Hæstiréttur íslands
Mál nr. 236/2011
Lykilorð
- Ráðningarsamningur
- Uppsögn
- Skaðabætur
|
|
Þriðjudaginn 20. desember 2011. |
|
Nr. 236/2011.
|
Hildigerður M. Gunnarsdóttir (Sigurður G. Guðjónsson hrl.) gegn BS Trading ehf. (Jón Rúnar Pálsson hrl.) og gagnsök |
Ráðningarsamningur. Uppsögn. Skaðabætur.
H hóf störf hjá fyrirtæki í eigu B ehf. á árinu 2005 og starfaði þar fram í desember 2008 er ráðningarsamningi hennar var sagt upp fyrirvaralaust. H höfðaði mál á hendur B ehf. og krafðist bóta vegna uppsagnarinnar. Þótt háttsemi H hafi hvorki verið í samræmi við ákvæði ráðningarsamnings né starfslýsingar þeirrar er honum fylgdi var talið í ljósi samskipta H og fyrirsvarsmanna B ehf. að H hafi mátt ganga út frá því að ekki yrði litið á tiltekin viðskipti hennar og fyrirtækisins N sem brot á trúnaðarskyldum hennar gagnvart B ehf. Hafi B ehf. því borið að veita H áminningu vegna brota á starfsskyldum áður en til brottvikningar úr starfi gæti komið en það var ekki gert. Taldi Hæstiréttur því að H ætti rétt til bóta vegna fyrirvaralausrar uppsagnar sem næmi fjárhæð þeirra launa er hún hefði haft á uppsagnartíma ráðningarsamnings aðila.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. apríl 2011. Hún krefst þess að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 2.135.641 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. desember 2009 til greiðsludags að frádregnum 622.069 krónum miðað við 1. maí 2010 og 483.047 krónum miðað við 1. nóvember sama ár. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 25. maí 2011. Hann krefst sýknu af kröfu aðaláfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Málsatvikum er skilmerkilega lýst í hinum áfrýjaða dómi. Með skírskotun til forsendna héraðsdóms er fallist á þá niðurstöðu hans að til grundvallar verði að leggja að aðaláfrýjandi hafi skilið eftir í peningakassa verslunarinnar Outlet 10 kvittun sem virðist vera ígildi skuldaviðurkenningar. Í héraðsdómi er rakið efni 7. gr. ráðningarsamnings aðaláfrýjanda sem fól í sér bann við því að hún starfaði í samkeppni við gagnáfrýjanda. Á það er fallist með héraðsdómi að háttsemi aðaláfrýjanda, í tengslum við atvik þau er leiddu til þess að henni var fyrirvaralaust vikið úr starfi hjá gagnáfrýjanda, hafi hvorki verið í samræmi við framangreind ákvæði ráðningarsamningsins né starfslýsingar þeirrar er honum fylgdi. Til þess er á hinn bóginn að líta að fyrirsvarsmönnum gagnáfrýjanda var kunnugt um að aðaláfrýjandi hafði með höndum rekstur eigin fyrirtækis samhliða störfum sínum hjá gagnáfrýjanda, og hafði gagnáfrýjandi keypt af henni bæði vörur og þjónustu. Þá bera gögn málsins það með sér að aðaláfrýjandi ræddi við framkvæmdastjóra gagnáfrýjanda, Björn Sveinbjörnsson, um fyrirhuguð kaup fyrirtækisins Nova á starfsmannafatnaði og afslátt aðaláfrýjanda til handa í því sambandi. Í framburði Björns fyrir héraðsdómi sagði hann meðal annars: „Málið var þannig að [aðaláfrýjandi] kemur til mín, ég man ekki alveg seint haustið 2009 ... og hérna kemur með það að Nova vilji kaupa vörur ... Þannig að ég býð henni það ég segi ok ég skal gefa þér 25% afslátt en ég get náttúrulega ekki gefið þér meira en 25% afslátt þar sem afsláttur starfsmanna er ekki það mikill og ... geri henni grein fyrir því að þetta þurfi allt að fara í gegnum heildsölu.“
Þegar framangreind samskipti aðaláfrýjanda og fyrirsvarsmanna gagnáfrýjanda eru virt er fallist á með aðaláfrýjanda að hún hafi mátt ganga út frá því að ekki yrði litið á viðskipti hennar og fyrirtækisins Nova umrætt sinn sem brot á trúnaðarskyldum gagnvart gagnáfrýjanda. Í því ljósi verður lagt til grundvallar að gagnáfrýjanda hafi borið að veita aðaláfrýjanda áminningu vegna brota á starfsskyldum áður en til brottvikningar úr starfi gæti komið. Þetta gerði gagnáfrýjandi ekki en vék aðaláfrýjanda þess í stað úr starfi án fyrirvara. Verður samkvæmt þessu fallist á með aðaláfrýjanda að hún eigi rétt til bóta vegna hinnar fyrirvaralausu uppsagnar sem nemi fjárhæð þeirra launa er hún hefði haft á uppsagnartíma ráðningarsamningsins. Á því er kröfugerð aðaláfrýjanda reist og sætir útreikningur kröfu hennar ekki tölulegum andmælum.
Eftir þessum málsúrslitum verður gagnáfrýjanda gert að greiða aðaláfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Gagnáfrýjandi, BS Trading ehf., greiði aðaláfrýjanda, Hildigerði M. Gunnarsdóttur, 2.135.641 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. desember 2009 til greiðsludags að frádregnum 622.069 krónum miðað við 1. maí 2010 og 483.047 krónum miðað við 1. nóvember sama ár.
Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda samtals 750.000 krónur í málskostnaði í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. mars 2011.
I
Mál þetta, sem dómtekið var 2. mars sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Hildigerði M. Gunnarsdóttur, Sólarsölum 11, Kópavogi, með stefnu birtri 9. september 2010, á hendur BS Trading ehf., Laugavegi 91, Reykjavík.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 2.135.641 krónu með dráttarvöxtum frá 8. desember 2009 til 1. maí 2010, til frádráttar komi þá 622.069 krónur og því reiknist dráttarvextir af 1.656.482 krónum frá 1. maí 2010 til 1. nóvember 2010, til frádráttar komi þá 110.884 krónur og því reiknist dráttarvextir af 1.545.598 krónum frá 1. nóvember 2010 til greiðsludags auk málskostnaðar að mati dómsins.
Af hálfu stefnda er aðallega krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmd til að greiða stefnda málskostnað. Til vara krefst stefndi þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og stefnda verði dæmdur málskostnaður.
II
Málavextir
Hinn 1. júlí 2005 hóf stefnandi störf hjá NTC hf. Vann stefnandi fyrst við lager- og verslunarstjórnun í verslunum NTC hf. Í apríl 2009 var stefnanda falið að starfa sem verslunar- og rekstrarstjóri hjá stefnda, sem rekur verslunina Outlet 10, í Reykjavík en félögin NTC og BS Trading eru í eigu sömu aðila og lúta sömu stjórn. Liggur fyrir í málinu skriflegur en óundirritaður ráðningarsamningur milli stefnanda og stefnda.
Starfaði stefnandi hjá stefnda þar til hinn 8. desember 2009 en þá var ráðningarsamningi hennar rift fyrirvaralaust af hálfu stefnda. Ástæða riftunarinnar eru viðskipti sem stefnandi átti við símafyrirtækið Nova með föt sem seld eru í verslunum NTC hf. og í Outlet 10. Greinir aðila á um hvort stefnandi hafi haft heimild til að selja Nova umræddan fatnað í eigin nafni og hvort hún hafi ætlað sér að greiða fyrir fatnaðinn.
Stefnandi lýsir aðdragandanum að uppsögninni þannig að haustið 2009 hafi starfsmenn símafyrirtækisins Nova leitað til hennar og óskað eftir því að hún útvegaði starfsmannafatnað fyrir þá. Stefnandi kveðst hafa leitaði til nokkurra aðila og fengið frá þeim sýnishorn af fatnaði sem til greina hafi komið. Þá hafi hafi hún rætt við Björn K. Sveinbjörnsson, sem sé í framkvæmdastjórn stefnda og jafnframt framkvæmastjóri NTC hf., um kaup á starfsmannafatnaði fyrir Nova frá fyrirtækjum þessum. Starfsmenn Nova hafi valið fatnað sem stefnanda hafi staðið til boða frá stefnda og NTC hf. Hafi Björn samþykkt að stefnandi keypti vöruna af stefnda og NTC á 30% afslætti. Hafi hann sett það skilyrði að Nova nyti 25% afsláttar en að stefnandi héldi 5% fyrir sig eða um 23 þúsund krónum. Enn fremur hafi hann samþykkt að stefnandi sendi Nova reikning í eigin nafni og að vörukaupin yrðu gerð upp við félögin sem hann stjórnaði þegar Nova hefði greitt stefnanda reikninginn. Kveðst stefnandi hafa látið millifæra þá vöru, sem Nova hafði valið, frá NTC- búðum yfir á NTC heildsölu að frátöldum 26 peysum fyrir dömur sem fengnar hafi verið í Outlet 10. Til staðfestingar á þeirri úttekt hafi hún gengið frá skjali sem lagt hafi verið í peningakassa Outlet 10. Stefnandi kveðst hafa afhent Nova vörurnar í nóvember 2009 og gefið út reikning 14. þess mánaðar frá sjálfri sér að fjárhæð 575.946 kr. með virðisaukaskatti. Þegar Nova hafi fengið reikning frá stefnanda hafi borið svo við starfsmaður á skrifstofu félagsins hafi haft samband við Svövu Þ. Johansen, stjórnarformann stefnda og NTC hf., til að spyrjast fyrir um hvort greiða ætti reikninginn til stefnanda. Hinn 8. desember 2009 hafi Svava kallað stefnanda á sinn fund á skrifstofu félaganna að Laugavegi 91, Reykjavík. Á þeim fundi hafi hún borið á stefnanda að hún hefði stolið vörum úr fyrirtækjunum til að selja Nova. Stefnandi kveðst hafa reynt að bera hönd fyrir höfuð sér en verið rekin á staðnum og felldar niður allar launagreiðslur til hennar frá sama tíma.
Stefndi lýsir aðdragandanum að uppsögn stefnanda svo að hinn 4. desember 2009 hafi Ása Gísladóttir, starfsmaður NTC hf., fengið fyrirspurn frá fjármálastjóra fyrirtækisins Nova um það hvort fyrirtækið væri að selja fatnað í gegnum starfsmann sinn, þ.e. stefnanda máls þessa. Það hafði vakið undrun fjármálastjóra Nova að reikningurinn sem sendur hafi verið til Nova hafi verið merktur Hildigerði í stað NTC hf. og verðin auk þess ekki þau sömu og um hafði verið samið. Fjármálastjórinn hafi síðan sent Ásu afrit af útgefnum reikningi á hendur Nova í tölvuskeyti, þar sem fram kom að Nova ætti að greiða inn á bankareikning stefnanda, vegna ótilgreinds fatnaðar fyrir starfsfólk fyrirtækisins, að fjárhæð 575.941 krónu. Við nánari skoðun og eftirgrennslan starfsmanna stefnda hafi komið í ljós að stefnandi hafði farið í nokkrar af verslunum NTC hf. og Outlet 10, sem sé verslun í eigu stefnda, og tekið þar fatnað án þess að skrifa vörurnar á sig eins og starfsmönnum beri að gera samkvæmt skýrum verklagsreglum fyrirtækisins, versli þeir sjálfir við fyrirtækið. Engin greiðsla hafi heldur borist fyrirtækinu fyrir fatnaðinn. Stefnandi hafi því aldrei keypt þennan fatnað sem hún reyndi síðan sjálf að selja Nova. Stefnandi hafi fengið 40 stk. (af 119) hjá heildsölunni og hafi það verið með leyfi yfirmanns heildsölunnar. Í öðru tilfelli hafi hún farið í eina af verslunum NTC hf., tekið 53 stk. og látið verslunarstjórann þar millifæra það á heildsöluna en hvorki látið neinn á heilsölunni né aðra vita af því, en verslunarstjórar hafi treyst stefnanda þar sem hún hafi áður verið birgðastjóri hjá NTC hf. og því haldið að hún hefði leyfi til að gera slíkt. Í stað þess að senda vörurnar á heilsöluna og láta þá útbúa reikning hefði stefnandi tekið vörurnar með sér út sjálf án þess að láta vita af því. Þá hafi hún tekið 26 stk. í Outlet 10 án þess að greiða fyrir það eða skrifa á sig. Þann 8. desember 2009 hafi stefnandi verið boðuð á fund forráðamanna stefnda. Viðstaddir þennan fund hafi verið eigendur BS Trading, fjármálastjóri NTC hf. og yfirmaður heildsölu NTC hf. Stefnandi hafi fengið þar tækifæri til að útskýra mál sitt og hafi yfirmaður hennar, Björn K. Sveinbjörnsson, verið á fundinum. Stefnandi hafi engar haldbærar eða trúverðugar skýringar gefið á háttsemi sinni og hafi henni í kjölfarið verið vikið fyrirvaralaust úr starf vegna alvarlegs brots á starfsreglum fyrirtækisins og á trúnaðar-, hollustu- og heiðarleikaskyldu og samkeppnisbanni samkvæmt ráðningarsamningi aðila. Sama dag hafi Nova verið sendur reikningur vegna þess fatnaðar sem stefnandi hafði tekið frá stefnda án þess að greiða fyrir eða skrifa á sig. Reikningur stefnda hafi hljóðað upp á 432.607 kr., sem hafi verið það verð sem stefnandi hafði fengið heimild framkvæmdastjóra til að semja um með 25% afslætti.
Stefndi hefur neitað að greiða stefnanda laun í uppsagnarfresti en greiddi henni eftir málshöfðun þessa bónus (árangurstengda greiðslu) sem hún átti inni hjá fyrirtækinu að frádreginni fyrirframgreiðslu vegna sama og staðgreiðslu skatta. Breytti stefnandi upphaflegum kröfum sínum í samræmi við það en telur að stefndi hafi ekki mátt draga af staðgreiðslu frá uppgjörinu á greiðslunni.
Fyrir dóminum gáfu skýrslur stefnandi, Björn K. Sveinbjörnsson, Svava Þorgerður Johansen, Birna Jódís Magnús, Ólafur Guðmundsson, John Durke Hansen, Helga Þóra Árnadóttir, María Guðrún Sigurðardóttir og Ása Gíslason.
III
Málsástæður stefnanda
Af hálfu stefnanda er á því byggt að brottvikning hennar úr starfi hjá stefnda þann 8. desember 2009 án launauppgjörs hafi verið ólögmæt. Enginn fótur hafi verið fyrir ásökunum um að hún hefði stolið vörum frá stefnda og NTC hf., til að selja Nova. Öll viðskipti hennar við Nova í nóvember 2009 hafi farið fram fyrir opnum tjöldum, með samþykki og í samráði við framkvæmdastjóra stefnda og NTC hf., Björns K. Sveinbjörnssonar, sem hafi ráðið vöruverðinu og hvernig afslætti skyldi skipt milli kaupanda og stefnanda. Stefnandi hafi því ekki brotið af sér í störfum sínum fyrir stefnda né bakaði honum tjón með störfum sínum í hans þágu. Telur stefnandi að þegar á reyndi hafi Björn ekki treyst sér til að standa við gerða samninga vegna andstöðu stjórnarformanns NTC hf. og stefnda. Þar sem stefnandi hafi ekki brotið af sér í starfi beri stefnda að greiða henni laun í þriggja mánaða uppsagnarfresti frá 1. janúar 2010 til og með 31. mars 2010 og gera upp laun desember 2009. Stefnandi hafi fengið verkalýðsfélag sitt til að reikna launakröfu sína út og krefja stefnda um uppgjör hennar með bréfi 4. maí 2010 þegar einsýnt þótti að stefndi væri ekki tilbúinn til uppgjörs. Krafan hafi ekki sætt tölulegum andmælum af hálfu stefnda. Dómkrafa stefnanda sundurliðast þannig í stefnu:
Vangreidd laun í desember 2009 242.811
Fatapeningar í desember 2009 40.700
Orlof af launum í desember 2009 24.694
Eftirstöðvar bónuss 2009 833.047
Laun í uppsagnarfresti jan., feb., og mars 2010 1.055.700
Fatapeningar í uppsagnarfresti 150.000
Orlof á laun í uppsagnarfresti 107.364
Orlofsuppbót 2010 17.875
Desemberuppbót 2010 13.450
Samtals 2.485.641
Fyrir fram greiðslur 350.000
Dómkrafa 2.135.641
Við upphaf aðalmeðferðar lagði stefnandi fram breytta kröfugerð þar sem tekið var tillit til greiðslna frá Vinnumálastofnun og árangurstengds bónuss sem stefndi greiddi stefnanda eftir málshöfðun hennar, þ.e. hinn 1. nóvember 2010.
Um lagarök vísar stefndi til almennra reglna vinnuréttar, kröfuréttar og samningaréttar. Dráttarvaxtakrafan byggist á 1. mgr. 6. gr., sbr. einnig 1. mgr. 5. gr., og 11. gr. laga nr. 38/2001, og krafa um málskostnað styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, aðallega 129. og 130. gr.
Málsástæður stefnda
Sýknukrafa stefnda er á því byggð að atvik málsins sýni að stefnandi hafi með athöfnum sínum og háttsemi brotið gegn starfsreglum fyrirtækisins og trúnaðar- og heiðarleikaskyldu og samkeppnisbanni í ráðningarsamningi aðila. Þessi brot stefnanda á meginskyldum ráðningarsamnings aðila hafi heimilað stefnda að rifta ráðningarsamningi við stefnanda án fyrirvara. Jafnframt hafi brostið forsendur fyrir frekari launagreiðslum til stefnanda. Stefnda hafi verið kunnugt um að stefnandi hefði í nokkurn tíma áður rekið einhvers konar fyrirtæki sem hún hafi sinnt utan vinnutíma og hafi stefndi ekki gert athugasemdir vegna þessara aukastarfa. Í eitt skipti hefði stefnandi selt NTC hf. vínupptakara sem gefnir voru starfsfólki í jólagjöf og í annað skipti hafi stefndi keypt flíspeysur af stefnanda. Þarna hafi stefnandi einungis selt eigin vörur sem ekki hafi verið eign stefnda, þetta hafi verið vörur sem hún átti sjálf en verið milligöngumaður á milli fyrirtækja. Stefndi hefði aldrei samþykkt að stefnandi færi í beina samkeppni við fyrirtækið með rekstri verslunar með föt, hvað þá samþykkt að hún seldi eigin vörur fyrirtækisins í gegnum sinn persónulega bankareikning. Þessar vörur hafi verið í eigu stefnda og stefnandi hefði aldrei keypt þær eða skrifað á sig. Í ráðningarsamningi stefnanda hafi verið sérstakt samkeppnisbannsákvæði í 7. gr. sem hafi bannað stefnanda öll sölustörf í samkeppni við stefnda. Stefnandi hafi í raun gengið skrefinu lengra því hún hafi farið að selja eigur stefnanda fyrir eigin reikning án greiðslu til stefnda. Samkvæmt ráðningarsamningi stefnanda, (sjá 6. gr.) átti hún að fá sérstakan bónus fyrir söluárangur verslunar stefnda. Um engar aðrar greiðslur eða þóknanir hafði verið samið við stefnanda vegna starfa hennar í þágu stefnda.
Stefndi mótmælir staðhæfingum stefnanda þess efnis að yfirmaður hennar, Björn K. Sveinbjörnsson, hafi samþykkt að kaup Nova á starfsmannafatnaði skyldu fara fram á þann hátt sem raunin hafi orðið. Ekkert hafi verið rætt um það milli Björns og stefnanda að hún fengi 5% af sölu til Nova eða 23.000 krónur. Sú þóknun hafi verið fráleit enda hafi stefnandi, sem starfsmaður stefnda, fengið sérstakan bónus. Telur stefndi að frásögn stefnanda fái ekki staðist þegar litið sé til fjárhæðar reikningsins sem hún sendi Nova en augljóst sé að hún hafi ætlað sér að fá mun meiri fjármuni út úr þessu en 23.000 krónur.
Stefndi segir það rangt að skilið hafi verið eftir skjal í peningakassa Outlet 10 meðan stefnandi hafi verið í starfi. Framkvæmdastjóra hafi ekki verið tilkynnt um þetta skjal, enda hefði hann ekki gefið leyfi fyrir því. Þetta skjal hafi ekki fundist í kassanum þann 8. desember 2009 en mánuði seinna hafði því verið komið fyrir. Skjalið sjálft sé sérkennilegt, virðist skv. efni sínu vera „staðgreiðslukvittun“ en sé samt án nokkurrar dagsetningar eða tilgreindrar fjárhæðar, sem skýrt gætu þessi meintu staðgreiðsluviðskipti stefnanda.
Stefndi fullyrðir að viðskiptin við Nova hafi ekki farið fram fyrir opnum tjöldum því enginn hafi vitað af þeim nema að leyfi var gefið fyrir 25% afslætti. Viðskiptin hefðu átt að vera gerð í gegnum heildsöluna. Stefnandi afgreiði sig alls staðar sjálf og hvergi séu vörurnar skrifaðar á hennar reikning.
Stefndi segir að framangreindar athafnir stefnanda hafi komið stefnda mjög á óvart og hafi stefnandi í framhaldinu verið kölluð á fund til að skýra þær. Fundurinn hafi síðan þróast á þann hátt að ákveðið hafi verið að segja stefnanda fyrirvaralaust upp störfum eða rifta ráðningarsamningi hennar vegna alvarlegra brota hennar á starfsreglum og vegna óheiðarleika í starfi og hafi hún hætt samdægurs.
Varakröfu sína um lækkun styður stefndi við sömu málsástæður og fram koma vegna sýknu kröfu. Hann mótmælir öllum kröfum um dráttarvexti.
Krafa stefnda um málskostnað er byggð á 130. og 131. gr. laga nr. 91/1991.
IV
Niðurstaða
Í máli þessu deila aðilar um hvort stefndi hafi haft heimild til að segja stefnanda upp störfum fyrirvaralaust án þess að greiða henni laun í uppsagnarfresti. Ástæða uppsagnarinnar voru viðskipti stefnanda í eigin nafni við fyrirtækið Nova með fatnað sem stefndi seldi, nánar tiltekið samtals 119 stk. af peysum og bolum fyrir starfsmenn fyrirtækisins. Telur stefndi að fullt tilefni hafi verið til að víkja stefnanda úr starfi vegna grunsemda um alvarlegt refsivert brot, óheiðarleika og trúnaðar- og samkeppnisbrots í starfi, og brota á starfsreglum fyrirtækisins.
Stefnandi lagði fram í málinu óundirritaðan ráðningarsamning milli sín og stefnda. Er ekki ágreiningur um að hann gildi í samskiptum aðila. Ákvæði 7. gr. samningsins er svohljóðandi: „Starfsmanni er óheimilt að starfa í beinni samkeppni við BS Trading ehf. og sinnir ekki öðrum launuðum störfum nema að fengu samþykki framkvæmdastjóra. Í 6 mánuði frá starfslokum er starfsmanni óheimilt að gegna sambærilegu starfi hjá aðilum, sem eru í samkeppni við BS Trading. Á sama tímabili er starfsmanni einnig óheimilt að eiga aðild að fyrirtæki eða félagi, sem er í samkeppni við BS Trading. Samkeppnisbannið gildir jafnt við uppsögn, brottrekstur eða venjuleg starfslok. Brot á þessu ákvæði varðar févíti í formi dagsekta, sem skulu nema kr. 20.000 fyrir hvern dag, sem starfsmaður brýtur gegn ákvæði þessu. Ákvæði þessu má og framfylgja með lögbanni.“ Stefnandi mótmælir staðhæfingum stefnda um að hún hafi brotið gegn umræddu ákvæði með viðskiptum sínum við Nova. Vísar hún til þess að stefnda hafi verið kunnugt um að hún hefði með höndum rekstur í eigin nafni og jafnframt hafi framkvæmdastjóri stefnda, Björn K. Sveinbjörnsson, samþykkt umrædd viðskipti, þ.e. samþykkt að hún mætti selja Nova fatnaðinn með 25% afslætti og fá sjálf 5% afslátt. Vörurnar hafi hún átt að greiða fyrir er hún hefði fengið þær greiddar af Nova. Lögð hafa verið fram gögn um að stefnandi seldi NTC hf. ræstingarþjónustu og þá keypti stefndi af henni 30 peysur á árinu 2009. Ekki hefur hins vegar verið sýnt fram á það að hálfu stefnanda að hún hafi áður selt fatnað í eigin nafni til annarra fyrirtækja. Framkvæmdastjóri stefnda mótmælir fullyrðum stefnanda en kannast við að hafa samþykkt að Nova fengi 25% afslátt af umræddum vörum sem selja hafi átt beint frá heildsölu NTC hf. til Nova. Hann hefði aldrei samþykkt að stefnandi seldi vörurnar í eigin nafni. Bendir stefndi í því samhengi á að samkvæmt ráðningarsamningum hafi stefnandi átt að fá árangurstengdan bónus af sölu í Outlet 10. Stefnandi hefur lagt fram tölvupóst sinn til Björns, dagsettan 6. nóvember 2009, þar sem hún biður hann um verð á peysum, bolum o.fl. Er því fram haldið af hálfu stefnanda að pósturinn hafi verið sendur vegna umræddra viðskipta hennar við Nova. Af póstinum verður ekki ráðið vegna hvaða viðskipta hann er sendur né að hann hafi verið vegna persónulegra viðskipta stefnanda sjálfs við stefnda. Þá er að hluta ósamræmi milli fjölda flíka og verðs þeirra í póstinum annars vegar og hins vegar á reikningum sem stefnandi gaf út til Nova hinn 14. nóvember 2009 og tölvupósti sem hún sendi starfsmanni fyrirtækisins hinn 3. desember 2009. Hefur stefnanda ekki tekist að sanna að hún hafi haft heimild stefnda til þess að selja umræddar vörur í eigin nafni til Nova. Er því fallist á það með stefnda að stefnandi hafi brotið gegn samkeppnisákvæði 7. gr. ráðningarsamningsins með því að selja fyrirtækinu Nova umæddan fatnað í eigin nafni.
Stefnandi mun hafa fengið 40 stk. af vörunum í heildsölu NTC hf., 53 stk. í einni af verslunum NTC hf. og 26 stk. í Outlet 10 þar sem stefnandi starfaði. Stefnandi lét ekki skrifa á sig vörunar sem hún tók út í heildsölunni og verslun NTC hf. en hún lét starfsmann verslunar NTC hf. millifæra vörurnar þaðan á heildsölu NTC hf. Stefnandi kveðst hafa skilið eftir skjal í peningakassa í versluninni Outlet 10 vegna úttektarinnar þar. Hefur hún lagt fram ljósrit af ódagsettri staðgreiðslukvittun merktri Sautján, Laugavegi 89. Á kvittunina er ritað „Hilda“ og „peysur fyrir Nova 26 x 3990“ og kvittar stefnandi undir. Segist hún hafa sagt framkvæmdastjóra stefnda, Birni K. Sveinbjörnssyni, frá skjalinu sem og haft samþykki hans fyrir því að taka vörunar út í gegnum heildsöluna en hann mótmælir því. Stefndi heldur því fram að umrætt skjal hafi ekki fundist í peningakassanum við leit öryggisvarðar í honum sama dag og stefnanda var sagt upp störfum, þ.e. hinn 8. desember 2009. Staðfesti öryggisvörðurinn, John Durke Hansen, það í skýrslu sinni fyrir dómi. Fyrir dóm komu jafnframt vitnin Birna Jódís Magnúsdóttir og Ólafur Guðmundsson en þau störfuðu í Outlet 10 er stefnanda var sagt upp. Báru Birna Jódís og Ólafur að þau hefðu séð skjalið í peningakassa verslunarinnar nokkrum dögum eftir að stefnanda var sagt upp. Starfsmaður stefnda, Helga Þóra Árnadóttir, bar að hún hefði fundið skjalið í janúar 2008 er hún fór í gegnum peningakassa verslunarinnar þar sem nýr verslunarstjóri var væntanlegur til starfa. Verður því að leggja til grundvallar að stefnandi hafi skilið umrætt skjal, sem virðist vera ígildi skuldaviðurkenningar, eftir í peningakassa Outlet 10, þótt það sanni ekki að framkvæmdastjóri stefnda hafi veitt samþykki sitt til þess að hún gengi frá viðskiptum sínum með þessum hætti.
Ráðningarsamningi stefnanda við stefnda fylgdi starfslýsing verslunarstjóra. Í starfslýsingunni eru tiltekin atriði sem verslunarstjóri ber ábyrgð á, þ.á m. er ákvæði um starfsmannaúttektir sem er svohljóðandi: „Verslunarstjóri ber ábyrgð á því að starfsmenn greiði fyrir vörur sínar eða sjái um að koma skrifum til skrifstofu sem getur gengið frá því þannig að hægt sé að taka út af launum starfsmanna. Úttektartímabil er ávallt frá 27. 26. næsta mánaðar þ.e. eins og launatímabilið. Ekki er skrifað á starfsmenn fyrr en þeir hafa unnið a.m.k. einn mánuð.“ Reikningur sem stefnandi gerði Nova vegna sölu hennar á fatnaðinum er dagsettur 14. nóvember 2009 þannig að ljóst er að úttektir hennar í Outlet 10 og heildsölu NTC hf. áttu sér stað fyrir þann tíma. Samkvæmt skýrum ákvæðum í starfslýsingunni hefði stefnandi átt að koma umræddu skjali um úttektir sínar í Outlet 10 til skrifstofunnar fyrir mánaðamótin nóvember-desember 2009 þannig að unnt væri að draga þær frá launum hennar. Þá hefðu átt að liggja fyrir gögn um úttektir stefnanda sem fóru í gegnum heildsölu NTC hf. Óháð því hvort stefnandi hafi ætlað sér síðar að greiða fyrir umræddar vörur er ljóst að háttsemi hennar var ekki í samræmi við þær reglur sem henni bar að starfa eftir en eins og áður er fram komið telst ósannað að framkvæmdastjóri stefnda hafi heimilað henni umrædd viðskipti við Nova í eigin nafni.
Þegar horft er til þess að stefnandi braut gegn samkeppnisákvæði ráðningarsamnings við stefnda með sölu á fatnaði í eigin nafni til Nova og að stefnandi greiddi ekki fyrir vörurnar sem hún tók út hjá stefnda og NTC hf. eða sá til þess með fullnægjandi hætti að þær yrðu skrifaðar á hana verður að fallast á það með stefnda að stefnandi hafi með háttsemi sinni brotið svo gegn starfsskyldum sínum sem verslunarstjóri hjá stefnda að það réttlæti fyrirvaralausa uppsögn á ráðningarsamningi án greiðslu launa í uppsagnarfresti. Telja verður að stefnda hafi verið heimilt að draga staðgreiðslu af árangurstengdum bónus enda er hann ekki skaðabætur fyrir ólögmæta uppsögn heldur áunnin réttindi stefnanda vegna liðins tíma samkvæmt ráðningarsamningi sem stefnda bar að halda eftir staðgreiðslu af lögum samkvæmt. Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu að öðru leyti en því að fallist er á að stefnda verði gert að greiða stefnanda dráttarvexti, eins og segir í dómsorði, af umræddum bónus (að frádregnum fyrirframgreiðslum) sem hann greiddi stefnanda 1. nóvember 2010, en fjárhæð bónussins virðist hafa legið fyrir í síðasta lagi 13. apríl 2010 er stefndi bauð stefnanda starfslokasamning sem stefnandi féllst ekki á enda var hann háður ýmsum skilyrðum.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Kolbrún Sævarsdóttir, settur héraðsdómari, kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, BS Trading ehf., greiði stefnanda, Hildigerði M. Gunnarsdóttur, dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 483.047 krónum frá 13. apríl til 1. nóvember 2010.
Málskostnaður fellur niður.