Hæstiréttur íslands
Mál nr. 82/2015
Lykilorð
- Þjófnaður
- Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna
- Akstur sviptur ökurétti
- Ávana- og fíkniefni
- Sakhæfi
|
|
Fimmtudaginn 17. desember 2015. |
|
Nr. 82/2015.
|
Ákæruvaldið (Daði Kristjánsson saksóknari) gegn X (Kristján Stefánsson hrl.) |
Þjófnaður. Akstur undir áhrifum áhrifum ávana- og fíkniefna. Akstur sviptur ökurétti. Ávana- og fíkniefni. Sakhæfi.
Með dómi héraðsdóms var X sakfelldur fyrir brot gegn umferðarlögum, lögum um ávana- og fíkniefni og almennum hegningarlögum. Var refsing hans ákveðin 8 mánaða fangelsi auk þess sem hann var sviptur ökurétti ævilangt m.a. með vísan til sakarferils hans. Við meðferð málsins fyrir Hæstarétti var aflað matsgerðar tveggja geðlækna þar sem fram kom að X hefði verið sakhæfur í skilningi 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er hann framdi brotin en að ástand hans á matsdegi væri þannig komið að refsing myndi ekki bera árangur, sbr. 16. gr. sömu laga. Að virtum þeim gögnum sem fyrir lágu í málinu þótti áðurgreind 1. mgr. 16. gr. hins vegar ekki standa því í vegi að X yrði dæmd refsing í málinu og var þá sérstaklega litið til þess að samkvæmt 22. gr. laga nr. 49/2005 um fullustu refsinga nytu fangar sambærilegrar heilbrigðisþjónustu og almennt gildir, auk þeirrar sérstöku heilbrigðisþjónustu sem lög og reglur um fanga segðu til um. Þá gæti Fangelsismálastofnun eftir 2. mgr. 15. gr. sömu laga heimilað að fangi væri vistaður um stundarsakir eða allan refsitímann á heilbrigðis- eða meðferðarstofnun, svo sem gert hafði verið áður er X afplánaði annan refsidóm sem hann hafði hlotið. Var héraðsdómur því staðfestur um sakfellingu og refsingu X.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 26. janúar 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar héraðsdóms.
Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing hans verði milduð.
I
Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru 11. nóvember 2014 fyrir þjófnaðarbrot 26. og 27. júní 2014 og akstur 16. ágúst sama ár undir áhrifum ávana- og fíkniefna og sviptur ökurétti og að hafa haft fíkniefni í vörslum sínum. Ákærði játaði brot sín skýlaust við þingfestingu málsins 9. desember 2014 og var farið með það samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Með dómi 18. sama mánaðar var ákærði dæmdur í átta mánaða fangelsi, til sviptingu ökuréttar ævilangt og til að sæta upptöku á fíkniefnum, auk þess sem honum var gert að greiða skaðabætur og allan sakarkostnað málsins.
Með ákæru 16. mars 2015 voru ákærða gefin að sök brot gegn umferðarlögum nr. 50/1987, lögreglulögum nr. 19/1996 og almennum hegningarlögum nr. 19/1940 með því að hafa aðfaranótt 2. október 2013 ekið bifreið, sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna á tilgreindri götu í Hafnarfirði, án þess að sinna stöðvunarmerkjum lögreglu og áfram um götur Hafnarfjarðar, þar sem ákærði ók gegn akstursstefnu. Hafi ákærði þannig raskað umferðaröryggi á alfaraleið og stofnað á ófyrirleitinn hátt í augljósan háska lífi og heilsu nafngreinds farþega bifreiðarinnar, svo og annarra vegfarenda, þar á meðal lögreglumanna, sem reyndu að stöðva aksturinn. Eru brotin talin varða við 168. gr. og 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga og nánar tiltekin ákvæði lögreglulaga og umferðarlaga.
Þá var hann ákærður fyrir brot gegn umferðarlögum, lögreglulögum og almennum hegningarlögum með því að hafa aðfaranótt 5. desember 2013 ekið bifreið, sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna norður tilgreindrar götu í Hafnarfirði, án þess að sinna stöðvunarmerkjum lögreglu og við eftirför hennar ekið um götur Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Kópavogs gegn rauðu ljósi, yfir leyfilegum hámarkshraða, á allt að 120 km hraða á klukkustund, gegn akstursstefnu og meðal annars tvisvar um hringtorg og án þess að gefa nokkru sinni stefnuljós, allt þar til bifreiðin stöðvaðist á Reykjanesbraut á móts við tiltekna verslun í Kópavogi. Hafi ákærði þannig raskað umferðaröryggi á alfaraleið og stofnað á ófyrirleitinn hátt í augljósan háska lífi og heilsu nafngreinds farþega bifreiðarinnar, svo og annarra vegfarenda, þar á meðal lögreglumanna sem reyndu að stöðva aksturinn. Eru brotin talin varða við áðurnefnd ákvæði almennra hegningarlaga og tilgreind ákvæði lögreglulaga og umferðarlaga.
Að lokum var ákærði sakaður um gripdeild 8. október og 4. desember 2013, sbr. 245. gr. almennra hegningarlaga, og fjársvik samkvæmt 248. gr. sömu laga 6., 7. og 29. nóvember sama ár.
Málið var þingfest 29. apríl 2015, en við fyrirtöku þess 28. maí sama ár óskaði verjandi ákærða, í samráði við sækjanda, eftir að „fundinn sé flötur fyrir því að unnið sé heildstætt mat á geðhögum ákærða“ og var málinu frestað í því skyni. Máli þessu var frestað 8. júní 2015 í sama tilgangi.
II
Hinn 12. júní 2015 fór ákæruvaldið fram á að dómkvaddir yrðu tveir menn til að framkvæma geðrannsókn á ákærða, þar sem lagt yrði fyrir þá að leggja mat á eftirfarandi atriði:
1. Hvort ástand ákærða 26. og 27. júní og 16. ágúst 2014 hafi verið af þeim toga að hann hafi verið geðveikur, andlega vanþroskaður, haldinn hrörnun, rænuskerðingu, eða í öðru samsvarandi ástandi, að hann hafi verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum er hann vann verkin, sbr. 15. gr. almennra hegningarlaga.
2. Hvort ástand ákærða fyrrgreinda daga hafi verið af þeim toga að hann hafi verið andlega miður sín, svo sem vegna vanþroska, hrörnunar, kynferðislegs misþroska eða annarrar truflunar, en ástand hans hafi ekki verið á eins háu stigi og greinir í 15. gr. almennra hegningarlaga, og honum skuli þá refsað fyrir brotin ef refsing er talin geta borið árangur, sbr. 16. gr. sömu laga.
3. Geðrænt heilbrigði ákærða eftir 27. júní 2014 og hvort refsing geti borið árangur samkvæmt 16. gr. almennra hegningarlaga eins og hagir hans eru nú.
4. Ef talið yrði að 15. eða 16. gr. almennra hegningarlaga eigi við um ákærða, sbr. 1., 2. og 3. tölulið, hvort nauðsynlegt þyki vegna réttaröryggis að gerðar verði ráðstafanir til að varna því að háski verði af ákærða með því að hann sæti öruggri gæslu eða beita skuli vægari ráðstöfunum eða vistun á hæli, sbr. 62. og 63. gr. almennra hegningarlaga.
Hinn 19. júní 2015 voru dómkvaddir til að framkvæma hið umbeðna mat A geðlæknir og B sálfræðingur og skiluðu þeir matsgerð 24. júlí sama ár.
Í almennum niðurstöðum matsins sagði að um væri að ræða [...] ára einhleypan karlmann sem greindur væri með athyglisbrest og ofvirkni/hvatvísi. Hann hafi sjö til átta ára fengið viðeigandi meðferð á barna- og unglingageðdeild og síðar í [...]. Þá hafi hann af og til verið með aðsóknarhugmyndir með ofbeldishugmyndum í áranna rás, en það hafi alltaf verið talið tengjast neyslu, bæði kannabisefna og sérstaklega amfetamíns, en einnig hafi hann verið að nota stera. Í janúar 2015 hafi þessar hugmyndir komið fram án neyslu og ákærði þá fengið greininguna paranoid schizophrenia. Þroskapróf sýndu heildargreind í lágu meðallagi, eða um 85 stig, og mældist verkleg greind í meðallagi og málfarsleg greind í lágu meðallagi. Í geðgreiningarviðtali hafi komið fram geðrofseinkenni. Þá væri saga um endurtekið þunglyndi og dreifðan kvíða, áráttu/þráhyggju og ofsakvíða, en núna almennan kvíða. Hegðunarvandamál hafi verið fyrir hendi í lífi hans sem og andfélagsleg einkenni. Einnig uppfyllti hann viðmið fyrir fíkniefnaneyslu. Hann hafi dvalið um nokkurra mánaða skeið á sérhæfðri endurhæfingardeild og væri orðinn órólegur þar. Hann væri með takmarkað sjúkdómsinnsæi og væru framtíðarhugmyndir hans óljósar. Þá væri grunur um að hann væri að drekka áfengi í leyfum og neyta amfetamíns. Í matsgerðinni kom fram að ákærði hafi byrjað að reykja hass í [...] þegar hann var 14 ára og gert það „reglulega og daglega“ næstu þrjú árin þar á eftir. Þegar ákærði hafi verið 17 eða 18 ára hafi hann snúið aftur til Íslands og haldið áfram að reykja hass og drekka áfengi. Þá hafi hann neytt amfetamíns reglulega í mörg ár og á árinu 2014 hafi hann notað áfengi að minnsta kosti tvo til þrjá daga í viku, auk þess að reykja hass.
Um þau atriði, sem leitað var álits á, var það niðurstaða matsmanna að ekkert benti til þess að ákærði hafi á þeim dögum, sem í ákæru greinir, verið haldinn neinum þeim sjúkdómum eða ástandi, sem um ræðir í 15. gr. almennra hegningarlaga er gert hafi hann alls ófæran að stjórna gerðum sínum. Þá væri ekkert sem benti til þess að ákærði hafi áðurnefnda daga uppfyllt þau sjúkdómsatriði sömu lagagreinar, sem gert hafi hann algerlega óhæfan til að stjórna gerðum sínum og með vísan til 16. gr. sömu laga væri ekkert á þessum tíma sem útilokaði að refsing kynni að bera árangur ef sök sannaðist á hann. Á hinn bóginn komust matsmenn að þeirri niðurstöðu að miðað við ástand ákærða á matsdegi væru ekki líkur á að „refsing í formi fangelsisvistar“ gæti borið árangur, sbr. 16. gr. almennra hegningarlaga. Þá töldu þeir að ekki ætti að beita úrræðum 62. og 63. gr. laganna og „ætti meðferð á geðdeild að duga“.
Þá liggur fyrir í málinu vottorð C geðlæknis frá 9. desember 2015. Sagði þar að um væri að ræða [...] ára gamlan mann með alvarlegan geðrænan vanda, sem legið hafi á sérhæfðri endurhæfingargeðdeild frá 17. nóvember 2015. Hann hafi sinnt meðferðinni ágætlega og þiggi lyfjameðferð og aðra meðferð. Þá væri hann með þokkalegt innsæi í sjúkdóm sinn og væru góðar líkur á því að hægt væri að halda einkennum geðklofa niðri þiggi hann áfram meðferð og haldi sig frá vímuefnum. Líklegt væri að fangelsisvist myndi hafa neikvæð áhrif á geðlag hans og meðferð, sem gæti leitt til þess að geðklofi og neysluvandi versnaði. Væri það mat læknisins að æskilegt væri að ákærði dveldi á sérhæfðri endurhæfingargeðdeild í nokkra mánuði og yrði sá tími nýttur til að stilla betur inn lyfjameðferð, en eftir útskrift þyrfti hann að vera í reglulegu sambandi við meðferðaraðila sína og þiggja forðasprautu með geðrofslyfi á göngudeild.
III
Eins og rakið hefur verið komust fyrrgreindir matsmenn að þeirri niðurstöðu að ákærði hafi verið sakhæfur í skilningi 15. gr. almennra hegningarlaga þegar hann framdi þau brot sem hann var sakfelldur fyrir í héraði. Þeir töldu á hinn bóginn að ástand ákærða á matsdegi væri þannig komið að fangelsisrefsing gæti ekki borið árangur, sbr. 16. gr. sömu laga.
Að virtum þeim gögnum, sem nú liggja fyrir, þykja ákvæði 1. mgr. 16. gr. almennra hegningarlaga ekki standa því í vegi að ákærða verði dæmd refsing í máli þessu. Verður þá til þess að líta að samkvæmt 22. gr. laga nr. 49/2005 um fullustu refsinga skulu fangar njóta sambærilegrar heilbrigðisþjónustu og almennt gildir, auk þeirrar sérstöku heilbrigðisþjónustu sem lög og reglur um fanga segja til um. Jafnframt getur Fangelsismálastofnun eftir 2. mgr. 15. gr. sömu laga heimilað að fangi sé vistaður um stundarsakir eða allan refsitímann á heilbrigðis- eða meðferðarstofnun, svo sem var gert var með því að ákærði afplánaði 22. janúar til 1. mars 2015 að langmestu leyti refsidóm sem hann hlaut 28. febrúar 2012 á geðdeild. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsenda héraðsdóms verður hann staðfestur.
Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, og útlagðan kostnað verjandans, allt eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, X, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 1.252.655 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur, og útlagðan kostnað verjandans, 22.638 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 18. desember 2014.
Mál þetta, sem var dómtekið 9. desember 2014, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, útgefinni 11. nóvember 2014, gegn X, kt. [...], [...], [...], fyrir umferðar-, fíkniefna og hegningarlagabrot, með því að hafa:
1. Laugardaginn 16. ágúst 2014 í Reykjavík ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 140 ng/ml) um Fákafen og að bifreiðastæði Hagkaups í Skeifunni þar sem lögregla hafði afskipti af honum og fyrir að hafa í kjölfar handtöku, á lögreglustöðinni við Hverfisgötu, neitað að veita atbeina sinn við rannsókn meints umferðarlagabrots með því að neita að láta í té þvagsýni og fyrir að hafa við handtöku haft í vörslum sínum 1,92 g af amfetamíni sem lögregla fann við leit og lagði hald á. Mál 007-2014-47662. Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr., 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. a., og 3. mgr., sbr. 2. mgr., 47. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006, 6. gr. laga nr. 66/2006 og 3. gr. laga nr. 24/2007 og 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.
2. Fimmtudaginn 26. júní í Borgarnesi, í þjónustustöð Olís við Brúartorg, í félagi við 2 óþekkta aðila, stolið borðstandi með happaþrennum að samtals söluandvirði 19.100 kr. Mál 013-2014-1087. Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
3. Föstudaginn 27. júní á Akureyri, úr verslun Vínbúðarinnar (ÁTVR) við Hólabraut 16, stolið Camus Vs Elegance koníaksflösku að söluandvirði 2.998 kr. Mál 024-2014-3959. Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. gr. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006 og jafnframt er þess krafist að framangreind fíkniefni, sem hald var lagt á, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/ 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 23/2001.
Einkaréttarkröfur:
Í máli 024-2014-3959 gerir D, hdl., f. h. Áfengis og tóbaksverslunar ríkisins, kt. [...], hér eftir nefndur kröfuhafi að ákærði verði dæmdur til að greiða kröfuhafa skaðabætur að fjárhæð 2.998 krónur auk vaxta skv. 8. gr. l. nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð,- frá 27. júní 2014 til 22. ágúst 2014. Eftir það er krafist dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. sbr. 9. gr. laganna til greiðsludags. Að auki er krafist lögmannskostnaðar að mati dómsins.
Í máli 013-2014-1087 gerir E, hrl., f.h. Olíuverslunar Íslands hf., kt. [...], hér eftir nefndur kröfuhafi, að ákærði verði dæmdur til að greiða kröfuhafa 19.100 krónur auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá tjónsdegi þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Jafnframt er krafist málskostnaðar fyrir héraðsdómi að mati dómsins.
Ákærði hefur fyrir dómi skýlaust játað brot sitt og var því farið með málið samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjandi og verjandi, höfðu tjáð sig stuttlega um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. Fram kom hjá ákærða að hann krefðist vægustu refsingar. Á það var bent af hálfa ákærða að ekki kæmi fram í gögnum málsins að sakarkostnaður vegna blóðtökuvottorðs hafi verið greiddur af lögreglu og því væri óeðlilegt að ákæruvaldið væri að krefjast þess að hann greiddi þann kostnað.
Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
Ákærði er fæddur árið [...]. Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur honum níu sinnum verið gerð refsing frá árinu 2010. Þann 3. júní 2010 gekkst ákærði undir þrjár sáttir með greiðslu sekta. Þá fyrstu fyrir ölvunarakstur og akstur án ökuréttinda, aðra fyrir akstur sviptur ökuréttindum og þriðju fyrir ölvunarakstur og akstur sviptur ökuréttindum. Verða framangreindar sáttir teknar saman sem fyrstu brot hans gegn ákvæðum 45. gr. og 48. gr. umferðarlaga. Þann 20. október 2010 var ákærði dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi til tveggja ára fyrir brot gegn 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga. Þann 9. maí 2011 gekkst hann undir sátt með greiðslu sektar fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Þann 12. janúar 2012, var framangreindur dómur frá 20. október 2010, dæmdur upp og ákærði dæmdur í 75 daga fangelsi, þar af 30 daga skilorðsbundnir í 3 ár, fyrir brot gegn 45. gr. a., 48. gr. umferðarlaga og gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Þann 10. maí 2012 var skilorðsdómur frá 12. janúar 2012 dæmdur upp og ákærði dæmdur í 60 daga fangelsi fyrir brot gegn 45. gr. og 48. gr. umferðarlaga. Þann 18. september 2013 er ákærði dæmdur í 3 mánaða fangelsi skilorðsbundið í tvö ár fyrir auðgunarbrot og þann 28. febrúar 2014 er honum dæmdur hegningarauki, fangelsi í 45 daga fyrir brot gegn ákvæðum 45. gr. a. og 48. gr. umferðarlaga.
Samkvæmt þessu verða brot ákærða nú gegn ákvæðum 45. gr. og 48. gr. umferðarlaga, talin sem fimmtu brot hans gegn nefndum ákvæðum. Í dómaframkvæmd hefur refsing fyrir hvert ítrekað brot gegn 45. gr., 45. gr. a. og 48. gr. umferðarlaga, umfram fyrstu ítrekun, varðað þrjátíu daga fangelsi og hafa refsingar við ítrekanir eftir það, þyngst um sem nemur þrjátíu daga fangelsi.
Ákærði hefur með brotum gegn 244. gr. almennra hegningarlaga rofið framangreindan skilorðsdóm frá 18. september 2013. Verður sá dómur tekinn upp og brotin dæmd í einu lagi með vísan til 60., sbr. 77. gr. almennra hegningarlaga. Með hliðsjón af framansögðu og sakarferli ákærða er refsing ákærða nú ákveðin fangelsi í 8 mánuði. Ekki eru skilyrði til að skilorðsbinda refsinguna.
Með vísan til 101. og 102. gr. umferðarlaga er áréttað að ákærði skuli vera sviptur ökurétti ævilangt.
Ákærði hefur samþykkt bótakröfu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Verður hún því tekin til greina auk vaxta, svo sem greinir í dómsorði, og málskostnaðar að fjárhæð 32.630 krónur. Ákærði hefur samþykkt bótakröfu Olíuverslunar Íslands hf.. Verður hún því tekin til greina auk vaxta, svo sem greinir í dómsorði, og málskostnaðar að fjárhæð 32.630 krónur.
Ákærði hefur fallist á kröfu ákæruvalds um upptöku. Með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 verður hún tekin til greina.
Í 216., 2. mgr. 217. og 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er fjallað um sakarkostnað, en til hans falla óhjákvæmileg útgjöld vegna rannsóknar málsins. Blóðtökuvottorð ákærða telst til nefndra útgjalda og fyrir liggur að kostnaður vegna þess var 12.757 krónur. Í málinu liggur fyrir yfirlit um sakarkostnað eins og ráð er fyrir gert í framangreindum ákvæðum, en ekki gert það skilyrði að sakarkostnaðurinn hafi þegar verið greiddur.
Sakarkostnaður samkvæmt framlögðum yfirlitum sækjanda nemur 105.133 krónum og verður ákærða gert að greiða hann. Um annan sakarkostnað sem er þóknun skipaðs verjanda ákærða, fer svo sem í dómsorði greinir. Við ákvörðun þóknunar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Bogi Hjálmtýsson, héraðsdómari dæmir mál þetta.
D ó m s o r ð :
Ákærði, X, sæti fangelsi í átta mánuði.
Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt.
Ákærði greiði Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins 2.998 krónur auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. júní 2014 til 17. október 2014, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags og 32.630 krónur í málskostnað.
Ákærði greiði Olíuverslunar Íslands hf. 19.100 krónur auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. júní 2014 til 17. október 2014, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags og 32.630 krónur í málskostnað.
Ákærði sæti upptöku á 1,92 g af amfetamíni.
Ákærði skal greiða allan sakarkostnað málsins, 228.123 krónur, þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar héraðsdómslögmanns, 122.990 krónur.