Hæstiréttur íslands

Mál nr. 428/2009


Lykilorð

  • Kaupsamningur
  • Lánssamningur
  • Gjalddagi
  • Sýkna að svo stöddu
  • Skriflegur málflutningur


                                                        

Fimmtudaginn 11. mars 2010.

Nr. 428/2009.

Óskar Stefán Gíslason

(Gylfi Thorlacius hrl.)

gegn

Holtshúsum ehf.

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

Kaupsamningur. Lánssamningur. Gjalddagi. Sýkna að svo stöddu. Skriflegur málflutningur.

Ó, E og J seldu F alla hluti í félaginu Í og rann kaupverðið inn á tiltekinn bankareikning í eigu félagsins H, sem var einnig í eigu þeirra. Talið var að greiðslur frá F, sem bárust inn á bankareikning H, yrðu að skoðast sem lánveiting til H frá Ó, E og J, sem nýta hefði átt til ráðstafana í tengslum við að koma nokkrum fasteignum í verð. Jafnframt yrði að líta svo á að lánið hefði ekki átt að koma til endurgreiðslu fyrr en þessu væri lokið. Ó þótti ekki hafa sýnt fram á að fullnægt væri skilyrðum til að telja gjalddaga lánsins kominn samkvæmt þessum skilmála og gæti hann því ekki krafið H um greiðslu lánsins. Var H því sýkn að svo stöddu af kröfu Ó.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. júlí 2009. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 15.119.728 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 27. júní 2007 til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndi hefur ekki sótt þing í málinu eftir að hann skilaði greinargerð fyrir Hæstarétti. Að fram kominni skriflegri sókn áfrýjanda samkvæmt 4. mgr. 158. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála með áorðnum breytingum var málið dómtekið án munnlegs flutnings.

Eins og fram kemur í héraðsdómi er ágreiningur aðilanna sprottinn af því að 31. maí 2007 seldu áfrýjandi, Eyjólfur Unnar Eyjólfsson og Jóhann Bjarki Ólason Farþingi ehf. alla hluti í Íslandsfrakt ehf. fyrir 110.000.000 krónur, sem skyldu renna inn á tiltekinn bankareikning í eigu stefnda, en fyrir liggur að áfrýjandi og fyrrnefndir tveir menn voru þá jafnframt einu hluthafarnir í stefnda. Áður en þessi kaupsamningur var gerður mun Íslandsfrakt ehf. hafa ráðstafað nokkrum fasteignum til stefnda, sem mun jafnframt hafa tekið yfir skuldbindingar vegna þeirra. Fallist verður á með héraðsdómi að líta verði svo á að greiðslur frá Farþingi ehf., sem bárust inn á bankareikning stefnda, hafi verið lánveiting til hans frá áfrýjanda og hinum hluthöfunum tveimur, sem nýta hafi átt til ráðstafana í tengslum við þessar fasteignir til að koma þeim í verð, svo og að þetta lán hafi ekki átt að koma til endurgreiðslu fyrr en að því loknu. Þegar málið var dómtekið í héraði hafði ekki verið sýnt fram á að fullnægt væri skilyrðum til að telja gjalddaga lánsins kominn samkvæmt þessum skilmála. Fyrir Hæstarétti telur áfrýjandi þessum skilyrðum á hinn bóginn fullnægt og vísar í því sambandi meðal annars til þess að stefndi hafi 26. október 2009 gefið út afsal fyrir tiltekinni fasteign, sem áfrýjandi lagði fram með skriflegri sókn í málinu 5. mars 2010. Skjal þetta var lagt fram löngu eftir að lokið var fresti áfrýjanda til gagnaöflunar fyrir Hæstarétti, sbr. 1. mgr. 160. gr. laga nr. 91/1991, og verður því ekkert til þess litið. Áfrýjandi hefur því ekki nú frekar en fyrir héraðsdómi sýnt fram á að sá tími sé kominn að hann geti krafið stefnda um endurgreiðslu lánsins. Hinn áfrýjaði dómur verður því staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Óskar Stefán Gíslason, greiði stefnda, Holtshúsum ehf., 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. maí 2009.

Mál þetta höfðaði Óskar Stefán Gíslason, kt. 260459-5469, Miðvangi 6, Hafnarfirði, með stefnu birtri 11. júlí 2008 á hendur Holtshúsum ehf., kt. 420307-3650, Fífuseli 4, Reykjavík.  Málið var dómtekið 7. apríl sl. 

Stefnandi krefst greiðslu á 15.119.728 krónum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 17.500.000 krónum frá 27. júní 2007 til 23. júlí sama ár, af 10.000.000 króna frá þeim degi til 31. október sama ár, en af 15.119.728 krónum frá þeim degi til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar að fjárhæð 711.479 krónur. 

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda.  Til vara krefst hann sýknu að svo stöddu.  Til þrautavara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.  Þá krefst hann málskostnaðar. 

Stefnandi var einn hluthafa í Íslandsfrakt ehf.  Átti hann 25% hlutafjár, en Eyjólfur Unnar Eyjólfsson átti 50% hlut og Jóhann Bjarki Ólason 25%.  Þeir eiga einnig stefnda í sömu hlutföllum.  Þessir þrír aðilar seldu Farþingi ehf. allt hlutafé í Íslandsfrakt vorið 2007.  Aðilar hafa lagt fram í málinu samning dagsettan 31. maí 2007, en í honum segir að hann komi í stað samnings um sama efni dags. 3. apríl 2007.  Lögðu stefnandi og stefndi raunar fram sitt hvort eintakið.  Á eintaki því er stefnandi lagði fram var undirritun hans ekki á skjalinu, en hana er að finna á eintakinu sem stefndi lagði fram.  Er fullyrt í stefnu að stefnandi hafi ekki undirritað samninginn. 

Söluverð hlutabréfanna samkvæmt samningnum var 110.000.000 króna.  70 milljónir skyldi greiða 8. júní 2007 og eftirstöðvar er áreiðanleikakönnun væri lokið, þó ekki síðar en 8. júlí 2007.  Kaupverðið skyldi greitt inn á tiltekinn bankareikning stefnda Holtshúsa. 

Stefnandi sagði fyrir dómi að hann hefði ekki tekið þátt í samningagerð um söluna.  Hann hefði treyst félögum sínum fyrir þessu eins og öðru.  Hann sagði að Unnar hefði talað um að þetta væri millilending fyrir peningana að láta leggja þá inn á reikning stefnda.  Hann sagði að Holtshús hefði verið stofnað til að halda utan um þær eignir er þeir hefðu haldið eftir úr Íslandsfrakt, þ.e. fasteignir.  Hann kvaðst ekki muna til þess að sagt hefði verið að féð ætti að fara í viðhald og annan kostnað.  Hann hefði haldið að það ætti að borga út strax.  Aldrei hefði verið talað um neitt lán. 

Eyjólfur Unnar Eyjólfsson sagði fyrir dómi að þeir hefðu tekið fasteignirnar út úr Íslandsfrakt áður en þeir seldu félagið.  Það hefði verið nauðsynlegt að fá fé til að ljúka við fasteignirnar og selja þær.  Skuldirnar hefðu ekki fylgt Íslandsfrakt. 

Stefnandi lagði fram umboð er hann veitti Eyjólfi Unnari til að ganga frá sölu á hlutafé sínu í Íslandsfrakt og undirrita tilheyrandi gögn.  Umboðið er dagsett 26. júní 2007, en þann dag voru greiddar 70 milljónir inn á reikning stefnda.  Farþing greiddi síðan 20.478.911 krónur inn á reikninginn þann 31. október 2007.  Meira var ekki greitt af kaupverðinu og höfðaði Farþing mál til að rifta kaupunum. 

Samkvæmt gögnum málsins voru stefnanda greiddar 7.500.000 krónur þann 23. júlí 2007 og 2.000.000 þann 2. nóvember sama ár.  Þá fullyrðir stefndi í greinar­gerð sinni að 3. júlí hafi verið greiddar 500.000 krónur.  Því mótmælti lögmaður stefnanda í málflutningi.  Liggur frammi ljósrit færsluyfirlits þennan þar sem 500.000 krónur eru teknar af reikningi stefnda og greiddar stefnanda.  Stefnandi kannaðist við í skýrslu sinni fyrir dómi að hafa fengið þessar greiðslur. 

Nokkru áður en hlutaféð var selt var gengið frá yfirlýsingu þar sem eignarhald að sjö fasteignahlutum var fært frá Íslandsfrakt til stefnda.  Var yfirlýsingin staðfest af löggiltum endurskoðanda og henni þinglýst. 

Aðilar lögðu undir rekstri málsins fram nokkur skjöl er sýna fasteignaviðskipti stefnda og áður Íslandsfraktar. 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi kveðst byggja mál þetta á almennum reglum eignarréttar og kröfu- og samningaréttar.  Einnig byggi hann á reglum um óréttmæta auðgun. 

Stefnandi kveðst hafa átt 25% hlutafjár í Íslandsfrakt ehf.  Hann kveðst hafa veitt framkvæmdastjóra stefnda umboð til að ganga frá sölu hlutafjárins.  Í því umboði hafi ekki falist heimild til ráðstöfunar söluverðsins.  Hann hafi veitt umboð sitt til sölunnar gegn því sjálfsagða og eðlilega skilyrði að hann fengi greitt andvirðið.  Stefnda hafi borið að greiða stefnanda hans hluta af því.  Enn sé eftir að greiða stefnanda 15.119.728 krónur af þeim hluta söluverðsins sem sannanlega hafi verið greiddur.  Greitt hafi verið inn á reikning stefnda og því beri honum að greiða stefnanda hans hlut.  Hann sé réttur eigandi þessa fjár. 

Stefnandi segir að umráð stefnda yfir kaupverðinu séu með öllu heimildarlaus. 

Í öðru lagi byggir stefnandi á því að hann hafi eignast kröfu á stefnda þegar honum var greitt söluverðið.  Ákvæði kaupsamningsins um að kaupverð skuli greitt á reikning stefnda skapi honum engan rétt til fjárins.  Með þessu sé aðeins tilgreindur greiðslustaður.  Þetta feli aðeins í sér tímabundið lán til stefnda sem honum hafi borið að endurgreiða um leið og krafist var.  Stefnandi kveðst hafa krafist greiðslu með bréfi dags. 30. apríl 2008. 

Verði ekki á fyrrgreindar málsástæður fallist byggir stefnandi á því að stefndi hafi auðgast með óréttmætum hætti er kaupverðið var greitt inn á reikning hans.  Með kaupsamningnum hafi forsvarsmenn félagsins tilgreint greiðslustað þar en ekki hjá réttum eigendum.  Þetta hafi verið gert án vitundar og vilja stefnanda.  Stefndi hafi ekki innt neitt gagngjald af hendi.  Því hafi stefndi auðgast á kostnað stefnanda um fjárhæð er nemur stefnufjárhæðinni. 

Loks byggir stefnandi á því að greiðsluskylda hafi verið viðurkennd með inn­borgun að fjárhæð 7.500.000 krónur hinn 23. júlí 2007. 

Stefnandi krefst vaxta frá þeim degi er kaupverð var greitt inn á reikning stefnda, enda hafi stefnda þá borið að greiða það réttum eiganda. 

Í stefnu er skorað á stefnda að leggja fram gögn úr bókhaldi sínu um meðferð eða ráðstöfun á söluandvirði hlutanna í Íslandsfrakt, 90.478.911 króna, en fé þetta hafi verið lagt inn á reikning stefnda 27. júní og 31. október 2007.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir á því að stefnandi hafi ásamt félögum sínum ákveðið að lána stefnda söluandvirðið.  Vísar hann til áritunar stefnanda á kaupsamninginn.  Tilgangur lánveitingarinnar hafi verið að gera stefnda kleift að ljúka við þau fasteignaverkefni sem hann vann að.  Lánið hafi átt að endurgreiða þegar þeim verkefnum væri lokið og þau hefðu verið gerð upp.  Uppgjörinu sé ekki lokið og því sé gjalddagi ekki kominn.  Því beri að sýkna. 

Stefndi mótmælir öllum málsástæðum stefnanda. 

Stefndi mótmælir því að hann hafi auðgast með ólögmætum hætti á kostnað stefnanda.  Gjalddagi lánsins sem stefnandi veitti sé ekki kominn.  Stefndi hafi ekki auðgast enda hafi lánsfénu verið ráðstafað í fasteignaverkefni sem tilheyrðu Íslands­frakt, félaginu sem umræddar greiðslur fengust fyrir.  Greiðslum hafi verið ráðstafað til framkvæmda og þá um leið til að auka virði eigna og greiða af lánum.  Þróun á fasteignamarkaði hafi hins vegar rýrt verðmæti eignanna og hafi það gert endur­greiðslu lána erfiðari. 

Stefndi mótmælir því að stuðst hafi verið við umboð sem ekki hafi heimilað ráðstöfun söluandvirðisins til stefnda.  Ljóst sé að stefnandi hafi samþykkt ráðstöfun söluandvirðisins til stefnda.  Tilgangurinn geti ekki hafa verið annar en sá að lána fjárhæðina.  Þá sé tilgangur lánveitingarinnar ljós. 

Stefndi mótmælir dráttarvaxtakröfu.  Þó svo að greiðsluskylda væri til staðar hefði hún stofnast seinna heldur en stefnandi byggi á, í fyrsta lagi við þingfestingu málsins. 

Varakröfu um sýknu að svo stöddu byggir stefndi á því að lánið hafi verið veitt til að ljúka umræddum fasteignaverkefnum.  Greiða hafi átt til baka þegar umræddar fasteignir hefðu verið seldar og greiddar.  Sá tími sé ekki kominn og því ekki gjald­dagi lánsins. 

Stefndi vísar til laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup og meginreglna samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga, vanefndir og vanefndaúrræði. 

Forsendur og niðurstaða

Stefndi var hluthafi í Íslandsfrakt og er hluthafi í stefnda.  Í stefnu er ekki fjallað neitt um fasteignaviðskipti þau sem Íslandsfrakt og síðar stefndi stóð í, en stefnandi sat í stjórn beggja félaganna.  Er ótrúverðugt að stefnandi hafi ekki fylgst með og ekki vitað neitt um rekstur félaganna. 

Ákveðið var í kaupsamningnum að söluandvirðið skyldi greitt inn á reikning stefnda.  Sú skýring eða tilgáta stefnanda að þetta hafi átt að vera millilending, greiða hafi átt hluthöfunum strax, er ekki trúverðug.  Þegar litið er til allra atvika er nær­tækust og líkleg sú skýring stefnda, og Eyjólfs Unnars í aðilaskýrslu hans, að féð ætti að nýta í rekstri stefnda og að reyna með ráðstöfun eigna að tryggja fé sem unnt væri að ráðstafa til hluthafanna. 

Að þessu athuguðu verður heldur ekki fallist á að stefndi hafi auðgast með óréttmætum hætti með því að féð rann til hans. 

Stefnandi byggir á því til vara að féð hafi runnið sem lánsfé til stefnda.  Á þessu byggir stefndi einnig mál sitt og verður því að leggja það til grundvallar.  Ekki verður fallist á það að stefnandi geti krafist endurgreiðslu þegar í stað.  Líta verður svo á að féð skyldi nýtt til reksturs stefnda.  Að til endurgreiðslu komi þegar viðskipti hafa verið gerð upp og fjárhagsstaða félagsins leyfir, eða unnt er að slíta félaginu.  Því er ekki haldið fram að sú staða sé komin upp.  Gögn þau um fasteignaviðskipti sem lögð voru fram sýna ekki að stefndi hafi ráðstafað öllum sínum og eignum og innheimt allt sitt fé.  Hefur stefndi því ekki sannað að hann geti nú þegar krafið stefnda um endur­greiðslu fjárins. 

Ekki er unnt að fallast á það með stefnanda að með því að greiða 7.500.000 krónur til stefnanda hafi stefndi viðurkennt skyldu sína til að greiða stefnanda fjórðung söluandvirðisins.  Eins og að framan er lýst er talið að aðilar hafi sammælst um að nýta féð til að ljúka við húsbyggingar sem stefndi, áður Íslandsfrakt, hafði með höndum og freista þess að ná hagnaði af þeim viðskiptum.  Greiðsla á fyrirfram ætluðum hagnaði er ekki í ósamræmi við slíka ráðagerð. 

Þar sem lagt er til grundvallar í samræmi við málatilbúnað stefnda að hann skuldi stefnanda fé verður hann aðeins sýknaður að svo stöddu.  Þá er ekki tímabært að leysa úr um fjárhæð skuldarinnar. 

Stefnanda verður í samræmi við þessa niðurstöðu gert að greiða stefnda 300.000 krónur upp í málskostnað hans. 

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. 

D ó m s o r ð

Stefndi, Holtshús ehf., er sýkn að svo stöddu af kröfum stefnanda, Óskars Stefáns Gíslasonar.

Stefnandi greiði stefnda 300.000 krónur í málskostnað.