Hæstiréttur íslands
Mál nr. 167/2006
Lykilorð
- Verksamningur
- Yfirmat
|
|
Fimmtudaginn 30. nóvember 2006. |
|
Nr. 167/2006. |
Sigurður Gíslason og Sólbjört Egilsdóttir (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) gegn Húsbyggingu ehf. (Jóhannes Karl Sveinsson hrl.) og gagnsök |
Verksamningur. Yfirmat.
Að beiðni SG og SE tók H að sér byggingu sökkuls á lóð hans. H krafðist greiðslu að fjárhæð 1.349.365 króna fyrir verkið. SG og SE héldu því fram að samið hefði verið um einingarverð en ekki tímagjald fyrir verkið, eins og reikningur H miðaðist við, og töldu reikninginn vera of háan. SG og SE tókst ekki sönnun þess að samið hefði verið um fast verð fyrir verkið og varð því að dæma málið eftir þeirri grunnreglu sem meðal annars kemur fram í 45. gr. laga nr. 50/2000 og felur það í sér, að greiða skuli það verð sem seljandi setur upp, enda sé verðið ekki ósanngjarnt. Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að sönnunarbyrði fyrir því að umkrafið verð sé ósanngjarnt hvíli á þeim sem slíku heldur fram. Fallist er á með héraðsdómi að yfirmatsgerð 5. júlí 2005 verði lögð til grundvallar við úrlausn málsins. Samkvæmt yfirmatsgerðinni var reikningur H 12% hærri en kostnaðarmat yfirmatsmanna. Var ekki talið að hér munaði meiru en svo að ekki væri sannað með matsgerðinni að reikningur H teldist ósanngjarn. Voru SG og SE því dæmd til að greiða kröfu H að fullu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 22. mars 2006. Þau krefjast sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 31. maí 2006. Hann krefst þess aðallega að aðaláfrýjendur verði dæmd til að greiða sér óskipt 997.369 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. febrúar 2003 til greiðsludags. Til vara krefst hann staðfestingar á héraðsdómi. Í báðum tilvikum er þess krafist að málskostnaðarákvörðun héraðsdóms verði staðfest og aðaláfrýjendur verði dæmd til að greiða honum málskostnað fyrir Hæstarétti.
Aðaláfrýjendur hafa ekki sannað að málsaðilar hafi samið um fast verð fyrir verk það sem gagnáfrýjandi vann í þágu þeirra. Er því fallist á með héraðsdómi að málið verði dæmt eftir grunnreglu þeirri sem meðal annars kemur fram í 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup og felur það í sér, að greiða skuli það verð sem seljandi setur upp, enda sé verðið ekki ósanngjarnt. Sönnunarbyrði fyrir því að umkrafið verð sé ósanngjarnt hvílir á þeim sem slíku heldur fram. Með þeim rökum sem greinir í héraðsdóminum verður fallist á að yfirmatsgerð 5. júlí 2005 verði lögð til grundvallar við úrlausn málsins. Í yfirmatsgerðinni er komist að þeirri niðurstöðu, að reikningur gagnáfrýjanda sé 12% hærri en kostnaðarmat yfirmatsmanna. Hér munar ekki meiru en svo að ekki er sannað með þessari matsgerð að reikningur gagnáfrýjanda teljist ósanngjarn í skilningi fyrrgreindrar meginreglu. Aðaláfrýjendur verða því dæmd til að greiða kröfu gagnáfrýjanda að fullu. Sérstök andmæli aðaláfrýjenda við upphafstíma dráttarvaxta í kröfu gagnáfrýjanda komu fyrst fram við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti. Voru þau þá of seint fram komin og verður þess vegna ekki sinnt frekar. Verða dráttarvextir dæmdir í samræmi við kröfu gagnáfrýjanda svo sem nánar greinir í dómsorði.
Málskostnaðarákvæði hins áfrýjaða dóms verður staðfest.
Aðaláfrýjendur verða dæmd til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Aðaláfrýjendur, Sigurður Gíslason og Sólbjört Egilsdóttir, greiði gagnáfrýjanda, Húsbyggingum ehf., óskipt 997.369 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. febrúar 2003 til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað er staðfest.
Aðaláfrýjendur greiði gagnáfrýjanda 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 20. desember 2006.
Mál þetta var þingfest 14. maí 2003 og tekið til dóms 1. desember sl.
Stefnandi er Húsabygging ehf., Kjarrmóum 10, Njarðvík en stefndu eru Sigurður Gíslason og Sólbjört Egilsdóttir, bæði til heimilis að Ósbraut 5, Garði.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði gert að greiða stefnanda in solidum 997.369 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. febrúar 2003 til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndu krefjast sýknu og málskostnaðar að skaðlausu.
I.
Stefnandi er verktakafélag í eigu byggingarmeistara. Þann 17. desember 2002 hafði stefndi Sigurður samband við fyrirsvarsmann og eiganda stefnanda, Unnar Má Magnússon, og fór þess á leit að stefnandi sæi um byggingu sökkuls á lóð nr. 5 við Ósbraut í Garði. Forsvarsmaður stefnanda og stefndi Sigurður hittust aftur 19. desember 2002 og var þá ákveðið að stefnandi tæki að sér verkið. Jafnframt var ákveðið með aðilum að fyrirsvarsmaður stefnanda tæki að sér stöðu byggingarstjóra á framkvæmdinni allt frá upphafi og þar til kanadískt timburhús, sem til stóð að setja á sökkulinn að lokinni smíði hans, væri fullbúið.
Stefndi Sigurður segir að hann hafi verið búinn að sýna nokkrum aðilum teikningar af húsinu og sökkli og verið búinn að fá upplýsingar um að það myndi kosta 350-500.000 krónur að slá upp fyrir sökkli. Hafi hann sagt Unnari frá þessu á fundi þeirra og hafi Unnar gefið í skyn með því að kinka kolli að þetta væri hugsanlegt verð fyrir vinnu stefnanda.
Unnar Már sagði aftur á móti fyrir dómi að þeir hafi ekki rætt verð að öðru leyti en því að verkið skyldi unnið í tímavinnu og tímagjald á þeim tíma hafi verið 2.600 krónur að viðbættum virðisaukaskatti. Þá sagði Unnar að þeir hafi sammælst um á framangreindum fundi að laun fyrir stöðu byggingarstjóra yrðu 10.000 krónur á mánuði auk virðisaukaskatts. Greiðslur fyrir verkið skyldu inntar af hendi eftir því sem því miðaði áfram.
Þann 7. janúar 2003 hófst vinna við uppslátt sökkulsins. Þann 16. janúar spurðist stefndi Sigurður fyrir um kostnað og upplýsti fyrirsvarsmaður stefnanda stefnda Sigurð um þann 22. janúar að vinnuliður samningsins stæði í um það bil 500.000 krónum án virðisaukaskatts. Þann 24. janúar greiddi stefndi 300.000 krónur sem innborgun inn á verkið. Þann 5. febrúar 2003 hafði fyrirsvarsmaður stefnanda samband við stefnda Sigurð og tjáði honum að kostnaður við verkið væri kominn upp í um það bil 1.000.000 krónur auk virðisaukaskatts og óskaði jafnframt eftir innágreiðslu. Stefndi Sigurður sagði að sér hafi brugðið í brún við þessi tíðindi því þetta hafi verið mun hærri fjárhæð en hann hafi órað fyrir. Fékk stefndi Magnús Þórðarson byggingarmeistara til að áætla kostnað við verkið og taldi Magnús að verkið ætti að kosta 351.996 krónur. Hefur úttekt hans og kostnaðarmat verið lagt fram í málinu. Í framhaldi af þessu óskaði stefndi Sigurður eftir því við byggingarfulltrúa Gerðahrepps að fyrirsvarsmaður stefnanda yrði leystur undan störfum sem byggingameistari og byggingarstjóri verksins og í framhaldi af því urðu byggingarstjóraskipti.
Stefnandi fékk Frey Jóhannesson byggingartæknifræðing til að meta kostnað við verkið. Skilaði hann niðurstöðu 25. febrúar 2003 og taldi að verkið ætti að kosta 1.105.334 krónur. Þann 10. mars 2003 sendi lögmaður stefnanda stefndu bréf og krafði þau um greiðslur samkvæmt reikningi stefnanda að fjárhæð 1.349.365 krónur.
Þann 24. október 2003 óskuðu stefndu eftir því að dómkvaddur yrði matsmaður til að meta kostnað vegna byggingu framangreindra sökkla. Í matsgerð Erlendar Árna Hjálmarssonar byggingarfræðings, sem dagsett er 31. mars 2004, er komist að þeirri niðurstöðu að verkið hafi átt að kosta 757.452 krónur. Stefnandi undi ekki þessu mati og óskaði eftir dómkvaðningu yfirmatsmanna. Yfirmatsmenn voru dómkvaddir 5. nóvember 2004 og skiluðu þeir mati í júní 2005. Í matsgerð þeirra er komist að eftirfarandi niðurstöðu en verðlag er miðað við febrúar 2003:
|
Verkþáttur |
@ efni tækjaleiga |
@ vinna |
Upphæð |
Mótauppsláttur |
|
|
|
|
Undirbúningur |
|
31.000 |
31.000 |
|
Setja út byggingalínur eftir útsetningu frá byggingafulltrúa. |
|
19.000 |
19.000 |
|
|
|
|
|
|
Stilla upp úthring með stoðum og einfalda, hæð 60 74 cm. |
|
252.000 |
252.000 |
|
Stilla upp innveggjum og einfalda, hæð 60 74 cm. |
|
77.000 |
77.000 |
|
Tvöfalda úthring |
|
163.000 |
163.000 |
|
Tvöfalda innri veggi |
|
51.000 |
51.000 |
|
Mótauppsláttur súlna, fótur og súla. |
|
36.000 |
36.000 |
|
Byggja sæti fyrir botnplötu 120 x 30 |
|
55.000 |
55.000 |
|
Lagnastokkar / rör |
|
17.000 |
17.000 |
|
Byggja inntakskassa |
|
20.000 |
20.000 |
|
Frágangur í verklok |
|
32.000 |
32.000 |
|
|
|
|
|
|
Samtals kr. |
|
753.000 |
753.000 |
|
|
|
|
|
|
Verkþáttur |
@ efni tækjaleiga |
@ vinna |
Upphæð |
Járnbending |
|
|
|
|
Bendistál K 12 |
|
29.000 |
29.000 |
|
Tengijárn K 10 |
|
43.000 |
43.000 |
|
Sökkulskaut m. klemmum |
|
29.000 |
29.000 |
|
Tengijárnabakkar |
|
36.000 |
36.000 |
|
|
|
|
|
|
Samtals kr. |
|
137.000 |
137.000 |
|
|
|
|
|
|
Verkþáttur |
@ efni tækjaleiga |
@ vinna |
Upphæð |
Ýmsir verkliðir |
|
|
|
|
Niðurlögn steinsteypu |
|
50.000 |
50.000 |
|
Verkumsjón, aðstaða, byggingastjóri, umsjón með efnisútvegun.
|
|
107.000 |
107.000 |
|
|
|
|
|
|
Kostnaður v. leigu á Dokaborðum |
45.000 |
|
45.000 |
|
|
|
|
|
|
Samtals kr. |
45.000 |
157.000 |
202.000 |
|
Kostnaður samtals m. VSK á verðlagi feb. 2003: |
|
|
1.092.000 |
Síðan segir í yfirmatsgerð:
,,Eina efnið sem er innifalið í ofangreindu mati er leiga á Dokamótum. Ekki hefur komið skýrt fram hvaða efni matsbeiðandi lagði fram.
Innifalið í kostnaði er öll vinna við að byggja sökkul, benda hann og steypa í mót, ennfremur almenn umsjón með verki og að sinna hlutverki byggingarstjóra.
Matsliðir B 1 og 2.
Samkvæmt reikningi á dskj. nr. 5 er yfirmatsbeiðandi að rukka að meðaltali 2,591 kr/kls fyrir starfsmenn sína. Þar ofan á leggst síðan virðisaukaskattur. Það er mat yfirmatsmanna að þetta tímagjald sé eðlilegt og sanngjarnt að teknu tilliti til reynslu starfsmanna og verðlags (feb. 2003)
Með tilvísun í matslið A þá er það mat yfirmatsmanna að fjárhæð reikningsins á dskj. nr. 5 sé í hærri kantinum. Þegar eingöngu er horft til vinnu og dokaleigu þá er sú fjárhæð á reikningi sem snýr að þessum liðum 1.239.236 kr.VSK. Þetta eru samsvarandi liðir og metnir eru í matslið A. Kostnaðarmat yfirmatsmanna í lið A var 1.092.000 kr. mVSK.
Þarna munar um 12%. Yfirmatsmenn gátu ekki greint nákvæmlega í hverju þessi mismunur fólst þar sem ekki er unnt að gera sér nákvæma grein fyrir sundurliðun tímaskriftar.“
II.
Stefnandi byggir kröfur sínar um greiðslu reikningsins á almennum reglum kröfuréttarins og samningsréttarins um skuldbindingargildi samninga. Stefnandi hafi tekið að sér verkefni fyrir stefndu og hafi verið samið um að vinna það í tímavinnu. Ekki hafi verið samið um fast verð. Reikningur stefnanda sé studdur fullnægjandi gögnum, þar á meðal tímaskýrslum allra starfsmanna stefnanda sem hafi komið að verkinu. Hver einasta klukkustund sem stefnandi hafi unnið að verkinu sé skráð í tímaskýrslurnar. Komi þar fram hverjir unnu að verkinu, hvenær og við hvað hafi verið unnið.
Nánar sundurliðar stefnandi reikning sinn þannig:
|
Lýsing |
Magn |
Ein. verð |
Upphæð |
|
Vinna, tímar alls |
49,00 |
2.750,00 |
134.750,00 |
|
Vinna, tímar alls |
0,50 |
3.950,00 |
1.975,00 |
|
Vinna, tímar alls |
133,00 |
2.750,00 |
365.750,00 |
|
Vinna, tímar alls |
0,50 |
3.950,00 |
1.975,00 |
|
Vinna, tímar alls |
129,50 |
2.450,00 |
317.275,00 |
|
Vinna, tímar alls |
0,50 |
3.440,00 |
1.720,00 |
|
Vinna, tímar alls |
27,00 |
2.450,00 |
66.150,00 |
|
Vinna, tímar alls |
26,50 |
2.250,00 |
59.625,00 |
|
Vinna, tímar alls |
1,00 |
2.950,00 |
2.950,00 |
|
Akstur v/efnisútv. ofl. |
350,00 |
55,00 |
19.250,00 |
|
Kerruleiga v/fl. efnis |
6,00 |
500,00 |
3.000,00 |
|
Leiga á brotfleyg |
1,00 |
1.200,00 |
1.200,00 |
|
Gámaleiga |
2,00 |
3.000,00 |
6.000,00 |
|
Rafmagn v/vinnuljósa |
1,00 |
5.000,00 |
5.000,00 |
|
Vinna+vélar á verkst. |
1,00 |
7.365,00 |
7.365,00 |
|
Byggingastjóratr. pr. mán |
2,00 |
10.000,00 |
20.000,00 |
|
Efni frá verkstj. sjá vinnuseðil |
1,00 |
3.668,00 |
3.668,00 |
|
Formbeygð st. st. járn+flutningur |
1,00 |
20.274,00 |
20.274,00 |
|
Mótaolía |
1,00 |
2.700,00 |
2.700,00 |
|
Dokafl.+zetu+uppist.leiga |
90,00 |
480,00 |
43.200,00 |
|
|
|
|
|
|
|
Upphæð án vsk. |
|
1.083.827,00 |
|
|
Vsk. upphæð |
|
265.538,00 |
|
|
Samtals ISK með vsk. |
|
1.349.365,00 |
Stefnandi telur að stefndu hafi ekki fært fram efnisleg rök gegn reikningi stefnanda eða borið brigður á það sem þar kemur fram. Ef stefndu vilja ekki kannast við þá samninga sem gerðir voru um verkið beri þeim samkvæmt almennum reglum kauparéttar að greiða stefnanda það verð sem upp sé sett enda teljist það ekki ósanngjarnt. Sú regla sæki stoð í grunnreglu 45. gr. laga um lausafjárkaup nr. 50/2000.
Vaxtakrafa stefnanda sé byggð á 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 en gjalddagi reikningsins sé útgáfudagur hans, 28. febrúar 2003. Krafist sé dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laganna.
Af hálfu stefndu er því aðallega haldið fram að samið hafi verið um einingarverð en ekki tímagjald. Þá gera stefndu þá kröfu að undirmatsgerð verði lögð til grundvallar niðurstöðu í málinu.
III.
Stefndu halda því fram að uppgjör eigi að fara fram samkvæmt magntölum en stefnandi krefst greiðslu samkvæmt vinnustundafjölda sem er byggður á tímaskýrslum og á reikningum vegna útlagðs kostnaðar.
Með því að stefndu hafa ekki fært sönnur á að samið hafi verið um einingarverð verður málið dæmt svo sem eigi hafi verið fyrirfram samið um verkið. Verður málið því dæmt eftir grunnreglu 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup og kemur þá til skoðunar hvort reikningur stefnanda sé ósanngjarn miðað við eðli og umfang verksins.
Til þess að skera úr um það hafa aðilar málsins aflað matsgerða, stefndu undirmatsgerðar og stefnandi yfirmatsgerðar. Efni þeirra er rakið hér að framan. Báðar matsgerðirnar fjalla um sömu matsatriði og er kostnaður sundurliðaður með svipuðum hætti í báðum matsgerðum. Samkvæmt 2. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991 metur dómari sönnunargildi matsgerða. Að öllu jöfnu hlýtur sönnunargildi yfirmatsgerðar tveggja matsmanna, sem ekki hefur verið hnekkt með öðrum gögnum, að vega þyngra við mat á sönnun en undirmatsgerð eins matsmanns, að því tilskyldu að ekki hafi verið sýnt fram á ágalla á henni. Í málinu er ekkert fram komið um að ekki hafi verið gætt réttra aðferða við mat hinna dómkvöddu yfirmatsmanna eða að niðurstaða þeirra hafi verið reist á röngum forsendum, hvorki að því er varðar mat þeirra á aðferðum við úrbætur né kostnað af þeim. Stefndu hafa ekki heldur lagt fram nein gögn sem hnekkt geta þessu mati. Yfirmatsgerð verður því lögð til grundvallar niðurstöðu í málinu.
Ekki hefur annað komið fram en að yfirmatsgerðin taki til allra þátta í vinnu stefnanda og taki jafnframt til allra þeirra atriða er reikningur stefnanda er byggður á. Reikningur stefnanda er að fjárhæð 1.349.365 krónur en yfirmatsmenn telja verkið eiga að kosta 1.092.000 krónur. Reikningur stefnanda telst ósanngjarn að því leyti sem hann er hærri en yfirmat kveður á um. Það er einnig álit hinna sérfróðu meðdómsmanna að yfirmatsmenn hafi lagt rétt mat á verk stefnanda við umræddan sökkul.
Krafa stefnanda verður því tekin til greina með 1.092.000 krónum. Stefndu hafa greitt inn á kröfuna 351.996 krónur og standa því eftir 740.004 krónur sem stefndu verða dæmd til að greiða stefnanda með vöxtum eins og í dómsorði greinir.
Eftir þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verða stefndu dæmd til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 580.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til útlagðs kostnaðar stefnanda við öflun yfirmatsgerðar að fjárhæð 207.915 krónur.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Bergmundi Ella Sigurðssyni húsasmíðameistara og Ragnari Ingimarssyni verkfræðingi.
DÓMSORÐ:
Stefndu, Sigurður Gíslason og Sólbjört Egilsdóttir, greiði stefnanda, Húsabyggingum ehf., in solidum 740.004 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 28. febrúar 2003 til greiðsludags og 580.000 krónur í málskostnað.