Hæstiréttur íslands
Mál nr. 319/2007
Lykilorð
- Verksamningur
|
|
Fimmtudaginn 6. mars 2008. |
|
Nr. 319/2007. |
Hróðmar Dofri Hermannsson(Jónas Haraldsson hrl.) gegn Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar bs. (Árni Pálsson hrl.) |
Verksamningur.
Í málinu krafðist H þess að A yrði gert að greiða sér bætur ásamt ógreiddum verklaunum vegna vanefnda á verksamningi, sem hann taldi hafa tekist með þeim. Óumdeilt var í málinu að vilji hafi staðið til þess að hálfu beggja aðila að H tæki að sér umrætt verk fyrir A, en upplýsingar um samskipti þeirra, sem fyrir lágu í málinu, þóttu ekki renna nægum stoðum undir kröfugerð H. Hefði H því ekki lánast sönnun þess, gegn neitun A, að samningur hefði tekist og var A því sýknað af kröfu hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. júní 2007. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér aðallega 2.845.000 krónur, en til vara 2.243.815 krónur, með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 16. júní 2005 til 28. október sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Hróðmar Dofri Hermannsson, greiði stefnda, Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar bs., 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 13. mars 2007.
Mál þetta, sem dómtekið var þann 17. janúar 2007, hefur Hróðmar Dofri Hermannsson, [kt.], Logafold 19, 112 Reykjavík, höfðað með stefnu birtri 21. apríl 2006 á hendur Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar b.s. (AFE), [kt.], Borgum v/Norðurslóð, 600 Akureyri.
Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:
Aðallega að stefnda, Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar b.s., verði dæmt til að greiða stefnanda kr. 2.845.000 með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38, 2001, af kr. 2.610.000 frá 16. júní 2005 til 28. október s.á., en með dráttarvöxtum af kr. 2.845.000, skv. 9. gr. laga nr. 38, 2001 frá þ.d. til greiðsludags.
Til vara að stefnda verði dæmt til að greiða stefnanda kr. 2.243.815 með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38, 2001, af kr. 2.055.060 frá 16. júní 2005 til 28. október s.á., en með dráttarvöxtum af kr. 2.243.815 skv. 9. gr. laga nr. 38, 2001 frá þ.d. til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi að stefnda verði dæmt til að greiða málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, að teknu tilliti til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Dómkröfur stefnda eru, að félagið verði sýknað af öllum kröfum stefnanda og því dæmdur málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.
I.
Í máli þessu greinir aðila á um hvort komist hafi á verksamningur þeirra í milli árið 2005 á sviði ráðgjafar og verkefnastjórnunar við svonefndan Vaxtarsamning fyrir Eyjafjörð. Miðast kröfugerð stefnanda við að svo hafi verið og krefst hann annars vegar efndabóta og hins vegar ógreiddra verklauna vegna ólögmætra slita á verksamningi svo sem nánar verður lýst hér á eftir.
Er atvik gerðust, fyrrihluta árs 2005, var stefnandi meistaranemi í hagfræði við Viðskiptaháskólann á Bifröst. Stefnda, er félag, sem er byggðasamlag 11 sveitarfélaga, stofnað samkvæmt VII. kafla sveitarstjórnarlaga nr. 45, 1998, en tilgangur þess er m.a. að vera leiðandi afl í uppbyggingu atvinnu á Eyjafjarðarsvæðinu.
Samkvæmt gögnum gerði stefnda, sem verktaki, á árinu 2004 verksamning við stjórn Byggðaáætlunar fyrir Eyjafjörð um ,,framkvæmd Vaxtarsamnings fyrir Eyjafjörð“. Tekið er fram í samningnum að verkkaupi skipi 5 manna framkvæmdaráð er hafi eftirlit og yfirumsjón með verkinu, að verkkaupi greiði verktakanum, þ.e. stefnda, tímagjald kr. 3.500, en innifalið í samningsverðinu var eftirfarandi: ,,Kostnaður við vinnu starfsmanna verktaka, áhöld, vinnuaðstaða, tryggingar, flutninga o.s.frv. svo og öll þau lög- og samningsbundin gjöld sem leiða af því að hafa menn og tæki í vinnu og selja efni og vinnu, þ.m.t. virðisaukaskatt.“
Tekið er fram að verkefnisstjóri fyrir hönd stefnda við nefndan samning sé starfsmaður stefnda, Halldór Ragnar Gíslason.
Samkvæmt stefnu og framlögðum gögnum var stefnandi fyrri hluta árs 2005 í nokkrum samskiptum við starfsmann stefnda, nefndan Halldór Ragnar, vegna verkefnis er hann var þá að vinna að í meistaranámi sínu. Verður ráðið að vegna þessara samskipta hafi stefnandi orðið þess áskynja að til umræðu var að ráða sérfræðing til starfa hjá stefnda, til að hafa m.a. umsjón með áðurnefndum Vaxtarsamningi fyrir Eyjafjörð. Vegna áhuga á slíku starfi, menntunar og reynslu hafi hann ákveðið að setja sig í samband við framkvæmdastjóra og stjórnarformann stefnda, þá Magnús Þór Ásgeirsson og Val Knútsson og er þeir hafi lýsti yfir áhuga á því, að stefnandi kæmi til starfa hafi hann sent stefnda atvinnuumsókn, hinn 15. apríl 2005, þó svo að starfið hafi þá ekki verið auglýst með formlegum hætti. Í umsókninni hafi stefnandi sérstaklega óskað eftir því að allri meðferð yrði hraðað þar eð hann og kona hans þyrftu mjög fljótlega að taka ákvörðun um það hvort þau segðu upp störfum sínum. Liggur fyrir að þann 22. apríl s.á. flaug stefnandi til Akureyrar til fundar við nefnda stjórnendur stefnda. Í stefnu er staðhæft að einhugur hafi verið með aðilum um að þörf væri á að bæta við starfskrafti við Vaxtarsamning fyrir Eyjafjörð og að menntun og reynsla stefnanda myndu nýtast vel, en að sökum fjárskorts stefnda væri ekki unnt að ráða hann sem fastan starfsmann. Allar líkur væru hins vegar á því að hægt væri að gera við hann verkefnasamning, sem þýddi að stefnandi myndi sinna verkefnum fyrir félagið sem verktaki. Af hálfu stefnanda er staðhæft að á nefndum fundi hafi komið til umræðum verkgreiðslur og að honum hafi verið tjáð að hann gæti gengið út frá kr. 370.000 á mánuði auk greiðslu er næmi 30% af þeirri fjárhæð sem uppbót vegna launatengdra gjalda. Hafi stefnandi af því tilefni spurst fyrir um hvort störf hans yrðu undanþegin virðisaukaskatti og borið upp ósk um að svo yrði. Hafi stjórnarformaður stefnda, Valur Knútsson, boðist til að kanna þann þátt frekar. Hafi fundinum lokið á þá þeim nótum, en aðilar afráðið að vera í frekara sambandi eftir aðalfund stefnda þann 11. maí 2005.
Samkvæmt málatilbúnaði og gögnum stefnanda hóf hann á vormánuðum 2005 að gera ráðstafanir til að flytja fjölskyldu sína til Akureyrar, en fyrir liggur að hinn 3. maí keypt hann fasteign og var afhendingardagur hennar 1. ágúst 2005.
Ágreiningslaust er að eftir ofangreind samskipti áttu málsaðilar í töluverðum samskiptum, þ.á.m. á fundum, en einnig með raf- eða tölvupóstum, allt til 16. júní 2005. Verður þessara gagna getið samhliða þeirri málavaxtalýsingu sem hér verður rakin.
Í stefnu er atvikum lýst á þá leið að hinn 12. maí 2005, þ.e. daginn eftir aðalfund stefnda, hafi stefnandi og framkvæmdastjóra stefnda, Magnús Þór, átt í viðræðum um fyrirliggjandi verkefni stefnda. Staðhæfir stefnandi að þá hafi og verið afráðið að hann kæmi til starfa hjá stefnda. Vegna þessa hafi stefnandi strax óskað eftir því í tölvupósti þann 13. maí að hann fengi gögn um Vaxtasamning Eyjafjarðar og/eða samningsdrög milli hans og stefnda. Í svarbréfi Magnúsar Þórs þann sama dag hafi komið fram að ekki hafi unnist tími til að gera uppkast að verksamningi við stefnda, en með póstinum hafi hins vegar fylgt allmikið af gögnum, þ.á.m. drög að nefndum Verksamningi um framkvæmd Vaxtasamnings fyrir Eyjafjörð, með þeim skýringum að samningur stefnanda hlyti að taka mið af honum. Í tölvupósti stefnanda til framkvæmdastjóra stefnda 23. maí lýsir hann ráðstöfunum sínum vegna flutnings og greinir frá því þar sem að hann sé að verða búinn að ganga frá lausum endum sé honum ekkert að vanbúnaði að hefja starfið hjá stefnda af fullum krafti. Samhliða fer stefnandi í tölvupósti fram á að framkvæmdastjórinn og nefndur Halldór Ragnar, verkefnastjóri stefnda, verði duglegir að „dæla í mig efni og upplýsingum þar sem ég fæ ekki afhent húsnæði fyrir norðan fyrr en í sumar til að koma mér á sem fljótlegastan hátt inn í málin tel ég best að ég komi norður og hitti lykilaðila, svo sem ykkur Halldór og Val, klasastjórana, og helst einhverja úr stjórn Vaxtarsamningsins.“ Í tölvupósti framkvæmdastjóra stefnda síðar sama dag, segir af þessu tilefni m.a.:
„Gott mál. Sendi þér drög að samningi seinna í dag eða í fyrramálið. Já einmitt þú þarft að koma og hitta okkur í lok þessarar viku eða byrjun næstu til að koma þér vel inn í málin. Halldór fer í frí núna í byrjun júní og því er mikilvægt að nýta tímann með honum áður en hann fer. Það er allt hægt með fjarvinnslu í dag, sérstaklega ef þú verður búinn að hitta lykilaðila fyrst, en það má alveg gera ráð fyrir einhverjum þvælingi á fundum!“ Nefndan dag, 23. maí sendir framkvæmdastjórinn stefnanda ennfremur samningsdrög, sem nefnd eru „Verksamningur - um vinnu við Vaxtarsamning fyrir Eyjafjörð“, með þeim orðum að hann skyldi skoða þau. Í drögunum segir m.a. að verktaki sé stefnandi, en verkkaupi stefnda og að þeir geri með sér samning samkvæmt svofelldri verklýsingu: „Sérfræðiráðgjöf - og verkefnastjórn við framkvæmd Vaxtarsamnings við Eyjafjörð í tengslum við byggðaáætlun fyrir Eyjafjarðarsvæðið, samkvæmt ákvæðum Vaxtarsamnings og ákvæðum stjórnar samningsins“.
Í 4. gr. samningsdraganna er tekið fram að verkkaupinn, stefnda, skipi verkefnastjóra, er hafi eftirlit og yfirumsjón meðan á verkinu standi og að hann sé áðurnefndur Halldór Ragnar Gíslason. Í 5. gr. draganna segir: „Fyrir verkið greiðir verkkaupi verktaka fast gjald mánaðarlega sem nemur kr. 470.000, en fyrir óreglulegt vinnumagn umfram 180 tíma á mánuði greiðir verkkaupi kr. 4.500 tímagjald. Vinnumagn skal á hverjum tíma ákvarðast nánar af staðfestri starfsáætlun og getur verkefnisstjóri einn óskað eftir vinnuframlagi umfram það. Innifalið í samningsverðinu er: Kostnaður við vinnu verktaka, áhöld, vinnuaðstöðu, tryggingar, flutninga o.s.frv. svo og öll þau lög og samningsbundin gjöld sem leiða af því að hafa menn og tæki í vinnu og selja efni og vinnu, þ.m.t. virðisaukaskatt. Útlagður kostnaður svo sem ferðakostnaður er ekki innifalinn og skal verkefnisstjóri verkkaupa árita reikninga vegna ferðakostnaðar og risnu verktaka.
Í 8. gr. samningsdraganna segir að gildistími samnings sé frá undirritun og að hann gildi í 6 mánuði, en tekið er fram að verkkaupi geti óskað eftir framlengingu á gildistíma, með óbreyttum skilmálum, í einn mánuð í senn og að ákvörðun um framlengingu skuli gerð með eins mánaðar fyrirvara og að hún skuli miðast við mánaðamót.
Þá segir í 9. gr., að samningurinn sé uppsegjanlegur af beggja hálfu ef um verulegar vanefndir verði að ræða, en að uppsögn skuli vera skrifleg og miðast við mánaðamót og gerð með eins mánaðar fyrirvara.
Fyrir liggur að stefnandi og Magnús Þór framkvæmdastjóri stefnda áttu í kjölfar þess að stefnanda bárust ofanrakin samningsdrög í allnokkrum tölvupóstsamskiptum þann 23. maí. Lýsir stefnandi þeirri skoðun m.a. að hann sé í flestum atriðum ánægður með drögin, en vilji þó ræða nánar „hugsanlegar breytingar á greinum 8 og 9“, þannig að gildistími samningsins verði út árið 2007 og að hann sé uppsegjanlegur af beggja hálfu. Jafnframt leggur hann til að kveðið verði á um að fjárhæð í 5. gr. fylgi „almennri þróun á launamarkaði hvað hækkun/lækkun varði“. Í svarbréfi framkvæmdastjórans segir m.a. eftirfarandi: „...Praktísku málin þurfa jú að vera á hreinu. Það er allt til umræðu, en vegna eðli og stöðu verkefnisins verður þetta að hafa takmarkaðan gildistíma. Nú stendur jafnvel til að útvíkka Vaxtarsamninginn fyrir allt Norðurland og það kallar á breytingar. Við verðum því að geta endurmetið stöðuna eftir hálft ár. Hugsanlega getum við endurnýjað samninginn í lengri tíma þá, eða gert nýjan samning, en þú hefur 6 mánuði til að stimpla þig rækilega inn og gera þig ómissandi! Mig langar einnig til að nefna að þarna er gert ráð fyrir að verktaki reddi allri aðstöðu. Við verðum að gera þá kröfu að þú sért í sómasamlegri aðstöðu þar sem hægt er að ná í þig og skilja eftir skilaboð og þess háttar. Ef til þess kæmi að við myndum útvega pláss hér á Borgum, sem væri auðvitað best, þá kæmi það annað hvort til lækkunar á samningnum eða þá að þú fengir sérstakan reikning fyrir því. Upphæðin tekur mið af Vaxtarsamningi og verksamningi við AFE (stefnda). Þar er skilgreint hvaða greiðslur verði miðað við og því verður ekki breytt nema með breytingum á þeim samningum, en við getum að sjálfsögðu sett einhverja varnagla þarna inn t.d. eitthvað öryggisbil ef efnahagsmálin hér fara nú í einhverja vitleysu. Skoðum þetta áfram.“ Í svarpósti stefnanda er áréttað að hann sé ekki hrifinn af 6 mánaða gildistíma samningsins. Vísar stefnandi til þess að hann hafi skilið formann stjórnar stefnda, Val Knútsson, svo er hann hafi talað um tímabundna ráðningu í stað fastráðningar sem launamanns, að hann ætti þá við út þann tíma sem Vaxtarsamningurinn næði til og hafi hann gengið út frá því. Vísar stefnandi til þess að þetta atriði skipti miklu máli vegna eðlis verkefnisins, en einnig með hliðsjón af högum hans og fjölskyldunnar. Leggur stefnandi til að aðilar hugleiði þennan þátt frekar, en í lokaorðum sínum leggur hann til að stefndi leggi til síma, tölvutengingu, skrifborð og stól, með vísan til þess að það gæti vart verið mikill kostnaðarauki. Framkvæmdarstjóri stefnda svarar stefnanda með tölvupósti 25. maí 2005 á eftirfarandi hátt: „Mér þykir leitt með þennan misskilning, en Valur átti við tímabundið verkefni. Það er ekki hægt að leysa þetta með ákvæðum um fjármögnun verkefnisins á þessu stigi, málið er ekki svona einfalt. AFE á ekki að fá neitt fjármagn inn til sín til þessa verkefnis og bakhjarlar félagsins hafa ekki viljað auka við framlögin til að mæta kostnaði. Þannig að eins og staðan er í dag þá höfum við ekki budget til að skuldbinda félagið meira. Hins vegar hefur Vaxtarsamningurinn rúman fjárhag. Þegar þú ert kominn af stað á þessum forsendum (og orðinn ómissandi) þá væri rétt að semja beint við stjórn Vaxtarsamningsins um áframhaldandi vinnu. Það gæti hæglega orðið lengri samningur. Varðandi aðstöðu þá er laust pláss hér í húsinu á sama stað og klasastjórarnir starfa. Við skulum bara skoða það í rólegheitum hvaða raunkostnaður er á slíkri starfsstöð og hvernig við gerum það upp miðað við verksamning, hvort við breytum honum með tilliti til aðstöðu eða hvort Dofri ráðgjöf ehf. fær reikning á móti þessu“. Í áframhaldandi tölvusamskiptum aðila þennan dag kemur það m.a. fram hjá stefnanda að ef fjármunir stefnda leyfa ekki lengri samningstíma en fram komi í samningsdrögunum þá verði hann að sætta sig við það. Stefnandi leggur þó til að nefnt atriði verði rætt frekar á næsta fundi þeirra og síðar við stjórn Vaxtarsamningsins með óformlegum hætti þannig að hann þurfi ekki að eiga það á hættu að þurfa að fara að leita sér að nýrri vinnu í desember. Í svarbréfi framkvæmdastjóra stefnda vísaði hann til menntunar og bakgrunns stefnanda og að hann ætti af þeim sökum góða möguleika á öðru starfi með hinum umrædda verkefni. Þá vísar framkvæmdastjórinn til þess að almennt sé lítið starfsöryggi í þessum geira atvinnulífsins, en hvetur stefnanda til að „stökkva á þetta“, þar eð þeir hafi 6 mánuði til að finna nýjan flöt og margt ætti eftir að skýrast á þeim tíma. Að lokum leggur hann það til að þeir tveir hittist á fundi 27. maí, þ.e. fyrir stjórnarfund í Atvinnuþróunarfélaginu, sem halda ætti 30. s.m. Gekk það eftir.
Í stefnu er atvikum hinn 27. maí 2005, að loknum fundi í stjórn stefnda, lýst á þann veg að þá hafi verið ákveðið að hann hæfi formlega störf hjá stefnda 1. júní 2005, „þó svo að hann væri samt þegar byrjaður að beiðni framkvæmdastjóra stefnda, þar sem Halldór Ragnar Gíslason, verkefnastjóri stefnda hafi verið á leið í frí í byrjun júní“, sbr. áðurrakin tölvupóst framkvæmdastjóra stefnda frá 23. maí. Hafi verkefni stefnanda verið á sviði greiningarvinnu og að hanna kvarða til að mæla árangur af Vaxtarsamningi fyrir Eyjafjörð. Er til þess vísað í stefnu að stefnandi hafi á þessum tíma átt í viðræðum við starfsmann Byggðastofnunar um verkið, en í framhaldi af þessum samskiptum hafi hann unnið að verkefninu í um hálfan mánuð með vitneskju og samþykki framkvæmdastjóra stefnda.
Samkvæmt framlögðum gögnum var 71. stjórnarfundur stefnda, Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, haldinn mánudaginn 30. maí að Borgum við Norðurslóð. Sat fundinn m.a. stjórnarformaðurinn Valur Knútsson ásamt öðrum í stjórninni, en auk þess sátu hann starfsmenn félagsins þeir Magnús Þór Ásgeirsson, framkvæmdastjóri, og Halldór Ragnar Gíslason, verkefnastjóri. Í 4. lið fundargerðar sem ber heitið ráðning ráðgjafa vegna Vaxtarsamnings er eftirfarandi skráð: „Formaður og framkvæmdastjóri fjölluðu um mögulega ráðningu á ráðgjafa til að sinna störfum er snúa að Vaxtarsamningi Eyjafjarðar skv. ósk frá framkvæmdaráði Vaxtarsamnings Eyjafjarðar. Umræður. Formanni og framkvæmdastjóra veitt umboð til að ganga til samninga við umsækjenda með fyrirvara um endanlegt samþykki stjórnar.“
Samkvæmt tölvupósti Magnúsar Þórs framkvæmdastjóra stefnda hinn 31. maí 2005 kynnti hann stefnanda efni ofannefnds stjórnarfundar með eftirfarandi hætti: „Drög að samningi við þig voru tekin fyrir á stjórnarfundi í gær og höfðu stjórnarmenn nokkrar athugasemdir við samninginn, sérstaklega varðandi afar takmarkaða verklýsingu og greiðslur, en þær miða sem fyrr segir við að ráðgjafi leggi til aðstöðu. Þótti mönnum eðlilegt að ef við útvegum aðstöðu þá ættu greiðslurnar að taka mið af því. Fyrir fundinn barst hins vegar svar frá Háskólanum þar sem fram kom að skrifstofuaðstaðan sem við skoðuðum í húsinu leggst á litlar 70.000 krónur. Það er auðvitað ótækt alveg sama hver myndi enda á að greiða það. Mér og Vali falið að funda með Þorsteini út af þessum málum og fá botn í þetta áður en við förum í að ganga frá samkomulagi. Þá fannst stjórnarmönnum eðlilegt að fá skýrari línur frá framkvæmdaráði Vaxtarsamningsins um hvað á að gera. Þannig að við þurfum að ganga frá nokkrum málum áður en hægt verður að ganga frá samningi, en við skulum miða við, ef allt gengur eftir, að þú gætir byrjað verkið um miðjan mánuðinn.“
Stefnandi svaraði framkvæmdastjóranum saman dag með svohljóðandi tölvupósti:
„Ég er nú þegar byrjaður og er að vinna í greiningarvinnu og hönnun mælitækja. Þau mál hafa ekkert þokast áfram hjá Byggðastofnun en ég hef verið í sambandi við Guðmund hjá Byggðastofnun og við ætlum að vera komnir með nokkuð skýrar línur varðandi þetta efni fyrir vikulokin. Guðmundur talaði um að þeir vildu líklega frekar borga fyrir þessa vinnu en að vinna hana sjálfir svo ef ég vinn vinnuna sem starfsmaður/ráðgjafi AFE getið þið rukkað Byggðastofnun fyrir þá vinnu.“ Þá lét stefnandi eftirfarandi afstöðu í ljós varðandi greiðslur í nefndum tölvupósti: „Þegar launamálin voru rædd fyrst var miðað við að ég hefði um 370.000 í laun miðað við launþegakjör (160 vinnustundir í mánuði) en þar sem um verktöku er að ræða leggjast launatengd gjöld ofan á þá upphæð, u.þ.b. 30%. Það gera 481.000 krónur og því finnst mér vera farið að saxast á launin mín þegar þau eru 470.000 fyrir útselda vinnu í 180 tíma á mánuði og AÐ AUKI á ég að greiða fyrir skrifborðsaðstöðu. Það gengur ekki upp. - Þetta þýðir hreinlega að ég er kominn töluvert niður fyrir 300.000 krónur í heildarlaun fyrir rúmlega 112% vinnu. Ég mæli með að við höldum okkur við 470.000 á mánuði og þið/Vaxtarsamningurinn útvegið skrifborðið og símann. Ég bendi enn á möguleikann á að ég sæki um FS styrk fyrir mastersverkefni mitt og að skrifborðsaðstaða að verðmæti 500.000 verði ykkar framlag, nokkuð sem þið getið síðan samið betur um við Þorstein. Ég bið um að þetta verði leyst sem fyrst.“
Í nefndu tölvubréfi frá 31. maí áréttar stefnandi að hann sé fullur áhuga fyrir starfinu hjá stefnda og skýrir frá því að hann sé þegar byrjaður á því sem honum hafi fundist mest hafa dregist, þ.e. að hanna þá kvarða sem starfið verði metið eftir, en um það atriði segir hann orðrétt: „Við erum á mörgum sviðum að missa af núllpunktinum til mælinga og ef vel á að vera verða ýmsar eigindlegar mælingar að fara fram eins fljótt og hægt er, helst strax í sumar. Ég er tilbúinn (og reyndar byrjaður) að undirbúa þessa vinnu en ég er ekki til í að gera þetta á þessum kjörum.“
Í stefnu er staðhæft að í kjölfar síðast rakinna tölvupóstsamskipta hafi stefnandi innt framkvæmdastjóra stefnda beinlínis eftir því hvort hann vildi að hann hætti umræddri greiningarvinnu fram til 15. júní 2005, en fengið þau skilaboð að hann skyldi halda því starfi áfram. Þá hafi orðið að samkomulagi með þeim að stefnandi kláraði tillögur sínar að árangursmælingum og að hann myndi síðan kynna þær á fundi framkvæmdaráðs Vaxtarsamnings Eyjafjarðar hinn 14. júní 2005. Í stefnu er staðhæft að framkvæmdastjórinn hafi engin orð eða athugasemdir haft ,,við tillögur stefnanda um launakjör“ sem fram hafi komið í áðurröktum tölvupósti frá 31. maí. Hafi stefnandi því ætlað að þær stæðu, enda hafi þær verið í samræmi við upphaflegt samkomulag aðila. Þessu til staðfestu vísar stefnandi til tölvusamskipta aðila þann 2. júní 2005, en þá hafi hann óskað eftir gögnum sem hann hafi talið sig þurfa við greiningarvinnu sína og hafi framkvæmdastjórinn bent honum á hvert skyldi leita, en engum athugasemdum hreyft við verki hans. Að auki vísar stefnandi til tölvupósts framkvæmdastjóra stefnda til stefnanda hinn 7. júní 2005 þar sem greint sé frá fundi hans og stjórnarformanns stefnda með framkvæmdaráði Vaxtarsamnings Eyjafjarðar, og þar hafi farið fram góð umræða um stöðu mála og verkefnastöðu, en að auki segi þar orðrétt: „Ég á að halda þér volgum! Líklegt að lending náist um miðjan mánuðinn. Meðfylgjandi eru punktar frá Bjarna varðandi greiningu. Kannski er þetta gagnlegt. Ég ætla að heyra af þessu í Guðmundi hjá Byggðastofnun á morgun varðandi greiningavinnuna og hvar best væri að staðsetja það verkefni.“
Óumdeilt er að nefndir aðilar áttu nokkur samtöl eftir þetta, en einnig hittust þeir á fundi í Reykjavík þann 13. júní 2005.
Samkvæmt framlögðum gögnum var 15. fundur framkvæmdaráðs Vaxtarsamnings Eyjafjarðar haldinn að Borgum, húsi Háskólans á Akureyri þann 14. júní 2005. Á fundinn mættu m.a. stjórnarmenn Vaxtarsamningsins, þeir Þorsteinn Gunnarsson háskólarektor, Benedikt Sigurðarson formaður stjórnar KEA, Guðmundur Guðmundsson frá Byggðastofnun og Sigríður Stefánsdóttir, sem mætt var fyrir hönd Akureyrarbæjar. Í endurriti af fundargerð, sem áðurnefndur Halldór Ragnar Gíslason, verkefnastjóri stefnda ritar kemur m.a. fram stefnandi hafi komið á fundinn kl. 10:15. Er tekið fram að hann sé væntanlegur starfsmaður við Vaxtarsamninginn. Undir 6. lið í fundargerðinni er skráð að svonefndir klasastjórar hafi komið á fundinn og að þá hafi stefnandi verið kynntur með þeim hætti að fyrir dyrum stæði að ráða hann til Vaxtarsamnings fyrir Eyjafjarðar. Er ritað að hann hafi verið boðinn velkominn.
Í stefnu er til þess vísað af hálfu stefnanda að framkvæmdastjóri stefnda, Magnús Þór hafi ekki haft uppi athugasemdir við ofangreinda kynningu eða kveðjur gagnvart stefnanda. Þá er þess getið að af afloknum fundi framkvæmdaráðsins hafi stefnandi kynnt hugmyndir sínar um árangursmælingar fyrir Halldóri Ragnari verkefnisstjóra og Guðmundi Guðmundssyni starfsmanni Byggðastofnunar, en í framhaldi af því hafi hann sest niður með Magnúsi Þór, framkvæmdastjóra stefnda með það fyrir augum að ganga með formlegum hætti frá verksamningi aðila. Er í stefnu staðhæft að þeir hafi þá verið orðnir ásáttir um að stefnandi greiddi mánaðarlegan skrifstofukostnað kr. 35.000, en er stefnandi hafi spurst fyrir um hvort vinna hans væri ekki örugglega undanþegin greiðslu virðisaukaskatts, líkt og ráð hefði verið gert í upphaflegum samningsdrögum hafi missætti þeirra í milli komið fram. Hafi framkvæmdastjórinn tjáð honum að virðisaukaskatturinn væri innifalinn í samningsverðinu. Hafi stefnandi lýst yfir óánægju sinni, enda væri með þessu búið að saxa verulega á það sem upphaflega hafi verið samið um og hafi framkvæmdastjórinn viðurkennt það. Hafi stefnandi tjáð framkvæmdastjóranum að ef niðurstaðan yrði þessi væri fjárhagslegur grundvöllur fyrir flutningi hans norður brostinn, enda hafi hann algjörlega treyst því að upphaflegt samkomulag þeirra stæði. Hafi stefnandi beðið framkvæmdastjórann að finna lausn á málinu og hafi hann ætlað að gera það með því að hafa samband við stjórnarformann stefnda og fleiri aðila, en ræða síðan við stefnanda á ný, í síðasta lagi næsta dag. Hafi fundi þeirra lokið með þessu hætti, en er ekkert hafði heyrst frá framkvæmdastjóranum fyrrihluta næsta dags, hafi stefnandi sent stjórnarformanni stefnda og öðrum stjórnarmönnum Vaxtarsamningsins tölvupóst kl. 15:07 með svofelldum upphafsorðum:
,,Ég sé mig knúinn til að setja ykkur úrslitakosti varðandi ráðningu mína að störfum við Vaxtarsamning Eyjafjarðar (VE). Eftir að hafa verið í viðræðum við ykkur um þetta mál í um tvo mánuð finnst mér með ólíkindum að það sé komið í strand út af þessu atriði (að vsk. skuli vera innifalinn í greiðslu til mín fyrir útselda vinnu).“
Í nefndu bréfi áréttaði stefnandi að hann hafi haft áhuga að starfa að málum VE, en jafnframt haft áhyggjur af seinagangi við að ganga formlega frá samningi þar um. Hafi hann hugleitt hvort þessi tregða ætti jafnvel við um annað í starfsemi stefnda. Stefnandi lætur þá skoðun í ljós að þegar hafi verið búið að ná samkomulagi um alla þætti er snéru að starfi hans hjá stefnda, að því er hann hafi talið, enda hafi framkvæmdastjóri stefnda ekki gefið honum tilefni til að halda annað. Stefnandi greinir frá því að verði ekki staðið við það sem upphaflega hafi verið samið um verði hann að endurskoða ákvörðun sína um að koma til starfa hjá stefnda.
Í stefnu vísar stefnandi til þess að í stað þess að kanna ágreining aðila til þrautar eins og framkvæmdastjóri stefnda hafi lofað að gera hafi hann með tölvupósti þann 16. júní 2005 slitið samningum við stefnanda með þeim orðum að umræddur tölvupóstur frá því deginum áður sýndi að hann væri ekki rétti maðurinn í verkefnið. Hafi stefnanda verið þakkaður áhuginn og óskað góðs gengis.
Stefnandi hafi í framhaldi af slitunum kynnt stjórnarmönnum í Vaxtarsamningi Eyjafjarðar viðbrögð framkvæmdastjórans, en jafnframt lýst því yfir að hann teldi hæpið að stefnda væri heimilt að rifta samkomulagi aðila eftir að búið væri að gera við hann munnlegt samkomulag og því talið að forsendur riftunarinnar væru í meira lagi hæpnar. Og þegar ljóst hafi verið að stefndi hygðist ekki standa við samkomulag aðila hafi hann leitað sér aðstoðar, en með bréfi lögmanns hans 25. ágúst 2005 til bæjarlögmanns Akureyrarbæjar hafi verði gerð krafa um greiðslu skaðabóta vegna ólögmætrar riftunar á verksamningi aðila, en sama bréf hafi verið sent stefnda 28. september sama ár. Með svarbréfi framkvæmdastjóra stefnda 12. október 2005 hafi bótakröfu verið hafnað, en af þeim sökum hafi stefnanda verið nauðugur sá kostur að höfða mál þetta.
II.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi byggir á því að komist hafi á bindandi samningur um vinnu hans sem ráðgjafi að atvinnuþróunarmálum á Eyjafjarðarsvæðinu hjá stefnda. Búið hafi verið að ná samkomulagi í öllum megin atriðum varðandi starf hans og hafi fyrirvaralaus riftun framkvæmdastjóra stefnda á verksamningi aðila þann 16. júní 2005 því verið með öllu ólögmæt. Beri stefnda vegna ólögmætra samningsslita að greiða stefnanda efndabætur, enda beri hann ábyrgð á hinni ólögmætu ákvörðun framkvæmdastjórans.
Auk kröfu um efndabætur byggir stefnandi á því að hann eigi rétt til þess að stefnda greiði honum verklaun vegna vinnu frá lokum maí til 14. júní 2005, en stefnda hafi af einhverjum ástæðum ekki greitt honum eina einustu krónu fyrir það starf.
Um rök fyrir kröfum sínum vísar stefnandi til áður rakinna málavaxta og bendir á að viðbrögð framkvæmdastjóra stefnda við þeirri stöðu sem upp hafi komið á fundi aðila þann 14. júní 2005, þ.e. hvort virðisaukaskattur skyldi vera innifalinn í verkgreiðslum eða ekki, hafi í meira lagi verið einkennileg. Vísar stefnandi til þess að í stað þess að kanna það hvort hægt væri að bæta virðisaukaskatti ofan á verklaunin eða hvort unnt væri að ná samkomulagi um að virðisaukaskatturinn eða hluti hans væri innifalinn í umsömdum verklaunum hafi framkvæmdastjórinn ákveðið upp á sitt eindæmi og án fyrirvara að rifta samningssambandi aðila. Er þetta hafi gerst hafi stefnandi þegar verið búinn að inna af hendi fyrir stefnda ríflega hálfsmánaðar vinnu, áður greinda greiningarvinnu, sem hann hafi kynnt á fundi með starfsmönnum stefnda þann 14. júní 2005. Greiningarvinnan hafi verið unnin með samþykki og fullri vitund framkvæmdastjóra stefnda o.fl., enda hafi hún einkum byggst á upplýsingum og gögnum sem framkvæmdastjóri stefnda og aðrir starfsmenn félagsins hafi látið honum í té. Í ljósi þessa sé vandséð hvernig stefnda geti haldið því fram að ekkert samningssamband hafi stofnast milli aðila. Hljóti að blasa við að ekki sé hægt að ráða mann í vinnu og láta viðkomandi vinna fyrir sig í hálfan mánuð, en lýsa því þá yfir að ekkert samningssamband hafi stofnast milli aðila. Sú niðurstaða fái ekki staðist án þess að nokkuð meira komi til. Að mati stefnanda verði í þessu sambandi einnig að líta til þess að allt háttalag stefnda, einkum framkvæmdastjóra og stjórnarmanna hafi staðfest það fyrir stefnanda að samningssamband hafi stofnast. Þannig hafi framkvæmdastjóra stefnda o.fl., til að mynda verið fullkunnugt um að stefnandi og kona hans hefðu sagt upp störfum sínum í Reykjavík og keypt fasteign á Akureyri vegna fyrirhugaðs flutnings, vegna starfa stefnanda hjá stefnda. Þá hafi framkvæmdastjórinn engum andmælum hreyft eða gert athugasemdir við nefndar ráðstafanir, er bendi ekki til annars en að hann hafi litið svo á að samningssamband hafi stofnast milli aðila. Að auki hafi fjölskylda stefnanda gert ýmsar aðrar ráðstafanir vegna flutnings þeirra norður, t.d. sagt upp almennri skólavist úr tónlistarskóla barnanna og kona stefnanda ráðið sig í 50% starf hjá Tónlistarskólanum á Akureyri.
Stefnandi byggir á því að það sem staðfesti ekki hvað síst, að samningur hafi komist á, á milli málsaðila, sé það að hann hafi ítrekað verið boðinn velkominn til starfa af stjórnarmönnum stefnda, þ.á.m. á fundi framkvæmdaráðs Vaxtarsamningsins þann 14. júní 2005, án andmæla frá framkvæmdastjóra stefnda, sbr. að því leyti viðbrögð eins framkvæmdaráðsmanna, Benedikts Sigurðarsonar í tölvupósti 16. júní 2005.
Telur stefnandi að með vísan til alls ofangreinds sé fullljóst að fullgilt samningssamband hafi komist á milli stefnanda og stefnda. Skipti í því sambandi engu máli þó svo að aðilar hafi ekki verið búnir að ganga frá endanlegu samkomulagi með skriflegum hætti. Riftun framkvæmdastjóra stefnda á verksamningi aðila hafi verið ólögmæt, enda verði hún hvorki réttlætt með vísan til samnings aðila né almennra reglna kröfu-, samninga- eða verktakaréttar. Beri stefnda því að bæta stefnanda tjón hans og gera upp við hann ógreidd verklaun.
Stefnandi rökstyður aðalkröfu sína á þann veg, að samkvæmt 1. mgr. 5. gr. í drögum að verksamningi aðila hafi stefnandi átt að fá fasta mánaðarlega greiðslu, kr. 470.000. Í 2. mgr. 5. gr. samningsins sé að finna upptalningu á því sem innifalið sé í samningsverðinu, en þar hafi virðisaukaskattur af vinnu stefnanda ekki verið tilgreindur. Hafi það atriði fyrst komið upp á borðið er stefnandi og framkvæmdastjóri stefnda hugðust ganga frá verksamningi með formlegum hætti, að loknum fundi framkvæmdaráðs stefnda þann 14. júní 2005. Þessi afstaða hafi komið stefnanda í opna skjöldu enda hafi hann tekið ákvörðun og gert ráðstafanir til að taka að sér verkið í trausti upphaflegs samkomulags. Þá hafi framkvæmdastjóri stefnda gengið á bak orða sinna um að gera allt sem í hans valdi stæði til að finna lausn á málinu, en í þess stað rift samningi aðila með tölvupósti þann 16. júní 2005.
Telur stefnandi með vísan til ótvíræðs orðalags skriflegra samningsdraga og með hliðsjón af réttmætum væntingum stefnanda, verði að miða við að virðisaukaskattur hafi ekki verið innifalinn í samningsverðinu. Auk þess verði að líta til þess að stefndi hafi verið ráðandi aðili við samningsgerðina við stefnanda. Verði stefndi því að bera hallann af því að umrætt ákvæði varðandi virðisaukaskatt reyndist ekki þegar á reyndi, vera eins skýrt og nauðsynlegt var. Í því sambandi verði einnig að horfa til þess að stefnda hafi ekki mótmælt túlkun stefnanda á samningsdrögunum, sem fram koma í tölvupósti stefnanda 31. maí 2005, um að virðisaukaskatturinn næði einvörðungu til aðkeyptrar vinnu og efniskaupa.
Auk kröfu um greiðslu skaðabóta vegna ólögmætrar riftunar á verksamningi krefst stefnandi þess að fá greitt fyrir þá vinnu, sem hann sannanlega innti af hendi á ríflega hálfsmánaðar tímabili frá lokum maí til 14. júní 2005. Sé gerð krafa, vegna þessa þáttar aðalkröfu, er nemi helmingi af umsömdum verklaunum pr. mánuð, eða kr. 235.000 (470.000/2), en stefnandi hafi ekki fengið krónu greidda fyrir þessa vinnu.
Samkvæmt ofangreindu byggir stefnandi á því að aðalkrafa hans sé kr. 2.845.000 [470.000 - 35.000 = 435.000 * 6 + 235.000 = 2.845.000], en þá hafi verið tekið tillit til kr. 35.000 frádráttar pr. mánuð, er hafi verið kostnaður (skrifstofukostnaður) stefnanda við að efna samninginn.
Og þar sem stefnandi hafi starfað sem verktaki hjá stefnda, þurfi hann ekki samkvæmt því sem að ofan greinir, að sæta lækkun á bótakröfu sinni vegna ólögmætrar riftunar stefnda á verksamningnum. Sé sú niðurstaða í samræmi við dómaframkvæmd.
Varakrafa.
Verði ekki fallist á aðalkröfu og miðað við að virðisaukaskattur hafi verið innifalinn í samningsverðinu, hefur stefnandi uppi þá varakröfu að stefndi verði dæmdur til að greiða honum kr. 2.243.815, sem samanstandi af samningsverðinu kr. 377.510 í sex mánuði, að teknu tilliti til virðisaukaskatts [470.000 / 1.245 = 377.510] og frádráttar vegna kostnaðar stefnda við að efna samninginn í umsamda sex mánuði kr. 210.000/ [35.000 * 6]. Ofan á þá fjárhæð bætist greiðsla fyrir þá vinnu, sem stefnandi innti af hendi á ríflega hálfsmánaðar tímabili frá lokum maí - 14. júní 2005, að teknu tilliti til þess að virðisaukaskattur sé innifalinn í samningsverðinu, samtals kr. 188.755 [470.000 / 2 / 1.245 = 188.755].
Þar sem stefnandi hafi starfað sem verktaki hjá stefnda þurfi hann ekki að sæta lækkun á bótakröfu sinni vegna ólögmætrar riftunar stefnda á verksamningnum. Sé sú niðurstaða í samræmi við dómaframkvæmd.
Kröfur um greiðslu ógreiddra verklauna byggir stefnandi á verksamningi aðila, megin reglum samninga- og kröfuréttar um greiðslu fjárskuldbindinga og reglum verktakaréttar um greiðslur verklauna. Kröfur um efndabætur byggir stefnandi á reglum kröfu-, samninga- verktaka- og skaðabótaréttarins um skaðabætur innan samninga, vegna ólögmætra slita stefnda á verksamningi aðila en einnig megin reglum kröfu- og samningaréttar um skuldbindingargildi samninga og efndir fjárskuldbindinga. Þá byggir stefnandi á megin reglu kröfu- og samningaréttar o.fl. um að tímabundnum samningi verði ekki sagt upp nema samkvæmt sérstakri og skýrri heimild í samningi aðila.
Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á III. og IV. kafla laga nr. 38, 2001 um vexti og verðbætur. Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á lögum um meðferð einkamála nr. 91, 1991, einkum 1. mgr. 130. gr. laganna. Kröfu um virðisaukaskatt á málskostnað byggir hann á lögum nr. 50, 1980 um virðisaukaskatt.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefnandi byggir á því að stefnandi og framkvæmdastjóri stefnda hafi átt í viðræðum frá apríl til júní 2005. Tilefnið hafi verið gagnkvæmur áhugi á að stefnandi starfaði við Vaxtasamning Eyjafjarðar. Um þessi samskipti vísar stefndi m.a. til áður rakinna tölvubréfa og byggir á því að ekki verði dregin önnur ályktun af þeim gögnum en að upp úr samningaviðræðunum hafi slitnað og því hafi aldrei komist á sá verksamningur sem stefnandi haldi fram. Kröfur stefnanda í málinu séu á því byggðar að stefndi hafi rift samningi, sem hann telji að hafi verið kominn á. Verði af málatilbúnaði stefnanda ráðið að kominn hafi verið á milli aðila munnlegur samningur, enda liggi enginn skriflegur samningur fyrir í málinu.
Stefnda byggir á því að í áður röktum tölvupóstsamskiptum megi sjá að til hafi staðið að gera verksamning við stefnanda um að hann tæki að sér ráðgjöf varðandi Vaxtasamning Eyjafjarðar. Þannig hafi í tölvubréfi frá 30. maí 2005 verið gert ráð fyrir að stefnandi gæti hafið störf um miðjan júní. Í bréfinu kom hins vegar einnig fram að aðilar eigi eftir að ganga endanlega frá verksamningnum.
Stefnda byggir á því að til hafi staðið að undirrita verksamning 14. júní, en af því hafi ekki orðið sökum þess að stefnandi hafi hafnað þeim kjörum sem honum hafi verið boðin, sbr. tölvubréf stefnanda frá 15. júní. Telur stefndi að í þessu sambandi verði að hafa í huga að stjórn stefnda hafi á fundi sínum 30. maí 2005 samþykkt að gengið yrði til samninga við stefnanda og hafi framkvæmdastjóra og stjórnarformanni stefnda verið falin framkvæmdin með fyrirvara um samþykki stjórnarinnar. Stefnanda hafi verið kunnugt um að það þyrfti samþykki stjórnar stefnda fyrir þeim samningi er til hafi staðið að gera við hann. Slíkt samþykki hafi ekki legið fyrir og þegar af þeirri ástæðu hafi aldrei komist á bindandi samningur á milli aðila. Stefndi vísar til þess að í bréfi framkvæmdastjóra stefnda frá 12. október 2005, er hafi verið svar við bréfi lögmanns stefnanda frá 28. september 2005, hafi hann alfarið andmælt því að hann hafi gert munnlegan verksamning við stefnanda.
Stefnda vísar til þess, að það atriði sem einkum hafi orðið til þess að aðilar náðu ekki saman hafi verið það að stefnandi hafi talið að stefnda bæri að greiða virðisaukaskatt ofan á þá fjárhæð sem tiltekin var í drögum að verksamningi um vinnu við Vaxtasamning fyrir Eyjafjörð. Komi þessi afstaða stefnanda mjög skýrt fram í tölvubréfinu sem sent hafi verið framkvæmdastjóra stefnda 15. júní 2005. Raunar telji stefnda að tölvubréfið sýni ótvírætt að ekki hafi verið kominn á bindandi samningur milli aðila þar sem þar komi fram að ekki hafi verið búið að semja um greiðslur fyrir verkið. Megi því velta fyrir sér um hvað hafi verið búið að semja, en ágreiningur um greiðslu fyrir virðisaukaskatt virðist að einhverju leyti stafa af misskilningi. Um nefnt atriði vísar stefnda til þess að þann 13. maí 2005 hafi framkvæmdastjóri stefnda sent stefnanda drög að verksamningi, um framkvæmd Vaxtasamnings fyrir Eyjafjörð, en í öðru tölvubréfi þann sama dag hafi framkvæmdastjórinn ennfremur upplýst að hann hafi ekki komist til þess að gera uppkast að eiginlegum samningi milli málsaðila, en nefni að væntanlegur verksamningur við stefnanda hlyti að taka mið af drögunum. Vísar stefndi og til þess að í drögum þessum sé m.a. kveðið á um, í 5. gr., að innifalið í samningsverði sé allur kostnaður, þ.m.t. virðisaukaskattur.
Stefnda byggir á því að þann 23. maí 2005 hafi framkvæmdastjóri stefnda sent stefnanda drög að verksamningi - um vinnu við Vaxtasamning fyrir Eyjafjörð, en í 1. mgr. 5. gr. þess samnings segi að fyrir vinnu verktaka greiði stefndi kr. 470.000 á mánuði fyrir allt að 180 tíma. Þá segi í 2. mgr. 5. gr. að innifalið í fjárhæðinni sé kostnaður við vinnu verktaka, áhöld, vinnuaðstöðu, tryggingar, flutninga svo og öll þau lög og samningsbundin gjöld sem leiði af því að hafa menn og tæki í vinnu, þ.m.t. virðisaukaskattur. Telur stefnda að frá 23. maí 2005 hafi legið ljóst fyrir að virðisaukaskattur hafi verið innifalinn í nefndri fjárhæð, en engar athugasemdir hafi komið fram frá stefnanda fyrr en 14. júní, er að hann hafi slitið viðræðum við stefnda um verkið, sbr. margrakið tölvubréf hans frá 15. júní 2005.
Stefnda vísar máli sínu til stuðnings í tölvubréf stefnanda frá 31. maí 2005, þar sem m.a. komi fram, að hann sé ekki tilbúinn að starfa á þeim kjörum sem tiltekin hafi verið í áður nefndum drögum að verksamningi. Jafnframt vísar stefnda til þess að nefndan dag, 31. maí, hafi framkvæmdastjóri stefnda sent stefnanda tölvubréf þar sem hann hafi upplýst stefnanda um að á stjórnarfundi stefnda, sem haldinn hafi verið daginn áður, hafi komið fram athugasemdir við samningsdrögin, en í niðurlagi bréfsins segi: „Við þurfum að ganga frá nokkrum málum áður en hægt verður að ganga frá samningi, en við skulum miða við, ef allt gengur eftir að þú getir byrjað verkið um miðjan mánuðinn.“ Telur stefndi að af þessu megi vera ljóst að þann 30. maí hafi ekki verið búið að ganga frá samningi á milli aðila.
Stefnda áréttar að auk framangreindra athugasemda stefnanda við samningsdrögin hafi hann einnig haft uppi athugasemdir við að greiðsla til hans væri miðuð við 180 vinnustundir á mánuði og hann þurfi að greiða fyrir skrifstofuaðstöðu, en allt að einu sé sá kostnaður í málatilbúnaði hans dreginn frá kröfu hans. Þá komi skýrt fram að stefnandi telji að búið hafi verið að semja um kr. 481.000 sem greiðslu til sín en engu að síður sé krafa hans í málinu miðuð við kr. 470.000 á mánuði. Telur stefnda að af þessu sé enn frekar ljóst að ekki hafi verið kominn á bindandi samningur á milli aðila. Og af þeim gögnum sem liggi fyrir virðist það eitt hafa verið ljóst að verksamningurinn yrði til 6 mánaða, en að öðru leyti hafi verið eftir að ganga frá efni samningsins. Samningur hafi því ekki verið kominn á milli aðila. Loks bendir stefnda á þau ummæli stefnanda í tölvubréfinu frá 15. júní 2005 þar sem hann segir að hann sjái sig knúinn til að setja stefnda úrslitakosti varðandi „ráðningu“. Síðar í bréfinu komi það fram að með ólíkindum sé að málið sé komið í strand vegna þess að virðisaukaskattur skuli vera innifalinn í greiðslu til hans svo og að ef framhald eigi að verða á viðræðunum þá vilji hann að gengið sé út frá upphaflegum tölum. Telur stefnda að með þessum ummælum stefnanda sjálfs verði atvik ekki skilin öðru vísi en svo að aðilar hafi enn verið í viðræðum um efni verksamningsins og því hafi ekki verið kominn á samningur þeirra í milli.
Að öllu ofangreindu virtu telur stefnda það liggja ljóst fyrir að ekki hafi verið búið að gera samning við stefnanda. Eftir hafi verið að gera verklýsingu, ganga frá samningi um greiðslu fyrir verkið, þeim fjölda vinnustunda sem stefnandi hafi átt að skila og að lokum að fá samþykki stjórnar stefnda fyrir gerð samningsins.
Af hálfu stefnda er þeirri málsástæðu stefnanda andmælt, að hann hafi rift samningi sem hafi verið komið á milli aðila með áður röktu tölvubréfi frá 16. júní 2005. Áréttar stefndi að því leyti það sem hér að framan var rakið, þ.m.t. efni áður rakins bréfs stefnanda sjálfs frá 15. júní 2005. Telur stefndi að af efni bréfsins verði ekki annað ráðið en að hann sé sjálfur að slíta þeim viðræðum sem farið höfðu fram á milli aðila. Framkvæmdastjóri stefnda hafi svarað efnislega þann 16. júní og lýst þeirri skoðun að ekkert hafi breyst frá því að samningsdrögin voru send stefnanda þann 25. maí, en síðan látið það álit í ljós að bréf stefnanda sýndi að hann væri ekki rétti maðurinn í verkið og að stefnda muni því skoða aðra kosti. Engin viðbrögð hafi komið frá stefnanda við þessu tölvubréfi framkvæmdastjórans.
Stefnda vísar til þess að í samningarétti gildi sú meginregla til að samningur komist á að undangengnu tilboði þá þurfi gagnaðili að samþykkja tilboðið. Telur stefnda að með réttu megi líta á margnefnd samningsdrög um verksamning um vinnu við Vaxtasamning fyrir Eyjafjörð, sem tilboð stefnda til stefnanda. Af áður lýstum viðbrögðum stefnanda verði ekki annað ráðið en hann hafi hafnað tilboðinu, en síðan komið með nýtt tilboð, sbr. áður rakin tölvupóstsamskipti. Telur stefnda að honum hafi verið heimilt að hafna tilboði stefnanda, sbr. til hliðsjónar 5. og 6. gr. laga nr. 7, 1936.
Varðandi kröfugerð stefnanda bendir stefnda á að hluti hennar varði vinnu sem hann telji sig hafa unnið frá lokum maí til 14. júní 2005. Stefnda byggir á því að þessi vinna hafi falist í því að stefnandi hafi verið að kynna sér áðurnefndan Vaxtasamning. Þá bendir stefnda á tölvubréf stefnanda frá 31. maí 2005 þar sem fram komi að greiningarvinnuna, sem um hafi verið að tefla hafi átt að vinna fyrir Byggðastofnun, þar sem sú stofnun hafi ekki ætlað að vinna verkið sjálft heldur fá einhvern til þess, sbr. eftirfarandi orð stefnanda: „Ef ég vinn vinnuna sem starfsmaður/ráðgjafi getið þið rukkað Byggðastofnun fyrir þá vinnu“. Telur stefnda að stefnanda hafi verið það ljóst að hann var þarna að ráðast í verk sem stefnda átti ekki að vinna og geti því ekki krafið hann um hugsanlega greiðslu fyrir það verk. Í þessu samhengi vísar stefnda til þess að stefnandi hafa verið í sambandi við Byggðastofnun eftir að upp úr viðræðum hans við stefnda slitnaði, sbr. tölvubréf þar um frá 24. júní 2005. Megi ætla að tilgangurinn með þeim samskiptum hafi verið að fá Byggðastofnun til að kaupa eða taka þátt í þeirri vinnu sem hann sé í máli þessu að krefja stefnda um greiðslu fyrir.
Stefnda gerir að lokum þá athugasemd við málatilbúnað stefnanda að svo virðist sem hann telji að virðisaukaskattur komi til frádráttar á greiðslum til hans en svo sé ekki og því sé vandséð hvernig stefnandi hugsi kröfugerð sína. Ennfremur gerir stefnda athugasemdir við dráttarvaxtakröfu stefnanda og telur að hún sé ekki í samræmi við lög nr. 38, 2001.
III.
Við aðalmeðferð málsins gáfu aðilaskýrslur stefnandi, Hróðmar Dofri Hermannsson og stjórnarformaður stefnda, Valur Knútsson, en vitnaskýrslur Magnús Þór Ásgeirsson, framkvæmdastjóri stefnda og Benedikt Sigurðarson, stjórnarmaður í framkvæmdaráði vaxtasamnings fyrir Eyjafjörð.
Samkvæmt frásögn stefnanda fyrir dómi hafði hann fyrri hluta árs 2005 verið í nokkru sambandi við starfsmann stefnda, Halldór Ragnar í tengslum við eigið háskólanám í nýsköpunar- og frumkvöðlafræðum. Kvaðst stefnandi m.a hafa verið að leita upplýsinga vegna meistararitgerðar um margnefndan Vaxtarsamning fyrir Eyjafjörð. Hann hafi því þekkt nokkuð til starfsemi stefnda er hann leitaði eftir starfi með greindri atvinnuumsókn 15. apríl 2005.
Frásögn stefnanda og áður nefndra stjórnenda stefnda fyrir dómi er að öllu verulegu samhljóða um að gagnkvæmur vilji hafi staðið til þess í kjölfar nefndrar atvinnuumsóknar stefnanda að hann yrði ráðinn til umræddra verka við Vaxtarsamning fyrir Eyjafjörð, enda fyndist fjárhagslegur flötur þar á og samþykki stjórnar stefnda lægi fyrir.
Liggur og fyrir að hinn 22. apríl 2005 ræddu nefndir aðilar um samningsgerð og áttu eftir það í ítrekuðum samskiptum, með fundahöldum en þó sérstaklega með tölvupóstsendingum. Samkvæmt framlögðum gögnum voru það Magnús Þór framkvæmdastjóri stefnda og stefnandi er höfðu með þessi samskipti að gera og hafa þeir báðir gefið skýrslu fyrir dómi. Bar þeim saman um að á fundinum 22. apríl hafi væntanlegur verksamningur aðila komið til umræðu og að þá hafi a.m.k. verið viðraðar hugmyndir um verkgjald, en auk þess hafi orð fallið um greiðslu á virðisaukaskatti. Þeir eru hins vegar ósammála um hvort eiginlegur samningur hafi síðar komist á og þá hvert efni hans hafi verið. Um nefnd samskipti liggja fyrir eins og áður er rakið gögn, þ.á.m. áður raktir tölvupóstar. Óumdeilt er hins vegar að ekki var gerður skriflegur samningur á milli aðila.
Í skýrslu sinni fyrir dómi bar stefnandi að hann hafi litið svo á að á nefndum fundi þann 22. apríl hafi hann og stjórnendur stefnda handsalað það að hann kæmi að umræddu verki sem verktaki og að verklaun hans yrðu um 370.000 kr auk 30% álags. Fyrirvari hafi hins vegar verið um samþykki aðalfundar stefnda, hinn 11. maí og að auki hafi verið áhöld um greiðslu á virðisaukaskatti. Stefnandi staðhæfir að eftir aðalfund stefnda í maí hafi hann verið fullvissaður um af framkvæmdastjóra stefnda að af ráðningu hans yrði. Hafi hann því litið svo á að frá þeim tíma hafi bindandi samningur verið kominn. Einungis ætti eftir að ákveða hvenær verk hans við Vaxtarsamninginn hæfist. Kvaðst stefnandi hafi litið svo á að formlega hefði hann hafið verkið um mánaðamótin maí/júní, þ.e. eftir fund hans með verkefnisstjóra stefnda og starfsmanni Byggðastofnunar, enda hafi framkvæmdastjóra stefnda verið um það kunnugt og því samþykkur. Verk hans hafi falist í gagnasöfnun, tillögugerð og greiningarvinnu varðandi Vaxtarsamninginn, en afrakstur þeirrar vinnu hafi hann síðar kynnt á fundum, m.a. með nefndum aðilum þann 14. júní 2005.
Við meðferð málsins hafa nefndir stjórnendur stefnda lýst samskiptum sínum við stefnanda. Kváðust þeir báðir hafa litið á fundinn þann 22. apríl 2005 sem kynningarfund og að aðilar hafi þá verið að þreifa fyrir sér, en staðfestu að gagnkvæmur vilji hafi verið til samstarfs. Þeir andmæltu því hins vegar alfarið að nokkuð efnislegt samkomulag hafi verið gert á milli aðila. Vitnið Magnús Þór, framkvæmdastjóri stefnda staðhæfði ennfremur og að í síðari samskiptum við stefnanda hafi aldrei komist á bindandi samningur við stefnanda, hvorki skriflegur né munnlegur.
Í þessu viðfangi er til þess að líta að samkvæmt 1. mgr. 50. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála hafa staðhæfingar málsaðila um atvik máls almennt ekki sönnunargildi fyrir dómi, nema um sé að ræða atriði sem honum er óhagstætt.
Þegar áður rakin gögn, einkum tölvupóstssamskipti eru virt verður að áliti dómsins að fallast á þær röksemdir og málsástæður stefnda, að stefnanda hafi ekki auðnast að sanna að með aðilum hafi tekist samkomulag um mikilvæga samningsþætti, þ.á.m um upphæð verklauna í hinum fyrirhugaða verksamningi. Verður í því sambandi m.a. ekki horft fram hjá því að hinn 31. maí, tilkynnti framkvæmdastjóri stefnda stefnanda að stjórn stefnda hefði á fundi sínum 30. maí gert athugasemdir við verklýsingu, en einnig um greiðslur í áður sendum samningsdrögum. Gegn andmælum stefnda og með hliðsjón af atvikum máls þykir stefnandi heldur ekki hafa fært sönnur á að komist hafi á sérstakt samningssamband milli málsaðila um verkefnavinnu stefnanda í þágu stefnda á tímabilinu frá lokum maí til 14. júní 2005. Og þegar framangreint er virt í heild þykir stefnandi, með hliðsjón af öllu öðru sem að framan er rakið, ekki hafa sýnt fram á að væntingar hans eða annað umfram stefnda leiði til annarrar niðurstöðu. Niðurstaða dómsins er samkvæmt þessu sú að sýkna beri stefnda af öllum kröfum stefnanda í málinu.
Eftir atvikum þykir rétt að ákveða að málskostnaður falli niður.
Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91, 1991, varðandi yfirlýsingar lögmanna.
Dóm þennan kveður upp Ólafur Ólafsson héraðsdómari.
D Ó M S O R Ð :
Stefnda, Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar bs., er sýknað af kröfum stefnanda, Hróðmars Dofra Hermannssonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.