Hæstiréttur íslands

Mál nr. 448/2001


Lykilorð

  • Kaupréttur
  • Stjórnsýsla
  • Jafnræðisregla
  • Lögmætisregla
  • Meðalhóf
  • Birting laga og stjórnvaldserinda


Fimmtudaginn 30

 

Fimmtudaginn 30. maí 2002.

Nr. 448/2001.

Alma Elídóttir og

Garðar Sigurþórsson

(Jóhannes Rúnar Jóhannsson hrl.)

gegn

Íbúðalánasjóði

(Friðjón Örn Friðjónsson hrl.)

 

Kaupréttur. Stjórnsýsla. Jafnræðisregla. Lögmætisregla. Meðalhófsregla. Birting stjórnvaldserinda.

 

A og G kröfðust þess að ógilt yrði sú ákvörðun Í (áður B) að synja þeim um endurkaup fasteignar, sem slegin hafði verið B við nauðungarsölu. Kröfðust A og G þess jafnframt að þeim yrði heimilað að leysa til sín eignina gegn greiðslu sem gerði Í skaðlausan vegna lánveitinga sinna til A og G. Stjórn Í bauð A og G að kaupa eignina aftur á markaðsverði, en því vildu þau ekki una og töldu afgreiðslu Í á erindi þeirra brjóta í bága við reglur stjórnsýsluréttar. Á það var fallist að stjórnsýslulög nr. 37/1993 hefðu átt við um afgreiðslu Í á erindi þeirra, sbr. 1. og 2. mgr. 1. gr. þeirra laga. Heimild fyrir Í til að kaupa og selja eignir með þeim hætti sem hér um ræddi var ekki í lögum nr. 44/1998, né eldri lögum. Hins vegar hafði viðgengist í nokkrum mæli að Í og áður B keyptu íbúðir við nauðungarsölu. Slíkt var ekki talið liður í almennri starfsemi Í, heldur væri um að ræða úrræði sem gripið sé til ef hagur Í beinlínis krefst þess. Talið var að með hliðsjón af 1. mgr. 31. gr. laga nr. 88/1997, eðli máls og málefnalegum forsendum Í yrði að játa Í heimild til þessa. Gæti þá engum úrslitum ráðið að hagnaður kynni að verða af íbúðarkaupum við nauðungarsölu, þegar öllu er haldið til haga, og að þær tekjur séu ekki taldar upp sérstaklega í 10. gr. laga nr. 44/1998. Eins og atvikum var háttað komu tilvísanir A og G til jafnræðis- og meðalhófsreglna stjórnsýsluréttar þeim ekki að haldi. Þá var hafnað málsástæðu þeirra um að Í hefði ekki gætt formreglna stjórnsýsluréttar, enda varð ekki annað séð en að þau hefðu frá upphafi notið aðstoðar lögmanns. Kröfum þeirra var samkvæmt þessu hafnað.    

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjendur skutu málinu upphaflega til Hæstaréttar 5. október 2001. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu málsins 21. nóvember sama árs og áfrýjuðu þau á ný 17. desember 2001 með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 7. gr. laga nr. 38/1994. Þau krefjast þess að felld verði úr gildi sú ákvörðun stefnda 18. maí 1999 að synja áfrýjendum um endurkaup á fasteigninni Langholtsvegi 186 í Reykjavík, að undanskilinni tveggja herberja íbúð í kjallara eignarinnar. Áfrýjendur krefjast þess jafnframt að viðurkenndur verði réttur þeirra til að leysa til sín ofangreinda fasteign, að undanskilinni fyrrgreindri kjallaraíbúð, gegn greiðslu til stefnda að fjárhæð 6.898.099 krónur auk almennra vaxta samkvæmt 5. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 14. september 1998 til 1. júlí 2001, en frá þeim degi með vöxtum samkvæmt II. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu til greiðsludags. Þá krefjast áfrýjendur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Svo sem rakið er í héraðsdómi áttu áfrýjendur fasteignina nr. 186 við Langholtsveg í Reykjavík að undanskilinni íbúð í kjallara hennar. Veruleg vanskil urðu á endurgreiðslu afborgana og vaxta af lánum þeirra hjá Byggingarsjóði ríkisins, sem leiddi til þess að fasteignin var seld nauðungarsölu 15. september 1998. Var hún slegin Byggingarsjóði ríkisins fyrir 5.000.000 krónur og fékk sjóðurinn afsal fyrir eigninni 16. desember sama árs. Með lögum um húsnæðismál nr. 44/1998 tók stefndi við réttindum og skyldum Byggingarsjóðs ríkisins frá 1. janúar 1999, en lög nr. 97/1993 um Húsnæðisstofnun ríkisins féllu þá jafnframt úr gildi.

Með bréfi 17. mars 1999 fóru áfrýjendur þess á leit við stefnda að fá að kaupa fasteignina aftur. Var vísað til þess að verðmæti hennar væri samkvæmt mati fasteignasala 8,5 til 9,5 milljón krónur, sem væri verulega umfram kröfur stefnda, sem hafi numið um 6,7 milljón krónum á uppboðsdegi. Hafi stefndi þannig hagnast á eignayfirfærslunni um 2 til 3 milljón krónur, en áfrýjendur skaðast að sama skapi. Sé með þessu gengið mun lengra en þurfi til að verja hagsmuni stefnda og fái það ekki staðist samkvæmt reglum stjórnsýsluréttar. Þá hafi sú regla gilt til skamms tíma að þegar Byggingarsjóður ríkisins keypti íbúðir við nauðungarsölu hafi þeim, sem þannig misstu þær, verið heimilað að kaupa þær aftur á verði, sem gerði sjóðinn skaðlausan. Buðust áfrýjendur til að greiða fyrir eignina verð, sem næmi fjárhæð lána, vöxtum og kostnaði, sem stefndi hefði haft af málinu. Stefndi svaraði þessu erindi 2. júlí 1999, þar sem fram kom að stjórn hans hefði afgreitt það á fundi 18. maí sama árs. Fylgdi endurrit fundargerðarinnar svarinu, þar sem fram kom að Ríkisendurskoðun hafi nokkru áður gert athugasemdir við framkvæmd Byggingarsjóðs ríkisins á endurkaupum uppboðsþola á íbúðum sínum og taldi stofnunin að ekki ætti að selja uppboðsþolum aftur íbúðir sjóðsins. Var samþykkt sú tillaga formanns stjórnar stefnda að bjóða áfrýjendum að kaupa eignina aftur á markaðsverði án þess að það skilyrði fylgdi að þau rýmdu íbúðina áður en athugað yrði með getu þeirra til að kaupa hana.

Áfrýjendur reisa kröfur sínar á því að með afgreiðslu stefnda á erindinu hafi verið brotinn réttur á þeim. Stefndi sé stjórnvald og hafi honum borið að fylgja reglum stjórnsýsluréttar og fyrirmælum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við ákvörðun sína. Það hafi brugðist og með því verið meðal annars brotið gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttar, jafnræðisreglu og meðalhófsreglu. Þá hafi stefndi jafnframt brotið formreglur stjórnsýsluréttar með því að gæta ekki leiðbeiningarskyldu samkvæmt 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga, benda ekki á rétt til að fá ákvörðunina rökstudda og að kæruheimild væri fyrir hendi samkvæmt 41. gr. og 42. gr. laga nr. 44/1998. Stefndi byggir hins vegar aðallega á því að reglur einkaréttar um meðferð og ráðstöfun eiganda fasteignar á eign sinni hafi átt hér við, en verði reglur stjórnsýsluréttar taldar koma til álita er því mótmælt að ákvörðun stefnda hafi verið í andstöðu við þær á nokkurn hátt. Málsástæðum aðilanna er að öðru leyti nánar lýst í héraðsdómi.

Áfrýjendur skýra kröfugerð sína tölulega þannig að tekið sé mið af kröfulýsingu Byggingarsjóðs ríkisins 14. september 1998, sem samtals var að fjárhæð 6.703.901 króna. Við það bætist kostnaður, sem sjóðurinn og stefndi hafi síðar haft af eigninni, sem samkvæmt bréfi lögmanns stefnda 26. september 2000 nemi 144.198 krónum auk 50.000 króna greiðslu í tengslum við uppboðsmeðferð eignarinnar. Með greiðslu á samtals 6.898.099 krónum verði stefndi þannig skaðlaus vegna lánveitinga sinna til áfrýjenda. Áfrýjendur taka fram að tímabundnir erfiðleikar annars þeirra, sem leiddu til þess að þau misstu íbúðina við nauðungarsölu, séu nú að baki. Stefndi hefur fyrir Hæstarétti vefengt að áfrýjendur hafi talið með allan kostnað, sem hann hafi haft vegna vanskila þeirra, auk þess sem forsendur þeirra um vaxtagreiðslur til stefnda fái ekki staðist. Loks verði ekki annað ráðið af málatilbúnaði áfrýjenda en að þau hyggist greiða kaupverðið að langmestu leyti með nýju láni frá stefnda án þess að fyrir liggi að þau uppfylli skilyrði til að fá slíkt lán.

II.

Stefndi hefur lagt fyrir Hæstarétt gögn um eldri reglur varðandi endurkaup uppboðsþola á íbúðum, sem áfrýjendur vísa til. Telja þau, svo sem áður er komið fram, að jafnræðisregla leiði til þess að kröfur þeirra eigi að ná fram að ganga þar eð aðrir hafi notið þess réttar, sem þau leiti eftir í málinu. Samkvæmt upplýsingum stefnda setti stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins fjórum sinnum starfsreglur, sem að þessu lúta, en stjórn stefnda einu sinni. Eru fyrstu reglurnar frá 13. júní 1988, en í II. kafla þeirra segir: „Berist tilboð frá fyrri eiganda „uppboðsíbúðar“ skulu aðstæður hans kannaðar vandlega og umsögn Ráðgjafarstöðvar fengin ef ástæða þykir til. Séu aðstæður fyrri eiganda gjörbreyttar, skal tilboð hans skoðað jafnhliða öðrum tilboðum, enda felist í tilboðinu eðlileg lágmarksútborgun. Að öðrum kosti kemur tilboð frá fyrri eiganda ekki til álita.” Með nýjum reglum 8. apríl 1992 var þessu breytt, en í þeim er að finna svofellt ákvæði: „Fyrri eiganda má heimila endurkaup ef hann uppfyllir eftirtalin skilyrði: a) Hann leiti endurkaupa innan tveggja mánaða frá dagsetningu rýmingarbréfs. b) Ráðgjafarstöð HR meti greiðslugetu þannig, að endurkaupin gangi.” Enn var reglunum breytt 6. júní 1996, en í bréfi framkvæmdastjóra Húsnæðisstofnunar ríkisins til forstöðumanns lögfræðisviðs sömu stofnunar þann dag segir meðal annars: „Almenna reglan er sú, að eftir að Húsnæðisstofnunin hefur eignast íbúðir á uppboðum ganga þær áfram til sölu á almennum markaði. Undir vissum kringumstæðum og þegar sérstaklega stendur á getur þó komið til álita að fallast á endurkaup uppboðsþola á íbúðinni. Skal það gert að fullnægðum neðangreindum skilyrðum. 1. ...  2. Kaupverð íbúðar skal vera samtala allra áhvílandi lána frá Húsnæðisstofnun, auk vanskila og kostnaðar, sem og sú heildarfjárhæð, sem hún hefur greitt öðrum aðilum við kaup hennar á uppboðinu. 3. ... 4. Kaupandi skal sýna fram á, með greiðslumati frá viðurkenndri fjármálastofnun, að hann geti fyrirsjáanlega staðið við samninginn.” Stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins breytti enn reglum sínum 19. mars 1998 og kemur fram í fundargerð stjórnar að það hafi verið gert vegna athugasemda Ríkisendurskoðunar. Er síðan skráð að formaður „lagði til að reglurnar frá 6. júní 1996 verið felldar úr gildi. Það þýðir, að gerðarþoli verður að rýma íbúðina sem síðan er sett í sölu. Gerðarþolinn hefur síðan sama rétt og aðrir til að bjóða í íbúðina.“ Tillagan var samþykkt. Stjórn stefnda samþykkti loks svokallaðar starfsreglur um nauðungarsölur og uppboðsíbúðir 11. mars 1999, en þar segir meðal annars: „Endurkaup gerðarþola á nauðungarsöluíbúðum í eigu ÍLS eru ekki heimil. Gerðarþoli hefur eftir rýmingu sama rétt og aðrir til að bjóða í íbúðina.“

Ljóst er að í engu þessara fimm tilvika voru ákvarðanir Húsnæðisstofnunar ríkisins og síðast stefnda birtar, heldur ætlaðar til nota innanhúss fyrir starfsmenn til að fara eftir. Má jafnframt ráða að einungis á tímabilinu 6. júní 1996 til 19. mars 1998 giltu reglur, sem í höfuðatriðum geta svarað til þess, sem áfrýjendur vísa til sem eldri framkvæmdar og vilja miða rétt sinn við. Er þá meðal annars litið til skýringa stefnda á reglum frá 1992, sem einungis hafi falið í sér óverulega breytingu á fyrri reglum frá 1988. Ekki liggur fyrir í hve mörgum tilvikum íbúðir voru seldar uppboðsþolum aftur í gildistíð reglna frá 6. júní 1996.

III.

Um starfsemi stefnda gilda ákvæði III. kafla laga nr. 44/1998, en víðar í þeim lögum eru ákvæði, sem varða hann sérstaklega. Er stefndi ríkisstofnun í C-hluta ríkisreiknings samkvæmt lögum nr. 88/1997 um fjárreiður ríkisins. Verður fallist á með áfrýjendum að stjórnsýslulög hafi átt við um afgreiðslu stefnda á erindi þeirra frá 17. mars 1999, sbr. 1. og 2. mgr. l. gr. þeirra laga.

Í málatilbúnaði sínum vísa áfrýjendur sérstaklega til 1. gr. og 10. gr. laga nr. 44/1998. Telja þau að sú gerð stefnda að afla sér tekna með því að kaupa íbúðir við nauðungarsölu og selja aftur með hagnaði samrýmist hvorki tilgangi laganna, eins og honum sé lýst í fyrrnefndu lagagreininni, né skilgreiningu í hinni síðarnefndu á tekjuöflun stefnda. Hafi 10. gr. laganna að geyma tæmandi upptalningu á því hvernig stefndi afli sér fjár til að rækja lögbundið hlutverk sitt og falli þessi aðferð til þess augljóslega þar fyrir utan. Stefndi ber fyrir sig að í starfsemi hans komi óhjákvæmilega alloft til þess að hann leysi til sín íbúðir við nauðungarsölu, sem hann eigi veðrétt í vegna lánveitinga sinna. Hinu sama hafi áður gegnt um Byggingarsjóð ríkisins. Engin ákvæði í lögum nr. 44/1998 fjalli þó beint um þennan þátt í starfsemi stefnda, sem eðli máls samkvæmt verði ekki komist hjá að sinna frekar en af hálfu annarra lánastofnana, sem ekki styðjist heldur að þessu leyti við sett ákvæði í lögum, sem starfsemi þeirra er reist á. Bendir stefndi á að um meðferð slíkra mála fari þá samkvæmt lögum nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Ekki sé um það að ræða að kaup á íbúðum við nauðungarsölu sé liður í tekjuöflun stefnda, heldur grípi hann til þessara ráðstafana sem nokkurs konar neyðaraðgerða til að verja hagsmuni sína. Við endursölu íbúða komi fyrst í ljós hvort hagnaður eða tap hafi orðið af þessari hagsmunagæslu. Í tilviki áfrýjenda sé óljóst hver útkoman verði þar eð íbúð þeirra sé óseld og áfrýjendur búi þar enn.

Í 1. mgr. 31. gr. laga nr. 88/1997 er heimild fyrir ríkisstofnanir í A-hluta ríkisreiknings til að kaupa eignir við nauðungarsölu á grundvelli veðréttar eða skilmála að baki áfallinna ábyrgðarskuldbindinga. Í 2. mgr. sömu greinar segir að eignir, sem þannig eru keyptar, skuli seldar jafnskjótt og það er talið hagkvæmt. Heimild fyrir stefnda til að kaupa og selja eignir með þessum hætti er ekki í lögum nr. 44/1998 og slíkri heimild var heldur ekki til að dreifa í áðurgildandi lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Óumdeilt er hins vegar að í reynd hefur viðgengist í nokkrum mæli að stefndi og áður Byggingarsjóður ríkisins keyptu íbúðir við nauðungarsölu, svo sem getið var að framan. Við úrlausn um þetta atriði verður að líta til þess að kaup fasteigna við nauðungarsölu telst ekki liður í almennri starfsemi stefnda, heldur er um að ræða úrræði, sem gripið er til ef hagur hans beinlínis krefst þess í því skyni að verja kröfur sínar. Styðst það jafnframt við málefnalegar forsendur og verður fallist á að eðli máls samkvæmt verði ekki komist hjá að játa stefnda heimild til slíkra aðgerða. Getur þá engum úrslitum ráðið að hagnaður kunni að verða af íbúðarkaupum við nauðungarsölu, þegar öllu er haldið til haga, og að þær tekjur séu ekki taldar upp sérstaklega í 10. gr. laga nr. 44/1998, þar sem mælt er fyrir um tekjuöflun stefnda. Getur þetta atriði ekki leitt til þeirrar niðurstöðu að taka beri kröfur áfrýjenda til greina.

IV.

Svo sem áður greinir breytti stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins 19. mars 1998 reglum, sem áfrýjendur vísa til, um endurkaup uppboðsþola á íbúðum sínum. Höfðu þær þá gilt í tæplega tvö ár og kveður stefndi að einungis í örfáum tilvikum hafi uppboðsþolum verið gefinn kostur á að kaupa íbúðir sínar aftur á svokölluðu skaðleysisverði. Skýrir hann jafnframt svo frá að horfið hafi verið frá þessum starfsháttum vegna athugasemda Ríkisendurskoðunar, enda hafi þeir verið óheimilir. Telur hann sig ekki hafa lagaheimild til að selja fasteignina, sem um ræðir í málinu, á öðru verði en markaðsverði og að honum beri skylda til sem opinber stofnun að gæta hagsmuna sinna með þeim hætti. Með breytingunni á reglunum sé jafnframt gætt að jafnræði með því að hver og einn og þar með áfrýjendur geti boðið í eignina á sama grundvelli.

Áður er fram komið að ekki nýtur settra ákvæða í lögum um kaup stefnda á íbúðum við nauðungarsölu eða um endursölu þeirra. Lög hafa heldur ekki að geyma heimildir handa stjórnvöldum til að setja almenn stjórnvaldsfyrirmæli um það efni. Starfsreglum Húsnæðisstofnunar ríkisins, sem áfrýjendur vilja miða rétt sinn við, var breytt með sama hætti og þær voru settar. Að þessu öllu gættu verður ekki fallist á með áfrýjendum að taka beri kröfur þeirra til greina þar eð breytingin á starfsreglunum 1998 hafi ekki verið birt í Stjórnartíðindum.

Vegna tilvísunar áfrýjenda til jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar verður ekki litið framhjá því að reglurnar, sem þau bera fyrir sig, fólu í sér sérstaka ívilnun fyrir uppboðsþola umfram aðra til að kaupa eignir stefnda, án þess að slík mismunun styddist við lög. Þær giltu í skamman tíma og höfðu verið felldar úr gildi nokkrum mánuðum áður en íbúð áfrýjenda var seld nauðungarsölu. Gátu þau því ekki með réttu vænst þess að fá að kaupa hana aftur með þeim kjörum, sem þau krefjast í málinu. Breytingin fól í sér að stefndi skyldi eftirleiðis gæta hagsmuna sinna eftir almennum mælikvarða og studdist hún þannig við málefnaleg sjónarmið. Þá liggur fyrir að við afgreiðslu stefnda 18. maí 1999 á áðurnefndu erindi áfrýjenda var ákveðið að gefa hinum síðastnefndu kost á að kaupa eignina aftur á markaðsverði án þess að þau rýmdu eignina fyrst, svo sem þó fólst í reglum stefnda frá 11. mars 1999. Reynir þá ekki á það atriði sérstaklega í málinu. Getur tilvísun áfrýjenda til jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar samkvæmt öllu framanröktu ekki leitt til þeirrar niðurstöðu að kröfur þeirra nái fram að ganga.

Vanefndir áfrýjenda leiddu til þess að stefndi neytti lagaúrræða sinna til að knýja fram greiðslu á kröfu sinni með því að veðið til tryggingar henni yrði selt nauðungarsölu. Ekki er haldið fram að annmarkar hafi verið á framkvæmd uppboðsins og ekki hefur heldur verið bent á önnur og vægari úrræði, sem stefndi hefði getað beitt til að ná fram efndum á kröfu sinni. Hér að framan hefur verið tekin afstaða til þess hvort stefnda hafi verið heimilt að selja áfrýjendum íbúðina að nýju á svokölluðu skaðleysisverði. Samkvæmt þessu er tilvísun áfrýjenda til meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar til stuðnings kröfum sínum haldlaus.

Áfrýjendur bera loks fyrir sig að stefndi hafi ekki gætt formreglna stjórnsýsluréttar, svo sem rakið er í I. kafla að framan. Eins og málið liggur fyrir verður ekki annað séð en að þau hafi frá upphafi notið aðstoðar lögmanns, sem var einn þriggja manna sem undirrituðu fyrir þeirra hönd erindi til stefnda 17. mars 1999 og áður hefur verið gerð grein fyrir. Verður ekki fallist á kröfur áfrýjenda, sem reistar eru á þessum ástæðum.

Samkvæmt öllu framanröktu verður héraðsdómur staðfestur um annað en málskostnað. Rétt þykir að hver aðilanna beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júlí 2001.

Mál þetta, sem dómtekið var 22. maí sl., er höfðað með stefnu, birtri 28. nóvember 2000.

Stefnendur eru Alma Elídóttir, kt. 020658-7119, og Garðar Sigurþórsson, kt. 120854-4969, bæði til heimilis að Langholtsvegi 186, Reykjavík.

Stefndi er Íbúðalánasjóður, kt. 661198-3629, Borgartúni 21, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þessar:

1.   Að ákvörðun stefnda frá 18. maí 1999 um að synja stefnendum um endurkaup á fasteigninni Langholtsvegi 186, heildareigninni að undanskilinni tveggja herbergja kjallaraíbúð, Reykjavík, stefnda að skaðlausu, verði felld úr gildi með dómi.

2.   Að viðurkenndur verði með dómi réttur stefnenda til að leysa til sín fasteignina Langholtsvegi 186, heildareignina að undanskilinni tveggja herbergja kjallaraíbúð, Reykjavík, þinglýsta eign Byggingarsjóðs ríkisins, gegn greiðslu til stefnda að fjárhæð 6.898.099 krónur auk almennra vaxta samkvæmt 5. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 af 6.703.901 krónu frá 14. september 1998 til 23. nóvember 1998, af 6.713.528 krónum frá þeim degi til 16. desember s.á., af 6.763.528 krónum frá þeim degi til 3. febrúar 1999, af 6.822.812 krónum frá þeim degi til 5. janúar 2000, af 6.831.609 krónum frá þeim degi til 8. febrúar s.á. en af 6.898.099 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

3.   Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnendum málskostnað samkvæmt mati réttarins, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af kröfum stefnenda og að honum verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnenda að skaðlausu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins. Þá er krafist virðisaukaskatts af tildæmdum málskostnaði.

MÁLAVEXTIR

Stefnendur áttu fasteignina að Langholtsvegi 186 að undanskilinni tveggja herbergja kjallaraíbúð.  Vanskil stefnenda á greiðslum afborgana af áhvílandi lánum sem hvíldu á fasteigninni Langholtsvegur 186, Reykjavík, leiddu að lokum til nauðungarsölumeðferðar á eigninni til fullnustu veðkröfum og var hún seld á uppboði 16. september 1998.  Stefndi var hæstbjóðandi og var boð hans, 5.000.000 króna samþykkt.  Þann 16. desember 1998 afsalaði Sýslumaðurinn í Reykjavík Byggingarsjóði ríkisins eigninni og frá þeim tíma hefur stefndi farið með full eignarráð yfir umræddri eign.  Stefnendur fóru fram á endurkaup eignarinnar með bréfi til stefnda dags. 17. mars 1999 þar sem þau óskuðu þess að fá að leysa til sín eignina að skaðlausu með því að greiða það verð sem stefndi greiddi fyrir eignina.  Var erindinu hafnað með bréfi stefnda, dags. 2 júli 1999.

MÁLSÁSTÆÐUR OG LAGARÖK STEFNENDA 

Í stefnu er tekið fram að hvorki sé deilt um nauðungarsölu eignarinnar né heldur um eignarhald stefnda á eigninni.  Ágreiningur aðila snúist um það hvort stefnda hafi borið skylda til að verða við beiðni stefnenda, dags. 17. mars 1999, um að leysa til sín íbúð stefnda að skaðlausu, og hvort sú ákvörðun stefnda frá 18. maí 1999 um að synja beiðni þeirra þar um hafi verið lögmæt. Stefnendur halda því fram að starfsreglur Íbúðalánasjóðs þar að lútandi séu ósamrýmanlegar tilgangi laga nr. 44/1998 um húsnæðismál og feli í sér ólögmæta tekjuöflun. Þá séu umræddar starfsreglur hvorki staðfestar af félagsmálaráðherra né birtar í Stjórnartíðindum, en þær virðist ætlaðar til leiðbeiningar fyrir starfsmenn stefnda en að nokkru til að binda almenning.  Verið sé að festa tiltekna stjórnsýsluframkvæmd í sessi og jafnframt að breyta stjórnsýsluframkvæmd sem í einhverjum mæli hafi tíðkast fyrir samþykkt reglnanna. Einnig hafi uppboðsmeðferð íbúðar stefnenda verið lokið fyrir samþykkt starfsreglnanna þann 11. mars 1999, og verði því í öllu falli ekki beitt með afturvirkum hætti. Breyti hér engu þó skrifleg beiðni stefnenda hafi ekki verið send stefnda fyrr en 17. mars 1999, en íbúð þeirra var seld nauðungarsölu á uppboði þann 15. september 1998. Í þessu máli hafi jafnræðisregla jafnframt verið brotin á stefnendum þar sem það muni hafa tíðkast fyrir gildistöku starfsreglnanna að orðið væri við beiðnum gerðarþola um endurkaup nauðungarsöluíbúða. Sé það m.a. viðurkennt af hálfu stefnda. Verði að telja að um hafi verið að ræða venjubundna stjórnsýsluframkvæmd í þeim tilvikum þar sem þess var óskað. Gera verði þá kröfu að beiðni stefnenda hljóti sömu meðferð og önnur sambærileg mál og vísa stefnendur í því sambandi til 11. gr. stjórnsýslulaga, 65. gr. stjórnarskrár, 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og loks til alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Af jafnræðisreglunni leiði enn fremur að breyting á stjórnsýsluframkvæmd verði að fara fram með tilteknum hætti en í þessu máli hafi sjónarmið þar að lútandi ekki verið virt og því telji stefnendur að synjun stefnda á beiðni þeirra um endurkaup fasteignar sinnar hafi enn fremur verið ólögmæt vegna þessa.  Jafnframt sé um brot á meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaganna að ræða, en sú ákvörðun stefnda að synja stefnendum um endurkaup á fyrrum íbúð sinni stefnda að skaðlausu, sé sérlega íþyngjandi fyrir stefnendur.  Vísar stefnandi í þessu sambandi til ákvæða stjórnarskrárinnar.

MÁLSÁSTÆÐUR OG LAGARÖK STEFNDA

Stefndi byggir á því að ákvörðun um að synja stefnendum um endurkaup hafi verið tekin með lögmætum hætti af þar til bærum aðila. Gætt hafi verið ákvæða stjórnsýslulaga við ákvörðunartöku í málinu að því marki sem þau eigi við og synjun sé reist á málefnalegum sjónarmiðum og lagaskyldu til gæslu fjármuna þeirra sem stefndi fari með.  Því sé mótmælt að stefnendur eigi lögvarinn rétt til að krefjast innlausnar og enn fremur sé ófullnægjandi endurgjald boðið fram, verði á innlausnarréttinn fallist.  Gera verði  greinarmun á skyldum stjórnvalds skv. lögum nr. 97/1993 og 44/1998 að því er varðar lánastarfsemi og hins vegar skyldu til að gæta hagsmuna sinna við nauðungarsölu skv. lögum nr. 90/1991.  Kaup umræddrar eignar á nauðungaruppboði hafi verið neyðarráðstöfun stefnda til að verja útlán sín. Þau leiði af lánastarfsemi sjóðsins og af skyldum stefnda sem opinberrar stofnunar til að gæta að eignarréttindum sínum lögum samkvæmt.  Kaupin séu hins vegar óviðkomandi almennum markmiðum laga um húsnæðismál.  Stefndi sé sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins er lúti sérstakri stjórn, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 44/1998, og stjórn hennar beri að fara með eignir og fjármuni stofnunarinnar með ábyrgum hætti og skv. góðum stjórnsýsluháttum.  Verulegum fjármunum sé varið til húsnæðiskerfisins og beri stefnda sem opinberu stjórnvaldi að gæta að þeim fjármunum sem undir stofnunina heyra, sbr. 11. gr. laganna.  Leiði það og af eðli máls og almennum reglum opinberrar stjórnsýslu, sem og markmiðum laganna.  Loks leiði það af reglum almennra skaðabótalaga að stofnuninni sé skylt að takmarka tjón sitt með því að gæta hagsmuna sinna við sölu eigna er sjóðurinn á veð í á nauðungaruppboði.  Við kaup á uppboði hafi stefndi orðið eigandi fasteignarinnar með þeim réttindum og skyldum sem henni fylgi og stefndi hafi ekki lagaheimild til að selja eignina á lægra verði en markaðsverði hennar.  Krafa stefnenda um innlausn íbúðarinnar á “skaðleysisverði”, eftir sölu eignarinnar á nauðungaruppboði, feli í raun í sér tilboð í eignina.  Stefndi byggi á því að um tilboð á einkaréttarsviði sé að tefla sem tengist ekki framkvæmd laga nr. 44/1998 um húsnæðismál.  Í þeim lögum sé hvergi mælt fyrir um rétt til innlausnar og lögskýringargögn og lagasjónarmið gefi ekki tilefni til að lögin verði túlkuð svo rúmt að þau nái yfir slík tilvik.  Núgildandi starfsreglur séu reistar á málefnalegum sjónarmiðum og liggi lagarök þeim að baki. Enn fremur sé með þeim gætt að jafnræði og festu í stjórnsýsluframkvæmd varðandi ráðstöfun eigna.  Sömu lagarök og sjónarmið hafi verið í gildi þegar eign stefnenda var seld nauðungarsölu og óskað var eftir endurkaupum.  Því sé mótmælt að stefnandi geti reist einhvern rétt á þeim fáu tilvikum er endurkaup voru heimil í tíð eldri laga.  Um hafi verið að ræða einstök tilvik sem geti ekki haft fordæmisgildi um starfsháttu stefnda sem starfi samkvæmt sérlögum, auk þess sem afgreiðsla þessara undantekningartilvika hafi  ekki stuðst við lög og í raun verið ólögmæt að mati ríkisendurskoðunar.  Engu skipti hvort reglurnar séu staðfestar af ráðherra eða birtar með formlegum hætti þar sem þær séu í raun verklagsreglur sem lúta að starfsfólki stefnda en ekki ætlað að hafa sjálfstætt gildi.  Varðandi málsástæðu stefnenda um meinta óheimila tekjuöflun mótmæli stefndi henni á grundvelli 1. mgr. 25. gr. eml., auk þess sem stefndi mótmæli því almennt séð að í kaupum á eigninni á nauðungaruppboði felist ólögmæt tekjuöflun vegna hærra endursöluverðs eignarinnar.  Í þessu sambandi vísar stefndi til athugasemda með frumvarpi til laga nr. 44/1998, sem og úrskurð félagsmálaráðuneytisins frá 17. september 1997 sem lagður hefur verið fram í málinu.  Jafnframt sé eignarréttur stefnda friðhelgur og stjórnarskrárvarinn, skv. 1. mgr. 72. gr. stjskr.  Varðandi það að kröfuréttur stefnenda sé stjórnarskrárvarinn bendir stefndi á að til þess að njóta réttarverndar skv. stjskr. og mannréttindasáttmálum verði eðli málsins samkvæmt einhver réttindi að vera til staðar.  Stefnendur eigi ekki lengur nein réttindi til þeirrar fasteignar sem þeir krefjast innlausnar á.  Varðandi reglur stjórnsýslulaganna um meðalhóf og lögmætissjónarmið, bendir stefndi á það aðþað sé ekki stjórnvaldsákvörðun og ákvæðum stjórnsýslulaga óviðkomandi, hvort eða hvernig hann endurselur eignir sem hann hefur eignast við nauðungarsölu.  Eftir sölu eignarinnar á nauðungaruppboði sé ekki lengur til staðar réttarsamband á milli aðila þessa máls sem gefi tilefni til þess að stefndi gæti sérstaklega að ákvæðum stjórnsýslulaga gagnvart stefnendum.  Endursala eignarinnar sé ekki stjórnvaldsákvörðun í eðli sínu, sem sé kæranleg til æðra stjórnvalds, heldur ákvörðun um ráðstöfun eignarréttinda sem lúti almennum reglum um ráðstöfun ríkiseigna. Varðandi meint brot á jafnræðisreglu, mótmælir stefndi því að það hafi verið “venjubundin stjórnsýsluframkvæmd” að samþykkja beiðnir um endurkaup fasteigna sem seldar voru á nauðungaruppboði, heldur hafi verið um fá undantekningartilvik að ræða.  Að lokum bendir stefndi á að eftir að umrædd fasteign var seld nauðungarsölu sé ekkert réttarsamband á milli aðila þessa máls sem hægt sé að reisa kröfu um innlausn á. Því beri að sýkna stefnda vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr.16. gr. eml.

NIÐURSTAÐA

Eins og rakið er hér að framan leiddu vanskil stefnenda til þess að fasteign þeirra að Langholtsvegi 186 var seld á nauðungaruppboði 15. desember 1998.  Ekki er um það ágreiningur að stefndi hafi eignast umrædda eign og eigi hana nú.  Stefnendur byggja málatilbúnað sinn á því að við meðferð þeirra tilmæla stefnenda að þeim yrði seld fasteignin aftur við verði sem þau telja gera stefnda skaðlausan, hafi stefndi í ýmsum efnum brotið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga, almennra reglna stjórnsýsluréttar, stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu.  Það liggur utan gildissviðs laga nr. 44/1998 hvernig uppboðskaupandi ráðstafar eign sem hann hefur keypt á uppboði enda engar reglur um það í þeim lögum og taka reglur stjórnsýsluréttar ekki til tilviks þess sem hér er til úrlausnar nema að mjög takmörkuðu leyti.  Ber þess sérstaklega að gæta að hér er ekki um það að ræða að stjórnvald sé að taka ákvörðun um rétt eða skyldu manna, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, heldur var stefndi að taka ákvörðun um endursölu eignar sem hann hafði eignast á uppboði.  Hafði hann sett um það starfsreglur, þ.e. reglur um nauðungarsölur og uppboðsíbúðir, og með því að reglur þessar þykja málefnalegar og í samræmi við þær skyldur stefnda að gæta fjárhagslegra hagsmuna sinna m.a. með kaupum á íbúðum á uppboði og endursölu þeirra verður ekki fallist á það með stefnendum að setningu þeirra hafi verið ábótavant og að það valdi því að ákvörðun stefnda verði felld úr gildi.

Er það niðurstaða málsins að ákvörðun stefnda frá 18. maí 1999, um að synja stefnendum um endurkaup umræddrar fasteignar við því verði sem stefnendur töldu gera stefnda skaðlausan, verður ekki felld úr gildi.

Um þá kröfu stefnanda að viðurkenndur verði réttur þeirra til að leysa til sín fasteign að Langholtsvegi 186, gegn greiðslu 6.898.099 króna og tilteknum vöxtum, er það að segja að lagaheimild er ekki fyrir hendi til þess að skylda uppboðskaupanda, í þessu tilviki stefnda, til þess að selja eign sem hann hefur keypt á uppboði til uppboðsþola og að ákvæði 57. gr. laga nr. um nauðungarsölu á ekki við hér.

Samkvæmt framansögðu verða lyktir málsins þær, að stefndi verður sýknaður af öllum kröfum stefnenda og eftir úrslitum málsins verða þau dæmd til að greiða stefnda 300.000 krónur í málskostnað.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ

Stefndi, Íbúðalánasjóður, skal sýkn af öllum kröfum stefnenda, Ölmu Elídóttur og Garðars Sigþórssonar.

Stefnendur greiði stefnda 300.000 krónur í málskostnað.