Hæstiréttur íslands

Mál nr. 531/2005


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Hótanir
  • Fíkniefnalagabrot
  • Skilorðsrof


Fimmtudaginn 30

 

Fimmtudaginn 30. mars 2006.

Nr. 531/2005.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir vararíkissaksóknari)

gegn

Hákoni Erni Atlasyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Líkamsárás. Hótanir. Fíkniefnalagabrot. Skilorðsrof.

H var meðal annars ákærður fyrir vörslur á rúmlega 63 g af hassi, hættulega líkamsárás með hafnaboltakylfu og fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa hótað lögreglufulltrúa og fjölskyldu hans ofbeldi og lífláti. Var H sakfelldur fyrir vörslur fíkniefnanna, en var við ákvörðun refsingar látinn njóta vafa um nákvæmt magn, þar sem ekki þótti fram komin lögfull sönnun þess að magnið hafi verið svo mikið sem í ákæru greindi. H neitaði að hafa barið S með hafnaboltakylfu í höfuðið, en framburður hans hjá lögreglu og fyrir dómi var talinn ruglingslegur og mótsagnakenndur og því í heild ekki trúverðugur. Ummæli sem vitni höfðu eftir ákærða bæði um fyrirætlan hans fyrir atburðinn og um atburðinn sjálfan eftir hann, þóttu benda til sakar hans. Þá var sannað að hafnaboltakylfa hafði verið flutt á staðinn að ósk H. Þótti því ekki óvarlegt að telja sannað að H hafi slegið S högg í höfuðið með hafnaboltakylfu, sbr. 45. og 46. gr. laga um meðferð opinberra mála. Þá var jafnframt talið sannað að H hafi ítrekað sagst ætla að drepa tiltekinn lögreglufulltrúa og skaða fjölskyldu hans, en H hafði ummælin uppi í viðurvist vinnufélaga lögreglufulltrúans. Þótti því sannað að hann hafi brotið gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 23. nóvember 2005 að ósk ákærða og í samræmi við yfirlýsingu hans um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst nú staðfestingar á sakfellingu héraðsdóms en þyngingar á refsingu. Jafnframt krefst ákæruvaldið þess að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta til S samkvæmt ákæru 15. febrúar 2005.

Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til málflutnings og dómsálagningar að nýju. Til vara krefst hann sýknu af kröfu ákæruvalds, en að því frágengnu að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að bótakröfu S verði vísað frá dómi en til vara að hún verði lækkuð.

 

I.

Krafa ákærða um ómerkingu hins áfrýjaða dóms er reist á þeirri forsendu að héraðsdómur hefði átt að vera fjölskipaður samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Ákvæðið felur í sér heimild til að ákveða að þrír héraðsdómarar skuli skipa dóm í máli ef sýnt þykir að niðurstaða kunni að verulegu leyti að ráðast af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi. Nauðsyn þessa úrræðis ræðst af aðstæðum hverju sinni. Eins og sönnunargögnum í málinu er háttað verður mati héraðsdóms á þessu ekki haggað. Mat á sönnunarfærslu á hendur ákærða sætir hins vegar endurskoðun fyrir Hæstarétti, eftir því sem efni máls gefur tilefni til, þar með talið hvort munnleg sönnunarfærsla, eins og héraðsdómari hefur metið hana, fái nægilega stoð í öðrum gögnum.

II.

Ákærði neitaði fyrir dómi að hafa haft í vörslum sínum 63,24 grömm af hassi 20. júlí 2004 þegar lögregla stöðvaði akstur hans á Norðurlandsvegi, eins og honum er gefið að sök með ákæru 17. desember 2004. Kvað hann magnið hafa verið eitt til eitt og hálft gramm. Samkvæmt gögnum málsins fannst pakki í bifreiðinni, sem í reyndist  vera hass. Við yfirheyrslu hjá lögreglu 20. júlí 2004 kvaðst ákærði gera ráð fyrir að efnið væri hass, en það hefði hann verið beðinn um að flytja milli Reykjavíkur og Akureyrar og hafi hann átt að fá 5% þess fyrir flutninginn. Hann var hins vegar ekki spurður um magnið. Í efnaskýrslu tæknideildar lögreglunnar í Reykjavík kemur fram að magn hassins, sem haldlagt var í málinu, hafi verið 63,24 grömm. Svo sem fyrr segir vefengdi ákærði þetta við meðferð málsins. Þrátt fyrir það hlutaðist ákæruvaldið ekki til um að fá lögreglumanninn sem undirritaði skýrslu tæknideildar til að staðfesta hana fyrir dómi. Er því ekki fram komin lögfull sönnun þess að magnið hafi verið svo mikið sem í ákæru greinir. Fyrir dómi kannaðist ákærði við að hann hafi fengið 5% efnisins í sinn hlut. Lögreglumennirnir sem handtóku ákærða umrætt sinn og vitni sem var með ákærða í bifreiðinni báru að fíkniefnið hafi verið í pakka og annar lögreglumannanna fullyrti að það hafi verið um 60 grömm. Af þessu er ljóst að magn efnisins var mun meira en ákærði hefur játað fyrir dómi, þó að ekki verði fullyrt af nákvæmni hversu mikið það var. Verður ákærði því sakfelldur fyrir brot gegn þeim ákvæðum sem vísað er til í ákæru 17. desember 2004, en við ákvörðun refsingar látinn njóta vafa um nákvæmt magn.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða samkvæmt ákærum 15. febrúar 2005 og 22. júní sama ár að öðru leyti en því að ósannað er ætlað hótunarbrot 11. ágúst 2004, enda nýtur gegn neitun ákærða einungis eins vitnis um hana. Verður hann því sýknaður af því broti.

Með vísan til þeirra sjónarmiða sem fram koma í héraðsdómi er refsing ákærða ákveðin fangelsi í þrjú ár. Ákvæði héraðsdóms um bætur til handa S verða staðfest.

Upptækt skal gera það fíkniefni sem hald var lagt á og ákæra 17. desember 2004 tekur til.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað eru staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákærði, Hákon Örn Atlason, sæti fangelsi í þrjú ár. Frá refsingunni dragist fjögurra daga gæsluvarðhald hans.

Ákærði sæti upptöku á því hassi, sem hald var lagt á við rannsókn málsins.

Ákvæði héraðsdóms um bætur og sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 802.527 krónur þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 622.500 krónur, og réttargæslumanns brotaþola fyrir Hæstarétti, Bjarna Þórs Óskarssonar hæstaréttarlögmanns, 124.500 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 21. október 2005.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 22. september sl., er höfðað hér fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra, með fjórum ákæruskjölum lögreglustjórans á Akureyri og ríkissaksóknara á hendur Hákoni Erni Atlasyni, kt. 030379-5009, Aðalstræti 2, Akureyri.

I.

Með ákæruskjali lögreglustjórans á Akureyri útgefnu 17. desember 2004,

„fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa þriðjudaginn 20. júlí 2004, verið með í vörslum sínum 63,24 grömm af hassi, þegar lögreglan stöðvaði bifreiðina VM-167, sem hann var farþegi í á Norðurlandsvegi við bæinn Árholt í Torfulækjarhreppi, en efni þessi hafði ákærði tekið að sér að flytja frá Reykjavík til Akureyrar gegn greiðslu.

Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni, nr. 65, 1974, sbr. lög nr. 60, 1980, sbr. lög nr. 13, 1985, sbr. lög nr. 10, 1997, sbr. lög nr. 82, 1998 og lög nr. 68, 2001 og 2. gr. sbr. 14. gr. reglugerðar um sölu og meðferð ávana og fíkniefna nr. 233, 2001.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta upptöku á 63,24 grömmum af hassi, sem lögreglan lagði hald á og tilgreint er í efnaskrá nr. 020-2004-10, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233, 2001.“

II.

Með ákæruskjali ríkissaksóknara útgefnu 15. febrúar 2005,

„fyrir hættulega líkamsárás með því að hafa, aðfararnótt fimmtudagsins 5. ágúst 2004, á þjóðveginum í Öxnadal, slegið S, [...], eitt eða fleiri högg í höfuðið með hafnarboltakylfu svo að hann missti meðvitund og féll í jörðina.  Við þetta hlaut S brot í gagnaugabein höfuðkúpu, mar og blæðingu í heila þar fyrir innan og við höfuðkúpubotn, kinnbeinsbrot og nefbrot, auk blæðingar undir hljóðhimnu í vinstra eyra sem leiddi til heyrnartaps.

Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 11. gr. laga nr. 80, 1992 og 111. gr. laga nr. 82, 1998.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Að hálfu S er krafist skaðabóta að fjárhæð 5.702.717 krónur, auk vaxta samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38, 2001 frá 5. ágúst 2004, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. vaxtalaga.“

III.

Með ákæruskjali lögreglustjórans á Akureyri útgefnu 20. júní 2005,

„fyrir líkamsárás, með því að hafa aðfararnótt sunnudagsins 31. október 2004, á veitinga- og skemmtistaðnum Kaffi Akureyri, að Strandgötu 7 á Akureyri, slegið Æ, [...] í andlitið þannig að hann féll í gólfið og síðan sparkað í andlitið á honum þar sem hann lá liggjandi í gólfinu, með þeim afleiðingum að hann hlaut áverka á andliti og tönn nr. 21 brotnaði cervical og eyðilagðist.

Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20, 1981.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Í málinu gerir Æ, [...], [...], Akureyri, bótakröfu á hendur ákærða að fjárhæð kr. 649.000-, með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38, 2001 frá 30. október 2004 til 2.07.2005 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38, 2001 frá þeim degi til greiðsludags.“

IV.

Með ákæruskjali ríkissaksóknara útgefnu 22. júní 2005,

„fyrir brot gegn valdstjórninni, með því að hafa í ríkisfangelsinu á Akureyri, mánudaginn 9. ágúst 2004, hótað Daníel Snorrasyni lögreglufulltrúa ofbeldi og lífláti og miðvikudaginn 11. og föstudaginn 13. sama mánaðar, hótað Daníel og fjölskyldu hans ofbeldi og lífláti, vegna afskipta Daníels af ákærði í starfi sínu sem lögreglufulltrúi, en hótanirnar viðhafði ákærði í viðurvist lögreglumanna og fangavarða.

Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 11. gr. laga nr. 101, 1976 og 32. gr. laga nr. 82, 1998.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.“

Verjandi ákærða krefst þess aðallega, fyrir hönd ákærða, að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins í málinu.  Til vara gerir hann þá kröfu að ákærði hljóti vægustu refsingu sem lög leyfa, sem verði skilorðsbundin að öllu leyti eða að hluta til.  Þá krefst hann þess að gæsluvarðhald ákærða frá 9. til 13. ágúst 2004 komi til frádráttar refsingu.  Verjandi krefst þess einnig að bótakröfum S og Æ verði vísað frá dómi en til vara að þær verði lækkaðar verulega.  Loks er þess krafist að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarlaun.

I.

1.

Samkvæmt rannsóknargögnum var lögreglan á Blönduósi við eftirlit á þjóðveginum þann 20. júlí 2004 og stöðvaði bifreiðina VM-167 kl. 09.33. Þegar lögreglumaður kom að bifreiðinni lagði út úr henni lykt sem hann taldi vera hassreykingalykt.  Var í framhaldinu ákveðið að handtaka ökumann og farþega, sem reyndist vera ákærði í máli þessu, og voru þeir fluttir til Blönduóss. Ákærði framvísaði pakka innpökkuðum í plast með ætluðu hassi og kvaðst hafa verið beðinn um að flytja efnið frá Reykjavík til Akureyrar gegn greiðslu.  Samþykkti ákærði að afsala sér ætluðu hassi og hnúajárni sem fannst í tösku hans.  Samkvæmt efnaskýrslu tæknideildar lögreglustjórans í Reykjavík innhélt pakkinn sem ákærði framvísaði 63,24 grömm af hassi.

2.

Ákærði kveðst fyrir dómi hafa verið í bifreið sem stöðvuð var af lögreglu umrætt sinn og hafa framvísað fíkniefnum.  Hann hafi hins vegar ekki verið með svo mikið eins og greinir í ákæru.  Hann hafi aðeins verið með um eitt til eitt og hálft gramm af hassi. Aðspurður um það sem fram kemur í skýrslu hans að hann hafi vísað á pakka í svartri tösku kveður hann það vera rétt.  Þá segir hann það einnig rétt eftir sér haft í skýrslu að hann hafi verið beðinn að flytja efnið frá Reykjavík til Akureyrar og að hann hafi sagst gera ráð fyrir að um hass væri að ræða.  Aðspurður um ummæli ákærða við yfirheyrslur þess efnis að hafa átt að fá 5% efnisins fyrir flutninginn segir hann þau vera rétt.

Vitnið A kveðst hafa ekið bifreiðinni umrætt sinn.  Hún kveðst tvívegis hafa spurt ákærða hvort hann hefði fíkniefni meðferðis áður en þau lögðu af stað frá Reykjavík og hann neitað í bæði skiptin.  Þegar lögreglan hafi stöðvað bifreið hennar hafi hann hins upplýst að hann hefði meðferðis efni sem hann gæti ekki falið.  Hann hafi ekki upplýst hvers konar efni væri um að ræða eða magn þess.

Vitnið B kveðst hafa verið farþegi í bifreiðinni VM-167 umrætt sinn.  Hún hafi verið hálfsofandi þegar lögreglan stöðvaði hana.  Hún kveðst ekki hafa verið með fíkniefni og ekki orðið vör við að A hefði neitt slíkt.  Hún kveðst heldur ekki hafa vitað af því að ákærði væri með fíkniefni og ekki hafa heyrt hann minnast á það í bifreiðinni.

Vitnið Kristjana Sigríður Skúladóttir lögreglumaður kveðst hafa stöðvað bifreiðina umrætt sinn ásamt öðrum lögreglumönnum.  Ákærði hafi setið í aftursæti bifreiðarinnar.  Þegar ákærði hafi verið spurður um hvort hann hefði eitthvað sem hann vildi vísa á, áður en leitað yrði í bifreiðinni, hafi hann upplýst um fíkniefni í tösku sinni.  Vitnið kveður efnunum hafa verið pakkað inn í plast og ákærði hafi þegar afhent efnin.  Hann hafi sagst vera á leið frá Reykjavík og hafa tekið að sér að flytja efnin þaðan til Akureyrar.

Vitnið Vilhjálmur Stefánsson lögreglumaður kveðst hafa stöðvað bifreið sunnan við Blönduós og í kjölfarið hafi verið ákveðið að færa þá sem í bifreiðinni voru á lögreglustöðina á Blönduósi.  Þar hafi ákærði framvísað fíkniefnum sem voru í tösku í aftursæti bifreiðarinnar.  Aðspurt segir vitnið þetta hafa verið stóran pakka, um 60 grömm.  Það hafi ekki getað verið 1 gramm, þetta hafi verið kubbur.  Vitnið kveðst þó ekki hafa vigtað efnin, þau hafi verið send til rannsóknar í Reykjavík.  Vitnið segir efni í slíkum málum geymd í lokaðri hirslu þar til lögreglumaður fari með efnin til rannsóknardeildar lögreglunnar í Reykjavík.  Vitnið er spurt um beiðni sem fylgdi efnunum til rannsóknardeildarinnar.  Þar sé gert ráð fyrir undirskrift vegna móttöku efnanna en hana sé ekki að finna á umræddu blaði.  Vitnið segir starfsmenn rannsóknardeildarinnar aðeins kvitta undir rannsóknina en ekki beiðnina.  Ef starfsmenn rannsóknardeildar séu ekki við þegar komið er með efnin taki varðstjóri við þeim en opni ekki umslagið.  Því sé ekki kvittað um móttöku á beiðnina.

3.

Ákærði hefur fyrir dómi haldið því fram að hann hafi umrætt sinn einungis haft í fórum sínum eitt til eitt og hálft gramm af hassi.  Engu að síður hefur hann staðfest þann framburð sinn að hafa verið beðinn um að flytja efnin frá Reykjavík til Akureyrar og átt að fá 5% efnisins í sinn hlut fyrir það.  Við skýrslugjöf hjá lögreglu kvaðst hann hafa átt að koma efnunum fyrir í ruslatunnu við Kaupvang á Akureyri.  Í ljósi þessa verður framburður ákærða um magn efnisins að teljast verulega ótrúverðugur.  Vitnið Vilhjálmur Stefánsson lögreglumaður segir útilokað að um aðeins eitt til eitt og hálft gramm hafi verið að ræða.  Undirritaði vitnið rannsóknarbeiðni til tæknideildar þar sem fram kemur málsnúmer.  Er því þar lýst að efnin hafi fundist í fórum ákærða, í tösku í aftursæti bifreiðar, eins og ákærði hefur einnig staðfest.  Í efnaskýrslu tæknideildar lögreglustjórans í Reykjavík er vísað til sama málsnúmers og fram kemur á ofangreindri rannsóknarbeiðni.  Telur dómurinn, gegn ótrúverðugum framburði ákærða, að leggja megi til grundvallar niðurstöðu rannsóknardeildarinnar og framburð vitnisins Vilhjálms Stefánssonar um magn efnisins.  Verður ákærði því sakfelldur fyrir brot samkvæmt þessari ákæru og varðar það við tilgreind ákvæði.

II.

1.

Samkvæmt rannsóknargögnum hafði starfsmaður Neyðarlínunnar 112 samband við lögregluna á Akureyri kl. 02.17 aðfararnótt 5. ágúst 2004.  Hafði stúlka hringt í neyðarlínuna úr GSM síma en samband við hana verið óskýrt og slitnað.  Þó hafði komið fram að hún væri stödd í Öxnadal og mátti ráða að eitthvað hafði komið fyrir.  Voru lögreglumenn sendir af stað til að kanna málið og einnig sjúkrabifreið.  Á leið þangað fengu lögreglumennirnir upplýsingar um að aftur hefði verið hringt vegna málsins og talað um að einhver hefði verið laminn og væri meðvitundarlaus. Var samband þó enn verið slitrótt og tilkynning því ónákvæm.  Stuttu síðar barst tilkynning um að ráðist hefði verið á S, brotaþola í máli þessu, skammt neðan við Bakkaselsbrekkuna og að einhverjir fleiri væru á vettvangi.

Samkvæmt endurriti af símtölum til neyðarlínunnar barst tilkynning um meðvitundarlausan mann í Öxnadal. Var tilkynnandi spurður um hvort maðurinn væri veikur eða hvort þau hefðu lent í slysi.  Sagði tilkynnandi þá: „Bara eitthvað vesen, slagsmál og vesen.“  Önnur kona tók við símanum og sagði aðspurð um hvort maðurinn hefði verið laminn: „Já, hann var laminn eða eitthvað þess háttar sko, ég get ekki alveg útskýrt það.“ Í síðara samtali var kona spurð á ný hvort maðurinn hefði verið kýldur eða sparkað í hann.  Þá sagði hún: „Ja, ég sko veit, ég get ekkert sagt um það sko, ég bara þú veist, vinur minn var að keyra hann og hann var með... og það voru börn í bílnum og alveg rosalega... (skruðningar) og hann datt í götuna...“

Þegar lögregla kom á vettvang stóð bifreiðin TV-510 í vegarkanti vestan megin og sat ákærði í farþegasæti hennar.  Við austari kant vegarins stóð C og gaf lögreglu merki um að stöðva.  Benti hún lögreglumönnum á brotaþola þar sem hann lá á jörðinni um tvo metra austan vegarins.  Var gras þar þýft og óslegið og bælt í kringum brotaþola.  Hafði brotaþoli greinilegan áverka á höfði en virtist ekki meðvitaður um hvað gerst hafði.  Virtist hann vera undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna og var mjög uppstökkur.  Aðrir voru ekki á vettvangi.

Brotaþoli var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild FSA til rannsóknar og fylgdi lögreglumaður honum í sjúkrabílnum þar sem hann var nokkuð uppstökkur.  Hann virtist ekkert eða lítið muna hvað hafði gerst en spurði „hver barði mig?“ og talaði um það í sjúkrabifreiðinni að hann hefði verið laminn.  Að öðru leyti gat hann lítið tjáð sig um hvað gerst hefði.  Brotaþoli var lagður inn á FSA vegna sprungu við gagnauga og lögreglumaður settur þar á vakt vegna ástands hans.

Ákærði og C, sem voru á vettvangi þegar lögregla kom að, skýrðu svo frá að brotaþoli hefði hlotið meiðslin við að detta illa á götuna.  Hafði lögregla samband við D og E þá um nóttina og staðfestu þær framburð ákærða og C.  Taldi lögregla því að um óhapp hefði verið að ræða.  Seinnipart dagsins 5. ágúst höfðu ættingjar brotaþola samband við lögreglu og upplýstu að líklega hefði ákærði valdið áverkunum á brotaþola með því að berja hann með kylfu.  Var D þá boðuð til skýrslutöku vegna málsins að morgni 6. ágúst.  Mætti hún nokkuð seint og kvaðst þá helst ekki vilja gefa skýrslu af ótta við hefnd ákærða.  Ákærði handtekinn 7. ágúst kl. 14.11 og færður til yfirheyrslu.  Þann 9. ágúst kvað héraðsdómur Norðurlands eystra upp úrskurð um að ákærði skyldi sæta gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar málsins á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Þann 9. ágúst kl. 10.30 gerði lögregla rannsókn á vettvangi.  Var vettvangur ljósmyndaður og skoðaður með tilliti til þess að finna skarpar brúnir, staksteina eða annað sem gæti stutt það að áverkar brotaþola hefðu hlotist af falli á þjóðveginn eða utan hans.  Leiddi rannsókn í ljós að engar skarpar brúnir væru á þjóðveginum, að jarðvegur í vegkanti væri fín möl og þykkur gróður næði upp í vegkant beggja vegna.  Voru þá engir staksteinar eða aðrir harðir hlutir í 50 metra radíus frá vettvangi.

Við skýrslugjöf hjá lögreglu þann 11. ágúst sagði C að kylfa sem verið hefði á vettvangi væri undir dekkjum í geymsluskýli bak við hús hjá henni.  Kvaðst hún sjálf hafa komið kylfunni þar fyrir og vísaði hún lögreglu á hana.  Var kylfan rannsökuð af tæknideild lögreglunnar í Reykjavík.  Voru engin ummerki um blóð eða aðra líkamsvessa á kylfunni.  Umrædd kylfa liggur frammi í málinu.

2.

Ákærði kveðst fyrir dómi hafa sótt brotaþola, vitnið D og börn þeirra í sumarbústað og ætlað að aka þeim til Akureyrar.  Hann kveðst hafa ekið, D hafi setið við hlið hans, brotaþoli hafi verið fyrir aftan ákærða, F í miðjunni og litla stúlkan aftur í hægra megin.  Ákærði kveðst ekki muna nákvæm orðaskipti en stimpingar hafi verið milli brotaþola og D.  Þá hafi brotaþoli verið búinn að lemja hana einu sinni í gólfið fyrir framan börnin áður en lagt hafi verið af stað. Ákærði kveðst fyrst hafa ekið af stað með D og börnin en svo ekki kunnað við að skilja brotaþola, sem hann hafi þekkt í mörg ár, eftir.  Hann hafi því snúið við og tekið brotaþola með gegn því að þau töluðu helst ekki saman á leiðinni.  Það hafi þó ekki gengið eftir og strax hafist orðaskak þeirra í milli.  Kveðst ákærði aðallega hafa reynt að fá D til að hætta að svara brotaþola því hann hafi verið trítilóður.  Ákærði segir annað hvort þeirra, líklega brotaþola, hafa sagst hafa vakið í 8 sólarhringa þegar þarna var komið og drukkið mikið.  Kveður hann brotaþola hafa verið búinn að kasta bjórdós í framrúðu bílsins og hafa látið öllum illum látum svo að drengurinn grét.  Ákærði kveðst þá hafa hringt í E eða C og beðið þær að koma á annarri bifreið til að stía brotaþola og D í sundur.  Ákærði kveður ekki hafa verið gott á milli brotaþola og C og þegar hún hafi komið hafi brotaþoli strax rifið í hár hennar.  Aðspurður um hvort brotaþoli hefði þá verið kominn út úr bílnum kveðst ákærði ekki muna það og vísar til skýrslu sinnar um þetta.  Aðspurður segir ákærði kylfu hafa verið á vettvangi.  Hún hafi verið í öðrum hvorum bílnum, hann geti ekki tjáð sig um það.  Aðspurður kveðst ákærði ekki kannast við að rætt hafi verið um að hafa kylfu til sjálfsvarnar.  Þegar vísað er til ummæla hans þess efnis í lögregluskýrslu kveðst hann ekki muna eftir því.  Beðinn um að lýsa skiptum hans, C og brotaþola við bílinn kveðst ákærði ekki vita nákvæmlega hvað gerðist, það hafi verið kolniðamyrkur.  Hann kveðst ekki kannast við að C hafi verið með kylfu.  Þegar ummæli ákærða í lögregluskýrslu, þess efnis að hann hafi slegið kylfu úr höndum C og tekið hana upp, eru borin undir hann segir hann þau rétt.  Ákærði kveðst hafa staðið við bifreið C og E þegar hann hafi séð brotaþola, sem enn hafi setið í bílnum, rífa í hár C.  Hann hafi þá farið þangað til að stoppa brotaþola.  Segir ákærði brotaþola þá hafa komið út úr bifreiðinni og fallið sökum ofurölvunar.  Hann kveðst ekki geta lýst því hvernig S datt, en það hafi verið harkalegt fall, heyrst hafi dynkur.  Ákærði segir ekkert hafa farið á milli mála að S hefði meiðst, hann þó ekki misst meðvitund heldur verið hálftrylltur.  Ákærði segir þau fyrst hafa reynt að fá brotaþola inn í bíl svo hægt væri að aka honum strax af stað en það hafi ekki gengið og því hafi þau lagt hann út í kant.  Þar hafi þau C setið yfir honum.  E hafi þá verið farin með C og börnin til Akureyrar. Undir ákærða eru borin ummæli í lögregluskýrslu þess efnis að hann neiti að hafa slegið S með kylfunni en þræti ekki fyrir að það gæti verið af hans völdum að S féll í götuna.  Segist ákærði hafa verið að reyna að stöðva S í að lúskra á C og hann þræti ekki fyrir það.  Ákærði kveðst ekki muna til þess að hafa hringt og beðið C að hafa með sér hafnaboltakylfu.  Aðspurður um það þegar honum var sýnd kylfa hjá lögreglu kveðst ákærði ekki muna hvort þar var um að ræða sömu kylfu og var á vettvangi.  Hann kveður kylfuna ekki hafa verið í sinni eigu.

Vitnið S ber fyrir dómi að hann og D hafi verið í sumarhúsi á Hólum með börn sín þessa nótt.  Ákærði kveðst hafa verið ölvaður og þau D farið að rífast.  Hann hafi viljað fara til Akureyrar og hringt í ákærða til að biðja hann að sækja þau þar sem hann hafi verið með bíl þeirra.  Ákærði hafi komið og þau pakkað niður og lagt af stað til Akureyrar.  Vitnið kveðst hafa setið aftur í bifreiðinni ásamt börnum sínum, ákærði hafi ekið og D setið við hlið hans.  Vitnið segir þau  hafa rifist á leiðinni en hann muni það óglöggt.  Vitnið kveðst muna að þau hafi stoppað þegar þau mættu annarri bifreið.  Þaðan hafi komið tvær stúlkur. Ákærði hafi hlaupið til þeirra og önnur stúlknanna fari aftur í bifreiðina til dóttur hans.  Hin stúlkan, C, hafi reynt að toga sig út úr bílnum.  Honum hafi gengið illa að komast út þar sem hann hafi verið að reyna að ná bakpoka með víni sem hann hafi haft milli fóta sér.  Vitnið segir ákærða hafa potað eitthvað í sig með hafnarboltakylfu. Hann hafi spurt ákærða hvað hann væri eiginlega að gera og staðið upp.  Þá hafi ákærði lamið sig.  Eftir það kveðst hann ekki muna meira fyrr en eftir að hann var kominn af gjörgæsludeild. Vitnið kveðst í fyrstu ekkert hafa munað en  atvik hafi rifjast upp smám saman og sé það í samræmi við það sem læknar hafi sagt.  Hann kveðst muna að ákærði hafi verið með kylfuna og C hafi horft á þegar hann var laminn.  Aðspurður um afleiðingar atviksins kveðst vitnið ekki hafa heyrn á vinstra eyra, þá hafi skemmdir á eyranu valdið skaða á jafnvægisskyni hans.  Vitnið kveðst vera mikið hjá læknum vegna afleiðinganna, verið sé að reyna ný lyf, m.a. vegna stöðugs suðs í eyrum.  Aðspurt kveðst vitnið ekki hafa haft samband við ákærða eftir þetta, Daníel Snorrason lögreglufulltrúi hafi ráðlagt sér að gera það ekki.  Vitnið kveðst þó hafa fengið SMS-skilaboð frá ákærða en ekki svarað þeim.  Í skilaboðunum segir vitnið ákærða hafa forvitnast um líðan hans, tjáð sér hvað hefði verið erfitt að sitja í gæsluvarðhaldi og að honum liði illa yfir atvikum.  Aðspurt segist vitnið hafa rætt atburðinn við D.  Hann hafi spurt hana hvers vegna hún hefði skilið hann eftir þarna og hún tjáð sér að hún hefði verið í uppnámi en dauðsæi eftir því.  Aðspurt um lögregluskýrslu þar sem vitnið kveðst ekkert muna eftir atburðum kveðst hann ekkert hafa munað í fyrstu en atburðir hafi síðar rifjast upp og þá hafi hann gefið nýja skýrslu. Aðspurt kveðst vitnið hafa hlotið 75% varanlega örorku samkvæmt áliti Tryggingastofnunar.  Hann hafi verið 30% öryrki fyrir vegna vinnuslyss á sjó.  Hann hafi þó getað haldið áfram sjómennsku eftir það. Hann ber að sér hafi verið ráðlagt að byrja ekki að vinna.  Hann hafi ekkert jafnvægi og hafi suð í eyrum og sé oft rúmliggjandi vegna stöðugra höfuðverkja.  Vitnið kveðst hafa verið hættur á sjó fyrir umrætt atvik en ekkert verið því til fyrirstöðu að hann hæfi sjómennsku á ný.  Aðspurt kveðst vitnið hafa verið búið að neyta áfengis og eiturlyfja þegar atvik urðu.  Hann muni lítið aftur í tímann og geti því ekki svarað með vissu hve lengi hann hafði þá vakað fyrir umræddan atburð.  Aðspurt kveðst vitnið ekki muna hvar atvik urðu, hann hafi þó lesið í blöðunum að það hafi verið uppi á Öxnadalsheiði.  Vitninu er sýnd kylfa sem liggur frammi í málinu.  Hann kveðst ekki geta dæmt um hvort það sé sama kylfa og hann var laminn með, hann hafi ekki séð hana vel.

Vitnið D kveðst hafa verið í sumarbústað á Hólum ásamt brotaþola og börnum þeirra tveimur umrædda nótt.  Aðspurð segir hún þau hafa drukkið áfengi yfir daginn og upp hafi komið ósætti milli þeirra.  Þá hafi brotaþoli ákveðið að ganga til Akureyrar. Hún hafi orðið eftir ein og hringt í ákærða og beðið hann að sækja sig.  Það hafi hann ekki viljað og hún hafi þá hringt í brotaþola sem aftur hafi hringt í ákærða.  Vitnið kveðst hafa farið að leggja sig með börnunum og litla dóttir hennar hafi sofnað.  Hún hafi einnig sofnað en vaknað við komu ákærða og brotaþola.  Þau brotaþoli hafi haldið áfram að rífast en loks hafi þau öll farið út í bíl og ekið af stað.  Vitnið kveðst hafa setið í framsæti bifreiðarinnar, ákærði hafi ekið, F setið í miðjunni aftur í, brotaþoli fyrir aftan ákærða og G hinum megin við F.  Brotaþoli hafi verið með mikil læti og ætlað að vera eftir.  Þau hafi í fyrstu ekið af stað án hans en svo snúið við og sótt hann.  Vitnið kveður brotaþola hafa verið mjög ölvaðan þegar hér var komið sögu og hafi þau rifist harkalega.  Hann hafi farið að segja F, syni þeirra, frá eiturlyfjaneyslu sinni og að hann ætlaði að láta drepa ýmsa, til dæmis vitnið og ákærða.  Vitnið kveðst hafa reiðst brotaþola mjög og einnig ákærði sem hafi reglulega bremsað og sagt þeim að þegja.  Vitnið segir að í eitt skipti þegar bifreiðin var stöðvuð hafi þau farið út.  Til einhverra handalögmála hafi komið milli hennar og brotaþola, sem hafi hent sér út í skurð.  Ákærði hafi þá reiðist og tekist á við brotaþola með þeim afleiðingum að gleraugu ákærða skemmdust.  Við það hafi ákærði brjálast.  Vitnið segir þau þó hafa lagt af stað á ný en ákærði hafi hringt og beðið einhvern að koma á móti sér á öðrum bíl.  Hún telur að hann hafi hringt tvisvar og ber að hann hafi beðið viðmælandann um að koma með kylfuna með sér.  Ákærði hafi sagt sér að hann fengi kylfu og ætli hann að ganga frá brotaþola.  Hún skyldi halda fyrir augu barnanna svo þau sjái ekkert.  Vitnið segir þó ekki hafa hvarflað að sér að af þessu yrði.  Vitnið ber að á leið niður brekku hafi þau mætt bifreið sem hafi blikkað ljósunum og hafi ákærði þá stöðvað bifreiðina.  Ákærði hafi síðan stokkið út úr bílnum og C og E komið úr hinum bílnum.  Þær hafi sagt henni að koma yfir í þeirra bíl en hún hafi heldur viljað að brotaþoli fari yfir í þeirra bíl þar sem litla stúlkan hafi verið sofandi..  Vitnið segir að sér hafi fundist þetta allt frekar skrýtið, svo mikill æsingur hafi verið.  Brotaþoli hafi ætlað út úr bílnum en það hafi tekið nokkurn tíma þar sem hann hafi verið að reyna að ná töskunni sinni.  Ákærði og C hafi djöflast í brotaþola og reynt að ná honum út úr bílnum.  Hann hafi reynt að verjast og kýli í F í atganginum.  Vitnið segist hafa séð ákærða með kylfuna þegar þetta var. E hafi verið hinum megin við bílinn, hjá dóttur hennar.  Vitnið kveður þau hafa náð brotaþola út,  F hafi verið grátandi og hún reynt að hlúa að honum.  Hún segir ákærða hafa hrint brotaþola, eða hann dottið við.  Brotaþoli hafi sagt eitthvað sem ákærði reiddist yfir síðan hafi hún heyrt einhver öskur.  Hún hafi þá farið út úr bílnum og hlaupið aftur fyrir hann og þar hafi brotaþoli legið meðvitundarlaus en ákærði staðið með kylfuna og baðað út höndum.  Ákærði hafi verið brjálaður og sagt eitthvað á þá leið: „ég var búinn að segja þér að ég ætlaði að gera þetta“.  Vitnið kveðst hafa orðið mjög hrædd og ekki haft vit á að athuga púls brotaþola eða neitt slíkt.  Hann hafi verið meðvitundarlaus og kveðst vitnið bara farið að hágráta í hræðslukasti.  F hafi séð pabba sinn og haldið að hann væri dáinn.  Vitnið kveðst ekki muna nein orðaskipti nema að ákærði hafi talað um að hringja þyrfti í neyðarlínuna.  Vitnið kveðst hafa reynt að hringja þangað en C hafi rifið af henni símann.  Þá hafi hún munað eftir að hún hafði á sér síma F.  Hún hafi sótt hann og hringt á meðan ákærði og C hafi reynt að reisa brotaþola við og koma honum til meðvitundar.  Vitnið kveðst svo hafa farið af vettvangi í sínum bíl, E hafi ekið.  Hún kveðst ekki muna af hverju hún fór en líklega hafi það verið vegna barnanna.  F hafi verið í mjög slæmu ástandi og hún sjálf reyndar líka.  Aðspurð um kylfuna segir vitnið þetta hafa verið létta hafnaboltakylfu.  Hún viti það því ákærði hafa sett hana í hennar bíl og hún síðan tekið hana þaðan.  Hana minni að kylfan hafi verið silfurlituð.  Þegar vitninu er sýnd svört kylfa sem liggur frammi í málinu kveðst hún ekki viss um hvort þetta sé kylfan.  Hún hafi á sínum tíma falið kylfuna hjá varadekkinu í farangursgeymslu bifreiðarinnar, að hún heldur til að varðveita hana sem sönnunargagn.  Um nóttina hafi ákærði komið til hennar.  Hann hafi talað um að þau segðu að brotaþoli hefði dottið.  Hann eigi nóg með hassmál sem hann sé lentur í og megi ekki við meiru.  Á meðan ákærði hafi setið hjá henni hafi lögreglan hringt og hafi hún þá svarað eins og ákærði óskaði.  Ákærði spyrji svo eftir kylfunni og hún þori ekki annað en að vísa honum á hana.  Ákærði hafi tekið kylfuna því með sér.  Vitnið segir ákærða hafa haft samband nokkrum dögum síðar og spurt eftir líðan brotaþola.  Eftir að hún hafi farið í yfirheyrslu hafi hann einnig sent henni SMS-skilaboð og verið reiður, líklega af því að hún hafi skýrt rétt frá umræddum atburði.  Hún kveðst því hafa gist hjá móður sinni í nokkra daga þar til hún hafi farið úr bænum.  Aðspurt kveðst vitnið vera dauðhrætt við ákærða.  Hún hafi ekki mikið umgengist hann en hún hafi heyrt af því hvað hann gerði fólki.  Aðspurt um framburð vitnisins fyrir lögreglu á þann veg að hafa ekki séð ákærða halda á kylfunni segist hún þá ekki hafa verið í góðu ástandi.  Eftir að hafa verið edrú í nokkra mánuði hafi hlutirnir rifjast upp og hugsunin skýrist.

Vitnið Sigurður Lárus Sigurðsson var á vakt í sjúkrabifreið sem kölluð var á vettvang umrædds atburðar.  Hann ber að óljós tilkynning hafi borist og staðsetningin ekki verið skýr en tilkynnt hafi verið að slagsmál hefðu orðið og einn lægi óvígur eftir.  Kveður hann stefnuna hafa verið tekna á Öxnadal á sjúkrabílnum ásamt lögreglu.  Þeir hafi komið að kyrrstæðum bíl þar sem á móti þeim tók stúlka og vísaði þeim á hinn slasaða.  Hann hafi legið utan vegar, meðvitundarlaus með mikinn áverka á höfði og frekar veikan púls.  Kveðst vitnið hafa talið að flytja þyrfti hinn slasaða með hraði á sjúkrahús á Akureyri og því hafi verið ekinn neyðarakstur þangað og hafi lögreglumaður verið með í bílnum.  Aðspurt kveðst vitnið hafa séð bifreið á vettvangi og að þar var einhver inni, auk stúlkunnar sem vísaði þeim á hinn slasaða.  Hins vegar hafi verið svartamyrkur og hann ekki séð hver þar var.  Vitnið kveður stúlkuna ekki hafa gefið skýr svör um atburði.  Hann kveðst hafa spurt hana um slagsmál því þau hafi verið nefnd í tilkynningu til neyðarlínunnar, en stúlkan hafi ekkert gefið út á það.  Aðspurður um áverka segir vitnið greinilegt að maðurinn hefði fengið mjög þungt högg á höfuðið.  Hann hafi verið mjög bólginn á gagnaugasvæðinu og þar hafi verið lítill skurður sem blætt hafi úr.  Sárið hafi verið hreint og áverkasvæðið mjög hreint og því ekkert þurft að þrífa það.  Aðspurður um líkur á því að þetta hafi getað hlotist af falli í götuna telur vitnið svo ekki geta verið.  Þá hefði áverkasvæðið verið mun óhreinna.  Vitnið kveðst ekki hafa gert sérstaka vettvangskönnun en kveikt hafi verið á ljósum sjúkrabifreiðarinnar og vinnuljósum og vegurinn hafi verið alveg auður.  Aðspurt kveðst vitnið hafa starfað við sjúkraflutninga í 18 ár áður en atvik urðu.  Vitnið ber að hinn slasaði hafi komist til meðvitundar á leið á sjúkrahúsið og orðið mjög órólegur og æstur.  Í bílnum hafi verið flennibirta og hinn slasaði greinilega mjög illa áttaður.  Hann hafi ekkert vitað hvar hann var og þráspurt vitnið og viðstaddan lögregluþjón hvort þeir hefðu lamið hann.  Þurft hafi að reyra öryggisólar fast að honum til að halda honum kyrrum.

 

Vitnið C segir ákærða hafa keyrt brotaþola og D í sumarbústað.  Hann hafi svo komið aftur og beðið eftir því að þau hringdu til að láta ná í sig.  Svo hafi liðið smá tími þar til hann hafi farið að sækja þau.  Hún telur að hann hafi heyrt, þegar þau hringdu, að þar voru einhver læti, og því hafi hann beðið hana að vera tilbúna að koma á móti þeim ef þörf krefði.  Vitnið kveðst hafa sagt að það væri ekkert mál.  Hún hafi beðið og verið farin að halda að ekkert yrði úr þessu en hann hafi loks hringt og hún farið af stað ásamt E.  Aðspurt segir vitnið ákærða hafa beðið hana um að koma með kylfuna með sér.  Vitnið segir að þegar þau hafi mæst hafi hún stöðvað bílinn.  Hún hafi séð að brotaþoli var með mikil læti og þar sem hún hafi vitað að börn voru í bílnum hafi hún farið rakleiðis að hurðinni þar sem brotaþoli sat til að athuga með börnin.  Segir hún brotaþola hafa þá ráðist að sér og ákærði komið og dregið brotaþola út úr bílnum.  Kveðst vitnið hafa farið hinum megin við bílinn til að hlúa að börnunum.  Aðspurt segir vitnið kylfuna þá hafa verið í hennar bíl, á gólfinu fyrir aftan bílstjórasætið.  Hún kveðst ekki muna eftir orðaskiptum um kylfuna þarna.  Vitnið kveðst ekki hafa verið með kylfuna í höndunum þarna á staðnum.  Hún kveðst hins vegar hafa séð ákærða með hana.  Þá hafi ákærði og brotaþoli báðir staðið utan bifreiðarinnar og átt einhver orðaskipti.  Vitnið kveðst ekki hafa séð brotaþola sleginn en hafa séð hann liggjandi í jörðinni.  Þá hafi ákærði staðið yfir brotaþola með kylfuna í höndunum.  Aðspurt um hvort viðstaddir hafi komið sér saman um hvað skyldi segja lögreglu segist vitnið ekki hafa átt að segja að brotaþoli hefði verið laminn með kylfunni.  Vitnið segir engan vafa leika á því í sínum huga að ákærði hafi slegið brotaþola með kylfunni þó að hún hafi ekki séð það.  Aðspurt segir vitnið kylfuna hafa verið á heimili sínu.  Ákærði hafi þá búið þar með henni.  Vitninu er sýnd kylfa sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.  Hún kveðst ekki geta staðfest að um sé að ræða þá sömu kylfu og var á vettvangi umrætt sinn.

Vitnið E kveður ákærða hafa hringt í sig og C og beðið þær að koma til móts við sig.  Þær hafi gert það og komið að þeim þar sem bifreið þeirra var kyrrstæð út í vegarkanti.  Brotaþoli hafi verið með læti og þær hafi farið að reyna að róa fólkið.  Hún kveðst hafa farið að hlúa að börnunum og næst hafi hún séð brotaþola detta í götuna.  Vitnið kveðst ekki geta lýst því nákvæmlega, hann hafi bara fallið.  Vitnið segir ákærða hafa staðið sömu megin við bifreiðina og brotaþoli en C verið að tala við D sem setið hafi í farþegasætinu frammí.  Vitnið segir C hafa tekið hafnaboltakylfu með og telur að ákærði hafi beðið hana um það.  Aðspurt segir vitnið C fyrst hafa verið með kylfuna, ákærði hafi slegið hana úr höndum hennar og tekið hana upp sjálfur.  Vitnið segir brotaþola hafa gripið í hár C á meðan hann var enn inni í bifreiðinni.  Hún og ákærði hafi reynt að fá hann til að sleppa henni, svo hafi þau ræðst aðeins við en C svo farið hinum megin við bifreiðina til að ræða við D.  Þá hafi ákærði og brotaþoli verið að ræða saman.  Aðspurt kveðst vitnið ekki muna hvort ákærði hafi þá verið með kylfuna í höndunum. Vitnið kveðst ekki hafa skýringu á því af hverju hún bar í upphafi fyrir lögreglu á þann veg að engin kylfa hefði verið á staðnum. Aðspurt kveðst vitnið minna að kylfan sem var á vettvangi hafi verið blágrá.  Vitnið er beðið að lýsa á ný hvernig brotaþoli féll. Kveðst hún hafa staðið vinstra megin við bifreiðina ásamt C en ákærði og brotaþoli hafi verið hægra megin.  Brotaþoli hafi fallið aftur fyrir sig meðfram bifreiðinni. Aðspurt kveðst vitnið ekki hafa séð ákærða slá brotaþola með kylfunni.

Vitnið F gaf skýrslu fyrir lögreglu að viðstöddum starfsmanni fjölskyldudeildar Akureyrarbæjar.  Eru sækjandi og verjandi sammála um að leiða hann ekki fyrir dóminn og lýsir verjandi ákærða því yfir að hann taki skýrslu hans hjá lögreglu gilda.  Vitnið segir að tvær konur hafi komið á móti þeim á bíl.  Þær hafi komið og haldið honum til að hann sæi ekki hvað gerðist.  Pabbi hans hafi verið rifinn út úr bílnum og „hinn kallinn“ hafi haldið á hafnaboltakylfu.  Vitnið kveðst hafa séð hvernig pabbi hans lenti á hnakkanum. Aðspurt um hvort hann hafi verið búinn að sjá kylfuna áður kveðst vitnið hafa séð hana aðeins í höndum annarrar konunnar.  Hún hafi örugglega rétt manninum hana.  Aðspurt segir vitnið ákærða og aðra konuna hafa dregið pabba hans út úr bifreiðinni.  Hin konan, sú sem ekki ók, hafi haldið vitninu en því hafi svo tekist að losa sig og séð pabba sinn liggjandi í götunni.  Hann hafi legið á hnakkanum á miðri götunni.  Þeirra bifreið hafi verið í vegarkantinum, hin á móti og pabbi hans liggjandi á miðri götu.  Aðspurt um orðaskipti segir vitnið pabba sinn hafa ýtt í aðra konuna og þá hafi ákærði sagst drepa hann ef hann snerti hana.  Vitnið kveður mömmu sína hafa verið inni í bifreiðinni til að hringja á Neyðarlínuna.  Vitnið kveðst hafa verið mjög hrætt og mamma sína einnig.  Vitnið segir ákærða og aðra konuna hafa reynt að koma pabba hans inn í bíl en hann hafi neitað því.  Hann hafi hlaupið aðeins og kveðst vitnið halda að hann hafi dottið. Þá hafi þau farið af vettvangi.  Vitnið segir að fyrir þetta hafi pabbi hans og mamma verið að rífast í bifreiðinni og að ákærði hafi verið að reyna að stöðva rifrildið.  Hann hafi nokkrum sinnum orðið að stöðva bifreiðina.  Pabbi hans hafi ýtt í ákærða svo þau myndu fara af veginum og þá hafi ákærði stöðvað bifreiðina.  Vitnið segir ákærða hafa farið út úr bifreiðinni þegar gleraugu hans brotnuðu á leiðinni.  Hann hafi gengið yfir á hinn vegarkantinn og hringt. Vitnið kveðst ekki hafa heyrt þegar ákærði bað konurnar að koma. Vitnið segir þær hafa komið með kylfuna.  Aðspurt kveðst vitnið hafa séð ákærða með kylfuna, hún hafi verið svört með járnhandfangi.  Þetta hafi verið hafnaboltakylfa, hann viti það því hann eigi eina slíka.  Ákærði hafi haldið á kylfunni þegar pabbi hans lá á götunni.  Vitnið segir að í bílnum á leiðinni hafi ákærði sagt: „ef þú heldur þessu áfram þá drep ég þig“.

H gaf skýrslu hjá lögreglu en mætti ekki í dóminn.  Voru sækjandi og verjandi sammála um að taka málið til dóms þrátt fyrir það og verður skýrslan metin í því ljósi.  Samkvæmt lögregluskýrslu kom ákærði til H ásamt I. Bar H að þar sem þeir sátu saman tveir, H og ákærði, hefði ákærði misst út úr sér það sem gerðist í Öxnadal nóttina áður.  Ákærði hafi sagst hafa farið vestur að Hólum í Hjaltadal að sækja brotaþola, D og börn þeirra tvö. D og brotaþoli hafi farið að rífast og ákærði orðið verulega pirraður á þeim.  Hann hafi hringt í E og C og fengið þær til að koma á móti þeim og hafa með sér hafnaboltakylfu. Þegar bílarnir mættust hafi þeir stöðvað, ákærði sótt hafnaboltakylfuna og slegið brotaþola eitt högg á höfuðið þegar hann kom út úr bílnum.  Hafði vitnið eftir ákærða að hann hefði orðið skíthræddur því hann hafi haldið að hann hefði drepið brotaþola.  Sagði vitnið einnig að ákærði hefði sagst hafa öll vitnin í sínu bandi.  Vitnið segir að þarna um nóttina hafi þyrla flogið yfir og þá hafi ákærði orðið stressaður og spurt hvort þyrlan kæmi ekki til að flytja alvarlega slasaða menn til Reykjavíkur.  Í lögregluskýrslunni er talað um að samtal H og ákærða hafi átt sér stað aðfararnótt föstudagsins 7. ágúst en þeir hafi rætt um það sem gerðist nóttina fyrir.  Verður því að telja að samtalið hafi átt sér stað aðfararnótt föstudagsins 6. ágúst.

Vitnið Haraldur Hauksson, sérfræðingur í almennum skurðlækningum og æðaskurðlækningum tók saman vottorð um áverka brotaþola sem liggur fyrir í málinu.  Segir vitnið að af brotalegu á höfuðkúpunni megi telja tvennt koma til greina sem gæti valdið slíkum áverka; fall á stein eða annan hlut eða högg frá einhvers konar barefli eða hlut sem lendi á höfðinu.  Aðspurt um hvort um eitt högg eða fleiri hafi verið að ræða segir vitnið það ekki alveg ljóst, en eitt aðalhögg hafi valdið þessum tiltekna áverka.  Vitnið kveður slíkt högg geta leitt til dauða eða örkumlunar.  Í tilfelli brotaþola hafi verið um að ræða litlar blæðingar innan höfuðkúpunnar. Ef þær hefðu orðið meiri og ákafari hefði það getað leitt til dauða.  Vitnið kveðst hafa annast sjúklinginn þegar hann lá inni á deild hans eftir slysið en hann hafi síðan farið í endurhæfingu á Kristnesi.  Vitnið segir sér kunnugt um að brotaþoli hafi misst heyrn en viti ekki hvort eða að hve miklu leyti hann hafi fengið hana aftur.  Þá hafi verið erfitt að eiga við suð í höfðinu.  Merki hafi verið um áverka í innra eyra sem þýði að líklega hafi eitthvert þrotakerfi náð í gegnum höfuðkúpubotninn og hugsanlega hafi blætt á innra eyrað.

Samkvæmt vottorði Höllu Bjarkar Reynisdóttur flugumferðarstjóra á Akureyrarflugvelli lenti þyrlan LHG 29 TF-LIF frá Reykjavík á Akureyrarflugvelli kl. 03.47 aðfararnótt 6. ágúst og fór aftur í loftið kl. 04.15 til Reykjavíkur.

3.

Fyrir dómi kannast ákærði ekki við að hafa beðið C um að koma með kylfu á vettvang.  Hann kannast við að kylfa hafi verið á staðnum en man ekki eftir því að rætt hafi verið um að nota hana til sjálfsvarnar.  Í lögregluskýrslu játaði ákærði að hafa beðið C að koma með kylfuna og sagði það hafa verið af öryggisástæðum.  Fyrir dómi kveðst ákærði ekki kannast við að C hafi verið með kylfu en þegar undir hann eru borin ummæli í lögregluskýrslu um að hann hafi slegið kylfu úr höndum hennar og tekið hana upp sjálfur segir hann þau vera rétt.

Vitnin D, C og E segja allar að ákærði hafi beðið C að koma með hafnaboltakylfu á vettvang.  Vitnið D ber að ákærði hafi sagt henni að hann ætlaði að ganga frá brotaþola og hún skyldi halda fyrir augu barnanna.  Vitnin F og E segja að C hafi haldið á kylfunni og segir E að ákærði hafi slegið kylfuna úr höndum C og tekið hana upp sjálfur.  Vitnið C kveðst hafa séð ákærða með kylfuna í höndum áður en brotaþoli féll í götuna. Brotaþoli segir ákærða hafa potað í sig með hafnaboltakylfu og svo lamið hann þegar hann stóð upp.  Eftir það muni hann ekki meira fyrr en hann var kominn af gjörgæsludeild.  Vitnin C og F bera að ákærði hafi staðið með kylfuna yfir brotaþola þar sem hann lá slasaður á götunni og ber vitnið D að hann hafi staðið yfir brotaþola með kylfuna, baðað út öngum og sagt: „ég var búin að segja þér að ég ætlaði að gera þetta“.

Í fyrstu tilkynningu til neyðarlínunnar sögðu vitnin D og C að brotaþoli hafi verið laminn.  Í síðara símtali var því svo haldið fram að hann hefði dottið.  Vitnin D og C segja að sammælst hafi verið um að segja ekki frá því að brotaþoli hafi verið barinn með kylfu.  Segir D að ákærði hafi sagt að hann mætti ekki við meiru því hann hefði lent í einhverju hassmáli og væri á skilorði.  Fyrir lögreglu kvaðst E hafa tekið þátt í umræðum við ákærða og C um að segja skyldi að S hefði dottið en segja ekki frá því sem raunverulega gerðist.  Hafi þetta verið rætt strax á vettvangi.

Í læknisvottorði kemur fram að brotaþoli hafði greinilegan áverka á vinstri höfuðhelmingi í kringum gagnauga og stórt mar.  Á því miðju var sár sem leit út eins og húðin hefði sprungið upp við áverka en ekki um beinan skurðáverka að ræða.  Var sárið hreint og þurfti ekki að hreinsa neina möl eða óhreinindi úr því.  Samkvæmt vottorðinu sögðu röntgenlæknar um staðbundinn áverka vera að ræða sem gæti passað við högg frá barefli eða fall á stein eða einhvern annan hlut.  Töldu þeir ólíklegt að áverkinn stafaði af falli á slétt undirlag.  Lýsti vitnið Haraldur Hauksson læknir einnig þessari afstöðu fyrir dómi.  Vitnið Sigurður Lárus Sigurðsson sagði að áverkasvæðið hefði verið mjög hreint og ekkert hafi þurft að þrífa það.  Af 18 ára reynslu við sjúkraflutninga kvaðst vitnið ekki telja áverkann hafa komið við fall á götuna, þá hefði áverkasvæðið verið mun óhreinna.

Ákærði og vitnið E hafa fyrir dómi haldið því fram að brotaþoli hafi dottið á veginn og slasast við það.  Fyrir dómi kveðst ákærði ekki geta lýst því hvernig brotaþoli datt, en segir það hafa verið harkalegt fall og að dynkur hafi heyrst. Við yfirheyrslur hjá lögreglu sagði ákærði: „Hann bara nánast þegar hann kemur út úr bílnum við vinstri afturhurð þá fellur hann í götuna án þess að ná að bera hendurnar fyrir sig gjörsamlega kylliflatur.“  Þegar ákærða var, hjá lögreglu, kynnt álit lækna á áverkum brotaþola, m.a. um að sárið hafi verið alveg hreint, sagði ákærði brotaþola hafi fallið á miðri götunni.  Fyrir dómi segir vitnið E hann hafa fallið aftur fyrir sig meðfram bifreiðinni.  Fyrir lögreglu sagði hún að brotaþoli hafi staðið rétt við vinstri afturhurð bifreiðarinnar og snúið andliti fram með bifreiðinni.  Svo hafi hann dottið aftur fyrir sig og á hægri hliðina.  Vitnið F kveðst hafa séð pabba sinn liggja á götunni, frá bifreiðinni út á miðja götu, með fætur að bifreiðinni, og segir ítrekað að hann hafi legið á hnakkanum.

Vitnið Sigurður Lárus Sigurðsson kvaðst ekki hafa gert sérstaka vettvangskönnun en sagði að kveikt hafi verið á ljósum sjúkrabifreiðarinnar og vinnuljósum hennar og vegurinn hafi verið alveg auður.  Samkvæmt framlögðum ljósmyndum er vegurinn þarna með þeim hætti að það hefði að líkindum vakið athygli ef steinn eða annar hlutur hefði legið á veginum.  Í framburði ákærða og vitnisins E um fall brotaþola, fyrir lögreglu og fyrir dómi, minnast þau þó aldrei á að hann hafi fallið á stein eða annan hlut, heldur aðeins að hann hafi fallið á götuna eða veginn.

Svo sem að framan er rakið er framburður vitna þeirra er á vettvangi voru nokkuð á reiki og ber ekkert þeirra að hafa beinlínis séð ákærða berja brotaþola með hafnarboltakylfunni að undanskildum brotaþola sjálfum, sem ber að svo hafi verið.  Er framburður brotaþola að þessu leyti í samræmi við það er hann sagði í sjúkrabifreiðinni á leið á sjúkrahúsið.  Af framburði annarra vitna verður þó ráðið að ákærði hafði hönd á hafnarboltakylfunni áður en brotaþoli féll á veginn og eftir fall brotaþola stóð hann yfir honum með kylfuna í hendi sér. Þá verður af framburði vitna ráðið að a.m.k. sum þeirra töldu að ákærði hefði barið brotaþola og að rætt var um að leyna því og skýra svo frá að um slys hefði verið að ræða.  Tilkynningar til neyðarlínunnar styðja framangreint.  Að mati læknis var áverki á höfði brotaþola þess eðlis að högg á höfuð eða fall á hlut var líklegasta orsök hans.  Vitni eru sammála um að atburðurinn átti sér stað á miðjum veginum og engin gögn benda til þess að þar hafi verið steinn eða annar hlutur, sem brotaþoli gat fallið á.  Styður þetta þá ályktun að um högg hafi verið að ræða.  Þetta var þó ekki rannsakað sérstaklega.  Svo sem greint er frá í vottorði læknis var áverkin við gagnauga á vinstri höfuðhelmingi en ráða má af framburði vitna að brotaþoli hafi fallið afturfyrir sig á hnakkann og síðan legið þannig.  Dregur þessi staðreynd enn úr líkum á því að áverkinn verði rakinn til falls brotaþola.  Framburður ákærða hjá lögreglu og hér fyrir dómi er ruglingslegur og mótsagnakenndur og því í heild ekki trúverðugur.  En ummæli sem vitni hafa eftir ákærða bæði um fyrirætlan sína og fyrir atburðinn og um atburðinn sjálfan eftir hann þykja benda til sakar hans.  Þá er með framburði vitna sannað að hafnarboltakylfa var flutt á staðinn að ósk ákærða.

Þegar allt ofangreint er metið heildstætt þykir ekki óvarlegt að telja sannað að ákærði hafi slegið brotaþola högg í höfuðið með hafnaboltakylfu, sbr. 45. og 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Með vottorði læknisins Haraldar Haukssonar, framburði hans fyrir dómi og læknabréfum Hilmis Jóhannssonar læknis sem réttargæslumaður brotaþola hefur lagt fram í málinu þykir og sannað að árás ákærða hafi haft þær afleiðingar er í ákæru greinir.  Er brotið í ákæru réttilega heimfært til 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum.

III.

1.

Samkvæmt gögnum málsins var hringt á lögreglustöðina á Akureyri aðfararnótt 31. október 2004 kl. 03.54 frá Kaffi Akureyri og aðstoðar óskað.  Þegar lögregla kom á staðinn lá Æ, brotaþoli í máli þessu, rænulítill á eldhúsgólfi staðarins.  Var óskað eftir sjúkrabifreið á staðinn og flutti hún brotaþola á slysadeild FSA.

Vitni báru að ákærði hefði verið á dansgólfi staðarins er brotaþoli kom þar að til að dansa.  Brotaþoli hafi sagt eitthvað við ákærða sem hafi þá slegið brotaþola í andlit þannig að hann datt aftur fyrir sig.  Þá hefði ákærði sparkað í andlit brotaþola og við það hefði tönn brotnað.  Að sögn dyravarða hafði ákærði yfirgefið staðinn og fannst hann ekki í miðbæ Akureyrar.

2.

Ákærði skýrir svo frá að vel geta verið að hann hafi verið á Kaffi Akureyri þetta kvöld.  Hann kveðst ekki kannast við brotaþola í málinu og ekki kannast við nein atvik sem gætu tengst því sem honum er gefið að sök samkvæmt ofangreindri ákæru.

Vitnið Æ kveðst hafa verið á Kaffi Akureyri.  Hann hafi farið á dansgólf staðarins, verið sleginn og dottið á gólfið.  Þá hafi verið sparkað í andlit hans. Vitnið kveðst ekki hafa séð hver sparkaði í hann en honum hafi verið sagt daginn eftir að ákærði hefði verið þar að verki.  Vitnið kveðst ekki þekkja ákærða og þegar honum er bent á ákærða í réttinum kveðst vitnið ekkert kannast við hann.  Vitnið segir mágkonu sína hafa sagt sér frá þessu, hún hafi ekki verið á staðnum en frétt þetta af afspurn.  Vitnið kveðst hafa misst eina tönn við þetta og að önnur hafi skaddast.  Þær séu nú báðar dottnar úr.  Þá hafi hann verið með sprungna vör og marinn á eyra.  Aðspurt segir vitnið þessar sömu tennur hafa losnað við áverka 10 árum fyrr en þá hafi tekist að festa þær aftur.  Aðspurt kveðst vitnið hafa verið búið að drekka nokkra bjóra þegar þetta gerðist.  Það hafi þó ekki verið sökum ölvunar sem hann hafi ekki séð árásarmanninn heldur vegna þess hve hratt atvik urðu.  Hann kveðst ekki vita hver sagði mágkonu hans frá því að ákærði hafi ráðist á hann.

Vitnið Þ kveðst hafa verið á dansgólfi Kaffi Akureyrar í greint sinn.  Drengur hafi komið að ákærða og þeir fari að tala saman.  Kveðst vitnið hafa snúið baki á þá en snúið sér við þegar drengurinn hafi fallið í gólfið.  Svo hafi hann séð ákærða koma og sparka í andlit drengsins.  Vitnið kveðst hafa verið undir áhrifum áfengis umrætt sinn en muna atvik þó greinilega.  Aðspurt kveðst vitnið hafa vitað hver ákærði var og kannast við hann í réttinum.  Hann kveðst hins vegar ekki þekkja brotaþola.  Vitnið kveðst hafa beygt sig niður að drengnum til að hjálpa honum á fætur og þá séð ákærða koma að drengnum og sparka í hann.  Ákærði hafi staðið 2-3 metra frá.

Vitnið Þórarinn Jóhannesson aðstoðarvarðstjóri kveðst hafa komið á Kaffi Akureyri bakatil og hitt vitni. Brotaþoli hafi verið fluttur burt í sjúkrabíl.  Vitnið kveðst muna eftir tveimur sem sögðust hafa orðið vitni að árásinni.  Vitnið segir bæði vitnin hafa nefnt ákærða með nafni.  Vitnið kveðst ekki hafa rætt við dyraverði staðarins, aðrir lögreglumenn hafi annast það.

Vitnið Garðar Sigurðsson tannlæknir segir að vinstri framtönn hafi brotnað og verið dæmd ónýt.  Hún hafi þó enn ekki verið tekin úr, hún sé spelkuð á sinn stað, brotin við tannholdsrót.  Aðspurt um áhrif fyrra tjóns á áverka vegna þessa atviks segir vitnið að tönnin hefði ekki brotnað nema við áverka en þó hafi ekki verið um fullheilbrigða tönn að ræða.  Aðspurt um tönnina við hliðina segir vitnið hana hafa skemmst við fyrri áverkann en hún hafi brotnað við læknismeðferð vegna síðari áverkans.  Brotna tönnin hafi verið fest við hana og hún ekki þolað það.  Aðspurt um yfirlit um kostnað við læknismeðferð segir vitnið um áætlun sé að ræða vegna þess sem þurfi að gera.

3.

Vitnið Þ er eina vitnið sem ber að ákærði hafi valdið áverkum brotaþola með því að sparka í hann.  Brotaþoli sjálfur sá ekki hver var þar að verki og kannast ekki við ákærða í réttinum.  Gegn eindreginni neitun ákærða þykir ekki komin fram lögfull sönnun um að hann hafi gerst sekur um þann verknað sem í ákæru greinir.  Verður ákærði því sýknaður af þessari ákæru, sbr. 45. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

IV.

1.

Þann 9. ágúst 2004 kvað Héraðsdómur Norðurlands eystra upp úrskurð um að ákærði skyldi sæta gæsluvarðhaldi í eina viku á grundvelli a-liðar 103. gr. laga nr. 19/1991.  Var hann þá þegar í haldi lögreglu í ríkisfangelsinu á Akureyri og fóru lögreglumaður og fangavörður til hans til að kynna honum úrskurðinn.  Brást ákærði mjög illa við úrskurðinum, henti frá sér afriti því sem honum var afhent, rauk til og sparkaði í klefahurð.  Sagði hann svo að þegar hann yrði laus myndi hann fara í næstu holu og finna sér vopn og ganga frá Daníel Snorrasyni lögreglufulltrúa.  Hann vonaðist bara til að hann ætti nógu marga ættingja sem myndu sakna hans.  Þessar hótanir margítrekaði ákærði og í símtali við verjanda sinn, Sigmund Guðmundsson hdl., las hann honum svipaðar hótanir.

Þann 11. ágúst 2004 um kl. 20.00 var fangavörður að sinna ákærða.  Sagði ákærði þá að Daníel Snorrason, lögreglufulltrúi, ætti eftir að iðrast þess að vera að eyðileggja líf hans með stöðugum ofsóknum.  Benti fangavörður ákærða á að honum bæri að tilkynna hótanir hans í garð lögreglumanna.  Róaðist ákærði þá og skipti um umræðuefni.  Nokkru síðar hélt ákærði þó áfram að ræða um það hvernig hann myndi ná sér niðri á Daníel, annað hvort með því að „drepa hann“ eða einhvern náinn ættingja hans og svo sjálfan sig á eftir.  Engu skipti þó Daníel „raðaði lífvörðum kringum húsið“, hann væri búinn að hugsa þetta og taka ákvörðun.

Þann 13. ágúst 2004 um kl. 15.30 var ákærða tilkynnt að gæsluvarðhaldsvist hans væri lokið en hann myndi hefja afplánun 17 daga vararefsingar í beinu framhaldi. Brást ákærði mjög reiður við og beindist reiði hans gegn Daníel Snorrasyni lögreglufulltrúa.  Sagðist ákærði eiga eftir að „ná sér niðri á honum“ og að hann skyldi „sko fá að finna fyrir því“. Fór ákærði mörgum stórum orðum um að hann myndi hefna sín á Daníel og fjölskyldu hans.

2.

Ákærði skýrir svo frá að hann muni ekki eftir að hafa viðhaft þau orð sem honum eru gefin að sök, hann hafi verið í gæsluvarðhaldi og undir áhrifum lyfja.  Segir ákærði að ef hann hafi látið þessi orð falla hafi það verið í meiningarlausri reiði.

Vitnið Þorsteinn Pétursson lögreglumaður kveðst hafa farið, ásamt Gesti Davíðssyni fangaverði, til ákærða þar sem hann var vistaður í fangaklefa, til að kynna honum úrskurð um gæsluvarðhald.  Hann segir ákærða hafa legið fyrir og hafa brugðist mjög illa við með reiðilátum sem breyst hafi í hótanir.  Vitnið kveðst ekki geta munað orðalag hótananna en vísar til upplýsingaskýrslu sem hann gerði þegar atvikið var honum í fersku minni.  Kveður hann hótanirnar helst hafa beinst að Daníel Snorrasyni sem stjórnað hafi rannsókn í máli ákærða.  Vitnið segir að sér hafi þótt nokkuð gróft þegar ákærði hafi verið farinn að sjá fyrir sér syrgjendur Daníels og á þeim tímapunkti þótt ástæða til að óttast.  Aðspurt segir vitnið ákærða hafa talað við verjanda sinn í kjölfarið og lesið honum svipaðan pistil.  Aðspurt um af hverju þeir hafi verið viðstaddir símtal ákærða við verjanda hans segir hann að ekki hafi verið ástæða til að víkja frá í það skipti.  Aðspurt kveðst vitnið ekki geta svarað því hvort ákærði var á lyfjum umrætt sinn.

Vitnið Gestur Davíðsson fangavörður kveðst hafa farið til ákærða til að kynna honum úrskurð um gæsluvarðhald, ásamt Þorsteini Péturssyni lögreglumanni.  Vitnið kveður ákærða ekki hafa verið sáttan við úrskurðinn og segir ákærða hafa haft uppi hótanir í garð manna.  Vitnið segir ákærða líklega hafa sagst ætla að drepa lögfræðing sinn og Daníel Snorrason eins og menn geri stundum í þessari aðstöðu.  Vitnið segist ekki hafa séð ástæðu til að óttast vegna þessara ummæla.  Aðspurt um ástæðu þess að hann og Þorsteinn hafi hlustað á símtal ákærða við verjanda hans kveður vitnið það ekki venju og ekki geta svarað því hvernig á því stóð í þetta sinn.

Vitnið Gígja Hjaltadóttir fangavörður segir ákærða hafa verið verulega æstan og reiðan þar sem honum var neitað um að hitta unnustu sína þar sem hann var í gæsluvarðhaldi og einangrun.  Vitnið kveðst hafa bent ákærða á að ef hann héldi áfram hótunum bæri henni skylda til að tilkynna um það.  Þá hafi ákærði róast.  Vitnið segir hótanirnar hafa snúið að Daníel Snorrasyni sem annaðast hafi rannsókn málsins.  Þær hafi verið eitthvað á þá leið að hann vildi drepa Daníel eða hans nánustu og ef til vill sjálfan sig á eftir.  Aðspurt um hvort vitnið hafi talið ástæðu til að óttast vegna ummæla ákærða segir vitnið að þegar ákærði hélt þessum hugleiðingum áfram þrátt fyrir að vera orðinn rólegur hafi henni fundist það.

Vitnið Karl Kristjánsson fyrrverandi lögreglumaður kveðst hafa farið ásamt Óttari Ingasyni fangaverði til að birta ákærða ákvörðun um að hann skyldi hefja afplánun vararefsingar.  Segir hann ákærða ekki hafa tekið ákvörðuninni sérlega fagnandi.  Vitnið kveðst ekki muna hvaða orð voru látin falla en ákærði hafi kennt Daníel Snorrasyni um þessa framvindu og haft orð á því að hann skyldi ná sér niðri á honum. Aðspurt kveður vitnið ákærða einnig hafa nefnt fjölskyldu Daníels í þessu sambandi, hann og hans fólk skyldi finna fyrir því.  Vitnið kveðst aldrei hafa tekið hótanir sem þessar alvarlega.

Vitnið Óttar Ingason fangavörður kveðst hafa komið í fangageymslu ásamt Karli Kristjánssyni lögreglumanni til að tilkynna ákærða ákvörðun um afplánun vararefsingar.  Ákærði hafi ekki verið mjög ánægður með þessa ákvörðun.  Hann hafi bölvað og ragnað eins og menn geri við þessar aðstæður.  Vitnið segir ákærða hafa bölvað Daníel Snorrasyni og hans fjölskyldu.  Vitnið kveðst ekki hafa tekið þessar hótanir alvarlega.  Aðspurt um misræmi í upplýsingaskýrslu vitnisins og skýrslu þess fyrir lögreglu kveðst vitnið hafa átt við að ákærði hefði sagst ætla að drepa Daníel og fjölskyldu en ekki farið út í hvernig það skyldi gert.

Vitnið Daníel Snorrason lögreglumaður segir ummælin hafa komið til sinnar vitundar í kjölfar þeirra.  Samstarfsmenn hans hafi gert honum grein fyrir þessu en ákærði hafi ekki beint ummælunum til hans.  Vitnið segir að samstarfsfélögum hans hafi þótt rétt að láta vita af þessu þar sem nokkuð langt hafi verið gengið og hótanirnar ákveðnari en gerist og gengur.  Aðspurt um afstöðu vitnisins til hótananna kveðst hann ekki hafa kært og hafa litið á slíkt sem hluta starfsins.  Vitnið segir það þó ekki eiga við um fjölskyldu hans.  Aðspurður um hvort hann hafi fundið til ótta vegna hótananna segir vitnið að á þessum tíma og í því ástandi sem ákærði var þá hafi mátt reikna með að hann væri til alls líklegur.  Hann segir að gripið hafi verið til vissra varúðarráðstafana á heimili hans vegna þessa, settar hafi verið upp aukalæsingar og annað þess háttar.  Vitnið segir sín kynni af ákærða þannig að þegar hann sé í neyslu eigi hann erfitt með skap sitt og sé allt að því ofsafenginn..  Hann hafi haft nokkur afskipti af ákærða í gegnum tíðina og telji ákærða hafa verið illa haldinn þegar atvik urðu.

3.

Samkvæmt ofangreindum vitnisburði þykir sannað að ákærði hafi ítrekað sagst ætla að drepa Daníel Snorrason og skaða fjölskyldu hans með einhverjum hætti.  Ákærði hafði ummælin uppi í viðurvist vinnufélaga Daníels og upplýstu þeir hann um þau. Í 233. gr. hegningarlaga nr. 19/1940 segir að það varði refsingu að hafa í frammi hótun um að fremja refsiverðan verknað ef hún er til þess fallin að vekja hjá öðrum manni ótta um líf, heilbrigði eða velferð sína eða annarra.  Verður að telja að þessi verknaðarlýsing eigi einnig við um hótun í 1. mgr. 106. gr. sömu laga.  Samkvæmt orðanna hljóðan er ekki skilyrði að hótunin sé höfð uppi beint við þann sem hún beinist gegn heldur getur hún borist honum frá þriðja manni.  Vitnið Þorsteinn bar fyrir dómi að honum hefði þótt ástæða til að óttast þegar ákærði var farinn að sjá fyrir sér syrgjendur Daníels og vitninu Gígju fannst það einnig þegar ákærði hélt áfram vangaveltum sínum í þessa veru þrátt fyrir að vera rólegur.  Framangreindar öryggisráðstafanir á heimili Daníels Snorrasonar bera þess vott að hótanir ákærða vöktu ótta hjá Daníel um velferð sína og fjölskyldu sinnar.  Með vísan til þess sem að framan er rakið þykir sannað að ákærði hafi með háttsemi sinni brotið gegn ákvæði 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

V.

Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur ákærði 12 sinnum verið dæmdur til refsingar frá árinu 1998 fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, umferðarlögum, vopnalögum og almennum hegningarlögum.  Þann 15. maí 2000 var ákærði dæmdur fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Þann 14. júní 2001 var hann dæmdur í 5 mánaða fangelsi skilorðsbundið til þriggja ára fyrir fíkniefnalagabrot.  Þann 11. desember 2002 var ákærði dæmdur í 10 mánaða fangelsi, þar af voru 7 mánuðir skilorðsbundnir til þriggja ára, fyrir fíkniefnalagabrot og var dómurinn frá 14. júní 2001 tekinn upp og dæmdur með.  Með brotum þeim sem hér er fjallað um hefur ákærði rofið skilorð dómsins frá 11. desember 2002 og ber að taka skilorðshluta þess dóms upp og dæma hann með nú, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Við ákvörðun refsingar ber einkum að líta til þess, auk sakarferils ákærða, að árás hans á S var hrottaleg og fyrirfram undirbúin með því að ákærði lét færa sér kylfu til framkvæmdar þess.  Þá hlaut brotaþoli alvarlegt heilsutjón og samkvæmt vottorði Haraldar Haukssonar læknis gátu afleiðingar áverkans leitt til dauða og virðist hending ein hafa ráðið að svo fór ekki.  Þykir ákærði ekki eiga sér neinar málsbætur.

Þykir refsing ákærða, með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði en frá þeirri refsingu ber að draga frá gæsluvarðhaldstíma ákærða svo sem í dómsorði greinir.

Dæma ber ákærða til að sæta upptöku á  63,24 grömmum af hassi svo sem nánar greinir í dómsorði.

VI.

Í málinu gerir brotaþoli S bótakröfu á hendur ákærða. Sundurliðast krafan þannig:

1.

Þjáningabætur skv. 3. gr. skaðabótalaga

 

 

 

Rúmliggjandi í 7 daga, kr. 1.680 pr. dag

kr.

11.760

 

Veikur án þess að vera rúmfastur í 182 daga, kr. 900 pr. dag

kr.

163.800

2.

Miskabætur skv. 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga

kr.

3.000.000

3.

Bætur v/ varanlegs miska skv. 4. gr. skaðabótalaga, þ.e. tjón á líkama:

Alger missir á heyrn á öðru eyra (10%) og viðvarandi suð í höfði og skert jafnvægisskyn (10%) samtals vegna varanlegs miska

20% af kr. 5.156.000

 

 

 

kr.

 

 

 

1.031.200

4.

Tímabundið atvinnutjón

kr.

1.080.000

5.

Útlagður kostnaður v/ læknisvottorðs skv. reikningi

kr.

10.000

6.

Þóknun lögmanns v/ réttargæslu og kröfugerðar að teknu tilliti til skyldu brotaþola til greiðslu vsk. 24,5%

 

kr.

 

405.957

 

                                                                                                         Alls

kr.

5.702.717

 

Samkvæmt ofangreindri niðurstöðu um sekt ákærða ber hann skaðabótaábyrgð á því tjóni er rekja má til hinnar refsiverðu háttsemi.

Brotaþoli krefst þjáningarbóta fyrir 7 daga sem hann hafi verið rúmfastur og 182 daga sem hann hafi verið veikur án þess að vera rúmliggjandi, sbr. 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 2. gr. laga nr. 37/1999, alls að fjárhæð kr. 175.560. Í framlögðum læknisvottorðum kemur ekki fram hve lengi brotaþoli hafi verið rúmfastur og ekki nýtur heldur læknisfræðilegra gagna um að hvaða marki hann hafi á umræddu tímaskeiði verið veikur í merkingu 3. gr. skaðabótalaga.  Þykir krafa brotaþola um þjáningarbætur því ekki nægilega rökstudd og verður henni vísað frá dómi.

Brotaþoli krefst einnig miskabóta á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Árás ákærða var ófyrirleitin og hafði alvarlegar afleiðingar sem brotaþoli á enn við að etja.  Er ljóst af gögnum málsins að árásin hefur valdið brotaþola verulegum þjáningum og hefur hún að öllum líkindum varanlegar afleiðingar á heilsu brotaþola. Þykja miskabætur skv. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1993, hæfilega ákveðnar kr. 1.000.000.

Samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 3. laga nr. 37/1993, skal varanlegur miski miðaður við heilsufar tjónþola eins og það er þegar það er orðið stöðugt.  Með vísan til þess að heilsufar brotaþola er enn ekki orðið stöðugt er kröfu um bætur vegna varanlegs miska vísað frá dómi.

Til stuðnings kröfu um bætur vegna tímabundins atvinnutjóns hafa verið lögð fram skattframtöl síðustu 5 ára.  Í málinu er fram komið að brotaþoli var ekki í vinnu þegar hann varð fyrir ofangreindri árás.  Þykir krafan því ekki nógu rökstudd til að dæmt verði um hana nú.  Ber því að vísa þessari kröfu frá dómi.

Krafa um útlagðan kostnað að fjárhæð kr. 10.000 er studd reikningi og verður hún tekin til greina.

Samtals verður ákærði samkvæmt framanskráðu dæmdur til að greiða S kr. 1.010.000- ásamt vöxtum eins og í dómsorði greinir.

Í málinu gerir brotaþoli Æ einnig bótakröfu á hendur ákærða. Með vísan til sýknu ákærða af broti gegn Æ er kröfu hans vísað frá dómi, sbr. 3. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Með vísan til úrslita málsins verður ákærða gert að greiða allan kostnað sakarinnar annan en þóknun réttargæslumanns Æ, eða kr. 959.242, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Hilmars Ingimundarsonar hrl. kr. 465.755 að virðisaukaskatti meðtöldum og þóknun réttargæslumanns brotaþola S, Ólafs Rúnars Ólafssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin kr. 150.000-og er þá virðisaukaskattur meðtalinn.

Þóknun réttargæslumanns Æ, Árna Pálssonar hrl. ákveðst kr. 80.000- og er virðisaukaskattur innifalinn og greiðist hún úr ríkissjóði.

Uppkvaðning dómsins hefur dregist lítillega vegna starfsanna dómara.

Dóm þennan kveður upp Freyr Ófeigsson, dómstjóri.

D Ó M S O R Ð :

Ákærði, Hákon Örn Atlason, sæti fangelsi í 18 mánuði, að frádregnum 4 dögum, 9. til 13. ágúst 2004, sem ákærði sat í gæsluvarðhaldi.

Ákærði sæti upptöku á 63,24 grömmum af hassi samkvæmt efnaskrá lögreglu nr. 020-2004-10.

Ákærði greiði S kr. 1.010.000- ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38, 2001 frá 5. ágúst 2004 til 11. febrúar 2005 en dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. s.l. frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði kr. 959.242- í sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans Hilmars Ingimundarsonar hrl. kr. 465.755, og er virðisaukaskattur innifalinn, og þóknun réttargæslumanns S, Ólafs Rúnars Ólafssonar hdl. kr. 150.000- og er þá virðisaukaskattur innifalinn.

Þóknun réttargæslumanns Æ, Árna Pálssonar hrl. kr. 80.000-, og er þá virðisaukaskattur innifalinn, greiðist úr ríkissjóði.