Hæstiréttur íslands
Mál nr. 694/2010
Lykilorð
- Líkamsárás
- Samverknaður
|
|
Fimmtudaginn 19. maí 2011. |
|
Nr. 694/2010. |
Ákæruvaldið (Sigríður Elsa Kjartansdóttir settur vararíkissaksóknari) gegn Karli Kristni Þórssyni (Björgvin Þorsteinsson hrl.) |
Líkamsárás. Samverknaður.
K var ásamt fjórum öðrum ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa veist að A. Var K annars vegar ákærður fyrir að hafa komið að eftir að árásin á A var byrjuð og slegið hann nokkrum sinnum með krepptum hnefa í kviðinn og hins vegar fyrir að hafa kastað A niður af svölum 2. hæðar, þar sem hann hefði lent á hellulagðri gagnstétt framan við húsið eftir um fjögurra metra fall. K neitaði sök samkvæmt þeim lið ákærunnar um að hafa kastað brotaþola niður af svölum 2. hæðar. Talið var að þegar litið væri til framburðar brotaþola um að hann hefði verið með litla rænu þegar honum var kastað niður af svölunum og til þess hversu reikull framburður meðákærða W hefði verið um málsatvik í aðdraganda þess að brotaþoli féll fram af svölum, og með hliðsjón af eindreginni neitun K var hann með vísan til 108. gr. og 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sýknaður af þessum sakargiftum. K játaði hins vegar að hafa slegið A nokkrum sinnum með krepptum hnefa í kviðinn. Fram kom að brotahrina meðákærðu í héraði hefði verið afstaðin þegar K kom á vettvang. Var talið ósannað að K hefði verið kunnugt um að borðfætur úr málmi hefðu verið notaðar til árásar á A. Þá var einnig talið ósannað að K hefði komið á vettvang og slegið A fyrr en að lokinni atlögu meðákærðu í héraði. Eins og þessum atvikum var háttað þótti bera að heimfæra brot K undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var talið að árás K á A hefði verið einkar fólskuleg þegar haft væri í huga að K gerði sér grein fyrir því að hópur manna hefði gengið í skrokk á A og sú atlaga hefði staðið um nokkurn tíma. Engu að síður hefði K veist að A. Að öllu virtu þótti refsing K hæfilega ákveðin fangelsi í 5 mánuði og voru 3 mánuðir af refsingunni skilorðsbundnir.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson og Símon Sigvaldason héraðsdómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 1. nóvember 2010 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst staðfestingar héraðsdóms um sakfellingu ákærða, en að refsing verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu af refsikröfu ákæruvaldsins, en til vara mildunar á refsingu. Í báðum tilvikum krefst hann frávísunar á einkaréttarkröfu A.
I
Með ákæru 22. janúar 2010 voru X, Karl Kristinn Þórsson, Y, Z og W ákærðir fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa að morgni fimmtudagsins 1. janúar 2009 í sameiningu veist að brotaþola A á heimili hans að [...] í [...]. Í ákærunni var háttsemi hvers þeirra lýst í 5 ákæruliðum. Í hinum áfrýjaða dómi Héraðsdóms Reykjaness var sakfellt fyrir ákæruliði 1 til 4, en sýknað af ákærulið 5. Ákærði Karl hefur einn áfrýjað dóminum en hann var sakfelldur samkvæmt ákæruliðum 2 og 4.
II
Ákærði neitar sök samkvæmt 4. lið ákærunnar um að hafa kastað brotaþola niður af svölum 2. hæðar að [...] í [...].
Ákærði bar fyrir dómi að hringt hefði verið í hann og honum tjáð að verið væri að lemja besta vin bróður hans. Hefði hann því verið sóttur og farið á staðinn. Y og Z ber saman um að X og W hafi orðið eftir þegar þeir fyrrnefndu hafi gengið á brott frá [...] og verður ráðið af framburði þeirra að hinir síðarnefndu hafi þá haldið áfram atlögu sinni að brotaþola á svölum 2. hæðar hússins. Y bar fyrir dómi að X hafi setið á brotaþola og verið að kýla hann þegar Y hafi verið að fara. Y og Z segjast hafa hitt ákærða fyrir framan heimili X að [...] í [...] og sagt honum frá slagsmálum við brotaþola. Aðspurður um hverjir hefðu verið á staðnum þegar ákærði kom þangað nefndi hann Z, Y, W og X. Ákærði kveðst hafa gengið upp á svalirnar og hefði þá staðið yfir atlaga gegn brotaþola og hefði hún verið búin að standa yfir í einhvern tíma. Þegar hann hefði komið þarna að hefði brotaþoli veist að honum og hann þá kýlt brotaþola tvisvar eða þrisvar sinnum í magann. Hefðu hann og meðákærðu í héraði verið farnir í burtu þegar brotaþoli féll fram af svölunum.
W var spurður um það hvort hann hefði séð ákærða á vettvangi. Hann svaraði því til að hann myndi það ekki. Aðspurður um það hvernig árás þeirra á brotaþola hafi lokið bar W að X hefði lagt brotaþola niður og sest ofan á hann og tekið hann kverkataki. Hefði hann losað tak X á brotaþola og gengið síðan niður stiga af svölum 2. hæðar hússins.
Upplýst er að I ók ákærða á staðinn. Af þeim vitnum sem gáfu skýrslu fyrir héraðsdómi var hann einn allsgáður er atburðir þeir gerðust sem eru tilefni útgáfu ákæru. Í skýrslu I fyrir dómi kom fram að hann hefði gengið að blokkinni að [...] og hefði þá séð brotaþola liggja á bakinu hreyfingarlausan og X sitja ofan á honum klofvega og hefði hann verið að „kyrkja“ hann. Hann kvaðst hafa séð einhverja menn reyna að ýta X af brotaþola. Hefði hann síðan ætlað upp stigann upp á 2. hæð. Í stiganum á leið upp hefði hann séð að búið hafi verið að hjálpa brotaþola á fætur og hefði hann aðeins verið að hreyfa sig. Aðspurður hverjir hefðu þá verið uppi á svölum 2. hæðar hússins nefndi hann X, Z, ákærða og M og einn til viðbótar sem hann vissi ekki hver var. Hann kvaðst hafa mætt W í stiganum og verður ráðið af framburðinum að W hafi varnað honum uppgöngu. Hefðu þeir rætt eitthvað saman „á tröppunum“ og W síðan dregið hann með sér niður stigann. Þegar hann hefði verið kominn niður á jarðhæð hefði brotaþoli legið í grasinu eftir að hafa fallið af 2. hæð. Hann kvaðst ekki hafa séð hver hefði hrint brotaþola niður af svölunum. Framburður I er í andstöðu við framburð ákærða um að hann hafi verið farinn á braut þegar brotaþoli féll af svölunum.
Ákærði hefur frá fyrstu yfirheyrslu lögreglu neitað því að hafa ýtt brotaþola fram af svölunum. Sakfelling ákærða er í hinum áfrýjaða dómi byggð á vitnisburði brotaþola og framburði X. Í skýrslu brotaþola hjá lögreglu 6. janúar 2009 kom fram að hann teldi að X og tveir aðrir menn, sem hann þá vissi ekki hverjir voru, hefðu tekið sig taki um hendur og fætur, lyft undir rassinn á sér og hent sér yfir handriðið. Í skýrslu brotaþola hjá lögreglu 8. júní 2009 kom fram að hann hafi verið rænulítill þegar honum hafi verið fleygt fram af svölunum. Hann hafi ekki séð hvað var að gerast vegna þess að X hafi verið að „kyrkja“ hann áður og af þeim sökum hafi hann verið að missa alla skynjun. Hann hafi einungis heyrt og fundið það sem fram fór. Við skýrslutökuna fór fram myndsakbending og kannaðist brotaþoli þar við ákærða. Í skýrslu brotaþola fyrir dómi kvaðst hann aðspurður ekki hafa þekkt alla árásarmennina. Þá sagði hann: „... það er komið upp svo sniðugt system núna sem heitir internetið að það er hægt að finna fólk á internetinu núna og þannig komst maður að því hverjir voru hvað.“ Þá bar hann á sama veg og í skýrslu sinni hjá lögreglu að öðru leyti en því að hann kvaðst hafa heyrt ákærða segja, áður en honum var hent fram af svölunum: „... heyrðu við skulum henda honum niður af svölunum.“ Ekki komu fram neinar skýringar á því hvers vegna brotaþoli hafði ekki greint frá þessum ummælum fyrr.
Þegar fyrst var tekin lögregluskýrsla af X 1. janúar 2009 kvaðst hann hafa slegist við brotaþola fyrir utan íbúð hans en kvaðst ekki hafa hent brotaþola fram af svölunum. Önnur skýrsla var tekin af X hjá lögreglu 8. janúar 2009 og var hann þá spurður hver hefði hent brotaþola fram af svölunum. Hann svaraði því til að hann vissi það ekki. Þá kvaðst hann aðspurður ekki muna hverjir aðrir hefðu verið á vettvangi. Lögregla tjáði X þá að auk hans væru nokkrir nafngreindir menn grunaðir um árásina, þar á meðal ákærði. X svaraði því til að hann gæti ekki staðfest hvort þessir menn hefðu verið þarna. Hann kvaðst hafa verið mjög drukkinn og einnig hafa fengið þungt höfuðhögg frá brotaþola. Enn var tekin lögregluskýrsla af X 9. janúar 2009 þar sem hann breytti framburði sínum og kvað ákærða hafa einan hent brotaþola fram af svölunum. Hann kvaðst sjálfur hafa verið að fara niður stigann þegar þetta gerðist. Það sem hann hefði séð af þessu var að brotaþoli hefði legið á svölunum eftir að Y hefði dregið hann sjálfan af brotaþola. Allt í einu hefði ákærði birst á svölunum, beygt sig niður að brotaþola og gripið einhvern veginn „um mittið“ á honum. X kvaðst ekki hafa séð þetta mjög vel þar sem ákærði hefði snúið baki í hann og hann sjálfur verið að ganga niður stigann. Hann kvaðst hafa litið í áttina að brotaþola og ákærða og hefði þá brotaþoli verið að falla yfir handriðið og lent svo á jörðinni fyrir neðan. Um ástæður þess að hann hefði ekki greint frá þessu fyrr sagðist hann hafa óttast viðbrögð ákærða við þessum framburði. Loks var tekin lögregluskýrsla af X 11. desember 2009. Hann lýsti þá atvikum á þann veg að einhver annar hefði verið hjá brotaþola og ákærða þegar hann hefði verið að ganga á brott. Hann rámaði í að það hefði verið W. Ákærði hefði beygt sig niður og gripið „um lappirnar“ á brotaþola meðan hinn maðurinn hefði tekið um axlir brotaþola og þannig hefðu þeir haldið á brotaþola á milli sín og sveiflað honum yfir handriðið og fram af svölunum. Hann kvaðst þá hafa verið á svölunum við stigaopið. Fyrir héraðsdómi bar X að ákærði hefði hent brotaþola fram af svölunum. Beðinn um að lýsa því nánar kvaðst hann halda að ákærði hefði tekið „undir hendurnar“ á brotaþola og hent honum þannig yfir. Kvaðst hann ekki geta lýst því nánar. Hann kvaðst hafa verið að ganga niður tröppurnar þegar þetta gerðist.
Héraðsdómur hefur metið sönnunargildi framburðar X og þótti framburður hans ótrúverðugur um að hann hefði ekki haft borðfót meðferðis þegar hann fór að heimili brotaþola ásamt þremur öðrum mönnum. Þá þótti framburður hans einnig ótrúverðugur um að brotaþoli hefði tekið á móti honum með gaddakylfu við hönd. Loks þótti breyttur framburður X marklaus um að hann hefði ekki tekið brotaþola kverkataki. Ekki verður annað séð en að héraðsdómur hafi á hinn bóginn talið framburð X trúverðugan um málsatvik er varða 4. lið ákæru þó að þetta sé ekki sagt berum orðum í forsendum dómsins og þá ekki heldur gerð grein fyrir þessu ósamræmi í matinu. Ljóst er af því sem rakið hefur verið hér að framan að verulegt ósamræmi hefur verið í framburði X um það hvernig brotaþola var kastað fram af svölunum. Hefur hann þannig haldið því fram að ákærði hafi ýmist tekið um mitti, fætur eða undir hendur á brotaþola þegar honum var kastað fram af og að ákærði hafi ýmist gert það einn eða í félagi við annan mann. Þá hefur X ýmist haldið því fram að hann hafi verið að ganga niður stiga eða verið að ganga í átt frá brotaþola að stiganum þegar brotaþoli féll fram af svölunum, en í síðarnefnda tilvikinu er ljóst að hann hefur þá snúið baki við brotaþola.
Þegar litið er annars vegar til framburðar brotaþola um að hann hafi verið með litla rænu þegar honum var kastað niður af svölunum og hins vegar til þess hversu reikull framburður X hefur verið um málsatvik í aðdraganda þess að brotaþoli féll fram af svölunum, og með hliðsjón af eindreginni neitun ákærða verður hann með vísan til 108. gr. og 109. gr. laga nr. 88/2008 sýknaður af sakargiftum samkvæmt 4. lið ákæru.
III
Ákærði hefur játað þá háttsemi sem honum er gefin að sök í 2. tölulið ákæru um að hafa slegið brotaþola nokkrum sinnum með krepptum hnefa í kviðinn. Eins og fram kemur í ákæru var brotahrina meðákærðu í héraði, sem lýst er í 1. lið ákærunnar, afstaðin þegar ákærði kom á vettvang og borðfætur úr málmi voru ekki lengur á staðnum. Er ósannað að ákærða hafi verið kunnugt um að þær hafi verið notaðar til árásar á brotaþola. Þá er með vísan til fyrrgreinds framburðar Y og I ósannað að ákærði hafi komið á vettvang og slegið brotaþola fyrr en að loknum þeim þætti árásar meðákærðu sem lýst er í 3. tölulið ákæru. Eins og þessum atvikum er háttað verður brot ákærða því heimfært undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Sakarferli ákærða er réttilega lýst í hinum áfrýjaða dómi. Með dómi 8. júní 2009 var honum gert að greiða 500.000 króna sekt fyrir umferðarlagabrot, fíkniefnabrot og vopnalagabrot. Jafnframt var hann sviptur ökurétti í tvö ár. Brot það sem ákærði er nú sakfelldur fyrir er framið áður en síðastnefndur dómur gekk og því ber að dæma honum hegningarauka samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga. Árás ákærða á brotaþola þykir einkar fólskuleg þegar haft er í huga að ákærði gerði sér grein fyrir því að hópur manna hafði gengið í skrokk á brotaþola og sú atlaga hafði staðið um nokkurn tíma. Eigi að síður veittist ákærði að brotaþola. Að öllu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 5 mánuði og verða þrír mánuðir af refsingunni skilorðsbundnir svo sem í dómsorði greinir.
Í ljósi þess að ákærði er með dómi þessum sýknaður af 4. lið ákærunnar og þáttur hans í árásinni hefur aðeins að litlu leyti valdið því tjóni sem bóta er krafist fyrir verður einkaréttarkröfu brotaþola vísað frá héraðsdómi hvað snertir ákærða, með vísan til 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008.
Ákærði greiði helming sakarkostnaðar í héraði sem er helmingur málsvarnarlauna skipaðs verjanda hans þar fyrir dómi, tildæmdra launa réttargæslumanns og annars sakarkostnaðar og teljast þau þar hæfilega ákveðin. Einnig greiði hann helming áfrýjunarkostnaðar málsins þar með talið helming málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem verða ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærði, Karl Kristinn Þórsson, sæti fangelsi í 5 mánuði en fresta skal fullnustu 3 mánaða af þeirri refsingu og hún falla niður að liðnum 2 árum frá uppsögu þessa dóms haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Bótakröfu A á hendur ákærða er vísað frá héraðsdómi.
Ákærði greiði helming sakarkostnaðar í héraði sem er málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns þar fyrir dómi, tildæmd laun réttargæslumanns og annar sakarkostnaður samtals í heild 1.070.158 krónur og helming áfrýjunarkostnaðar málsins, sem í heild er 340.079 krónur, þar með talinn helming málsvarnalauna skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, sem í heild eru ákveðin 313.750 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 9. júlí 2010.
Mál þetta, sem dómtekið var 15. júní 2010, er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 22. janúar 2010 á hendur X, kt. [...], [...], [...], Karli Kristni Þórssyni, kt. 280587-2579, Asparholti 2, Álftanesi, Y, kt. [...], [...], [...], Z, kt. [...], [...], [...], og W, kt. [...], [...], [...], fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, „með því að hafa að morgni fimmtudagsins 1. janúar 2009, í sameiningu veist að A á heimili hans að [...], [...], m.a. hafi:
1. Ákærðu X, Y, Z og W í anddyri íbúðar á 2. hæð veist að A og slegið hann ítrekað í höfuð og víðs vegar um líkamann með krepptum hnefum og borðfótum úr málmi.
2. Ákærði Karl Kristinn komið að þeim atvikum sem lýst er í 1. ákærulið eftir að árásin á A var byrjuð og slegið hann nokkrum sinnum með krepptum hnefa í kviðinn.
3. Ákærði X, eftir að A var fallinn á gólfið eftir þær árásir sem lýst er í 1. og 2. ákærulið, sest ofan á hann, slegið hann ítrekað með krepptum hnefa í andlitið og tekið hann kverkataki og þrengt að öndunarvegi hans með þeim afleiðingum að hann var við það að missa meðvitund þegar nærstaddir náðu að losa tak ákærða.
4. Ákærði Karl Kristinn, í kjölfar þeirra atvika sem lýst er í 1. til 3. ákærulið, kastað A niður af svölum 2. hæðar og lenti hann á hellulagðri gangstétt framan við húsið eftir um fjögurra metra fall.
5. Ákærðu X og W sparkað ítrekað í A þar sem hann lá á jörðinni meðvitundarlítill eftir að hafa verið kastað niður af svölunum eins og lýst er í 4. ákærulið.
Afleiðingar líkamsárásarinnar urðu þær að A hlaut nefbrot, opið sár á höfði, sár á fingri, tannbrot, samfallsbrot á lendarlið og sár, mar og bólgur víðsvegar um líkamann.“
Þetta er talið varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Af hálfu A, kt. [...], er þess krafist að ákærðu verið óskipt dæmdir til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 3.208.700 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur frá 1. janúar 2009 þar til liðinn er mánuður frá þeim degi er bótakrafa var kynnt ákærða, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.
Ákærði X krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. Til vara er þess krafist að ákærða verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa og að hún verði skilorðsbundin. Þá er þess krafist að bótakröfu verði vísað frá dómi, ella verði hún lækkuð. Verjandi gerir kröfu um hæfileg málsvarnarlaun.
Ákærði Karl krefst þess að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa hvað varðar 2. ákærulið, en sýknu hvað varðar háttsemi sem lýst er í 4. ákærulið. Ákærði krefst sýknu af bótakröfu. Þá gerir verjandi kröfu um hæfileg málsvarnarlaun sér til handa.
Ákærði Y krefst þess að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa og að hún verði skilorðsbundin. Ákærði krefst aðallega sýknu af bótakröfu en til vara að hún verði lækkuð. Verjandi krefst hæfilegra málsvarnarlauna.
Ákærði Z krefst þess að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa og að hún verði skilorðsbundin. Ákærði krefst aðallega sýknu af bótakröfu en til vara að hún verði lækkuð. Þá gerir verjandi kröfu um hæfileg málsvarnarlaun.
Ákærði W krefst þess að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa hvað varðar 1. ákærulið en sýknu af háttsemi samkvæmt 4. ákærulið. Ákærði mótmælir bótakröfu. Enn fremur gerir verjandi kröfu um hæfileg málsvarnarlaun sér til handa.
I.
Að morgni 1. janúar 2009 kl. 06:10 barst lögreglu tilkynning um líkamsárás að [...] í [...]. Nánar tiltekið hefðu nokkrir menn ráðist á íbúa á 2. hæð, A. Átök hefðu verið á stigagangi og þeim lyktað með því að A hefði verið kastað fram af svölum.
Í frumskýrslu lögreglu, sem staðfest var fyrir dómi, segir að er lögregla kom á vettvang hafi verið blóð á gangstétt framan við húsið og blóðslóð að íbúð A á 2. hæð hússins. Járnrör hefði legið á jörðinni neðan við íbúð hans. Lögreglumenn hefðu bankað upp á hjá A en enginn komið til dyra. Lögreglumaður hefði þá opnað hurðina og séð A liggja á gólfinu inni í íbúðinni, blóðugan í framan, og hann hefði kvartað undan eymslum í fótum og baki. Hann hefði virst vankaður og átt erfitt með að tala og illa skilist það sem hann sagði. Hann hefði greint frá því að nokkrir aðilar hefðu ráðist á sig og barið með bareflum og svo hent sér fram af svölunum, en hann hefði náð að skríða upp í íbúð sína við illan leik. Hann kvað „X“ hafa verið fremstan í flokki en hann búi að [...]. Lögreglumenn fóru þangað og handtóku ákærða X. Enginn sem var gestkomandi þar kvaðst kannast við nein slagsmál. A var fluttur með sjúkrabifreið á sjúkrahús.
Hinn 5. janúar 2009 lagði A fram kæru hjá lögreglu vegna framangreindrar líkamsárásar. Kærandi greindi frá því að hafa verið heima hjá sér á nýársnótt er bankað hafi verið á útidyrahurð á heimili hans á 2. hæð að [...]. Í hurðinni væri gler og högg hefðu dunið á rúðunni. Hann hefði óttast að glerið myndi brotna ef hann opnaði ekki. Hann kvaðst hafa heyrt kallað: „A opnaðu,“ og þekkt rödd X, þ.e. ákærða X. Kærandi hefði opnað en þá hefði „hrúga af mönnum“ ruðst inn með grá rör, en þeir hefðu verið a.m.k. fimm. Hann kvaðst hafa tekið hröð skref aftur inn í íbúðina. Allir mennirnir hefðu slegið til sín með rörinu og í höfuðið. Hann hefði sett hendur yfir höfuð sér og rutt þeim út með því að hlaupa að fyrsta manninum, ákærða X, sem hefði dottið. Við það hefði komið fát á hina mennina og þeir farið út úr íbúðinni. Kærandi kvaðst hafa verið kominn út á útisvalirnar og atlaga verið gerð að honum. Þeir hefðu náð að taka hann hálfa leið niður, en þá hefði ákærði X stungið rörinu í vinstra brjóst hans. Við það högg hefði hann dottið niður og mennirnir sparkað í hann, í bakið, höfuðið, magann, hendurnar og lappirnar. Hann kvaðst ekki hafa tölu á því hversu oft þeir hefðu sparkað í hann þar sem um svo mörg spörk hefði verið að ræða. Mennirnir hefðu snúið upp á hendur hans áður en þeir byrjuðu að sparka og því hafi hann ekki getað varið sig. Hann taldi að einn mannanna hefði haldið um báðar hendur sínar. Eftir spörkin hefðu mennirnir lyft honum upp á hnén með því að taka áfram í hendur hans og snúið upp á hendurnar. Þá hefðu tveir eða þrír menn staðið fyrir framan hann með rör. Einn af þeim hefði verið ákærði X og annar maður sem hefði verið að „hefna fyrir stelpuna“ og sá þriðji verið í „hvítri ódýrri skyrtu“, og ítrekað slegið hann í andlitið með rörunum. Við það hefði hann nefbrotnað, tennur brotnað og hann fengið sár á ennið og hægra eyra. Einn mannanna, sem hefði snúið upp á vinstri hönd hans, hefði fært sig framar til að halda um höfuð hans. Kærandi hefði þá sett út vinstri fót sinn fyrir framan manninn sem hefði síðan hrasað um fótinn og misst takið á hönd hans. Kærandi hefði þá náð að snúa sér út úr taki sem einn mannanna hefði haft á hægri hendi hans. Kærandi hefði þá staðið upp en þá hefði ákærði X rokið að honum, reynt að grípa í hann, rekið upp hnéð og sparkað í pung kæranda. Kærandi hefði þá fallið aftur fyrir sig og misst andann og ekkert getað gert. Í framhaldinu hefði ákærði X kropið niður og gripið um kverkar kæranda sem hefði misst andann. Kærandi hefði verið að lognast út af og verið búinn að missa mátt í útlimunum og séð stjörnur. Sá sem var í „góðu hvítu skyrtunni“ hefði gripið í ákærða X og látið hann hætta þessu, en hann hefði sagt: „Ekki drepa manninn.“ Kærandi sagði að ákærði X og maðurinn sem hefði verið að hefna stúlku, auk þriðja aðila, hefðu tekið um hendur og fætur kæranda, lyft undir rass hans og hent honum fram af svölunum. Það hefði verið ákærði X sem hefði tekið um fætur kæranda, hinn maðurinn undir hendurnar en þriðji aðilinn, sem kærandi kvaðst ekki vita hver væri, hefði lyft undir rassinn á honum. Kærandi kvaðst hafa lent á bakinu á grasinu við stéttina fyrir framan húsið. Kærandi lýsti því að þegar hann hefði legið á grasinu hefðu mennirnir hlaupið að sér og hoppað á maganum á sér og bringu, að hann taldi fjórum sinnum. Kærandi kvaðst hafa verið rænulítill og ekki getað greint hver hefði hoppað á sér. Hann hefði náð að skríða upp tröppurnar og inn í íbúð sína, en nágranni hans, sem hefði séð hann, hefði hringt í neyðarlínuna.
Kærandi sagði að af þeim sem hefðu ráðist á sig þekkti hann aðeins ákærða X. Þá kvaðst kærandi vita að maðurinn sem hefði verið annar höfuðpauranna í málinu væri sá sem þekki stúlku sem kærandi hefði verið sakaður um kynferðisbrot gegn. Sá maður væri um 185-187 cm á hæð, miðlungsþrekinn og í góðu formi, ljóshærður með stutt hár, hann hefði verið í bláum buxum, ljósbrúnum íþróttaskóm og í „hvítri flottri skyrtu“. Þriðji aðilinn hefði verið þybbinn, um 18-20 ára, snoðklipptur, um 165 cm á hæð, í brúnni „Smash“ peysu og í „Stussy“ gallabuxum. Fjórði aðilinn hefði verið hávaxinn, um 185-190 cm á hæð, grannur og renglulegur, ljóshærður og stutthærður, klæddur „ódýrri hvítri skyrtu“ og í svörtum buxum. Kærandi kvaðst hafa kýlt hann einu höggi í andlit með þeim afleiðingum að hann fékk blóðnasir. Fimmti aðilinn væri um 187 cm á hæð, meðalmaður að vexti, dökkhærður, stuttklipptur og hefði verið í bláum gallabuxum og brúnum flauelsjakka.
Kærandi greindi frá því að hann og ákærði X hefðu verið vinir eða þar til kærandi hefði komist að því að ákærði hélt við konu kæranda. Þetta hefði verið fyrir um þremur árum. Á þeim tíma hefði ákærði jafnframt stolið bifreið kæranda og kærandi hefði lagt fram kæru á hendur ákærða vegna þess. Ákærði hefði reiðst því og hótað kæranda öllu illu. Ákærði hefði eftir það verið með leiðindi í garð kæranda. Kærandi kvaðst hafa farið heim til ákærða umrædda nýársnótt í því skyni að fyrirgefa honum að hafa sofið hjá konu sinni. Kærandi hefði tekið utan um ákærða og sagt að hann væri örugglega góður drengur. Ákærði hefði í fyrstu ekki viljað ræða þessi mál og ýtt við kæranda og hann þá farið út. Þeir hefðu ekki skilið í illu en heldur ekki í góðu. Um þremur eða fjórum tímum síðar hefði ákærði komið heim til kæranda ásamt framangreindum mönnum. Kærandi kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis umrædda nótt.
Aðspurður hvað hefði orðið um rörin sem árásaraðilarnir voru með taldi kærandi að þeir hefðu tekið þau með sér. Um það hver hefði slegið hann í ennið svo hringfar myndaðist sagði kærandi að það hefði verið sá sem hefði verið að hefna fyrir meint kynferðisbrot kæranda gegn stúlku. Þá sagði kærandi að margir kæmu til greina hvað varðaði nefbrot sitt. Forsprakkarnir tveir hefðu verið ákærði X og maðurinn sem hefði verið að hefna stúlkunnar. Sá síðarnefndi hefði tekið tilhlaup, um tvö skref, og kýlt sig í nefið og líklega hefði það þá brotnað. Er kærandi var á hnjánum hefðu þrír menn slegið hann með rörunum á eyrað, ákærði X, sá sem var að hefna stúlkunnar og maðurinn í „hvítu ódýru skyrtunni“. Kærandi kvaðst halda að þeir hefðu einnig valdið áverkum hægra megin á höfði hans. Allir mennirnir kæmu til greina hvað varðar áverka á fingri. Tennur hans hefðu brotnað þegar hann var á hnjánum og ákærði X, sá sem var að hefna stúlkunnar og maðurinn í ódýru skyrtunni hefðu lamið hann með rörunum.
Um afleiðingar árásarinnar sagði kærandi að hann væri með samfallinn hrygg við þriðja neðsta hryggjarlið við rófubein, nefbrotinn, sex tennur brotnar sem hann viti um, innvortis meiðsl og rifna nögl á litlaputta hægri handar. Þá væri hann marinn og skorinn víða um líkamann, m.a. bak við hægra eyra. Jafnframt sagði kærandi að hann væri flogaveikur og flogaveikiköst hefðu aukist mikið eftir árásina. Kærandi kvaðst óttast um líf sitt eftir árásina og búa hjá foreldrum sínum þar sem hann þori ekki heim til sín. Hann sofi lítið, fái martraðir og hafi þurft að leita til sálfræðings.
II.
Ákærði X var yfirheyrður hjá lögreglu 1. janúar 2009. Ákærði greindi frá því að A hefði komið umrædda nýársnótt heim til sín og slegið sig. Ákærði hefði svo farið heim til A og A slegið hann aftur og þá með kylfu. Ákærði kvaðst ekki muna hvað hefði gerst eftir það. Þá kvaðst ákærði ekki muna hvort einhverjir hefðu farið með honum heim til A. Ákærði sagði að hann myndi ekkert frá því hann hefði fengið högg í hausinn frá A og fram að því að lögreglan kom og handtók hann. Ákærði neitaði að hafa átt þátt í því að henda A fram af svölunum, en sagði að þeir hefðu slegist framan við íbúð A, á stigapallinum. Fram kom að ákærði er kallaður X.
Í skýrslu sem ákærði X gaf hjá lögreglu, dags. 7. janúar 2009, skýrði hann frá því að hafa farið á dansleik umrædda nótt og svo heim til sín. Hann hefði verið búinn að neyta töluverðs áfengis, um 1 lítra af vodka og nokkurra bjóra. Heima hjá ákærða hefðu verið B, C, D (sic) og meðákærði Z, kallaður Z. Einnig hefði verið fleira fólk þar. A hefði komið og viljað ræða við sig en ákærði ekki viljað það í byrjun. Þeir hefðu svo farið inn í herbergi og lokað að sér. A hefði óskað eftir því að þeir yrðu vinir en ákærði ekki viljað það. A hefði orðið æstur og ákærði þá einnig æst sig. Þetta hefði lyktað þannig að A hefði kýlt ákærða í andlitið, hent honum í gólfið og svo farið heim til sín. Um ástæðu þess að þeir hefðu deilt sagði ákærði að það hefði verið vegna þess að hann hefði eitt sinn tekið bifreið A og klesst hana. Þá hefði A fyrir um tveimur árum ráðist á ákærða með röri og reynt að aka á hann. Aðspurður hvort deilur þeirra hefðu snúist um að ákærði hefði fyrir nokkrum árum haldið við kærustu A sagði ákærði að það væri búið mál og hann skildi ekki hvers vegna A hefði komið til sín og rifjað það upp. Ákærði kvaðst hafa orðið alveg brjálaður eftir að A fór. Ákærði hefði talað við meðákærða Y og sagt að A hefði ráðist á sig og að hann ætlaði yfir til A til að tala við hann og beðið meðákærða að fylgjast með. Ákærði hefði síðan rokið yfir til A til að eiga við hann orð. Ákærði kvaðst ekki vera viss um hverjir hefðu farið með honum til A, en taldi að meðákærði Y hefði komið á eftir sér. Ákærði hefði lamið fast á hurðina hjá A sem hefði rykkt upp hurðinni og barið ákærða í hausinn með einhverju barefli, með þeim afleiðingum að hann hefði fengið sár á ennið. Ákærði hefði þá rokið í A, sem hafi verið að sveifla bareflinu í átt að ákærða, og þeir farið að slást. Slagsmálin hefðu farið fram á stigapallinum, fyrir framan útidyr A.
Þegar ákærði X var beðinn um að lýsa þessum slagsmálum nánar taldi hann sig hafa ýtt A upp að hurðinni þar sem E býr og á sama tíma kýlt frá sér, m.a. hefði hann kýlt A í andlitið með krepptum hnefa. Hann kvaðst ekki vita hversu oft hann hefði kýlt A, en það hefði verið nokkrum sinnum. Þá kvaðst hann ekki muna vel hvað hefði gerst næst, en hann muni næst eftir sér liggjandi á stigapallinum ásamt A. Þeir hefðu þá verið að kýla hvor annan og ákærði verið ofan á A. Meðákærði Y hefði þá dregið ákærða af A og ákærði þá farið ásamt meðákærða niður stigann. Ákærði kvaðst ekki vita hvað hefði svo gerst, annað en það að A hefði hafnað á jörðinni. Ákærði kvaðst ekki vita hver hefði hent A niður af svölunum og ekki muna hverjir hefðu verið þarna. Aðspurður hvernig ákærði hefði brugðist við þegar A hafnaði á jörðinni kvaðst ákærði hafa sparkað um tvisvar sinnum í lappirnar á honum og svo hlaupið heim til sín. Inntur eftir því hvaða áhöld ákærði og meðákærðu hefðu haft með sér kvaðst ákærði ekki hafa verið með slíkt og ekki vita hvort aðrir hefðu verið með áhöld, en það vantaði hins vegar einn borðfót á heimili ákærða. Borin var undir ákærða mynd af borðfæti sem fannst á vettvangi, fyrir utan heimili A, og sagði ákærði að líklega væri um að ræða borðfótinn sem vantaði á heimili sínu. Ákærði kvaðst ekki vita til þess að borðfóturinn hefði verið notaður heima hjá A. Var ákærði þá upplýstur um að brot úr borðfætinum hefði fundist inni á heimili A og gat ákærði ekki gefið skýringu á því þar sem hann hefði aldrei séð hann notaðan heima hjá A.
Um tengsl sín við meðákærðu Y og Z sagði ákærði X að þeir væru góðir vinir, en hann þekki meðákærða Karl ekki vel og meðákærða W lítið. Þeir tveir síðarnefndu hefðu verið heima hjá ákærða umrædda nótt eftir dansleikinn. Aðspurður hver hefði nefbrotið A sagði ákærði að það gæti verið eftir sig þar sem hann hefði kýlt hann nokkrum sinnum í andlitið. Ákærði kvaðst ekki vita hvort það hefði verið hann eða einhver annar sem hefði brotið tennur í A, veitt honum áverka á hægra eyra eða á höfði. Þegar ákærði var beðinn um að lýsa því þegar hann hefði gripið um kverkar A kvaðst hann muna eftir þessu. Þeir hefðu verið uppi á svölunum og A legið á jörðinni. Ákærði hefði gripið um kverkar hans og sagt honum að láta sig í friði. Meðákærði Y hefði þá gripið inn í og dregið ákærða frá og þeir farið niður stigann. Ákærði neitaði sem fyrr að hafa tekið þátt í því að henda A af svölunum. Þá kvaðst hann ekki vita hverjir hefðu hoppað ofan á maga og brjóstkassa A eftir að honum var kastað niður af svölunum. Ákærði kvaðst hafa orðið „skíthræddur“ þegar A var kastað af svölunum og viljað koma sér í burtu.
Í lögregluskýrslu, dags. 9. janúar 2010, kemur fram að ákærði X vildi breyta fyrri framburði sínum og segja hver hefði hent A af svölunum. Það hefði verið meðákærði Karl og hann hefði verið einn að verki. Atvik hefðu verið þau að þegar meðákærði Y hefði dregið ákærða af A hefði meðákærði Karl birst á svölunum, beygt sig niður að A og gripið um mitti hans. Ákærði hefði ekki séð þetta mjög nákvæmlega þar sem meðákærði Karl hefði snúið baki í sig og ákærði verið að labba niður stigann. Ákærði hefði litið í áttina að A og meðákærða Karli og þá hefði A verið að falla yfir handriðið og lent á jörðinni. Ákærði kvaðst ekki muna hverjir fleiri hefðu verið á svölunum. Ákærði sagði að A væri hataður af bæjarbúum í [...] vegna þess að hann hefði nauðgað stúlku þar fyrir um tveimur árum. Stúlkan væri vinkona allra þeirra sem eru ákærðir í málinu. Ákærði sagði að hann hefði ekki greint frá verknaði meðákærða Karls vegna þess að hann óttaðist viðbrögð hans og hefndaraðgerðir.
Við yfirheyrslu hjá lögreglu 11. desember 2009 áréttaði ákærði X m.a. að það hefði verið meðákærði Karl sem fleygði A af svölunum. Þá kvaðst ákærði muna eftir því að hafa sest klofvega á A þegar hann lá á svölunum og tekið um háls hans. Ákærði hefði „misst sig“ af reiði og meðákærði Y togað hann af A. Aðspurður um þátt meðákærða W kvaðst ákærði ekki muna eftir honum á svölunum en þegar A hefði legið á jörðinni, eftir að honum var hent af svölunum, hefði meðákærði W hent sér á A, staðið síðan upp og sparkað í síðuna á honum eða höfuð hans. Ákærði hefði snúið sér við og labbað í burtu, ásamt meðákærða Y að hann minnti. Nánar um það hvernig A hefði verið kastað af svölunum sagði ákærði að meðákærði Karl hefði reist A upp við svalahandriðið, beygt sig niður og gripið um lappir A meðan annar aðili hefði gripið um axlir A. Þeir hefðu sveiflað A yfir svalahandriðið og fram af svölunum. Ákærði kvaðst ekki muna hver hefði verið hinn aðilinn. Ákærði kvaðst hafa verið á svölunum þegar þetta gerðist, við stigaopið. Ákærði neitaði því að hann eða aðrir hefðu tekið með sér borðfætur yfir til A og hann muni ekki til þess að þeir hefðu verið notaðir í árásinni. Ákærði sagði að A hefði tekið á móti þeim með hafnaboltakylfu. Þá sagði ákærði að hann hefði ýtt við A með löppunum eftir að hann féll af svölunum, til að athuga hvort hann væri dauður, en hann hefði ekki sparkað í hann. Ákærða var við yfirheyrsluna kynnt bótakrafa A en hann var ekki reiðubúinn að tjá sig um hana. Ekki er ástæða til að rekja framburð ákærða hjá lögreglu nánar.
Samkvæmt lögregluskýrslu, dags. 9. janúar 2009, greindi ákærði Y frá því að meðákærði X væri gamall félagi sinn. Ákærði kvaðst ekki hafa nein tengsl við A og hann ætti ekkert sökótt við hann. Þá sagði ákærði að hann hefði ekki komið nálægt líkamsárás á A eða verið vitni að henni. Hann hefði farið um klukkan tvö umrædda nýársnótt á dansleik og svo í samkvæmi heima hjá foreldrum vinkonu sinnar. Eftir það hefði hann farið heim til vinkonu sinnar sem búi við hliðina á meðákærða X. Ákærði neitaði því að hafa farið heim til A þessa nýársnótt eða að hafa hitt hann. Ákærði skýrði frá því að hann hefði drukkið um fjóra hálfs lítra bjóra áður en hann fór á dansleikinn og svo hefði hann drukkið meira þar, en hann muni ekki hversu mikið. Hann hefði verið mjög ölvaður. Fram kom að ákærði hefði verið í gráum teinóttum jakkafötum og hvítri skyrtu með gult bindi.
Ákærði Y vildi breyta fyrri framburði sínum er hann var aftur yfirheyrður hjá lögreglu. Hann kvaðst hafa farið eftir dansleikinn heim til meðákærða X. Meðákærði hefði verið brjálaður og sagt sér að A hefði komið skömmu áður og kýlt sig og farið svo heim. Meðákærði hefði beðið ákærða um að fara heim til A, en meðákærði ætlaði að berja hann. Ákærði og meðákærðu X og W hefðu farið heim til A. Þeir hefðu bankað á hurðina og A komið til dyra með dökkgráa kylfu í hendi. A hefði strax byrjað á því að draga meðákærða X inn í íbúðina og „neglt“ í hausinn á honum tvisvar eða þrisvar með kylfunni. Meðákærði X hefði verið mjög ölvaður og ekki getað varið sig. Ákærði hefði staðið fyrir aftan meðákærða X og rifið í hann og dregið út á gang, en A hefði fylgt með og slegið sig í bakið margsinnis með kylfunni. Ákærðu hefðu reynt að taka kylfuna af A og barið hann í leiðinni. Ákærði kvaðst hafa orðið brjálaður og þeir hefðu ýtt A upp að hurðinni á næstu íbúð. Ákærði hefði byrjað að kýla A og hitt hann tvisvar sinnum í andlitið eða höfuðið, en hann viti ekki nákvæmlega hvar höggin hefðu lent. Annað höggið hefði verið með krepptum hnefa en hitt með lófanum. Þá hefði ákærði kýlt A nokkuð oft í síðuna með krepptum hnefa þar sem A hefði haldið honum haustaki. Einnig hefði ákærði kýlt A einu sinni eða tvisvar í magann með krepptum hnefa eftir að haustakinu hefði verið sleppt. A hefði þá verið standandi og sveiflað kylfu í átt að sér. Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa séð hvað meðákærðu X og W hefðu gert við A. Ákærði sagði að þetta hefði verið komið út í rugl og séð að það byrjaði að blæða úr nefi og munni A. Ákærði hafi því ætlað að ganga í burtu. Meðákærði X hefði ekki viljað hætta og rifið A niður, sest á hann klofvega og byrjað að kýla í andlit hans á fullu. Ákærði hefði þá gengið að meðákærða X og beðið hann að hætta og hann þá hætt að kýla A í andlitið og sagt „okei“. Ákærði kvaðst hafa farið heim til meðákærða X ásamt meðákærða W, en meðákærði X hefði orðið eftir með A. Þegar ákærði hefði komið í íbúðina hefði hann hitt meðákærða Karl sem hefði spurt hvað hann hefði verið að gera, en hann hefði verið blóðugur á skyrtunni. Ákærði hefði greint frá því að hafa verið heima hjá A og meðákærði W sagt að þeir hefðu verið að berja A. Meðákærðu Karl og W hefðu svo farið aftur til A, en ákærði hefði hins vegar ekki séð þá fara. Ákærði kvaðst hafa skipt um föt sem hann hefði haft meðferðis. Hann hefði svo farið til vinkonu sinnar sem bjó í næstu íbúð. Svo hefðu þau farið beint út í bifreið hennar og ákærði sagt henni frá því sem hefði gerst heima hjá A. Við bifreiðastæði að [...] hefðu þau séð F og G standa við vegarkantinn og biðja um far. Á leiðinni að [...], þangað sem F og G hefðu verið að fara, hefðu þau sagt frá því að A var hent af svölunum af ákærða Karli. Þá hefði ákærði sagt F og G frá því sem hefði gerst.
Aðspurður hverjir hefðu farið með ákærða Y að heimili A sagði hann að það hefðu verið meðákærði Z, sem er bróðir ákærða, og meðákærðu X og W. Meðákærðu Z og W hefðu farið með ákærða aftur heim til meðákærða X, en sá síðastnefndi hefði orðið eftir hjá A. Þá kvaðst ákærði hafa tekið með sér, ásamt meðákærða X, ljósgráan fót undan borði heima hjá þeim síðarnefnda. Eftir að A hefði byrjað að berja meðákærða X með kylfunni hefði meðákærði Z tekið borðfótinn, en meðákærði X hefði misst borðfótinn þegar A hefði barið hann. Ákærði kvaðst ekki hafa notað borðfótinn á A og ekki séð meðákærða Z gera það, en kvaðst ekki geta útilokað það því hann hefði ekki séð það. Ákærði kvaðst ekki geta sagt hver hefði átt hugmyndina að því að fara með borðfót. Honum hefði verið réttur fóturinn annaðhvort af meðákærða W eða Z. Þetta hefði verið í því skyni að hræða A. Aðspurður hvernig borðfætinum hefði verið beitt í árásinni sagði ákærði að eftir að A hefði verið kýldur upp við hurðina á næstu íbúð hefði meðákærði Z beitt borðfætinum þannig að setja endann á honum í enni A. Ákærði hefði þá tekið borðfótinn og hent honum fram af svölunum. Beðinn um að skýra nánar frá þætti meðákærða Z í árásinni sagði ákærði að meðákærði Z hefði bara beitt borðfætinum. Um þátt meðákærða Karls sagði ákærði að hann hefði heyrt það hjá F og G að hann hefði hent A fram af svölunum. Hvað varðar þátt meðákærða X kvaðst ákærði hafa séð meðákærða setjast klofvega yfir A og margsinnis kýla hann í andlitið. Ákærði kvaðst hafa heyrt það frá meðákærða X að hann hefði tekið A kverkataki með höndunum. Ákærði hefði ekki séð meðákærða X gera meira við A, enda hefði atburðarásin verið hröð og ákærði ekki séð nákvæmlega allt sem fór fram. Ákærði kvaðst ekki geta skýrt frá þætti meðákærða W, en ákærði hefði heyrt það hjá meðákærða Z að meðákærði W hefði kýlt A eftir að honum hafði verið hent upp að hurðinni að næstu íbúð, en hann viti ekki hversu oft eða hvar hann hefði kýlt hann. Ákærði kvaðst ekki vita hver hefði nefbrotið A eða brotið tennur hans, en taldi líklegt að það hefði verið meðákærði X þegar hann sat klofvega yfir honum og kýldi hann margsinnis í andlitið. Þá kvaðst ákærði ekki vita hver hefði veitt A áverka á eyra, en það hefði ekki verið hann sjálfur. Allir ákærðu kæmu til greina hvað varðar áverka á höfði A. Ákærði kvaðst hafa heyrt að meðákærði Karl hefði hent A fram af svölunum og eflaust hefði meðákærði X aðstoðað við það. Einnig sagði ákærði að hann vissi ekki hverjir hefðu hoppað ofan á maga og brjóstkassa A eftir að honum var kastað af svölunum.
Ákærði Y kvaðst sjá mikið eftir þessu og hafa lært af þessu. Hann hefði ekki farið heim til A í þeim tilgangi að beita hann líkamsmeiðingum, heldur til að standa við bakið á meðákærða X sem hefði verið kýldur af A fyrr um nóttina. Þá sagði ákærði að mikil gremja væri á milli meðákærða X og A og væri mikil saga á bak við það.
Ákærði Y var aftur yfirheyrður hjá lögreglu 12. desember 2009 og kynnt bótakrafa A. Hann skýrði m.a. aftur frá aðdraganda þess að hann fór ásamt meðákærðu X, Z og W heim til A. Þá áréttaði hann að meðákærði X hefði setið klofvega yfir A og kýlt hann ítrekað í andlitið og sagt „drepstu, drepstu“, eða eitthvað á þá leið. Þá hefði ákærði heyrt orðróm um að meðákærði Karl hefði hent A fram af svölunum. Einnig hefði ákærði haft með sér borðfót sem var á heimili meðákærða X, en hann hefði ekki ætlað að nota hann sem barefli á A. Hugsanlega hafi annar borðfótur einnig verið tekinn með, en hann muni ekki hvort það hafi verið meðákærði Z eða X sem hefði tekið hann. Ekki er ástæða til að rekja framburð ákærða hjá lögreglu frekar.
Samkvæmt lögregluskýrslu, dags. 9. janúar 2009, viðurkenndi ákærði W við yfirheyrslu hjá lögreglu að hafa átt þátt í árásinni á A. Ákærði kvaðst hafa verið heima hjá meðákærða X í samkvæmi. A hefði komið þangað og farið með meðákærða inn í herbergi. Þeir hefðu heyrst rífast og A svo farið út úr íbúðinni eftir að hafa rætt eitthvað við meðákærða X í forstofunni. Nokkru síðar hefði ákærði farið úr út íbúðinni ásamt meðákærðu Z, Y og X. Ákærði hefði haft með sér úr íbúðinni svert járn eða álrör. Ákærða minnti að meðákærði Y hefði einnig haldið á sams konar röri. Ákærði kvað ástæðu þess að hann fór með meðákærðu vera þá að hann hefði verið mjög reiður A fyrir að hafa nauðgað góðri vinkonu sinni fyrir nokkru síðan. Ákærði kvaðst ekki vita hvers vegna hinir þrír hefðu verið svona reiðir A, en erindi þeirra hefði verið að tukta hann til, án þess að hafa alveg ætlað að ganga frá honum. Þeir hefðu bankað á hurðina hjá A sem hefði komið til dyra. Meðákærðu X og Y hefðu ruðst innt til hans og einhver átök orðið í forstofunni. Átökin hefðu síðan borist út úr íbúðinni og út á svalirnar við útidyrnar. Aðspurður hvort A hefði verið með barefli er hann kom til dyra kvaðst ákærði ekki hafa séð þegar hann opnaði og ekki séð átökin í forstofunni, en hann hefði heyrt frá meðákærða Z að meðákærði Y hefði verið laminn í öxlina með rörinu sem sá síðastnefndi var með þar sem A hefði náð því af honum. Þegar átökin hefðu borist út úr íbúðinni og á svalirnar hefði A alla vega ekki verið með neitt í höndunum. Á svölunum hefðu meðákærði X, Y og Z verið að „hnoðast þarna“ með A þegar meðákærði W hefði reitt rörið til höggs og ætlað að slá A, en hitt í handlegginn á meðákærða X. Ákærði kvaðst ekki hafa séð nákvæmlega hver sló hvern. Ákærði sagði að hann hefði blandað sér í átökin og slegið A sex föstum höggum með krepptum hnefa í vinstri síðuna. Þeir hefðu ýtt A upp að hurð og meðákærði X gengið harðast í því að þjarma að A. Meðákærði X hefði kýlt A með krepptum hnefa, en ákærði kvaðst ekki muna hvort höggin hefðu lent í andliti A. Meðákærðu Z og Y hefðu síðan farið og meðákærði X náð að fella A niður og setjast ofan á hann og ætlað að kyrkja hann. Hann hefði hert að hálsi A með báðum höndum. Ákærði hafi þá verið að fara þarna frá þeim en snúið við og tekið í hendur meðákærða X og stöðvað hann í að herða að hálsi A. A hafi farið að hósta er hann náði andanum aftur. Ákærði kvaðst hafa séð að það fossblæddi úr nefi meðákærða X og meðákærði W fengið blóð á sig annaðhvort frá meðákærða X eða A en það hefði blætt úr honum. Ákærða hefði þótt nóg komið og látið meðákærða X standa upp af A sem hefði legið þarna. Ákærði hefði síðan farið niður stigann og skilið meðákærða X eftir með A. Á leið sinni niður stigann hefði ákærði mætt meðákærða Karli sem hefði farið upp á svalirnar þar sem meðákærðu X og A voru. Neðar í stiganum hefði ákærði hitt H, bróður meðákærða Karls, og strák sem sé kallaður I. Ákærði hefði reynt að stöðva H en það ekki tekist. Ákærði hefði hins vegar náð að stöðva I og þeir farið niður stigann. Ákærði kvaðst hafa gengið meðfram húsinu og séð A liggja á jörðinni. Ákærði hefði hraðað sér fram hjá A og farið inn í íbúð meðákærða X og meðákærði Y hafi verið kominn þangað. Nokkru síðar hefði meðákærði X komið og meðákærðu Z og Karl. Aðspurður hvernig stæði á því að A hefði fallið af svölunum kvaðst ákærði telja að meðákærði X og Karl hefðu hent honum niður. Ákærði greindi frá því að umrædda nótt hefði hann verið í hvítri smókingskyrtu, svörtum buxum og svörtum skóm.
Ákærði W var aftur yfirheyrður hjá lögreglu 11. desember 2009 og kynnt bótakrafa A. Hann greindi sem fyrr frá aðdraganda árásarinnar og skýrði m.a. frá því að eftir að átök byrjuðu í anddyrinu í íbúð A hafi A náð borðfæti af meðákærða X eftir að sá síðarnefndi hefði reynt að berja A með honum. A hefði reynt að berja frá sér með borðfætinum og lamið meðákærða Y í öxlina sem hefði náð borðfætinum af A og hent honum fram af svölunum. Þá hefði meðákærði Z haldið á borðfæti og látið endann á honum í enni A. Í framhaldi þess hefði meðákærði Y tekið borðfótinn af honum og fleygt fram af svölunum. Ákærði og meðákærði X hefðu haldið A upp við hurð nágranna. A hefði svo verið felldur í svalagólfið og meðákærði X sest ofan á hann, gripið um háls hans með báðum höndum og hert að. Ákærði hefði sagt meðákærða að hætta þessu og tekið hendur hans af hálsi A, en þá hafi A verið byrjaður að blána í framan og verið rænulítill. Þá sagði ákærði að það rifjaðist upp fyrir honum að meðákærði X hefði sparkað í pung A. Aðspurður sagði hann að ákærðu hefðu farið heim til A til þess að ráðast á hann. Ákærði kvaðst aldrei hafa séð A fyrr en umrætt kvöld en ákærða hefði verið sagt frá meintri nauðgun A og langað til að hefna fyrir hana. Heima hjá meðákærða X hefðu ákærði, meðákærði Z og Y rætt saman um að fara yfir til A og berja hann. Meðákærði X hefði verið snarbrjálaður og sagt að hann ætlaði yfir til A til að drepa hann. Ákærði neitaði því að hafa átt þátt í að kasta A af svölunum og sagði að hann hefði þá verið farinn niður af svölunum. Þá neitaði ákærði því að hafa sparkað í A er hann lá á jörðinni. Ekki er ástæða til að rekja framburð hans hjá lögreglu nánar.
Í lögregluskýrslu sem tekin var af ákærða Z, dags. 12. janúar 2009, kvaðst ákærði hafa verið heima hjá meðákærða X umrædda nýársnótt og A komið þangað með læti og vesen. Þetta hefði verið um klukkan fjögur. A og meðákærði X hefðu byrjað að rífast og farið inn í herbergi og verið þar í um 10-15 mínútur. Þegar þeir hefðu komið út úr herberginu hafi A beðið meðákærða X að ræða við sig úti og þeir gert það. Þegar meðákærði X hefði komið aftur inn hafi hann greinilega verið pirraður. Stuttu síðar hefði meðákærði X rokið af stað í áttina að íbúð A. Ákærði og meðákærðu Y og W hefðu rokið á eftir honum því þá hefði grunað að hann ætlaði að berja A. Þá hefðu þeir ætlað að sjá til þess að meðákærði X yrði ekki aftur barinn af A. Er þeir hefðu komið að íbúð A hafi meðákærði X bankað á hurðina og A komið til dyra og sagt að þeir væru klikkaðir. A hefði þá lamið meðákærða X í ennið með kylfu. Ákærði kvaðst ekki vita hvort A hefði sjálfur verið með kylfu eða hvort hann hefði tekið rörið sem meðákærði X var með, nánar tiltekið gráan borðfót. Ákærði kvaðst aðeins hafa séð A berja meðákærða X einu sinni í ennið. Meðákærðu X og Y hefðu rifið A út úr íbúðinni og byrjað að kýla hann í andlitið, síðuna og bringuna, en A hafi þá verið upp við íbúð nágranna. Þetta hefði verið með krepptum hnefa, en ákærði kvaðst ekki vita hversu oft þeir hefðu kýlt A. Meðan á þessu stóð hefði A náð taki á hettunni á peysu ákærða. Þá hefði A veitt ákærða hnéspark í andlitið og meðákærði þá kýlt A í andlitið með opnum lófa. Ákærði hefði þá reitt kylfuna til höggs og ætlað að berja A með kylfunni, en meðákærði Y tekið kylfuna af honum og hent henni fram af svölunum og sagt að þetta væri orðið gott og dregið ákærða í burtu. Ákærði og meðákærðu Y og W hefðu þá farið í íbúð meðákærða X þar sem þeir hefðu hitt meðákærða Karl. Ákærði hefði svo farið ásamt meðákærðu Karli og W aftur að íbúð A til að ná í meðákærða X, en meðákærði Y hefði orðið eftir og ekki nennt þessu lengur. Þegar þeir hefðu komið að íbúð A hefði hann legið á jörðinni og meðákærði X legið klofvega á honum og verið að kyrkja hann með báðum og höndum og sagt: „Ætlar þú ekki að deyja.“ Ákærði og meðákærði W hefðu þá dregið meðákærða X af A. Ákærði og meðákærði W hefðu dregið meðákærða X heim til sín, en A hefði þá legið á jörðinni fyrir utan íbúð sína.
Þegar þeir hefðu komið aftur heim til meðákærða X hefði verið þar fullt af fólki, en meðákærðu Y, W og Karl verið horfnir á braut. Aðspurður hvaða áhöld þeir hefðu haft með sér sagði ákærði Z að meðákærði X og Y hefðu verið með sitt hvorn borðfótinn sem voru geymdir undir sófa heima hjá meðákærða X. Um það hver hefði átt hugmyndina að því að taka borðfæturna sagði ákærði að það hefði eflaust verið meðákærði X. Inntur eftir ástæðu þess að þeir voru með borðfæturna sagði ákærði að sig grunaði að meðákærði X hafi ætlað að berja A með þeim. Ákærði kvaðst ekki vita hvernig borðfætinum hefði verið beitt á vettvangi. Hann neitaði því að hafa rekið borðfótinn í enni A. Bróðir hans, meðákærði Y, hefði tekið borðfótinn af honum áður en til þess kom. Jafnframt sagði ákærði að 11 dagar væru liðnir frá árásinni og það gæti verið að hann muni atvik ekki nákvæmlega og það gæti verið að hann hefði gert þetta. Ákærði greindi frá því að allir ákærðu hefðu verið reiðir út í A fyrir að hafa nauðgað stúlku. Einnig hefði A barið meðákærða X.
Þegar ákærði Z var beðinn um að lýsa atvikum nánar þegar þeir fóru aftur að íbúð A kvaðst ákærði hafa farið ásamt meðákærðu W og Karli yfir til A og þá hafi meðákærði X setið klofvega á honum. Ákærði og meðákærði W hefðu dregið meðákærða X af A og farið með hann heim til sín. Meðákærði Karl, H og I hefðu orðið eftir á svölunum hjá A. Ákærða var kynnt við yfirheyrslu lögreglu að þessi framburður hans stemmdi ekki við framburð meðákærða X. Í lögregluskýrslunni segir að ákærði hafi þá sagt að hann viti að hann geti logið að lögreglunni en það eina sem skipti máli sé hvað hann segi í dómsalnum. Var ákærði þá spurður hvort hann myndi koma með annan framburð fyrir dómi og kvaðst hann vita hvernig þetta gengi fyrir sig og hann gæti þá sagt aðra hluti. Það gæti vel verið að hann hefði tekið þátt í að henda A fram af svölunum án þess að hann muni það, en hann muni yfirleitt ekki hvernig hlutirnir gangi fyrir sig er hann lendi í slagsmálum. Aðspurður kvaðst hann hafa lent nokkrum sinnum í slagsmálum á undanförnum árum.
Nánar inntur eftir því hver hafi verið þáttur meðákærða X sagði ákærði Z að hann hefði farið inn í íbúð A og fengið rör í hausinn frá A. Meðákærði X hefði kýlt A oft í síðuna og andlitið með krepptum hnefa, en þá hafi A verið upp við íbúð nágranna. Þá áréttaði ákærði að meðákærði hefði reynt að kyrkja A. Ákærði kvaðst ekki muna þátt meðákærða Karls, en hann hefði ekki séð hann taka þátt í árásinni. Um þátt meðákærða Y sagði ákærði að hann hefði kýlt A í síðuna með krepptum hnefa, fyrir utan íbúð nágrannans, og einu sinni í andlitið með opnum lófa. Meðákærði W hefði kýlt A 4-5 sinnum í síðuna með krepptum hnefa, þungum höggum. Ákærði sagði að það gæti verið að hann sjálfur hefði slegið A með rörinu einu sinni eða tvisvar sinnum. Það hefði verið í ennið því hann hefði miðað á það. Ákærði kvaðst ekki hafa snert A að öðru leyti. Ákærði kvaðst ekki vita hver hefði nefbrotið A, brotið tennur hans, veitt honum áverka á hægra eyra eða höfði, eða sparkað í klof hans. Ákærði kvaðst ekki muna hver hefði hent A yfir svalahandriðið, en hann hefði verið í „blackouti“ vegna áfengisneyslu. Hann hefði drukkið a.m.k. hálfan pela af „Hot and sweet“, 3-4 skot af „Gajol“, 4-5 bjóra á dansleik og eitthvað fyrir það. Ákærði neitaði því að hafa sparkað í A þegar hann lá á jörðinni, eftir að honum var kastað af svölunum. Ákærði sagði að honum hefði þótt árásin nógu langt gengin þegar meðákærði X hefði tekið A kverkataki.
Ákærði Z gaf aftur skýrslu hjá lögreglu 9. desember 2009 og var honum kynnt bótakrafa A. Ákærði skýrði m.a. frá því að hann og meðákærði Y hefðu tekið með sér borðfætur sem voru á heimili meðákærða X og það gæti verið að sá síðarnefndi hefði einnig tekið með sér borðfót. Þeir hefðu ætlað að verjast með þeim ef A kæmi til dyra með barefli. Þeir hefðu farið fjórir yfir til A, þ.e. ákærði og meðákærðu X, W og Y. A hefði komið til dyra vopnaður einhvers konar kylfu og lamið meðákærða X í hausinn með kylfunni. Ákærði lýsti því svo hvernig komið hefði til átaka og m.a. hefði meðákærði X setið klofvega yfir A á svölunum og öskrað „drepstu“ og „aumingi“. Á þeim tímapunkti hefði ákærði farið í burtu og í íbúð meðákærða X, en bróðir ákærða, meðákærði Y, hefði dregið hann í burtu og sagt að þeir ættu ekki að koma meira nálægt þessu. Í íbúð meðákærða X hefðu þeir hitt meðákærða Karl sem hefði rokið heim til A. Ákærði sagði að meðákærði W hefði ekki farið með sér og meðákærða Y aftur í íbúð meðákærða X. Nánar inntur eftir atvikum sagði ákærði að A hefði sjálfur komið út úr íbúðinni en hlutirnir æxlast þannig að meðákærðu Y og X hefðu haldið höndunum á A. Það hefðu fjórir ráðist á A á svölunum og erfitt væri að lýsa því hver gerði nákvæmlega hvað. Aðspurður sagði ákærði að það væri rétt að hann hefði afhent meðákærða Y borðfót heima hjá meðákærða X. Aðspurður sagði ákærði að það gæti verið að A hefði ekki komið til dyra með barefli heldur náð borðfæti af ákærðu, en ákærði hefði ekki séð inn í anddyrið. Ákærði kvaðst hafa tekið einn borðfót með sér aftur í íbúð meðákærða X og ákærði hefði verið farinn þegar A var kastað af svölunum. Ákærði neitaði sem fyrr að hafa sparkað í A þegar hann lá á jörðinni. Ekki er efni til að rekja framburð ákærða hjá lögreglu nánar.
Ákærði Karl Kristinn Þórsson var yfirheyrður hjá lögreglu. Fram kemur í lögregluskýrslu, dags. 12. janúar 2009, að hann hefði skýrt frá því að hafa verið heima hjá sér ásamt H, bróður sínum, þegar það hefði verið hringt í H og sagt að það væri verið að berja J við [...]. Ákærði hefði farið að húsinu og upp á svalirnar hjá íbúð A, en þar hefðu verið X, Y, Z, L, W og J. Allir þessir strákar hefðu verið að berja A og verið í hrúgu á honum. A hefði verið á fjórum fótum og meðákærði X haft sig mest í frammi við að berja A. Ákærði kvaðst ekki geta sagt til um það hvernig meðákærði X hefði lamið A en rámaði í að hann hefði haldið um háls A og hert að. Ákærða minnti að meðákærði Y hefði sagt: „Er þetta ekki komið nóg?“ Meðákærði X hefði þá hætt þessu og þeir allir gengið í burtu og yfir í íbúð meðákærða X. Ákærði kvaðst hafa tekið þátt í barsmíðunum, en kýlt A einu sinni eða tvisvar í magann. Ákærði sagði að hann hefði verið þarna í um fimm mínútur. Aðspurður hvaða áhöld hefðu verið notuð í árásinni sagði ákærði að hann hefði ekki orðið var við slíkt. Þá kvaðst ákærði ekki vita hver hefði hent A fram af svölunum, en hann hefði líklega verið farinn þá. Aðspurður hvort A hefði reynt að verjast árásinni sagði ákærði að hann hefði ekki gert það, líklega vegna þess að það voru svo margir á honum. Ákærða var kynnt að samkvæmt framburði annarra í málinu skýrði hann ekki rétt frá atvikum, en ákærði kvaðst ekki vilja breyta framburði sínum. Aðspurður hvort hann hefði séð rör á vettvangi sagði ákærði að hann hefði ekki gert það, en meðákærði Z hefði sagt sér að A hefði verið laminn í klessu, m.a. með rörum. Hann hefði verið laminn í andlitið og bakið með rörum. Ákærða var greint frá því að samkvæmt framburði meðákærðu hefði ákærði hent A fram af svölunum og sagði ákærði að það væri rangt. Aðspurður kvaðst ákærði hafa verið klæddur hvítri skyrtu, dökkum buxum og spariskóm.
Ákærði Karl var aftur yfirheyrður hjá lögreglu 23. desember 2009 og honum kynnt bótakrafa A. Hann greindi frá því að er hann kom á svalirnar á 2. hæð við heimili A hafi meðákærðu X, Z og W verið að berja A. Fleiri hefðu ekki verið að berja hann, en fleira fólk hefði verið þarna í kring. Ákærði kvaðst hafa blandað sér í slagsmálin með því að kýla A einu sinni í magann en svo hefðu þeir allir farið í burtu. Ákærði kvaðst ekki hafa séð neinum áhöldum beitt. Um ástæðu þess að ákærði hefði kýlt A sagði ákærði að hann væri fífl og hann hefði verið að hefna atviks þegar A hafi verið að leita meðákærða X og farið heim til tiltekins fólks með „stuðbyssu“. Ákærði neitaði því að hafa verið á svölunum er A var hent fram af þeim. Hann kvaðst ekkert hafa farið heim til meðákærða X.
K, íbúi að [...], gaf skýrslu hjá lögreglu 7. janúar 2009. Hún greindi frá því að hafa vaknað á nýársnótt um klukkan fimm eða sex við hávaða fyrir utan svefnherbergi sitt, eins og einhverjum hefði verið ýtt upp við gluggann sem snýr út að útistigaganginum. Þegar hún hefði litið út um gluggann hefði hún séð þrjá menn berja A, en hann býr við hliðina á henni. Þeir hefðu kýlt hann, ýtt í hann og sparkað. Hún kvaðst ekki hafa séð framan í árásarmennina. A hefði beðið þá um að hætta en árásarmennirnir engu svarað. Þá kvaðst hún hafa heyrt hávaða, líkt og einhverjum hefði verið ýtt yfir svalahandriðið. Svo hefði hún farið fram í útidyrnar og séð A liggja á jörðinni og þrjá stráka sparka í hann. Hún sagði að ákærðu Z og Karl hefðu sparkað í höfuð og bak hans, en hún vissi ekki hver þriðji maðurinn var. Einnig sagði hún að ákærði Z hefði haldið á einhverri hvítri kylfu, um 40 cm á lengd. Að lokum hefði einhver mannanna sagt: „Hættum þessu núna,“ og gengið í áttina að [...]. A hefði reynt að standa upp og svo skriðið upp stigann að íbúð sinni. Hún kvaðst ekki hafa þorað að hjálpa honum. Fram kom að „J“ hefði einnig verið á vettvangi, en hann hefði ekki ráðist á A.
L gaf skýrslu hjá lögreglu 9. janúar 2009. Hann skýrði frá því að hafa komið í samkvæmi hjá ákærða X umrædda nýársnótt á sama tíma og lögreglan hafi ekið inn hlaðið að [...]. Vitnið hefði ekki vitað hvað væri í gangi, en hann hefði heyrt að A hefði verið laminn. Vitnið sagði að ákærði X hefði öskrað að hann hefði farið yfir til A ásamt ákærðu W og Z og að A hefði lamið ákærða X í höfuðið með kylfu. Vitnið kvaðst ekki hafa heyrt meira þarna um mál þetta og farið heim til sín eftir að lögreglan kom á staðinn. Daginn eftir hefði vitnið farið að spyrjast fyrir um hvað hefði gerst og fengið þær upplýsingar að ákærði X hefði farið ásamt ákærðu W og Z og lamið A í klessu. Vitnið hefði einnig heyrt að ákærði Karl hefði farið yfir til A, en vitnið kvaðst ekki vita hvort hann hefði farið á sama tíma og hinir. Þá kvaðst vitnið hafa heyrt að ákærði Karl hefði fleygt A af svölunum. Nánar tiltekið hefði A staðið við svalahandriðið og ákærði Karl tekið í lappir A og hent honum yfir handriðið. Þá hefði vitnið heyrt að ákærði W hefði sparkað í höfuð A þar sem hann lá á jörðinni eftir fallið. Vitnið minnti að ákærði W hefði sagt vitninu þetta sjálfur W á eftir. Þá hefði ákærði X sagt vitninu að þegar hann hefði bankað upp á hjá A hefði sá síðarnefndi opnað og barið ákærða í höfuðið með kylfu og þeir lent í slagsmálum. Ákærðu W og Z hefðu komið ákærða til hjálpar og þeir barið A í klessu. Vitnið kvaðst ekki hafa heyrt að neinar kylfur hefðu verið notaðar í árásinni nema kylfa A. Enn fremur sagði vitnið að ákærði X hefði sagt sér að hann hefði setið ofan á A og reynt að kyrkja hann.
I var yfirheyrður hjá lögreglu 12. janúar 2009 og skýrði frá því að hafa verið heima hjá ákærða X umrædda nótt. Hann hefði farið ásamt ákærða Z og M að húsinu þar sem A býr. Þar hefði hann séð A liggja á bakinu á svölunum á 2. hæð og ákærði X legið klofvega á A og verið að kyrkja hann, en hann hefði haldið með báðum höndum um háls A. Hjá þeim hefði staðið ákærði Z, M og ákærði W. I kvaðst hafa verið á leiðinni upp stigann ásamt H til að stöðva þetta en þá hefði ákærði W dregið þá niður og sagt þeim að fara. Þegar I hefði komið niður á 1. hæð hefði hann séð A liggja niðri á jörðinni á maganum. Hann kvaðst hafa labbað í burtu með H og þeir farið upp í bíl og ekið í burtu. Aðspurður hver hefði reynt að stöðva ákærða X við að kyrkja A sagði hann að ákærði W hefði reynt að draga hann í burtu en það ekki tekist. A hefði ekki streist á móti þegar ákærði X reyndi að kyrkja hann. Hann kvaðst ekki vita hvort ákærði Karl hefði verið á 2. hæðinni. Þá kvaðst hann hafa verið allsgáður umrædda nótt en hann neyti ekki áfengis.
H, bróðir ákærða Karls, var yfirheyrður hjá lögreglu 12. janúar 2009. Hann lýsti því að þegar hann hafi verið heima hjá bróður sínum hefði hann fengið símhringingu frá I um „spennu“ milli J og ákærða X. I hefði sótt þá og keyrt þá heim til ákærða X að [...]. Fyrir framan heimili ákærða X hefðu þrír strákar komið til þeirra og einn þeirra haldið á kylfu og hent henni frá sér. Þetta hefðu verið ákærðu Z og W, en hann muni ekki hver þriðji maðurinn var. Það hefði verið ákærði Z sem hélt á kylfunni. Þeir hefðu sagt að A væri hinum megin og þeir þá farið að heimili A. Ásgeir kvaðst hafa séð 3-4 menn lemja A. H og J hefðu verið niðri en fullt af fólki verið uppi á svölunum hjá A, þ. á m. ákærði Karl sem hefði tekið þátt í slagsmálum og hann tekið ákærða X af A og kýlt hann eftir að hafa reist hann á lappirnar. A hefði hrokkið frá ákærða Karli eftir höggið. Þá hefði A staðið við handriðið og nokkrir menn verið í kringum hann þegar einhver, sem hann viti ekki hver er, hafi kýlt A og hann fallið yfir handriðið og niður á jörðina. H sagði að A hefði ekki verið hent fram af svölunum og hann kvaðst ekki hafa séð neinn sparka í A þar sem hann lá. H kvaðst ekki hafa verið drukkinn umrædda nótt. Þá kvaðst hann hafa farið eftir þetta ásamt ákærða Karli heim til sín. Aðspurður neitaði hann því að hafa verið uppi á svölunum þegar A féll af þeim. Hann hefði farið upp á millipallinn í stiganum að íbúð A en farið til baka eftir að hafa mætt ákærða W sem hefði sagt að það væru nógu margir í stiganum. Inntur eftir því hverjir hefðu verið á svölunum og barið A sagði hann að ákærði X hefði verið ofan á A og annar verið að berja hann, sem hann hefði ekki séð hver var, og ákærðu Z og W hefðu farið upp og barið á A líka. Hann kvaðst ekki hafa séð nein barefli. Hann neitaði því að bróðir sinn, ákærði Karl, hefði fleygt A fram af svölunum.
Fyrir liggja lögregluskýrslur vegna samtala lögreglu við íbúa að [...] og 3. Þá ræddi lögreglan við F, G og M. Einnig gáfu fjögur nafnlaus vitni skýrslu hjá lögreglu og J. Enginn þessara aðila var kvaddur fyrir dóm og er því ekki ástæða til að rekja sérstaklega framburð þeirra hjá lögreglu.
III.
Í málinu hafa verið lögð fram fjölmörg gögn, s.s. ljósmyndir og niðurstöður rannsókna lögreglu. Svalirnar á 2. hæð að [...] eru 133 cm á breidd. Svalahandriðið er 118 cm á hæð og er úr járnrimlum. Frá efri brún handriðsins og niður á jörðina eru 4 m. Á vettvangi, fyrir utan [...], fannst grár borðfótur, 61,4 cm að lengd og 5 cm í þvermál og 759,18 g að þyngd. Við húsleit á heimili ákærða X 8. janúar 2009 fundust þrír sams konar borðfætur, gráir úr málmi, undir sófa í stofunni. Þeir voru á bilinu 65,4 til 70,9 cm að lengd, en hæð þeirra er stillanleg. Þá voru þeir 5 cm í þvermál og um 837-904 g. Á einum þeirra voru blóðblettir og á öðrum fundust fingraför ákærða Z. Sá borðfótur var brotinn neðst. Rannsókn á blóðinu leiddi í ljós að um var að ræða blóð úr A.
Við rannsókn lögreglu á vettvangi inni á heimili A fundust brot af einum borðfætinum. Þá fannst á heimilinu kylfa úr plaströri sem skrúfum hafði verið skrúfað í og þannig búin til gaddakylfa.
Tæknideild lögreglunnar rannsakaði fatnað sem ákærðu voru í umrætt sinn, m.a. hvíta skyrtu sem ákærði Y var í og reyndust vera á henni 60 blóðblettir.
IV.
Í vottorði N, sérfræðings á slysa- og bráðadeild Landspítala í Fossvogi, dags. 3. febrúar 2010, segir að A Júlíus Jónasson kom á slysa- og bráðadeild 1. janúar 2009 kl. 07:18. Þar segir að hann hafi verið með sár hægra megin á höfði og greinileg merki um áverka á hægra auga. Verulega mikil bólga hafi verið á kinnbeini hægra megin og einnig yfir gagnauganu. Augað hafi virst nokkuð innfallið, en erfitt væri að meta það. Þá hefði hann verið með blóðnasir og blóð á vörum, sem hefði verið storknað. Ekki hefðu verið klár þreifieymsli á hálsi. Við „thoracal“ skoðun hefði hann verið með þreifieymsli vinstra megin í „thorax“ og eymsli vinstra megin ofarlega um miðjan kvið. Þá hefði hann verið með sár á brjóstkassa vinstra megin, um 3x2 cm. Á hægri síðu hefði verið hruflsár, 1x5 cm að stærð. Mar þar fyrir neðan hefði verið um 2x2 cm. Mikil þreifieymsli hefðu verið þarna yfir síðunni og væri ekki útilokað að frekara mar myndi koma fram. Vinstra megin „ant og lat á thorax“ væri hrufl, um 2x10 cm. Mikil eymsli hefðu verið þarna yfir. „Temporalt“ hægra megin á höfði væri rúmlega 1 cm langur skurður. Á bak við hægra eyra væri nokkuð langur skurður, eða um 6 cm. Sjúklingurinn væri mjög aumur og verkjaði í bakið við þreifingu og ætti mjög erfitt með allar hreyfingar. Á litla fingur hægri handar vantaði nögl og um ferskan áverka væri að ræða. Teknar voru tölvusneiðmyndir af höfði og hálshrygg þar sem fram kom hugsanlegt nefbrot. Einnig var tekin mynd af brjóst- og kviðarholi sem sýndi „lítið samfallsbrot í L1, undir 20% compression“ og „afturkantur“ væri heill. Greining var nefbrot, opið sár á höfði (hluti ótilgreindur), brot á lendarlið og opið sár á fingri með skaða á nögl. Þá segir í vottorðinu að A hafi verið „mjög verkjaður“ í bakinu og verið kaldur og blautur. Líkamshiti hans hefði mælst 38,6°C og hækkað stuttu síðar í 39°C. Hann hefði því verið lagður inn til eftirlits og verkjastillingar. Daginn eftir hafi hann verið útskrifaður og fengið hjólastól að láni. Þá segir í vottorðinu að A hafi komið á göngudeild háls-, nef- og eyrnadeildar 5. janúar 2009 og verið skoðaður af O sérfræðingi. Tekin var ný sneiðmynd af andlitsbeinum sem sýndi nefbrot. Sérfræðingurinn og P sérfræðingur skoðuðu A og töldu þau að um væri að ræða gamalt brot.
Í vottorði Q tannlæknis, dags. 10. júlí 2009, segir að A hefði komið til tannlæknisins 8. janúar 2009. Hann hefði verið aumur og átt erfitt með að opna munninn og því hefði skoðun og viðgerðir dregist. Kostnaður vegna skoðunar, myndatöku og viðgerða væri samtals 68.700 krónur. Þá segir í vottorðinu að fjórar tennur væru mjög viðkvæmar og líklega þurfi að rótfylla þær á næstu mánuðum og hver rótfylling kostaði um 35.000 krónur, samtals 140.000 krónur. Samtals væri því um að ræða kostnað að fjárhæð 208.700 krónur. Í öðru vottorði tannlæknisins, dags. 11. ágúst 2009, er tannáverkum nánar lýst þannig að sjáanlegir áverkar hafi ekki verið miklir, en þó brotið upp úr hornum þriggja framtanna og brotnar fyllingar/tennur í fjórum tilfellum. Þá segir að afleiðingar áverka sem ekki væru sýnilegir gætu komið í ljós síðar meir og valdið drepi í taugum tanna sem þurfi að laga með rótarfyllingum.
V.
Verður nú rakinn framburður ákærðu og vitna fyrir dómi.
Ákærði X viðurkenndi að hafa veist að A í anddyri íbúðar hans á 2. hæð að [...] og slegið hann ítrekað í höfuð og víðs vegar um líkamann með krepptum hnefum, en neitaði því að hafa notað borðfót. Þá játaði hann að hafa, eftir að A féll í gólfið, slegið hann ítrekað með krepptum hnefa í andlit. Ákærði neitaði því að hafa tekið hann kverkataki og því að hafa sparkað í hann eftir að honum var kastað af svölunum. Ákærði sagði að aðdragandi málsins væri sá að A hefði komið til sín umrædda nýársnótt og viljað ræða við sig. Ákærði hefði neitað því en þeir hefðu svo farið inn í herbergi til ákærða. Þar hefðu samræður þeirra „hitnað aðeins“ og A kýlt sig og hent sér í gólfið, en hann hefði ekki hlotið áverka. A hefði svo farið og ákærði farið nokkrum mínútum síðar yfir til A. Ákærði kvaðst hafa talað við vin sinn, meðákærða Y, um að koma með „ef það færi illa“, þ.e. ef A skyldi ráðast á ákærða aftur. Meðákærði Y hefði komið á eftir honum. Inntur eftir því hvort fleiri hefðu farið með ákærða sagði hann nei. Ákærði sagði að það væri mikil saga á milli sín og A og hann hefði ætlað að reyna að binda enda á það. Ákærði sagði að hann hefði verið töluvert reiður þegar hann fór heim til A. Ákærði kvaðst hafa lamið á hurðina og A komið til dyra og slegið ákærða í hausinn með kylfu. Aðspurður hvar meðákærði Y hafi þá verið sagði hann að hann hafi verið á leið upp stigann. Eftir að ákærði hafi verið laminn í hausinn hefðu þeir dregist inn á ganginn hjá A og ákærði svo verið dreginn út af meðákærða Y. Þá hefðu slagsmál byrjað. Þeir hefðu endað á hurðinni á næstu íbúð og slegist þar. Ákærði hélt að á þessum tímapunkti hefðu ekki aðrir en meðákærði Y verið með sér. Ákærði kvaðst hafa kýlt í átt að A þegar A hefði kýlt í átt að sér. Ákærði taldi að meðákærði Y hefði kannski kýlt A einu sinni eða tvisvar. Þeir hefðu svo verið á svalagólfinu, eftir að ákærði hefði dregið A niður, og þá hefði ákærði staðið yfir A og hrist hann eitthvað með því að taka í axlir hans, en hann hefði ekki tekið í háls hans. Ákærði hefði svo verið dreginn af honum af meðákærða Y að hann hélt. Í framhaldi af þessu hefði meðákærði Karl hent A niður af svölunum með því að taka undir hendur hans og henda honum niður. Ákærði kvaðst hafa ýtt við fótum A þar sem hann lá á jörðinni eftir að honum var hent af svölunum. Ákærði kvaðst hafa haft áhyggjur af ástandi A. Hann hefði gefið frá sér hljóð, eins og hann ætti erfitt með andardrátt. Aðspurður sagði ákærði að hann hefði ekki kallað eftir aðstoð. Ákærði kvaðst ekki geta sagt til um hvenær meðákærðu Karl, W og Y hefðu komið á vettvang, en taldi að meðákærði Y hefði ekki verið þar þegar A var hent niður af svölunum. Ákærði kvaðst ekki hafa tekið eftir öðrum þarna. Aðspurður sagði ákærði að meðákærði W hefði hoppað ofan á A og sparkað í höfuð hans eftir að honum var hent af svölunum, en ákærði hefði þá verið að labba í burtu. Ákærði sagði að umrædd nótt væri óljós í minni sér en hann hefði verið ölvaður og hann hefði fengið höfuðhögg. Ákærði neitaði því að hafa verið með barefli og kannaðist ekki við að meðákærðu hefðu verið með barefli. Borið var undir ákærða að borðfætur fundust á vettvangi og kvaðst ákærði ekki geta sagt hver hefði komið með þá.
Ákærði skýrði frá því að hann og A hefðu verið vinir. Ákærði kvaðst hafa verið með kærustu A um tíma og A komist að því. Þá sagði ákærði að A hefði eitt sinn reynt að aka á sig og ráðist á sig með röri. Einnig hefði A haldið því fram við lögreglu að ákærði hefði rústað íbúð A, en hann hefði gert það sjálfur. Ákærði sagði jafnframt að honum hefðu borist hótanir og hann verið ranglega sakaður um að rispa bíl.
Borinn var undir ákærða framburður hans í lögregluskýrslu, dags. 7. janúar, um að hann muni eftir að hafa tekið A kverkataki. Ákærði sagði að það hefðu verið mistök hjá sér að orða þetta svona eins og hann gerði hjá lögreglu. Þá var ákærða kynntur framburður meðákærða W hjá lögreglu um að ákærði hefði hert að hálsi A með báðum höndum og ákærði kvaðst ekki kannast við það atvik. Enn fremur var borinn undir ákærða framburður hans hjá lögreglu um að hafa verið með borðfót og kvaðst ákærði ekki kannast við þessa atburðarás. Fyrir dómi las ákærði yfir þær skýrslur sem hann gaf hjá lögreglu og staðfesti undirskrift sína á þeim.
Ákærði Karl Kristinn Þórsson sagði að þegar hann hefði komið á vettvang hafi átökin verið búin að standa yfir í einhvern tíma. Ákærði sagði að A hefði veist að sér og hann hefði þá kýlt A tvö eða þrjú högg í magann. Síðan hefðu þeir allir farið í burtu. Ákærði sagði að aðdragandinn hefði verið sá að það hefði verið hringt í sig og sagt að það væri verið að lemja besta vin bróður hans. Ákærði hefði verið sóttur og farið upp á svalirnar að [...] og þá var verið að berja A. Ákærði hafi ætlað að kíkja á þá og hjálpa. Þá hefði A veist að sér, eins og hann ætlaði að ráðast á sig. Þá hefði ákærði kýlt hann tvisvar. Fram kom að á vettvangi hefðu verið meðákærðu Z, Y, W og X. Ákærði kvaðst ekki hafa séð barefli. Aðspurður hver hefði verið að lemja A þegar ákærði kom á vettvang kvaðst hann ekki muna það, en sagði að A hefði verið undir í slagsmálunum. Ákærði neitaði því að hafa hent A fram af svölunum. Hann kvaðst ekki vita hvernig það hefði atvikast og sagði að þetta hefði gerst þegar allir hefðu verið farnir af svölunum. Jafnframt sagði ákærði að hann og allir meðákærðu hefðu farið saman af vettvangi og ákærði farið heim til sín. Aðspurður hvort meðákærði X hefði tekið A hálstaki sagði ákærði að meðákærði hefði staðið fyrir aftan A, sem var krjúpandi, og haldið honum hálstaki með báðum höndum meðan meðákærði Z hafi reynt að losa A. Ákærði kvaðst ekki hafa komið við í íbúð hjá meðákærða X áður en hann fór að heimili A. Ákærði sagði að hann hefði verið ölvaður umrædda nótt. Fyrir dómi las ákærði yfir lögregluskýrslur sem teknar voru af honum og staðfesti undirritun sína á þær.
Ákærði Y kvaðst hafa slegið A 1-2 tvisvar í höfuðið. Ákærði sagði að atvik hefðu verið þau að hann fór yfir til A með meðákærða X til að „standa við bakið á honum og hræða A“. Ástæða þess hefði verið sú að meðákærði hefði sagt sér að A hefði kýlt sig skömmu áður. Jafnframt sagði ákærði að það hefði verið hálfgert stríð á milli meðákærða og A vegna konu þess síðarnefnda. Ákærði sagði meðákærða hafa verið ölvaðan og æstan. Þá sagði ákærði að þeir hefðu farið fjórir heim til A, þ.e. ákærði og meðákærðu X, Z og W. Ákærði kvaðst hafa verið með borðfót sem var í íbúð meðákærða X, en einhver hefði rétt honum hann. Ákærði kvaðst ekki vita hverjir aðrir tóku með sér borðfót. Þeir hefðu bankað á hurðina hjá A. Ákærði kvaðst ekki vera viss hvort A hefði komið til dyra með kylfu eða tekið kylfu af þeim, en A hefði lamið meðákærða í hausinn, til að byrja með 2-4 sinnum. Þeir hefðu farið fram á svalirnar, en A hefði ýtt meðákærða X. Ákærði kvaðst ekki muna hver hefði gert hvað, en ákærði hefði tekið borðfót af meðákærða Z sem hafi ætlað að fara að nota hann. Ákærði hefði hent borðfætinum niður af svölunum. Þá sagði ákærði að meðákærði X hefði haft sig mest í frammi og kýlt A í höfuðið og líkamann. Fyrst hafi A verið standandi en svo hefði meðákærði X setið klofvega yfir honum og kýlt hann. Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa séð meðákærða X nota kylfu. Ákærði skýrði frá því að meðan á átökunum stóð hefði hann farið ásamt meðákærða Z aftur í íbúð meðákærða X. Þegar hann hafi verið að fara hefði meðákærði X setið klofvega yfir A og verið að kýla hann. Einnig hefði meðákærði W verið eftir en meðákærði Karl ekki verið kominn. Ákærði kvaðst hafa heyrt að meðákærði Karl hefði hent A af svölunum. Þá kvaðst ákærði ekki muna eftir að hafa séð meðákærða X taka A hálstaki, en hann hefði heyrt um það frá einhverjum meðákærðu. Einnig hefði ákærði heyrt að meðákærði W hefði losað meðákærða X af A. Ákærði sagði að hann hefði svo farið á rúntinn með vinkonu sinni sem býr í næstu íbúð við meðákærða X. Ákærði kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis. Fyrir dómi las ákærði yfir allar lögregluskýrslur sem teknar voru af honum við rannsókn málsins. Hann gerði ekki athugasemdir við efni þeirra og staðfesti undirritun sína á skýrslurnar.
Ákærði Z sagði að hann myndi ekki vel eftir atvikum umrædda nótt, en viðurkenndi að hafa slegið A nokkrum sinnum með hnefa í höfuðið þegar A hefði náð taki á peysu sinni og rekið hnéð í sig. Aðdragandi málsins hefði verið sá að meðákærði X hefði beðið sig um að koma með sér til A og þeir farið ásamt meðákærðu Y og W. Ákærði kvaðst ekki vita hvað hefði verið í vændum en vitað að það hefðu verið illindi milli meðákærða X og A. Ákærði kvaðst hafa verið með borðfót er hann fór yfir til A. Meðákærði Y hefði einnig verið með borðfót og sennilega meðákærði X. Þeir hefðu bankað á hurðina hjá A og það hefði komið til átaka. Ákærði kvaðst hafa staðið nokkuð utan við þetta þegar átökin byrjuðu og svo blandast eitthvað inn í þau. Meðákærði X hefði haft sig mest í frammi. Ákærði sagði að borðfótunum hefði ekki verið beitt, en meðákærði Y hefði tekið borðfót af sér. Borinn var undir ákærða framburður meðákærða Y um að ákærði hafi ætlað að beita borðfætinum og þá hafi meðákærði tekið af honum borðfótinn. Ákærði sagði að það gæti vel verið að þetta hafi verið svona. Aðspurður sagði ákærði að hann hefði ekki séð A með borðfót. Þá sagði ákærði að hann hefði farið af vettvangi ásamt meðákærða Y en meðákærðu X og W hefðu orðið eftir. Þegar hann hafi verið að fara hafi A dottið á svalagólfið og meðákærði X sest klofvega yfir hann. Borinn var undir ákærða framburður hans hjá lögreglu þar sem hann lýsir því að meðákærði X hafi tekið A kverkataki. Ákærði sagði þá að hann muni lítið eftir þessari skýrslutöku en hann hafi verið illa sofinn. Ákærði greindi frá því að hann hefði hitt meðákærða Karl fyrir utan íbúð meðákærða X og sagt hvaðan hann væri að koma og hvað hefði gerst. Meðákærði Karl hefði þá farið yfir til A en ákærði hefði ekki farið þangað aftur. Ákærði skýrði frá því að hann hefði heyrt að A hefði verið hent niður af svölunum og það verið sparkað ítrekað í hann er hann lá á jörðinni. Þá greindi ákærði frá því að hafa verið ölvaður umrædda nótt. Ákærði kvaðst ekki þekkja A neitt. Fyrir dómi las ákærði yfir lögregluskýrslur og staðfesti undirritun sína á þær.
Ákærði W viðurkenndi að hafa slegið A 4-5 sinnum í kviðinn. Ákærði skýrði frá því að hann hefði farið ásamt meðákærðu Z, Y og X heim til A. Það hefðu verið einhverjar deilur milli meðákærða X og A en það hefði ekki verið rætt sérstaklega í hvaða skyni þeir hefðu farið til A. Ákærði sagði að þeir hefðu verið með tvo borðfætur. Hann hefði verið með annan þeirra, en hann viti ekki hver hefði verið með hinn. Þeir hefðu bankað upp á hjá A og ákærði staðið til hliðar. Hann hefði því ekki séð hvað gerðist í anddyrinu en A hefði svo verið dreginn út og slagsmál byrjað. Ákærði kvaðst ekki hafa spáð í hvað meðákærðu gerðu. Um ástæðu þess að hann hefði slegið A sagði hann að hann hefði gert það í hita leiksins. Þá lýsti ákærði því að hafa sveiflað borðfæti en hann hefði lent á meðákærða X og meðákærði Y hefði tekið borðfótinn og hent honum niður af svölunum. Meðákærði Y hefði einnig hent öðrum borðfæti niður. Jafnframt skýrði ákærði frá því að A hefði verið lagður í gólfið og meðákærði X setið yfir honum og tekið hann kverkataki. A hafi verið vankaður og ekki sýnt mótþróa og átt erfitt með að ná andanum. Ákærði hefði þá tekið meðákærða af A og það hafi verið heljar átök að ná honum ofan af honum. Ákærði sagði að hann og meðákærðu hefðu svo allir farið af vettvangi og heim til meðákærða X. Ákærði sagði að þegar hann hefði lagt af stað og verið kominn fyrir hornið hafi hann heyrt A lenda á jörðinni. Ákærði kvaðst ekki hafa snúið við eða athugað líðan A. Hann neitaði því að hafa sparkað í A þegar hann lá þarna. Aðspurður kvaðst ákærði ekki muna eftir að hafa séð meðákærða Karl á vettvangi. Einnig skýrði ákærði frá því að hann hefði mætt I á leiðinni niður stigann hjá A og sagt honum að fara í burtu. Nánar aðspurður hverjir hefðu orðið eftir á vettvangi greindi ákærði frá því að meðákærði X hefði orðið eftir en meðákærðu Z og Y farið á undan sér. Inntur eftir því hvort ákærði hefði farið heim til A í því skyni að ganga verulega í skrokk á honum sagði ákærði: „Nei, ekki verulega sko. Aðeins að banka í hann kannski.“ Borinn var undir ákærða framburður hans hjá lögreglu 11. desember 2009 um að hann og meðákærðu Z og Y hefðu talað um það heima hjá meðákærða X að þeir ætluðu að fara til A í því skyni að berja hann en meðákærði X hefði hins vegar verið snarbrjálaður og sagt að hann ætlaði að drepa A. Tilgangurinn hafi verið að fara yfir til A til að berja hann. Sjálfur hafi ákærði ætlað að lemja A nokkrum höggum og fara svo. Ákærði sagði þá að þetta hefði einmitt átt að vera svona en ekki eins og þetta fór. Þá var ákærði spurður um framburð sinn hjá lögreglu um að þeir hefðu einnig verið að hefna meints kynferðisbrots A og sagði ákærði að hann hefði farið yfir til A til að „tukta hann til“ fyrir það, en meðákærði X hefði átt í deilum við A út af öðru. Ákærði las vandlega yfir allar lögregluskýrslur sem teknar voru af honum. Hann gerði engar athugasemdir við þær og staðfesti undirritun sína á þær.
Vitnið A skýrði frá því að það hefði verið barið heiftarlega að dyrum heima hjá sér umrædda nótt. Það hefði legið við að rúðurnar spryngju. Vitnið kvaðst hafa opnað dyrnar og þar staðið fimm menn vopnaðir kylfum. Þeir hefðu náð nokkrum höggum í andlit vitnisins og líkama. Vitnið hefði bakkað hratt aftur á bak út úr forstofunni og ekki náð að loka dyrunum. Vitnið kvaðst hafa reynt að verja sig með höndunum og í anddyrinu hefði það náð að grípa í hendur eins þeirra sem hafi verið að berja sig og við það hafi hann misst kylfuna. Hinir hefðu gengið að sér og vitnið rokið inn í stofu og ruðst að þeim til að komast fram hjá þeim og út. Sá sem búi í [...], sem er ákærði W, hefði hindrað útgöngu hans. Vitnið hefði komist út á svalirnar og þar hefði verið ráðist á vitnið með kylfum, hnefahöggum og spörkum. Ákærði X hefði tekið kylfu og rekið hana í brjóst vitnisins þannig að vitnið hefði tekið andköf og farið niður. Þá hefðu ákærðu byrjað að slá vitnið og önnur kylfan brotnað á höfði þess, en bútur úr henni hefði fundist í íbúð vitnisins. Allir ákærðu hefðu veist að vitninu og rekið það upp að dyrunum á næstu íbúð. Ákærði X hefði rekið hnéð í klof vitnisins og vitnið misst fótanna. Ákærðu Z og Y hefðu tekið í handleggi vitnisins og haldið þeim aftur fyrir bak. Einnig hefði verið rifið í hár vitnisins og vitninu haldið uppi. Ákærði Karl og X hefðu þá komið með kylfurnar og slegið vitnið með þeim og krepptum hnefum. Þá sagði vitnið að ákærði hefði m.a. tekið nokkur skref aftur á bak og svo hlaupið að sér og slegið fast í nefið á sér. Svona hefðu þeir haldið áfram. Vitnið skýrði frá því að kylfa hefði verið rekin í enni vitnisins og stórséð á því. Þá hefði mölvast upp úr tönnum vitnisins og sauma hafi þurft fjölmörg spor á eyra þess. Vitnið lýsti því að hafa náð að ýta þeim sem hefði staðið vinstra megin við sig og haldið sér. Vitnið hafi ætlað að reisa sig upp og ákærði X stokkið á sig og tekið kverkataki. Á meðan hefðu ákærðu aftur tekið í höndina á vitninu þannig að það hafi ekki náð að losa kverkatakið. Ákærði X hefði haldið sér og vitnið verið við það að missa meðvitund. Vitnið kvaðst hafa heyrt í ákærðu og vitað hvað var að gerast í kringum sig en enga stjórn haft á útlimum sínum. Einhver hefði sagt eitthvað á þessa leið: „Ekki drepa hann.“ Einnig hefði vitnið heyrt ákærðu ræða um meinta nauðgun vitnisins. Þá kvaðst vitnið hafa heyrt ákærða Karl stinga upp á því að henda vitninu fram af svölunum. Vitnið hefði verið dregið áfram og ákærði Karl talað við meðákærða X. Þeir hefðu lyft vitninu upp ásamt þriðja manni þar sem tekið hafi verið undir afturenda vitnisins og því sveiflað fram af svölunum. Vitnið hefði lent á grasi, rétt við hellulagða stétt. Vitnið kvaðst hafa verið að ranka við sér þegar ákærðu hefðu komið og hoppað ofan á sér og sparkað í sig. Vitnið sagði að það hefði heyrt í ákærðu X, Z og Karli. Vitnið sagði að það gæti verið að fleiri hefðu verið þarna. Nánar aðspurt um þátt ákærða W sagði vitnið að hann hefði veist að sér á svölunum. Vitnið kvaðst hafa lýst ákærða hjá lögreglu þannig að hann hefði verið í ódýrri skyrtu. Meðan ákærði X og Karl hefðu verið að berja á sér með kylfum hefði ákærði W staðið hjá og haldið á kylfu. Vitnið kvað að ákærði W hefði einnig slegið sig með kylfu. Vitnið neitaði því að hafa komið til dyra með barefli. Vitnið sagði að kylfa sem fannst á heimili þess hefði verið inni í skáp þegar ákærðu komu á heimili hans. Eftir árásina hefði vitnið náð í kylfuna þar sem það hefði óttast að ákærðu kæmu aftur.
Vitnið kvaðst aðeins hafa þekkt ákærða X fyrir árásina en ekki aðra ákærðu. Ákærðu, aðrir en X, hefðu verið að hefna fyrir nauðgun sem vitnið hafi átt að hafa framið, en það ætti ekki við rök að styðjast. Ákærði X hefði ráðist á sig af öðrum ástæðum, en hann hefði haldið við konu vitnisins og vitnið kært hann fyrir að klessa bíl sinn. Vitnið skýrði frá því að umrædda nótt hafi það viljað fyrirgefa ákærða X og farið heim til hans, en ákærði tekið því illa. Vitnið neitaði því að hafa slegið ákærða. Vitnið kvaðst hafa viljað komast út þar sem ákærði hefði verið æstur og virst vera undir áhrifum fíkniefna, en ákærði hefði hindrað að vitnið kæmist út. Ákærði hefði haldið í peysu vitnisins og það rykkt henni aftur. Vitnið hefði farið heim til sín og ákærðu komið um 1-2 klukkustundum síðar.
Nánar um afleiðingar árásarinnar sagðist vitnið ganga til sálfræðings. Vitnið hefði verið flogaveikt fyrir en eftir árásina hefði flogum fjölgað mikið. Vitnið sagði að það hefði ekki jafnað sig eftir brot og fái náladofa niður í fótinn. Vitnið væri alltaf hálfhaltrandi og væri ekki með sama sveigjanleika í hrygg og áður. Þá kom fram hjá vitninu að það hefði notað hjólastól fram til júní 2009. Vitnið sagði að það væri gjörsamlega búið að stúta líkama vitnisins og lífsgæði þess skert. Aðspurt kvaðst vitnið hafa tvisvar farið í örorkumat vegna slysa, en það hefði verið fyrir mörgum árum.
Vitnið greindi jafnframt frá því að hafa fengið nafnlausar hótanir, stuttu eftir árásina, um að láta kæru niður falla. Þá hafi verið unnar skemmdir við heimili vitnisins. Nokkrum sinnum hefði vitnið þurft að kalla til lögreglu.
Vitnið K, nágranni A, skýrði frá því að hafa vaknað umrædda nýársnótt við hávaða og litið út um gluggann. Vitnið hefði séð fjóra menn en ekki séð framan í þá. Þeir hefðu ýtt A upp að glugganum og kýlt hann. Vitnið kvaðst ekki hafa þorað að horfa meira á og ekki litið út fyrr en A hefði legið á jörðinni. Lögreglan hefði svo komið skömmu síðar. Innt eftir því hvort mennirnir hefðu verið með barefli vísaði vitnið til framburðar síns þar um hjá lögreglu, en vitnið hefði munað atvik betur þá. Þá var borinn undir vitnið framburður þess hjá lögreglu um að hafa séð þrjá menn og þekkt tvo þeirra, ákærðu Z og Karl. Vitnið áréttaði að það hefði munað atvik betur við skýrslugjöf hjá lögreglu og það hefði heyrt að þetta hefðu verið þeir. Vitnið þekki þá ekki en viti hverjir þeir eru. Fyrir dómi las vitnið yfir skýrslu sem það gaf hjá lögreglu og staðfesti undirritun sína á hana.
Vitnið H, bróðir ákærða Karls, vísaði til þess að það hefði gefið skýrslu hjá lögreglu og vildi annars ekki tjá sig fyrir dómi.
Vitnið L sagði að hann hefði ekki séð umrædda árás, en hann hefði komið í partí sem var heima hjá ákærða X eftir að lögregla kom þangað. Vitnið kvaðst hafa heyrt að ákærðu hefðu farið heim til A og lamið hann. Vitnið staðfesti skýrslu sem það gaf hjá lögreglu 9. janúar 2009, en vildi taka fram að það hefði fyrst heyrt að ákærði Karl hefði hent A fram af svölunum en einnig heyrt síðar að ákærði W og fleiri hefðu verið með í því. Vitnið viti því ekki nákvæmlega hver hefði gert það. Vitnið sagði að allir ákærðu væru vinir sínir.
Vitnið I lýsti því að hafa séð ákærða X sitja klofvega ofan á A og taka hann kverkataki. A hefði ekki hreyft sig mikið og ákærði X öskrað á hann að deyja. Þá sagði vitnið að einhver hefði reynt að stöðva ákærða X. Vitnið kvaðst hafa staðið niðri á grasinu og séð þetta gerast. Á leið sinni upp stigann hefði vitnið mætt ákærða W sem hefði dregið sig niður stigann. Þegar vitnið hafi verið komið niður stigann hefði það séð A liggja á jörðinni. Vitnið kvaðst þekkja ákærða Karl en aðra ákærðu ekki mikið. Vitnið staðfesti skýrslu sem það gaf hjá lögreglu.
Vitnið N læknir kom fyrir dóm og staðfesti vottorð, dags. 3. febrúar 2009. Vitnið skýrði frá því að hafa skoðað A við komu á Landspítalann 1. janúar 2009. Hann hefði verið vel vakandi við komu og verið með dreifða áverka, einkum á höfði, baki og kvið. Vitnið sagði að á vottorðinu komi ekki fram að hann hafi verið með dreifða mjúkvefjaáverka, eins og mar og yfirborðslæga bólgu, en „greiningarkóðar“ væru ekki góðir til að greina þá. Einnig hefði hann verið með tvö sár á höfði, bólgu á kinnbeini, áverka á hægra auga og yfir gagnauga. Augað hafi virst vera innfallið en tölvusneiðmynd sýnt að svo hafi ekki verið. Þá hafi hann verið með blóðnasir og blóð á vörum. Enn fremur hefði hann kveinkað sér við þreifingu vinstra megin á brjóstholinu og á kviðnum. Sár á brjóstkassa hefði ekki verið skurður heldur eins og núningssár og hruflsár verið á hægri síðu. Þar aðeins neðar hefði verið mar. Þá sagði vitnið að brotaþoli hafi verið lemstraður hér og þar um líkamann. Áverkar hefðu ekki verið eftir oddhvasst áhald, nema skurður á höfði gæti verið eftir eggjárn eða eitthvað sem rífur húðina. Enn fremur lýsti vitnið því að brotaþoli hefði kvartað undan eymslum í hálsi en mjúkvefjaáverkar hefðu ekki verið sjáanlegir. Yfirleitt væru sjáanlegir áverkar eftir kverkatak. Vitninu voru sýndar myndir sem teknar voru af A þegar hann lá á slysadeild og sagði vitnið að við skeggrótina megi greina litabreytingu, roða, sem kunni að vera vegna aukins blóðflæðis, en það geti verið merki um margt, t.d. hálstak. Hvað varðar nefbrot sagði vitnið að síðar hefði komið í ljós að það væri gamalt. Aðspurt sagði vitnið að áverkar gætu samrýmst lýsingu brotaþola um að hafa verið laminn með bareflum og kastað niður. Líklegast væri áverki á lendarlið tengdur fallinu. Vitnið skýrði frá því að áverki á lendarlið geti dregið úr hreyfimöguleika og sveigju um lendarhrygginn. Innt eftir því hvort helti gæti verið afleiðing af þessum áverka taldi vitnið að það gæti verið vegna staðbundinna áhrifa á vöðva en ekki vegna taugaskaða. Vitninu var kynntur framburður A um að hann hefði verið í hjólastól til júní 2009 og taldi vitnið að það væri óvenju langur tími. Vitnið sagði að almennt séð nái fólk sér eftir brot á 4-6 vikum en þegar um samfallsbrot á frauðbeini væri að ræða væri fremur um að ræða 6-12 mánuði, en þá lægi betur fyrir varanlegur skaði. Það hefði því verið heppilegra að segja 6-12 mánuðir í vottorðinu. Aðspurt kvaðst vitnið ekki geta fullyrt hvort það hefði skoðað upp í munn A.
Vitnið O, sérfræðingur á háls-, nef- og eyrnadeild á Landspítalanum, sem skoðaði A 5. janúar 2009, taldi að hann hefði verið með gamalt nefbrot. Þótt brotalína hefði verið á sneiðmynd segi það ekki til um hvort um nýtt eða gamalt brot sé að ræða. Það væri staðreynt með skoðun og A hefði ekki verið með bólgu og ekki verið hægt að rétta skekkju á nefinu. Vitnið sagði að starfsfélagi þess hefði metið þetta með sér. Vitnið kvaðst aðeins hafa skoðað höfuð vitnisins.
Vitnið Q tannlæknir staðfesti vottorð sem hann gaf út og fyrir liggja í málinu. Vitni sagði að við skoðun 8. janúar 2009 hefði A verið bólginn og þrútinn og lítið hægt að skoða hann, en hann hafi varla getað opnað munninn. Hinn 9. júní 2009 hafi hann verið skoðaður betur. Engin tönn hafi verið brotin þversum. Það hafi kvarnast úr tönnum eins og þeim hefði verið skellt saman. Samtals hefðu þetta verið sjö tennur. Hingað til væri búið að rótfylla eina tönn, en eftir svona áverka gæti síðar meir komið í ljós að tannkvika drepist. Líklega þurfi að rótfylla alls fjórar tennur. Aðspurt sagði vitnið að það væri mjög líklegt að brotaþoli hefði fengið áverka eftir að hafa verið laminn með kylfu. Jafnframt sagði vitnið að það væri ólíklegt að það brotni upp úr tönnum með þessum hætti nema til komi meiri háttar áverkar eða skellir.
Einnig komu fyrir dóm sem vitni lögreglumennirnir R, S, T, U, V og Þ sérfræðingur. Ekki er ástæða til að rekja sérstaklega vitnisburð þeirra.
VI.
Samkvæmt því sem rakið hefur verið hér að framan fór brotaþoli, A, umrædda nýársnótt heim til ákærða X að [...]. Brotaþoli lýsir því að hann hafi viljað ræða við ákærða og fyrirgefa honum, en fram hefur komið að þeir höfðu átt í erjum sem rekja má til þess að ákærði hélt við konu brotaþola. Þá hefur ákærði verið með ávirðingar í garð brotaþola, m.a. um að hann hafi ráðist á sig og borið á sig rangar sakargiftir. Samkvæmi var í gangi hjá ákærða og fóru hann og brotaþoli inn í herbergi og ræddu þar saman. Ákærði heldur því fram að brotaþoli hafi kýlt sig og fellt í gólfið en þessu neitar brotaþoli. Engin vitni eru að því sem gerðist á milli þeirra í herberginu og engir áverkar voru á ákærða. Standa því hér orð á móti orði. Brotaþoli fór svo heim til sín að [...]. Í kjölfarið bað ákærði vin sinn, ákærða Y, um að koma með sér heim til A og ákærðu Z og W fylgdu þeim.
Ákærði X hefur lýst því að hann hafi orðið „brjálaður“ eftir að brotaþoli fór og rokið yfir til hans. Framburður ákærða um að hann hafi aðeins ætlað að ræða við brotaþola stangast á við framburð ákærða W sem segir að þeir hafi farið þangað í því skyni að berja brotaþola og ákærði X hafi verið snarbrjálaður og sagt að hann ætlaði að drepa hann. Þá greindi ákærði Y frá því hjá lögreglu að ákærði X hafi ætlað að berja brotaþola, en fyrir dómi dró hann úr framburði sínum og sagði að þeir hefðu aðeins ætlað að hræða brotaþola.
Ákærði X kannast ekki við að hann eða aðrir ákærðu hafi verið með borðfætur að vopni eins og brotaþoli hefur skýrt frá bæði hjá lögreglu og fyrir dómi. Þvert á móti heldur ákærði því fram að brotaþoli hafi komið til dyra með barefli og ráðist á sig. Framburður ákærða er afar ótrúverðugur og fær engan veginn staðist, en ekkert vopn fannst á vettvangi sem brotaþoli kann að hafa beitt. Útilokað er að brotaþoli hafi notað gaddakylfu, sem hann geymdi á heimili sínu vegna hótana sem honum höfðu borist eftir meinta nauðgun, enda hefði ákærði þá verið stórslasaður, en á honum voru engir áverkar. Þá hafa ákærðu Y, Z og W borið um það, hjá lögreglu og fyrir dómi, að þeir hafi tekið með sér borðfætur sem voru á heimili ákærða X og að ákærði X hafi einnig verið með borðfót. Ákærði W sagði jafnframt hjá lögreglu að ákærði X hefði reynt að lemja brotaþola með borðfæti, en brotaþoli náð fætinum af honum. Þannig þykir í ljós leitt að ákærði X, sem var fremstur í flokki og barði dyra, hafi verið með borðfót að vopni og veist að brotaþola, sem hafi svo náð bareflinu af honum í anddyrinu. Samkvæmt lýsingu brotaþola komst hann fram hjá ákærðu og út á svalagang fyrir framan íbúðina.
Brotaþoli lýsir því að á svölunum hafi ákærðu ráðist á sig með kylfum, hnefahöggum og spörkum. Jafnframt hefur brotaþoli greint frá því að snúið hafi verið upp á hendur hans og honum haldið og hann því ekki getað varið sig. Sú frásögn brotaþola samrýmist framburði ákærða Z hjá lögreglu 9. desember 2009 sem sagði að mál hefðu „æxlast þannig“ að brotaþola hafi verið haldið. Jafnframt hafa brotaþoli og ákærðu lýst því að brotaþola hafi verið haldið upp við hurð á næstu íbúð meðan hann var laminn. Ákærði X játaði við þingfestingu málsins háttsemi sem er lýst í 1. tl. ákæru, um að hafa ítrekað slegið brotaþola í höfuð og víðs vegar í líkamann með krepptum hnefa. Þá hefur ákærði Y viðurkennt að hafa slegið brotaþola með hnefa einu sinni eða tvisvar í höfuð og ákærði Z að hafa slegið brotaþola nokkrum sinnum með hnefa. Ákærði W viðurkennir að hafa slegið brotaþola 4-5 sinnum í kviðinn. Brotaþoli hefur haldið því staðfastlega fram, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, að ákærðu hafi jafnframt ítrekað lamið hann með bareflunum, m.a. hafi kylfu verið rekið í enni hans. Er sá vitnisburður í samræmi við framburð ákærða Y um að ákærði Z hefði beitt borðfætinum með þeim hætti. Ákærði Z viðurkennir að hann hafi reitt bareflið til höggs og útilokar ekki að hann hafi gert þetta. Jafnframt hefur ákærði W lýst því að hafa ætlað að slá brotaþola með borðfæti, en segir að höggið hafi geigað. Samkvæmt vitnisburði K fyrir dómi, sem er nágranni brotaþola, voru það fjórir menn sem réðust á brotaþola á svölunum. Með hliðsjón af öllu framansögðu, áverkum brotaþola, vitnisburði N læknis og Q tannlæknis og því að blóð úr brotaþola fannst á einum borðfætinum, er sannað að brotaþoli hefur verið sleginn ítrekað í höfuð og víðs vegar um líkamann, ekki aðeins með krepptum hnefum heldur einnig með borðfótum úr málmi. Brotaþoli og ákærðu hafa ekki getað greint nákvæmlega hver gerði hvað. Verður að telja ákærðu X, Y, Z og W alla seka um þá háttsemi sem lýst er í 1. tl. ákæru þótt ekki sannist á þá nánar en að framan greinir tiltekin högg eða áverkar.
Eftir að framangreind árás ákærðu X, Y, Z og W byrjaði kom ákærði Karl á vettvang. Hann hefur játað þá háttsemi sem honum er gefin að sök í 2. tl. ákæru, um að hafa slegið brotaþola nokkrum sinnum með krepptum hnefa í kviðinn.
Brotaþoli hefur með greinargóðum hætti skýrt frá því að ákærði X hafi svo fellt hann í gólfið, sest ofan á hann, slegið hann ítrekað og tekið hann kverkataki þannig að hann var við það að missa meðvitund. Ákærði X viðurkenndi fyrir dómi að hafa sest ofan á brotaþola og slegið hann með krepptum hnefa í andlitið. Ákærði neitar því að hafa tekið brotaþola kverkataki og kveðst hafa tekið um axlir hans og hrist hann. Við skýrslutöku hjá lögreglu 1. janúar 2009 rak ákærða hins vegar minni til að hafa tekið um kverkar brotaþola. Þá greindi hann frá því hjá lögreglu 9. janúar s.á. að hann hefði tekið um háls brotaþola, en hann hefði „misst sig af reiði“ og ákærði Y togað sig af brotaþola. Dómurinn telur skýringu ákærða á breyttum framburði sínum fyrir dómi marklausa, en hann kveður að það hafi verið mistök að orða þetta með þeim hætti sem hann gerði hjá lögreglu. Ákærði Z lýsti því hjá lögreglu að ákærði X hefði tekið brotaþola kverkataki, en fyrir dómi dró hann úr þeim framburði án þess að gefa á því trúverðuga skýringu. Ákærði W og Karl hafa báðir með afdráttarlausum hætti borið um það hjá lögreglu og fyrir dómi að ákærði X hafi reynt að kyrkja brotaþola, þannig að hann hafi átt erfitt með að ná andanum. Enn fremur hefur vitnið I borið um það fyrir dómi að hafa séð ákærða X sitja ofan á brotaþola og taka hann kverkataki. Vitnið gat ekki greint frá því hver hefði reynt að stöðva ákærða X og framburður ákærðu er misvísandi um hver eða hverjir náðu að losa ákærða X af brotaþola, hvort það hafi verið ákærði Z, Y eða W. Að öllu þessu virtu er ákærði X sannur að sök um þá háttsemi sem lýst er í 3. tl. ákæru.
Ákærði Karl neitar sök um að hafa kastað brotaþola niður af svölum 2. hæðar hússins. Fyrir dómi hélt ákærði því fram að brotaþoli hefði veist að sér og ætlað að ráðast að sér. Ákærði hefði þá kýlt hann. Í ljósi þess sem á undan var gengið og því ofurefli sem brotaþoli átti við að etja er framburður ákærða fráleitur. Samkvæmt gögnum málsins er svalahandriðið 118 cm á hæð og er útilokað að brotaþoli hafi fallið af svölunum fyrir slysni, eins og ákærði hefur ýjað að. Ákærði kveðst ekkert vita hvernig þetta atvikaðist en hann og aðrir ákærðu hafi verið farnir af vettvangi. Samkvæmt framburði annarra ákærðu fær þetta ekki staðist. Ákærðu Y og Z hafa lýst því að þeir hafi farið af vettvangi í kjölfar þess að ákærði X hélt brotaþola kverkataki. Fær þetta stoð í framburði ákærða W sem sagði fyrir dómi að þeir hefðu farið á undan sér af vettvangi. Miðað við framburð vitnisins I, um að hafa mætt ákærða W í stiganum rétt áður en vitnið sá brotaþola liggja á jörðinni, er ekki hægt að slá því föstu að ákærði W hafi verið á svölunum er brotaþola var hent niður. Þannig hafa það verið ákærðu X og Karl sem urðu eftir með brotaþola á svölunum. Þegar litið er til ótrúverðugs framburðar ákærða, vitnisburðar brotaþola, framburðar ákærða X, sem er studdur framburði ákærðu Z og Y og L, er sannað svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði Karl hafi kastað brotaþola af svölum 2. hæðar. Brotaþoli kveðst hafa lent á grasi en ekki hellulagðri stétt eins og segir í ákæru. Samkvæmt vitnisburði N læknis hefur brotaþoli líklega brotnað á lendarlið við fallið.
Að lokum er ákærðu X og W gefið að sök að hafa sparkað ítrekað í brotaþola þar sem hann lá á jörðinni meðvitundarlítill eftir að hafa verið kastað af svölunum. Brotaþoli hefur lýst því bæði hjá lögreglu og fyrir dómi að það hafi verið hoppað á honum og sparkað í hann, en hann hefði ekki séð hverjir þetta voru. Fyrir dómi kvaðst hann hafa heyrt í ákærðu X, Z og Karli en það gæti verið að fleiri hefðu verið þarna. Ákærði X sagði við skýrslutöku hjá lögreglu 7. janúar 2009 að hann hefði sparkað um tvisvar sinnum í fætur brotaþola, en við yfirheyrslu 11. desember 2009 leiðrétti hann þetta og sagði að hann hefði ýtt við brotaþola til að kanna hvort hann væri með lífsmarki. Að þessu virtu og þar sem enginn hefur borið um það að hafa séð ákærða sparka í brotaþola er ósannað að hann hafi gert það. Með sama hætti þykir ekki unnt að slá því föstu að það hafi verið ákærði W sem hafi sparkað eða hoppað á brotaþola.
Samkvæmt framansögðu verða ákærðu sakfelldir fyrir þá háttsemi og afleiðingar sem í ákæru greinir, að öðru leyti en því að háttsemi sem ákærðu X og W er gefið að sök í 5. tl. ákæru er ósönnuð. Þá ber að gæta þess að brotaþoli lenti á grasi en ekki gangstétt eins og segir í 4. tl. ákæru og ósannað er að nefbrot brotaþola hafi verið afleiðing árásar ákærðu. Þegar litið er til framgöngu ákærðu, þeirra aðferða sem þeir beittu, alvarleika árásarinnar og afleiðinga hennar, þykir brot þeirra varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum.
VII.
Ákærði X er fæddur í [...]. Samkvæmt sakavottorði ákærða var ákvörðun refsingar hans fyrir brot gegn 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga og umferðarlagabrot frestað skilorðsbundið í tvö ár með dómi 3. júlí 2007. Þá var hann sviptur ökurétti í 8 mánuði. Með broti sínu nú hefur ákærði rofið skilorð dómsins og ber því að taka hann upp og ákveða refsingu með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga. Við refsiákvörðun verður að líta til þess að árás ákærðu var mjög alvarleg og ófyrirleitin. Um var að ræða hóp fjögurra manna sem fór að heimili brotaþola í því skyni að ráðast á hann og fimmti maðurinn bættist svo í hópinn. Brotaþoli var ítrekað kýldur, m.a. í höfuð, og borðfótum úr málmi beitt sem vopni. Þá var brotaþoli tekinn kverkataki, af ákærða, þannig að hann var við það að missa meðvitund. Loks var brotaþola hent af svölum 2. hæðar, en fallið var fjórir metrar. Áverkar sem brotaþoli hlaut af árás ákærðu voru margvíslegir og víðs vegar um líkamann. Var hending ein að ekki fór enn verr en raun var á. Af hálfu ákærðu var því haldið fram við aðalmeðferð málsins að ekki hafi verið um samverknað að ræða þar sem gert sé grein fyrir háttsemi hvers og eins í ákæru og sumir ákærðu hafi ekki verið staddir á vettvangi allan tímann. Að mati dómsins verður að hafna þessum röksemdum, enda getur verið um samverknað að ræða þó þáttur hvers og eins sem vinnur verkið sé ekki sá sami. Árásin var unnin í einni samfellu og ákærðu komu allir að henni með einum eða öðrum hætti. Var því um samverknað að ræða og horfir það til þyngingar refsingar, sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Ásetningur ákærða var einbeittur og skeytti hann ekki um að koma brotaþola til aðstoðar þar sem hann lá meðvitundarlítill á jörðinni eftir að hafa verið kastað af svölunum. Að baki háttsemi ákærða virðist hafa búið áralöng óvild í garð brotaþola. Að öllu þessu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði. Vegna alvarleika þáttar ákærða í árásinni þykir ekki fært að skilorðsbinda refsingu hans.
Ákærði Karl er fæddur í maí 1987. Samkvæmt sakavottorði hans gekkst hann með lögreglustjórasátt í september 2005 undir 65.000 króna sektargreiðslu fyrir umferðarlagabrot. Jafnframt var hann sviptur ökurétti í tvo mánuði. Í október s.á. gekkst hann undir viðurlagaákvörðun fyrir umferðarlagabrot. Með lögreglustjórasátt 3. júlí 2006 var ákærða gert að greiða 105.000 króna sekt fyrir fíkniefnabrot. Hinn 17. nóvember 2006 var hann dæmdur til að greiða 120.000 króna sekt fyrir fíkniefnabrot. Með dómi 8. júní 2009 var ákærða gert að greiða 500.000 króna sekt fyrir umferðarlagabrot, fíkniefnabrot og vopnalagabrot. Jafnframt var hann sviptur ökurétti í tvö ár. Brot það sem ákærði er nú sakfelldur fyrir er framið fyrir síðastnefndan dóm og því ber að dæma honum hegningarauka samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga. Við ákvörðun refsingar ber að líta til sömu sjónarmiða og fram koma um refsingu ákærða X, um alvarleika árásarinnar og afleiðingar hennar. Fyrir liggur að ákærði kastaði brotaþola af svölum 2. hæðar. Mátti engu muna að brotaþoli lenti á hellulagðri gangstétt og var hending ein að ekki fór verr en raun var á. Til refsiþyngingar ber jafnframt að horfa til 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Óljóst er hvað ákærða gekk til með verkinu en svo virðist sem um óvild eða hefndaraðgerð hafi verið að ræða. Að öllu þessu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði. Vegna alvarleika háttsemi ákærða þykir ekki fært að skilorðsbinda refsingu hans.
Ákærði Y er fæddur í [...] og bróðir hans, ákærði Z, í [...]. Samkvæmt sakavottorðum þeirra hafa þeir ítrekað gerst sekir um umferðarlagabrot, en þau brot hafa ekki áhrif á ákvörðun refsingar nú. Við ákvörðun refsingar þeirra ber að líta til alvarleika árásarinnar og margvíslegra afleiðinga hennar. Um var að ræða samverknað fimm manna og horfir það til refsiþyngingar, sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Þeir virðast hafa farið heim til brotaþola með ákærða X einkum í því skyni að standa við bakið á honum. Að öllu þessu virtu verður hvorum um sig gert að sæta fangelsi í 12 mánuði, en fresta skal fullnustu 9 mánaða þeirrar refsingar og sá hluti hennar falla niður að liðnum þremur árum frá birtingu dómsins, haldi ákærðu almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði W er fæddur í [...]. Fram kemur á sakavottorði ákærða að með dómi Hæstaréttar Íslands 6. maí 2009 var staðfestur dómur héraðsdóms um 70.000 króna sektargreiðslu fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna. Það brot hans hefur ekki áhrif á ákvörðun refsingar nú. Ákærði fór heim til brotaþola í því skyni að ráðast á hann vegna meintrar nauðgunar á stúlku sem ákærði þekkti. Eftir árásina gekk ákærði fram hjá brotaþola, þar sem hann lá meðvitundarlítill á jörðinni eftir að hafa verið kastað af svölunum, án þess að skeyta um hann. Að þessu sögðu og með vísan til þess sem áður hefur verið rakið um alvarleika árásarinnar, afleiðinga hennar og samverknaðar ákærðu, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði, en fresta skal fullnustu 9 mánaða þeirrar refsingar og sá hluti hennar falla niður að liðnum þremur árum frá birtingu dómsins, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
VIII.
Í málinu liggur fyrir skaðabótakrafa brotaþola, A, að fjárhæð 3.208.700 krónur, auk vaxta. Krafan er sundurliðuð þannig að 3.000.000 króna eru vegna miskabóta og 208.700 krónur vegna tannviðgerða.
Ákærðu hafa verið sakfelldir fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás. Bera ákærðu óskipta skaðabótaábyrgð á því tjóni brotaþola sem rekja má til árásarinnar. Krafa vegna tannviðgerða, að fjárhæð 208.700 krónur, er studd gögnum og ber því að dæma ákærðu til að greiða þennan kostnað, sbr. 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Brotaþoli á rétt á miskabótum úr hendi ákærðu vegna árásarinnar á grundvelli 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga, sbr. lög nr. 37/1999. Við ákvörðun bóta er til þess að líta að hópur manna kom á heimili hans og réðst á hann. Árásin var alvarleg og ófyrirleitin og hlaut brotaþoli margvíslega áverka. Að öllu þessu virtu þykja bætur hæfilega ákveðnar 600.000 krónur.
Samkvæmt framansögðu ber ákærðu að greiða brotaþola óskipt 808.700 krónur, auk vaxta eins og í dómsorði greinir, en dráttarvextir skulu reiknast frá 23. janúar 2010, þegar liðinn var mánuður frá því öllum ákærðu hafði verið birt bótakrafan, sbr. 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.
IX.
Með vísan til 219. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála ber að dæma ákærðu til að greiða allan sakarkostnað. Samkvæmt yfirliti um sakarkostnað er um að ræða kostnað vegna læknisvottorða, samtals 44.500 krónur, sem ákærðu ber að greiða óskipt. Ákærði X skal greiða í sakarkostnað þóknun verjanda síns, Guðmundar Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 552.200 krónur. Ákærði Karl greiði í sakarkostnað 552.200 króna þóknun verjanda síns, Hjálmars Blöndal héraðsdómslögmanns, og aksturskostnað að fjárhæð 9.108 krónur. Þóknun skipaðs verjanda ákærðu Y og Z þykir hæfilega ákveðin 600.000 krónur, og ber ákærðu því hvorum um sig að greiða í sakarkostnað 300.000 krónur. Ákærði W greiði þóknun verjanda síns, Þórhalls Hauks Þorvaldssonar héraðsdómslögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 552.200 krónur. Þá ber öllum ákærðu að greiða óskipt þóknun réttargæslumanns brotaþola sem ákveðst, með hliðsjón af tímaskýrslu, 464.350 krónur. Við ákvörðun þóknunar allra verjenda og réttargæslumanns hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Ákærðu X og Karl Kristinn Þórsson sæti hvor um sig fangelsi í 18 mánuði.
Ákærðu Y, Z og W sæti hver um sig fangelsi í 12 mánuði, en fresta skal fullnustu 9 mánaða refsingarinnar og sá hluti hennar falla niður að liðnum þremur árum frá birtingu dómsins, haldi þeir almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærðu greiði A 808.700 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2009 til 23. janúar 2010, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði X greiði í sakarkostnað 552.200 króna þóknun verjanda síns, Guðmundar Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns. Ákærði Karl greiði í sakarkostnað 552.200 króna þóknun verjanda síns, Hjálmars Blöndal héraðsdómslögmanns, og aksturskostnað að fjárhæð 9.108 krónur. Ákærði Y og ákærði Z greiði í sakarkostnað hvor um sig 300.000 krónur vegna þóknunar skipaðs verjanda þeirra, Guðmundar Ágústssonar hæstaréttarlögmanns, sem er að fjárhæð 600.000 krónur. Ákærði W greiði 552.200 krónur sem er þóknun verjanda hans, Þórhalls Hauks Þorvaldssonar héraðsdómslögmanns. Annan sakarkostnað, að fjárhæð 508.850 krónur, greiði ákærðu óskipt, þar með talda þóknun réttargæslumanns brotaþola, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, að fjárhæð 464.350 krónur.