur.