Hæstiréttur íslands
Mál nr. 690/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Farbann
Þriðjudaginn 13. október 2015.
Nr. 690/2015. Lögreglustjórinn á Austurlandi
(Helgi Jensson fulltrúi)
gegn
X
(Stefán Þór Eyjólfsson hdl.)
Kærumál. Gæsluvarðhald. Farbann.
Felldur var úr gildi úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, en X þess í stað gert að sæta farbanni á grundvelli 1. mgr. 100. gr. sömu laga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. október 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 7. október 2015, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi til miðvikudagsins 21. október 2015 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að henni verði gert að sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds, en að því frágengnu að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar, en til vara að varnaraðila verði gert að sæta farbanni.
Varnaraðili hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 9. september 2015 vegna rökstudds gruns um aðild að innflutningi á miklu magni fíkniefna hingað til lands. Þá var henni gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldinu en henni hefur nú verið aflétt. Að virtum gögnum málsins hefur sóknaraðili ekki leitt í ljós að enn séu fyrir hendi rannsóknarhagsmunir til að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Aftur á móti er varnaraðili erlendur ríkisborgari og hefur engin tengsl við landið. Samkvæmt því og með vísan til b. liðar 1. mgr. 95. gr. og 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 verður varnaraðila bönnuð brottför af landinu þann tíma sem gæsluvarðhaldi var ætlað að vara samkvæmt hinum kærða úrskurði, enda er sú ráðstöfun fullnægjandi til að tryggja nærveru varnaraðila.
Dómsorð:
Varnaraðila, X, er bönnuð för frá Íslandi allt til miðvikudagsins 21. október 2015 klukkan 16.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 7. október 2015.
Sóknaraðili, lögreglustjórinn á Austurlandi krefst þess að kærðu, X, fæddri [...],[...] ríkisborgara, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi í 2 vikur frá miðvikudeginum 7. október 2015 kl. 16:00, þ.e. til miðvikudagsins 21. október kl. 16:00, eða þar til dómur gengur í máli hennar, sem er nr. [...], en ákæra verði gefin út í því eins fljótt og mögulegt verði.
Til vara er þess krafist að kærða sæti farbanni.
Kærða krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað, til vara að hún sæti aðeins farbanni, en til þrautavara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími en krafa sóknaraðila hljóðar um.
Krafa um gæsluvarðhald er byggð á a. og b. lið 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008, um meðferð sakamála.
Varakrafa er studd við 1. mgr. 100. gr., sbr. b. lið 1. mgr. 95. gr. sömu laga.
Sóknaraðili kveðst gruna kærðu um mjög stórfelldan innflutning á fíkniefnum, svo varði við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa flutt til landsins mjög mikið magn af MDMA, falið með tilteknum hætti í nánar greindri bifreið, sem hafi komið með ferju til [...] að morgni 8. september sl. Hafi kærða verið farþegi, en eiginmaður hennar ökumaður. Hafi hann játað sök, en kærða neiti sök og kveðist ekkert hafa vitað um efnið.
Ekki sé samræmi með framburði kærðu og nánar greinds vitnis, m.a. um það hvert för hafi verið heitið að sögn kærðu og hafi kærða ekki komið með skynsamlegar skýringar á þessu ósamræmi. Þá hafi hún borið skýrt um að þau eiginmaðurinn hafi verið í fjárhagskröggum, en samt hafi þau ákveðið að fara í dýra Íslandsferð. Kærða hafi engar skynsamlegar skýringar gefið á því hvaðan hún telji að peningar til fararinnar hafi komið. Hún sé því ennþá undir rökstuddum grun um að hafa tekið þátt í innflutningi efnisins. Sendar hafi verið til útlanda beiðnir um rannsókn ákveðinna atriða, sem m.a. beinist að því að upplýsa um þátttöku kærðu.
Sóknaraðili segir um að ræða rökstuddan grun um stórfellt fíkniefnabrot, sem geti varðað allt að 12 ára fangelsi og kærða sé orðin meira en 15 ára gömul.
Ætla megi að kærða muni torvelda rannsókn málsins ef henni verði sleppt úr haldi, en miklu máli skipti fyrir lögreglu að reyna að finna upplýsingar um þá sem tengist málinu, bæði innanlands og utan og eins að upplýsa frekar um þátt kærðu. Þá megi ætla að kærða muni reyna að komast úr landi, enda sé hún erlendur ríkisborgari án tengsla við Ísland.
Kærða var úrskurðuð til að sæta gæsluvarðhaldi í tvær vikur, eða til miðvikudagsins 23. september kl. 16:00, með úrskurði héraðsdóms Austurlands sem kveðinn var upp þann 9. september sl. Gæsluvarðhaldið var síðan framlengt í tvær vikur með úrskurði héraðsdóms Reykjaness sem kveðinn var upp þann 23. september sl. og staðfestur með dómi Hæstaréttar 28. september. Í framhaldi af því var kærða vistuð í fangelsinu á Litla- Hrauni og síðan í fangelsinu á Akureyri. Sóknaraðili segir að krafa um framlengingu gæsluvarðhalds sé nú lögð fyrir þennan dómstól með heimild í 49. gr. laga nr. 88/2008 til hagræðis og flýtis.
Niðurstaða:
Telja verður, þrátt fyrir eindregna neitun kærðu og ákveðinn framburð eiginmanns hennar, að rökstuddur grunur beinist ennþá að henni um stórfellt brot gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga, sem geti varðað fangelsi. Kærða sætir ekki lengur einangrun, en engu að síður telur dómurinn að fallast verði á það að hætta sé á að hún geti torveldað þá rannsókn sem enn er unnið að samkvæmt ofangreindu, ef hún gengur laus, með því að hafa áhrif á samseka eða vitni. Er skilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála því fullnægt til að hún sæti áfram gæsluvarðhaldi. Gæsluvarðhaldstími sem krafist er þykir eftir atvikum ekki vera úr hófi fram. Verður aðalkrafa sóknaraðila því tekin til greina.
Agnes Björk Blöndal fulltrúi fór með málið hér fyrir dómi af hálfu sóknaraðila, en Stefán Þór Eyjólfsson héraðsdómslögmaður sem skipaður verjandi fyrir hönd kærðu.
Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Kærða, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 21. október 2015, klukkan 16:00.