Hæstiréttur íslands
Mál nr. 428/2003
Lykilorð
- Framsal
- Gæsluvarðhald
- Miskabætur
- Gjafsókn
|
|
Miðvikudaginn 19. maí 2004. |
|
Nr. 428/2003. |
Íslenska ríkið (Óskar Thorarensen hrl.) gegn Ársæli Snorrasyni (Jón Magnússon hrl.) og gagnsök |
Framsal. Gæsluvarðhald. Miskabætur. Gjafsókn.
Á var framseldur til Íslands frá Hollandi í maí 2002 vegna gruns um aðild að mannshvarfi. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um réttmæti framsalsins og framkvæmd þess. Á sætti gæsluvarðhaldi hér á landi í 14 daga eftir framsalið, frá 22. maí til 4. júní, og höfðaði mál til heimtu skaðabóta. Í kröfu lögreglu 3. júní 2002 um framlengingu gæsluvarðhalds Á var lögð sérstök áhersla á að rökstuddur grunur væri um vitneskju tiltekins manns, H, um ætlaðan þátt Á í mannshvarfinu en ekki hefði tekist að taka skýrslu af honum. Á var síðan leystur úr gæsluvarðhaldi 4. júní 2002, klukkustundu eftir að lokið var skýrslutöku af H fyrir dómi. Að öllum gögnum virtum var ekki talið að Í hefði fært fyrir því haldbær rök, að ekki hafi mátt taka skýrslu af H miklu fyrr en unnt var að yfirheyra Á. Þá varð ekki ráðið af þeim skýrslum, sem fyrir lágu í málinu, hvers vegna Á hafði ekki verið yfirheyrður strax á fyrstu dögum gæsluvarðhaldsins. Þótt ekki yrði fallist á að fyrirhuguð skýrslutaka af H hafi, eins og á stóð, getað réttlætt gæsluvarðhald Á varð ekki séð, að unnt hafi verið að yfirheyra hann til hlítar á þeim skamma tíma, sem lögregla mátti halda honum handteknum. Því hafi verið lögmæt skilyrði til þess að úrskurða hann í gæsluvarðhald í þágu rannsóknar málsins. Ekki hafi þó verið sýnt fram á að nauðsyn hafi borið til að svipta Á frelsi í þessu skyni lengur en í þrjá daga. Voru Á því dæmdar bætur vegna gæsluvarðhalds að ósekju.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Árni Kolbeinsson og Garðar Gíslason.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. nóvember 2003 og krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara er þess krafist, að fjárhæð kröfu gagnáfrýjanda verði lækkuð verulega og málskostnaður felldur niður.
Málinu var gagnáfrýjað 11. febrúar 2004. Gagnáfrýjandi krefst þess aðallega, að aðaláfrýjandi greiði sér 14.194.484 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. desember 2002 til greiðsludags. Til vara krefst gagnáfrýjandi staðfestingar héraðsdóms. Í fyrra tilvikinu er krafist staðfestingar á málskostnaðarákvörðun héraðsdóms auk málskostnaðar fyrir Hæstarétti en í hinu síðara málskostnaðar hér fyrir dómi. Hér er um breytta kröfugerð gagnáfrýjanda að ræða, en við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti féll hann frá kröfu um bætur vegna þeirra áhrifa, sem hann taldi beiðni íslenskra stjórnvalda um framsal hafa haft á afplánun refsivistar sinnar í Hollandi.
Fyrir Hæstarétt hafa verið lagðar sjö lögregluskýrslur, þar á meðal vitnaskýrsla af Ó 16. ágúst 1999 og yfirheyrsluskýrslur af E sem grunuðum 12. og 13. desember 2000.
Málsatvikum er lýst í héraðsdómi. Með skírskotun til forsendna dómsins er staðfest niðurstaða hans um réttmæti framsals gagnáfrýjanda frá Hollandi 21. maí 2002 og framkvæmd þess.
Í héraðsdómi er gerð grein fyrir því gæsluvarðhaldi, sem gagnáfrýjandi sætti hér á landi í 14 daga eftir framsalið og framvindu rannsóknarinnar á þeim tíma, meðal annars tilraunum lögreglu til að fá tekna skýrslu af H, fyrst hjá lögreglu og síðan fyrir dómi. Eftir að skýrsla hafði verið tekin af honum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 4. júní 2002 var gagnáfrýjanda sleppt úr gæsluvarðhaldi. Með bréfi lögreglustjórans í Reykjavík 31. október 2002 var gagnáfrýjanda tilkynnt, að rannsókn þeirri, sem beinst hefði að honum vegna hvarfs tiltekins manns, hefði verið hætt, sbr. 1. mgr. 76. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Er ekki unnt að fallast á það með héraðsdómi, að sú ályktun verði örugglega dregin af því bréfi, að gagnáfrýjandi hafi ekki lengur verið undir rökstuddum grun um aðild að því mannshvarfi, sem til rannsóknar var og enn er ekki ljóst, hvernig bar að höndum.
Í kröfu lögreglustjórans í Reykjavík 22. maí 2002 um að gagnáfrýjanda yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi til 3. næsta mánaðar kom fram, að hann hefði gefið skýrslu hjá lögreglu þegar við komu til landsins og kannaðist ekki við aðild að málinu. Spyrja þyrfti hann ítarlega um ætlað sakarefni, en rannsóknin væri á algjöru byrjunarstigi hvað hann varðaði. Fara þyrfti með honum yfir fjölmörg atriði, sem fram hefðu komið, bæði í framburði annarra og við símahleranir, þar á meðal hjá honum sjálfum. Jafnframt væri ljóst, að í kjölfar þess myndi þurfa að taka frekari skýrslur af öðrum. Brýna nauðsyn bæri til að tryggja, að hann gæti ekki torveldað rannsókn málsins með því að hafa áhrif á vitni eða samseka eða á annan hátt. Þá væri hætta á, að gagnáfrýjandi myndi reyna að hverfa úr landi til þess að koma sér undan frekari rannsókn, ef hann gengi laus. Héraðsdómur féllst á þessi sjónarmið 22. maí og úrskurðaði gagnáfrýjanda í gæsluvarðahald til 3. júní 2002.
Í kröfu lögreglustjórans í Reykjavík 3. júní 2002 um framlengingu gæsluvarðhalds gagnáfrýjanda var lögð sérstök áhersla á, að rökstuddur grunur væri um vitneskju H um ætlaðan þátt gagnáfrýjanda í mannshvarfinu, en ekki hefði tekist að taka af H skýrslu þrátt fyrir miklar tilraunir til þess. Væri ófært, að gagnáfrýjandi gengi laus meðan ekki hefði verið tekin skýrsla af þessu vitni og gæti hann torveldað rannsóknina, ef hann næði tali af vitninu áður en til skýrslutöku kæmi. Héraðsdómur framlengdi gæsluvarðhald gagnáfrýjanda um fjóra daga með úrskurði 3. júní. Hvorki var sá úrskurður né hinn fyrri kærður til Hæstaréttar.
Í málatilbúnaði aðaláfrýjanda er lögð á það sérstök áhersla, að ekki hafi verið unnt að yfirheyra H fyrr en lögregla hefði gagnáfrýjanda í vörslum sínum. Í gögnum málsins kemur fram, að fyrrverandi sambúðarkona H hafi greint lögreglu frá því 26. mars 2001, að H hafi sagt henni, að gagnáfrýjandi hafi skýrt honum frá því, að hann hefði ásamt E drepið þann mann, sem horfinn var, og komið líki hans fyrir á stað, sem hann hafi boðist til að sýna H. Er nánar frá þessu sagt í héraðsdómi. Þetta var ekki ný vitneskja, því að í vitnaskýrslu Ó 16. ágúst 1999 kom meðal annars fram, að framangreind sambúðarkona H, sem áður hafði verið sambúðarkona hans, hefði skömmu áður sagt sér sömu sögu og hún sagði lögreglu 26. mars 2001. E var yfirheyrður af lögreglu sem grunaður í desember 2000 og neitaði þá sök. Þegar þetta er virt og í ljósi annarra gagna málsins verður ekki talið, að aðaláfrýjandi hafi fært fyrir því haldbær rök, að ekki hafi mátt taka skýrslu af H miklu fyrr en unnt var að yfirheyra gagnáfrýjanda.
Gagnáfrýjandi var leystur úr gæsluvarðhaldi 4. júní 2002, klukkustundu eftir að lokið var skýrslutöku af H fyrir dómi. Af hálfu aðaláfrýjanda er því haldið fram, að þessi skýrslutaka hafi ekki verið eina ástæða þess, að nauðsynlegt þótti að hneppa gagnáfrýjanda í gæsluvarðhald, og vísar hann um það einkum til áðurnefndrar kröfu lögreglustjórans í Reykjavík 22. maí 2002. Ekkert liggur hins vegar fyrir um það í málinu hvað lögregla aðhafðist annað á gæsluvarðhaldstímanum en að reyna að fá H til skýrslutöku og yfirheyra gagnáfrýjanda þrisvar sinnum. Í því sambandi er þess að gæta, að gagnáfrýjandi var fyrst yfirheyrður 21. maí, þegar hann kom til landsins, og síðan ekki fyrr en átta dögum síðar 29. maí. Þá var hann yfirheyrður 31. maí og 3. júní 2002. Af þessum skýrslum verður ekki ráðin skýring á því, hvers vegna gagnáfrýjandi var ekki yfirheyrður strax á fyrstu dögum gæsluvarðhaldsins.
Áður var komist að þeirri niðurstöðu, að krafa um framsal gagnáfrýjanda til Íslands hafi verið réttmæt og nauðsynleg, svo að unnt væri að yfirheyra hann sem grunaðan um aðild að mannshvarfi og halda áfram rannsókn málsins. Þótt ekki verði fallist á, að fyrirhuguð skýrslutaka af H hafi, eins og á stóð, getað réttlætt gæsluvarðhald gagnáfrýjanda verður ekki séð, að unnt hafi verið að yfirheyra hann til hlítar á þeim skamma tíma, sem lögregla mátti halda honum handteknum, sbr. 3. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar. Voru því lögmæt skilyrði til þess að úrskurða hann í gæsluvarðhald í þágu rannsóknar málsins. Á hinn bóginn hefur ekki verið sýnt fram á, að nauðsyn hafi borið til að svipta gagnáfrýjanda frelsi í þessu skyni lengur en í þrjá daga. Hefur hann því sætt gæsluvarðhaldi að ósekju í ellefu daga og á þannig rétt til bóta samkvæmt 176. gr., sbr. 1. mgr. 175. gr., laga nr. 19/1991 með áorðnum breytingum. Þykja miskabætur hæfilega ákveðnar í héraðsdómi, sbr. 2. mgr. 175. gr. sömu laga.
Ákvörðun héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður, en gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda greiðist úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda, Ársæls Snorrasonar, fyrir Hæstarétti, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 300.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. júní 2003.
I
Mál þetta var höfðað 29. nóvember 2002 og dómtekið 18. júní 2003.
Stefnandi er Ársæll Snorrason, kt. 280465-5309, Leifsgötu 23, Reykjavík en stefndi er íslenska ríkið og er dómsmálaráðherra og fjármálaráðherra stefnt fyrir hönd þess.
Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 40.194.484 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þingfestingardegi, 3. desember 2002, til greiðsludags.
Til vara gerir stefnandi kröfu til þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 14.694.484 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þingfestingardegi, 3. desember 2002, til greiðsludags.
Til þrautavara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum lægri fjárhæð að mati dómsins. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að mati dómsins eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Stefndi gerir þær dómkröfur aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað.
Til vara krefst stefndi þess að stefnukrafa verði lækkuð stórkostlega og málskostnaður í því tilviki felldur niður.
II
Til að varpa ljósi á atvik máls þessa verður ekki hjá því komist að rekja aðdraganda þess að grunur beindist að stefnanda um að hafa ráðið manni bana en skaðabótakrafa hans á rætur að rekja til aðgerða íslenskra yfirvalda vegna rannsóknar þess máls. Samkvæmt gögnum málsins var lögreglunni í Reykjavík tilkynnt um hvarf V þann 30.júní 1994 og óskað eftir að leit yrði gerð að honum. Síðast var vitað um ferðir hans aðfaranótt sunnudagsins 19. júní 1994. Víðtæk leit og eftirgrennslan fór fram sumarið 1994 og rætt var við fjölda manns sem þekktu V. Eftirgrennslan var haldið áfram og kannaðar allar vísbendingar sem lögreglu bárust. Fljótlega fóru á kreik misvísandi sögur um afdrif V en í flestum tilvikum var því haldið fram að honum hefði verið ráðinn bani.
Þann 20. janúar 1999 hafði [...], faðir V, samband við lögreglu og lét vita af upplýsingum sem honum höfðu borist um að tveir nafngreindir menn hefðu drepið V. Þessar upplýsingar kvaðst hann hafa frá Ó og A sem staðfestu þær munnlega hjá lögreglu.
A gaf skýrslu hjá lögreglu 16. ágúst 1999 og bar að hann hefði kynnst V árið 1991 og kynnt hann fyrir E bróður sínum um það bil tveimur árum síðar. Þeir E og V hefðu skipulagt innflutning fíkniefna til Íslands rétt fyrir jól 1993. Hefði V annast kaup efnisins í Hollandi og stúlka, sem var með honum í för, flutt hluta af því hingað til lands. Megnið af fíkniefnunum hefði hins vegar stefnandi tekið að sér að flytja. Svo fór að V og stúlkan voru handtekin við komu til landsins og fíkniefnin sem þau höfðu með sér haldlögð. A kvaðst vita til þess að V hefði gengið á E og viljað fá afhentan hluta fíkniefnanna sem stefnandi hefði flutt inn til landsins. V hefði hins vegar aldrei fengið þessi fíkniefni í hendur.
A kvað E hafa sagt honum að V hefði komið á heimili hans við annan mann og barið hann. Hefði E sagst mundu drepa V fyrir þetta, en A bar að hann hefði ekki lagt trúnað á þau orð. Hann kvað V einnig hafa skýrt sér frá því að hann hefði lagt hendur á E.
Einni til tveimur vikum eftir hvarf V kvaðst A hafa verið staddur á heimili stefnanda ásamt E og fleiri mönnum. Við það tækifæri hafi E sagt honum að þeir Ársæll hefðu drepið V. Þetta hafi gerst í húsi því sem E bjó í á þessum tíma í [...], í miðborg Reykjavíkur. Þeir hefðu sett líkið í farangursrými Chevrolet Caprice bifreiðar, ekið með það suður úr borginni, fest við það keðju eða stálbita og hent í árkvísl austan við Vík.
Ó mætti einnig til yfirheyrslu og staðfesti vitneskju sína sem hann sagðist hafa frá A. Næstu aðgerðir lögreglu voru miðaðar við að finna líkið samkvæmt framansögðu auk þess sem þeir reyndu að ná til stefnanda. Leit lögreglu að líkinu bar ekki árangur. Síðan kom í ljós að stefnandi hóf afplánun 4 ára fangelsisdóms í Hollandi, vegna innflutnings á fíkniefnum. Kemur fram hjá stefnanda að um hafi verið að ræða opið fangelsi og hafi hann þar lagt stund á nám í líkamsræktarþjálfun.
Þann 6. janúar 2000 gaf sig fram við lögreglu maður sem kvaðst þekkja stefnanda og skýrði svo frá að stefnandi hafi sagt honum frá því að hann hafi barið V til ólífis og að atburðurinn hafi átt sér stað í bílageymslu í kjallara hússins að [...], Reykjavík, þar sem E bjó á þeim tíma sem V hvarf. Tilkynnandinn sem óskaði nafnleyndar bar hjá lögreglu að stefnanda liði illa yfir þessu og vildi ef til vill upplýsa lögreglu um þátt sinn í málinu ekki síst vegna þeirra aðstæðna sem hann byggi við í fangelsi í Hollandi.
Í febrúar 2000 voru, í samráði við ríkissaksóknara, gerðar ráðstafanir til að íslenskir lögreglumenn fengju að hitta stefnanda í Hollandi og taka hann til yfirheyrslu vegna málsins. Kemur fram hjá stefnda að svar hafi ekki borist við þeirri beiðni fyrr en 31. október 2000.
Í desember 2000 gaf sig fram við lögreglu annar maður sem vildi skýra frá vitneskju sinni um afdrif V. Hann kvaðst hafa hitt stefnanda og hann hafi skýrt frá því að hafa banað V með barsmíðum og viðstaddur hafi verið E og hefðu þeir í sameiningu gert ráðstafanir til að ganga þannig frá líkinu að það fyndist aldrei. Sami maður gaf upplýsingar varðandi tímasetningu og tildrög atburðarins og upplýsingar um það hvaða bifreið var notuð við flutning líksins sem komu heim og saman við niðurstöður fyrri athugana lögreglu.
Lögregla rakti hvað orðið hefði um Chevrolet Caprice bifreið sem stefnandi var skráður eigandi að á þeim tíma sem V hvarf. Bifreiðin hafði verið seld bifreiðaverkstaði til niðurrifs í júlí 1994. Ritaði stefnandi undir afsalið sem seljandi, en E sem vitundarvottur. Kaupandi bifreiðarinnar, eigandi bifreiðaverkstæðis, kvaðst muna eftir þessari bifreið og meðal annars minna að farangursrými hennar hefði verið teppalaust og málmurinn þar ber. Vél bifreiðarinnar hefði verið í góðu lagi, en mennirnir sagt honum að þeir vildu losna við bifreiðina vegna þess að hún væri farin að ryðga. Hann kvaðst hafa látið bifreiðina standa í nokkra daga, áður en hann tók úr henni vélina og fleygði öðru í brotajárn. Hann minntist þess að á þessu tímabili hefði komið til hans maður og spurt hvort ekki ætti að rífa bifreiðina. Ekki mundi hann hvort það hefði verið annar mannanna tveggja sem stóðu að sölunni.
Um miðjan desember 2000 fóru tveir íslenskir rannsóknarlögreglumenn til Hollands til að hitta stefnanda, að fengnu leyfi hollenskra dómsmálayfirvalda. Lögreglumennirnir ræddu við stefnanda í fangelsinu og óskaði hann eftir því að fá að ráðfæra sig við lögmenn sína á Íslandi og í Hollandi. Var yfirheyrslu því frestað fram yfir hádegi. Kemur fram hjá stefnda að þegar lögreglumennirnir komu aftur til fangelsisins á fyrirframákveðnum tíma í samráði við stefnanda hafi stefnandi neitað frekari viðræðum við hina íslensku lögreglumenn og hafi þeir því við svo búið farið aftur heim til Íslands.
Í stefnu kemur fram að stefnandi hefði neitað því að vera yfirheyrður nema hann fengi skipaðan réttargæslumann sem væri viðstaddur yfirheyrsluna. Þar sem ekki hafi verið orðið við þeirri ósk stefnanda hafi hann neitað að láta taka skýrslu af sér í fangelsinu. Fyrir dómi bar stefnandi að hann hefði talið að íslensku lögreglumennirnir myndu hafa samband við lögmenn hans. Þegar þeir hafi síðan komið aftur í fangelsið eftir hádegi hefði hann haft samband við sinn lögmann í Hollandi og hefði komið fram hjá honum að íslensku lögreglumennirnir hefðu ekki haft samband við hann og hefði lögmaðurinn ráðlagt honum að hafa engin samskipti frekari við íslensku lögregluna.
Kemur fram hjá stefnda að þegar neitun stefnanda hafi legið fyrir hafi ekki verið um annað að ræða en að krefjast framsals hans fyrir dómstólum í þágu rannsóknar málsins. Gefin var út handtökuskipun á hendur stefnda í Héraðsdómi Reykjavíkur 16. janúar 2001 að kröfu ríkissaksóknara. Í framhaldi af því krafðist ríkissaksóknari þess að dómsmálaráðuneytið hefði milligöngu um framsal stefnanda frá Hollandi og með bréfi ráðuneytisins 12. febrúar 2001 var óskað eftir framsali stefnanda við dómsmálaráðuneytið í Hollandi. Sú beiðni var ítrekuð með bréfi ráðuneytisins 5. apríl 2001 og með bréfi hollenska dómsmálaráðuneytinu dagsettu 14. júní 2001 sem barst dómsmálaráðuneytinu 2. júlí 2001 var upplýst að undirréttur í Haarlem í Hollandi hefði fallist á framsalið þann 23. maí 2001 en að þeirri ákvörðun hefði verið áfrýjað til æðri réttar. Lá niðurstaða æðri réttar fyrir þann 8. janúar 2002 og þann 12. febrúar 2002 barst dómsmálaráðuneytinu bréf dagsett 21. janúar 2002 frá hollenska dómsmálaráðuneytinu þar sem íslenskum stjórnvöldum var tilkynnt að fallist hefði verið á framsal stefnanda og að saksóknaranum í Assen yrði falið að ganga frá því um leið og stefnandi hefði afplánað dóm sinn í Hollandi. Þá kemur fram í bréfi ráðuneytisins að íslenska saksóknaraembættinu yrði tilkynnt um hvar og hvenær framsalið færi fram.
Samkvæmt minnisblaði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 21. maí 2002 kemur fram að lögreglunni í Reykjavík hafi borist skilaboð um að stefnandi sé til reiðu þegar íslensk yfirvöld óski. Þetta er staðfest í bréfi hollenska dómsmálaráðuneytisins 18. júlí 2002 til dómsmálaráðuneytisins. Þann dag var stefnandi fluttur til Íslands og var tekin af honum lögregluskýrsla sama dag.
Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði stefnanda í gæsluvarðhald þann 22. maí 2002 allt til 3.júní 2002 kl. 16.00. Áður en sá tími rann út taldi lögreglan nauðsynlegt að krefjast framlengingar gæsluvarðhalds og úrskurðaði Héraðsdómur Reykjavíkur stefnanda í gæsluvarðhald allt til 7. júní 2002 kl. 16.00. Í forsendum fyrri úrskurðarins kemur fram að rannsókn málsins sé á byrjunarstigi og hætta á að stefnandi geti torveldað rannsóknina fari hann frjáls ferð sinna með því að hafa samband við aðra sem kunna að tengjast ætluðu broti auk þess sem ætla megi að hann muni reyna að komast úr landi þar sem hann hafi verið búsettur erlendis frá 1996. Í forsendum síðari úrskurðarins kemur fram að fyrir liggi að yfirheyra þurfi mikilvægt vitni og sé hætta á því að stefnandi geti torveldað rannsókn málsins fari hann frjáls ferða sinna með því að hafa samband við vitnið og eftir atvikum aðra sem kunna að tengjast ætluðu broti.
Þetta mikilvæga vitni sem hér er vitnað til var maður að nafni H sem lögreglan taldi að byggi yfir vitneskju um ætlaðan þátt stefnanda í hvarfi V. Kom fram í gögnum lögreglu varðandi kröfu um framlengingu gæsluvarðhaldsins að ekki hafi tekist að taka skýrslu af H þrátt fyrir miklar tilraunir til þess. Hann hafi neitað að gefa skýrslu nema með lögmann sér við hlið en því hafi verið hafnað með dómi Hæstaréttar 30. maí 2002. Þurfi að taka skýrslu af vitninu fyrir dómi en unnið hafi verið að því að boða vitnið til skýrslugjafar fyrir dómi en það ekki tekist þrátt fyrir að margsinnis hafi verið reynt að hafa upp á honum og sé ófært að stefnandi gangi laus áður en skýrsla sé tekin af vitninu. Sé nauðsyn að halda stefnanda í gæsluvarðhaldi uns vitnið H hafi verið yfirheyrt og stefnandi sjálfur í framhaldi af því en hann hafi neitað sakargiftum. Stefnandi kærði hvorugan gæsluvarðhaldsúrskurðinn til Hæstaréttar
Héraðsdómur Reykjavíkur gaf út vitnakvaðningu í málinu gagnvart H þar sem hann var boðaður í dóminn 3.júní 2002 en birting kvaðningarinnar tókst ekki. Önnur vitnakvaðning var gefin út og tókst birting hennar og mætti H til skýrslugjafar í Héraðsdóm Reykjavíkur kl. 16,00 þann 4. júní 2002 og var skýrslutöku af honum lokið kl. 16.35. Eftir að H hafði gefi skýrslu var stefnanda sleppt úr gæsluvarðhaldi. .
Með bréfi lögreglustjórans í Reykjavík 31. október 2002 var lögmanni stefnanda tilkynnt um að rannsókn sem beinst hefði að stefnanda vegna hvarfs V hafi verið hætt. Samkvæmt gögnum málsins hefur enn ekkert verið upplýst um afdrif V.
Stefnandi fékk leyfi dómsmálaráðuneytis til gjafsóknar í málinu 19. desember 2002.
Stefnandi gaf skýrslu fyrir dómi auk vitnanna, Benedikt Helga Benediktssyni, Kristjáni Inga Kristjánssyni og Herði Jóhannessyni.
III
Stefnandi byggir á því að hann hafi setið saklaus í fangelsi vegna framsalskröfu í 400 daga. Af þeim tíma hafi hann setið í fangelsi í 145 daga frá því að fallist var á framsalskröfuna og í gæsluvarðhaldi á Íslandi í 15 daga. Af hálfu stefnanda er lagt til grundvallar að hann hafi vegna þeirra óréttmætu ásakana sem hann var sakaður um þurft að sæta frelsissviptingu í 400 daga. Eftir að framsalskrafan hafi komið fram hafi hann verið settur í algera einangrun þann 1. maí 2001 og hafi hann orðið að sæta því að vera innilokaður í fangaklefa sínum 23 tíma á sólarhring og ekki mátt vera í símasambandi eða fá heimsóknir. Þá hafi hann einungis mátt fara í bað tvisvar í viku. Þann 1. júní 2001 hafi hann síðan verið fluttur í annað fangelsi þar sem aðbúnaður hafi verið mjög lélegur og síðan í sérstakt öryggisfangelsi þann 15. júní 2001 þar sem hann hafi verið þar til hann var fluttur til Íslands. Þá hafi umrædd framsalskrafa orðið til þess að nám það sem hann hafi stundað hafi eyðilagst og hann ekki getað sótt um náðun svo sem hann hefði átt rétt á vegna góðrar hegðunar.
Stefnandi kveður að þrátt fyrir að Hæstiréttur Hollands hefði kveðið upp dóm þann 8.janúar 2002 um að stefnandi skyldi framseldur til Íslands hafi íslensk yfirvöld ekki gert neinn reka að því að ná í stefnanda fyrr en 22. maí 2002 og hann hafi síðan verið fluttur til Íslands og settur þar í gæsluvarðhald sem staðið hafi til 4. júní 2002. Stefnandi hafi því verið í fangelsi vegna framsalskröfunnar allavega frá 8. janúar 2002 til 4. júní sama ár eða 145 daga
Stefnandi kveður að frelsissvipting sé alvarlegur hlutur fyrir einstakling. Hafi hin 400 daga einangrunarvistun sem hann hafi verið látinn sæta haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir andlega heilsu hans, valdið honum þjáningum, öryggisleysi og ótta.
Um framsalskröfuna hafi verið mikið fjallað í fjölmiðlum sérstaklega í langsterkasta fréttamiðlinum sjónvarpi og allir sem hafi viljað vita hafi vitað hvaða einstaklingur það var sem borinn var þeim sökum að hafa orðið V að bana. Svo alvarlegur sakaráburður sé til þess fallinn að valda þeim sem fyrir verði mannorðsmissi. Slíkur sakaráburður sem settur sé fram af yfirvöldum sé alltaf til þess fallinn að skaða mannorð einstaklings sem fyrir verði. Hafi meðferð málsins tekið langan tíma og ítrekað um það fjallað í fjölmiðlum og opinberir aðilar gefið yfirlýsingar. Þegar stefnandi síðan hafi verið látinn laus úr gæsluvarðhaldi þann 4. júní 2002 hafi verið látið í veðri vaka að rannsókn héldi áfram og það hafi ekki verið fyrr en með bréfi lögreglustjórans í Reykjavík 31. október 2002 sem stefnanda hafi verið gerð grein fyrir að rannsókn þeirri sem beinst hafi gegn honum vegna hvarfs V hefði verið hætt og vísað til 1. mgr. 76.gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 í því sambandi. Með þeirri tilvísun sé viðurkennt af hálfu þeirra sem að rannsókn stóðu gegn stefnanda, framsalskröfu og gæsluvarðhaldskröfum gegn honum að ekki hafi verið grundvöllur til áð halda rannsókninni áfram eða kæra ekki verið á rökum reist. Hvort heldur sem er liggi fyrir að stefnandi hafi þurft að sæta harðræði, frelsissviptingu og mannorðsmissi vegna rannsóknar sem ekki hafi verið á rökum reist og enginn grundvöllur verið fyrir.
Kveðst stefnandi byggja á að hann eigi rétt á bótum samkvæmt 175.gr. laga um meðferð opinberra mála. Ekki sé tilefni til að lækka eða fella niður bætur þar sem að stefnandi hafi hvorki valdið né stuðlað að þeim aðgerðum sem kröfur hans séu byggðar á. Hann hafi verið borinn röngum sökum og lögregluyfirvöld farið offari í rannsókn málsins hvað hann varði. Hafi sími stefnanda og fleiri aðila sem rannsókninni tengdust verið hleraður um langan tíma án þess að nokkuð hafi komið fram í þeim símhlerunum sem tengdu hann við sakarefnið.
Telur stefnandi að rannsókn lögreglunnar sem beinst hafi að honum vegna hvarfs V hafi verið byggða á takmörkuðum og hæpnum gögnum. Miðað við fyrirliggjandi gögn hafi framsalskrafan verið fráleit svo og frelsissvipting stefnanda að öðru leyti. Hafi ítrekað verið komið á framfæri við lögregluyfirvöld að stefnandi væri tilbúinn að þola yfirheyrslu í því fangelsi sem hann hafi setið í í Hollandi ef hann fengi að hafa lögmann sem réttargæslumann. Slíkt hefði verið margfalt ódýrara miðað við það takmarkaða rannsóknartilvik sem hér hafi verið um að ræða frekar en að leggja út í kostnaðarsama framsalskröfu meðal annars með flutningi stefnanda til Íslands í lögreglufylgd.
Fjárhæð aðalkröfu sinnar rökstyður stefnandi þannig að hann krefst 100.000 króna miskabóta fyrir hvern dag sem hann hafi verið í gæsluvarðhaldi og/eða hafi þurft að þola frelsissviptingu og aukið harðræði vegna framsalskröfu íslenskra stjórnvalda í samtals 400 daga eða 40.000.000 krónur.
Þá krefst hann þess að fá greiddan þann lögfræðikostnað sem hann hafi orðið að greiða vegna framsalskröfu íslenskra stjórnvalda eða alls 2.269 evrur sem jafngildi 194.484 krónum. Samtals nemi því höfuðstóll aðalkröfu stefnanda 40.194.484 krónum.
Fjárhæð varakröfu sinnar rökstyður stefnandi þannig að hann hafi setið í fangelsi í 145 daga frá því að fallist hafi verið á framsalskröfu íslenskra stjórnvalda og eigi hann rétt á bótum vegna þess tíma 100.000 krónur fyrir hvern dag eða 14.500.000 krónur auk lögfræðikostnaðar í Hollandi 194.484 krónur. Samtals nemi því höfuðstóll varakröfu stefnanda 14.694.484 krónum.
Varðandi þrautavarakröfu sína um lægri fjárhæð lætur stefnandi dómara eftir að meta hana.
IV
Stefndi kveður málatilbúnað stefnanda vera að miklu leyti reistan á getgátum þar sem settar séu fram algerlega órökstuddar fullyrðingar um málsatvik að því er varði ætlaða einangrun, harðræði og lélegan aðbúnað stefnanda í hollenskum fangelsum, alvarlegt andlegt áfall vegna ásakana og alvarleg áhrif sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna fregna af fréttaflutningi íslenskra fjölmiðla. Íslenska ríkið verði ekki gert ábyrgt fyrir refsivörslu í erlendu ríki.
Þá kemur fram hjá stefnda að engin gögn liggi fyrir af hálfu stefnanda um góða hegðun hans í fangelsum í Hollandi eða möguleika hans á að losna úr afplánun að afloknum 1/3 hluta refsivistarinnar eins og fullyrt sé í málatilbúnaði hans. Þvert á móti liggi það fyrir, samkvæmt orðum stefnanda sjálfs og gögnum málsins að stefnandi afplánaði 4 ára fangelsisdóm vegna innflutnings á rúmlega 15 kg af kókaíni um Schiphol flugvöll í Amsterdam í Hollandi. Komi fram hjá stefnanda sjálfum að hann hafi afplánað dóminn frá nóvember 1999 en í stefnu komi fram að stefnandi hafi átt þess kost að fá náðun að aflokinni afplánun 1/3 dómsins. Sé þessu mótmælt sem röngu, fráleitu og ósönnuðu og stangist þetta algerlega á við gögn málsins og framkvæmd refsidómsins.
Telur stefndi að dvöl stefnanda í fangelsi í Hollandi hafi alfarið verið á hans eigin ábyrgð enda hafi hann framið framangreindan glæp í Hollandi. Hafi stefndi ekki haft lögsögu yfir stefnanda og hald hans í Hollandi hafi verið stefnda algerlega óviðkomandi.
Af hálfu íslensku lögreglunnar hafi verið gerð tilraun til að yfirheyra stefnanda í hinu hollenska fangelsi í desember 2000 án árangurs. Undirréttur í Haarlem hafi fallist á framsalskröfu íslenskra yfirvalda með úrskurði uppkveðnum þann 23. maí 2001. Sá úrskurður hafi verið kærður til æðra dómstigs sem hafi kveðið upp úrskurð 21. janúar 2002 þar sem úrskurður undirréttar hafi verið staðfestur.
Kveður stefndi málavaxtalýsingu íslensku lögreglunnar og ákæruvalds um yfirheyrslutilraunir íslensku lögreglunnar í hollenska fangelsinu í desember 2000 vera á allt annan veg en stefnandi haldi fram. Samkvæmt samantekt Ragnheiðar Harðardóttur, saksóknara komi fram að íslensku lögreglumennirnir hafi rætt við stefnanda í fangelsinu og hann þá óskað eftir því að fá að ráðfæra sig við lögmenn sína á Íslandi og í Hollandi. Hafi yfirheyrslu þá verið frestað en er lögreglumenn hafi komið aftur síðar til fangelsisins hafi stefnandi neitað öllum frekari viðræðum. Hafi því ekki verið um annað að ræða en að krefjast framsals yfir stefnanda fyrir dómstólum í þágu rannsóknar málsins, enda hafi gögn og framburður vitna og meðgrunaðs hnigið í þá veru að brýn nauðsyn bæri til að yfirheyra stefnanda í málinu.
Þá kveðst stefndi mótmæla sem röngum þeim fullyrðingum stefnanda að hann hafi verið í hollensku fangelsi vegna framsalskröfunnar í 400 daga eða til vara í 145 daga. Eins og sjáist af bréfi hollenska dómsmálaráðuneytisins 21. janúar 2002 hafi hollenska ráðuneytið farið fram á það við saksóknarann í Assen að annast milligöngu um framsalskröfu íslenskra stjórnvalda, þó ekki fyrr en stefnandi hefði afplánað hinn hollenska dóm. Jafnframt hafi komið fram í bréfi ráðuneytisins að íslenska ríkissaksóknaraembættinu yrði tilkynnt nánar um það hvar og hvenær framsalið færi fram.
Þann 21.maí 2002 hafi íslenskum lögregluyfirvöldum borist upplýsingar þess efnis að hollensk yfirvöld væru reiðubúin að hrinda í framkvæmd ákvörðun æðri réttar í Hollandi um framsal. Hafi stefnandi fyrst verið afhentur íslenskum stjórnvöldum þann sama dag en ekki 22. maí eins og greini í stefnu og hafi hann verið fluttur samdægurs til Íslands. Bréf hollenska dómsmálaráðuneytisins frá 18. júlí 2002 staðfesti framsalsdaginn. Gögn málsins sýni hvenær hann hafi verið fluttur til Íslands. Bréf hollensks lögmanns stefnanda, S. R. Bordewijk frá 17.júlí 2002 og fullyrðingar hans þess efnis að stefnandi hafi vegna aðgerða íslenskra yfirvalda setið í fangelsi og sætt flutningum milli hollenskra fangelsa breyti engu um efni staðreynda og ákvarðana hollenskra yfirvalda í málinu. Ítrekað sé að stefndi beri ekki ábyrgð á hollenskri refsivörslu og séu þessi atriði stefnda því óviðkomandi.
Þá liggi engin gögn fyrir um nám það sem stefnandi haldi fram að hann hafi stundað og sé það ekki á ábyrgð stefnda að hann hafi hætt í því námi. Hafi stefnandi verið settur í einangrun 1. maí 2001 sé það ekki á ábyrgð stefnda og ekki á forræði stefnda að segja til um framkvæmd refsivistar í erlendu ríki. Stefndi beri enga ábyrgð á því en að auki sé þetta ósannað. Þá séu engin gögn sem styðji fullyrðingar stefnanda um náðun. Verði stefndi ekki gerður bótaskyldur fyrir ráðstöfun hollenskra yfirvalda sem þau eigi ein ráðstöfunarrétt yfir og séu bótaskilyrði því engan veginn til staðar.
Stefndi sé ekki réttur aðili til að beina bótakröfu að vegna framangreinds tímabils og með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 sé krafist sýknu vegna aðildarskorts. Þá vísi stefndi einnig til þess að bótaákvæði XXI. kafla laga nr. 19/1991 taki ekki til þvingunarráðstafana á erlendri grund og sú lagagrein sem stefnandi vísi til í þeim lögum taki ekki til fangelsis.
Stefndi kveður stefnanda sjálfan hafa valdið og stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisi kröfur sínar á sbr. 2. ml. 1. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991. Um hafi verið að ræða eigin sök stefnanda sjálfs. Hann hafi neitað að láta yfirheyra sig þegar íslenskir lögreglumenn hafi farið í þeim erindagjörðum í hollenska fangelsið og því hafi verið nauðsynlegt að fá stefnanda framseldan frá Hollandi til að hægt væri að yfirheyra hann. Þá bendir stefndi einnig á þá staðreynd að stefnandi hafi verið í hollensku fangelsi fyrir eigin tilverknað.
Stefndi telur að öll lögmæt skilyrði hafi verið til þeirra þvingunaraðgerða sem framkvæmdar voru í þágu rannsóknar mjög alvarlegs máls og hafi þær verið í samræmi við réttaframkvæmd. Þá hafi þær einnig verið nauðsynlegar eins og á stóð og nægilegt tilefni hafi verið til slíkra aðgerða. Þá hafi þessar aðgerðir ekki verið framkvæmdar á hættulegan, særandi eða móðgangi hátt. Í því sambandi vísist til 176. gr. laga nr. 19/1991. Bótaskilyrði séu ekki til staðar í málinu. Aðgerðir lögreglu hafi verið hóflegar og ekki gengið lengra en tilefni hafi verið til.
Á þeim tíma sem um ræði í máli þessu hafi stefnandi verið undir rökstuddum grun um að hafa átt þátt í óupplýstu dularfullu hvarfi einstaklings sem talið var að hefði verið ráðinn bani og hafi gögn lögreglu og framburður nokkurra vitna verið í þá veru að fullt tilefni hafi verið fyrir lögreglu að rannsaka nánar ætlaðan þátt stefnanda. Því sé harðlega mótmælt sem röngu að lögregla hafi verið sinnulaus í málinu eða dregið rannsókn þess. Eins og fyrr greini hafi stefnandi verið framseldur íslenskum yfirvöldum 21.maí 2002 og sama dag fluttur til Íslands. Hafi hann verið yfirheyrður við heimkomuna þann dag. Hann hafi síðan verið úrskurðaður í gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 22. maí 2002 allt fram til 3. júní 2002 og gæsluvarðhaldsúrskurður síðan framlengdur um 4 daga með öðrum úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 3. júní 2002. Stefnandi hafi unað báðum þessum úrskurðum sem byggðir hafi verið á a- og b- liðum l.mgr. 103.gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Fyrir liggi að lögreglan hafi yfirheyrt stefnanda 21., 29. og 30. maí 2002 og 3. júní 2002 en 4. júní hafi loks náðst í H, eftir að dómari hafði gefið út vitnakvaðningu, en nauðsynlegt hafi verið að hafa tal af honum áður en stefnanda var sleppt. Hafi H komið fyrir dóm 4. júní 2002 og í kjölfar skýrslugjafar hans hafi stefnanda verið sleppt.
Stefndi bendir á að Héraðsdómur Reykjavíkur hafi þann 16. janúar 2001 gefið út handtökuskipun á hendur stefnanda. Hafi rökstuddur grunur verið fyrir hendi um að stefnandi hefði verið viðriðinn hvarf V sem byggt hafi bæði á framburði og símhlerunum og að mati lögreglu hafi verið alveg ljóst að stefnandi gæti spillt fyrir rannsókninni þegar honum hafi verið orðið ljóst hvaða gögn lögregla hafði í höndum. Engan veginn sé hægt að fallast á þá málsástæðu stefnanda að íslensk lögregluyfirvöld hafi haldið stefnanda í gæsluvarðhaldi án skýrra lagaheimilda og rannsóknarhagsmuna.
Hafi stefnanda ekki verið haldið lengur í gæsluvarðhaldi en ástæða hafi verið til, en eins og skýrslur beri með sér hafi verið margt sem bera hafi þurft undir hann og spyrja hann um. Hafi gæsluvarðhald hans verið styttra en algengt sé í alvarlegum brotamálum þar sem yfirheyra hafi þurft sakborning um mörg atriði og rannsóknin byggð á mörgum og ólíkum atriðum. Hafi rannsóknin verið stutt á veg komin gagnvart stefnanda á þessum tíma. Á meðan á rannsókninni stóð hafi verið kappkostað að flýta meðferð málsins eftir föngum. Um hafi verið að ræða flókið rannsóknarefni en þrátt fyrir það hafi aðgerðir lögreglu að mati stefnda verið skammvinnar, en verulegir hagsmunir verið í húfi. Stefndi vísar til tilgangs gæsluvarðhalds yfir stefnanda sem lýst sé í gæsluvarðhaldskröfum.
Fullt tilefni hafi verið til umræddra aðgerða yfirvalda gagnvart stefnanda. Stefndi bendir á orðalag 175.gr. laga nr. 19/1991 en samkvæmt ákvæðinu sé ekki mælt fyrir um að bætur séu alltaf greiddar heldur að kröfu um bætur megi taka til greina sé skilyrðum greinarinnar fullnægt. Mótmælt sé sem rangri þeirri lögskýringu stefnanda að ríkissjóður verði sjálfkrafa bótaskyldur vegna þess að ekki hafi tekist að færa sönnur á tiltekna refsiverða háttsemi gagnvart stefnanda. Hér beri að mati stefnda að miða við hinn rökstudda grun en ekki einblína á árangur af rannsóknaraðgerðum lögreglu. Dómstólar hafi áður metið það svo að rökstuddur grunur um aðild stefnanda hafi verið fyrir hendi. Málið sé enn í dag óupplýst.
Þá bendir stefndi á að stefnandi hafi ekki byggt mál sitt á 176.gr. laga nr. 19/1991 heldur á 175.gr. laganna. Ótvírætt sé að verulegur hluti kröfu stefnanda taki til tímaskeiðs þegar stefnandi hafi verið í fangelsi á erlendri grund. Á því sé byggt að lög nr. 19/1991 taki aðeins til þvingunarráðstafana á íslenskri grund auk þess sem hvorki 175. né 176. gr. taki til fangelsis. Þá hafi stefnandi sönnunarbyrði fyrir öllum staðhæfingum og málsástæðum í stefnu en jafnframt fyrir öllu sem bótakröfu hans snerti.
Sá hluti kröfu stefnanda sem taki til lögmannsþóknunar lögmanns stefnanda í Hollandi sé algerlega vanreifaður og stefnda óviðkomandi. Ekki sé gerð grein fyrir því hvaða vinna þetta sé eða um tímafjölda og tímagjald eða aðra þá grundvallarþætti sem krefjast verður að liggi fyrir í lýsingu kröfu í dómsmáli, sbr. l.mgr. 80.gr. laga nr. 91/1991 sbr. sérstaklega e. lið. Þá sé enginn reikningur frá lögmanninum í gögnum málsins og engin sönnun þess að stefnandi hafi innt af hendi umrædda greiðslu. Því hafi hann ekki orðið fyrir neinu tjóni en málið sé rekið sem skaðabótamál. Þá mótmælir stefndi öllum tölulegum kröfum stefnanda sem ósönnuðum og órökstuddum. Þá mótmælir hann öllum málsástæðum stefnanda.
Fallist dómurinn ekki á sýknukröfu stefnda þá sé þess krafist að stefnukrafa verði lækkuð stórkostlega og að málskostnaður verði felldur niður. Vegna varakröfunnar sé vísað til þeirra málsástæðna og sjónarmiða sem rakin hafa verið hér að framan. Stefndi vísar einnig til 2.ml. l.mgr. 175.gr. laga nr. 19/1991 um lækkun bóta og þess sem að framan er greint um eigin sök stefnanda en heimilt sé að fella niður bætur eða lækka þær ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfur sínar á. Fjárhæð bóta sé mótmælt sem fráleitri auk þess sem hún sé vanreifuð og alls ekki í samræmi við dómaframkvæmd. Um málskostnaðarkröfu vísar stefndi til 130.gr. laga nr. 91/1991.
V
Eins og rakið er að framan byggir stefnandi skaðabótakröfu sína á því að hann hafi setið saklaus í fangelsi vegna framsalskröfu íslenskra yfirvalda og í framhaldinu í gæsluvarðhaldi á Íslandi í 15 daga vegna óréttmætra ásakana um aðild að manndrápi og framsalskröfu sem reist hafi verið á þeim grundvelli.
Stefnandi heldur því fram að hann hafi verið tilbúinn að ræða við íslensku lögregluna í þágu rannsóknar á hvarfi V. Hann hafi hins vegar átt rétt á að hafa réttargæslumann viðstaddan og hafi hann gert kröfu um að svo væri. Hörður Jóhannesson yfirlögregluþjónn sem stjórnaði rannsókn á málinu fór ásamt Benedikt Helga Benediktssyni rannsóknarlögreglumanni til Hollands í því skyni að yfirheyra stefnanda sem grunaðan um aðild að mannshvarfinu. Komu lögreglumennirnir báðir fyrir dóm og staðfestu að skýrsla sú sem gerð var í kjölfar heimsóknar þeirra í fangelsið væri í samræmi við hvað gerðist.
Í skýrslunni kemur fram að þeir hafi farið ásamt hollenskum lögreglumanni í fangelsið þar sem stefnandi afplánaði dóm sinn. Hafi lögreglan fengið upplýsingar um það áður að stefnandi hefði gefið samþykki fyrir því að hitta lögreglumennina er honum var kynnt tilefnið og hafi stefnandi ekki talið sig þurfa að hafa lögmann sinn viðstaddan yfirheyrslu. Þegar komið var í fangelsið kvaðst stefnandi kannast við málið og hafa heyrt orðróm um að hann tengdist því. Hafi hann ekki viljað að tekin yrði af honum framburðarskýrsla nema lögmaður hans væri viðstaddur auk þess sem hann hafi sagt að heimsókn lögreglunnar kæmi sér á óvart og hefði hann ekki fengið að vita af henni fyrr en kvöldið áður.
Kemur fram í skýrslu lögreglunnar að stefnandi hafi óskað eftir því að hafa samband við lögmann sinn í Hollandi og hafi hann hringt í hann en ekki náð sambandi þar sem hann kæmi ekki á skrifstofu sína fyrr en kl. 13.00. Hafi stefnandi einnig viljað ræða við lögmann sinn á Íslandi og í framhaldi af þessu hafi stefnandi óskað eftir að lögreglan færi að svo stöddu en kæmi aftur kl. 14.00 en þá hafi hann ætlað að vera búinn að ræða við lögmenn sína og yfirgáfu lögreglumennirnir fangelsið við svo búið.
Þá kemur fram í skýrslunni að þegar lögreglumennirnir þrír komu aftur í fangelsið kl. 14.00 hafi þeim verið sagt að stefnandi vildi ekki hitta þá og að hann væri búinn að hafa samband við lögmenn sína.
Fyrir dómi bar stefnandi að lögreglumennirnir hefðu í framhaldi af viðræðum við hann í fangelsinu ætlað að hafa samband við lögmenn stefnanda á Íslandi eða í Hollandi en það hefðu þeir ekki gert. Þegar þeir hafi svo komið aftur eftir hádegið hafi stefnandi haft samband við sinn hollenska lögmann sem hafi ráðlagt honum að hafa ekki frekari samskipti við þá.
Hver sem ástæða neitunar stefnanda var fyrir að ræða við hina íslensku lögreglumenn var er ljóst af gögnum málsins að þegar þeir komu í annað sinn í fangelsið í því skyni að taka af honum skýrslu voru skilaboð frá stefnanda til þeirra skýr, hann vildi ekki ræða við þá frekar og hefur stefnandi borið að sú ákvörðun hafi verið að ráðleggingum hins hollenska lögmanns hans. Ekkert hefur komið fram í málinu að stefnanda hafi verið neitað um að hafa lögmann sinn viðstaddan yfirheyrsluna, hins vegar er ljóst að stefnandi neitaði að ræða frekar við lögregluna og var því ekkert um annað að ræða en að þeir færu heim til Íslands við svo búið.
Í ljósi framangreindrar neitunar stefnanda á að gefa skýrslu og með hliðsjón af hinum alvarlegu ásökunum sem á stefnanda voru bornar í þeim tilkynningum sem lögreglu hafði borist og þess að á þeim tíma lá fyrir niðurstaða rannsóknar lögreglu um að stefnandi væri undir rökstuddum grun um að hafa ráðið manni bana var krafa saksóknara um að stefnandi væri framseldur til Íslands réttmæt. Var sú krafa nauðsynleg svo að íslensk yfirvöld gætu yfirheyrt hann sem grunaðan um brotið og haldið áfram rannsókn málsins.
Ljóst er að um framsalskröfu íslenskra yfirvalda var fjallað á tveimur dómstigum í Hollandi og var þar staðfest að hann skyldi framseldur til Íslands. Gögn varðandi þetta eru ekki lögð fram á íslensku en óumdeilt er að endanleg niðurstaða hollenskra dómstóla um framsal stefnanda var tekin með dómi Hæstaréttar Hollands sem upp var kveðinn 8. janúar 2002.
Stefnandi byggir bótakröfur sínar meðal annars á því að vegna framkominnar framsalskröfu hafi hann setið saklaus í fangelsi í 400 daga, þar af í 145 daga frá því að fallist hafi verið á framsalskröfuna og í gæsluvarðhaldi í 15 daga á Íslandi. Fyrir liggur að stefnandi afplánaði fjögurra ára dóm fyrir fíkniefnainnflutning til Hollands og hóf hann afplánun þess dóms í hollensku fangelsi í nóvember 1999. Ef hann hefði setið af sér allan dóminn hefði hann átt að sitja í fangelsi fram í nóvember 2003 en ekkert liggur fyrir um það hvort og þá hvenær og að hvaða skilyrðum uppfylltum dómþolar geti sótt um reynslulausn eða náðun samkvæmt hollenskum lögum. Þykir því ljóst að vera stefnanda í fangelsi á þeim tíma sem hér um ræðir verður ekki rakin til aðgerða íslenskra yfirvalda heldur var stefnandi að afplána dóm sem hann hlaut í Hollandi vegna refsiverðar háttsemi sem hann framdi þar.
Stefnandi hefur einnig haldið því fram að vegna framsalskröfunnar hafi hann verið fluttur í einangrun og orðið að sæta skerðingar á réttindum sem hann áður hafði. Þá hafi hann verið fluttur í fangelsi þar sem aðbúnaður hafi verið mjög lélegur og síðan í sérstakt öryggisfangelsi. Þá hafi hann ekki getað lengur stundað það nám sem hann hafði stundað og þetta hafi komið í veg fyrir að hann fengi náðun eftir að hafa afplánað þriðjung fangelsisrefsinar vegna góðrar hegðunar. Um þessar fullyrðingar sínar hefur stefnandi ekki lagt fram önnur gögn en yfirlýsingu lögmanns síns í Hollandi sem tilkynnir stefnanda í bréfi 17. júlí 2002 að 1. maí 2001 hafi hann verið færður úr venjulegu fangelsi og settur í annað með lélegri aðbúnaði og minna frelsi. Þannig hafi það verið til 31. maí 2001 og hafi ástæðan verið framsalskrafa íslenskra yfirvalda. Þann 31. maí 2001 hafi hann verið fluttur í annað fangelsi með lélegri aðbúnaði en það fyrsta og hafi hann verið fluttur í það fangelsi vegna framkominnar framsalskröfu. Vegna þessa flutninga hafi hann ekki getað haldið námi sínu áfram.
Engin frekari gögn hefur stefnandi lagt fram því til sönnunar að vegna framkominnar framsalskröfu hafi hann verið meðhöndlaður eins og hann lýsir og er því allsendis ósannað að svo hafi verið. Framsalskrafa er í eðli sínu þannig að óhjákvæmilegt er að hún valdi þeim sem hún beinist að óþægindum en ekki hefur verið sýnt fram á annað en þær aðgerðir íslenskra yfirvalda sem að framsalinu lutu hafi verið nauðsynlegar eins og á stóð og nægilegt tilefni hafi verið til þeirra. Engin gögn í málinu styðja að stefndi beri á nokkurn hátt ábyrgð á því hvernig fréttaflutningur hafi verið af málinu í íslenskum fjölmiðlum.
Hafi stefnandi verið fluttur milli fangelsa og hafi réttindi hans af einhverjum ástæðum verið skert þegar hann afplánaði hinn hollenska dóm í hollensku fangelsi var sú ákvörðun tekin af hollenskum yfirvöldum en ekki íslenskum. Stefnandi hefur ekki lagt fram haldbær gögn sem styðja þær fullyrðingar sínar að ákvarðanir hollenskra yfirvalda um það hvar og hvernig hann afplánaði sinn dóm í Hollandi verði raktar til framsalskröfu íslenskra yfirvalda og verður hann að bera hallann af þeim sönnunarskorti.
Af gögnum málsins er ljóst að stefnandi var ekki framseldur fyrr en eftir að hollensk yfirvöld leystu hann úr fangelsi þann 21. maí 2002 og var hann fluttur til Íslands sama dag. Vangaveltur stefnanda um að íslensk yfirvöld hafi ekki gert neinn reka að því að ná í stefnanda fyrr en raun bar vitni þrátt fyrir að Hæstiréttur Hollands hafi samþykkt framsalið 8. janúar 2002 eru ekki studdar neinum gögnum. Er ljóst af gögnum málsins að fyrir lá að hollensk yfirvöld myndu ekki framselja stefnanda fyrr en eftir að hann hefði lokið afplánun hins hollenska dóms. Var hann sóttur af íslenskum yfirvöldum sama dag og tilkynning barst um að það mætti sækja hann.
Daginn eftir að stefnandi kom til Íslands þann 22. maí 2002 var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli a og b liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til 3. júní 2002. Þann dag var gæsluvarðhaldið framlengt og sat stefnandi í gæsluvarðhaldi til 4. júní 2002 eða samtals í 14 daga. Samkvæmt tilvitnuðum ákvæðum laga nr. 19/1991 verður sakborningur því aðeins úrskurðaður í gæsluvarðhald að fram sé kominn rökstuddur grunur um að hann hafi framið verknað sem fangelsisrefsing er lögð við enda hafi hann náð 15 ára aldri. Auk þessa skilyrðis þurfa að vera fyrir hendi eitt fjögurra skilyrða talin upp í stafliðum a-d. Samkvæmt a lið að ætla megi að sakborningur muni torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum eða hafa áhrif á vitni eða samseka og b að ætla megi að hann muni reyna að komast úr landi eða leynast eða koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar.
Samkvæmt beiðni lögreglustjórans í Reykjavík um gæsluvarðhald sem dagsett var 22. maí 2002 byggðist krafan um gæsluvarðhald fyrst og fremst á því að spyrja ætti stefnanda ítarlega út í sakarefnið og ljóst væri að í kjölfarið myndi þurfa að taka frekari skýrslur af öðrum og því væri nauðsynlegt að halda honum í gæsluvarðhaldi til að tryggja að hann gæti ekki torveldað rannsókn málsins með því að hafa áhrif á vitni eða samseka eða á annan hátt. Í síðari kröfu um framlengingu gæsluvarðhalds sem dagsett var þann 3. júní 2002 segir að skýrslutökum sé ekki lokið af stefnanda þótt hann hafi verið yfirheyrður rækilega. Fyrir liggi í rannsóknargögnum rökstuddur grunur um að maður að nafni H búi yfir vitneskju um ætlaðan þátt stefnanda í hvarfi V en ekki hafi tekist að taka skýrslu af H þrátt fyrir miklar tilraunir til þess. Sé því ófært að stefnandi gangi laus áður en tekin sé skýrsla af téðum H því hann gæti þá torveldað rannsókn málsins næði hann tali af vitninu.
Stefndi hefur lagt fram gögn um tilraunir lögreglu og héraðsdómara við að fá H til að gefa skýrslu og bera þau gögn með sér að þær tilraunir hófust eftir að stefnandi var framseldur til Íslands eða þann 26. maí 2002. Grunur lögreglu um vitneskju H sýnist byggð á lögregluskýrslu sem tekin var þann 26. mars 2001 af O og var skýrslan tekin af Kristjáni Inga Kristjánssyni rannsóknarlögreglumanni að viðstöddum Benedikt Helga Benediktssyni rannsóknarlögreglumanni. Kemur fram hjá henni að hún hafi verið í sambúð með H og kynnst stefnanda sem hafi verið vinur H. Hafi hún fljótlega eftir að hún kynntist H spurt hann hvort hann vissi eitthvað um hvarfið á V. Hún vissi ekki hvers vegna hún spurði en kvaðst hafa einhverja tilfinningu fyrir því að hann vissi eitthvað án þess að hún gæti útskýrt þessa tilfinningu nánar. Þá hafi H sagt sér þá sögu að stefnandi hefði komið til hans og greint honum frá því að þeir E hefðu drepið V, komið líkinu fyrir í skotti bifreiðar og verið með það þar í tvo daga og síðar falið líkið á söndunum áður en komið sé til Víkur í Mýrdal. Hafi stefnandi boðist til að sýna honum staðinn sem líkið væri falið en H hafi hafnað því.
Þá kom fram hjá O að H hefði sagt henni að E hefði sagt stefnanda að V skuldaði honum 400.000 krónur og hafi E beðið stefnanda að koma með sér að rukka V. Hafi þeir verið of aðgangsharðir og drepið V. Seinna hafi komið í ljós að V hafi ekki skuldað þessa fjárhæð heldur hafi E skuldað Þorfinni Þorfinnssyni þessa upphæð. Þá kvaðst O vita til að stefnandi og H hafi farið í hringferð um landið sumarið 1995 og þá hafi stefnandi boðist til að sýna H hvar þeir E hefðu falið líkið af V.
Í málinu liggja ekki frammi upplýsingar um hvort og þá af hverjum lögreglan tók skýrslur á því tímabili sem stefnandi sat í gæsluvarðhaldi, fyrir utan skýrslur sem teknar voru af stefnanda sjálfum dagana 21., 29. og 31. maí 2002 og 3. júní 2002 og skýrsla sem tekin var af H þann 4. júní 2002 fyrir dómi. Sérstaklega aðspurður út í sögu þá sem O kvaðst hafa eftir H um aðild stefnanda að meintu manndrápi kvaðst hann ekki kannast við að hafa sagt þessa sögu. Hann kvað þó að verið gæti að hann hefði einhvern tímann logið einhverju svona upp á stefnanda því að hann hafi á tímabili haldið að O héldi fram hjá sér með honum. Hafi þessi fíflalæti farið aðeins öðru vísi en þau áttu að fara. Hann viðurkenndi síðan fyrir dómi að á þessum tíma hafi enginn verið maður með mönnum nema kunna eina eða tvær “Vallasögur” og vel geti verið að hann hefði sagt einhverja svona bullsögu við O. Þá fullyrti hann ítrekað að hann hafi verið að ljúga því ef hann hafi sagt O sögu um að sér hefði verið sagt að stefnandi og E hefðu drepið V.
Eins og fram kemur í gögnum málsins var stefnanda sleppt úr gæsluvarðhaldi þegar framangreind skýrsla H lá fyrir. Verður ekki dregin önnur ályktun af þeirri ákvörðun en að eftir að H gaf skýrslu hafi stefnandi ekki verið lengur undir rökstuddum grun um aðild að manndrápi en engin gögn liggja fyrir um hvert var framhald rannsóknarinnar gagnvart stefnanda eftir þetta fram að þeim tíma sem tilkynnt var um að rannsókn málsins sem beindist að stefnanda væri hætt með bréfi 31 október 2002. Þá liggur ekki fyrir að aðrir en stefnandi og H hafi verið yfirheyrður vegna málsins á þeim tíma sem stefnandi sat í gæsluvarðhaldi og þykir því ljóst að rannsóknarhagsmunir þeir sem lögreglan taldi vera fyrir hendi þegar krafist var gæsluvarðhalds voru að halda stefnanda frá H þar til hann hefði gefið skýrslu.
Upplýsingar um nauðsyn þess fyrir lögreglu að yfirheyra umræddan H lágu fyrir eftir að O gaf skýrslu þann 26. mars 2001. Ekkert liggur fyrir í málinu um að reynt hafi verið að yfirheyra H fyrr en eftir að stefnandi var framseldur til Íslands.
Samkvæmt 175. gr. laga nr. 19/1991 má taka kröfur til greina kröfur um skaðabætur ef rannsókn hefur verið hætt eða ákæra ekki gefin út vegna þess að sú háttsemi sem sakborningur var borinn hafi talist ósaknæm eða sönnun ekki fengist um hana eða sakborningur dæmdur sýkn með óáfrýjuðum eða óáfrýjanlegum dómi af sömu ástæðu. Þá má fella niður bætur eða lækka þær ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerður sem hann reisir kröfu sína á. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að bæta skuli fjártjón og miska ef því er að skipta.
176. gr. laga nr. 19/1991 má dæma bætur vegna handtöku, leitar á manni eða í húsi, halds á munum, rannsóknar á heilsu manns, gæsluvarðhalds og annarra aðgerða sem hafa frelsisskerðingu í för með sér, aðrar en fangelsi sbr. 177. gr. a) lögmæt skilyrði hefur brostið til slíkra aðgerða eða b) ef ekki hefur verið, eins og á stóð nægilegt tilefni til slíkra aðgerða eða þær hafa verið framkvæmdar á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt.
Af því sem að framan er rakið verður að telja miðað við niðurstöðu rannsóknar á meintum þætti stefnanda í hvarfi V, hefði gæsluvarðhalds yfir stefnanda ekki verið krafist ef skýrsla hefði verið tekin af H um leið og tilefni gafst til eftir skýrslu O, ári áður en stefnandi var hnepptur í gæsluvarðhald. Þykir því einsýnt að eins og á stóð hafi ekki verið nægilegt tilefni til þess að hneppa hann í gæsluvarðhald. Samkvæmt þessu er fullnægt skilyrðum b liðar 176. gr. og 175. gr. laga nr. 19/1991 með áorðnum breytingum til að dæma honum bætur fyrir miska sem gæsluvarðhaldið leiddi til.
Miðað við að stefnandi sat í gæsluvarðhaldi í 14 daga að ósekju þykir hann eiga rétt á miskabótum og eru þær hæfilega ákveðnar 350.000 krónur og skulu þær bera dráttarvexti samkvæmt 1.mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu eins og krafist er og nánar greinir í dómsorði en vaxtakröfum stefnanda hefur ekki verið mótmælt sérstaklega.
Með hliðsjón af því að komist hefur verið að þeirri niðurstöðu að umrædd framsalskrafa hafi verið lögmæt verður stefndi ekki dæmdur til að greiða þann kostnað sem stefnandi kann að hafa haft af meðferð þeirrar kröfu fyrir hollenskum dómstólum enda komst hollenskur dómstóll að þeirri niðurstöðu að taka bæri kröfuna til greina og er stefndi sýknaður af þeirri kröfu stefnanda að fjárhæð 194.484 krónur.
Stefnandi hefur notið gjafsóknar í málinu. Eru því ekki efni til að dæma íslenska ríkið til greiðslu málskostnaðar sem þannig er felldur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda samtals að fjárhæð 447.340 þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans Jóns Magnússonar hrl. sem þykir hæfilega ákveðin 430.000 krónur, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, greiðist úr ríkissjóði.
Af hálfu stefnanda flutti málið Jón Magnússon hrl. en af hálfu stefnda flutti málið Óskar Thorarensen hrl.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Stefndi íslenska ríkið greiði stefnanda, Ársæli Snorrasyni 350.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 3. desember 2002 til greiðsludags.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda að fjárhæð 447.340 krónur þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans Jóns Magnússonar hrl. 430.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.