Hæstiréttur íslands
Mál nr. 342/2008
Lykilorð
- Bifreið
- Líkamstjón
- Skaðabætur
- Varanleg örorka
- Almannatryggingar
|
|
Fimmtudaginn 26. febrúar 2009. |
|
Nr. 342/2008. |
Halldór Ingi Ásgeirsson(Steingrímur Þormóðsson hrl.) gegn Vátryggingafélagi Íslands hf. (Skarphéðinn Pétursson hrl.) |
Bifreiðir. Líkamstjón. Skaðabætur. Varanleg örorka. Almannatryggingar.
H krafðist skaðabóta úr hendi V hf. vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir í umferðarslysi. Fyrir Hæstarétti deildu aðilar um hvort V hf. hafi greitt H fullnaðarbætur vegna slyssins. Var ágreiningur um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón, hvort draga mætti frá bótum vegna varanlegrar örorku eingreiðsluverðmæti lífeyrisgreiðslna úr almannatryggingum, sbr. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, fjárhæð miskabóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga, annað fjártjón og sjúkrakostnað. Talið var að um bætur úr slysatryggingu ökumanns samkvæmt 92. gr. umferðarlaga fari eftir sömu reglum og um útreikning skaðabóta. Var lagt til grundvallar að H ætti rétt á bótum frá Tryggingastofnun ríkisins og að það bryti ekki í bága við eignarverndar- og jafnræðisreglur stjórnarskrár eða mannréttindasáttmála að draga þær frá skaðabótum vegna slyssins. Ekki var fallist á að skilyrði 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, um að árslaun skyldu metin sérstaklega við óvenjulega aðstæður, væru fyrir hendi. Var því talið að H ætti ekki frekari rétt á greiðslum fyrir varanlega örorku. Ekki var fallist á að miða ætti við hærri mánaðarlaun en gert var í uppgjöri V hf. við útreikning bóta vegna tímabundins atvinnutjóns. Ekki var heldur fallist á að V hf. bæri að greiða áætlaðan kostnað H, en engar kvittanir voru lagðar fram af hálfu H til að unnt væri að ákveða þennan kostnað. Þá var ekki fallist á að H ætti rétt á hærri miskabótum samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga en hann hefði fengið greiddar. Var því talið að H hafi fengið greiddar þær bætur sem hann átti rétt á vegna slyssins og V hf. því sýknað af kröfum hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. júní 2008. Hann krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 32.395.039 krónur með 4,5% ársvöxtum af 6.498.271 krónu frá 21. ágúst 2005 til 17. ágúst 2007, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 32.395.039 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum nánar tilgreindum innborgunum að fjárhæð samtals 12.423.320 krónur. Til vara krefst áfrýjandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 25.365.502 krónur með vöxtum eins og að framan greinir og að frádregnum sömu innborgunum. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað, en rétt er að hann falli niður í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. júní 2008.
Mál þetta, sem dómtekið var 28. apríl sl., var höfðað 22. ágúst 2007 af Halldóri Inga Ásgeirssyni, Kríulandi 3, Garði, aðallega gegn Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík, en til vara in solidum á hendur félaginu og Karli Narong Seelarak, Sjávargötu 20, Reykjanesbæ.
Endanlegar kröfur stefnanda eru þær aðallega að Vátryggingafélag Íslands hf. verði dæmt til að greiða stefnanda 73.963.081 krónu ásamt 4,5% ársvöxtum frá 21. ágúst 2005 til 17. ágúst 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum eftirtöldum innágreiðslum: 150.000 krónum 12. október 2005, 604.262 krónum 31. október s.á., 250.140 krónum 30. nóvember s.á., 250.140 krónum 31. desember s.á., 100.000 krónum 16. janúar 2006, 250.000 krónum 31. janúar s.á., 50.000 krónum 3. mars s.á., 232.484 krónum 28. febrúar s.á., 257.393 krónum 31. mars s.á., 166.060 krónum 20. apríl s.á., 250.000 krónum 28. apríl s.á., 200.000 krónum 2. júní s.á., 200.000 krónum 6. júlí s.á., 200.000 krónum 28. júlí s.á., 200.000 krónum 29. ágúst s.á., 800.000 krónum 13. september s.á., 200.000 krónum 3. nóvember s.á., 200.000 krónum 1. desember s.á., 170.334 krónum 16. janúar 2007 og 5.000.000 króna 16. febrúar 2007. Við munnlegan málflutning kom fram að einnig bæri að draga frá kröfunni greiðslur, sem inntar voru af hendi af hálfu stefnda Vátryggingafélags Íslands eftir að málið var höfðað, 1.651.753 krónur 15. október 2007 og 1.040.754 krónur 25. apríl 2008.
Verði ekki fallist á ofangreinda dómkröfu á hendur hinu stefnda vátryggingafélagi einu og sér, krefst stefnandi þess til vara, að stefndu verði in soldium dæmd til að greiða stefnanda 73.963.081 krónu með sama vaxtafæti og í frumsök og að frádregnum sömu innágreiðslum.
Verði ekki fallist á aðalkröfur stefnanda í aðalsök og varasök (varaaðild) krefst stefnandi þess til vara að hið stefnda vátryggingafélag verði dæmt til að greiða stefnanda 34.219.038 krónur með sama vaxtafæti og í aðalkröfu og að frádregnum sömu innágreiðslum og tilgreindar eru í aðalkröfu.
Stefnandi krefst málskostnaðar samkvæmt málskostnaðaryfirliti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál en stefnanda var veitt gjafsókn 22. nóvember 2007.
Stefndu krefjast aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að þeim verði dæmdur málskostnaður að mati dómsins. Til vara krefjast stefndu þess að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og málskostnaður verði látinn falla niður.
Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna
Stefnandi ók bifreið sinni, BM-397, eftir Reykjanesbraut 21. ágúst 2005 og lenti þá í hörðum árekstri við bifreiðina YP-557. Slysið varð með þeim hætti að bifreiðarnar rákust saman er þeim var ekið hvor á móti annarri en áreksturinn varð rétt við veginn er liggur að Straumi. Ágreiningslaust er í málinu að bifreiðinni YP-557 hafi verið ekið á röngum vegarhelmingi. Bifreið stefnanda lenti á ljósastaur og stóð á undirstöðum staursins þegar lögreglan kom að. Stefnandi var fastur í bifreiðinni en fætur hans voru klemmdir og sáu sjúkra- og slökkviliðsmenn um að klippa hann út úr bifreiðinni. Stefnandi var fluttur á slysadeild en hann fótbrotnaði og hlaut einnig áverka á vinstra hné, háls og bak.
Báðar bifreiðarnar voru tryggðar hjá hinu stefnda vátryggingafélagi. Með bréfi lögmanns stefnanda 29. janúar 2007 til félagsins var krafist bóta til bráðabirgða samkvæmt bráðabirgðamati Björns Daníelssonar lögfræðings og Stefáns Dalberg læknis 6. febrúar s.á. Matið fór fram að beiðni lögmanns stefnanda samkvæmt bréfi hans til matsmanna 18. janúar s.á. Í bréfi lögmannsins til vátryggingafélagsins voru reiknaðar miskabætur, bætur fyrir varanlega örorku, tímabundið atvinnutjón, þjáningabætur, annað fjártjón og sjúkrakostnaður, vextir, lögmannskostnaður og matskostnaður, samtals 27.722.589 krónur. Félagið greiddi stefnanda 5.000.000 króna sem innborgun á höfuðstól 16. febrúar s.á. en hafði áður greitt vegna slyssins 5.112.746 krónur. Í tölvupósti lögmanns vátryggingafélagsins sama dag segir að félagið greiði upp í tjónið en ekki sé fallist á matið enda komi þar fram að ekki sé tímabært að meta afleiðingar líkamstjónsins. Félagið fallist ekki á að slíkt bráðabirgðamat hafi verið nauðsynlegt.
Að beiðni lögmanns stefnanda voru dómkvaddir matsmenn 4. maí s.á. til að meta afleiðingar umferðarslyssins er stefnandi varð fyrir. Í matsgerð þeirra 12. júlí s.á. er því lýst að stefnandi hafi verið frískur er hann lenti í umferðarslysinu. Hann hafi brotnað á vinstra fæti í slysinu og hafi þegar farið í þrjár aðgerðir þar sem reynt hafi verið að festa brotin bein, taka nagla sem notaður var við festingar og loks hafi hann farið í aðgerð þar sem reynt hafi verið að ná betri stöðu á ristarbeinum fótarins. Þessar aðgerðir hafi borið takmarkaðan árangur. Mögulegt sé að hann þurfi enn á ný að gangast undir aðgerð þar sem frekari beinspengingar verði gerðar. Hann hafi einnig hlotið einkenni frá baki og hálsi í slysinu og hafi merki um nokkurn tognunaráverka neðst í mjóbaki og væg einkenni um tognunaráverka í hálsi. Auk líkamlegra einkenna hafi hann átt við allmikið þunglyndi að etja allt frá því slysið var. Samkvæmt matinu var tímabundið atvinnutjón talið frá slysdegi, 21. ágúst 2005, fram að stöðugleikatímamarki, 15. febrúar 2007, að frádregnum tveimur mánuðum, þjáningabætur frá 21. ágúst 2005 til 15. febrúar 2007, þar af rúmliggjandi í 10 daga, varanlegur miski 35 stig og varanleg örorka til starfa á almennum vinnumarkaði 35 stig en til heimilisstarfa 25 stig. Í matsbeiðninni var einnig óskað eftir mati á því hver örorka stefnanda væri sem hann hefði hlotið í slysinu samkvæmt staðli reglugerðar nr. 379/1999. Samkvæmt matinu var stigafjöldi stefnanda samkvæmt staðlinum nægjanlegur til að stefnandi yrði þá metinn til 75% örorku hjá Tryggingastofnun ríkisins. Með bréfi lögmanns stefnanda til stefnda Vátryggingafélags Íslands hf. 17. júlí 2007 var krafist bóta vegna slyssins en bætur voru reiknaðar samkvæmt niðurstöðum matsins.
Hið stefnda vátryggingafélag hefur greitt stefnanda bætur vegna slyssins með innborgunum og uppgjöri 15. október 2007, sem fór fram eftir að málið var höfðað, en síðasta greiðsla fór fram 25. apríl 2008 við leiðréttingu á útreikningum. Við uppgjörið er miðað við niðurstöður mats dómkvaddra matsmanna en enginn ágreiningur er í málinu um niðurstöður þess. Fram hefur komið að greitt var framangreindan dag fyrir tímabundið tekjutap samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga 1.695.171 króna með 4,5% vöxtum, en til frádráttar voru reiknaðar innborganir frá hinu stefnda vátryggingafélagi, að fjárhæð 1.125.630 krónur, dagpeningar frá Tryggingastofnun ríkisins, að fjárhæð 307.007 krónur, og greiðsla frá vinnuveitanda, 1.125.630 krónur. Þjáningabætur voru samkvæmt uppgjörinu 645.210 krónur, varanlegur miski samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga 2.330.300 krónur og varanleg örorka samkvæmt 5. til 8. gr. sömu laga 2.628.965 krónur. Greiddar voru 800.000 krónur í miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga. Einnig voru greiddir vextir og kostnaður.
Í málinu er deilt um það hvort hið stefnda vátryggingafélag hafi greitt stefnanda fullnaðarbætur vegna slyssins. Ágreiningur er um frádrátt samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga vegna bóta fyrir varanlega örorku. Einnig er deilt um fjárhæð miskabóta samkvæmt 26. gr. sömu laga, annað fjártjón og sjúkrakostnað. Af hálfu stefndu er því haldið fram að stefnandi hafi þegar fengið greiddar þær skaðabætur sem hann eigi rétt á samkvæmt skaðabótalögum og eigi hann engan frekari rétt sem leiði til að sýkna verði af kröfum hans í málinu. Stefnandi hafi höfðað málið án ástæðu og áður en stefndu hefðu fengið ráðrúm til að taka afstöðu til kröfu stefnanda sem sé mjög há og að verulegu leyti fjarstæðukennd.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Af hálfu stefnanda er vísað til þess að krafa hans á hendur hinu stefnda vátryggingafélagi sé byggð á ökumannstryggingu bifreiðarinnar BM-397 sem tryggð var hjá hinu stefnda félagi er slysið varð. Kröfuna byggi stefnandi á 92. gr. umferðarlaga og tryggingasamningnum, sem gerður hafi verið á grundvelli lagagreinarinnar og gilt hafi fyrir stefnanda sem ökumann bifreiðarinnar. Einnig byggi stefnandi dómkröfur sínar á hið stefnda félag á 1. mgr. 91. gr. umferðarlaga, sem og 1. mgr. 95. gr. laganna.
Varaaðild, eða kröfu sína in soldium á báða stefndu, styðji stefnandi við 88. gr. umferðarlaga, sbr. 1. mgr. 90. gr. umferðarlaga, sem og 1. mgr. 91. gr. laganna, sbr. 1. mgr. 97. gr. sömu laga.
Stefnandi rökstyðji fjárhæð bótakröfu sinnar þannig:
|
1.Miskabætur: 6.556.000 krónur x 35% |
2.294.600 krónur |
|
2.Bætur fyrir varanlega örorku á vinnumarkaði: 4.473.624 x 16,626 x 35% 4.473.624 x 16.626 x 25% á heimili |
26.32.465 “ 18.592.202 “ |
|
3.Tímabundið atvinnutjón, 323.000 x 17 |
5.491.000 |
|
4.Annað fjártjón og sjúkrakostnaður |
931.000 “ |
|
5.Þjáningabætur, 10 x 2.131 + 524 x 1.146 |
621.814 “ |
|
6.Bætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga |
10.000.000 “ |
|
7.Framtíðar sjúkrakostnaður og annað fjártjón |
10.000.000 “ |
|
Heildarkrafa stefnanda |
73.963.081 krónur |
Stefnandi vísi til matsgerðar dómkvaddra matsmanna 12. júlí 2007 en niðurstöður þeirra séu á þá leið að alvarlegir áverkar væru á vinstra fæti, tognunaráverkar á mjóbaki og vægur tognunaráverki á hálsi, áfallastreita og nokkur einkenni þunglyndis með einbeitingarörðugleikum. Fjárhæð bótakröfu sé reiknuð á grundvelli matsgerðarinnar. Bótakröfur hafi verið gerðar á hendur hinu stefnda félagi 17. júlí 2007 sem ekki hafi verið svarað innan þess frests sem vátryggingafélögum sé settur samkvæmt lögum.
Bætur fyrir miska í lið 1 séu grundvallaðar á matsgerðinni og 4. gr. skaðabótalaga. Miðað sé við aldur stefnanda á tjónsdegi og vísitölu þegar krafan var gerð 17. júlí 2007 (5379).
Bætur fyrir varanlega örorku í lið 2 séu byggðar á niðurstöðu matsgerðarinnar og 5. gr. skaðabótalaga. Árslaunaviðmiðið byggi stefnandi á því að laun hans verði að meta sérstaklega samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laganna þar sem annar mælikvarði en laun síðustu þrjú ár gefi betri mynd af hver hefðu verið framtíðarlaun stefnanda, hefði hann ekki lent í slysinu. Stefnandi byggi á mánaðarlaunum sem hann hafi haft hjá þeim vinnuveitanda er hann vann hjá er hann slasaðist. Laun stefnanda í maí 2005 hafi verið 291.973 krónur, í júní 292.805 krónur og í júlí 299.984 krónur. Meðallaun þennan tíma séu 295.000 krónur á mánuði. Lánskjaravísitöluhækkun á þessum launum frá júlí 2005 til júlí 2007 sé þessi: 295.000 krónur x 6932/5815 = 351.700 krónur. Hækkun samkvæmt lífeyrisiðgjaldahluta vinnuveitanda 106% eða 372.800. Árslaunaviðmið stefnanda sé því 372.800 krónur x 12 = 4.473.624 krónur. Laun þannig ákvörðuð séu þrjú ár fyrir slys: Tekjur árið 2002 samtals 1.965.710 krónur x 6932/4989 = 2.731.269 krónur, tekjur árið 2003 samtals 1.409.976 krónur x 6932/5258 = 1.858.872 krónur og tekjur árið 2004 samtals 2.633.652 krónur x 6932/5550 = 3.289.455 krónur. Til vara geri stefnandi kröfu um að miðað verði við meðallaun 2.626.000 krónur x 107% = 2.810.000 krónur.
Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. skaðabótalaga skuli bæta störf á heimili jafnt störfum utan heimilis. Gera megi ráð fyrir að stefnandi stofni fjölskyldu og vinni á heimili sínu, jafnt utan heimilis, eða hefði gert það hefði hann ekki lent í slysinu. Megi því reikna með að hann hafi framtíðartjón vegna þeirra áverka sem hann hafi hlotið og beinlínis takmarki störf hans á heimili, eins og niðurstaða matsmanna hljóði.
Upphaf örorku stefnanda sé að rekja til slysadags. Stefnanda hafi ekkert batnað frá þeim degi. Af því megi draga þá ályktun að örorka hans hafi þá orðið til, sem sé í samræmi við grunnrök skaðabótaréttar. Stefnandi sé fæddur 6. febrúar 1983 og slysadagur 21. ágúst 2005. Stefnandi hafi því verið 22 ára er hann slasaðist. Stuðullinn sé því 16,626 samkvæmt 1. mgr. 6. gr. skaðabótalaga.
Tímabundið atvinnutjón sé reiknað þannig að óvinnufærni hafi staðið í 17 mánuði. Miðað sé við laun á slysadegi með hlutfallslegri hækkun samkvæmt launavísitölu, eða sem næst 323.000 krónum á mánuði.
Bætur samkvæmt 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga reiknist sem áætlaður kostnaður fram að stöðugleikapunkti, ferðir til lækna, komugjöld, símkostnaður, aksturskostnaður frá Suðurnesjum til Reykjavíkur vegna ferða til lögfræðings og sjúkrakostnaður, þar með talinn kostnaður vegna læknisvottorða, og matskostnaður. Kostnaður við bráðabirgðamatið hafi numið 166.986 krónum. Kostnaður dómkvaddra matsmanna nemi 493.000 krónum og lögmannskostnaður 170.334 krónum. Þessi bótaliður sé áætlaður að hluta en reikningar séu fyrir kostnaði að fjárhæð 830.320 krónur. Viðbótarkostnaður sé áætlaður 100.000 krónur, sem felist meðal annars í lyfjakaupum, akstri, komugjöldum til lækna og símkostnaði. Stefnandi rökstyðji kostnað við bráðabirgðamat þannig að á þeim tíma sem hann hafi beðið um matið hafi félagið haldið að sér greiðslum og fullyrt að stöðugleikapunkti væri náð. Þau skilaboð hafi komið frá félaginu að frekari greiðslur yrðu ekki inntar af hendi fyrr en lokamat væri fyrirliggjandi. Stefnandi hafi því beðið um bráðabirgðamat og á grundvelli þess hafi félagið greitt 5.000.000 króna inn á tjónið.
Þjáningabætur séu byggðar á matsgerðinni og 3. gr. skaðabótalaga. Þjáningabætur án þess að vera rúmliggjandi séu 1.146 krónur og rúmliggjandi 2.131 króna, miðað við júlí 2007, en þá hafi stefnandi fyrst gert kröfu sína á grundvelli matsgerðar hinna dómkvöddu matsmanna.
Bætur samkvæmt 26. gr. byggi stefnandi á stórkostlegu gáleysi stefnda Karls, sem hafi ekið drukkinn á öfugum vegarhelmingi beint á bifreið stefnanda á miklum hraða. Um sé að ræða óafsakanlega hegðun, sem stefndi verði að bæta fyrir með miskabótum samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga og hið stefnda tryggingafélag beri ábyrgð á samkvæmt 2. mgr. 90. gr. umferðarlaga. Í slíkum tilvikum komi bætur samkvæmt 26. gr. til viðbótar miskabótum samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga og séu slíkar bætur, miðað við alvarleika verknaðarins, að lágmarki 10.000.000 króna.
Stefnandi byggi á því að búast megi við að framtíðar sjúkrakostnaður hans verði töluverður, en bætur fyrir slíkan kostnað hafi verið talinn felast í 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga, sbr. breytingu sem gerði hafi verið á dönsku skaðabótalögunum 2003. Stefnandi áætli nú bætur vegna þessa að lágmarki 10.000.000 króna.
Stefnandi styðji kröfur sínar í aðalsök á hendur vátryggingafélaginu við þann tryggingasamning, sem hann hafi gert við félagið samkvæmt 92. gr. umferðarlaga, en 5. mgr. lagagreinarinnar staðfesti að bætur þessar teljist ekki til skaðabóta, heldur sé hér um að ræða raunverulega slysatryggingu, þrátt fyrir að fjárhæð bótanna beri að ákvarða á grundvelli skaðabótaréttar og skaðabótalaga. Stefnandi eigi rétt á umkrafinni bótafjárhæð óskertri, þar sem 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nái ekki yfir bætur samkvæmt slysatryggingasamningi, heldur sé í þessu ákvæði eingöngu átt við skaðabótakröfu.
Stefnandi byggi einnig á að samkvæmt grunnreglum reglugerðar nr. 392/2003 um lögmæltar ökutækjatryggingar, sbr. og ökutækjatilskipanir EBE, eigi hann rétt á fullum bótum, en svo geti aldrei orðið, verði hann knúinn til að beina stærstum eða stórum hluta af bótakröfu sinni til Tryggingastofnunar ríkisins. Stefnandi eigi kröfu á vátryggingafélagið um slysabætur samkvæmt vátryggingasamningi. Sé hinu stefnda félagi ekki stætt á að knýja hann til að beina stærstum hluta kröfunnar að öðrum. Komi þar einnig til meginreglur laga og eðli máls.
Hið stefnda félag starfi samkvæmt lögum nr. 60/1994 um vátryggingastarfsemi. Það hafi opinbert leyfi og hafi heimild til að leggja iðgjald á bifreiðareigendur sem tryggi hjá félaginu samkvæmt ákveðnum iðgjaldagrundvelli, sem félagið sæki um til ríkisins, sbr. 5. tl. 2. mgr. 21. gr. laganna. Þessi lagagrundvöllur undir bifreiðatryggingar félagsins hafi riðlast eða muni riðlast komist hið stefnda félag upp með að knýja stefnanda til að beina bótakröfum sínum að Tryggingastofnun ríkisins eða sjóðum sem stofnunin ráði yfir. Þetta athæfi tryggingafélaganna auki skattheimtu hins opinbera og komi niður á öllum almenningi. Einnig skekki þetta samkeppnisgrundvöll íslenskra tryggingafélaga og geri samkeppnisstöðu þeirra verulega betri en hinna erlendu á sviði bifreiðartrygginga, þegar hin íslensku félög þurfi ekki að greiða nema lítinn hluta þeirra bóta sem verulega slasaðir einstaklingar eigi rétt á samkvæmt skaðabótalögum og á grundvelli þeirra.
Kröfur sínar í varaaðild byggi stefnandi á sömu málsástæðum, eftir því sem við geti átt, sérstaklega varðandi það að hið stefnda félag geti ekki knúið stefnanda til að beina kröfum sínum um bætur að Tryggingastofnun ríkisins. Einnig sé byggt á 88. gr. umferðarlaga, sbr. 90. gr., 91. gr., 1. mgr. 95. gr. og 97. gr. Hvað varði skaðabótaábyrgð eiganda og ökumanns bifreiðarinnar sé sérstaklega byggt á 2. mgr. 90. gr. umferðarlaga. Stefnandi hafi ekki sótt um bætur hjá Tryggingastofnun ríkisins í samræmi við 18. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007 og hafi ekki hugsað sér að gera það. Hann hafi því ekki fengið nokkrar bætur þaðan og því komi ekki til greina að takmarka bætur hans úr höndum stefnda samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Ósannað sé að stefnandi eigi rétt á greiðslum frá almannatryggingum. Stefndi verði að sanna að skilyrði séu til að skerða bætur hans eins og stefndi hafi gert með vísan til lagaákvæðisins.
Stefnandi byggi einnig á því að fái hann ekki bótakröfu sinni fullnægt í aðalsök að öllu leyti eða að hluta verði að taka þann hluta kröfunnar, sem ekki greiðist í samræmi við aðalkröfuna, til úrlausnar í varaaðildarþætti málsins, sbr. efni síðustu mgr. 92. gr. umferðarlaga.
Stefnandi byggi á að með 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, eins og hún sé í framkvæmd, sé tjónþolum gert, á grundvelli greinarinnar, að beina stærstum eða verulegum hluta bóta sinna að Tryggingastofnun ríkisins og ellilífeyrissjóðum. Þetta standist ekki meginreglur laga og brjóti í bága við eignarverndar- og jafnræðisreglur stjórnarskrár og þeirra mannréttindasáttmála sem Ísland hafi undirgengist.
Greinilegast sé þó að 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga sé ekki nægilega skýr lagaheimild, þegar um unga tjónþola sé að ræða sem eigi allt lífið framundan. Í slíkum tilvikum sé engan veginn víst, hverjar greiðslur það verði sem slíkir tjónþolar eigi í vændum samkvæmt almannatryggingalögum, enda þótt líkamleg færni þeirra hafi skerst svo töluverðu nemi. Margir þættir hafi þar áhrif, svo sem tekjur sem tjónþolinn hafi í framtíðinni, eins og eigi við í tilviki stefnanda, sem metinn sé með 65% tekjuöflunarhæfi, tekjur maka, sem þurfi ekki að vera mjög háar á almennan mælikvarða til þess að bætur tjónþola úr almannatryggingum skerðist og tekjur annarra á heimilinu, svo sem barna. Þá sé augljóst í tilviki stefnanda, sem ekki sé metinn nema til 35% skerðingar á aflahæfi, að hann fái ekki bætur úr almannatryggingakerfinu nema tímabundið, svo sem í sex mánuði, eitt og hálft ár í senn og í mesta lagi þrjú ár, sbr. 3. mgr. 53. gr. almannatryggingarlaga. Á þessum tíma sé hægt að skikka hann í endurhæfingu og síðan nýtt mat, þar sem ákvörðun verði tekin á ný um það, hvort hann fullnægi þeim skilyrðum að eiga rétt á bótum. Ekki sé því um skýra lagaheimild að ræða og þarna sé í raun um lagaákvæði að ræða sem sé ekki í samræmi við tilgang laganna, eða allavega í verulegu ósamræmi við þau markmið sem að sé stefnt, bæði með bótakafla umferðarlaga og skaðabótalögunum sjálfum.
Stefndu hafi sönnunarbyrði í málinu varðandi alla frádráttarliði skaðabótakröfunnar samkvæmt meginreglum skaðabótaréttar.
Kröfum sínum til grundvallar vísi stefnandi einnig til 48. gr. vátryggingarsamningalaga nr. 30/2004 og til kröfubréfs stefnanda 17. júlí 2007.
Varðandi varakröfuna vísi stefnandi til þess að ekki sé ágreiningur um miskabætur samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga. Um varanlega örorku sé ekki ágreiningur um annað en frádrátt samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Um tímabundið atvinnutjón sé óverulegur ágreiningur og ekki ágreiningur um innágreiðslur. Ágreiningur sé um fjártjón og sjúkrakostnað. Ekki sé ágreiningur um þjáningabætur og ekki ágreiningur um bótaskyldu samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga, en deilt sé um fjárhæð bóta.
Stefnandi styðji kröfur sínar við ofangreind ákvæði bótakafla umferðarlaga og reglugerðar nr. 392/2003 og til meginreglna skaðabótaréttar um fullar bætur. Einnig skírskoti stefnandi til 1. - 7. gr. og 26. gr. skaðabótalaga. Stefnandi vísi og til laga nr. 60/1994, 12. gr. og 5. tl. 1. mgr. 21. gr., sem og til ákvæða laganna um aðild íslenskra tryggingafélaga og um tryggingarmarkið EBE. Þá vísi stefnandi til ákvæða almannatryggingalaga nr. 100/2007, svo sem 18. gr. laganna og reglugerðar nr. 379/1999, og 16. gr. laganna og reglugerða nr. 643/1996, 463/1999 og 939/2003. Vísað sé til 51. gr., 52. gr. og 55. gr. laganna. Þá skírskoti stefnandi til lagaáskilnaðarreglunnar (lögmætisreglunnar) og tilgangs- og lagasamræmisskýringa EBE-réttar og til fordæma Mannréttindadómstóla Evrópu.
Málsatvik og lagarök stefndu
Af hálfu stefndu er vísað til þess að stefnandi hafi lent í hörðum árekstri 21. ágúst 2005 á Reykjanesbraut. Stefnandi hafi verið í bifreiðinni BM-397, sem lent hafi í árekstri við bifreiðina YP-557, og endað á ljósastaur. Stefndi Karl hafi mælst með l,03 áfengis í blóði og virtist hann hafa ekið á röngum vegarhelmingi þegar áreksturinn varð. Stefnandi hafi verið fluttur á slysadeild vegna meiðsla sinna en fjöldi læknisvottorða liggi fyrir í málinu um læknismeðferð hans.
Með bréfi 18. janúar 2007 hafi lögmaður stefnanda sent beiðni um mat til Björns Daníelssonar og Sigurjóns Sigurðssonar, algerlega einhliða. Stefndu hafi engu um það ráðið hverjir væru matsmenn, hverjar spurningar til þeirra yrðu eða hvort það væri í raun tímabært að meta afleiðingar slyssins. Skipti ekki máli í þessu samhengi þótt hið stefnda vátryggingafélag hafi fengið afrit af beiðninni. Á mettíma, eða 6. febrúar s.á., hafi matsmenn skilað niðurstöðum sínum. Þeir hafi verið sammála um að ekki væri tímabært að meta endanlegar afleiðingar slyssins, en hafi samt sem áður gefið út bráðabirgðamat.
Lögmaður stefnanda hafi beðið um dómkvaðningu matsmanna 19. mars s.á. vegna slyssins. Krafist hafi verið dómkvaðningar þriggja manna en tveir hafi verið dómkvaddir, þeir Páll Sigurðsson og Torfi Magnússon. Niðurstaða þeirra hafi verið sú að stefnandi hefði hlotið 35% varanlegan miska og 35% varanlega örorku. Einnig að stefnandi væri með 25% varanlega örorku til heimilisstarfa og 75% varanlega örorku samkvæmt staðli Tryggingastofnunar ríkisins. Kröfubréf lögmanns stefnanda sé dagsett 17. júlí s.á. og hafi líklega borist daginn eftir. Stefna hafi verið birt 22. ágúst s.á., eða rúmlega mánuði eftir dagsetningu kröfubréfsins.
Stefndu hafi fengið Ragnar Þ. Ragnarsson tryggingarstærðfræðing til að reikna út bætur til stefnanda samkvæmt lögum um almannatryggingar og hafi hann skilað niðurstöðum sínum 13. september s.á. Þar sem stefnandi hefði ekki aflað þessa útreiknings og lagt fram með kröfu sinni hafi stefndu séð sig knúna til að afla þessa útreiknings sjálfir og leggja hann fram í málinu.
Stefnda Vátryggingafélag Íslands hf. byggi sýknukröfu sína vegna aðalaðildar á eftirfarandi atriðum:
Stefnandi hafi þegar fengið greiddar þær skaðabætur sem hann eigi rétt á samkvæmt skaðabótalögum. Hann eigi engan frekari rétt og verði því að sýkna hið stefnda vátryggingafélag.
Félagið hafi fallist á að gera málið upp á grundvelli skilmála slysatryggingar ökumanns og 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og aldrei hafnað því en báðar bifreiðarnar hafi verið vátryggðar hjá stefnda. Krafa stefnanda, um að málið yrði gert upp úr slysatryggingu ökumanns en ekki ábyrgðartryggingu ökutækisins, sem var í órétti, hafi fyrst komið fram í kröfubréfi lögmanns stefnanda 17. júlí 2007. Allar bótagreiðslur til stefnanda hefðu áður farið fram úr ábyrgðartryggingu ökutækis meðstefnda Karls, enda hafi hann átt sök á árekstrinum og þar af leiðandi líkamstjóni stefnanda. Greiðslum stefnda úr ábyrgðartryggingu ökutækisins hafi aldrei verið mótmælt af stefnanda, enda væru nær öll líkamstjónamál vegna umferðarslysa gerð upp úr ábyrgðartryggingu þess ökutækis sem sé í órétti. Samningur sé kominn á milli málsaðila um að gera upp líkamstjón stefnanda úr slysatryggingu ökumanns á grundvelli matsgerðar dómkvaddra matsmanna og eigi uppgjör bóta vegna slyssins að fara fram með eftirfarandi hætti:
Tímabundið atvinnutjón miðist við að stefnandi hafi verið óvinnufær frá 21. ágúst 2005 til 15. febrúar 2007 að frádregnum tveimur mánuðum, í 17 mánuði og 23 daga. Til að finna út mánaðarlaun til viðmiðunar væru teknir síðustu fjórir mánuðir fyrir slysið og meðalmánaðarlaunin fundin út, 289.318 krónur. Fyrstu þrír mánuðir ársins 2005 hafi verið mun lægri en þeir sem á eftir komu og því til mikilla hagsbóta fyrir stefnanda að miða ekki við allt árið. Með því sé komið til móts við stefnanda að verulegu leyti, ella væru meðalmánaðarlaun stefnanda 250.148 krónur. Tímabundið atvinnutjón stefnanda sé því samtals 5.138.287 krónur. Til frádráttar þessari fjárhæð komi greiðslur frá atvinnurekanda, 1.125.630 krónur, Tryggingastofnun ríkisins, 307.007 krónur og stefnda VÍS, 2.010.479 krónur, samtals 3.443.116 krónur, sbr. 2. mgr. 2. gr. skaðabótalaga. Tímabundið atvinnutjón stefnanda sé því 1.695.171 krónur (5.138.287 - 3.443.116). Af þessari fjárhæð séu reiknaðir 4,5% vextir frá slysdegi, sbr. 16. gr. skaðabótalaga, samtals 167.866 krónur. Stefndi hafi greitt bæturnar og því beri að sýkna hann af frekari kröfum.
Þjáningabætur reiknist samkvæmt matsgerðinni þannig að stefnandi hafi verið rúmfastur í 10 daga en án rúmlegu í aðra 533 daga. Í október 2007 hafi bætur fyrir hvern dag verið 1.170 krónur án rúmlegu en 2.160 krónur með rúmlegu. Samkvæmt þessu séu þjáningabætur 645.210 krónur svo og 4,5% vextir frá slysdegi, 63.893 krónur. Stefnandi krefjist 621.814 króna fyrir þennan lið og sé því enginn ágreiningur um þjáningabætur. Stefndi hafi greitt bæturnar og beri því að sýkna hann af frekari kröfum.
Varanlegur miski sé 35 stig samkvæmt matsgerðinni. Miðað við október 2007 séu bætur fyrir varanlegan miska 2.330.300 krónur (6.658.000 krónur x 35%). Af þessari fjárhæð séu 4,5% vextir frá slysdegi 230.760 krónur. Stefnandi krefjist 2.294.600 króna og sé því enginn ágreiningur um þennan bótalið. Stefndi hafi greitt bæturnar og beri því að sýkna hann af frekari kröfum.
Varanleg örorka sé samkvæmt matsgerðinni 35 stig. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. skaðabótalaga skuli bætur fyrir varanlega örorku metnar til fjárhæðar á grundvelli örorkustigs tjónþola, árslauna hans og stuðuls með því að margfalda saman örorkustig, árslaun og stuðulinn. Ekki sé ágreiningur um örorkustigið. Stuðullinn sé 15,606 (15,101 - 15,619 = -0,518 x 0,025 (9 dagar/365 dagar) = -13 + 15,619) en hann sé fundinn út á grundvelli 6. og 9. gr. skaðabótalaga. Stefnandi hafi ekki gert reka að því að reikna stuðulinn út nákvæmlega eftir reglum 9. gr. Stefndi mótmæli að leggja stuðulinn sem stefnandi noti til grundvallar sem sé 16,626 (22 ára stuðullinn). Stuðul beri að miða við stöðugleikapunkt en ekki aldur stefnanda á slysdegi.
Launaviðmið við útreikning á bótum fyrir varanlega örorku sæti ágreiningi. Stefnandi miði við 4.473.624 krónur og telji að laun verði að meta sérstaklega á grundvelli 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, án nokkurs rökstuðnings. Stefnandi hafi sönnunarbyrðina fyrir því að undantekningarreglan í lagaákvæðinu eigi við í þessu máli. Slík sönnun hafi ekki tekist.
Fara eigi eftir meginreglunni í 1. mgr. 7. gr. sömu laga um að miða við meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir daginn er tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðist við. Launaviðmiðið sé því 2.769.844 krónur og sé fundið út með eftirfarandi hætti:
Árið 2002 hafi stefnandi verið með 1.965.710 króna árstekjur en uppfærð til stöðugleikapunkts sé fjárhæðin 2.874.224 krónur. Árið 2003 hafi árstekjur stefnanda verið 1.409.976 krónur en fjárhæðin uppfærð til stöðugleikapunkts 1.952.134 krónur. Árið 2004 hafi stefnandi verið með 2.633.652 króna árstekjur en uppfærð sé fjárhæðin 3.483.175 krónur. Meðalatvinnutekjur séu því 2.769.844 krónur (8.309.533 krónur/3 ár).
Útreikningur bóta fyrir varanlega örorku sé samkvæmt framangreindu 15.129.164 krónur (2.769.844 krónur x 15,606 x 35%). Frá þessum bótum eigi að draga frá greiðslur sem stefnandi eigi rétt á frá Tryggingastofnun ríkisins, sbr. niðurstöðu matsgerðarinnar frá 12. júlí 2007, útreikning tryggingarstærðfræðings frá 13. september s.á. og 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Ekki skipti máli, eins og stefnandi haldi fram, að um sé að ræða bótagreiðslu úr slysatryggingu ökumanns en ekki ábyrgðartryggingu ökutækisins sem hafi verið í órétti. Til að gæta fyllsta sanngirnis miði félagið við lægri frádráttinn, 12.500.199 krónur. Bætur fyrir varanlega örorku verði því 2.628.965 krónur (15.129.164 - 12.500.199). Frá stöðugleikapunkti séu reiknaðir 4,5% vextir, samtals 77.464 krónur.
Slysatrygging ökumanns sé skaðatrygging þrátt fyrir heiti hennar en greiddar séu bætur til vátryggðs ökumanns vegna raunverulegs tjóns hans, hvorki meira né minna, sbr. dómaframkvæmd Hæstaréttar. Bætur samkvæmt 92. gr. umferðarlaga og skilmálum slysatryggingar ökumanns fari eftir reglum skaðabótalaga. Kröfur um bætur úr slysatryggingu ökumanns séu þar af leiðandi skaðabótakröfur, sbr. einnig orðalag 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga. Stefnandi geti ekki valið að sum ákvæði skaðabótalaga, sem honum henti, eigi að gilda um líkamstjón hans en önnur ekki. Ákvæði 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga gildi jafnt um bætur fyrir líkamstjón úr ábyrgðartryggingu ökutækis og slysatryggingu ökumanns. Ákvæðið gildi um allar kröfur um bætur fyrir líkamstjón sem eigi að fara eftir reglum skaðabótalaga. Heiti kröfu eða vátryggingar skipti ekki máli við mat á því hvort frádráttur sé heimill eða ekki.
Með breytingu á skaðabótalögum, sem tóku gildi 1. maí 1999, sbr. lög nr. 37/1999, hafi verið settur nýr og gjörbreyttur margföldunarstuðull sem taki mið af því að tekjutap tjónþola vegna varanlegrar örorku verði að fullu bætt. Í ljósi þessa hafi verið sett ákvæði í 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, sbr. b. liður 4. gr. laga nr. 37/1999, þar sem kveðið sé á um að frá skaðabótakröfu vegna líkamstjóns skuli draga greiðslur sem tjónþoli fái frá almannatryggingum. Af lögskýringargögnum með breytingarlögunum nr. 37/1999 megi sjá að vilji löggjafans hafi verið sá að margföldunarstuðullinn leiddi til þess að tjónþoli fengi tjón sitt að fullu bætt og að þess vegna yrði að draga frá greiðslur almannatrygginga o.fl. Enginn ágreiningur hafi verið á Alþingi um þennan frádráttarlið við meðferð frumvarpsins. Margföldunarstuðullinn hafi verið margreiknaður af tryggingarstærðfræðingum til þess að staðreyna réttmæti hans. Samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga skuli draga allar bætur almannatrygginga frá útreiknuðum skaðabótum. Þetta komi enn fremur fram í hinum ýmsu lögskýringargögnum þar sem kveðið sé á um að allar félagslegar bætur skuli koma til frádráttar skaðabótum samkvæmt skaðabótalögum.
Ákvæði 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga séu í samræmi við hina rótgrónu meginreglu skaðabótaréttarins um að ekki eigi að hagnast á tjóni, þ.e. tjónþolar eigi ekki að verða betur settir við það að slasast. Markmið skaðabótareglna sé að gera tjónþola eins settan fjárhagslega, eins og slysið hefði aldrei orðið. Þessa meginreglu verði að hafa í huga við túlkun lagaákvæðisins.
Lög um almannatryggingar nr. 100/2007 gildi um rétt stefnanda til greiðslu bóta úr almannatryggingum. Til þessa beri að líta burtséð frá því að stefnandi hafi kosið að sækja ekki rétt sinn til greiðslu slíkra bóta. Greiðslur bóta samkvæmt þessum lögum skuli draga frá skaðabótum á grundvelli skaðabótalaga. Líta verði til ákvæða laga um almannatryggingar nr. 100/2007 þegar bætur eru ákveðnar. Miðað við niðurstöðu matsgerðar dómkvaddra matsmanna sé ljóst að stefnandi sé metinn 75% varanlegur öryrki miðað við staðal Tryggingastofnunar ríkisins vegna slyssins. Frádrátturinn sé reiknaður á þeim grundvelli. Stefnandi hafi ekki enn sótt um bætur hjá Tryggingastofnun ríkisins, sem honum sé þó skylt að gera sökum reglunnar um tjónstakmörkun tjónþola. Grunnreglur reglugerðar nr. 392/2003, um lögmæltar ökutækjatryggingar eða ökutækjatilskipanir EBE, breyti engu í þessu samhengi. Stefnandi verði ekki af neinum greiðslum með því að beina hluta kröfu sinnar að Tryggingastofnun ríkisins. Eftir sem áður fái hann alla kröfu sína greidda. Stefndi mótmæli málsástæðum stefnanda, sem hann telji leiða til þess að greiðslur frá Tryggingastofnun komi ekki til frádráttar samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Með dómi Hæstaréttar 27. nóvember 2003 í máli nr. 223/2003 hafi verið staðfest að útreikningur bóta samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðbótalaga brjóti ekki í bága við 72. gr. stjórnarskrárinnar. Ekki sé um eignaskerðingu að ræða með 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga en ef ákvæðisins nyti ekki við fengju tjónþolar tjón sitt ofbætt en það sé andstætt markmiði skaðabótaréttar.
Stefnandi hafi fengið tjón sitt að fullu bætt. Breytingarnar sem gerðar voru á margföldunarstuðli skaðabótalaga með lögum nr. 37/1999 hafi falið það í sér að tjónþoli fengi varanlegt framtíðartjón sitt að fullu bætt og þess vegna yrði að draga félagslegar greiðslur frá bótafjárhæðinni sem stefnandi ætti rétt á úr höndum stefnda.
Mótmælt sé að sönnunarbyrðin hvíli á stefnda en ekki stefnanda. Meginreglan sé sú að tjónþola beri að sanna tjón sitt. Stefnandi hafi svarað spurningum matsmannanna á þann hátt að hann uppfyllti staðla Tryggingastofnunar fyrir 75% (fulla) örorku. Stefnanda beri að upplýsa um öll atriði sem varða útreikninga á bótum en geri hann það ekki kynni það að varað frávísun málsins.
Þrátt fyrir meginregluna um sönnunarbyrðina hafi stefndi aflað útreiknings tryggingarstærðfræðings á endurgreiðsluverðmæti bóta frá Tryggingastofnun. Lagðar hafi verið fyrir tryggingarstærðfræðinginn tvenns konar forsendur til útreiknings. Annars vegar skyldi útreikningur miðaður við bætur frá almannatryggingum án lækkunar á þeim vegna tekna stefnanda og hins vegar skyldi útreikningur miða við 35% lækkun á vinnutekjum stefnanda vegna 65% tekjuöflunarhæfis samkvæmt matsgerðinni. Sé tekið mið af niðurstöðum fyrirliggjandi matsgerðar um að stefnandi yrði metinn með 75% örorku til frambúðar hjá Tryggingastofnun sé ljóst að hann eigi rétt á bótum frá almannatryggingum, sbr. 12. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007. Stefnandi fengi greiddar bætur úr III. kafla laganna um lífeyristryggingar. Stefnandi eigi því rétt á örorkulífeyri samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laganna, aldurstengdum örorkuuppbótum samkvæmt 21. gr., tekjutryggingu samkvæmt 22. gr. og heimilisuppbót samkvæmt 8. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007. Stefnandi haldi því fram að bætur almannatrygginga séu einungis tímabundnar. Þetta sé ósannað, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat, en þar komi fram að hægt sé að meta einstakling til 75% örorku til langframa. Reglan um frádrátt sé líka eðlileg þótt um tímabundið mat væri að ræða. Fari tjónþoli í endurmat að ákveðnum tíma liðnum og verði metinn til minna en 75% örorku sé ljóst að heilsa hans hafi batnað frá síðasta mati og þess vegna geti hann aflað sér meiri tekna en áður. Miða verði við ástand og rétt tjónþola á stöðugleikapunkti, þ.e. hvernig mál hans standi á þeim tíma og muni þróast í framtíðinni, sbr. hæstaréttardóma nr. 520/2002 og 223/2003. Þar sem stefnandi muni að öllum líkindum fá greiddar bætur frá almannatryggingum um ókomna framtíð sé eingreiðsluverðmæti þeirra dregið frá skaðabótum samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga.
Mótmælt sé að 48. gr. laga um vátryggingasamninga nr. 30/2004 gildi um lögskipti málsaðila en slysið hafi orðið fyrir gildistöku þeirra, 1. janúar 2006.
Stefnandi eigi ekki rétt á bótum bæði fyrir varanlega örorku og vegna skerðingar á getu til heimilisstarfa. Í fyrsta lagi hafi ætlunin ekki verið samkvæmt skaðabótalögum að skaðabætur skyldu greiddar bæði fyrir skerðingu á framtíðarvinnutekjum og skerðingu á getu til heimilisstarfa en slíkt væri í andstöðu við meginreglu skaðabótaréttar og grunnrök skaðabótalaga, um að tjónþoli eigi eingöngu að fá raunverulegt tjón sitt bætt. Í öðru lagi eigi það ekki við í þessu máli að meta skerta getu til heimilisstarfa en stefnandi hafi verið í fullri vinnu utan heimilis þegar slysið varð. Óheimilt sé því að greiða bætur vegna skerðingar á heimilisstörfum stefnanda. Í þriðja lagi sé ekki nægilegt að meta skerta getu til heimilisstarfa heldur þyrfti að meta mismun á atvinnutækifærum fyrir og eftir slysið, sbr. orðalag í athugasemdum við 7. gr. frumvarpsins sem varð að lögum nr. 37/1999 um breytingu á skaðabótalögum, þótt slíkt ætti eingöngu við um þá sem væru ekkert úti á vinnumarkaðnum.
Stefndi mótmæli kröfu stefnanda um annað fjártjón og sjúkrakostnað. Stefndi hafi fallist á niðurstöður dómkvaddra matsmanna og greitt kostnað stefnanda vegna öflunar matsins, 493.000 krónur. Stefndi hafni því að honum beri skylda til að greiða stefnanda annað fjártjón og sjúkrakostnað. Því sé hafnað að stefnda beri að greiða fyrir bráðabirgðamat sem stefnandi hafi aflað einhliða þegar ljóst var að ekki hafi verið tímabært að meta varanlegar afleiðingar slyssins. Stefnandi geti ekki bakað stefnda skyldu til að greiða fyrir matsgerð eða aðra gagnaöflun sem sé algerlega óþörf en tjónþola beri að takmarka tjón sitt og eigi ekki að stofna til óþarfa kostnaðar fyrir tjónvald. Stefndi hafi ekki greitt inn á tjónið á grundvelli bráðabirgðamatsins, eins og stefnandi haldi fram. Bráðabirgðamatið hafi ekki nýst við meðferð líkamstjónamáls stefnanda hjá stefnda.
Stefndi hafni því enn fremur að hann eigi að greiða það sem stefnandi kalli „kostnaður lögmann 170.334“. Þessi krafa sé vanreifuð en hún sé ekkert útskýrð í stefnu. Beri því að hafna henni.
Stefndi hafni því að honum beri að greiða einhliða áætlaðan kostnað stefnanda vegna ferða til lækna o.fl. Engin lagaheimild sé í skaðabótalögum til að leggja slíkan kostnað á tjónvald. Með vísan í dómaframkvæmd Hæstaréttar beri að hafna þessari kröfu, enda hafi stefnanda verið í lófa lagið að halda til haga kvittunum og reikningum fyrir meintum kostnaði.
Lögmannskostnaður sem stefndi hafi greitt stefnanda sé 517.849 krónur. Stefnandi hafi ekki lagt fram nein gögn um þennan lið en fjárhæðin sé fengin með því að taka meðaltal af innheimtuþóknun 31 lögmannsstofu, sem hafi látið stefnda gjaldskrá sína í té.
Stefndi fallist á að forsendur séu til að greiða miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga. Stefnandi krefjist 10.000.000 króna, en fjárhæðin sé fjarri þeim fjárhæðum sem dómstólar hafi dæmt þegar skilyrði lagaákvæðisins séu uppfyllt. Stefndi hafi greitt stefnanda 800.000 krónur í miskabætur samkvæmt lagaákvæðinu og sé það ríflega sú fjárhæð sem gera megi ráð fyrir að stefnandi fengi dæmda hjá dómstólum. Beri því að sýkna stefnda af frekari kröfum um miskabætur.
Stefndi mótmæli kröfu stefnanda um greiðslu á framtíðarsjúkrakostnaði. Stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir því að hann muni verða fyrir slíkum kostnaði og hversu hár slíkur kostnaður yrði. Þar sem stefnandi hafi ekki lagt fram neina sönnun þess efnis verði að hafna kröfum hans og sýkna stefnda. Ákvæði 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga sé þar að auki ekki nægilega skýrt til þess að hægt sé að leggja þá kvöð á stefnda að hann greiði framtíðarsjúkrakostnað, sem að hluta til yrði líklega greiddur af hinu opinbera, stéttarfélagi eða öðrum aðilum. Þyrfti mun skýrara ákvæði til þess að skylda stefnda til greiðslu á slíkum kostnaði.
Hið stefnda tryggingarfélag hafi ekki fengið tækifæri til að senda stefnda uppgjörstillögu en hafi greitt það sem það hafi talið sig eiga að greiða miðað við gögn málsins. Það sem greitt hafði verið upp í tjónið áður en að uppgjöri kom, samtals 7.720.334 krónur, hafi stefndi dregið frá við útreikning bótanna. Stefnandi hafi fengið greiddar 1.651.753 krónur við uppgjörið til viðbótar við það sem hann hafði áður fengið.
Stefndi hafni kröfu stefnanda um greiðslu dráttarvaxta frá og með 17. ágúst 2007. Fullnægjandi gögn hafi ekki legið fyrir fyrr en útreikningur tryggingarstærðfræðings á eingreiðsluverðmæti bóta frá almannatryggingum hafi legið fyrir 13. september 2007, en þá hafi stefnandi löngu verið búinn að höfða málið.
Krafist sé málskostnaðar í aðalsök á grundvelli 129. og 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Einnig sé bent á að fjöldi málsástæðna stefnanda séu haldlausar með öllu, sbr. c. lið 1. mgr. 131. gr. laganna.
Varaaðild styðji stefnandi þeim rökum að krafist sé til vara bóta úr ábyrgðartryggingu ökutækis úr hendi beggja stefndu, verði ekki fallist á að hægt sé að sækja bæturnar úr slysatryggingu ökumanns. Þar sem stefndi hafi fallist á að greiða bætur úr slysatryggingu ökumanns sé ljóst að varaaðildin (varakrafa stefnanda) hljóti að falla niður. Beri að öðrum kosti að sýkna stefndu af þessari kröfu. Að öðru leyti sé vísað til röksemda stefnda VÍS í aðalaðildinni varðandi varakröfu stefnanda (varaaðild), eftir því sem við eigi.
Um þrautavarakröfu stefnanda á hendur stefndu sé vísað til fyrri röksemda stefndu, eftir því sem við eigi.
Verði eigi fallist á aðalkröfu um sýknu af öllum kröfum stefnanda sé þess krafist til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Einstaka kröfuliðir stefnanda séu fjarstæðukenndir og beri að lækka fjárhæðir þeirra að verulegu leyti. Að öðru leyti sé vísað til röksemda í aðalkröfu. Málskostnaðarkrafa stefndu í varasök byggi á 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála.
Niðurstaða
Heildarkrafa stefnanda, að fjárhæð 73.963.081 króna, er sundurliðuð í stefnu, en til frádráttar henni koma innborganir frá hinu stefnda vátryggingafélagi, eins og lýst er í kröfugerð stefnanda. Nokkrir liðir í heildarkröfu stefnanda eru óumdeildir og hafa þegar verið greiddir með innborgunum og greiðslum samkvæmt uppgjöri sem fram fór 15. október 2007. Miskabótakrafa stefnanda samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga er að fjárhæð 2.294.600 krónur en greiddar hafa verið 2.330.300 krónur ásamt vöxtum eins og fram kemur á uppgjörsblaðinu. Miskabætur samkvæmt þessum lið hafa því verið greiddar. Krafa stefnanda um þjáningabætur er að fjárhæð 621.814 krónur en greiddar hafa verið 645.210 krónur í þjáningabætur og eru bætur samkvæmt þessum lið því fullgreiddar. Verður því ekki fjallað frekar um þessa kröfuliði við úrlausn málsins.
Við útreikning á bótum fyrir varanlega örorku hefur stefnandi lagt til grundvallar við ákvörðun á árslaunum meðallaun síðustu þrjá mánuðina fyrir slysið. Af hans hálfu er því haldið fram að aðstæður hafi verið óvenjulegar og því verði að ákveða launin sérstaklega samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Stefnandi hefur ekki sýnt fram á eða rökstutt með fullnægjandi hætti að aðstæður hafi verið óvenjulegar eða að nota hafi þurft annan mælikvarða en þann sem tilgreindur er í 1. mgr. sömu lagagreinar við mat á líklegum framtíðartekjum stefnanda. Verður ekki fallist á að skilyrði 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga séu fyrir hendi við útreikninga á bótum stefnanda fyrir varanlega örorku. Ber því að reikna bætur fyrir varanlega örorku samkvæmt 1. mgr. lagagreinarinnar, eins og gert hefur verið af hálfu stefnda vátryggingafélagsins við úrreikninga á þessum lið í bótakröfu stefnanda. Uppreiknaðar meðalatvinnutekjur stefanda þrjú ár fyrir slys, ásamt 6% framlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð, voru 2.769.844 krónur á þeim degi er stöðugleika var náð. Við útreikninga á varanlegri örorku hefur stefnandi notað stuðul 16,626, sem á við 22 ára tjónþola, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. skaðabótalaga ber að nota þann stuðul sem á við aldur tjónþola á þeim tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við, en það var samkvæmt matinu 15. febrúar 2007. Stefnandi var þá 24 ára og níu daga gamall og ber að nota stuðulinn sem á við um þann aldur eins og stefndi hefur gert í útreikningum á tjóni stefnanda vegna varanlegrar örorku. Af hálfu hins stefnda vátryggingafélags eru bætur vegna varanlegrar örorku reiknaðar samkvæmt framangreindu 15.129.164 krónur.
Stefnandi heldur því fram að bætur úr slysatryggingu ökumanns samkvæmt 92. gr. umferðarlaga teljist ekki til skaðabóta og því eigi ekki við að draga frá bótum greiðslur frá almannatryggingum eins og kveðið er á um í 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Á þetta verður ekki fallist. Vátrygging samkvæmt 92. gr. umferðarlaga skal eftir 2. mgr. lagagreinarinnar tryggja bætur fyrir líkamstjón sem ökumaður verður fyrir við akstur bifreiðar. Um fjárhæð bóta gilda reglur skaðabótaréttarins. Þá verður að leysa úr því hvort skilyrði séu fyrir því að öðru leyti að greiðslur almannatrygginga komi til frádráttar bótum samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, en stefnandi heldur því fram að hann hafi ekki fengið þessar greiðslur og ósannað sé að hann eigi rétt á þeim. Í matsgerð dómkvaddra matsmanna kemur fram að stigafjöldi, sem stefnandi hafði samkvæmt staðli reglugerðar nr. 379/1999, var nægjanlegur til að stefnandi yrði metinn til 75% örorku hjá Tryggingastofnun ríkisins. Þessu mati hefur ekki verið hnekkt og verður því lagt til grundvallar við úrlausn málsins að stefnandi eigi rétt á greiðslum frá Tryggingastofnun í samræmi við það. Reglan um að frá skaðabótakröfu vegna líkamstjóns skuli draga greiðslur sem tjónþoli fái frá almannatryggingum verður ekki talin brjóta í bága við eignarverndar- og jafnræðisreglur stjórnarskrár eða mannréttindasáttmála, eins og stefnandi heldur fram, enda er miðað við að bótareglur skaðabótalaga leiði til að tjónþoli fái fullar bætur vegna tjónsins sem um ræðir þrátt fyrir frádráttinn. Samkvæmt útreikningum, sem lagðir hafa verið fram af hálfu stefnda, er eingreiðsluverðmæti bóta frá Tryggingastofnun vegna 75% örorku samtals að fjárhæð 12.500.199 krónur. Stefnandi hefur dregið þá fjárhæð frá bótum stefnanda vegna varanlegrar örorku og greitt stefnanda bætur í samræmi við það. Verður með vísan til þess sem hér hefur verið rakið að fallast á að stefnandi hafi fengið fullar bætur úr höndum hins stefnda vátryggingafélags vegna varanlegrar örorku. Ekki er fallist á þau rök stefnanda að hann eigi rétt á bótum sem eru sérstaklega útreiknaðar vegna takmarkaðrar starfsgetu á heimili. Útreiknaðar bætur stefnanda fyrir varanlega örorku eru miðaðar við að hann hefði stundað fulla vinnu. Eru ekki forsendur í þessu máli til að taka þennan sérstaka kröfulið stefnanda til greina. Samkvæmt öllu framangreindu á stefnandi ekki rétt á frekari greiðslum úr höndum stefnda fyrir varanlega örorku.
Við útreikning hins stefnda vátryggingafélags á kröfu stefnanda vegna tímabundins atvinnutjóns er miðað við meðalmánaðarlaun stefnanda síðustu fjóra mánuðina fyrir slysið og hefur félagið greitt stefnanda bætur vegna þessa í samræmi við það. Krafa stefnanda um hærri viðmiðun mánaðarlauna er ekki rökstudd. Til frádráttar koma greiðslur frá atvinnurekanda og Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt 2. mgr. 2. gr. skaðabótalaga. Með vísan til þess ber að leggja útreikninga stefnda til grundvallar við ákvörðun á þessum lið í kröfugerð stefnanda, en stefnanda hafa verið greiddar bætur í samræmi við þá. Þessi liður í kröfugerð stefnanda verður því ekki tekinn til greina.
Samkvæmt uppgjörsblaði hins stefnda vátryggingafélags hefur stefnandi fengið greiddan matskostnað dómkvaddra matsmanna, að fjárhæð 493.900 krónur, úr höndum félagsins, og lögmannsþóknun, að fjárhæð 415.943 krónur, ásamt virðisaukaskatti. Af hálfu stefnanda hefur ekki verið sýnt fram á að nauðsynlegt hafi verið að afla bráðabirgðamats eða að þessi kostnaður verði talinn óhjákvæmilegur. Með vísan til þess verður stefnda ekki gert að greiða stefnanda þennan kostnað. Þá hefur stefnandi áætlað kostnað vegna ferða til lækna, komugjalda, símkostnað, aksturskostnað og læknisvottorða. Engar kvittanir hafa verið lagðar fram af hálfu stefnanda til að unnt sé að ákveða þennan kostnað. Með vísan til þessa verður þessi kröfuliður stefnanda ekki tekinn til greina.
Ágreiningslaust er að stefnandi eigi rétt á miskabótum samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga vegna slyssins. Hið stefnda vátryggingafélag hefur greitt stefnanda 800.000 krónur í miskabætur í samræmi við það. Verður ekki fallist á að stefnandi eigi rétt á hærri bótum vegna þessa en hann hefur þegar fengið greiddar úr höndum stefnda. Ber með vísan til þess að hafna þessum kröfulið stefnanda.
Krafa stefnanda vegna framtíðarsjúkrakostnaðar og annars fjártjóns er áætluð að fjárhæð 10.000.000 krónur. Þessi krafa þykir ekki nægilega rökstudd eða studd viðeigandi gögnum til að hún verði tekin til greina. Ber því að hafna henni.
Samkvæmt framangreindu hefur stefnandi fengið greiddar bætur sem hann á rétt á vegna tjónsins úr höndum hins stefnda vátryggingafélags. Leiðir það til þess að kröfur hans í málinu, aðalkrafa í aðalsök og varasök og varakrafa, ná ekki fram að ganga. Ber með vísan til þess að sýkna stefndu af þeim.
Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála þykir rétt að stefnandi greiði stefndu 150.000 krónur í málskostnað.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Steingríms Þormóðssonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 600.000 krónur án virðisaukaskatts. Af hálfu stefnanda er vísað til þess að kostnaður, sem lýst er í stefnu sem annað fjártjón og sjúkrakostnaður, verið talinn hluti af málskostnaði ef ekki er fallist á að þessi kostnaður falli undir 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga. Stefnandi hefur ekki sýnt fram á að þarna sé um kostnað að ræða sem talinn verður til gjafsónarkostnaðar samkvæmt 1. mgr. 127. gr., sbr. 1. mgr. 129. gr. laga um meðferð einkamála. Af hálfu stefnanda hefur ekki verið gerð frekari grein fyrir útlögðum kostnaði. Annar gjafsóknarkostnaður verður því ekki ákveðinn en framangreind þóknun lögmannsins.
Dóminn kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari en dómsuppkvaðning hefur dregist vegna mikilla embættisanna dómara.
Dómsorð:
Stefndu, Vátryggingafélag Íslands hf. og Karl Narong Seelarak, eru sýknuð af kröfum stefnanda, Halldórs Inga Ásgeirssonar, í máli þessu.
Stefnandi greiði stefndu 150.000 krónur í málskostnað.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, sem er þóknun lögmanns hans, Steingríms Þormóðssonar hrl., 600.000 krónur án virðisaukaskatts, greiðist úr ríkissjóði.