Hæstiréttur íslands
Mál nr. 680/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
- Sératkvæði
|
Þriðjudaginn 20. desember 2011. |
|
|
Nr. 680/2011, |
Ákæruvaldið (Kolbrún Benediktsdóttir settur saksóknari) gegn X (Haukur Örn Birgisson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Sératkvæði.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. desember 2011 sem barst Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. desember 2011, þar sem varnaraðila var áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 13. janúar 2012 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Í dómi Hæstaréttar 25. október 2011 í máli nr. 574/2011 var staðfestur úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. sama mánaðar um að varnaraðili skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi til 18. nóvember 2011. Var sú niðurstaða reist á því að sterkur grunur lægi fyrir um að varnaraðili hefði gerst sekur um brot, sem að lögum getur varðað allt að tíu ára fangelsi. Með dómi Hæstaréttar 23. nóvember 2011 í máli nr. 615/2011 var staðfestur úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. sama mánaðar um að varnaraðili skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi til 16. desember 2011 og var það niðurstaða réttarins að rannsókn málsins fram til þessa hefði ekki farið í bága við fyrirmæli um hraða málsmeðferð, sbr. 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008.
Rannsókn málsins er lokið. Var ákæra gefin út á hendur varnaraðila 7. desember 2011 og hún þingfest 16. sama mánaðar. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum mun aðalmeðferð fyrirhuguð 18. janúar 2012. Í ljósi þessa þykir málið hafa verið rekið með fullnægjandi hraða þannig að skilyrði séu fyrir áframhaldandi gæsluvarðhaldi.
Að framangreindu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sératkvæði
Jóns Steinars Gunnlaugssonar
Varnaraðili hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 16. október 2011 vegna þess ætlaða brots sem honum er gefið að sök í þessu máli. Svo sem rökstutt er í sératkvæði mínu í málinu nr. 615/2011 hafði málið þá ekki verið rekið með þeim hraða sem nauðsynlegur er þegar sakborningur sætir frelsissviptingu. Við þetta bætist nú að aðalflutningur í héraði er ekki fyrirhugaður fyrr en 18. janúar 2012 eða fimm dögum eftir að gæsluvarðhald samkvæmt hinum kærða úrskurði rennur út. Þegar kveðið er svo á í 1. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að gæsluvarðhaldstími megi ekki vera lengri en fjórar vikur í senn er tilgangurinn sýnilega sá að hraða beri meðferð máls og ekki sé heimilt að láta væntanlegan fjögurra vikna gæsluvarðhaldstíma líða í aðgerðarleysi svo sem hér er fyrirhugað. Jafnframt verður af gögnum málsins ráðið að engin tormerki voru á að gefa út ákæru á hendur varnaraðila þegar í októbermánuði og ljúka meðferð máls hans í héraði ekki síðar en í nóvember. Með vísan til alls þessa tel ég að fella beri hinn kærða úrskurð úr gildi en hins vegar sé rétt að varnaraðili sæti banni við brottför frá landinu þann tíma sem kveðið er á um í hinum kærða úrskurði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. desember 2011.
Ríkissaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að ákærða, X, kennitala [...], til heimilis að [...], [...], verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 13. janúar 2012, kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að með ákæru ríkissaksóknara dags. 7. desember sl. sem send hafi verið Héraðsdómi Reykjavíkur sama dag, hafi X og Y verið ákærðir fyrir nauðgun með því að hafa, að morgni sunnudagsins 16. október 2011 í bifreiðinni [...], sem lagt hafi verið í stæði við Reykjavíkurflugvöll, haft önnur kynferðismök en samræði við A með því að beita hana ofbeldi. Ákærði X með því að neyða konuna til að hafa við sig munnmök og ákærði Y með því að hafa við hana endaþarmsmök auk þess að setja fingur í leggöng hennar. Er brot þeirra heimfært undir 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Fyrirhugað er að þingfesta málið í dag, 16. desember.
Við skýrslutöku hjá lögreglu hafi ákærði, X, játað að hann og Y hafi tekið brotaþola upp í bifreiðina í miðbæ Reykjavíkur og ekið með hana að Reykjavíkurflugvelli þar sem kynferðisleg samskipti hafi átt sér stað milli þeirra þriggja í aftursæti bifreiðarinnar og hann hafi viljað eiga við hana kynferðismök. Kærði neitaði því aftur á móti að hafa þvingað hana til kynferðismaka. Þrátt fyrir það lýsir hann því að brotaþoli hafi „langað og ekki langað“ og það hefði verið eins og hún væri með tvöfaldan persónuleika. Þá hafi hún bæði öskrað og grátið í bifreiðinni og greinilega ekki verið í góðu jafnvægi.
Samkvæmt gögnum tæknideildar megi sjá að buxur brotaþola voru hafi verið rifnar frá rennilás að framan og langt aftur á rass og sömuleiðis hafi festingar þeirra verið rifnar af. Þetta hafi verið borið undir kærða en misræmi sé að gæta í framburði hans varðandi þetta atriði í skýrslutökum frá 16. október og hins vegar 20. október sl. Í fyrra skiptið tali kærði um að brotaþoli hafi komið inn í bílinn í rifnum buxum en í síðari yfirheyrslunni tali hann um að hún hafi hneppt buxunum frá og dregið þær sjálf niður.
Við skýrslutöku hjá lögreglu hafi ákærði Y játað að hann og X hafi tekið brotaþola upp í bifreiðina og ekið með hana að Reykjavíkurflugvelli. Y muni þó ekki hvar það hafi verið sem brotaþoli hafi komið upp í bifreiðina. Í skýrslutöku 16. okt. sl. hafi Y neitað að kynferðislega samskipti hafi átt sér stað og hann hafi ekki einu sinni komið í aftursæti bifreiðarinnar. Y sagðist jafnframt ekki hafa orðið var við kynferðisleg samskipti brotaþola og meðákærða og jafnframt ekki heyrt brotaþola öskra og gráta. Í skýrslutöku hjá lögreglu þann 20. okt. sl. hafi Y breytt framburði sínum og kannist við að hafa farið í aftursæti bifreiðarinnar og að þar hafi brotaþoli veitt ákærða X munnmök. Sjálfur hafi hann bara setið aftur í og horft á.
Brotaþoli lýsti því hjá lögreglu að hún hafi þegið far með ákærðu og þeir hafi ætlað að skutla henni í verslunina 10-11 við Barónsstíg. Ákærðu hafi hins vegar ekið út á Reykjavíkurflugvöll og þar hafi bifreiðinni verið lagt. Lýsti brotaþoli því hvernig mennirnir hafi beitt hana ofbeldi og náðu fram kynferðislegum vilja sínum. Brotaþoli sagðist m.a. hafa öskrað en þegar hún hafi gert það hafi ákærði Y tekið hana hálstaki og lamið hana í andlitið. Brotaþoli sagðist einnig hafa krosslagt lappir sínar til þess að reyna að koma í veg fyrir nauðgun en Y hafi náð að stinga getnaðarlim sínum í endaþarm hennar en X hafi stungið getnaðarlim sínum í munn hennar og látið hana framkvæma munnmök. Þá hafi Y sett fingur sína í klof hennar. Þegar þessu hafi verið lokið sagði brotaþoli mennina hafa ekið henni tilbaka og hún farið úr bifreiðinni rétt hjá [...] þar sem hún sagðist eiga heima. Sagðist brotaþoli þá hafa hlaupið í gegnum bakgarða og í átt að [...] því hún þekki mann sem býr þar. Sá reyndist ekki vera heima að sögn A þannig að hún bankaði á aðrar dyr sem reyndust vera hjá B, tilkynnanda.
Vitnið C segir brotaþola hafi dvalið heima hjá sér aðfaranótt 16. okt. sl. Hún hafi farið út að kaupa sér kók að drekka. Eftir það hafi hann ekki séð brotaþola. Aðspurður kannaðist hann ekki við að föt brotaþola hefðu verið rifin þegar hún fór út.
Vitnið B kvaðst hafa vaknað við að einhver hafi legið á dyrabjöllunni hjá sér snemma morguns þann 16. október. Hafi hún heyrt brotaþola kalla „mér var nauðgað, mér var nauðgað“. Þegar hún hafi opnað hafi brotaþoli verið nötrandi og sjálfandi og í miklu uppnámi. Hafi brotaþoli þulið í sífellu bílnúmerið [...] eins og til að gleyma því ekki. Sú atburðarrás sem brotaþoli lýsti fyrir vitninu umræddan morgun komi heim og saman við framburð brotaþola hjá lögreglu og á neyðarmóttöku. Aðspurð um fatnað brotaþola lýsir vitnið því að buxur brotaþola hafi verið mikið rifnar og í fyrstu hefðu hún haldið að þær væru alveg niður um hana.
Ákærði hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 16. október sl. og hafi hann sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 frá 21. s.m. (síðasti úrskurður R-536/2011 sem staðfestur hafi verið með dómi Hæstaréttar í máli nr. 616/2011.
Að mati ríkissaksóknari liggi ákærði undir sterkum grun um að hafa framið ofangreint brot. Þá liggi fyrir að brotið geta varðað allt að 16 ára fangelsisrefsingu. Með hliðsjón af alvarleika sakarefnis og þess að ríkir almannahagsmunir standi til þess að menn gangi ekki lausir þegar svo stendur á sé þess krafist að ákærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi meðan mál hans er til meðferðar hjá dómstólum. Vísast um kröfuna til 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Um beitingu og túlkun ákvæðis 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála er hér vísað til dóms Hæstaréttar Íslands í máli 473/2011, þar sem um var að ræða nauðgun á almannafæri.
Loks vísast til þess að Hæstiréttur hafi tvívegis staðfest úrskurð héraðsdóms , um að lagaskilyrðum almannagæslu sé fullnægt í máli þessu. Ekkert nýtt hafi komið fram í málinu sem breytt getur því mati Hæstaréttar og héraðsdóms.
Eins og rakið hefur verið er ákærði undir sterkum grun um að hafa, í félagi við annan mann, framið kynferðisbrot sem varðað gæti allt að 16 ára fangelsi. Ákæra vegna brotsins var gefin út 7. desember sl. og var hún þingfest fyrr í dag. Ákærði hefur setið í gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 frá 21. október sl. Þegar litið er til eðlis hins ætlaða brots verður fallist á það að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna, samkvæmt 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, en er ekkert það fram komið í málinu sem breytir því mati. Verður því orðið við kröfu Ríkissaksóknara um að framlengja gæsluvarðhald ákærða, eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Samkvæmt því verður ekki talið að farbann geti komið í stað gæsluvarðhalds og þykja ekki efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákærði, X, kennitala [...], til heimilis að [...], [...], skal sæta áfram gæsluvarðhaldi til föstudagsins 13. janúar 2012, kl. 16:00.