Hæstiréttur íslands

Mál nr. 572/2015


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Ómerkingu héraðsdóms hafnað


                                     

Fimmtudaginn 28. janúar 2016.

Nr. 572/2015.

Ákæruvaldið

(Daði Kristjánsson saksóknari)

gegn

X

(Jónas Þór Jónasson hrl.)

Líkamsárás. Ómerkingu héraðsdóms hafnað.

X var ákærður fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa veitt A högg með krepptum hnefa í andlit þar sem hún stóð við útidyr heimilis síns með þeim afleiðingum að hún féll við og lenti á gólfi innan við útidyrnar og hlaut bólgu og margúl neðan við auga og út til hliðar yfir kinnbein. Talið var að framburður A, sem var ein til frásagnar um að X hefði ráðist á hana, hefði að sumu leyti verið óstöðugur og í ósamræmi við framburð annars vitnis um atvik áður en árásin átti sér stað. Yrði sakfelling því ekki á honum byggð gegn neitun X. Var því ekki talið að komin væri fram lögfull sönnun þess að X hefði veist að A með þeim hætti sem greindi í ákæru. Var X því sýknaður.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Benedikt Bogason og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 6. ágúst 2015. Af hálfu ákæruvaldsins er þess aðallega krafist að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað, en til vara að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og dæmdur til refsingar.

Ákærði krefst staðfestingar héraðsdóms.

Krafa ákæruvaldsins um ómerkingu héraðsdóms er reist á því að sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi kunni að vera rangt svo að einhverju skipti um úrslit máls, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þegar niðurstaða hins áfrýjaða dóms er virt í ljósi þess sem komið hefur fram í málinu verður ekki fallist á að það með ákæruvaldinu að líkur standi til að sönnunarmatið hafi verið rangt svo einhverju skipti um niðurstöðuna. Verður kröfunni því hafnað.

Samkvæmt 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 getur Hæstiréttur ekki endurmetið niðurstöðu héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar nema hlutaðeigandi vitni eða ákærði gefi skýrslu hér fyrir dómi. Að því gættu og með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins verður felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða fyrir Hæstarétti sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, Jónasar Þórs Jónassonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 10. júlí 2015.

I

Mál þetta, sem dómtekið var 24. júní sl., höfðaði lögreglustjórinn á Vestfjörðum með ákæru 30. apríl 2015 á hendur ákærða; „X, kennitala [...], [...], [...], fyrir líkamsárás, með því að hafa að kvöldi mánudagsins 3. nóvember 2014, veitt A, kt. [...], eitt högg með krepptum hnefa í andlit, þar sem hún stóð við útidyr heimilis síns að [...] á [...], með þeim afleiðingum að hún féll við og lenti á gólfi innan við útidyrnar og hlaut bólgu og margúl neðan við vinstra auga og út til hliðar yfir kinnbein.

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. síðari breytingar.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Ákærði neitaði sök við þingfestingu málsins og skilaði 3. júní sl. greinargerð sinni, sbr. 165. gr. laga nr. 88/2008.

Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvalds en til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa. Í báðum tilvikum er þess krafist að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar á meðan málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða í samræmi við framlagða tímaskýrslu, auk útlagðs kostnaðar verjandans.

II

Þann 3. nóvember 2014 barst lögreglu tilkynning um að brotaþoli, A, hefði verið kýld í andlitið fyrir utan heimili sitt að [...], [...]. Í tilkynningunni kom fram að meintur gerandi væri ákærði sem er nágranni brotaþola og býr í götunni fyrir ofan hana. Þegar lögregla kom á vettvang var brotaþoli í uppnámi og mátti sjá örlítinn roða í andliti hennar. Brotaþoli sagði hundinn hennar hafa farið að gelta eins og hann geri þegar einhver er að „sníglast“ á lóðinni við húsið. Hún hafi þá farið út og þegar hún kom til baka hafi ákærði staðið við dyrnar, klæddur dökkgrárri úlpu, með húfu og svartan og hvítan hund af tegundinni border collie. Hún hafi spurt ákærða hvað hann væri að gera og hafi hann svarað að hann væri að viðra hundinn. Ákærði hafi svo kýlt hana fyrirvaralaust í andlitið með krepptum hnefa þannig að hún kastaðist inn í húsið. Lögregla náði síðan tali af ákærða þar sem hann var við vinnu á [...]. Ákærði var sýnilega ölvaður, á stólbaki á vinnustað hans var dökkgrá úlpa og auk þess var hann með svartan og hvítan border collie hund sem hann kvaðst vera að gæta. Ákærði neitaði því að hafa gert brotaþola nokkuð. Hann kvaðst hafa komið gangandi heiman frá sér fyrr um kvöldið. Hafi hann þá gengið út [...] og niður [...], [...] niður að [...] og [...] að hafnarvoginni. Þá gaf ákærði öndunarsýni í áfengismæli sem sýndi niðurstöðuna 1,06 mg/l.

Brotaþoli gaf skýrslu hjá lögreglu vegna málsins 4. nóvember 2014. Hún kvaðst hafi farið út þar sem hún heyrði hund sinn gelta. Þegar hún kom til baka og hafi verið komin í anddyri íbúðar sinnar og hafi haldið annarri hendi í sneril útihurðar, sem var hálfopin, og með aðra löppina inni en hina úti hafi hún litið við og þá séð ákærða fyrir aftan sig. Hún hafi spurt hann hvað hann væri að gera þarna og hafi hann svarað að hann væri að fylgjast með hundi sínum. Ákærði hafi verið með hund og hafi hann verið klæddur grárri úlpu og með húfu á höfði. Eftir þetta svar ákærða hafi hún ætlað að fara inn en hann hafi þá reitt hægri hnefa til höggs og slegið hana í vinstri kinn þannig að hún féll inn um dyrnar og í gólfið.

Skýrsla var tekin af ákærða 7. nóvember 2014. Hann sagði kæruna vera ranga og hann hafi aldrei komið nálægt húsi brotaþola. Hann hafi þetta kvöld verið kallaður út í vinnu en hann sé [...] og [...] á [...]. Hann hafi gengið niður á bryggju til vinnu og hafi þá verið með hund sem hann hafi verið með í pössun. Hann hafi gengið heiman frá sér út [...], niður [...] og út á bryggju. Hann sagði vel geta staðist að hann hafi verið klæddur grárri úlpu og kvaðst einnig hafa verið með rauða Arsenal-húfu en kvaðst einnig eiga svarta húfu. Hann kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis og hafa byrjað að drekka um fimm- eða sexleytið og hafa drukkið tæpa flösku af rauðvíni.

Vitnið B sagði í skýrslu sinni hjá lögreglu að snemma þetta kvöld hafi hann, frá bílskúrnum á heimili sínu að [...], séð ákærða koma gangandi framhjá, en ákærði búi við hliðina í húsi nr. [...]. Hafi hundur fylgt ákærða. Um 10 til 15 mínútum seinna hafi hann séð ákærða inni í vigtarskúrnum að vigta upp úr vélbátnum [...].

Fyrir liggur læknisvottorð, dagsett 7. nóvember 2014, þar sem fram kemur að brotaþoli hafi leitað til slysadeildar 4. nóvember 2014. Þar hafi hún lýst atvikum svo að hún hafi fengið hnefahögg í andlitið þar sem hún var í anddyri íbúðar sinnar og hafi það lent fyrir neðan vinstra auga og á kinnbeini. Hún hafi þá dottið aftur fyrir sig og skollið í gólfið. Fram hafi komið hjá henni að hún hafi kastað einu sinni upp. Ástandi brotaþola er lýst svo í vottorðinu að hún hafi verið vakandi og áttuð en í talsverðri geðshræringu. Bólgusvæði hafi verið neðan við vinstra auga og út til hliðar yfir kinnbein, 3 x 5 sm að stærð, og aðeins blámi í því (margúll).

Einnig liggur fyrir vottorð C sálfræðings, dagsett 3. desember 2014, vegna brotaþola. Þá liggur fyrir ljósmyndamappa lögreglu með ljósmyndum sem teknar voru 18. nóvember 2014 af brotavettvangi og þeirri gönguleið sem ákærði kvaðst hafa gengið, tvær ljósmyndir af áverkum á brotaþola sem teknar voru af lögreglu 4. nóvember 2014, götukort af [...], gögn um færslur bæði brotaþola og ákærða á Facebook, yfirlit ákærða vegna samskipta á milli fjölskyldna hans og brotaþola, vigtarskýrsla vegna [...] og símagögn. Loks liggja fyrir útprentanir úr dagbók lögreglu sem ná yfir tímabilið frá 16. janúar 2014 til 19. maí 2015 þar sem bókaðar eru tilkynningar um ætlað áreiti annars vegar frá brotaþola og fjölskyldu hennar og hins vegar frá ákærða og fjölskyldu hans og þrjár tilkynningar til barnaverndaryfirvalda sem settar voru fram af hálfu ákærða og eiginkonu hans vegna ætlaðs áreitis brotaþola gagnvart börnum þeirra.

III

Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

Ákærði lýsti því fyrir dómi að hann hafi þetta kvöld verið kallaður í vinnu að vigta úr mótorbátnum [...] af D stýrimanni bátsins. Hann hafi farið gangandi í vinnuna frá heimili sínu og gengið út [...], út [...], út [...] og út á [...] og þaðan út í vigtarskúr. Þar hafi hann setið og beðið eftir því að báturinn byrjaði að landa þegar lögreglumaður hringdi í hann og sagði honum að hann ætti von á heimsókn lögreglu út af líkamsárásarmáli. Þegar hann var byrjaður að vigta hafi tveir lögreglumenn komið til hans og hafi þeir staðið yfir honum og spurt hann spjörunum úr. Það hafi allt farið í „kleinu“ hjá honum út af þessu þar sem hann átti ekki von á þessu. Eftir þetta hafi hann gengið heim og á leiðinni hringt í E, sambýlismann brotaþola, og spurt hann hvað honum gengi til í þetta skipti en þau séu búin að vera að áreita hann og konuna hans síðustu tvö ár. E hafi engu svarað og skellt á en hann haldið áfram heim. Þegar hann kom heim hafi hann sett færslu á Facebook-síðu sína því að hann hafi reiðst mjög út af þessu. Ákærði sagði að verið gæti að klukkan hafi verið fimmtán til tuttugu mínútur í níu þegar hann lagði af stað niður í vigtarskúr. Báturinn hafi komið inn fyrir níu og hann hafi verið mættur niður eftir þegar báturinn kom. Ákærði kvaðst ekki vita hversu lengi hann var að ganga niður eftir en hann hafi verið með hundinn með sér og hafi hann stundum drifið hann áfram en stoppað einnig mikið á leiðinni.

                Ákærði kvaðst hafa sagt lögreglumönnunum að það væri fjarri lagi að hann hafi gert þetta. Þeir hafi látið hann blása í áfengismæli og spurt hann um hundinn. Ákærði kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis. Hann hafi drukkið kannski eina rauðvínsflösku frá klukkan fimm eða sex þangað til hann fór að vigta. Ákærði kvaðst hafa verið með hund í pössun, svartan og hvítan border collie, og hafi verið búinn að vera með hann í um tvær vikur þegar þetta gerðist. Á þeim tíma hafi hann margoft farið með hann út en muni ekki eftir að hafa hitt brotaþola á þeim ferðum. Aðspurður kvaðst ákærði hafa verið klæddur í gráa úlpu með loðkraga, svartar joggingbuxur og verið með húfu. Ákærði sagði að göngufæri væri á milli heimilis hans og brotaþola en girðing sé við ofanvert hús brotaþola, tvær spýtur þveraðar, kannski 40 sm að hæð. Órækt sé á svæðinu milli húsanna, og einhverjir runnar og sé þetta ekki gönguleið. Ákærði sagði að það sæist glitta í hús hans frá húsi brotaþola en það sjáist greinilega frá [...].

Aðspurður sagði ákærði að ágreiningur væri á milli fjölskyldu hans og fjölskyldu brotaþola sem hafi upphaflega stafað af því að dætrum þeirra hefði sinnast. Dóttir ákærða hafi þá sagt í gríni að hún ætlaði að biðjast afsökunar svo að hún yrði ekki tekin hálstaki. Með þetta hafi dóttir brotaþola hlaupið heim og svo hafi brotaþoli hringt í konu ákærða og dóttur og kallað dóttur hans lygatík og sagt að hún væri að bera út lygar um E. Skömmu seinna, haustið 2013, hafi hann unnið með E á [...] og hafi E þá fengið far með honum til baka til [...]. Á leiðinni hafi þeir rætt um slys sem ákærði lenti í árið 2011 en hann þurfti að hætta á sjónum vegna þess. Hann hafi sagt E að ef allt færi eins og áætlað væri fengi hann umtalsverðar tryggingabætur. Hann hafi síðan fengið bréf frá lögmanni sínum um að það væri búið að klaga hann fyrir tryggingasvik. Hann kvaðst strax hafa séð að þetta var frá E komið. Fljótlega upp úr þessu hafi hann séð, þegar hann var að aka framhjá húsinu hjá þeim, að þau voru vinkandi, hlæjandi og klappandi framan í hann. Þetta hafi svo ágerst. Vitnið kvaðst vita að E gerði þetta og hafi farið að segja öðrum frá því og þá hafi þetta breyst í grettur og „fokkjúmerki“.

Í janúar 2014 hafi kona hans lent í rifrildi við E úti í íþróttahúsi og hafi ákærði þá farið og látið E heyra það. Hann hafi þá verið mjög reiður og kannski sagt ýmislegt sem hefði mátt kyrrt liggja. Upp frá þessu ágerðist skítkastið. Ákærði sagði að hann hefði verið kallaður í endurmat hjá tryggingafélaginu vegna tilkynningarinnar frá E og niðurstaða þess hafi verið sú að fyrra mat á varanlegri örorku var lækkað um 10%. Þá sagði ákærði það ekki vera rétt að hann hafi verið að gefa brotaþola og fjölskyldu hennar einhverjar bendingar og merki heldur væri þessu öfugt farið. Ákærði sagði E og brotaþola hafa haft í hótunum við sig og einnig hafi brotaþoli verið að kalla dóttur hans nöfnum. Þá hafi honum verið sagt að E hafi hótað því að yrði mál þetta ekki tekið fyrir hjá lögreglu yrði fjórföld jarðarför. Einnig hafi E og brotaþoli hringt í bæjarstjórann og reynt að fá hann rekinn af vigtinni og sagt að hann væri alltaf dauðadrukkinn í vinnu og einnig talað um að hann væri grunaður um að vera í neyslu eiturlyfja. Þá hringdu þau í starfsmann [...] með sömu sögu og E reyndi að fá hann rekinn úr starfi í [...] og sagt að hann væri að áreita börnin hans í íþróttahúsinu og í sundi.

Ákærði kvaðst vera í hjúskap, eiga tvö börn og starfa sem [...] og hafa að auki verið í hlutastarfi sem [...] síðasta vetur. Hann kvaðst hafa liðið miklar þjáningar út af þessum árásum af hálfu brotaþola og fjölskyldu hennar. Það hafi verið mikið áfall að missa starfið sem hann var búinn að vera í alla tíð. Hann hafi verið edrú þegar hann fékk þær fréttir að tryggingafélagið ætlaði að taka hann til rannsóknar. Hann hékk heima og var á endanum orðinn þunglyndur og fékk lyf við því en byrjaði að drekka aftur í júní 2014 og telur það vera beina afleiðingu af þeim ásökunum sem á hann hafa verið bornar.

Vitnið A, brotaþoli, lýsti því að þetta kvöld hafi hún verið ein heima með nú fimm ára gamla dóttur sína og hafi sambýlismaður hennar, E, farið í vinnu um klukkan hálfátta. Hún hafi þá sett dóttur sína í bað. Þetta hafi gerst í nóvember og það hafi verið farið að dimma úti. Hún sé með hund og alltaf þegar einhver komi að húsinu eða gangi framhjá gelti hann. Meðan dóttir hennar var í baði hafi hún heyrt hundinn gelta en hann var læstur inni í þvottahúsi. Eftir að hún tók dóttur sína úr baðinu hafi hún farið út. Hennar hundur hafi þá enn verið í þvottahúsinu. Hún hafi séð son sinn rétt hjá á skólalóðinni og gengið í áttina að honum talað við hann nokkur orð. Hún hafi svo gengið til baka að húsinu en áður en hún kom inn í húsið hafi hún fundið skrýtna tilfinningu og snúið sér við og þá séð ákærða. Hann hafi verið með svarta húfu, í dökkum buxum og í grárri úlpu. Hún sagði ákærða hafa verið með hund, svartan og hvítan, border collie-blöndu. Útiljósið var kveikt og lýsti á ákærða. Hann var alls ekki illur en var mjög órólegur og mjög skrítinn eins og hann væri undir áhrifum en var ekki ókurteis. Hann hafi ekki getað staðið kyrr og var með líkamlega kæki. Þegar hann kom nærri henni hafi hún farið að óttast hann og hafi spurt hann hvað hann væri að gera. Hann sagði að hann væri að fylgjast með hundinum sínum. Hún hafi þá opnað dyrnar og hafi ætlað að fara inn í húsið en þá hafi hann kýlt hana. Hann hafi haldið í hundinn með vinstri hendi og kýlt hana með hægri hendi og í vinstri kinn. Hún kvaðst ekki muna mikið eftir þessu nema að eftir að hún rankaði við sér á gólfinu þá heyrði hún yngstu dóttur sína gráta og kalla: „mamma“. Hún þorði ekki að snúa sér að henni af því að hún vissi ekki hvernig andlitið á sér liti út, til að hræða hana ekki, en hún hafi staðið fyrir aftan hana í ganginum. Hún kvaðst hafa sagt dóttur sinni af fara inn í rúm áður en hún snéri sér að henni. Vitnið kvaðst hafa verið mjög vönkuð og í sjokki og hafa kastað upp inni á salerni eftir að hún stóð upp. Hún kvaðst ekki hafa áttað sig á því hvort hennar hundur gelti þegar ákærði var þarna og ekki hafa séð hvaðan ákærði kom. Frá því að hún sá ákærða þar til hann kýldi hana hafi liðið mjög stuttur tími. Vitnið kvaðst halda að hún hafi rotast í nokkrar sekúndur. Síðan hafi hún hringt í 112 og 118, en muni ekki í hvort númerið hún hringdi fyrst, og sagt að ákærði hefði kýlt hana. Systir E, vitnið F, hafi komið eftir að ákærði kýldi hana og seinna einnig vitnið G, sóknarprestur. F hafi sagt lögreglu að flýta sér af því að hún vissi að E færi að koma og óttaðist hvað hann gerði. Vitnið hafi einnig verið hrædd um að E kæmi heim og mundi gera eitthvað við ákærða en hann hafi verið orðinn mjög þreyttur á framkomu ákærða gagnvart börnum þeirra og henni. Hún óttaðist að hann mundi, eins og örugglega flestir menn mundu gera ef einhver ræðst á konu þeirra, ráðast á þann sem það gerði. Vitnið kvaðst ekki vita hve lengi hún hafi verið rotuð eða hvernig ástand hennar var eftir að ákærði kýldi hana en hún hafi dottið inn í ganginn heima hjá sér og lent á gólfinu. Hún kvaðst muna að yngri dóttir hennar kallaði nafnið hennar en viti ekki hvort hún stóð fyrir aftan hana eða hvort hún heyrði í henni í gegnum barnapíutækið.

Aðspurð um afleiðingar árásarinnar sagði vitnið að ákærði hefði kýlt hana í kinnina og hafi hún verið bólgin þar og síðan marin. Einnig hafi hún daginn eftir verið bólgin á öxlinni og hafi bólgan verið eins og kúla og kvaðst hún halda að einnig hafi verið rispa. Vitnið kvaðst hafa verið þunglyndissjúklingur áður en þetta gerðist og ákærði og fjölskylda hans vissu það. Hún hafi hætt að vinna vegna þess í september eða október 2014 að ráðleggingu sálfræðings. Hún hafi verið mjög illa andlega stödd en sálfræðingurinn sagði henni að finna sér eitthvað að gera, til dæmis ganga úti. Eftir þetta gat hún ekki gert það og var eins og hann hefði tekið þetta frelsi frá henni. Hún hafi verið mjög hrædd við ákærða. Hann hafi einnig verið að aka framhjá húsinu hjá henni en hún hafi „elskað“ að sitja við eldhúsgluggann og drekka kaffi. Eftir að hún kærði hafi þetta verið lifandi helvíti. Hann hafi alltaf verið með bendingar og nefnir sem dæmi að hann hafi gefið bendingu með því að setja fingur þvert yfir hálsinn á sér. Hann hægði á bifreiðinni ef hún var að ganga úti á götu og starði á hana. Einu sinni þegar hún var að fara með dóttur sína á leikskóla og hann var að fara með konu sína í vinnu hafi hann ekið á gönguhraða og starað á hana allan tímann.

                Brotaþoli sagði ágreining milli fjölskyldu hennar og ákærða hafa byrjað fyrir um tveimur árum og nefnir annars vegar ásakanir um tryggingasvik og hins vegar að ákærði hafi verið að ógna dóttur hennar. Hún nefnir sem dæmi að hann hafi verið hjólandi eftir henni og verið að horfa á hana, eða akandi á bifreið eftir henni. Ef börnin voru að rífast, eins og krakkar geri, þá kom konan hans og skammaði börnin hennar. Mest allt „vesen“ hafi þó verið eftir árásina. Nefndi hún sem dæmi að ákærði hafi kallað dóttir hennar hóru og að hann hafi einu sinni ekið svo nálægt dóttur hennar þegar hún var á hjóli að hún hafi dottið af því. Aðspurð kvaðst brotaþoli ekki hafa klagað ákærða út af tryggingasvikum en ágreiningurinn milli þeirra hafi í raun byrjað fyrst eftir að þau komu upp. Þá kvaðst vitnið kannast við að hafa skrifað Facebook-færslu sem liggur fyrir í málinu en sagði þar ekki koma fram að þarna sé hún að skrifa um ákærða. Hún kvaðst hafa skrifað færsluna í kjölfar samskipta ákærða við dóttur hennar þegar hún var á vegum skólans að safna fyrir krabbameinssjúka. Aðspurð kvaðst hún ekki hafa séð ákærða með þennan hund áður en atvik gerðist. Þá staðfesti hún að göngufæri væri frá bakhlið húss hennar að heimili brotaþola.

Vitnið F, systir E, sambýlismanns brotaþola, sagði brotaþola hafa hringt í sig og sagt að ákærði hefði barið hana og að E væri farinn. Hafi hún haldið að hann hafi farið á eftir ákærða en vitnið hafi óttast viðbrögð hans. Vitnið hafi svo farið til brotaþola sem hafi verið í mikilli geðshræringu og hafi dóttir hennar verið grátandi. Vitnið hafi þá hringt í G sem hafi einnig komið. Aðspurð um áverka á brotaþola sagði hún hana hafa verið rauða á vanganum. Vitnið sagði brotaþola hafi lýst atvikum fyrir henni svo að hún hafi verið að baða stelpuna og hafi þá heyrt hundinn gelta. Hún hafi svo farið út til að athuga með son sinn en þegar hún koma til baka hafi ákærði birst með hund. Hún hafi staðið í dyrunum og snúið sér við og svo fengið högg í andlitið og rankað við sér á gólfinu. Brotaþoli hafi sagt henni að ákærði aki oft framhjá húsinu og horfi upp í gluggann og sé með áreiti. Kvaðst vitnið hafa staðreynt þetta eitt sinn er hún gekk á eftir ákærða framhjá húsinu. Þá sagði hún ákærða hafa sagt sér að hann hefði áreiðanlegar heimildir fyrir því að E hafi látið tryggingar vita af því að hann teldi að ákærði væri að svíkja undan bætur.

Vitnið H lögregluvarðstjóri kvaðst hafa ritað frumskýrslu málsins. Þegar þeir komu á vettvang hafi brotaþoli verið í miklu uppnámi, grátandi og rauð í framan, og sagði að ákærði hefði ráðist á sig og talað um að hann hafi verið með hund. Vitnið F hafi þá verið hjá brotaþola. Brotaþoli hafi verið með roða á kinn sem vitnið hafi tekið myndir af. Brotaþoli lýsti því að hún hafi sussað á hundinn og farið út að athuga með son sinn. Þegar hún kom til baka stóð ákærði fyrir utan útidyrnar hjá henni í dökkum jakka með svarta húfu með hund í bandi. Vitnið kvaðst ekki muna hvort hún sagði ákærða hafa ýtt henni inn eða kýlt hana inn og minnti að hún hafi sagt að hún hafi henst eftir ganginum. Þeir hafi síðan farið að leita að E, sambýlismanni brotaþola, en hún hafi óttast að hann yrði reiður þegar hann heyrði hvað hefði gerst. Hann hafi reyndar verið mjög rólegur þegar þeir hittu hann. Þeir hafi svo fundið ákærða í vigtarskúrnum við höfnina með hund og jakka sem passaði við lýsingu brotaþola. Ákærði hafi vitað að von var á lögreglu. Ákærði talaði mikið og reyndist hann vera undir áhrifum áfengis. Hann hafi talað um samskipti við brotaþola og hennar fólk og lýst ágreiningi. Hann hafi lýst leiðinni sem hann fór til vinnu og samkvæmt því fór hann ekki framhjá húsi brotaþola. Vitnið kvaðst ekki minnast þess að brotaþoli hafi sagt að hún hafi kastað upp.

Vitnið I, fyrrverandi lögreglumaður, kvaðst hafa farið á vettvang og hitt þar vitnið F ásamt brotaþola sem var í miklu uppnámi og grét og sagði þeim að ákærði hefði kýlt hana í andlitið. Hún hafi heyrt hundinn sinn gelta og þá farið út og róað hann niður og séð síðan son sinn og kallað á hann. Þegar hún kom til baka sá hún ákærða, með hund, og hann hafi kýlt hana fyrirvaralaust með krepptum hnefa. Við það hafi hún kastast inn. Hún talaði um að vera aum í andlitinu og hafi þeir tekið mynd af henni. Vitnið kvaðst ekki muna eftir því að hún hafi talað um að hún hafi vankast, misst meðvitund eða kastað upp. F hafi lýst því að hún hefði áhyggjur af E og óttast að hann yrði reiður og myndi ganga í skrokk á ákærða. Þeir hafi því fyrst leitað að E. Þegar þeir hittu hann hafi hann reynst vera rólegur en vildi vita hvort það væri í lagi með brotaþola. Þeir hafi síðan hitt ákærða á vinnustað hans á [...] og var þá verið að landa. Ákærði hafi verið töluvert ölvaður. Hann sagðist vera nýkominn í vinnu og lýsti leiðinni sem hann fór til vinnu en samkvæmt henni hafði hann ekki gengið fram hjá húsi brotaþola. Ákærði var lítillega stressaður þegar þeir komu. Hann neitaði því að hafa framið líkamsárásina. Hann var klæddur ljósbrúnni skyrtu og jakki hékk á stól hjá honum. Hann var með hund af tegundinni border collie, svartan og hvítan að lit. Vitnið kvaðst ekki muna hvort hann sá áverka á brotaþola en hún hafi haldið mikið um andlitið og grátið. Hún talaði um að það hafi verið einhverjar erjur á milli þeirra og ákærða síðustu mánuði.

Vitnið E, sambýlismaður brotaþola, kvaðst hafa farið að vinna fyrir klukkan átta þetta kvöld. Þegar hann kom heim hafi brotaþoli verið grátandi og skolfið en þar hafi einnig verið vitnin F og G. Vitnið sagði brotaþola hafa verið dálítið bólgin í andliti, á vinstra kinnbeini, og hafi mar komið út seinna og einnig bólga í herðunum á henni. Hann hafi sjálfur verið í hálfgerðu taugaáfalli og muni lítið. Seinna um kvöldið hafi brotaþoli sagt honum frá því sem gerðist. Hún kvaðst hafa heyrt eitthvað úti þegar hún var að baða dóttur þeirra. Skömmu seinna hafi hún farið út og þá hafi ákærði verið kominn. Hún hafi spurt hann hvað hann væri að gera og hann sagt að hann væri að fylgjast með hundi sem hann var með. Hún hafi sagt „ok“ og kvaðst hann halda að hún hafi ekki munað neitt meira fyrr en hún var komin niður á gólf og heyrði dóttur þeirra gráta.

Vitnið sagði ágreining hafa byrjað milli fjölskyldu hans og ákærða um áramót 2013 og 2014 en dætrum þeirra hafi þá lent saman. Í febrúar 2014 hafi hann frétt að kona ákærða hefði sakað hann um að hafa tekið myndir út af Facebook-síðu hennar og sent tryggingunum. Hann hafi þá reynt að segja henni að hann hefði ekki gert það og í kjölfar þess hitti hann ákærða sem hafi ætlað að hjóla í hann og hafi sagt að hann ætlaði að stúta fjölskyldu vitnisins. Þetta hafi vitnið tilkynnt til lögreglu. Vitnið kvaðst hafa talað við [...] og starfsmann [...] eftir árásina eftir að hafa fengið vitneskju um að ákærði hafi verið undir áhrifum áfengis við vinnu. Þá hafi hann talað m.a. við bæjarstjóra vegna barnanna en hann hafi verið búinn að reyna að koma þeim í íþróttir, en ákærði hafi verið [...], og einnig vegna samskipta ákærða við dóttur hans í tengslum við söfnun sem hún tók þátt í. Vitnið kvaðst hafa haft samband við tryggingafélagið vegna ætlaðra bótasvika ákærða eftir að hafa unnið með honum. Ástæða þess að hann hringdi var sú að það komu upp erjur milli dætra þeirra og eftir það hafi dóttir ákærða sagt þá sögu, sem hafi borist út um allt, að vitnið tæki fólk hálstaki. Þá kvaðst hann ekki kannast við að hafa hótað ákærða lífláti og í því sambandi talað um fjórfalda jarðarför. Loks kannaðist hann við að hafa sagt frá því að ákærði hefði verið færður til blóðrannsóknar á Ísafirði vegna gruns um fíkniefnaneyslu.

Vitnið G sóknarprestur kvaðst hafa verið beðin um að koma til brotaþola í umrætt sinn. Brotaþoli hafi verið í mjög miklu uppnámi, í raun verið í áfalli, hafi ætt um gólf og litla stjórn haft á gráti og raddstyrk. Hún hafi skolfið mikið og ekki ráðið við að halda á símtóli eða kaffibolla og endurtekið sig í sífellu og séu þetta einkenni áfalls. Brotaþoli hafi sagt að hún hafi verið að baða barnið og hafi síðan farið út á götu og yfir götuna þar sem sonur hennar var að leika sér á sparkvelli við skólann og talað við hann. Þegar hún kom til baka hafi hún hitt ákærða, það hafi komið til einhverra orðaskipta milli þeirra og hún fengið högg í andlitið. Hún hafi talað um að hafa legið á gólfinu, heyrt í barninu gráta og svo hafi sagan byrjað upp á nýtt. Hún sagði ákærða hafa verið með hund, svartan og hvítan. Brotaþoli hafi verið með áverka, daufan roða á kinn, en vitnið hafi séð þar stóran marblett daginn eftir. Þá kvaðst hún hafa hitt E þegar hann kom á meðan hún var þarna. Hann hafi lítið sagt og hafi í raun verið „úr leik“ og gerði ekki neitt. Þá sagði hún ákærða hafa komið til hennar eftir þetta og sagt henni að það væri verið að bera á hann sakir sem ættu sér ekki stoð.

Vitnið B kvaðst búa við hlið ákærða og vera vinur hans. Hann kvaðst muna eftir því að hafa séð ákærða þetta kvöld, líklega um klukkan sex, að ganga út [...] og hafi hann þá gengið framhjá húsi vitnisins. Seinna hafi hann séð ákærða aftur þar sem hann sat inni í vigtarskúrnum þar sem verið var að vigta úr [...]. Þetta hafi verið korter eða tuttugu mínútum seinna en hann sá ákærða gangandi. Vitnið kvaðst ekki muna eftir að hafa séð ákærða oftar þennan dag. Hann kvaðst einnig hafa séð brotaþola skömmu áður en hann sá ákærða en hann hafi ekið framhjá henni þar sem hún var gangandi á leið niður að skólaplássinu, með hundinn.

Vitnið J læknir lýsti því fyrir dómi að þegar brotaþoli kom til hans hafi hún verið í léttri geðshræringu. Hann hafi ekki séð aðra áverka á henni en margúl neðan við vinstra auga. Hann hafi ekki getað greint hvers vegna þessi margúll var en saga hennar var sú að hún hafi fengið hnefahögg í andlitið. Vitnið staðfesti vottorð sitt frá 7. nóvember 2014 og þá lýsingu sem þar kemur fram og kvaðst hafa skoðað brotaþola sjálfur og tekið niður upplýsingar. Þá sagði vitnið að allt sem sagt er um aðdraganda árásarinnar í vottorðinu sé haft eftir brotaþola.

Vitnið K, nágranni brotaþola, sem búsett er að [...], kvaðst hafa verið heima þetta kvöld og telja að hún hafi verið í sófa í stofu með veikt barn. Aðspurð sagði hún stofuna væntanlega snúa að húsi nr. [...]. Hún kvaðst ekki muna eftir neinum mannaferðum þetta kvöld en hafa séð, þegar hún stóð upp úr sófanum, að lögreglubifreið var komin en heyrði hana ekki koma né heldur sá hún lögreglumennina. Vitnið kvaðst venjulega verða vör við ef hundurinn hjá brotaþola geltir þegar hann er úti og hafi hún orðið vör við að hundurinn var eitthvað úti þetta kvöld en muni ekki klukkan hvað. Venjulega heyrðist rosalega mikið í hundi brotaþola, það megi varla koma fugl yfir þá heyrist í honum. Vitnið kvaðst venjulega heyra vel þegar gengið er framhjá húsinu og þegar bifreiðar fara framhjá en hafi ekkert orðið vör við það þetta kvöld og hafi ekki séð ákærða þetta kvöld.

Vitnið L rannsóknarlögreglumaður kvaðst hafa tekið myndir sem fyrir liggja í málinu. Myndirnar hafi verið teknar nokkurn veginn af leiðinni sem ákærði sagðist hafa gengið heiman frá sér niður á höfn. Einnig hafi hann tekið myndir af aðstæðum utandyra við heimili brotaþola. Þá staðfesti hann að hafa gert upplýsingaskýrslu um vegalengdir og að hafa mælt vegalengdina frá heimili ákærða niður á höfn og reiknað út áætlaðan göngutíma miðað við mismunandi forsendur. Aðspurður sagði vitnið að það væri hægt að ganga stystu leið milli heimila ákærða og brotaþola, sem væri kannski 80 metra loftlína, og komast milli húss og bílskúrs í anddyri á heimili brotaþola.

Vitnið C sálfræðingur sagði brotaþola hafa verið í sálfræðimeðferð hjá henni, frá því í febrúar 2014 þar til í maí 2015, vegna þunglyndis og mikillar streitu. Brotaþoli hafi verið búin að vera veik áður en hún byrjaði að koma til hennar, með alvarlegt þunglyndi, kvíða, streitu og þráhyggju. Mikið álag hafi fylgt starfi hennar og var því ákveðið að hún myndi hætta að vinna í október 2014. Eftir það fóru að sjást batamerki. Vitnið sagði að mikilvægur þáttur í meðferð þunglyndis væri að auka virkni. Það hafi verið farið að ganga betur og sýnileg merki voru um bata í október 2014. Vitnið kvaðst hafa hitt brotaþola 7. nóvember 2014, fjórum dögum eftir árásina, og þá sagði hún frá því að hún hefði verið kýld. Brotaþoli hafi eftir árásina átt mjög erfitt, henni hafi liðið illa og verið hrædd og fundið fyrir miklum ótta og varnarleysi. Hún hafi verið búin að sofa illa og var með tilfinningasveiflur. Þegar þetta gerðist var hún farin að fara í göngutúra með hundinn og fannst eins og hún væri farin að ná tökum á þunglyndiseinkennunum en eftir þetta þorði hún ekki út og upplifði mikla ógn af ákærða sem var, að hennar sögn, oft að aka framhjá heimili hennar. Meðferð brotaþola hafi haldið áfram eftir árásina en þá hafi komið skýrt bakslag í meðferðina. Vitnið sagði brotaþola hafa greinst með einkenni áfallastreituröskunar. Vitnið hafi kannað þau einkenni aftur í desember og í janúar og þá hafi hún enn verið með mikið þunglyndi, hafi grátið mikið, verið hrædd og með tilfinningasveiflur. Hún hafi enn verið viðbrigðin og hrædd við að fara út og vera ein. Vitnið kvaðst tengja þessi einkenni beint við árásina. Kvíðinn hafi verið fyrir en hann hafði dvínað mikið fyrir árásina. Þá kvaðst hún ekki telja að brotaþoli hafi veitt sér áverkana sjálf en hún hafi ekki, að vitninu vitandi, verið með sjálfskaðahegðun. Aðspurð sagði vitnið að miðað við frásögn og upplifun brotaþola og ástand hennar þegar hún sá hana þá trúi hún því að hún hafi orðið fyrir árásinni. Þá séu engin merki um geðrof eða að þetta sé ímyndun brotaþola. Brotaþoli hafi verið bólgin og marin á vinstri kinn og upp undir auga þegar hún sá hana eftir árásina. Þá sagði vitnið að brotaþoli hafi ekki minnst á það að erfiðleikar væru í sambandi hennar við E.

IV

Ákærði neitar sök. Hann er ákærður fyrir líkamsárás, með því að hafa veitt brotaþola, A, eitt högg með krepptum hnefa í andlit, þar sem hún stóð við útidyr heimilis síns að [...] á [...], með þeim afleiðingum að hún féll við og lenti á gólfi innan við útidyrnar og hlaut bólgu og margúl neðan við vinstra auga og út til hliðar yfir kinnbein. Ákærði byggir sýknukröfu sína á því að ósannað sé að hann hafi framið þann verknað sem greinir í ákæru.

Af framburði ákærða, brotaþola og vitna má ráða að óvild hefur verið á milli ákærða og fjölskyldu hans og brotaþola og fjölskyldu hennar í nokkurn tíma. Báðir aðilar virðast m.a. rekja þetta annars vegar til ágreinings sem kom upp á milli dætra þeirra og til þess að sambýlismaður brotaþola hafði samband við tryggingafélag og benti á hugsanleg tryggingasvik ákærða.

Fyrir liggur að ákærði var við vinnu þetta kvöld á [...] og samkvæmt framlagðri vigtarskýrslu í málinu var fyrsta vigtun þetta kvöld klukkan 21.08. Ákærði bar um það í framburði sínum að hann hafi lagt af stað í vinnu fimmtán til tuttugu mínútur fyrir níu og fyrirliggjandi gögn um símtöl benda til þess að stýrimaður á bátnum hafi hringt í ákærða klukkan 19.42. Samkvæmt skýrslu lögreglu barst henni tilkynning um líkamsárásina klukkan 20.23 og samkvæmt framburði brotaþola, sem fær stuðning í framburði sambýlismanns hennar E, var hún ein heima með dóttur sína frá því fyrir klukkan átta.

Af hálfu ákæruvalds er aðallega byggt á framburði brotaþola og hann talinn fá stuðning í öðrum gögnum. Brotaþoli hefur frá upphafi verið staðföst um að það hafi verið ákærði sem veittist að henni í umrætt sinn. Misræmi er í framburði hennar hvað varðar afleiðingar árásarinnar en það var fyrst við aðalmeðferð málsins sem hún bar um að hafa einnig hlotið áverka á öxl en sá framburður er í samræmi við framburð E fyrir dómi. Þá bar hún fyrst um það við aðalmeðferð málsins að hafa kastað upp eftir árásina en samkvæmt læknisvottorði lýsti hún þessu einnig við komu til læknis. Einnig komu þá fyrst fram hugleiðingar hennar um að vera kunni að hún hafi rotast við árásina, að dóttir hennar hafi ekki komið til hennar og kallað á hana heldur kunni að vera að hún hafi heyrt í henni í gegnum „barnapíu“ og nákvæmari lýsingar á ástandi ákærða, t.d. um að hann hafi verið með kæki. Þá bar hún um að hundur hennar hefði verið lokaður inni í þvottahúsi þegar atvik gerðust en það samrýmist ekki framburði vitnisins B sem bar um að hún hafi verið með hundinn úti. Hann sagði brotaþola þá hafa verið að ganga að skólaplássinu sem er í samræmi við þá leið sem brotaþoli sagðist hafa farið áður en hún hitti ákærða. Þá kvaðst B hafa skömmu síðar séð ákærða ganga framhjá heimili vitnisins og fimmtán til tuttugu mínútum seinna séð ákærða í vigtarskúrnum að vigta úr [...]. B taldi að öll þessi atvik líklega hafa gerst um sexleytið, en hvorki ákærði né brotaþoli báru um að hafa þá verið á ferðinni en ákærði taldi að hann hafi lagt af stað frá heimili sínu um tuttugu mínútum eftir að lögreglu barst tilkynning um árásina. Þá lýsti hann ferðum sínum í samræmi við það sem fram kom í skýrslu vitnisins B. Einnig liggur fyrir framburður vitnisins K um að hún hafi hvorki heyrt hund brotaþola gelta né heyrt til mannaferða þetta kvöld en það samrýmist ekki framburði brotaþola um að hundurinn hafi verið að gelta meðan hún var með barnið í baði. Með hliðsjón af því að framburður K var með þeim fyrirvara að hún heyrði alltaf hundinn gelta þegar hann væri úti og að samkvæmt framburði hennar væri það ekki óskeikult að hún heyrði alltaf til mannaferða telur dómurinn ekki að framburður hennar rýri sérstaklega trúverðugleika framburðar brotaþola. Þá var klæðnaður ákærða og sá hundur sem hann var með þegar lögregla hafði tal af honum í vigtarskúrnum eftir árásina í samræmi við lýsingar brotaþola. Telur dómurinn þó ekki að það styðji ekki sérstaklega framburð brotaþola um að ákærði hafi ráðist á hana þar sem stutt er á milli heimila þeirra. Loks reyndist ákærði vera ölvaður en brotaþoli lýsti því að hann hafi verið undir áhrifum.

Samkvæmt fyrirliggjandi vottorði og framburði sálfræðings greindist brotaþola með áfallastreituröskun eftir atvikið auk þess sem bakslag kom í bataferli hennar vegna veikina fyrir árásina. Er þetta í samræmi við lýsingu brotaþola á líðan sinni á þeim tíma. Þetta verður þó ekki, eins og atvikum er háttað, talið vera til sönnunar um sekt ákærða.

Ákærði hefur frá upphafi neitað sök og hefur framburður hans verið stöðugur. Ætla má að þau atvik sem á undan gerðust milli fjölskyldna ákærða og brotaþola hafi setið í ákærða en ekkert er þó fram komið sem bendir til þess að á þessum tímapunkti hafi ákærði haft sérstakt tilefni til að ganga lengra en áður í þeirra samskiptum og ráðast á brotaþola. Ljóst er að ákærði hafði svigrúm hvað varðar tíma og staðsetningu til að fremja það brot sem hann er ákærður fyrir en leiðin frá húsi ákærða í bakgarð brotaþola, og þar með að útidyrum húss brotaþola, er stutt og þar er göngufæri samkvæmt framburði brotaþola, framlögðum ljósmyndum og framburði vitnisins L rannsóknarlögreglumanns. Engin vitni eru hins vegar að því að ákærði hafi farið þessa leið. Þá er brotaþoli ein til frásagnar um að ákærði hafi verið á vettvangi brotsins þegar atvik gerðust og að ákærði hafi ráðist á hana. Sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik sem telja má honum í óhag hvílir á ákæruvaldinu og metur dómari hverju sinni hvort nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sé fram komin um hvert það atriði sem varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti, sbr. 108. og 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Framburður brotaþola hefur að sumu leyti verið óstöðugur, eins og að framan hefur verið rakið, og í ósamræmi við framburð vitnisins B um atvik áður en árásin átti sér stað. Gegn neitun ákærða verður sakfelling ekki á honum byggð. Með vísan til þess verður því ekki talið að fram sé komin lögfull sönnun þess að ákærði hafi veist að brotaþola, eins og í ákæru greinir. Verður ákærði því sýknaður.

Eftir úrslitum málsins, sbr. 2. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008, ber að fella allan sakarkostnað málsins, sem er samtals 1.041.392 krónur, á ríkissjóð. Til sakarkostnaðar teljast málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Jónasar Þórs Jónassonar hrl., sem eru hæfilega ákveðin 900.000 krónur vegna starfa hans bæði á rannsóknarstigi og fyrir dómi, og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts, útlagður kostnaður verjandans, 35.700 krónur, og annar sakarkostnaður samkvæmt framlögðu yfirliti ákæruvalds, samtals 105.692 krónur.

Af hálfu ákæruvalds flutti mál þetta Bryndís Ósk Jónsdóttir fulltrúi.

Dóm þennan kveður upp Sigríður Elsa Kjartansdóttir dómstjóri.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, X, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins.

Allur sakarkostnaður málsins, 1.041.392 krónur, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Jónasar Þórs Jónassonar hrl., 900.000 krónur, og útlagður kostnaður verjandans, 35.700 krónur.