Hæstiréttur íslands
Mál nr. 317/1998
Lykilorð
- Ákæra
- Ómerking
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Fimmtudaginn 4. mars 1999. |
|
Nr. 317/1998. |
Ákæruvaldið (Sigríður Jósefsdóttir saksóknari) gegn Sigurði Jóhannssyni og (Kristján Stefánsson hrl.) Ólafi Þór Jóhannssyni, Eyjólfi Þór Guðlaugssyni og Ingvari Erni Guðjónssyni (Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.) |
Ákæra. Ómerking. Frávísun frá héraðsdómi.
S, Ó, E og I voru ákærðir, m.a. fyrir brot gegn lögum um bókhald vegna viðskipta sinna með aflaheimildir. Var því lýst í ákæru að þeir hefðu látið undir höfuð leggjast að færa tiltekin bókhaldsatriði í bókhaldi fyrirtækja sinna. Af málatilbúnaði ákæruvaldsins var á hinn bóginn ljóst að grundvöllur ákæruefna var sá, að viðskiptin hefðu brotið gegn lagareglum um viðskipti með aflaheimildir og um skiptaverðmæti sjávarafla. Talið að framsetning ákæruatriða fullnægði ekki áskilnaði laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Enda þótt einn kafli ákærunnar væri án slíkra annmarka var talið að hann væri svo tengdur öðrum hlutum hennar að óhjákvæmilegt væri að vísa ákærunni frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 17. júlí 1998 að ósk ákærðu og krefst hann þess að niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða Sigurðar samkvæmt I. og III. kafla ákæru verði staðfest, þó þannig að heimfærsla brots samkvæmt I. kafla ákæru verði leiðrétt, refsing ákærða verði þyngd og hann dæmdur til að greiða 103.671 krónu í skaðabætur til Gunnars Örnólfs Reynissonar og 20.341 krónu til Fiskveiðasjóðs Íslands. Þá krefst hann staðfestingar á sakfellingu ákærðu Ólafs Þórs, Eyjólfs Þórs og Ingvars Arnar samkvæmt I. og II. kafla ákæru, þó þannig að heimfærsla brots samkvæmt I. kafla verði leiðrétt og að refsing ákærðu verði þyngd.
Ákærði Sigurður krefst þess aðallega að I. kafla ákæru verði vísað frá héraðsdómi en ella verði hann sýknaður af þeim kafla og öðrum ákæruatriðum, sem hann varða. Til vara krefst hann mildunar á refsingu og skilorðsbindingar hennar. Þá krefst hann þess að skaðabótakröfum verði vísað frá dómi, en til vara að hann verði sýknaður af þeim.
Ákærðu Ólafur Þór, Eyjólfur Þór og Ingvar Örn krefjast þess aðallega að I. kafla ákæru verði vísað frá héraðsdómi, en ella verði þeir sýknaðir af öllum ákæruatriðum. Til vara krefjast þeir verulegrar lækkunar á refsingu.
Í héraðsdómi er lýst þeim viðskiptum, sem ákæra í máli þessu tekur til. Ljóst verður að telja af málflutningi ákæruvalds hér fyrir dómi, að grundvöllur ákæruefna séu lagareglur um aflamark og um skiptaverðmæti. Er þar vísað til þess að samkvæmt 12. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða verði aflamark eingöngu flutt milli skipa og að samkvæmt 1. gr. laga nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, sbr. 10. gr. laga nr. 79/1994, sé óheimilt við hlutaskipti að draga kostnað við kaup á veiðiheimildum frá heildarverðmæti afla. Samkvæmt þessum lagaheimildum hafi Reiknistofa fiskmarkaða hf. ekki mátt vera handhafi aflamarks og hafi Útgerðarfélagið Hleri hf. orðið að vera hinn raunverulegi kaupandi. Hafi borið að færa viðskiptin í samræmi við það í bókhaldi fyrirtækjanna. Einnig hefur ákæruvaldið í málflutningi sínum hér fyrir dómi vísað til laga nr. 123/1989 um uppboðsmarkað fyrir sjávarafla og hafnalaga nr. 23/1994.
Í I. kafla ákæru er ákærðu öllum gefið að sök að hafa „látið undir höfuð leggjast að færa bókhaldsatriði viðskiptanna“ í bókhaldi ofangreindra tveggja hlutafélaga. Í II. kafla eru ákærðu Ólafur Þór, Eyjólfur Þór og Ingvar Örn ákærðir fyrir útgáfu þriggja rangra afreikninga, eins og þar er nánar lýst. Hvorugt þessara ákæruatriða er þannig fram sett að skírskotað sé til þess lagagrundvallar, sem ákæruvaldið byggir á í málflutningi sínum, og verður þetta ekki ráðið af verknaðarlýsingum. Þannig sést til dæmis ekki, þegar I. kafli ákæru er lesinn sjálfstætt, hver sé grundvöllur þess að bókhald verði ekki talið réttilega fært. Skortir þar með verulega á skilgreiningu þess bókhaldsbrots, sem ákært er fyrir. Í ákærunni er og ekki getið stöðu ákærðu Ólafs Þórs, Eyjólfs Þórs og Ingvars Arnar hvers um sig hjá Reiknistofu fiskmarkaða hf. með tilliti til refsiábyrgðar á þeirri háttsemi, sem ákært er fyrir, og framkvæmd var í nafni hlutafélagsins.
Ofangreind framsetning ákæruatriða fullnægir ekki áskilnaði c - liðar 1. mgr. 116. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Þótt III. kafli ákærunnar sé ekki háður sömu annmörkum og hinir tveir, eru þeir allir svo tengdir innbyrðis, að ekki þykir rétt að dæma um hann einan og sér. Er því óhjákvæmilegt að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa ákærunni í heild frá héraðsdómi.
Samkvæmt þessu ber að leggja allan kostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti á ríkissjóð, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur á að vera ómerkur og er ákæru málsins vísað frá héraðsdómi.
Allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærðu eins og hér greinir: Málsvarnarlaun verjanda ákærða Sigurðar Jóhannssonar í héraði og fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 350.000 krónur, málsvarnarlaun verjanda ákærðu Ólafs Þórs Jóhannssonar, Eyjólfs Þórs Guðlaugssonar og Ingvars Arnar Guðjónssonar í héraði, Jóhannesar Karls Sveinssonar héraðsdómslögmanns, 400.000 krónur, og málsvarnarlaun verjanda þeirra í Hæstarétti, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness miðvikudaginn 27. maí 1998.
Ár 1998, miðvikudaginn 27. maí, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjaness, sem háð er að Brekkugötu 2, Hafnarfirði af Gunnari Aðalsteinssyni héraðsdómara, Einari S. Hálfdánarsyni, héraðsdómslögmanni og löggiltum endurskoðanda og Finnboga H. Alexanderssyni héraðsdómara, kveðinn upp dómur í málinu nr. S-60/1998: Ákæruvaldið gegn Sigurði Jóhannssyni, Ólafi Þór Jóhannssyni, Eyjólfi Þór Guðlaugssyni og Ingvari Erni Guðjónssyni.
Mál þetta, sem dómtekið var 6. maí sl., er höfðað með ákæru ríkislögreglustjóra 3. mars 1998 á hendur ,,Sigurði Jóhannssyni, kennitala 210354-2639, Bjarmalandi 20, Sandgerði, Ólafi Þór Jóhannssyni, kennitala 060454-4779, Glæsivöllum 11, Grindavík, Eyjólfi Þór Guðlaugssyni, kennitala 290759-7819, Suðurvör 11, Grindavík og Ingvari Erni Guðjónssyni, kennitala 020263-2109, Álfholti 12, Hafnarfirði, fyrir brot á lögum um bókhald, lögum um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins og fjársvik á árinu 1996.
I.
1.Ákærðu Ólafi Þór, Eyjólfi Þór og Ingvari Erni er gefið að sök að hafa sem fyrirsvarsmenn Reiknistofu fiskmarkaða hf., kennitala 480592-2479, Njarðvík, í viðskiptum við Útgerðarfélagið Hlera hf., kennitala 680291-1289, Sandgerði, er þeir í mars 1996, fjármögnuðu 10 tonna aflamark slægðs þorsks, jafngildi 13.319 óslægðs þorsks, fyrir útgerðarfélagið, sem flutt var með tilkynningu til Fiskistofu, á skip útgerðarfélagsins, Guðbjörgu GK-517, látið undir höfuð leggjast að færa bókhaldsatriði viðskiptanna í bókhald reiknistofunnar.
2.Ákærða Sigurði er gefið að sök að hafa sem framkvæmdarstjóri Útgerðarfélagsins Hlera hf., þegar viðskipti samkvæmt 1. lið ákæru fóru fram og aflamarkið flutt á skip útgerðarfélagsins, Guðbjörgu GK-517, látið undir höfuð leggjast að færa bókhaldsatriði viðskiptanna í bókhald útgerðarfélagsins.
Brot allra ákærðu samkvæmt þessum kafla ákæru teljast varða við 36. gr. sbr. 3. tl. 37. gr. laga um bókhald nr. 145, 1994, sbr. 1. gr. laga nr. 37, 1995 um breytinum á þeim lögum, sbr. 2. mgr., 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39,1995.
II.
Ákærðu Ólafi Þór, Eyjólfi Þór og Ingvari Erni er gefið að sök að hafa, við sölu samtals 13.319 kg af óslægðum afla Guðbjargar GK-517, gefið út og bókfært hjá Reiknistofu fiskmarkaða hf., þrjá ranga afreikninga til Útgerðarfélagsins Hlera hf., þar sem verðmæti aflamarks var dregið frá raunverulegu söluverði eins og hér greinir:
|
Dagsetning reikninga |
Seldur óslægður afli kg. |
Söluverð skv. afreikningi frá Reiknistofu fiskmarkaða hf. til Reiknistofu fiskmarkaða hf. kr. pr.kg. |
Söluverð skv. afreikningi frá Reiknistofu fiskmarkaða hf. til Hlera hf. kr. pr.kg. |
Mismunur þ.e. verðmæti aflamarks kr. pr.kg. |
|
12.03.1996 |
1.567 |
94.49 |
19.29 |
75.20 |
|
19.03.1996 |
445 |
97.00 |
21.00 |
76.00 |
|
26.03.1996 |
11.307 |
76.02 |
20.02 |
76.00 |
Brot ákærðu telst varða við 1.mgr. 158. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940.
III.
1. Ákærða Sigurði er gefið að sök að hafa notað hina röngu afreikninga þar sem kostnaður við öflun aflamarks var dreginnn frá heildarverðmæti afla, sbr., II. kafla ákæru, við uppgjör á greiðslum gjalds í greiðslumiðlunarsjóð til Fiskveiðasjós, aflagjalds til Sandgerðishafnar og aflahlutar til skipverja Guðbjargar Gk-517, Gunnars Örnólf Reynissonar, vélvarðar og Björgvins Bragasonar, matsveins, og um leið leynt heildarverðmæti afla Guðbjargar sem greiðslur til þessara aðila hefðu átt að byggjast á og þannig fengið þá til að taka við uppgjöri og haft af þeim alls kr. 227.978, sem hér er nánar sundurliðað:
Fiskveiðisjóður Íslands:
2% gjald í Greiðslumiðlunarsjóð.
|
|
rétt greiðsla |
greiðsla skv. afreikn. |
vangreitt |
|
12.03.1996 |
10.364 kr |
604 kr |
9.760 kr |
|
19.03.1996 |
984 kr |
187 kr |
797 kr |
|
26.03.1996 |
21.713 kr |
4.527 kr |
17.187 kr |
|
Samtals |
|
|
27.744 kr |
Sandgerðishöfn:
1% aflagjald
|
|
rétt greiðsla |
greiðsla skv. afreikn. |
vangreitt |
|
12.03.1996 |
1.481 kr |
302 kr |
1.178 kr |
|
19.03.1996 |
492 kr |
93 kr |
399 kr |
|
26.03.1996 |
10.857 |
2.263 kr |
8.593 kr |
|
Samtals |
|
|
10.170 kr |
Til áhafnar Guðbjargar GK-517:
Aflahlutur
|
|
Aflahlutur með orlofi samkvæmt söluverði afla á markaði |
Aflahlutur samkvæmt hinum röngu afreikningum |
Vangreiddur aflahlutur |
|
Gunnar Örnólfur Reynisson, vélvörður |
385.633 kr |
281.962 kr |
103.671 kr |
|
Björgvin Bragason, matsveinn |
321.364 kr |
234.944 kr |
86.393 kr |
|
Samtals |
|
|
190.064 kr |
Brot ákærða Sigurðar telst varða við 2. mgr. 158. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940 og 2. málsl. 1. mgr. 1. gr., sbr. 18. gr. laga nr. 24,1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins sbr. II. kafla laga nr. 79,1994.
2. Ákærðu Ólafi Þór, Eyjólfi Þór og Ingvari Erni er gefið að sök að hafa með liðsinni í verki átt þátt í fjársvikabroti með ákærða Sigurði sem lýst er í 1. lið þessa kafla ákærunnar. Brot ákærðu telst varða við 248. gr. sbr. 22. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.
Vélstjórafélag Íslands krefst bóta f.h. Gunnars Örnólfs Reynissonar, kt. 040170-4139, sem var yfirvélstjóri á Guðbjörgu GK-517 í marsmánuði 1996, á hendur ákærða Sigurði sem framkvæmdarstjóra útgerðarfélagsins, að fjárhæð kr. 103.671, auk 6% iðgjaldshluta útgerðar í lífeyrissjóð.
Sjómannasamband Íslands krefst bóta f.h. Björgvins Bragasonar, kt. 070956-4039, sem var matsveinn á Guðbjörgu GK-517 í marsmánuði 1996, á hendur ákærða Sigurði sem forsvarsmanni Hlera hf. sem gerði skipið út á framangreindum tíma, að fjárhæð kr. 86.420, auk 6% iðgjaldshluta útgerðar í lífeyrissjóð.
Ásbjörn Jónsson hdl. krefst bóta f.h. Sandgerðishafnar kt. 550269-2289, úr hendi ákærða Sigurði forsvarsmanni Útgerðarfélagsins Hlera hf., vegna vangoldinna aflagjalda skipsins Guðbjargar GK-517 á tímabili 1. mars til 31.mars 1996. Fjárhæð kröfunnar er kr. 12.829 ásamt dráttarvöxtum frá 1. apríl 1996 til greiðsludags auk lögmannskostnaðar kr. 8.419 að frádreginni greiðslu kr. 6.751.
Fiskveiðisjóður Íslands krefst þess að forsvarsmenn Útgerðarfélagsins Hlera hf., greiði sjóðnum kr. 49.176. Þar af eru kr. 28.277 vegna 2% gjalds í greiðslumiðlunarreikning fiskiskipa, hjá Stofnfjársjóði fiskiskipa, vegna Guðbjargar GK-517.“
Eftir útgáfu ákæru hefur Sandgerðishöfn og Björgvin Bragason, sem var matsveinn á Guðbjörgu GK-517, afturkallað bótakröfur sínar.
Málavextir
Með bréfi Sjómannasambands Íslands 8. maí 1996 til sjávarútvegsráðuneytis var þess farið á leit við ráðuneytið að það hlutaðist til um að fá upplýsingar hjá Fiskmarkaði Suðurnesja hf. um einstakar sölur m/b Guðbjargar GK-517 í mars 1996, þ.e. aflamagn og aflaverðmæti. Síðan segir í bréfinu:
,,Eins og fram kemur í meðfylgjandi yfirliti frá Reiknistofu fiskmarkaða er verð á þorski sem skipið landaði í mars síðastliðnum frá kr. 3,80 á kg og upp í kr. 30,80. Í tölunum er búið að draga frá kostnað vegna kaupa á veiðiheimildum. Meðfylgjandi er jafnframt útskrift af kvótafærslum til og frá skipinu. Eins og þar kemur fram byrjaði útgerðin á því að selja 22ja tonna þorskkvóta af skipinu (miðað við slægðan fisk) í september 1995. Í nóvember 1995 er síðan seldur eins tonna þorskkvóti af skipinu miðað við slægðan fisk. Í mars 1996 er keyptur þorskkvóti á skipið og sjómennirnir látnir greiða hann að fullu áður en aflahlutir eru reiknaðir.
Sú framkoma sem hér er viðhöfð af útgerðarmanni m/b Guðbjargar GK-517 er því miður ekki einsdæmi. Nauðsynlegt er að ráðamenn fari að skilja þann vanda sem blasir við sjómönnum vegna slíkra mála og afnemi frjálst framsal veiðiheimilda hið fyrsta. Sjómannasamband Íslands er búið að fá meira en nóg af því kvótabraski sem viðgengist hefur á undanförnum árum. Ekki bætir úr að útgerðarmenn og samtök þeirra reyna með öllum ráðum að koma í veg fyrir að samtök sjómanna fái þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að sannreyna uppgjör skipverja.“
Í framhaldi af bréfi Sjómannasambands Íslands óskaði ráðuneytið eftir upplýsingum hjá Fiskmarkaði Suðurnesja h.f. Í bréfi sjómannasambandsins 4. júní 1996 til Hlera h.f. segir m.a.:
,,Fyrir nokkru leitaði Ævar Oddur Ævarsson, kt. 30.07.64-5849, sem var skipverji á Guðbjörgu GK-517, til Sjómannasambands Íslands til að láta yfirfara uppgjör sitt vegna marsmánaðar. Eftir að hafa skoðað uppgjör Ævars kemur í ljós að útgerðin dregur kostnað vegna leigu á veiðiheimildum frá aflaverðmætinu áður en aflahlutur skipverja er reiknaður. Samkvæmt kjarasamningi og lögum er óheimilt að láta sjómenn taka þátt í í kostnaði við kaup eða leigu á veiðiheimildum. Í því sambandi skal bent á dóm Hæstaréttar í málinu nr. 416/1994.
Eins og fram kemur í fylgiskjali 1 með bréfi þessu leigði útgerðin frá sér veiðiheimildir í þorski, samtals 23 tonn, á fyrstu mánuðum yfirstandandi fiskveiðiárs. Andvirði leigðra veiðiheimilda kom ekki til hlutaskipta enda hafa sjómennirnir á skipinu ekkert um það að segja hvað útgerðin gerir við veiðiheimildirnar. Þegar útgerðin leigir síðan til sín aftur þorskkvótann, sem áður var búið að leigja frá skipinu, eru sjómenn látnir taka þátt í þeim kostnaði þrátt fyrir skýr ákvæði kjarasamninga og laga um að slíkt sé óheimilt.
Þorskafli skipsins í marsmánuði var að stærstum hluta seldur á Fiskmarkaði Suðurnesja sbr. fylgiskjal 2 og 3 með bréfi þessu. Fylgiskjal 2 sýnir það verð sem útgerðin notaði við uppgjörið, en fylgiskjal 3 sýnir það sem raunverulega fékkst fyrir aflann. Þar sem útgerðin gaf Fiskmarkaði Suðurnesja ekki heimild til að gefa Sjómannasambandi Íslands upplýsingar um raunverulegt söluverð þorskaflans á fiskmarkaðinum fór Sjómannsamband Íslands þess á leit við sjávarútvegsráðherra að hann aflaði gagnanna. Sú málaleitan var auðsótt og hefur ráðuneytið sent Sjómannasambandinu þær upplýsingar sem leitað var eftir varðandi sölu á afla Guðbjargar GK-517 á Fiskmarkaði Suðurnesja, sbr. fylgiskjal 3.
Samkvæmt framangreindu dró útgerðin um 76 kr/kg frá því verði sem fyrir aflann fékkst áður en aflahlutir voru reiknaðir. Samkvæmt fylgiskjali 4 lækkaði útgerðin aflahlut háseta um 62.689 kr. án orlofs vegna kvótakaupanna.
Ævar var skáður netamaður á skipið og á því að fá 1,25 hluti úr aflaverðmætinu. Krafa Ævars á hendur útgerðinni vegna þátttöku í kvótaleigu og vegna leiðréttinga á uppgjöri vegna aukahlutar er því þessi:
|
Óuppgert vegna þátttöku í kvótakaupum |
62.689 kr |
|
25% aukahlutur netamanns vegna kvótakaupanna |
15.672 kr |
|
Leiðrétting á aukahlut í uppgjöri |
27.574 kr |
|
Samtals, án orlofs |
105.935 kr |
|
Orlof 10,17% |
10.774 kr |
|
Samtals krafa |
116.709 kr“ |
Í bréfi ráðuneytis 16. júní 1996 til Fiskmarkaðar Suðurnesja segir: ,,Ráðuneytinu hafa borist tvö söluyfirlit, gefin út af Fiskmarkaði Suðurnesja hf. Er hér um að ræða yfirlitslista seljandans Guðbjargar GK-517, frá 01.03.´96 til 31.03.´96, sbr. fylgiskjal 1 og fylgiskjal 2. Þegar umræddir yfirlitslistar eru bornir saman virðist sem Fsikmarkaður Suðurnesja hf. hafi gefið út tvo yfirlitslista seljanda vegna sömu viðskipta, sem þó innihalda ekki sömu upplýsingarnar. Samkvæmt fylgiskjali 1 er Guðbjörg GK-517 seljandi aflans en Reiknistofa fiskmarkaða er kaupandi hans. Samkvæmt fylgiskjali 2 eru kaupendur þessa sama afla, hins vegar, hinir ýmsu fiskverkendur en seljandinn aftur á móti enn Guðbjörg GK-517.
Það vekur athygli ráðuneytisins að kaupandinn skv. fylgiskjali 1, Reiknistofa fiskmarkaða, er ekki formlegur seljandi aflans skv. fylgiskjali 2, heldur Guðbjörg GK-517, sem virðist skv. þessu selja sömu afurðirnar tvívegis til mismunandi aðila. Það vekur einnig athygli ráðuneytisins, að kílóverð aflans er í öllum tilvikum u.þ.b. 76 kr. lægra skv. fylgiskjali 1, heldur en kílóverð sama afla skv. fylgiskjali 2, en hver einstök sala fer fram sama dag skv. fylgiskjali 1 og fylgiskjali 2.
Við fyrslu sýn verður ekki betur séð en að Fiskmarkaður Suðurnesja hf. hafi gert sig sekan um að gefa upp rangar upplýsingar á öðru hvoru fylgiskjalinu. Í ljósi þess er það ósk ráðuneytisins að Fiskmarkaður Suðurnesja hf. gefi viðhlítandi skýringar á þeim upplýsingum sem fram koma í áðurnefndum fylgiskjölum innan 10 daga frá dagsetningu þessa bréfs.“
Fiskmarkaður Suðurnesja svaraði með bréfi 7. ágúst 1996 þar sem fram kemur sú skoðun að það sé ekki rétt að afli Guðbjargar hafi verið seldur tvisvar. Í bréfi ráðuneytis 14. ágúst 1996 segir m.a.:
,,Bréf yðar verður ekki skilið öðruvísu en svo, að afli Guðbjargar GK-517 hafi aðeins einu sinni á umræddu tímabili verið seldur á opinberu uppboði hjá Fiskmarkaði Suðurnesja hf. Uppboðsbeiðandi í því tilviki hafi verið Reiknistofa fiskmarkaða hf., sem áður hefði keypt sama afla af útgerð skipsins utan markaðarins á mun lægra verði en fékkst við uppboð á Fiskmarkaði Suðurneja hf.
Í bréfi yðar kemur einnig fram, að skýringar á þeim mikla verðmun, sem var á söluverði afla Guðbjargar GK-517, eftir því hvort aflinn var seldur beint frá útgerð til Reiknistofu fiskmarkaða hf. eða á markaði hjá Fiskmarkaði Suðurnesja hf. sé „að leita í samkomulagi milli RSV og Hlera HF“. Á reikningi fyrir sölu afla til Reiknistofu fiskmarkaða hf. kemur fram að salan sé „vegna Fiskmarkaðar Suðurnesja hf.“.“
Fiskmarkaður Suðurnesja svaraði með bréfi 21. ágúst 1996 og segir þar m.a:
,,Það eru einkum þrjú atriði sem urðu til þess að við neyddumst út í „kvótabrask“.
1.Útgerðarmenn sem voru okkar viðskiptamenn komu til okkar og sögðu að þeir gætu hvorki boðið sér né áhöfninni upp á að veiða aðeins þann litla þorskkvóta sem þeim var úthlutað. Dæmið gengi einfaldlega ekki upp. Þeim bauðst að fara í föst viðskipti við fiskkaupanda þar sem fengist meiri kvóti gegn því að landa á lágu verði (markaðsverð-kvótaverð eins og allir vita) og að koma einungis með vissa stærð af fiski að landi. Hvað átti þá að gera við þá stærð sem ekki hentaði? Ein leiðin var að koma með það og selja á markaði en þá vantaði kvóta, hin leiðin var ófær en það var að henda aflanum. Þeir upplýstu jafnframt að þeim þætti þetta slæm kjör og vildu helst vera á fiskmarkaði þar sem fæst hæsta mögulega verð hverju sinni. Það eina sem við gátum gert var að þakka þeim fyrir viðskiptin og bjóða þá velkomna aftur seinna. Flestir voru mjög ósáttir við þetta svar FMS og töldu það mikið dugleysi að geta ekki útvegað kvóta.
2.Annar mikilvægur viðskiptahópur okkar er kaupendur. Þeir sem ekki gátu útvegað kvóta þurftu að horfa á eftir hverjum bátnum á eftir öðrum í kvótaviðskipti annað og þar með fór sá ágæti fiskur sem þeir færðu að landi af markaðinum. Oft var um að ræða þorsk af stærstu gerð sem nauðsynlegt var að fá til að sinna mikilvægum markaði sem búið var að byggja upp (t.d. ferskur 6-8 kg þorskur á frönskumælandi svæði þar sem hann er tekinn í „kótelettur“ og borðaður þannig). Kaupendur voru ósáttir við þessa þróun og spurðu hvort við þyrftum virkilega að horfa aðgerðarlausir á.
3.Þróun á sölu þorsks á fiskmarkaðinum var ekki eins og við hefðum kosið. Þetta hafði verið mikilvægasta fisktegundin okkar með um 50% hlutdeild alls afla sem seldur var á fiskmarkaðinum. Við vorum uggandi um eigin framtíð ef þróunin héldi áfram í þessa átt.
Þetta eru helstu atriðin en einnig þótti okkur mjög miður að þurfa að horfa aðgerðarlausir á hvernig málin þróuðust á þann veg að fiskurinn fór úr höndunum á okkur í farveg sem var mjög umdeildur. Hlutfall þorsks í sölu FMS fór á tveimur árum úr 48% niður í 27%. Einmitt það hversu umdeilt „kvótabraskið“ er varð til þess að við tókum ekki þátt í því til að byrja með. Við vonuðum eins og margir aðrir að þessi þróun stöðvaðist en þegar hún hélt óheft áfram og svo var komið að fiskkaupendur keyptu kvóta, hættu að kaupa hjá okkur og tóku um leið einhvern besta bátinn til sín í viðskipti ákváðum við að taka þátt í dansinum.
Allan tímann hefur okkar „kvótabrask“ legið betur við höggi þeirra sem vilja það burt vegna þess að það fer allt fram ofaná borðinu, en ekki undir því eins og annars staðar. Hjá okkur er raunveruleikinn (markaðsverð-kvótaverð) í rauninni leiddur fram í dagsljósið og einhverra hluta vegna fá menn svo mikla ofbirtu að þeir sjá sig tilneydda að gera athugasemd þó hér fari ekkert það fram sem ekki gerist í fiskvinnsluhúsunum við hliðina á okkur og um allt land. Eini munurinn er sá að hér má koma með allan veiddan þorsk að landi og í flestum tilfellum er samanburður á verði okkur hagstæður. Engu að síður fer stærstur hluti „kvótabraksins“ fram hjá okkur og er það tvímælalaust vegna þess að menn hræðast hversu opinbert það er hjá okkur og liggur vel við hvers konar rannsókn. Sú mikla þorskveiði sem var á línubátum síðasta „tvöföldunartímabil“ skilaði sér ekki til okkar því þorskurinn fór nánast allur í „kvótabraski“ eitthvert annað. Má ætla að þar höfum við misst af sölu fyrir 4-500 milljónir.
Ég vona að þetta upplýsi það sem spurt er um. Eins og kemur fram hér að ofan þá neyddumst við út í „kvótabrask“ og verðum þeirri stundu fegnastir þegar við getum hætt því. Á árinu 1995 ætluðum við að hætta en urðum að láta undan þrýstingi viðskiptamanna okkar (þetta sést m.a. á minni viðskiptum allt árið 1995 en það sem af er 1996). Það er ekki verjandi að við hættum þessu þegar það viðgengst í jafn ríkum mæli allt í kringum okkur og raun ber vitni.„
Í framhaldi af þessu svari Fiskmarkaðs Suðurnesja sendi sjávarútvegsráðuneytið Rannsóknarlögreglu ríksins bréf 1. september 1996. Í bréfinu segir m.a.:
,,Þegar litið er til ofangreindra gagna telur ráðuneytið einsýnt, að kaup og sala á umræddum afla mb. Guðbjargar GK-517 hafi ekki verið með þeim hætti, að eðlilegt geti talist. Bendir ráðuneytið á, að enda þótt því sé haldið fram, að Reiknistofa fiskmarkaða hf. hafi verið eigandi afla mb. Guðbjargar GK-517 þá verði afreikningur sá, sem fylgdi bréfi Fiskmarkaðar Suðurnesja hf. dags. 7. júlí 1996 ( 7. ágúst 1996) ekki skilinn öðruvísi en svo, að útgerðin hafi fengið andvirði sölunnar.
Þá áréttar ráðuneytið, að samkvæmt þeim upplýsingum, sem fylgdu bréfi Fiskmarkaðar Suðurnesja frá 21. ágúst 1996, þá hefur Reiknistofa fiskmarkaða hf. selt verulegt magn af fiski hjá Fiskmarkaði Suðurnesja hf. Samkvæmt lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, sbr. 21. gr. reglugerðar nr. 406/1995, ber kaupanda afla að skila skýrslu til Fiskistofu um kaup á afla. Kaupandi hér merkir sá aðili sem fyrst kaupir afla af útgerð og eru þessar skýrslur kallaðar ráðstöfunarskýrslur. Fiskistofa hefur falið Fiskifélagi Íslands að annast úrvinnslu á ráðstöfunarskýrslum. Samkvæmt upplýsingum Fiskifélags Íslands, þá hefur Reiknistofa fiskmarkaða hf. sáralítinn fisk keypt í eigin nafni frá ársbyrjun 1995 til loka júní 1996, sbr. fylgiskjal 10.
Ráðuneytið telur því að ýmislegt bendi til, að Reiknistofa Fiskmarkaða hf. hafi í raun aldrei keypt fisk í neinum mæli. Hins vegar tíðkist, að skráð sé málamyndasala útgerðar til Reiknistofu fiskmarkaða hf. en síðan sé aflinn seldur frá Fiskmarkaði Suðurnesja hf. Tilgangurinn með þessu sé m.a. sá að komast hjá því að standa full skil á lögboðnum gjöldum og inngreiðslum, sbr. t.d. lög nr. 24/1986, með síðari breytingum og lög nr. 93/1986, auk þess sem fram virðist koma í bréfi Fiskmarkaðar Suðurnesja hf. frá 21. ágúst 1996 að þetta sé þáttur í því sem þar er nefnt „ kvótabrask“. Telur ráðuneytið nauðsynlegt að framkvæmd þessi verði rannsökuð betur því ljóst virðist að hún geti ekki verið í samræmi við þau lög, sem á þessu sviði gilda.“
Framburður ákærða og vitna.
Framburður ákærðu var að mestu leyti í samræmi við bréfaskriftir aðila, sem lýst er hér að framan. Ákærðu gera ekki athugasemdir við útreikninga í ákæru og þar til greind bókhaldsgögn, en telja háttsemi sína ekki refsiverða.
Ólafur Þór Jóhannsson, framkvæmdastjóri Fiskmarkaðar Suðurnesja hf. og Reiknistofu fiskmarkaða hf. sagði að þeir hefðu leiðst út í að kaupa kvóta sjálfir árið 1993. Þá var orðið mikið um hið svokallaða „kvótabrask“ Fiskverkendur voru farnir að útvega bátum kvóta gegn ákveðnu verði. Fiskmarkaðurinn var farinn að missa báta úr viðskiptum og kaupendur létu óánægju sína í ljós. Þeir voru sífellt að velta því fyrir sér hvort þeir væru að brjóta lög. Stjórn félagsins vissi af þessum kvótakaupum. Endurskoðandi fyrirtækisins taldi þessa viðskiptahætti í lagi og loks hefðu þeir vitað af sams konar máli sem hefði verið kært af Sjómannasambandi Íslands. Því máli hefði lyktað með því að ríkissaksóknari hefði fellt það niður á árinu 1994. Þeir hefðu því talið að þeir væru ekki að brjóta lög.
Ákærði Eyjólfur Þór Guðlaugsson er skrifstofustjóri Reiknistofu fiskmarkaða hf. og jafnframt skrifstofustjóri hjá Fiskmarkaði Suðurnesja hf. Hann sér um bókhald og fjármál beggja fyrirtækja. Hann sagði reiknistofuna stofnaða af nokkrum fiskmörkuðum til þess að sjá um bókhald og uppgjör fyrir marga fiskmarkaði samtímis og reka tölvukerfi. Ákærði sagðist hafa litið svo á að reiknistofan ætti kvótann og hún fékk skip til þess að veiða fyrir sig. Ekki hefði verið gerður sérstakur reikningur þegar kvótinn var látinn til Hlera hf. vegna þess að ekki var litið svo á að um sölu væri að ræða. Kvótinn var enn eign reiknistofunnar en Hleri hf. veiddi fyrir reiknistofuna samkvæmt sérstöku samkomulagi.
Þeir Ólafur og Eyjólfur vísuðu því á bug að um refsiverða háttsemi hefði verið að ræða. Viðskiptin hefðu verið að ósk Hlera hf. Verðið fyrir kvóta hefði verið markaðsverð og gert upp við Hlera hf. samkvæmt því á eðlilegan hátt. Það hefði verið það verð sem kaupandi hefði beðið um. Síðan hefði reiknistofan selt á öðru verði og gert upp samkvæmt því. Ekkert eitt rétt verð sé til í þessu sambandi og engu hafi verið leynt í bókhaldinu. Fram kom hjá Ólafi og Eyjólfi að kvótakaupum var hætt eftir að ákæra var gefin út.
Ákærði Ingvar Örn Guðjónsson er framkvæmdastjóri hjá Reiknistofu fiskmarkaða hf. Fram kom hjá honum og öðrum ákærðu að hann sér einungs um tölvumál fyrirtækisins, þróun hugbúnaðar og sölu hugbúnaðar erlendis. Ingvar sagðist hafa vitað af kvótakaupum fyrirtækisins en ekki fylgst með þeim að öðru leyti.
Ákærði Sigurður Jóhannsson er framkvæmdastjóri Hlera hf. sem gerir út Guðbjörgu GK-517. Hann sagði að skipstjóri á Guðbjörgu hefði haft samband við sig utan af sjó og sagt sér að öll áhöfnin væri sammála um að kaupa viðbótarkvóta. Sigurður sagði að sér hefði í fyrstu ekki litist á það en að lokum látið tilleiðast þegar ljóst var að þetta var ósk allra áhafnarmeðlima. Samið var um 40 krónur fyrir kg., en þá var búið að draga kvótaleiguna frá. Um þetta hefði verið samið og þannig veidd 10 tonn. Eftir það hefði þessum viðskiptum verið hætt vegna þess að allir hefðu séð að engin hagnaður var af þessu. Sigurður sagði að hann hefði gert upp samkvæmt afreikningi frá reiknistofunni og auðvitað verið ljóst að búið var að draga kvótaleiguna frá. Hann telur því rangt að sjóðir og áhöfn hafi verið hlunnfarnir vegna þess að áhöfn hafi samið um aflaverðmæti sér til handa. Engu hafi verið leynt í bókhaldi varðandi þessi viðskipti.
Logi Þormóðsson er stjórnarmaður Reiknistofu fiskmarkaða hf. Hann sagði að þessi viðskipti með kvóta hefðu farið fram með vilja og vitund stjórnar.
Davíð Einarsson hefur verið endurskoðandi Reiknistofu Fiskmarkaða hf. frá byrjun. Hann sagði reiknistofuna hafa keypt eða leigt til sína kvóta. Þetta hafi verið gert í miklu magni og síðan fékk reiknistofan einstaka báta til þess að veiða fyrir sig kvótann. Reiknistofan keypti kvótann af bátum á föstu verði, sem reynt var að hafa sem næst því verði sem fengist fyrir aflann á markaði. Að lokum var kvótaverð dregið frá. Í þessu tilfelli hafi reiknistofan verið eins og hver önnur fiskverkun. Hún keypti afla af bátum á föstu verði og öll viðskiptin gerð upp í samræmi við það. Reynt hafi verið að stilla „fasta verðinu“ upp þannig að hvorugur aðilinn hagnaðist á viðskiptunum. Leitast hafi verið við að kvótakaup, fiskkaup af bátum og sala á markaði kæmi út á núlli.
Ágúst Magnússon var skipstjóri á m/s Guðbjörgu GK-517 í mars 1996. Hann er nú búsettur á Ítalíu og kom ekki fyrir dóm. Fram hefur verið lögð yfirlýsing hans þar sem segir m.a.: ,,Í marsmánuði 1996 var mikil þorskgengd við suðvesturhorn landsins. Og þar eð við vorum kvótalitlir var erfitt að geta ekki tekið þátt í veiðinni. Ég og mín áhöfn ræddum um að freista þess að fara einhverja leið til þess að taka þátt í veiðinni. Eftir ýmsar vangaveltur samþykktu allir áhafnarmeðlimir að reyna þetta og allir vissu að þetta væri áhættusamt því markaðsverð réðu öllu um hvernig færi. Næsta skref var að tala við Sigurð Jóhannsson útgerðarmann m/s Guðbjargar. Ég hafði samband við Sigurð og tjáði honum málið, en í fyrstu var hann ekki mjög hrifinn af þessu, en er ég tjáði honum einróma samþykkt áhafnar var hann opinn fyrir því að skoða málið. Hann ítrekaði þá við mig að ekki væri hægt að gera þetta fyrir minna en 40 krónur pr. kíló skilaverð og samþykkti ég það. Ég hafði þá þegar talað við starfsmann Fiskmarkaðs Suðurnesja og tjáði hann mér að ef kvótaleigan væri frádregin væri útlit fyrir 40-50 krónur pr. kíló skilaverð samkvæmt þáverandi markaðsverði. Ég tjáði Sigurði frá samtali mínu við starfsmann FMS og ætlaði þá Sigurður að athuga grundvöll fyrir kvótaúthlutun FMS.
Þar sem grænt ljós var komið á að FMS myndi útvega kvóta og útlit væri fyrir 40-50 kr. skilaverð var ákveðið að reyna þetta. Ástæðan var einföld, því þennan marsmánuð 1996 var hvergi hægt að koma niður veiðarfæri fyrir þorski, þannig að annaðhvort var að leggja m/b Guðbjörgu uns þorskgengdin væri yfirstaðin eða reyna að bjarga sér og ég ítreka að öll áhöfnin var þessu samþykk og einróma álit áhafnar var að betra væri að hafa eitthvað kaup frekar en ekkert.“
Hlynur Jóhannsson var í áhöfn í mars 1996. Hann staðfesti frásögn skipstjóra. Björgvin Bragason, sagði að hann hefði skrifað undir bótakröfu Sjómannasambands Íslands að óathuguðu máli og þess vegna dregið bótakröfuna til baka. Hann sagði að allt frumkvæði að kvótakaupum hafa komið frá áhöfn og staðfesti yfirlýsingu skipstjóra. Gunnar Örn Reynisson var einnig skipverji á Guðbjörgu GK-517 í mars 1996. Hann sagði að hann hafi vitað af kvótakaupum og ekki verið hrifinn. Hann hafi látið þetta yfir sig ganga og farið í þrjár veiðiferðir, vitandi um að samið hefði verið um lakari kjör.
Niðurstaða.
I.
Af framburði vitna og allra ákærðu, sem ber saman um þennan þátt málsins, má ráða að atvik málsins eru eftirfarandi: Útgerðarfélagið Hleri hf. hafði ekki yfir að ráða þorskaflaheimildum fyrir skipið Guðbjörgu GK-517 í ársbyrjun 1996. Engu að síður var skipinu haldið til þorskveiða. Telja verður upplýst að öll áhöfn skipsins, að engum undanskildum, hafi sammælst um að taka þátt í kaupum á þorskaflaheimildum, „kvóta“, með útgerð skipsins.
Viðskiptin fóru þannig fram að Reiknistofa fiskmarkaða hf. aflaði sér þorskaflaheimilda með atbeina Kvótamiðlunar landssambands íslenskra útvegsmanna og lét skrá þær á skip sem þó var aldrei ætlunin að nýtti þær, með samþykki eiganda þess. Aflaheimildirnar voru síðan færðar á Guðbjörgu GK-517 þegar skipinu var haldið til framangreindra veiða. Um það samdist með áhöfn og útgerð annars vegar og Reiknistofu fiskmarkaða hf. hins vegar að við uppgjör söluverðs þess afla sem þannig fékkst myndi kostnaðurinn við öflun aflaheimildanna dragast frá söluverði aflans. Fiskmarkaður Suðurnesja hf. sem sá um sölu aflans á markaði skyldi greiða Landssambandi íslenskra útvegsmanna kaupverðið, en það sem umfram var kaupverðið skyldi koma til uppgjörs milli útgerðar og áhafnar. Við fylgiskjalagerð vegna uppgjörs til skipverja og í bókhaldi Reiknistofu fiskmarkaða hf., voru viðskiptin meðhöndluð eins og Reiknistofa fiskmarkaða hf. bæri kostnað af öflun aflaheimildanna og fengi einnig tekjurnar af sölu þeirra. Sala aflans, sem fram fór á Fiskmarkaði Suðurnesja hf. samkvæmt framansögðu, var því reikningslega meðhöndluð þannig að sá hluti aflans sem varið var til að kosta „kvótakaupin“ kom ekki fram í fylgiskjölum sem útbúin voru handa Útgerðarfélaginu Hlera hf. og var færð eins og um ótengd viðskipti væri að ræða.
Bókhald Útgerðarfélagsins Hlera hf. endurspeglaði aðferð Reiknistofu fiskmarkaða hf. Engin gjöld voru færð vegna öflunar aflaheimilda, en tekjur af sölu aflans voru færðar að kostnaði frádregnum og uppgjör til skipverja á þessu byggt. Gjöld, svo sem iðgjöld í lífeyrissjóði og aflagjöld til Sandgerðishafnar voru byggð á verðmæti afla að frádregnum kostnaði við öflun aflaheimilda.
Það er álit dómsins að útvegun aflaheimilda hafi ekki verið þáttur í tekjuöflun Reiknistofu fiskmarkaða hf., heldur Útgerðarfélagsins Hlera hf., enda viðukennt af hálfu hinna ákærðu forsvarsmanna hennar að Reiknistofa fiskmarkaða hf. hafi ekki haft fjárhagslegan ávinning af sölunni. Samkvæmt almennum reikningsskilareglum, sbr. reglur Reikningskilaráðs nr. 1 um grundvöll reikningsskila, sem birtar voru í auglýsingu nr. 450/1994 þann 30. maí 1994, eru tekjur skilgreindar sem aukning eigna og/eða lækkunar skulda á tilteknu tímabili vegna afhendingar á vörum og þjónustu eða vegna annarra verkefna í meginstarfsemi fyrirtækisins. Gjöld eru þar skilgreind sem eignaskerðing eða aukning skulda á tilteknu tímabili vegna afhendingar á vörum og þjónustu eða vegna annarra verkefna sem varða meginstarfsemi fyrirtækisins. Samkvæmt 12. gr. laga nr. 144/1994 um ársreikning og 24. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald er og óheimilt er að fella saman eignir og skuldir eða tekjur og gjöld innan einstakra liða. Í álitsgerð Reiknisskilanefndar Félags löggiltra endurskoðenda um bókun kvóta í reiknisskilum segir að kaupverð kvóta sem keyptur er til eins árs skuli gjaldfæra að fullu á það reiknisskilatímabil sem hann tilheyrir.
Í 1. gr. laga nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins er skiptaverðmæti afla skilgreint á sömu lund, en þar segir m.a. „ Þegar afli fiskiskipa er seldur óunninn hér á landi er skiptaverðmæti aflans til hlutaskipta og aflaverðlauna 75% af því heildarverðmæti sem útgerðin færi fyrir hann. Ekki er heimilt að draga frá heildarverðmæti afla í þessu sambandi kostnað við kaup á veiðiheimildum.“
Samkvæmt framansögðu bar Útgerðarfélaginu Hlera hf. að gjaldfæra kaupin á aflaheimildunum í bókhaldi sínu. Reiknistofu fiskmarkaða hf. var að sama skapi óheimilt að gjaldfæra kaupin á aflaheimildunum í bókhaldi sínu. Sömuleiðis bar Útgerðarfélaginu Hlera hf. að færa allar tekjur af sölu aflans í bókhaldi sínu en ekki Reiknistofu fiskmarkaða hf.
II.
I. kafli ákæru.
Samkvæmt því sem hér að framan segir um bókhaldsþátt ákærunnar verður talið að ákærðu Ólafur Þór, Eyjólfur Þór og Ingvar Örn hafi gerst sekir um þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í þessum kafla ákæru. Á sama hátt telst ákærði Sigurður sannur að sök varðandi þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og lýst er hér að framan í I. kafla.
Brot allra ákærðu er réttilega færð til refisákvæða að öðru leyti en því að dómurinn telur brot ákærðu ekki eiga undir 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995.
II. kafli ákæru.
Með útgáfu rangra afreikninga til Útgerðarfélagsins Hlera hf., þar sem verðmæti aflamarks var dregið frá raunverulegu söluverði, hafa ákærðu Ólafur Þór, Eyjólfur Þór og Ingvar Örn gerst brotlegir við 1. mgr. 158. gr. alm. hgl. nr. 19/1940. Telst sannað að þeir hafi að ásettu ráði ranglega tilgreint viðskiptin í reikningunum til þess að blekkja með í lögskiptum. Brotið var fullframið þegar við útgáfu afreikninganna.
III. kafli ákæru.
Ákærði Sigurður telst brotlegur við 2. mgr. 158. gr. alm. hgl. nr. 19/1940 með því að nota hina röngu afreikninga frá Reiknistofu Fiskmarkaða hf. í uppgjöri við áhöfn, Fiskveiðisjóð Íslands og Sandgerðishöfn eins og þeir væru réttir að efni til. Ákærði Sigurður telst ennfremur brotlegur við 2. málslið 1. mgr. 1. gr., sbr. 18. gr. laga nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, sbr. II. kafli laga nr. 79/1994, með því að hann dró frá kostnað við kaup á veiðiheimildum við uppgjör til skipsáhafnar.
Ekki verður fallist á með ákæranda að brot ákærða Sigurðar falli undir 248. gr. alm. hgl. nr. 19/1940. Áhöfn samþykkti og var kunnugt um þessi viðskipti. Skilyrðum 248. gr. alm. hgl. er því ekki fullnægt í máli þessu. Ber því að sýkna ákærða Sigurð af broti gegn 248. gr. alm. hgl. og með hliðsjón af því verða aðrir ákærðu einnig sýknaðir af hlutdeild í broti gegn 248. gr. alm. hgl.
Ákærðu Ólafur Þór, Eyjólfur Þór og Ingvar Örn hafa ekki áður sætt refsingum sem hér skipta máli. Ákærði Sigurður hlaut dóm 6. maí 1998 og var hann þá dæmdur fyrir brot á lögum um staðgreiðslu skatta og virðisaukaskatti. Var hann dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða 2.500.000 krónur í sekt til ríkissjóðs.
Lög nr. 79/1994, 10. gr. eru breytingarlög við 1. gr. laga nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innnan sjávarútvegsins. Í þeim segir að óheimilt sé að draga frá heildarverðmæti afla og kostnað við kaup á veiðiheimildum. Við ákvörðun refsingar ber að hafa í huga, að eftir gildistöku þessara breytingarlaga átti engum að dyljast að slík háttsemi varðaði refsingu sbr. 18. gr. laga nr. 24/1986, sbr. 11. gr. l. nr. 79/1994.
Refsing ákærða Ólafs Þórs og Eyjólfs Þórs þykir hæfilega ákveðin þannig að hvor um sig greiði 1.000.000 króna sekt í ríkissjóð sem greiðist innan fjögurra vikna frá dómsbirtingu, ella sæti ákærðu varðhaldi í 3 mánuði.
Við ákvörðun refsingar Ingvars Arnars þykir verða að hafa í huga að hann var framkvæmdarstóri Reiknistofu fiskmarkaða hf. og að honum var kunnugt um þessa viðskiptahætti. Á hinn bóginn er til þess að líta að hans starfsvið innan fyrirtækisins var á öðru sviði, einkum á sviði hugbúnaðar og þróunar hans. Þykir þáttur hans í brotunum vera minni en meðákærðu Ólafs Þórs og Eyjólfs Þórs. Refsing ákærða Ingvars Arnars þykir hæfilega ákveðin 500.000 króna sekt í ríkissjóð sem greiðist innan fjögurra vikna frá dómsbirtingu ella sæti hann varðhaldi í 2 mánuði.
Brot ákærða Sigurðar eru framin áður en hann hlaut dóm 6.maí sl. Ber því samkvæmt 78. gr. að dæma honum hegningarauka í máli þessu. Með hliðsjón af því og öllum atvikum þykir refsing hans hæfilega ákveðin 500.000 króna sekt í ríkissjóð. Hún greiðist innan fjögurra vikna frá dómsbirtingu ella sæti ákærði 2 mánaða varðhaldi.
Eins og áður sagði hafa bótakröfur Sandgerðishafnar og Björgvins Bragasonar verið afturkallaðar. Gunnar Örnólfur Reynisson heldur við sína bótakröfu. Samkvæmt 7. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur eru samningar einstakra verkamanna við atvinnurekendur ógildir að svo miklu leyti sem þeir fara í bága við kjarasamninga. Óumdeilt er í málinu að um lakari kjör var samið og bótakröfum hefur ekki verið mótmælt tölulega. Með skírskotun til þess og með vísan til dóms Hæstaréttar 1996, bls 522 ber að taka bótakröfuna til greina að fjárhæð 109.892 krónur (103.671 + 6% iðgjaldshluti útgerðar í lífeyrissjóði). Þá verður bótakrafa Fiskveiðisjóðs Íslands einnig tekin til greina eins og í dómsorði greinir en dráttarvaxta hefur ekki verið krafist.
Loks ber að dæma sakarkostnað þar með talin málsvarnarlaun og saksóknarlaun sem hér segir: Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Sigurðar, Kristjáns Stefánssonar hrl. 200.000 krónur, greiðist af ákærða Sigurði. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda, Ólafs Þórs, Eyjólfs Þór og Ingvars Arnars, Jóhannesar Karls Sveinssonar hdl., 400.000 krónur, greiðist af ákærðu in solidum. Saksóknarlaun í ríkissjóð, 200.000 krónur og annan sakarkostnað greiði allir ákærðu in solidum.
Dómsorð:
Ákærði Ólafur Þór Jóhannsson greiði 1.000.000 króna sekt til ríkissjóðs innan 4 vikna frá uppkvaðningu dómsins að telja, en sæti ella varðhaldi í 3 mánuði.
Ákærði Eyjólfur Þór Guðlaugsson greiði 1.000.000 króna sekt til ríkissjóðs innan 4 vikna frá uppkvaðningu dómsins að telja, en sæti ella varðhaldi í 3 mánuði.
Ákærði Ingvar Örn Guðjónsson greiði 500.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan 4 vikna frá uppkvaðningu dómsins að telja en sæti ella varðhaldi í 2 mánuði.
Ákærði Sigurður Jóhannsson greiði 500.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan 4 vikna frá uppkvaðningu dómsins að telja en sæti ella varðhaldi í 2 mánuði.
Ákærði Sigurður greiði Gunnari Örnólfi Reynissyni 109.892 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. apríl 1996 til greiðsludags.
Ákærði Sigurður greiði Fiskveiðisjóði Íslands 49.176 krónur.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Sigurðar, Kristjáns Stefánssonar hrl, 200.000 krónur, greiðist af ákærða. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu Ólafs Þórs, Eyjólfs Þórs og Ingvars Arnar, Jóhannesar Karls Sveinssonar hdl., 400.000 krónur greiðist af ákærðu in solidum. Saksóknarlaun að fjárhæð 200.000 krónur og annar sakarkostnaður greiðist af öllum ákærðu in solidum.