Hæstiréttur íslands
Mál nr. 363/2016
Lykilorð
- Umferðarlög
- Akstur án ökuréttar
- Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna
- Ökuréttarsvipting
- Frávísunarkröfu hafnað
- Dráttur á máli
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Greta Baldursdóttir hæstaréttardómari og Davíð Þór Björgvinsson og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 6. maí 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst staðfestingar héraðsdóms.
Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi en til vara að sér verði ekki gerð refsing.
I
Ákærða eru í máli þessu gefin að sök brot gegn 1. mgr. 48. gr. og 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga nr. 50/1987 með því að hafa 23. júní 2012 ekið bifreið án ökuréttinda og verið óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa tetrahýdrókannbínólsýru. Héraðsdómur í málinu var fyrst kveðinn upp 30. apríl 2013 og ákærði sýknaður af broti gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga en sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 48. gr. sömu laga og dæmdur til greiðslu 5.000 króna sektar. Dóminum var áfrýjað til Hæstaréttar. Með dómi réttarins 28. nóvember 2013 í máli nr. 395/2013 var héraðsdómur ómerktur og málinu vísað heim í hérað, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, þar sem rétturinn taldi að mat héraðsdómara á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi kynni að vera rangt svo einverju skipti um úrslit málsins. Aðalmeðferð málsins fór aftur fram í héraði 6. júní 2014 fyrir sama dómara og dæmt hafði málið áður. Með dómi héraðsdóms 1. ágúst 2014 var ákærði sakfelldur fyrir bæði brotin og dæmdur í 30 daga fangelsi. Dóminum var áfrýjað til Hæstaréttar sem ómerkti dóm héraðsdóms 18. júní 2015 í máli nr. 568/2014 og vísaði málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008, þar sem aðeins einn dómari hafði dæmt málið í héraði. Málið var dæmt á ný með fjölskipuðum dómi héraðsdóms 28. apríl 2016. Var ákærði sakfelldur fyrir þau brot sem honum voru gefin að sök og refsing hans ákveðin með hliðsjón af 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, fangelsi í 30 daga. Þá var ákærði sviptur ökurétti ævilangt.
II
Ákærði færir þau rök fyrir kröfu sinni að málinu verði vísað frá héraðsdómi að Hæstiréttur hafi með dómi 28. nóvember 2013 í máli nr. 395/2013 í raun endurmetið sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir héraðsdómi án þess að ákærði og vitni hafi gefið skýrslu hér fyrir dómi. Fari það í bága við 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008. Enn fremur brjóti 2. mgr. og 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 gegn meginreglunni um milliliðalausa sönnunarfærslu fyrir dómi, en sú regla sé varin af 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. og d. lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Eins og rakið er í úrskurði héraðsdóms 23. nóvember 2015, þar sem frávísunarkröfu ákærða var hafnað, var sama álitaefni uppi í dómi Hæstaréttar 29. nóvember 2012 í máli nr. 429/2012. Með vísan til forsendna úrskurðarins og fyrrnefnds dóms Hæstaréttar er staðfest niðurstaða úrskurðarins um að hafna frávísunarkröfu ákærða.
III
Með vísan til forsendna héraðsdóms er staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða og heimfærslu brota hans til refsiákvæða.
Eins og rakið hefur verið hefur Hæstiréttur tvisvar ómerkt héraðsdóm í máli þessu, en brotin voru framin 23. júní 2012 og málið þingfest 13. desember sama ár. Langur tími er því liðinn frá því að ákærði framdi brot þau sem mál þetta lýtur að og verður honum ekki kennt um þann drátt sem orðið hefur á að úr málinu verði endanlega leyst fyrir dómi. Samkvæmt þessu verður ákærða ekki gerð sérstök refsing í máli þessu en ákvæði héraðsdóms um sviptingu ökuréttar ákærða og sakarkostnað verða staðfest með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms.
Með vísan til 1. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008 verður allur áfrýjunarkostnaður málsins felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærða, Þóri Jónssyni, er ekki gerð sérstök refsing í máli þessu.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað og ökuréttarsviptingu ákærða skulu vera óröskuð.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 28. apríl 2016.
Mál þetta, sem þingfest var þann 13. desember 2012 og dómtekið að lokinni aðalmeðferð þann 1. apríl 2016, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Selfossi, dagsettri 12. nóvember 2012, á hendur ákærða, Þóri Jónssyni, kt. [...], til heimilis að Álfkonuhvarfi 2, Kópavogi
„fyrir umferðarlagabrot
með því að hafa, síðdegis laugardaginn 23. júní 2012 ekið bifreiðinni [...] vestur Biskupstungnabraut skammt frá Skálholtsvegi í Bláskógabyggð, án þess að hafa gild ökuréttindi og óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa tetrahýdrókannabínólsýru.
Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 48. gr. og 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. nefndra umferðarlaga.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til að sæta sviptingu
ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987 með áorðnum breytingum og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Mál þetta, sem er nú til meðferðar héraðsdóms í þriðja sinn, var eins og áður segir þingfest 13. desember 2012. Aðalmeðferð málsins fór fram 5. mars 2013. Dómur í málinu var kveðinn upp 30. apríl 2013 og var ákærði sýknaður af broti gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, en sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 48. gr. sömu laga og dæmdur til greiðslu 5.000 króna sektar. Dómi þessum var áfrýjað til Hæstaréttar Íslands. Með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 395/2013, uppkveðnum 28. nóvember 2013, var hinn áfrýjaði héraðsdómur ómerktur og málinu vísað heim í hérað, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008.
Þann 6. júní 2014 fór aðalmeðferð málsins fram í héraði í annað skipti. Með dómi þann 1. ágúst sama ár var ákærði dæmdur í 30 daga fangelsi. Dómi héraðsdóms var áfrýjað til Hæstaréttar Íslands. Með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 568/2014, uppkveðnum 18. júní 2015, var hinn áfrýjaði dómur ómerktur sem og meðferð málsins frá og með þinghaldi 6. júní 2014. Var málinu á ný vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008, og barst það héraðsdómi með bréfi ríkissaksóknara, dagsettu 9. júlí 2015, mótteknu 31. sama mánaðar. Við málinu tóku neðangreindir þrír héraðsdómarar en enginn þeirra hefur farið með mál þetta áður.
Í þinghaldi 11. nóvember 2015 fór fram munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu ákærða. Með úrskurði dómsins þann 23. sama mánaðar var frávísunarkröfu ákærða hafnað.
Fresta varð aðalmeðferð málsins sem vera átti þann 15. desember 2015, þar sem ákærði var erlendis. Þar sem ákærði mætti ekki við upphaf boðaðrar aðalmeðferðar þann 2. febrúar sl., varð aftur að fresta málinu. Þann 1. apríl sl., mætti ákærði við upphaf aðalmeðferðar og var málið dómtekið að henni lokinni.
Ákæruvaldið gerir þær kröfur sem í ákæru greinir.
Ákærði krefst þess að honum verði ekki gerð sérstök refsing vegna aksturs án gildra ökuréttinda, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Ákærði krefst þess að verða sýknaður af broti gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga nr. 50/1978, en til vara að honum verði ekki gerð sérstök refsing. Þá krefst verjandi ákærða málsvarnarlauna.
Málavextir
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu stöðvaði A lögreglumaður akstur bifreiðarinnar [...], sem ákærði ók í umrætt sinn vestur Biskupstungnabraut skammt frá Skálholtsvegi við upplýsingaskilti sem þar er, og hafði þar tal af ákærða. Kom í ljós að ákærði, sem framvísaði ökuskírteini, átti eftir að endurtaka ökupróf, en hann hafði verið sviptur ökurétti. Þá samþykkti ákærði að gefa þvagsýni á vettvangi vegna gruns um akstur undir áhrifum ólöglegra ávana- og fíkniefna, eins og segir í frumskýrslu lögreglu. Þar sem þvagsýnið sýndi jákvæða svörun við THC við prófun með ToxCup var ákærði handtekinn og fluttur á lögreglustöðina á Selfossi þar sem tekið var úr honum blóðsýni í þágu rannsóknar málsins. Í matsgerð rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, dagsettri 11. júlí 2012, vegna rannsókna blóð- og þvagsýnis úr ákærða kemur fram að tetrahýdrókannabínólsýra hafi fundist í þvagi. Orðrétt segir í matsgerðinni: „Í þvaginu fannst tetrahýdrókannabínólsýra. Tetrahýdrókannabínól var ekki í mælanlegu magni í blóðinu. Tetrahýdrókannabínólsýra er í flokki ávana- og fíkniefna, sem óheimil eru á íslensku forráðasvæði. Ökumaður telst því hafa verið óhæfur til þess að stjórna ökutæki örugglega þegar blóð- og þvagsýnin voru tekin, sbr. 2. mgr. 45. gr. a umferðarlaga nr. 50/1987 m. síðari breytingum.“ Í skýrslutöku hjá lögreglu sama dag kvaðst ákærði ekki hafa neytt fíkniefna í mörg ár og þar af leiðandi hafi hann ekki fundið fyrir áhrifum við aksturinn.
Ákærði óskaði ekki eftir að gefa skýrslu við upphaf aðalmeðferðar málsins þann 1. apríl sl., og vísaði til yfirlýsingar sem hann gaf við upphaf þinghaldsins þar sem kom fram að hann ætlaði ekki að láta mál þetta til sín taka fyrir dóminum að öðru leyti en hann hafi þá þegar gert, þ.e. með því að krefjast frávísunar málsins frá héraðsdómi. Aðspurður um afstöðu til ákæru viðurkenndi ákærði að hafa ekið bifreiðinni [...] í umrætt sinn án þess að hafa gild ökuréttindi. Hins vegar neitaði ákærði að hafa í umrætt sinn verið óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa tetrahýdrókannbínólsýru.
Vitnin A lögreglumaður og deildarstjórarnir B og C gáfu skýrslu fyrir dómi. Framburður vitnanna fyrir dómi verður ekki rakinn sérstaklega, en vikið að honum í niðurstöðukafla að því leyti sem þörf krefur til úrlausnar málsins.
Niðurstaða
Ákærði hefur viðurkennt að hafa ekið bifreiðinni [...] í umrætt sinn án þess að hafa gild ökuréttindi. Hins vegar neitaði ákærði að hafa í umrætt sinn verið óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa tetrahýdrókannbínólsýru. Að öðru leyti tjáði ákærði sig ekki um sakarefnið eins og áður greinir.
Vitnið A lögregluvarðstjóri, sem stöðvaði akstur ákærða við hefðbundið umferðareftirlit á Biskupstungnabraut klukkan 17:22 umræddan dag, kvaðst hafa verið ein við störf umrætt sinn. Ákærði hafi verið kurteis og samvinnuþýður. Vitnið kvaðst ekki minnast þess að ákærði hafi borið þess merki að vera undir áhrifum umrætt sinn. Með ákærða í bifreiðinni hafi verið kona og hafi hún beðið inni í bifreið meðan ákærði fór bak við upplýsingaskilti á vettvangi þar sem hann gaf þvagsýni. Vitnið kvaðst hafa setið í lögreglubifreiðinni meðan á þessu stóð og haft yfirsýn yfir vettvang. Enginn annar hafi verið úti þegar ákærði veitti þvagsýni og hafi framangreindur farþegi setið inni í bifreiðinni eins og áður segir. Þvagsýnið, sem ákærði gaf á vettvangi, hafi svarað jákvætt gagnvart THC og því hafi ákærði verið fluttur á Selfoss til blóðsýnatöku. Vitnið upplýsti að ákærða hafi verið gefinn kostur á að gefa þvagsýni á vettvangi að hans ósk vegna fjarlægðar á lögreglustöð. Vitnið kvaðst ekki minnast þess að ákærði hafi gefið aftur þvagsýni á lögreglustöðinni. Aðspurt um ástæðu þess að á þvagtökuvottorði, sem vitnið undirritaði, sé tilgreind tímasetningin 17:47, taldi vitnið líklega skýringu þess vera þá að annar lögreglumaður hafi fært þvagtökuvottorðið inn í skráningarkerfi lögreglu á framangreindum tíma. Þá geti það komið fyrir að ef ekki sé gefið nægilegt magn af þvagi í prufuglas þurfi viðkomandi að gefa aftur þvagsýni, en vitnið mundi ekki hvort svo hafi verið í tilviki ákærða.
Vitnið B, lyfjafræðingur og deildarstjóri hjá Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, sem kvaðst hafa rannsakað blóð- og þvagsýni í máli þessu, staðfesti matsgerð dagsetta 11. júlí 2012. Tetrahýdrókannabínólsýra hafi verið mæld í þvagi og komið í ljós að mjög hátt magn þessa efnis hafi verið í þvagprufu, nánar tiltekið um eða yfir 1000 ng/ml sem hafi verið langt yfir hæsta viðmiði eða staðli sem notuð séu við mælingar sem þessar. Að baki þessari niðurstöðu hafi verið beitt mörgum mæliaðferðum og magn tetrahýdrókannabínólsýru í þvagi hafi verið svo mikið að fullvíst sé að viðkomandi hafi neytt viðkomandi efnis fyrir akstur. Nánar tiltekið kvað vitnið svörun í umræddu þvagsýni hafa verið tvöfalt hærri en hæsti staðall, sem sé 500 ng/ml. Fram kom að ef tetrahýdrókannabínólsýra í þvagi mælist 25 ng/ml sé viðkomandi látinn njóta vafans og gefið út að kannabínólsýra hafi ekki mælst í þvagi. Ef magn fíkniefnisins í blóði mælist undir viðmiðinu 0,5 ng/ml séu ekki framkvæmdar frekari mælingar á blóðsýninu. Þannig hafi háttað til hvað varðar blóðsýni í þessu máli.
Aðspurð kvað vitnið algjörlega útilokað að það magn sem fannst í umræddu þvagsýni, þ.e um eða yfir 1000 ng/ml, hafi getað stafað af óbeinum reykingum. Það styðji rannsóknir sem gerðar hafi verið á óbeinum reykingum í þröngu rými þar sem magn tetrahýdrókannabínólsýru í þvagi hafi í hæsta lagi mælst í kringum 10 ng/ml. Vitnið upplýsti að tetrahýdrókannabínól safnist fyrir í fituvef líkamans. Þegar í hlut eigi einstaklingur sem reykir einu sinni geti það tekið allt að þremur dögum að skiljast úr úr líkamanum í formi sýru (þ.e. í vatnsleysanlegu formi með þvagi). Reyki einstaklingur af og til þá geti það tekið viku til 10 daga að skiljast út úr líkamanum. Hafi verið um reglulegar reykingar að ræða þá taki þetta ferli mánuð. Ferlið að þessu leyti þegar í hlut eigi miklir reykingarmenn geti tekið allt að tvo mánuði. Vitnið kvað öll gögn varðandi mælingu á sýnum í málum sem þessu vera varðveitt, enda allar niðurstöður og skjöl að baki mælingum geymd lengur en sjö ár. Kvaðst vitnið hafa yfirfarið gögn að baki matsgerð þeirri sem hér um ræðir áður hún kom fyrir dóm við aðalmeðferð málsins.
Vitnið C, líffræðingur, doktor í lífefnafræði og deildarstjóri hjá Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, kvaðst á umræddum tíma, þ.e. í júlí 2012, hafa yfirfarið allar mælingar, rannsóknir og bakgögn sem legið hafi að baki matsgerð vitnisins B. Vitnið staðfesti að allar mælingar og rannsóknir vitnisins B hafi verið réttar. Að þeirri athugun lokinni hafi hún samþykkt matsgerðina með undirskrift sinni og staðfesti vitnið matsgerðina fyrir dómi. Niðurstaða mælinga hafi verið að tetrahýdrókannabínólsýra hafi mælst í þvagi en tetrahýdrókannabínól hafi ekki verið í mælanlegu magn í blóði, þ.e. hafi verið undir 0,5 ng/ml. Hins vegar hafi magn tetrahýdrókannabínólsýru í þvagi verið yfir hæsta staðli í þessu tilviki, þ.e. um eða yfir 1000 ng/ml en hæsta viðmið eða staðall sé 500 ng/ml. Ítrekað aðspurt kvað vitnið útilokað að það magn tetrahýdrókannabínólsýru sem hafi mælst í þvagsýni í máli þessu gæti stafað af óbeinum reykingum. Vísaði vitnið til sömu rannsókna og vitnið Bog kvað hæstu mælingar í slíkum rannsóknum hafa farið upp undir 25 ng/ml í mælingum í lokuðu rými. Kvaðst vitnið hafa yfirfarið gögn að baki matsgerðinni áður hún kom fyrir dóm.
Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. a umferðarlaga, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006, má enginn stjórna eða reyna að stjórna vélknúnu ökutæki ef hann er undir áhrifum ávana- og fíkniefna, sem bönnuð eru á íslensku yfirráðasvæði eftir lögum um ávana- og fíkniefni og reglugerðum settum á grundvelli þeirra. Samkvæmt 2. mgr. 45. gr. a umferðarlaga telst ökumaður vera undir áhrifum ávana- og fíkniefna og óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega ef efni af þeim toga sem um ræðir í 1. mgr. áðurnefndrar lagagreinar, mælist í blóði eða þvagi hans.
Með vísan til framburðar vitnisins A gaf ákærði þvagsýni á vettvangi í kjölfar afskipta vitnisins af akstri ákærða. Að mati dómsins komu fram viðhlítandi skýringar á tímasetningu þvagtökuvottorðs eins og rakið hefur verið hér að framan. Þá staðfesti vitnið að ákærði hafi verið einn þegar hann gaf sýnið bak við upplýsingaskilti á vettvangi og farþegi, sem hafi verið með ákærða í bifreiðinni, setið inni í bifreiðinni meðan á því stóð. Verður því lagt til grundvallar í máli þessu að þvagsýni nr. 64307, sem rannsakað var af starfsmönnum Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, hafi stafað frá ákærða.
Samkvæmt matsgerð Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði, sem vitnin og deildarstjórarnir B og C unnu og staðfestu fyrir dómi, leiddi rannsókn stofnunarinnar í ljós að tetrahýdrókannabínól var ekki í mælanlegu magni í blóði ákærða. Hins vegar fannst tetrahydrókannabínólsýra í þvagi ákærða en framangreint efni er meðal þeirra ávana- og fíkniefna sem bönnuð eru á íslensku yfirráðasvæði samkvæmt lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni og fylgiskjali I við reglugerð nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitskyld efni, eins og henni var breytt með reglugerð nr. 848/2002. Að virtum framburði vitnanna B og C, sem er í samræmi við rannsóknargögn málsins, er að mati dómsins framkomin lögfull sönnun þess að mælst hafi ávana- og fíkniefni í skilningi 1. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga í þvagi ákærða umrætt sinn og hafi ákærði því verið óhæfur til að stjórna umræddri bifreið örugglega. Þá þykir með vísan til þess mikla magns tetrakýdrókannbínólsýru sem mældist í þvagi ákærða í umrætt sinn, þ.e. um eða yfir 1000 ng/ml, hafið yfir skynsamlegan vafa að magn hins ólöglega fíkniefnis verði ekki rakið til óbeinna reykingar. Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og að virtri dómaframkvæmd Hæstaréttar við túlkun á ákvæði 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga, sbr. til dæmis dóma réttarins í málunum nr. 254/2008, 260/2008 og 351/2014, hefur ákærði gerst brotlegur við 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. a umferðarlaga nr. 50/1987. Með vísan til skýlausra játningar ákærða sem er í samræmi við önnur gögn málsins er að mati dómsins framkomin lögfull sönnun þess að að ákærði ók bifreiðinni [...] í umrætt sinn þá leið sem í ákæru greinir án þess að hafa gild ökuréttindi og þannig brotið gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga.
Samkvæmt sakavottorði ákærða gekkst hann með sátt þann 16. júní 2006 undir greiðslu 50.000 króna sektar og sviptingu ökuréttar í tvo mánuði frá 1. apríl sama ár fyrir brot gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga. Þá var hann þann 28. apríl 2008 dæmdur til greiðslu 180.000 króna sektar og sviptur ökurétti í tvö ár frá 15. júlí sama ár fyrir brot gegn 1. og 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga. Auk þessa hafði ákærði, þegar hann framdi brot þau sem eru til meðferðar í máli þessu, tvívegis hlotið fangelsisdóm vegna fíkniefnalagabrota og tvisvar verið gerð fésekt fyrir umferðarlagabrot. Á sakavottorði ákærða eru tilgreindir eftirtaldir dómar og sáttir eftir 23. júní 2012: Þann 10. apríl 2014 gekkst ákærði undir 160.000 króna sekt með viðurlagaákvörðun fyrir brot gegn 1. mgr., sbr. 3. mgr. 37. gr. og 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga. Þá var ákærði sviptur ökurétti í átta mánuði frá sama degi. Með dómi þann 10. júní 2015 var ákærði dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir akstur sviptur ökurétti og hraðakstursbrot. Loks var ákærði með dómi Hæstaréttar uppkveðnum 18. júní 2015 dæmdur í 550.000 króna sekt fyrir brot gegn 1. mgr., sbr. 3. mgr. 37. gr., 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. og 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a umferðarlaga og sviptur ökurétti í tvö ár frá 12. mars 2015 að telja.
Ákærði hefur unnið sér til refsingar samkvæmt 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga. Fíkniefnaakstursbrot það sem ákærði er sakfelldur fyrir í máli þessu er samkvæmt því sem að framan er rakið ítrekað öðru sinni. Að framangreindu virtu, sakaferli ákærða og dómvenju og með hliðsjón af 77. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 30 daga fangelsi. Þrátt fyrir að meðferð máls þessa fyrir dómstólum hafi, eins og áður er rakið, dregist verulega, þykja hvorki skilyrði til að fallast á varakröfu ákærða hvað fíkniefnaakstursbrotið varðar né fara gegn áralangri dómvenju við ákvörðun refsingar og sviptingu ökuréttar í málum sem þessu. Þá verður ákærði samkvæmt 1. mgr., sbr. 3. mgr. 101. gr. og upphafsákvæði 1. mgr. 102. gr. umferðarlaga sviptur ökurétti ævilangt frá uppkvaðningu dómsins að telja.
Með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 216. gr. sömu laga, skal ákærði greiða allan sakarkostnað, þ.m.t. útlagðan kostnað samkvæmt yfirliti lögreglu vegna töku blóðsýnis og rannsókna blóð- og þvagsýnis 103.166 krónur, ferðakostnaður vitnis 13.200 krónur og 511.500 króna málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl., að virðisaukaskatti meðtöldum, og 37.620 króna ferðakostnað verjanda.
Margrét Harpa Garðarsdóttir, fulltrúi lögreglustjórans á Suðurlandi, flutti
málið af hálfu ákæruvaldsins.
Dóm þennan kveða upp Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari og dómsformaður og héraðsdómararnir Ragnheiður Harðardóttir og Sigurður G. Gíslason.
D ó m s o r ð
Ákærði, Þórir Jónsson, sæti fangelsi í 30 daga.
Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt frá birtingu dóms þessa að telja.
Ákærði greiði allan sakarkostnað samtals 665.486 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl., 511.500 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og ferðakostnað verjanda, 37.620 krónur.