Hæstiréttur íslands

Mál nr. 206/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Slitameðferð
  • Fjármálafyrirtæki
  • Kröfulýsing
  • Kröfuröð
  • Skaðabætur


                                     

Fimmtudaginn 26. apríl 2012.

Nr. 206/2012.

Þórarinn Arnar Sævarsson

(sjálfur)

gegn

Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf.

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

Kærumál. Slitameðferð. Fjármálafyrirtæki. Kröfulýsing. Kröfuröð. Skaðabætur.

Þ fól sparisjóðnum S hf. að annast innheimtu þriggja skuldabréfa og eins víxils. Undir árslok 2008 hugðist Þ fela öðrum aðila innheimtu viðskiptabréfanna en fékk þau ekki afhent, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir, fyrr en 17. febrúar 2011, en bréfin fundust loks í þeim mánuði. Í millitíðinni höfðu skjölin mislagst og bú S hf. verið tekið til slitameðferðar. Þ lýsti skaðabótakröfu við slitin á grundvelli 3. töluliðar 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og byggði á því að slitastjórn hefði valdið sér tjóni með vanrækslu í störfum sínum. Í dómi Hæstaréttar sagði meðal annars að þótt umrædd skjöl hefðu ekki fundist fyrr en í febrúar 2011, hefði Þ ekki sýnt fram á að slitastjórn eða starfsmenn, sem hún bæri ábyrgð á, hefðu, eftir uppkvaðningu úrskurðar um töku bús varnaraðila til slita 23. júní 2009, bakað Þ tjón þannig að stofnast hefði búskrafa samkvæmt áðurnefndu lagaákvæði. Var skaðabótakröfunni því hafnað.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Ingibjörg Benediktsdóttir og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. mars 2012 sem barst héraðsdómi sama dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. mars 2012, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila við slit varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og kröfu hans að fjárhæð 54.093.095 krónur verði skipað í réttindaröð við slit varnaraðila sem búskröfu samkvæmt 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991. Þá er krafist kærumálskostnaðar.

Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti sama dag og sóknaraðili og barst gagnkæran með kærumálsgögnum til Hæstaréttar. Hann reisir gagnkæruna á sömu lagaheimild og sóknaraðili. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar um annað en málskostnað og að niðurstaða héraðsdóms um málskostnað verði felld úr gildi. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Málsatvik eru rakin í hinum kærða úrskurði. Eins og þar greinir nánar fól sóknaraðili varnaraðila á árinu 2006 að innheimta þrjú skuldabréf sem hann átti. Í október 2008 fól hann varnaraðila einnig að innheimta víxil. Umsamið var að varnaraðili ætti ekki að annast lögfræðilega innheimtu þeirra ef greiðslufall yrði á kröfum samkvæmt viðskiptabréfunum.

Allar viðskiptabréfskröfurnar lentu í vanskilum og óskaði sóknaraðili eftir því í tölvubréfi 22. desember 2008 til lánastjóra varnaraðila að viðskiptabréfin yrðu tekin úr innheimtu og afhent sér þar sem hann ætlaði að fela öðrum innheimtu þeirra. Lánastjóri varnaraðila svaraði sóknaraðila samdægurs og kvaðst búin að taka viðskiptabréfin úr innheimtu og vera með stöðu þeirra hjá sér. Sami starfsmaður sendi sóknaraðila aftur tölvubréf 29. sama mánaðar þar sem áréttað var að kröfurnar hefðu verið felldar niður. Starfsmaðurinn kvaðst að líkindum verða farinn í orlof 12. janúar 2009 og benti á tvo samstarfsmenn sem tækju við hennar verkefnum. Eins og greinir í hinum kærða úrskurði er ágreiningslaust að sóknaraðila voru ekki afhent viðskiptabréfin í kjölfar framangreindra samskipta. Varnaraðili kveður starfsmanninn hafa sett þau í umslag, sem hafi verið merkt sóknaraðila, en hann ekki sótt það. Fjármálaeftirlitið vék stjórn varnaraðila frá og skipaði fyrirtækinu skilanefnd 21. mars 2009. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júní sama ár var varnaraðila skipuð slitastjórn samkvæmt 101. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Innköllun var birt 22. júlí 2009 og lauk kröfulýsingarfresti 22. janúar 2010. Sóknaraðili mun, eins og rakið er í hinum kærða úrskurði, hafa óskað ítrekað eftir afhendingu viðskiptabréfanna bæði áður og einnig eftir að kröfulýsingarfresti lauk, en án árangurs. Hann lýsti kröfu við slit varnaraðila 25. október 2010 og krafðist afhendingar skjalanna. Reisti hann þá kröfu á 109. gr. laga nr. 21/1991. Í kröfulýsingunni segir einnig svo: ,,Verði skjölunum ekki skilað til kröfuhafa er réttur áskilinn til að krefjast skaðabóta.“ Skjölin fundust loks í febrúar 2011 og fékk sóknaraðili þau afhent 17. þess mánaðar. Hann lýsti aftur kröfu við slit varnaraðila 20. apríl 2011, og var hún skaðabótakrafa. Fjárhæð hennar var reist á matsgerð dómkvadds manns, sem reiknað hafði út stöðu viðskiptabréfskrafnanna miðað við 31. ágúst 2010. Að auki var krafist dráttarvaxta. Í kröfulýsingu er meðal annars svofelldur rökstuðningur: ,,Kröfulýsing þessi er skaðabótakrafa vegna tjóns sem kröfuhafi varð fyrir vegna vanrækslu slitastjórnar á afhendingu víxils og þriggja skuldabréfa. Þar sem kröfuhafi fékk gögnin ekki afhent þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar um fyrndust réttindi kröfuhafa skv. víxli og greiðandi skuldabréfa varð gjaldþrota. Kröfunni er lýst sem búskröfu sbr. 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 enda hefur slitastjórn valdið kröfuhafa tjóni með vanrækslu sinni eftir skipun slitastjórnar. Hefði viðskiptabréfunum verið skilað á þeim tíma sem kröfuhafa óskaði eftir því hefði kröfuhafi getað stefnt ábyrgðarmanni víxils fyrir lok fyrningar á ábyrgðinni og kröfuhafi hefði getað lýst kröfu í þb. skuldara skuldabréfa og þannig átt tilkall til þeirra verðmæta sem þar voru og einungis fasteignasalar gátu nýtt. Með kröfulýsingu dags. 25. október 2010 krafðist kröfuhafi þess formlega að skjölin yrðu afhent. Skjölin voru loks afhent þann 17. febrúar [2011].“

Slitastjórn varnaraðila hafnaði kröfunni og er hún til úrlausnar í málinu.

Svo sem fram er komið glötuðust viðskiptabréf þau í eigu sóknaraðila, sem um ræðir, í vörslum varnaraðila áður en fjármálafyrirtækið var tekið til slita. Gerð er grein fyrir viðleitni sóknaraðila til þess að fá skjölin afhent í hinum kærða úrskurði. Hann lýsti fyrst kröfu um afhendingu þeirra í lok október 2010. Þótt skjölin hafi ekki fundist fyrr en í febrúar 2011, hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á að slitastjórn eða starfsmenn, sem hún ber ábyrgð á, hafi, eftir uppkvaðningu úrskurðar um töku bús varnaraðila til slita 23. júní 2009, bakað honum tjón þannig að stofnast hafi búskrafa samkvæmt 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991. Af þessum ástæðum verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, verður hvor málsaðila látinn bera sinn kostnað af rekstri málsins í héraði og kærumálskostnað.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um að hafna skaðabótakröfu sóknaraðila, Þórarins Arnars Sævarssonar, sem hann lýsti sem búskröfu við slit varnaraðila, Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf., á grundvelli 3. töluliðar 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. mars 2012.

I

Samkvæmt heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., vék Fjármálaeftirlitið stjórn Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. (hér skammstafað SPRON) frá 21. mars 2009 og skipaði skilanefnd yfir sparisjóðinn. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júní sama ár var sparisjóðnum skipuð slitastjórn samkvæmt 101. gr. laga nr. 161/2002. Slitastjórnin gaf út innköllun til kröfuhafa og birtist hún fyrra sinni í Lögbirtingablaðinu 22. júlí 2009. Kröfulýsingarfrestur var sex mánuðir og lauk því 22. janúar 2010.

Með kröfulýsingu 25. október 2010 krafðist sóknaraðili, Þórarinn Arnar Sævarsson, Rafstöðvarvegi 25, Reykjavík, afhendingar á víxli og þremur skuldabréfum sem verið höfðu í innheimtu hjá SPRON, en viðskiptabréf þessi voru í eigu sóknaraðila. Í kröfulýsingunni kemur fram að hún sé ítrekun á kröfu hans um afhendingu skjalanna, allt frá desembermánuði 2008, án þess að slitastjórn hafi tekið afstöðu til hennar eða afhent honum skjölin. Var kröfunni lýst sem sértökukröfu samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.

Óumdeilt er að varnaraðili afhenti sóknaraðila umkrafin skjöl 17. febrúar 2011. Í kjölfarið, 20. apríl sama ár, lýsti sóknaraðili skaðabótakröfu á hendur varnaraðila, alls að fjárhæð 54.093.095 krónur, vegna þess tjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna vanrækslu slitastjórnar á afhendingu umræddra skjala. Var þess krafist að krafan yrði viðurkennd sem búskrafa við slit varnaraðila, sbr. 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991.

Með bréfi 4. maí 2011 hafnaði slitastjórn því að hún hefði með vanrækslu eða athafnaleysi valdið sóknaraðila tjóni, sem og að fyrir hendi væru önnur skilyrði skaðabótaskyldu. Sóknaraðili mótmælti afstöðu slitastjórnar til kröfunnar, en slitastjórn taldi sér ekki fært að hverfa frá fyrri afstöðu sinni. Var ágreiningi um kröfuna því vísað til héraðsdóms á grundvelli 2. mgr. 120. gr., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991, og var málið þingfest 7. september sl.

Samkvæmt greinargerð sóknaraðila eru kröfur hans eftirfarandi:

Aðallega að krafa hans að fjárhæð 54.093.095 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 8. mars 2011 til greiðsludags, verði viðurkennd sem búskrafa í skilningi 3. tl. 1. mgr. 110. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð varnaraðila.

Til vara gerir hann sömu kröfu, en gegn framsali hans á eftirfarandi viðskiptabréfum og afhendingu frumrits þeirra til varnaraðila:

1.        Víxli nr. 400304 að fjárhæð 32.000.000 króna, með gjalddaga 16. nóvember 2008. Greiðandi er Vilhjálmur Bjarnason, kt. 130963-5608, Klausturhvammi 20, Hafnarfirði, en útgefandi Lúðvík Berg Bárðarson, kt. 210464-6979, Akurgerði 8, Vogum.

2.        Skuldabréfi nr. 40249, útgefnu 13. júní 2006 af Smárinn–húsið ehf., kt. 691099-2109, upphaflega að fjárhæð 1.645.650 krónur, með fyrsta gjalddaga 15. júlí 2006.

3.        Skuldabréfi nr. 40234, útgefnu 20. febrúar 2006 af Smárinn–húsið ehf., kt. 691099-2109, upphaflega að fjárhæð 4.100.000 krónur, með fyrsta gjalddaga 17. mars 2007.

4.        Skuldabréfi nr. 40252, útgefnu 13. júní 2006 af Smárinn-húsið ehf., kt. 691099-2199, upphaflega að fjárhæð 1.202.775 krónur, með fyrsta gjalddaga 15. júlí 2006.

Að auki krefst hann málskostnaðar úr hendi varnaraðila að skaðlausu, auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Við munnlegan flutning málsins 17. febrúar sl. jók sóknaraðili við vaxtakröfu sína samkvæmt aðalkröfu, og gerði þá kröfu til vara að umkrafin fjárhæð bæri vexti samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 8. mars 2011 til þess dags er úrskurður verður kveðinn upp, en dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og að honum verði gert að greiða varnaraðila málskostnað að skaðlausu. Varnaraðili mótmælti jafnframt breyttri kröfugerð sóknaraðila.

Málið var tekið til úrskurðar 17. febrúar sl.

II

Aðila greinir á um málavexti, en samkvæmt gögnum málsins eru þeir í aðalatriðum sem hér segir:

Á árinu 2006 gaf Smárinn-Húsið fasteignamiðlun ehf., kt. 691099-2109, út eftirtalin skuldabréf til sóknaraðila:

1.       Að fjárhæð 4.100.000 krónur, útgefið 20. febrúar 2006, með 24. mánaðarlegum afborgunum, í fyrsta sinn 17. mars 2006. Láninu var skilmálabreytt 25. júlí 2007 og var nýr höfuðstóll þá 3.569.952 krónur, sem greiða átti með 24 mánaðarlegum afborgunum, í fyrsta sinn 1. ágúst 2007.

2.       Að fjárhæð 1.2020.775 krónur, útgefið 13. júní 2006, með 24 mánaðarlegum afborgunum, í fyrsta sinn 15. ágúst 2007.

3.       Að fjárhæð 1.645.650 krónur, útgefið 13. júní 2006, með 24 mánaðarlegum afborgunum, í fyrsta sinn 15. ágúst 2007. Lánið var tryggt með 6. veðrétti í fasteigninni að Klausturhvammi 20, Hafnarfirði, en var einnig með sjálfskuldarábyrgð Vilhjálms Bjarnasonar, kt. 130963-5609.        

Með innheimtubeiðnum 20. febrúar og 18. júní 2006 óskaði sóknaraðili eftir því að SPRON innheimti skuldabréfin. Auk skuldabréfanna fól sóknaraðili SPRON 16. október 2008 að innheimta víxil að fjárhæð 32.000.000 króna, sem gefinn hafði verið út af Lúðvík Berg Bárðarsyni, kt. 210464-6979, en samþykktur til greiðslu af Vilhjálmi Bjarnasyni á gjalddaga 16. nóvember 2008. Útgáfudagur víxilsins er ritaður „16.10 2080“.

Öll fóru skuldaskjöl þessi í vanskil. Samkvæmt greiðsluyfirlitum vegna innheimtu skuldabréfanna voru aðeins fjórar afborganir greiddar af fyrsttalda skuldabréfinu, upphaflega að fjárhæð 4.100.000 krónur, en þrjár afborganir af hinum tveimur. Með tölvubréfi til lánastjóra SPRON 22. desember óskaði sóknaraðili eftir því að skuldabréfin og víxillinn yrðu tekin úr innheimtu, þar eð hann ætlaði „að setja þau í formlega innheimtu“. Bætti hann við að bréfin mættu ekki vera í innheimtu um áramót. Lánastjórinn svaraði samdægurs og kvaðst vera búinn að taka skjölin úr innheimtu og væri með stöðuna í dag hjá sér. Með tölvubréfi til sóknaraðila 29. desember sama ár kvaðst lánastjórinn vera búinn að fella kröfurnar niður, og bætti við að sennilega yrði hún farin í orlof 12. janúar. Vísaði hún á Arnar eða Önnu um annað sem hún væri með.

Ágreiningslaust er að sóknaraðila voru ekki afhent viðskiptabréfin í kjölfar samskipta hans og lánastjóra SPRON. Af síðari tölvubréfum, 14. og 27. júlí 2009, má ráða að sóknaraðili hafi verið í samskiptum við starfsmann varnaraðila um umrædd viðskiptabréf, og vísaði sóknaraðili m.a. um þau til fyrri tölvusamskipta við lánastjóra SPRON. Ekki verður þó séð að erindum hans hafi verið svarað. Í tölvubréfum til starfsmanns varnaraðila 16., 17. og 18. febrúar 2010 óskaði sóknaraðili enn eftir skjölunum, og kvaðst þá ítrekað vera búinn að biðja um þau, en ekkert heyrt. Kvaðst hann hafa verulega hagsmuni af því að bréfin finnist og tekur fram að hann hafi þegar orðið fyrir tjóni þar sem krafa á hendur ábyrgðarmanni víxilsins, með gjalddaga 27. nóvember 2008, hafi fyrnst. Ekki er að sjá að erindi sóknaraðila hafi verið svarað efnislega af hálfu viðtakanda tölvubréfsins, og beindi sóknaraðili því síðari tölvubréfum, 29. mars og 20. júní 2010, að öðrum starfsmanni varnaraðila. Í þeim tölvubréfum kemur fram að sóknaraðili hafi ítrekað lagt fram beiðnir um að fá skjölin afhent, en án árangurs, og án þess að honum hafi verið svarað. Í fyrra tölvubréfinu, frá 29. mars 2010, bendir sóknaraðili viðtakanda á að eign sem standi að veði samkvæmt einu skuldabréfanna sé að fara á uppboð og því þurfi hann frumrit bréfsins til að lýsa kröfu sinni. Engin gögn bera með sér að varnaraðili hafi brugðist við erindum þessum. Óumdeilt er hins vegar að umrædd viðskiptabréf voru afhent lögmanni sóknaraðila á starfsstöð varnaraðila 17. febrúar 2011. Lögmaðurinn hafði þá ritað slitastjórn bréf, dagsett 25. október 2010, og krafist afhendingar skjalanna, um leið og hann lýsti kröfu sóknaraðila sem sértökukröfu við slit varnaraðila.

Samkvæmt gögnum málsins var bú Smárans-Hússins fasteignamiðlunar ehf., síðar Smárans miðlunar ehf., tekið til gjaldþrotaskipta 4. júní 2009 og lauk skiptum 2. september sama ár, án þess að nokkuð greiddist upp í lýstar kröfur, samtals að fjárhæð 69.844.736 krónur. Kröfum samkvæmt ofangreindum skuldabréfum var ekki lýst í búið. Fyrir liggur einnig yfirlit úr vanskilaskrá Creditinfo frá 7. september 2011, þar sem staðfest er að nafn Lúðvíks Bergs Bárðarsonar, útgefanda ofangreinds víxils, sé ekki að finna á vanskilaskrá. Enn fremur liggur fyrir staðfesting frá Umboðsmanni skuldara um að hann hafi 30. júní 2011 móttekið umsókn um greiðsluaðlögun samkvæmt lögum nr. 101/2010 frá Vilhjálmi Bjarnasyni, en Vilhjálmur var greiðandi að fyrrnefndum víxli og sjálfskuldarábyrgðarmaður á síðasttöldu skuldabréfinu hér að ofan, að fjárhæð 1.645.650 krónur.

Við upphaf aðalmeðferðar gaf sóknaraðili skýrslu fyrir dóminum, svo og vitnið Bjarni Guðmundsson, tryggingastærðfræðingur og dómkvaddur matsmaður í málinu. Staðfesti Bjarni framlagða matsgerð sína. Vikið verður að framburði þeirra síðar þyki ástæða til.

III

Sóknaraðili kveðst byggja kröfur sínar á sérstakri beitingu sakarreglunnar á sviði sérfræðiábyrgðar, vegna starfa meðlima slitastjórnar og starfsmanna þeirra. Í fyrsta lagi felist í því að gerðar séu ríkari kröfur til hins hlutlæga þáttar, í öðru lagi séu gerðar ríkari kröfur til þess hvað sérfræðingur sá eða mátti sjá um afleiðingar háttsemi sinnar, og í þriðja lagi sé sönnunarreglum beitt með þeim hætti að hliðrað sé til um sönnun, tjónþola í vil. Með þetta í huga leggur sóknaraðili áherslu á að ríkar kröfur séu gerðar til vandvirkni og aðgæslu sérfræðinga, s.s. lögmanna sem sinni störfum í skilanefndum og slitastjórnum fjármálafyrirtækja. Hinar ströngu kröfur eigi bæði við um tjón sem verði á hagsmunum þess sem sérfræðingurinn vinni fyrir, en einnig um tjón á hagsmunum þriðja manns, svo sem sóknaraðila í þessu tilviki. Meðlimir slitastjórnar varnaraðila séu allir lögmenn, og teljist þeir opinberir sýslunarmenn meðan þeir gegni starfanum, sbr. 3. mgr. 77. gr. laga nr. 21/1991, og beri þeim að bæta tjón sem þeir kunni að valda öðrum í starfi eftir almennum skaðabótareglum, sbr. 4. mgr. sömu greinar. Þá beri meðlimir slitastjórnar, sem lögmenn, bótaábyrgð á störfum sínum og starfsmanna sinna samkvæmt 25. gr. laga nr. 77/1998, um lögmenn. Einnig bendir sóknaraðili á að reglur um skiptastjóra við gjaldþrotaskipti samkvæmt lögum nr. 21/1991 gildi um slitastjórn, störf hennar og þá menn sem eigi sæti í henni, sbr. 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. lög nr. 44/2009.

Sóknaraðili tekur fram að hann hafi verið viðskiptavinur varnaraðila, og hafi sem slíkur sóst eftir sérfræðiþjónustu fjármálastofnunarinnar þegar hann fól varnaraðila að annast innheimtu á tilteknum viðskiptabréfum sem hann átti. Meðlimir slitastjórnar hafi tekið við réttindum og skyldum sem stjórn varnaraðila og hluthafafundur höfðu áður á hendi, sbr. 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. lög nr. 44/2009. Í þessu verkefni sérfræðinganna hafi falist skylda til þess að rækja af alúð, í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði, þau þjónustuverkefni sem sóknaraðili hafði falið varnaraðila. Hafi sóknaraðili jafnframt mátt treysta því er hann fól varnaraðila að innheimta viðskiptabréfin, að vinnan yrði unnin af fagþekkingu og í samræmi við góða viðskiptahætti, sbr. 4. gr. laga um þjónustukaup nr. 42/2000. Meðlimum slitastjórnar hafi borið að ganga úr skugga um að þau sérfræðiverkefni sem sóknaraðili hafði treyst varnaraðila fyrir, væru leyst af hendi þannig að réttmætra hagsmuna sóknaraðila væri gætt í hvívetna. Þetta hlutverk sitt hafi meðlimir slitastjórnar hins vegar stórkostlega vanrækt, og ekki hirt um að gæta hagsmuna sóknaraðila sem neytanda. Þá hafi varnaraðili heldur ekki veitt sóknaraðila neinar upplýsingar sem gætu haft þýðingu við gæslu hagsmuna hans. Þjónusta varnaraðila hafi því verið gölluð í skilningi 9. gr. laga nr. 42/2000.

Sóknaraðili byggir á því að meðlimum slitastjórnar hafi borið að halda rétti hans samkvæmt afhentum viðskiptabréfum til laga, allt þar til þeim var skilað aftur til sóknaraðila. Þar sem sóknaraðili hafði óskað eftir því að fá viðskiptabréfin afhent til þess að færa þau í innheimtu annars staðar, telur hann að meðlimum slitastjórnar hafi borið að sjá til þess að viðskiptabréfin yrðu afhent honum, en halda ella innheimtu þeirra áfram, ef ekki reyndist unnt að afhenda honum bréfin.

Sóknaraðili telur óumdeilt að meðlimir slitastjórnar hafi borið ábyrgð á innheimtu víxils í eigu hans frá 16. október 2008 til 17. febrúar 2011. Umræddur víxill hafi verið gefinn út 16. október 2008, með gjalddaga mánuði síðar, 16. nóvember. Þar sem varnaraðili hafi ekki höfðað mál gegn útgefanda víxilsins áður en ár var liðið frá gjalddaga, hafi krafa á hendur útgefandanum fyrnst í höndum meðlima slitastjórnar 16. nóvember 2009, sbr. 2. mgr. 70. gr. víxillaga nr. 93/1933. Byggir sóknaraðili á því að hefði útgefandi víxilsins verið dæmdur til greiðslu hans, hefði krafa sóknaraðila framlengst um 10 ár, og hefði hún á þeim tíma að öllum líkindum fengist greidd, enda sé útgefandi ekki á vanskilaskrá. Beri varnaraðili sönnunarbyrðina fyrir því að fullnusta slíks dóms um kröfu sóknaraðila hefði ekki leitt til greiðslu á víxilkröfunni innan a.m.k. 10 ára. Þá telur sóknaraðili víst að krafa hans á hendur greiðanda víxilsins sé einnig glötuð, þar sem greiðandi hafi sótt um greiðsluaðlögun samkvæmt lögum nr. 101/2010 30. júní 2011, en í því felist m.a. að sóknaraðila sé óheimilt að krefjast eða taka við greiðslu á kröfu úr hendi hans, eða ráðast í hvers konar aðgerðir til innheimtu krafna sinna. Minnir sóknaraðili á að þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir hans, allt frá 22. desember 2008 til 20. júní 2010, hafi varnaraðili ekki afhent honum umræddan víxil fyrr en 17. febrúar 2011.

Sóknaraðili telur einnig óumdeilt að meðlimir slitastjórnar hafi borið ábyrgð á innheimtu umræddra skuldabréfa í eigu sóknaraðila, allt til þess er þau voru loks afhent 17. febrúar 2011, enda hafi varnaraðili ekki sinnt ítrekuðum beiðnum um afhendingu þeirra frá 22. desember 2008 til 20. júní 2010. Hvorki varnaraðili né meðlimir slitastjórnar, skilanefndar eða bráðabirgðastjórnar varnaraðila hafi höfðað mál gegn skuldara bréfanna eða ábyrgðarmanni á grundvelli XVII. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, til greiðslu eftirstöðva samkvæmt skuldabréfunum. Líkur standi þó til þess að kröfur sóknaraðila hefðu verið teknar til greina. Bú skuldarans, Smárans miðlunar ehf., hafi verið úrskurðað gjaldþrota 4. júní 2009. Þar sem engar eignir hafi fundist í búinu hafi skiptum lokið 2. september 2009 samkvæmt 155. gr. laga nr. 21/1991. Telur sóknaraðili að kröfur hans á hendur skuldara hafi glatast við gjaldþrot félagsins.

Með vísan til ofanritaðs byggir sóknaraðili á því að vegna vanrækslu varnaraðila, skilanefndar, bráðabirgðastjórnar og slitastjórnar, hafi hann glatað víxilkröfu á hendur útgefanda víxilsins og skuldabréfakröfum á hendur skuldara, og nemi tjón hans af þeim sökum samtals 54.093.095 krónum. Í réttarframkvæmd sé slakað á kröfum til tjónþola um sönnun á því hvert tjón sé þegar um sérfræðiábyrgð sé að ræða. Til þess að slíkt sé unnt, þurfi hins vegar almennt að sýna fram á að bótagrundvöllur sé fyrir hendi og að líkur séu til þess að tjónþoli hafi orðið fyrir tjóni. Þar sem fyrir liggi að sérfræðingar varnaraðila hafi gert mistök, og að líkur séu til þess að tjón sóknaraðila sé vegna þeirra mistaka, sé sönnunarbyrði um afleiðingar snúið við. Því beri sérfræðingum varnaraðila að sanna að hin saknæma vanræksla hafi þrátt fyrir allt ekki valdið sóknaraðila tjóni. Áréttar sóknaraðili að hann hafi sem neytandi orðið fyrir tjóni vegna gallaðrar þjónustu, og því eigi hann rétt til skaðabóta, nema varnaraðili sýni fram á að gallinn verði ekki rakinn til vanræslu hans, sbr. 15. gr. laga nr. 42/2000.

Áður en ágreiningi aðila var vísað til héraðsdóms hafði sóknaraðili aflað mats dómkvadds matsmanns á fjárhæð krafna sinna á hendur varnaraðila samkvæmt áðurnefndum viðskiptabréfum. Er matsgerðin dagsett 8. febrúar 2011, og því áður en viðskiptabréfin voru afhent sóknaraðila, enda tekur matsmaður fram að við útreikning sinn hafi hann stuðst við upplýsingar sem fram komi í innheimtubeiðnum. Er niðurstaða matsmanns svohljóðandi, miðað við 31. ágúst 2010:

                                                               Höfuðstóll m.                      Áfallnir vextir                      Staða

                                                               viðbættum

                                                               vöxtum

Víxill 32.000.000                               39.106.667                          5.046.933                             44.153.600

Skuldabréf 1.645.650                         2.224.221                              185.748                               2.409.969

Skuldabréf 4.100.000                         5.316.657                              436.369                               5.753.026

Skuldabréf 1.202.775                         1.639.501                              136.999                               1.776.500

                                                                                                                                                             54.093.095

Að auki krefst sóknaraðili aðallega dráttarvaxta til greiðsludags samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 8. mars 2011, en þann dag var mánuður liðinn frá því varnaraðila var kunnugt um niðurstöður matsgerðarinnar, en til vara vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 til þess dags er úrskurður er kveðinn upp, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Um rétthæð kröfunnar er vísað til 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 4. mgr. 77. gr. sömu laga. Á því er byggt að varnaraðili, meðlimir slitastjórnar varnaraðila og sérfræðingar á vegum varnaraðila, hafi bakað sóknaraðila það tjón sem krafist er viðurkenningar á.  

Sóknaraðili tekur fram að með greiðslu fjárhæðar í aðalkröfu hans felist yfirfærsla á réttindum sóknaraðila samkvæmt umræddum viðskiptabréfum til varnaraðila. Til að taka af allan vafa þar að lútandi, en einnig ef dómurinn telur hugsanlegt að verðmæti felist enn í réttindum samkvæmt umræddum viðskiptabréfum, mælir varakrafa hans ótvírætt fyrir um framsal viðskiptabréfanna til varnaraðila.

Um lagarök vísar sóknaraðili til  meginreglna skaðabótaréttar, samninga- og kröfuréttar,  en einkum reglna um sérfræðiábyrgð og vinnuveitendaábyrgð. Þá er byggt á lögum um þjónustukaup nr. 42/2000, lögum um lögmenn nr. 77/1998, lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 með síðari breytingum, víxillögum nr. 93/193, lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010, lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 og lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991.  Dráttarvaxtakröfu byggir sóknaraðili á lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, einkum 6., 8. og 9. gr. Málskostnaðarkrafa er reist á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Í tilefni af kröfu varnaraðila í greinargerð hans, um skuldajöfnuð tiltekinna krafna á móti kröfu sóknaraðila, mótmælir sóknaraðili því að fyrir hendi séu skilyrði fyrir skuldajöfnuði. Er annars vegar á því byggt að meintar kröfur á hendur sóknaraðila séu ekki í eigu varnaraðila, heldur Dróma ehf., enda hafi allar eignir varnaraðila verið fluttar til Dróma ehf. með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. mars 2009. Þeirri ákvörðun hafi ekki verið breytt eða hún síðar afturkölluð af Fjármálaeftirlitinu, og geti hvorki varnaraðili né Drómi ehf. breytt henni einhliða. Hins vegar byggir sóknaraðili á því að skuldajafnaðaryfirlýsing sóknaraðila uppfylli ekki þau skilyrði sem gera verði til slíkra yfirlýsinga. Ljóst sé að kröfurnar séu hvorki gagnkvæmar né hæfar til að mætast. Þá séu meintar kröfur sóknaraðila ekki sérgreindar, fjárhæð þeirra sé ekki tiltekin og ekki verði fyllilega ráðið af framlagðri yfirlýsingu hvort kröfurnar séu í raun framseldar eða ekki.    

IV

Varnaraðili byggir almennt á því að hafna beri kröfum sóknaraðila, m.a. á þeim forsendum að kröfulýsing sé of seint fram komin, kröfur hans, málsástæður og málatilbúnaður sé ófullnægjandi og geti ekki leitt til þess að fallist verði á kröfurnar, varnaraðili hafi ekkert gert sem baki honum bótaábyrgð gagnvart sóknaraðila, hvað þá samkvæmt 110. gr. laga nr. 21/1991, og að sóknaraðili hafi hvorki sýnt fram á að varnaraðili hafi valdið honum tjóni, né hvert umfang þess kunni að vera. 

Varnaraðili leggur áherslu á að ekkert samningssamband hafi verið milli málsaðila við upphaf slitameðferðar varnaraðila 23. júní 2009, enda hafi því lokið í desember 2008. Sóknaraðila hafi því borið að lýsa kröfu sinni innan kröfulýsingarfrests, telji hann að krafa hans eigi rætur að rekja til samningssambands sem stofnast hafi fyrir upphaf slitameðferðar. Þar sem engu slíku samningssambandi hafi verið til að dreifa við upphaf slitameðferðar hafi varnaraðila ekki borið nein skylda til að annast innheimtu krafna eða lýsa kröfum fyrir sóknaraðila. Kröfur þessar hafi enda verið til innheimtu hjá SPRON, en því samningssambandi hafi verið lokið. Hins vegar mótmælir varnaraðili því að í efni þess samningssambands hafi falist skylda til þeirra innheimtuaðgerða sem sóknaraðili telur að varnaraðili hafi vanrækt. Einnig er því mótmælt að í tölvupóstum sóknaraðila frá desember 2008 og júlí 2009 komi fram að sóknaraðili sé að biðja um afhendingu skjalanna, og ekki síður að þeim erindum hafi verið beint til slitastjórnar varnaraðila. Tölvupóstur til starfsmanna jafngildi þó ekki kröfulýsingu til slitastjórnar. Byggir varnaraðili á því að sóknaraðila hafi borið að senda slitastjórn formlega kröfulýsingu samkvæmt 117. gr. laga nr. 21/1991, og þá eftir atvikum styðja þá kröfu við 109. gr. sömu laga. Slík kröfulýsing hafi ekki borist fyrr en 25. október 2010, og þá löngu eftir lok kröfulýsingarfrests, 22. janúar 2010.

Varnaraðili telur að umfjöllun sóknaraðila um að tveir af þremur slitastjórnarmönnum hafi einnig verið í skilanefnd og bráðabirgðastjórn varnaraðila, svo og um ábyrgð meðlima slitastjórnar, sem opinberra sýslunarmanna og lögmanna, sé máli þessu óviðkomandi, enda sé slík ábyrgð sjálfstæð. Mál þetta snúist aðeins um hvað varnaraðili sjálfur kunni að hafa unnið sér til óhelgis með athöfnum eða athafnaleysi á þeim skyldum sem á honum hvíldu, en ekki aðrir. Þá telur varnaraðili vanreifaða málsástæðu sóknaraðila um sérfræðiábyrgð meðlima slitastjórnar og starfsmanna þeirra, og bendir um leið á að sóknaraðili hafi í því samhengi ekki nefnt neina starfsmenn til sögunnar. Varnaraðili vekur loks athygli á því að þótt kröfur sóknaraðila beinist að varnaraðila sé ekki á hann minnst, heldur aðeins slitastjórnarmeðlimi og hvílíkir sérfræðingar þeir eigi að vera. Áréttar varnaraðili að slitastjórnarmenn hafi ekki tekið að sér þjónustuverkefni fyrir sóknaraðila vegna samnings sem hann hafi sagt upp í desember 2008. 

Af hálfu varnaraðila er því sérstaklega mótmælt að umrædd viðskiptabréf hafi verið í höndum meðlima slitastjórnar og að þeir hafi borið ábyrgð á innheimtu þeirra. Viðskiptabréfin hafi að sönnu verið í vörslum varnaraðila, en engin skylda hafi þó hvílt á forsvarsmönnum SPRON eða varnaraðila að höfða mál á hendur skuldurum þeirra. Því sé óskiljanleg sú fullyrðing sóknaraðila að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna vanrækslu varnaraðila, enda geri sóknaraðili enga tilraun til að skýra hvernig það tjón hafi orðið eftir skipun slitastjórnar.

Varnaraðili fellst ekki á röksemdir sóknaraðila um tilslökun á sönnunarbyrði og telur hann misskilja efni þeirra reglna. Byggir hann á því að tilslökun á sönnunarbyrði komi almennt ekki til greina í málum af þessu tagi. Þegar henni sé hins vegar beitt þurfi sá sem vill fá tilslökun á sönnunarbyrði um orsakasamband að reifa tjónið og umfang þess, ásamt því að gera grein fyrir öllum atriðum sem máli skipti og leggja fram öll tiltæk sönnunargögn. Þar sem sóknaraðili hafi ekki sinnt þessum atriðum sé ekki hægt að fallast á kröfur hans eða dæma um þær. Þá telur varnaraðili að sóknaraðili sé ekki neytandi í skilningi laga. Í því sambandi bendir hann á að sóknaraðili og félög á hans vegum hafi verið meðal stærstu lántakenda SPRON. Að auki sé hann fasteignasali og stórtækur viðskiptajöfur, sem m.a. hafi annast rekstur nokkurra eignarhaldsfélaga, svo og rekstur og útleigu fasteigna. Tiltekur varnaraðili nokkur félög, sem dæmi um umfangsmikil viðskipti sóknaraðila.

Varnaraðili byggir einnig á því að sóknaraðili hefði getað umflúið tjón. Þannig hefði hann getað stefnt málum, án þess að hafa frumrit skjalanna undir höndum, með þeim orðum að hann myndi afla þeirra. Í framhaldinu gat hann sent kröfulýsingu til varnaraðila með kröfu um afhendingu skjalanna. Þar sem þau komu ekki strax í leitarnar gat hann höfðað mál til ógildingar þeirra og lagt fram ógildingardóminn í málinu. Með því móti gat hann komið í veg fyrir að réttindi glötuðust. Hann lét hins vegar ekki aðeins hjá líða að draga úr tjóni sínu, heldur lét hann einnig réttarspjöll verða, sem hann einn gat umflúið, þar sem gögnin fundust ekki fyrr en seint og síðar meir. Í stað þessa lýsti sóknaraðili ekki kröfu sinni fyrr en 25. október 2010. Var krafan þá fallin niður, en kröfulýsingarfresti lauk 22. janúar það ár. Og jafnvel þótt talið yrði að kröfum hefði mátt lýsa síðar á grundvelli 5. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991, byggir varnaraðili á því að þeim hafi ekki verið lýst án ástæðulausra tafa. Þannig hafi langur tími liðið milli þeirra atburða sem sóknaraðili byggi á og þar til hann loks lýsti þeirri kröfu sem sé grundvöllur þessa máls. Enn fremur er á því byggt að sóknaraðili hafi ekki sannað meint tjón sitt eða umfang þess, og telur varnaraðili ekkert benda til þess að fjárhagur sóknaraðila væri annar, þótt fallist yrði á að einhver atvik hefðu átt sér stað sem gætu bakað varnaraðila bótaskyldu. Þá telur varnaraðili að skuldarar umræddra viðskiptabréfa hafi enga möguleika átt til að greiða kröfurnar. Staðhæfingar sóknaraðila um annað séu óraunsæjar og merkingarlausar.

Að endingu byggir varnaraðili á því að kröfulýsing sóknaraðila uppfylli ekki skilyrði 117. gr. laga nr. 21/1991, hvorki að formi né efni, og hafi ekki verið bætt úr þeim annmarka í greinargerð.

Að því er varðar einstök skjöl að baki kröfu sóknaraðila, eru málsástæður varnaraðila eftirfarandi:

Víxill að fjárhæð 32.000.000 króna er gefinn út árið 2080. Af því leiði að ekki sé neinum víxilrétti fyrir að fara á hendur útgefanda, og hafi ekki verið. Gjalddagi skjalsins sé merkingarlaus og hafi skjalið ekkert víxilgildi, m.a. vegna ákvæða 1. mgr. 2. gr. laga nr. 93/1933. Megi jafna þessu við að útgáfudag vanti, enda getur víxillinn ekki hafa verið gefinn út á umræddum degi. Þá er því mótmælt að víxillinn geymi raunverulega kröfu, þegar litið sé til viðskiptanna að baki. Komi annað í ljós, er á því byggt að sú krafa hafi ekki fallið niður þótt víxilréttur hafi glatast, og tjón af þeim ástæðum ósannað. Einnig er á því byggt að ekkert tjón hafi hlotist þar sem Lúðvík Berg hafi ekki verið fær um að greiða víxilinn.  Þá hafi það ekki verið hlutverk slitastjórnar að höfða mál á hendur Lúðvík Berg eða öðrum víxilskuldurum, enda engu samningssambandi fyrir að fara milli aðila. Byggir varnaraðili á því að sóknaraðili hafi sönnunarbyrðina fyrir því að Lúðvík Berg hafi getað greitt umræddan víxil. 

Varnaraðili mótmælir sérstaklega vaxtakröfu á grundvelli víxilsins og telur hana  svo vanreifaða að ekki séu skilyrði til þess að krefjast vaxta. Til vara krefst hann þess að vextir verði reiknaðir frá síðara tímamarki, og geti það í fyrsta lagi orðið við framlagningardag greinargerðar. Einnig er á því byggt að hægt hefði verið að höfða víxilmál, þótt sóknaraðili hefði ekki frumrit skjalsins undir höndum, en þá hefði þurft að útvega það eða ógildingardóm. Með því móti hefði verið hægt að rjúfa alla fresti. Telur varnaraðili að aðeins komi hér til greina vextir samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001. 

Varnaraðili mótmælir staðhæfingu sóknaraðila, þess efnis að ekki hafi verið hægt að lýsa kröfu í söluandvirði fasteignarinnar að Klausturhvammi 20, Hafnarfirði, vegna veðskuldabréfs að fjárhæð 1.645.650 krónur. Þvert á móti byggir varnaraðili á því að sóknaraðila hafi verið kleift að lýsa þeirri kröfu, án þess að hafa frumrit skuldabréfsins undir höndum. Það hefði aðeins þýtt að ekki væri unnt að úthluta söluandvirðinu fyrr en frumrit skjalsins lægi fyrir eða ógildingardómur. Hafi sóknaraðila verið í lófa lagið að afla slíks dóms. Hins vegar telur varnaraðili ósannað að nokkuð hefði fengist greitt upp í kröfuna við nauðungarsölu. Þá telur varnaraðili engar líkur á að sjálfskuldarábyrgðarmaður á sama skuldabréfi, Vilhjálmur Bjarnason, hafi verið borgunarmaður fyrir skuldinni, og vísar því til staðfestingar til yfirlits úr vanskilaskrá. 

Auk ofanritaðs byggir varnaraðili á því að aðalskuldari samkvæmt ofangreindu skuldabréfi, Smárinn-Húsið fasteignamiðlun ehf., hafi orðið gjaldþrota, og liggi ekkert fyrir um að neitt hefði greiðst af bréfinu þótt kröfu hefði verið lýst. Hins vegar telur varnaraðili sem fyrr að sóknaraðili hefði getað lýst kröfu í þrotabú skuldara, og síðar lagt fram frumrit skuldabréfsins eða ógildingardóm. Hinu sama gegni um tvö önnur skuldabréf, sem einnig voru gefin út af sama skuldara, að fjárhæð 4.100.000 krónur og 1.202.775 krónur.

Telji dómurinn að varnaraðili beri skaðabótaábyrgð gagnvart sóknaraðila utan skuldaraðar vegna tjóns sem hann eigi að hafa orðið fyrir, kveðst varnaraðili skuldajafna nánar tilteknum kröfum á móti slíkri dómsniðurstöðu. Eru kröfurnar taldar upp í 10 liðum í greinargerð varnaraðila og eru þær ýmist í formi lánssamninga, víxils eða skuldabréfs. Bæði lánssamningarnir og skuldabréfið eru í erlendri mynt og er sóknaraðili ýmist skuldari eða sjálfskuldarábyrgðarmaður að öllu leyti eða að hluta. Í nokkrum tilvikum hefur lánsfjárhæð verið endurreiknuð í samræmi við niðurstöðu Hæstaréttar í málinu nr. 604/2010. Sóknaraðili er hins vegar útgefandi víxils.

Um málskostnaðarkröfu sína vísar varnaraðili til 131. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, en til vara til 130. gr. sömu laga.

V

Eins og fyrr segir fól sóknaraðili SPRON innheimtu þriggja skuldabréfa árið 2006 og eins víxils á árinu 2008. Í innheimtubeiðnum, sem sóknaraðili undirritaði af því tilefni, er m.a. að finna svohljóðandi texta: „Mér er ljóst að komi til greiðslufalls mun sparisjóðurinn hvorki innheimta kröfuna með lögsókn, né sinna hagsmunagæslu vegna kröfunnar við nauðungarsölu, skipti eða aðrar fullnustuaðgerðir.“ Öll fóru viðskiptabréfin í vanskil og óskaði sóknaraðili því eftir því við lánastjóra SPRON 22. desember 2008 að þau yrðu tekin úr innheimtu þar eð hann ætlaði sjálfur að koma þeim í lögfræðiinnheimtu. Í kjölfarið voru bréfin tekin úr innheimtu hjá SPRON.

Í skýrslu sinni fyrir dómi sagði sóknaraðili að hann hefði farið til útlanda um áramótin 2008/2009. Þegar heim kom hefði hann farið í SPRON til þess að sækja skjölin, en þá verið sagt að lánastjórinn væri í barnsburðarleyfi og fyndust skjölin ekki. Engu að síður hefði hann haft samband við lánastjórann og hefði hún sagt honum að skjölin væru hjá öðrum starfsmanni. Næst þegar hann ætlaði að vitja þeirra hefði SPRON verið kominn í þrot og búið að loka. Stuttu eftir það hefði hann talað við starfsmann sem honum hefði skilist að sæi um þessi mál, Katrín að nafni, og bað hana um að finna skjölin. Hefði hann hitt Katrínu í þessum erindagjörðum 4 – 5 sinnum í húsnæði Frjálsa fjárfestingarbankans hf. við Lágmúla. Þar sem það skilaði engum árangri hefði hann ákveðið að senda starfsmönnum slitastjórnar skriflegt erindi. Sagðist hann ekki hafa tölu á fjölda þeirra erinda sem hann hefði sent, svo og samtala sem hann hefði átt við starfsmenn slitastjórnar. Kvaðst hann ítrekað hafa bent á að krafa á útgefanda víxilsins myndi fyrnast eftir 4 – 5 mánuði og því væri áríðandi að finna skjalið. Engu að síður hefði aldrei verið brugðist við erindum hans, honum hefði þó verið lofað að það yrði gert, en í raun hafi ekkert verið gert. Tók hann fram að sá tölvupóstur sem lægi frammi í málinu væri hluti þeirra sem hann hefði sent varnaraðila. Aðspurður sagðist sóknaraðili einnig ítrekað hafa óskað eftir fundi með slitastjórn, bæði út af þessu máli og öðrum málum, en aldrei hafi orðið af þeim fundi.

Fallist er á það með varnaraðila að ekkert samningssamband var milli hans og sóknaraðila þegar héraðsdómur skipaði Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf. slitastjórn 23. júní 2009, enda hafði sóknaraðili óskað eftir því að viðskiptabréf hans yrðu tekin úr innheimtu 22. desember 2008. Kröfu sóknaraðila, vegna meints tjóns sem hlaust af vanrækslu SPRON eða starfsmanna sparisjóðsins fyrir upphaf slitameðferðar, verður því ekki beint að slitastjórn varnaraðila á grundvelli 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Í því ákvæði er fjallað um kröfur sem orðið hafa til á hendur þrotabúi eftir uppkvaðningu úrskurðar um töku bús til gjaldþrotaskipta með samningum skiptastjóra eða vegna tjóns sem búið bakar öðrum.

Að áliti dómsins er ekki unnt að skilja tölvubréf sóknaraðila til lánastjóra SPRON frá 22. desember 2008 á annan hátt en þann að með því hafi hann verið að óska eftir afhendingu allra umræddra viðskiptabréfa, enda hefði hann að öðrum kosti ekki getað sett þau í lögfræðiinnheimtu. Síðari tölvubréf sóknaraðila, 14. og 27. júlí 2009, til Katrínar, starfsmanns varnaraðila, þar sem sóknaraðili vísaði til fyrri tölvusamskipta við lánastjórann, þykja og taka af tvímæli um að með þeim var sóknaraðili að krefjast afhendingar á sömu skjölum. Af þeim tölvubréfum má einnig ráða að sóknaraðili hafi átt samskipti við starfsmanninn áður en tölvubréfin voru send, og styrkja þau því frásögn hans af ítrekuðum samskiptum hans við þann starfsmann eftir upphaf slitameðferðar varnaraðila. Hefur varnaraðili í engu hrakið frásögn sóknaraðila af þeim samskiptum, né mótmælt henni. Varnaraðili hefur heldur ekki borið brigður á frásögn sóknaraðila af síðari samskiptum hans við aðra starfsmenn varnaraðila, enda er sú frásögn að hluta til studd framlögðum tölvubréfum sóknaraðila frá febrúar, mars og júní 2010. Í þeim bendir sóknaraðili starfsmönnum varnaraðila á að hann hafi ítrekað krafist skjalanna, en erindum hans ekki verið svarað. Í tölvubréfi hans frá 29. mars 2010 bendir hann á að eign, sem var að veði samkvæmt einu skuldabréfanna sé á leið á uppboð, og því þurfi hann frumrit bréfsins til að lýsa kröfu sinni. Ekki er að sjá að varnaraðili hafi nokkru sinni svarað erindum sóknaraðila efnislega. Frestur til kröfulýsinga við slitameðferð varnaraðila rann út 22. janúar 2010 og lýsti sóknaraðili ekki kröfu í búið. Nokkru fyrr, 16. nóvember 2009, fyrndist krafa sóknaraðila á hendur útgefanda áðurnefnds víxils að fjárhæð 32.000.000 króna. Fyrir liggur einnig að bú skuldara samkvæmt umræddum skuldabréfum, Smárans-Hússins fasteignamiðlunar ehf., var tekið til gjaldþrotaskipta 4. júní 2009 og lauk skiptum 2. september sama ár, án þess nokkuð fengist greitt upp í lýstar kröfur. Kröfum sóknaraðila á grundvelli skuldabréfanna var ekki lýst í búið. Fram er komið að varnaraðili afhenti sóknaraðila viðskiptabréfin 17. febrúar 2011. Hafði lögmaður sóknaraðila þá með kröfulýsingu 25. október 2010 krafist afhendingar bréfanna, og áskilið sér að öðrum kosti rétt til skaðabóta. Eftir afhendingu bréfanna lýsti sóknaraðili skaðabótakröfu á hendur varnaraðila, alls að fjárhæð 54.093.095 krónur, vegna tjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna vanrækslu slitastjórnar við afhendingu viðskiptabréfanna. Var kröfulýsingin dagsett 20. apríl 2011. Um rétthæð kröfunnar var vísað til  3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991, en fjárhæð hennar studdist við matsgerð dómkvadds matsmanns frá 8. febrúar sama ár.  

Varnaraðili byggir m.a. á því að hafna beri kröfu sóknaraðila þar sem henni hafi fyrst verið lýst löngu eftir lok kröfulýsingarfrests. Telur hann að sóknaraðili hafi átt þann kost að lýsa kröfunni fyrir slitastjórn innan þess frests, og styðja hana þá við 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991. Einnig er á því byggt að sóknaraðili hefði getað umflúið tjón með því að stefna skuldurum viðskiptabréfanna, án þess að hafa frumrit þeirra í höndum, eða afla sér ógildingardóma í þeirra stað.

Samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 skal afhenda eign eða réttindi í vörslum þrotabús þriðja manni ef hann sannar eignarrétt sinn að þeim. Í máli þessu er óumdeilt að umrædd skjöl fundust ekki hjá varnaraðila fyrr en seint og um síðir, og löngu eftir að krafa sóknaraðila á hendur útgefanda víxilsins hafði fyrnst. Sóknaraðili hafði þá einnig glatað rétti sínum til að lýsa kröfum í þrotabú Smárans-Hússins fasteignamiðlunar ehf., svo og í söluandvirði hinnar veðsettu eignar að Klausturhvammi 20 í Hafnarfirði. Þar sem varnaraðili gat ekki afhent sóknaraðila viðskiptabréfin, fær dómurinn ekki séð að sóknaraðili hefði að neinu leyti verið betur settur þótt hann hefði lýst kröfu sinni á hendur varnaraðila á grundvelli umrædds ákvæðis. Verður þvert á móti ekki annað ályktað en að möguleikar sóknaraðila til að halda uppi kröfum sínum á hendur skuldurum viðskiptabréfanna hefðu allt að einu farið forgörðum. Er því ekkert vægi í þeirri málsástæðu varnaraðila að sóknaraðili hefði átt að lýsa kröfu sinni innan kröfulýsingarfrests við slitameðferð varnaraðila, eins og hér háttaði til. Ekki þykir heldur hald í þeirri málsástæðu að sóknaraðili hefði getað umflúið tjón með því að stefna skuldurum viðskiptabréfanna, án þess að hafa frumrit þeirra í höndum, eða afla sér ógildingardóma í þeirra stað, enda er hún bæði ósönnuð og í andstöðu við fyrirmæli laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. einkum 80. gr. og 121. gr. þeirra laga.

Tekið er undir það með varnaraðila að tölvupóstur, eins og sá sem rakinn hefur verið hér að framan og stafar frá sóknaraðila, jafngildir ekki kröfulýsingu samkvæmt 117. gr. laga nr. 21/1991. Hins vegar gaf hann slitastjórn og starfsmönnum hennar fullt tilefni til þess að bregðast við án tafar og gera allt sem í þeirra valdi stóð til þess að finna umrædd skjöl og afhenda þau sóknaraðila, en tryggja ella hagsmuni hans með öðrum hætti. Skiptir þá ekki máli þótt samningssambandi sóknaraðila og SPRON hafi lokið í desember 2008, enda mátti varnaraðila vera ljóst, a.m.k. frá fyrsta tölvubréfi sóknaraðila 14. júlí 2009, að honum væri með öllu ómögulegt að halda kröfum sínum til laga gagnvart skuldurum viðskiptabréfanna, hefði hann þau ekki undir höndum. Er þá ekki síst til þess horft að bæði slitastjórn og starfsmenn hennar höfðu sérþekkingu á slíkum skuldaskjölum og hverju það gæti varðað héldu menn kröfum sínum ekki uppi. Bar þeim því ríkari skylda en ella til að bregðast tafarlaust við erindum sóknaraðila og forða honum frá yfirvofandi tjóni. Ekki skiptir hér heldur máli þótt sóknaraðili hafi aðeins átt samskipti við starfsmenn slitastjórnar, en ekki slitastjórn sjálfa, enda verður að telja að starfsmenn slitastjórnar hafi starfað í umboði og á ábyrgð slitastjórnar. Um leið er minnt á að reglur um skiptastjóra við gjaldþrotaskipti gilda einnig um slitastjórn, störf hennar og þá menn sem eiga sæti í henni, sbr. 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum, sbr. lög nr. 44/2009. Í ljósi þessa er það álit dómsins að slitastjórn varnaraðila hafi sýnt af sér vítaverða vanrækslu þegar hún sinnti í engu ítrekuðum beiðnum sóknaraðila um afhendingu umbeðinna skjala, sem þá voru í vörslum varnaraðila. Samrýmdust slík vinnubrögð ekki þeim ríku kröfum um fagmennsku og vandvirkni, sem gera verður til slitastjórna. Ber slitastjórn varnaraðila því skaðabótaábyrgð gagnvart sóknaraðila, hafi hann á annað borð orðið fyrir tjóni af hennar völdum. Um leið er hafnað þeirri málsástæðu varnaraðila að sóknaraðili hafi ekki lýst kröfu sinni án ástæðulausra tafa, sbr. 5. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991, og minnt á að sóknaraðili gat fyrst lýst kröfu sinni eftir afhendingu skjalanna 17. febrúar 2011. Kemur þá til skoðunar hvort og í hvaða mæli aðgerðaleysi varnaraðili hafi valdið sóknaraðila tjóni.

Eins og fram er komið var gjalddagi títtnefnds víxils að fjárhæð 32.000.000 króna 16. nóvember 2008. Útgefandi hans var Lúðvík Berg Bárðarson, en samþykkjandi Vilhjálmur Bjarnason. Útgáfudagur víxilsins er tilgreindur 16. október 2080 („16.10 2080“), og því áratugum eftir gjalddaga hans. Þótt færa megi að því líkur að útgáfudagurinn hafi hér misritast breytir það engu um þá staðreynd að fyrir vikið telst skjalið ekki víxill samkvæmt ófrávíkjanlegum formskilyrðum 1. gr. víxillaga nr. 93/1933. Þegar af þeirri ástæðu er ekki við varnaraðila að sakast þótt víxilkrafa á hendur útgefanda skjalsins hafi fyrnst 16. nóvember 2009, enda gat sóknaraðili heldur ekki varnað þeim málalyktum þótt hann hefði skjalið undir höndum. Samkvæmt því verður að telja ósannað að varnaraðili hafi valdið sóknaraðila tjóni, þrátt fyrir að tafist hafi úr hófi að afhenda honum skjalið.

Skuldari samkvæmt öllum áðurnefndum skuldabréfum, þremur að tölu, var Smárinn-Húsið fasteignamiðlun ehf., síðar Smárinn miðlun hf. Bú fyrirtækisins var tekið til gjaldþrotaskipta 4. júní 2009, og því tæpum þremur vikum áður en slitameðferð varnaraðila hófst. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var frestdagur við skiptin 7. apríl 2009, en frestur til að lýsa kröfum í búið rann út 15. ágúst sama ár. Kröfum samkvæmt skuldabréfunum var ekki lýst í búið. Engar eignir fundust í búinu og var skiptum lokið 2. september 2009, án þess að nokkuð fengist greitt upp í lýstar kröfur, samtals að fjárhæð 69.844.736 krónur. Þótt sóknaraðili hafi krafist afhendingar á skuldabréfunum úr hendi varnaraðila 14. júlí 2009, og því eftir upphaf slitameðferðar varnaraðila, verður að fallast á þau rök varnaraðila að ekkert bendi til þess að sóknaraðili hefði nokkuð fengið greitt upp í kröfur sínar, þrátt fyrir að þeim hefði verið lýst innan kröfulýsingarfrests. Því er ósannað að athafnaleysi varnaraðila hafi að þessu leyti valdið sóknaraðila tjóni.

Meðal gagna málsins er bréf frá sýslumanninum í Hafnarfirði, dagsett 24. mars 2010, þar sem sóknaraðila er tilkynnt um fyrirhugað framhaldsuppboð á fasteigninni að Klausturhvammi 20, Hafnarfirði, 14. apríl 2010, en sóknaraðili var veðhafi í þeirri fasteign samkvæmt einu skuldabréfanna sem hér er um deilt. Í tilefni af bréfi þessu sendi sóknaraðili varnaraðila tölvubréf  29. mars 2010, þar sem hann ítrekaði beiðni sína um afhendingu bréfanna og benti um leið á að hann þyrfti frumrit skuldabréfsins til þess að lýsa kröfu sinni í uppboðsandvirði fasteignarinnar. Erindi þessu var þó ekki svarað frekar en öðrum erindum hans. Af gögnum málsins verður hins vegar hvorki ráðið að framhaldsuppboð hafi farið fram á eigninni á tilgreindum degi, né hvert söluandvirði hennar hafi þá verið. Liggur því ekki fyrir hvort sóknaraðili hafi glatað veðrétti sínum í eigninni, og um leið möguleikum til greiðslu kröfunnar af söluandvirði hennar.   

Sóknaraðili telur að kröfur hans á hendur Vilhjálmi Bjarnasyni, greiðanda áðurnefnds víxils og sjálfskuldarábyrgðarmanni á fyrrnefndu veðskuldabréfi, séu glataðar, þar sem Vilhjálmur hafi 30. júní 2011 sótt um greiðsluaðlögun samkvæmt lögum nr. 101/2010. Í því felist m.a. að sóknaraðila sé óheimilt að krefjast eða taka við greiðslu á kröfu úr hendi Vilhjálms eða ráðast í hvers konar aðgerðir til innheimtu krafna sinna. Verður málatilbúnaður sóknaraðila helst skilinn þannig að hann telji að allar líkur hafi verið á því að Vilhjálmur hefði greitt kröfurnar hefði varnaraðili afhent sóknaraðila skuldaskjölin í tíma.  

Fram er komið að varnaraðili afhenti sóknaraðila umbeðin skjöl 17. febrúar 2011, og því rúmum fjórum mánuðum áður en Vilhjálmur leitaði eftir heimild til greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum nr. 101/2010. Af framlögðu yfirliti úr vanskilaskrá má sjá að fyrir þann tíma, og allt frá upphafi árs 2008, hafi ýmsir kröfuhafar leitað fullnustu krafna sinna á hendur Vilhjálmi, ýmist með greiðsluáskorunum eða stefnu, auk þess sem árangurslaust fjárnám hafði ítrekað farið fram í eignum hans. Hvorki gögn þessi né nokkuð annað sem fram er komið málinu þykir gefa tilefni til að ætla að Vilhjálmur hefði staðið skil á kröfum sóknaraðila, þótt sóknaraðili hefði sjálfur haft skuldaskjölin undir höndum. Getur dómurinn því ekki fallist á að aðgerðaleysi varnaraðila hafi neinu breytt í þessu efni.

Samkvæmt öllu framanrituðu er það niðurstaða dómsins að þrátt fyrir að varnaraðili hafi með aðgerðaleysi sínu vanrækt skyldur sínar gagnvart sóknaraðila, hafi ekki verið leiddar nægar líkur að því að sú vanræksla hafi leitt til tjóns fyrir sóknaraðila. Verður því að hafna kröfu sóknaraðila um að viðurkenna kröfu hans sem búskröfu samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð varnaraðila. 

Eins og atvikum er hér háttað, en einnig með hliðsjón af 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. og 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., þykir rétt að varnaraðila verði gert að greiða sóknaraðila málskostnað. Þykir hann hæfilega ákveðinn 1.300.000 krónur.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kröfu sóknaraðila, Þórarins Arnars Sævarssonar, að fjárhæð 54.093.095 krónur, sem hann lýsti sem búskröfu samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð varnaraðila, Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf., er hafnað.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 1.300.000 krónur í málskostnað.