Hæstiréttur íslands
Mál nr. 316/2006
Lykilorð
- Hjón
- Skilnaðarsamningur
- Ógilding samnings
- Málshöfðunarfrestur
- Tómlæti
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 7. desember 2006. |
|
Nr. 316/2006. |
Jóhanna Elín Björnsdóttir(Dögg Pálsdóttir hrl.) gegn Sigurjóni Sveinssyni (Lárentsínus Kristjánsson hrl.) |
Hjón. Skilnaðarsamningur. Ógilding samnings. Málshöfðunarfrestur. Tómlæti. Gjafsókn.
Í skilnaðarsamningi aðila 16. desember 1998 var tekið fram að J sætti sig við að skipting eigna væri ekki í samræmi við helmingaskiptareglu hjúskaparlaga. Með stefnu þingfestri 25. maí 2005 krafðist J þess að skilnaðarsamningurinn yrði ógiltur þar sem hann væri bersýnilega ósanngjarn í skilningi 95. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 og 31. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Í niðurstöðu héraðsdóms, sem staðfest var í Hæstarétti, segir að frestur samkvæmt 2. mgr. 95. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 hafi verið liðinn þegar J höfðaði málið og því væri ekki unnt að krefjast ógildingar samningsins á grundvelli ákvæðisins. Ekki var heldur fallist á ógildingu samningsins á grundvelli 31. gr. laga nr. 7/1936 þar sem J hafði ekki fært sönnur á að skilyrði þau sem nefnd eru í greininni hefðu verið til staðar við gerð skilnaðarsamningsins. Með vísan til fyrrgreinds ákvæðis í skilnaðarsamningnum, framburðar J fyrir dómi um að hún hafi gert sér grein fyrir þýðingu ákvæðisins og þess langa tíma sem leið þar til J hófst handa við málsókn sína, var ekki fallist á að skilyrði væru til að víkja samningsskuldbindingum hennar til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936. Var S sýknaður af kröfum J.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. júní 2006. Hún krefst þess stefndi verði dæmdur til að greiða henni aðallega 1.670.274 krónur, en til vara 945.274 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 8. maí 1999 til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða að frestur samkvæmt 2. mgr. 95. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 hafi verið liðinn þegar áfrýjandi höfðaði málið. Verða kröfur áfrýjanda því ekki reistar á þessu lagaákvæði.
Áfrýjandi hefur ekki fært sönnur á að skilyrði þau sem nefnd eru í 31. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga hafi verið til staðar þegar málsaðilar gerðu 16. desember 1998 samning þann um skilnaðarkjör sem mál þetta varðar. Verður málatilbúnaði áfrýjanda sem byggist á tilvísun til þessa ákvæðis þegar af þessari ástæðu hafnað.
Í fyrrgreindum samningi var svofellt ákvæði: „Ég undirrituð, Jóhanna Björnsdóttir, geri mér fulla grein fyrir því og sætti mig við að skipti eigna eru ekki í samræmi við helmingaskiptareglu hjúskaparlaga nr. 31 frá 1993.“ Í aðilaskýrslu áfrýjanda við aðalflutning málsins kvað hún sér hafa verið kunnugt um svonefnda helmingaskiptareglu hjúskaparlaga við samningsgerðina og að hún hafi jafnframt gert sér fulla grein fyrir að samningurinn væri ósanngjarn að einhverju leyti. Þá liggur fyrir að þegar 12. febrúar 1999 sendi þáverandi lögmaður áfrýjanda lögmanni stefnda bréf, þar sem gerð var grein fyrir sjónarmiðum hennar um að samningurinn væri ósanngjarn og óskað breytinga á honum. Var þessum óskum hafnað í svarbréfi lögmanns stefnda 4. mars 1999. Héldu bréfaskipti milli lögmannanna um þetta áfram þar til í ágúst 1999. Eftir það verður ekki séð að áfrýjandi hafi aðhafst frekar af þessu tilefni fyrr en mál þetta var höfðað 18. maí 2005, að öðru leyti en því að hún lét bóka um fyrirvara, sem að þessu laut, við fyrirtöku lögskilnaðarmáls aðila hjá sýslumanninum í Keflavík stuttu áður en leyfi til lögskilnaðar var gefið út 11. júní 2004. Með vísan til framangreinds ákvæðis samningsins, framburðar áfrýjanda um að hún hafi gert sér grein fyrir þýðingu þess og þess langa tíma sem leið þar til áfrýjandi hófst handa við málsókn sína, verður ekki fallist á með henni að skilyrði séu til að víkja samningsskuldbindingum hennar til hliðar með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936.
Samkvæmt framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.
Áfrýjandi verður dæmd til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem greinir í dómsorði.
Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar sem ákveðst eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Jóhanna Elín Björnsdóttir, greiði stefnda, Sigurjóni Sveinssyni, málskostnað fyrir Hæstarétti 300.000 krónur.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar 300.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 13. mars 2006
Mál þetta, sem dómtekið var 14. febrúar síðastliðinn, höfðaði Jóhanna Elín Björnsdóttir, Faxabraut 33d, 230 Reykjanesbæ, þann 18. maí 2005 á hendur Sigurjóni Sveinssyni, Krossholti 4, 230 Reykjanessbæ.
Stefnandi krefst þess að skilnaðarsamningur aðila frá 16. desember 1998, sem staðfestur var með útgáfu lögskilnaðarleyfis 11. júní 2004, verði ógiltur með dómi og að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.670.274 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 8. maí 1999 til greiðsludags. Til vara er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 945.274 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 8. maí 1999 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál en stefnanda var veitt gjafsóknarleyfi með bréfi dómsmálaráðherra 21. febrúar 2005.
Stefndi krefst þess aðallega að vera sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Til vara er krafist lækkunar á dómkröfum stefnanda. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar frá stefnanda.
I.
Helstu málavextir eru þeir að málsaðilar gengu í hjúskap 7. maí 1988. Til samvistarslita kom 29. nóvember 1998 og gerðu aðilar með sér samning um skilnaðarkjör 16. desember 1998. Í 4. gr. skilnaðarsamnings þeirra var kveðið á um eignir. Eignir búsins voru fasteign að Sunnubraut 9, 230 Reykjanesbæ, innbú og bifreið LN 731 Toyota Corolla árg. 1995. Samkvæmt samningnum skyldi fasteignin að Sunnubraut 9 og bifreiðin falla í hlut stefnda og samkomulag var um skiptingu innbús. Að auki átti stefndi að greiða stefnanda 1.400.000 krónur við undirskrift samningsins. Í 5. gr. er fjallað um skuldir og skiptingu þeirra. Áhvílandi skuldir á Sunnubraut 9 voru eftirfarandi:
1. veðréttur, Byggingasjóður ríkisins kr. 881.496.-
2. veðréttur, Byggingasjóður ríkisins kr. 869.329.-
3. veðréttur, Húsbréfadeild kr. 1.437.836.-
4. veðréttur, Samvinnusjóður kr. 691.338.-
5. veðréttur, Sparisjóður í Keflavík kr. 1.450.000.-
Aðrar skuldir voru lán á nafni stefnanda, samtals 180.000 krónur, yfirdráttur á tékkareikning að upphæð 150.000 krónur, ýmsar lausaskuldir vegna kaupa á húsgögnum að upphæð 100.000 krónur og lán hjá Tryggingu hf. að upphæð 609.452 krónur. Kemur fram í samningnum að stefndi yfirtaki allar áhvílandi skuldir á fasteigninni að Sunnubraut 9 ásamt skuld við Tryggingu hf., yfirdrátt á tékkareikning og lausaskuldir og greiðslu greiðslukortareiknings sem var á nafni stefnda. Stefnandi yfirtók lán og greiðslukortaskuld við Eurocard sem var á hennar nafni. Í samningnum er ekki kveðið á um hvert sé markaðsvirði fasteignar né bifreiðar á þeim tíma sem samningurinn var undirritaður. Kemur einnig fram í 5. gr. skilnaðarsamningsins að skipti séu ekki í samræmi við helmingaskiptareglu hjúskaparlaga. Stefndi greiddi síðan stefnanda 1.400.000 krónur líkt og kveðið var á um í samningnum. Í febrúar 1999 hafði stefnandi samband við lögfræðing til að fá breytt ákvæðum skilnaðarsamnings og voru einhver bréfaskipti milli lögfræðings stefnda og lögfræðings stefnanda án þess að samkomulag næðist.
Stefndi sótti um lögskilnað hjá sýslumanninum í Keflavík þann 17. desember 1999 en það var ekki fyrr en eftir að lögmaður stefnda skoraði á stefnanda með bréfi þann 19. maí 2004 að ganga frá lögskilnaði sem fyrst, að stefnandi mætti hjá sýslumanni. Sýslumaðurinn í Keflavík gaf út lögskilnaðarleyfi þann 11. júní 2004. Í leyfinu er getið um fyrirvara stefnanda vegna skilnaðarsamnings sem stefnandi teldi bersýnilega ósanngjarnan.
Málsaðilar komu fyrir dóm við aðalmeðferð málsins og gáfu munnlegar skýrslur. Fram kom hjá stefnanda að hún hefði vitað þegar hún undirritaði samninginn að hún ætti rétt á helmingi eigna búsins og að vikið væri frá helmingaskiptareglunni í skilnaðarsamningi aðila. Ásbjörn Jónsson hdl. kom fyrir dóm sem vitni, en hann hafði undirbúið skilnaðarsamning aðila. Kvaðst hann hafa skýrt sérstaklega út fyrir stefnanda að hún ætti rétt á helmingi eigna búsins og að hér væri um að ræða frávik frá helmingaskiptareglunni.
II.
Af hálfu stefnanda er krafan um ógildingu hjónaskilnaðarsamnings byggð á 95. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Telur stefnandi að skilnaðarsamningurinn sé bersýnilega ósanngjarn í skilningi laganna, þar sem verulega sé vikið frá helmingaskiptareglu hjúskaparlaga án nokkurra skýringa. Samkvæmt 2. mgr. 95. gr. hjúskaparlaga skuli höfða dómsmál innan árs frá fullnaðardómi til skilnaðar eða frá útgáfu leyfisbréfs til skilnaðar og tekur stefnandi fram að ekki hafi verið liðið ár frá útgáfu leyfisbréfs til lögskilnaðar þegar mál þetta var höfðað auk þess sem tímafrestir hjúskaparlaga eigi ekki við ef freistað sé að hnekkja samningi með stoð í reglum um fjármunaréttarsamninga, líkt og stefnandi byggi á, samanber 2. mgr. 95. gr. laga nr. 31/1993.
Þá byggir stefnandi kröfuna um ógildingu á reglum fjármunaréttar um ógilda löggerninga, sérstaklega III. kafla samningalaga nr. 7/1936 með síðari breytingum, en þó einkum á 36. gr., svo og 31. gr. Stefnandi telur samninginn bersýnilega ósanngjarnan auk þess sem engin rök hafi verið færð fyrir því af hverju stefnandi átti að gefa eftir hluta eigna sinna. Auk þess bendir stefnandi á, að stefndi hafi haft mun hærri tekjur en stefnandi á þessum tíma og að stefnandi hafi átt að framfæra barn aðila. Telur stefnandi því ójafna skiptingu eigna koma verulega niður á stöðu hennar. Stefnandi heldur því fram að staða aðila við samningsgerð hafi verið ójöfn þar sem stefndi hafði yfirhöndina í samskiptum aðila og hafði kúgað hana lengi andlega auk þess sem ástand stefnanda, vegna sjúkdóma og nauðsynlegrar lyfjatöku tengda því, svo og andlegt ástand hennar við samningsgerðina, hafi verið með þeim hætti að hún hafi ekki verið hæf til þess að gera fjárhagslegar skuldbindingar og skilja afleiðingar þeirra. Telur stefnandi að stefndi hafi þannig notað sér bágindi stefnanda við samningsgerðina til að skapa sér yfirburðastöðu.
Krafa stefnanda um að stefndi greiði skuld að fjárhæð 1.607.274 krónur er byggð á 103. gr. laga nr. 31/1993, helmingaskiptareglu hjúskaparlaga þar sem kemur fram að hvor aðili eigi tilkall til helmings úr skírri hjúskapareign hins nema annað leiði af ákvæðum laga. Krafan sundurliðast þannig: Heildareign búsins á þeim tíma er skipti fóru fram, að frádregnum skuldum, nam 5.780.548 krónur. Telur stefnandi sig eiga rétt á helmingi þeirrar fjárhæðar eða 2.890.275 krónur. Stefnandi hafi fengið 1.400.000 króna greiðslu frá stefnda samkvæmt ákvæðum skilnaðarsamnings en tekið á sig skuldir að fjárhæð 180.000 krónur og séu eftirstöðvar því 1.670.275 krónur. Í útreikningum stefnanda sé ekki reiknað með veðskuld á 5. veðrétt á fasteigninni þar sem stefnandi telji þá skuld vera til komna eftir að samvistarslit áttu sér stað og að stefndi hafi stofnað til skuldarinnar til að geta greitt stefnanda umsamda greiðslu samkvæmt skilnaðarsamningi og teljist hún því ekki með skuldum búsins. Telur stefnandi þessa veðskuld minnka heildareign búsins, þar sem skuldin var talin til búskulda í skilnaðarsamningi.
Varakrafa stefnanda er byggð á því, að við útreikninga á eignum og skuldum búsins sé lán að fjárhæð 1.450.000 krónur á 5. veðrétti á fasteigninni Sunnubraut 9 tekið með við útreikning. Sé þá heildareign búsins 4.330.549 krónur og helmingurinn af því eign stefnanda að frádreginni þeirri fjárhæð er stefndi hafði greitt stefnanda auk þess sem þær skuldir sem stefnandi tók á sig séu teknar með í reikninginn. Eftirstöðvar nemi þá 945.274 krónur er stefndi skuldar stefnanda. Við útreikninga stefnanda er gert ráð fyrir því að fasteignin sé 9.700.000 króna virði og bifreiðin 1.000.000 króna virði.
III.
Af hálfu stefnda er byggt á því að samningur aðila um skilnaðarkjör sé bindandi og engar þær aðstæður hafi komið upp síðar né verið til staðar við gerð samningsins sem geri það að verkum að víkja eigi frá meginreglum íslensks réttar um skuldbindingargildi samninga. Telur stefndi að stefnanda hafi verið gerð fyllilega grein fyrir því að ekki væri farið eftir helmingaskiptareglu hjúskaparlaga enda komi það skýrt fram í 5. gr. skilnaðarsamningi aðila. Stefndi neitar því að samningurinn hafi verið skrifaður að forskrift stefnda, enda komi fram í gögnum málsins að uppkast að skiptum hafi verið skrifað af stefnanda.
Stefndi mótmælir því að stefnandi hafi verið í svo slæmu ástandi vegna sjúkdóms eða lyfjagjafar að hún hafi ekki getað gert bindandi samning. Telur stefndi engin framlögð gögn stefnanda staðfesta það auk þess sem stefnandi hafi verið í fullri vinnu sem krafðist mikillar námkvæmni á þeim tíma sem skilnaðurinn fór fram.
Stefndi mótmælir þeirri málsástæðu stefnanda að skilnaðarsamningur aðila hafi verið bersýnilega ósanngjarn og að þrátt fyrir að vikið sé frá helmingaskiptareglu þá leiði það eitt og sér ekki til bersýnilegrar ósanngjarnar niðurstöðu. Stefndi byggir á því að samningurinn sé alls ekki ósanngjarn, og að minnsta kosti ekki bersýnilega ósanngjarn, en með því orðalagi telur stefndi löggjafann hafa gefið vísbendingu um þær ströngu kröfur sem gera verði í þessu tilliti.
Því er mótmælt að stefnandi hafi gert sennilegt eða sannað að skilyrðum 36. eða 31. gr. samningalaga fyrir ógildingu samnings aðila sé fullnægt en öllum sjónarmiðum í þá veru, meðal annars um verri stöðu stefnanda, sé mómælt sem ósönnuðum enda telur stefndi þær vera rangar.
Stefndi byggir á því til stuðnings aðalkröfu sinni og sjálfstætt að málið sé höfðað of seint. Frestur samkvæmt 95. gr. hjúskaparlaga hafi byrjað að líða í tilviki aðila þessa máls, um leið og leyfisbréf til skilnaðar að borði og sæng var gefið út eða í síðasta lagi ári síðar, sbr. meðal annars 45. gr. og 2. mgr. 36. gr. laga nr. 31/1993. Fresturinn hafi því verið liðinn 16. desember 1999 eða í síðasta lagi rúmu ári seinna. Ef fallist sé á að frestur samkvæmt 2. mgr. 95. gr. sé liðinn telji stefndi engu að síður ómögulegt að beita reglum 31. og 36. gr. laga nr. 7/1936 vegna tómlætis. Stefnandi hafi fyrst lýst kröfum sínum í ársbyrjun 1999 og hafi málatilbúnaður lítið breyst síðan þá og hefði verið hægur vandi að stefna málinu þegar árið 1999. Telur stefndi að sú staðreynd hljóti að leiða til þess að kröfur stefnanda njóti ekki lengur lögverndar sökum tómlætis, ef þær einhvern tíman áttu sér stoð.
Stefndi bendir á að fullyrðingar stefnanda um fjárhæðir í málinu, sem fái ekki beina stoð í skilnaðarsamningnum, séu byggðar á óstaðfestum fullyrðingum. Engin gögn styðji með óyggjandi hætti hvert markaðsvirði fasteignarinnar hafi verið við undirskrift samningsins en samkvæmt kaupsamningi frá 9. maí 1997 hafi kaupverð húsins verið 8.000.000 krónur og telur stefndi að krafa stefnanda um að markaðsvirði eignarinnar hafi verið 9.700.000 krónur við undirskrift skilnaðarsamnings sé óraunhæf. Einnig telur stefndi að bifreiðin hafi aðeins verið 900.000 króna virði við undirskrift en ekki 1.000.000 krónur líkt og stefnandi heldur fram. Að auki viðurkennir stefndi ekki að lán með 5. veðrétt hafi verið tekið til að greiða stefnanda umsamda fjárhæð við undirskrift skilnaðarsamnings og bendir á að ekkert sé því til sönnunar.
Stefndi mótmælir sérstaklega dráttarvaxtakröfu stefnanda en hann telur kröfuna ekki standast og þá einkum og sér í lagi upphafstíma dráttarvaxta auk þess sem vextir séu fyrndir að stærstum hluta.
Vísar stefndi til meginreglna samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og frelsi til að ákveða efni samnings. Einnig er vísað til hjúskaparlaga nr. 31/1993, einkum XIV. og VI. kafla laganna.
IV.
Kröfu sína um ógildingu hjónaskilnaðarsamningsins byggir stefnandi einkum á 95. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Í greinargerð með lögum nr. 31/1991 segir m.a. um 95. gr. laganna að lagagreinin sé að nokkru leyti sambærileg við 54. gr. laga nr. 60/1972. Í 2. mgr. 95. gr. séu skorður reistar við því hvenær mál út af ógildingu samnings og sé þar endurtekin regla 2. og 3. mgr. fyrrnefndu 54. gr. laga nr. 60(/1972, þar á meðal um upphaf frests. Er í því sambandi vísað til dóms Hæstaréttar frá árinu 1984 á bls. 1085. Samkvæmt þeim dómi var sú niðurstaða héraðsdóms staðfest að málshöfðunarfrestur hefði verið liðinn, en frestur til málshöfðunar samkvæmt 54. gr. laga nr. 60/1972 hefði byrjað að líða frá útgáfu leyfis til skilnaðar að borð og sæng.
Málsaðilar undirrituðu samning sinn um skilnaðarkjör þann 16. desember 1998 og sama dag gaf sýslumaðurinn í Keflavík út leyfi til skilnaðar að borði og sæng. Þann dag byrjaði því eins árs frestur til höfðunar máls samkvæmt 2. mgr. 95. gr. laga nr. 31/1993 að líða og var fresturinn því löngu liðinn er stefnandi höfðaði mál þetta. Kemur því ekki til álita að byggja kröfur stefnanda á 2. mgr. 95. gr. hjúskaparlaga.
Stefnandi ber sönnunarbyrði fyrir því að samningurinn hafi verið bersýnilega ósanngjarn. Stefnandi hefur ekki sýnt fram á með óyggjandi hætti að stefndi hafi tekið lán að upphæð 1.450.000 krónur til þess að greiða stefnanda né að markaðsvirði fasteignarinnar að Sunnubraut 9 hafi farið úr 8.000.000 króna í 9.700.000 króna frá þeim tíma er aðilar málsins keyptu fasteignina þar til þau skrifuðu undir skilnaðarsamninginn. Að auki hefur ekki verið sýnt fram á að ástand stefnanda við undirskrift hafi verið slíkt að hún hafi ekki verið hæf til að gangast undir fjárhagslegar skuldbindingar. Að auki tók stefnandi fram við skýrslutöku í aðalmeðferð að hún hafi vitað af helmingaskiptareglu hjúskaparlaga og að hún hafi átt rétt á helmingi búsins og að í samningnum væri verið að víkja frá helmingaskiptareglunni.
Stefnandi hefur samkvæmt framansögðu ekki sýnt fram á að skilnaðarsamningur aðila hafi verið svo ósanngjarn að ógilda beri hann á grundvelli reglna fjármunaréttarins um ógilda löggerninga, sérstaklega III. kafla samningalaga nr. 7/1936 með síðari breytingum, einkum 36. gr., svo og 31. gr. laganna. Ber því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda
Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, samtals 405.146 krónur, þar með talin þóknun lögmanns stefnanda, Hjördísar Harðardóttur hdl., 369.765 krónur að meðtöldum 24,5 % virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.
Dóm þennan kveður upp Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari
DÓMSORÐ
Stefndi, Sigurjón Sveinsson, er sýkn af kröfum stefnanda, Jóhönnu Björnsdóttur, í máli þessu.
Stefnandi greiði stefnda 250.000 krónur í málskostnað.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin þóknun talsmanns stefnanda, Hjördísar Harðardóttur hdl., 369.765 krónur, greiðist úr ríkissjóði.