Hæstiréttur íslands
Mál nr. 70/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Aðild
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Miðvikudaginn 4. febrúar 2015. |
|
Nr. 70/2015.
|
Arnar Arinbjarnar (Hilmar Magnússon hrl.) gegn Bjarkari ehf. (Helgi Birgisson hrl.) |
Kærumál. Aðild. Vanreifun. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli A á hendur B ehf. var vísað frá dómi vegna vanreifunar. Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði m.a. að af stefnu og gögnum sem lögð hefðu verið fram við þingfestingu málsins í héraði yrði ráðið hverjar málsástæður A væru sem og sá grundvöllur sem málsóknin byggðist á, þótt málatilbúnaður hans væri ekki svo ítarlegur og skýr sem skyldi. B ehf. hefði tekið til efnisvarna og yrði ekki séð að óskýrleiki í málatilbúnaði hefði gert honum erfitt um vik í þeim efnum. Bæri A áhættuna af því við efnisúrlausn málsins ef honum tækist ekki að bæta úr annmörkum á málatilbúnaði sínum. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Eiríkur Tómasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. janúar 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. janúar 2015, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka kröfu sína til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili höfðaði mál þetta til heimtu tilgreindrar fjárhæðar 2. maí 2014 og er krafa hans sögð reist á reikningi vegna eftirstöðva efniskostnaðar og vinnu við húsamálun í þágu varnaraðila. Með stefnu til héraðsdóms lagði sóknaraðili meðal annars fram sundurliðun á heildarverkinu vegna efnis og vinnu sinnar annars vegar og einkahlutafélagsins A. Arinbjarnar hins vegar, tímaskýrslur yfir tilboðsverkið og aukaverk, svo og og mælingar og verklýsingar á tilboðsverkinu og aukaverkum. Bú A. Arinbjarnar ehf., sem var í eigu sóknaraðila, mun hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms 31. október 2013. Segir í stefnu að rekstri félagsins hafi verið ,,hætt um miðjan október 2013“ og hafi sóknaraðili tekið við verkefnum félagsins.
Varnaraðili lagði fram greinargerð 16. september 2014 og krafðist aðallega frávísunar málsins frá héraðsdómi, til vara sýknu, en að því frágengnu verulegrar lækkunar á stefnukröfu. Kröfu sína um frávísun málsins byggði varnaraðili á því að verksamningur hafi ekki verið gerður við sóknaraðila heldur við fyrrgreint félag og ekki lægju fyrir ,,haldbærar útskýringar á þeim aðilaskiptum sem urðu við verkið“. Þá væru skýringar á stefnufjárhæð ófullnægjandi og kröfugerð sóknaraðila gengi tölulega ekki upp.
Af stefnu og gögnum sem lögð voru fram við þingfestingu málsins í héraði verður ráðið hverjar málsástæður sóknaraðila séu sem og sá grundvöllur sem málsóknin byggist á, þótt málatilbúnaður hans sé ekki svo ítarlegur og skýr sem skyldi. Varnaraðili tók til efnisvarna og verður ekki séð að framangreindur óskýrleiki í málatilbúnaði hafi gert honum erfitt um vik í þeim efnum, heldur má ráða af greinargerð hans í héraði að ótvírætt sé hvert sakarefni málsins sé og hvaða vörnum hann telur sig þurfa að tefla fram. Þannig verður að skýra umfjöllun varnaraðila um aðild sóknaraðila að málinu á þann veg að sá síðarnefndi sé ekki réttur aðili til að krefjast endurgjalds fyrir verkið. Slíkur ágalli, ef réttur reynist, varðar efni málsins og leiðir því til sýknu sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Ber sóknaraðili áhættuna af því við efnisúrlausn málsins ef honum tekst ekki að bæta úr annmörkum á málatilbúnaði sínum undir rekstri þess.
Samkvæmt framansögðu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Rétt þykir að kærumálskostnaður falli niður.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. janúar 2013.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda þann 8. desember 2014, var höfðað með stefnu útgefinni þann 29. apríl 2014 af Arnari Arinbjarnar, Smárarima 68, 112 Reykjavík, á hendur Bjarkari ehf., Stigahlíð 59, 105 Reykjavík.
I.
Stefnandi krefst þess að stefndi greiði skuld að fjárhæð 3.240.647 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 3.240.647 kr. frá 12. febrúar 2014 til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar samkvæmt mati dómsins, en málskostnaðarreikningur verður lagður fram við aðalflutning málsins ef til kemur.
Stefndi krefst þess aðallega, að kröfum stefnanda verði vísað frá dómi, til vara að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda, en til þrautavara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Í öllum tilvikum gerir stefndi kröfu um málskostnað úr hendi stefnanda skv. málskostnaðarreikningi, er lagður verður fram í síðasta lagi við aðalmeðferð málsins, eða skv. mati dómsins.
II.
Málsatvik
Stefndi er eigandi fasteignarinnar að Álftamýri 7 í Reykjavík. Um er að ræða 500,9 fm. húsnæði, tvær hæðir og kjallara, upphaflega byggt sem íbúðar- og verslunarhúsnæði, en síðustu árin var húsnæðið leigt fyrir skrifstofur umboðsmanns Alþingis. Þegar leigu umboðsmanns lauk var ákveðið að breyta húsnæðinu í hótel og er þar í dag rekið Hótel Lótus.
Í júní 2013 leitaði stefndi til fyrirtækisins A. Arinbjarnar ehf. um að það gerði honum tilboð í málningu á húsnæðinu við Álftamýri 7 í tengslum við breytingu á rekstri þess í hótel. Fyrirsvarsmaður A. Arinbjarnar ehf. er stefnandi í máli þessu, en hann er húsamálari. Stefnandi skoðaði húsnæðið og gerði fast tilboð í verkið miðað við einingaverð. Samið var um eftirfarandi einingaverð:
1. Spörtlun og málun gifsveggja og gifslofta 2.300 kr./fm.
2. Endurmálum veggja 1.300 kr./fm.
3. Málun glugga 1.100 kr./m.
A. Arinbjarnar ehf. hóf vinnu við verkið 8. júlí 2013 og voru að jafnaði tveir starfsmenn fyrirtækisins að störfum. Stefndi greiddi inn á verkið eftir óskum stefnanda og í samræmi við framgang þess. Voru greiðslu hans sem hér segir:
Dags. Greitt
31.07.2013 500.000 kr.
31.08.2013 1.200.000 kr.
26.09.2013 1.600.000 kr.
01.11.2013 1.000.000 kr.
13.12.2013 40.000 kr.
13.01.2014 40.000 kr.
18.12.2013 1.000.000 kr.
Samtals kr. 5.380.000 kr.
Um mánaðamót september/október 2013 hættu umræddir starfsmenn stefnanda störfum og eftir það var það fyrst og fremst stefnandi einn sem vann við verkið, uns því lauk í endaðan nóvember 2013. Fyrirtækið A. Arinbjarnar ehf. var úrskurðað gjaldþrota 31. október 2013 og hafði hætt rekstri um 20. október 2013. Ekki liggur fyrir hvernig aðilaskiptum að verkinu var háttað, en stefnandi hélt verkinu áfram eftir að A. Arinbjarnar ehf. varð gjaldþrota. Þann 12. febrúar 2014 gerði stefnandi reikning á stefnda að fjárhæð 3.240.647 kr. sem stefnandi kvað vera vegna eftirstöðva vegna tilboðsverksins og aukaverka að fjárhæð 3.363.697 kr. Á yfirlitsblaði sem fylgdi reikningi kemur fram að tilboðsverð hafi verið 5.256.950 kr. og samtals væri verkkostnaður með aukaverkum að fjárhæð 8.620.647 kr. en að inn á verkið hefðu verið greiddar 5.380.000 kr. af stefnda. Þá kom fram að vinna A. Arinbjarnar ehf. væri að fullu greidd. Einnig kom fram að kostnaður við vinnu stefnanda frá 14. október 2013 til 15. desember 2013 samkvæmt tilboðinu væri 3.798.290 kr., vinna vegna aukaverka 1.385.143 kr. og efniskostnaður vegna aukaverka 137.214 kr. eða samtals 5.320.647 kr.
Stefndi greiddi ekki reikninginn og var honum sent innheimtubréf þann 20. mars 2014.
Mál þetta var síðan höfðað með stefnu útgefinni 29. apríl 2014.
III.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir kröfur sínar á reikningi að fjárhæð 3.240.647 kr., útgefnum 12. febrúar 2014, með gjalddaga sama dag og sé hann vegna eftirstöðva efniskostnaðar og vinnu stefnanda að Álftamýri 7 í Reykjavík.
Stefnandi sé húsamálari og hafi átt fyrirtækið A. Arinbjarnar ehf., sem tekið hafi að sér verkefni fyrir stefnda í húsnæði hans að Álftamýri 7 í Reykjavík. Félag stefnanda hafi hætt rekstri um miðjan október 2013 og hann þá tekið við verkefnum félagsins.
Í málinu liggi fyrir sundurliðun á heildarverkinu vegna efnis og vinnu stefnanda annars vegar og A .Arinbjarnar ehf. hins vegar. Þá liggi einnig fyrir skuld stefnda vegna efniskostnaðar og vinnu stefnanda, sbr. framlagt yfirlit þar sem nákvæm sundurgreining sé gerð á efni- og vinnuliðum og við hvað hafi verið unnið hverju sinni ásamt mælingu á verkinu.
Verk það sem stefnandi hafi tekið að sér og um hafi verið samið hafi falist í spörtlun og málun gifslofta, veggja og glugga innanhúss. Samkomulag hafi verið með aðilum um að fyrir spörtlun og málun lofta og veggja yrði greiddar 2.300 kr. fyrir hvern fermetra og fyrir endurmálun 1.300 kr. Fyrir málun glugga innanhúss skyldi greiða 1.100 kr. fyrir hvern metra. Kostnaður fyrir tilboðsverkið hafi verið samtals 5.256.950 kr., sbr. fyrirliggjandi mælingar stefnanda, auk þess sem tímaskýrsla liggi fyrir í málinu ásamt yfirliti um efniskostnað. Stefndi hafi ekki mótmælt þessum mælingum eða hnekkt þeim með öðrum hætti, en stefnandi telur verðið hafa verið sanngjarnt og eðlilegt.
Þá hafi verið unnin ýmis aukaverk sem upp hafi komið við verkið, sbr. framlagt yfirlit, en þar hafi aðallega verið um að ræða að steinrífa og mála steinveggi utanhúss, skröpun á sprungum og lausri pússningu, spörtlun, slípun og málun stokka og rennibrautaraufa í kjallara, lökkun á gluggakistum, gluggalistum og hurðakömrum, málun og slípun ofna og handriða í stigagangi ásamt tilheyrandi efnisnotkun. Samtals hafi kostnaður vegna aukaverka verið 3.363.697 kr., sbr. framlagt yfirlit.
Af hálfu stefnda hafi ekki verið gerðar neinar athugasemdir við aukaverkin eða kostnað vegna þeirra og inn á heildarverkið hafi stefndi greitt samtals 5.380.000 kr., sbr. sundurliðun á framlögðu heildaryfirliti.
Þá hafi stefndi ekki gert neinar athugasemdir við verk stefnanda, en það hafi verið vel unnið og því væri lokið. Innborganir stefnda hafi verið framkvæmdar án nokkurra skilyrða eða áskilnaðar og verði að líta svo á að stefndi hafi samþykkt verkliði og verkkostnað eins og um var samið í upphafi og skv. reikningum. Öll aukaverk hafi verið unnin að beiðni forsvarsmanns stefnda og honum hafi verið ljóst hvað unnið var hverju sinni, enda hafi hann verið á verkstað allan tímann og ekki gert neinar athugasemdir við framlögð yfirlit sem afhent hafi verið meðan á verki stóð. Þar hafi verkefni verið sundurgreind eftir því við hvað hafi verið unnið hverju sinni.
Stefnandi byggir á því að verð fyrir verkið verði að teljast sanngjarnt, sérstaklega þegar horft sé til þess að það sé nokkuð lægra en skv. taxta Málarameistarafélagsins, sbr. inntak reglu 28. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup. Hið sama eigi við um unnin aukaverk. Eftirstöðvar verksins, 3.240.647 kr., hafi stefndi ekki greitt þrátt fyrir innheimtutilraunir og því hafi verið nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu eftirstöðvanna. Þá mótmælti stefnandi framkominni frávísunarkröfu stefnda og kvað kröfugerð skýra og málatilbúnað í stefnu uppfylla öll skilyrði 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Varðandi lagarök vísar stefnandi til meginreglu samninga- og kröfuréttarins um loforð og efndir fjárskuldbindinga og að gerða verksamninga skuli efna. Þá vísar stefnandi til laga nr. 42/2000 um þjónustukaup og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnandi við reglur 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 og um varnarþing vísar hann til 33. gr. um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Kröfu um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður og lagarök stefnda vegna frávísunarkröfu
Stefndi byggir á því að hann hafi aldrei samið við stefnanda um verkið heldur við fyrirtækið A. Arinbjarnar ehf. Í stefnu segi að fyrirtækið hafi hætt rekstri um miðjan október 2013 og stefnandi tekið við verkefnum félagsins. Um það hafi stefndi aldrei verið upplýstur. Samkvæmt vanskilaskrá hafi félagið verið úrskurðað gjaldþrota 31. október 2013. Í skýrslu stefnanda hjá skiptastjóra þrotabúsins þann 11. febrúar 2014 segi hann að allir starfsmenn hafi hætt störfum í septemberlok 2013 og að félagið hafi hætt starfsemi í kringum 20. október 2013.
Starfsmenn A. Arinbjarnar ehf. hafi hafið störf fyrir stefnda þann 8. júlí 2013 og unnið þar til þeir hættu störfum í lok september 2013. Eftir það hafi stefnandi unnið að mestu einn við verkið þar til því lauk að mestu í lok nóvember 2013.
Krafa stefnanda í máli þessu sé samtals að fjárhæð 3.240.647 kr. og sé skv. reikningi útgefnum af honum 12. febrúar 2014. Um fjárhæð reikningsins sé vísað til meðfylgjandi uppgjörsblaðs og í stefnu sé stefnufjárhæðin útskýrð þannig:
Kostnaður við tilboðsverk 5.256.950 kr.
Kostnaður vegna aukaverka 3.363.697 kr.
Samtals heildarverkkostnaður 8.620.647 kr.
Innborganir 5.380.000 kr.
Stefnufjárhæð 3.240.647 kr.
Á dskj. 3, svokölluðu heildayfirliti með uppgjöri vegna framkvæmdanna við Hótel Lótus, sé verkinu skipt upp á milli stefnanda annars vegar og fyrirtækis hans A. Arinbjarnar ehf. hins vegar. Í uppgjörinu vegna A. Arinbjarnar ehf. segi að verkið hafi verið unnið frá 8. júlí 2013 til 12. október 2013 fyrir samtals 3.300.000 kr. sem skiptist þannig:
Tilboðsvinna 1.458.660 kr.
Vinna aukaverk 1.664.130 kr.
Efni vegna aukaverka 177.210 kr.
Samtals 3.300.000 kr.
Inn á verk A. Arinbjarnar hafi umbj. minn greitt:
Þann 31. júlí 2013 500.000 kr.
Þann 31. ágúst 1.200.000 kr.
Þann 26. september 2013 1.600.000 kr.
Samtals 3.300.000 kr.
Reikningar vegna vinnu A. Arinbjarnar ehf. séu því að fullu greiddir að mati stefnanda. Á uppgjöri stefnanda, vegna þess sem hann skilgreini sem eigin vinnu eftir að A. Arinbjarnar ehf. hafi hætt starfsemi, segi að hann hafi unnið við verkið frá 14. október 2013 til 15. desember 2013, eða um 2/5 af heildarverktímanum. Kröfu sína vegna þess tímabils sundurliði stefnandi þannig:
Tilboðsvinna 3.798.290 kr.
Vinna aukaverk 1.385.143 kr.
Efni vegna aukaverka 137.214 kr.
Samtals 5.320.647 kr.
Samkvæmt framansögðu segist stefnandi hafa unnið 70% tilboðsverksins sjálfur (í eigin reikning) á 2/5 heildarverktímans eftir að allir starfsmenn hans höfðu hætt störfum. Það fái augljóslega ekki staðist og sé ekki í neinu samræmi við tímaskýrslur hans á dskj. nr. 4.
Þá segir stefnandi að stefndi hafi greitt inn á vinnu stefnanda, eftir að hann tók verkið yfir, samtals 2.080.000 kr., og eftir standi því ógreiddar 3.240.647 kr., sem settar hafi verið á reikning og myndi stefnufjárhæð þessa máls. Það fái augljósleg ekki staðist að innborgunum stefnda sé skipt með þessum hætti, þ.e. að af 5.380.000 kr. innborgunum hans sé aðeins liðlega tveimur milljónum ráðstafað inn á þann verkhluta sem stefnandi kveðst hafa unnið.
Stefnandi hefur lagt fram í málinu alla útgefna reikninga sína og fyrirtækis síns vegna verksins og þeir séu sem hér segir:
Reikningur nr. 10 1/8 2013 (A. Arinbjarnar) 500.000 kr.
Reikningur nr. 22 26/9 2013 (A. Arinbjarnar) 1.200.000 kr.
Reikningur nr. 23 28/8 2013 (A. Arinbjarnar) 1.600.000 kr.
Reikningur nr. 3 1/11 2013 (sjálfur) 1.000.000 kr.
Reikningur nr. 7 12/2 2014 (sjálfur) 3.240.647 kr.
Samtals 7.540.647 kr.
Stefndi hafi þannig greitt 5.380.000 kr. vegna verksins og ættu því miðað við reikningsgerð stefnanda að standa eftir ógreiddar 2.160.647 kr., en ekki 3.240.647 kr. sem sé stefnufjárhæðin. Þessi mismunur sé með öllu óútskýrður í stefnu og sé málið því stórlega vanreifað, auk þess sem ósamræmi sé í kröfugerð og málsútlistun stefnanda.
Þá liggi ekki fyrir haldbærar útskýringar á þeim aðilaskiptum sem urðu við verkið og skiptingu verksins við reikningsgerð á milli stefnanda annars vegar og fyrirtækis hans, A. Arinbjarnar ehf., hins vegar. Það sé skipting, sem ekki fái staðist eins og rakið sé hér að framan, gerð án samþykkis stefnda og að því er virðist í þeim tilgangi að snuða einkahlutafélagið við gjaldþrot þess.
Vegna framangreindra ágalla á málatilbúnaði stefnanda sé óhjákvæmilegt að vísa málinu frá héraðsdómi, enda erfitt fyrir stefnda að halda upp vörnum við óljósum og vanreifuðum málatilbúnaði stefnanda. Um helstu lagaákvæði vísar stefnandi til umfjöllunar hér að framan og vísaði við flutning um frávísunarkröfu einkum til e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafa stefnda um málskostnað styðst við ákvæði 21. kafla laga nr. 91/1991, sbr. einkum 130. gr. þeirra laga.
IV.
Niðurstöður
Ekki liggja fyrir í máli þessu gögn um það hvernig háttað var uppgjöri varðandi aðilaskipti sem urðu þegar stefnandi tók við verki því sem einkahlutafélag hans, A. Arinbjarnar ehf. sem varð gjaldþrota þann 31. október 2013, hafði tekið að sér fyrir stefnda. Í skýrslutöku af stefnanda, sem var fyrirsvarsmaður félagsins, hjá skiptastjóra þann 11. febrúar 2014 kom fram að engin starfsemi væri í gangi í félaginu og að það hefði hætt starfsemi kringum 20. október 2013. Starfsmenn fyrirtækisins hafi hætt störfum undir lok mánaðamóta september október 2013. Þá kvað stefnandi félagið ekki eiga neinar eignir eða kröfur. Þá kom fram að bókhald fyrir árið 2013 hafi ekki verið fært né fyrir árið 2012 að fullu. Ekkert kemur fram í skýrslutökunni um að félagið hafi átt ólokið tilboðsverki sem samið hafi verið um við stefnda í máli þessu.
Stefnandi lagði fram útgefna reikninga vegna vinnu sinnar og fyrirtækis síns, A. Arinbjarnar ehf. vegna verksins og þeir eru sem hér segir:
Reikningur nr. 10 1/8 2013 (A. Arinbjarnar) 500.000 kr.
Reikningur nr. 22 26/9 2013 (A. Arinbjarnar) 1.200.000 kr.
Reikningur nr. 23 28/8 2013 (A. Arinbjarnar) 1.600.000 kr.
Reikningur nr. 3 1/11 2013 (sjálfur) 1.000.000 kr.
Reikningur nr. 7 12/2 2014 (sjálfur) 3.240.647 kr.
Samtals 7.540.647 kr.
Það athugast að reikningur nr. 10, dags. 1. ágúst 2013, er gefinn út á Maríu Björnsdóttur, kt. 110664-5089 og ekki er útskýrt í stefnu hvernig þessi reikningur varðar viðskipti A. Arinbjarnar ehf. og stefnda í máli þessu. Þá kemur fram í tímaskýrslum, sem stefnandi lagði fram vegna alls verksins, að aukaverk hafi verið unnin af starfsmönnum A. Arinbjarnar ehf. og stefnanda allt til 27. september 2013. Í sundurliðunarblaði sem fylgdi reikningi stefnanda, dags. 12. febrúar 2014, kemur fram að aukaverkin séu unnin af stefnanda frá 14. október 2013 til 30. nóvember 2013. Ekki liggja fyrir haldbærar útskýringar á aðilaskiptum sem urðu við verkið, skiptingum greiðslna vegna verksins milli A. Arinbjarnar ehf. og stefnanda, og er þarna ósamræmi milli reiknings og tímaskýrslna stefnanda.
Þá liggur fyrir að samtala þeirra reikninga sem stefnandi hefur lagt fram vegna verksins er 7.540.647 kr. og ágreiningslaust er að greiðslur stefnda hafi verið samtals 5.380.000 kr. Mismunur á fjárhæð þessara reikninga og greiðslna er því 2.160.647 kr. Stefnufjárhæð stefnanda er hins vegar 3.240.647 kr. Þessi mismunur er með öllu óútskýrður í stefnu og verður að telja að málið sé vanreifað hvað þetta varðar og þá þætti sem raktir voru hér að framan. Ósamræmi er þannig í kröfugerð stefnanda og framlögðum gögnum og málsútlistun stefnanda. Þessi málatilbúnaður stefnanda er í andstöðu við ákvæði e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 Vegna þessara annmarka á reifun málsins verður að fallast á kröfu stefnda um frávísun málsins.
Eftir þessum úrslitum og með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 er rétt að stefnandi greiði stefnda málskostnað eins og kveðið er á um í úrskurðarorði.
Vegna embættisanna dómara hefur uppkvaðning dregist fram yfir frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Dómari og aðilar eru sammála um að ekki sé þörf á endurflutningi.
Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Arnar Arinbjarnar, greiði stefnda, Bjarkari ehf., málskostnað 400.000 kr.