Hæstiréttur íslands

Mál nr. 126/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
  • Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Dómsatkvæði

 

Þriðjudaginn 8. apríl 2003.

Nr. 126/2003.

Lögreglustjórinn á Keflavíkurflugvelli

(Sævar Lýðsson fulltrúi)

gegn

X

(Ásbjörn Jónsson hdl.)

 

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A og B-liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

X var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli a. og b. liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. apríl 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. apríl 2003, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 1. maí nk. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að honum verði gert að sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds. Að því frágengnu krefst hann þess að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Samkvæmt greinargerð sóknaraðila mun varnaraðili hafa dvalið hér á landi þann 14. mars sl. og í för með honum hafi þá verið nafngreindur maður með bandarískt vegabréf. Hafi maður þessi haldið til Bandaríkjanna tveimur dögum síðar og framvísað við komuna þangað stolnu bandarísku vegabréfi, sem varnaraðili sé talinn hafa útvegað honum, og maðurinn beðið um pólitískt hæli þar í landi. Verið sé að rannsaka þennan þátt málsins nánar í samvinnu við þarlend lögregluyfirvöld. Þá séu rannsóknarlögreglumenn nýkomnir heim frá Þýskalandi, þar sem meðal annars farmiðakaup varnaraðila hafi verið rannsökuð nánar. Enn sé unnið að skýrslutökum yfir Kínverjunum fjórum, sem komu hingað til lands 25. mars sl. Fallast verður á það með sóknaraðila að hætta sé á því að varnaraðili geti haft áhrif á vitni og hugsanlega meðseka í málinu. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. apríl 2003.

                Mál þetta var tekið til úrskurðar í 3. apríl s.l. á grundvelli kröfu lögreglustjórans á Keflavíkurflugvelli um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir X, bandarískum ríkisborgara, fæddur 26. desember 1969, til heimilis að [...], New York, Bandaríkjunum. 

Krefst lögreglustjórinn á Keflavíkurflugvelli þess að X verði látinn sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, þar til dómur gengur í máli hans, þó ekki lengur en til klukkan 16:00 þann 1. maí 2003.  Er kærði grunaður um að reka í hagnaðarskyni skipulagða starfsemi til þess að aðstoða útlendinga við að koma ólöglega til landsins eða annars ríkis og talið að brot kærða geti varðað allt að 6 ára fangelsi, sbr. 3. mgr. 57. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002.

Krafan er reist á a og b lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Af hálfu lögreglustjóra er sérstaklega lagst gegn því að beitt verði vægari úrræðum en gæsluvarðhaldi, sbr. ákvæði 109. og 110. gr. laga nr. 19/1991.

Við fyrirtöku málsins í dag vísaði kærði til fyrri framburðar sem hann gaf fyrir dóminum þann 27. mars s.l. þegar tekin var fyrir krafa um gæsluvarðhald á hendur honum.  Hann mótmælir gæsluvarðhaldskröfunni og ítrekar að hann sé saklaus af ætluðu broti.

Hann krefst aðallega að synjað verði um að krafan nái fram að ganga og til vara að honum verði einungis gert að sæta farbanni og til þrautavara að verði fallist á gæsluvarðhaldskröfuna þá verði gæsluvarðhaldinu markaður skemmri tími en krafist er.

Í greinargerð segir að rannsókn málsins sé haldið áfram af fullum krafti.  Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness þann 28. mars s.l. var kærði úrskurðaður í gæsluvarðhald til dagsins í dag á grundvelli a og b liðar 103. gr. laga nr. 19/1991. 

Með dómi Hæstaréttar frá 1. apríl s.l. var úrskurðurinn staðfestur.

Eins og málið liggur nú fyrir að virtum rannsóknargögnum sem lágu fyrir dómi nú í dag, er ekkert sem gefur tilefni til annars en að álykta svo að fyrir liggi rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst brotlegur við 3. mgr. 57. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, en viðurlög við slíku broti er allt að 6 ára fangelsi.

Fram hefur komið af hálfu lögreglustjórans á Keflavíkurflugvelli að fyrirhugað sé að gefa út ákæru á hendur kærða eigi síðar en í næstu viku.  Auk þeirra raka sem áður hafa verið færð fram af hans hálfu og um var fjallað í fyrra úrskurði hefur hann lagt á það áherslu að vegna tilhögunar á vegabréfaeftirliti innan Schengensvæðisins og annarrar aðstöðu kærða þá sé raunverulega hætta á því að hann reyni að komast úr landi og komast með þeim hætti undan hugsanlegri málsókn.  Er það álit dómara að af þessum sökum sé ekki varlegt að treysta á vægara úrræði en gæsluvarðhald, svo að nærvera kærða verði tryggð, svo sem farbanni skv. 110. gr. laga nr. 19/1991.  Telur dómari því vafalaust að við eigi í málinu ákvæði b-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála og rétt að fallast á gæsluvarðshaldskröfu lögreglustjóra á þeim grunni.  Eins og stöðu rannsóknarinnar er nú háttað telur dómurinn að einnig verði að fallast á framkomna gæsluvarðhaldskröfu með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 og í ljósi þess sem áður segir um b-lið sömu greinar þykja ekki efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en krafist er.

Að öllu þessu virtu verður fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún er sett fram.

                Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ

                Kærði, X, sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi til fimmtudagsins 1. maí 2003 klukkan 16:00.