Hæstiréttur íslands

Mál nr. 541/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


         

Fimmtudaginn 18. október 2007.

Nr. 541/2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason, saksóknari)

gegn

X

(Sigmundur Hannesson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr., sbr. 106. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. október 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. október 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 13. nóvember 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

                         Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. október 2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag á grundvelli ákvæða c-liðar 1. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála að dómfellda X, kt. [...], [...], Reykjavík, verði með úrskurði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 13. nóvember nk. kl. 16:00.

Dómfelldi hefur mótmælt gæsluvarðhaldskröfunni

Samkvæmt greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hefur dómfelldi sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 frá 8. september sl. Með dómi Hæstaréttar Íslands frá 12. september nr. 468/2007 hafi úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur í máli R-424/2007 verið staðfestur og  hafi dómfellda þá verið gert að sæta gæsluvarðhaldi til 5. október. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 5. október sl. hafi dómfellda verið gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til 24. október nk. en þó eigi lengur en þar til dómur féllil í máli hans.

Í dag hafi verið kveðinn upp dómur Hérðaðsdóms Reykjaness í máli dómfellda þar sem hann var sakfelldur  fyrir auðgunarbrot, þjófnaði og nytjastustuld, en brotin voru framin 7. september sl. Ákæra í því máli var gefin út 27. september sl. og málið dómtekið þann 3. október. Dómþoli hafi játað ætluð brot sín fyrir dóminum og hafi málið verið dómtekið sama dag. Tilgreind brot hafi verið framin í kjölfar 18 mánaða fangelsisdóms frá 6. september sl.

Þann 6. september sl. hafi dómfelldi verið dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur til þess að sæta fangelsi óskilorðsbundið í 18 mánuði fyrir ýmis auðgunarbrot, bæði einn og í félagi við annan mann en frá þeirri refsingu hafi komið til frádráttar þriggja daga gæsluvarðhald. Dómur þessi hafi verið birtur dómfellda þann 7. september og hafi hann þá lýst því yfir að hann tæki sér lögbundinn fjögurra vikna áfrýjunarfrest. Hann hefur nú lýst yfir áfrýjun í því máli og hafi áfrýjunarstefna verið gefin út þann 12. október sl. og sé sá dómur ekki fullnustuhæfur. Dómfelldi hafi í þeim dómi verið fundinn sekur um auðgunarbrot, innbrot, þjófnaði og hylmingu framda á tímabilinu frá  10. janúar fram til  mars 2007. 

Með vísan til brotaferils dómfellda undanfarið, sakfellingar dómþola í dag þar sem hann hlaut 8 mánaða óskilorðsbundinn fangelsisdóm og að dómfelldi hlaut 18. mánaða óskilorðsbundinn fangelsisdóm 6. sept. sl. fyrir ýmis auðgunarbrot, þá er það mat lögreglu að dómfelldi muni halda áfram afbrotum gangi hann laus og því er nauðsynlegt að hann sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er í áfrýjunarfresti og eru til meðferðar fyrir æðri dómi. Þá hafi dómfelldi játað að hafa verið í fíkniefnaneyslu á þeim tíma sem hann framdi innbrotið þann 7. sept. og hann hafi ætlað selja ætlað þýfi upp í skuldir. Um er ræða stórfelld auðgunarbrot þar sem miklum fjárverðmætum var stolið, þar sem dómþoli framdi þau í kjölfar refsidóms fyrir ýmis auðgunarbrot.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c. liðar 1. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991, er þess krafist að krafan nái fram að ganga eins og hún er sett fram.

Dómfelldi hefur á undanförnum vikum í tvígang verið sakfelldur fyrir auðgunarbrot og hylmingu og hefur hann lýst yfir áfrýjun vegna fyrri dómsins frá í september en tekið sér lögmæltan áfrýjunarfrest vegna dómsins sem kveðinn var upp yfir honum fyrr í dag. Dómfelldi hefur sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli ákvæða c-liðar 103. gr. laga nr. 19/1991 frá 8. september sl. 

Samkvæmt 106. gr. laga nr. 19/1991 lýkur gæsluvarðhaldi þegar dómur hefur verið kveðinn upp í máli. Eftir kröfu ákæranda getur dómari þó úrskurðað að gæsluvarðhald skuli haldast meðan á fresti samkvæmt 2. mgr. 151. gr. laganna stendur. Með vísan til framanritaðs og c-liðar 103. gr. laga nr. 19/1991 verður krafa lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu tekin til greina eins og hún er fram sett.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Dómfelldi, X, sæti gæsluvarðhaldi, allt til þriðjudagsins 13. nóvember 2007, kl. 16:00.